Færsluflokkur: Jarðfræði

Íslensk fjöll á Grænlandi

SermitsiaqJarðsaga Grænlands er ákaflega löng og slagar hátt í sögu jarðarinnar. Elsta bergið sem fundist hefur á Grænlandi er fornt sjávarberg nálægt Nuuk, um 3,8 milljarða ára gamalt en til samanburðar er Jörðin talin um 4,5 milljarða ára og heimurinn allur eitthvað nálægt 15 milljörðum. Grænland hefur þó yfirleitt ekki verið til sem slíkt fyrr en bara tiltölulega nýlega eftir að Atlantshafið opnaðist. Fram að því, eða á myndunartíma þess, gat það verið í tvennu lagi eða hluti af stærri meginlöndum á eilífu flakki um jörðina og oftar en ekki á Suðurhveli. Fjöllin eru líka misgömul, gjarnan massífir berghleifar t.d. úr gabbró þ.e. fyrrum sjávarset sem umbreyst hefur í djúpberg sem síðar átti eftir að þrýstast upp í fellingafjöll við árekstra meginlandsfleka. Þannig eiga Grænlensku fjöllin mun meira sameiginlegt með Norsku fjöllunum og raunar flestum öðrum fjallgörðum heldur en hinum nýtilkomnu Íslensku.

Basaltfjöll Grænland
En það eru líka til kunnuglegri fjöll á Grænlandi því beint norðvestur af vestfjörðum má finna dæmigerða basalt-hraunlagastafla eins og eru svo algengir hér á blágrýtissvæðum Íslands. Þessir Grænlensku basaltstaflar eru hinsvegar öllu hærri og hrikalegri en okkar enda hvíla þeir á traustum grunni meginlandsfleka ólíkt því sem gerist hér þar sem fjöllin hvíla á mun mýkri skorpu og síga því niður eins og steinn á svampdýmu. Þarna má líka finna hæstu fjallstinda Grænlands og ber þar hæst Gunnbjarnartind, um 3.700 metrar á hæð, eða Hvítserk eins og hann hefur stundum verið kallaður hér á landi. Sjá má Gunnbjarnartind einhverstaðar á myndinni hér að ofan.

Svona basaltfjöll eru samsett úr storkubergi sem verða til þegar hvert hraunlagið leggst yfir annað í milljónir ára. Reglulegir hraunlagastaflar eru rakin vísbending um langvarandi jöklaleysi á viðkomandi stað því hraun renna ekki yfir stór landssvæði undir jökli eins og kunnugt er. Eftir að ísaldajöklar tóku að herja á norðurhveli fyrir um 2-3 milljónum hafa svo jöklarnir verið duglegir við að tálga firði og dali í berglagastaflana og víða skilið eftir hvassa fjallstinda.

GrænlandsreiturÞessi Grænlensku basaltfjöll eru náskyld okkar eigin fjöllum enda eru þarna að finna yngstu bergmyndanir Grænlands. Sameiginleg uppspretta er líka heiti reiturinn, eða möttulstrókurinn, sem nú er staddur einhverstaðar undir Bárðarbungu. Möttulstrókur þessi mun eiga sér langa sögu ef hugmyndir um hann eru réttar því talið er að hann sé langt að kominn. Hafi eitt sinn verið undir Kanadíska heimskautasvæðinu en síðan siglt rólega í suðaustur, farið yfir Grænland fyrir 40-70 milljónum ára og sé nú einmitt staddur hér á landi þessi ármilljónin og tengist eldvirkni Atlantshafshryggjarins. Nákvæmara og réttara er reyndar að segja að möttulstrókurinn sé kyrr á sínum stað en allt fyrir ofan sé á hreyfingu. En allavega þá hefur strókurinn skilið eftir sig ummerki á sinni yfirferð í formi eldvirkni með tilheyrandi storkubergi og basalthraunlögum sem einmitt eru Grænlensku basaltfjöllin sem finna má á afmörkuðum svæðum sitthvoru megin jökuls. Kortið sýnir basaltsvæði tengd heita reitnum með svörtum og gráum lit en tölurnar segja til um ferðalag reitsins í milljónum ára.

Spurning er hvernig sambandi heita reitsins og Atlantshafshryggjarins sé háttað í raun. Ekki er ólíklegt að ferðalag heita reitsins austur yfir Grænland sé stór ástæða fyrir því að Atlantshafið opnaðist að lokum okkar megin við Grænland því framan af, eða á meðan heiti reiturinn var vestanmegin, átti gliðnunin sér stað þeim megin Grænlands. Þetta stökk í gliðnun Atlantshafsins er síðan ástæða þess að Grænland er sérstök eyja.

Samsvarandi basalt-hraunlagastafla af sama uppruna er einnig uppistaðan í Færeysku fjöllunum og einnig þeim Skosku að hluta. Þegar þau hraun runnu var heiti reiturinn að koma austur undan Grænlandi og Atlantshafið að opnast á milli Grænlands og Evrópu. Mikil flæðigos voru á svæðinu á þeim tíma og ekki ólíklegt að sama hraunlagið geti verið að finna í Færeyjum og á Grænlandi. Það hraunlag væri þá töluvert eldra en elstu hraunlög á Íslandi enda myndaðust þau ekki fyrr en eftir að opnun Atlantshafsins var komin vel á veg.

Kortið fengin af síðunni: Reykjanes Ridge Expedition en ég er þó búinn að gera skýrari gula punkta með tölum. Birtist hjá mér áður í bloggfærslunni: Af hverju er Ísland til?

Efri ljósmyndina tók ég sjálfur Nálægt Nuuk í Grænlandi en neðri ljósmyndin er fengin héðan: http://www.summitpost.org/users/bergauf/41964

Surtseyjargos í vændum við Kanaríeyjar?

El Hierro skyringarmynd

Neðansjávargosið sem nú kraumar skammt undan á landi á Kanaríeyjum hefur ekki mikið verið í fréttum undanfarið. Gosið hófst þann 10. október á um 250 metra dýpi um tvo kílómetra suður af El Hierro sem er sú eyja sem liggur lengst í suðvestur af eyjaklasanum. Eftir því sem á gosið líður styttist leiðin að yfirborði sjávar en það gengur þó hægt fyrir sig og enn munu vera eitthvað um 100 metrar að yfirborði. Upplýsingar um það eru þó frekar óljósar. Ummerki gossins eru ekki mikil ofansjávar en hafa verið að aukast síðustu daga þannig að styttast gæti verið í stærri atburði.

El Hierro ljósmyndUmbrotin hafa verið sýnilegust úr lofti þar sem sjórinn tekur á sig hina ýmsu liti vegna uppstreymis gosefna. Rjúkandi flotsteinar hafa líka skotist upp að yfirborði af og til ásamt smástrókum og bólstrum. Lítið sjávarþorp La Restiga er á syðsta hluta eyjarinnar og íbúar fylgjast að vonum grannt með framgagni mála, ef þeir eru þar yfirleitt ennþá.

Surtseyjan-eruption
Eins og í öðrum neðansjávargosum myndast þarna bólstraberg á meðan vatnsþrýstingur er nægur fyrir ofan. Ef gosið heldur áfram í nokkrar vikur til viðbótar kemst það á stig sem margir bíða spenntir eftir og nefnist á alþjóðamáli Surtseyjan-eruption. Á því stigi þeytast háir gufu- og öskubólstrar hundruði metra í loft upp þótt einhverjir tugir metra séu niður að gosopinu sjálfu. Við hér á landi þekkjum svona lagað frá fyrstu stigum Surtseyjargossins og líka af Grímsvatnagosum hin síðari ár. Samkvæmt því sem bæjarstjóri staðarins sagði þann 9. des (gefum okkar að hann hafi vit á málum) þarf um 6-7 vikur til viðbótar, til að mynda nýja eyju. Það yrði þá syðsta eyja Kanaríeyja - rétt eins og Surtsey er hjá okkur. Framhaldið er þó allsendis óvíst því ómögulegt er að spá fyrir um goslengd og hegðun gossins.

Hamfaraflóðbylgja
Fyrir nokkrum árum vakti sá möguleiki athygli að heilu hlíðar sumra eldfjalla á Kanaríeyjum eigi það til að hrynja í sjó fram og valda hamfaraflóðbylgjum vídd og breytt um Norður-Atlantshaf. Fyrir um 50.000 árum gæti ein slík hafa riðið yfir þegar eldfjallið á El Hierro-eyju hrundi í sjó fram en ekki eru þó margir til frásagnar um afleiðingar þess. Mestu áhyggjurnar hafa á okkar dögum beinst að eyjunni La Palma og líst mörgum ekkert sérstaklega vel á ef gos kæmi upp á þeirri eyju. Kannski og vonandi eru þær áhyggjur þó að mestu ástæðulausar og hættan orðum aukin. En þótt hundruð eða þúsundir ára gætu liðið að næsta slíka atburði er ágætt að fylgjast með hvað er að gerast á Kanaríeyjum.

Nánar má fylgjast með gangi mála á Kanarý á síðunni hér: http://earthquake-report.com/2011/09/25/el-hierro-canary-islands-spain-volcanic-risk-alert-increased-to-yellow/

Skýringarmyndin efst er fengin héðan:
http://thewatchers.adorraeli.com/2011/10/11/el-hierro-on-alert-eruption-vent-5-km-from-restinga-at-600-meter-depth/

Ljósmyndin er héðan: http://www.volcanodiscovery.com/view_news/2435/El-Hierro-volcano-Canary-Islands-Spain-eruption-moves-towards-ocean-surface.html


Stórgoslegar Kötluýkjur – eða hvað?

Katla 5des2011

Fréttir af Íslandi sem birtast erlendis hafa gjarnan verið vel kryddaðar. BBC fréttavefurinn er nú sakaður um stórkostlegar ýkjur af afleiðingum næsta Kötlugoss sem sagt er vera yfirvofandi. En hvar endar sannleikurinn og hvar byrja ýkjurnar? Er frétt BBC kannski ekki svo vitlaus eftir allt?

Fyrsta setningin í Frétt BBC er þannig: „Hundreds of metres under one of Iceland's largest glaciers there are signs of a looming volcanic eruption that could be one of the most powerful the country has seen in almost a century“ Ekki get ég séð neitt rangt í þessu. Næsta Kötlugos gæti nefnilega orðið eitt af þeim kröftugustu í næstum öld á Íslandi.

Eftirfarandi atriði í fréttinni hefur einnig verið nefnt sem ýkjur: Mighty Katla, with its 10km (6.2 mile) crater, has the potential to cause catastrophic flooding as it melts the frozen surface of its caldera and sends billions of gallons of water surging through Iceland's east coast and into the Atlantic Ocean. Hvað er rangt þarna? Ég get ekki staðfest tölurnar hér og nú en allir ættu að þekkja þá staðreynd að mikið flóðvatn rennur til sjávar í Atlantshafið í kjölfar Kötlugoss. Réttara er hins vegar að tala um Suðurströndina en ekki Austurströndina. Hvergi kemur fram í frétt BBC, eftir því sem ég fæ séð, að flóðbylgja muni skella á ströndum meginlands Evrópu eða Bretlandseyja.

Ýmislegt er síðan nánar skrifað um hugsanlegt gos og flest að því á svipuðum nótum og fjallað hefur verið um hér á landi. "There has been a great deal of seismic activity," says Ford Cochran, the National Geographic's expert on Iceland. There were more than 500 tremors in and around the caldera of Katla just in October, which suggests the motion of magma. "And that certainly suggests an eruption may be imminent." Yfirvofandi eldgos er sennilega fullmikið sagt þótt ýmis merki séu um óróleika undir Kötlu. Um þetta er lítið vitað og tíminn einn mun leiða í ljós hvert framhaldið verður.

Áfram með fréttina. Eftir tilvitnanir í Pál Einarsson sem ekki er ástæða til að véfengja tala BBC-menn um Skaftárelda og þá æsast leikar: Katla is part of a volcanic zone that includes the Laki craters. In 1783 volcanoes in the area erupted continuously for eight months, generating so much ash, hydrogen fluoride and sulphur dioxide that it killed one in five Icelanders and half of the country's livestock."And it actually changed the Earth's climate," says Mr Cochran. "Folks talk about a nuclear winter - this eruption generated enough sulphuric acid droplets that it made the atmosphere reflective, cooled the planet for an entire year or more and caused widespread famine in many places around the globe. Gallinn við þessa samlíkingu er fyrst og fremst sá að Katla er ekki í neinum tengslum við Lakagíga eins og talað er um í fréttinni því Lakagígar tengjast Grímsvötnum og fengu þaðan sitt hráefni. Eldgjárgosið stóra á 10. öld er hins vegar talið tengjast Kötlu en litlar heimildir eru til um það nema að vitað er að þá kom upp gríðarlegt hraunmagn og sennilega meira en Skaftáreldum. Varla er hægt að búast við slíkum hörmungum hvenær sem er og varla án aðdraganda sem tekið væri eftir.

Einn gallinn við eldgos er að þau láta ekki alltaf vita af sér fyrirfram. Lengi hefur verið talað um yfirvofandi Kötlugos, sérstaklega síðustu 15 ár eða svo. Hvernig það verður og hvenær það verður vitum við ekki. Gosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötum voru samt sem áður góð æfing og áminning um hvað getur gerst varðandi Kötlu. Kannski eru stórgoslegar hörmungar framundan en kannski mun næsta Kötlugos eftir allt, valda stórkostlegum vonbrigðum og alls ekki vera neitt stærra en þau gos sem við höfum séð hér undanfarið.

Frétt BBC http://www.bbc.co.uk/news/world-europe-15995845

Myndin er af Vefmyndavél Mílu 5. des. 2011


mbl.is BBC sakað um ýkjur um Kötlugos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Eyjafjallajökull 2010

Eins og ég hef gert árlega í minni bloggtíð að hausti til ætla ég að leggja mitt mat á það hvar næsta eldgos verður á Íslandi. Sem fyrr eru þessar vangaveltur studdar hæfilega lítilli þekkingu á undirheimum landsins og settar fram meira af kappi en forsjá. Þær eru þó ekki verri en svo að fyrir ári síðan taldi ég mestar líkur á því að næsta gos yrði í Grímsvötnum eins og einmitt varð raunin. Kannski þurfti þó ekki mikla getspeki til. Prósentutölurnar í upptalningunni hér að neðan vísa í hversu miklar líkur ég tel á að næsta gos verði í viðkomandi eldstöð og eru þau líklegustu talin fyrst. Annað mál er svo hvenær næsta gos verður hér á landi. Kannski mun ekkert gjósa hér á næstu árum en kannski verða þau mörg og mikil. Greiningin kemur hér og undir öllum textanum er kort til frekari glöggvunar.

30% Katla er mest umtalaða eldstöðin um þessar mundir og vermir nú efsta sætið á þessum lista í fyrsta skipti. Aukin skjálftavirkni og smágert gos í sumar benda til þess að eitthvað stærra geti verið í undirbúningi. Þótt lítið sé hægt að stóla á hefðir þá segir sagan að Kötlugos fylgi gosi í Eyjafjallajökli. Óvenju langt er líka liðið frá síðasta gosi í Kötlu en samt er ekkert öruggt og ekki er hægt að útiloka að þetta 93ja ára goshlé fram að þessu sé bara hálfnað. Kannski mun koma í ljós í vetur hvort óróinn undanfarið fjari bara út eða endi í almennilegu Kötlugosi. Samkvæmt annálum verða sterkir jarðskjálftar nokkrum klukkutímum fyrir gos sem fara ekki framhjá neinum í grenndinni. Slíkir skjálftar ef þeir verða eru auðvitað gagnleg viðvörun fyrir þau læti og flóð sem munu fylgja fyrstu stigum gossins.

27% Hekla. Fátt virðist vitað hvað er að gerast í Heklu annað en að hún hefur verið mjög virk síðustu 40 ár, gosið nánast á 10 ára fresti og auk þess talin tilbúin í gos. Samkvæmt 10 ára hefðinni hefði Hekla átt að gjósa árið 2010 eða fyrri part 2011 en ekkert bólar þó á slíku. Hekla lætur ekkert vita af sér fyrr en gos er í þann veginn að hefjast, en það mun stafa af því að kvikuþróin er djúpt í jörðu og lítið hægt að fylgjast með. Þetta fræga eldfjall er til alls líklegt þótt 10 ára reglan virðist vera að bregðast. Kannski ætlar Hekla bara aftur í sitt gamla far og gjósa stærri gosum einu sinni til tvisvar á öld nema eitthvað annað og meira sé í undirbúningi.

16% Grímsvötn. Þessi mikilvirka eldstöð er fastur áskrifandi af þremur efstu sætunum hér, en þar sem Grímsvötn hafa nýlokið sér af eru ekki mjög miklar líkur á næsta gosi þar. Líklega mun samt gjósa þarna á ný á næstu 10 árum og því er þetta spurning um hvort aðrar eldstöðvar skjótist inn á milli. Annars var Grímsvatnagosið í vor merkilega öflugt þótt það hafi staðið stutt og gæti verið til merkis um aukna virkni undir miðju landinu miðað við seinni hluta 20. aldar.

7% Bárðarbunga er stór megineldstöð með stórri öskju sem hulin er jökli. Útfrá henni eru gossprungur sem ná út fyrir jökulinn í suðvestur og norðaustur. Hamarinn í vesturhluta Vatnajökuls tengist eldstöðinni beint eða óbeint en þar hefur verið talsvert um skjálfta undanfarin ár og jafnvel smágos í sumar. Síðustu gos tengd Bárðarbungukerfinu sem vitað er um voru norðan Tungnárjökuls seint á á 7. áratug 19. aldar. Bárðarbunga er næst miðju heita reitsins á landinu og hefur af og til verið að minna á sig á síðustu árum með jarðskjálftum sem gætu verið undanfari eldgoss.

6% Askja og nágrenni eru alltaf inní myndinni. Eins og víða annarsstaðar hefur orðið vart við jarðskjálfta síðustu ár þarna á svæðinu. Upptyppingaóróinn var til dæmis mikið í fréttum fyrir nokkrum árum, hann tengist þó kannski öðrum eldstöðvakerfum. Þá var rætt um mögulegt dyngjugos sem staði gæti staðið langtímum saman. Sennilega er einhver bið á meiriháttar Öskjugosi eins og varð á 19. öld. enda varla hægt að búast við svoleiðis nema á einhverra alda fresti. Smærri gos geta þó komið hvenær sem er samanber hraungosið 1961 sem hlýtur að teljast hin þægilegasta gerð af eldgosi og auk þess túristavænt.

5% Reykjanesskagi.
Það væri mikill merkisatburður ef gos kæmi upp á Reykjanesskaga jafnvel þótt ekki yrði um stórt gos að ræða. Ef gos hæfist þarna væri það til merkis um að 700 ára goshvíld væri lokið og framundan væri umbrotaskeið sem stæði með hléum í 300 ár eða svo, með allskonar afleiðingum og veseni. Reykjanesið er mikið jarðskjálftasvæði og þar hafa vissulega komið skjálftahrynur öðru hvoru. Flestir skjálftarnir tengjast þó gliðnun landsins frekar en hugsanlegum eldsumbrotum og því engin ástæða að óttast þó eitthvað hristist þarna. Hinsvegar þykjast menn þó sjá núna einhver merki um hæðarbreytingar sem benda til kvikusöfnunar, aðallega undir Krísuvíkusvæðinu. Meiriháttar hamfarir eru samt ólíklegar og varla þarf að koma til allsherjarýmingar höfuðborgarsvæðisins. Sennilega verður mesta umferðin í áttina að gosstöðvunum frekar en frá þeim, vegna forvitinna borgarbúa með myndavélar.

4% Suðurhálendið. Hér hef ég aðallega í huga sprungugos með talsverðu hraunrennsli sem fóðrað væri frá megineldstöðvunum Kötlu, Grímsvötnum eða Bárðarbungu. Þetta geta orðið meiriháttar gos samanber Skaftárelda og Eldgjárgosið. Væntanlega kæmu slík gos ekki án undirbúnings og mikillar tilfærsla kviku neðanjarðar sem færi varla framhjá vökulum vaktmönnum. Smærri og kurteisari gos geta þó kannski laumast í gegn án mikils undirbúnings. Lítið virðist þó vera að gerast þarna sem bendir til einhvers. Ef rétt er að eldvirkni landsins sé að aukast þarf samt að íhuga þennan möguleika.

5% Aðrir staðir mæta svo afgangi svo sem Vestmannaeyjar, Hengill, Öræfajökull, Mývatnsöræfi, Langjökulssvæðið og svo allir hinir staðirnir sem margir hverjir teljast frekar ólíklegir þótt þeir teljist til eldvirkra svæða. Sumstaðar er líka margt á huldu varðandi innri hegðun svæða, samanber Snæfellsnesið, en eins og Haraldur Sigurðsson skrifar um, þá mun vera eitthvað lítið um jarðskjálftamælingar þar.  

Næsta Gos 2011

 

- - - - - - - - - - - - - - -

Heimildir eru héðan og þaðan. Ljósmyndin sem fylgir er af Eyjafjallajökli, tekin 8. maí 2010.


Manngerðir skjálftar

Hvað með þessa skjálfta á Hengilssvæðinu, á þetta bara að vera svona til frambúðar? Í fréttum er talað um að það sé verið að losa frárennslisvatn frá jarðhitavirkjuninni við Hellisheiði með því dæla því ofan í jörðina. Lítið kemur hins vegar fram um hvort þetta sé framtíðarlausn þótt sennilega sé það svo. Frárennslisvatn sem verður til við virkjunina þarf að losna við með einhverjum hætti en upphaflega stóð til að hafa niðurrensli við Gráuhnjúka. Jarðskjálftarnir eru sagðir vera hættulausir jafnvel þótt þeir séu yfir þremur að stærð. En vita menn það fyrir víst?

Skjálftar HellisheiðiEkki man ég eftir nokkurri umræðu um jarðskjálfta áður en virkjunin var reyst. Kannski vissu menn ekki að skjálftavirknin yrði svona mikil við þessa niðurdælingu en kannski vissu menn það en vildu ekki hræða fólk að óþörfu. Jarðhitavirkjanir eru nógu umdeildar fyrir þótt ekki sé verið að tala um þær gætu valdið jarðskjálftum. Kannski er ágætt að smyrja jarðlögin þannig að jarðlögin hreyfist mjúklega í litlum skjálftum frekar en í fáum og stórum þegar berglögin hrökkva af stað með látum á margra ára fresti. En hvað veit maður? Virkjunin er á miðju vestara gosbeltinu þar sem landið er að gliðna í sundur og utan í megineldstöð að auki. Þótt jarðhitamenn séu rólegir yfir þessu þá finnst mér þetta samt vera frekar leiðinleg viðbót, ekki síst ef þetta á að vera svona til frambúðar. Ég vil hafa ekta jarðskjálfta, ekta eldgos, ekta veður og yfirhöfuð að náttúran sé sem mest ekta.

Meðfylgjandi skjálftakort föstudagsins 23. september eftir líflegan dag á Hengilsvæðinu. Stærsti skjálftinn er áætlaður um 3 að stærð.


mbl.is Fjöldi skjálfta við Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hópsálir eldfjalla

Þótt Grímsvatnagosið hafi ekki gert mikil boð á undan sér er samt ekki hægt að segja að það sé mjög óvænt. Grímsvötn eru í eldvirknisfasa sem byrjaði með smágosi árið 1983 en stærri gosum eftir það. Fyrir 1983 hafði ekki gosið í Grímsvötnum svo talandi sé um síðan 1934.
Það getur verið snúið að ráða í hegðunarmynstur Íslenskra eldfjalla og ekki er alltaf hægt að treysta sögunni. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, sem ég keypti mér nú um helgina, nokkra klukkutíma fyrir gos, er ágætis grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing þar sem hann veltir upp ýmsum erfiðum spurningum varðandi hegðun sunnlensku eldstöðvanna og hugsanlega samtengingu þeirra í virkni. Hugsanlega hefur orðið einhver meginbreyting á hegðun eldstöðvanna á seinni hluta 20. aldar sem lýsir sér með ýmsum hætti.

Katla sem hefur ekki gosið síðan 1918, er nú í sínu lengsta goshléi frá landnámi og engin veit hvenær því líkur. Hinsvegar fóru Vestmannaeyjar í gang með Surtseyjargosinu og síðar Heimaeyjargosinu, á þeim tíma sem vænti hefði mátt eldgoss úr Kötlu.
Hekla tók að gjósa á áratugafresti með gosinu 1970 og sé hún enn í þeim fasa hefði hún átt að gjósa í fyrra. Hinsvegar kom upp gos í Eyjafjallajökli sem vekur upp þá spurningu hvort Hekla hafi nokkurt púður til að láta til sín taka. Ekkert virðist benda til þess að Katla sé að fara í gang þótt sagan segi að hún fylgi á eftir Eyjafjallajökli. Almennileg Kötlugoss gera boð á undan sér með ýmsum hætti svo sem jarðskjálftahrinum, landrisi og uppþornuðum lækjum, ekkert slíkt virðist vera í gangi núna.
Skaftárkatlar hafa hlaupið reglulega á um 2ja ára fresti síðan 1955 sem gæti samkvæmt grein Sigmundar, verið enn eitt tákn um nýjung og jafnvel tengst breyttri goshegðun í Heklu þótt orsakasamhengið sé óljóst.

Nú veit ég ekki, en kannski þykir sumum ástæða til að endirskoða viðteknar hugmyndir sem menn hafa haft um einstaklingseðli og sjálfstæði megineldstöðva. Ef til vill er þær hópsálir og meira þrýsti- og kvikusamband á milli eldstöðvanna en almennt hefur verið talið.


Kilauea 1924


Spádómar.
Hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá hófst núverandi Grímsvatnagos sama dag og heimurinn átti að farast samkvæmt útreikningum amerísks sjónvarspredikara. Sjálfur hef ég stundum verið að leika mér með spádóma samanber mína árlegu haustspádómana um hvar muni gjósa næst á Íslandi. Það sakar ekki að geta þess að í síðustu spá minni voru Grímsvötn efst á blaði:

Líkindi þessa að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð (Spá síðan 27. nóv 2010)

  • Grímsvötn: 34%
  • Hekla: 22%
  • Katla: 15%
  • Eyjafjallajökull (áframhald): 12%
  • Bárðarbunga: 7%
  • Askja og nágrenni: 5%
  • Aðrir staðir: 5%
  • Samtals: 100%

Sbr. hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1120590/

Myndin sem fylgir greininni er útlensk og sýnir eldgos í Kilauea á Hawaieyjum árið 1924.


Hvar verður næsta gos á Íslandi?

Þótt við höfum fengið góðan eldgosaskammt fyrr á þessu ári er ekki þar með sagt að eftirspurn eftir eldgosum hér á landi hafi alveg fjarað út. Frá náttúrunnar hendi virðist líka vera nægt framboð af vænlegum eldstöðvum sem geta kveðið sér hljóðs með litlum fyrirvara. Nú ætla ég að rýna í stöðuna og reyna að meta hvar líklegast er að næsta eldgos gæti orðið hér á landi eins og ég hef gert árlega í minni bloggtíð. Sem fyrr eru þetta algerlega ábyrgðarlausir spádómar enda er ég hvorki jarðfræðingur né sjáandi hverskonar og til marks um litla spádómsgáfu mína þá spáði ég í fyrrahaust að litlar líkur væru á því að næsta eldgos yrði í Eyjafjallajökli. Að vísu hef ég mér það til afsökunar að skjálftavirkni hafði þá legið þar niðri um nokkurt skeið en hófst á ný af tvíefldum krafti stuttu á eftir.

Spádómurinn að þessu sinni kemur hér. Prósenturnar vísa í líkindi þess að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð. Annað mál er hinsvegar hvenær næsta eldgos verður – það gæti komið í næstu viku eða ekki fyrr en eftir 10 ár.

34% Grímsvötn eru alltaf ofarlega á blaði sem næsta líklega eldstöð enda gýs hvergi eins oft á Íslandi. Á dögunum var talað um að eldgos væri þar nánast yfirvofandi sem framhald af Grímsvatnahlaupi en með slíkum atburðum léttir mjög fargi af eldstöðinni. Ekkert hefur orðið af gosi þannig að líkurnar fara minnkandi. Samt mun Grímsvatnaeldstöðin vera nokkurn vegin tilbúin í gos og er talin líkleg hvenær sem er, burt séð frá því hvort vötnin hlaupist á brott eða ekki. Kannski þurfum við samt bíða um sinn, jafnvel til næsta hlaups sem ætti þá að verða eftir nokkur ár. Skaftáreldar flokkast varla sem Grímsvatnagos þótt kvikan hafi verið ættuð þaðan, það er samt ágætt að hafa þennan möguleika í huga en sennilega ekki kominn tíma á slíka atburði.

22% Hekla. Samkvæmt 10 ára reglunni sem Hekla hefur komið sér upp síðan í gosinu 1970 ætti eldstöðin að gjósa á þessu ári. Það hefur ekki gerst enn þannig að nú fara að verða síðustu forvöð. Það má þó gefa Heklu smá frest fram yfir áramót með það í huga að 1990-gosið kom ekki upp fyrr en þann 17. janúar 1991 – sama dag og Persaflóastríð hófst eins og margir muna. Annars má segja sama um Heklu og Grímsvötn, að þrýstingur undir fjallinu mun vera orðinn jafnmikill eða meiri en var fyrir síðasta gos. Varla held ég þó að hægt sé að bóka Heklugos alveg strax og kannski leitar fjallið bara aftur í það far að gjósa sirka tvisvar á öld eins og í gamla daga.

15% Katla minnir á sig öðru hvoru með stöku skjálftum en þó ekki alveg af þeim krafti sem vænta má ef eitthvað mikið er í aðsigi. Katla er stór eldstöð og gýs ekki bara svona allt í einu eins og Hekla gerir. Nú eru liðin 92 ár frá gosinu 1918 en til samanburðar hefur meðalhvíldartími milli Kötlugosa verið nálægt 60 árum. Mjög órætt samband virðist vera á milli Eyjafjallajökuls og Kötlu, en þótt fyrri reynsla sýni að Katla hafi farið af stað eftir gos í Eyjafjallajökli er alls ekki hægt að stóla á að slíkt gerist núna. Allavega eru ekki miklar vísbendingar í gangi um breytingar í Kötlu svo ég viti. Eins og með Kötlu þá má minna á að eitt mesta eldgos á sögulegum tíma á Íslandi, Eldgjárgosið skömmu eftir landnám, var sprungugos út frá Kötlu og fékk þaðan sitt hráefni. Er kannski kominn tími á nýtt svoleiðis?

12% Eyjafjallajökull er kannski ekki alveg búinn að syngja sitt síðasta að þessu sinni. Menn virðast allavega ekki treysta sér til að lýsa yfir goslokum ennþá, hafandi í huga að gosið á 19. öld var sífellt að taka sig upp á ný. Sjálfum finnst mér þó líklegra að þetta sé alveg búið en geri mér þó grein fyrir að allt getur gerst. Ekki vil ég vanmeta þessa eldstöð aftur.

7% Bárðarbunga getur alveg stolið stelunni og verið á undan þessum heimsfrægu eldstöðvum okkar sem hér hafa verið nefndar. Bárðarbunga er mikil megineldstöð og útfrá henni hafa orðið stórgos á Suðurhálendinu en einnig hafa gos tengd þessu kerfi komið upp norðaustan Vatnajökuls. Undir Bárðarbungu er askja og þar hefur í mörg ár verið allnokkur skjálftavirkni af og til sem gæti verið vísbending um að eitthvað sé í undirbúningi. Það er ekki vitað til að gosið hafi í öskjunni sjálfri eftir landnám en síðasta goshrina tengd Bárðarbungu varð vestur af Vatnajökli á árunum 1822-24. Gjálpargosið gæti þó talist til Bárðarbungukerfisins en Grímsvötn gera einnig tilkall til þess.

5% Askja og nágrenni verður einnig að fá að vera með hér. Upptyppingaóróinn fyrir 2-3 árum hefur fjarað mikið út en gæti tekið sig upp aftur og þá kannski ekki alveg á sama stað. Þar er að vísu um að ræða svæði sem einnig tengist Kverkfjallaeldstöðinni. Askja og Dyngjufjöll eru mjög eldvirkt svæði með miklum sprungukerfum í norður og þar gaus mikið á 19. öld. Skjálftavirkni er alltaf einhver á þessum slóðum.

5% Ýmsir aðrir staðir koma svo til greina en eru varla mjög líklegir. Reykjanesgosbeltið er áfram í sínum dvala en gæti alveg farið að rumska á okkar tíð. Eftir landnám hefur ekkert gosið á vestara gosbeltinu á svæðinu frá Hengli og upp í Langjökul. Það hafa annars verið merkilegir skjálftar undanfarið norðan Langjökuls, en ég trúi varla að þar sé eitthvað á ferðinni sem boðar eldgos enda erum við þar eiginlega komin út fyrir eldvirka beltið. Snæfellsneskerfið er síðan í enn fastari Þyrnirósarsvefni. Svo eru staðir eins Torfajökull, Öræfajökull, Vestmannaeyjar og fleiri sem hægt væri að nefna. Hvaða skjálftar voru þetta t.d. í Esjufjöllum norðan Breiðamerkurjökuls?

- - - - -

Myndina af Eyjafjalljökli hér að neðan tók ég laugardaginn 17. apríl á Hvolsvelli á fjórða degi gossins. Margar þeirra mynda sem hafa birst af gosinu voru teknar einmitt þennan dag enda bjart í veðri og gosmökkurinn upp á sitt besta.

Eyjafjallajökull 17. apríl


Goslokaskýrsla II

Eyjafjallajökull 17. apríl

Eftir að gosinu á Fimmvörðuhálsi lauk þann 12. apríl skrifaði ég goslokaskýrslu sem ég þurfti skömmu síðar að kalla Goslokaskýrslu nr. I þegar ljóst var að annað og meira eldgos var hafið á sömu slóðum. Hér kemur því Goslokaskýrsla II, en ómögulegt er þó að segja hvort þær eigi eftir að verða fleiri.

Gosið í Eyjafjallajökli þótti ekki vera gott gos, allavega ekki í samanburði við smágosið á Fimmvörðuhálsi. Þessi tvö gos voru auðvitað mjög ólík enda aðstæður ólíkar. Á Fimmvörðuhálsi var um að ræða sprungugos utan toppgígsins með hraunrennsli og nánast engu öskufalli, síðan kom sprengigos í toppgíg eldstöðvarinnar með miklu öskufalli og hlutfallslega litlu hraunrennsli. Þetta er í fullu samræmi við það að sprengi- og gjóskugos verða gjarnan í toppgígum megineldstöðva en sprungugos með hraunrennsli í útjöðrum. Sprungugosin geta jafnvel verið víðsfjarri megineldstöðinni og orðið mjög stór samanber Skaftárelda þar sem kvikan var ættuð frá megineldstöðinni í Grímsvötnum.

Eins og ég skil þetta með sprungugos með hraunrennsli eða sprengigos með öskufalli þá snýst málið sumpart um að kvikan úr toppgígum kemur beint upp úr efri hluta kvikuþróa þar sem kvikan hefur þróast í að vera súr og þar með sprengvirkari. Hinsvegar er kvikan sem leitar til útjaðra sem sprungugos ættuð neðar í eldstöðinni og því frumstæðari og basískari sem aftur þýðir minni sprengivirkni og meira hraunflæði. Súr sprengigos geta hinsvegar þróast yfir í basískari hraungos eftir því sem líður á gosið þegar nýrri og ferskari kvika nær upp. Svo koma til hlutir eins og gasinnihald og afgösun kvikunnar sem er meiri í súru kvikunni heldur en þeirri basísku. Nánar þori ég ekki út í þessi fræði en vissulega flækir það málið að kvikuþróarkerfi Eyjafjallajökuls er ekki vel þekkt. Þar virðist ekki vera ein allsherjar kvikuþró eins og undir Kötlu.

Öskufallið í gosinu var út af fyrir sig ekki óvænt en gerð öskunnar og afleiðingar hennar virtist koma öllum í opna skjöldu. Þetta var fínleg aska sem sáldraðist niður og fauk um sveitir og haga. Verst var þó hvað hún hélst lengi í loftinu og ferðaðist víða. Þessi víðförula aska olli mikilli röskun á flugi víða um lönd með miklum óþægindum fyrir víðförula heimsborgara og það sem verra er, þetta var ein versta landkynning sem Ísland hefur hlotið og gerði landið enn frægara af endemum en þegar var orðið.

Askan á jöklinum hylur snjóinn að mestu en þykkast ætti öskulagið að vera suður- og austur af toppgígnum. Öskulagið ver því snjóinn fyrir sólbráð í sumar en ný snjóalög munu svo bætast ofaná næsta vetur. Askan hlýtur þó að verða sjáanleg áfram í mörg ár sem svartir rákir á víð og dreif eftir því sem jökullinn skríður og bráðnar á sumrin. Svartur jökull í sumar getur hinsvegar haft jákvæð áhrif á hitafar í sveitunum undir jökli því á sama hátt og askan ver jökulinn fyrir sólarljósi þá kemur askan einnig í veg fyrir kælingu loftsins af völdum jökulsins.

Gígjökull hefur mátt þola miklar árásir af völdum bræðsluvatns og hraunrennslis. Þessi skriðjökull sem rennur ofan úr sjálfum toppgígnum hefur hörfað mikið á síðustu árum og mátti því ekki við miklu. Það er í raun merkilegt hvað jökulsporðurinn hefur þó þraukað í þessum hamförum en á næstu árum ættu afleiðingarnar gossins á jökulsporðinn þó að koma betur í ljós. Söfnunarsvæði jökulsins í toppgígnum sjálfum er orðið minna en áður því gígurinn hefur að hluta til fyllst af gosefnum, einnig mun framskriðið í jöklinum að miklu leyti fara í að græða sárið eða hraungjána sem liggur langleiðina niður eftir skriðjöklinum. Semsagt Gígjökull á eftir að styttast talsvert á komandi árum nema eitthvert ógnar kuldakast hellist yfir okkur.

Framhaldið er svo alveg óvíst. Sagan segir að gos í Eyjafjallajökli eigi það til að taka sig upp að nýju eins og gosið snemma á 19. öld sem stóð með hléum í 15 mánuði. Sjálfur trúi ég því að það mesta sé búið en aldrei að vita nema einhver eftirpúst eigi eftir að gera vart við sig. Djúpir jarðskjálftar geta gefið vísbendingar um framhaldið þannig að ef skjálftar verða á um 20 km dýpi má væntanlega eiga von á nýrri sendingu úr því neðra. Allt virðist þó rólegt á þeim slóðum.

Látum þetta duga, því öllu meira þykist ég ekki hafa vit á málum.

Eyjafjallajökull 8. maí

Séð til gosstöðvanna frá Þórólfsfelli þann 8. maí.

Á efri myndinni er horft frá Hvolsvelli í upphafsfasa gossins þann 17.apríl. (Ljósmyndir EHV)

 


mbl.is Gos liggur enn niðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarakort af Íslandi

Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Eldgos, jarðskjálftar, hafís, óveður og flóð hafa lengi plagað landsmenn og valdið allskonar harðindum í stórum og smáum stíl. Myndin sem hér fylgir er tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni en mjög misjafnt er eftir landshlutum við hverju má búast á hverjum stað.

hamfarakort2
Eldvirknin á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og kannski ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar lítil þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og á Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum ýmiskonar fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir. Flóð geta komið í stærri ár vegna vatnavaxta en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Sandfok sunnan jökla teljast varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins. Þá er bara eftir að minnast á elda sem hér á landi eru aðallega í formi sinuelda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu geta gróðureldar aukist.

Ekki hér á landi
Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Skógareldar verða hér aldrei í líkingu við það sem gerist erlendis og flóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla því að á Atlandshafinu verða ekki stórir jarðskjálftar. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.


Goslokaskýrsla 1

Gosið 3.apríl

Uppærsla 14. apríl: Vegna nýrra atburða skal lýta á þessa skýrslu sem yfirlit um það sem gerðist á Fimmvörðuhálsi. Augljóslega halda eldsumbrot áfram, en á nýjum stað og undir jöklinum. Ég kalla þetta því nú „Goslokaskýrsla 1“, og var upphaflega skrifuð svona að kvöldi 13. apríl:

- - - - 

Nú er gosinu lokið og þjóðin getur farið að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Ýmsir munu þó kannski sakna gossins og jafnvel vonast eftir einhverri endurkomu. Slíkt er auðvitað ekki útilokað. Ég velti því fyrir mér í upphafi gossins hvort það stæði undir væntingum, að hluta til hefur það gert það. Þetta var allan tíman lítið gos en tilkomumikið í návígi, ekki síst vegna umgjarðarinnar í þessu mikla landslagi. Hraunfossarnir voru skemmtileg nýjung í eldgosum hér á landi og buðu upp á mikið sjónarspil, einnig var það spennandi uppákoma þegar ný sprunga opnaðist nánast undir fótunum á glápandi fólki. Mesta mildi þó að það varð engum að fjörtjóni.

Hraunrennslið. Vegna staðsetningar á eldsumbrotunum var strax ljóst að hraunrennslið færi niður hyldjúp gilin fyrir neðan. Ég var ekki einn um að velta fyrir mér hvað gerðist ef hraunið næði niður á Krossáraura og kannski mynda stíflur og jafnvel uppistöðulón. Það hefði verið mikil breyting á umhverfinu og aðstæðum í Mörkinni en gekk ekki eftir. Hraunframleiðslan var aldrei nógu mikil vegna smæðar eldgossins, hraunið var mjög seigt í sér og átti alltaf erfitt með að ákveða hvort það ætti að falla í Hrunagil eða Hvannárgil sem kom í veg fyrir samstilltan hraunstraumi í eina átt. Svo kom það líka í ljós að hraunið hrúgaðist bara upp í giljunum eins og þegar möl er sturtað niður af vörubíl og rann lítt áleiðis er niður var komið. Ef til vill kólnaði hraunið í fossunum of mikið til að það næði að renna áfram þar í neðra.

Nýja fellið, 82 metra hátt, hefur ekki fengið nafn en nafngiftin mun vera stödd í nefnd. Það er þó betra að ákveða nafnið eftir að gosið er búið. Það flækir aðeins málið að þetta er ekki bara eitt fjall því nýrri gígurinn var byrjaður að hlaða upp nýju eldfelli en átti samt nokkurt verk óunnið.

Nú virðast margir ganga að því sem vísu að Kötlugos sé rétt handan hornsins. Slíku verður að sýna þolinmæði. Ég get ekki séð að menn viti almennilega hvernig gos í Eyjafjallajökli geti komið af stað gosi í nágrannaeldstöðinni Kötlu eða hvort slíkt samband sé yfir höfuð til staðar. Allavega virðist ekkert benda til atburða þar núna. Katla gýs kannski bara þegar henni sýnist en gerir væntanlega einhver boð á undan sér.

Næsta gos. Það er auðvitað erfitt að spá fyrir um eldgos. Ég hef þó reynt það af veikum mætti í árlegum spádómum hér á blogginu. Síðasta spá mín frá liðnu hausti kom út skömmu áður jarðskjálftavirkni tók sig upp að nýju undir Eyjafjallajökli og því hafði ég því litla trú á að næsta eldgos yrði þar, eða einungis 4% líkur. Miklu meiri trú hafði ég á Heklu, Grímsvötnum og jafnvel Kötlu. Ný og örugglega jafn hæpin spá verður sjálfsagt gerð næsta haust.

Að lokum kemur hér mynd frá frá því er goshátíðin stóð sem hæst.

Eldgosar


mbl.is Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband