Um stafabil og lígatúra

Í texta, sem verður til við innslátt í tölvu er búið að huga að því að misbreiðir stafir þurfa mismikið pláss. Í lógóum, stórum fyrirsögnum, plakötum og fleiru þarf hið vökula auga þó oft að koma við sögu enda ekki sjálfgefið að öll stafabil séu sjálfkrafa eins og best verður á kosið. Sumum stöfum hentar ver en öðrum að lenda saman og á það einkum við um nokkra hástafi. Eitt slíkt dæmi er nærtækt okkur því að í nafninu ÍSLAND lenda saman stafirnir L og A þannig að á milli þeirra myndast heill flói sem nánast klýfur orðið í tvennt: ÍSL og AND. Þetta er reyndar mismikið vandamál eftir því hvaða leturgerð er valin. Ef við tökum hið algenga steinskriftarletur Helveticu þá er útkoman beint af skepnunni eins og þessi lengst til vinstri.
Ísland bil
Við þessu má bregðast með því að minnka bilið á milli L og A en einnig má stytta lárétta strikið í ellinu eða hreinlega að steypa stöfunum saman. Önnur leið er sú að auka bilið á milli annarra stafa til mótvægis eða slá á milli eins og það er kallað og mikið stundað þegar kemur að hástafaletri.

2011 bilÁrtalið 2011 er líka frekar slæmt en af einhverjum ástæðum er talan 1 óþarflega plássfrek í mörgum leturgerðum, eins og sést á þessum samanburði hér að ofan sem sýnir ártalið fyrir og eftir lagfæringu.

Lígatúrar
Það er eldgömul hefð úr ritlistinni að slá saman stöfum þegar það þykir fallegra. Bókstafurinn Æ hefur þannig orðið til en svona samsteypur (eða samlímingar) eru yfirleitt kallaðar Ligatures í vestrænum málum. Í prentverki erum við Íslendingar í seinni tíð farnir að sjá meira af svona samsteypum en áður, sérstaklega þegar lágstafa f er fyrir framan bókstafina i, j, l og t. Reyndar eru bókstafirnir f og t mjög samsteypanlegir við aðra stafi og sjálfa sig einnig (ff tt ft fi fj fl). Hér að neðan má sjá fræga staðhæfingu færða í letur með og án lígatúra:flatus lifirÁstæða þess að við hér á landi höfum farið á mis við áðurnefndar letursamsteypur er sú að úrval tákna í hverju letri hefur lengst af ráðist af takmörkum lyklaborðsins. Íslenska stafrófið er í lengra taginu og inniheldur séríslensku stafina: ð og þ. Þegar keyptar voru íslenskar útgáfur af letrum fyrir tölvusetningu var því hreinlega ekkert pláss fyrir algengustu lígatúrana: fi og fl.

Á seinni árum hefur komið fram ný gerð af letrum sem innihalda öll sérviskuleg letur vesturlanda og eru þ og ð auðvitað þar á meðal, en í hverju slíku letri er pláss fyrir um 256 tákn. Þessi letur heita OpenType letur og í staðin fyrir að kaupa sérútgáfu fyrir hvert tungumál dugar ein útgáfa fyrir öll lönd og ekkert vesen. Þarna er síðan pláss fyrir ýmsar samsteypur og krúsidúllur að auki. Í nýlegri hönnunarforritum er hægt að ráða hvort þessir lígatúrar koma sjálfkrafa fram eða ekki. Sumum finnst þeir vera framandi og vilja helst ekkert vita af þeim en almennt er hönnuðir hæstánægðir.

- - - - -

Hafi einhver áhuga í framhaldi af þessu að fá innsýn í störf grafískra hönnuða þá er hér einfaldur leikur sem snýst um stafabil: http://type.method.ac/


Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Eyjafjallajökull 2010

Eins og ég hef gert árlega í minni bloggtíð að hausti til ætla ég að leggja mitt mat á það hvar næsta eldgos verður á Íslandi. Sem fyrr eru þessar vangaveltur studdar hæfilega lítilli þekkingu á undirheimum landsins og settar fram meira af kappi en forsjá. Þær eru þó ekki verri en svo að fyrir ári síðan taldi ég mestar líkur á því að næsta gos yrði í Grímsvötnum eins og einmitt varð raunin. Kannski þurfti þó ekki mikla getspeki til. Prósentutölurnar í upptalningunni hér að neðan vísa í hversu miklar líkur ég tel á að næsta gos verði í viðkomandi eldstöð og eru þau líklegustu talin fyrst. Annað mál er svo hvenær næsta gos verður hér á landi. Kannski mun ekkert gjósa hér á næstu árum en kannski verða þau mörg og mikil. Greiningin kemur hér og undir öllum textanum er kort til frekari glöggvunar.

30% Katla er mest umtalaða eldstöðin um þessar mundir og vermir nú efsta sætið á þessum lista í fyrsta skipti. Aukin skjálftavirkni og smágert gos í sumar benda til þess að eitthvað stærra geti verið í undirbúningi. Þótt lítið sé hægt að stóla á hefðir þá segir sagan að Kötlugos fylgi gosi í Eyjafjallajökli. Óvenju langt er líka liðið frá síðasta gosi í Kötlu en samt er ekkert öruggt og ekki er hægt að útiloka að þetta 93ja ára goshlé fram að þessu sé bara hálfnað. Kannski mun koma í ljós í vetur hvort óróinn undanfarið fjari bara út eða endi í almennilegu Kötlugosi. Samkvæmt annálum verða sterkir jarðskjálftar nokkrum klukkutímum fyrir gos sem fara ekki framhjá neinum í grenndinni. Slíkir skjálftar ef þeir verða eru auðvitað gagnleg viðvörun fyrir þau læti og flóð sem munu fylgja fyrstu stigum gossins.

27% Hekla. Fátt virðist vitað hvað er að gerast í Heklu annað en að hún hefur verið mjög virk síðustu 40 ár, gosið nánast á 10 ára fresti og auk þess talin tilbúin í gos. Samkvæmt 10 ára hefðinni hefði Hekla átt að gjósa árið 2010 eða fyrri part 2011 en ekkert bólar þó á slíku. Hekla lætur ekkert vita af sér fyrr en gos er í þann veginn að hefjast, en það mun stafa af því að kvikuþróin er djúpt í jörðu og lítið hægt að fylgjast með. Þetta fræga eldfjall er til alls líklegt þótt 10 ára reglan virðist vera að bregðast. Kannski ætlar Hekla bara aftur í sitt gamla far og gjósa stærri gosum einu sinni til tvisvar á öld nema eitthvað annað og meira sé í undirbúningi.

16% Grímsvötn. Þessi mikilvirka eldstöð er fastur áskrifandi af þremur efstu sætunum hér, en þar sem Grímsvötn hafa nýlokið sér af eru ekki mjög miklar líkur á næsta gosi þar. Líklega mun samt gjósa þarna á ný á næstu 10 árum og því er þetta spurning um hvort aðrar eldstöðvar skjótist inn á milli. Annars var Grímsvatnagosið í vor merkilega öflugt þótt það hafi staðið stutt og gæti verið til merkis um aukna virkni undir miðju landinu miðað við seinni hluta 20. aldar.

7% Bárðarbunga er stór megineldstöð með stórri öskju sem hulin er jökli. Útfrá henni eru gossprungur sem ná út fyrir jökulinn í suðvestur og norðaustur. Hamarinn í vesturhluta Vatnajökuls tengist eldstöðinni beint eða óbeint en þar hefur verið talsvert um skjálfta undanfarin ár og jafnvel smágos í sumar. Síðustu gos tengd Bárðarbungukerfinu sem vitað er um voru norðan Tungnárjökuls seint á á 7. áratug 19. aldar. Bárðarbunga er næst miðju heita reitsins á landinu og hefur af og til verið að minna á sig á síðustu árum með jarðskjálftum sem gætu verið undanfari eldgoss.

6% Askja og nágrenni eru alltaf inní myndinni. Eins og víða annarsstaðar hefur orðið vart við jarðskjálfta síðustu ár þarna á svæðinu. Upptyppingaóróinn var til dæmis mikið í fréttum fyrir nokkrum árum, hann tengist þó kannski öðrum eldstöðvakerfum. Þá var rætt um mögulegt dyngjugos sem staði gæti staðið langtímum saman. Sennilega er einhver bið á meiriháttar Öskjugosi eins og varð á 19. öld. enda varla hægt að búast við svoleiðis nema á einhverra alda fresti. Smærri gos geta þó komið hvenær sem er samanber hraungosið 1961 sem hlýtur að teljast hin þægilegasta gerð af eldgosi og auk þess túristavænt.

5% Reykjanesskagi.
Það væri mikill merkisatburður ef gos kæmi upp á Reykjanesskaga jafnvel þótt ekki yrði um stórt gos að ræða. Ef gos hæfist þarna væri það til merkis um að 700 ára goshvíld væri lokið og framundan væri umbrotaskeið sem stæði með hléum í 300 ár eða svo, með allskonar afleiðingum og veseni. Reykjanesið er mikið jarðskjálftasvæði og þar hafa vissulega komið skjálftahrynur öðru hvoru. Flestir skjálftarnir tengjast þó gliðnun landsins frekar en hugsanlegum eldsumbrotum og því engin ástæða að óttast þó eitthvað hristist þarna. Hinsvegar þykjast menn þó sjá núna einhver merki um hæðarbreytingar sem benda til kvikusöfnunar, aðallega undir Krísuvíkusvæðinu. Meiriháttar hamfarir eru samt ólíklegar og varla þarf að koma til allsherjarýmingar höfuðborgarsvæðisins. Sennilega verður mesta umferðin í áttina að gosstöðvunum frekar en frá þeim, vegna forvitinna borgarbúa með myndavélar.

4% Suðurhálendið. Hér hef ég aðallega í huga sprungugos með talsverðu hraunrennsli sem fóðrað væri frá megineldstöðvunum Kötlu, Grímsvötnum eða Bárðarbungu. Þetta geta orðið meiriháttar gos samanber Skaftárelda og Eldgjárgosið. Væntanlega kæmu slík gos ekki án undirbúnings og mikillar tilfærsla kviku neðanjarðar sem færi varla framhjá vökulum vaktmönnum. Smærri og kurteisari gos geta þó kannski laumast í gegn án mikils undirbúnings. Lítið virðist þó vera að gerast þarna sem bendir til einhvers. Ef rétt er að eldvirkni landsins sé að aukast þarf samt að íhuga þennan möguleika.

5% Aðrir staðir mæta svo afgangi svo sem Vestmannaeyjar, Hengill, Öræfajökull, Mývatnsöræfi, Langjökulssvæðið og svo allir hinir staðirnir sem margir hverjir teljast frekar ólíklegir þótt þeir teljist til eldvirkra svæða. Sumstaðar er líka margt á huldu varðandi innri hegðun svæða, samanber Snæfellsnesið, en eins og Haraldur Sigurðsson skrifar um, þá mun vera eitthvað lítið um jarðskjálftamælingar þar.  

Næsta Gos 2011

 

- - - - - - - - - - - - - - -

Heimildir eru héðan og þaðan. Ljósmyndin sem fylgir er af Eyjafjallajökli, tekin 8. maí 2010.


Reykjavíkurhiti og heimshiti

Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Línuritið sem hér fylgir hef ég birt áður en það sýnir annarsvegar árshita jarðarinnar í heild frá aldamótunum 1900 og hinsvegar þróun árshitans í Reykjavík, sem í þessu tilviki er hinn einstaki staður. Samskonar mynd birti ég í fyrra en nú hefur árinu 2010 verið bætt við. Þróun heimshitans virkar ef til vill lítilfjörleg í þessum samanburði miðað við það sem oftast er sýnt. Varla er þó hægt að treysta á lítilfjörleg áhrif af þessari hlýnun, haldi hún áfram.

Rvik GISS 1900-2010
Eins og og sést í útskýringu undir myndinni er heimshitinn sýndur sem frávik frá meðalhita eins og hann er skilgreindur hjá NASA/GISS, þaðan sem tölurnar koma. Reykjavíkurhitinn er hinsvegar beinn meðalhiti hvers árs. Hitakvarðana hef ég samræmt þannig að núllið í heimsmeðalhita er sett á 4,5 gráður í Reykjavíkurhita. Með þessu fæst ágætis samanburður á lókal og glópal hitafari og þar koma nokkur atriði koma ágætlega í ljós:

  1. Hitasveiflur loftslags á jörðinni í heild eru mun minni heldur en það sem gerist ef einn staður er tekinn fyrir. Þetta á bæði við um sveiflur milli einstaka ára og lengri tímabila.
  2. Báðir ferlarnir sýna langtímahlýnun á tímabilinu sem er nokkuð svipuð í heildina ef sveiflum væri jafnað út. Okkar lókal hlýnun er þó kannski aðeins meiri vegna góðrar frammistöðu síðustu ára.
  3. Á okkar slóðum hafa skipst á tímabil þar sem hitinn er ýmist ofan eða neðan við heimsmeðaltalið. Reykjavíkurhitinn hafði þannig oftast betur á árunum 1925-1965 en lenti oftast undir heimsmeðaltalinu á árunum 1966-1995. Eftir síðustu aldamót hefur Reykjavíkurhitinn hinsvegar slegið heimshitanum við.

Í framhaldinu má velta fyrir sér hvernig framhaldið verður hér á landi. Miðað við hversu mikið hefur hlýnað hér undanfarið er varla hægt að gera ráð fyrir mikið meiri hlýnun alveg á næstunni. Hlýja tímabilið á síðustu öld kom líka nokkuð snögglega þarna á 3ja áratugnum og þar við sat, en þó með talsverðum sveiflum á milli ára. Miðað við lengd þess tímabils gætum við átt 20-30 ára hlýtt tímabil í vændum og kannski bakslag í framhaldi af því. Þó er engu að treysta, það segir sagan. Bakslag gæti svo sem komið hvenær sem er og jafnvel alls ekki. Sveiflur fortíðar þurfa ekki endilega að endurtaka sig í framtíðinni. Þær gætu þó hæglega gert það og jafnvel aukist. Stóra þráláta uppsveiflan sem tengist hnattrænni hlýnun mun þó væntanlega halda áfram hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Úr því maður fylgist með þessu þá má varpa því fram að horfur eru á að árið 2011 verði hlýtt og í góðu samræmi við hitafar síðustu ára, bæði lókal og glópal. Það verður þó ekki eins hlýtt og síðasta ár enda var það mjög hlýtt og reyndar það hlýjasta ásamt 2005 á heimsvísu samkvæmt NASA/GISS gagnaröðinni.


Hvernig var veðrið í september?

Vegna áskorunar ætla ég að birta hér veðurdagbókaryfirlit fyrir nýliðinn september í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Aukaafurð þessara skráninga er sem fyrr, einkunnakerfið sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Allt miðast þetta við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og miðast samanburðurinn við fyrri ár, við það tímabil.

Skráning september 2011Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn september. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta september miða ég meðallagið við 8-13 stig en 6-11 stig seinni hlutann. Hitaviðmiðunin er árstíðabundin þannig að allir mánuðir ársins eiga sama möguleika á toppeinkunn. Veðurfar er þó misgott eftir árstíðum og því er örðugt fyrir mánuði utan hásumartímans að ná góðri einkunn en annars telst gott ef mánaðeinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum.

September 2011 - Einkunn 4,7
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 4,7 sem er frekar góð einkunn fyrir september en meðaleinkunn skráðra septembermánaða hjá mér er 4,4.

Fyrsta vika mánaðarins var mjög hlý og sunnudagurinn 4. getur talist einn af bestu veðurdögum sumarsins enda með fullt hús stiga hjá mér. Síðan skall á eindregin norðanátt með köldu veðri en sólin bjargaði málum yfir hádaginn og því er það bara einn dagur sem ég úrskurða kaldann. 6 daga sólskinskaflinn dagana 9.-14. september á stærstan þátt í því að mánuðurinn í heild var með sólríkasta móti. Seinni hlutinn var breytilegur með tveimur hvössum rigningardögum þ.e. sunnudaginn 18. og á lokadeginum þann 30. Eina stig þessara daga fékkst fyrir 10 stiga hita sem ekki er hægt að kvarta yfir. Skráður meðalhiti yfir daginn hjá mér er 11,6 stig en það ætti að vera nokkuð gott fyrir september.

Bestu septembermánuðir frá 1986
September 2006 - Einkunn 5,3. Þetta er afgerandi besti mánuðirinn sem ég hef skráð og sá eini sem nær 5 stigum. Aðalsmerki mánaðarins var meðalhiti upp á 10,5 stig, sem gerir hann að hlýjasta september frá metmánuðinum 1958 sem mældist, 11,4° (ásamt 1939). Haustkuldar sem gjarnan draga meðalhitann niður voru víðsfjarri. Sól og úrkoma voru hinsvegar nálægt meðallagi enda var þetta ekki eindregin sunnanáttarmánuður eins og svo margir hlýir mánuðir utan hásumarsins. Þau tíðindi urðu þann 30. september 2006 að Bandaríski herinn yfirgaf landið og lauk þar með því tímabili í sögu þjóðarinnar.
September 1993 - Einkunn 4,8. Það er varla ástæða til að fjalla um aðra mánuði sem teljast góðir en næstur í röðinni er sem sagt september 1993 með 4,8. Aftur eru það hlýindi sem ráða mestu en þetta var fyrsti september síðan 1968 sem náði 9 stiga meðalhita, sem að vísu telst varla til tíðinda í dag. Fjórir mánuðir hafa fengið 4,7 stig og er þá orðið stutt í meðalmennskuna. Það eru september 1994, 1998, 2002 og hinn nýliðni 2011.

Verstu septembermánuðir frá 1986.
September 2007 – Einkunn 3,5. Ekki átti þessi mánuður uppá pallborðið í einkunnakerfi mínu enda dæmir það hart sólarlausa rigningardaga með hvössum vindum eins og nóg var um í mánuðinum. Þetta var því mikil afturför frá gæðamánuðinum árið áður en þarna náðu haustrigningarnar sér það vel á strik að þetta mun vera úrkomusamasti september sem mælst hefur í Reykjavík. Meðalhitinn var ekkert sérstakur og rétt slagaði upp fyrir kalda meðaltalið frá 1960-91.
September 1989, 1990, 1995, 1997Einkunn 3,9. Hér liggja að baki ýmsar og misjafnar ástæður að baki lágri einkunn en þessir mánuðir eiga það þó allir sameiginlegt að vera kaldir. Kaldasti september á skráningartímabilinu kom þó árið 2005 með opinberum meðalhita uppá 6,3 stig enda gerði talsvert kuldakast seinni hluta mánaðarins. Í heildina var þó mánuðurinn þolanlegur með einkunnina 4,3 en til mótvægis við kuldann þá skein sólin nógu glatt til að gera þetta að þriðja sólarmesta september í Reykjavík frá upphafi opinbera mælinga. Þannig geta öfgarnar vera í ýmsar áttir.


Hinn dularfulli síðasti snjóskafl í Esjunni árið 2005

Nú fylgjast skaflaáhugasamir Reykvíkingar með örlögum síðasta snjóskaflsins sem sjáanlegur er í Esjunni þetta árið. Skildi hann hafa það af eða ekki? Ef svo fer að hann hverfi yrði það ellefta árið í röð sem það gerðist, en til samanburðar hvarf hann mest 5 ár í röð á 20. öld (þ.e. árin 1932-1936). Þegar fjallað hefur verið um þessi mál undanfarið hefur komið fram að á þessari öld hafi skaflinn aldrei lifað lengur en til 25. september. Reyndar mun það hafa gerst í tvígang, í fyrra skiptið árið 2001 og síðan árið 2009. En hér vil ég meina að skaflasagnfræðinni sé eitthvað ábótavant. Samkvæmt annars ágætu yfirliti á veðurstofuvefnum um Esjufannir kemur fram að árið 2005 hafi síðasti skaflinn horfið þann 18. ágúst en ég ekki 18. október eins og tel að sé réttara og ég hef sjálfur nóterað hjá mér. Þarna munar tveimur mánuðum og ef síðari dagsetningin er rétt sýnir það að skaflar geta ekki talist hólpnir þótt komið sé fram í október. Lítum á þetta nánar.

Mbl 14. ágúst 2005

Þessi ágæta mynd hér að ofan birtist í Morgunblaðinu þann 14. ágúst 2005 og sýnir síðasta snjóskafl þess sumars í Esjunni. Ekki kemur fram hvenær myndin var tekin en af veðrinu að dæma ætti hún að vera tekin að kvöldi hins sólríka 12. ágúst, aðeins 6 dögum áður en skaflinn á að vera horfinn. Samkvæmt fréttinni mældist hann þarna 20 metrar á lengd og um 300 fermetrar að stærð. Vitnað er í Einar „okkar“ Sveinbjörnsson sem taldi að dagar snjóskaflsins yrðu taldir undir lok mánaðarins eða í byrjun september og hlýinda- og vætutíð framundan. Vissulega gerði vætutíð dagana á eftir en miðað við hversu þrálátir síðustu skaflarnir geta orðið má setja stórt spurningamerki við það að allir 300 fermetrarnir af Esjufönn hafi horfið á sex dögum.

Mbl 26.ágúst 2006Árið eftir, eða þann 26. ágúst 2006 var í Mogganum spjallað við Pál Bergþórsson sem oftar, um Esjuskafla. Þar kom fram að síðasti skaflinn árið 2005 hefði einmitt horfið þann 18. október eins og ég tel rétt vera. Það var hinsvegar „leiðrétt“ í blaðinu daginn eftir og fullyrt að skaflinn hefði horfið þann 18. ágúst og virðist sú dagsetning vera orðin sú opinbera. Önnur leiðrétting með greininni var sú að ekki væri allur snjór horfinn úr Esjunni því enn væru fannir norðanmegin (en það er aukaatriði).

Sjálfur grunar mig að þetta hafi verið þannig að skaflinn hafi mikil látið á sjá seinni hluta ágústmánaðar 2005 en ekki náð hverfa og hafi ennþá verið sýnilegur frá borginni lengi fram eftir september. Sá september var sæmilegur framan af en eftir þann 20. gerði mikið kuldakast og snjóaði þá í Esjuna og þar með ofaná leifarnar af umræddum skafli. Nýfallinn snjór er ekki alltaf lífseigur og þrátt fyrir misjafnt tíðarfar fyrri hluta október náði allur snjór að lokum að hverfa úr Esjunni þann 18. október. Þess má geta að í minni veðurbók skrái ég 12-13 stiga dagshita dagana 15. til 17. október. Ef minnið svíkur mig ekki þá rámar mig síðan í að hafa rætt það á afmælisdegi mínum þann 30. september árið 2005 hvort Esjan næði að hreinsa af sér snjóinn á ný og þar með síðasta skaflinn. Sjálfur hef ég skráð lokadagsetningu skaflsins hin síðustu ár og í því yfirliti stendur 18. október fyrir árið 2005.

Ég vil þó ekkert útiloka að dagsetningin 18. ágúst sé réttari en 18. október*. Mögulegt er að í mínum skráningum hafi ég haft til hliðsjónar fréttina í Morgunblaðinu þann 26. ágúst 2006 sem síðar var leiðrétt. Í mínum huga er þetta hið dularfyllsta mál og úr því að verið er að taka svona upplýsingar saman er betra að hafa þær réttar. Tveir mánuðir til eða frá er ekki lítið atriði þegur kemur að skaflasagnfræði Esjuhlíða.

- - - -

*Viðbót og niðurstaða um miðnætti. Nú er ég búinn að komast að því sennilega hafi síðast snjóskaflinn eftir allt saman horfið í ágúst þarna árið 2005. Þökk sé þessari athyglisverðu myndaséríu af Esjunni sem ég var að finna á gúgglinu. http://eirikur.is/esjan.htm Ljósmyndarinn er Eríkur Þ. Einarsson.

Samkvæmt þeim bráðnaði septembersnjórinn talsvert í október en þó ekki svo að Esjan yrði snjólaus. Þannig að þá er ég með það á hreinu.


Þrjú hús

Nú ætla ég að snúa mér að húsum og kíkja létt á þrjár misgamlar byggingar í Reykjavík sem hver um sig er ágætis fulltrúi fyrir stíl og tíðaranda síns tíma. Þetta eru áberandi og vel þekkt hús af stærra staginu en sjálfum finnst mér þessar byggingar vera vel heppnaðar og eiginlega hver annarri fallegri af ýmsum ástæðum. Línurnar sem ég hef bætt við myndirnar eru til áhersluauka.

Háskólinn

Aðalbygging Háskóla íslands var metnaðarfull bygging á sínum tíma sem reis á krepputímunum miklu um 1930. Arkitektinn er sjálfur Guðjón Samúelsson húsameistari og er mjög í hans anda. Þetta er hús í klassískum stíl þar sem miðhlutann ber hæst og útfrá þeirri miðju koma álmur til beggja hliða. Þetta hefur samt verið nútímalegt hús á sínum tíma og í stað fíngerðs skrauts er einhverskonar stuðlaverk á miðhlutanum sem vísar til himins. Eins og klassískum byggingum fer inngangurinn ekki framhjá neinum enda er hann rækilega fyrir miðju og um leið brennipunktur byggingarinnar og umhverfisins. Þannig vildu menn hafa mikilvæg hús fyrr á árum þar sem fólk bar virðingu fyrir valdinu og stofnunum. Umhverfið fyrir framan bygginguna undirstrikar einnig þessa miðju og þá hugsun að þetta sé miðstöð lærdóms og þekkingar hér á landi. Svona miðjusettar byggingar voru algengar í klassískri húsagerð í mikilvægum húsum svo sem konungshöllum, ráðhúsum, menntastofunum og fleiru og gjarnan hafðar við enda breiðstræta. Fyrir framan Háskólan eru reyndar bara breiðstígar og tröppuverk sem virðast einungis vera þarna í sjónrænum tilgangi.

Sjávarútvegshúsið

Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4 hefur sett stóran svip á sitt umhverfi frá því það var byggt snemma á 6. áratugnum. Arkitektinn er Halldór Jónsson sem teiknaði meðal annars Hótel Sögu og ýmsar skrifstofubyggingar í svipuðum anda. Hér er módernisminn kominn til sögunnar og allt aðrar áherslur en í klassíkinni. Athyglinni er ekki beint að neinni ákveðinni miðju heldur fær byggingin öll sama vægi. Í heimi fjöldaframleiðslunnar eiga hlutir að vera einsleitir og einfaldir og fegurðin felst í endurtekningunni. Inngangurinn er ekki dreginn fram sérstaklega og er ekki einu sinni fyrir miðju. Ekki er þó gengið alla leið í naumhyggjulegum módernisma því það örlar á skrauti eða munstri við innganginn sem nýtur sín þegar komið er að. Neðsta hæðin er inndregin og þar eru súlur sem virðast lyfta húsinu og gera yfirbragðið léttara. Svo er líka hallandi þak sem virðist svífa fyrir ofan því efsta gluggaröðin er nánst samfellt glerverk. Fyrir nokkrum árum var unnið hálfgert skemmdarverk á þessu húsi að mínu mati með því að hækka hornhúsið við hliðina upp í sömu hæð þannig að húsið fær ekki notið sín eins og áður. Ekki bætir úr skák að sorpdæluhús var byggt þarna skáhalt á móti og skyggir á, en hana er þó hægt klífa upp á topp til að ná almennilegri mynd.

Nýherjahúsið
Nýherjahúsið eitt af þeim húsum risið hafa í röð upp úr bílamergðinni meðfram Borgartúninu og eitt það best heppnaða. Arkitekt er guðni Pálsson. Hér er módernisminn kominn á næsta stig og sver sig nú við hinn dularfulla póst-módernisma. Ekki virðist alltaf á hreinu hvernig sá ismi skal skilgreindur en þó má segja hann snúist að nokkru um að hafna viðteknum venjum og stífum reglum. Lengi var það sjálfsögð venja að teikna hús með 90 gráðu hornum á alla kanta en nú er slíkt liðin tíð eins og Nýherjahúsið er gott dæmi um. Annað óvenjulegt við þetta hús er að það er í rauninni tvö hús með sitthvoru útliti sem tengjast saman með glerhýsi. Vestari hlutinn er alveg kassalaga en sá austari er á skakk og skjön og byggingin er síbreytileg eftir þvi hvaðan er horft. Í nútímaarkitektúr er inngangur bygginga oft langt frá því að vera útgangspunktur í heildarútliti og oft getur jafnvel verið örðugt að finna innganga yfirhöfuð. Í Nýherjahúsinu er inngangurinn samt nokkuð rökréttur í glerjaðri tengibyggingunni. Húsið nýtur sín best frá Sæbrautinni því svo óheppilega vildi til að plantað var alveg óvænt stórum þjóðvegabensínstöðvarestauranti rétt framan við húsið Borgartúnsmegin.

Þannig hljóðar byggingarlistasaga 20. aldar. Eða að minnsta kosti hluti hennar.


Manngerðir skjálftar

Hvað með þessa skjálfta á Hengilssvæðinu, á þetta bara að vera svona til frambúðar? Í fréttum er talað um að það sé verið að losa frárennslisvatn frá jarðhitavirkjuninni við Hellisheiði með því dæla því ofan í jörðina. Lítið kemur hins vegar fram um hvort þetta sé framtíðarlausn þótt sennilega sé það svo. Frárennslisvatn sem verður til við virkjunina þarf að losna við með einhverjum hætti en upphaflega stóð til að hafa niðurrensli við Gráuhnjúka. Jarðskjálftarnir eru sagðir vera hættulausir jafnvel þótt þeir séu yfir þremur að stærð. En vita menn það fyrir víst?

Skjálftar HellisheiðiEkki man ég eftir nokkurri umræðu um jarðskjálfta áður en virkjunin var reyst. Kannski vissu menn ekki að skjálftavirknin yrði svona mikil við þessa niðurdælingu en kannski vissu menn það en vildu ekki hræða fólk að óþörfu. Jarðhitavirkjanir eru nógu umdeildar fyrir þótt ekki sé verið að tala um þær gætu valdið jarðskjálftum. Kannski er ágætt að smyrja jarðlögin þannig að jarðlögin hreyfist mjúklega í litlum skjálftum frekar en í fáum og stórum þegar berglögin hrökkva af stað með látum á margra ára fresti. En hvað veit maður? Virkjunin er á miðju vestara gosbeltinu þar sem landið er að gliðna í sundur og utan í megineldstöð að auki. Þótt jarðhitamenn séu rólegir yfir þessu þá finnst mér þetta samt vera frekar leiðinleg viðbót, ekki síst ef þetta á að vera svona til frambúðar. Ég vil hafa ekta jarðskjálfta, ekta eldgos, ekta veður og yfirhöfuð að náttúran sé sem mest ekta.

Meðfylgjandi skjálftakort föstudagsins 23. september eftir líflegan dag á Hengilsvæðinu. Stærsti skjálftinn er áætlaður um 3 að stærð.


mbl.is Fjöldi skjálfta við Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bræðsluvertíðarlok á Norður-Íshafinu

Hafísinn á Norður-Íshafinu hefur nú náð sínu árlega lágmarki eins og komið hefur fram í fréttum. Hvað útbreiðslu varðar reyndist lágmarkið að þessu sinni vera það næst lægsta frá upphafi mælinga sem þýðir að árið 2007 heldur enn metinu. Lengi fram eftir sumri voru góðar líkur á því lágmarksmetið yrði slegið því eftir lágt vetrarhámark var mjög sólríkt þarna uppfrá lengi fram eftir sumri. Aðstæður urðu síðan misjafnari þegar lægðir fóru að gera vart við sig með dimmviðri og vindum sem blésu gjarnan í öfugar áttir miðað við það sem æskilegast þykir til að pakka ísnum saman eða hrekja hann í réttar áttir. Árið 2007 er hinsvegar talið hafa vera algert draumaár til að vinna á ísbreiðunni því þar gekk allt upp.
Reyndar má segja að það sé mesta furða hversu lágmark ársins er nú lágt miðað við aðstæður og sýnir það kannski best að nú þarf ekki lengur afbrigðilegar veðuraðstæður til þess að ná mjög lítilli útbreiðslu í sumarlok. Ástand hafíssins er nefnilega orðið það bágborið almennt. Ísbreiðan hefur þynnst mjög á síðustu árum auk þess sem gamall lífseigur ís er nánast að hverfa.

Eins í fyrri hafíspistlum í sumar styðst ég hér við línurit frá hafísdeild dönsku veðurstofunnar þar sem borin er saman útbreiðsla síðustu ára.

Linurit_DMI_15sept2011

Svarta línan sem stendur fyrir 2011 hefur greinilega náð sínum botni og það kannski heldur fyrr en hin árin. Eiginlega var þetta lágmark frekar stutt gaman því útbreiðslan hefur aukist nokkuð á ný síðustu daga og er strax komin upp fyrir 2008 línuna. Þetta var sem sagt ekki eins flatbotna lágmark og oftast áður. En veður og vindar eru síbreytilegir og því ekki útilokað að um einhverskonar tvíbotna lágmark verði að ræða.

Þann 11. september leit ísbreiðan út eins og sýnt er á myndinni hér að neðan en myndin er fengin af Cryosphere today vefnum þar sem sjá má fleiri góðar myndir og línurit. Til samanburðar hef ég útlínað hið sögulega lágmark frá 2007.

CT_11sept2011+min2007

Það sem einkennir ísbreiðuna nú í ár miðað við árið 2007 er að ísínn nú hefur bráðnað nokkuð jafnt allan hringinn með þeim árangri að vel siglingafært er í gegnum Kanadísku heimskautaeyjarnar og einnig norður fyrir Síberíu. Árið 2007 var hinsvegar óvenjulegt fyrir það hversu íslaust svæði át sig langt inn á Norður-Íshafið út frá Austur-Síberíu og inn að miðju en þó án þess að norðaustur-siglingaleiðin opnaðist. Til að ná þessari stöðu þurfti mjög eindregnar veðuraðstæður en spurning er hvernig hefði farið fyrir ísnum ef sömu aðstæður hefðu ráðið í sumar - ekki síst síðsumars.

Ég hef hér aðallega fjallað um útbreiðslu íssins sem er bara ein leiðin til meta ástand íssins og kannski ekki endilega sú besta til sýna hið eiginlega ástand. Stundum er talað um heildarflatarmál ísþekjunnar þar sem þéttleikinn spilar inn í. Í þeim samanburði kemur árið í ár svipað út og 2007 eða er jafnvel enn neðar. Meiru munar þó þegar þykktin er tekin í dæmið og heildarrúmmálið reiknað því þá kemur fram að heildarísmagn hefur ekki verið minna en núna, svo lengi sem þekkt er og hefur auk þess verið á hraðri niðurleið síðustu ár. Útbreiðslan er þó það sem oftast er horft á, kannski vegna þess að útbreiðslan er sýnilegust og auðvitað heldur ísinn sig ávallt við yfirborð sjávar, sama hversu þunnur hann er.


Forsíða DV 12. september 2001 varpar ljósi á atburðina

Í dag 11. september minnumst við einnar mestu hryðjuverkaárásar sögunnar sem sumir segja að hafi breytt heiminum. Sumir segja að hér hafi verið á ferðinni eitt allsherjar blöff og plat sem var skipulagt af þeim sem urðu fyrir árásinni sjálfir. Háleynilegar leyniþjónustur innan Bandaríkjanna hafi skipulagt verkið og því hafi þetta í raun verið allsherjar sjálfsmorðsárás Bandaríkjamanna sjálfra sem liður í heimsyfirráðum. Ýmis teikn þykja renna stoðum undir þessar samsæriskenningar en ég ætla ekki að rekja þær hér.

Eitt atriði frá þessum dögum hefur lengi verið mér hugleikið og hefur aldrei verið rætt en kannski tók enginn hreinlega eftir því á sínum tíma. Forsíða DV þann 12. september 2001 var undirlögð af stórri mynd af því þegar annar turninn hrynur og í fljótu bragði er ekkert athugavert að sjá. Í stækkaðir mynd af forsíðunni má hinsvegar sjá dálítið sem hugsanlega gæti varpað nýju ljósi á atburðina. Ofan á h-inu í stríðfyrirsögninni Ógnarheimur má sjá íslenskan fjárhund sem virðist hinn rólegasti og fylgist með hruninu mikla. Nú veit maður ekki hvort hundurinn sé hluti myndarinnar eða viðbót umbrotsdeildar DV. Einhver skýring hlýtur þó að vera á þessu. Eru þetta dulin skilaboð? Var það kannski hundurinn sem stóð fyrir þessu öllu saman?

DV forsíða 11. september


Sól í Reykjavík og rigning í Danmörku

Á vef dönsku veðurstofunnar hefur það verið gefið út að sumarið hjá þeim hafi verið það næst úrkomumesta frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 19. aldar. Fyrir Danmörku í heild var meðalúrkoma mánuðina júní-ágúst 321 mm og aðeins vantaði 2 mm upp á til að sumarúrkoman felldi metið frá 1980 sem er 323 mm.
Til samanburðar mældist úrkoman í Reykjavík þessa sömu mánuði 83 mm sem er nálægt helmingi meðalúrkomu. Sumarið var einnig þurrt víða vestanlands og raunar líka norðanlands, en mest rigndi þó miðað við meðallag á austurhluta landsins.

Undanfarin sumur hafa verið mjög góð hér á vesturhluta landsins en síðri á austurhlutanum. Að sama skapi hafa undanfarin sumur verið slæm í Norður-Evrópu og varla komið að ráði nema svona endrum og sinnum til undantekninga. Allt hangir þetta auðvitað saman í einni allsherjar örlagahringrás enda er það nú oftast þannig að sjaldan fer saman góðviðristíð í Reykjavík og Danmörku. Lægðirnar hafa verið gjarnar á það undanfarin sumur að fara suður fyrir land og hellt úr sér yfir Norður-Evrópu þar sem íbúar fá vota suðvestanáttina beint í fangið sem þýðir að við hér á landi fáum austan- eða norðaustanáttina í bakið, en við þekkjum vel hvaða misjöfnu afleiðingar það hefur með tilliti til landshluta.

Öðru máli gegnir auðvitað ef hæð sest að yfir Bretlandi en það hefur verið fremur sjaldgæf uppákoma hin síðari sumur. Slíkt er ávísun á lægðargang upp að Íslandi úr suðvestri þannig að allt snýst við. Rigningartíð gengur í garð sunnan- og vestalands með bongóblíðu norðaustanlands og Norður-Evrópu. Spurning hvenær við fáum svoleiðs sumar?
Tíðarfar í Suður-Evrópu á kannski ýmislegt sameiginlegt með tíðarfari í Reykjavík nema kannski hitann. Þar er sólríkt á meðan rignir í Norður-Evrópu og á Austurlandi og öfugt.

Veðurkort 12. sept 2011

Veðurspákort frá Bresku veðurstofunni sem gildir 12. september er nokkuð dæmigert. Öfuga hringrásin í kringum lægðina sést vel ásamt allskonar skiladóti. Lægðin hefur reyndar oftar en ekki haldið sér sunnar en þarna sést enda erum við í talsverði norðanátt núna. Sólar- og rigningartákn eru viðbót frá mér og einnig skyggðu svæðin sem standa fyrir einhverskonar dimm- og votviðri.

Sumarregnsyfirlit dönsku veðurstofunnar: http://www.dmi.dk/dmi/den_vade_sommer_2011


Hversu gott var veðrið í ágúst?

Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn ágústmánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr eigin veðurskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Aukaafurð þessara skráninga er mitt háþróaða einkunnakerfi sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Alslæmir dagar fá 0 í einkunn en algóðir dagar fá 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.


Skráning ágúst 2011Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn ágúst. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta ágústmánaðar miða ég meðallagið við 10-15 stig en seinni hlutann 9-14.

Ágúst 2011 - Einkunn 5,2
Nýliðinn ágúst fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,2 stig sem telst góð einkunn og vel yfir meðallagi. Allir mánuðir frá því í maí hafa verið góðir í Reykjavík og náð einkunn í kringum 5 stig en nýliðinn ágúst gerir betur og fær hæstu einkunn það sem af er ári. Frá því skráningar hófust hefur aðeins einn ágústmánuður náð betri einkunn, en ég kem að því hér síðar.
Mánuðurinn var vissulega sólríkur en margir hafa þó verið sólríkari og hann var hlýr þótt margir hafa verið hlýrri, hinsvegar er þetta með allra þurrustu ágústmánuðum í borginni og að auki fæ ég út að hann hafi verið óvenju hægviðrasamur og er að því leyti eins og bestu vormánuðir. Boxið neðst til vinstri á skráningarsíðunni sýnir tíðni og styrk hverrar vindáttar og þar fær norðanáttin hæsta gildið enda voru 5 norðanáttardagar í röð um miðjan mánuðinn. Hlykkjóttar hægviðrispílur eru algengar en aldrei þurfti ég að teikna tvöfaldar hvassviðrispílur. Talan 43 fæst með því að leggja tölurnar saman í boxinu en þetta er lægsta vindatalan sem ég hef skráð fyrir ágúst. Eftir á að koma í ljós hvort Veðurstofan sé sammála mér þarna.
Hæsti hiti mánaðarins náðist þann 5. ágúst í skýjaðri norðaustanátt og það er eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum í borginni í sumar og voru það akkúrat 20 stig eftir því sem ég best veit. Skráðar hitatölur hjá mér (dálkur á eftir vindörvunum) sýna dæmigerðan hita yfir daginn hverju sinni. Meðaltal þeirra er 13,3° og það getum við kallað dæmigerðan dagshita í mánuðinum.

Bestu ágústmánuðir frá 1986
Ágúst 2004 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður er sögulegur vegna hitabylgjunnar óvenjulegu sem þá reið yfir og þetta er með allra hlýjustu mánuðum sem yfirleitt hafa komið í Reykjavík þótt reyndar hafi verið enn hlýrra að meðaltali árið á undan. Mánuðirinn var einnig mjög sólríkur og þurr og hefði fengið algera úrvalseinkunn ef fyrstu og síðustu dagarnir hefðu ekki skemmt fyrir.
Ágúst 2009 og 2011 - Einkunn 5,2. Hér er nýliðinn mánuður í góðum félagsskap með ágúst 2009. Það sumar var með eindæmum gott í Reykjavík, allavega samkvæmt mínum bókum en sumrin hafa reyndar flest verið mjög góð undanfarin ár hér í borginni. Ágúst 2009 var heldur sólríkari og hlýrri en nú í ár en ekki eins hægviðrasamur.
Ágúst 1987 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður þótt aldeilis góður á sínum tíma enda voru sumrin ansi misgóð á 9. áratugnum. Eins og oft gerist datt botninn úr þessum mánuði í lokin því lengst af stefndi þarna í mun hærri einkunn.
Ágúst 1994, 2003 og 2010 - Einkunn 5,0. Þarna má sjá ágústmánuð í fyrra og hlýjasta ágúst sem mælst hefur í Reykjavík á því hlýja ári 2003. Ágúst 1994 gerði það gott með alhliða gæðum en ekki endilega mörgum sólardögum.

Og þeir verstu:
Ágúst 1995 - Einkunn 4,0. Þarna skráði ég bara 3,5 sólardaga sem segir sína sögu enda var þetta mjög þungbúinn sunnanáttarmánuður sem nýttist betur norðanlands og austan.
Ágúst 2005 - Einkunn 4,2. Einhvern veginn tókst þessum mánuði að falla á prófinu en hann var ekkert afgerandi slakur nema þá helst vegna sterkra vinda úr ýmsum áttum og misslæmum veðrum inn á milli.

Fleiri mánuði nefni ég ekki til sögunnar en allir hinir hafa fengið einkunnir á bilinu 4,4–4,9. Enn eitt góðviðrissumar er að baki hér í Reykjavík. Senn svífur að hausti með kraftmeiri veðrum, meira fjöri og áframhaldandi veðurskráningum. Ég á síður von á að að halda birtingum á þeim áfram nema þjóðin fari fram á það með miklum látum – sem er frekar ólíklegt.


Byggingarsaga Hörpu - myndasería

Frá árinu 2006 einhvern góðviðrisdaginn í lok ágúst hef ég lagt leið mína upp á Arnarhól og tekið ljósmynd af framkvæmdum við tónlistarhúsið Hörpu. Á elstu myndinni frá 30. ágúst 2006 má ennþá sjá hinn horfna Faxaskála, en skömmu síðar voru vinnuvélar mættar á svæðið til að ráða niðurlögum þess mannvirkis. Eftir nokkuð skrikkjótta byggingarsögu er tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin Harpa nú loks risin og búið að vígja hana bæði innvortis og útvortis – að vísu við mismikinn fögnuð borgarbúa. Þótt margt megi segja um þessa framkvæmd þá finnst mér þetta vera vera hin glæsilegasta bygging og ekki er verra að salirnir þykja hljóma afbragðsvel. Sjálfsagt sakna einhverjir þess að sjá ekki Akrafjallið frá Arnarhóli en þeir sjá þó Hörpuna í staðin.

Framkvæmdum á svæðinu er ekki lokið og næst á dagskrá er að reisa heilmikið hótel við hlið Hörpu. Hvernig það mun líta út veit ég ekki, en á meðan fræmkvæmdir eru í gangi er sjálfsagt að halda árlegum myndatökum áfram.

Myndirnar koma hér og er sú elsta fyrst. Ég mæli sérstaklega með þeirri síðustu sem er aukamynd tekin að kvöldlagi.

Tonlistarhus2006

Tónlistarhús 2007

Tonlistarhus2008

Tónlistarhús 2009

Tónlistarhús 2010

Tónlistarhús 2011

Tónlistarhús 2011 kvöld


Tímaflakkið - 3. hluti

Í tveimur síðustu bloggfærslu hef ég sagt dálitla sögu um tímaflakk og nú er komið að lokahlutanum. Best er auðvitað lesa fyrst 1. hluta og svo 2. hluta en annars skildi ég við í frásögninni síðast þar sem ég var staddur á Hlemmi eftir að hafa flakkað alveg óvart aftur til ársins 1980. Í ráðleysi mínu í þessari stöðu datt mér í hug hvort ég gæti haft uppi á sjálfum mér, en þetta sumar fyrir 31 ári var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands. Ég var búinn að finna út að dagurinn sem ég var staddur á væri 18. ágúst 1980 og með smá þolinmæði ætti ég að hitta sjálfan mig 14 ára gamlan með sendlatösku þarna fyrir utan Sláturfélagið, Lindargötumegin. Til að fara þangað hefði verið styttra að ganga Hverfisgötuna en ég ákvað frekar að fara Laugaveginn enda meira líf þar og meira að skoða.

Ég var dálítið farinn að venjast öllum þessum gömlu bílum á götunum og einnig yfirbragði fólksins. Bílarnir voru með léttara yfirbragði og ekki eins straumlínulaga og þeir eru í dag. Þjóðin var ekki komin með jeppadelluna en það mátti samt sjá stöku Bronco-jeppa og ekta Land-Rovera í klassíska stílnum. Fólkið sem ég mætti hafði enga hugmynd að ég tilheyrði næstu öld og ég skar mig ekkert sérstaklega úr fjöldanum. Það voru ekki margir erlendir ferðamenn þarna á Laugaveginum allavega ekki miðað við í dag þar sem annar hver maður talar erlendum tungum.

Allnokkur hús eru horfin í dag og önnur komin í staðinn. Stjörnbíó er þarna á sínum stað en svæðið þar í kring er orðið töluvert miðbæjarlegra en kannski ekki endilega skemmtilegra. Flestar verslanirnar sem ég gekk fram hjá eru nú horfnar, nema auðvitað Vinnufatabúðin. Þarna mátti sjá tískuverslanirnar Faco, Karnabæ, Adam og líka Evu og svo margar aðrar fleiri. Ég fór ekki lengra niður Laugaveginn en að Frakkastígnum og hélt áleiðis þangað niðureftir. Þarna var verslunin Framtíðin en hún hefur reyndar lengi tilheyrt fortíðinni. Það hefði getað verið gaman að kíkja inn í Lúllabúð við Hverfisgötu en þangað var ég stundum sendur til að kaupa eitt og annað fyrir skrifstofufólk Sláturfélagsins. En nú var ég kominn að þessu gamalgróna kjötvinnslufyrirtæki og tók mér stöðu við inngang portsins við Lindargötuna þar sem hvítu Sláturfélagsbílarnir óku inn og út. Þarna gerði ég mér vonir um að hitta sjálfan mig ef biði þolinmóður.

Ég hafði nóg um að hugsa á meðan á biðinni stóð. Hvað myndi gerast þegar upp kemst frá hvaða tíma ég er? Ég veit ekki til að nokkur hafi flakkað svona aftur um tímann og ég var hugsi yfir því, að ef ég hefði farið í svona flakk og gefið mig fram opinberlega þá hefði það örugglega vakið heilmikla athygli. Samt hefur aldrei verið talað um að það hafi gerst. Ég man heldur ekki eftir að ég hafi hitt einhvern á sínum tíma sem gæti verið ég sjálfur í eldri útgáfu en samt beið ég þarna eftir að hitta sjálfan mig 31 ári yngri. Um þetta hugsaði ég fram og aftur þar til allt í einu að ég kannast við strákling með sendlatösku sem kemur þarna á móti. Það var ekki um að villast, þetta var ég sjálfur sem nálgaðist.

Auðvitað er enginn hefð fyrir því hvernig maður ber sig að við svona aðstæður.
„Fyrirgefðu“ sagði ég og vakti þannig athygli mína á mér. „Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“
Ég leit á mig og mér fannst ég greina smá tortryggni í svipnum á mér áður en ég leit á úrið og sagði: „Hún er korter í tvö“.
Þarna sá ég að ég var kominn með bláa úrið sem ég keypti þetta sumar en týndi allnokkrum árum síðar á skemmtistaðnum Broadway.
Ég þakkaði fyrir og samskiptin urðu ekki meiri þarna. Þetta dugði í bili sem staðfesting á því að nú væru til tvær útgáfur af sjálfum mér á mismunandi aldri sem hlýtur að teljast nokkuð sérstakt.

Áfram og meira þurfti að hugsa. Hugsa og hugsa. Ég var kominn niður að Skúlagötunni en þar hefur umhverfið auðvitað gjörbreyst síðan 1980. Nema kannski Esjan sem var þarna á sínum stað. Snjóskaflarnir voru þó stærri og greinilegt að þeir voru ekki að fara að bráðna þetta sumar. En þá hringdi síminn. Já það var ekki um að villast – gemsinn í vasanum var að hringja og það árið 1980!
„Halló“ segi ég.
„Er þetta Emil?“ spyr ókunnug karlmannsrödd.
„Já. Það er hann.“
„Heyrðu … Eins og þú hefur örugglega tekið eftir, þá eru hlutirnir ekki alveg eins og þeir eiga að vera“
„Já, það er alveg greinilegt“ segi ég, en spyr svo „Hver ert þú?“
„Látum það liggja á milli hluta, en ég hef eftirlit með því að hlutirnir gangi rétt fyrir sig og það verður að leiðrétta þetta í hvelli.“
„Hvað meinarðu með eftirlit?“
„Það er heildareftirlitið, við tókum eftir þessu þegar þú hittir sjálfan þig en það á ekki að vera hægt. Eftir stutta stund munum við kippa þér aftur í þinn rétta tíma. Passaðu þig bara á því hvar þú ert“
„Passa mig á því hvar ég er hvað?“

Ég fékk ekki svar við þessu síðasta því þessi fulltrúi heildareftirlitsins eða hvað það nú var, hafði slitið samtalinu. Ég áttaði mig þó á því að ef ætti að kippa mér aftur í nútímann þá skipti máli hvar ég væri staddur enda ekki gott að fá heilt háhýsi ofan á sig við tímaleiðréttinguna. Ég flýtti mér frá Skúlagötunni og hljóp í átt að gamla húsinu sem einu sinni var Franski spítalinn en er tónlistarskóli núna. Þar gerðist það skyndilega og á svipstundu að tilveran breyttist á ný. Í stað Sláturfélagshúsanna voru stóru blokkirnar komnar og bílarnir voru ekki lengur gamlir. Ég var kominn til baka eins og ekkert hafði í skorist.

Eftir að hafa áttað mig, ákvað ég að hringja í vinnuna og sagðist ætla að taka mér frí það sem eftir væri dagsins. Meira gerðist ekki í þessu máli af minni hálfu og ég hef ekki orðið var við eftirköst af þessu óvænta tímaflakki mínu. Þó sá ég í einu dagblaðana daginn eftir, að eldri maður sagði frá undarlegu atviki sem hafði hent hann við Nóatúnið þegar einhver hafi beinlínis hlaupið hann um koll þar sem hann var á ferð á rafskutlu sinni og svo hefði maðurinn bara horfið á staðnum eins og jörðin hefði gleypt hann. Engin vitni að þessu atviki höfðu gefið sig fram, síðast þegar ég vissi.

 


Tímaflakkið - annar hluti

Ég sagði frá því í fyrsta hluta þessarar frásagnar hvernig mér var mjög óvænt vippað allnokkur ár aftur í tímann eftir samstuð við mann á rafskutlu við Nóatúnið. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var sem ég hafði dottið inn í en taldi sennilegast að um væri að ræða árin um eða fyrir 1980. Eftir heimsókn í Tómstundahúsið hafði ég komist að því að gamla krónan var enn í gildi og gat því útilokað árin eftir 1981 – ég var þó ekki alveg viss hvenær myntbreytingin átti sér stað. Ég hafði ákveðið að labba niður að Hlemmi til að fá gleggri mynd af því sem var að gerast ef það væri mögulegt og þar skildi ég við frásögnina síðast.

Mér fannst umhverfið þarna ofan við Hlemm öllu kreppulegra miðað við það sem það er í dag þótt deila megi um hvort minna kreppusástand sé uppi nú en þarna á árunum um 1980, þegar öllu var reddað með endalausum gengisfellingum. Svæðið við Búnaðarbankann ofan við Hlemm hefur talsvert breyst til batnaðar en þar er nú búið að færa til götur og koma fyrir hestastyttunni sem áður var við Miklubraut. Skiptistöðin við Hlemm er þó komin eins og átt von á. Sennilega er hún tiltölulega nýreyst þarna en byggingin þótti mörgum óþarflega skrítin í útliti og framúrstefnuleg. Klukkuturninn sýndi að klukkuna vantaði korter í eitt, sama og mín klukka sýndi.

1980Það var nóg um að vera þarna á Hlemmi og margt um manninn eins og löngum hefur verið. Þrír grænleitir strætisvagnar voru þarna á sama tíma. Úr einum þeirra streymdi fólk á meðan aðrir stigu inn. Þetta var leið nr.3 – Nes Háaleiti – sem einmitt var alltaf vagninn minn. Greinilega voru síðdegisblöðin komin út því gegnum umferðarniðinn mátti heyra kunnugleg köll blaðasölustráka: „Vííííísir eða Daaaagblaðið“. Mér fannst auðvitað tilvalið að kanna hvað blöðin höfðu að segja þennan dag og ekki síður að sjá á hvaða degi og ári ég væri staddur. Ég ákvað að fara inn fyrir til að kíkja á blöðin.

Ég held að ég hafi ekki skorið mig sérstaklega úr hvað varðar klæðaburð þarna inni á Hlemmi. Fólk var vissulega ekki klætt eftir nýjustu tísku okkar tíma en þó var munurinn ekki alger. Til dæmis var ég í gallabuxum eins og margir aðrir en kannski hefur einhverjum þótt svarti TheNorthFace jakkinn nokkuð nýstárlegur. Ég hef samt ekki trú á að nokkur hafi séð að ég væri ráðvilltur aðkomumaður frá árinu 2011. Sennilega hefðu flestir átt von á að slíkur gestur væri meira en lítið framtíðarlega klæddur, kannski í silfursamfestingi með innrauð gleraugu eða eitthvað þvílíkt. Fólkið sem þarna var statt var á öllum aldri, einstaka andlit kannaðist ég við en þó var enginn þarna sem ég beinlínis þekkti. Innanum nokkra unglinga sá ég einn rauðbirkinn strák með kunnuglegan svip. Ég ákvað að heilsa upp á hann.
„Sæll, heitir þú ekki Jón Gnarr?“ spurði ég.
Hann horfði á mig tortrygginn og sagði svo vera. Ég lét undan freistingunni og sagði:
„Haltu áfram að vera þú sjálfur og þú munt enda sem Borgarstjóri“
Ég veit ekki hvað hann hefur haldið um mig, en um leið og ég sagði þetta áttaði ég mig á að það er ekki viturlegt að vera með svona komment með skýrskotunum um framtíðina. Það er aldrei að vita til hvers slíkt getur leitt.

En nú þurfti ég að athuga með sjoppuna til að kíkja á blöðin. „Eru þetta blöðin í dag?“ spurði ég afgreiðslumanninn sem bæði játaði og samþykkti með semingi að ég kíkti aðeins blöðin. Nú var þetta farið að vera spennandi. Í fyrsta lagi sá ég að dagurinn var 18. ágúst 1980, þannig að nú var það komið á hreint. Þetta var rétt dagsetning samkvæmt mínu tímatali en munurinn var 31 ár. Af hverju endilega 31 ár hafði ég enga hugmynd um, en annars skildi ég svo sem ekkert í þessu öllu saman. En það var ekki bara dagsetning, því á forsíðu Vísis var aldeilis stórfrétt. Stór mynd af eldgosi og fyrirsögnin: „Stendur í einhverja mánuði ef að líkum lætur“ og var þar vitnað í Sigurð Þórarinsson jarðfræðing um gosið í Heklu. Hér var greinilega um ræða ræða eldgosið sem kom svo óvænt þetta sumar. Þarna vissi ég betur en Sigurður Þórarinson því þetta gos entist ekki vikuna. Mér fannst mér ég vera öllu nær um þessa tilveru sem ég var lentur í.

En hvað átti ég nú að gera? Skildi ég einhvertíma komast til baka í minn nútíma? Ég var kominn út aftur og stóð fyrir utan skiptistöðina Hverfisgötumegin gegnt Lögreglustöðinni. Átti ég að gefa mig fram við yfirvöld og segja farir mínar ekki sléttar eða átti ég kannski að skoða þennan fortíðarheim betur? Verst var að geta ekki borgað neitt. Fimmhundruðkallinn og nokkrir smápeningar sem ég var með í veskinu dugðu skammt því þetta var á dögum gömlu krónunnar. Ef ég hefði horfið aftur um 30 ár væri staðan allt önnur og ég getað lifað góðu lífi á þessum eina seðli í marga daga. Einnig var möguleiki á að hafa uppi á mínu fólki. Hvað gerðist ef ég bankaði uppá hjá foreldrum mínum, hvernig ætti ég að útskýra það að ég hefði allt í einu elst um 31 ár? Gæti ég kannski þóst vera áður óþekktur ættingi? Hvað með mig sjálfan? Ætli ég geti haft uppi á sjálfum mér? Get ég verið til í tveimur útgáfum á misjöfnum aldri? Ef svo er, hvar ætli ég sé staddur núna? Það er að segja yngri útgáfan af mér.

Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta sumar var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands sem þá var staðsett við Skúlagötuna. Sjálfur var ég þá 14 ára, bráðum 15. Nú ákvað ég, að áður en lengra yrði haldið, að næsta verkefni væri að hafa uppi á sjálfum mér.

- - - - -
Meira um það eftir tvo daga þegar lokahlutinn birtist.

Tímaflakkið - fyrsti hluti

Þetta var þannig að ég var í hádegismat og hafði ákveðið að fá mér smá göngutúr niður Nóatúnið. Það er stundum ágætt að komast aðeins út í hádeginu og fá sér frískt loft. Þegar ég kom að gatnamótunum við Laugaveg hafði ég ekki alveg þolinmæði í að bíða eftir græna karlinum og hljóp yfir götuna og var með allan hugann við bílaumferðina sem er nokkuð hröð þarna. Ég tók hins vegar ekki eftir gamla manninum á rafskutlunni handan götunnar og hreinlega hljóp á hann og kastaðist einhvern veginn áfram. Ég man þó ekki eftir lendingunni eða hvort ég hafi yfirleitt lent, ég man bara eftir mér í loftinu og svo ekki meir þar til ég ligg þarna bara allt í einu á gangstéttinni.

Ég fann strax að það var allt í lagi með mig eftir þessa byltu, engin eymsli eða neitt svoleiðis. Ég skynjaði hinsvegar strax að allt umhverfið var eitthvað öðruvísi en það átti að vera, dregið hafði líka fyrir sólina og heldur svalara var í lofti. Karlinn á rafskutlunni var líka alveg horfinn. Ég stóð upp nokkuð snögglega enda vildi ég ekki láta sjá mig þarna liggjandi. Þó tók ég eftir að einhverjir ökumenn litu á mig en þeir sáu greinilega enga ástæðu til að skipta sér frekar að mér. Sem var ágætt.

En hvað var þetta? Hvað var að gerast? Það sem við mér blasti var sami staður nema að allt leit núna út eins og það gerði fyrir nokkrum áratugum. Í fyrsta lagi voru það bílarnir. Þarna sá ég til dæmis strax tvær Fólkswagen-bjöllur, Volvóbíl árgerð nítjánhundruðsjötíu og eitthvað, sama má segja um Bensinn og Skódann og alla hina. Húsin í kring voru líka eins og ég man eftir þeim fyrir löngu síðan. Víðishúsið blasti við þarna hinumegin við götuna í upprunalegu útliti áður en það var klætt að utan. Svipað má segja um fleiri hús eins og verslunarhúsið kennt við Nóatún á meðan nýlegri hús voru hvergi til staðar. Sá sem ekki hefur lent í tímaflakki á örugglega erfitt með að setja sig í þau spor sem ég var þarna í en það var ekki um að villast að ég hafði horfið aftur í tímann og stóð þarna eins og illa gerður hlutur í röngum nútíma. Sjálfur hafði ég ekkert yngst við þetta flakk, var í sömu fötunum og með sömu hlutina í vösunum. Þetta var greinilega enginn draumur.

Ég leit á úrið og sá að klukkan var rúmlega hálf eitt sem var í samræmi við það sem hún ætti að vera. Ég tékkaði líka á gemsanum sem var enn í gangi en þó gagnslaus og ekki í neinu sambandi við umheiminn. Þessi hádegisgöngutúr ætlaði greinilega að verða dálítið öðruvísi en til stóð og ómögulegt að vita hvernig hann ætti eftir að enda. Í stað þess að ganga áfram niður Nóatúnið ákvað ég að ganga áleiðis að miðbænum, kannski til að sjá hvort þetta sama ástand væri allstaðar en ekki síst þurfti ég að finna einhverja skýringu á þessu og komast að því á hvaða ári ég væri staddur. Á móts við hús Fíladelfíusafnaðarins stöðvaði strætisvagn nr 2, Grandi-Vogar, í sínum gamla mosagrænleita lit. Út úr vagninum steig ung kona með barn og litla barnakerru. Ég ákvað að heilsa konunni sem leit hikandi á mig en heilsaði að lokum á móti. Þarna fékk ég staðfestingu á því að ég var staddur þarna í raun og veru en ekki bara ósýnilegur villuráfandi draugur.

Handan götunnar sá ég að Mjólkurstöðin var enn í fullum gangi í húsunum þar sem nú er Þjóðskjalasafnið. Annað fannst mér þó áhugaverðara en það var Tómstundahúsið sem var uppáhaldsbúðin mín hér áður fyrr. Ég skutlaði mér yfir götuna til að skoða dýrðina aðeins nánar og að þessu sinni komst ég klakklaust yfir. Engin óvænt rafskutla til að skutla mér í jörðina. Tómstundahúsið var nákvæmlega eins og það var í minningunni en þar keypti maður plastmódel í stórum stíl hér áður fyrr. Ég gekk aðeins um í búðinni leit á kunnuglegt úrvalið. Stór sögufræg seglskip eins og HMS Victory Nelsons flotaforingja, og Gullna Hindin hans Francis Drake. Hvortveggja hafði ég límt saman málað og þrætt á allskonar bönd á mínum yngri árum. Þarna voru líka flugvélar eins og Spitfire, Messerschmith, Junkers JU88 og margar fleiri.
„Get ég nokkuð aðstoðað?“ spurði afgreiðslumaður kurteislega.
„Nei nei“ sagði ég. „Ég er bara aðeins að skoða“
Auðvitað hefði ég getað spurt hann út í hvaða ár væri en fannst það ekki viðeigandi. Af verðlaginu að dæma voru gömlu krónurnar enn í gangi. Plastmódelpakki fannst mér kosta eitthvað álíka og hann gæti kostað í dag, en annars er langt síðan ég hef verslað svona.
Ég þakkaði fyrir mig og yfirgaf búðina dálítið hugsi. Átti myntbreytingin sér ekki stað um 1980? Í upphafi þess árs eða var það kannski í ársbyrjun 1981? Ég mundi það ekki alveg. Allavega var ég staddur í Reykjavík fyrir myntbreytingu. Sennilega þó ekki löngu fyrr. Sennilega einhverntíma á árunum 1978-1980. En nú blasti Hlemmur við mér, þar gæti ég vonandi fengið einhver svör.

- - - - -
Annar hluti af þremur mun birtast hér von bráðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband