Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Tímamót eða tíðindaleysi framundan í hafísbræðslu sumarsins?

Að venju fylgist ég með stöðu mála í hafísmálum Norður-Íshafsins. Eins og gengur og gerist á þessum tíma árs er sumarbráðnun hafíssins komin vel á skrið og mun halda áfram fram í september þegar hinu árlega lágmarki verður náð. Að venju verður áhugavert að sjá hvernig það lágmark verður því hafísútbreiðslan í lok sumars er ein af hinum stóru viðmiðunum um þróun hafíssins í hlýnandi heimi. Nokkuð er nú liðið síðan síðast var sett met í lágmarksútbreiðslu hafíssins. Lágmarksmetið frá 2012 stendur enn óhaggað en það sumar bráðnaði hafísinn öllu meira en áður hafði þekkst. Síðan þá hafa bræðsluvertíðir verið upp og ofan og hafísinn almennt í jafnvægi þótt útbreiðsla hafíssins hafi vissulega verið mun minni en á fyrri tíð.

Línuritið hér að neðan er að grunni til frá Bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni (NSIDC) og sýnir hvernig hafísútbreiðslan hefur verið öll árin frá 2012. Til samanburðar er grá lína sem sýnir meðaltal áranna 1981-2010. Vetrarhámörkin koma þarna vel fram ásamt sumarlágmörkunum þar sem 2012 hefur ennþá algera sérstöðu.

NSIDC línurit 1. júní 2019

Eins og staðan er núna í upphafi júní þá er útbreiðslan með minna móti. Mjög svipuð og á sama tíma fyrir ári en árið 2016 var útbreiðslan minnst á þessum árstíma, samanber gulu línuna. Árið 2012 átti þarna eftir að láta til sín taka en vetrarútbreiðslan það ár var reyndar með mesta móti miðað við síðustu ár. Vetrarhámarkið 2019 sætti ekki tíðindum en útbreiðslan í apríl nú í ár var hinsvegar lægra en áður hefur þekkst.

En hvers er svo að vænta? Til að gefa mynd af stöðunni koma hér tvö kort sem sýna útbreiðslu og þykkt íssins eins og hún er metin af kortum frá Bandaríska sjóhernum. Bæði kortin gilda 1. júní. Árið 2018 er vinstra megin og 2019 til hægri.

1. júní 2018-19

Þótt heildarútbreiðslan sé mjög svipuð þá er ákveðinn grundvallarmunur á dreifingu íssins sem ræðst af ríkjandi veðrum og vindum á liðnum vetri. Í fyrra var mjög hlýtt á Atlantshafshlið íshafsins og náðu suðlægir vindar og hlýr sjór að halda ströndum Svalbarða íslausum, eins og sjá má sé rýnt í kortið. Aftur á móti safnaðist ísinn fyrir og þykknaði vel norður af Alaska enda bára vindar og straumar ísinn þangað. Nú aftur á móti árið 2019 er þessu öfugt farið. Eftir mjög hlýjan vetur við Alaskastrendur er ísbreiðan nú strax farin að opnast þar verulega og hjálpar þar hæðarsvæði sem skrúfar ísinn frá ströndum þar. Mun meiri ís er hinsvegar við Atlantshafið þangað sem ísinn hefur borist í auknum mæli og lagst kyrfilega að ströndum Svalbarða. Almennt séð ættu þetta ekki að vera góðar fréttir fyrir ísinn enda er svæðið norður af Alaska, Beaufort-hafið, hálfgert forðabúr íssins og verði það fyrir skakkaföllum er ísbreiðan almennt orðin mjög veik fyrir. Hafís sem berst að Atlantshafinu er hinsvegar þangað mættur til að bráðna og á ekki afturkvæmt í partíið.

Sé þetta þannig eins og það virðist vera og verði sumarið hlýtt þarna uppfrá og sólríkt að auki, þá má alveg búast við að bráðnun verði með meira móti þarna í sumar. Allavega eru núna kjöraðstæður fyrir talsverð skakkaföll í ísbreiðunni í sumar. Hinsvegar þarf að bíða og sjá. Lægðargangur, sólarleysi og loftkuldi geta bjargað málum, einkum fyrri part sumars þegar sólin er hæst á lofti. Reyndar er hæðarsvæði ríkjandi núna og hefur verið, með tilheyrandi sólskini.

Að lokum kemur hér kort sem sýnir útbreiðslu íssins í lok síðasta sumars. Að auki hef ég teiknað inn met-lágmarksútbreiðsluna frá árinu 2012. Verður því meti ógnað í sumar? Það vitum við ekki svo glöggt.

Hafíslágmark 2018

- - - -

Sjá nánar á heimasíðu NSIDC: Arctic Sea Ice and News Analysis


Mánaðarmetin í Reykjavík

Í tilefni af nýju Reykjavíkurmeti meðalhitans í apríl er við hæfi að fara yfir stöðu annarra mánaðarmeta fyrir borgina. Þó að meðalhiti þessarar aldar sé hærri en þegar best gerðist á síðustu öld eru metin samt sem áður frá ýmsum tímum og þá ekki síst frá hlýindaskeiði síðustu aldar sem stóð yfir í um 40 ár. Til grundvallar þeim samanburði sem hér fer á eftir eru tölur frá Veðurstofunni eins og þær eru birtar á Veðurstofuvefnum og ná allt aftur til ársins 1866. Eitthvað mun vera búið að aðlaga eldri tölur til að gera þær samanburðarhæfar við nútímann enda hafa staðsetningar og aðstæður breyst með tímanum.

Til samanburðar við veðurmetin er ég með meðalhita áranna 2009-2018 eins og ég hef reiknað þau. Ég get ekki lofað að þessi samantekt sé alveg villulaus en þó er aldrei að vita nema svo sé.

Mánaðarmet hitans fyrir Reykjavík:

Janúar 1964: 3,5°C  (Meðalhiti 2009-2018: 1,2°C)
Hér er það janúar 1964 sem er handhafi mánaðarmetsins en þarna var farið að styttast mjög í lok hlýindaskeiðs síðustu aldar sem hófst um 1926. Það gerist annars ekki oft að meðalhitinn í janúar fari yfir 3 stig. Næsthlýjastur er janúar 1947 með 3,3 stig og svo náði janúar 1987, 3,1 stigi. Hlýjastur á þessari öld er janúar 2013 með 2,7 stig.

Febrúar 1932: 5,0°C  (Meðalhiti 2009-2018: 1,4°C)
Mjög afgerandi hitamet sem enginn annar febrúarmánuður hefur komist í námunda við í mælingasögunni. Sá mánuður sem kemst næst því er febrúar árið 1965 þegar meðalhitinn var 4,0 stig á lokaári gamla hlýindaskeiðsins og svo árið 2013 þegar meðalhitinn var 3,9 stig.

Mars 1929: 5,9°C  (Meðalhiti 2009-2018: 1,8°C)
Fyrstu þrír mánuðir ársins 1929 voru allir mjög hlýir og enn hefur enginn mánuður slegið út metmánuðinn mars það ár. Sá eini sem hefur komist nálægt því er mars 1964 þegar meðalhitinn var 5,7 stig. Þrátt fyrir að nokkra hlýja marsmánuði á þessari öld hefur þó engin náð 4 stigum en hæstur var meðalhitinn 3,9 stig árið 2004.

Apríl 2019: 6,5°C  (Meðalhiti 2009-2018: 3,8°C)
Þetta splunkunýja mánaðarmet slær út fyrra mánaðarmet, 6,3 stig frá þjóðhátíðarárinu 1974. Í þriðja sæti er apríl á hinu mjög svo hlýja ári 2003, 6,2 stig og í fjórða sæti er apríl 1926 með 6,0 stig.

Maí 1935: 8,9°C  (Meðalhiti 2009-2018: 6,9°C)
Eftir að þetta met var sett árið 1935 er það maí 1960 sem hefur komist næst því, með 8,7 stig. Tveir mánuðir á þessar öld eru á svipuðum slóðum í 3.-4. sæti með 8,6 stig, en það eru maí 2008 og 2017.

Júní 2010: 11,4°C  (Meðalhiti 2009-2018: 10,1°C)
Nokkrir mjög hlýir júnímánuðir hafa komið á þessari öld og ber þar hæst metmánuðinn árið 2010 sem náði 11,4 stigum og sló út fyrra met frá 2003 þegar meðalhitinn var 11,3 stig. Júnímánuður 2003 er reyndar ekki einn um þá tölu því sé farið aftur um aldir þá var meðalhitinn einnig 11,3 stig árið 1871 sem hefur verið mjög sérstakt á þeim tímum. Á hlýindaskeiði síðustu aldar náði júníhitinn einu sinni 11 stigum en það var árið 1941 þegar meðalhitinn var 11,1 stig.

Júlí 1991 og 2010: 13,0°C  (Meðalhiti 2009-2018: 11,9°C)
Mikla hitabylgju gerði fyrri hlutann í júlí 1991 og var mánuðurinn sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík þar til metið var jafnað á methitasumrinu 2010. Einnig var mjög hlýtt í júlí 2007 og 2009 þegar meðalhitinn náði 12,8 stigum sem og árið 1936 á hlýjasta áratug síðustu aldar. Hér má líka nefna mjög hlýjan júlí árið 1917 sem náði 12,7 stigum, aðeins hálfu ári áður en frostaveturinn mikli var í hámarki.

Ágúst 2003: 12,8°C  (Meðalhiti 2009-2018: 11,2°C)
Árið 2003 er hlýjasta mælda árið í Reykjavík og státar af hlýjasta ágústmánuðinum. Sumarið eftir, eða í ágúst árið 2004 gerði svo síðsumars-hitabylgjuna miklu sem dugði þó ekki til að slá metið frá árinu áður, mánuðurinn náði „bara“ öðru sæti með 12,6 stig. Merkilegt er að með metinu 2003 var slegið 123 ára met frá árinu 1880 þegar meðalhitinn var 12.4 stig. Þannig gátu sumrin einnig verið hlý í gamla daga þrátt fyrir kaldara veðurfar.

September 1939 og 1958: 11,4°C  (Meðalhiti 2009-2018: 8,6°C)
Hér eru tveir ofurhlýir mánuðir fremstir og jafnir, báðir frá hlýindaskeiði síðustu aldar. Á eftir þeim kemur svo september 1941 með 11,1 stig. Á síðari árum hefur meðalhitinn í september ekki náð að ógna þessum metmánuðum en það sem af er öldinni hefur meðalhitinn komist hæst í 10,5 stig árið 2006.

Október 1915: 7,9°C (Meðalhiti 2009-2018: 5,3°C)
Október á þessu herrans ári bauð upp á óvenjumikil hlýindi sem enn hafa ekki verið slegin út sé allri óvissu sleppt, og er október því handhafi elsta mánaðarmetsins í Reykjavík. Stutt er þó síðan að hörð atlaga var gerð að metinu því árið 2016 náði meðalhitinn í október 7,8 stigum. Einnig var mjög hlýtt í október 1946 og 1959 sem báðir náðu 7,7 stigum.

Nóvember 1945: 6,1°C  (Meðalhiti 2009-2018: 2,7°C)
Enginn vafi er hér á ferð enda er nóvember 1945 afgerandi hlýjastur hingað til. Næstur honum kemur nóvember árið 2014 með 5,5 stig en þar fyrir utan er það bara nóvember árið 1956 sem hefur náð 5 stiga meðalhita, en ekki meira en það þó.

Desember 2002: 4,5°C  (Meðalhiti 2009-2018: 0,5°C)
Hlýjasti desember kom snemma á þessari öld en annars eru vetrarhitametin öll frá fyrri tíð. Næstum því eins hlýtt var árið 1933 þegar meðalhitinn var 4,4 stig sem er varla marktækur munur. Til marks um hversu hlýtt hefur verið þessa mánuði er sú staðreynd að eftir 1933 komst meðalhitinn í desember ekki yfir 3 stig fyrr en árið 1987 þegar hann vippaði sér óvænt upp í 4,2 stig.

- - - -

Út frá þessu má velta fyrir sé dreifingu mánaðarmetanna. Sumarmánuðirnir á þessari öld hafa verið duglegri en vetrarmánuðirnir að slá út fyrri met, hvernig sem á því stendur. Sum metin virðast ansi erfið við að eiga, en ef óvenjuleg hlýindi hafa komið áður þá hlýtur annað eins að endurtaka sig fyrir rest, ef rétt er að við lifum á hlýnandi tímum. Uppskriftin að hlýjum mánuðum í Reykjavík er yfirleitt bara nógu miklar suðaustanáttir eða hlýtt loft af þeim uppruna, eins og raunin var núna í apríl. Öfgar í þessum efnum geta síðan skilað sér í metmánuðum á hvaða tímum sem er.

Hér að neðan hef ég raðað metmánuðunum niður á köld og hlý tímabil frá 1866. Hlýindaskeið síðustu aldar sem stóð í um 40 ár hefur enn vinninginn í fjölda metmánaða hér, en hafa má í huga að núverandi hlýindaskeið hefur aðeins staðið í um 23 ár og sér svo sem ekki fyrir endann á því.

1866-1925 (kalt): október.

1926-1965 (hlýtt): janúar, febrúar, mars, maí, september og nóvember.

1966-1995 (kalt): júlí.

1996-2019 (hlýtt): apríl, júní, júlí, ágúst og desember.

- - - -

Upplýsingar frá Veðurstofunni yfir hitann í Reykjavík er hægt að finna hér:
Mánaðargildi fyrir valdar stöðvar og hér: Lengri meðalhitaraðir fyrir valdar stöðvar


Um klukkuna og miðvökutíma

Þeir sem eru fylgjandi því að seinka klukkunni hafa lagt áherslu á kosti þess fyrir lýðheilsu landans að klukkan sé í meira samræmi við gang sólar en nú er. Fleiri sólarstundir á morgnana sé náttúruleg heilsubót og drífi fólk á fætur hressara í bragði og glaðari inn í daginn. Það sé því algerlega tímabært að gera eitthvað í þessum málum og seinka klukkunni um svo sem eins og eina klukkustund eða jafnvel eina og hálfa, þannig að sólin sé í hádegisstað klukkan tólf á vesturhluta landsins en ekki um klukkan 13:30 eins og nú er. En hinsvegar. Ef maður skoðar dæmigerðan vökutíma landsmanna með tillit til sólarbirtu þá er kannski ekki alveg víst að seinkun klukkunnar sé einhver raunveruleg leiðrétting. Kannski er því bara öfugt farið. Til að skoða það betur vil ég beina athyglinni að því sem ég kalla miðvökutíma sem ég ætla að reyna að útskýra með hjálp mynda, og hvernig mismunandi klukka og vökutími hefur áhrif á þennan miðvökutíma.

Fyrst hef ég teiknað upp hinu gömlu tímaviðmiðun Eyktartal sem hér var við lýði áður en raunverulegar klukkur komu til sögunnar, hvað þá samræmd ríkisklukka. Við gerum auðvitað ráð fyrir að fólk hafi áður fyrr lifað í réttum takti við birtuna og náttúruna, ótruflað af stimpilklukkum og stundarskrám nútímans. Hver staður hafði þá sína viðmiðanir sem voru fjallstindar og önnur kennileiti á hverjum stað. Sólin var þá í hásuðri á hádegi. Alls voru átta eyktir í sólahringnum og hver eykt því þrír tímar samkvæmt nútímatali. Tveimur eyktum fyrir hádegi, eða kl 6, voru rismál og má því gera ráð fyrir að það hafi verið eðlilegur fótaferðatími fólks. Náttmál voru síðan þremur eyktum eftir hádegi eða kl. 21 að okkar kvöldtíma. Kannski var þetta ekki alveg fullmótað, spennandi húslestur gat mögulega dregist á langinn stöku sinnum.

EyktarKlukka

Miðað við þennan vökutíma milli rismáls og náttmáls er ljóst að miðvökutíminn hefur verið  klukkan 13.30 á dögum gömlu eyktarstundanna, en þá er jafn langur tími frá því fólkið fór á fætur og þar til það lagðist til hvílu. Það er einni og hálfri klst. eftir að sólin er í hádegisstað. Um jafndægur að vori og hausti kæmi sólin upp við rismál og sest þremur tímum fyrir náttmál eins og miðað er við í myndinni.

Í framhaldi af þessu skoða ég næst núverandi stöðu hér á landi. Er tilvera okkar algerlega úr takti við gang sólar, eða kannski ekki svo mjög? Núverandi klukka

Samkvæmt núverandi stöðu með óbreyttri klukku gef ég mér það að dæmigerður fótaferðatími landans sé kl. 7.30, hvunndags. Sumir vakna vissulega seinna, sérstaklega um helgar, og sumir enn fyrr, og sé fólk vakandi í 16 tíma eins og eðlilegt þykir, þá er miðvökutíminn í þessu tilfelli kl. 15:30, sem er tveimur klst eftir að sólin er í hádegisstað um kl. 13.30. Þarna munar ekki nema hálftíma á miðvökutíma gamla eyktartalsins og núverandi klukku og skýrist af 16 tíma vöku í stað 15. En eftir sem áður kemur sólin upp á fótaferðatíma um vor- og haustjafndægur.

Þá er næst að skoða breytta klukku eða "rétta klukku" eins og talað er um, þannig að sólin sé í hásuðri klukkan 12 á hádegi. Morgunbirtan færist þá framar og að sama skapi dimmir fyrr síðdegis.

BreyttKlukka

Miðað við sólarhádegi klukkan 12 og óbreyttan vökutíma þá hefur sólin skinið í einn og hálfan tíma fyrir fótaferðatíma um jafndægur. Miðvökutíminn er eftir sem áður klukkan 15:30 en er nú orðinn þremur og hálfum tíma eftir sólarhádegi sem þarna er klukkan 12. Sem sagt komin stóraukin skekkja á milli miðvökutíma og sólarhádegis. Á dögum hins gamla eyktartíma var þessi munur hinsvegar ekki nema einn og hálfur tími eins og sést á fyrstu myndinni og tveir tímar samkvæmt núverandi klukku.

Með því að breyta klukkunni svona þá færist sólarbirtan inn í svefntíma að morgni og kvöldmyrkrið inn í vökutíma að sama skapi. Birtan yrði þá hreinlega allt of snemma á ferðinni miðað við hefðbundinn vökutíma. Samkvæmt gömlu eyktarstundunum vaknaði fólk á sama tíma og sólin kom upp um jafndægur og þannig er það einnig í dag. Ef klukkunni yrði hinsvegar breytt kæmi fram skekkja í þessum málum. Hana vissulega má leiðrétta með því að fólk vakni fyrr á morgnana og fari fyrr í rúmið á kvöldin. Út úr því kæmi hinsvegar sama staða mála og er í dag, og má því spyrja: Hverju vilja menn breyta? Breyta klukkunni svo fólk vakni fyrr, til þess eins að fá sömu stöðu og í dag? Hví þá að breyta því sem er í lagi? Klukka er bara klukka og það skiptir í raun engu máli á hvaða tölustaf vísarnir benda hverju sinni varðandi sólargang og vökutíma. Á endanum hlýtur aðalatriðið að vera að vökutíminn sé í sæmilegu samræmi við sólargang, eins og hann er í dag. Eða hvað? Þetta er allavega eitthvað til að pæla í.

 


Veðurannáll 2015-2018 - Hitasveiflur á uppgangstímum

Þá er komið að síðasta hlutanum að sinni í þessari samantekt um veður og annað markvert á liðnum árum en nú eru það fjögur síðustu ár sem tekin verða fyrir. Fyrir utan allskonar pólitískar uppákomur er það hin mikla fjölgun ferðamanna og erlends vinnuafls sem helst er frásögum færandi á þessu uppgangstímabili sem mælist vel í fjölda byggingakrana. Vinsælir ferðamannastaðir og ekki síst miðbæjarlíf Reykjavíkur tók miklum stakkaskiptum þar sem ægði saman fólki frá öllum heimshornum og dugði íslenskan skammt vildu menn panta sér kaffi og meððí á rótgrónum kaffihúsum. Þessir ferðamenn virtust nokkur sælir með tilveruna þótt þeir hafi kveinkað sér sífellt meir undan verðlaginu. Misgóða veðráttuna á þessum fjórum árum létu þeir þó minna á sig fá. Eftir mjög hlýtt ár 2014 hófst þetta tímabil með kaldasta ári aldarinnar og óttuðust þá margir að hlýindaskeiðinu væri endanlega lokið enda hafði kólnað í Reykjavík um 1,5 stig á milli ára. En svo var þó ekki alveg því enn eitt óvenjuhlýja árið fylgdi strax í kjölfarið áður en það kólnaði á ný. Þannig vill þetta ganga fyrir sig. Nánar um það hér á eftir.

Miðbær 11. nóv 2017

Miðbær Reykjavíkur á köldum nóvemberdegi árið 2017.

Árið 2015 var meðalhitinn í Reykjavík 4,5°C stig og eins og fyrr segir kaldasta árið það sem af er öldinni og veðurgæði heldur lakari en árin á undan. Fyrstu þrjá mánuðina og fram yfir miðjan apríl var veður mjög umhleypinga- og illviðrasamt á köflum auk þess sem hiti var í lægri kantinum. Um sumardaginn fyrsta snérist til kaldra norðlægra átta með bjartari tíð fyrir sunnan, en fyrir norðan lét vorið bíða eftir sér. Maímánuður var með allra kaldasta móti og í Reykjavík reyndist hann sá kaldasti allt frá hinum ofursvala maí 1979. Júní var lengst af frekar slakur sumarmánuður þar til hlýnaði nokkuð síðustu vikuna. Fyrri hluti ársins í Reykjavík var undir meðalhita áranna 1961-90 og þótti sérstakt. Sumarið varð þó heldur skárra í borginni en sumrin tvö árin á undan en júlí var nokkuð sólríkur í ríkjandi norðanáttum. Öllu síðra var norðan- og austanlands í júlí og ágúst. Veðrið í september slapp vel fyrir horn víðast hvar en síðustu þrír mánuðirnir voru úrkomusamir og reyndist árið í heild það úrkomusamasta frá 2007 í Reykjavík. Mikið fannfergi gerði í borginni í lok nóvember og dagana 2. til 4. desember mældist þar meiri snjódýpt en áður í þeim mánuði, 42-44 cm. Hélst sá snjór á jörðu út árið. Af fjölmörgum lægðum ársins mældist sú dýpsta milli jóla og nýárs, 930 mb, en svo lágur loftþrýstingur hefur ekki mælst á landinu síðan 1989.

Árið 2016 náði hitinn sér vel á strik á ný. Meðalhitinn í Reykjavík var 6,0 stig og árið með þeim allra hlýjustu sem mælst hafa þar, en á Vestfjörðum og víðar var árið jafnvel hlýjasta árið frá upphafi. Hlýnunin frá árinu á undan í Reykjavík var 1,5 stig sem er mesta hlýnun á milli tveggja ára í mælingasögunni. Jafnmikið hafði reyndar kólnað milli áranna tveggja á undan enda voru árin 2014 og 2016 jafn hlý. Árið 2016 byrjaði reyndar ekki með neinum sérstökum hlýindum. Meðalhitinn í janúar var í slöku meðallagi og einkenndist af eindregnum austanáttum en febrúar var kaldur og nánast alhvítur í Reykjavík. Í mars tók við hlýrri tíð sem hélst meira og minna út árið. Nokkuð þurrt var víðast hvar um vorið og einnig fram eftir júnímánuði. Júlí var mjög góður sumarmánuður sunnan- og vestanlands en heldur daprari fyrir norðan og austan. Veðurgæðum var síðan nokkuð vel útdeilt um landið í ágúst en í september rigndi heldur meira norðanlands en sunnan. Eftir frekar tíðindalausa tíð kom óvenjulegur októbermánuður með hlýjum og blautum suðaustanáttum. Víða á landinu var þetta hlýjasti október sem komið hefur og í Reykjavík hafði aldrei mælst önnur eins úrkoma í október. Áfram héldu hlýindi í nóvember og færðust jafnvel í aukana í desember. Síðustu daga ársins var veðrið rysjóttara og náði snjór að festast á jörðu til hátíðabrigða.

Árið 2017 var meðalhitinn í Reykjavík 5,5 stig sem er nálægt meðalhita aldarinnar það sem af er. Raunar var hiti ársins mjög svipaður og á árinu á undan þar til kom að síðustu tveimur mánuðunum sem voru allt annað en hlýir. Árið hófst með nokkuð mildum janúar með fjölbreytilegum veðrum en febrúar var mjög hlýr og snjóléttur á landinu. Í Reykjavík breyttist það á einni nóttu undir lok mánaðarins sem skilaði meiri snjódýpt en áður hafði mælst þar í febrúar, 51 cm. Ekki varð framhald á fannferginu en mars var mjög þægilegur víðast hvar og apríl einnig þótt blautur væri. Maí var að þessu sinni óvenju hlýr en að sama skapi úrkomusamur. Sumarið var frekar tíðindalítið í heildina. Sólarlítið var reyndar norðanlands framan af en það jafnaðist í júlí. Suðvesturlandið hafði síðan sólarvinninginn í ágúst. Hlýtt var í september og október. Eftir óvenjuleg hlýindi norðaustanlands í september tók mjög að rigna í suðausturfjórðungi sem gat af sér flóð og skriðuföll. Eftir ágætis hlýindi kólnaði mjög í nóvember, sérstaklega í nokkurra daga norðanskoti seinni hluta mánaðarins. Áfram var kalt í desember sem reyndist kaldasti mánuður ársins. Í Reykjavík endaði árið með algeru logni á gamlárskvöld með umtalaðri flugeldamengun.

Árið 2018 var meðalhitinn í Reykjavík 5,1 stig sem er í lægri kantinum eftir að hlýna tók upp úr aldamótum. Þó vel fyrir ofan opinberan meðalhita sem er 4,3 stig og miðast við 1961-1990 sem var mun kaldara tímabil. Veðurfar ársins 2018 í Reykjavík þótti reyndar stundum minna á fyrri kulda- og vosbúðarár þegar verst lét og ekki fær árið háa einkunn samkvæmt einkunnakerfi mínu. Fyrstu tvo mánuðina var hitafar þó á eðlilegu róli í annars umhleypingasamri tíð. Fyrri partinn í mars var mjög sólríkt sunnanlands samhliða vetrarríki norðanlands en seinni hlutann snérist í hlýjar sunnanáttir sem lyfti meðalhita mánaðarins vel yfir meðallag. Hlýindi héldu áfram í apríl í ríkjandi austan- og suðaustanáttum. Í maí gekk hinsvegar á með stífum sunnan- og suðvestanáttum sem skiluðu mestu úrkomu sem mælst hafði í Reykjavík í maímánuði á meðan mun hlýrra og sólríkara var norðan- og austanlands. Svipuð tíð hélt áfram í júní sem reyndist sólarminnsti júní í Reykjavík síðan 1914 og sá kaldasti það sem af er öldinni. Þótti þarna mörgum borgarbúanum alveg nóg um. Um miðjan júlí snérist til heldur skárri tíðar og undir lok mánaðar rauk hitinn upp og náði 23,5 stigum í Reykjavík sem er mesti hiti sem mælst hefur í borginni frá hitametsdeginum sumarið 2008. Fremur svalt var á landinu frá ágúst til október miðað við mörg síðustu ár en þó ágætis veður suðvestanlands nema kannski í október. Síðustu tveir mánuðir ársins voru hinsvegar hlýir á landinu og lyftu meðalhita ársins í skikkanlegt horf. Dágóðar rigningar fylgdu sumum hitagusunum eins og úrhellið óvenjulega upp úr miðjum nóvember. Snjór var að sama skapi lítill sunnanlands á láglendi og til fjalla fram að áramótum. Hér má þó nefna að skaflar lifðu í Esjunni öll ár þessa tímabils og vantaði reyndar nokkuð upp á að þeir hyrfu á árunum 2015 og 2018.

Skystrókur Selvogi

Sjaldséðir skýstrókar og ranaský, mynduðust á Suðurlandi 2. og 24. ágúst og feyktu hinir síðari heilu þökunum af útihúsum. Annálaritari náði ljósmyndum einum sem myndaðist yfir Selvogi. Sjá umfjöllun í Fréttablaðinu.

Af öðrum þáttum náttúrunnar ber fyrst að nefna gosið í Holuhrauni sem enn var í gangi í ársbyrjun 2015. Það mikla hraungos fjaraði út í lok febrúar eftir 6 mánaða virkni. Ekki urðu fleiri gos á tímabilinu og enn gaus ekki í Kötlu sem um haustið 2018 náði 100 árum í hvíldarstöðu. Öræfajökull fékk hins vegar óvænta athygli með aukinni skjálftavirkni árin 2017 og 2018 og sér ekki fyrir endann á því.

Af hnattrænum vettvangi verður ekki hjá því komist að nefna að hitafar jarðar náði nýjum hæðum, fyrst árið 2015 sem var heitasta árið á jörðinni sem mælst hafði en árið 2016 bætti um betur og varð enn hlýrra. Hitaaukninguna má rekja til mjög öflugs El-Nino ástands í Kyrrahafinu veturinn 2015-16 sem lagðist ofan á hina almennu hnattrænu hlýnun sem sumir gera sér enn vonir um að séu ekki af mannavöldum, þeirra á meðal umdeildur forseti Bandaríkjanna. Þessi annáll tekur ekki afstöðu til þess en vísar í síðari tíma óskrifaða annála. Óvíst er hversu mikið hægt er tengja hnattræna hlýnun við þurrkana miklu í Kaliforníu og mannskæða skógarelda samfara þeim, eða myndum allnokkurra fellibylja sem ollu tjóni á Karíbahafi og Bandaríkjunum að ógleymdum þeim sem herjað hafa á Filippseyjar og Japan. Sífellt bætast við nýjar áskoranir þegar kemur að lifnaðarháttum mannsins hér á jörðu. Hið nýjasta í þeim efnum er plastúrgangurinn í höfunum en sá vandi kom svo sannarlega upp á yfirborðið árið 2018.

Látum þetta duga þótt ýmislegt fleira mætti nefna. Næsti fjögurra ára annáll verður auðvitað ekki tilbúinn fyrr en að fjórum árum liðnum en stefnt er að birtingu hans á þessum vettvangi þann 4. janúar 2023, kl. 20:23, hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.

Annáll 2015-18 hiti

Annáll 2015-18 einkunn

Fyrri annálar:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

Veðurannáll 2011-2014 - Misgóð tíð


Veðurannáll 2011-2014 - misgóð tíð

Það má segja að á þessu tímabili hafi íslenska þjóðin verið nokkuð upptekin af því að hafa skiptar skoðanir um mörg mikilvæg mál sem tengdust fjármálahruninu og hvert ætti að stefna í næstu framtíð. Almenningur var þarna orðinn mjög heimavanur á kjörstöðum landsins þar sem kosið var um Icesave, stjórnarskrártillögur, auk forsetakosninga og hefðbundinna Alþingiskosninga og bæjar- og sveitastjórnakosninga. Ekkert var þó kosið um veðrið frekar en venjulega þótt það hafi ekki alltaf verið eins og best verður á kosið. Á undangengnum örlagatímum hafði veðráttan verið landsmönnum óvenju hliðholl þar sem hvert hlýindaárið hafði tekið við af öðru með meinlitlum vetrum og blíðum sumrum. En á því tímabili sem nú verður tekið fyrir brá svo við að ýmsir hnökrar fóru að gera vart við sig í veðráttunni, svo sem aukin snjóþyngsli og hret sem minntu á fyrri tíð. Það kom líka að því að Reykvíkingar gátu tekið upp gamalkunnugt vandlætingartal þegar kom að sumarveðráttu eftir óvenju langa hvíld í þeim efnum. Þó voru enn tvö góð sumur eftir í þeirri syrpu eins og komið verður að hér á eftir þar sem stiklað á stóru í veðurfari áranna 2011-2014.

Árið 2011 var meðalhitinn 5,4°C í Reykjavík sem er nærri meðalhita 10 áranna á undan sem öll voru hlý. Janúar byrjaði reyndar frekar kaldur með harkalegu norðanskoti með ofankomu og snjóflóðum fyrir norðan og vestan án þess þó að valda verulegu tjóni. Síðan tóku við hlýrri dagar og var janúar mjög snjóléttur í Reykjavík. Austlægar áttir voru annars tíðastar fyrstu tvo mánuðina með illviðrasömum kafla í febrúar. Í mars og apríl voru hinsvegar suðvestanáttir öllu tíðari með ýmsum leiðindaveðrum suðvestanlands. Snjór var þrálátur í borginni í mars og sífelld bakslög voru í vorkomunni í apríl en þá var aftur á móti óvenju hlýtt og snjólétt fyrir norðan og austan. Talsverður snjór var í Reykjavík að morgni 1. maí en næstu 10 daga gerði góðan hlýindakafla fram að seinni hluta mánaðar þegar kólnaði mjög með slæmri tíð, sérstaklega fyrir norðan og austan þar sem júní var síðan kaldari en verið hafði lengi. Eftir svala byrjun fór fljótlega að rætast ágætlega úr sumrinu í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu, nema á austurhelmingi landsins. Haustið var frekar tíðindalítið en nóvember var mjög hlýr þar til í lokin þegar breytti rækilega um veðurfar og veturinn tók öll völd. Desember var sá kaldasti í Reykjavík í 30 ár og nánast alhvítur. Þann 29. mældist snjódýptin 33 cm í borginni sem var það mesta sem mælst hafði þar. Hér má koma því að, að annálahöfundur tók sig til og ljósmyndaði Esjuna séða frá Öskjuhlíð alla daga ársins 2011 og má sjá afraksturinn á vefsíðunni: www.365reykjavik.is.

Reykjavik 6. október2011

Árið 2012 var meðalhitinn í Reykjavík á sömu hlýju nótunum eða 5,5°C. Janúar var þó frekar kaldur en þá hélst snjór á jörðu í borginni nær allan mánuðinn eins og verið hafði mánuðinn á undan. Í febrúar og mars hlýnaði með umhleypingum og mikilli úrkomu suðvestanlands en öllu betra veður var þá austanlands og hlýtt. Viðsnúningur var í apríl en þá snérist meira til austlægra átta og síðan kaldari norðanátta í maí. Mjög sólríkt var bæði í maí og júní í Reykjavík sem og víðar með tilheyrandi þurrkum, mest þó á vesturhelmingnum á meðan austurhluti landsins fékk að kenna á kaldari og úrkomusamari tíð. Samkvæmt einkunnakerfi annálaskrifara fékk júní 2012 bestu veðureinkunn sem nokkur mánuður hefur fengið - örlítið hærri en júlí 2009. Mjög góð sumartíð hélt áfram í júlí og ágúst og svo vikið sé aftur að einkunnakerfinu þá fær þetta sumar í Reykjavík hæstu einkunn allra sumra í skráningarseríunni sem nær aftur til 1986. Aftur er það sumarið 2009 sem nartar í hælanna. En sumarið var gott víðar. Á Akureyri var þetta t.d. þurrasta sumarið frá upphafi mælinga 1928. Í september fór gamanið að kárna en þá var mjög úrkomusamt fyrir norðan, ekki síst í hinu mikla hríðarveðri sem olli miklum fjársköðum. Í október var nokkuð þægilegt veður en nóvember byrjaði með norðanóveðri þar sem ýmislegt fauk til á landinu, þar á meðal vegfarendur við nýreist háhýsi við Höfðatorg í Reykjavík. Snjólétt var þá syðra en talsverður snjór fyrir norðan. Í desember var mjög eindregin austanátt á landinu. Þurrt og snjólétt var í borginni þar til 28. desember en þá var sólarhringúrkoman í Reykjavík heilir 70 mm, sem er úrkomumet.

Árið 2013 var meðalhitinn í Reykjavík 4,9 stig og er það í fyrsta sinn frá árinu 2000 sem meðalhitinn er undir 5 stigum. Þótt þetta hafi verið kaldasta ár aldarinnar fram að þessu er varla hægt að segja að það hafi verið kalt, nema viðmiðanir hafi breyst eftir mörg hlý ár í röð. Árið hófst með talsverðum hlýindum tvo fyrstu mánuðina, sérstaklega í febrúar sem var sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965. Mjög snjólétt var í borginni allan veturinn og ríkjandi þurrviðri frá mars til maí. Frekar kalt var í apríl og í Reykjavík var hann t.d. kaldari en janúar og febrúar. Snjóþungt var þá fyrir norðan og austan með snjóalögum til fjalla sem lifðu óvenjulengi fram á sumar. Með sumri þessa árs má segja að lokið hafi sex ára syrpu góðra sumra í Reykjavík sem og suðvestanlands enda var það sólarlítið, úrkomusamt og kaldara en mörg undanfarin sumur. Hinsvegar var þetta öllu betra sumar á Norðausturlandi og ekki síst á Austurlandi, sem nú fékk að njóta sólskins og hlýinda. Mjög breytilegt veður var um haustið en þó var október sá þurrasti í Reykjavík frá upphafi. Desember var síðan kaldasti mánuður ársins og nánast alhvítur vetrarmánuður í Reykjavík.

Árið 2014 hlýnaði á ný svo um munar og var meðalhitinn í Reykjavík 6,0°C sem gerir árið það næst hlýjasta frá upphafi á eftir 2003. Víða á austurhelmingi landsins og sums staðar norðanlands var árið hinsvegar það hlýjasta frá upphafi. Janúar var hlýr á landinu og tók snjóinn, frá mánuðinum á undan, smám saman upp. Suðvestanlands og ekki síst í Reykjavík var mjög þrálátur klaki á jörðu sem sumstaðar entist langt fram eftir vetri en í febrúar voru þurrar austanáttir mjög ríkjandi. Í mars tóku umhleypingar við og þá snjóaði mjög fyrir norðan og austan. Vormánuðirnir voru yfirleitt ágætir fyrir utan vindasama daga um miðjan apríl. Aftur kom sumar sem olli vonbrigðum í Reykjavík en mun betra var norðan- og austanlands. Sumarið var yfirleitt hlýtt, ekki síst í júní í sólinni fyrir austan. Reyndar var júní sá úrkomumesti sem komið hefur í Reykjavík, en veðurgæði jöfnuðust nokkuð milli landshluta eftir því sem leið á sumarið. Í september voru hlýjar sunnanáttir ríkjandi og landshlutaveðrið eftir því en í október tóku við kaldari norðlægari áttir. Nóvember átti stóran þátt í háum ársmeðalhita enda á meðal þeirra allra hlýjustu. Í Reykjavík var hann sá hlýjasti frá metmánuðinum 1945. Óveður gerði svo um mánaðarmótin og tók þá við enn einn nánast alhvíti desembermánuðurinn í Reykjavík, eða sá þriðji á þessu fjögurra ára tímabili. Og eins og gerðist árin 2011 og 2013 var desember kaldasti mánuður ársins og í Reykjavík sá eini undir frostmarki.

Annáll 2011-14 hiti

Annáll 2011-14 einkunn

Ýmislegt gekk á í jarðskorpunni. Fyrst ber að nefna óvænt og öflugt sprengigos í Grímsvötnum í maí 2011 og rigndi þá ösku yfir Skaftafellssýslur. Heilmikil jarðskjálftahrina var úti fyrir Norðurlandi í október 2012 sem þó olli ekki tjóni. Stórir atburðir hófust um miðjan ágúst 2014 þegar Bárðarbunga fór að skjálfa og ljóst að stefndi í gos. Þann 31. ágúst, sama dag og illviðri geisaði suðvestanlands, hófst síðan mikið sprungugos í Holuhrauni norðan Vatnajökuls ættað frá Bárðarbungu. Því gosi lok í febrúar árið eftir og reyndist hraunflæðið vera það mesta á landinu frá lokum Skaftárelda. Mestu náttúrhamfarirnar erlendis var risaskjálftinn í Japan í mars 2011 og flóðbylgjan mikla sem fylgdi í kjölfarið.
Sumarið 2012 er merkilegt á norðurslóðum fyrir meiri hafísbráðnun en þekkst hafði áður en annars hafði norðurskautsísinn frá og með árinu 2007, rýrnað mjög frá því sem áður var. Þetta þótti auka líkur á að Norður-Íshafið næði að verða íslaust í sumarlok innan fárra ára. Næstu tvö árin náði ísinn hinsvegar að braggast nokkuð á ný, enda sveiflur í þessu eins og öðru.

Næsti fjögurra ára annáll mun taka fyrir árin 2015-2018, en þar sem það tímabil er ekki alveg liðið verður beðið með birtingu fram yfir áramót.

Fyrri annálar í sama flokki:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

 


Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

Árin fjögur sem nú verður fjallað um er ekki bara tímabil stórra atburða í sögu landsins heldur er það einnig merkilegt veðurfarslega séð og því verður þessi pistill af lengra taginu. Fram eftir árinu 2007 var ennþá allt á uppleið og Íslendingar á góðri leið með að sigra heiminn. Vendipunkturinn varð hinsvegar á miðju sumri sama ár þegar kólnun varð á erlendum fjármálamörkuðum og tímar lánsfjármagns á tombóluprís þar með liðnir. Og þar sem útrásin mikla hafði meira og minna verið fjármögnuð með lánum snérist þetta allt smám saman upp í eitt allsherjar ólán. Bólan sprakk svo um haustið 2008 þegar bankarnir féllu og í framhaldinu féll allt hvað um annað og þjóðin nánast á vonarvöl. Sjálf ríkisstjórnin sprakk (þó ekki bókstaflega) eftir búsáhaldabyltinguna í upphafi árs 2009. Erfiðir tímar tóku við þar sem mikið var þrasað og býsnast og sýndist sitt hverjum, ekki síst á hinum nýju samfélagsmiðlum, fyrst í bloggheimum og síðan á hinni nýtilkomnu fésbók. Og eins og stundum gerist í góðum ævintýrasögum þá fór auðvitað að gjósa ofan á allt annað, en það var reyndar gott og mikið gos sem spúði ösku yfir hafið - ekki síst til Breta sem áttu það svo sannarlega skilið eftir þá ósvífni að hafa sett á okkur hryðjuverkalög og krafið okkur um að standa skil á fjármagni sem útrásarmenn okkar véluðu útúr saklausu fólki þar í landi. En svo er það veðrið. Hvað það varðar er skemmst frá því að segja að á þessum árum héldu hlýindi áfram eins og ekkert hafði í skorist. Oftar en ekki lék veðrið við landsmenn, ekki síst Reykvíkinga sem þarna upplifðu hvert gæðasumarið á fætur öðru. Nánar um það hér á eftir þar sem farið er yfir tíðarfarið í stuttu máli.

Árið 2007 var hlýtt eins og undanfarin ár og mældist meðalhitinn í Reykjavík 5,5°C og er það sjöunda árið í röð sem meðalhitinn nær 5 gráðum. Árið byrjaði að vísu með frekar köldum og snjóþungum janúar en síðan tóku hlýindi við. Í febrúar var nærri stöðug austanátt og var mánuðurinn sá sólríkasti í borginni síðan 1947. Mars og apríl voru breytilegir en óvenjuleg hlýindi gerði í tvígang norðan- og austanlands í apríl með yfir 20 stiga hita þar sem mest var. Maí var síðan dæmigerður norðanáttamánuður með bakslagi í hita. Sumarið 2007 var hinsvegar mjög gott á landinu. Í júní færðist sólskin í aukanna eftir því sem á leið og var ríkjandi bjartviðri meira og minna suðvestalands fram í ágúst. Óvenju þurrt var ekki síður fyrir norðan í júní þegar einungis mældust 0,4 mm á Akureyri. Júlí var mjög hlýr og sá næst hlýjasti í Reykjavík frá upphafi (12,8°). Eftir allt þurrviðrið þá stal úrkoman algerlega senunni síðustu mánuðina en árið endaði sem úrkomumesta árið í Reykjavík frá 1921. September, október og desember­ voru umhleypingasamir og einstaklega úrkomusamir. Desember setti reyndar úrkomumet auk þess að vera óveðrasamur og sveiflukenndur í hita. Þrátt fyrir stormasöm áramót voru öflugar góðærisbombur sprengdar til að fagna nýju ári enda vissu fæstir hvað næsta ár myndi bera í skauti sér.

Árið 2008 var meðalhitinn 5,3°C í Reykjavík. Yfir vetrarmánuðina voru miklar hitasveiflur en ólíkt mörgum nýliðnum árum var lítið um langvarandi vetrarhlýindi. Nokkuð harkalega vetrartíð gerði upp úr miðjum janúar og framan af febrúar. Mars og apríl voru hinsvegar betri. Nú bar svo við maímánuður var hlýr, en í Reykjavík var hann sá hlýjasti síðan 1960. Áfram héldu hlýindi yfir sumarmánuðina en júní var einstaklega þurr og sólríkur suðvestanlands og sá næst sólríkasti í Reykjavík frá upphafi. Sólin skein þó víðar og var sumarið t.d. það fjórða sólríkasta á Akureyri. Undir lok júlí gerði hitabylgju og var þá nýtt hitamet sett í Reykjavík þegar hámarkshitinn mældist 25,7 stig en eldra metið hafði verið sett í ágústhitabylgjunni 2004. Stuttu eftir að landsmenn höfðu fagnað Ólympíusilfri í handbolta tók gamannið að kárna með rysjóttri tíð í september. Svo kom október, sjálfur hrunmánuðurinn, með kaldri tíð frá fyrsta degi og snjóaði þá strax í fyrstu viku mánaðarins í Reykjavík. Þjóðin hafði um annað að hugsa en veðrið síðustu mánuðina en annars voru nóvember og desember ekki svo slæmir nema svona inn á milli eins og gengur.

Árið 2009 var meðalhitinn í Reykjavík 5,6°C og því ekkert lát hlýindum og góðri tíð þótt annað væri uppi á teningnum í landsmálum. Á tímum búsáhaldabyltingarinnar í janúar var hitinn ofan frostmarks. Dálítið kuldakast gerði fyrri hluta febrúar en annars var veturinn í mildari kantinum. Maí var sólríkur og mjög hlýr um miðbikið. Eftir sæmilegan júní kom alveg einstaklega góður júlímánuður sem í Reykjavík var með þeim allra sólríkustu og hlýjustu sem komið hafði og var auk þess sá þurrasti í borginni frá 1889. Víða um sveitir þótti þurrkurinn þó fullmikill. Eitt norðanskot gerði reyndar seint í mánuðinum en annars var hlýtt og náði hitinn tvisvar 21 stigi Í Reykjavík. Góð sumartíð helst þar til seint í september þegar kólnaði talsvert og eins og árið áður var kalt fyrri hlutann í október. Síðan var frekar milt um haustið þar til kuldinn náði völdum þegar líða fór að jólum. Fyrir norðan var óvenju úrkomusamt og reyndar hafði ekki mælst meiri úrkoma í desember á Akureyri.

Um árið 2010 er það helst að segja að lengi getur gott batnað en þetta var óvenju hagstætt ár veðursfarslega séð með stöku undantekningum eins eðlilegt er. Þetta á þó frekar við um landið sunnan- og vestanvert, en norðan- og austanlands var tíðarfarið nær því sem eðlilegt er. Ársmeðalhitinn í Reykjavík var 5,9°C sem gerir árið eitt af þeim allra hlýjustu en auk þess var árið með þeim allra sólríkustu og þurrustu í borginni. Í takt við það var meðalloftþrýstingur sá hæsti sem mælst hefur. Janúar byrjaði frekar kaldur en svo tóku hlýindi völdin þar til kólnaði seinni hlutann í febrúar. Mars var lengst af hlýr þar til lokin en annars var mjög snjólétt víðast hvar þessa vetrarmánuði. Apríl var að þessu sinni kaldari í borginni en mars og auk þess þurr. Maí var almennt góður og hlýr. Svo kom sumarið og það reyndist vera eitt það allra hlýjasta sunnan- og vestanlands en helst eru það hin margrómuðu ár 1939 og 1941 sem veita þessu sumri samkeppni og reyndar árinu í heild. Austfirðingar voru að vísu ekki sérlega kátir með sumarið en þeir áttu það til að voru nokkuð áveðurs að sumarlagi þessi ár. Þurrkar voru enn og aftur ríkjandi víða, að þessu sinni aðallega í júní sem einnig var mjög hlýr, jafnvel methlýr sumstaðar vestanlands, þar á meðal í Reykjavík. Og það sem meira er, þá var meðalhitinn í borginni heil 13,0 stig í júlí en aðeins hitabylgjumánuðurinn júlí 1991 hefur náð þeirri tölu í höfuðborginni. Áfram var hlýtt í ágúst og fram í október. Að vísu var ekkert óvenju sólríkt um sumarmánuðina en ágætt þó. Til marks um tíðarfarið þá var lítill snjór í fjöllum eftir sumarið sunnan- og vestanlands og jöklar rýrnuðu sem aldrei fyrr. Esjan varð alveg snjólaus um miðjan júlí sem er óvenju snemmt en annars var þetta 10 árið í röð sem skaflar hverfa úr Esjunni. Þegar aðeins tveir mánuðir voru eftir af árinu 2010 var það alveg í dauðafæri með að verða allra hlýjasta árið suðvestanlands en kaldur nóvember kom í veg fyrir það. Þá var mjög þurrt sunnanland en snjóþungt fyrir norðan. Svipað var í desember sem átti annars sína köldu og hlýju daga.

Af náttúrufarslegum atburðum skal fyrst nefna öflugan jarðskjálfta uppá 6,3 stig í lok maí árið 2008 með upptök í Ölfusi sem olli nokkru tjóni þar um kring. Þetta var einskonar framhald skjálftanna árið 2000. Eldgosið sem getið er um í inngangi er auðvitað gosið í Eyjafjallajökli en forsmekkurinn að því var lítið hraungos á Fimmvörðuhálsi sem hófst aðfaranótt 21. mars 2010 og var mörgum til skemmtunar. Aðfaranótt 14. apríl hófst síðan gosið í Eyjafjallajökli sem vakti heimsathygli. Sú athygli reyndist vera afar jákvæð landkynning þrátt fyrir hafa teppt flugsamgöngur í Evrópu. Hin furðulega eyja í norðri var þarna allt í einu orðin áhugavert land til að heimsækja og ekki síst ódýrt. Upp úr rústum hrunsins fóru hótelbyggingar brátt að rísa og á næstu árum fóru hjól atvinnulífsins smám saman að snúast á ný og brúnin að lyftast á landsmönnum. Ljúkum þessu að venju með veðurgrafík:

Annáll 2007-10 hiti

Annáll 2007-10 einkunn

Um myndirnar er það að segja að meðalhitatölur er fengnar af vef Veðurstofunnar og ekki meira um það að segja. Veðureinkunnirnar koma úr mínum eigin veðurskráningum og fundnar út með því að skipta veðrinu á hverjum degi í fjóra þætti, sól, úrkomu, vind og hita. Hver veðurþáttur getur fengið 0, 1 eða 2 stig eftir því hvort sá þáttur er neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Hver dagur getur þannig fengið 0-8 stig í einkunn en mánaðareinkunn er síðan meðaltal allra einkunna mánaðarins. Það þykir slæmt ef mánaðareinkunn er undir 4 en gott ef hún er yfir 5 stigum. Á þessu tímabili 2007-2010 er aðeins einn mánuðir undir 4 stigum (september 2007). Hinsvegar er 5 stiga einkunnir óvenju margar og þarna birtist í fyrsta skipti dökkrauð einkunn yfir 5,5 stigum (júlí 2009).

- - -

Fyrri annálar í sama dúr:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri

 


Veðurannáll 1999-2002

Við færumst nær nútímanum í þessari annálaröð þar sem stiklað er á mjög stóru í veðurfari landsins og öðru sem vert er að minnast á. Að venju tek ég fyrir fjögur ár í senn og er nú komið að aldamótatímabilinu 1999-2002. Mesta áherslan er á veðrið í Reykjavík og er mín eigin veðurdagbók helsta heimildin en að sjálfsögðu er einnig stuðst við gögn frá Veðurstofunni sem liggja fyrir á vefnum. Af þessu aldamótatímabili er það annars að segja að seinni árin tvö voru öllu hlýrri en þau tvö fyrri. Kuldaskeið áranna 1965-1995 var að baki en á því tímabili var meðalhitinn í Reykjavík um 4,2 stig. Samkvæmt reynslu landsmanna var engu að treysta en þó greinilegt að hlýjum árum fór fjölgandi. Veðurfarið sjálft var hinsvegar ennþá upp og ofan og misgott eftir mánuðum og landshlutum á alla kanta eins og hefur alltaf verið.

Árið 1999 var meðalhitinn 4,5 stig í Reykjavík sem enn taldist í góðu í meðallagi. Aðeins hlýrra var þó þrjú árin á undan. Janúar var nokkuð eðlilegur en síðan kólnaði nokkuð í febrúar eins og gjarnan á þessum árum en svo vill til að árin 1995-2002, eða í átta ár í röð, voru allir febrúarmánuðir kaldari en janúar. Eftir erfiðan febrúar kom kaldur mars sem var reyndar óvenju sólríkur og þurr sunnan heiða sökum tíðra norðanátta. Svipuð tíð hélst áfram fram yfir miðjan apríl en eftir það voraði vel. Sumarmánuðirnir voru síðri fyrir sunnan heldur en fyrir norðan en annars var ágúst vel hlýr annað árið í röð. Áfram var hlýtt á landinu þar til veturinn helltist yfir undir lok nóvember með tilheyrandi snjókomum.

Árið 2000 var jafn hlýtt og árið á undan eða 4,5 stig. Þótt flest hafi verið í meðallagi á ársvísu voru þó ýmsar öfgar í veðurfar. Eftir meinlítinn janúarmánuð kom snjóþungur febrúar sem innihélt óvenjusnarpa stórhríð í Reykjavík um miðjan dag þann 11. febrúar. Áfram voru umhleypingar í mars og veturinn endaði með þeim snjóþyngstu í borginni. Viðsnúningur var upp úr miðjum apríl en þá hallaði hann sér í norðanátt með miklum sólskinskafla suðvestanlands sem sló út fyrri met. Seinni hlutann í maí var síðan dæmigert kuldakast að vori til. Sumarið var ágætt með köflum en var reyndar mun betra í óvenju miklu sólskini fyrir norðan og austan, vel fram eftir sumri. Haustið var fremur hlýtt en vetrarmánuðirnir nóvember og desember voru mjög þurrir og snjóléttir í borginni. Síðustu vikuna ríkti hinsvegar kuldakast.

Árið 2001 hlýnaði á ný og var meðalhitinn í Reykjavík 5,2 stig. Fyrstu mánuðina skiptust á þurrir frostakaflar og hlýir vætudagar og því fremur snjólétt í borginni og víðar SV-lands. Kaldast og umhleypingasamast var í febrúar en þá var meðalhitinn -0,2°C. Fyrri helmingur júní var nokkuð kaldur en sumarið var ágætt í heildina þó lítið væru um hlýja daga. Hinsvegar haustaði seint og var október með allra hlýjasta móti. Nóvember og desember voru báðir frekar hlýir en enduðu og byrjuðu báðir með alvöru vetrarveðrum. Desember var þó hlýrri í heildina með ríkjandi sunnanáttum um miðjan mánuðinn og fram að jólum. Í þeirri hlýindagusu var sett landsmet í desemberhita þegar hitinn náði 18 stigum á Siglufirði.

Á árinu 2002 héldu hlýindi áfram og var meðalhitinn 5,4 stig í Reykjavík sem er jafnhlýtt og á hinu hlýja ári 1987. Ekki var þó hlýtt allt árið. Hlýindi og snjóleysa voru fyrstu vikurnar en frá 20. janúar til 20. mars voru vetrarkuldar ríkjandi og að þessu sinni var febrúar ekki bara kaldur, heldur fimbulkaldur og sá kaldasti í 100 ár (-3,3°C). Það voraði hinsvegar vel og náði hitinn sér vel á strik í júní sem var með þeim allra hlýjustu sem mælst höfðu og var hlýjasti mánuður ársins í Reykjavík, sem er frekar sjaldgæft. Hæst komst hitinn í 22 stig sem er hitamet í borginni fyrir júní. Þeim hlýindakafla lauk reyndar með snörpu norðanskoti eftir miðjan júní. Framhald sumarsins var ekkert sérstakt þótt fremur milt hafi verið meira og minna langt fram í október en þá kólnaði með sólríkum kafla í norðanátt. Aftur hlýnaði um miðjan nóvember og nú með einmuna hlýindum og vetrarleysu á landinu sem hélst út árið. Var desember sumstaðar sá hlýjasti sem mælst hafði, þar á meðal í Reykjavík (4,5°). Í samræmi við hversu snjólétt var víða þá var engan snjó að sjá í borginni frá hausti og út árið. Kannski má taka það fram að þessir síðustu mánuðir ársins 2002 voru byrjunin á einhverjum hlýjasta 12 mánaða kafla sem hér hefur mælst, en nánar um það síðar.

Af jarðrænum þáttum er það að segja að þann 28. september 1999 var skjálfti upp á 4,3 stig við Hestfjall á Suðurlandi. Staðsetningin leiddi athygli að því að tími gæti verið kominn á mun stærri Suðurlandsskjálfta. En áður en að því kom tók Hekla að gjósa þann 26. febrúar árið 2000 eins og auglýst hafði verið í útvarpi hálftíma áður eða svo. Þetta var í þriðja sinn í röð sem Hekla gýs eftir u.þ.b. 10 ára hvíld. Við upphaf gossins lagði fjöldi gostúrista leið sína austur til að sjá gosið en sáu lítið og sátu síðan fastir í Þrengslum á bakaleiðinni vegna vonskuveðurs. Í júní sama ár var komið að Suðurlandsskjálftum sem komu í tveimur lotum. Sá fyrri hristi vel upp í hátíðarhöldum þann 17. júní í góðu veðri. Hinn síðari varð stuttu eftir miðnætti 21. júní. Báðir reyndust þeir 6,5 að stærð og öllu ýmsu tjóni á mannvirkjum í Árnes- og Rangárvallasýslum. Katla fór að ókyrrast á þessum árum og allt eins búist við gosi þá og þegar.

Stórtíðindi urðu annars ekki í landsmálum en út í heimi bar hæst hryðjuverkaárásin á Bandaríkin 11. september árið 2001. Árásin dró dilk á eftir sér og fór svo að fjölþjóðaher réðst inn í Afganistan til að koma talibönum frá og að hafa hendur í hári og skeggi Bin Ladens, sem reyndar fannst hvergi. Vonbrigði var fyrir Bandaríkin að Írakar hefðu ekki staðið að árásinni 11. september en strangt alþjóðlegt viðskiptabann var enn við lýði gagnvart Írak vegna meintra gjöreyðingarvopna sem þeir földu svo vel fyrir umheiminum.

Töflurnar hér að neðan sýna meðalhita hvers mánaðar í Reykjavík á tímabilinu og veðureinkunnir sem reiknast út frá mínu daglega einkunnarkerfi og liggur sá skali frá 0-8. Veðurfarslega slæmir mánuðir teljast þeir sem ná ekki fjórum, en hinir betri fá yfir 5 í einkunn. Einkunnirnar eru enginn stórisannleikur en þær byggjast á sólfari, hita, úrkomu og vindi. Ef kerfið virkar þá ættu umhleypingasamir mánuðir að fá lága einkunn og allar árstíðir ættu að eiga sömu möguleika á góðri útkomu.

Annáll 1999-02 hiti

Annáll 1999-02 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/

Veðurannáll 1991-1994: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224957/

Veðurannáll 1995-1998: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2225258

 


Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti

Fjögurra ára tímabilið sem nú verður tekið fyrir er merkilegt fyrir þær sakir að þá urðu umskipti til hins betra í veðurfari á landinu. En þessi umskipti voru ekki áfallalaus eins og Vestfirðingar fengu svo illilega að kynnast. Þegar þarna var komið við sögu hafði hér á landi ríkt frekar kalt tímabil sem má segja að hafi hafist um haustið, 1965. Á þessu kalda tímabili var algengt að ársmeðalhitinn í Reykjavík væri á bilinu 4,0 til 4,5 stig. Alloft var þó kaldara, en kaldast var árið 1979 þegar meðalhitinn var aðeins 2,9 stig. Einungis fjögur ár náðu 5 stiga meðalhita í Reykjavík á tímabilinu. Undangengnir vetur höfðu margir verið snjóþungir, ekki síst fyrir norðan og vestan. Mikið snjóflóð hafði gert skaða á sumarhúsabyggð Ísfirðinga vorið áður auk þess sem manntjón varð. Vetrarlægðum með tilheyrandi fannfergi var því ekki tekið neitt sérlega fagnandi fyrir vestan í byrjun ársins 1995, sem hér fær heldur meiri umfjöllun en önnur ár í þessum annálaflokki og ekki eins Reykjavíkurmiðað og önnur ár.

Árið 1995 var kalt ár á landinu. Meðalhitinn í Reykjavík var 3,8 stig. Strax þarna fyrstu dagana í janúar bætti í snjóinn fyrir norðan og vestan og þann 15. gerði mikla norðan stórhríð á Vestfjörðum og féll þá snjóflóðið mikla yfir byggðina á Súðavík sem var 14 manns að bana. Fleiri snjóflóð féllu um svipað leyti, meðal annars í Reykhólasveit þar sem einn lést en auk þess varð eignatjón víðar á landinu vegna ofsaveðurs. Kalt var út veturinn í ríkjandi norðan- og norðaustanáttum sem þýddi reyndar að veðrið var yfirleitt með sæmilegasta móti sunnan heiða að kuldanum slepptum. Snjóþyngslin voru hinsvegar mikil fyrir norðan en mesta snjódýptin mældist í Fljótum á norðanverðum Tröllaskaga, 279 cm þann 19. mars og hefur ekki mælst meiri hér á landi á veðurathugunarstöð. Það voraði þó að lokum þrátt fyrir kaldan apríl, en skaflar vetrarins voru ansi þaulsetnir á norðurhelmingi landsins. Fyrir sunnan var allt með eðlilegra móti og maí var afar veðragóður í Reykjavík. Sumarið 1995 var ekkert betra en vænta mátti. Suðvestanlands var þó ágætis veður í júní og júlí en ágúst var hinsvegar sólarlítill og blautur. Haustið fór ágætlega af stað en dagana fyrir fyrsta vetrardag gerði slæmt norðaustan- og norðanáhlaup með snjókomu og víðtækri snjóflóðahættu á Vestfjörðum. Óhugur fór um Vestfirðinga í ljósi atburðanna í Súðavík í upphafi árs og talað um að enn einn snjóaveturinn gæti jafnvel gert út af við byggð á Vestfjörðum. Og svo féll flóðið á Flateyri þann 26. október þar sem 20 manns fórust, fjöldi íbúðarhúsa eyðilagðist og veturinn ekki formlega genginn í garð. Hörmulegra gat það varla orðið. En menn létu ekki deigan síga og svo fór reyndar að veður var skaplegt að mestu það sem eftir lifði árs, og það sem meira er, eftir snjóflóðið á Flateyri má segja að grundvallarbreyting hafi átt sér stað í veðurfari á landinu, nákvæmlega 30 árum eftir að kuldaskeiðið hófst með köldum nóvembermánuði haustið 1965.

Árið 1996 var meðalhitinn í Reykjavík 5,0 stig og veðurfar á landinu í heild almennt gott. Ekki veitti af eftir erfitt ár á undan en væntanlega hafa flestir litið á hið góða tíðarfar sem kærkominn stundarfrið frekar en einhver stór umskipti. Árið byrjaði með hlýjum janúar en febrúar var hinsvegar heldur kaldari og vetrarlegri. Aftur hlýnaði vel í mars og má segja að góð tíð hafi haldist út árið með þeirri undantekningu að nóvember var mjög kaldur á landinu og reyndar sá kaldasti á öldinni í Reykjavík, -1,7 stig. Desember var hinsvegar með öllu eðlilegra móti og meðalhitinn í borginni hálfri gráðu yfir frostmarki.

Árið 1997 gerði örlítið betur í Reykjavík en árið á undan hitafarslega og var ársmeðalhitinn 5,1 stig og hafði það ekki gerst síðan á 6. áratugnum að tvö ár kæmu í röð þar sem meðalhitinn næði 5 stigum. Fyrstu þrjá mánuðina var veðurfar reyndar frekar umhleypingasamt. Enn var febrúar kaldur og að þessu sinni mjög snjóþungur í Reykjavík. Vorið var þurrt og nokkuð gott en mikið norðanskot gerði snemma í júní sem dró niður meðalhita mánaðarins. Það hret var eitt sinn kallað Smáþjóðaleikahretið á þessari bloggsíðu. Ágætlega hlýtt var í júlí og ágúst en þó úrkomusamt suðvestanlands. Veturinn lét lengi bíða eftir sér og náði sér varla á strik fram að áramótum. Þann 14. desember mældist 12 stiga í Reykjavík sem er hitamet í þeim mánuði.

Á árinu 1998 slaknaði aðeins á hlýindum en árshitinn í Reykjavík var þá 4,7 stig sem þó var vel yfir þeim 4,3 stiga meðalhita áranna 1961-1990 sem þarna er miðað við. Fyrstu daga ársins var mjög hlýtt síðan tók við kaldari vetrartíð fram í mars með talsverðum frostum inni á milli, þá sér í lagi um mánaðarmótin febrúar og mars. Frekar snjólétt var þó á landinu og eins og veturna tvo á undan var lítið um vandræði vegna snjóflóðahættu. Apríl var þurr, sólríkur og frekar hlýr í Reykjavík en maí heldur þungbúnari. Júní var sólríkur og góður. Frekar kaldur að vísu fyrir norðan en í Reykjavík var þetta í fyrsta sinn í 32 ár sem meðalhitinn náði 10 stigum í júní. Ekki þarf mörg orð um seinni hluta ársins sem var tíðindalaust að mestu veðurfarslega séð. Þó má nefna til marks um breytt veðurfar að allur snjór hvarf úr Esjuhlíðum undir lok sumars sem var nýlunda á þessum árum og hafði ekki gerst í 30 ár eða svo.

Á heimsvísu var árið 1998 afgerandi hlýjasta árið sem mælst hafði á jörðinni og aukinn þungi í umræðum um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Að vísu fengu hlýindin hjálp af öflugu El Nino ástandi í Kyrrahafinu en greinileg mælanleg hlýnun hafði þó átt sér stað á jörðinni frá því sem áður var. Efasemdaraddir voru þó farnar að heyrast. Danskir vísindamenn bentu til dæmis á breytileika í virkni sólarinnar en slíkar kenningar fengu ekki hljómgrunn hjá loftslagsnefndum.

Af jarðhræringum er það að segja að í lok september 1996 hófst talsvert eldgos í Vatnajökli er síðar var nefnt Gjálpargosið. Það olli síðan stóru og margboðuðu jökulhlaupi á Skeiðarársandi sem tók með sér brýr og vegi á hringveginum. Í desember 1998 kom upp gos í Grímsvötnum sem stóð í nokkra daga en olli engum skaða. Nokkuð var um að jarðskjálftar hristu hús höfuðborgarinnar og víðar SV-lands. Þeir stærstu voru á árinu 1998, á Hellisheiði og við Ölfus, um og yfir 5 stigum í júní og nóvember. Ýmislegt var því að gerast á þessum árum. Aukin hlýindi, fleiri jarðskjálftar, fleiri eldgos. Meira af slíku var í boði á því aldamótatímabili sem næst verður tekið fyrir.

Annáll 1995-98 hiti

Annáll 1995-98 einkunn

- - -

Veðurannáll 1987-1990: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224449/

Veðurannáll 1991-1994: https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/2224957/


Veðurannáll 1987-1990

Þar sem þessi bloggsíða er að stórum hluta helguð veðrinu þá er varla hægt annað en að bjóða upp á einhvers konar veðurannála eins og gjarnan tíðkast á slíkum síðum. Ég mun taka upp þráðinn á því herrans ári 1987 sem einmitt er fyrsta heila árið sem ég færði til veðurdagbókar. Tekin verða fyrir fjögur ár í senn í vikulegum bloggpistlum en sá síðasti í röðinni mun birtast eftir áramót þegar núverandi ár mun tilheyra fortíðinni. Þetta verður alls ekki ítarlegt yfirlit, raunar bara mjög stutt, og megináherslan er á veðrið í Reykjavík enda er það mitt heimapláss. Neðan lesmáls er að finna grafískt yfirlit yfir meðalhita einstaka mánaða tímabilsins í Reykjavík samkvæmt Veðurstofutölum, auk einkunna sem ég hef gefið hverjum mánuði útfrá einkunnakerfi mínu sem byggir á veðurþáttunum fjórum: hita, úrkomu, vindi og sólfari.

Þegar fjögurra ára tímabilið 1987-1990 hófst voru landsmenn ýmsu slæmu vanir og gerðu sér litlar vonir um að einhver breyting ætti eftir að verða þar á. Miðaldra fólk og þaðan af eldra talaði þó um að betri tíð hafi ríkt í þeirra ungdæmi og ekki að ástæðulausu því nokkuð hlýrra hafði verið í veðri frá því fyrir miðja öldina og fram til 1965 er kaldara veðurlag tók við. Þótt þetta kuldaskeið hafi enn verið ríkjandi árin 1987-1990 var eitthvað óvenjulegt að gerast þarna strax árið 1987 í veðrinu sem kynslóð köldu áranna hafði varla kynnst áður. En alveg óháð veðrinu hér heima þá þróuðust heimsmálin á þann hátt að sjálft kalda stríðið fékk skjótan endi þegar alþýðan reis upp gegn alræði öreiganna í Austur-Evrópu.

Árið 1987 hófst með hlýjum sunnanvindum sem varð til þess að meðalhitinn í janúar varð óvenju hár, 3,1 stig. Heldur dró úr hlýindunum í febrúar og mars en meðalhitinn var þó ofan frostmarks báða mánuðina. Miklir umhleypingar voru í aprílmánuði sem endaði með miklu fannfergi í Reykjavík aðfaranótt 1. maí. Sá snjór hvarf fljót og seinni partinn í maí gerði nokkuð góða hitabylgju suðvestanlands. Sumarmánuðirnir júní og ágúst voru góðir sunnan heiða en öllu verra og sólarminna var í júlí. Haustið var tíðindalítið en eftir frekar kaldan október hlýnaði á ný í nóvember og hélst óvenjugóð vetrartíð út árið með einmuna hlýindum og snjóleysi. Svo fór að meðalhiti ársins varð 5,4 stig í Reykjavík og hafði ekki verið hærri síðan á hina hlýja ári 1964.

Árið 1988 féll hitinn í sitt gamla far á ný og var ársmeðalhitinn í Reykjavík 4,1 stig sem er alveg við meðalhita 9. áratugarins. Kalt var fjóra fyrstu mánuðina. Meðalhitinn í Reykjavík í janúar var -3,0 stig en febrúar og mars voru einnig undir frostmarki. Þetta var norðanáttavetur með snjóþyngslum norðanlands auk þess sem hafísinn lét sjá sig. Kuldar héldu áfram í apríl en síðan hlýnaði vel í maímánuði með ágætis hitabylgju sem kom hitanum upp í 19 stig í borginni. Júní var hinsvegar slæmur suðvestanlands og sá sólarminnsti í borginni sem mælst hafði. Júlí var mun betri en þó gerði óvenjumikið þrumuveður síðdegis þann 10. júlí í Reykjavík og víðar suðvestanlands sem var tveimur kúm að aldurtila í Svínadal. Ekki bar mikið til tíðinda eftir það en desember var þó ansi umhleypingasamur.

Árið 1989 var heldur kaldara en árið undan og var meðalhitinn í Reykjavík ekki nema 3,8 stig. Janúar var mjög umhleypingasamur og tepptist umferð í borginni nokkrum sinnum vegna illviðris og ófærðar. Um hægðist með kólnandi veðri og var meðalhiti febrúar í borginni -3,0 stig. Mjög snjóþungt var suðvestanlands og víða um land alveg fram á vor. Maí var bæði kaldur og einstaklega úrkomusamur. Ekki var kvartað mikið í júní en Páfinn fékk þó heldur napurt veður í heimsókn sinni fyrstu viku mánaðarins. Síðan kom sólarlausasti júlí sem mælst hafði í Reykjavík en öllu betra var norðaustanlands eins og gjarnan þegar þannig stendur á. Ekki var hlýindum fyrir að fara en hámarkshitinn þetta sumar var ekki nema 15,6 stig í Reykjavík. Aftur var tíðindalítið seinni hluta árs en desember var nokkuð kaflaskiptur í hitafari.  

Árið 1990 var meðalhitinn 4,4 stig í Reykjavík. Janúar var frekar illviðrasamur en þá gerði heilmikið tjón suðvestanlands vegna sjávarflóða snemma mánaðar. Aðalkuldakaflinn var kringum mánaðarmótin febrúar og mars en annars einkenndist veturinn af miklum snjóþyngslum víðast hvar á landinu og þá sérstaklega norðanlands fram á vor. Sumarið slapp fyrir horn en júlí reyndist sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1968. September var mjög úrkomusamur sunnanlands en annars voru haustmánuðirnir sæmilega hlýir. Í heildina áttu lægðir greiðan aðgang að landinu á árinu og í samræmi við það hafði meðalloftþrýstingur ársins ekki mæst lægri en þetta ár.

Á tímabilinu var nokkuð rólegt í jarðskorpunni. Dálítil jarðskjálftahrina með upptök við Kleifarvatn gekk þó yfir suðvesturland í mars 1990 og fundust sterkustu skjálftarnir vel í Reykjavík. Ekki urðu nein eldgos á þessum árum en síðast hafði gosið í Gjástykki árið 1984 auk smáhræringa í Grímsvötnum. Tíðindi biðu hinsvegar handan áramótanna en það tilheyrir næsta pistli.

Annáll 1987-90 hiti

Annáll 1987-90 einkunn


Hafíslágmarkið á norðurslóðum og jákvæður NAO

Eins og vera ber í september þá er hið árlega lágmark hafíssins á norðurslóðum að baki sem þýðir að nýmyndun hafíss hafin á ný eftir sumarbráðnunina. Hafíslágmarkið er stór viðmiðunarpunktur á ástandi hafíssins og tilvalinn tímapunktur til að bera saman heilbrigði ísbreiðunnar milli ára. En hver er þá staðan nú? Sé miðað við gögn frá NSIDC (Bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni) þá var lágmarksútbreiðslan að þessu sinni sú sjötta til sjöunda lægsta síðan nákvæmar gervihnattamælingar hófust árið 1979. Lágmarksútbreiðslan í ár var nánast sú sama og árið 2008 og var lítillega lægri en árin 2010 og 2017. Lágmarkið samkvæmt NSIDC var 4,596 milljón ferkílómetrar og fór lægst kringum 18. september en þá er miðað við fimm daga meðaltal. Árið 2012 heldur enn stöðu sinni með langlægsta sumarlágmarkið 3,387 milljón km2, en árin 2007 og 2016 eru í 2. og 3. sæti. Þetta má meðal annars sjá á spagettílínuritinu hér að neðan. Árið 2018 er merkt með þykkri dökkri línu.

Hafíslágmark Sept 2018
Ef miðað er við tímabilið frá og með tímamótaárinu 2007 er útbreiðslan núna ekki fjarri meðallagi, en þó mun minni en mældist í lok sumars á gervihnattaárum fyrir árið 2007 og að öllum líkindum minni en hún var nokkru sinni á síðustu öld. Þótt útbreiðslan sveiflist nokkuð á milli ára þá hefur í raun lítið gerst í útbreiðslumálum að haustlagi eftir 2007 ef undan er skilið metárið 2012. Ísinn virðist því ekki vera að hverfa alveg strax og hann er heldur ekki að jafna sig, hvað sem síðar verður. Aftur á móti hafa vetrarhámörkin verið með minnsta móti síðustu fjögur ár sem er í takt við vetrarhlýindi sem ríkt hafa á Norðurslóðum undanfarna vetur.

Hafíslágmark 2018
Kortið hér að ofan frá Bremen-háskóla sýnir hvernig ísbreiðan leit út þann 18. september en til viðmiðunar bætti ég sjálfur við appelsínugulri línu sem sýnir metlágmarkið 2012. Í heildina er ísinn núna nokkuð samanþjappaður þar sem hann er, allavega miðað við stundum áður þegar ísinn hefur verið dreifður um stærra svæði og gisinn eftir því, jafnvel á sjálfum pólnum. Á kortinu má einnig sjá hversu lítill ís er austur af Grænland, eða varla nokkur. Ísinn hefur einnig hörfað vel norður af Svalbarða og áfram hringinn alveg að Alaska, ef frá er talin þaulsetin ístunga sem teygir sig í átt að Austur-Síberíu. Þessi ístunga hefur þó mikið verið að rýrna undanfarið sem á sinn þátt í því að hafíslágmarkið hefur dregist dálítið á langinn. Ísinn er aftur á móti nokkuð mikill norður af Kanada en kuldar þar og ríkjandi vindar hafa verið nokkuð duglegir að beina ísnum þangað og milli heimskautaeyjanna, í stað þess að beina ísnum út um Fram-sundið milli Grænlands og Svalbarða.

Að mínu mati og kannski einhverra annarra er þessi tilhneiging í færslu íssins hluti af stærri óvenjulegheitum sem staðið hafa yfir frá síðasta vetri sem lýsa sér í veikri Grænlandshæð og sterkum lægðargangi suður með Grænlandi. Það ætti að leiða til aukinna hlýinda austan Grænlands og hlýnandi sjávar allra nyrst í Atlantshafinu sem heldur aftur af hafísnum þar. Aftur á móti þá safnast kuldinn fyrir nyrst í Kanada og vestur af Grænlandi og streymir þaðan suður og veldur kælingunni á Atlantshafinu, suður af Grænlandi. Einhverjir vilja reyndar kenna þá kælingu við hægingu á Golfstraumi eða bræðsluvatni frá Grænlandi. Ég vil hins vegar leyfa mér að kalla þetta hvert annað frávik enda hefur hinn svokallaði NAO vísir (North Atlantic Oscillation) verið í sterkum jákvæðum fasa mánuðum saman og reyndar síðustu vetur einnig, sem lýsir sér einmitt í öflugri Íslandslægð með öllu því sem henni fylgir fyrir okkur.

samsett NAO+ 2018

Kortin hér að ofan frá ClimateReanalyzer eru nokkuð dæmigerð fyrir þá stöðu en þau eru frá 30. ágúst sl. og sýna annarsvegar loftþrýsting og hinsvegar frávik í sjávarhita. Pílurnar eru viðbætur frá mér. Hér fyrir neðan má síðan sjá hvernig NAO-vísirinn hefur þróast frá 1995 til 2018. Sveiflurnar hafa aukist frá því sem var og jákvæður NAO-vísir orðið mun algengari en á árunum 1995-2011, sem hefur sín neikvæðu áhrif á sjávarhita suðvestur af landinu, en velgir vel nyrstu norðurhöf við Atlantshafið. Ýmislegt má annars lesa úr myndinni eins og að rauð tímabil eru ekki vænleg hér suðvestanlands en öllu skárri norðaustanlands.

NAO 1995-2018


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband