Færsluflokkur: Menning og listir

Heimskautsbaugurinn og kúlan í Grímsey

KúlanKúlan mikla í Grímsey sem ætlað er að fylgja heimskautsbaugnum á ferð sinni norður á bóginn er út af fyrir sig snjallt listaverk sem tengist hinum stóru náttúröflum á einfaldan hátt. Reglulega löguð kúla er hið fullkomna þrívíða form og kúlan er auðvitað hnöttótt eins og jörðin sem snýst um sjálfa sig á sinni áralangri hringferð um sólina. En heimurinn er ekki alltaf hreinn og beinn og góðar hugmyndir geta valdið vissum vandræðum þegar kemur að framkvæmdum. Því miður fyrir ferðaþjónustuaðila í Grímsey þarf heimskautsbaugurinn endilega að liggja um norðurenda eyjarinnar, dágóðan spöl frá sjálfu þorpinu, þannig að ferðalangar í stuttri dagsferð til Grímseyjar hafa lítinn tíma fyrir annað en gönguna fram og til baka, ætli þeir sér að berja kúluna augum og stíga formlega yfir heimskautsbauginn. 

Ekki skánar þetta með tímanum því heimskautsbaugurinn færist norðar með hverju ári um einhverja 14-15 metra ári sem gerir eitthvað um 20 skref. Kúluna þarf svo að færa til árlega samkvæmt því, enda mun megininntak verksins einmitt vera það að rúlla áfram með heimskautsbaugnum uns kúlan fellur af björgum fram árið 2047 þegar baugurinn yfirgefur eyjuna. Kannski munu einhverjir eyjaskeggjar fagna þeim endalokum enda kostnaðarsamt að vera að brambolta með þennan nýþunga hlunk á hverju ári, bara til að fæla ferðalanga frá veitingahúsum og minjagripaverslunum. Spurning er þó hvort þeir nenni að koma til Grímseyjar ef engin verður þar kúlan og heimskautsbaugurinn kominn út á ballarhaf. 

Ferðalag norðurheimskautsbaugsins til norðurs er annars hið merkilegasta í hinu stóra samhengi. Eins og flestir vita þá hallar jörðinni og það um 23,5 gráður sem skýrir tilveru árstíðanna því án hallans væri sífelld jafndægur hér á jörðu og dagurinn allstaðar jafnlangur nóttunni. Norðurheimskautsbaugurinn markar síðan þá breiddargráðu þar sem sólin nær ekki að setjast við sumarsólstöður og ekki að koma upp fyrir sjóndeildarhring við vetrarsólhvörf. Sama á síðan auðvitað við á suðurhveli.

obliquityFærsla norðurheimskautsbaugsins til norðurs markast síðan af þeirri staðreynd að halli jarðar sveiflast fram og til baka á um 40 þúsund árum. Á þeim árþúsundum sem við lifum nú er halli jarðar að minnka og mun jörðin vera nálega mitt á milli minnsta og mesta halla en samkvæmt því ættu að vera um 10 þúsund ár þar til hallinn verður minnstur, eða 22,1 gráða. Grímseyingar geta því vænst endurkomu heimskautsbaugsins eftir um 20 þúsund ár og þá kannski náð kúlunni upp úr sjónum hafi þeir áhuga á því, að því gefnu að þá verði ekki skollið á nýtt jökulaskeið og allt í bólakafi undir jökli.

Talandi um jökulskeið þá er umrædd sveifla á möndulhalla jarðar einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á loftslag hér á jörðu á langtímaskala. Möndulhallinn er þar að vísu ekki einn að verki því fleiri afstöðuþættir jarðar gagnvart sólu blandast þar inn (Milankovitch-sveiflurnar). Það er hinsvegar ljóst að þegar halli jarðar er í hámarki þá fer sólin hærra á loft að sumarlagi og þannig var það einmitt á fyrstu árþúsundunum eftir að síðasta jökulskeiði á norðurhveli lauk fyrir um 10 þúsund árum. Í samræmi við það þá er talið að Ísland hafi verið jökullaust að mestu fyrir svona 5-8 þúsund árum og Norður-Íshafið sennilega íslaust að sumarlagi.

En samfara minnkandi möndulhalla, færslu norðurheimskautsbaugsins lengra til norðurs og þar með minnkandi sólgeislunar að sumarlagi, þá hafa jöklarnir smám saman stækkað á ný með hverju árþúsundi. Um landnám voru jöklarnir þannig farnir að taka á sig mynd og áttu eftir að stækka með hverri öld uns þeir urðu stærstir nálægt aldamótunum 1900. Þróunin til minni möndulhalla heldur síðan áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar en hvort það leiði til allsherjar jökulskeiðs er ekki víst. Eins og staðan er núna hefur þróunin til kólnunar og stækkandi jökla snarlega snúist við og varla hægt að kenna (eða þakka) öðru um en hnattrænni hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa, sem reyndar er nú farið að kalla hamfarahlýnun. Það er því ýmislegt í tengslum við þessa kúlu sem má velta fyrir sér.

Öræfajökull

Öræfajökull á góðum degi (Ljósm. EHV)

Myndin af kúlunni er fengin af viðtengdri frétt á mbl.is.


mbl.is Kúlan ekki úr eynni fyrr en 2047
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheppilegir nágrannar á tónleikum

Í þessari lokabloggfærslu ársins er mál til komið að tuða svolítið sem er nokkuð sem ég geri alltof lítið af á þessum vettvangi. Ég er ekki mikill spekingur á klassíska tónlistarsviðinu en fer öðru hvoru á slíka tónleika til að hlusta á uppáhaldsverkin og sjá þau flutt milliliðalaust við bestu aðstæður. Til að ná hinu hárfína sambandi við æðri tónlist þá gildir auðvitað að tónleikagestir hafi hljótt um sig og sitji sem prúðastir í sínum sætum, sem þeir gera langflestir – en ekki allir. Ég veit ekki hvort ég sé óvenju óheppinn eða óvenju viðkvæmur fyrir öðru fólki á tónleikum en allavega hef ég furðu oft á síðari tímum lent við hliðina á, eða nálægt fólki, sem hefur dregið að sér athygli mína í meira mæli en góði hófi gegnir og frá því sem ég kom til að fylgjast með og njóta. Hér mun ég telja upp helstu slík atvik sem ég man eftir.

Fyrst skal minnast tónleika fyrir þó nokkrum árum þegar Háskólabíói var ennþá aðaltónleikahúsið. Þangað var ég kominn til að hlýða á hina miklu og löngu 5. sinfóníu Gustavs Mahlers, sem ég hef dálæti á. Eftirvænting mín var mikil, en á undan sjálfu verkinu var leikið stutt verk sem ég man ekki hvað var en athygli mín fór mest í óheppilega neföndun mannsins sem ég lenti við hliðina á. Sessunautur minn átti sem sagt við einhver þrengsli í nefi að stríða sem komu út sem regluleg blísturshljóð við útöndun. Ég sá fram á að þurfa að búa við þennan aukaflautuleik við hlið mér alla tónleikana en til allrar hamingju var gert hlé strax eftir stutt upphafsatriðið og þar sem ekki var alveg uppselt gat ég komið mér fyrir annarsstaðar í salnum eftir hlé, fjarri nefflautuleikaranum og gat notið verksins sem ég var kominn til að hlýða á, sem betur fer!

Víkur þá sögunni að tónleikum í Hörpu þar sem ég var mættur, aðallega til að fylgjast með 5. píanókonsert Beethovens leikinn af Víkingi Heiðari. Önnur tónverk voru einnig á efnisskránni. Allt gott og blessað nema hvað í sætaröðinni beint fyrir framan mig sat ungt par og var maðurinn öllu áhugasamari en konan sem greinilega vildi helst vera stödd einhversstaðar allt annars staðar. Hún hefði líka mín vegna alveg mátt vera allt annarstaðar en athygli mín fór mikið í að fylgjast með aumingjans konunni horfa í kring um sig, blaða skipulagslaust í prógramminu, líta á klukkuna eða gjóa augunum á manninn/kærastann sem sjálfur leit ekki af sviðinu. Á einhverjum tímapunkti stóðst hún ekki freistinguna og fór að athuga í símtækinu sínu, hvort eitthvað meira spennandi væri að gerast í mannheimum.

Næsta tilfelli var á tónleikum í Norðurljósasal Hörpu þar sem fram fór ýmis tónlistarflutningur, meðal annars ljóðasöngur með Kristni Sigmundssyni. Fyrir aftan mig sat maður sem kominn var til ára sinna og virtist eiga í einhverjum öndunarörðugleikum. Allavega átti hann það til að anda ótt og títt með önghljóðum en tók sér góð öndunarhlé þess á milli. Hann hrökk þó alltaf í gang að lokum, gaf ekki upp öndina og lifði af þessa tónleika. Það gerði ég einnig.

Þá er komið að klassískri ballettsýningu en slíka sýningu sá ég í fyrsta sinn fyrir tveimur árum þegar Rússneskur balletthópur tróð upp með Svanavatnið af miklum glans og fínheitum. Kannski voru viss mistök gerð að velja sýningu sem fram fór um miðjan dag en ekki að kvöldi til því talsvert var af börnum á sýningunni. Mest ungum stelpum með ballerínudrauma. Reyndar voru stelpurnar prúðar og stilltar og trufluðu mig ekki. Aðra sögu er að segja af strák nokkrum sem sat fyrir aftan mig, sennilega með afa sínum. Strákurinn vissi greinilega ekkert hvað hann var að fara að sjá og spurði afa sinn eftir að sýningin og dansinn hófst: "Hvenær byrjar þetta?" Fleiri spurningar fylgdu í kjölfarið sem snérust aðallega um framvindu verksins, hver væri vondi karlinn og þess háttar. Á einhverjum tímapunkti eftir hlé spurði strákurinn hvenær þetta yrði búið.

Síðasta vetur fór ég á sinfóníutónleika í Hörpu þar sem Ashkenazy var við stjórnvölin. Fyrir framan mig sat maður sem með atferli sínu virtist ekki vera tíður gestur á svona tónleikum. Hann var allur á iði, leit mikið í kringum sig og átti erfitt með að ákveða hvort hann ætti að halla sér fram eða aftur í sætinu. Og þegar hann ákvað að betra væri að halla sér aftur þá hlammaði hann sér á sætisbakið af fullu afli. Þegar kom að hléi sá ég að þessi maður var einn af helstu tónlistarspekúlöntum landsins og því aldeilis ekki að mæta á sinfóníutónleika í fyrsta skipti auk þess sem ég man vel eftir honum frá menntaskólaárunum. Það róaði mig nokkuð eftir hlé að vita hver þetta væri og ég held að hann hafi eitthvað róast líka. Allavega náði ég að upplifa eftir hlé hið hálistræna algleymi undir tónum sveitasinfóníu Beethovens enda er hún meðal allra fínustu tónverka sem til eru. Spekúlantinn fyrir framan mig var þó ekki alveg jafn alsæll með flutninginn ef marka má hans eigin dóm.

Að lokum skal minnst á síðustu heimsókn mína í Eldborgarsal Hörpu fyrr í vetur og aftur var það ballettsýning, með Rússneskum listamönnum. Sjálfur Hnotubrjóturinn eftir Tchaikovsky og af fyrri reynslu var ákveðið að fara á kvöldsýningu. Fyrir sýningu velti ég fyrir mér í hverju ég skildi nú lenda og kom það fljótlega í ljós eftir að sýningin hófst en sessunautur minn reyndist vera líkamsmikill maður í fylgd með konu sinni. Af nógu er að taka þegar lýsa skal nærveru hans en kannski var grunnurinn sá að maðurinn var of stór fyrir sætið sem hann sat í og lítið pláss fyrir stóra fætur. Maðurinn þurfti hvað eftir að annað skipta um stellingu og æ oftar eftir því sem á sýninguna leið. Þar að auki gat hann ekki andað hljóðalaust og gaf öðru hvoru frá sér þung útöndunarhljóð gegnum nefið (oftast kallað að dæs). Þegar líða fór á sýninguna var honum sífellt oftar litið á klukkuna þrátt fyrir að það væri ekki auðvelt fyrir hann að sjá á hana. Eftir eitt af dansatriðunum seint í sýningunni tók hann mikið undir þegar klappað var í salnum. Sennilega hefur hann þá haldið að sýningin væri búin en var þó ekki að ósk sinni fyrr en nokkru síðar og var þá fljótur að standa upp að lokaklappi loknu.

Eins og ég sagði hér áður þá er ég kannski óvenju viðkvæmur fyrir öðru fólki á tónleikum en mér finnst samt að gestir á klassískum tónleikum eigi að sýna öðrum vissa virðingu, þekkja sín líkamlegu takmörk og ekki auglýsa það of fyrir öðrum ef því finnst viðveran á tónleikunum óbærileg á einhvern hátt. Ég ætla mér þó ekki að gefast upp á að sækja svona viðburði enda trúi ég að ég hafi bara verið óvenju óheppin með nágranna undanfarið og því hlýtur að fara að linna.


Þrjár áhrifaríkar götulífsmyndir

Ljósmyndir segja alltaf sannleikann. Stundum á mjög eftirminnilegan hátt og geta þannig ef vel tekst til, breitt viðhorfum okkar til atburða sem eiga sér stað í þægilegri fjarlægð frá okkur. Allur gangur er þó á því hvort sannleikurinn sem þær birta endurspegla allan sannleikann eða bara hluta hans. Ljósmyndir geta þannig jafnvel valdið ýmsum misskilningi, hvort sem það er ætlun ljósmyndarans eða ekki. Að þessari almennu speki lokinni er best að koma sér að efninu sem er í formi þriggja mis vel þekktra ljósmynda sem segja þrjár ólíkar mannlífssögur og eru eftirminnilegar hver á sinn hátt.

Nýársnótt í Manchester
Fyrst er það þessi ljósmynd sem tekin var á Nýársnótt í Manchester og sló eftirminnilega í gegn í öllum miðlum nú í upphafi árs. Það var lausamennskuljósmyndarinn Jole Goodman sem á heiðurinn að myndinni sem er ein fjölda mynda sem hann tók þessa nótt og birti í myndagalleríi á vefsíðu Manchester Evening News. Sennilega hefði myndin ekki farið mikið víðar ef blaðamaður nokkur hjá BBC News hefði ekki "Tvítað" henni áfram með þeim orðum að ljósmyndin væri á við fallegt málverk. Sem hún vissulega er enda hafa menn dásamað litasamsetninguna og ekki síður myndbygginguna sem virðist þaulhugsuð samkvæmt ströngustu reglum gullinsniðs. Þarna er líka allt að gerast. Næturgleðin hefur eitthvað farið úr böndunum á þessu götuhorni og ekki allir á eitt sáttir við afskipti lögreglu. Væntanlega hefur aumingjans maðurinn á götunni þó náð að bjarga bjórnum sínum þótt hann sjálfur hafi oltið um koll. Annars er þetta bara svona hversdagsleg mynd frá Bretlandi eða hversnæturmynd, þótt vissulega sé þetta ekki hvaða nótt sem er. Þetta er nefnilega nóttin sem fólk á að skemmta sér og það helst með tilþrifum. Það getur svo sem tekist misjafnlega eins og ljósmyndarinn hefur náð að fanga - með miklum tilþrifum. (Nánar hér)

Flóttafólk í Damaskus
Hér kemur mögnuð ljósmynd sem tekin er í Yarmuk flóttamannabúðunum í Damaskus, höfuðborgar hins stríðshrjáða Sýrlands. Fólkið sem fyllir sundursprengt borgarstræti svo langt sem séð verður er þarna í örvæntingu sinni að sækjast eftir matargjöfum sem verið er að úthluta af Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn (UNRWA), í janúarlok 2014. Það er því smá von í miðjum harmleiknum. Ljósmyndin er á vegum samtakanna og birtist víða í fréttamiðlum á sínum tíma. Hún er næstum því Biblíuleg í mikilfengleika sínum og minnir á það þegar Rauðahafið galopnaðist fyrir Ísraelsþjóðinni á flóttanum frá Egyptalandi forðum daga. Það er þó allt annað á ferðinni að þessu sinni. Það sem hjálpar til við áhrifamátt myndarinnar er dýptin, allt frá fólkinu fremst og aftur til mannfjöldans lengst að baki sem hverfur í grámóðu fjarskans samkvæmt fjarvíddaráhrifum andrúmloftsins, eða svokölluðu "atmosphere perspective" upp á ensku. (Nánar hér)

New York 11. september
Svo er það þriðja og síðasta myndin og hún er sérstök. Ungt fólk slakar á og nýtur lífsins í veðurblíðu í Brooklyn og ekkert athugavert við það nema hvað, eins og sjá má, þá er myndin tekin daginn örlagaríka þann 11. september 2001. Ljósmyndarinn Thomas Hoepker sem fangaði þetta augnablik gerði sér grein fyrir því að myndin væri ekki alveg í réttum anda miðað við alvarleika atburðanna og því birtist myndin ekki fyrr en að hún kom út í ljósmyndabók tengdum 11. september, að 5 árum liðnum. Hún olli þá strax umræðum og deilum enda talin vera birtingarmynd hins sjálfhverfa borgara sem lætur sér fátt um finnast þótt ýmislegt bjáti á annars staðar. Fólkinu á myndinni var skiljanlega ekki skemmt þegar myndin var gerð opinber því auðvitað voru þau þarna komin til að fylgjast með og voru jafn sjokkeruð yfir atburðunum og aðrir. Þegar þarna var komið við sögu var nokkuð liðið á þennan örlagadag, báðir turnarnir hrundir og ekkert við því að gera. Saklaus stundarglettni eftir allt sem á undan var gengið skaðaði engan, nema hvað, þegar glettnin birtist á ljósmynd með þessum hætti verður hún ankanaleg og úr samhengi. En hvað sem því líður sanngirni gagnvart fólkinu þá er þetta frábær ljósmynd sem segir allt öðruvísi sögu en þær dramatísku hamfaramyndir sem venjulega birtast frá þessum degi í New York sem kenndur er við 11. september. (Nánar hér)

 


Moska eða listaverk?

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum manna við framlagi Íslands til Feneyjartvíæringsins að þessu sinni. Ég vil þó ekki bendla neinn við fíflaskap þótt aðrir hafa gert það, en hér á moggablogginu voru óneytanlega ýmsir stórorðir, einkum þá ýmsir eldri íhaldssamir karlar sem vissu varla hvert þeir ætluðu í vandlætingu sinni yfir þeirri ósvinnu, að þeirra mati, að setja upp mosku í kaþólskri kirkju í nafni Íslands. Gott ef ekki var kallað eftir afsögn menntamálaráðherra vegna þessarar "vitleysu".

Jú. Vissulega getur þetta verk talist ögrandi á vissan hátt í ljósi allrar þeirrar togstreytu sem ríkt hefur milli hins múslímska og vestræna heims undanfarin ár. Það er ekkert nýtt að listin ögri á einhvern hátt en það þarf þó ekkert að vera aðalatriðið í þessu. Í stað ögrunar má miklu frekar líta á þetta verk sem einskonar samkomulag í nafni friðar. Séu menn á annað borð tilbúnir til þess, sem kannski er ekkert víst. Í stað þess að hæðast, skopast eða að gera lítið úr þeim sem eru okkur framandi er þeim boðið í "okkar" tilbeiðsluhús en í leiðinni gefst þeim gestum sem ekki eru múslímar og hafa aldrei í mosku komið, tækifæri til að kynnast framandi tilbeiðslusiðum - sem ég get ekki séð að sé hættulegt, nema ég sé alveg staurblindur. Heimboðið er þó kannski ekki alveg í nafni Feneyjarborgar sem vilja helst setja einhverjar furðulegar reglur um að gestir í sýningarskála Íslands séu ekki of múslimalegir.

Hvað sem hægt er að segja um trúarbrögð nú til dags þá held ég að tilbeiðsla til æðri máttarvalda sé eitt af þeim atriðum sem einkennir mennska tilveru og jafnvel eitt af stóru atriðunum sem aðgreindi manninn frá dýrum á sínum tíma. Í þann flokk má líka bæta listinni sjálfri enda hafa þessi tvö atriði lengi verið samofin í menningunni. Hver menningarheimur hefur svo komið sér saman um sína heimsmynd, sinn skilning eða misskilning og sínar tilbeiðsluaðferðir og serimóníur í sambandi við þær. Hinsvegar hefur oft kárnað gamanið þegar ólíkir menningarheimar mætast því þá vaknar upp óttinn við að framandi hópar séu að þröngva sinni menningu yfir okkar og hefur það vissulega verið upptök margra átaka og sér jafnvel ekki fyrir endann á. Í slíku ástandi er oft stutt í öfgahyggju af trúarlegum eða þjóðernislegum toga.

Það er staðreynd að fjöldi þjóða játar múslímska trú rétt eins og margir játa kristni og því verður ekki breytt. Það er líka staðreynd að fjöldi múslima býr í Evrópu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Megnið af því fólki vill þó iðka sína trú í friði án þess að vera bendlað við það að vilja ganga milli bols og höfuðs á þeim sem ekki játa íslam. Moskur eru notaðar í tilbeiðsluskini rétt eins og okkar kirkjur. Uppsetningin er þó önnur og siðirnir, og verða það áfram. Hvað varðar framlag okkar til Feneyjartvíæringsins þá sver það sig í ætt við góða nútímamyndlist sem snýst ekki síst um að stilla upp hlutum á óvæntan hátt og skapa nýtt samhengi. Þar hefur okkur tekist vel upp að þessu sinni, með aðstoð listamannsins og nýbúans Christoph Büchel. Útkoman er sterkt listaverk - og þar sem það er listaverk er það í raun hvorki moska né kirkja, ef það huggar einhvern.

Feneyjamoska


Spáð í því

Ég tel mig ekki vera neinn sérstakan íslenskuspeking en tel mig þó vita að fyrirsögnin á þessari bloggfærslu er ekki upp á marga fiska, er reyndar beinlínis vitlaus og hin argasta þágufallssýki. Réttara er að spá í það en ekki því. Þessi vitleysa er þó mjög útbreidd í dag og liggur við að maður hitti varla manneskju öðruvísi en hún sé sífellt að spá í því eða þessu. Kannski er þó svo komið að þetta telst bara vera rétt úr því að allir segja það, fyrir utan helstu íslenskuséní, gamalmenni, afdalafólk og mig sjálfan – enn sem komið er.
En hvaðan kemur þetta? Ég held að vitleysuna megi rekja til þess að fyrir nokkrum áratugum komst í tísku að pæla (pæl-íði / pæld-íði / pæl-íessu). Sögnin að pæla tekur með sér þágufall og eftir að fattaðist að þetta er gamalt gott íslenskt orð hafa hinir mestu hugsuðir pælt mikið og þótt það smart. Á þessari öld gerðist það svo að pælingarþágufallið yfirfærðist á sögnina að spá. Þess vegna eru nú allir að spá í því en ekki að spá í það eins og sagt var áður. Fyrst voru það aðallega unglingar sem tóku upp á þessu en nú hefur fólk á besta aldri bæst í hópinn. Ástandið er þó ekki orðið það slæmt að fólk sé farið að spá í mér og þér, þökk sé Megasi er hann raulaði spáðu í mig.

En svo má líka spá í tískuna (ekki tískunni). Nú eru helstu fyrirtæki farin að vera stoltir styrktaraðilar allskonar góðra málefna. Stoltur styrktaraðili hljómar vel, enda vel stuðlað og jákvætt. Allt þetta stolt getur þó verið full mikið af hinu góða. Það mætti því gjarnan draga aðeins úr stoltinu eða finna eitthvað nýtt viðskeyti við styrktargleðina. Auglýsingamál getur annars verið uppspretta af ýmsu góðu. Hver man ekki eftir útvarpsauglýsingum á Gufunni þegar Ný dönsk blöð voru auglýst? Væntanlega hefur það verið uppspretta að nafni hljómsveitarinnar sem kallaði sig Nýdönsk. Aðeins minna þekkt hljómsveit á níunda áratugnum en ekki síðri, kallaði sig Oxsmá. Mín prívatkenning er sú nafngiftin hafi komið úr sjónvarpsþáttum sem voru vinsælir á sama tíma: Dýrin mín stór og smá, en ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.

Annað dæmi um áhrif Sjónvarps. Um jól og áramót þegar allir óska öllum gleði og gæfu er gjarnan sagt: „Óskum þér og þínum gleðilegra jóla“ og svo framvegis. Þetta þér og þínum hefur verið í tísku um árabil en var miklu minna notað áður. Hér kem ég með þá kenningu að uppruninn sé frá hinum merka manni Ragnari Reykás sem átti það til að segja setningar eins og „Það er alltaf sama sagan með þig og þína fjölskyldu … “ eða „Ég og mín fjölskylda á mínum fjallabíl … það er ekki spurningin“. Það er heldur ekki spurning að tilvalið er að enda þetta á Ragnari sjálfum. Það YouTube-myndband sem fannst og rökstyður mál mitt best, fannst mér ekki hið allra fyndnasta (Sjá: Ragnar Reykás og Rússarnir https://www.youtube.com/watch?v=DvOLTMSsCgU) þannig að í staðinn set ég í loftið stílhreinan og alveg týpískan Ragnar Reykás þar sem Erlendur hefur gómað kappann á sínum fjallabíl.

Athugið að ekkert hljóð er á myndinni fyrstu 12 sekúndurnar en það mun vera hluti af gríninu.


Stjörnumótíf við Kirkjufellsfoss

Þetta fyrsta orð í fyrirsögninni er ekki gott orð og hefur kannski ekki verið notað áður. En hvað um það? Íslensk náttúra þykir einstaklega myndræn og framandi og hefur vakið sífellt meiri athygli á undanförnum árum. Landið hefur verið nefnt draumaland ljósmyndara þar sem tiltölulega auðvelt er að nálgast ljósmyndamótíf sem eru engu öðru lík á heimsvísu. Það er ekki bara aukin dreifing ljósmynda í gegnum netheima sem hjálpar þarna til því á sama tíma hefur stafrænni ljósmyndatækni fleygt mjög fram að ógleymdri eftirvinnslu í myndvinnsluforritum sem getur gert hinar grámuskulegustu myndir að útópískum listaverkum. Atvinnuljósmyndarinn hefur í leiðinni fengið harða samkeppni frá vel græjuðum amatörum með gott auga fyrir myndbyggingu, litum og góðum mótífum.

Kirkjufell I
Sum myndefnin koma þó fram oftar en önnur eins og verða vill og nýir staðir sem áður voru lítt þekktir slá í gegn. Óhætt er að segja að Kirkjufellsfoss sé einn slíkra staða. Kirkjufellsfoss í Kirkjufellsá er lítill foss rétt neðan við smábrú á vegarslóða sem liggur upp frá þjóðveginum á norðanverðu Snæfellsnesi. Fossinn og áin eru auðvitað kennd við Kirkjufellið sem rís þarna upp á sinn sérstaka hátt, í senn vinalegt og óárennilegt til uppgöngu.

Myndefnið býður líka upp á góða möguleika á ýmsum stælum, ekki síst eftir að dagsbirtu er tekið að bregða, en langur lýsingartími gerir fossinn þá að mjúkri hvítri slæðu. Gott virðist að nota gleiðlinsu til að fá sem víðasta sjónarhorn og ekki er þá verra ef norðurljósin fá að leika um himininn eða regnboginn eins og hann leggur sig. Þessu hafa ljósmyndarar gert góð skil á undanförnum árum og Kirkjufellið með Kirkjufellsfoss í forgrunni, hefur þannig orðið eitt af skærustu stjörnumótífum hér á landi meðal innlendra og erlendra ljósmyndara og hefur hróður þess borist víða.

Þær fínu myndir sem teknar hafa verið á þessum stað hafa átt sinn þátt í að koma Kirkjufellinu á heimskort alnetsins þar sem gjarnan eru teknir saman TOP10-listar yfir hitt og þetta. Þar má til dæmis nefna lista eins og: 10 Most Beautiful mountains in the world – 10 Spectacular hidden paradise locations from around the world – 10 most beautiful Places around the world.

Kirkjufell samsett

- - - -

Sjálfur hef ég ekki komið akkúrat að þessum stað og notast því við myndir héðan og þaðan. Stóra myndin er tekin af g.hennings eins og hún kallar sig á Flyckr.com

Höfundar og uppruni annarra mynda eru: CoolbieReTony PowerPiriya (Pete)Conor McNeill / Peter Rolf Hammer


Art Deco - millistríðsárastíllinn

Tíska og stílbrögð endurspegla tíðaranda hvers tíma. Uppgangstímar einkennast að framfarasinnuðum og framtíðarlegum tíðaranda en þegar upp koma efasemdir um hvort gengið sé til góðs, sprettur rómantíkin fram og með henni ýmis fortíðarþrá og nostalgía. Þegar búið var að skakka leikinn með fyrri heimstyrjöldinni var kominn tími á að kveðja gömlu dagana með einhverju alveg nýju og flottu sem hæfði vel þeim vélvæddu uppgangstímum sem þá tóku við. Art Deco stíllinn féll vel að þessum nýja tíðaranda en upphaf hans er oftast rakið til heimsýningarinnar í París 1925 (Exposition internationale des arts décoratifs et industriels modernes) þar sem hinn nýi skreytistíll, Art Deco, var kynntur til sögunnar og náði hann til allra þátta hönnunar og þá sérstaklega til byggingarlistar og innréttinga allskonar.

Með Art Deco var horfið frá hinum lífrænu og skrautlegu formum Art Nouveau stílsins sem mjög var í tísku upp úr aldamótunum 1900. Það sem við tók var öllu formhreinna og umfram allt tignarlegra. Horn þurftu þó ekki endilega að vera hornrétt og rúnnuð horn gátu alveg gengið á réttum stöðum. Klassísk miðjusetning, eða symmetría, er líka eitt af einkennum Art Deco ásamt lóðréttum línum, enda er þetta upphafinn stíll, ekki ósvipað gömlu klassíkinni. Að þessu leyti er Art Deco ólíkur fúnkí-stílnum sem var mun strangari og bannaði allt skraut, og miðjusetta upphafningu.
Art Deco
Art Deco stílinn má alveg sérstaklega tengja við uppgangstímana í Bandaríkjunum enda urðu menn þar stöðugt ríkari og mikið þurfti að byggja, ekki síst upp í loftið. Chrysler byggingin sem reis á árunum 1928-1930 er fræg fyrir turnspíru sína í ekta Art Deco stíl. Styttan hennar Nínu Sæmundsdóttur fyrir utan Waldorf Astoria hótelið í New York er líka alveg í þessum anda, þannig að við eigum okkar fulltrúa. Tamara de Lempicka er ekki alþekkt nafn en málverk hennar sjást oft og víða og sýna þau á hálf-kúbískan, glamúrlegan hátt, velkjólaðar glæsikonur og menn í fínum frökkum. Við sjáum líka fyrir fyrir okkur fínheitin í Hollywood þar sem kvikmyndaiðnaðurinn blómstraði undir Art Deco stílnum og einnig villurnar og hótelin meðfram litríkum strandgötunum í Flórída. En eins og gengur þá fer tíska úr tísku og ný tíska tekur við. Art Deco fínheitin lifðu af nokkurn vegin kreppuárin en voru dálítið farin að blandast þjóðernisrómantíkum stefnum og ungmennafélagsandanum sem einkenndi árin fyrir seinna stríð, en að því stríði loknu var aftur kominn nýr heimur sem kallaði á nýtt framsækið „lúkk“.

ArtDeco Reykjavík
Art Deco stíllinn barst auðvitað til Íslands og arkitektar, hönnuðir og listamenn urðu fyrir sínum áhrifum meðvitað og ómeðvitað. Innréttingarnar í Hótel Borg hafa nýlega verið endurnýjaðar og færðar til fyrra horfs í ekta Art Deco stíl. Eina húsið í Reykjavík sem algerlega er sagt vera í Art Deco stíl er stóra húsið við Hlemm sem meðal annars hýsti hér áður Útvegsbanka og Náttúrugripasafnið. Byggingin, sem annars hefur lítið fengið að njóta sín, er alveg symmetrísk með rúnnuðum hornum, marglitum glerskreytingum á svölum og lóðréttum stuðlum sem allt er mjög í anda Art Deco. Á ljósmynd sem ég tók af húsinu úr fjarlægð má einnig sjá turn Þjóðleikhússins og ekki annað að sjá en að talsverður útlitslegur skyldleiki sé þar á milli. Guðjón Samúelsson og stuðlabergsstíllinn hans er þannig greinilega undir áhrifum af þessum innflutta stíl. Þetta má einnig sjá af fleiri byggingum Guðjóns eins og Laugarneskirkju, Háskólanum og jafnvel Hallgrímskirkju. Þannig er það nú með alþjóðlegar tískusveiflur - þær eiga það til að smeygja sér víða.


Listræn veðurkort

Eins og sönnum veðuráhugamanni sæmir þá fylgist ég reglulega með hinum ýmsu veðurkortum sem kalla má fram á veraldarvefnum. Á Wetterzentralnum má t.d. dæmis fá mikið úrval veðurkorta sem gefa góðar vísbendingar um það sem koma skal. Inn á milli vill hinsvegar bregða svo við að veðurkortin gerast æði skrautleg og engu líkara en að verið sé að boða meiri ragnarök en nokkur fordæmi eru fyrir í mannkynsögunni. Af fenginni reynslu hef ég þó komist að því að lítill fótur er fyrir slíkum dómsdagspám. Líklegri skýring snýst sennilega um að ofurtölvurnar séu enn að matreiða úr hráefninu en það er helst upp úr miðnætti sem hamagangurinn hefst. En nú er ég ekki bara veðuráhugamaður, því sem grafískur hönnuður er ég að sjálfsögðu líka áhugamaður um myndlist og myndræn form allskonar, akkúrat eins og þessi brengluðu veðurkort eru. Sennilega getur þetta þó varla flokkast sem myndlist, þótt flott sé. Til þess vantar listamanninn og listrænan tilgang í upphafi og varla er þetta hönnun því til þess vantar praktíkina. En hvað um það, nú er Hönnunarmars og því læt ég hér þrjú kort flakka sem sýna aðstæður á norðurhveli á listrænan hátt, dagana 14. 16. og 20. mars Spárnar voru gerðar 14. mars og birtust á sínum tíma á þessari slóð: http://www.wetterzentrale.de/topkarten/fsavnnh.htm

Wetter NH 14. mars

Wetter NH 16. mars

Wetter NH 20. mars

 

 


Gamla Nýlistin (Art Nouveau)

SaraBernhÞað er oftast mikil skammsýni að kenni eitthvað við nýjungar. Art Nouveau upp á frönsku er þó heitið á miklu tískufyrirbæri sem tröllreið lista- og hönnunarheiminum nálægt aldamótunum 1900. Annað heiti á fyrirbærinu, Jugendstil upp á þýsku er líka mikið notað og útfrá því íslenska þýðingin: Ungstíll. Þessi stíll náði yfir öll svið hönnunar allt frá stærstu byggingum niður í fíngerðustu skartgripi en var líka mjög áberandi í öllu myndmáli sem og í bókahönnun og leturgerðum. Sem listastefna vó Art Nouveau kannski ekki þungt en hafði þó greinileg áhrif á listamenn síns tíma. Áhrifamesti fulltrúi stílsins og eiginlegur upphafsmaður er tékkneski listamaðurinn Alphonse Mucha sem sló í gegn í París með glæsilegu leikhússplakati með Söru Bernhards árið 1895. Spænski arkitektinn Antóni Gaudi sem teiknaði skrítnu húsin og hálfbyggðu kirkjuna í Barcelóna er einnig verðugur fulltrúi.

Art Nouveau er fjarri því að vera unglegur eða nútímalegur stíll í dag, enda ber hann glögglega með sér horfinn tíðaranda gömlu daganna. Líta má á stílinn sem mótvægi við hinn stífa og upphafna Nýklassíska stíl sem sótti fyrirmyndir sínar alla leið aftur til Grikkja og Rómverja. Með Art Nouveau voru það hin frjálsu form náttúrunnar sem gengið var útfrá, fegurðin var sótt blómaskrúð og vafningsjurtir allskonar og helst mátti ekkert vera beint eða hornrétt - hvað þá í ströngum hlutföllum. Að ýmsu leyti má því líkja þessu við blómaskeið '68 kynslóðarinnar sem einnig var uppreisn gegn hinu stranga og siðaða.

Art Nouveau er í raun rómantískur stíll og má segja að hann sé nokkuð kvenlegur enda kvenfígúrur og þokkagyðjur vinsælt myndefni. Þær eru þá gjarnan sýndar svífandi um í blómaskrúði dreymnar á svip þar sem einhver forneskja svífur yfir vötnum. Þetta voru líka tímar þegar hið dularfulla var mikils metið með tilheyrandi spíritisma og handanheimum. Í dag tengist svoleiðis því að vera nýaldarsinnaður sem er líka viss tenging við nýja tíma.

En hvar sem líður forneskjulegum tilvísunum þá var Art Nouveau stíllinn á sínum tíma nútímalegur að yfirbragði og léttleikandi. Evrópumenn voru á þessum tímum að uppgötva framandi menningarheima þar sem hægt var að sækja í nýstárlegt myndmál og skraut. Japönsk grafíklist hafði þarna sitt að segja en Japönsk list einkenndist að fagurlega dregnum línuteikningum sem er svo einkennandi í Art Nouveau stílnum.

ArtNouveau sýnishorn
Art Nouveau tímabilið stóð ekki lengi. Kannski má segja að það hafi sokkið með Titanic ásamt svo mörgu öðru sem telst til lystisemda gömlu dagana. Í Bandaríkjunum þróaðist þó Art Deco stíllinn sem bauð upp á nýstárlegan tignarleika sem naut sín vel í nýju skýjakljúfunum en í Evrópu fóru í hönd viðsjárverðari tímar þar sem blásið var til byltinga og stríðsátaka. Í þeim tíðaranda var lítið pláss fyrir fínlegheit og annað dúllerí. Sumir vildu þá fara alla leið og gerilsneyða umhverfið af öllu skrauti. Kannski mætti reyna að rekja eitthvað að því síðar.


Skeggtíska endurspeglar tíðarandann

Við lifum á skeggjuðum tímum þar sem ekkert þykir sjálfsagðara en að karlmenn láti andlitshár sín vaxa óskert. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið enda er skeggtíska nátengd tíðarandanum hverju sinni rétt eins og önnur tískufyrirbæri. Fyrir nokkrum dögum var skeggfræðingur kynntur til sögunnar í sjónvarpinu en sá hafði skrifað BA-ritgerð um skeggsögu Íslendinga. Náði sú athugun eitthvað aftur í aldir en endaði sirka á hippaárunum kringum 1970 ef ég man rétt. Sjálfsagt mjög athyglisverð rannnsókn.

En skeggsagan endar þó ekki þar og frá árinu 1970 hefur skeggtískan farið heilan hring eða jafnvel tvo, þannig að eiginlega má tala um skeggjaðar og óskeggjaðar kynslóðir eins og ég ætla að reyna að rekja hér. Ég get svo sem upplýst að ég er fæddur árið 1965 sem þýðir að ég varð tvítugur árið 1985. Á þeim árum datt varla nokkrum ungum manni á uppleið í hug að láta sér vaxa skegg enda má segja að ég tilheyri skegglausu kynslóðinni. Á árunum um og upp úr 1980 þótti hjá ungum mönnum það vera beinlínis gamaldags, kallalegt og fúlt að vera með skegg.

Duran DuranHetjur 9. áratugarins voru heldur ekki með skegg, hvorki pönkararnir né nýrómantísku poppararnir. Eiginlega áttu menn að vera kvenlegir ef eitthvað var in the eighties, með mikið blásið hár upp í loftið í penum skófatnaði og jafnvel málaðir, á sama tíma og konurnar voru með axlapúða til að gerast karlmannlegri. Þetta voru líka tímar framtíðarhyggju enda voru tölvurnar farnar að gera það gott og allt sem var nútímalegt og framsækið þótti jákvætt. Þetta voru líka tímar efnishyggju og þá þótti allt annað en skammarlegt að vera svokallaður uppi.

Ýmsir menn á besta aldri voru þó með skegg á 9. áratugnum en það voru þá leifar frá hárunum um og eftir 1970 þegar mikil skeggtíska var í gangi sem tengdist hippamenningunni. Helst voru það þá hinir rótækari sem létu skegg sitt vaxa og stundum mjög frjálslega. Vinstri menn, verkalýðsleiðtogar, Steingrímur og Ögmundurspekingar og svo auðvitað margir popparar voru þarna áberandi skeggjaðir og eru sumir jafnvel enn. Mörg skeggin hafa þó rýrnað mjög með tímanum og eru í dag varla nema svipur hjá sjón eða jafnvel horfin. Hægri menn og Framsóknarmenn áttu sín skegg líka en þar voru yfirvaraskeggin meira í tísku. Þau voru líka góð og gild á diskótímanum en kolféllu út úr myndinni eftir það og fátt hefur verið fráleitara en yfirvaraskegg hjá minni kynslóð og þeim seinni jafnvel líka.

Þegar leið á 9. áratuginn fór þetta smám saman að breytast. Ameríska rapp- og hjólabrettamenningin fór að verða áberandi, og draumaliðið USA í körfubolta sló í gegn. Þá þótti smart að vera með frjálsleg hálfskegg og hárlitlir menn fengu uppreisn æru og máttu raka það sem eftir var á kollinum í stíl við Michael Jordan. Þarna var líka komin heilmikil þreyta gagnvart framtíðarhyggju og skynsemishyggju 9. áratugarins. Nýaldarmenning allskonar hófst með 10. áratugnum og hippatískan var endurunnin með síðum hárum og ýmsum skeggútgáfum að ógleymdu "grönsinu" með Kurt Kóbein í broddi fylkingar. Þetta frjálslega lúkk gekk þó ekki þegar menn ætluðu sér stóra hluti í ört vaxandi fjármálaheimi upp úr aldamótunum. Þar réði snyrtimennskan ríkjum með vel snyrtum andlitum og burstuðum skóm. Tíska og tíðarandi hefur annars oft skipst í tvær fylkingar. Í úthverfum borgarinnar og nágrannsveitarfélögum þróaðist hnakkamenningin sem var mjög mótfallin öllum líkhamshárum neðan hnakka. Til mótvægis voru svo krakkarnir í hundraðogeinum sem tilheyrðu krúttskynslóðinni. Þótt áherslan hafi þar verið á hið barnslega sakleysi létu strákarnir sér þó vaxa það skegg sem í boði var og þótti passa einkar vel við prjónahúfurnar.

Í dag þegar draumaheimar frjálshyggjunnar hafa kollsteypst virðist hið frjálslega útlit hafa tekið völdin með sigri hipsteramenningarinnar. Í stað Arne Jakobsen snúast smartheitin nú um að endurnýta það gamla. "Retró" er málið og Slippfélagshúsið er orðið að hóteli með gamaldags veggfóðrum og Kexverksmiðjan Frón heitir nú KEX Hostel og þar getur varla nokkur vel rakaðaður maður látið sjá sig. Jafnvel menn af minni kynslóð eru farnir að sjást með skegg, man til dæmis eftir einum skólabróðir úr MH sem kannski ætlar að verða formaður Samfylkingarinnar og fleiri mætti nefna. Sjálfur er ég í engum slíkum hugleiðingum en viðurkenni þó að rakvélin er ekki notuð á hverjum degi.

Skegg Reykjavik

Myndaröðin hér að ofan er tekin af bloggsíðunni Beards of Reykjavik þar sem sjá má mikið samansafn að skegglingum.

Á hinum myndunum má annarsvegar sjá drengjahljómsveitina Duran Duran og hinsvegar mynd sem ég tók af tveimur pólitíkusum af vinstri kantinum á fyrstu vikum búsáhaldabyltingarinnar. Skeggjaður guðfræðiprófessor sýnist mér líka gægjast þarna inn.

Um BA-ritgerð Siggeirs F. Ævarsonar, Upphaf íslenskrar skegg­tísku, má lesa nánar hér:

Skeggfræðingur rannsakar skeggsögu Ísland.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband