Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Óleyfileg athugasemd

Kristinn Pétursson skrifar í dag bloggfærsluna: Nú verður fjallað opinberlega um jöklastöðu á Íslandi fyrir 2500 árum þar sem hann gerir hlýindi fyrri árþúsunda á íslandi og nágrennis að umtalsefni. Hann talar m.a. um hvað jöklar voru smáir hér á landi fyrir 2.500 árum sem reyndar er vel þekkt staðreynd. Einnig spáir hann í hvernig Grænlandsjökull hafi litið út á hlýrri tímum og kallar eftir grafískri mynd af jöklinum á fyrri tíð og líka af ísnum á norðurpólnum. Í framhaldinu koma svo fram hjá honum klassískar efasemdir um það hvort nokkuð sé að marka mælingar á hitafari jarðar og svo ýmislegt fleira í þeim dúr. Ekki tókst mér að skrifa athugasemd við færslu hans þar sem ég hef ekki leyfi til þess enda er þetta eldheitt málefni og sígild deiluefni hér á blogginu þar sem hver telur sig vita best og skil ég þar sjálfan mig ekki undan. Ég tók skjáskot af athugasemdinni sem ég birti hér að neðan. Þetta er því ekki eiginleg bloggfærsla hjá mér enda er ég að hugsa um að taka þetta út aftur áður en langt um líður.

Athugasemd
Athugasemdin var á þessa leið:
"Minni jöklastaða hér fyrr á tímum er vel þekkt meðal vísindamanna og ég veit ekki betur en að þeir séu almennt sammála um ástæður þess að loftslag hafi farið smám saman kólnandi síðustu árþúsund og fram að upphafi 20. aldar.
Grafískar myndir um stærð jökla og ísbreiða aftur í tímann eru mjög háðar ágiskunum. Þó er nokkuð ljóst að Grænlandsjökull hefur haldið flatarmaláli sínu að mestu enda er Grænland eins og skál sem er full af ís. Þegar ís Grænlandsjökuls minnkar þá lækkar í skálinni en flatarmál breytist lítið. Þetta er ólíkt Íslandi sem er meira bungulaga með jöklum ofaná sem eru miklu viðkvæmari fyrir bráðnun."


Fleira mætti gera athugasemdir við í skrifum Kristins en þar skín í gegn sú hugmynd hans og reyndar margra annarra að hlýindin núna séu ekki svo merkileg vegna þess að hlýtt hafi einnig verið áður fyrr og það sem við séum að upplifa núna sé bara náttúruleg sveifla sem mun vonandi ekki ganga til baka. Málið er hinsvegar það að núverandi hlýindi, eins góð og þau eru akkúrat fyrir okkur hér íslandi nú um stundir, eru talin vera aðeins hluti af þeirri hnattrænu hlýnun sem sennilega mun halda áfram langt fram á næstu öld ef ekki lengur. Hlýindin sem voru hér fyrir nokkrum árþúsundum voru af allt öðrum toga en þau sem eru í dag. Þau voru aðallega bundin við norðurhvel og orsökuðust af meiri möndulhalla jarðar sem gerði það að verkum að sólgeislun var meiri að sumarlagi á norðurhveli þannig að ís og jöklar áttu erfiðara uppdráttar en í dag. Þróunin til minni sólgeislunar að sumarlagi mun halda áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar eftir því sem jörðin réttir meira úr sér en síðan mun þróunin snúast aftur við.

Hver sem er getur gert hér athugasemdir eins og ávallt á þessari bloggsíðu.


Skeggtíska endurspeglar tíðarandann

Við lifum á skeggjuðum tímum þar sem ekkert þykir sjálfsagðara en að karlmenn láti andlitshár sín vaxa óskert. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið enda er skeggtíska nátengd tíðarandanum hverju sinni rétt eins og önnur tískufyrirbæri. Fyrir nokkrum dögum var skeggfræðingur kynntur til sögunnar í sjónvarpinu en sá hafði skrifað BA-ritgerð um skeggsögu Íslendinga. Náði sú athugun eitthvað aftur í aldir en endaði sirka á hippaárunum kringum 1970 ef ég man rétt. Sjálfsagt mjög athyglisverð rannnsókn.

En skeggsagan endar þó ekki þar og frá árinu 1970 hefur skeggtískan farið heilan hring eða jafnvel tvo, þannig að eiginlega má tala um skeggjaðar og óskeggjaðar kynslóðir eins og ég ætla að reyna að rekja hér. Ég get svo sem upplýst að ég er fæddur árið 1965 sem þýðir að ég varð tvítugur árið 1985. Á þeim árum datt varla nokkrum ungum manni á uppleið í hug að láta sér vaxa skegg enda má segja að ég tilheyri skegglausu kynslóðinni. Á árunum um og upp úr 1980 þótti hjá ungum mönnum það vera beinlínis gamaldags, kallalegt og fúlt að vera með skegg.

Duran DuranHetjur 9. áratugarins voru heldur ekki með skegg, hvorki pönkararnir né nýrómantísku poppararnir. Eiginlega áttu menn að vera kvenlegir ef eitthvað var in the eighties, með mikið blásið hár upp í loftið í penum skófatnaði og jafnvel málaðir, á sama tíma og konurnar voru með axlapúða til að gerast karlmannlegri. Þetta voru líka tímar framtíðarhyggju enda voru tölvurnar farnar að gera það gott og allt sem var nútímalegt og framsækið þótti jákvætt. Þetta voru líka tímar efnishyggju og þá þótti allt annað en skammarlegt að vera svokallaður uppi.

Ýmsir menn á besta aldri voru þó með skegg á 9. áratugnum en það voru þá leifar frá hárunum um og eftir 1970 þegar mikil skeggtíska var í gangi sem tengdist hippamenningunni. Helst voru það þá hinir rótækari sem létu skegg sitt vaxa og stundum mjög frjálslega. Vinstri menn, verkalýðsleiðtogar, Steingrímur og Ögmundurspekingar og svo auðvitað margir popparar voru þarna áberandi skeggjaðir og eru sumir jafnvel enn. Mörg skeggin hafa þó rýrnað mjög með tímanum og eru í dag varla nema svipur hjá sjón eða jafnvel horfin. Hægri menn og Framsóknarmenn áttu sín skegg líka en þar voru yfirvaraskeggin meira í tísku. Þau voru líka góð og gild á diskótímanum en kolféllu út úr myndinni eftir það og fátt hefur verið fráleitara en yfirvaraskegg hjá minni kynslóð og þeim seinni jafnvel líka.

Þegar leið á 9. áratuginn fór þetta smám saman að breytast. Ameríska rapp- og hjólabrettamenningin fór að verða áberandi, og draumaliðið USA í körfubolta sló í gegn. Þá þótti smart að vera með frjálsleg hálfskegg og hárlitlir menn fengu uppreisn æru og máttu raka það sem eftir var á kollinum í stíl við Michael Jordan. Þarna var líka komin heilmikil þreyta gagnvart framtíðarhyggju og skynsemishyggju 9. áratugarins. Nýaldarmenning allskonar hófst með 10. áratugnum og hippatískan var endurunnin með síðum hárum og ýmsum skeggútgáfum að ógleymdu "grönsinu" með Kurt Kóbein í broddi fylkingar. Þetta frjálslega lúkk gekk þó ekki þegar menn ætluðu sér stóra hluti í ört vaxandi fjármálaheimi upp úr aldamótunum. Þar réði snyrtimennskan ríkjum með vel snyrtum andlitum og burstuðum skóm. Tíska og tíðarandi hefur annars oft skipst í tvær fylkingar. Í úthverfum borgarinnar og nágrannsveitarfélögum þróaðist hnakkamenningin sem var mjög mótfallin öllum líkhamshárum neðan hnakka. Til mótvægis voru svo krakkarnir í hundraðogeinum sem tilheyrðu krúttskynslóðinni. Þótt áherslan hafi þar verið á hið barnslega sakleysi létu strákarnir sér þó vaxa það skegg sem í boði var og þótti passa einkar vel við prjónahúfurnar.

Í dag þegar draumaheimar frjálshyggjunnar hafa kollsteypst virðist hið frjálslega útlit hafa tekið völdin með sigri hipsteramenningarinnar. Í stað Arne Jakobsen snúast smartheitin nú um að endurnýta það gamla. "Retró" er málið og Slippfélagshúsið er orðið að hóteli með gamaldags veggfóðrum og Kexverksmiðjan Frón heitir nú KEX Hostel og þar getur varla nokkur vel rakaðaður maður látið sjá sig. Jafnvel menn af minni kynslóð eru farnir að sjást með skegg, man til dæmis eftir einum skólabróðir úr MH sem kannski ætlar að verða formaður Samfylkingarinnar og fleiri mætti nefna. Sjálfur er ég í engum slíkum hugleiðingum en viðurkenni þó að rakvélin er ekki notuð á hverjum degi.

Skegg Reykjavik

Myndaröðin hér að ofan er tekin af bloggsíðunni Beards of Reykjavik þar sem sjá má mikið samansafn að skegglingum.

Á hinum myndunum má annarsvegar sjá drengjahljómsveitina Duran Duran og hinsvegar mynd sem ég tók af tveimur pólitíkusum af vinstri kantinum á fyrstu vikum búsáhaldabyltingarinnar. Skeggjaður guðfræðiprófessor sýnist mér líka gægjast þarna inn.

Um BA-ritgerð Siggeirs F. Ævarsonar, Upphaf íslenskrar skegg­tísku, má lesa nánar hér:

Skeggfræðingur rannsakar skeggsögu Ísland.

 


Útsynningur á vefmyndavél

Hin óstöðuga suðvestanátt með sínum skúrum eða slydduéljum og einstaka hagléljum er ákaflega myndrænt veður, einkum þegar geislar skammdegissólarinnar ná að varpa dulmagnaðri birtu á skýjabakkana. Hér kemur smá sýnishorn af útsynningi dagsins en myndirnar eru skjáskot af vefmyndavél Veðurstofunnar og sýna veðrið í Reykjavík með 15 mínútna fresti þann 15. nóvember frá kl. 12:15 til 14:00.

15. nóv 12:15 15. nóv 12:3015. nóv 12:4515. nóv 13:0015. nóv 13:1515. nóv 13:3015. nóv 13:4515. nóv 14:00

 


Hamfaraheimskort

Þó að við hér á Íslandi búum við mikinn fjölbreytileika í náttúruhamförum þá eru þær hamfarir sem betur fer ekki mjög dramatískar á heimsmælivarða. Til að skoða það betur þá hef ég gert hér tilraun til að kortleggja náttúruhamfarir heimsins til að sjá við hverju má búast hér og þar. Útkoman er kortið hér að neðan sem gæti kallast hamfaraheimskort og er í stíl við hamfarkortið af Íslandi sem ég útbjó á sínum tíma. Greinilegt er að sum svæði verða fyrir meira aðkasti en önnur. Í Bandaríkjunum og Suðaustur-Asíu eru til dæmis varla pláss fyrir allar uppákomurnar á meðan önnur svæði eru nánast auð. Það má skipta flestum náttúruhamförum í tvo meginflokka: veðurfarslegar hamfarir og jarðfræðilegar. Fjölmennustu svæði jarðar eru auðvitað viðkvæmari fyrir duttlungum náttúrunnar en þau fámennari og svo skiptir ríkidæmi líka máli því mesta manntjónið verður iðulega í fátækari löndunum á meðan eignatjónið er mest í hinum ríkari löndum. Katastrófur kallast svo það þegar mikið manntjón auk eignatjóns verður í hinum ríkari og þróuðu löndum. En hér er kortið – nánari útlistun er svo fyrir neðan.

Hamfaraheimskort

Nánari útlistun: Eldgos geta valdið miklu tjóni í nánasta umhverfi en þau stærstu geta valdið gríðarlegum hamförum og jafnvel kælt loftslag á allri jörðinni tímabundið. Eldvirkustu svæðin eru flest bundin við flekaskil þar sem úthafsfleki fer undir meginland t.d. allt í kring um Kyrrahafið. Indónesía blandast þarna inn í en er alveg sér á parti þegar kemur að eldvirkni. Í Evrópu er gýs aðallega á Ítalíu auk Íslands. Nokkur eldvirkni er við sigdalinn í Afríku þar sem álfan er að byrja að klofna og svo eru einstaka heitur reitur inná meginflekunum. Við flekaskil þar sem tveir meginlandsflekar koma saman er oft bara um jarðskjálfta að ræða eins og Himalayjafjölllum. Gjörvallur Kyrrahafshringurinn framkallar einnig mikla jarðskjálfta og í þeim stærstu á Kyrrahafi og Indlandshafi er hætt við hamfaraflóðbylgjum í stíl við það sem íbúar Asíu hafa fengið að kynnast í tvígang á þessari öld. Slíkar skjálftaflóðbylgjur verða ekki á Atlantshafinu enda er botn Atlantshafsins að gliðna um hrygginn suður eftir öllu hafinu í frekar rólegu ferli, nema kannski hér á Íslandi þar sem hryggurinn liggur ofansjávar. Á fjöllóttum svæðum geta skriður gert mikinn usla í rigningartíð og þurrkað út heilu þorpin. Af veðurfarslegum fyrirbærum er annars af nógu að taka en þar fá fellibyljirnir í Ameríku mesta athygli, sérstaklega ef þeir nálgast Bandaríkin. Annað og kannski öllu meira fellibyljasvæði er vestast í Kyrrahafinu þar sem lætin skella á löndum Austur-Asíu. Minni hitabeltisstormar eru á víð og dreif sitt hvoru megin miðbaugs og svo þekkjum við vel styrk vetrarstormanna hér á norðanverðu Atlantshafi. Merkilegt er annars að sunnanvert Atlantshaf er alveg laust við fellibylji enda fréttum við ekki af fellibyljum í Argentínu og Brasilíu. Hafísinn merki ég inn hér norður af landi. Hann er þó kannski úr sögunni sem vandamál en þó er aldrei að vita. Hitabylgjur og kuldaköst verða helst á tempruðum svæðum þar sem stutt er bæði í kalt og hlýtt loft. Hinsvegar tekur fólk hitabylgjum fagnandi á kaldari norðlægum slóðum enda verða þær sjaldnast til vandræða þar. Kuldaköstin geta þó teygt sig nokkuð langt suður eftir Asíu að vetralagi og sama má segja um hitabylgjur að sumarlagi. Flóð geta einnig víða valdið usla eins og t.d. í Pakistan, Kína og víðar í Asíu. Bandaríkjamenn, Evrópubúar og Ástralir þurfa einnig að kljást við flóð þegar regnið fer úr böndunum en svo eru þurrkarnir oft öllu verri á sömu slóðum ekki síst þegar uppskeran er í húfi. Á því hafa íbúar austur Afríku oft fengið að kenna en þar er öll afkoma fólksins beinlínis háð hinu hárfína sambandi regns og þurrka. Önnur afleiðing þurrka utan eyðimarka eru svo skógareldarnir sem eiga það til að fara úr böndunum og nálgast íbúðabyggðir, jafnvel heimkynni fræga fólksins í Hollywood. Bandaríkinn eru einnig land skýstrókanna en lítið fréttist af þeim annarstaðar. Fyrir utan jarð- og veðurhamfarir má svo auðvitað nefna engisprettufaraldinn sem getur eyðilagt uppskeruna á stórum landsvæðum í heitu löndunum. Engisprettur falla sennilega í hamfarahópinn sem gæti kallast meindýr, plágur og óargadýr en ég fer ekki nánar út það hér. Ekki fer ég heldur út í þá tegund hamfara sem mannskepnan stendur fyrir sjálf í friði og ófriði. Það kallar á alveg sérstaka kortagerð.


Vindstigin endurskoðuð

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að leggja niður gömlu góðu vindstigin en taka upp í staðinn mælieininguna metrar á sekúntu. Þessi skilgreining hefur sjálfsagt ýmsa kosti - er til dæmis nákvæmari en gamla vindstigakerfið. Hitt er annað mál að þegar vindafar ber á góma í daglegu tali þá notar fólk ekki tölur enda hafa fæstir almennilega tilfinningu fyrir því hvað vindur fer hratt í metrum á sekúntu talið. Fólk segir bara að það sé logn, dálítið hvasst eða jafnvel helvíti hvasst og það skilst. Gömlu orðin sem voru tengd vindstigunum gerðu þetta líka að vissu marki, samanber kul, stinningsgola og stormur en voru hinsvegar komin nokkuð til ára sinna og ekki alltaf skiljanleg nútímafólki. Flestum finnst t.d. það vera öfugmæli að rok skuli vera meira en stormur enda þekkja það fæstir þegar sjóinn tekur að rjúka upp í roki. Það fyrirbæri má þó gjarnan sjá t.d. í Kollafirði í mestu veðrunum eins og við höfum fengið að kynnast í norðanáttinni undanfarið.

Til að reyna að bæta eitthvað úr þessu ætla ég að koma hér með tillögu að nýju kerfi til að lýsa vindhraða sem miðast við málvitund nútímafólks. Gömlu heitin og vindhraði í metrum á sekúntu eru í sviga.

       Blánkalogn  ( Logn 0–0,2 m/s )

       1  Logn  ( Andvari 0,3–1,5 m/s )

       2  Bongó  ( Kul 1,6–3,3 m/s )

       3  Smávindur  (Gola 3,4–5,4 m/s )

       4  Dálítill vindur  ( Stinningsgola 5,5–7,9 m/s )

       5  Soldið hvasst  ( Kaldi 8,0–10,7 m/s )

       6  Leiðindavindur  ( Stinningskaldi 10,8–13,8 m/s )   

       7  Ansi hvasst  ( Allhvasst 13,9–17,1 m/s )

       8  Helvítis rok  ( Hvassviðri 17,2–20,7 m/s )

       9  Brjálað rok  ( Stormur 20,8–24,4 m/s )   

     10  Snarvitlaust rok  ( Rok 24,5–28,4 m/s )

     11  Alveg bilað  ( Ofsaveður 28,5–32,6 m/s )

     12  Ó-mæ-god!  ( Fárviðri > 32,6 m/s )

Dæmigerð norðanáttar-óveðurspá gæti samkvæmt þessu hljómað svona:Ansi hvasst eða helvítis rok af norðri á landinu og jafnvel brjálað rok allra vestast. Hvessir enn meira um kvöldið með norðaustan helvítis- eða jafnvel snarvitlausu roki. Ó-mæ-god í verstu hviðunum.

Með veðurspám í þessum dúr er ég viss um að óveðuspár fari ekki framhjá nokkrum manni.


Hamfarakort af Íslandi

Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Þegar gosið í Eyjafjalljökli stóð sem hæst vorið 2010 gerði ég tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni og útkoman var hið svokallaða Hamfarakort. Ýmislegt hefur gerst síðan, svo sem gos í Grímsvötunum og núna síðast stórhríð á Norðurlandi og jarðskjálftar. Það er því alveg tímabært að endurbirta hamfarakortið, en þó með smá uppfærslum og viðbótum.

Hamfarakort 2012

Hamfarayfirlit. Eldgos á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar meinlaus þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en við viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og úti fyrir Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum á köldum árum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum og berghlaupum fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Flóð geta komið í stærri ár vegna úrkomu og leysinga en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir á óhentugum tímum. Þurrkar hafa víða plagað bændur undanfarin sumur og þá kannski helst á Vestur- og Norðurlandi. Sunnanlands má hins vegar helst eiga von á eldingum en þeim fylgir alltaf viss hætta. Sandfok telst varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins en einnig hefur öskufokið bæst við eftir síðustu gos. Eldar eru aðallega í formi sinu- og jarðvegselda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu eykst hættan á stærri atburðum svo sem skógareldum. Svo eru það bara blessaðir ísbirnirnir sem stundum álpast hingað - ekki síst nú á undanförnum árum þrátt fyrir minnkandi hafís.

Það má velta fyrir sér dreifingu hamfara á landinu. Enginn landshluti er óhultur samkvæmt þessu en sum landssvæði liggja þó betur við vissum höggum en önnur. Það landssvæði sem mér sýnist sleppa best er Breiðafjörðurinn og Dalirnir, helstu atburðir þar eru veðursfarslegir en þó ekki endilega verri en annarstaðar.

Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Þótt minnst hafi verið á skógarelda verða þeir varla í líkingu við það sem gerist erlendis og hamfaraflóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla enda aðstæður öðruvísi hér en á Kyrrahafinu. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.


Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Fimmvörðuháls 3.apríl

Eitt af haustverkunum hjá mér á þessari bloggsíðu er að setjast í spástellingar og velta fyrir mér næsta eldgosi á Íslandi. Að venju eru þessar vangaveltur settar fram af meira kappi en forsjá enda er ég litlu nær um framtíðina en aðrir. Ekki er ég heldur jarðfræðingur og því skal líta á þessar pælingar sem dæmigerða tilraun óbreytts bloggara til að hafa vit á hlutunum.
Prósentutölurnar í upptalningunni hér að neðan vísa í hversu miklar líkur ég tel á að næsta gos verði í viðkomandi eldstöð og eru þau líklegustu talin fyrst. Eins og oftast áður eru það sömu þrjár eldstöðvarnar sem verma efstu sætin nema að þessu sinni á ég erfitt með að gera upp á milli toppsætanna. Ég geri þó varfærnislega tilraun til þess.

26% Grímsvötn eru komin í mikinn ham og þar hefur gosið þrisvar sinnum með 6-7 ára millibili síðan 1998. Auk þess er svo Gjálpargosið 1996. Grímsvatnagos virðast koma í lotum sem standa yfir í áratugi og greinilegt að slík lota er í fullum gangi en til samanburðar þá gaus ekkert þarna á árunum 1942-1982 og jafnvel lengur eftir því hvað skal skilgreint sem gos. Núna eru Grímsvötn hinsvegar sígildur kandídat fyrir næsta gos jafnvel þótt stutt sé frá síðasta gosi. Hvort næsta gos verði í Grímsvötnum ræðst aðallega að því hvort aðrar eldstöðvar séu í startholunum og nái að skjótast inn á milli eins og raunin hefur reyndar verið undanfarin ár. Þó má velta fyrir sér hvort síðasta Grímsvatnagos hafi breytt rútínunni eitthvað en það gos var sérlega öflugt eins og bændur og búfé fengu að kenna á.

24% Hekla er mikið ólíkindatól sem gýs nánast fyrirvaralaust og gerir það alla spádóma erfiða. Nú getum við ekki lengur stólað á 10 ára regluna sem upphófst með Skjólkvíagosinu 1970 en samkvæmt þeirri reglu hefði Hekla átt að gjósa árið 2010 eða 2011. Kannski er tappinn í gosrásinni fastari fyrir núna en undanfarna áratugi en vitað er að þrýstingur hið neðra er fyrir nokkru kominn í það sem dugað hefur til að koma af stað síðustu eldgosum. Því er vel mögulegt að áratugalangt goshlé sé nú reyndin en Hekla hefur í gegnum aldirnar gosið einu sinni til tvisvar á öld og þá yfirleitt með öflugri gosum en við höfum átt að venjast síðustu áratugi.

22% Katla minnir á sig með stöku skjálftum öðru hvoru en þó kannski ekki alveg með þeim krafti sem vænta má ef eitthvað mikið er í aðsigi. Eftir því sem sagnir herma þá er heilmikill aðdragandi að Kötlugosum ólíkt því sem gerist í Grímsvötnum og Heklu. Minniháttar skjálftar og umbrot hafa verið í sjálfri Kötluöskjunni sem benda til einhverra kvikuhreyfinga hið neðra og fyrr eða síðar verður þarna gos sem menn hafa reyndar beðið eftir áratugum saman. Við bíðum þó eftir frekari vísbendingum svo sem hæðarbreytingum, uppþornuðum lækjum og svo stóru skjálftunum sem koma venjulega nokkrum klukkutímum fyrir gos.

15% Bárðarbunga (9%) og Kverkfjöll (6%) koma hér saman þótt um sitthvora megineldstöðina sé að ræða. Eldvirkni á þessu svæði ásamt Grímsvötnum tengist mjög virkni sjálfs möttulstróksins undir landinu sem mun einmitt vera staðsettur undir norðvestanverðum Vatnajökli. Aukin virkni í Grímsvötnum gæti því tengst aukinni virkni þarna almennt. Báðar þessar eldstöðvar eru til alls líklegar og hafa alloft gosið eftir landnám. Gossagan er þó ekki mjög þekkt vegna þess hve afskekktar eldstöðvarnar eru. Þarna getur verið um að ræða gos innan jökuls með tilheyrandi vatnsflóðum eða sprungugos utan jökuls með hraunrennsli. Hættulegust eru þarna hin miklu hraungos sem geta orðið til suðvesturs frá Bárðarbungukerfinu.

4% Reykjanesskagi ásamt Hengli er oft í umræðunni enda stutt frá höfuðborgarsvæðinu og víst er gos á skaganum mun setja ýmislegt á annan endann. Jarðskjálftavirknin sem þarna er hefur þó yfirleitt lítið með kvikuhreyfingar að gera því þarna er landið einfaldlega að gliðna. Virkni á þessu svæði breytir hinsvegar um ham um nokkurra alda skeið með margra alda millibili. Hvenær næstu hamskipti verða vitum við ekki en það ætti að vera farið að styttast í þau með tilheyrandi gosum í hverju eldstöðvakerfinu af öðrum næstu aldir á eftir. Kannski munum við verða vitni að einhverjum atburðum þarna á næstu árum en það gætu líka liðið 200 ár áður en eitthvað spennandi fer að gerast.

4% Askja og nágrenni verður einnig að fá að vera með hér. Askja og Dyngjufjöll eru mjög eldvirkt svæði með miklum sprungukerfum í norður. Þarna varð myndarlegt hraungos árið 1961 og heilmiklir atburðir á seinni hluta 19. aldar þegar Öskjuvatn myndaðist. Skjálftavirkni er öðru hvoru á þessum slóðum en ekki margt sem bendir til eldsumbrota alveg á næstunni.

5% Aðrir staðir skora ekki hátt hjá mér þótt allt sé til alls líklegt. Hér koma til greina staðir eins og Torfajökulssvæðið, Eyjafjallajökull, Mývatnsöræfi og Þeystareykir að ógleymdum Vestmannaeyjum, Öræfajökli og jafnvel Snæfellsjökli o.fl. en þá eru ólíkindin orðin talsverð. Í ljósi skjálftahrinu fyrir norðan má svo kannski fara út fyrir landsteinana þar sem Kolbeinseyjarhryggurinn er. Fínt væri þar að fá nýja eyju í stað þeirrar sem er að sökkva í sæ.

Næsta gos


Berghlaupið mikla í Esjunni

Allt í náttúrunni er breytingum undirorpið og það landslag sem við sjáum í dag er í raun bara stundarfyrirbæri á lengri tímaskala. Ef við horfum til Esjunnar þá hefur hún sennilega ekki mikið breyst síðustu þúsundir ára í meginatriðum. Öðru máli gegndi á meðan ísaldarjöklarnir nöguðu og tálguðu fjallshlíðarnar í hvert skipti sem þeir sóttu fram og skildu svo eftir sig óstöðugar hlíðar þegar nýtt hlýindaskeið gekk í garð. Þannig var það einmitt eftir síðasta jökulskeið (sem ég vil nú bara kalla lok ísaldar) sem varð til þess að feiknastórt berghlaup ruddist niður hlíðar Esjunnar og blasa afleiðingarnar við okkur Reykvíkingum með mjög áberandi hætti.

Kollafjarðarhlaup R.vík
Sjálfsagt hafa ekki allir velt þessu náttúrfyrirbæri fyrir sér en umrætt berghlaup, eða skriða eða hvað sem menn vilja kalla þetta, nær yfir allt svæðið frá aðalgönguleiðinni á Þverfellshorn og alla leið austur að Kistufelli. Nánar tiltekið frá farvegi Mógilsár í vestri og Kollafjarðarár í austri. Þetta svæði í Esjunni er ólíkt öðrum hlíðum fjallsins, allsett hólum og bungum og heillegum klettabrotum sem hafa fallið fram af efstu brúnum fjallsins og skilið eftir sig greinilegt sár sem er áberandi sem snarbrattir klettaveggir efst undir fjallsbrúninni.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fann í skýrslu sem nefnist „Ofanflóðahættumat fyrir Kerhóla á Kjalarnesi“ kemur fram að þetta Kollafjarðarberghlaup sé 3,2 km að lengd frá efstu brún fjallsins og niður á láglendi. Breiddin er 1,9 km og fallhæðin 765 metrar. Um rúmmálið er þetta sagt í skýrslunni: „Ef giskað er á 60 m meðalþykkt verður rúmtakið rúmlega 0.2 km3. Á Íslandi eru ekki þekktar nema um 20 berghlaupsurðir sem eru yfir 3 km2 að flatarmáli. Kollafjarðarhlaupið er því í hópi mestu berghlaupa landsins.

Sennilegt þykir að fjallshlíðin hafi hlaupið fram með miklum látum í einni atburðarás - eða svo gott sem. Hámarksaldur er um 11 þúsund ár en annars er ekki vitað með vissu um tímasetningu annað en að þetta er allt annað en nýskeð. Fyrstu árþúsundin eftir ísöld ættu þó að vera líklegust. Annars hefði nú aldeilis verið flott að sjá allan þenna massa skríða fram á sínum tíma og sjálfsagt hafa fylgt þessu drunur miklar og skjálftar ógurlegir. Segið svo að Esjan sé ekki merkileg!

Esja berghlaup

Þessa mynd tók ég ofan af Kistufelli sumarið 2009 og er horft vestur eftir Esjunni í átt að Þverfellshorni en Kerhólakamburinn er fjær. Efri hluti berghlaupsins sést þarna vel.

Efri myndin er tekin frá Öskjuhlíð, 10. október 2011.

- - - - -

Heimildir. Ofanflóðahættumat Fyrir Kerhóla á Kjalarnesi - Skýrsla Hættumatsnefndar Reykjavíkur (PDF-skrá)


Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?

Nú þegar þrír mánuðir eru eftir af árinu ætla ég að velta mér dálítið upp úr ársmeðalhitanum í Reykjavík og hvert stefnir með hitann ár. Fyrst ætla ég þó að nefna þessa töflu hér að neðan sem ég hef vanið mig á að gera í upphafi árs. Þar gefur að líta útreikning á því hver ársmeðalhitinn gæti verið útfrá mismunandi forsendum. Þetta er mjög misraunhæfar forsendur, sérstaklega efsta og neðsta línan þar sem gert er ráð fyrir að kulda- eða hitamet hvers mánaðar allt frá 1930 séu jöfnuð. Talsvert raunhæfara er að miða við opinbera viðmiðunartímabilið 1961-1990 og fá út ársmeðalhitann 4,3°C, en þar sem það var frekar kalt tímabil gæti verið raunhæfast að miða við síðustu 10 ár (2002-2011) þar sem árshitinn hefur verið 5,5°C að meðaltali. Til samanburðar má nefna að kaldasta árið frá 1930 var 1979: 2,9°C og það hlýjasta 2003: 6,1°C. En þannig lítur umrædd tafla út.

Árshiti áætlun 2012

Eftir því sem líður á árið koma hinar raunverulegu tölur í ljós og með hverjum mánuði þrengist það bil sem meðalhitinn getur stefnt í. Þá fæst þessi mynd:

Árshiti sept 2012

Liðnir mánuðir hafa verið mishlýir eins og gengur. Febrúar, mars og ágúst voru vel yfir meðalhita síðustu 10 ára en nýliðinn september rétt missti af meðaltalinu frá 61-90. Í heildina hefur árið verið hlýtt þannig að ef við miðum áfram við forsendurnar þá endar meðalhiti ársins í 5,7°C ef meðalhiti þriggja síðustu mánaðana verður í samræmi við síðustu 10 ár. Ef þessir síðustu þrír mánuðir verða hinsvegar í samræmi við "kalda" meðaltalið frá 1961-90 þá endar árið í 5,4°C sem þó telst gott í sögulegu samhengi og ekki fjarri meðalhita s.l. 10 ára. 

Síðan má halda áfram og miða við köldustu mánuðina frá 1930 og fá út meðahitann 4,5°C, sem samt er yfir viðmiðunartímabilinu '61-'90. Miðað við köldustu mánuði sl. 10 ár yrði meðalhitinn 5,1°C sem einhverntíma hefði þótt gott. Í hinn endann gæti árið endað í 6,5°C og slegið árshitamet ef þrír síðustu mánuðirnir væru við það besta frá 1930 og jafnvel líka ef síðustu mánuðirnir verða við það besta síðustu 10 ár. 

Semsagt. Árið 2012 verður örugglega yfir meðalhita áranna 1961-'90. Næsta víst er að árshitinn verði yfir 5 stigum tólfta árið í röð sem er einstakt. Líklegt er einnig að það nái a.m.k. 5,4°C og 5,7°C er alveg í dauðafæri. Það má síðan gæla við 6 stigin ef góð hlýindi einkenna síðustu mánuðina. Ég get auðvitað ekkert spáð um hvort hlýindi eða kuldar eru framundan. Hinsvegar blasir við að árið 2012 verður enn eitt hlýja árið á þessari öld og ekkert lát á hlýindum.

Þetta var svokölluð veðurnördabloggfærsla.

 


Tímamót á norðurslóðum

Það er nú ekki hægt annað en að fjalla aðeins um hafísinn á Norður-Íshafinu sem aldrei hefur verið minni á okkar tímum, hvort sem talað er um útbreiðslu, flatarmál eða rúmmál. Hversu langt aftur „okkar tímar“ ná er síðan matsatriði en við gætum örugglega verið að tala um mannsaldur, sennilega líka aldir eða jafnvel þúsund ár. Fyrra metið hvað varðar útbreiðslu hafíssins var sett með afgerandi hætti árið 2007 og markaði það einnig mikil tímamót. En þetta eru einnig tímamót hjá mér sjálfum því það var einmitt vegna hafíslágmarksins 2007 sem ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu og hef ég verið að síðan. Þar á meðal eru ófáir hafíspistlar enda hef ég fylgst þar nokkuð grannt með málum.

En hvað get ég sagt gáfulegt sem ekki hefur þegar komið fram um þetta títtnefnda hafíslágmark? Sennilega ekki mikið en það má samt alltaf steypa saman einhverju. Það má til dæmis byrja á að bera saman þessar myndir til sýna hvað við er að eiga.

Hafis 1980 2012

Myndin til vinstri er frá 17. september 1980 en sú til hægri er sami mánaðardagur nú í ár. Eins og sést er þá er stór hluti Norður-Íshafsins nú opið haf og ekki langt í að Norðurpólinn sjálfur sé íslaus. Mestur og þéttastur er ísinn er norður af Grænlandi og Kanadísku heimskautaeyjunum en þar er að finna það sem eftir er af fjölærum þykkum hafís sem áður var allsráðandi á mest öllu Norður-Íshafinu. Nú eru hinsvegar tímarnir breyttir því sá nýji ís sem myndast yfir veturinn er mun viðkvæmari fyrir sumarbráðnun næsta árs. Auk þess er gisnari hafísbreiða líka hreyfanlegri gagnvart vindum og straumum sem t.d. beina ísnum út um sundið milli Grænlands og Svalbarða þaðan sem hann berst suður með Austur-Grænlandsstraumnum og áleiðs til okkar. Kortin er af síðunni The Cryosphere Today.

Nú gæti einhver sagt að það sé til lítils að bera saman ísinn í dag við það sem var á árinu 1980 þegar loftslag var frekar kalt - allavega á okkar slóðum. Þótt gervihnattagögn af útbreiðslunni nái aðeins aftur til ársins 1979 eru til ýmsar mælingar og gögn sem ná lengra. Þetta línurit frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni nær aftur til ársins 1953 og ef það er nærri lagi þá er greinilegt að þessi þróun hefur staðið lengi. Að vísu er ekki búið að setja inn árið 2012 en sú lína næði alveg niður í kjallara myndarinnar. Ath. línuritið sýnir frávik frá meðaltali en ekki sjálfa útbreiðsluna.

Hafís 1953-2011

Það er líka merkilegt við síðustu ár hvað sveiflurnar hafa aukist milli árstíða. Útbreiðsla undanfarna vetur hefur nefnilega verið alveg þokkaleg miðað við þróunina í heild en það virðist þó ekki skipta máli þegar kemur að sumarlágmarkinu. Á næstu mynd sem ættuð er frá frændum vorum Dönum sést þróun síðustu ára betur. Svarta línan er árið 2012 og árin frá 2005 eru til samanburðar. Þarna sést að útbreiðsla síðasta vetrar var heldur í meira lagi miðað við mörg síðustu ár. Það hefur hinsvegar ekkert að segja því þá telja einnig svæði sem eru vel utan við Norður-Íshafið og bráðna iðulega snemma hvort sem er. Það er hinsvegar ekki fyrr en um sumarið sem kemur í ljós hvernig hinn eiginlegi hafís á norðurslóðum plummar sig. Ísinn er eitthvað farinn að aukast á ný þessa dagana eins og vera ber og gæti á næstu vikum náð upp í bláu línuna frá fyrra metárinu 2007.

Hafíslínurit DMI 19 sept 2012

En af hverju svona mikil bráðnun akkúrat í ár? Það eru sjálfsagt ýmsar skýringar á því. Sumarið 2012 þykir reyndar ekki eins sérstakt og sumarið 2007 sem einkenndist af miklu sólskini yfir ísbreiðunni og vindum sem pökkuðu ísnum saman auk þess að beina honum suður í Austur-Grænlandsstrauminn. Í ár dreifðist ísinn hinsvegar meira vegna breytilegra vindátta og varð fljótlega frekar gisinn. Mjög stór lægð gerði síðan nokkurn usla snemma í ágúst og sem flýtti fyrir því sem verða vildi en ekki er þó víst að sú lægð hafi endilega gert útslagið með sjálft lágmarkið.

En svo skipta líka máli aðstæður yfir vetrarmánuðina, þ.e. hversu mikinn frið ísinn hefur til að þykkna almennilega yfir veturinn, t.d. vegna aðstreymis af hlýju lofti og hlýrri sjávar. Þá rifjast upp mynd sem ég setti saman fyrir bloggfærslu snemma í febrúar núna í ár þegar talsverðir Síberíukuldar höfðu helst yfir Evrópu. Kuldunum olli öflugt hæðarsvæði yfir Skandinavíu sem um leið dældi hlýju lofti lengst norður á bóginn. 

Hafís og veðurkort feb 2012

Best að ljúka þessari bloggfærslu á texta sem ég setti saman þarna í febrúar og ekki lokum fyrir það skotið að ég hafi kannski dálítið séð fyrir það sem átti eftir að gerast nú í sumar:

Sunnanáttirnar hafa verið eindregnar milli Íslands og meginlandsins og náð lengst norður í höf með óvenju miklum hlýindum. Á Longerbyen á Svalbarða mældist t.d. fyrir stuttu, hæsti hiti sem mælst hefur á eyjunum í febrúar, ein 7 stig. … Mjög lítill ís er einnig við Svalbarða og er norðurströndin þar íslaus, en íslaust svæði teygir sig langleiðina til smáeyjaklasans, Franz Josefslands. Það má því segja að það sé sumarástand á hafísútbreiðslunni þarna. Það er þó enn vetur og nóg eftir af honum á norðurslóðum … Þessi mikli skammtur af hlýindum þarna norðurfrá hlýtur þó að hafa sín áhrif á framhaldið og getur haft sitt að segja þegar kemur að sumarbráðnunnni.

(Úr bloggfærslunni: Óvenju hlýtt í Evrópu - óvenju hlýtt í Norðurhöfum frá 12. febrúar 2012)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband