Færsluflokkur: Vísindi og fræði
30.9.2019 | 00:05
Hafíslágmarkið 2019
Sumrinu er lokið á Norðurslóðum og hafís tekinn að aukast á ný eftir hið árlega lágmark í útbreiðslu íssins í september. Eins og venjulega beinist athyglin að þessu hafíslágmarki enda ágætis mælikvarði á stöðu mála miðað við fyrri ár, þótt lágmarkið eitt og sér segi ekki alla söguna. Að þessu sinni var lágmarkið 2019 í 2.-3. sæti yfir lægstu lágmörk, ásamt árinu 2007 sem á sínum tíma var mikið tímamótaár í hafísbráðnun. Árið 2016 var lágmarkið einnig á mjög svipuðum slóðum en er nú strangt til tekið það 4. lægsta. Hafíslágmark sumarsins 2012 heldur þar með sinni afgerandi stöðu en það var einmitt líka mikið tímamótaár eins og sumarið 2007. Á þeim tveimur sumrum má segja að allt hafi gengið upp til að valda sem mestum usla á ísbreiðunni, hvort sem það sé talið gott eða slæmt. Á línuritinu hér að neðan frá NSIDC má sjá samanburð allra ára frá 1979 og eru blátónarnir tengdir áratugum, (sjá einnig yfirlit frá NSIDC hér).
Þarna sést að hafísbráðnun sumarsins 2019 var með mesta móti lengst af sumri og hélt alveg í við árið 2012 þar til allt hrökk í baklás seinni partinn í ágúst með kaldri og illa staðsettri lægð sem gerði sitt til að dreifa úr því sem eftir var af ísnum. Ísbráðnunin náði sér þó aftur á strik með hagstæðum vindáttum undir lokin en keppnin stóð þá við árin 2007 og 2016 á meðan árið 2012 var rækilega stungið af eins og glögglega má sjá.
Sumarið 2019 verður ekki talið neitt tímamótaár þótt útbreiðslan hafi farið þetta neðarlega en um það má segja, svipað og 2016, að aðstæður til að gera sem mestan usla á ísbreiðunni voru bara í sæmilegu meðallagi. Vissulega var sólríkt framan sumri þegar sólin var hæst á lofti, en til að halda forystunni má ekkert klikka undir lokin eins og gerðist þarna seinni partinn í ágúst. Við þekkjum þetta úr íþróttunum þótt auðvitað sé ekki um neina raunverulega keppni að ræða nema fyrir þá sem vilja. Reyndar eru áhyggjukröfur uppi þar sem þetta er hluti af þeim loftslagshamförum sem munu vera í gangi. En hvernig sem það er, þá má segja að vegna almennrar þynningar ísbreiðunnar þarf sífellt minni óvenjulegheit til að bræða ísinn þannig að lágmarksútbreiðslan nálgist 4 milljón ferkílómetra - sem reyndar var óhugsandi fyrir nokkrum áratugum þegar normið í lágmarkinu var nálægt 6-7 milljón km3.
Endum þetta á korti yfir hafísútbreiðsluna þann 13. september, sem var reyndar nokkrum dögum fyrir sjálft lágmarkið. Til samanburðar hef ég sett línu sem sýnir metlágmarks-útbreiðsluna árið 2012.
4.9.2019 | 22:50
Hversu gott var sumarið í Reykjavík?
Ég er auðvitað ekkert fyrstur með fréttirnar að veðrið í sumar hafi verið með allra besta móti suðvestanlands. Mínar prívat veðurskráningar, sem miðast við Reykjavík og hafa staðið yfir frá 1986, staðfesta það auðvitað, en þær veðurskráningar innihalda einkunnakerfi sem byggja á veðurþáttunum fjórum, sól, úrkomu, hita og vindi og fær þar hver dagur einkunn á skalanum 0-8, eins og ég hef oft nefnt á þessum vettvangi. Einkunnir yfir lengri tímabil eru síðan meðaltal þeirra daga sem taldir eru með. Súluritið hér að neðan er ein afurðin úr þessum skráningum en þar má sjá gæðasamanburð allra sumra frá árinu 1986 og er þá miðað við mánuðina þrjá: júní, júlí og ágúst. Útkoman er ekki fjarri því sem kom fram á Hungurdiskunum hans Trausta hér á dögunum þar sem allt annarri aðferð er beitt en sumareinkunn mín fyrir þetta sumar er þó lítið eitt hærri.
Eins og sést á súlunni lengst til hægri var sumarið 2019 meðal hinna þriggja bestu á tímabilinu með einkunnina 5,30 sem er það sama og sumarið 2009 fékk, en vinninginn hefur sumarið 2012 með ögn hærri einkunn, 5,33. Þetta er auðvitað mikil umskipti frá sumrinu í fyrra sem var það næst lakasta á eftir leiðindasumrinu 1989. Landsmenn eru gjarnan misheppnir eða óheppnir með sumarveðrið eftir landshlutum en síðustu tvö sumur hafa öfgarnar í þeim efnum verið með mesta móti og þarf ekki að orðlengja það.
Næsta mynd er einnig unnin upp úr veðurdagbókarfærslum en þar er búið brjóta til mergjar sumarveður alla daga frá árinu 2000 með litaskiptingum sem útskýrð eru undir myndinni. Fjöldi skráðra sólardaga er einnig tekin saman lengst til hægri.
Síðustu tvö sumur eru á sitthvorum endunum þegar kemur að fjölda sólardaga. Sumarið 2019 státar af flestum sólskinsdögum á þessar öld, þegar teknir eru saman heilir og hálfir sólardagar, eða 48 talsins. Það kemur heim og saman við að ekki hafa mæst fleiri sólskinsstundir í Reykjavík þessa mánuði síðan 1929. Þarna ræður mestu mikill sólskinskafli langt fram eftir júní með tilheyrandi þurrkum og svo einnig fyrri partinn í ágúst. Júlí var ekki alveg eins sólríkur en státar þó af því að vera heitasti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst í borginni, en það segir einnig sitt í sumareinkunninni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2019 | 00:01
Af hafísnum í norðri
Sumri er tekið að halla og styttist í árlega lágmarksútbreiðslu hafíssins á norðurslóðum. Að þessu sinni hefur bráðnun hafíssins í sumar verið með mesta móti og jafnvel hefur stefnt í að útbreiðsla íssins að loknu sumri gæti ógnað hinu óviðjafnanlega metlágmarki ársins 2012 sem var mikið tímamótaár hvað varðar hafísbráðnun. Á meðfylgjandi línuriti frá NSIDC (Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni) sést hvernig staðan er í útbreiðslumálum hafíssins. Bláa línan fyrir 2019 er þarna alveg við 2012-línuna og hefur reyndar verið undir henni undanfarnar vikur þar til nú alveg upp á síðkastið. Til samanburðar eru einnig árin 2007 og 2016 sem til þessa eru í 2. og 3. sæti þegar kemur að hafíslágmarki ársins. Svo má einnig sjá þarna árið í fyrra 2018 sem sætti litlum tíðindum í bræðslumálum.
Þeir sem fylgjast hvað gleggst með þessari botnbaráttu eru frekar á því að metárið 2012 muni halda met-stöðu sinni þegar kemur að lágmarkinu í september, þótt ekkert sé útilokað. Lágmarkið 2019 gæti hins vegar vel orðið það næst lægsta nema eitthvert óvænt bakslag eigi sér stað. Á útbreiðslukortum frá 16. ágúst 2012 og 2019 sést hversu litlu munar milli þessara tveggja ára. Upp á framhaldið að gera munar hinsvegar um að þarna árið 2012 voru enn veikburða ísflákar aðskildir frá ísbreiðunni sem biðu þess að hverfa, sem þeir og gerðu. Einnig má sjá að nú í ár er nokkuð um ís við Kanadísku heimskautaeyjarnar sem gæti lifað sumarið af og komið í veg fyrir að norðvesturleiðin opnist. Af litunum að dæma má hinsvegar sjá að lítið er af mjög þéttum ís nú í ár miðað við 2012, en ísinn er þéttari eftir því sem blátónninn er hvítari.
Framhaldið mun síðan koma í ljós. Helst má búast við því að ísinn eigi eftir að hörfa enn meir frá Síberíuströndum enda spáð að hlýir vindar úr suðri muni blása yfir veikburða ísinn á þeim slóðum, samanber skjámynd af hitaspákorti frá Climate Reanalyzer sem sýnir frávik hitans frá meðallagi þann 17. ágúst. Sjálfur Norðurpóllinn, þarna í miðjunni, er þó vel varin frá öllum hliðum og verður varla íslaus í þetta sinn, frekar en fyrri daginn. Það styttist þó í slíkan atburð að öllum líkindum.
- - - -
Sjá einnig sérfræðilegt yfirlit um stöðuna frá NSIDC: http://nsidc.org/arcticseaicenews
6.8.2019 | 22:09
Jöklarnir rýrna samkvæmt gervitunglamyndum
Mér datt í hug að gera smá athugun á því hvernig jöklar hálendisins eru að spjara sig á þessu sumri sem hefur verið í hlýrri kantinum auk þess sem það hófst óvenju snemma í ár með afspyrnuhlýjum aprílmánuði. Samanburðurinn er einungis sjónrænt mat á gervitunglamyndum frá NASA, en á Worldview-vefsíðu þeirra er hægt að kalla fram myndir hvaðan sem er á jörðinni nokkur ár aftur í tímann og gera samanburð milli dagsetninga. Á myndunum sem hér fara á eftir hef ég valið að bera saman dagana 31. júlí, 2017 og 2019 en á þeim dagsetningum var bjart og gott útsýni yfir miðhálendi landsins.
Munurinn á jöklunum er greinilegur milli þessara tveggja sumra. Árið 2017 rýrnuðu jöklar landsins eins og þeir hafa gert síðustu 25 ár eða svo. Mismikið þó. Jöklabráðnun var mest árið 2010 en síðan hafa komið ár eins og 2015 og 2018 þar sem afkoma sumra jökla var meira í jafnvægi eða jafnvel jákvæð. Myndirnar eru af Langjökli, Hofsjökli og vestanverðum Vatnajökli en dekkri jaðrar jöklana nú í sumar bera þess greinilega merki að bráðnun hefur verið öllu meiri en þarna fyrir tveimur árum. Sumarið er þó ekki búið og ekki komið að uppgjöri. Væntanlega mun samt nokkuð draga úr jöklabráðnun með kaldara lofti sem stefnir yfir landið.
29.6.2019 | 22:29
Heimskautsbaugurinn og kúlan í Grímsey
Kúlan mikla í Grímsey sem ætlað er að fylgja heimskautsbaugnum á ferð sinni norður á bóginn er út af fyrir sig snjallt listaverk sem tengist hinum stóru náttúröflum á einfaldan hátt. Reglulega löguð kúla er hið fullkomna þrívíða form og kúlan er auðvitað hnöttótt eins og jörðin sem snýst um sjálfa sig á sinni áralangri hringferð um sólina. En heimurinn er ekki alltaf hreinn og beinn og góðar hugmyndir geta valdið vissum vandræðum þegar kemur að framkvæmdum. Því miður fyrir ferðaþjónustuaðila í Grímsey þarf heimskautsbaugurinn endilega að liggja um norðurenda eyjarinnar, dágóðan spöl frá sjálfu þorpinu, þannig að ferðalangar í stuttri dagsferð til Grímseyjar hafa lítinn tíma fyrir annað en gönguna fram og til baka, ætli þeir sér að berja kúluna augum og stíga formlega yfir heimskautsbauginn.
Ekki skánar þetta með tímanum því heimskautsbaugurinn færist norðar með hverju ári um einhverja 14-15 metra ári sem gerir eitthvað um 20 skref. Kúluna þarf svo að færa til árlega samkvæmt því, enda mun megininntak verksins einmitt vera það að rúlla áfram með heimskautsbaugnum uns kúlan fellur af björgum fram árið 2047 þegar baugurinn yfirgefur eyjuna. Kannski munu einhverjir eyjaskeggjar fagna þeim endalokum enda kostnaðarsamt að vera að brambolta með þennan nýþunga hlunk á hverju ári, bara til að fæla ferðalanga frá veitingahúsum og minjagripaverslunum. Spurning er þó hvort þeir nenni að koma til Grímseyjar ef engin verður þar kúlan og heimskautsbaugurinn kominn út á ballarhaf.
Ferðalag norðurheimskautsbaugsins til norðurs er annars hið merkilegasta í hinu stóra samhengi. Eins og flestir vita þá hallar jörðinni og það um 23,5 gráður sem skýrir tilveru árstíðanna því án hallans væri sífelld jafndægur hér á jörðu og dagurinn allstaðar jafnlangur nóttunni. Norðurheimskautsbaugurinn markar síðan þá breiddargráðu þar sem sólin nær ekki að setjast við sumarsólstöður og ekki að koma upp fyrir sjóndeildarhring við vetrarsólhvörf. Sama á síðan auðvitað við á suðurhveli.
Færsla norðurheimskautsbaugsins til norðurs markast síðan af þeirri staðreynd að halli jarðar sveiflast fram og til baka á um 40 þúsund árum. Á þeim árþúsundum sem við lifum nú er halli jarðar að minnka og mun jörðin vera nálega mitt á milli minnsta og mesta halla en samkvæmt því ættu að vera um 10 þúsund ár þar til hallinn verður minnstur, eða 22,1 gráða. Grímseyingar geta því vænst endurkomu heimskautsbaugsins eftir um 20 þúsund ár og þá kannski náð kúlunni upp úr sjónum hafi þeir áhuga á því, að því gefnu að þá verði ekki skollið á nýtt jökulaskeið og allt í bólakafi undir jökli.
Talandi um jökulskeið þá er umrædd sveifla á möndulhalla jarðar einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á loftslag hér á jörðu á langtímaskala. Möndulhallinn er þar að vísu ekki einn að verki því fleiri afstöðuþættir jarðar gagnvart sólu blandast þar inn (Milankovitch-sveiflurnar). Það er hinsvegar ljóst að þegar halli jarðar er í hámarki þá fer sólin hærra á loft að sumarlagi og þannig var það einmitt á fyrstu árþúsundunum eftir að síðasta jökulskeiði á norðurhveli lauk fyrir um 10 þúsund árum. Í samræmi við það þá er talið að Ísland hafi verið jökullaust að mestu fyrir svona 5-8 þúsund árum og Norður-Íshafið sennilega íslaust að sumarlagi.
En samfara minnkandi möndulhalla, færslu norðurheimskautsbaugsins lengra til norðurs og þar með minnkandi sólgeislunar að sumarlagi, þá hafa jöklarnir smám saman stækkað á ný með hverju árþúsundi. Um landnám voru jöklarnir þannig farnir að taka á sig mynd og áttu eftir að stækka með hverri öld uns þeir urðu stærstir nálægt aldamótunum 1900. Þróunin til minni möndulhalla heldur síðan áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar en hvort það leiði til allsherjar jökulskeiðs er ekki víst. Eins og staðan er núna hefur þróunin til kólnunar og stækkandi jökla snarlega snúist við og varla hægt að kenna (eða þakka) öðru um en hnattrænni hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa, sem reyndar er nú farið að kalla hamfarahlýnun. Það er því ýmislegt í tengslum við þessa kúlu sem má velta fyrir sér.
Öræfajökull á góðum degi (Ljósm. EHV)
Myndin af kúlunni er fengin af viðtengdri frétt á mbl.is.
![]() |
Kúlan ekki úr eynni fyrr en 2047 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.6.2019 | 22:20
Tímamót eða tíðindaleysi framundan í hafísbræðslu sumarsins?
Að venju fylgist ég með stöðu mála í hafísmálum Norður-Íshafsins. Eins og gengur og gerist á þessum tíma árs er sumarbráðnun hafíssins komin vel á skrið og mun halda áfram fram í september þegar hinu árlega lágmarki verður náð. Að venju verður áhugavert að sjá hvernig það lágmark verður því hafísútbreiðslan í lok sumars er ein af hinum stóru viðmiðunum um þróun hafíssins í hlýnandi heimi. Nokkuð er nú liðið síðan síðast var sett met í lágmarksútbreiðslu hafíssins. Lágmarksmetið frá 2012 stendur enn óhaggað en það sumar bráðnaði hafísinn öllu meira en áður hafði þekkst. Síðan þá hafa bræðsluvertíðir verið upp og ofan og hafísinn almennt í jafnvægi þótt útbreiðsla hafíssins hafi vissulega verið mun minni en á fyrri tíð.
Línuritið hér að neðan er að grunni til frá Bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni (NSIDC) og sýnir hvernig hafísútbreiðslan hefur verið öll árin frá 2012. Til samanburðar er grá lína sem sýnir meðaltal áranna 1981-2010. Vetrarhámörkin koma þarna vel fram ásamt sumarlágmörkunum þar sem 2012 hefur ennþá algera sérstöðu.
Eins og staðan er núna í upphafi júní þá er útbreiðslan með minna móti. Mjög svipuð og á sama tíma fyrir ári en árið 2016 var útbreiðslan minnst á þessum árstíma, samanber gulu línuna. Árið 2012 átti þarna eftir að láta til sín taka en vetrarútbreiðslan það ár var reyndar með mesta móti miðað við síðustu ár. Vetrarhámarkið 2019 sætti ekki tíðindum en útbreiðslan í apríl nú í ár var hinsvegar lægra en áður hefur þekkst.
En hvers er svo að vænta? Til að gefa mynd af stöðunni koma hér tvö kort sem sýna útbreiðslu og þykkt íssins eins og hún er metin af kortum frá Bandaríska sjóhernum. Bæði kortin gilda 1. júní. Árið 2018 er vinstra megin og 2019 til hægri.
Þótt heildarútbreiðslan sé mjög svipuð þá er ákveðinn grundvallarmunur á dreifingu íssins sem ræðst af ríkjandi veðrum og vindum á liðnum vetri. Í fyrra var mjög hlýtt á Atlantshafshlið íshafsins og náðu suðlægir vindar og hlýr sjór að halda ströndum Svalbarða íslausum, eins og sjá má sé rýnt í kortið. Aftur á móti safnaðist ísinn fyrir og þykknaði vel norður af Alaska enda bára vindar og straumar ísinn þangað. Nú aftur á móti árið 2019 er þessu öfugt farið. Eftir mjög hlýjan vetur við Alaskastrendur er ísbreiðan nú strax farin að opnast þar verulega og hjálpar þar hæðarsvæði sem skrúfar ísinn frá ströndum þar. Mun meiri ís er hinsvegar við Atlantshafið þangað sem ísinn hefur borist í auknum mæli og lagst kyrfilega að ströndum Svalbarða. Almennt séð ættu þetta ekki að vera góðar fréttir fyrir ísinn enda er svæðið norður af Alaska, Beaufort-hafið, hálfgert forðabúr íssins og verði það fyrir skakkaföllum er ísbreiðan almennt orðin mjög veik fyrir. Hafís sem berst að Atlantshafinu er hinsvegar þangað mættur til að bráðna og á ekki afturkvæmt í partíið.
Sé þetta þannig eins og það virðist vera og verði sumarið hlýtt þarna uppfrá og sólríkt að auki, þá má alveg búast við að bráðnun verði með meira móti þarna í sumar. Allavega eru núna kjöraðstæður fyrir talsverð skakkaföll í ísbreiðunni í sumar. Hinsvegar þarf að bíða og sjá. Lægðargangur, sólarleysi og loftkuldi geta bjargað málum, einkum fyrri part sumars þegar sólin er hæst á lofti. Reyndar er hæðarsvæði ríkjandi núna og hefur verið, með tilheyrandi sólskini.
Að lokum kemur hér kort sem sýnir útbreiðslu íssins í lok síðasta sumars. Að auki hef ég teiknað inn met-lágmarksútbreiðsluna frá árinu 2012. Verður því meti ógnað í sumar? Það vitum við ekki svo glöggt.
- - - -
Sjá nánar á heimasíðu NSIDC: Arctic Sea Ice and News Analysis
3.5.2019 | 21:56
Mánaðarmetin í Reykjavík
Í tilefni af nýju Reykjavíkurmeti meðalhitans í apríl er við hæfi að fara yfir stöðu annarra mánaðarmeta fyrir borgina. Þó að meðalhiti þessarar aldar sé hærri en þegar best gerðist á síðustu öld eru metin samt sem áður frá ýmsum tímum og þá ekki síst frá hlýindaskeiði síðustu aldar sem stóð yfir í um 40 ár. Til grundvallar þeim samanburði sem hér fer á eftir eru tölur frá Veðurstofunni eins og þær eru birtar á Veðurstofuvefnum og ná allt aftur til ársins 1866. Eitthvað mun vera búið að aðlaga eldri tölur til að gera þær samanburðarhæfar við nútímann enda hafa staðsetningar og aðstæður breyst með tímanum.
Til samanburðar við veðurmetin er ég með meðalhita áranna 2009-2018 eins og ég hef reiknað þau. Ég get ekki lofað að þessi samantekt sé alveg villulaus en þó er aldrei að vita nema svo sé.
Mánaðarmet hitans fyrir Reykjavík:
Janúar 1964: 3,5°C (Meðalhiti 2009-2018: 1,2°C)
Hér er það janúar 1964 sem er handhafi mánaðarmetsins en þarna var farið að styttast mjög í lok hlýindaskeiðs síðustu aldar sem hófst um 1926. Það gerist annars ekki oft að meðalhitinn í janúar fari yfir 3 stig. Næsthlýjastur er janúar 1947 með 3,3 stig og svo náði janúar 1987, 3,1 stigi. Hlýjastur á þessari öld er janúar 2013 með 2,7 stig.
Febrúar 1932: 5,0°C (Meðalhiti 2009-2018: 1,4°C)
Mjög afgerandi hitamet sem enginn annar febrúarmánuður hefur komist í námunda við í mælingasögunni. Sá mánuður sem kemst næst því er febrúar árið 1965 þegar meðalhitinn var 4,0 stig á lokaári gamla hlýindaskeiðsins og svo árið 2013 þegar meðalhitinn var 3,9 stig.
Mars 1929: 5,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 1,8°C)
Fyrstu þrír mánuðir ársins 1929 voru allir mjög hlýir og enn hefur enginn mánuður slegið út metmánuðinn mars það ár. Sá eini sem hefur komist nálægt því er mars 1964 þegar meðalhitinn var 5,7 stig. Þrátt fyrir að nokkra hlýja marsmánuði á þessari öld hefur þó engin náð 4 stigum en hæstur var meðalhitinn 3,9 stig árið 2004.
Apríl 2019: 6,5°C (Meðalhiti 2009-2018: 3,8°C)
Þetta splunkunýja mánaðarmet slær út fyrra mánaðarmet, 6,3 stig frá þjóðhátíðarárinu 1974. Í þriðja sæti er apríl á hinu mjög svo hlýja ári 2003, 6,2 stig og í fjórða sæti er apríl 1926 með 6,0 stig.
Maí 1935: 8,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 6,9°C)
Eftir að þetta met var sett árið 1935 er það maí 1960 sem hefur komist næst því, með 8,7 stig. Tveir mánuðir á þessar öld eru á svipuðum slóðum í 3.-4. sæti með 8,6 stig, en það eru maí 2008 og 2017.
Júní 2010: 11,4°C (Meðalhiti 2009-2018: 10,1°C)
Nokkrir mjög hlýir júnímánuðir hafa komið á þessari öld og ber þar hæst metmánuðinn árið 2010 sem náði 11,4 stigum og sló út fyrra met frá 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Júnímánuður 2003 er reyndar ekki einn um þá tölu því sé farið aftur um aldir þá var meðalhitinn einnig 11,3 stig árið 1871 sem hefur verið mjög sérstakt á þeim tímum. Á hlýindaskeiði síðustu aldar náði júníhitinn einu sinni 11 stigum en það var árið 1941 þegar meðalhitinn var 11,1 stig.
Júlí 1991 og 2010: 13,0°C (Meðalhiti 2009-2018: 11,9°C)
Mikla hitabylgju gerði fyrri hlutann í júlí 1991 og var mánuðurinn sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík þar til metið var jafnað á methitasumrinu 2010. Einnig var mjög hlýtt í júlí 2007 og 2009 þegar meðalhitinn náði 12,8 stigum sem og árið 1936 á hlýjasta áratug síðustu aldar. Hér má líka nefna mjög hlýjan júlí árið 1917 sem náði 12,7 stigum, aðeins hálfu ári áður en frostaveturinn mikli var í hámarki.
Ágúst 2003: 12,8°C (Meðalhiti 2009-2018: 11,2°C)
Árið 2003 er hlýjasta mælda árið í Reykjavík og státar af hlýjasta ágústmánuðinum. Sumarið eftir, eða í ágúst árið 2004 gerði svo síðsumars-hitabylgjuna miklu sem dugði þó ekki til að slá metið frá árinu áður, mánuðurinn náði bara öðru sæti með 12,6 stig. Merkilegt er að með metinu 2003 var slegið 123 ára met frá árinu 1880 þegar meðalhitinn var 12.4 stig. Þannig gátu sumrin einnig verið hlý í gamla daga þrátt fyrir kaldara veðurfar.
September 1939 og 1958: 11,4°C (Meðalhiti 2009-2018: 8,6°C)
Hér eru tveir ofurhlýir mánuðir fremstir og jafnir, báðir frá hlýindaskeiði síðustu aldar. Á eftir þeim kemur svo september 1941 með 11,1 stig. Á síðari árum hefur meðalhitinn í september ekki náð að ógna þessum metmánuðum en það sem af er öldinni hefur meðalhitinn komist hæst í 10,5 stig árið 2006.
Október 1915: 7,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 5,3°C)
Október á þessu herrans ári bauð upp á óvenjumikil hlýindi sem enn hafa ekki verið slegin út sé allri óvissu sleppt, og er október því handhafi elsta mánaðarmetsins í Reykjavík. Stutt er þó síðan að hörð atlaga var gerð að metinu því árið 2016 náði meðalhitinn í október 7,8 stigum. Einnig var mjög hlýtt í október 1946 og 1959 sem báðir náðu 7,7 stigum.
Nóvember 1945: 6,1°C (Meðalhiti 2009-2018: 2,7°C)
Enginn vafi er hér á ferð enda er nóvember 1945 afgerandi hlýjastur hingað til. Næstur honum kemur nóvember árið 2014 með 5,5 stig en þar fyrir utan er það bara nóvember árið 1956 sem hefur náð 5 stiga meðalhita, en ekki meira en það þó.
Desember 2002: 4,5°C (Meðalhiti 2009-2018: 0,5°C)
Hlýjasti desember kom snemma á þessari öld en annars eru vetrarhitametin öll frá fyrri tíð. Næstum því eins hlýtt var árið 1933 þegar meðalhitinn var 4,4 stig sem er varla marktækur munur. Til marks um hversu hlýtt hefur verið þessa mánuði er sú staðreynd að eftir 1933 komst meðalhitinn í desember ekki yfir 3 stig fyrr en árið 1987 þegar hann vippaði sér óvænt upp í 4,2 stig.
- - - -
Út frá þessu má velta fyrir sé dreifingu mánaðarmetanna. Sumarmánuðirnir á þessari öld hafa verið duglegri en vetrarmánuðirnir að slá út fyrri met, hvernig sem á því stendur. Sum metin virðast ansi erfið við að eiga, en ef óvenjuleg hlýindi hafa komið áður þá hlýtur annað eins að endurtaka sig fyrir rest, ef rétt er að við lifum á hlýnandi tímum. Uppskriftin að hlýjum mánuðum í Reykjavík er yfirleitt bara nógu miklar suðaustanáttir eða hlýtt loft af þeim uppruna, eins og raunin var núna í apríl. Öfgar í þessum efnum geta síðan skilað sér í metmánuðum á hvaða tímum sem er.
Hér að neðan hef ég raðað metmánuðunum niður á köld og hlý tímabil frá 1866. Hlýindaskeið síðustu aldar sem stóð í um 40 ár hefur enn vinninginn í fjölda metmánaða hér, en hafa má í huga að núverandi hlýindaskeið hefur aðeins staðið í um 23 ár og sér svo sem ekki fyrir endann á því.
1866-1925 (kalt): október.
1926-1965 (hlýtt): janúar, febrúar, mars, maí, september og nóvember.
1966-1995 (kalt): júlí.
1996-2019 (hlýtt): apríl, júní, júlí, ágúst og desember.
- - - -
Upplýsingar frá Veðurstofunni yfir hitann í Reykjavík er hægt að finna hér:
Mánaðargildi fyrir valdar stöðvar og hér: Lengri meðalhitaraðir fyrir valdar stöðvar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.4.2019 | 21:06
Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa
Samkvæmt venju er nú komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu vikuna í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og eru myndirnar því orðnar 14 talsins og koma hér fyrir neðan í öfugri tímaröð ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum frá borginni séð.
Nú er nokkuð um liðið síðan Esjan varð alveg snjólaus en það gerðist síðast árið 2012. Aftur á móti þá hvarf snjór í fjallinu allan fyrsta áratug þessarar aldar (2001-2010) og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Sumarið 2011 var reyndar alveg á mörkunum og því næstum hægt að tala um 12 ára tímabil sem Esjan varð snjólaus. Þessi áratugur hefur reyndar ekki verið neitt kaldari að ráði en sá síðasti, en hinsvegar hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur haft sín áhrif. Einnig spilar inn í að ef skafl lifir eitt sumar þá leggst hann undir það sem bætist við veturinn eftir og þarf því meira til sumarið eftir.
Að þessu sinni eru Esjan vel hvít í efri hlíðum og smáskaflar ná langleiðina að fjallsrótum enda gerði duglega snjókomu í upphafi mánaðar en síðan þá hefur sólin talsvert náð að vinna á snjónum. Útsynningséljagangur einkenndi veðráttuna seinni hluta marsmánaðar en Esjan var reyndar orðin nokkuð snjólétt áður en til þess kom, þannig að mest áberandi snjórinn er tiltölulega nýr og þá væntanlega með minna mótstöðuafl en hinir eldri harðkjarnaskaflar sem undir lúra. Með hagstæðu tíðarfari ætti að vera mögulegt fyrir fjallið að hreinsa af sér allan snjó fyrir haustið. En það mun bara koma í ljós.
Vísindi og fræði | Breytt 7.4.2019 kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2019 | 23:36
Um klukkuna og miðvökutíma
Þeir sem eru fylgjandi því að seinka klukkunni hafa lagt áherslu á kosti þess fyrir lýðheilsu landans að klukkan sé í meira samræmi við gang sólar en nú er. Fleiri sólarstundir á morgnana sé náttúruleg heilsubót og drífi fólk á fætur hressara í bragði og glaðari inn í daginn. Það sé því algerlega tímabært að gera eitthvað í þessum málum og seinka klukkunni um svo sem eins og eina klukkustund eða jafnvel eina og hálfa, þannig að sólin sé í hádegisstað klukkan tólf á vesturhluta landsins en ekki um klukkan 13:30 eins og nú er. En hinsvegar. Ef maður skoðar dæmigerðan vökutíma landsmanna með tillit til sólarbirtu þá er kannski ekki alveg víst að seinkun klukkunnar sé einhver raunveruleg leiðrétting. Kannski er því bara öfugt farið. Til að skoða það betur vil ég beina athyglinni að því sem ég kalla miðvökutíma sem ég ætla að reyna að útskýra með hjálp mynda, og hvernig mismunandi klukka og vökutími hefur áhrif á þennan miðvökutíma.
Fyrst hef ég teiknað upp hinu gömlu tímaviðmiðun Eyktartal sem hér var við lýði áður en raunverulegar klukkur komu til sögunnar, hvað þá samræmd ríkisklukka. Við gerum auðvitað ráð fyrir að fólk hafi áður fyrr lifað í réttum takti við birtuna og náttúruna, ótruflað af stimpilklukkum og stundarskrám nútímans. Hver staður hafði þá sína viðmiðanir sem voru fjallstindar og önnur kennileiti á hverjum stað. Sólin var þá í hásuðri á hádegi. Alls voru átta eyktir í sólahringnum og hver eykt því þrír tímar samkvæmt nútímatali. Tveimur eyktum fyrir hádegi, eða kl 6, voru rismál og má því gera ráð fyrir að það hafi verið eðlilegur fótaferðatími fólks. Náttmál voru síðan þremur eyktum eftir hádegi eða kl. 21 að okkar kvöldtíma. Kannski var þetta ekki alveg fullmótað, spennandi húslestur gat mögulega dregist á langinn stöku sinnum.
Miðað við þennan vökutíma milli rismáls og náttmáls er ljóst að miðvökutíminn hefur verið klukkan 13.30 á dögum gömlu eyktarstundanna, en þá er jafn langur tími frá því fólkið fór á fætur og þar til það lagðist til hvílu. Það er einni og hálfri klst. eftir að sólin er í hádegisstað. Um jafndægur að vori og hausti kæmi sólin upp við rismál og sest þremur tímum fyrir náttmál eins og miðað er við í myndinni.
Í framhaldi af þessu skoða ég næst núverandi stöðu hér á landi. Er tilvera okkar algerlega úr takti við gang sólar, eða kannski ekki svo mjög?
Samkvæmt núverandi stöðu með óbreyttri klukku gef ég mér það að dæmigerður fótaferðatími landans sé kl. 7.30, hvunndags. Sumir vakna vissulega seinna, sérstaklega um helgar, og sumir enn fyrr, og sé fólk vakandi í 16 tíma eins og eðlilegt þykir, þá er miðvökutíminn í þessu tilfelli kl. 15:30, sem er tveimur klst eftir að sólin er í hádegisstað um kl. 13.30. Þarna munar ekki nema hálftíma á miðvökutíma gamla eyktartalsins og núverandi klukku og skýrist af 16 tíma vöku í stað 15. En eftir sem áður kemur sólin upp á fótaferðatíma um vor- og haustjafndægur.
Þá er næst að skoða breytta klukku eða "rétta klukku" eins og talað er um, þannig að sólin sé í hásuðri klukkan 12 á hádegi. Morgunbirtan færist þá framar og að sama skapi dimmir fyrr síðdegis.
Miðað við sólarhádegi klukkan 12 og óbreyttan vökutíma þá hefur sólin skinið í einn og hálfan tíma fyrir fótaferðatíma um jafndægur. Miðvökutíminn er eftir sem áður klukkan 15:30 en er nú orðinn þremur og hálfum tíma eftir sólarhádegi sem þarna er klukkan 12. Sem sagt komin stóraukin skekkja á milli miðvökutíma og sólarhádegis. Á dögum hins gamla eyktartíma var þessi munur hinsvegar ekki nema einn og hálfur tími eins og sést á fyrstu myndinni og tveir tímar samkvæmt núverandi klukku.
Með því að breyta klukkunni svona þá færist sólarbirtan inn í svefntíma að morgni og kvöldmyrkrið inn í vökutíma að sama skapi. Birtan yrði þá hreinlega allt of snemma á ferðinni miðað við hefðbundinn vökutíma. Samkvæmt gömlu eyktarstundunum vaknaði fólk á sama tíma og sólin kom upp um jafndægur og þannig er það einnig í dag. Ef klukkunni yrði hinsvegar breytt kæmi fram skekkja í þessum málum. Hana vissulega má leiðrétta með því að fólk vakni fyrr á morgnana og fari fyrr í rúmið á kvöldin. Út úr því kæmi hinsvegar sama staða mála og er í dag, og má því spyrja: Hverju vilja menn breyta? Breyta klukkunni svo fólk vakni fyrr, til þess eins að fá sömu stöðu og í dag? Hví þá að breyta því sem er í lagi? Klukka er bara klukka og það skiptir í raun engu máli á hvaða tölustaf vísarnir benda hverju sinni varðandi sólargang og vökutíma. Á endanum hlýtur aðalatriðið að vera að vökutíminn sé í sæmilegu samræmi við sólargang, eins og hann er í dag. Eða hvað? Þetta er allavega eitthvað til að pæla í.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.1.2019 | 22:29
Veðurannáll 2015-2018 - Hitasveiflur á uppgangstímum
Þá er komið að síðasta hlutanum að sinni í þessari samantekt um veður og annað markvert á liðnum árum en nú eru það fjögur síðustu ár sem tekin verða fyrir. Fyrir utan allskonar pólitískar uppákomur er það hin mikla fjölgun ferðamanna og erlends vinnuafls sem helst er frásögum færandi á þessu uppgangstímabili sem mælist vel í fjölda byggingakrana. Vinsælir ferðamannastaðir og ekki síst miðbæjarlíf Reykjavíkur tók miklum stakkaskiptum þar sem ægði saman fólki frá öllum heimshornum og dugði íslenskan skammt vildu menn panta sér kaffi og meððí á rótgrónum kaffihúsum. Þessir ferðamenn virtust nokkur sælir með tilveruna þótt þeir hafi kveinkað sér sífellt meir undan verðlaginu. Misgóða veðráttuna á þessum fjórum árum létu þeir þó minna á sig fá. Eftir mjög hlýtt ár 2014 hófst þetta tímabil með kaldasta ári aldarinnar og óttuðust þá margir að hlýindaskeiðinu væri endanlega lokið enda hafði kólnað í Reykjavík um 1,5 stig á milli ára. En svo var þó ekki alveg því enn eitt óvenjuhlýja árið fylgdi strax í kjölfarið áður en það kólnaði á ný. Þannig vill þetta ganga fyrir sig. Nánar um það hér á eftir.
Miðbær Reykjavíkur á köldum nóvemberdegi árið 2017.
Árið 2015 var meðalhitinn í Reykjavík 4,5°C stig og eins og fyrr segir kaldasta árið það sem af er öldinni og veðurgæði heldur lakari en árin á undan. Fyrstu þrjá mánuðina og fram yfir miðjan apríl var veður mjög umhleypinga- og illviðrasamt á köflum auk þess sem hiti var í lægri kantinum. Um sumardaginn fyrsta snérist til kaldra norðlægra átta með bjartari tíð fyrir sunnan, en fyrir norðan lét vorið bíða eftir sér. Maímánuður var með allra kaldasta móti og í Reykjavík reyndist hann sá kaldasti allt frá hinum ofursvala maí 1979. Júní var lengst af frekar slakur sumarmánuður þar til hlýnaði nokkuð síðustu vikuna. Fyrri hluti ársins í Reykjavík var undir meðalhita áranna 1961-90 og þótti sérstakt. Sumarið varð þó heldur skárra í borginni en sumrin tvö árin á undan en júlí var nokkuð sólríkur í ríkjandi norðanáttum. Öllu síðra var norðan- og austanlands í júlí og ágúst. Veðrið í september slapp vel fyrir horn víðast hvar en síðustu þrír mánuðirnir voru úrkomusamir og reyndist árið í heild það úrkomusamasta frá 2007 í Reykjavík. Mikið fannfergi gerði í borginni í lok nóvember og dagana 2. til 4. desember mældist þar meiri snjódýpt en áður í þeim mánuði, 42-44 cm. Hélst sá snjór á jörðu út árið. Af fjölmörgum lægðum ársins mældist sú dýpsta milli jóla og nýárs, 930 mb, en svo lágur loftþrýstingur hefur ekki mælst á landinu síðan 1989.
Árið 2016 náði hitinn sér vel á strik á ný. Meðalhitinn í Reykjavík var 6,0 stig og árið með þeim allra hlýjustu sem mælst hafa þar, en á Vestfjörðum og víðar var árið jafnvel hlýjasta árið frá upphafi. Hlýnunin frá árinu á undan í Reykjavík var 1,5 stig sem er mesta hlýnun á milli tveggja ára í mælingasögunni. Jafnmikið hafði reyndar kólnað milli áranna tveggja á undan enda voru árin 2014 og 2016 jafn hlý. Árið 2016 byrjaði reyndar ekki með neinum sérstökum hlýindum. Meðalhitinn í janúar var í slöku meðallagi og einkenndist af eindregnum austanáttum en febrúar var kaldur og nánast alhvítur í Reykjavík. Í mars tók við hlýrri tíð sem hélst meira og minna út árið. Nokkuð þurrt var víðast hvar um vorið og einnig fram eftir júnímánuði. Júlí var mjög góður sumarmánuður sunnan- og vestanlands en heldur daprari fyrir norðan og austan. Veðurgæðum var síðan nokkuð vel útdeilt um landið í ágúst en í september rigndi heldur meira norðanlands en sunnan. Eftir frekar tíðindalausa tíð kom óvenjulegur októbermánuður með hlýjum og blautum suðaustanáttum. Víða á landinu var þetta hlýjasti október sem komið hefur og í Reykjavík hafði aldrei mælst önnur eins úrkoma í október. Áfram héldu hlýindi í nóvember og færðust jafnvel í aukana í desember. Síðustu daga ársins var veðrið rysjóttara og náði snjór að festast á jörðu til hátíðabrigða.
Árið 2017 var meðalhitinn í Reykjavík 5,5 stig sem er nálægt meðalhita aldarinnar það sem af er. Raunar var hiti ársins mjög svipaður og á árinu á undan þar til kom að síðustu tveimur mánuðunum sem voru allt annað en hlýir. Árið hófst með nokkuð mildum janúar með fjölbreytilegum veðrum en febrúar var mjög hlýr og snjóléttur á landinu. Í Reykjavík breyttist það á einni nóttu undir lok mánaðarins sem skilaði meiri snjódýpt en áður hafði mælst þar í febrúar, 51 cm. Ekki varð framhald á fannferginu en mars var mjög þægilegur víðast hvar og apríl einnig þótt blautur væri. Maí var að þessu sinni óvenju hlýr en að sama skapi úrkomusamur. Sumarið var frekar tíðindalítið í heildina. Sólarlítið var reyndar norðanlands framan af en það jafnaðist í júlí. Suðvesturlandið hafði síðan sólarvinninginn í ágúst. Hlýtt var í september og október. Eftir óvenjuleg hlýindi norðaustanlands í september tók mjög að rigna í suðausturfjórðungi sem gat af sér flóð og skriðuföll. Eftir ágætis hlýindi kólnaði mjög í nóvember, sérstaklega í nokkurra daga norðanskoti seinni hluta mánaðarins. Áfram var kalt í desember sem reyndist kaldasti mánuður ársins. Í Reykjavík endaði árið með algeru logni á gamlárskvöld með umtalaðri flugeldamengun.
Árið 2018 var meðalhitinn í Reykjavík 5,1 stig sem er í lægri kantinum eftir að hlýna tók upp úr aldamótum. Þó vel fyrir ofan opinberan meðalhita sem er 4,3 stig og miðast við 1961-1990 sem var mun kaldara tímabil. Veðurfar ársins 2018 í Reykjavík þótti reyndar stundum minna á fyrri kulda- og vosbúðarár þegar verst lét og ekki fær árið háa einkunn samkvæmt einkunnakerfi mínu. Fyrstu tvo mánuðina var hitafar þó á eðlilegu róli í annars umhleypingasamri tíð. Fyrri partinn í mars var mjög sólríkt sunnanlands samhliða vetrarríki norðanlands en seinni hlutann snérist í hlýjar sunnanáttir sem lyfti meðalhita mánaðarins vel yfir meðallag. Hlýindi héldu áfram í apríl í ríkjandi austan- og suðaustanáttum. Í maí gekk hinsvegar á með stífum sunnan- og suðvestanáttum sem skiluðu mestu úrkomu sem mælst hafði í Reykjavík í maímánuði á meðan mun hlýrra og sólríkara var norðan- og austanlands. Svipuð tíð hélt áfram í júní sem reyndist sólarminnsti júní í Reykjavík síðan 1914 og sá kaldasti það sem af er öldinni. Þótti þarna mörgum borgarbúanum alveg nóg um. Um miðjan júlí snérist til heldur skárri tíðar og undir lok mánaðar rauk hitinn upp og náði 23,5 stigum í Reykjavík sem er mesti hiti sem mælst hefur í borginni frá hitametsdeginum sumarið 2008. Fremur svalt var á landinu frá ágúst til október miðað við mörg síðustu ár en þó ágætis veður suðvestanlands nema kannski í október. Síðustu tveir mánuðir ársins voru hinsvegar hlýir á landinu og lyftu meðalhita ársins í skikkanlegt horf. Dágóðar rigningar fylgdu sumum hitagusunum eins og úrhellið óvenjulega upp úr miðjum nóvember. Snjór var að sama skapi lítill sunnanlands á láglendi og til fjalla fram að áramótum. Hér má þó nefna að skaflar lifðu í Esjunni öll ár þessa tímabils og vantaði reyndar nokkuð upp á að þeir hyrfu á árunum 2015 og 2018.
Sjaldséðir skýstrókar og ranaský, mynduðust á Suðurlandi 2. og 24. ágúst og feyktu hinir síðari heilu þökunum af útihúsum. Annálaritari náði ljósmyndum einum sem myndaðist yfir Selvogi. Sjá umfjöllun í Fréttablaðinu.
Af öðrum þáttum náttúrunnar ber fyrst að nefna gosið í Holuhrauni sem enn var í gangi í ársbyrjun 2015. Það mikla hraungos fjaraði út í lok febrúar eftir 6 mánaða virkni. Ekki urðu fleiri gos á tímabilinu og enn gaus ekki í Kötlu sem um haustið 2018 náði 100 árum í hvíldarstöðu. Öræfajökull fékk hins vegar óvænta athygli með aukinni skjálftavirkni árin 2017 og 2018 og sér ekki fyrir endann á því.
Af hnattrænum vettvangi verður ekki hjá því komist að nefna að hitafar jarðar náði nýjum hæðum, fyrst árið 2015 sem var heitasta árið á jörðinni sem mælst hafði en árið 2016 bætti um betur og varð enn hlýrra. Hitaaukninguna má rekja til mjög öflugs El-Nino ástands í Kyrrahafinu veturinn 2015-16 sem lagðist ofan á hina almennu hnattrænu hlýnun sem sumir gera sér enn vonir um að séu ekki af mannavöldum, þeirra á meðal umdeildur forseti Bandaríkjanna. Þessi annáll tekur ekki afstöðu til þess en vísar í síðari tíma óskrifaða annála. Óvíst er hversu mikið hægt er tengja hnattræna hlýnun við þurrkana miklu í Kaliforníu og mannskæða skógarelda samfara þeim, eða myndum allnokkurra fellibylja sem ollu tjóni á Karíbahafi og Bandaríkjunum að ógleymdum þeim sem herjað hafa á Filippseyjar og Japan. Sífellt bætast við nýjar áskoranir þegar kemur að lifnaðarháttum mannsins hér á jörðu. Hið nýjasta í þeim efnum er plastúrgangurinn í höfunum en sá vandi kom svo sannarlega upp á yfirborðið árið 2018.
Látum þetta duga þótt ýmislegt fleira mætti nefna. Næsti fjögurra ára annáll verður auðvitað ekki tilbúinn fyrr en að fjórum árum liðnum en stefnt er að birtingu hans á þessum vettvangi þann 4. janúar 2023, kl. 20:23, hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.
Fyrri annálar:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi
Veðurannáll 2011-2014 - Misgóð tíð
Vísindi og fræði | Breytt 6.1.2019 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)