8.4.2012 | 17:00
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Einn alfastasti liðurinn af öllum föstum liðum á þessari síðu eru Esjumyndirnar sem teknar hafa verið fyrstu vikuna í apríl þegar skyggni leyfir. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar sjö talsins.
Það hefur ekki sést mikið til Esjunnar síðustu daga en sem betur fer gufuðu skýin upp þann 2. apríl og var sá dagur því sjálfkjörinn til myndatöku þetta árið. Tilgangur myndanna er aðallega sá að bera saman snjóalög í Esju undir lok vetrar og læt ég fylgja með hverri mynd hvenær ég tel að síðasti skaflinn hafi horfið.
Í ár er Esjan nokkuð stórflekkótt eftir allnokkur hlýindi undanfarið en vegna mikilla snjóalaga fyrr í vetur sitja nú eftir töluverðir skaflar sem gætu enst langt fram á sumar og alls ekki víst að síðustu skaflar nái að hverfa fyrir haustið.
Í fyrra gerðist það í fyrsta skipti á þessari öld að Esjan náði ekki að hreinsa af sér síðasta smáskaflinn í Gunnlaugssakarði. Þar með varð endi bundinn á lengsta tímabil sem þekkt er þar sem Esjan nær að verða snjólaus. Það er reyndar mögulegt að síðasti skaflinn hafi bráðnað undir skýjaþykkni seinni hlutann í október en er samt ólíklegt, allavega sást sást snjólaus Esja aldrei frá Reykjavík. Vorið í fyrra var líka frekar kalsasamt og það snjóaði í Esjuna lengi fram eftir vori og varð hún meira að segja alhvít að morgni 10. júní. Annars hefur verið mjög misjafnt hvenær síðasti skaflinn hefur horfið, á því hlýja ári 2010 gerðist það t.d. óvenju snemma, eða um miðjan júlí, eins og má sjá hér að neðan.
- - -
Sem bónus þá læt ég hér fylgja uppstækkaðan hluta myndar úr hinni óviðjafnanlegu myndaseríu 365 Reykjavík (www.365reykjavik.is) sem ég tók í fyrra. Þarna sést glitta í skaflinn sem þraukaði yfir sumarið, en myndin er frá 24. september 2011. Einnig er á Veðurstofuvefnum grein (sjá hér) um þennan síðasta skafl en þar kemur fram að skaflinn hafi enn verið til staðar þann 15. október undir snjóföl.
1.4.2012 | 00:53
Vetrarhitasúlur
Nú þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki ætla ég að bjóða upp súlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla sýnir dæmigerðan hita hvers dags. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir.
Svo farið sé aðeins yfir þetta þá sést vel hversu hlýtt var í nóvember enda mánuðurinn lengst af framarlega í samkeppninni um hlýjustu nóvembermánuði. Það kólnaði þó mjög í lok nánaðarins og þá sérstaklega síðasta daginn þegar frostið fór niður úr öllu valdi en þá byrjaði einmitt kuldakastið sem mörgum þótti svo óskaplegt. Sjálft kuldakastið stóð yfir í 10 daga og kaldasta daginn, þann 9. desember, skrái ég 8 stiga frost. Mest fór frostið niður í 11,7 stig á Veðurstofumælinum um kvöldið eða nóttina eftir og var það mesta frost vetrarins eftir því sem ég kemst næst. Það telst reyndar ekkert óvenjulegt sem mesta frost vetrarins.
Það sem eftir lifði desember og lengst af í janúar var hitinn ekki fjarri meðallagi og án mikilla öfga en vegna kuldakastsins var þessi desember sá kaldasti síðan 1981 og auðvitað alveg óvenju snjóþungur. Febrúar var mjög hlýr miðað við það sem venjan er enda bara tveir frostdagar. Sama má segja um nýliðinn marsmánuð sem státar af miklum hlýindum síðustu 10 dagana.
Í heildina má segja að veturinn hafi staðið undir nafni frá lokum nóvember til síðustu vikunnar í janúar, en í báða enda var veturinn mjög hlýr hér í Reykjavík. Enn mun þó eitthvað framboð vera af köldu lofti norðurundan sem gæti gert atlögu að okkur enda veturinn ekki alveg búinn.
Til frekari samanburðar þá eru sambærileg súlurit fyrir tvo síðustu vetur í myndaalbúminu Veðurgrafík, hér til vinstri á síðunni.
- - - - -
Læt hér svo fylgja mynd sem ég tók úr vinnunni þann 14. nóvember þegar hitabylgja mánaðarins var í hámarki. Óvenjuleg birta var þann dag þegar dimmt ský lagðist yfir borgina sem skammdegissólin skein undir í austsuðaustanátt og 11 stiga hita.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2012 | 15:27
Um hæstu fjöll Norðurlanda
Það er auðvitað alveg bráðnauðsynlegt að hafa á hreinu hvaða fjall er hæst í hverju landi og ekki síður hvort það fjall sé hærra en hæsta fjallið í næsta landi. Yfirleitt er slíkur samanburður ekki erfiður eins og til dæmis þegar kemur að hæsta fjalli á Norðurlöndunum sem er óumdeilanlega í Noregi. Ja
nema Grænland sé talið með Norðurlöndum þótt það sé í Ameríku. Málið vandast þegar kemur að samanburði á hæsta fjalli Íslands og hæsta fjalli Svíþjóðar, Kebnekaise, en það fjall hefur einmitt verið í fréttunum vegna flugvélar sem flogið var á það. Samanburður á hátindum Norðurlanda kemur hér:Noregur. Hæsta fjall Noregs og þar með Norðurlanda, ef við teljum Grænland ekki með, er Galdhöpiggen, 2.469 metrar. Fjallið er í miðju Jötunheimahálendinu þar sem norsku fjöllin er hæst og mest. Næst hæsta fjallið er Glittertind sem einu sinni var talið það hæsta, en vegna snjóbráðnunar hefur það lækkað dálítið og er nú talið 2.464 metrar. Hlýnandi loftslag mun þó ekki breyta neinu fyrir Galdhöpiggen því hæsti tindur þess stendur bjargfastur upp úr jökli.
Ísland. Eins og við vitum þá er Hvannadalshnúkur hæsti tindur Íslands. Talan 2.119 metrar hefur ætíð verið greypt í huga okkar sem lukum skólagöngu á síðustu öld. En svo var farið að mæla með nýjustu tækni og ný hæð tilkynnt með viðhöfn: 2.110 metrar (nákvæm mæling 2.109,6). Hnjúkurinn hafði því skroppið saman um 9 metra og það sem verra var, hæðin komin niður fyrir hæsta fjall Svíþjóðar. Þarna var ekki bara um að kenna nýjum mæliaðferðum því toppur Hvannadalshnúks er ístoppur og þar með breytilegur á hæð en fer lækkandi til lengri tíma litið nema loftslag fari kólnandi á ný. Væntanlega er þó ekki langt niður á fast og ekki ástæða til að óttast að hann lækki niður úr öllu valdi.Svíþjóð. Hæsta fjallið, Kebnekaise er í norðurhluta Svíþjóðar nálægt landamærunum við Noreg. Það er yfirleitt sagt vera 2.111 metrar á hæð og þar með 1 metra hærra en Hvannadalshnúkur. En nú er það svo að toppur Kebnekaise er einnig gerður af ís sem þýðir að hæðin er ekki endanleg. Og viti menn, eftir endurmælingu kemur í ljós að vegna hlýnunnar og minnkandi snjóalaga er hæð fjallsins ekki nema 2.106 metrar þannig að Hvannadalshnúkur hefur aftur vinninginn.
Finnland er frægara fyrir ótal vötn frekar en ótal fjöll, en þau eru varla að finna nema allra nyrst. Landamæri Noregs og Finnlands liggja þannig að mjór angi sem tilheyrir Finnlandi teygir sig til norðvesturs inn í norska fjallgarðinn en þar er einmitt hæsta fjall Finnlands. Nefnist það Halti og er 1.365 metrar. Reyndar er þessi hæsti punktur fjallsins Noregsmegin við landamærin en hæsti punktur fjallsins sem tilheyrir Finnlandi er nokkru lægri eða 1.324 metrar sem er því opinberlega hæsti punktur Finnlands.
Færeyjar eru mjög hálendar og þar eru fjöll eins og há og plássið leyfir. Það hæsta er Slættartindur á Norðurhluta Austureyjar 882 metrar og er hæðin því í stíl við Esjuna en líkist meir Skarðsheiði í útliti með sínum hvassa tindi. Meira hef ég ekki um málið að segja.
Danmörk á engin fjöll en þar eru þó ýmsar hæðir sem bungast upp yfir 100 metrana. Mjög litlu munar á allra hæstu hæðunum á Jótlandi suður af Himmelbjerget. Hæsti náttúrulegi punktur landsins samkvæmt nýjustu og nákvæmustu mælingum er nú talinn vera Møllehøj, 170,86 metrar, sem liggur rétt við Ejer Bavnehøj 170,35 metrar. Yding Skovhöj er á sömu slóðum og er aðeins hærri eða 172,54 metrar ef talin er forn víkingahaugur sem þar er. Um þetta fjallaði ég nýlega í sérstökum pistli: Um hæstu hæðir Danmerkur.
Grænland. Það er eiginlega ekki hægt annað en að minnast á okkar næsta nágranna enda eru hæstu fjöll Grænlands alvöru fjöll. Gunnbjarnarfjall nefnist það hæsta og er 3.694 metrar á hæð (3.700 metrar skv. eldri mælingum). Það er eiginlega í næsta nágrenni við Ísland, eða beint norðvestur af Hornbjargi. Toppur Gunnbjarnarfjalls rís upp úr jökli við austurströndina og er um leið hæsti tindur norðan heimskautsbaugs og er nefnt eftir Gunnbirni Úlfssyni sem fyrstur norrænna manna villtist til Grænlands. Þetta svæði á Grænlandi er jarðfræðilega skylt Íslandi því þarna eru fjöllin gerð úr basalthraunlögum eins og á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi og einnig Færeyjum, enda tengist þetta allt heita reitnum okkar og opnun Atlantshafsins á sínum tíma.
Hin mikla ísbreiða Grænlands er að meðaltali í um 2.100 metra hæð. Hæsta bunga jökulsins hefur hinsvegar mælst 3.290 metrar en sú tala er auðvitað breytingum háð. Það er ansi langt niður á fast á Grænlandsjökli því þykkt jökulsins er á við hæðina sem þýðir að láglendissvæði eða jafnvel innhaf yrði eftir ef jökullinn færi. Slíkt er ekkert að fara að gerast á næstunni og hefur ekki gerst í hundruð þúsundir ára að minnsta kosti.
Líkur hér umfjöllun um fjöll að þessu sinni.
- - - -
Heimildir eru aðallega af Wíkipedíunni.
Ljósmyndina af Öræfajökli tók ég nálægt Krikjubæjarklaustri í ágúst 2006
Vísindi og fræði | Breytt 3.7.2012 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2012 | 19:45
Heimsóknafjöldi úr böndunum
Þetta er dálítið sjálfhverfur pistill að þessu sinni. En nú eftir 462 bloggfærslur frá því í september 2007 hef ég loksins náð þeim áfanga að gestafjöldinn er kominn yfir 100 þúsund. Þetta eru nú svo sem engin ósköp því margir hafa náð þessari tölu á mun skemmri tíma og sumir löngu komnir yfir milljónina. Reyndar átti ég ekki von á að ná hundraðasta þúsundinu fyrr en eftir næstu mánaðarmót og var ætlunin að skrifa einhvern háfleygan pistil þegar að því kæmi.
Síðasta miðvikudag, þann 21. mars gerðust hinsvegar þau ósköp að heimsóknafjöldinn á bloggsíðu mína fór algerlega úr böndunum af óútskýrðum ástæðum eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti og heimsóknatölfræði. Þennan dag var þó ekkert nýtt og krassandi efni á síðunni og átti ég því engan veginn von á yfir 750 gestum svona upp úr þurru. Þetta er líka það langmesta sem ég hef séð á einu degi. Annað merkilegt við þennan gestagang var að heimsóknir virtust nánast allar hafa komið frá sömu IP-tölunni, sem gæti reyndar þýtt að þetta hafi bara verið kerfisvilla. Eða þá að bloggsíðan hafi fengið einhverja heilmikla fjöldadreifingu á miðlægu tölvukerfi sem notar eina IP-tölu. Ég þekki þetta þó ekki vel. Heimsóknum fór svo að linna um kvöldið og voru komnar í eðlilegt horf fyrir miðnætti.
En nú er ég orðinn 100 þúsund kall og það heldur fyrr en ég átti von á. Bloggskrifin hafa undanfarið verið í þeim fasa að ég skrifa einn pistil á viku en ekki tvo eins og löngum áður. Pistlarnir eru iðulega óháðir málefnum líðandi stundar og ekki tengdir fréttum. En þetta er bara aukapistill vikulegi pistillinn er langt kominn og mun fjalla um . . .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2012 | 20:38
STÓRSTJÖRNUR Á SUÐURHIMNI
Það hafa ekki gefist mörg tækifæri að undanförnu til að dást almennilega að stjörnuhimninum hér í Reykjavík. Föstudagskvöldið 4. mars brá hinsvegar svo við að stjörnur himins skinu sínu skærasta í bland við norðurljósin eins og þær stefna í að gera kvöldið þegar þetta er ritað.
Uppröðun fastastjarnanna utan sólkerfisins má segja að sé algerlega kaótískt nema hvað þéttleikinn eykst dálítið eftir því sem við horfum meira í plani við vetrarbrautina en ekki þversum út úr henni. Af hreinni tilviljun getur kaótísk uppröðun þó stöku sinnum myndað eitthvað sem er nokkuð reglulegt og beint. Það getur til dæmis átt við nokkrar stjörnur sem tilheyra Óríon-merkinu sem er á suðurhimni frá Íslandi séð og sést á ljósmyndinni sem ég tók áðurefnt föstudagskvöld. En það er ekki bara uppröðunin sem er athyglisverð því stjörnurnar þarna eru aldeilis ekki bara einhver smástirni. Nánar um það hér að neðan þar sem ég hef soðið saman upplýsingum úr ýmsum áttum.
Stjörnurnar sem raða sér svo smekklega þrjár saman í röð hafa verið nefndar Fjósakonurnar á Íslensku. Þær eru miðhluti stjörnumerkisins Óríón eða Veiðimannsins og marka beltið um hann miðjan. Þetta stjörnumerki hefur frá fornu fari verið eitt aðalmerkið á himni enda staðsett nálægt miðbaug og sést því á báðum jarðarhvelum. Þessar þrjár stjörnur eru allar feiknastórar og fjarlægar. Sú í miðjunni er þeirra svakalegust og nefnist Alnilam. Hún er í 1340 ljósára fjarlægð og birtumagnið er 375 þúsund meira en okkar sólar takk fyrir. Hinar tvær eru Alnitak í 800 ljósára fjarlægð og fjölstirnið Mintaka í um 915 ljósára fjarlægð. Tvær stjörnur Betelgás og Rígel gera stjörnumerkið mjög auðþekkjanlegt enda liggja þær þvert á Fjósakonurnar (eða Óríonbeltið) og nokkurn vegin jafn langt frá því frá okkur séð. Báðar eru þær miklar að vöxtum og flokkast sem reginrisar eins og beltisstjörnurnar en eru heldur nálægari og meðal skærustu stjarna himinsins.
Betelgás er sú efri og markar hægri öxl veiðimannsins (eða þá vinstri frá okkur séð). Stjarnan er risastór og orðin rauð af elli enda má búast við að hún endi sína lífdaga þá og þegar með mikilli súpernóvu-sprengingu. Hún gæti raunar þegar verið sprungin án þess að vitum af en þó er kannski líklegra að milljónir ára sé í þann atburð. Ljósmagnið af þeirri sprengingu gæti verið álíka fyrir okkur og birta tunglsins og stæði atburðurinn yfir í nokkur ár. Stærð og fjarlægð stjörnunar virðist eitthvað á reiki en 400-650 ljósár eru gjarnan nefnd. Stærðin ræðst af fjarlægðinni sem er óviss en ef Betelgás væri í miðju sólkerfisins næði hún samt örugglega út fyrir sporbaug Jarðar og jafnvel Mars. Meira að segja hefur verið nefnt að hún gæti náð allt að sporbaug Júpiters. Já já, þannig er nú það.
Rígel er bjartasta stjarna stjörnumerkisins og það 5. bjartasta á stjörnuhimninum öllum. Hér er enn einn risastjarnan á ferð þótt hún jafnist ekki á við Betelgás í stærð. Rígel markar vinstra hné veiðimannsins og er blár risi en það þýðir að hún enn á unglingsaldri og á framtíðina fyrir sér. Fjarlægðin er um 860 ljósár og skín hún 50-60 þúsund sinnum skærar en sólin á sýnilega ljóssviðinu og næði út fyrir braut Merkúrs.
Sverð Óríons er hópur stjarna og stjörnuþoka sem liggur neðan við beltið. Þarna má finna Sverðþokuna frægu M42 sem er sýnileg með berum augum og einnig Riddaraþokuna með sitt hestshöfuð.
Fleiri stórstjörnur mætti nefna eins og Bellatrix - vinstri öxlin og Saiph - hægri fótur veiðimannsins.
Síríus er ekki hluti af Óríón-merkinu en það er sjálfsagt að nefna hana líka því hún er auðfundinn með því að framlengja línu niður til vinstri frá Fjósakonunum, þ.e. þegar hún sést á annað borð. Síríus er bjartasta fastastjarnan á gjörvöllum stjörnuhimninum en hún tilheyrir í raun suðurhveli og sést því hér aldrei nema lágt á lofti í suðri. Síríus er stundum kölluð hundastjarnan en sú nafngift er ævaforn og hefur ekkert með hann Jörund að gera, annað en að hann ríkti á hundadögum þeim sem hefjast ár hver þegar Grikkir sjá Síríus koma upp seint í júlí. Hér á landi sést Síríus hinsvegar ekki nema um vetrartímann. Síríus er heldur stærri en sólin en alls enginn stórstjarna eins og aðrar sem ég hef nefnt. Hin mikla birta stjörnunar skýrist af nálægðinni, en fjarlægðin er ekki nema um 8,6 ljósár frá jörðu eða bara helmingi fjær nálægustu fastastjörnunum Proxima Century og Alfa Century A og B.
- - - -
Það má auðvitað endalaust skrifa um stjörnur enda eru þær endalaust margar. Stjörnufræðivefurinn sinnir því ágætlega og þekkja til mála mun betur en ég, enda fæ ég sumar upplýsingar þaðan ásamt af Vísindavefnum. Stundum er eitthvað misræmi þegar kemur að tölum en hvað sem er rétt þá fæ ég flestar tölur sem ég nefni héðan: http://www.bitacoradegalileo.com/en/2011/07/19/orion-the-cathedral-of-the-sky/
Vísindi og fræði | Breytt 22.3.2012 kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2012 | 14:25
Útsynningur á gervitunglamynd
Ég get ekki stillt mig um að birta þessa gervitunglamynd frá því í gær 8. mars sem sýnir éljaloftið sem streymir hingað frá köldu svæðunum í vestri. Ísland er til hægri á myndinni, að mestu í skýjaþykkni, en vel sést í suðurhluta Grænlands. Ískalt heimskautaloftið blæs suður frá ísjaðrinum vestan Grænlands og síðan í fallegum boga suður fyrir og dreifir úr sér og berst með suðvestanáttinni hingað. Það má líka greina lægðarmiðju í éljaloftinu milli Íslands og Grænlands sem á sína sök á þessu öllu saman. Það má vel ímynda sér að mikill vindstrengur sé við suðurodda Grænlands sem éljaböndin raða sér eftir. Vindurinn sem blæs frá ísbrúninni af miklum móð þarna vestanmegin hlýtur að auka útbreiðslu íssins vestan Grænlands auk þess sem nýmyndum íss hlýtur að vera talsverð.
Éljaloftið myndast þarna eins og endranær þegar kalda loftið berst yfir hlýrri sjó, þannig að neðstu loftlögin hitna og loftið gerist æði óstöðugt. Fer ekki nánar út í svoleiðis en bloggveðurfræðingarnir okkar, þeir Einar og Trausti eru báðir með mjög svo fræðilega pistla um ástand mála.
Myndin er skjáskot af vefsíðu NASA - Arctic Mosaic. Þetta er hluti stórrar myndar af Norður-Heimskautasvæðunum sem uppfærist smám saman á hverjum degi.
Slóðin er: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic
Veður | Breytt 14.3.2012 kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2012 | 20:15
Hásæti Satans í Berlín
Um daginn var sýndur tónleikaþáttur með þungarokkshljómveitinni Iron Maiden í Sjónvarpinu. Þegar sveitin hafði tekið sitt þekktasta númer, 666 - the Number of the beast fannst mér komið gott að sinni, enda enginn sérstakur þungarokksaðdáandi. Eftir smá flakk á milli stöðva staðnæmdist ég við ansi athyglisverðan, en þó mjög undarlegan fræðsluþátt á Ómega sem ég hef eitthvað séð af áður á sömu stöð en þar er fjallað um þau myrkraöfl sem óðum eru að ná tökum á Evrópu með ófyrirséðum afleiðingum. Já það var eiginlega bara gefið í skyn að Satan sjálfur væri að leggja undir sig álfuna án þess að íbúarnir áttuðu sig á alvarleika málsins og lýsti sér meðal annars í gyðingahatri Evrópubúa ásamt undirgefni gagnvart múslimum.Það er erfitt að rekja í stuttu máli allt það sem kom fram í þættinum en það má reyna. Fyrst skal nefna hina nýju táknmynd Evrópu sem sýnir Evrópumærina ríðandi á bola. Sú táknmynd kemur meðal annars fram í evrupeningum sumra landa og ekki síst sem skúlptúrverk fyrir framan einhverja af byggingum Evrópusambandsins í Brussel. Þarna er vísað í fornar sagnir um Gríska himnaguðinn Seif sem brá sér gervi bola, narraði Evrópu á bak sér, hljóp með hana út á haf og nauðgaði henni áður en hann afhúpaði hver hann væri í raun. Átti svo með henni þrjú börn.
Pergamon-altarið
Hið alvarlegasta af öllu alvarlegu er, samkvæmt því sem fram kom í þættinum á Omega, hið alræmda Pergamon altari sem staðsett er í samnefndu safni í Berlín. Þetta er talsvert mannvirki sem Hellenar reistu á vesturhluta Tyrklands á 2. öld fyrir Krist, sennilega til heiðurs guðunum og þá ekki síst Seifi sjálfum, höfuðguði Grikkja.
Samkvæmt sjónvarpsþættinum er tengsl þessa mannvirkis við myrkraöflin alveg ljós útfrá því sem fram kemur í Opinberunarbók Jóhannesar: Engli safnaðarins í Pergamos skaltu rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og beitta: Ég veit að þú býrð þar sem hásæti Satans er.
Pergamon hefur ekki verið talinn góður staður fyrir gyðinga og með krókaleiðum er hægt að finna út að Seifur er í raun sá sem múslimar tilbiðja í raun og veru, eða tunglguðinn. Þessi tunglguð er Satan sjálfur sem hefur bæði horn og klaufir eins og við vitum. Hornin hafa sama form og mánasigðin sem er einmitt tákn múslima.
Seint á 19. öld hóf Þýskur fornleifafræðingur rannsóknir á rústum þessa altaris og fór svo að það var flutt til Þýskalands stein fyrir stein og endurbyggt. Fyrst árið 1901 og síðar í nýju safni sem opnaði í Berlín árið 1930. Ekki þarf að spyrja að afleiðingunum því upp úr því hófst uppgangur Nasismans í Þýskalandi með öllu því sem því fylgdi. Hitler hélt mikið upp á musterið og notaði það sem fyrirmynd af sínum eigin hástalli í Nurnberg þar sem hann hélt miklar vakningarsamkomur. Í stríðinu var Pergmaon altarið tekið niður og varið en það féll síðan í hendur Rússa við fall Berlínar. Það var endurreist í Leningrad með öllum þeim illu öflum sem því fylgir en var svo flutt aftur til Austur-Berlínar upp úr 1958.
Íbúar Vestur-Evrópu voru ósnortnir af hinum illu öflum altarisins fram að falli Berlínarmúrsins. Nú hefur Berlín verið endurvakin sem höfuðborg Þýskalands á sama tíma og Þjóðverjar eru á ný orðnir öflugasta ríki Evrópu. Ekki þarf að spyrja að því hverja Evrópumenn styðja í heilögu stríði Ísraelsmanna við hina alræmdu Palestínumenn. Á sama tíma fara áhrif múslima vaxandi í Evrópu og styttist í allsherjar yfirtöku þeirra í Evrópu. Allt þetta mátti fræðast um í þættinum The Rape of Europe, sem virðist öðru hvoru vera á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Omega.
- - - -
Já það er vandlifað í henni veröld og við sem teljumst til hinna hófsömu í skoðunum, eigum stundum undir högg að sækja. Öfgahyggja tilheyrir ekki bara fortíðinni, hún kemur úr ýmsum áttum og hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta.
Létt lag hér í lokin:
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2012 | 11:53
Um hæstu hæðir Danmerkur
Þótt Danmörk sé fræg fyrir sitt fjallaleysi er ekki hægt að segja að landið sé marflatt enda einkennist það víða af ávölum hæðum. Eins og í öðrum löndum þá vilja menn vita fyrir víst hver sé hæsti punktur landsins, jafnvel þótt hæð þess hæsta punkts þætti ekki frásögum færandi víðsvegar annarstaðar. Það hefur verið dálítið á reiki hvaða hæð sé sú hæsta í Danmörku og heimildum ber ekki alveg saman. En eftir að hafa lagst í dálitla rannóknarbloggmennsku þá hef ég komist að hinu sanna í málinu.Þekktasta hæðin hefur löngum verið Himmelbjerget (147 m.) á Jótlandi og standa sumir í þeirri meiningu að það sé hæsta fjall Danmerkur. Nafnið Himmelbjerget þykir okkur Íslendingum frekar spaugilegt enda virkar það sem öfugnefni og hlýtur að skýra frægð hæðarinnar að hluta. Þetta er þó alls ekki hæsta hæð Danmerkur en vissulega í hópi þeirra hæstu. Himmelbjerget er reyndar hin reisulegasta hæð á Danskan mælikvarða og var talin hæsti punktur landsins fram til ársins 1847 þegar nánari mælingar sýndu annað. Sjálfsagt hefur sú landmæling valdið einhverjum vonbrigðum en breytti því þó ekki að þarna reis 25 metra hár útsýnisturn til heiðurs Friðriki VII fyrir að færa landsmönnum stjórnarskrá árið 1849.
Hinar raunverulegu hæstu hæðir Danmerkur eru hinsvegar ekki langt undan því um um 10-15 kílómetrum suðaustur af Himmelbjerget liggur landið heldur hærra þótt ekki sé um að ræða tilkomumikil björg sem takmarka útsýn til himins. Frekar mætti tala um einskonar hálendi sem bungast mishátt upp á við. Tvær hæðir þarna eru þekktastar og hafa báðar gert tilkall til titilsins hæsti punktur Danmerkur: Yding Skovhøj og Ejer Baunehøj. Til að komast endanlega að því hvor þeirra er hærri var árið 2005 ráðist í nákvæmar mælingar á svæðinu í heild þar sem sentimetrar skáru úr um niðurstöðu.
Yding Skovhøj er eins og nafnið bendir til skógi vaxin hæð og mældist hæsti náttúrulegi punkturinn þar vera 170,77 metrar. Sé hinsvegar forn víkingahaugur ofan á hæðinni tekinn með í reikninginn er hæðin 172,54 metrar. Sá haugur er í rauninni það samgróinn náttúrunni að vel mætti telja hann hluta af hæðinni og sé svo, er þetta hæsta hæð Danmerkur eins og sumstaðar kemur fram. Eðlilega vilja menn þó vera strangir á skilgreiningunni, hæsti náttúrulegi punktur landsins.
Ejer Baunehøj (eða Bavnehøj) er um tvo kílómetra frá Yding Skovhoj og var lengi talinn hæsti náttúrulegi punktur Danmerkur 171m. Nýju mælingarnar segja hæðina hinsvegar vera 170,35 m og er hún því óumdeilanlega lægri en Yding Skovhoj. Árið 1920 var 13 metra hár turn reistur á þarna og með honum er hæðin samtals 183 metrar sem telst auðvitað ekki gilt.
Møllehøj. Með hinum nýju nákvæmu mælingum árið 2005 kom hið sanna í ljós sem er að hæsti náttúrulegi punktur í Danmörku er rétt um 200 metrum frá Ejer Baunehøj. Sú hæð er kölluð Møllehøj og mælist 170,86 metrar eða 9 sentímetrum hærri en Yding Skovhøj er frá náttúrunnar hendi. Hvort þetta er sjálfstæð hæð eða ekki er matsatriði, en samkvæmt nýjustu yfirlitum þá er þetta heitið á hæstu hæð Danmerkur. Møllehøj lætur ekki mikið yfir sér frekar en aðrar mishæðir á þessum slóðum. Þarna var mylla áður og til minjar um hana stendur gamli myllusteinninn stoltur og getur verið það eftir þá stöðuhækkun að marka hæsta punkt landsins.
Á kortinu má sjá aðalhluta þess svæðis sem kalla mætti Danska hálendið og er það greinilega heldur grænna en það Íslenska. Hæstu punkta landsins er þarna að finna eins og ég hef merkt inn.
Til samanburðar má nefna að samkvæmt lauslegri athugun minni ná hæstu byggðir á höfuðborgarsvæðinu okkar upp í rúmlega 100 metra hæð. Í næsta nágrenni við byggðina er Vífilstaðahlíð 152 m. og Vatnsendahæð 153 m. Skammt þaðan er hæð á landamörkum Garðabæjar og Kópavogs er nefnist Arnarbæli og er hún 174 metrar.
18.2.2012 | 20:48
Um örnefni á skögum og jöklum
Örnefni eiga sér mislanga sögu. Sum þeirra eru jafn gömul byggðinni í landinu á meðan önnur eru nýtilkomin. Eins og orðið örnefni vísar til þá snúast örnefni oft um heiti á hinum smærri einingum í landslagi enda var og er nauðsynlegt að kalla hlutina einhverju lýsandi nafni svo menn fari ekki villu vegar og ekki síður til að ljóst væri hver ætti hvað. Firðir og fjöll fengu að sjálfsögðu líka sína nöfn en þegar kom að hinum stærri þáttum í landslagi svo sem stórum skögum, kjálkum og jöklum virðast örnefni ekki alltaf eiga sér langa sögu og eru jafnvel ekki til. Lítið var um landakort í gamla daga, hvað þá loftljósmyndir eða gervitunglamyndir og því eðlilegt að menn hafi ekki mikið pælt í hinum stærri einingum þegar kom að nafngiftum.
Stóru skagarnir fyrir norðan
Á hinu eina sanna norðurlandi eru þrír meginskagar. Sá vestasti er sá eini sem hefur heitið eitthvað í gegnum tíðina og ber einfaldlega nafnið Skagi sem fjörðurinn þar fyrir austan er nefndur eftir. Heitið Tröllaskagi er hins vegar nýtilkomið því lengst af var hann nafnlaus. Þar hefur mönnum kannski fundist alveg nóg að vera annað hvort staddir í Eyjafirði eða Skagafirði, en þar á milli var bara eitthvert ógurlegt fjalllendi með mörgum djúpum nafnkenndum dölum og fjallsrönum. Austasti skaginn á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur hinsvegar varla fengið nafn en það mun þó verið að vinna í því og tillögur komnar fram en gallinn er bara sá að Eyfirðingar vilja ekki kenna hann við örnefni Skjálfandamegin, og Skjálfandamenn vilja ekki kenna hann við Eyfirskt örnefni. Það segir sína sögu eins og ég kem að hér síðar. Mestar líkur eru á því skaginn verði nefndur Flateyjarskagi sem Eyfirðingar eru lítt hrifnir af og hafa haldið á lofti heitinu Gjögurskagi.
Vatnajökull
Nafnasaga þessa mikla jökuls virðist vera talsvert snúin og ýmsar skýringar til. Fyrsta Íslandskortið sem sýndi Vatnajökul sem alvöru jökul var teiknað árið 1794 af Sveini Pálssyni lækni og náttúrufræðingi þeim er kleif Öræfajökul fyrstur manna. Á korti hans voru tvö nöfn látin gilda fyrir jökulinn og hann merktur sem Klofa- eða Vatnajökull. Ekki veit ég hvort heitið er eldra en allavega virðast fleiri en ein skýring á þeim báðum. Klofajökulsnafnið hefur stundum verið túlkað sem svo að jökullinn hafi áður fyrr verið klofin í tvennt að sumu eða öllu leyti enda vitað að Norðlendingar og Austfirðingar stunduðu ferðir suður yfir jökulinn. En þótt vitað sé að jökullinn hafi verið umtalsvert minni en í dag þá er samt varasamt að líta svo á að Klofajökulsnafnið sé lýsandi fyrir heildina og að jökullinn hafi beinlínis verið klofinn. En hvað sögðu menn á 18. öld:
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna 1772 má lesa þetta um Klofajökul: Klofajökull er nafn á tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár, Skjálfandafljót, Jökulsá í Axarfirði og Jökulsá í Múlasýslu. Þarna virðist átt við skarð í jökulinn að norðanverðu sem virðist hafa verið nógu vítt til að geta af sér þessar þrjár stóru jökulár sem í dag eiga upptök sín á þremur aðskildum stöðum við jökulbrúnina. Klofajökull gæti því hafa verið notað um Vatnajökul að norðanverðu en ekki endilega jökulinn í heild. Kannski vísar nafnið í kverkina sem Kverkfjöll eru kennd við nema skýringin sé sú að Kverkfjöllin beinlínis kljúfa jökulinn að norðanverðu séð.
Sveinn Pálsson ritaði hinsvegar árið 1794:
heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmarga fjallgarða, er skerast upp í hann. Hann er einnig nefndur Vatnajökull vegna hinna hart nær óteljandi elfa, sem eiga upptök sín í honum Ég get ekki séð að Sveinn sé endilega á sama máli og Eggert og Bjarni varðandi Klofajökul því hinir allmörgu fjallgarðar sem skerast inn í hann er nefnilega ágætis lýsing á sunnanverðum jöklinum. Hinar óteljandi elfur sem eiga upptök sín í honum er einnig nothæf skýring á nafninu Vatnajökull að sunnanverðu þar sem jökulárnar hafa lengi flæmst um hina sístækkandi sanda.
Hvað er rétt í þessu er ómögulegt að segja til um en sjálfum finnst mér ekki ólíklegt að Klofajökull hafi verið lýsandi heiti á jöklinum að norðanverðu en Vatnajökull að sunnanverðu og hafi þessi tvö heiti því getað verið notuð samtímis eftir því hvaðan var horft. Önnur skýring á Vatnajökulsnafninu vísar til Grímsvatna enda virðist hann stundum hafa verið nefndur Grímsvatnajökull. En hvort menn hafi þekkt nógu vel til Grímsvatna til að nefna jökulinn eftir þeim veit ég ekki en hitt er víst að menn hafa þekkt hlaupin miklu sem þaðan komu. Heitið Grímsvatnajökull þarf þó ekki að hafa verið notað um jökulinn í heild frekar en önnur nöfn á þessu jökulflæmi. Það giltir því kannski það sama með jökulinn og Tröllaskaga á sínum tíma að menn gáfu landinu nöfn í samræmi við það sem menn bjuggu við á hverjum stað án þess að hafa yfirsýn á heildina.
- - - - -
Tilvitnanir eru fengnar úr bókinn Íslenskir jöklar, eftir Helga Björnsson.
Vísindi og fræði | Breytt 23.2.2012 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2012 | 12:08
Óvenju kalt í Evrópu - óvenju hlýtt í Norðurhöfum
Það er gjarnan þannig að þegar kólnar mikið á einum stað þá hlýnar á öðrum. Hæðin mikla sem sem kom sér fyrir í Evrópu á dögunum er óþægilega staðsett fyrir flesta Evrópubúa þar sem hún dælir Síberísku vetrarlofti yfir álfuna. Þessi kuldalega staða veðrakerfana er vel þekkt og íbúar álfunnar vita af Síberíukuldanum sem alltaf býður eftir tækifæri til vestursóknar.
Á sama tíma, hinu megin við hæðina, er allt aðra sögu segja að segja enda snýst vindur réttsælis í kringum hæðir. Sunnanáttirnar hafa verið eindregnar milli Íslands og meginlandsins og náð lengst norður í höf með óvenju miklum hlýindum. Á Longerbyen á Svalbarða mældist t.d. fyrir stuttu, hæsti hiti sem mælst hefur á eyjunum í febrúar, ein 7 stig.
Annars eru það hafískortin sem eru einna athyglisverðust í dag. Eins og sjá má kortinu hér vinstra megin þá er engan hafís að finna í Barentshafinu og íslaust svæði teygir sig austur fyrir Rússnesku eyjarnar Novaya Zemlya sem hlýtur að vera mjög óvenjulegt. Mjög lítill ís er einnig við Svalbarða og er norðurströndin þar íslaus, en íslaust svæði teygir langleiðina til smáeyjaklasans, Franz Josefslands. Það má því segja að það sé sumarástand á hafísútbreiðslunni þarna. Það er þó enn vetur og nóg eftir af honum á norðurslóðum. Ástandið getur auðveldlega breyst og mun örugglega gera það fyrr en varir. Þessi mikli skammtur af hlýindum þarna norðurfrá hlýtur þó að hafa sín áhrif á framhaldið og getur haft sitt að segja þegar kemur að sumarbráðnunnni.
- - - -
Hafískortið sem er hluti af mynd frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni (NSIDC), sýnir hafísútbreiðsluna þann 10. febrúar 2012, miðað við meðallag áranna 1979-2000.
Veðurkortið er af Wetterzentralnum og er einnig hluti af stærri mynd sem sýnir hita í 2ja metra hæð 11. febrúar, samkvæmt spá.
9.2.2012 | 20:55
Veðurbókarhiti í Reykjavík
Undanfarið hafa veður- og loftslagspekingar hér á blogginu rætt um meðalhitann í Reykjavík og vafasamar leiðréttingar sem gerðar hafa verið á honum af erlendum aðilum. Ég ætla ekki að velta mér upp því máli, en ætla þó að líta í eigin barm því sjálfur hef haldið uppi mínum eigin veðurskráningum frá árinum 1986. Þær athuganir eru aðallega ætlaðar mér sjálfum og hafa væntanlega ekki mikil áhrif á þær tölur sem notaðar eru til að túlka þróun hitafars á hnattræna vísu. Þessi bloggfærsla á því kannski ekki mikið erindi við aðra en sjálfan mig en tilgangurinn færslunnar er annars sá að athuga hvernig mínar skráningar standa sig við hlið hinna opinberu talna frá Veðurstofunni.
Þegar ég upphaflega hóf skráningar þá var tvennt haft í huga. Skráningin átti að sýna hið dæmigerða veður dagsins og vera það einföld að ég þyrfti ekki að vera háður því að fylgjast með veðurfréttum á hverjum degi. Þetta gilti einnig um hitann sem ég skilgreindi einfaldlega þannig að annaðhvort voru dagar heitir, kaldir eða í meðallagi. Reyndin varð þó sú að ég fylgdist nógu vel með hitanum til að geta skráð hinn dæmigerða hita dagsins sem ég hef einmitt gert frá árinu 1991.
Sú tala sem ég kalla hinn dæmigerða hita dagsins var lengi vel fengin með því að sjóða saman hitanum klukkan 18 í Reykjavík og hámarkshita dagsins samkvæmt veðurfregnum í útvarpi í bland við eigin upplifun og stopulan lestur af heimilislegum gluggahitamæli. Eftir tilkomu netsins og heimasíðu Veðurstofunnar breyttist aðferðin og byggist nú að miklu leyti á sjónrænu mati á línuritum frá sjálfvikum athugunum. Ég nota ekkert útreiknað meðaltal, bara þá tölu sem mér finnst vera skynsamlegust og eðlilegust fyrir hvern dag. Það getur þó stundum verið erfitt að fá eina góða hitatölu (án aukastafa) vegna mikilla hitasveiflna sem oft eru óháðar dægursveiflum. Ég horfi ekkert á kvöld eða næturhita enda hefur Veðurbókin bara áhuga á veðrinu yfir daginn.
Eftir hvern mánuð geri ég smá samantekt og reikna út meðalhita mánaðarins samkvæmt mínum tölum og síðan árshita í lok hvers árs. En þar sem ég skrái bara hitann fyrir daginn er auðvitað munur á mínum tölum og tölum Veðurstofunnar. Mínar tölur eru á milli hins eiginlega meðalhita og meðalhámarkshitans sem er eðlilegt útfrá forsendum. Það má benda á að ég skrái árið 2010 hlýrra en metárið 2003. Það þarf þó ekki að vera óeðlilegt í ljósi þess að árið 2010 var metár þegar kemur að meðalhámarkshita samkvæmt Veðurstofu. Í heildina verður ekki betur séð en að Veðurbókartölur mínar séu nokkuð samstíga opinberum tölum þegar kemur að einstökum árum og fyrir tímabilið í heild þrátt fyrir misjafnar skráningaraðferðir. Það er því ekki nokkur ástæða fyrir mig að ráðast í stórfelldar leiðréttingar og endurskoðanir á mínum gögnum.
- - - -
Þess má geta í lokin að nú standa veðurskráningarnar frammi fyrir þeim vanda að gormaðar A5 rúðurstrikaðar bækur frá Kassagerðinni með hvíta fuglinum framaná eru ekki lengur fáanlegar í verslunum og ég er á síðustu blaðsíðunni í bókinni sem ég skrái í núna. Fyrir næsta mánuð verð ég því að kaupa aðra tegund. Nú eru bara til útlenskar reiknibækur sem eru ekki eins hentugar. En hvernig sem þetta bókarmál leysist þá munu skráningar halda áfram með óbreyttum hætti.
Vísindi og fræði | Breytt 10.2.2012 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2012 | 21:57
Hvað er verið að gera við Lögreglustöðina?
Nú hafa viðgerðarflokkar hafist handa við stórfellda endurnýjun á ytra byrði Lögreglustöðvarinnar við Hlemm. Samkvæmt frétt sem ég sá einhverstaðar munu gulu flísarnar, sem gefið hafa lægri byggingunni sinn sérstaka karakter ekki sjást meir. Þær verða huldar einangrunarefni og húsið klætt hvítum álplötum sem einnig munu hylja hvíta múrverkið sem rammar inn flísarnar. Hvort hærri aðalbyggingin hljóti sömu örlög veit ég ekki en það kæmi mér ekki á óvart. Sjálfsagt hefur verkfræðingum þótt þetta góð lausn og ég efast ekki um að þessi málmhjúpur verji bygginguna ágætlega fyrir veðrum og vindum. En er þetta samt bara sjálfsagt mál?
Mikið gert af því að vernda útlit bygginga séu þær nógu gamlar. Sjálfsagt þykir að færa hin elstu hús í upprunalegt útlit eða jafnvel að endurbyggja þau frá grunni. Annað virðist gilda um hálfgömul hús eða þau sem eru ekki nógu gömul, eins og tilfellið er með Lögreglustöðina við Hlemm. Sú bygging er reist á þeim tímum þegar Reykjavík var að breytast úr bæ í borg en þá risu mikil skrifstofuhús í nútímastíl þess tíma. Sennilega hafa ekki margir velt fyrir sér þeim möguleika að Lögreglustöðin við Hlemm sé merkileg bygging últitslega séð. Húsið var teiknað af Gísla Halldórssyni sem annars er þekktur fyrir merkisbyggingar eins og Hótel Loftleiði, Tollhúsið o.fl. Þessar byggingar voru margar metnaðarfullar og gáfu borginni nútímalegt yfirbragð, þótt vissulega hafi allskonar útlitslegir árekstrar stundum átt sér stað, aðallega í kvosinni.
Þegar vinnupallar við Lögreglustöðina hafa verið teknir niður mun blasa við ný ásjóna hússins sem væntanlega verður mun karakterlausara en áður. Kannski munu einhverjir fagna því en ég er ekki alveg sáttur
en hvað skal gera í þessu veit ég ekki. Það þýðir kannski lítið að hringja í lögguna.
Byggingar | Breytt 4.2.2012 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2012 | 23:28
Ört vaxandi trjágróður í Öskjuhlíð
Verkefnið 365 Reykjavík sem ég kynnti hér á blogginu um síðustu helgi virðist hafa vakið einhverja athygli, allavega nógu mikla til þess að ég hef þurft að svara fyrir mig í fjölmiðlum. Þar mun ég hafa talað um ört vaxandi gróður í Öskjuhlíðinni en mikill munur er nefnilega á umfangi hans nú og fyrir nokkrum árum. Ég man ekki alveg hvenær mér datt upphaflega í hug að taka ljósmyndir af Reykjavík á hverjum degi frá sama stað í heilt ár en allavega var ég farinn að spá í þetta árið 1994. Upphaflega var ég með annan stað í huga en síðar beindist athyglin að Öskjuhlíðinni þar sem gott útsýni er til Esjunnar með borgina í forgrunni. Lítið varð þó úr framkvæmdum utan þess að ég fór nokkrum sinnum þarna upp eftir til að máta sjónahornið. Tilvalið er því að bera saman hvernig útsýnið hefur þróast.
Elsta myndin frá þessum stað sem tengist þessum pælingum er frá janúar 2002. Eins og sjá má er þarna vetrarástand á gróðri, snjór hefur fyrr um veturinn pressað sinuna niður í svörð en annars var þessi janúarmánuður nánast alveg snjólaus í Reykjavík. Trjágróðurinn er ekki mikill þarna og vel sést til hringtorgsins við Eskihlíð og húsanna sem þar standa.
Þann 8. október árið 2003 var ég þarna á ferð í sömu pælingum. Sjónarhornið er ekki alveg það sama og því erum við ekki að sjá alveg sömu trén. Haustlaufin á trjánum gerir gróðurinn meira áberandi en á fyrstu myndinni. Væntanlega hafa trén sprottið vel á þessu ári sem var það hlýjasta sem sögur fara af í Reykjavík. Við sjáum þó enn vel til húsanna sem standa næst hlíðinni.
Hér erum við komin til vorra daga og eins og sjá má er nú talsvert öðruvísi um að litast. Myndin er hluti af verkefninu 365 Reykjavík sem loks var ráðist í og dagurinn er 3. október 2011. Hér eru hríslurnar orðnar að samfelldum skógi og greinilegt að ekki munu líða mörg ár þar til trén taka að mestu fyrir sýn til borgarinnar frá þessu sjónarhorni. Þetta fer ágætlega saman við það hversu mikið vind hefur lægt í borginni eins og talað hefur verið um, en síðustu 11 ár hafa líka verið sérlega hlý og hagstæð trjávexti.
EIns og gefur að skilja hefði ekki verið hægt að framkvæma verkefni undir nafninu 365 Reykjavík núna í ár þar sem árið 2012 er hlaupár og varla eftir það frá þessum stað vegna trjágróðurs. En nú er þetta búið og gert og afraksturinn með öllum 365 myndunum er sem fyrr á slóðinni: www.365reykjavik.is
Vísindi og fræði | Breytt 28.1.2012 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2012 | 00:21
Vefsíða ársins komin í loftið
Eins og ég fjallaði um fyrir áramót þá réðist ég í það verkefni í fyrra að taka mynd af Reykjavík séð frá Öskjuhlíð á sama stað og sama tíma alla daga ársins 2011. Nú er ég tilbúinn með vefsíðu sem ég kalla 365 Reykjavík þar sem getur að líta allar myndirnar settar upp á skipulagðan hátt.
Þarna má sjá veðrið á hverjum degi um hádegi, hvenær snjór lá yfir borginni, hvenær Esjan var hvít og hvernig gróðurinn tók við sér að vori og fölnaði að hausti.
Við þekkjum vel hversu mikill breytileiki er á milli ára og varla hægt að segja að eitt ár sé dæmigert fyrir öll ár. Eins og sést á myndunum þá var mjög snjólétt í upphafi síðasta árs en það átti eftir að breytast. Þann 1. maí var til dæmis alhvít jörð og hvít Esja blasti við borgarbúum 10. júní. Prýðilegt sumar kom þó að lokum. Ekkert snjóaði síðasta haust fyrr en seint í nóvember og hélst sá snjór út árið. Allt þetta má skoða á myndunum og einnig framvindu gróðursins. Hin öfluga planta skógarkerfill þýtur upp og blómstrar í júní og tekur yfir forgrunn myndanna en fölnar fljótt upp úr miðju sumri. Á myndunum má sjá hvernig hæstu trén bæta við sig á vaxtartímanum og síðan hvernig haustið tekur á sig lit. Mannlíf er ekki áberandi frá þessu sjónarhorni. Göngustígur var lagður rétt neðan við tökustað á árinu en lítið sést þó til framkvæmda fyrir gróðri nema einn dag í september þegar vart fer á milli mála að eitthvað er í gangi. Það er sem sagt ýmislegt að sjá á þessari myndaseríu á vef ársins.
Sjón er sögu ríkari - slóðin á síðuna er:
www.365reykjavik.is
Þegar komið er inn á síðuna þarf að velja mánuð til að skoða. Myndirnar flettast sjálfkrafa í rólegheitum en þá má líka handfletta og skoða stöku myndir af vild.
14.1.2012 | 22:42
Meðvitaðar skekkjur í letri
Það getur stundum verið dálítill munur á því sem sýnist vera rétt og því sem er alveg rétt. Hlutir geta virst ójafnir í lögun af því að þeir eru jafnir og til að leiðrétta þá meintu ójöfnu eru þeir viljandi hafðir ójafnir. Best er bara að taka dæmi um bókstafinn minn: E. Sá bókstafur er ágætt dæmi um það sem ég er að reyna að koma orðum að.
Þessi tvö E virðast kannski vera eins við fyrstu sýn en þau eru það þó ekki. Stafurinn til vinstri er eins jafn og hugsast getur en sá til hægri er það ekki. Í E-inu til hægri eru láréttu strikin mislöng. Neðsta strikið er örlítið lengra en það efsta, miðjustrikið er greinilega styst auk þess sem það situr aðeins ofan við miðju. Þykktirnar eru líka misjafnar, láréttu strikin er þynnri en það lóðrétta. Þetta er samt mjög venjulegt og dæmigert E og er úr hinu útbreidda Helvetica letri og svona er bókstafurinn teiknaður í nánast öllum leturgerðum. Jafni stafurinn til vinstri er hinsvegar ekki úr neinni leturgerð. Ég teiknaði hann bara upp í fljótheitum enda mjög einfalt að útbúa svona jafnan bókstaf í tölvu.
Af ýmsum ástæðum virkar Helvetica bókstafurinn til hægri stöðugri og þægilegri að horfa á enda búið að taka tillit til nokkurra atriða sem hafa áhrif á hvernig við skynjum form og hlutföll. Sjónrænt séð er betra hafa lóðrétta strikið sverara, eins og trjástofn sem heldur uppi léttari greinum. Neðri hlutinn skal vera meiri en sá efri en þar kemur líka við sögu sjónrænt burðarþol rétt eins og í snjókarli þar sem sjálfsagt þykir að léttari kúla hvíli á þyngri kúlu. Bókstafirnir B og S er eru ágæt dæmi um slíkt.
Það má skoða þetta með aðstoð hjálparlína. Að vísu sést ekki greinilega að neðsta strikið í E-inu sé lengst en það er það samt munar nokkrum hársbreiddum.
Það má alveg fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um svona sjónleiðréttingar. Meyjarhofið á Akrópólíshæð er klassískt dæmi um ýmsar skipulagðar bjaganir. Súlurnar sjálfar eru látnar bunga örlítið að neðanverðu svo þær virki traustari, án þess þó að það sjáist í fljótu bragði. Þeir kunnu þetta til forna og svona eiga allar súlur í fornklassískum stíl að vera.
LETUR | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)