Færsluflokkur: Vísindi og fræði
24.2.2018 | 16:58
Hlýi geirinn í öllu sínu veldi
Fyrir veðuráhugamann eins og mig þá eru stórviðri af öllu tagi hin mesta skemmtun svo lengi sem húsið heldur vatni og vindum. En þá er að hella sér út í veðrið. Lægðin sem olli óveðrinu núna á föstudaginn var óvenjuleg miðað við aðrar lægðir í vetur af því leyti að nú fengum við stóran skammt af hlýju lofti og vorum í þessu hlýja lofti í 9 klukkustundir, eða frá kl. 15 og alveg til miðnættis, allavega hér í Reykjavík. Þetta hlýja loft sem fylgir öllum lægðum og knýr þær áfram er oft kallað "hlýi geirinn" og það er að finna á milli hitaskila lægðarinnar og kuldaskilanna sem fylgja á eftir. Hlýi geirinn sem heimsótti okkur að þessu sinni var vel opinn á okkar slóðum en ekki þröngur eins og oft áður sem hafði sitt að segja. Almennt þá hreyfast kuldaskilin að baki hlýja geirans hraðar heldur en hitaskilin og því þrengist um hlýja loftið við yfirborð eftir því sem lægðin þróast. Þar sem kuldaskilin hafa náð að elta hitaskilin uppi missir hlýja loftið jarðsamband og myndast þá samskil sem oftast eru lituð fjólublá á skilakortum eins og því hér að neðan frá Bresku veðurstofunni. Skilasameiningin gerist fyrst næst lægðarmiðjunni og þróast síðan áfram. Kortið gildir á miðnætti að loknum föstudeginum þegar kuldaskilin voru komin upp að landinu.
Loftið í hlýja geiranum er oftast talið vera stöðugt enda er þar á ferðinni hlýtt loft sem berst yfir kaldari svæði, öfugt við til dæmis éljaloftið sem á uppruna sinn af kaldari svæðum. Veðrið sjálft í hlýja geiranum er líka gjarnan stöðugt og eindregið. Það er í fyrsta lagi hlýtt og rakt og fer yfir með jöfnum vindi sem getur verið sterkur eins og núna á föstudaginn. Einkenni hlýja geirans komu mjög vel fram á línuritum hér að neðan, sem ég fékk á vef Veðurstofunnar. Þar sést vel hvernig veðrið breytist fyrst þegar hitaskilin ganga yfir um kl. 15 (rautt strik) og síðan þegar kuldaskilin komu um miðnætti (blátt strik) en strikin eru viðbót frá mér. Tímabilið milli skilanna litaði ég bleikt en það er einmitt þá sem við erum í hlýja geiranum. Eins og sést þá er hitinn allan tímann á bilinu 7-8 stig í hlýja loftinu, úrkoman er talsverð allan tímann og raunar óvenju mikil, vindhraðinn heldur sér í um 16 m/sek og er meiri í hviðum. Vindáttin er stöðug af suðaustri allan tímann.
Það sem sennilega var óvenjulegt við þennan hlýja skammt af lofti var úrkomumagnið en oftast er úrkoman í hlýja geiranum meira í formi súldar sem myndast þegar hlýtt og rakt loftið þéttist þegar það kemst í kynni við kaldara yfirborð sjávar. En þetta var líka mjög djúp lægð enda vindurinn samkvæmt því.
Best er annars að fara varlega í skýringar á þessu enda er ég bara sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur. Ég þykist þó vita að þetta hlýja loft muni halda áfram lengra í norður og leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim miklu hlýindum sem ríkja núna við Norður-Íshafið alveg upp að Norðurpól. Í viðleitni til að viðhalda einhverju jafnvægi í veröldinni mun hæðin í austri senda kalt loft undir sig til að hrella Evrópubúa á meginlandinu. Hér hjá okkur er von á endurkomu á hlýju lofti og verður það enginn hlýr geiri heldur stór hæðarknúin hlýindaframsókn sem gæti síðar snúist í andhverfu sína. Já, það er nóg að gera í þessu. Sýni hér að lokum hitafar á norðurslóðum þar sem sýnd eru hlýindi og kuldar sem frávik frá meðalhita. Ansi miklir öfgar og óvenjulegheit í þessu.
- - - -
Veðurkort MetOffice: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure
Línuritin frá Veðurstofunni: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/faxafloi/#group=11&station=1
Neðsta myndin: http://cci-reanalyzer.org/wx/DailySummary
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2018 | 18:00
Heimshiti og Reykjavíkurhiti 1901-2017
Mér finnst alltaf forvitnilegt að bera saman hitaþróun í Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2017 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum. Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita en heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Ég stilli ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita en út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.
Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróunin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju og köldu tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfir- og undirskot miðað við heimshitann.
Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn enda alveg á sömu slóðum á línuritinu. Í Reykjavík var hitinn á liðnu ári mjög nálægt meðalhitanum frá aldamótum. Hitinn í Reykjavík hefur reyndast sveiflast heilmikið á allra síðustu árum. Árin 2014 og 2016 voru nálægt árshitametinu frá 2003 en á milli þeirra féll meðalhitinn niður í 4,5 stig sem er kaldasta ár aldarinnar í borginni, þótt það hafi í raun ekki verið neitt sérstaklega kalt. Á heimsvísu er árið 2017 yfirleitt talið í 2.-3. sæti yfir hlýjustu árin. Auðvitað er alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Enginn vafi er þó á því að síðustu þrjú ár hafa verið mjög hlý á jörðinni sem einkum má rekja til öflugs El Nino ástands veturinn 2015-16.
Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan almennt er talið að það haldi bara áfram að hlýna. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár þá er ómögulegt að segja til um hvort það verði hlýrra en 2017 í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Á jörðinni í heild gæti árið 2018 orðið eitthvað kaldara en síðasta ár vegna kalds La Nina ástands í Kyrrahafinu og svo hjálpar ekki að sólvirkni er í lágmarki um þessar mundir. Varla er þó neitt hrun í heimshitanum framundan en næsti kippur upp á við verður svo þegar hinn hlýi El Nino bregður sér á leik á ný á Kyrrahafinu.
Benda má á hér í lokin að þessi mynd fer í geymslu í myndaalbúminu Veðurgrafík hér á síðunni en þar má finna ýmsar misnýlegar myndir sem ég hef sett upp.
Vísindi og fræði | Breytt 28.1.2018 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2018 | 00:17
Skautað yfir stöðuna
Hvað sem segja má um loftslagsmálin svona almennt þá mjakast hlutirnir hægt og rólega í vissa átt með ýmsum bakslögum inn á milli. Hér ætla ég skauta yfir stöðuna á þeim þáttum sem helst koma við sögu þegar loftslagsbreytingar og heimsveðurfar ber á góma. Fyrst er það sem allt snýst um.
Koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti heldur áfram að aukast jafnt og þétt með hverju ári, en samkvæmt tölum frá desember 2017 var magnið komið upp í 407 ppm (parts per million). Þótt hlutfall koltvísýrings sé raunar afar lítið í lofthjúpnum þá hefur það sín áhrif. Heilmikill stígandi er í þessu og ekki hægt að kenna öðru um en umsvifum mannsins á okkar tímum enda magnið komið langt yfir það sem mest hefur verið síðustu 400 þúsund ár að minnsta kosti, samkvæmt vef NASA þaðan sem myndin er fengin. https://climate.nasa.gov/vital-signs/carbon-dioxide/
Meðalhiti jarðar árið 2017, samkvæmt gervitunglamælingum UAH, var sá þriðji hæsti sem mælst hefur. Hlýjasta árið samkvæmt þeirri gagnaröð var árið 2016 og í samræmi við það eru síðustu tvö ár, hlýjasta tveggja ára syrpa sem mælst hefur. Árið 1998 heldur sinni stöðu sem annað hlýjasta árið. Þessi tveir hitatoppar sem eru svona áberandi á línuritinu eru afleiðingar El Nino á Kyrrahafinu en ólíkt því sem gerðist eftir 1998 þá hefur meðalhiti jarðar haldist nokkuð hár síðan. Hér má benda á að samkvæmt mælingum annarra aðila þá er hlýnun undanfarinna ára heldur meiri en hér kemur fram og má því segja að ég hafi vaðið fyrir neðan mig með því að velja gagnaröð UHA sem ættuð er frá "efasemdamönnunum" í Alabamaháskóla í Bandaríkjunum. http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/
Sjávarhiti er breytilegur eftir svæðum eins og venjulega. Blái liturinn á Kyrrahafinu er til marks um kalt La Nina ástand sem nú ríkir en það ætti tímabundið að halda aftur að hitanum hnattrænt séð. Hér á okkar slóðum er Norður-Atlantshafið nokkuð hlýtt og hann er að mestu horfinn kuldapollurinn sem gerði vart við sig fyrir 2-3 árum. Kannski mun svæðið þó eitthvað blána á ný vegna kuldaútrásar frá Norður-Ameríku núna í vetur. https://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/sst.shtml
Sjávarhæð heimshafanna stígur nokkuð jafnt og þétt um nokkra millimetra á ári vegna hitaþenslu hafsins og viðbótarvatns vegna jökulbráðnunar. Þótt það sé ekki mikið þá eru 3,2 mm ári = 32 cm á einni öld. En þetta er breytilegt á milli ára en óttast er að hraði hækkunarinnar geti aukist með tímanum sérstaklega ef jöklar og íshellur við Suðurskautslandið fara að steypast í sjóinn í auknum mæli. Mest hækkar sjávarborð annars á hlýjum El Nino árum en svo hækkar það lítið sem ekkert á meðan kalda systirin La Nina gengur yfir eins og núna. https://climate.nasa.gov/vital-signs/sea-level/
Hafísinn á Norðurslóðum er með minnsta móti miðað við árstíma og hefur útbreiðslan raunar ekki áður mælst minni í upphafi árs en einmitt núna. Helsti keppinauturinn er árið í fyrra, 2017, sem átti lægstu vetrarútbreiðsluna til þessa. Síðustu vetur hafa verið mjög hlýir á norðurslóðum enda hefur verið nokkuð mikið um endaskipti á heitu og köldu lofti á norðurhveli. Hinsvegar hafa sumarhitar ekki alveg náð að fylgja vetrarhlýindunum eftir sem sjálfsagt hefur bjargað einhverju fyrir ísinn. https://nsidc.org/arcticseaicenews/sea-ice-tools/
Útbreiðsla íssins á báðum hvelum samanlagt er við það minnsta sem mælst hefur og keppir lágmarkið nú við árið 2016. Hafísinn á Suðurhveli minnkaði ekki lengst af á sama hátt og á Norðurhveli enda aðstæður aðrar. Þetta hefur breyst undanfarið þannig að hafísútbreiðsla á hnattvísu er nú við það minnsta frá upphafi mælinga. Hnattræn útbreiðsla hafíss var einstaklega lítil árið 2016 og hefur verið lítil síðan. Fróðlegt verður að sjá hvort heimsmeti í hafísleysi frá því 2016 verði ógnað nú í vetur. https://sites.google.com/site/arctischepinguin/home/global-sea-ice
Sólvirkni er oft mæld með fjölda sólbletta en fjöldi þeirra sveiflast á um 11 ára fresti þannig að þeir hverfa svo til alveg í sólvirknilágmarki. Sólin er einmitt að ganga inn á slíkt lágmark um þessar mundir. Sólarsveiflan sem nú er að klárast var vægari en sú fyrri sem aftur var vægari en þær tvær sem komu þar á undan. Sólarsveiflurnar hafa þannig orðið vægari undanfarna áratugi eftir mikla virkni á seinni hluta síðustu aldar. Líklegt þykir að næsta sólarsveifla verði veik eða jafnvel mjög veik og er það grundvöllur ýmissa spádóma um að loftslag gæti farið kólnað næstu áratugi. Þessar kólnunarspár eru umdeildar því þótt sjálf sólblettasveiflan sé mikil er sveiflan í heildarsólvirkni ekki nema um 0,1%. Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir minnkandi sólvirkni síðustu áratugi þá hefur hnattrænn hiti aukist á sama tíma. Almennt er þó talið að áhrif sólvirkni séu einhver á loftslag og veðurlag. https://www.spaceweatherlive.com/en/solar-activity/solar-cycle
- - - -
Þannig er staðan á þessum málum svona nokkurn veginn. Framhaldið þekkjum við ekki almennilega nema að við getum fastlega gert ráð fyrir því að koltvísýringur í lofti muni halda áfram að aukast. Árið 2018 verður væntanlega hlýtt á heimsvísu eins og öll ár þessarar aldar en þó getum við útilokað að það verði hlýjasta árið hingað til vegna La Nina ástands á Kyrrahafi. Hvað gerist lengra inn í framtíðinni kemur svo bara í ljós. Langtímahlýnun er í fullum gangi en á skjön við hana koma stundum fram spádómar um að hnattræn kólnun sé alveg á næsta leiti. Slíkar spár hefur maður að vísu heyrt og lesið um á síðustu 20 árum eða svo. Annars má nefna hér í lokin að kveikjan og grunnurinn að þessum pistli er athugasemd sem ég gerði við bloggfærslu sem lögmaður einn skrifaði hér á svæðinu fyrir nokkrum dögum um loftslagsmálin en sú athugasemd hefur reyndar ekki birst af einhverjum ástæðum.
Vísindi og fræði | Breytt 13.1.2018 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2018 | 00:03
Hitamósaík 1981-2017 fyrir Reykjavík
Samkvæmt venju þá er fyrsta bloggfærsla ársins tengd veðrinu. Að þessu sinni er það mósaíkmynd sem sýnir hvernig hitinn hefur þróast í Reykjavík frá mánuði til mánaðar aftur til ársins 1981 og í hvað sæti hver mánuður er í hitaröðinni. Fyrirmyndin að uppsetningu er mynd sem ég sá á vefnum og birti fyrir stuttu, en hún sýndi hitaþróun á norðurslóðum síðustu áratugi. Sjálfur hef ég reyndar gert svipaðar mósaíkmyndir, eins og ég kalla þær, og því fannst mér tilvalið að eyða nokkrum góðum frístundum í eina slíka fyrir Reykjavík.
Það fer ekki á milli mála að það hefur hlýnað talsvert í þessu tímabili. Að einhverju leyti er þar um að ræða almenna hnattræna hlýnun en ekki skiptir minna máli að hér er um að ræða þróun frá köldu tímabili yfir í hlýtt tímabil. Fyrir sjálfan mig er þetta líka tímabil sem ég man ágætlega veðurfarslega, en þó misvel eins og gefur að skilja. Láta má nærri að sú hlýnun sem þarna hefur átt sér stað sé um 1,4 stig sem er ekki lítið, en meðalhitinn á 1981-1990 var um 4,1 stig en hefur verið um 5,5 stig á þessari öld. Þróunin til hlýnunar er þó ekki samfelld enda hafa alltaf komið mánuðir eða tímabil sem hafa verið á skjön við sinn samtíma. Vonandi skýrir uppsetningin sig sjálf en til að hjálpa til þá er árið 2017 lóðrétt lengst til hægri og svo raðast mánuðirnir niður með janúar í efstu línu. Tölurnar í töflunni vísa í hvaða sæti hver mánuður er hitafarslega frá 1981. Undir myndinni kemur smá greinargerð.
Smá greinargerð: Í samræmi við hlýnun tímabilsins þá koma hærri tölur og bláir litir oftar fyrir á vinstri helmingi myndarinnar og munar þar mest um árin 1981 og 1983 þegar ársmeðalhitinn var aðeins 3,4 stig. Kaldasti mánuðurinn á myndinni er þó janúar 1984 (-4,0°) þegar mikið vetrarríki var í gangi. Það má líka minnast á október 1981 (0,5°C) sem er langkaldasti október á tímabilinu og sá kaldasti sem mælst hefur í borginni. Ég man reyndar lítið eftir honum sjálfur, nýbyrjaður í menntaskóla og með hugann við annað. Öllu betur man ég eftir hinu alræmda sumri 1983 sem þarna kemur vel fram, og ekki laust við að það kalda sumar hafi kveikt í mér hinn þráláta veðuráhuga.
En svo gerðist hið óvænta í ársbyrjun 1987 þegar allt í einu kom mjög hlýr vetrarmánuður en janúar það ár var hlýjasti janúar sem ég hafði upplifað (3,1°C) og hefur sá mánuður reyndar ekki orðið hlýrri hér síðan. Ekki nóg með það því desember sama ár var einnig einstaklega hlýr (4,2°) og þurfti að fara aftur til kreppuáranna til að finna hlýrri desember. Eitthvað var kannski farið að breytast, en þó var enn eitthvað í það og við tók fimbulkaldur janúar 1988 (-3,0°C) sem voru mikil viðbrigði milli mánaða. Árið 1989 var síðan lengst af mjög kalt en síðustu þrír mánuðirnir björguðu því frá botninum.
Aftur lyftist brúnin á borgarbúum í júlí-hitabylgjunni 1991 en hlýrri júlí (13°C) hafði þá ekki mælst í borginni frá upphafi. Næstu tvö sumur voru hinsvegar köld hér í Reykjavík þannig að þetta var ekki búið. Veturinn 1994-95 er frægur fyrir mikil snjóþyngsli á norðanverðu landinu en árið 1995 er síðasta kalda árið hér á landi og var meðalhitinn í Reykjavík þá 3,8 stig. Svo fór þetta að koma, nema að lokaandvarpið var eftir, því nóvember 1996 var sá kaldast í Reykjavík (-1,9°C) síðan einhverntíma 19 öld.
Strax upp úr miðju ári 2001 hófst núverandi hlýindaskeið sem síðan hefur verið nokkuð samfellt. Raunar hlýnaði svo skart að á 12 mánaða tímabilinu frá nóv.2002-okt.2003 var meðalhitinn 6,6 stig sem er alveg einstakt og hefur ekki náð þvílíkum hæðum síðan. Á nokkrum árum komu svo þarna hlýindakaflar sem eyðilögðu hverja skíðavertíðina af annarri og sjást hlýindin á myndinni sem knippi af dökkrauðum síðvetrarmánuðum árin 2003-2006. Einnig má minnast á desember 2002 sem var hlýrri en nokkurn tíma hefur mælst (4,5°C). Sumarmánuðirnir fóru líka mjög svo hlýnandi. Hlýjasti ágúst sem mælst hefur var árið 2003 (12,8°C) og árið eftir kom ágústhitabylgjan eftirminnilega, sem sló mörg met víða um land. Eftir nokkurra ára tíðindaleysi með áframhaldandi hlýindum kom sumarið 2010 en þá var röðin komin að júní að setja nýtt meðalhitamet (11,4°C) og í kjölfarið fylgdi júlí, sem jafnaði merkismánuðinn júlí 1991 að meðalhita (13,0°). Fleiri hlýir mánuðir áttu eftir koma allt fram á síðastliðið ár, en þó má segja að sveiflur í hitafari hafi aukist. Maímánuður árið 2015 var ansi kaldur en 2015 má annars flokkast sem meðalhlýtt ár (4,5°C) en hefði þótt bara nokkuð gott fyrir 30-40 árum. Árin þar á undan og á eftir 2014 og 2016, voru hinsvegar með þeim allra hlýjustu (6,0°). Meðalhiti nýliðins árs var mjög í samræmi við önnur ár á þessari öld (5,5°C). Síðustu tveir mánuðirnir voru þó í kaldara lagi og missti árið þar með af ákveðnum möguleikum.
Hvert framhaldið verður veit auðvitað enginn, en í ljósi þeirra hitasveiflna sem áður hafa átt sér stað hlýtur alltaf að vera möguleiki á bakslagi eftir svona hlýtt tímabil. Ef það bakslag er nýbyrjað þá munum við ekki vita af því fyrir en eftir einhver ár þegar við horfum á nútímann úr fjarlægð. En svo gætu hlýindin líka bara rétt verið að byrja.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2017 | 18:53
Kuldi hér en ekki allstaðar
Það hefur óneitanlega verið fremur kalt hér á Fróni undanfarið og verður væntanlega eitthvað áfram. Sjálfsagt finnst sumum svona kuldatíð passa illa við allt hlýnunartalið sem dynur á okkur í sífellu. Kannski er eitthvað til í því en samt er það þannig að þrátt fyrir hlýnun þá heyra kuldar ekki sögunni til og umfram allt þá geta hlýindi ekki verið allsráðandi allstaðar og alltaf. Á kortinu hér að neðan sést hvernig hitafarsstaðan er á stórum hluta Norðurhvels núna á sunnudaginn 10. desember. Þetta er ekki eiginlegur hiti heldur frávik frá meðalhita 1979-2000 (myndin er skjámynd af vefnum Climate Reanalyzer).
Eins og sést þá er landið okkar á einum af köldu blettunum og er frávikið nálægt 10 gráðum undir meðallaginu. Á sama tíma er gjörvallt Grænland og svæði þar norður og vestur af undirlagt af fráviki sem er 10-20 stigum yfir meðallaginu. Aðra stóra hlýindabletti er einnig að finna og vissulega einhverja kuldabletti einnig. En það eru þó ekki margir sem njóta hlýindanna þessa dagana enda eru stóru jákvæðu frávikin á stöðum þar sem fátt er um fólk á meðan fjölmennustu svæði Evrópu og Bandaríkjanna eru úti í kuldanum. Kaliforníubúar njóta að vísu ágætis hlýinda en myndu örugglega sætta sig við annað veðurlag en það sem kyndir undir eldunum þar.
Þótt svona hlýindagusur séu ekkert einsdæmi á Norðurslóðum þá er þetta samt heilmikið frávik frá hinu venjulega. Hlýindi hafa annars verið viðloðandi Norðurslóðir yfir vetramánuðina á þessu ári en þó ekkert samanborið við árið í fyrra 2016 sem var alveg einstakt sökum hlýinda í norðri, þ.e. miðað við það sem venjulegt má kalla.
Mósaíkmyndin hér að ofan finnst mér áhugaverð en hún er tekin saman af Zachary Labe og sýnir hvernig einstakir mánuðir, allt frá 1979, norðan við 70°N koma út hitafarslega séð með aðstoð talna og lita. Rauðir mánuðir með lágum tölum eru meira áberandi hin síðari ár og endurspegla hlýnunina sem átt hefur sér stað á tímabilinu. Árið 2016 hefur mikla sérstöðu enda voru 6 mánuðir þess árs þeir hlýjustu sem áður höfðu mælst. Allt voru það haust- og vetrarmánuðir þar sem ástandið hefur verið eittvað í líkingu við það sem uppi er þessa dagana.
Þessi óvenjulegu norðurslóðahlýindi hafa hinsvegar ekki verið eins áberandi að sumarlagi hin allra síðustu ár sem hefur örugglega haft sitt að segja að hafísbreiðan í norðri hefur ekki orðið fyrir eins miklum skakkaföllum að sumarlagi og annars hefði getað gerst. Í þessu sambandi sést á myndinni að sumarið 2017 frá maí til ágúst var alls ekkert hlýtt og júlí ekki í nema 29. sæti af 39 yfir hlýjustu mánuði norðan við 70°N. Ágústmánuðir síðustu þriggja sumra hafa einnig samkvæmt þessu einungis verið í sætum 20, 21 og 23 yfir þá hlýjustu og munar um minna varðandi ísbráðnun á þeim tíma sem meðalhitinn rétt hangir yfir frostmarki.
Þannig geta óvenjulegheit og furður hagað sér þegar kemur að hitafari. Verst er hinsvegar að aldrei er hægt að stóla á óvenjulegheitin eða vita fyrirfram í hvaða átt þær taka upp á að stefna.
26.11.2017 | 13:14
Heimsmynd flatjarðarsinna
Samtök sem kalla sig the International Flat Earth Society hafa vakið nokkra athygli að undanförnu enda vekur það sjálfsagt furðu hjá flestum að slík samtök skuli yfirleitt vera til nú á dögum. Samtökin hafna viðurkenndri heimsmynd nútímans og boða þann forna sannleik að jörðin sé flöt og um leið miðja alheimsins. Sólin og tunglið fylgja jörðinni á vegferð sinni sem og allar stjörnurnar í einskonar hvelfingu fyrir ofan. Ef svo ólíklega fari að heimsynd flatjarðarsinna verði ofaná þá er auðvitað ágætt að kunna nokkur skil á þessum fræðum.
Sagan í stuttu máli. Eins og gefur að skilja hafa flatjarðarsinnar átt fremur erfitt uppdráttar enda mæta þeir litlum skilningi vísindasamfélagins þrátt fyrir að þeir telji sig hafa ýmis rök fyrir máli sínu. Flatjarðarsamtökin voru upphaflega stofnuð árið 1956 í Englandi og byggðu að grunni til á hugmyndum Samuels nokkurs Rowbotham sem á 19. öld hafði gefið út bókina Earth Not a Globe. Á næstu áratugum jókst fjöldi félagsmanna upp í örfá þúsund og færðist þungi félagsstarfsins til Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem m.a. var gefið út félagsritið Flat Earth News. Mikil ógæfa dundi yfir árið 1997 þegar heimili, Charles K. Johnsons, aldraðs forseta félagsins og aðaltalsmanns, brann til kaldra kola og þar með félagaskrár og fleira mikilvægt. Sjálfur lést karlinn svo nokkrum árum síðar og stefndi ekki í annað en að dagar félagsskaparins væru taldir. En svo var þó ekki því nú tímum veraldarvefsins hefur félagið gengið í endurnýjun lífdaga sinna, en með hjálp nútíma samskipta hefur aldrei verið auðveldara að útbreiða allskonar sannleika sem stangast getur á við viðteknar skoðanir. Samtökin eru með vandaða heimasíðu, fjöldi YouTube mynda hafa verið framleidd og hlotið útbreiðslu og nýjustu tölu herma að 37 þúsund manns séu meðlimir Fésbókarhópsins Flat Earth- No Trolls.
Hin flata Jörð. Heimskort sem miðast við flata jörð í einhverri mynd hafa verið til löngu fyrir daga landafundanna miklu. Miðjarðarhafið var til forna talið vera við miðju jarðarinnar eins og nafnið bendir til. Núverandi heimskort flatjarðarsinna er hinsvegar með sjálfan Norðurpólinn í miðjunni og allt annað liggur umhverfis hann. Miðbaugurinn liggur í hring sem svarar til hálfri vegalengdinni frá miðju og að endimörkunum eða brúnunum á jarðdisknum. Við endimörkin eru ísbreiður Antarktíkur og yfir þær hefur enginn komist nema falla fram af brúninni. Hvort það hafi gerst veit maður ekki en þarna endar jörðin allan hringinn. Þetta vita flatjarðarsinnar og einnig helstu ráðamenn og fræðimenn heimsins, en kjósa að halda að okkur röngum sannleika.
Ekki þarf annað en að skoða fána Sameinuðu þjóðanna til að sjá hvernig málum er háttað en í merki samtakana er einmitt kort með Norðurpólinn í miðjunni. Eitt vandamál kemur upp við þessa jarðskipan því vegalengdir til austurs og vestur aukast mjög eftir því sem sunnar dregur. Kannski vegur upp á móti að öll ferðalög í þær áttir eða tíminn sjálfur ferðist mishratt eftir því sem fjær dregur miðjunni.
Sólargangur. Það sem kom mönnum á sporið í eldgamla daga um að jörðin gæti verið hnöttótt var sú staðreynd að skuggi sólarinnar um hádaginn væri almennt lengri eftir því sem norðar var farið á jörðinni (jörðin sunnan miðbaugs var þá ekki þekkt). Á flatri jörð væru skuggar hinsvegar jafn langir allstaðar. Flatjarðarsinnar segja hins vegar að þetta eigi ekki við því sólin er nefnilega mjög nálægt jörðinni, eða ekki nema um 4,800 km yfir höfðum okkar. Það sama gildir um tunglið.
Sólin lýsir eins og lampi niður á jörðina og ferðast hringinn eftir miðbaug. Þegar hún er nálægt okkur yfir daginn þá sýnist hún hærra á lofti en eftir því sem hún fjarlægist þá lækkar hún á lofti uns hún hverfur okkur sjónum í fjarska og sest. Reyndar er álitamál hvers vegna sólin er alltaf jafn stór frá okkur séð ef fjarlægðin til hennar er svona breytileg. Ef hún hverfur í fjarskann við sólsetur ætti hún að vera agnarsmá við sólarlag hefði maður haldið. Árstíðarsveiflan eru hinsvegar minna vandamál fyrir flatjarðarsinna því hún er sögð orsakast af því að á sumrin hjá okkur gengur sólin sinn hring innan við miðbaug, nær miðjunni, og lýsir upp þá norðlægar slóðir. Um veturinn hjá okkur fer sólin utanvið miðbaug og er því almennt fjær miðjunni og lýsir meira suðlægar slóðir.
Sjóndeildarhringurinn. Ein af helstu röksemdum fyrir hnöttóttri jörð er sú að fyrirbæri í fjarska virðast sökkva í sjóndeildarhringinn. Þannig hefur verið bent á að þegar seglskip nálgast úr fjarska þá sjást seglin fyrst en skrokkurinn ekki fyrir en skipið er komið nær. Einnig sjáum við ekki neðsta hluta fjalla eins og Snæfellsjökuls þegar við horfum á hann frá Reykjavík. Eftir því sem við förum ofar kemur meira í ljós af undirhlíðunum og uppi á Esju sést jökullinn alveg niður að undirlendi. Flatjarðarsinnar eru meðvitaðir um þetta en afgreiða málið með áhrifum sjónhverfinga sem skýrast af fjarlægðinni og nálægðar við sjóndeildarhringinn. Flókið mál sem þarf sérstakar skýringar.
Tunglið og stjörnurnar. Samkvæmt flatjarðarkenningunni þá er tunglið jafn stutt frá yfirborði jarðar og sólin eða 4.800 km frá yfirborði og ferðast einnig sína hringi umhverfis miðju jarðar. Reikistjörnurnar eru mjög smáar og ferðast umhverfis sólina en allar fastastjörnurnar eru síðan lítið eitt ofar í 5.000 km hæð og snúast um miðjuna á næturhimninum þar sem pólstjörnuna er að finna.
Geim- og tunglferðir. Nú eru tiltækar fjöldi mynda af jörðinni eins og hún sést frá geimnum og ekki annað að sjá á þeim að jörðin sé hnöttur. Skemmst er frá því að segja að allar slíkar myndir eru taldar vera tilbúningur og byggðar á fölsunum. Samkvæmt flatjarðarsinnum hafa aldrei verið farnar neinar geimferðir, hvað þá tunglferðir. Gervitungl á sporbraut um jörðu eru einnig bara plat og bent hefur verið á að því til stuðnings að gervihnattamóttökudiskar vísi yfirleitt lárétt, en ekki til himins. Geimferðastofnun Bandaríkjanna NASA gerir lítið annað en að halda að okkur brenglaðri heimsmynd í því skyni að afla sér meiri fjárstuðnings. Flestöll vísindi eru einnig samsek í þessu stóra blekkingarmáli og vinna stöðugt að því að halda frá okkur hinni einu og sönnu heimsmynd, sem samræmist sköpunarsögunni og allri heilbrigðri skynsemi þ.e.a.s. að mati þeirra sem vilja byggja tilveru sína á flatri heimsmiðjujörð.
En nú gæti orðið breyting á. Ofurhugi einn í Bandaríkjunum ætlar skjóta sér á loft í gufuknúinni eldflaug til að sýna fram á flatneskju jarðar. Sá maður hefur reyndar ekki mikla trú á viðurkenndum vísindum en fari hann ekki flatt á sínu flugi gæti þetta verið tímamótaviðburður í þekkingaröflun á eðli alheimsins eða ekki. Eitthvað babb hefur að vísu komið á bátinn vegna afskipta stjórnvalda, nema hvað? Maðurinn mun þó ekki láta deigan síga og stefnir en á ferðalag upp í kosmosið.
Hyggst sanna að jörðin sé flöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2017 | 00:32
Skjálftar í Öræfajökli
Ekki getur maður neitað því að það örli á smá spennutilfinningu hjá manni þegar eitt mesta og hæsta eldfjall landsins fer að sýna af sér hegðun sem gæti verið vísbending um að þar séu kannski einhverjir stærri atburðir í vændum. Ég legg nú ekki í að fara að spá einhverju en allavega þá er það staðreynd jarðaskjálftar hafa mælst nær daglega í Öræfajökli núna í haust og farið á bera á því í fréttum. Óróleikann má þó rekja lengra aftur, jafnvel nokkur ár en jarðskjálftavirkni hefur ótvírætt farið vaxandi á þessu ári hvað sem það boðar. Einhver þensla og tilfærsla mælist þarna sem þýðir að fjallið er eitthvað að bólgna út en þó virðast jarðvísindamenn ekki alveg vissir um hvað þarna sé á ferðinni. Farglétting vegna bráðnandi jökuls gæti verið hluti af skýringunni en eins og kunnugt er þá rís landið upp þegar fargið ofan á því minnkar. Hvort að það gæti aftur verið skýringin á því að kvika sé mögulega á hreyfingu undir fjallinu veit maður ekki og ekkert víst að nokkur tengsl gætu verið þar á milli varðandi þessa skjálfta.
En ef við segjum að þarna sé kvika að safnast fyrir þá vitum við ekkert hvort slíkt eigi eftir að leiða til eldgoss í náinni framtíð og ef þetta er fyrirboði eldgoss þá vitum við heldur ekkert hversu langt sé að bíða þar til atburðir gerast. Vikur, mánuðir eða nokkur ár? Ekki spyrja mig, enda veit ég ekkert um það frekar en aðrir.
Við vitum þó hvernig eldstöðin er í sveit sett og þekkjum söguna. Árið 1362 var þarna mesta þeytigos Íslandssögunnar sem gjöreyddi blómlegri byggð sem þá hét því krúttlega nafni Litla-Hérað enda undu menn þar glaðir við sitt og smjör draup af hverju strái áður en ósköpin dundu yfir. Heldur verra var þó flest fólkið stráfell einnig, enda krafturinn í gosinu þvílíkur að strókurinn náði því stigi að hrynja í svokölluðum gusthlaupum í stíl við það sem gerðist í Vesúvíusi forðum. Þar við bættust jökulhlaupin sem æddu niður af jökli næstum strax eftir upphaf hamfaranna öllum að óvörum enda löngu fyrir tíma Almannavarna ríkisins. Seinna gosið í Öræfajökli eftir landnám varð árið 1727 það var minna í sniðum og olli mun minna tjóni en sveitin var þá reyndar ekki nema svipur hjá sjón frá dögum Litla-Héraðs sem reyndar fékk heitið Öræfasveit eftir eyðinguna 1362.
Helstu eldstöðvar landsins virðast annars vera til alls líklegar um þessar mundir en þó alls óvíst hvar næsta gos ber uppi. Ef Öræfajökull lætur til sín taka þá má hafa í huga að hann stendur utan við gliðnunarbelti landsins sem þýðir að það eru ekki neinar virkar sprungureinar út frá honum. Kvikan mun því ekki ferðast langa vegalengd áður en hún kemur upp eins og tilfellið var með Bárðarbungu sem að lokum skilaði kviku af sér vel utan jökuls. Öræfajökull mun bara gjósa með látum þar sem hann er, en mögulega gæti eitthvert hraunrennsli átt sér stað ef gossprungur opnast í hlíðunum utan sjálfs jökulsins, svona svipað og gerðist á Fimmvörðuhálsi. Jökulhlaupin eru svo sér kapítuli en stuttur tími líður frá upphafi goss þar til þau taka að ógna samgöngum og raunar telja viðbragðsaðilar að forða þurfi fólki af svæðinu áður en gos hefst, takist mönnum að tímasetja það á annað borð.
Þótt örli á smá hamfarspennufíkn í manni þá vonast maður auðvitað að það gerist sem minnst þarna. Full ástæða er hinsvegar til að fylgjast með gangi mála og það gera auðvitað líka opinberir ábyrgðaraðilar sem munu vinsamlegast láta okkur vita ef eitthvað þarf að óttast. Áhugamenn hafa líka eitthvað um málið að segja og standa vaktina og má þar sérstaklega benda á Jarðfræðibloggið hans Jóns Frímanns, þar sem fylgst er með málum og ýmsar vangaveltur koma fram um stöðu mála í eldstöðvum landsins.
Af vef Veðurstofunnar má svo benda á þetta hér: Nýir jarðskjálftamælar við Öræfajökul
2.11.2017 | 00:04
Nýjustu hitatölur úr Reykjavík
Hlýtt var í veðri í október og eins og á sama tíma í fyrra stefnir nú allt í að árið flokkist sem mjög hlýtt ár og enn er smá möguleiki á að þetta verði hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Þetta gefur auðvitað tilefni til að birta mánaðarhitasúluritið góða sem sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík hefur staðið sig á árinu. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru, en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér kalda meðaltalið vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.
Eins og sjá má þá skarar nýliðinn októbermánuður vel fram úr bæði kalda meðaltalinu og 10 ára meðaltalinu, þótt hann hafi ekki verið alveg eins óvenjuhlýr og í fyrra. Aðrir hlýir mánuðir það sem af er ári eru febrúar, maí og september. Aðrir mánuðir eru á hefðbundnari slóðum og enginn hefur verið kaldur enn sem komið er. Apríl er þó næstur því að teljast kaldur enda bara örlítið hlýrri en febrúar.
Spennan liggur hins vegar í framhaldinu og þar koma tónuðu súlurnar til hægri við sögu en þá er væntanlegur árshiti reiknaður út frá því hvort síðustu tveir mánuðir ársins verði í kalda meðaltalinu eða í meðallagi síðustu 10 ára. Kaldara framhaldið gefur árshitann 5,7°C og það hlýrra 5,9°C sem hvort tveggja er mjög gott í sögulegu samhengi. Árið í fyrra endaði í 6,0°C (græn súla) og telst vera næst hlýjasta árið í Reykjavík. Metið er 6,1°C frá 2003 og til að slá því við þyrftu góð hlýindi að haldast meira og minna út árið, eins og reyndin var reyndar í fyrra.
Best er að að sýna þetta á allsherjar línuriti yfir hitafar í Reykjavík frá 1901 til vorra daga. Árið 2017 er komið þarna inn til bráðabirgða en fölblá sporaskja sýnir á hvaða slóðum árshitinn mun líklega enda, þegar síðustu tölur hafa borist.
Hvernig sem fer þá er allavega ljóst að hlýindi eru enn í fullum gangi hér hjá okkur og ekkert farið að bera á kólnun eins og einhverjir voru farnir að auglýsa, eftir hið tiltölulega kalda ár 2015. En þótt árið í ár verði ekki það hlýjasta í mælingasögunni þá er samt góður möguleiki á öðru meti sem er hlýjustu tvö árin í röð - eða hlýjasta tveggja ára syrpan. En það er svo sem ekki víst að keppt sé í því. Núverandi hlýjustu tvö ár í röð eru 2003-2004 (5,85°C), samkvæmt því sem ég reikna. Til að ná því þá þurfa síðustu tveir mánuðirnir ekki að gera betur en að hanga í hinu svokallaða kalda meðaltali áranna 1961-1990. Allt getur þó gerst og brugðist - ekki síst á lokasprettinum eins þekkt er og rysjótt tíð framundan.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2017 | 17:18
Að loknu hafísbræðslusumri
Sumarið er búið á norðurslóðum sem þýðir að samkvæmt venju er hafísinn farinn að myndast á ný eftir hið árlega lágmark í útbreiðslu. Á næstu mánuðum þegar myrkrið leggst yfir og frosthörkur aukast mun Norður-Íshafið frjósa stranda á milli allt þar til næsti viðsnúningur verður í lok vetrar. Hafíslágmarkið á hverju ári er stór viðmiðunarpunktur á ástandi hafíssins hverju sinni og oft vísað í það í ýmsum tilgangi þegar loftslagsmálin ber á góma. Ef hafísinn er óvenju lítill í sumarlok er það auðvitað talið vera ótvírætt merki um afleiðingar hnattrænnar hlýnunar en ef ísinn er óvenju mikill þykir það af öðrum vera ótvírætt merki um yfirvofandi kólnun þvert á það sem iðulega haldið á lofti.
En hver er þá staðan núna? Hefur ísinn að aukist eða minnkað frá því í fyrra? Svarið er að ísinn hefur aukist lítillega síðan á sama tíma í fyrra, ekki bara hvað útbreiðslu varðar heldur líka varðandi heildarrúmmál, en er samt ennþá lasburða miðað við það sem þekktist hér á árum áður. Sjálfur átti ég reyndar von á meiri bráðnun en raunin varð, enda síðasti vetur óvenju hlýr og skilaði af sér minni ís en áður, bæði varðandi útbreiðslu og rúmmál. En hvað um það. Á línuritinu (eða spakettíflækjunni) hér að neðan sést hvernig hafísútbreiðslan hefur þróast nú í ár miðað við önnur ár frá upphafi nákvæmra gervitunglamælinga árið 1979 (unnið út frá línuriti Bandarísku snjó- og ísmiðstöðvarinnar, NSIDC.
Árið 2017 er þarna teiknað með dökkblárri línu og þótt það sjáist ekki vel er lágmarkið í ár það 8. lægsta. Ísinn varð minnstur þann 13. september, 4,6 milljón km2 og smekksatriði hvort það sé mikið eða lítið. Þróunin á árinu var þannig að fyrstu mánuðina var ísinn oftast minni en áður hefur mælst. Bráðnunin var hinsvegar frekar hæg á vormánuðum en árið var þó með í botnbaráttunni langt fram eftir sumri uns verulega tók að hægja á bráðnuninni upp úr miðjum ágúst. Sennilega réð þetta hæga start töluverðu um framhaldið en annars var sumarið á Norður-Ísafinu ekkert sérlega hlýtt og vindar ekki hagstæðir. Borið saman við önnur ár þá var meiri ís í sumarlok 2014, 2013 og 2009 auk þess sem meiri ís var öll árin fyrir 2007. Árið 2012 heldur sinni ótvíræðu stöðu varðandi metlágmarkið en fara þarf aftur til ársins 1980 til að finna mesta ísinn um sumarlágmark enda voru þá aðrir tímar með mun þykkari og meiri ís heilt yfir.
Til að sjá þetta betur hef ég tekið saman í eina mynd lágmarksútbreiðslu fjögurra ára, þ.e. mesta og minnsta ísinn við sumarlágmark (1980 og 2012), einnig er þarna fulltrúi meðalástandsins (2000) og svo staðan nú á dögum (2017). Hér má líka benda á að þótt ísinn núna sé þetta meiri en árið 2012 þá bendir bláleitur litatónnin til þess að ísinn sé frekar gisinn og veikluleigur á stórum svæðum alveg inn að miðju. Ísinn á sjálfum pólnum ætti því að vera frekar þunnildislegur enda er almennt mun minna um gamlan og þykkan ís núna miðað við það sem áður var.
Hvað framhaldið áhrærir þá veit auðvitað enginn hvernig það verður. Eins og ástandið hefur verið á ísnum síðustu 10 árin þá er alltaf möguleiki á miklu hruni ísbreiðunnar að sumarlagi og tvö öflug bræðslusumur í röð gætu hugsanlega fært ísbreiðuna um sumarlok undir 1 milljón km2 markið sem gjarnan er notað sem skilgreining á svo til íslausu Norður-Íshafi. Öflug bræðslusumur eins og 2007 og 2012 hafa hinsvegar ekki komið upp tvö sumur í röð. Því hefur frekar verið öfugt farið með kaldari árum á eftir hlýjum.
Stundum er rætt um siglingaleiðir á Norður-Íshafinu. Eins og oftast á síðustu árum er norðausturleiðin norður fyrir Síberíu ágætlega opin. Norðvesturleiðin norður fyrir Ameríku er hins vegar ekki íslaus enda almennt mun erfiðari þótt einhver skip hafi farið þar í gegn síðustu vikur með aðstoð ísbrjóta. Hér gæti líka spilað inn í eitt atriði sem ég hef ekki séð mikið fjallað um en það var hinn mikli sótreykur sem barst yfir svæðið vegna mikilla skógarelda í Kanada og byrgði fyrir sólu í ágústmánuði. Mistrið sem þessu fylgdi barst jafnvel hingað til Íslands og hefur sjálfsagt haft sitt að segja að varðandi lokasprettinn í hafísbræðslusumrinu þarna á Kanadísku heimskautasvæðunum. MODIS-myndin hér að neðan er frá 16. ágúst, einmitt frá því svæði,
- - - -
Best að láta þetta duga í bili. Með þessari færslu eru 10 ára bloggskrif að baki og allsendis óvíst hversu duglegur ég verð hér eftir. Dýrðardagar mbl-bloggsins eru víst löngu liðnir og fáir sem skrifa hér lengur nema þá helst eldri borgarar og stöku sérvitringar. Ekki að það sé eitthvað verra enda færist ég óðum nær því sjálfur að teljast til slíkra ef ég er geri það ekki nú þegar hvað seinni skilgreininguna varðar. Góðar stundir.
11.9.2017 | 13:52
Á fellibyljavaktinni með CNN
Sunnudagurinn 10. september fór að mestu í það hjá mér að fylgjast með margboðaðri landgöngu fellibyljarins IRMU að ströndum Bandaríkjanna. Sjónvarpsstöðin CNN lagði allar aðrar fréttir til hliðar þennan dag og einbeitti sér af fullum þunga að IRMU með beinum útsendingum af vettvangi þar sem fréttamenn fóru mikinn í lýsingum á því sem koma skildi eða því sem þegar var skollið á en inn á milli var skipt yfir á veðurfréttamanninn sem tók stöðuna hverju sinni. Þrátt fyrir sívaxandi spennu var samt nauðsynlegt að taka sér smá hvíld öðru hvoru enda mikið um endurtekningar í svona útsendingu þar sem fréttamönnum alltaf jafn mikið niðri fyrir þótt þeir sögðu frá því sama á korters fresti.
Hið eiginlega hámark atburðarins og útsendingarinnar varð upp úr klukkan 20 að ísl. tíma þegar fellibylurinn gekk á land við Naples á vesturströnd Flórída en þar hafði einn fréttamaðurinn komið sér fyrir á húsasvölum með ágætu útsýni yfir eina af götum bæjarins á meðan félagi hans tók stöðuna niðri á tómri umferðargötu. Hvað sem segja má um annað þá var afskaplega tilkomumikið að sjá í beinni útsendingu þegar mesti óveðursstrengurinn á undan auga fellibyljarins gekk yfir. Sjálfir höfðu þeir orð á því að þetta væri eins og að standa berskjaldaðar inni í bílaþvottastöð, þvílíkur var krafturinn í regninu. Skömmu síðar féll svo allt í ljúfa löð þegar komið var inn í miðju fellibylsins en þá var reyndar allt komið á flot enda höfðu niðurföll engan veginn undan í þær 15-20 mínútur þegar lætin voru sem mest. Aftur fór að blása þegar miðjan var komin fram hjá en bakstrengurinn var þó öllu hægari en sá sem á undan gekk og úrfellið skaplegra.
Almennt virtust gegnblautir fréttamennirnir fá nokkuð út úr þessari lífreynslu. Tjónið sem óveðrið skildi eftir sig virtist þó vera mun minna en væntingar gáfu tilefni til. Eitthvað mátti þó finna af smábraki hér og þar en skemmdir voru þó aðallega á gróðri. Sjálf húsin í næsta umhverfi stóðu þetta af sér með sóma enda búa menn vel og byggja vandað þessum slóðum í ljósi reynslunnar af fyrri stormum. Margskonar tjón af ýmsu tagi mun þó væntanlega eiga eftir að koma í ljós, ekki síst af völdum vatns og sjávargangs svo ekki sé talað um víðtækar truflanir á rafmagni.
Við landgöngu var Irma 2.-3. stigs fellibylur og vindhraðinn gefinn upp sem 115 mílur á klst, sem samsvarar um 51 metrum á sekúndu sem er miklu meira en fárviðri. Vindurinn mældist yfirleitt þó mun minni á veðurstöðvum en til samanburðar var vindhraðinn mestur um 180 mílur á klst þegar IRMA fór yfir smáeyjar austar í Karíbahafinu sem 5. stigs fellibylur með tilheyrandi tjóni. Íbúar Flórída gátu prísað sig sæla að braut Irmu var heldur heldur sunnar en spáð hafði verið enda dró nokkuð úr vindhraðanum við að lemja norðurströnd Kúbu. Eins og venja er þá voru spár mikið á reiki allt frá upphafsdögum fellibyljarins lengst austur í Atlantshafinu. Aldrei þessu vant þá fylgdist ég með framvindunni nánast frá upphafi þegar ónefndir hitabeltisklakkar fóru að leggja á ráðin og skipuleggja sig skammt vestur af Grænhöfðaeyjum. Fyrstu langtímaspár um fellibyl bentu til landgöngu í Bandaríkjunum norðarlega á Austurströndinni en með tímanum færðist hættusvæðið smám saman sunnar og fyrir síðustu helgi var stórborgin Miami beint í skotlínunni af Irmu í fullum styrk. Á endanum kom hún síðan að landi bakdyramegin á Flórída í mun mildari útgáfu og enn einu sinni gátu Flórídabúar því prísað sig sæla að hljóta ekki sömu örlög og íbúar ýmissa fátækra eyja í Karíbahafinu.
Mynd frá Weatherunderground sýnir feril Irmu 30. ágúst - 9. september.
Fellibyljatíminn er þó ekki yfirstaðinn. Jose reikar um í austri en hefur ekki verið talinn til stórræðna. Þróun hans er þó mjög óljós og virðast útreikningar stefna honum ýmist út og suður eða norður og niður og því best að hafa sem fæst orð um hann.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)