Færsluflokkur: Vísindi og fræði
2.3.2013 | 20:22
Eitt orð eða tvö?
Málkenndin er í tómu tjóni var sagt í Morgunblaðsfrétt á dögunum. Kannski eru það ekki ný tíðindi. Eldri kynslóðir hafa sjálfsagt alla tíð talið sig tala betra mál en uppvaxandi ungdómurinn. Í þessari Morgunblaðsfrétt var aðallega verið að fjalla um samsett orð og óvissuna sem þjakar marga um hvenær á að skrifa err í samsettum orðum samanber fermingaveisla eða fermingarveisla en eins og við vitum sem erum komin af fermingaraldri þá hljótum við að skrifa fermingarveisla með erri ef um er að ræða eina fermingu og ekki fermast börnin tvisvar.
Annað og stærra mál í sambandi við samsett orð snýst um hvenær orð eru yfirleitt samsett. Ég er sjálfsagt ekki einn um að hafa tekið eftir að aukin losung er að komast á þau mál og jafnvel í virðulegum fjölmiðlum má sjá samsett nafnorð slitin í sundur samanber: Matvöru verslun, málara meistari og dómsmála ráðherra svo maður skáldi nokkur dæmi. Kannski eru þetta einhver áhrif frá enskunni sem fylgir ekki eins sterklega þeirri íslensku hefð að slengja saman nafnorðum, jafnvel í löngum röðum samanber þetta fræga dæmi:
Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúraútidyralyklakippuhringur
en ekki:
Vaðlaheiðar vegavinnu verkfæra geymsluskúra útidyra lyklakippuhringur
eða jafnvel:
Vaðla heiðar vega vinnu verk færa geymslu skúra úti dyra lykla kippu hringur
Við steypum þó ekki nafnorðum saman í öllum tilfellum. Við skrifum Íslandssaga í einu orði en þegar orðaröðin snýst við er það saga Íslands. Þarna virðist ráða ferðinni svona almennt séð að ef eignarfallsorðið er nefnt á undan þá er orðið samsett en er annars í tvennu lagi samanber einnig: skipsvél og vél skipsins. Reyndar er alls ekki alltaf um að ræða eignarfall á fyrra orðinu, eins og haustlitir og flugvél en þá má grípa til þeirrar viðmiðunnar að ef fyrri hlutinn helst óbreyttur í beygingunni, þá er orðið samsett, sbr. hestöfl, hestöflum, hestafla.En svo kemur vandamál því í áðurnefndri frétt, birtist þessi mynd af nokkrum öndvegisritum heimsbókmenntanna en þar má meðal annars sjá Egils sögu og Laxdæla sögu í tveimur orðum. Í fljótu bragði hefði ég haldið að þessi heiti ættu að vera í einu orði eins og í tilfelli Egilsstaða en svo ef maður hugsar um Egils Appelsín skilur maður þetta betur. En þó ekki alveg. Þarna virðast ráða gamlar hefðir.
Einnig má svo nefna tilfelli þegar eignarfallsorð með greini eru notuð í fyrra orðinu eins og tíðkast gjarnan í dönsku en sést hér helst í hátíðlegra máli. Haföldur er eitt orð á meðan hinar hátíðlegu hafsins öldur eru tvö orð enda kominn greinir á fyrra orðið. Öldur hafsins eru líka tvö orð enda eignarfallið á seinna orðinu. Öldurhús er auðvitað eitt orð en svoleiðis hús eru sennilega kennd við eitthvað annað en haföldur þótt gestir slíkra húsa geti gerst óstöðugir og farið að stíga ölduna. Annars eru reglur og venjur um eitt orð eða tvö ekki einfalt mál og ekki tel ég mig vera neitt íslenskuséní þannig að í staðin fyrir að fabúlera meira um þetta er best að vísa bara í auglýsingu um íslenska stafsetningu þar sem fjallað er um eitt orð eða tvö.
![]() |
Málkenndin er í tómu tjóni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2013 | 18:49
Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii
Öðru hvoru berast smáfréttir af eldgosinu endalausa á stærstu eyju á Hawaii-eyjaklasans sem hófst í janúar árið 1983 og virðist engan enda ætla að taka nú 30 árum síðar. Þetta er dæmigert dyngjugos sem einkennist af lítilli virkni með þunnfljótandi hraunrennsli niður hlíðar Kilauea sem er í næsta nágrenni risa-elddyngjunnnar Mauna Loa. Virknin hefur verið nokkuð breytileg í gosinu og allur gangur á því hvernig hraunið rennur. Það finnur sér ýmsa nýja farvegi, stundum nær það að seytla alla leið út í sjó en stundum gerir það ekki annað en að fylla upp í nýmyndaðar öskjur uppi á gossvæðinu sjálfu.
Á NASA / Earth Observatory-vefnum var á dögunum birt þessi gervitunglamynd sem tekin var 15. maí 2011 og sýnir víðáttumiklar dökkar hraunbreiður í hlíðum Kilauea-fjalls umkringja gróið svæði þar sem finna má eitt hús og einhverja vegi sem enda undir hraunbrúninni. Allt þetta dökka hraun hefur runnið á síðustu árum eða áratugum nema þetta ljósgráa sem er splunkunýtt hraun á hreyfingu og ógnar þarna húsinu eina sem kennt er við Jack Thompson.
Svæðið sem húsið stendur á ber nafnið Royal Gardens og var skipulagt á árunum kringum 1960 í hlíðum Kilauea. Það voru einkum grunlausir Bandaríkjamenn frá meginlandinu sem keyptu sér þarna land og þegar gosið hófst árið 1983 höfðu 75 íbúðarhús risið á svæðinu. Talsverður kraftur var í gosinu í byrjun og fór húsunum ört fækkandi eftir því sem meira hraun rann niður aflíðandi hlíðarnar. Að lokum var hús Jack Tompsons hið eina sem eftir stóð og þar bjó hann áfram umkringdur nýjum hraunum á alla kanta og vonaðist til gæfan yrði honum hliðholl eins og hún hafði verið fram að þessu.
En honum varð ekki að ósk sinni því snemma árs 2012 fóru hraunstraumarnir að gerast æði nærgöngulir og ógna húsinu. Þá var ekki um annað að ræða en að kalla á þyrlur, safna saman mikilvægasta hafurtaskinu og yfirgefa húsið. Það var svo þann 2. mars í fyrra sem húsið brann og hvarf síðan undir hægfara helluhraunið.
Myndirnar hér eru frá síðustu dögum búsetu Jack Tompsons í Royal Gardens. Þær eru teknar úr 7 mínútna myndbandi sem einnig fylgir hér að neðan. Þar leiðir karlinn okkur um svæðið og við fáum að fylgjast með því þegar hann yfirgefur húsið í síðasta sinn.
Last house standing at Royal Gardnes / Nasa Earth Observatory
Hawaiian Volcano Observatory / Kilauea
16.2.2013 | 19:54
Tunglið séð frá jörðinni og jörðin séð frá tunglinu
Ýmsu má velta fyrir sér þegar kemur að himni og jörð. Hvernig er það til dæmis að vera staddur á tunglinu og horfa til jarðar? Sjáum við jörðina koma upp á tunglinu og setjast aftur eins og tunglið gerir hér á jörðu - og ef svo er, hversu hratt gerist það? Eða er jörðin kannski bara alltaf á sínum stað á tunglhimninum? Þessu fór ég að velta fyrir mér um daginn þegar ég sá nýlegt tunglið lágt á suðvesturhimni. Reyndar þóttist ég vita hvernig þessu væri háttað en hafði þó satt að segja ekki hugsað þessa hluti alveg til enda. Hefst þá bloggfærslan.
Tunglið séð frá Jörðu
Eins og við vitum þá gengur tunglið um jörðina. Þó mætti líka segja að jörð og tungl gangi umhverfis hvort annað, en vegna þess hve jörðin er miklu massameiri en tunglið þá hreyfist jörðin mjög lítið miðað við tunglið. Við segjum því að tunglið gangi umhverfis jörðina sem það og gerir á um 29,5 dögum, eða næstum því á einum mánuði. Braut tunglsins er nálægt því að vera á sama fleti og sólkerfið sem þýðir að tunglið ferðast um himininn á svipuðum brautum og sólin.
Almennt séð kemur tunglið upp í austri og sest í vestri, en hversu langt frá þessum höfuðáttum það rís og hnígur hverju sinni fer þó eftir því hvar við erum stödd á jörðinni og hvar við erum stödd í tunglmánuðinum. Hér norður á Íslandi getur tunglið komið upp í suðaustri og rétt náð yfir sjóndeildarhringinn áður en það sest í suðvestri eins og sólin gerir í skammdeginu. En breytingin er hröð og hálfum mánuði síðar rís það í norðaustri, fer hátt á suðurhiminn og sest að lokum í norðvestri eins og sólin gerir á bjartasta tíma ársins. Þróun tunglgöngunnar um himininn er því um 12 sinnum hraðari en sólargangsins. Við miðbaug eru ekki eins miklar sveiflur í tunglgöngunni, ekki frekar en í sólargangi.
Tunglið er auðvitað ekki bara á lofti í myrkri þó að við sjáum það oftast í myrkri. Þegar það er beint á móti sólinni er það fullt, en eftir því sem það nálgast sól frá okkur séð stækkar skuggahlið þess og svo kemur nýtt tungl þegar það byrjar að fjarlægast sólina á ný. Fullt tungl um hávetur kemst alltaf hátt á lofti um miðnætti frá Íslandi séð en fullt tungl um hásumar kemst aldrei nema rétt á loft á suðurhimni, sem er rökrétt því fullt tungl er alltaf beint á móti sól. Nýtt tungl að sumarlagi fylgir hinsvegar sólinn hátt á loft en sést þá ekki mikið vegna birtu, nema jú að það hreinlega gangi fyrir sólina í sólmyrkva. Að sama skapi kemst nýtt tungl að vetrarlagi varla hátt á loft frekar en sólin, enda nýtt tungl ávallt í slagtogi við sólina. Hér á norðurslóðum getur tunglið aldrei verið hátt á norðurhimni, ekki frekar en sólin.
Jörðin séð frá Tunglinu
Skemmst er frá því að segja að ferðalag jarðar á tunglhimni er mun einfaldara en tunglgangan á okkar himni. Ég var áður búinn að nefna að tunglið gengur umhverfis um jörðu á um 29,5 dögum en það góða er að tunglið snýst um sjálft sig á jafn löngum tíma enda löngu búið að samstilla snúning sinn við umferðartímann um jörðu af praktískum þyngdaraflsfræðilegum ástæðum. Þar af leiðir snýr tunglið alltaf sömu hlið að jörðu á meðan fjærhliðin er okkur ævinlega hulin. Það er skuggahlið tunglsins eða Dark side of the Moon eins og sagt er á ensku og allir Pink Floyd aðdáendur kannast við. Sú hlið tunglsins nýtur þó jafn mikillar sólar og sú sem snýr að okkur.
Samstilling umferðartíma tunglsins við eigin snúning leiðir einnig til þess að ef við settumst að á tilteknum stað á tunglinu þá sæjum við jörðina alltaf á sama stað á himninum, þ.e. ef við erum réttu megin. Ef við byggjum hinsvegar á fjærhlið tunglsins sæjum við aldrei jörðina nema með því að leggjast í ferðalag. Þeir sem byggju þarna á jaðrinum upplifðu bara hálfa jörð sem væri hvorki að koma upp né setjast. Kannski þó ekki alveg því eitthvað hnik er vegna lítilsháttar halla tunglbrautarinnar. Að horfa á jörðina frá tunglinu þarf þó ekki að vera tilbreytingalaust því ólíkt því sem við upplifum með tunglið á jörðinni, þá sjáum við jörðina snúast, séð frá á tunglinu. Eina stundina blasir því Afríka við tunglbúum en nokkrum tímum síðar kemur Ameríka í ljós og svo framvegis svo ekki sé nú talað um veðurkerfin með sitt síbreytilega skýjafar.
Kvartilaskipti eru á jarðkúlunni eins og með tunglið hjá okkur en eru öfug í tíma, þ.e. jörð er vaxandi á tunglinu þegar tungl er minnkandi hjá okkur. Full jörð séð frá tunglinu er þegar sólin er í gagnstöðu við jörð, þ.e. þegar tunglið er á milli jarðar og sólar og ný jörð væri þá þegar jörðin er á milli tungls og sólar. Eins og með tunglið hjá okkur þá tekur þessi sveifla um einn mánuð eða þann tíma sem það tekur tunglið að fara í kringum jörðina. Hver sólarhringur á tunglinu er að sama skapi um einn mánuður sem þýðir að sólin skín í 14-15 jarðdaga og nóttin er aðrar 14-15 jarðnætur. Sólin ferðast því löturhægt um himininn á tunglinu en er ekki föst á sínum stað eins og jörðin. Stjörnurnar hreifast svo auðvitað líka á tunglhimni eins og sólin.
Dagsbirtan á tunglinu hlýtur að vera sérstök fyrir okkur jarðarbúa. Á tunglinu er enginn lofthjúpur og því enginn himinblámi. Þrátt fyrir flennibirtu á sólbökuðu tungli er himinninn bara svartur eins og hann er í raun. Sólin ætti því að sjást eins og hver önnur skínandi ljósapera í myrkvuðu tómarúmi. Þegar sólin sest á tunglinu ættu stjörnurnar að sjást vel, ekki síst á þeirri hlið sem jarðarljóss gætir ekki. Þá eru menn svo sannarlega á skuggahlið tunglsins.
- - - -
Best að ljúka þessu svona. Kannski er ekki útilokað að eitthvað hafi hringsnúist í þessari upptalningu og ef einhver veit til þess, má alveg láta vita.
Jörðin séð frá tunglinu. Myndin er tekin af japanska Kaguya geimfarinu sem skotið var á loft árið 2007.
Efri myndin af tunglinu er tekin frá Víðimelnum 12. febrúar 2013,
1.2.2013 | 11:44
Þrálátar austanáttir skrásettar
Nú hef ég í minni eigin heimilisveðurstofu farið yfir veðurfar nýliðins janúarmánaðar og reyndist hann vera sá hlýjasti síðan 1987 en það var einmitt fyrsti janúarinn sem ég skráði í Veðurdagbókina. Samkvæmt mínum viðmiðunum voru 20 hlýir dagar umfram kalda árið 1987 en nú í ár voru þeir 15 talsins, sem þó er mjög gott.
En einna athyglisverðast við veðurfar undanfarna tvo mánuði er hvað austanáttin hefur skorað hátt í vindáttasamanburðinum og jafnvel verið einráð dögum saman.
Áður en ég kem að því er mynd hér að neðan sem sýnir hvernig mánaðarleg vindáttatíðni hefur verið að meðaltali þessa mánuði, tíu árin á undan hér í Reykjavík, miðað við mínar skráningar. Tölurnar eru fengnar með ákveðnum hætti og byggjast bæði á tíðni vindátta og vindstyrk. Samkvæmt því er austanáttin þarna með meðalgildið 17, sunnan og suðaustan eru báðar með 11 og svo framvegis. Vestan- og norðvestanvindar hafa lægsta gildið og norðanáttin er frekar slök. Samanlagt gildi vindstyrks er 64 sem er eðlilegt því ef vindur væri í meðallagi í heilan mánuð kæmi út tala sem er tvöfalt hærri en fjöldi daga mánaðarins.
En þá að óvenjulegheitunum. Vindrósirnar hér að neðan sýna hvernig austanáttin hefur algerlega haft yfirhöndina síðustu tvo mánuði. Í desember komust vindáttir frá vestri til suðurs ekki einu sinni á blað en austanáttin er með gildið 46 af 67 sem er heildarvindstyrkur mánaðarins. Talan 46 er reyndar hæsta talan sem vindátt einstaka mánaðar hefur fengið hjá mér frá upphafi skráninga samkvæmt minni tölfræði. Í janúar er austanáttin með töluna 36 en nánast ekkert blæs úr áttunum frá suðvestri til norðurs nema einn hægviðrisdag sem ég hef úrskurðað sem vestanátt.
Reyndar er það svo að vindur er stundum mjög breytilegur innan dagsins og því ekki alltaf auðvelt að úthluta dögum sérstakri vindátt. Ég tek einnig fram að ég skrái einungis veðrið yfir daginn, en ekki kvöld- og næturveðrið. Það sem ég hef til grundvallar eru vindhraða- og vindáttalínurit frá veðurstofunni sem birtast á vedur.is, samanber þetta línurit sem sýnir vel austanáttina um vikuskeið undir lok janúar.
Þessar tíðu austanáttir hafa skilað sér í nokkuð hagstæðu veðri hér Suðvestanlands. Það hefur t.d. varla sést snjór í höfuðborginni en stundum hefur vindurinn reyndar verið nokkuð ágengur inn á milli. Kannski er einn fylgisfiskurinn sá að meira hefur fallið á silfurborðbúnað en venjulega og hef ég reyndar heyrt húsmæður hér í Vesturbænum kvarta yfir því. Í austanáttum blæs vindur frá jarðhitavirkjunum á Hengilssvæðinu til Reykjavíkur en það væri athugandi að gera einhvertíma almennilegan samanburð þessu silfuráfalli með tilliti til vindátta.
En nú er kominn nýr mánuður og samkvæmt veðurspám virðist meiri fjölbreytni vera framundan í vindáttum með meira af norðlægu og Amerísk-ættuðu vetrarlofti á kostnað hins Evrópska. Í bland við annað gæti útsynningurinn því látið á sér kræla með sínum klassíska éljagangi hér suðvestanlands.
18.1.2013 | 20:17
Jöklabráðnunin mikla sumarið 2010
Fyrr í þessum mánuði var haldin ráðstefna í Háskóla Íslands í tilefni sjötugsafmæli Dr. Helga Björnssonar jöklafræðings. Sjálfur var ég nú ekki viðstaddur þessa ráðstefnu en fylgdist þó með því sem sagt var frá í fjölmiðlum. Þar á meðal var frétt á Mbl íslensku jöklarnir eru næmari þar sem fjallað er meðal annars um meira næmi íslenskra jökla gagnvart hlýnun en til dæmis þeirra kanadísku. (Tengill á fréttina er undir bloggfærslunni)
Ég ætla ekki að þykjast vita betur en hámenntaðir jöklafræðingar og læt þá um að spá fyrir um örlög íslenskra jökla. Það sem hinsvegar vakti athygli mína í fréttum af ráðstefnunni voru niðurstöður rannsókna á áhrifum öskulagsins úr Eyjafjallajökli á bráðnun jökla sumarið 2010 þar sem kom fram að bráðnunin það ár hafi verið 1,5 sinnum meiri en á venjulegu ári. Af þessu og fleiru mátti skilja að hin mjög svo neikvæða afkoma jökla á landinu þetta ár hafi aðallega verið vegna gosöskunnar sem sáldraðist yfir landið.
Hvað um veðurfarslegar ástæður?
Nú eru áhrif sóts og ösku á jökla vel þekkt en miðað við það sem komið hefur fram í fjölmiðlum virðast menn ekki hafa tekið mikið tillit veðurfarslegra þátta árið 2010 á afkomu jöklana, en sjálfur er ég eiginlega á því að þarna hafi óvenjulegt tíðarfar jafnvel átt stærri þátt en askan í þessari miklu bráðnun sumarið 2010.
Til að skoða það er alveg gráupplagt að vísa í eigin rannsóknir eins og þetta áður birta línurit sem ég teiknaði upp samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofunnar um snjóalög á Setri sem er lengst upp á reginhálendinu sunnan Vatnajökuls. Hver lituð lína stendur fyrir einn vetur og samkvæmt þessu hefur snjódýptin venjulega verið í hámarki um miðjan apríl en komin niður í núll um miðjan júní. Greinilega var árið 2010 mjög óvenjulegt (blá lína) því snjódýptin náði sér aldrei almennilega á strik þennan vetur og var komin niður í núll upp úr miðjum maí. (Núverandi vetur sést ekki þarna því af einhverjum ástæðum hefur snjódýptarmælirinn á Setri ekki verið virkur síðustu mánuði.)
Þetta óvenjulega tíðarfar árið 2010 sást líka vel á snjóalögum Esjunnar sem ég fylgist einmitt líka með og hef ljósmyndað í lok vetrar hin síðustu ár. Mín reynsla er sú að nokkuð gott samband er á milli snjóalaga í Esjunni og á hálendinu við Setur. Fyrri myndin er tekin árið 2010, en hin síðari árið 2012 sem gæti talist venjulegra ár. Í samræmi við lítil snjóalög undir lok vetrar hvarf snjórinn mjög snemma sumarið 2010 eða um miðjan júlí en í fyrra hvarf hann ekki fyrr en í september.
Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að veturinn 2009-2010 hafi verið hlýr um land allt og þar að auki þurr um sunnanvert landið. Í Reykjavík voru alhvítir dagar ekki nema 13 frá desember til mars sem er það næst minnsta frá upphafi samfelldra mælinga árið 1823. Eftir þennan óvenjulega vetur kom svo hlýjasta sumar sem vitað er um síðan mælingar hófust um suðvestan og vestanvert landið. Í Reykjavík var meðalhitinn í júní sá hæsti frá upphafi mælinga og júlí jafnaði mánaðarmeðaltalsmetið frá 1991. Þetta ár 2010 stefndi reyndar í að verða það allra hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík og víðar en hitinn gaf eftir síðustu tvo mánuðina þannig að árið varð að lokum einungis meðal þeirra allra hlýjustu. (Tíðarfarsyfirlit VÍ 2010)
Þó að jöklabúskapur sé alveg sérstakur búskapur þá er augljóst að tíðarfar var óvenjulegt árið 2010, allavega sunnan- og vestanland og líka upp á hálendi upp undir Hofsjökli. Þetta hefur haft sín áhrif á stóru jöklanna og örugglega stuðlað af mjög slakri afkomu þeirra þetta ár. Askan úr Eyjafjallajökli hefur svo hjálpað til og bætt gráu ofan á svart - eða reyndar gráu ofan á hvítt í þessu tilfelli. Jöklafræðingar þekkja sjálfsagt hvernig tíðarfarið var árið 2010 og gera kannski ekki lítið úr því en svona upp á söguskýringar framtíðar að gera, þá má ekki einblína á öskuna sem eina orsakavaldinn að jöklabráðnuninni 2010, tíðarfarið var nefnilega líka mjög ójökulvænt.
![]() |
Íslensku jöklarnir eru næmari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2013 | 01:30
Reykjavíkurhiti í kubbamynd
Árið 2012 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,5 stig. Það er alveg í samræmi meðalhita síðustu 10 ára og 1,2 gráðum yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var líka 12 árið í röð með meðalhita yfir 5 stigum og eru nokkur ár síðan svo mörg hlý ár í röð töldust vera einsdæmi enda hafa hlýindin frá síðustu aldamótum verið með eindæmum.
Nýliðið ár er grænblátt að lit sem er litur áratugarins. Það er í félagsskap með tveimur öðrum jafnhlýjum árum 1928 og 2007 sem líka geta talist vera góðærin áður en allt hrundi. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er síðasta kalda árið sem komið hefur og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.
Nokkur ár frá hlýindaskeiði síðustu aldar veita hlýjustu árum seinni tíma harða keppni en óvissa vegna tilfærslu veðurathuganna er þó alltaf einhver eins og stundum er tekið fram í tilkynningum Veðurstofunnar. Það sem hinsvegar dregur meðalhita fyrra hlýindatímabilsins niður er meiri óstöðugleiki í hitafari en verið hefur á núverandi hlýskeiði.
Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Það finnst mér sjálfum frekar ólíklegt og treysti auk þess ekki alveg á að nýhafinn áratugur verði endilega hlýrri en sá síðasti. Áratugurinn fer þó vel af stað og ekki síst nýhafið ár 2013.
Vísindi og fræði | Breytt 7.1.2013 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.12.2012 | 13:14
Grænlandsjökull fyrir 2.500 árum
Nú kemur nokkuð löng bloggfærsla og ekki að ástæðulausu því þættinum hefur borist bréf. Kannski ekki beinlínis bréf, heldur vinsamleg beiðni í athugasemdakerfinu frá Kristni Péturssyni, bloggara, útgerðarmanni og fyrrverandi Alþingismanni og ekki síst "áhugamanni um vandaða þjóðmálaumræðu" og hljóðar þannig:
Sem grafískur hönnuður ferðu létt með að gera mynd af Grænlandsjökli á pari við þessa mynd. Vinsamlega reyna að gera sambærilega mynd af Grænlandsjökli og svo getum við síðar rætt um að gera sambærilega mynd af öllum norðurslóðum fyrir 2500 árum. Það er ekki hægt að nálgast umræðuefnið "hnattræna hlýnun" nema byrja fyrir a.m.k. 2500 árum.Með beiðninni fylgir Íslandskortið hér til hliðar sem sýnir hvar smájöklar voru líklega fyrir 2.500 árum. Kortið er frá 1996 og höfundar þess eru jarðfræðingarnir Grétar Guðbergsson og Þorleifur Einarsson.
Yfirleitt tek ég frekar dræmt í ábendingar frá öðrum um hvað ég ætti að taka fyrir í mínum bloggfærslum. Mér fannst þetta hinsvegar nokkuð áhugavert viðfangsefni og í svari mínu til Kristins sagði ég að grafíska hliðin væri ekkert vandamál ef hann treysti mér til þess að meta stærð jökulsins. Ég tók fram að ég hefði vissar hugmyndir og vísbendingar en auðvitað er ég enginn sérfræðingur á sviði jöklarannsókna og því síður náttúruvísindamaður. En það má þó alltaf reyna.
Umrætt Íslandskort með sinni 2.500 ára gömlu jöklastöðu hefur oft dúkkað upp hjá K.P. og fleirum. Það sem greinilega þykir merkilegast við kortið er hversu litlir jöklarnir eru og þykir sumum það gefa vísbendingar um hversu lítilfjörlegt núverandi hlýindaskeið er í samanburði við fyrri hlýindi. Eða eins og KP segir sjálfur í bloggfærslu frá 9.mars 2011: Fyrir aðeins 2500 árum voru litlir jöklar á Íslandi eins og þessi mynd sýnir. Í því ljósi er frekar broslegt að fylgjast með vælubíl umhverfisvina um loftslagsbreytingar "af manna völdum".
Þetta Íslandskort er auðvitað enginn endanlegur sannleikur um jöklastöðu fyrir 2.500 árum og er vissulega ekki nákvæmt. Ég hef til dæmis bent á að Öræfajökull er á vitlausum stað á kortinu. Spurning er líka hversu miklar ályktanir er hægt að draga útfrá jöklastöðu hvers tíma. Er jöklastærð t.d. alltaf í samræmi við ríkjandi hitastig eða spilar þar inn í hitastig undanfarinna alda eða árþúsunda? Það er vel þekkt staðreynd að jöklar á norðurhveli voru minni fyrir nokkrum árþúsundum en í dag og að meginhluti Vatnajökuls er ekki leifar af síðasta jökulskeiði sem lauk fyrir um 10 þúsund árum. Hlýjasta tímabil núverandi hlýskeiðs (Holocene) var fyrir um 6-9 þúsund árum en síðan þá hefur leiðin legið meira og minna niður á við með kólnandi loftslagi og stækkandi jöklum. Eins og ég kom inn á í síðustu bloggfærslu þá eru breytingar á möndulhalla jarðar eru taldar spila þarna sterkt inn í, því með meiri möndulhalla fyrir nokkur þúsund árum var sólgeislun sterkari á norðurslóðun að sumarlagi sem skilaði sér í meiri snjóbráðnun og smærri jöklum. Þróunin hefur síðan verið í átt að minni möndulhalla og minnkandi sólgeislun og fór Vatnajökull að þróast sem ein samfelld ísbreiða fyrir um 2 þúsund árum. Stærð jökulsins náði svo hámarki við lok 19. aldar en með núverandi hlýnunartímabili, sem ekki sér fyrir endann á, eru Íslensku jöklarnir greinilega of stórir til að halda jafnvægi.
En þá að Grænlandsjökli
Grænlandsjökull er af allt öðrum stærðarflokki en Vatnajökull og hverfur ekki svo glatt á stuttum tíma þrátt fyrir mikla hlýnun. Hversu stór jökullinn hefur verið á tilteknum tímapunkti er erfitt að segja til um og ekki tókst mér að finna kort sem sýnir jökulinn á hlýskeiði síðustu árþúsunda. Hinsvegar eru önnur kort gagnleg eins og þessi þrjú hér að neðan.
Fyrsta kortið sýnir Grænland nútímans. Jökullin þekur um 80% landsins. Meðalhæð yfirborðs er 2.135 metrar, þykktin er víðast hvar yfir 2 km en mesta þykkt er yfir 3 km.
Miðjukortið sýnir landið án jökuls. Grænlandsjökull nær að stórum hluta undir sjávarmál þannig að ef hann væri fjarlægður í einum vettvangi myndaðist þar innhaf sem reyndar myndi hverfa þegar landið lyftist vegna fargléttingar. Með ströndum Grænlands eru hinsvegar fjallgarðar sem halda aftur að jöklunum og má því líkja Grænlandi við stóra skál, barmafullri af ís. Hálendi er mest allra syðst og austast.
Þriðja kortið er mjög gagnlegt en það sýnir hvernig áætlað er að þykkt og stærð Grænlandsjökuls hafi verið fyrir um 120 þúsund árum, eða seint á hinu mjög svo hlýja Eem-tímabili sem er hlýskeiðið á milli síðustu tveggja jökulskeiða. Þegar best lét var það hlýskeið 2-4 gráðum hlýrra en hlýjasta tímabil núverandi hlýskeiðs fyrir 6-9 þús. árum. Kortið er mjög nýlegt og er afrakstur Norskrar rannsóknar sem birtist í október síðastliðnum. Þar kemur fram niðurstaða sem þykir nokkur nýstárleg, því gert er ráð fyrir að vegna lítillar úrkomu sé hinn kaldari norðurhluti Grænlands viðkvæmari fyrir hlýnun en suðurhlutinn, öfugt við það sem oftast hefur verið talið. Vesturhlutinn er einnig viðkvæmari en austurhlutinn enda fellur mesta úrkoman á suðausturhluta jökulsins. Jökulinn á syðsta hluta landsins hefur einnig haldið velli, bæði vegna mikillar úrkomu og hæðar landsins undir jökli. Aðalmálið er þó að jökullinn á þessu mikla hlýskeiði er heill og óskiptur þrátt fyrir minnkandi flatarmál og talsverða þynningu heilt yfir. Hann hefur því ekki verið margskiptur í smájökla eins og Vatnajökull enda allt annað dæmi hér á ferð.
Grænlandsjökull fyrir 2.500 árumÞá er loksins komið að kortinu sem óskað var eftir að ég teiknaði. Það er byggt á áðurnefndum upplýsingum og hef ég þá í huga að núverandi hlýskeið sem hófst fyrir um 10 þúsund árum hefur ekki verið eins hlýtt og hlýskeiðið þar á undan (þ.e. Eem fyrir 120-130 þúsund árum). Að auki var hlýjasta tímabili núverandi hlýskeiðs (Holocene) yfirstaðið fyrir 2.500 árum og jöklar farnir að stækka á ný. Mín óvísindalega niðurstaða er því sú að Grænlandjökull hafi þarna verið stærri en sést á kortinu frá Eem en samt minni en hann er í dag. Kortið mitt sýnir því jökulstærð sem er einhverstaðar þarna á milli en auðvitað er óvissan talsverð enda teikna ég jökulinn með mjög mjúkum dráttum frekar en að sýna skörp skil. Sennilega hefur þó meginjökullin verið álíka fyrirferðamikill víðast hvar en mestur munur liggur væntanlega í lengd skriðjöklanna sem teygja sig í átt til strandar á milli fjallaskarða.
Hvort menn séu sáttir við þessa niðurstöðu veit ég ekki en auðvitað verður að taka öllu með fyrirvara. Hlýnun á Grænlandi hefur verið mjög skörp á síðustu öld og á síðustu árum hefur mikil bráðnun verið í gangi á jöklinum og jökulsporðar hopað mikið eins og hér á landi. Jökullinn er því ekki í jafnvægi miðað núverandi hitastig og því síður ef hlýnar enn meir. Það verður síðan að hafa í huga að minni jökulútbreiðsla fyrir 2.500 árum þarf ekki að þýða að hlýrra hafi verið þá enda fóru jöklar stækkandi fyrir 2.500 árum öfugt við í dag þegar þeir fara ört minnkandi og sér ekki fyrir endann á því ef rétt reynist að núverandi hlýnun sé að stórum hluta af mannavöldum. Eitt er allavega víst að hlýnunin nú er ekki að sama toga og sú sem leiddi til þess að ísaldarjökullinn hvarf og íslensku jöklarnir að mestu leyti enda fer sólgeislun að sumarlagi enn minnkandi til langs tíma vegna minnkandi möndulhalla jarðar.
Læt þetta duga en lofa engu um gerð sambærilegrar myndar af öllum norðurslóðum fyrir 2.500 árum.
- - - -
Heimildir sem ég studdist við eru héðan og þaðan eins og oft áður.
Um Norsku rannsóknina sem minnst var á, má lesa hér á ScienceDaily: Enhanced Melting of Northern Greenland in a Warm Climate.
Svo má benda á 2ja ára gamlan bloggpistil frá Trausta Jónssyni: Saga Grænlandsjökuls - (söguslef 10)
Vísindi og fræði | Breytt 7.1.2013 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (213)
21.12.2012 | 22:41
Jólasól fyrr og nú
Það er þetta með jólin og sólina. Er tilviljun að þessi orð jól og sól séu svona svipuð. Eru þau kannski bæði skyld orðinu hjól sem vísar í hina eilífu hringrás tímans? Ætli þetta séu þá hjólajól eftir allt? Margt hefur annars verið skeggrætt um samband jólanna og sólarinnar, enda ljóst að í fornum átrúnaði er þetta einn mikilvægasti tími ársins. Jólin eru að vísu ekki akkúrat um vetrarsólhvörf enda hefur mönnum sjálfsagt þótt rétt að hinkra við í tvo til þrjá daga til að fullvissa sig um að sólin færi örugglega hækkandi á ný. Fæðing frelsarans er að auki ærið tilefni fyrir kristna menn til að halda hátíð en væntanlega tengist þetta allt saman í bak og fyrir. Hann Jésú okkar átti það líka til að líkja sér við sólina og kallaði sig jafnvel ljós heimsins og auðvitað reis hann upp á þriðja degi eftir að hafa stigið niður til heljar - reyndar var það á páskum.
Myndina hér að ofan tók ég við Ægisíðu þann 30. desember árið 2009 eða rúmri viku eftir vetrarsólhvörf. Á sínum tíma hefur fjallið Keilir sjálfsagt verið ágætis viðmið um sólargang en sólin sest einmitt á bak við Keili um vetrarsólstöður séð frá þessum stað eða svona nokkurn vegin. Reyndar er það svo að sólargangur tekur örlitlum breytingum með hverju ári, munurinn er þó öllu greinilegri á þúsunda og tugþúsunda ára skala enda er möndulhalli jarðar breytilegur þegar til mjög langs tíma sé litið Möndulhalli jarðar sveiflast fram og til baka á 41 þúsund árum. Hallinn er 23,5° um þessar mundir en fer smám saman minnkandi næstu 10 þúsund ár sem þýðir að jörðin er að rétta úr sér og mun gera það þar til hallinn verður kominn niður í 22,1°, þá mun hallinn aukast á ný uns hann verður 24,5°. Jörðin er svo til hálfnuð með að rétta úr sér en við það færist heimskautsbaugurinn smám saman til norðurs. Þróunin næstu 10 þúsund ár eru því í áttina að meiri birtu yfir vetrartímann en að sama skapi minni birtu yfir sumartímann. Þessi birtusveifla getur ráðið úrslitum um komu eða endalok jökulskeiða því minnkandi sumarbirta á norðurslóðum eins og þróunin er núna, er talin valda kólnun og stækkandi jöklum að öllu jöfnu. Það passar einmitt vel við þróun síðustu árþúsunda eða allt þar til nú upp á síðkastið að eitthvað er farið að valda hlýnun og bræða jöklana af miklum móð á sumrin.
Fyrir þúsund árum og rúmlega það hefur væntanlega verið sjáanlegur munur á afstöðu sólarinnar til okkar miðað við daginn í dag. Þá hefur möndulhalli jarðar verið aðeins meiri og skammdegið að sama skapi aðeins meira. Ef fyrrnefnd ljósmynd hefði verið tekin á sama stað á sama tíma fyrir þúsund árum hefði sólin því að öllum líkindum þegar verið sest og horfið aðeins fyrr á bakvið fjöllin og þá væntanlega talvert nær hinum pýramídalagaða Keili, sem sjálfsagt hefur lítið breyst á þúsund árum. Sögðu indíánarnir ekki annars að ekkert vari að eilífu nema fjöllin? Kannski segja fræðin annað í dag en nokkur þúsund ár eru samt ágætis eilífð á mannlegum tímaskala.
15.12.2012 | 18:47
Heimsendir og pólskipti
Eins og margboðað hefur verið stefnir allt í heimsendi þann 21. desember - eða ekki. Fornt dagatal Maya-indjána staðfestir þetta enda nær það ekki lengra en til 21. desember 2012. Að vísu er möguleiki á að ekki hafi verið meira pláss á steininum sem dagatalið var rist í en reyndar telja þeir sem skoðað hafa málið, að dagatalið nái einungis yfir ákveðið tölfræðilegt tímabil sem nú er á enda þannig að nú þarf að byrja að telja upp á nýtt. Fyrir okkur sem búum hér á jörðinni ætti þetta því ekki að skipta neinu máli. Sumir líta reyndar á þetta sem stórtímamót þrútin mikilli andlegri merkingu fyrir allt mannkyn og svo má líka gera ráð fyrir því að þeir sem hafa komið sér upp rammgerðum hamfaraklefum neðanjarðar séu þegar búnir að yfirfara búnað og skotfærabyrgðir - svona til öryggis.
Það má annars velta fyrir sér hvað hugsanlega geti leitt til heimshamfara hér á jörð, hvort sem þau eru yfirvofandi eða ekki. Helst væru það mikil hamfareldgos sem jarðsagan á ýmis dæmi um og svo líka mikill loftsteinaárekstur að ógleymdu allsherjar kjarnorkustríði. Eitt af því sem stundum er nefnt er umpólun á segulsviði jarðar sem verður hér á jörð með óreglulegu millibili. Slík pólskipti eru merkilegt fyrirbæri en öfugt við það sem ýmsir hamfarasinnar boða þá eru þau eitthvað sem við þurfum afskaplega litlar áhyggjur að hafa af. Reyndar er líka talað um annarskonar pólskipti (True Polar wander) þar sem snúningsöxull jarðar færist til - jafnvel um 30°. Kenningar eru um slíkt geti hafi gerst, en þá með hraða sem er ekki meiri en 1° á milljón árum. Æsilegri og mun vafasamari eru þó hugmyndir sem snúast um skyndilega færslu á sjálfri jarðskorpunni með ólýsanlegum hörmungum um alla jörð. Slíkar hugmyndir gætu verið samsuða úr ýmsum pólskiptakenningum og duga ágætlega í hamfarabíómyndum. Pólskiptin sem ég ætlaði hins vegar að fjalla um hér eru umpólun á segulssviði jarðar og best að fara að koma sér að því.
Pólskipti. Segulsvið jarðar orsakast af málríkum ytri kjarna jarðarinnar aðallega þó járni og ver okkur fyrir hættulegum geimgeislum. Þetta segulsvið á það til umpólast þannig að segul-norður verður segul-suður. Jörðin sjálf mun hinsvegar snúa og snúast eins og áður þ.e. hún fer ekki á hvolf eða á hlið. Kannski er smá óvissa með veðrakerfin en þau ættu þó að haldast að mestu óbreytt og vindur mun áfram snúast í sömu átt í kringum lægðir. Þetta mun ekki einu sinni hafa áhrif á það hvernig vatn snýst ofan í niðurföll enda hefur það ekkert með segulsvið að gera.
Síðasta umpólun á segulsviði jarðar átti sér stað fyrir um 780 þúsund árum sem telst vera frekar langur tími en að meðaltali eiga pólskipti sér stað á um 450 þúsund ára fresti. Annars er engin regla á þessu því liðið geta örfáar árþúsundir milli pólskipta og allt upp í tugmilljónir ára. Pólskiptin sjálf eiga sér aldeilis ekki stað á einni nóttu, því talið er að umskiptin gerist á þúsundum ára eða allt upp í 10 þúsund ár sem ætti að vera nægur tími til aðlögunar hjá þeim dýrategundum sem treysta á seguláttir til að vísa sér leiðir.
Á umpólunarskeiðinu sjálfu verður segulsvið jarðar gerólíkt því segulsviði sem við þekkjum. Í stað tveggja póla (norður og suður) verður til kaótískt ástand með nokkrum segulpólum þannig að segja má að allar segullínur lendi í einni flækju. Væntanlega ekki vinsælt ástand meðal ferðalanga sem þurfa að treysta á áttavita. Að lokum kemst nýtt jafnvægi á, oftast með öfugu segulsviði miðað við það sem áður var en þó ekki endilega. Ýmislegt virðist þó ekki alveg vitað með vissu eins og til dæmis hvort segulsviðið veikist á meðan á umpólun stendur þannig að jörðin verði berskjaldaðri gagnvart geislun. Ekkert bendir þó til þess að fjöldadauða lífvera sé hægt að tengja við umpólun en hinsvegar þykjast sumir geta séð samband á milli mikilla basaltgosa og pólskipta eftir allra lengstu stöðugleikatímana. Annars virðast ýmsar kenningar á lofti í þessu eins og öðru sem flókið mál er að setja sig inn í.
Eitt áhugavert jarðfræðilegt atriði tengist líka segulumpólun. Storkuberg varðveitir um aldur og ævi vísbendingar um þá segulstefnu sem ríkjandi er þegar kvika storknar í eldsumbrotum, sem þýðir að segulstefna hjálpar til við aldurákvarðanir bergs. Botn Atlantshafsins er stöðugt að gliðna út frá Mið-Atlantshafshryggnum og sjávarbotninn er eldri eftir því sem fjær dregur hryggnum. Gliðnun Atlantshafsins hefur staðið yfir í tugmilljónir ára og á þeim tíma hefur jörðin gengið í gegnum fjöldamörg segulpólskipti. Á þeim svæðum sem segulstefna hafsbotnsins hefur verið mæld koma því fram einskonar segulrákir með stefnu samsíða hryggnum. Svona mæling hefur farið fram suðvestur af Reykjaneshrygg samanber myndina hér og gott ef svona segulmælingar hafi ekki bara verið eitt af þeim atriðum sem sönnuðu að lokum landrekskenninguna fyrir einungis nokkrum áraugum síðan.
- - -
Nánar um segulumpólun á Wikipedíunni: http://en.wikipedia.org/wiki/Geomagnetic_reversal
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.12.2012 | 17:36
Stóra snjódagamyndin
Það er varla hægt að tala um að snjóað hafi í Reykjavík það sem af er vetri ólíkt því sem verið hefur á norðurhluta landsins. Ekki virðast miklar líkur á að þetta muni breytast í bráð því spáð er sæmilegum hlýindum næstu daga og má jafnvel gæla við þann möguleika að ekkert snjói fram að jólum. Þetta er allt annað ástand en var í fyrra þegar við fengum snjóþyngsta desember í manna minnum eftir hlýjan nóvembermánuð.
Stóru snjódagamyndina hér að neðan birti ég síðast fyrir um ári en þar má sjá hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík mánuðina frá október til apríl allt aftur til ársins 1986. Síðastliðinn vetur er nú kominn inn en annars er myndin óbreytt. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin og tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Þetta er allt unnið út frá mínum eigin veðurdagbókarskráningum en miðað er við hvort jörð sé hvít eða auð á miðnætti eða því sem næst. Einhver munur gæti verið á þessum athugunum og hinum opinberu snjóhuluathugunum sem fara fram á Veðurstofutúni að morgni til. Svo má taka fram að oft er mikið matsatriði hvort jörð sé hvít eða ekki því stundum er aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.
Samkvæmt þessu, þá er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga en sá snjóléttasti er hinn hlýi vetur 2002-2003 með aðeins 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki alveg eins mikill að magni.
Svo má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Myndin nær ekki fram í maí en sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí 2011, svipað og gerðist árið 1987.
Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig snjóalögum verður háttað það sem eftir er vetrar en aðalsnjóavertíðin ætti annars að vera framundan. Eins og sést á myndinni þá segir upphaf vetrar lítið til um framhaldið. Hlýindatímabil ríkir reyndar enn á Íslandi og ekkert sem bendir til að það sé yfirstaðið. Þrátt fyrir það má alltaf eiga von á köldum snjóþyngslamánuðum inn á milli til tilbreytingar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)