25 fjölmennustu ríki jarðar

Mannföldi jarðar hefur nú náð 7 milljörðum og í tilefni af því hef ég sett saman dálitla grafík sem sýnir hvaða þjóðir leggja mest af mörkum til þeirrar tölu. Til samanburðar sýni ég líka árin 1998 og 2004 og þannig fæst ákveðin mynd á það hvaða þjóðum fjölgar mest og hverjar að dragast aftur úr. Til þæginda er ég með litaskiptingu eftir heimsálfum. Allra fjölmennustu þjóðirnar sitja fastar í sínum sætum enda ber þar meira á milli. Það mun þó eitthvað breytast á næstu áratugum og um miðja öldina hafa Indverjar væntanlega tekið forystuna af Kínverjum. Af fjölmennstu þjóðunum eru Rússar mikið að gefa eftir en Ameríkulöndin þrjú halda sínum sætum. Heilmiklar tilfærslur eru í neðri hluta listans á milli ára og þar eru nokkur Afríkuríki í miklum vexti á meðan Evrópuríkin síga í átt að fallsætunum.

25 fjölmennustu

Nýjustu tölurnar í þessari töflu eru frá miðju ári 2010 og þær nálgaðist ég á netinu. Tölur fyrir 1998 og 2004 eru hinsvegar reiknaðar frá tölum í Almanaki hins Íslenska Þjóðvinafélags. Óvissa er alltaf einhver og ekki öruggt að tölur hvers árs séu alltaf frá sama tímapunkti. Hvað sem því líður þá sést hér ágætlega hvernig þróunin er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Takk fyrir þessa töflu - skemmtileg, ja kannski frekar fróðleg, lesning. Magnið af fólki sumsstaðar. Athyglisvert líka að sjá þarna USA með þessar 311 milljónir og og svo tala menn um að þar séu 60 milljónir sem búa undir fátækramörkum - væri forvitnilegt að sjá hverjar slíkar tölur eru fyrir t.d. 10-15 efstu þjóðirnar. Get oft gleymt mér við svona töflur - takk aftur

Gísli Foster Hjartarson, 30.10.2011 kl. 13:04

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Emil, þessi tafla er vissulega fróðleg. En enn fróðlegra væri ef til væru tölur um eðli fjölgunarinnar. Þ.e.a.s. hvort um innri fjölgun er að ræða - s.s. barnsfæðingar, hækkun lífaldurs, eða fólksflutninga.

Td. sýnir taflan fjölgun í USA um 15,2% á samanburðartímabilinu á meðan Úkraína sýnir fækkun um allt að svipuðu hlutfalli.

Kolbrún Hilmars, 30.10.2011 kl. 15:41

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það má auðvitað velta ýmsu fyrir sér um eðli fólksfjölgunar eða fækkunnar þegar taflan er skoðuð. Ég lét það þó eiga sig í bloggfærslunni.
En hvers vegna fækkar Rússum og Úkraínubúum? Skýringin gæti verið sú að þar er fæðingartíðnin komin niður fyrir það sem þarf til að viðhalda fjöldanum. Sama á við um önnur Evrópulönd nema hvað, að í vestur-Evrópu helst mannfjöldinn stöðugur vegna innflytjenda og þá gjarnan frá fátækari löndum. Slíkt gerist ekki í fyrrum Sovétríkjum.
Þróunin í fátækum löndum Afríku hlýtur að valda áhyggjum því þar virðast flestar þjóðir fastar á því stigi að fæðingarhlutfall helst mjög hátt á meðan lífslíkur hafa aukist. Sama má segja um Indverja sem vonandi færast nær Vesturlöndum og Kína að því leyti að fæðingartíðni lækkar í takt við auknar ævilíkur.

Þessa mynd birti ég í eldri fólksfjölgunarpistli 7. jan 2009.

fólksfjölgun

Emil Hannes Valgeirsson, 30.10.2011 kl. 18:01

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Takk fyrir þetta, Emil, og fyrir 2009 línuritið. En þar ertu væntanlega að meðhöndla meðaltalstölur á heimsmælikvarða?

Í fyrri athugasemd minni dró ég út sláandi statistikk fyrir USA og Úkraínu, 15%+ í plús eða mínus, en ef við teljum bæði þau ríki þróuð samfélög, (sbr.seinna línuritið) þá benda 15% fólksfjölgunarsveiflurnar til ytri áhrifa.

Til samanburðar er fólksfjölgun í Kína aðeins 8.1% á tímabilinu en á Indlandi 27,2% sem mér sýnist vera heimsmet.

Kolbrún Hilmars, 30.10.2011 kl. 18:44

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

2009 línuritið stendur reyndar ekki fyrir ákveðið svæði eða tímabil en er bara almenn skýringarmynd fyrir fjölgun með tilliti til þróunarstigs. Myndin gæti allt eins staðið fyrir Ísland síðustu 200 ár.

Sammála með ytri áhrifin fyrir USA og Úkraínu. Innflytjendastraumur er varla mikill til Úkraínu en fæðingartíðni þar gæti þó vel verið lægri en í USA.

En fólksfjölgun á Indlandi er í prósentum mun minni en í mörgum Afríkuríkjum. Á þessu 12 ára tímabili er hún t.d. 43% í Eþíópíu. Sem er auðvitað mjög mikil fjölgun miðað við það litla sem fólkið hefur úr að spila.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.10.2011 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband