Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Skýstrókar við Suðuströndina

Í gönguferð minni um Grindarskörð og Hvirfil ofan Lönguhlíðar varð ég vitni af skýstróknum við Þorlákshöfn sem fjallað er um í viðtengdri frétt og náði hinum sæmilegustu myndum af fyrirbærinu. Ekki nóg með það því skömmu eftir að strókurinn leystist upp fór annar að myndast nálægt Selvogi að mér sýndist. Yfir þetta hafði ég ágætis útsýni en gjarnan hefði ég viljað hafa almennilegu myndavélina meðferðis í stað símamyndavélarinnar. Myndirnar segja þó sýna sögu og eru teknar þann 1. ágúst 2018 milli kl. 15 og 16.

Skýstrókur Þorlákshöfn 1

Kl. 15:19. Þessi fyrsta mynd er tekin í átt að Þorlákshöfn og sjá má litla mjóa totu teygja sig niður úr bólstraskýinu.

Skýstrókur Þorlákshöfn 1

Kl. 15:25. Totan hefur lengst og var hér orðin að löngum mjóum spotta sem virtist ná langleiðina til jarðar. Myndin er tekin á svipuðum stað og sú fyrri en sjónarhornið er þrengra. Skömmu síðar leystist hvirfillinn upp og sást ei meir.

Skýstrókur Selvogur

Kl. 15:36. Hér er horft lengra í vestur í átt að Selvogi en þarna virðist nýr skýstrókur vera byrja að skrúfast ofan úr skýjunum.

Skýstrókur Selvogur 2

Kl. 15:40. Sama sjónahorn og á myndinni á undan en þarna er nýi skýstrókurinn fullmyndaður. Hann er heldur breiðari um sig en sá fyrri, nær beint niður og svífur ekki um eins og hinn gerði. Væntanlega hefur hann ekki gert mikinn usla á jörðu niðri en kannski náð að róta einhverju upp mjög staðbundið. Þessi skýstrókur varði í nokkrir mínútur í þessu formi.

Skýstrókur Selvogur 3

Kl. 16:02. Um 20 mínútum eftir að skýstrókurinn fór um Selvoginn, helltist úrkoman úr skýinu.

Útsýni til borgarinnar

Horft frá sama stað í hina áttina þar sem sést til Höfuðborgarsvæðisins. Helgafell er þarna vinstra megin og Húsfellið er hægra megin. Miklir hvítir skýjabólstrar eru yfir Esju en veðrið er annars mjög meinlaust. Mikill óstöðugleiki er greinilega þennan dag, kalt í efri lögum og talsverður raki í lofti sem þéttist í uppstreyminu. Um morguninn hafði þokuslæðingur legið yfir sundunum.

Hvað veldur því að svona greinilegir skýstrókar hafi myndast þennan dag vil ég segja sem minnst. Þessir strókar eru auðvitað ekkert sambærilegir þeim sem myndast í USA, bara smá sýnishorn. Öflugt uppstreymi hér á landi er þó ekki óalgengt sérstaklega ekki yfir sólbökuðum söndunum við Suðurströndina. En oftast er uppstreymið nánast ósýnilegt. Þennan fyrsta dag ágústmánaðar hefur rakinn hinsvegar verið nægur til að þétta rakann í uppstreyminu og gera það sýnilegt þegar loftið skrúfast upp í loftið eins og öfugt niðurfall í vatnstanki.

- - -

Viðbót 2. ágúst: Ranaský (funel cloud) er eiginlega réttara heiti yfir þetta fyrirbæri sem myndaðist þarna, samkvæmt því sem Trausti Jónsson segir á Fésbókarsíðu Hungurdiska. Alvöru skýstrókar eru stærri og öflugri fyrirbæri. En hvað sem þetta kallast þá var þetta óvenjuleg sjón og ég held útskýring mín á fyrirbærinu sé ekki fjarri lagi.

 


mbl.is Skýið teygði sig til jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafísstaðan á miðju ári

Árið er hálfnað og tími kominn til að skoða hafísstöðuna á Norðurhveli nú þegar sumarbráðnunin er komin á fullt. Fyrst er það línurit yfir hafísútbreiðslu frá Bandarísku snjó- og ísmiðstöðinni NSIDC. Svarta línan er árið 2018 en til viðmiðunar eru öll árin frá 2007. Gráa línan er meðalútbreiðsla tímabilsins 1981-2010 og liggur sú lína yfir öllum hinum enda hefur ísnum hrakað mikið á síðari árum. Sérstaklega að sumarlagi. Eins og staðan er þarna í lok júní þá er hafísútbreiðslan ekki ósvipuð og hún hefur verið á sama tíma á árunum eftir 2007. Árið í ár hefur þó dregist nokkuð aftur úr keppinautunum síðustu vikur og er í 8. sæti eftir að útbreiðslan hafði verið sú næstminnsta þann 1. júní og raunar sú minnsta eða við það minnsta allan veturinn á undan.

NSIDC_30jun2018

Útbreiðslan þann 30. júní er einnig dálítið meiri en á sama tíma í fyrra, 2017, en þessi tvö ár eru borin saman á hafískortunum hér að neðan. Einnig í boði NSIDC.

NSIDC30jun2017og2018

Þegar rýnt er í kortin sést að sitthvað er mismunandi í hafísútbreiðslunni milli þessara síðustu tveggja ára. Fyrst má nefna það sem að okkur snýr, en núna er enginn teljanlegur ís milli Íslands og Grænlands og er það fremur óvenjulegt á þessum tíma árs. Sunnanáttirnar héldu ísnum í skefjum í vetur og hröktu leifarnar að lokum inn á Íslandsmið þar sem ísinn bráðnaði hratt án þess að ná almennilegri landfestu. Að sama skapi hafa sunnanvindar haldið ísnum í skefjum í Barentshafi og sérstaklega við Svalbarða þar sem óvenjulangt er í ísbrúnina.

Það sem vegur upp á móti minni ís á Atlantshafshliðinni eru svæði eins og Hudsonflói þar sem enn er mikill ís en hann var að mestu horfinn á þessum tíma í fyrra. Mikið gat hafði opnast í ísinn í fyrra í Beauforthafi norður af Kanada en núna í vor hafa kaldir vindar blásið sem frestað hafa vorkomu fram að þessu.

Þótt heildarútbreiðsla íssins sé nokkuð frá því lægsta þá á mikið eftir að gerast þar til bræðslusumrinu líkur í september. Allur ís á jaðarsvæðum mun bráðna fyrir haustið samkvæmt venju og eftir mun standa misþétt ísbreiða á sjálfu Norður-Íshafinu og gæti þá útbreiðslan orðið eitthvað líkingu við það sem ég merkti inn með bleikri línu á 2018-kortið. Væntanlega verður metlágmarkinu frá 2012 ekki ógnað í ár og ómögulegt að segja hvort lágmarkið verður lægra en það endaði í fyrra, en bráðnunin sumarið 2017 gaf heldur eftir undir lokin og endaði útbreiðslan í 8. sæti, - sem reyndar er sama sæti og útbreiðslan er nú. Hvað sem það segir.

En útbreiðsla er ekki allt því einnig er horft til heildarrúmmál íssins. Slíkt er reyndar erfitt meta og því notast menn að mestu við líkön fremur en beinar mælingar að sumarlagi. Í rúmmálsgreiningu er gjarnan notast við niðurstöður frá PIOMAS (Pan-Arctic Ice Ocean Modeling and Assimilation System) og samkvæmt því var rúmmálið það 5. minnsta núna um miðjan júní.

 

BPIOMASIceVolumeAnomalyCurrentV2.1_CY

 


Víkurbyggð á Hawaii hverfur undir hraun

Gosið heldur áfram á Hawaii og hefur mikið af hrauni runnið til sjávar frá því ég tók stöðuna síðast þann 19. maí. Þótt eignatjón sé mikið hefur ekki orðið manntjón til þessa, fyrir utan að einn íbúi meiddi sig á fæti er hann varð fyrir hraunmola. Alvarleiki þessara atburða er því öllu minni en í sprengigosinu mikla í Guatemala nú á dögunum. Ég ætla samt að halda mig áfram á Hawaii þar sem hraunrennslið hefur sífellt tekið nýja stefnu og ætt yfir byggðir fjarri upptökunum þar sem íbúar töldu sig hólpna um sinn að minnsta kosti.

Hraunrennsli Hawaii Kapoho1

Á myndinni hér að ofan má sjá gosupptökin efst í vinstra horninu sem hafa nú einangrað sig við eina gossprungu (nr. 8) sem var einmitt sú áttunda í röðinni af þeim gossprungum sem opnuðust í Leilani íbúahverfinu fyrir um mánuði. Eftir að hraunrennsli hófst fyrir alvöru og tók að flæða út fyrir íbúaðhverfið, rann það að mestu yfir strjála byggð stystu leið til sjávar. Undir lok maímánaðar varð hinsvegar stefnubreyting þegar hraunið tók að renna í stríðum straumi í norðaustur og fann að lokum fallega vík austast á eyjunni með blómlegri strandbyggð um 10 kílómetrum frá upptökunum. Allir íbúar höfðu þá verið fluttir á brott enda ljóst í hvað stefndi.

Hraunrennsli Hawaii Kapoho2

4. júní, daginn eftir að fyrri myndin var tekin, var hraunið farið að renna í víkina og ekkert lát á aðstreymi hrauns með hraunfljótinu.

Hraunrennsli Hawaii Kapoho3

Þann 5. maí er öll víkin horfin undir hraun og mestur hluti byggðarinnar. Þarna munu hafa verið tveir byggðakjarnar, annarsvegar Kapahoa beach sem taldi 150 íbúðahús, meðal annars þau sem eru nærst á myndinni, og hinsvegar Vacationland með 350 hús og er talið að þau hafi öll horfið undir hraunið. Við þessar tölur bætast um 150 hús sem hraunið hefur eytt nærri upptökunum í Leilani-hverfinu þar sem gosið hófst.

Hawaii 6. juni

Fyrir hið víða samhengi kemur svo ný útgáfa af kortinu sem ég föndraði saman og hef birt með fyrri Hawaii-pistlum. Umrædd gossprunga nr. 8 er þarna austarlega eynni en þaðan hafa hraunin runnið til sjávar og vísar efri pílan þar í hraunstrauminn sem fór í umrædda vík en neðri pílan vísar til hraunsins sem rann til sjávar í síðasta mánuði. Sjálf megineldstöðin, Kilauea, er um 40 kílómetrum frá hraungosinu. Kvikan sem fóðrar hraungosið kemur þaðan, en Kilauea er dyngja og hefur þar mælst jarðsig vegna brotthvarfs kvikunnar. Þetta er nokkuð svipað ferli og við sáum í Bárðarbunguatburðunum hér um árið en Holuhraun væri þá hliðstæða hraunsins sem nú rennur þarna austast á eynni þótt magntölur séu aðrar. Atburðunum mætti kannski frekar líkja við Kröfluelda í umfangi. Í sjálfum gígnum í Kilauea-öskjunni er ekki gos í gangi en nokkrar sprengingar hafa orðið sem náð hafa að þeyta ösku, aðallega til suðvesturs. Óttast var að mun stærri sprenging gæti orðið en það mesta virðist yfirstaðið, en ekki alveg öruggt. Óvíst er um goslok en minna má á að með þessu gosi lauk loksins gosinu í Puu Oo gígnum sem stóð í 35 ár. Sá gígur var á sömu sprungurein, eins og sést á kortinu.

- - - -

Heimildir og uppruni mynda: US Geological Survey

Fyrri pistlar um sama efni:

Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii

Meira af Hawaiieldum

 


Af veðurbörðum maímánuði

Nýliðinn maímánuður fær ekki góða umsögn veðurfarslega séð. Að minnsta kosti ekki hér á suðvesturhorninu sem var mjög áveðurs í ríkjandi vindáttum. Spurning er hversu slæmur mánuðurinn var sögulegu samhengi miðað við aðra maímánuði. Eins og ég hef stundum minnst á þá hef ég hef skráð niður veðrið í Reykjavík daglega með kerfisbundnum hætti allt frá því í júní 1986. Fljótlega komst ég að því að skráningarkerfið dugði ágætlega til að meta veðurgæði með því að meta veðurþættina fjóra: sól, úrkomu, hita og vind. Þannig fær hver veðurþáttur einkunn á bilinu 0-2 fyrir hvern dag. Dagseinkunnir geta þannig verið á bilinu 0-8 stig. Núllið er afleitt að öllu leyti og að sama skapi fær hinn fullkomni veðurdagur átta stig. Þegar meðaltal allra daga mánaðarins er reiknað út fæst mánaðareinkunn sem oftast er á bilinu 4-5 stig. Hitafar er stillt af með tilliti til árstíða þannig allir mánuðir ættu að vera samkeppnishæfir þótt sumarmánuðirnir standi reyndar almennt heldur betur að vígi.

En þá er komið að samanburði einkunna fyrir þá 32 maímánuði sem ég hef skráð. Niðurstaðan er afgerandi, svo lengi sem eitthvað er að marka þetta, en maí 2018 er versti skráði maímánuðurinn hjá mér, með einkunnina 3,5.

Veðureinkunnir maí
Þessi einkunnasamanburður er sjálfsagt ekki neinn stórisannleikur um veðurgæði mánaða og margt sem getur spilað inn í. Einkunnin 3,5 er ekki bara lakasta einkunn maímánuða frá upphafi skráninga minna heldur er þetta einnig í flokki verstu einkunna sem nokkur mánuður hefur fengið hjá mér. Reyndar var staðan enn verri langt fram eftir mánuði en fyrstu 20 dagana var mánuðurinn bara með 3 stig, en svo lága einkunn hefur enginn mánuður fengið. Verstar voru hvassar og kaldar suðvestanáttirnar sem beindu hingað köldu, óstöðugu lofti sem upprunið var frá köldum svæðum vestan Grænlands og sótti í sig él af öllum gerðum á leið sinni yfir hafið. Nokkur suðaustan-slagviðri gerði einnig í mánuðinum með öllum þeim lægðum sem heimsóttu okkur enda loftþrýstingur óvenju lágur.

Í mánuðinum voru reyndar allir veðurþættir neikvæðir. Sérstaklega úrkoman sem setti stórt strik í einkunn mánaðarins en eins og komið hefur fram var þetta úrkomumesti maímánuður í Reykjavík frá upphafi. Gamla metið átti maí 1989 sem oft er nefndur sem alræmdur leiðindamánuður. Hitinn var með lægra móti að þessu sinni þó mánuðurinn hafi ekkert verið alvarlega kaldur. Sama má segja um sólina sem var illa undir meðaltali en hefur stundum staðið sig lakar. Vindurinn skiptir sínu máli og dregur einkunn mánaðarins mikið niður hjá mér. Þetta með vindinn er reyndar dálítið vandamál því erfitt er að bera saman vindinn í Reykjavík í dag og fyrir 30 árum. Veðurstofan virðist allavega ekki ráða við það. Meðalvindhraði á Veðurstofutúni í maí 2018 var 4,6 m/s en í maí 1989 var vindhraðinn 6,1 m/s. Ef við hins vegar skoðum mælingar á Keflavíkurflugvelli þá var vindhraðinn núna í maí 7,3 m/s en var 6,5 m/s árið 1989. Ég vil allavega meina að dagar með strekkingsvindi hafi verið með mesta móti í Reykjavík þótt Veðurstofumælar hafi ekki náð að fanga allan þann vind.

Talandi um maí 1989 þá fékk sá mánuður hjá mér einkunnina 3,9 sem hefur verið lægsta maíeinkunn þar til núna. Úrkoman í maí 1989 var svipuð og í ár en sólarstundir voru um 40 klst. fleiri árið 1989. Heldur kaldara var árið 1989, en í sambandi veðurgæði þá breytir ekki öllu hvort hitinn sé 4,8 eða 5,7 stig. Vindurinn var sennilega meiri í grunnin núna heldur en í maí 1989, taki maður mið af athugunum frá Keflavíkurflugvelli, þar sem aðstæður hafa ekki breyst á sama hátt og á athuganastað í Reykjavík.

Verstu veðurmánuðirnir. Þótt maí 1989 hafi verið slakur þá kemst hann ekki á lista hjá mér yfir verstu veðurmánuðina frá upphafi minna skráninga en gæti ef til vill átt það skilið. Árið 1989 á þó sína fulltrúa enda er janúar 1989 versti mánuðurinn auk þess sem júlí 1989 er þarna líka. Maí 2018 er þarna kominn inn með sín 3,5 stig og er í félagsskap með jafnaldra sínum, febrúar síðastliðnum.

Listinn yfir verstu mánuðina lítur þannig út núna:

3,3  Janúar 1989
3,4  Febrúar 1992,  Desember 1995,  Nóvember 1993,  Desember 2004
3,5  Júní 1988,  Júlí 1989,  Janúar 1993,  Febrúar 1993,  September 2007,  Febrúar 2018,  Maí 2018

 


Meira af Hawaiieldum

Hraungos Hawaii 18. maí.

Ekkert lát er eldsumbrotunum á austustu og eldvirkustu eyju Hawaii eyjaklasans og úr því maður er byrjaður skrifa um atburðina þá er ekki um annað að ræða en að bæta við enn einni færslunni, nú þegar allt er í gangi. Raunar er varla hægt að segja að eitthvað upphaf séu á þessu gosi og endir er varla í sjónmáli, enda er hér um að ræða eina virkustu eldstöð jarðar þar sem næstum er alltaf eitthvað að gerast. Í þeim stuttaralegu fréttum sem við fáum af atburðunum í fjölmiðlum skortir nokkuð upp á heildarsýnina. Kortið hér neðan ætti að gefa betri yfirsýn en þar legg ég áherslu á þá tvo staði sem leika aðalhlutverkið í atburðarásinni. Annars vegar er það gígurinn á Kilauea elddyngjunni sem fóðrar kerfið af kviku og svo er það svæðið niðri í byggðinni 40 kílómetrum frá gígnum þar sem hraunsprungur hafa opnast og kvikan kemur upp.

Hawaii Big Island suður

Það sem þarna á sér stað minnir dálítið það sem gjarnan gerist hér á landi. Kvika leitar út úr megineldstöð og kemur upp sem sprungugos tugum kílómetrum fjarri. Bárðarbunga og Holuhraun er nærtækt dæmi. Ísland og Hawaii eiga það sameiginlegt að vera yfir mjög virkum möttulstrókum. Þó er sá grundvallarmunur að Hawaii-eyjar tengjast ekki flekaskilum eins og Ísland gerir. Sprungugos eru þannig mjög algeng á Íslandi enda eru megineldstöðvarnar okkar og hriplekar vegna gliðnunar landsins. Gosin leita því gjarnar út í sprungukerfin og hindra að stórar eldkeilur myndast innan gliðnunarbeltisins. Öræfajökull er náttúrulega utan gliðnunarsvæðisins og hefur því fengið að vaxa og dafna í friði.

Eyjan þar sem eldgosin eru, gjarnan nefnd Big Island, er á stærð við Vestfjarðakjálkann og rís hátt upp af hafsbotninum. Hæstu eldfjöllin á eyjunni, Mauna Loa og Mauna Kea, eru yfir 4000 metra há og stundum sagt að eyjan sé í heild sinni stærsta og hæsta fjall jarðar frá hafsbotni talið. Kilauea dyngjan er reyndar ekki nema um 1000 metra há en á framtíðina fyrir sér, þar sem eldvirknin þróast með tímanum í suðausturátt. Eitthvað veldur þó sprungumyndun, en eins og ég sé þetta þá virkar kvikuuppstreymið undir Kilauea eins og þegar nagli er rekinn í gegnum trékubb - of nálægt brúninni - þannig að klofningur myndast út frá naglanum. Þannig háttar allavega til þarna á eyjunni að sprungukerfi eru til sitt hvorrar áttar frá kvikuuppstreyminu sem gefur færi á flutningi kviku til beggja átta. Vonum bara að flísinn stóra losni ekki í heilu lagi og steypist í sjó fram.

Sprungureinin til suðvestur frá gígnum hefur verið til friðs un langan tíma en hinsvegar hefur kvika leitað ótt og títt á austursvæðið (East Rift Zone). Í langa gosinu frá janúar 1983 til apríl 2018 náði kvikan þó ekki nema hálfa leið í austur og kom upp við gíginn Puu Oo og rann hraun þaðan til sjávar. Með nýrri innspýtingu frá iðrum jarðar nú vor, náði kvikan að valda þenslu og sprengja sér leið lengra í austur og koma upp á þeim svæðum sem nú gjósa.

Hraunflæði 19. maí

Sprungugosin í byggðinni hafa sótt mjög í sig veðrið undanfarna daga eftir að hafa legið niðri þegar ég skrifaði síðasta pistil fyrir viku síðan. Hraunflæði hefur einnig aukist en þau flæða þó sem betur fer að mestu um óbyggð svæði í átt til sjávar. Auk hraunsins þá veldur gasmengun miklum óþægindum en gasuppstreymi hefur haldið áfram þótt sprungur hafi hætt að spúa út úr sér kviku. Öll byggðu svæðin þarna austast á eyjunni eru sennilega áfram í hættu enda ómögulegt að segja hvað úr verður. Þarna getur gosið lengi og hraunrennsli gæti enn átt eftir að færast í aukanna. Á kortinu hér að ofan frá U.S. Geological Survey sést staða mála á svæðinu þann 18. maí. Á kortinu má einnig sjá merkt inn víðáttumeiri hraun frá árunum 1960, 1955 og 1840 enda er hraunsrennsli ekkert nýtt fyrirbæri á svæðinu.

Sprengivirkni í Kilauea öskjunni, eða í Halemaumua gígnum svokallaða, var talsverð í vikunni eins og búist hafði verið við. Þó kannski ekki eins mikil og óttast var og olli ekki teljandi skaða. Þann 16. maí gekk mikið á, en sem betur fer stóð vindur frá mestu byggðinni. Fólk veigraði sér ekki við að spila golf og njóta útsýnisins á golfvelli skammt frá gígnum við Kilauea. Mesta sprengingin var svo skömmu fyrir dögun morguninn eftir, en síðan þá hefur svæðið róast mjög. Hvort allt púðrið þar sé búið í bili vita menn ekki svo gjörla en hættuástand er enn ríkjandi. Askjan þar sem gígurinn er í hefur eitthvað verið að síga og er það til marks upp að kvika færist úr kerfinu ekki ólíkt því sem var í Bárðarbungu á meðan gaus utan jökuls.

Kilauea gosmökkur

- - -

Annars gerist fátt í náttúrunni sem ekki hefur gerst áður. Myndin hér að neðan hefur birst víða og er frá svipuðum stað og sú að ofan. Árið 1924 var einnig líf og fjör í Kilauea eldstöðinni með töluverðri sprengivirkni og öskufalli. Prúðbúið fólk létt sér þó ekki bregða og var mætt til að horfa á herlegheitin úr hæfilega lítilli fjarlægð með tilliti til vindáttar.

Kilauea 1924

- - -

Heimildir: USGS, U.S. Geological Survey  og  Honululu Star Adviser Einnig má benda ítarleg skrif og umræður á vefnum: Volcano Café

Fyrri pistlar um gosið á Hawaii:
12. maí: Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii
6. maí: Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta.


mbl.is Íbúum bjargað frá glóandi hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii

Þegar þú lesandi góður lest þetta þá gæti vel verið að atburðir þeir sem hér er fjallað um verði með öllu yfirstaðnir. En allavega, þegar þetta er skrifað, Eurovision-laugardaginn 12. maí, er fastlega búist við því að á næstu sólarhringum verði grundvallar fasabreyting á gosinu lífseiga sem staðið hefur á Hawaii allt frá því í janúar 1983. Í síðasta pistli fyrir viku tók ég stöðuna svona almennt á því sem er að gerast þarna, en þá höfðu litlar gossprungur opnast í byggðu svæði, um 60 kílómetrum frá Kilauea elddyngjunni sem er skammt frá risavöxnum nágranna sínum Mauna Loa á stærstu og eldvirkustu eyju Hawaii-eyjaklasans og birti þá meðal annars þetta google-map-kort þar sem ég bætti við helstu atriðum til skýringar en þar eru hæg heimatökin fyrir mig, grafíska hönnuðinn. Jarðfræðingur er ég hinsvegar ekki og þurfti að fletta upp hvað nákvæmlega átt er við með Freatóplínísku gosi, eins og minnst er á í fyrirsögn.

Hawaii Big Island suður

Til átta sig á hvað er að gerast hverju sinni þarna á Hawaii, verður maður helst að leggjast í eigin upplýsingaöflun og þá er auðvitað best í þessu tilfelli að leita beint til jarðfræðimiðstöðvar Bandaríkjanna (USGS, U.S. Geological Survey). Í íslenskum fjölmiðlum er lýsing á atburðunum og staðháttum mjög óljósir og misvísandi, rétt eins og þegar erlendir fjölmiðlar skrifa um jarðelda og afleiðingar þeirra hér á Íslandi. Dæmi um slíkt er hér í viðtengdri frétt þar sem segir meðal annars: "Vís­inda­menn telja að mögu­leiki sé á meiri hátt­ar eld­gosi úr Ki­lau­ea-eld­fjall­inu á Hawaii. Fjallið hóf að gjósa fyr­ir um viku og hef­ur hraun runnið í stríðum straum­um frá því síðan" Hér verður að hafa í huga að fjallið Kilauea hefur í raun ekkert verið að gjósa upp á síðkastið og frá því hefur ekki runnið neitt hraun, að minnsta kosti ekki á yfirborðinu.

Kilauea gígur

Kilauea er varla hægt að kalla fjall í venjulegum skilningi en það má kalla það dyngju með lítilli öskju og í þeirri öskju sannkallað Ginnungagap með kviku sem á upptök sín djúpt í iðrum jarðar og tengist möttulstróknum þarna undir austustu eyjunni. Á þeim áratugum sem liðnir eru frá upphafi gossins 1983 hefur kvikan frá Kilauea leitað neðanjarðar til gígsins Puu Oo og þaðan hefur víðáttumikið hraun runnið í átt til sjávar. En svo gerðist það vegna gliðnunar lands af völdum þrýstingsbreytinga að kvika frá öllu kerfinu fann sér leið neðanjarðar lengra austur í átt að byggðum svæðum. Örlítið brot af þeirri kviku hefur leitað til yfirborðs í formi smárra sprungugosa inn á milli húsanna. Hver þessara gossprungna (15 talsins) hefur einungis verið virk í nokkrar klukkustundir og því hefur hraunrennsli verið mjög lítið, en þó auðvitað gert sinn usla.

Með færslu kvikunnar í austur þornaði fyrst gígurinn Puu Oo alveg upp og eftir stóð djúpt gat ofan í jörðina þar sem áður var myndarleg hrauntjörn. Sama er núna að gerast með stóra megingíginn í Kilauea. Fyrir um mánuði náði hrauntjörnin alveg upp að gígbrún og flæddi jafnvel upp úr. Á síðustu dögum hefur hrauntjörnin og kvikan fallið mjög í gígnum samfara tilfærslu kvikunnar í austur og ef svo heldur áfram er hætta á ferðum. Ef kvikuyfirborðið fellur nógu langt niður getur gígrásin stíflast vegna grjóthruns að ofan og þegar kvikan kemst í snertingu við grunnvatn skapast aðstæður fyrir þessa miklu sprengingu sem talað er um, eða hinu svokallaða Freatóplínstu þeytigosi.

Kilauea sprenging

 

Gos nákvæmlega af þessari gerð eru ekki algeng því sérstakar aðstæður þarf til. Hér er það ekki ákaft uppstreymi kviku sem veldur, enda er kvikan frekar á leiðinni niður heldur en upp, áður en sprengingin á sér stað. Vatn og kvika er hins vegar öflug blanda eins og við þekkjum hér á landi þegar gos brýst upp úr jökli þótt þau séu ekki alveg að þessari gerð. Sprengingin mikla sem varð í Öskju árið 1875 er hinsvegar nefnt í bókinni Náttúruvá á Íslandi þar sem segir á bls. 94: "Upphaf gossins var þurr og lágplínítískur en breyttist svo í freatóplínískan fasa."

Ef spár ganga eftir með þessa sprengingu þá verður örugglega ekki um neitt smá fret að ræða en þó alls óvíst að stærðin verði í líkingu við Öskjugosið 1875. Víst er þó að stór björg munu þeytast í loft upp án þess þó að ógna byggðum svæðum. Öskufall gæti hinsvegar orðið talsvert á eyjunni og gosmökkur náð allnokkra kílómetra í loftið á þeim stutta tíma sem atburðurinn varir. Allt er þetta þó hlaðið óvissu og ekki einu sinni víst að nokkuð verði úr.

Framhaldið á hraunflæði niðri í byggðinni er líka alveg óvíst. Eins og er þá hefur engin gossprunga verið virk síðustu tvo sólarhringa og alveg mögulegt að ekkert gerist þar frekar. Vísindamenn eru þó ekki alveg svo bjartsýnir enda hefur mikil tilfærsla kviku átt sér stað sem mögulega gæti komið upp í stríðari strumi en hingað til. Þetta er ekki ósvipað því sem átti sér stað þegar kvikan hljóp frá Bárðarbungu og gaus upp lengst í burtu í Holuhrauni nema að hraunmagnið yrði aldrei sambærilegt. Óneitanlega er þó sérstakt að fá sprungugos í bakgarðinum hjá sér og ekki skemmtilegt ef heimilið fuðrar upp í ofanálag. Hér kemur í lokin samsett yfirlitsmynd frá USGS sem sýnir hvernig hraun hefur runnið í byggðinni. Ljósu skellurnar á dökka hlutanum eru gossprungur og hraun og er hver gossprunga merkt númerum. Langmesta hraunið kom úr einni sprungu sem er nr. 8 á kortinu.

Hraunrennsli Hawaii mai 2018

- - -

Heimildir:

USGS, U.S. Geological Survey  og  Honululu Star Adviser


mbl.is Telja líkur á sprengigosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

Fréttir af eldsumbrotum á Hawaii-eyjum eru áhugaverðar fyrir okkur sem búum hér á landi enda eigum við íslendingar við sömu náttúruógnina að etja og aðstæður að ýmsu leyti sambærilegar. Hér ætla ég að skauta aðeins yfir hvernig þetta lítur út þarna hjá þeim með aðstoð korta frá google þar sem ég hef föndrað inn ýmislegt. Þetta er bæði gert mér sjálfum til glöggvunar og kannski einhverjum fleirum. Fyrst er heildarkort af eyjaklasanum:

Hawaii eyjar

Hawaii eyjar eru eyjaklasi sem raðast eftir 2.400 km langri línu á Kyrrahafinu. Þær eiga tilurð sína að þakka öflugum möttulstrók sem er staðsettur undir austustu eyjunni enda er það eina eldvirka eyjan nú á dögum en eldvirkni á öðrum eyjum er útkulnuð. Þessi eyja heitir Hawaii-eyja en er oft nefnd Big Island og er hún stærsta eyjan og jafnframt sú yngsta. Stóra málið hér er að Kyrrahafsflekinn færist hægt og rólega í norðvestur yfir möttulstróknum sem er alltaf á sínum stað og á rætur sínar djúpt í jörðinni. Elstu eyjarnar eru þær sem eru fjærst möttulstróknum í norðvestri og eru þær að mestu eyddar og margar alveg horfnar af yfirborðinu. Yngsta og eldvirkasta eyjan er alltaf sú sem er lengst í suðaustri yfir möttulstróknum hverju sinni. Næsta eyja mun síðan óhjákvæmilega myndast í framtíðinni þar suðaustur af vegna færslu Kyrrahafsflekans yfir stróknum. Á næstu mynd eru við komin á þessa eldvirku eyju þar sem hlutirnir eru að gerast:

Hawaii Big Island suður

Hér á kortinu má sjá suðausturhluta Big Island. Frægasta er þar að telja Mauna Loa, elddyngjuna miklu sem er eitt af kunnustu eldfjöllum jarðar. Þar er allt með friði og spekt núna. Kilauea eldstöðin hefur hinsvegar verið mjög virk alla síðustu öld og fram til þessa. Út frá Kilauea liggur sprungurein sem nær til austasta odda eyjarinnar. Árið 1983 hófst hið lífseiga gos sem stendur enn þann dag í dag og eru atburðir síðustu daga í raun hluti af þeirri atburðarrás. Kvikan er ættuð djúpt úr jörðu undir Kilauea þótt sjálft gosið undanfarna áratugi hafi ekki átt sér stað þar. Kvikan hefur hinsvegar náð til yfirborðs við gíginn Puu Oo, eða þar um kring með mjög lítilli gosvirkni en þunnfljótandi hraunið runnið hægt og rólega til sjávar enda hefur þetta yfirleitt verið einstaklega hæglátt gos og túristavænt. Næsta mynd sýnir svæðið í meiri nærmynd.

Hawaii Puu Oo

Hér sjást aðstæður betur. Svæðið suður af Puu Oo gígnum er nánast alþakið helluhraunum sem runnið hafa hvert af öðru niður hlíðarnar síðustu 35 ár og gjöreitt mörgum mannvirkjum og fjölda heimila. Stundum hafa hraunin náð að renna út í sjó og þykir það ágætis sjónarspil. Árið 2014 gerðist það hinsvegar að hraunið fann sér leið eftir sprungukerfum í austurátt og tók að ógna þorpinu Pahoa og eyddi fáeinum húsum. Mun betur fór þó en á horfðist. Núna um mánaðarmótin apríl-maí gerðist það svo í kjölfar jarðskjálfta að kvika, sem nánast barmafyllti gíginn Puu Oo, fann sér leið neðanjarðar með sprungureininni í austur þannig að eftir sat galtómur gígurinn. Sú kvika, eða einhver hluti hennar, hefur síðan verið að koma upp aftur í Leilani-íbúðahverfinu nánast í bakgarðinum hjá fólki sem örsmá sprungugos, miðað við það sem við þekkjum.

Hawaii Leilani

Hér kemur svo nærmynd af Leilani hverfinu þar sem ýmsar smásprungur hafa opnast með hraunslettum en mjög takmörkuðu hraunrennsli enn sem komið er. Talað hefur verið um hraunstróka upp á allt að 30 metra og er þá fullmikið sagt því af myndum af dæma nær sjálfur eldurinn varla yfir trjágróðurinn þótt einhverjar slettur nái hærra. Virkni í hverri sprungu virðist ekki standa lengi yfir en þegar þetta er skrifað hefur verið talað um að alls hafi 8 gossprungur opnast og einhverjar af þeim enn virkar.

Sprungugos Hawaii

Vandinn við þetta gos er ekki krafturinn heldur það að ómögulegt er að segja til um hvar og hvernig þetta endar - eða hvort það endi yfirleitt. Mögulega gæti gosið þarna í byggðinni um langa hríð þannig að stór eða lítil hraundyngja myndist yfir byggðinni en kannski verður þetta bara lítill atburður þarna í byggðinni sem hættir þegar hráefnið sem kom úr Puu Oo gígnum dugar ekki lengur til. Virknin gæti líka færst upp eftir á sinn stað að nýju nær höfuðstöðvunum við gíginn þar sem gosið hefur haldið sig lengst af. Stóri skjálftinn upp á 6,9 stig sem varð þarna þann 4. maí veldur þó sennilega einhverjum áhyggjum. Hvað framtíðina varðar þá er allt þetta svæði þarna yfir möttulstróknum á suðausturhluta austustu eyjarinnar mjög ótryggt því í ljósi þess sem ég minntist á hér í upphafi þá er þróunin í eldvirkni öll í þá átt að þarna byggist upp næsta stóra eldstöð á eyjunum.

- - - -

Viðbót 6. maí: Ekkert lát er á gosinu morguninn eftir að færslan er skrifuð og virðist virkni færast í aukana. Hér er mynd af nýrri gossprungu sem sendir gosstróka upp í 70 metra hæð með auknu hraunrennsli í byggðinni.

Hawaii gossprunga 6. maí

- - - -

Myndir, heimildir og stöðu mála má finna hér: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html

Fyrri bloggfærslur tengdar gosinu á Hawaii:

23.2.2013 Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

25.10.2014 Hraun ógnar byggð á Hawaii

12.11.2014 Hraunfoss við sorpflokkunarstöð

12.2.207 Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii


mbl.is Hraunkvika spýtist 30 metra upp í loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafísstaðan í Norðurhöfum

Hámarksútbreiðsla hafíssins að vetrarlagi er að baki á norðurslóðum og ísinn farin að bráðna á jaðarsvæðum ísbreiðunnar. Á næstu vikum og mánuðum mun útbreiðsla íssins halda áfram að dragast saman með hækkandi sól uns hinu árlegu lágmarki verður náð í september, eins og vera ber. Af útbreiðslu íssins nú í ár er það að segja að hún hefur yfirleitt verið sú minnsta eða við það minnsta miðað við fyrri ár eða frá því nákvæmar útbreiðslumælingar hófust árið 1979. Ekki munar þó miklu frá síðustu tveimur árum og reyndar fór vetrarhámarkið í ár örlítið hærra en í fyrra. Engin vafi er hinsvegar á að árið 2016 státar að minnstu útbreiðslunni að vorlagi og það nokkuð afgerandi þótt sú forysta hafi ekki haldist út sumarið. Útbreiðslan að vetrar- og vorlagi segir þó ekki allt, samanber árið 2012 þegar vetrarútbreiðslan var við það mesta síðustu ár en sumarlágmarkið það afgerandi lægsta sem þekkt er. Spurningin er svo hvernig árið í ár þróast.

Hafísútbreiðsla apríl 2018

Línuritið hér að ofan er ættað frá bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni NSIDC og sýnir, eftir smá áherslubreytingar frá mér, útbreiðsluþróun hafíssins frá árinu 2012 en gráa línan er meðalútbreiðsla áranna 1981-2010.

Hafískort 20. apríl 2018Á heimasíðu sömu aðila má finna nýjustu útbreiðslukort af hafísnum hverju sinni. Þann 20. apríl var útbreiðslan eins og hér er sýnd. Sjá má granna gula línu sem markar meðalútbreiðslu áranna 1981-2010 en miðað við það meðallag eru ekki stór frávik á þeim svæðum sem snúa að Atlantshafinu þótt víðast sé útbreiðslan undir meðallaginu. Til dæmis má sjá að lítill hafís er núna á Grænlandssundi ólíkt því sem oft var áður á þessum árstíma.

Tvö svæði hef ég merkt við sérstaklega á Kyrrahafshliðinni. Á Beringshafi er mesta frávikið nú um stundir en þar hefur raunar verið mjög lítill hafís í allan vetur. Þetta mun víst vera minnsti hafís sem vitað er um á þeim slóðum og skýrist væntanlega af suðlægum vindum þar. Þetta gæti haft sitt að segja fyrir bráðnun í sumar inn af Beringssundi og gefið bráðnun þar visst forskot miðað við fyrri ár. Svo er það Okhotskhaf sunnan Kamtsjatkaskaga en þar hefur verið talsverður ís í vetur sem getur skýrst af Síberíukuldum sem leitað hafa út á hafssvæðið. Okhotskhaf er talið með í útbreiðslumælingum þótt það sé alveg úr tengslum við Norður-Íshafið. Ísinn þarna er væntanlega þunnur og mun hverfa alveg í sumar.

Liðinn vetur á norðurslóðum hefur verið nokkuð dæmigerður fyrir allra síðustu ár og hefur einkennst af talsverðum hlýindum yfir Norður-Íshafinu. Aftur á móti hafa verið þrálátir kuldapollar á meginlöndunum, sérstaklega í Kanada og eitthvað í Síberíu. Bandaríkin og Evrópa hafa síðan fengið sína skammta inn á milli. Væntanlega mun ísinn á Hudsonflóa í Kanada duga eitthvað lengur fram á sumar en venjulega sem afleiðing af Kanadakuldum. Stundum er talað um þetta sem eitthvað nýtt "norm" þ.e. kuldarnir vilja leita meira suður sem afleiðing af hlýnandi heimskautasvæðum. Þetta má sjá á þessu útflatta hitafarskorti fyrir alla jörðina, sem sýnir hitann sem frávik frá meðallagi síðustu 180 daga. Greinilegt er hvar hlýindin eru mest en þau hlýindi náðu hinsvegar ekki alveg suður til Íslands að þessu sinni.

Vetrarhiti 2017-18, jörðin

- - - -

http://nsidc.org/arcticseaicenews/
https://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/glbcir_rnl.shtml


Vetrarhiti í súlnaformi

Þótt vetrarkuldar séu kannski ekki alveg að baki þá ætla ég bjóða hér upp á vetrarhitasúlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík nýliðinn vetur, frá nóvember til mars. Tölurnar sem liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum sem staðið hafa lengi. Hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins sem liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Eins og venjulega var hitafar vetrarins upp og ofan en almennilegir hlýindakaflar létu á sér standa þar til undir það síðasta. Nánar um það undir myndinni.

Vetrarhitasúlur 2017-18

Vetur byrjaði nokkuð skart eftir góð hausthlýindi á undan. Nóvember er yfirleitt ekki  skilgreindur sem vetrarmánuður en að þessu sinni náðu vetrarkuldar fljótlega yfirhöndinni í mánuðinum og færðust í aukana eftir því sem á leið. Meðalhitinn endaði rétt yfir frostmarki og varð þetta kaldasti nóvember í Reykjavík síðan 1996, en þá var reyndar mun kaldara. Í desember og janúar var hitinn áfram að dóla sér sitt hvoru megin við frostmarkið. Lægðir færðu okkur hlýindi úr suðri af töluverðu afli en það jafnaðist iðulega út með kuldum úr norðri. Ekki er hægt að tala um öfgar í hitafari og eiginlega mesta furða að köldustu dagarnir hafi ekki verið kaldari en þetta. Almennileg hlýindi létu líka bíða eftir sér en í febrúar skrái ég fyrst 7 stiga hita yfir daginn snemma í mánuðinum. Þess var auðvitað hefnt með meira en vikuskammti af kulda. Svo fór þetta að koma. Eftir miðjan febrúar náðu hlýir loftmassar loks yfirhöndinni og mars hefur stórlega bjargað málunum fyrir hitafar vetrarins. Mér reiknast svo til, út frá opinberum tölum, að meðalhiti þessara fimm vetrarmánaða sé +0,5 stig sem er sambærilegt vetrinum 2001-2002 og að þessir tveir vetur séu þar með þeir köldustu á öldinni. Þetta var sem sagt heldur kaldari vetur en við höfum átt að venjast á þessari öld. Á kalda tímabilinu 1965-1995 hefði hann þó sennilega fengið ágætis eftirmæli.

En til samanburðar og upprifjunar þá á ég sambærilega mynd fyrir veturinn á undan þessum, þ.e. veturinn 2016-2017. Sá vetur var með þeim allra hlýjustu og mældist meðalhitinn hér í Reykjavík 2,6 stig frá nóv-mars. Þar erum við greinilega að tala um allt annarskonar vetur, en þó vetur engu að síður.

Vetrarhitasúlur 2016-17

 


Hlýi geirinn í öllu sínu veldi

Fyrir veðuráhugamann eins og mig þá eru stórviðri af öllu tagi hin mesta skemmtun svo lengi sem húsið heldur vatni og vindum. En þá er að hella sér út í veðrið. Lægðin sem olli óveðrinu núna á föstudaginn var óvenjuleg miðað við aðrar lægðir í vetur af því leyti að nú fengum við stóran skammt af hlýju lofti og vorum í þessu hlýja lofti í 9 klukkustundir, eða frá kl. 15 og alveg til miðnættis, allavega hér í Reykjavík. Þetta hlýja loft sem fylgir öllum lægðum og knýr þær áfram er oft kallað "hlýi geirinn" og það er að finna á milli hitaskila lægðarinnar og kuldaskilanna sem fylgja á eftir. Hlýi geirinn sem heimsótti okkur að þessu sinni var vel opinn á okkar slóðum en ekki  þröngur eins og oft áður sem hafði sitt að segja. Almennt þá hreyfast kuldaskilin að baki hlýja geirans hraðar heldur en hitaskilin og því þrengist um hlýja loftið við yfirborð eftir því sem lægðin þróast. Þar sem kuldaskilin hafa náð að elta hitaskilin uppi missir hlýja loftið jarðsamband og myndast þá samskil sem oftast eru lituð fjólublá á skilakortum eins og því hér að neðan frá Bresku veðurstofunni. Skilasameiningin gerist fyrst næst lægðarmiðjunni og þróast síðan áfram. Kortið gildir á miðnætti að loknum föstudeginum þegar kuldaskilin voru komin upp að landinu.

MetOffice 23. febrúar 2018

Loftið í hlýja geiranum er oftast talið vera stöðugt enda er þar á ferðinni hlýtt loft sem berst yfir kaldari svæði, öfugt við til dæmis éljaloftið sem á uppruna sinn af kaldari svæðum. Veðrið sjálft í hlýja geiranum er líka gjarnan stöðugt og eindregið. Það er í fyrsta lagi hlýtt og rakt og fer yfir með jöfnum vindi sem getur verið sterkur eins og núna á föstudaginn. Einkenni hlýja geirans komu mjög vel fram á línuritum hér að neðan, sem ég fékk á vef Veðurstofunnar. Þar sést vel hvernig veðrið breytist fyrst þegar hitaskilin ganga yfir um kl. 15 (rautt strik) og síðan þegar kuldaskilin komu um miðnætti (blátt strik) en strikin eru viðbót frá mér. Tímabilið milli skilanna litaði ég bleikt en það er einmitt þá sem við erum í hlýja geiranum. Eins og sést þá er hitinn allan tímann á bilinu 7-8 stig í hlýja loftinu, úrkoman er talsverð allan tímann og raunar óvenju mikil, vindhraðinn heldur sér í um 16 m/sek og er meiri í hviðum. Vindáttin er stöðug af suðaustri allan tímann.

Hlýi geirinn 23. feb línurit VÍ

Það sem sennilega var óvenjulegt við þennan hlýja skammt af lofti var úrkomumagnið en oftast er úrkoman í hlýja geiranum meira í formi súldar sem myndast þegar hlýtt og rakt loftið þéttist þegar það kemst í kynni við kaldara yfirborð sjávar. En þetta var líka mjög djúp lægð enda vindurinn samkvæmt því.

Best er annars að fara varlega í skýringar á þessu enda er ég bara sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur. Ég þykist þó vita að þetta hlýja loft muni halda áfram lengra í norður og leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim miklu hlýindum sem ríkja núna við Norður-Íshafið alveg upp að Norðurpól. Í viðleitni til að viðhalda einhverju jafnvægi í veröldinni mun hæðin í austri senda kalt loft undir sig til að hrella Evrópubúa á meginlandinu. Hér hjá okkur er von á endurkomu á hlýju lofti og verður það enginn hlýr geiri heldur stór hæðarknúin hlýindaframsókn sem gæti síðar snúist í andhverfu sína. Já, það er nóg að gera í þessu. Sýni hér að lokum hitafar á norðurslóðum þar sem sýnd eru hlýindi og kuldar sem frávik frá meðalhita. Ansi miklir öfgar og óvenjulegheit í þessu.

Hiti norðurslóðir 24. feb 2018

- - - -

Veðurkort MetOffice: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure

Línuritin frá Veðurstofunni: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/faxafloi/#group=11&station=1

Neðsta myndin: http://cci-reanalyzer.org/wx/DailySummary


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband