Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Kólnunarpælingar

Það er nokkuð ljóst að árið í ár verður töluvert kaldara en árið í fyrra hér á landi. Þarf svo sem ekki að koma á óvart þar sem árið 2014 var afar hlýtt og næst hlýjasta árið í Reykjavík. En þessi mikli munur á hitafari fyrrihluta þessara tveggja ára er þó nokkuð merkilegur og verður sífellt merkilegri á meðan ekki sér fyrir endann á svalri veðráttu.

Línuritið hér að neðan er unnið eftir elda línuriti frá mér þar sem borin er saman þróun heimshitans og Reykjavíkurhitans frá því upp úr aldamótunum 1900. Með því að setja núllið í heimshitalínuritinu við 4,5° í Reykjavíkurhitanum eins og ég geri, má sjá hvernig árshitinn í Reykjavík hefur sveiflast vel upp og niður fyrir heimsmeðaltalið sem á sama tíma hefur stigið hægt upp á við, með lítilsháttar varíöntum. Þannig hafa flest árin frá 2001 verið nokkuð yfir heimshitanum og á síðasta ári var jákvæða frávikið 0,8 stig. Frávikið var þó heldur meira á hlýjustu árunum kringum 1940 á enda var heimshitinn þá lægri. Á kuldaskeiðinu seinni hluta síðustu aldar voru flest árin vel undir heimsmeðaltalinu, mest árið 1979.

Það má spá aðeins í þessa tölu +0,8 sem árið 2014 var yfir heimsmeðaltalinu. Ef ársmeðalhitinn 2015 í Reykjavík endaði í 4,4 stigum þá væri það sambærilegt neikvætt frávik frá heimshitanum, eða -0,8 stig. Hvoru tveggja ætti að vera jafn eðlilegt eða óeðlilegt miðað við stöðu heimshitans, með þeim fyrirvara að heimshitinn rjúki ekki upp úr öllu valdi á þessu ári.

Kólnun 2015

Mesta kólnun á milli ára?

Það er auðvitað allt of snemmt að spá fyrir um árshitann í Reykjavík en ef áfram verður með kaldara móti þá er árshiti upp á 4,4 stig ekki ólíkleg niðurstaða. Það yrði þá kaldasta árið síðan 1995 og auðvitað það langkaldasta það litla sem af er öldinni. Það væri þó yfir opinbera meðalhitanum í Reykjavík 1961-1990 sem enn er oftast miðað við (4,3°C). Ef 4,4°C yrði niðurstaðan þá yrði kólnun milli árana 2014 og 2015, -1,6 stig sem er meiri kólnun milli ára en áður hefur komið upp hér í Reykjavík, frá 1900 að minnsta kosti. Mesta kólnun hingað til milli tveggja ára er -1,5 stig, frá 1978 til hins ofursvala árs 1979.

Það er svo sem ekkert nýtt að hitinn sveiflist talsvert milli ára, en þessi umskipti nú eru ansi mikil í ljósi þess hve stöðugur hitinn hefur verið hér undanfarið. Hlýindaskeiðið um miðja síðustu öld einkenndist einmitt af miklum sveiflum. Árshitinn í Rvík árið 1941 var 5,9 stig en var síðan 4,4 stig tveimur árum seinna, sem er niðursveifla upp á 1,5 stig. Það gerðist aftur á móti á tveimur árum en ekki á einu ári eins og í fljótu bragði mætti ætla af myndinni. Sömu sögu er að segja um 1964 til 1966 þegar einnig kólnaði um 1,5 stig á tveimur árum.

Við vonum auðvitað að kólnunin 1978-1979 muni eiga metið sem lengst. Ef á annað borð er keppt í því. Hið jákvæða er þó, að eftir því sem 2015 verður kaldara, þeim mun líklegra er að nýtt hlýnunarmet verði slegið í framhaldinu. Núverandi hlýnunarmet sýnist mér vera +1,3 stig, milli árana 1986 og 1987. Það mætti kannski fara að vara sig eftir þetta ár enda ekkert sem segir að hlýindi séu að baki þótt gefið hafi á bátinn.

 


Í hvað stefnir Reykjavíkurhitinn 2015?

Í fyrra tók ég upp á því að birta súlurit sem sýndi hvernig meðalhiti mánaðana í Reykjavík þróaðist yfir árið eftir því sem á það leið. Til viðmiðunar voru meðalhitar síðustu 10 ára og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 sem enn er í gildi. Þetta reyndist nokkuð áhugavert því árið þróaðist í að verða annað hlýjasta árið í Reykjavík og átti möguleika þar til í lokin að slá út metárið 2003 (6,1°C).
Nú þegar 5 mánuðir eru liðnir af árinu er staðan hinsvegar heldur betur önnur. Fjórir af þessum fimm fyrstu mánuðum hafa verið kaldari en kalda meðaltalið og ekki munaði miklu í mars sem rétt náði að slefa yfir það. Allir mánuðir ársins hafa að sama skapi verið nokkuð fyrir neðan meðalhita síðustu 10 ára og munar mestu nú í maí sem var 2,4 stigum kaldari, eins og sjá má á súluritinu.

Meðalhiti Rvik 5 2015
Súluritið sýnir ekki einungis hvernig mánaðarhitinn þróast því lengst til hægri eru nokkrar súlur yfir árshita. Þar vek ég athygli á fjólubláu tónuðuðu súlunum sem segja til um hvert stefnir með árshitann eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá kalda meðaltalinu eða meðalhita síðustu 10 ára. Tölurnar sem út úr því koma eru 4,2°C og 4,8°C samkvæmt mínum útreikningum. Lægri talan (4,2) er merkileg því það þýddi að árið 2015 yrði langkaldasta árið það sem af er öldinni og það kaldasta síðan 1995 þegar hitinn var 3,8 stig. Ef hitinn hinsvegar nær sér á strik á ný og fylgir 10 ára meðaltalinu þá endar árið í 4,8 stigum sem er öllu skaplegra en þó það kaldasta síðan árið 2000 er hitinn var 4,5 stig.

Við vitum náttúrulega lítið um framhaldið. Ef kuldatíð ríkir áfram út árið er alveg mögulegt að árshitinn í Reykjavík nái ekki 4 stigum. Það er heldur ekki útséð með 5 stigin ef veðurkerfin stilla sér betur upp fyrir okkur - ekki skortir á hlýindin í heiminum um þessar mundir. Það má þó alveg afskrifa að árið 2015 ógni hlýindárinu 2014 sem sýnt er þarna með grænni súlu allra lengst til hægri.

Allt er þetta hið merkilegasta mál og ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvort hlýindatímabilinu mikla sem hófst með þessari öld sé lokið eða hvort þetta sé bara tímabundið bakslag sem jafnar sig á ný. Hlýindakaflinn undanfarin 14 ár hefur verið einstakur og hreint ekkert óeðlilegt að fá einhverja kólnun. Þetta er hinsvegar nokkuð brött kólnun og það strax eftir mjög hlýtt ár. Kuldamet eru þó varla í sjónmáli. Nema ef vera skyldi kólnunarmet á milli ára því mér sýnist að ef meðalhitinn 2015 í Reykjavík endaði undir 4,5 stigum þá yrði það mesta kólnun sem um ræðir á milli ára ef horft er á tímabilið eftir aldamótin 1900. Við erum þó kannski ekkert sérstaklega að óska eftir slíku meti.


Hitað upp fyrir bræðsluvertíð

Sumarið er framundan á norðurslóðum með tilheyrandi ísbráðnun á Norður-Íshafinu. Við vitum ekki fyrirfram hvernig hlutirnir munu ganga fyrir sig. Spurning er hvort við fáum þriðja sumarið í röð með tiltölulega lítilli bráðnun eða hvort aðstæður verða ísnum í óhag en það veltur mikið á ríkjandi veðurfari þarna norðurfrá í sumar. Ástand íssins nú í lok vetrar hefur auðvitað líka sitt að segja. Útbreiðsla íssins er með lægra móti þessa dagana en heilbrigði ísbreiðunnar ræðst ekki síður af þykktinni og þar er ástandið mjög misjafn eftir svæðum. Fyrsta kortið hér sýnir áætlaða þykkt þann 8. maí en á kortið hef ég krotað pílur sem eiga að sýna helstu strauma og stefnur sem ég ætla að byrja á að ræða.

ísstraumar

Á ísþykktarkortinu má sjá hvernig hreyfingum íssins hefur verið háttað í vetur en þær hafa reyndar verið með nokkuð dæmigerðu móti. Ríkjandi stefna meginísbreiðunnar er frá Síberíuströndum í áttina að Fram-sundi milli Grænlands og Svalbarða sem er aðalundankomuleið íssins út úr Norður-Íshafinu. Þessi færsla sýnist mér hafa verið nokkuð ákveðin í vetur enda ber þunnur ísinn norður af vesturhluta Síberíu þess merki (blár litur á korti). Hluti íssins nær þó ekki að Fram-sundi en tekur í stað þess hægri beygju og safnast saman á svæðum norður af Kanada sem er einskonar forðabúr ísbreiðunnar þar sem elsta og þykkasta ísinn er að finna. Þar klessist ísinn upp að heimskautaeyjunum og þykknar mjög en stór hluti hans berst þó áfram inn í hringiðu Beauforthafs og sleppi hann undan sumarbráðnuninni þar á hann góða möguleika á að fara annan umgang um íshafið. Mikil eða lítil sumarbráðnun í Beauforthafi er því einn af stóru þáttunum um afkomu íssins en síðustu tvö sumur hefur bráðnun þar verið frekar lítil sem hefur einmitt aukið heilbrigði íssins í heildina.

Þá er að velta fyrir sér hvernig mismunandi veðuraðstæður að sumarlagi hafa áhrif á sumarafkomuna. Fyrir þær pælingar hef ég útbúið tvö veðurkort af einfaldara taginu.

Ísbráðnun Hæð

Til að bræðsluvertíðin skili af sér sem mestri sumarbráðnun er aðstæður líkar þessum, afar ákjósanlegar. Fyrri part sumars þegar sólin er hæst á lofti og skín allan sólarhringinn er mikilvægt að skýin sé ekki mikið að flækjast fyrir. Því er best að öflug sólrík HÆÐ komi sér fyrir þar sem ísinn er þykkastur. Þetta þarf helst að gerast upp úr miðjum maí og áfram í júní til að fá gott start. Þegar líður á sumarið er síðan alveg kjörið að lægð eða lægðir í útjaðri ísbreiðunnar Síberíumegin hjálpi til við að dæla hlýju meginlandslofti norður yfir ísinn með aðstoð hæðar Kanadamegin. Miklu skiptir aðallega þó að vindar blási inn að ísnum eins og sýnt er á kortinu og reki það sem ekki bráðnar sem mest áfram að trektinni við Framsund. Þessar aðstæður voru áberandi á metárunum 2007 og 2012 en öllu síður undanfarin tvö sumur.

- - -

Ísbráðnun Lægð

Þá er það hinn möguleikinn sem mun hagstæðari ísnum að sumarlagi og getur algerlega eyðilagt bræðsluvertíðina, samanber sumarið 2013. Hér er það einfaldlega LÆGÐ sem dóminerar Norður-Íshafið. Ef þetta ástand er ríkjandi fyrri part sumars í júní veldur það mjög hægu starti vegna skýjahulu á viðkvæmasta tíma hins stutta heimskautasumars. Vissulega nær hitinn eitthvað upp fyrir frostmark en vindar sjá til þess að það dreifist úr ísnum í stað þess að hann þjappist saman. Haldi þetta áfram yfir sumarið verður ísbreiðan því gisin og götótt, jafnvel efst á sjálfum Norðurpólnum. Öflugar lægðir á viðkvæmasta tíma geta þó gert usla eins og einmitt gerðist upp úr Verslunarmannahelgi sumarið 2012 en þá kom sannkölluð lægðarbomba eftir talsverð hlýindi og átti sinn þátt í metbráðnun það ár. En það var bara stök lægð en ekki viðvarandi og það skiptir máli.

- - - -

Hvernig sumarið þarna norðufrá verður kemur bara í ljós. Við réttar aðstæður er alveg möguleiki á miklu afhroði ísbreiðunnar og jafnvel íslausum Norðupól í sumarlok. Þetta gæti líkað orðið alveg glatað bræðslusumar en sennilega er best að spá því að þetta verði einhver einhver kokteill af ýmsu. Látum þetta duga af tómstundavangaveltum. 

 


Vetrarhitamósaík

Það er nokkuð síðan ég birti samskonar mynd og þessa sem sýnir með hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík aftur til 1989. Myndin skýrir sig vonandi sjálf en hver láréttur borði táknar einn vetur og litirnir tákna hitafar. Þannig stendur dökkblár litur fyrir kuldakast með 5-10 stiga frosti að meðaltali, en appelsínugulur táknar hlýindi uppá 5-10 stiga hita. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn en þannig sjást vel einstök hita- og kuldatímabil hvers vetrar. Þetta er byggt á eigin veðurskráningum en til hægri sést meðalhiti sömu mánaða skv. tölum Veðurstofunnar.

Vetrarmósaík 1989-2015

Fyrir utan skrautlegt útlit má sjá ýmislegt út úr þessu. Meðalhiti síðasta vetrar var 1,0 stig í Reykjavík sem einmitt er í meðallagi alls tímabilsins frá 1989. Mestu munar þó um hvað nóvember var sérlega hlýr en eftir það höfum við alveg farið á mis við hlýindi hér í borg. Í myndinni í heild má einnig sjá að bláu fletirnir eru algengari á fyrstu árunum og kaflar með hörkufrosti eru orðnir fátíðir.

Gulu fletirnir segja líka sína sögu. Þeir eru nokkuð tíðir seinni hluta tímabilsins en hefur þó farið fækkandi um háveturinn síðustu fjögur ár. Það hefur örugglega sitt að segja. Hiti á bilinu 5-10 stig um hávetur nokkra daga í senn, kemur ekki að sjálfu sér. Til þess þarf eindregna sunnanátt sem flytur með sér vænan skammt af hlýindum nokkra eða marga daga í senn og mætti kalla það sunnanáttarviðburði. Slíkir margendurteknir sunnanáttarviðburðir að vetrarlagi gætu verið grundvöllurinn að þeim hlýindum sem ríkt hafa hér eftir aldamót – og þá ekki bara hér í Reykjavík heldur víðsvegar á okkar slóðum við Norður-Atlantshaf. Hlýindagusurnar draga ekki bara úr vetrakuldum heldur hljóta þær einnig að stuðla að hærri sjávarhita hér um kring. Skorturinn á þessum sunnanáttarviðburðum síðustu mánuði gæti því haft sitt að segja um framhaldið enda sitjum við nú súpunni með kaldari sjó við Norður-Atlantshaf en verið hefur lengi.


Forni fjandinn fjarri góðu gamni

Nú á dögum er lítið um að varað sé við hafís við Íslandsstrendur miðað við það sem áður var. Í norðankasti eins og því sem hrellir okkur nú hefði þessi forni fjandi einhverntíma gerst nærgöngull, en nú er öldin önnur og engar spurnir af hafís. Samanburðarmyndirnar hér að neðan ættu að segja sína sögu. Sú til vinstri er frá 10. apríl 1985, eða nokkrum árum áður en kuldaskeið síðari hluta 20. aldar rann sitt skeið á enda. Talsvert hafísmagn teygir sig langt á haf út austan Grænlands og norðan Íslands, sem aldeilis er ekki reyndin sama mánaðardag árið 2015. Mun meiri hafís er svo einnig við Svalbarða og Barentshaf þarna fyrir 30 árum. Það var þó ekki alveg svona snjólétt árið 1985 enda eingöngu jöklar merktir inn á það kort. Kortin eru fengin af síðunni Cryosphere Today.

Hafís apríl 1985 -2015

Það er svo sem aldrei að vita hvað gerist á þessum síðustu og verstu tímum og engin ástæða til að gera lítið úr þessu kalda vorhreti. Það þarf engu að síður miklu meira að ganga á nú til dags til að fá almennilegan hafís hingað því það er hreinlega ekki svo mikið af honum fyrir norðan land eins og myndirnar bera með sér. Þar munar líka miklu að undanfarin 10 ár eða svo hefur þessi hafís austur af Grænlandi nánast horfið að sumarlagi og þarf því að safnast upp að nýju hvern vetur.

Hvað verður á næstu árum vitum við ekki. Þessi kólnun í Atlantshafinu sem talað hefur verið um undanfarið kemur úr suðvestri og gæti vel verið tímabundið ástand. Kaldsjávarskeiðið sem hófst seint á 7. áratugnum var hinsvegar að öðrum toga. Það kom úr norðri og tengist væntanlega mikilli útrás heimskautasjávar út í Norður-Atlantshaf, með tilheyrandi sjávarkólnun og auknum hafís. Slíku er ekki að heilsa nú ... tja, nema svo vilji til að nú sé akkúrat blábyrjunin á einhverju svoleiðis.

Hafís hér við land þarf svo sem ekki að heyra sögunni þótt hlýindi haldi áfram. Sambland af réttum vindáttum, t.d. sunnan og vestanáttum ættuðum af háþrýstisvæðum sunnan við land geta hindrað hafísflæði suður með Grænlandi og beint ísnum hingað. Ætli eitthvað slíkt hafi ekki einmitt gerst fyrir 10 árum? Samanber myndina hér að neðan sem sýnir ástandið á norðurmiðum þann 3. mars 2005 (já, það leynist nú ýmislegt í pokahorninu hjá manni).

Hafís 3. mars 2005

 


Hnattrænn mánaðarhiti á súluriti

Fyrir þá sem áhuga hafa á hitafari jarðar þá hef ég sett upp súlurit þar sem borinn er saman meðalhiti mánaða og hvert gæti stefnt með árshitann 2015. Þetta er sett upp á svipaðan hátt og ég gerði með Reykjavíkurhitann í fyrra, muni einhver eftir því. Tölurnar sem unnið er eftir eru frá Nasa-Giss sem er ein þeirra stofnana sem halda bókhald um hitafar jarðar. Svo maður útskýri aðeins þá standa Bláu súlurnar á myndinni fyrir meðalhita hvers mánaðar síðustu 10 ár. Rauðu súlurnar sýna meðalhita mánaðanna ársins í fyrra, 2014, sem endaði sem hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Að vísu með minnsta mögulega mun. Fjólubláu súlurnar sýna síðan þá mánuði sem liðnir eru af árinu 2015. Á súlunum fjórum lengst til hægri er árshitinn tekinn saman. Tónuðu súlurnar þar segja svo til um hvert gæti stefnt með árshitann eftir því hvort restin af árinu verður í samræmi við meðalhita sl. 10 ára eða í samræmi við metárið í fyrra. Tekið skal fram að tölurnar eru ekki eiginlegur meðalhiti, heldur frávik frá meðaltali eins og venjan er þegar rýnt er í hnattrænan hita. Nánari bollaleggingar eru undir mynd.

Hnattrænn mánaðarhiti - 3/12

Eins og sjá má þá byrjar árið mjög hlýtt á heimsvísu, hvort sem borið er saman við sl. 10 ár eða 2014. Reyndar er þetta heitasta byrjun á ári frá upphafi mælinga eins og komið hefur fram í fréttum. Enginn þessara þriggja mánaða eru þó út af fyrir sig þeir hlýjustu frá upphafi samkvæmt NASA-GISS. Janúar og febrúar eru hvor fyrir sig í öðru sæti og mars í því þriðja en það breytir því þó ekki að samanlagt eru þessir þrír mánuðir þeir hlýjustu frá upphafi.

Framhaldið verður forvitnilegt. Það þykir nefnilega nokkuð líklegt að árið 2015 verði það hlýjasta á jörðinni frá upphafi mælinga hvort sem mönnum líkar betur eða verr. El-Nino ástand er í burðarliðnum í Kyrrahafinu og má því frekar búast við að bæti í hlýindin frekar en að þau gangi til baka á árinu. Ég er þó hógvær í spádómum í súlunum lengst til hægri. Með því að reikna framhald ársins út frá meðaltali síðustu 10 ára fæst árshitinn +0,65°C sem mér sýnist gefa 3-4. sæti fyrir hlýjasta árið. Verði meðalhiti það sem eftir er jafnhár árinu í fyrra fer meðalhitinn hinsvegar upp í 0,72°C sem væri afgerandi hlýjasta árið á heimsvísu.

Sjáum þó til. Ég stefni auðvitað á uppfærslu síðar og svo mun ég einnig líta mér nær og taka fyrir Reykjavíkurhitann með sama hætti við tækifæri þótt ekki stefni í metár hér hjá okkur eins og er.

Gagnaröð NASA-Giss má sjá hér: http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt

 


Tíðindi eða tíðindaleysi af hafísnum á Norðurslóðum?

Við fengum af því fréttir fyrir nokkru að árlegt vetrarhámark hafíssins í norðurhöfum, sem venjulega á sér stað í mars, hafi verið í sögulegu lágmarki. Kannski dálítið ruglingslegt en svona var það nú samt. Ísinn á Norðurhveli er venjulega í sínu árlega hámarki hvað útbreiðslu varðar í mars en að þessu sinni var raunar tvennt óvenjulegt við vetrarhámarkið. Annarsvegar var hámarkið þann 25. febrúar og hefur aldrei verið svo snemma vetrar og hinsvegar hefur heildarútbreiðslan ekki áður mælst jafn lítil í hámarkinu frá því nákvæmar mælingar hófust árið 1979. Þá má spyrja: Eru þetta tíðindi sem skipta máli eða er þetta bara hver annar metametingur? Hvað segja línurit?

Hafíshámark 2015

Á línuritinu eru borin saman ársþróun hafíssins nokkurra síðustu ára. Bláa línan fyrir 2015 er þarna uppi og eins og sjá má þá hætti útbreiðslan að aukast seint í febrúar og tók þá að minnka, jókst svo eitthvað á ný án þess að ná að toppa fyrri topp. Tvítoppa hámark eða jafnvel topplaust hámark eftir því hvernig á það er litið. Nú er það reyndar svo, að vetrarhámarkið gefur eitt og sér litlar vísbendingar um komandi sumarbráðnun og þar með sjálft sumarlágmarkið sem aðal-metingurinn snýst um. Það má t.d. sjá á tveimur viðmiðunarárum sem ég hef merkt við. Árið 2006 var vetrarútbreiðslan mjög lítil og átti raunar hið fyrra met. Aftur á móti var sumarlágmarkið 2006 ekkert sérstakt, allavega ekki miðað við síðari ár. Veturinn 2012 var útbreiðslan hinsvegar nokkuð mikil yfir veturinn en sumarbráðnunin setti nýtt og "glæsilegt" lágmarksmet og héldu þá margir að dagar íssinns væru senn taldir.

En hvers vegna þetta litla samhengi milli vetrar- og sumarútbreiðslu? Kort af útbreiðslu hafíssins nú í mars gæti leitt það í ljós. Hafísútbreiðsla mars 2015Bleika línan sýnir meðalútbreiðslu að viðbættum plúsum og deilingarmerkjum sem ég hef bætt við til áherslu. Mesta neikvæða frávikið er undan austurströnd Síberíu í Okhotsk-hafi sunnan Kamtsjatka-skaga. Einnig er ísinn undir meðallagi í Beringshafi milli Alaska og Síberíu og í Barentshafi. Mesta aukningin er síðan undan Nýfundnalandi og vestur af Grænlandi. Allt eru þetta svæði utan aðalleikvangsins í Norður-Íshafinu þar sem sumarleikarnir fara fram en það er útbreiðslan 100% eins og hún alltaf er að vetrarlagi. Það skiptir því í raun engu máli þetta mikla frávik þarna í Okhotsk-hafi enda er það ekki í neinum tengslum við Norður-íshafið og varla hægt að segja að ísinn lengst suður við Nýfundnaland sé það heldur. Þessi frávik segja raunar meira um tíðarfarið í vetur. Vetrarkuldar í Norður-Ameríku austanverðri í vetur hafa sín áhrif með því kæla hafið og auka við hafíss. Aftur á móti hefur verið hlýtt í Síberíu sem hefur sín áhrif á ísinn við Kyrrahafsstrendur sem og væntanlega við norðurströnd Síberíu.

Hið sanna ástand ísreiðunnar á Norður-Íshafinu sést þannig ekki þegar útbreiðslukort eru skoðuð. Óvenjulegt hafíshámark segir heldur ekki mikið. Annað mál er með kort sem sýna þykkt íssins en slík kort eru reyndar misnákvæm og háð talsverðri óvissu. Kort á vegum Bandaríska sjóhersins, byggð á tölvulíkönum, eru mjög upplýsandi sé eitthvað að marka þau. Hér að neðan set ég hlið við hlið kort frá 4. apríl 2012 og 2015.

Isþykkt 4. april 2012 / 2015

Hér sést að ísinn er nokkuð þunnur undan Síberíuströndum á 2015 kortinu sem ætti að vera vísbending bráðnun snemma sumars á þeim slóðum. Þykkastur er ísinn að venju Ameríkumegin þar sem hann safnast fyrir enda er íssins ekkert að hverfa þar á næstu árum. Við vitum annars lítið hvernig sumarbráðnunin verður, en af þessum kortum að dæma er ekkert sem útilokar álíka mikla bráðnun og var metárið 2012. Hvað með sjálfan Norðurpólinn? Sjáum við kannski loksins opið haf þar í september? Það væru allavega tíðindi.

- - -

Að lokum smá tilkynning. Pistillinn sem birtist hér þann 1. apríl og fjallaði um tilfærslu Íslands til norðurs um 32 cm vegna sunnanvinda, var að sjálfsögðu tileinkaður þeim merkisdegi 1. apríl. Sjá: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1681640/

 


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Samkvæmt venju er nú komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að birta mynd af Esjunni sem tekin er fyrstu vikuna í apríl þegar skyggni leyfir og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því nú orðnar 10 talsins. Að þessu sinni var bjart í lofti strax á fyrsta degi mánaðarins en ekki mikill vorbragur. Kalt var þarna í veðri en nokkrum dögum fyrr hafði snjóað nokkuð til fjalla sem og í byggð. Sökum kulda náði sólin lítið að vinna á þeirri snjóþekju nema helst í neðstu hlíðum fjallsins. Sjá má líka glitta í snjó í forgrunni myndarinnar sem tekin er við Sæbrautina og er það nýjung miðað við fyrri myndir. Aðrar nýjungar óháðar tíðarfari er setubekkur, rusladallur og þrjú skilti sem komið hefur verið þarna upp við göngustíginn.

En allavega. Esjan kemur hvít undan vetri að þessu sinni og virðist nokkuð snjóþungt í efri hlíðum sem er í samræmi við úrkomusaman vetur og frekar kaldan miðað við fyrri ár. Það getur varla talist líklegt að snjórinn hverfi á komandi sumri nema tíðarfarið verði þeim mun hagstæðara. Þetta hefur dálítið verið að breytast hin allra síðustu ár. Lengsta þekkta tímabil snjólausrar Esju að loknu sumri er árabilið 2001-2010. Síðan komu tvö tæp ár en óumdeilt er að snjórinn hvarf ekki árin 2013 og 2014. Setjum nokkur spurningamerki við 2015 meðan við vitum ekki betur. Hér eru þá myndirnar:

Esja april 2015

Esja april 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006


Ísland hefur færst í norður um 32 cm

Ég rakst á sérstaka frétt nú á dögunum þar sem talað er um að sterkir sunnanstormar síðastliðinn vetur hafi haft þau áhrif að landið okkar hafi færst til á grundvelli sínum og sé nú eilítið norðar en það var áður. Þetta mun hafa uppgötvast með nákvæmum gervitunglamælingum á vegum NASA og þykir mjög sérstakt því aldrei áður hefur orðið vart við að svo stór eyja hafi færst til sem þessu nemur vegna sterkra eindreginna vinda. Áður er vitað að smærri eyjar hafi færst lítillega til vegna vinda en sú færsla hefur þó verið tímabundin og yfirleitt gengið til baka þegar um hægist eða vindáttir snúist til hefðbundnari átta.

Ísland færslaÍsland er auðvitað engin smáeyja og það þarf náttúrulega mikið að ganga á til að færa landið um þessa 32 cm sem talað er um. Síðasti vetur var óvenju stormasamur en ofan á það bætist að mestu veðrin voru oftast af suðri á meðan norðanáttirnar heldu sig að mestu til hlés. Það sem gerir Ísland viðkvæmari fyrir þessum vindfærslum er sú staðreynd að jarðskorpan hér er þunn og má segja að landið fljóti ofaná deigu undirlagi. Þetta á ekki við um flest önnur lönd og eyjar sem hvíla ofan á mun þykkari skorpu. Bretlandseyjar sitja til dæmis á þykkri meginlandsskorpu og eru því fastari fyrir gagnvart sterkum vestanvindum sem þar ríkja, oft mánuðum saman.
Þessi tala 32 sentímetrar er ekki alveg jöfn fyrir allt landið. Færslan mun vera mest á suður- og vesturhluta landsins eða um 39 cm á meðan Austfirðir hafa „einungis“ færst til um 22 cm. Þetta er að mestu óháð eðlilegri gliðnun landsins af jarðfræðilegum ástæðum en vissulega geta atburðirnir í Bárðarbungu haft eitthvað að segja, en sú færsla er allt annars eðlis.

Nú er spurning hvert framhaldið verður. Ef norðanáttirnar ná sér á strik á ný er vel líklegt að landið færist til baka í sínar réttu skorður en fari svo að sunnanstormarnir herji áfram á okkur næsta vetur er talið líklegt að þessi tilfærsla sé varanleg og geti jafnvel aukist, eftir því sem vísindamenn segja. Við getum þó verið nokkuð róleg, Ísland er ekkert á leiðinni norður á norðurpól – allavega ekki á meðan lifum.

Viðbót 2 apríl: Þessi bloggfærsla var birt 1. apríl og eins og margt annað á þeim degi er þetta ekkert nema endemis uppspuni frá mér sjálfum.


Tíðindi af sjávarhitum

Sjávarhiti hefur verið eitt af hitamálunum í loftslagsumræðum einkum þá vegna skrifa um að Golfstraumurinn gæti verið að veikjast. Hvort það eigi við rök að styðjast, veit ég ekki en hér kemur alheimskort yfir sjávarhita sem sýnir stöðuna á hita yfirborðssjávar að viðbættu smá kroti frá mér. Heitu litirnir tákna að sjór er hlýrri en að meðaltali, en köldu litirnir tákna kaldari sjó og er þá tímabilið 1971-2000 haft til viðmiðunar.

Sjávarhiti mars 2015

Þarna má sjá, svo við við byrjum á okkar slóðum, að nokkuð myndarlegur blettur af köldum yfirborðssjó hefur náð bólfestu á hafssvæðinu suðvestur af íslandi. Þetta sætir nokkrum tíðindum og gæti verið vísbending kaldari tíð hér við land en verið hefur um allnokkuð skeið. Best er þó að fullyrða sem minnst um það, en síðustu 15 ár hafa reyndar verið mjög hlý hér við land og því ekkert óeðlilegt að eitthvert bakslag geti orðið.

En er þetta vísbending um veikari Golfstraum? Ég er ekki svo viss um það. Síðustu tvo vetur hafa verið töluverðar vetrarhörkur í austurhluta N-Ameríku og ekki óeðlilegt að það kalda heimskautaloft kæli Atlantshafið þegar það streymir burt frá meginlandinu og leggur um leið grunninn að stormlægðum og útsynningstíðinni sem við fáum að kenna á.

Ýmist athyglisvert er svo einnig að gerast á Kyrrahafinu og skal þar fyrst nefna veikburða El Nino sem hefur verið að burðast við að ná sér á strik á síðan í fyrravetur. Það hlýja ástand á miðbaugssvæði Kyrrahafsins er oftast ávísun á hnattræn hlýindi og svo er einnig nú. Eins og komið hefur fram þá marði árið 2014 það að vera hlýjasta árið hnattrænt séð síðan mælingar hófust og vel gæti farið að 2015 bæti um betur.

Svo er það Norður-Kyrrahaf en þar hef ég merkt inn hlýjan fasa af PDO (Pacific Decatal Oscillation) en það er nokkuð athyglisvert fyrirbæri sem ég hef stundum minnst á. Hlýr fasi á PDO einkennist akkúrat af því sem kemur fram þarna á kortinu, þ.e. hlýr sjór sem myndar skeifu út frá vesturströnd N-Ameríku en kaldur blettur ræður ríkjum á miðsvæðinu nær Asíu. Kaldi fasinn er svo alveg öfugur. Þessi hlýi fasi er nokkuð afgerandi um þessar mundir og hefur reyndar ekki verið eins afgerandi síðan fyrir aldamót. Það sem af er þessari öld hefur nefnilega kaldi PDO verið meira ríkjandi. PDO-sveiflurnar eru ágætlega þekktar og eru greinilegar á áratugaskala eins og sést á línuritinu hér að neðan:

PDO 1900-2015

Það hefur oft verið bent á, þótt samhengið sé óljóst, að PDO-áratugasveiflan í Kyrrahafinu fari saman við það hversu mikið eða lítið hlýnar á jörðinni. Þetta sé því ein af hinum náttúrulegum sveiflum sem ýmist ýta undir eða draga úr þeirri hlýnun jarðar sem annars ætti að vera í gangi. Vissulega er þó alltaf spurning um hvað sé orsök og hvað sé afleiðing. Allavega þá hefur lítið hlýnað á jörðinni í kalda PDO-fasanum eftir 1998, kannski þar til nú. Aftur á móti hlýnaði hratt á árunum 1976-1998 þegar PDO var hlýr eins og hann er skyndilega orðinn nú. Áratugina þar á undan (1945-1975) hlýnaði eiginlega ekki neitt á jörðinni, kólnaði ef eitthvað er og viti menn, PDO-var einmitt mjög svo í kalda fasanum þá. Línuritið yfir hitaþróun jarðar staðfestir það.

Hnatthiti 1900-2015+PDO

Þannig að. Ef þetta hlýja PDO ástand er komið til að vera um skeið, þá ætti heldur betur að fara að hlýna á jörðinni enda virðist hlýr PDO í Kyrrahafinu frekar stuðla að hlýjum El Ninjóum og fækka köldu systurinni La Nínu. Við hér á Íslandi gætum þó farið á mis við þá hlýnun á komandi misserum. En kannski þó ekki, kannski verður þetta allt alveg öfugt. Framtíðin er alltaf jafn ófyrirséð.

Til nánari glöggvunar vísa ég hér á útlensk PDO-skrif frá því í fyrra þar sem komið er inn á þetta. Er að vísu ekki búinn að lesa þetta allt sjálfur. Ath. Inngangurinn er ekki alveg "up-to-date": Warming may spike when Pacific Decadal Oscillation moves to a positive phase

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband