Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hafísbráðnun sumarsins höktir af stað

Yfir sumartímann fara hlutirnir að gerast á Norður-Íshafinu því þá fer bráðnun hafíssins í gang fyrir alvöru uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Að þessu sinni verður spennandi að sjá hvort bráðnunin verður eins mikil og í fyrrasumar þegar nýtt lágmarksmet í útbreiðslu var sett. Það er þó ekki endilega hægt að búast við nýju meti strax því þótt hafísbreiðunni á norðurslóðum fari mjög hnignandi er ekki þar með sagt að ástandið versni á hverju ári, enda liðu fimm ár frá lágmarksmetinu mikla árið 2007 þar til það var slegið í fyrra. En hver er staðan nú? Verður algert hrun að þessu sinni eða skyldi hafísbreiðan ætla að braggast eitthvað á ný.
Línuritið hér að neðan fengið af vef dönsku veðurstofunnar og eins og skýrt má sjá stendur svarta línan fyrir árið 2013 en síðustu ár eru til viðmiðunnar ásamt meðalgildi áranna 1979-2000.

Hafíslínurit 11. júní 2013
Samkvæmt þessu línuriti og öðrum sambærilegum er greinilegt hlutirnir fara nokkuð hægt af stað að þessu sinni. Útbreiðslan nú er meiri en á sama tíma undanfarin sumur sem hljóta að vera slæmar fréttir fyrir einlæga bráðnunarsinna og að sama skapi frábærar fréttir fyrir ýmsa aðra, enda er ástand íssins á norðurslóðum eitt af hitamálunum í loftslagsumræðunni.
En eitthvað hlýtur að liggja þarna að baki og til að reyna finna að finna út úr því koma hér kort ættuð frá Bremenháskóla sem sýna útbreiðslu og þéttleika íssins. Kortið til vinstri er frá 13. júní 2012 og kortið til hægri frá sama tíma nú í ár.

Hafís 13. júní 2012 og 2013

Munurinn á útbreiðslu íssins milli ára er nokkuð greinilegur enda var ísinn á þessum tíma í fyrra farinn að hörfa vel undan norðurströndum Alaska og Kanada og auk þess orðinn gisinn á þeim slóðum eins og guli liturinn ber með sér á meðan sjálft norðurpólssvæðið var lagt þéttum ís. Hinsvegar er allt annað uppi á teningnum í ár því nú ber svo við að guli liturinn, sem táknar minni þéttleika, er ríkjandi á stórum svæðum nálægt sjálfum norðurpólnum Rússlandsmegin. Þetta er ekki lítið atriði og getur haft mikið að segja um framhaldið í sumar því þessi veika staða svona nálægt sjálfum pólnum er vísbending um að þróunin í ár gæti verið með óvenjulegri hætti en verið hefur áður. Jafnvel þannig að við gætum séð opið íslaust haf á sjálfum Norðurpólnum sem væri mikil nýjung frá því menn fóru að fylgjast með.
En hvernig stendur á því að ísinn nú er gisinn í miðjunni en þéttari nálægt ströndum? Hefur veðrið eitthvað með þetta að gera? Þá er bara að skoða fleiri kort:

Lægð og ísrek júní 2013

Á veðurkortinu til vinstri sem gildir þann 6. júní síðastliðinn sést hvar myndarleg lægð hefur lagt undir sig svæðið við norðurpólinn. Auk vorkulda í Alaska sem tafið hefur bráðnun á þeim slóðum hefur þessi kalda lægð verið mjög þrálát það sem af er sumri og náð að endurnýja sig í sífellu (eftir því sem ég hef fylgst með). Á ísrekskortinu hægra megin sést hvernig ísinn hrekst undan vindum af völdum lægðargangsins sem er einmitt skýringin á því hversu gisinn ísinn er nálægt miðju ísbreiðunnar. Ríkjandi vindáttir og hvassviðri brýtur ísinn upp og hrekur hann frá miðju og nær ströndum meginlandanna eða út úr íshafinu eins og hver önnur þeytivinda. Þetta er gerólíkt ástandinu í júní í fyrra þegar allt var með kyrrari kjörum og hæðarsvæði með tilheyrandi vindáttum sá til þess að ísinn hörfaði frá meginlöndunum, bráðnaði í sólinni og gisnaði á jaðarsvæðum. Síðar gerði svo ágústlægðin mikla mikinn usla í hálfbráðnaðri ísbreiðunni og átti sinn þátt í metlágmarkinu 2012.

Nú er bara spurning með framhaldið. Bræðsluvertíðin á eftir að standa fram í september og nú hefur ísinn hrakist til suðlægari svæða íshafsins, þar sem sólin er hærra á lofti og hlýtt loft frá meginlöndunum skammt undan. Framhaldið gæti orðið athyglisvert. Hugsanlega myndast stórt gat þarna í ísbreiðunni allra nyrst og ef suðlægari svæðin bráðna einnig er alveg möguleiki á óviðjafnanlegu hruni ísbreiðunnar síðar í sumar, þó ég ætla ekki að lofa því - kannski er sumarið einfaldlega of stutt. Bíðum bara og sjáum til, útbreiðslan akkúrat núna segir ekki allt, hafísinn er þynnri en fyrir nokkrum árum og viðkvæmari á alla kanta.

Rétt til glöggvunar í lokin kemur svo hér mynd af metlágmarkinu í fyrra, til að sjá hvað við er að eiga.

Lágmark 2012

 


Sumarsól í Reykjavík og á Akureyri 1973-2012

Hvernig verður sumarið? Fáum við enn eitt sólarsumarið hér í Reykjavík eða er komið að rigningarsumri? Er kannski komið að Norðlensku gæðasumri eins og þau gerast best - eða ætlar Austurlandið að taka þetta í ár? Ekki veit ég mikið um það, en hitt veit ég að nú hef ég tekið saman sólskinsstundir síðustu 40 sumra hér í Reykjavík og á Akureyri og sett upp í sitthvort súluritið. Miðað er við sumarmánuðina júní-ágúst og eru upplýsingar fengnar af vef Veðurstofunnar. Fyrst kemur hér Reykjavíkursólin en undir myndinni eru bollaleggingar:
Sumarsól Reykjavík 1973-2012Eins og sjá má hafa undanfarin sumur verið aldeilis sólrík hér í Reykjavík. Sólarsumar mætti kannski miða við 600 klst. markið en samkvæmt því hafa þau verið 6 á síðustu 9 árum. Sumarið 2012 gerði það best á tímabilinu og er eini mánuðurinn sem nær 700 klst. línunni. Júní lagði þar mest af mörkum með 320 klst., sem er það næst mesta sem mælst hefur í Reykjavík. Á fyrri árum leið lengra á milli sólarsumra og samkvæmt skilgreiningunni náðust þau með herkjum árin 1974, 1985 og 1991. Svo eru þarna líka hin annáluðu sólarsnauðu rigningarsumur 1983 og 1984, sitt hvoru megin við 300 klst. línuna. Þessi tvö leiðindasumur í röð voru ekki góð auglýsing fyrir sumarveður í Reykjavík en úr því var bætt árið eftir og eiginlega hefur ekki komið almennilegt rigningarsumar í Reykjavík eftir 1984. En þá er það Akureyrarsólin:
Sumarsól Akureyri 1973-2012Súluritið fyrir sólskinsstundir á Akureyri sýnir heldur meiri stöðugleika en í Reykjavík. Áberandi er þó að þar er sumarið í fyrra einnig á toppnum og það nokkuð afgerandi. Það er enda ekkert lögmál að sólarsumar fyrir sunnan sé ávísun á sólarleysissumar fyrir norðan - og öfugt. Sambandið þarna á milli er nefnilega nokkuð órætt eins og kemur í ljós þegar einstök sumur eru borin saman. Sumrin 1983 og 1984 eru til dæmis ekki í neinum sérflokki á Akureyri hvað sólskin varðar þótt lítið hafi sést til sólar í Reykjavík. Annars hef ég ekki mikið um Akureyrarsól að segja, nema að auk sumarsins 2012 þá kemur sumarið 2000 vel út ásamt sumrinu 2004. Þau sólarnauðustu eru hinsvegar sumrin 1979 og 1993.

Þá er bara að sjá til hvernig sumarið 2013 kemur út. Miðað við veðurspár virðist norður- og austurhluti landsins ætla að taka sólarforystuna til að byrja með, enda suðvestanáttum spáð. Ef sú vindátt verður ríkjandi í sumar þá yrði þetta sumar með öðru sniði en undanfarin ár. En þetta er nú bara rétt byrjunin og veðurfar er illreiknanlegt vikur og mánuði fram í tímann.

 


Loftslag og stóra færibandið

Í loftslagsmálum velta menn því nú fyrir sér hvers vegna lítið sem ekkert hafi hlýnað á jörðinni undanfarin 10-15 ár, á sama tíma og magn gróðurhúsalofttegunda eykst stöðugt. Er virkilega hætt að hlýna og ef svo er - hvers vegna? Ég skal ekki segja, en það sem ég ætla að velta fyrir mér hér og nú, er með hvað hætti sjórinn gæti verið að spila inn í og hvort mögulegt sé að aukinn kraftur í hinu stóra færibandi heimshafanna gæti verið að draga úr hlýnun tímabundið en um leið að valda aukinni bráðnun heimskautaíssins á norðurhveli. Menn ráða hvort þeir taka mark á þessum skrifum enda eru þetta áhugamannapælingar um hluti sem eru örugglega mun flóknari en hér er gefið til kynna.

Fyrst kemur hér súlurit frá Bandarísku veðurstofunni sem sýnir hnattrænan hita frá 1950 en þar sést vel að síðustu 10 ár hafa öll verið mjög hlý en þó í nokkuð góðu jafnvægi, þ.e. hitinn helst hár en hækkar ekki. Svo eru þarna mislitar súlur. Þær rauðu þýða að þá hafi hið hlýja El Nino ástand verið ríkjandi á miðbaugssvæðum Kyrrahafsins, en þær bláu þýða að hin kalda La Nina hafi ráðið ríkjum. Athyglisvert er að frá árinu 1999 er bara ein rauð súla á móti átta bláum. Aukið uppstreymi af köldum djúpsjó á La Nina árum og ýmsar veðurbreytingar samfara því virðist hafa sín áhrif á hnattrænan hita á sama hátt og El Nino árin hafa áhrif til hlýnunar, en þá berst einmitt minna af köldum djúpsjó upp til yfirborðs Kyrrahafsins. Spurningin er síðan af hverju hefur La Nina árum fjölgað á kostnað El Nino?

Hiti jarðar súlurit

Næsta mynd er heimatilbúin og sýnir einhverskonar vatnsgeymi sem mætti heimfæra að hluta á heimshöfin. Í fyrri myndinni er mikil lagskipting í hita þar sem heitt vatn flýtur ofan á mun kaldara og þar með þyngra vatni. Heita yfirborðið ætti við þessar aðstæður að stuðla að ágætum lofthita fyrir ofan sig. Seinni myndin sýnir hins vegar aðstæður þegar búið er að blanda öllu saman, meðalhiti vatnsins er sá sami en yfirborðið hefur kólnað og er því mun líklegra til að hafa kælandi áhrif á lofthita - sé hann á annað borð hærri en þessar 13 gráður. Úthöfin eru einmitt lagskipt í hita. Djúpsjórinn er ekki nema um 3 gráður hvar sem er á jörðinni á meðan yfirborðshitinn fer yfir 20 gráður þar sem hlýjast er. Talsverðu máli hlýtur því að skipta hvort kaldi sjórinn nái upp til að kæla yfirborð sjávar þar sem sjórinn er heitastur við miðbaug, þótt blöndunin verði aldrei nálægt svona mikil enda eru hreyfingar á færibandi heimshafanna í afar miklum hægagangi.

Vatnstankur hiti

Út frá þessari einföldu mynd er hægt að draga þá einföldu ályktun að aukið hringstreymi og aukin lóðrétt blöndun í heimshöfunum geti stuðlað að lægri yfirborðshita sjávar með kælandi áhrifum á loftið fyrir ofan. Stóra færiband heimshafanna er vel þekkt fyrirbæri. Heitur yfirborðssjórinn er léttari í sér og sekkur ekki niður nema þar sem hann nær að kólna nálægt pólasvæðunum. Þannig myndast kaldur djúpsjór sem flæðir með botninum en sogast upp á stöku stað vegna áhrifa vindknúinna strauma. 

Færibandið

Aðal niðurstreymissvæðið á norðurhveli er hér í Norður-Atlantshafi og Íshafinu. Atlantshafssjórinn er talsvert saltur og þar með eðilsþyngri en ferskari sjór og sekkur því auðveldlega þegar hann kólnar og mætir ferskari og kaldari yfirborðsjó úr norðri. Það hversu langt hlýji sjórinn nær norður áður en hann sekkur er auðvitað mjög mikilvægt atriði fyrir loftslag hér á okkar slóðum, en einnig hversu mikill að magni þessi aðkomni hlýsjór er. Ef krafturinn eykst í kerfinu ætti því að hlýna hér (sem hefur gerst) og jafnfræmt ætti hafísinn að minnka í Norður-Íshafi (sem er líka að gerast).
Í Kyrrahafinu er að finna mikilvægasta uppstreymissvæðið í heimshöfunum og aftur komum við að því að ef krafturinn í stóra færibandinu eykst, þá ætti meira magn af köldum djúpsjó að berast upp til yfirborðs, sem einmitt gerist þegar hin kalda La Nina er við völd eins og reyndin hefur verið frá aldamótum. Kyrrahafið er ekki nærri því eins salt Atlantshafið og ræður það sennilega því að djúpsjór myndast ekki í norðurhluta Kyrrahafs.

Umhverfis Suðurskautslandið er sjórinn á stöðugri réttsælis hringferð bæði í efri og neðri lögum og þar myndast kaldur djúpsjór eins og hér norður í Ballarhafi. Aðstæður þarna suðurfrá er þó allt aðrar en hér fyrir norðan. Hafísinn hefur heldur aukist á suðurhveli sem samkvæmt nýlegri rannsókn stafar af breytingum á vindum umhverfis Suðurskautslandið sem ber ísinn lengra norður að vetrarlagi.

Að þessu sögðu þá kemur hér hitafarskort fyrir yfirborðshita sjávar eins og aðstæður voru undir lok árs 2007 þegar eitt af þessum La Nina fyrirbærum hafði komið upp í Kyrrahafi. Á bláu svæðunum í Kyrrahfinu er yfirborðssjórinn kaldari en venjulega enda mikið kalt uppstreymi í gangi undan vesturströndum Ameríku. Hinsvegar er rauði liturinn ríkjandi nyrst í Atlantshafi eins og verið hefur síðustu ár. Allt rímar þetta við mögulegan aukinn kraft stóra færibandsins.

Sjavarhiti nov. 2007

Nú er spurningin hvort menn sætta sig við hröðun stóra færibandsins sem skýringu á því að skort hefur á hlýnun jarðar frá aldamótum á sama tíma og hlýsjór ríkir á Norður-Atlantshafi og Norður-Íshafinu. Margt fleira getur spilað inn í og kannski er ekki hægt að fullyrða að heimshöfin virki bara eins og eitthvað einfalt færiband sem fer mishratt og samtenging Kyrrahafsins og Atlantshafsins er kannski ekki eins mikil og ég hef gefið í skin. En þetta er þó allavega umhugsunaratriði.
Hvernig þetta tengist svo hlýnun jarðar er síðan annað mál. Ef aukinn kraftur færist í lóðrétta blöndun sjávar til lengri eða skemmri tíma, ætti djúpsjórinn að hlýna smám saman og því væri hægt að segja að hlýnun jarðar fari í það um þessar mundir að bræða norðurpólsísinn og hita djúpsjóinn frekar en yfirborðið. Ef svo er og verður eitthvað áfram, gæti það líka frestað þeirri óðahlýnun lofthjúpsins sem áður hafði verið auglýst svo kröftuglega. Hlýnunin mikla gæti þó skilað sér að lokum en á lengri tíma en áður var talið og að sama skapi með langvinnari afleiðingum.

- - -
Þetta var nú frekar langur pistill sem lengi hefur verið í bígerð og hann gæti alveg verið lengri. Textinn er allur frumsaminn en eins og yfirleitt hjá mér eru heimildir héðan og þaðan og sumar þeirra týndar. Ég "bookmarkaði" þó á sínum tíma gestapistil Williams Kininmonth á bloggsíðunni hennar JoNovu, sem reyndar flokkast sem "skeptíkisti", en mér er sama hvaðan gott kemur. The deep oceans drive the atmosphere.

Höfin hafa annars verið að fá aukna athygli undanfarið samanber nýbirta rannsókn Balmaseta, Trenberth og Kallen sem virðast hafa fundið eftirlýsta hlýnun jarðar ofan í hafdjúpunum. Um það má lesa hér: Deep ocean warming helps prove climate change is accelerating.


mbl.is Koltvísýringur í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra snjódagamyndin, 1986-2013

Hér í Reykjavík hafa menn ekki þurft að kvarta yfir snjóþyngslum á liðnum vetri ólíkt því sem verið hefur Norðanlands. Það snjóaði vissulega endrum og sinnum hér í borginni en þó varla neitt til að tala um, fyrir utan kannski ófærðarmorguninn 6. mars. Sá snjór dugði reyndar stutt og var horfinn tveimur dögum síðar. Langoftast var jörð alauð enda voru hávetrarmánuðirnir janúar/febrúar óvenju hlýir og snjóléttir eftir því.

Þetta má meðal annars sjá á stóru snjódagamyndinni sem nú hefur verið uppfærð og sýnir hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti allt aftur til október 1986. Myndin er unnin upp úr mínum eigin athugunum og geta því verið einhver frávik frá opinberum athugunum sem gerðar eru Veðurstofutúni að morgni til. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.

Snjódagar 1986-2013
Samkvæmt þessum athugunum mínum eru snjódagar liðins vetrar aðeins 24 talsins og hafa ekki verið færri frá upphafi skráninga. Fyrra snjóleysismetið voru 32 dagar hlýindaveturinn 2002-2003 og svo voru 33 dagar veturinn 2009-2010, þannig að þetta er nokkuð afgerandi óopinbert met.

Í hinn endann er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki eins mikill að magni. Langvinnir snjóakaflar hafa ekki verið tíðir hin síðari ár nema reyndar þarna frá nóvember 2011 til janúar 2012 þegar við fengum einn alhvítasta desember sem um getur.

Nú er bara að vona að vorið hrökkvi almennilega í gang. Einnig að garðsláttuvélar hrökkvi liðlega í gang því stutt er í að grasið fari að spretta í görðum borgarbúa. Á heimskautasvæðum Norðanlands vonumst við líka til að klakabrynjan hörfi sem fyrst af túnum og fótboltavöllum.


Að flokka flokka

Stjórnmálaflokkar eiga sér hugmyndafræðilegan bakgrunn og beita sér fyrir framgangi þeirra mála á þann hátt sem fellur best að þeirra heimsmynd og skoðunum. Oft er talað um hið pólitíska litróf sem línulegt samband sem nær frá hinu rauða vinstri til hins bláa hægri með viðkomu í grænni miðju. En auðvitað er þetta flóknara er svo, eins og hefur sýnt í íslenskri pólitík. Á dögunum gekk á netinu spurningalisti á vegum Áttavitans sem staðsetti þátttakendur og stjórnmálaflokka í tveggja ása hnitakerfi. Þannig var lárétti ásinn látinn tákna hið dæmigerðu vinstri / hægri eða réttara sagt Félagshyggju / Markaðshyggju á meðan lóðrétti ásinn táknaði Frjálslyndi / Forsjárhyggju.

áttaviti hnitakerfiÞetta má sjá á meðfylgjandi mynd en þar lenda hægri flokkar hægra megin en vinstri flokkar vinstra megin. Besti flokkurinn er akkúrat á miðjunni og hinir anarkísku Píratar lenda efstir í frjálslyndinu samkvæmt þessu. Vinstri grænir og aðrir félagshyggjuflokkar eru víðs fjarri Sjálfstæðisflokknum og Hægri grænum en Samfylking er ekki fjarri Framsókn rétt neðan við miðju. Þetta er sjálfsagt ágæt skipting þótt deila megi um hvort Forsjárhyggja sé ekki full gildishlaðið orð á neikvæða vísu miðað við Frjálslyndið. Látum það liggja á milli hluta.

 

En dugar þessi mynd til að endurspegla hinn íslenska pólitíska veruleika? Fyrir þremur árum gerði ég tilraun til að flokka flokka á svipaðan hátt og teiknaði upp myndina hér að neðan. Þarna má einnig sjá tvo ása en munurinn er sá að í stað hins lóðrétta Frjálslyndis/Forsjárhyggju-áss er ég með lóðréttan ás sem gengur út á Alþjóðahyggju gagnvart Þjóðernishyggju (sem sumir vildu kannski frekar kalla Þjóðfrelsishyggju vegna neikvæðra skírskotana). Myndina kallaði ég Fimmflokkakerfið og dægurflugur og er hún tilraun til flokkamyndunar út frá þessum skilgreiningum en sýnir þó ekki endilega flokkakerfið eins og það er í raun.

Fimmflokkakerfið

Þarna má sjá tvo vinstri flokka Samfylkingu og Vinstri Græna en það sem aðgreinir þá er misjöfn afstaða til að tengjast stærri ríkjabandalögum sem er mjög stórt mál í dag. Í Ríkisstjórninni sem þessir flokkar mynduðu þurfti annar að gefa eftir í Evrópumálum að hluta, með slæmum afleiðingum fyrir flokkinn og fylgið. Hægra megin við miðju hefur Sjálfstæðisflokkurinn löngum verið allsráðandi. Sá flokkur hefur komið sér fyrir neðan miðju, gegn alþjóðahyggjunni en á í vissum vandræðum því hluti flokksmanna er á öndverðri skoðun. Þess vegna ættu í raun að vera þarna tveir hægri flokkar eins og ég sýni þarna og kalla Sjálfstæðisflokk 1 og 2. Framsóknarflokkurinn er merkilegt og misgagnlegt fyrirbæri í Íslenskri pólitík. Hann er á miðjunni en getur þanist út eða minnkað, stokkið til allra hliða og tengst hverjum sem er, enda aldrei langt að fara.

Allskonar önnur framboð koma fram fyrir hverjar kosningar. Sum þeirra eru ekkert nema dægurflugur sem slá í gegn tímabundið en mörg þeirra eiga aldrei neina von. Ég kalla hér allt slíkt Fluguframboð en í kosningunum nú er eiginlega um heilt flugnager að ræða. Þessi flokkar geta verið gagnlegir til að leggja áherslu á ákveðin málefni en raska ekki mikið fjórflokkakerfinu til lengri tíma.

Hvað kemur upp úr kössunum um næstu helgi á eftir að koma í ljós en möguleikar flokka til að vinna saman er ýmsum annmörkum háð því til þess þarf að gefa eftir hluta af sínum grunnsjónarmiðum. Tengingar milli flokka geta þó verið á ýmsa vegu. Þar snúast hlutirnir ekki bara um hægri og vinstri pólitík. Kannski mun baráttan að þessu sinni snúast um að tengjast miðjunni sem er fyrirferðamikil um þessar mundir.

 


Snjóleysi á Vestur-Grænlandi

Við skulum byrja á því að líta á gervihnattamynd sem var tekin í dag - eins og stundum er sagt í veðurfréttunum. Ísland er í horninu niðri til hægri en svo er Grænland þarna í öllu sínu veldi. Það hefur vakið athygli mína í öllum vetrarharðindunum sem ríkt hafa beggja vegna Atlantshafsins að á austurströnd Grænlands er sáralítinn snjó að finna þar til komið er sjálfri jökulröndinni. Þetta á sérstaklega við um svæðið innan hringsins sem ég hef dregið upp en þar er jökulröndin afar skýrt mörkuð. Svæðið er norðan heimskautsbaugs suður af Diskoflóa og ætti að mínu viti að vera á kafi í snjó nú undir lok vetrar. En er þetta eðlilegt?

Grænland 13. apríl

Þessi vetur sem senn er á enda hefur verið óvenjulegur að mörgu leyti. Vetrarhörkur hafa verið talsverðar í Norður-Evrópu og víða í Bandaríkjunum. Hér á landi hefur snjónum verið mjög misskipt á milli landshluta. Á suðvesturlandi hefur verið mjög snjólétt en á norður- og austurlandi hefur meira og minna verið hvítt í allan vetur, ef undan er skilinn hlýindakaflinn í febrúar. Austanáttir hafa lengst af verið ríkjandi hér á landi í vetur en suðvestanáttin algerlega heillum horfinn og þar með einnig éljagangurinn hér á suðvesturhorninu.

Á Grænlandi er sjálfsagt eitthvað óvenjulegt á ferðinni líka. Allavega hefur verið hlýtt þar á vesturströndinni og miðað við þessa loftmynd hefur einnig verið þurrt því varla eru það rigningar sem valda snjóleysi svona norðarlega til fjalla á Grænlandi. Væntanlega mun þetta snjóleysi hafa sín áhrif á jöklabúskap þessa mikla jökulhvels því gera má ráð fyrir að lítið hafi safnast fyrir þarna vestanmegin í vetur, hvað sem segja má um ástandið okkar megin.

Í heiðríkjunni vestan Grænlands sést að hafísinn heldur sig fjarri Grænlandsströndum vestanverðum en þar er reyndar ekki mikinn ís að finna alla jafna. Það sést hinsvegar grilla í Austur-Grænlandsísinn fyrir norðan Ísland sem heldur sig sem betur fer fjarri okkar ströndum. Ísinn er þó kominn suður fyrir Hvarf þarna allra syðst á Grænlandi þaðan sem hann er farinn að berast með straumum vestur- og norður fyrir eins og lög gera ráð fyrir.

Best að enda þetta á hitafarsmynd frá NASA þar sem sést hvar hitar og kuldar héldu sig um miðjan mars síðastliðinn á norðurhveli. Já það er ekki um að villast hvar hlýindin voru á þeim tíma og líklega má segja að þetta sé nokkuð dæmigert fyrir veturinn.

Hiti NASA mars 2013

Myndin er fengin frá NASA Earth Observatory á slóðinni: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=80804. Þar má líka lesa um ástæður þessara óvenjulegheita.

Efri myndin er einnig frá NASA: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Esjan skipar heiðursess á þessari bloggsíðu eins og glögglega má sjá á toppmyndinni. Þetta á ekki síst við í byrjun apríl þegar kemur að því að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem teknar eru frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar átta talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Spurningin er hvað verður upp á teningnum í ár. Er vorið komið? - eða farið? Nánar hér neðan mynda:

Esja april 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006
Snjóalög í Esjunni nú undir lok vetrar eru heldur minni en á sama tíma í fyrra, allavega miðað við þann góðvirðisdag sem mynd þessa árs var tekin en síðan þá hefur kólnað á ný og dálítið snjóað til fjalla. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Grunnurinn að núverandi snjósköflum er sennilega það sem lifði af hlýindakaflann mikla í febrúar en fyrri hluta vetrar hafði talsverð snjósöfnun verið í fjallinu. Spáð er kólnandi veðri næstu daga og bakslagi á þeirri vorblíðu sem hér var fyrstu dagana í apríl. Þó hlýtur að teljast líklegt miðað við fyrri ár að Esjan nái að hreinsa af sér allan snjó fyrir næsta haust en á þessari öld hefur það gerst á hverju ári, nema að sennilega vantaði herslumuninn árið 2011.

Eins og kemur fram þá skrái ég Esjuna snjólausa 18. september árið 2012 - í fyrra. Þá vildi reyndar svo til að síðasti skaflinn til að hverfa var ekki í Gunnlaugsskarði eins og venjan er. Sá skafl hvarf 4. september en litli lífseigi skaflinn vestur undir Kerhólakambi lifði hinsvegar til 18. september. Til að flækja málin þá snjóaði í Esjuna 10. september í fyrra en sá snjór hvarf aftur þann 21. september samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Ég læt þó dagsetninguna 18. september standa sem daginn sem snjór fyrri vetrar hvarf.

- - - - -

Til upprifjunar þá bendi ég á eldri bloggfærslu um skaflaleiðangur á Esjuna þann 9. ágúst í fyrra. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1253901/

Einnig nota ég tækifærið til að minna á myndaseríu mína Reykjavík alla daga ársins sem tekin var árið 2011 en það var einmitt árið sem Esjunni tókst ekki alveg að verða snjólaus eftir hryssingslegt vor en þó ágætis sumar. http://www.365reykjavik.is


Vetrarhitasúlur

Nú, þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki, er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins en sá dæmigerði hiti liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Nánari útlistun á vetrarhitafarinu, sem hefur verið óvenjulegt á sinn hátt að venju, er undir myndinni.

Vetrarsúlur 2012-13
Eins og sést á myndinni þá hefur hitafar vetrarins verið dálítið öfugsnúið og lítið fylgt meðalhita hvers mánaðar. Jafnvel má segja að það hafi meira og minna farið hlýnandi í vetur þangað til kuldakastið skall á snemma í mars. Allavega þá var febrúar hlýjasti vetrarmánuðurinn og sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965 samkvæmt opinberum gögnum. Janúar var líka mjög hlýr og samanlagt eru þetta næst hlýjustu tveir fyrstu mánuðir ársins í borginni en aðeins jan-feb 1964 voru hlýrri. Hinsvegar voru þetta hlýjustu tveir fyrstu mánuðirnir í Stykkishólmi.
Aðrir mánuðir eru eðlilegri í hita. Marsmánuður gerði sig lengi líklegan til að verða almennilega kaldur en kuldinn mátti sín lítils á daginn eftir því sem sólin fór að hækka á lofti en það er ekki síst dægursveiflan sem skýrir þessar háu rauðu súlur seinni hluta marsmánaðar.
Ég er með tvo daga sem ég skrái sem 9 stig sem er alveg ágætt. Eitthvað var talað um að hitamet hafi verið slegið fyrir janúar í Reykjavík þann 4. þegar hitinn náði mest 10,7 stigum. Frosthörkurnar hafa hinsvegar ekki verið neitt sérstakar en yfirleitt má búast við að allra köldustu vetrardagarnir séu nær 10 stigum í borginni. Kaldasti dagurinn er 5. mars eftir að hitastigið hafði verið í frjálsu falli. Daginn þar á eftir kom hríðarveðrið með ófærðinni og svo öskufokið með hinni óvenju þrálátu austanátt sem meira og minna hefur ríkt í allan vetur.

Eins og með önnur sambærileg veðurgröf þá fer vetrarhitasúluritið í myndaalbúmið Veðurgrafík sem er hérna til hliðar. Ýmislegt skrautlegt er það að finna. Í lokin er svo Esjutoppsmynd þar sem horft er til Reykjavíkur á köldum degi þann 17. mars. Væntanlega verður horft frá hinni áttinni í næstu bloggfærslu um næstu helgi.

Á Esju 17. mars 2013


Á Heklu í Eldgosi

Oft hef ég hugsað út í hvernig það væri að vera staddur á Heklutindi og fá þær fréttir að eldgos væri yfirvofandi í fjallinu. Ætti maður einhverja möguleika á að koma sér úr hættunni eða er voðinn algerlega vís ef við gerum ráð fyrir að fyrirvarinn sé aðeins hálftími svo maður miði við tilkynninguna sem lesin var upp í útvarpinu fyrir síðasta gos árið 2010?

Hekla Mila

Látum okkur nú sjá. Hugsunin gengur út á að ég sé einn uppi á Heklu með litla vasaútvarpið, sem í þessu tilfelli eins og í öðrum fjallaferðum er sjálfsagt öryggistæki. Nú heyri ég tilkynningu um að Hekla sé að fara gjósa innan skamms og ekki um annað að ræða en að koma sér burt eins fljótt og auðið er. En nú eru góð ráð dýr, hvert ætti maður að fara?

Aðaluppgönguleiðin á Heklu liggur meðfram háhryggnum úr norðaustri og sama leið er farin til baka. Þessi leið er hinsvegar alveg banal ef eldgos er í vændum því í flestum Heklugosum gýs meðfram háhryggnum - jafnvel eftir endilöngum hryggnum sem liggur í stefnuna suðvestur-norðaustur. Til að komast sem fyrst úr hættusvæði kemur því vart annað til greina en að fara stystu leið niður brattann þvert á hrygginn og vona það besta. Þá er spurningin hvort betra sé að fara niður vestur- eða austurhliðina (réttara sagt norðvestur- eða suðausturhliðina). Sú ákvörðun gæti ráðist af vindátt því feiknamikið öskufall fylgir upphafsfasa Heklugosa þannig að í austanátt ætti að vera betra að fara niður austanmegin en vestanmegin í vestanátt.
En þessar tvær Hekluhliðar eru ekki jafn hættulausar. Í síðustu gosum hafa mikil hraun runnið niður austanmegin og sú hlið getur því að sama skapi verið mjög ógreiðfær á köflum þegar mikið liggur við. Einnig hlýtur að vera talsvert meiri hætta á lenda beinlínis í hraunstraumi þarna austanmegin eða króast af milli tveggja strauma, sem er ekki gott. Tala nú ekki um ef gosrás opnast þarna í hlíðinni eins og gerðist í gosinu 1991.
Með þetta í huga er ákveðið að halda niður vesturhlíðina til norðvesturs jafnvel þótt vindátt sé óhagstæð. Sennilega er hægt að finna góða leið niður þarna megin og best ef hægt væri að hlaupa niður snjóskafl eða einhverja slétta skriðu. Álitlegt er að stefna á Litlu-Heklu sem er dágóður stallur í hlíðinni norðvestanmegin, um tvo kílómetra frá toppnum og ef allt gengur að óskum er maður kominn langleiðina þangað þegar ósköpin byrja.
Ef við gerum ráð fyrir hefðbundinni byrjun þá hefst gosið með sprengingu í toppgígnum en síðan rís gosbólsturinn sífellt hærra á loft og verður orðinn ógnvænlegur á skömmum tíma. Sennilega gerist ekkert meira í bili nema að bólsturinn breiðir úr sér, þekur sífellt stærra svæði himinsins og dimmur skuggi leggst yfir landið. Síðan koma hættulegar sendingar að ofan, fallandi molar og bombur lenda allt í kring og svo kemur sjálf askan og með henni fer skyggnið niður í ekki neitt. Þá er eins gott að dúða höfuðið eins og mögulegt er, setja á sig skíðagleraugu og verja öndunarfærin.Talsverð hætta er þarna líka á einhverskonar hlaupum niður fjallshlíðina með brennheitum gufum sem engin leið leið er að hlaupa undan eða jafnvel gusthlaupum þegar mökkurinn fellur niður eins og í Vesúvíusi á sínum tíma, nema bara í smærri stíl. Slíkt gerði algerlega út af við mann.

Fyrstu hraunin fara í framhaldinu að renna hratt niður hlíðarnar þegar sjálfur eldurinn kemur upp og gossprungan lengist eftir háhryggnum. Þarna er ómögulegt að vita fyrirfram hvernig hlutirnir haga sér. Gosrásir geta opnast hvar sem er umhverfis fjallið og hraunin runnið hvert sem er. Hér er þó allavega gott að vera kominn að Litlu-Heklu og meta stöðuna. Hraunin ættu ekki að renna akkúrat þangað nema gosrás opnist einnig akkúrat þar. Sé maður ekki algerlega áttavilltur, sturlaður eða slasaður er stefnan tekin áfram niður á við í norð-vestur þar sem við tekur greiðfær leið um hraunlítil svæði til norðurs og svo bara áfram og áfram í þeirri von að maður komist úr mesta mekkinum. Eftir 9-10 kílómetra þrautagöngu gæti maður náð að veginum að Landmannaleið eða farið meira til vesturs yfir erfiðara landslag og komið að Landveginum suður að Búrfelli og bíða þess að verða bjargað.

- - - -
Þessi atburðarás er auðvitað bara hugarburður og miðast við það sem ég þekki eða get ímyndað mér. Fjallgöngur eru orðnar mikið sport hér á landi og ef fyrirvaralítið gos hefst á miðjum sumardegi er frekar líklegt að einhverjir séu á fjallinu. Ég hef einu sinni gengið á Heklu. Það var sumarið 1990 en í byrjun næsta árs hófst eitt af þessum algerlega óvæntu gosum í Heklu. Á seinni stigum þess fór ég í útsýnisflug og tók þá þessa mynd sem sýnir suðausturhlíðina og síðasta lífsmarkið í gosinu þarna í neðri hlíðunum. (Efri myndin er tekin af vefmyndavél Mílu, 17. júní, 2012)

Hekla 1991


Hafístíðindi um hávetur

Nú má fara að velta sér upp úr stöðu hafíssins á norðurslóðum en þar er ýmislegt að gerast þessa dagana. Um þetta leyti árs er útbreiðsla hafíssins á norðurhveli í hámarki eins og sést á meðfylgjandi línuriti sem sýnir árstíðasveiflur í flatarmáli íssins allt aftur til 1979. Það er ekki alveg hægt að fullyrða að hámarki vetrarins hafi verið náð en það ætti þó varla að fara mikið ofar en þarna sést.
Íshaf 1979-2013

Vetrarhámarkið að þessu sinni sætir reyndar engum sérstökum tíðindum og er í samræmi við mörg síðustu ár og bara lítið eitt lægra en algengast var undir lok síðustu aldar. Væntanlega verða ekki róttækar breytingar á hafísútbreiðslu að vetraralagi á næstu árum jafnvel þótt eitthvað hlýni. Þróunin á sumarlágmarkinu er hins vegar öllu meira afgerandi og verulega farið að styttast í núllið miðað við það sem áður var. Sumarið í fyrra sló einmitt öll fyrri met með afgerandi hætti eins og þarna sést. Í ofanálag bætist svo að ísinn er þynnri en áður sem aftur skýrir hvers vegna sífellt meira bráðnar að sumarlagi. Línuritið er af síðunni The Cryosphere Today.

Næst koma hér tvær yfirlitsmyndir ættaðar frá Bandaríska sjóhernum og sýna þær útbreiðslu og áætlaða þykkt íssins. Sú til vinstri er staðan þessa dagana en myndin til hægri sýnir metlágmarkið í fyrra og allt það mikla opna haf sem þá myndaðist. Eins og sést á vetrarmyndinni þá er ísinn mun þykkari (og eldri) Ameríkumegin heldur en Síberíumegin. Þykkasti ísinn sleikir strendur Kanadísku heimskautaeyjanna og er þar mun þykkari en á pólnum sjálfum sem átti ekki mjög langt í að vera íslaus síðasta sumar. Myndina setti ég saman upp úr kortum sem finna má á þessari síðu: http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html en þar hægt að finna ýmsar myndir aftur í tímann og gif-hreyfimyndir.

Lágmark 2012 / Hámark 2013

 

Mikið uppbrot á ísnum undanfarið
Vegna hinnar miklu sumarbráðnunar undanfarin ár og sérstaklega síðasta sumar þá er sífellt stærri hluti ísbreiðunnar ungur ís sem er mun viðkvæmari en sá sem lifað hefur og dafnað árum saman. Þetta hefur glögglega komið í ljós núna undanfarið því undir lok febrúarmánaðar fór viðkvæmur fyrsta árs ísinn að brotna upp á stórum svæðum í Beuforthafi norður af Alaska. Uppbrot íssins á þessum slóðum er þó ekki endilega einsdæmi enda tengist þetta ríkjandi hringhreyfingu íssins þarna undir enska heitinu Beufort Gyre sem hefur að undanförnu fengið aðstoð sterkra vinda og öflugrar hæðar nálægt norðurskautinu. Þeim sem fylgjast með hafísmálum þykir þetta þó vera óvenju mikið svona um háveturinn. Hér má reyndar nefna að ég skrifaði einmitt bloggfærslu um það þegar þetta gerðist í fyrra, en þá var reyndar komið fram í apríl. Sjá: Ísinn mölbrotnar á Norður-Íshafinu

ísbrot mars 2013
Þetta mikla uppbrot og hreyfing sem komin er  á ísinn gæti verið vísbending um hvað í sé vændum næsta sumar. Það mun koma í ljós síðar því enn er þarna hörkufrost og sprungurnar eru fljótar að frjósa á ný, þó ekki nái það að bæta fyrir skaðann. Ísinn er ekki eins fastur fyrir og áður og þolir mun verr sterka vinda sem gerir hann viðkvæmari fyrir sumarbráðnun. Það kom reyndar í ljós síðasta sumar þegar öflug lægð rótaði upp í ísbreiðunni og átti sinn þátt í að flýta fyrir met-sumarlágmarkinu. Kannski fáum við enn eitt metlágmarkið næsta sumar og kannski nær norðurpólinn því að vera tímabundið skilgreindur sem íslaust svæði í fyrsta skipti síðan menn fóru að fylgjast svona náið með heimskautaísnum. Þetta verður bara að koma í ljós – það eru möguleikar í stöðunni en alls engin vissa.

- - - -

Í lokin fyrir þá sem treysta ekki bloggskrifum áhugamanna kemur hér ítarlegra opinbert yfirlit frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni (NSIDC): http://nsidc.org/arcticseaicenews/

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband