Færsluflokkur: Menning og listir

Silfurtónar og Ferry

Það þykir stundum sniðugt að villa á sér heimildir. Ein tegund af slíku er þegar framsæknir tónlistarmenn taka upp á því að hæðast að smekk fjöldans með ákveðnum hætti sem mætti kalla íróníska nálgun í póstmódernískum anda. Ég veit ekki alveg hvenær svona lagað hófst í menningarsögunni en mig grunar að þetta hafi ekki tíðkast mikið fyrr en seint á síðust öld.

Svona kúvendingar takast misvel og ekki alltaf víst að allir fatti djókið. Eitt svona dæmi er þegar hin metnaðarfulla djasshljómsveit Ljósin í bænum komu fram með lagið Diskó Friskó en það var hugsað sem háðsádeila á diskóið. Lagið sló í gegn og er eitt af frægustu diskósmellum íslensku tónlistarsögunnar, en fæstir kannast hinsvegar nokkuð við þá tónlist sem þau gáfu sig annars út fyrir að leika. Sykurmolarnir ætluðu upphaflega að herja á smekkleysuna með sykursætuna að vopni og afhendu smekkleysuverðlaun þeim sem þá þóttu skara fram úr í smekkleysu. Hemmi Gunn var meðal þeirra sem hlutu þau vafasömu heiðurverðlaun.

Af svipuðum rótum og Sykurmolarnir er hlómsveitin Silfurtónar sem hafði á að skipa strákum úr pönk- og nýbylgjugeiranum en þekktastur er sennilega annar söngvari sveitarinnar, Magnús Jónsson, leikari og fyrrum GusGus meðlimur. Það kannast sjálfsagt margir við lagið Töfrar sem er algerlega sykursætt glassúrpopp og bara nokkuð gott sem slíkt en ekki er þó víst að allir hafi áttað sig á djókinu þegar lagið hljómaði á útvarpsstöðvum fyrir um 15-20 árum síðan.



Meiri músik. Bryan Ferry er heldur ekki allur sem hann er séður og kemur sjaldnast til dyranna eins og hann er klæddur. Snemma tók hann að sér hlutverk hins heimsborgaralega sjarmörs og kvennaflagara sem var nokkuð úr takti við þá sem vildu taka sig alvarlega. Myndabandið sem fylgir er frá 1976. Bryan er í sínum hvíta smóking og greinilega ekki staddur í sama tíðaranda og undirleikararnir. Glæsikvendið Jerry Hall lætur þó heillast og á þarna aldeilis fína innkomu þegar líður á lagið.

 


Meðvitaðar skekkjur í letri

Það getur stundum verið dálítill munur á því sem sýnist vera rétt og því sem er alveg rétt. Hlutir geta virst ójafnir í lögun af því að þeir eru jafnir og til að leiðrétta þá meintu ójöfnu eru þeir viljandi hafðir ójafnir. Best er bara að taka dæmi um bókstafinn minn: E. Sá bókstafur er ágætt dæmi um það sem ég er að reyna að koma orðum að.

E E

Þessi tvö E virðast kannski vera eins við fyrstu sýn en þau eru það þó ekki. Stafurinn til vinstri er eins jafn og hugsast getur en sá til hægri er það ekki. Í E-inu til hægri eru láréttu strikin mislöng. Neðsta strikið er örlítið lengra en það efsta, miðjustrikið er greinilega styst auk þess sem það situr aðeins ofan við miðju. Þykktirnar eru líka misjafnar, láréttu strikin er þynnri en það lóðrétta. Þetta er samt mjög venjulegt og dæmigert E og er úr hinu útbreidda Helvetica letri og svona er bókstafurinn teiknaður í nánast öllum leturgerðum. Jafni stafurinn til vinstri er hinsvegar ekki úr neinni leturgerð. Ég teiknaði hann bara upp í fljótheitum enda mjög einfalt að útbúa svona jafnan bókstaf í tölvu.

Af ýmsum ástæðum virkar Helvetica bókstafurinn til hægri stöðugri og þægilegri að horfa á enda búið að taka tillit til nokkurra atriða sem hafa áhrif á hvernig við skynjum form og hlutföll. Sjónrænt séð er betra hafa lóðrétta strikið sverara, eins og trjástofn sem heldur uppi léttari greinum. Neðri hlutinn skal vera meiri en sá efri en þar kemur líka við sögu sjónrænt burðarþol rétt eins og í snjókarli þar sem sjálfsagt þykir að léttari kúla hvíli á þyngri kúlu. Bókstafirnir B og S er eru ágæt dæmi um slíkt.
Það má skoða þetta með aðstoð hjálparlína. Að vísu sést ekki greinilega að neðsta strikið í E-inu sé lengst en það er það samt – munar nokkrum hársbreiddum.

B E S

Það má alveg fara langt aftur í tímann til að finna dæmi um svona sjónleiðréttingar. Meyjarhofið á Akrópólíshæð er klassískt dæmi um ýmsar skipulagðar bjaganir. Súlurnar sjálfar eru látnar bunga örlítið að neðanverðu svo þær virki traustari, án þess þó að það sjáist í fljótu bragði. Þeir kunnu þetta til forna og svona eiga allar súlur í fornklassískum stíl að vera.

Meyjarhofið

 


Byggingarsaga Hörpu - myndasería

Frá árinu 2006 einhvern góðviðrisdaginn í lok ágúst hef ég lagt leið mína upp á Arnarhól og tekið ljósmynd af framkvæmdum við tónlistarhúsið Hörpu. Á elstu myndinni frá 30. ágúst 2006 má ennþá sjá hinn horfna Faxaskála, en skömmu síðar voru vinnuvélar mættar á svæðið til að ráða niðurlögum þess mannvirkis. Eftir nokkuð skrikkjótta byggingarsögu er tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin Harpa nú loks risin og búið að vígja hana bæði innvortis og útvortis – að vísu við mismikinn fögnuð borgarbúa. Þótt margt megi segja um þessa framkvæmd þá finnst mér þetta vera vera hin glæsilegasta bygging og ekki er verra að salirnir þykja hljóma afbragðsvel. Sjálfsagt sakna einhverjir þess að sjá ekki Akrafjallið frá Arnarhóli en þeir sjá þó Hörpuna í staðin.

Framkvæmdum á svæðinu er ekki lokið og næst á dagskrá er að reisa heilmikið hótel við hlið Hörpu. Hvernig það mun líta út veit ég ekki, en á meðan fræmkvæmdir eru í gangi er sjálfsagt að halda árlegum myndatökum áfram.

Myndirnar koma hér og er sú elsta fyrst. Ég mæli sérstaklega með þeirri síðustu sem er aukamynd tekin að kvöldlagi.

Tonlistarhus2006

Tónlistarhús 2007

Tonlistarhus2008

Tónlistarhús 2009

Tónlistarhús 2010

Tónlistarhús 2011

Tónlistarhús 2011 kvöld


Tímaflakkið - 3. hluti

Í tveimur síðustu bloggfærslu hef ég sagt dálitla sögu um tímaflakk og nú er komið að lokahlutanum. Best er auðvitað lesa fyrst 1. hluta og svo 2. hluta en annars skildi ég við í frásögninni síðast þar sem ég var staddur á Hlemmi eftir að hafa flakkað alveg óvart aftur til ársins 1980. Í ráðleysi mínu í þessari stöðu datt mér í hug hvort ég gæti haft uppi á sjálfum mér, en þetta sumar fyrir 31 ári var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands. Ég var búinn að finna út að dagurinn sem ég var staddur á væri 18. ágúst 1980 og með smá þolinmæði ætti ég að hitta sjálfan mig 14 ára gamlan með sendlatösku þarna fyrir utan Sláturfélagið, Lindargötumegin. Til að fara þangað hefði verið styttra að ganga Hverfisgötuna en ég ákvað frekar að fara Laugaveginn enda meira líf þar og meira að skoða.

Ég var dálítið farinn að venjast öllum þessum gömlu bílum á götunum og einnig yfirbragði fólksins. Bílarnir voru með léttara yfirbragði og ekki eins straumlínulaga og þeir eru í dag. Þjóðin var ekki komin með jeppadelluna en það mátti samt sjá stöku Bronco-jeppa og ekta Land-Rovera í klassíska stílnum. Fólkið sem ég mætti hafði enga hugmynd að ég tilheyrði næstu öld og ég skar mig ekkert sérstaklega úr fjöldanum. Það voru ekki margir erlendir ferðamenn þarna á Laugaveginum allavega ekki miðað við í dag þar sem annar hver maður talar erlendum tungum.

Allnokkur hús eru horfin í dag og önnur komin í staðinn. Stjörnbíó er þarna á sínum stað en svæðið þar í kring er orðið töluvert miðbæjarlegra en kannski ekki endilega skemmtilegra. Flestar verslanirnar sem ég gekk fram hjá eru nú horfnar, nema auðvitað Vinnufatabúðin. Þarna mátti sjá tískuverslanirnar Faco, Karnabæ, Adam og líka Evu og svo margar aðrar fleiri. Ég fór ekki lengra niður Laugaveginn en að Frakkastígnum og hélt áleiðis þangað niðureftir. Þarna var verslunin Framtíðin en hún hefur reyndar lengi tilheyrt fortíðinni. Það hefði getað verið gaman að kíkja inn í Lúllabúð við Hverfisgötu en þangað var ég stundum sendur til að kaupa eitt og annað fyrir skrifstofufólk Sláturfélagsins. En nú var ég kominn að þessu gamalgróna kjötvinnslufyrirtæki og tók mér stöðu við inngang portsins við Lindargötuna þar sem hvítu Sláturfélagsbílarnir óku inn og út. Þarna gerði ég mér vonir um að hitta sjálfan mig ef biði þolinmóður.

Ég hafði nóg um að hugsa á meðan á biðinni stóð. Hvað myndi gerast þegar upp kemst frá hvaða tíma ég er? Ég veit ekki til að nokkur hafi flakkað svona aftur um tímann og ég var hugsi yfir því, að ef ég hefði farið í svona flakk og gefið mig fram opinberlega þá hefði það örugglega vakið heilmikla athygli. Samt hefur aldrei verið talað um að það hafi gerst. Ég man heldur ekki eftir að ég hafi hitt einhvern á sínum tíma sem gæti verið ég sjálfur í eldri útgáfu en samt beið ég þarna eftir að hitta sjálfan mig 31 ári yngri. Um þetta hugsaði ég fram og aftur þar til allt í einu að ég kannast við strákling með sendlatösku sem kemur þarna á móti. Það var ekki um að villast, þetta var ég sjálfur sem nálgaðist.

Auðvitað er enginn hefð fyrir því hvernig maður ber sig að við svona aðstæður.
„Fyrirgefðu“ sagði ég og vakti þannig athygli mína á mér. „Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“
Ég leit á mig og mér fannst ég greina smá tortryggni í svipnum á mér áður en ég leit á úrið og sagði: „Hún er korter í tvö“.
Þarna sá ég að ég var kominn með bláa úrið sem ég keypti þetta sumar en týndi allnokkrum árum síðar á skemmtistaðnum Broadway.
Ég þakkaði fyrir og samskiptin urðu ekki meiri þarna. Þetta dugði í bili sem staðfesting á því að nú væru til tvær útgáfur af sjálfum mér á mismunandi aldri sem hlýtur að teljast nokkuð sérstakt.

Áfram og meira þurfti að hugsa. Hugsa og hugsa. Ég var kominn niður að Skúlagötunni en þar hefur umhverfið auðvitað gjörbreyst síðan 1980. Nema kannski Esjan sem var þarna á sínum stað. Snjóskaflarnir voru þó stærri og greinilegt að þeir voru ekki að fara að bráðna þetta sumar. En þá hringdi síminn. Já það var ekki um að villast – gemsinn í vasanum var að hringja og það árið 1980!
„Halló“ segi ég.
„Er þetta Emil?“ spyr ókunnug karlmannsrödd.
„Já. Það er hann.“
„Heyrðu … Eins og þú hefur örugglega tekið eftir, þá eru hlutirnir ekki alveg eins og þeir eiga að vera“
„Já, það er alveg greinilegt“ segi ég, en spyr svo „Hver ert þú?“
„Látum það liggja á milli hluta, en ég hef eftirlit með því að hlutirnir gangi rétt fyrir sig og það verður að leiðrétta þetta í hvelli.“
„Hvað meinarðu með eftirlit?“
„Það er heildareftirlitið, við tókum eftir þessu þegar þú hittir sjálfan þig en það á ekki að vera hægt. Eftir stutta stund munum við kippa þér aftur í þinn rétta tíma. Passaðu þig bara á því hvar þú ert“
„Passa mig á því hvar ég er hvað?“

Ég fékk ekki svar við þessu síðasta því þessi fulltrúi heildareftirlitsins eða hvað það nú var, hafði slitið samtalinu. Ég áttaði mig þó á því að ef ætti að kippa mér aftur í nútímann þá skipti máli hvar ég væri staddur enda ekki gott að fá heilt háhýsi ofan á sig við tímaleiðréttinguna. Ég flýtti mér frá Skúlagötunni og hljóp í átt að gamla húsinu sem einu sinni var Franski spítalinn en er tónlistarskóli núna. Þar gerðist það skyndilega og á svipstundu að tilveran breyttist á ný. Í stað Sláturfélagshúsanna voru stóru blokkirnar komnar og bílarnir voru ekki lengur gamlir. Ég var kominn til baka eins og ekkert hafði í skorist.

Eftir að hafa áttað mig, ákvað ég að hringja í vinnuna og sagðist ætla að taka mér frí það sem eftir væri dagsins. Meira gerðist ekki í þessu máli af minni hálfu og ég hef ekki orðið var við eftirköst af þessu óvænta tímaflakki mínu. Þó sá ég í einu dagblaðana daginn eftir, að eldri maður sagði frá undarlegu atviki sem hafði hent hann við Nóatúnið þegar einhver hafi beinlínis hlaupið hann um koll þar sem hann var á ferð á rafskutlu sinni og svo hefði maðurinn bara horfið á staðnum eins og jörðin hefði gleypt hann. Engin vitni að þessu atviki höfðu gefið sig fram, síðast þegar ég vissi.

 


Tímaflakkið - annar hluti

Ég sagði frá því í fyrsta hluta þessarar frásagnar hvernig mér var mjög óvænt vippað allnokkur ár aftur í tímann eftir samstuð við mann á rafskutlu við Nóatúnið. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var sem ég hafði dottið inn í en taldi sennilegast að um væri að ræða árin um eða fyrir 1980. Eftir heimsókn í Tómstundahúsið hafði ég komist að því að gamla krónan var enn í gildi og gat því útilokað árin eftir 1981 – ég var þó ekki alveg viss hvenær myntbreytingin átti sér stað. Ég hafði ákveðið að labba niður að Hlemmi til að fá gleggri mynd af því sem var að gerast ef það væri mögulegt og þar skildi ég við frásögnina síðast.

Mér fannst umhverfið þarna ofan við Hlemm öllu kreppulegra miðað við það sem það er í dag þótt deila megi um hvort minna kreppusástand sé uppi nú en þarna á árunum um 1980, þegar öllu var reddað með endalausum gengisfellingum. Svæðið við Búnaðarbankann ofan við Hlemm hefur talsvert breyst til batnaðar en þar er nú búið að færa til götur og koma fyrir hestastyttunni sem áður var við Miklubraut. Skiptistöðin við Hlemm er þó komin eins og átt von á. Sennilega er hún tiltölulega nýreyst þarna en byggingin þótti mörgum óþarflega skrítin í útliti og framúrstefnuleg. Klukkuturninn sýndi að klukkuna vantaði korter í eitt, sama og mín klukka sýndi.

1980Það var nóg um að vera þarna á Hlemmi og margt um manninn eins og löngum hefur verið. Þrír grænleitir strætisvagnar voru þarna á sama tíma. Úr einum þeirra streymdi fólk á meðan aðrir stigu inn. Þetta var leið nr.3 – Nes Háaleiti – sem einmitt var alltaf vagninn minn. Greinilega voru síðdegisblöðin komin út því gegnum umferðarniðinn mátti heyra kunnugleg köll blaðasölustráka: „Vííííísir eða Daaaagblaðið“. Mér fannst auðvitað tilvalið að kanna hvað blöðin höfðu að segja þennan dag og ekki síður að sjá á hvaða degi og ári ég væri staddur. Ég ákvað að fara inn fyrir til að kíkja á blöðin.

Ég held að ég hafi ekki skorið mig sérstaklega úr hvað varðar klæðaburð þarna inni á Hlemmi. Fólk var vissulega ekki klætt eftir nýjustu tísku okkar tíma en þó var munurinn ekki alger. Til dæmis var ég í gallabuxum eins og margir aðrir en kannski hefur einhverjum þótt svarti TheNorthFace jakkinn nokkuð nýstárlegur. Ég hef samt ekki trú á að nokkur hafi séð að ég væri ráðvilltur aðkomumaður frá árinu 2011. Sennilega hefðu flestir átt von á að slíkur gestur væri meira en lítið framtíðarlega klæddur, kannski í silfursamfestingi með innrauð gleraugu eða eitthvað þvílíkt. Fólkið sem þarna var statt var á öllum aldri, einstaka andlit kannaðist ég við en þó var enginn þarna sem ég beinlínis þekkti. Innanum nokkra unglinga sá ég einn rauðbirkinn strák með kunnuglegan svip. Ég ákvað að heilsa upp á hann.
„Sæll, heitir þú ekki Jón Gnarr?“ spurði ég.
Hann horfði á mig tortrygginn og sagði svo vera. Ég lét undan freistingunni og sagði:
„Haltu áfram að vera þú sjálfur og þú munt enda sem Borgarstjóri“
Ég veit ekki hvað hann hefur haldið um mig, en um leið og ég sagði þetta áttaði ég mig á að það er ekki viturlegt að vera með svona komment með skýrskotunum um framtíðina. Það er aldrei að vita til hvers slíkt getur leitt.

En nú þurfti ég að athuga með sjoppuna til að kíkja á blöðin. „Eru þetta blöðin í dag?“ spurði ég afgreiðslumanninn sem bæði játaði og samþykkti með semingi að ég kíkti aðeins blöðin. Nú var þetta farið að vera spennandi. Í fyrsta lagi sá ég að dagurinn var 18. ágúst 1980, þannig að nú var það komið á hreint. Þetta var rétt dagsetning samkvæmt mínu tímatali en munurinn var 31 ár. Af hverju endilega 31 ár hafði ég enga hugmynd um, en annars skildi ég svo sem ekkert í þessu öllu saman. En það var ekki bara dagsetning, því á forsíðu Vísis var aldeilis stórfrétt. Stór mynd af eldgosi og fyrirsögnin: „Stendur í einhverja mánuði ef að líkum lætur“ og var þar vitnað í Sigurð Þórarinsson jarðfræðing um gosið í Heklu. Hér var greinilega um ræða ræða eldgosið sem kom svo óvænt þetta sumar. Þarna vissi ég betur en Sigurður Þórarinson því þetta gos entist ekki vikuna. Mér fannst mér ég vera öllu nær um þessa tilveru sem ég var lentur í.

En hvað átti ég nú að gera? Skildi ég einhvertíma komast til baka í minn nútíma? Ég var kominn út aftur og stóð fyrir utan skiptistöðina Hverfisgötumegin gegnt Lögreglustöðinni. Átti ég að gefa mig fram við yfirvöld og segja farir mínar ekki sléttar eða átti ég kannski að skoða þennan fortíðarheim betur? Verst var að geta ekki borgað neitt. Fimmhundruðkallinn og nokkrir smápeningar sem ég var með í veskinu dugðu skammt því þetta var á dögum gömlu krónunnar. Ef ég hefði horfið aftur um 30 ár væri staðan allt önnur og ég getað lifað góðu lífi á þessum eina seðli í marga daga. Einnig var möguleiki á að hafa uppi á mínu fólki. Hvað gerðist ef ég bankaði uppá hjá foreldrum mínum, hvernig ætti ég að útskýra það að ég hefði allt í einu elst um 31 ár? Gæti ég kannski þóst vera áður óþekktur ættingi? Hvað með mig sjálfan? Ætli ég geti haft uppi á sjálfum mér? Get ég verið til í tveimur útgáfum á misjöfnum aldri? Ef svo er, hvar ætli ég sé staddur núna? Það er að segja yngri útgáfan af mér.

Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta sumar var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands sem þá var staðsett við Skúlagötuna. Sjálfur var ég þá 14 ára, bráðum 15. Nú ákvað ég, að áður en lengra yrði haldið, að næsta verkefni væri að hafa uppi á sjálfum mér.

- - - - -
Meira um það eftir tvo daga þegar lokahlutinn birtist.

Tímaflakkið - fyrsti hluti

Þetta var þannig að ég var í hádegismat og hafði ákveðið að fá mér smá göngutúr niður Nóatúnið. Það er stundum ágætt að komast aðeins út í hádeginu og fá sér frískt loft. Þegar ég kom að gatnamótunum við Laugaveg hafði ég ekki alveg þolinmæði í að bíða eftir græna karlinum og hljóp yfir götuna og var með allan hugann við bílaumferðina sem er nokkuð hröð þarna. Ég tók hins vegar ekki eftir gamla manninum á rafskutlunni handan götunnar og hreinlega hljóp á hann og kastaðist einhvern veginn áfram. Ég man þó ekki eftir lendingunni eða hvort ég hafi yfirleitt lent, ég man bara eftir mér í loftinu og svo ekki meir þar til ég ligg þarna bara allt í einu á gangstéttinni.

Ég fann strax að það var allt í lagi með mig eftir þessa byltu, engin eymsli eða neitt svoleiðis. Ég skynjaði hinsvegar strax að allt umhverfið var eitthvað öðruvísi en það átti að vera, dregið hafði líka fyrir sólina og heldur svalara var í lofti. Karlinn á rafskutlunni var líka alveg horfinn. Ég stóð upp nokkuð snögglega enda vildi ég ekki láta sjá mig þarna liggjandi. Þó tók ég eftir að einhverjir ökumenn litu á mig en þeir sáu greinilega enga ástæðu til að skipta sér frekar að mér. Sem var ágætt.

En hvað var þetta? Hvað var að gerast? Það sem við mér blasti var sami staður nema að allt leit núna út eins og það gerði fyrir nokkrum áratugum. Í fyrsta lagi voru það bílarnir. Þarna sá ég til dæmis strax tvær Fólkswagen-bjöllur, Volvóbíl árgerð nítjánhundruðsjötíu og eitthvað, sama má segja um Bensinn og Skódann og alla hina. Húsin í kring voru líka eins og ég man eftir þeim fyrir löngu síðan. Víðishúsið blasti við þarna hinumegin við götuna í upprunalegu útliti áður en það var klætt að utan. Svipað má segja um fleiri hús eins og verslunarhúsið kennt við Nóatún á meðan nýlegri hús voru hvergi til staðar. Sá sem ekki hefur lent í tímaflakki á örugglega erfitt með að setja sig í þau spor sem ég var þarna í en það var ekki um að villast að ég hafði horfið aftur í tímann og stóð þarna eins og illa gerður hlutur í röngum nútíma. Sjálfur hafði ég ekkert yngst við þetta flakk, var í sömu fötunum og með sömu hlutina í vösunum. Þetta var greinilega enginn draumur.

Ég leit á úrið og sá að klukkan var rúmlega hálf eitt sem var í samræmi við það sem hún ætti að vera. Ég tékkaði líka á gemsanum sem var enn í gangi en þó gagnslaus og ekki í neinu sambandi við umheiminn. Þessi hádegisgöngutúr ætlaði greinilega að verða dálítið öðruvísi en til stóð og ómögulegt að vita hvernig hann ætti eftir að enda. Í stað þess að ganga áfram niður Nóatúnið ákvað ég að ganga áleiðis að miðbænum, kannski til að sjá hvort þetta sama ástand væri allstaðar en ekki síst þurfti ég að finna einhverja skýringu á þessu og komast að því á hvaða ári ég væri staddur. Á móts við hús Fíladelfíusafnaðarins stöðvaði strætisvagn nr 2, Grandi-Vogar, í sínum gamla mosagrænleita lit. Út úr vagninum steig ung kona með barn og litla barnakerru. Ég ákvað að heilsa konunni sem leit hikandi á mig en heilsaði að lokum á móti. Þarna fékk ég staðfestingu á því að ég var staddur þarna í raun og veru en ekki bara ósýnilegur villuráfandi draugur.

Handan götunnar sá ég að Mjólkurstöðin var enn í fullum gangi í húsunum þar sem nú er Þjóðskjalasafnið. Annað fannst mér þó áhugaverðara en það var Tómstundahúsið sem var uppáhaldsbúðin mín hér áður fyrr. Ég skutlaði mér yfir götuna til að skoða dýrðina aðeins nánar og að þessu sinni komst ég klakklaust yfir. Engin óvænt rafskutla til að skutla mér í jörðina. Tómstundahúsið var nákvæmlega eins og það var í minningunni en þar keypti maður plastmódel í stórum stíl hér áður fyrr. Ég gekk aðeins um í búðinni leit á kunnuglegt úrvalið. Stór sögufræg seglskip eins og HMS Victory Nelsons flotaforingja, og Gullna Hindin hans Francis Drake. Hvortveggja hafði ég límt saman málað og þrætt á allskonar bönd á mínum yngri árum. Þarna voru líka flugvélar eins og Spitfire, Messerschmith, Junkers JU88 og margar fleiri.
„Get ég nokkuð aðstoðað?“ spurði afgreiðslumaður kurteislega.
„Nei nei“ sagði ég. „Ég er bara aðeins að skoða“
Auðvitað hefði ég getað spurt hann út í hvaða ár væri en fannst það ekki viðeigandi. Af verðlaginu að dæma voru gömlu krónurnar enn í gangi. Plastmódelpakki fannst mér kosta eitthvað álíka og hann gæti kostað í dag, en annars er langt síðan ég hef verslað svona.
Ég þakkaði fyrir mig og yfirgaf búðina dálítið hugsi. Átti myntbreytingin sér ekki stað um 1980? Í upphafi þess árs eða var það kannski í ársbyrjun 1981? Ég mundi það ekki alveg. Allavega var ég staddur í Reykjavík fyrir myntbreytingu. Sennilega þó ekki löngu fyrr. Sennilega einhverntíma á árunum 1978-1980. En nú blasti Hlemmur við mér, þar gæti ég vonandi fengið einhver svör.

- - - - -
Annar hluti af þremur mun birtast hér von bráðar.


Gömlu Bíóin II

Áfram skal haldið upprifjuninni um gömlu góðu bíóin sem maður heimsótti á seinni hluta síðustu aldar. Í fyrri hlutanum tók ég fyrir fjögur kvikmyndahús en í þessum seinni hluta verða þau fimm. Í hléinu fengum við óvænt gos (en ekkert popp) og það er ástæðan fyrir því að þessi bíóblogg koma ekki hvort á eftir öðru. Við byrjum miðsvæðis en förum svo aðeins víðari rúnt um bæinn. Sem fyrr eru myndirnar af húsunum nýjar en miðarnir gamlir.

Stjörnubíó

Stjörnubíó hóf starfsemi árið 1949 en á þeim árum var mikill uppgangur í bíóhúsamenningu borgarinnar. Stundum er sagt að Stjörnubíó hafi staðið á álagabletti en saga þess markast af tveimur brunum. Fyrst árið 1953 og svo öllu verri bruna árið 1973 sem kallaði á algera endurnýjun hússins. Það var kannski þess vegna sem manni fannst Stjörnubíó vera nýrra en það var, allavega voru sætin þægilegri en gerðist annarstaðar. Í Stjörnubíói horfði maður agndofa á geimverumyndina Náin kynni af þriðja tagi eftir Spielberg en Norska brúðumyndin Álfhóll var einnig eftirminnileg, ekki síst vegna rússíbanaatriðisins stórkostlega. Sögu Stjörnubíós lauk árið 2002. Húsið var þá rifið til grunna og nýtt umfangsmikið hús með undirgöngum reis í staðinn. Kannski vildu menn ekki storka örlögunum af fenginni reynslu og þótt vissara að hafa sem allra minnst jarðsamband á nýju byggingunni þar sem Stjörnubíó stóð áður.

Regnboginn

Regnboginn við Hverfisgötu tók til starfa árið 1980 og var mikil nýjung í bíóhúsamenningu borgarinnar. Þetta var fyrsta kvikmyndahúsið með mörgum bíósölum. Það hafði augljósa kosti í samkeppninni og nokkuð sem önnur kvikmyndahús þurftu að bregðast við. Salirnir voru hver í sínum lit og því lá beinast við að kalla kvikmyndahúsið Regnbogann. Ein af fyrstu myndunum sem ég sá í Regnboganum var stórmyndin Hjartarbaninn sem var alvöru mynd – bönnuð innan 16 og ég bara 15. Regnboginn hélt lengi út sem venjulegt kvikmyndahús en haustið 2010 var ákveðið að gera húsið að metnaðarfullu heimili kvikmyndanna undir heitinu Bíó Paradís sem sýnir ýmist nýjar eða sígildar myndir fyrir djúpþenkjandi fagurkera, en slíkt hefur löngum þótt vanta í kvikmyndahúsaflóruna.

Tónabíó

Tónabíó við Skipholt var starfrækt af Tónlistarfélagi Reykjavíkur frá árinu 1962 en félagið hafði áður séð um rekstur Trípólíbíós á Melunum. Þrátt fyrir að vera ekki í miðbænum var Tónabíó nokkkuð vinsælt bíó og kærkomið fyrir okkur sem ólumst upp í Háaleitishverfinu. Þarna var hægt að sjá Peter Sellers fara á kostum í Bleika Pardusnum og ekki síður Roger Moore sem James Bond. Rússarnir koma var þarna líka, alveg bráðskemmtileg. Magnaðasta myndin var þó Dómsdagur nú eftir Coppóla, en reyndar hefur mig aldrei sifjað eins mikið í bíó og í lokaatriðum þeirrar myndar. Það sama gerðist er ég sá myndina aftur í sjónvarpi 15 árum síðar. Það er langt síðan ég hef stigið inn í þetta hús en margir heimsækja það reglulega til Bingóiðkunar.

Laugarásbíó

Laugarársbíó er elsta kvikmyndahúsið sem enn er starfrækt í Reykjavík en sýningar hófust þar árið 1956. Húsið tengist öldnum sjómönnum sterkum böndum því það er sambyggt dvalarheimili DAS og var lengst af rekið af sömu aðilum, eða þar til Myndform tók reksturinn yfir árið 1993. Til að halda velli í samkeppninni þurfti að stækka húsið og bæta við aukasölum því ekki dugði að lengur að bjóða bara upp á eina mynd í einu. Af mörgum góðum myndum í Laugarbíó man ég ekki eftir neinum sem standa upp úr en Vígastjarnan Galaktíka á þann vafasama heiður að vera fyrsta myndin sem mér hálfleiddist á í bíó. Í dag stendur Þorfinnur Karlsefni vígalegur mjög fyrir utan bíóið, spurning hvort kappinn hafi mikinn áhuga á Brúðarmeyjunum sem þarna er auglýst til sýningar.

Háskólabíó

Háskólabíó var formlega tekið í notkun 1961 á 50 ára afmæli Háskóla Íslands en áður hafði Háskólinn komið að rekstri Tjarnabíós í gömlu íshúsi við Tjörnina. Í þessu mikla harmónikkulagaða húsi hefur margt stórmennið stigið á svið. Stórar hetjur hafa líka birst á sýningatjaldinu. Sjálft Ofurmennið sveif þarna um árið 1979 og bjargaði heiminum sem oftar, King Kong fór hamförum uppá á Tvíburaturnunum og John Travolta grísaðist með greiðsluna í lagi. Háskólabíó stækkaði með nýjum sölum í hliðarbyggingu og nú eru kvikmyndasýningar einungis í þeim húsakynnumi. Sinfóníuhljómsveitin er nýhorfin á braut í ennþá meira hús, þannig að nú er svona frekar tómlegt að horfa til Háskólabíós frá Melatorginu.

- - - -
Það örlar ennþá á bíómenningu í borginni þótt flest gömlu bíóin séu horfin eða hætt. Sú menning finnst þó ekki í miðbænum í sama mæli og áður, en miklu frekar í stórum verslunarkjörnum víðsvegar um borgina. Þangað liggja víðir vegir og margar akreinar.

Fyrri hluti „Gömlu bíóanna“: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1168221


Gömlu bíóin

Margt breytist með tímanum, þar á meðal bíómenningin. Þegar heimsóknir mínar í kvikmyndahús voru í hámarki á árunum kringum 1980 voru flest bíóin ennþá staðsett í gamla miðbænum eins og verið hafði frá upphafi. Hér á eftir kemur dálítið yfirlit yfir þessi gömlu bíó í borginni. Til skreytingar og sem sönnunargagn læt ég fylgja bíómiða frá viðkomandi bíóum en lengi vel geymdi ég flesta bíómiða sem ég fékk. Myndirnar sýna kvikmyndahúsin eins og þau eru í dag hvort sem þau eru til eða ekki. Alls mun ég taka fyrir níu kvikmyndahús með þessum hætti í tveimur bloggfærslum.

Gamla Bíó

Hið eina og sanna gamla bíó er sjálft Gamla bíó sem flutti í þetta glæsilega hús árið 1927. Upphaflega var það stofnað árið 1906 sem Reykjavíkur Biograftheater og var til húsa í Fjalakettinum undir stjórn Bíó-Petersens. Þarna voru sýndar bíómyndir allt til ársins 1981 eða þar til óperan tók völdin. Hún er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra. Þær myndir sem ég man helst eftir úr Gamla bíói eru háklassa teiknimyndir frá Disney eins og Skógarlíf, Hefðarkettirnir og Sverðið í steininum. Í þá daga voru teiknimyndir handteiknaðar og handmálaðar og meira að segja bara í tvívídd.

Nýja Bíó
Nýja Bíó í Lækjargötu er ekki nýrra en svo að það er ekki til lengur. Á meðan ég sótti það bíó var það reyndar orðið ævagamalt enda má rekja sögu þess aftur til ársins 1912 er það hóf starfsemi sína í húsakynnum Hótels Íslands. Frá upphafi var það kallað Nýja Bíó til aðgreiningar frá hinu bíóinu í bænum sem þar með var kallað Gamla bíó. Árið 1920 hófust sýningar í nýju húsnæði inn af Austurstræti þar sem það var alla tíð síðan. Í mínum huga var Nýja Bíó alltaf í Lækjargötu enda var inngangurinn þaðan, en í raun var kvikmyndahúsið algerlega falið bak við önnur hús. Stjörnustríð er sennilega mesta kvikmyndaverkið sem ég sá þarna. Þrátt fyrir flottheit og framtíðarbrellur fannst hún í raun vera hver önnur hasarmynd þar sem vöndu kallarnir eru alltaf jafn agalega óhittnir. Þarna fór ég líka á fyrstu bönnuðu-innan-12-ára-myndina mína án fylgdar fullorðinna og án þessa að vera 12 ára. Sú mynd hét Þeysandi þrenning og var einn samfelldur eltingaleikur og bílahasar. Bíómyndir voru sýndar þarna til ársins 1987 en síðan var húsið gert að skemmtistað sem síðan brann og húsið rifið, en nú er verið að byggja einskonar eftirlíkingu af Nýja Bíói á bak við Iðuhúsið.

Austurbæjarbíó
Austurbæjarbíó tók til starfa árið 1947 og þótti þá mikið og stórt en auk kvikmyndasýninga var það hugsað fyrir tónleika og leiksýningar. Sumir höfðu dálitlar áhyggjur af því að slíkt hús gæti ekki borið sig svona fjarri miðju bæjarins. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Síðustu árin var bíóreksturinn á vegum Sambíóveldisins en kvikmyndasögu hússins lauk árið 2002. Í framhaldi var húsinu naumlega forðað frá niðurrifi þegar reisa átti þarna íbúðarblokkir og því er enn hægt að sækja þarna leiksýningar og tónleika þegar slíkt er í boði. Íslenska kvikmyndavorið er oft talið hefjast árið 1980 með kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir. Þjóðin fjölmennti á þá mynd, líka þeir sem lönguhættir voru að fara í bíó. Eins og bíómiðinn ber með sér var myndin sýnd í Austurbæjarbíó og þangað var ég mættur kl. 5.

Hafnarbíó

Hafnarbíó tók til starfa árið 1948 í einum af betri bröggum bæjarins og stóð við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu. Þetta var ekki eina braggabíóið því Trípólíbíó á Melunum var einnig í bragga en það var löngu horfið á minni tíð. Hafnarbíósbragginn reyndist einn af lífseigustu bröggunum í Reykjavík og var óneitanlega dálítið sérstakt að fara þangað í bíó en myndirnar voru ekkert verri fyrir það. Af heimsóknum í Hafnarbíó man ég helst eftir Einræðisherra Chaplins en sú mynd var auðvitað komin til ára sinna þegar ég sá hana. Einnig man ég eftir týpískri hrollvekju um hús sem draup blóði og var að auki inngangur í helvíti með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir íbúana. Hafnarbíó var rifið árið 1983 og nú er þarna fátt sem minnir á eldri tíð.

- - - -

Hér verður gert nokkurra daga hlé. Eftir hlé mun ég taka fyrir með sama hætti: Stjörnubíó, Regnbogann, Tónabíó, Laugarásbíó og Háskólabíó.


Horft á heiminn II

Fjarvídd miðöldÞegar listamenn miðalda þurftu að teikna mannlegt rými með öllum sínum beinu línum og réttu hornum, lentu þeir gjarnan í hinu mesta basli með það sem við köllum fjarvídd. Kannski ekki nema von, því rétt fjarvídd segir sig ekki alltaf sjálf. Menn áttuðu sig þó á því að hlutir minnkuðu með aukinni fjarlægð en síður hvernig það gerðist og í hvaða hlutföllum. Það var svo ekki fyrr en með endurreisninni sem reiknimeistarar og listamenn eins og Leonardo da Vincy náðu að komast til botns í þessum fræðum sem snýst um að varpa hinum þrívíða heimi yfir á tvívíðan flöt og sýna heiminn eins og við sjáum hann, en ekki endilega eins og hann er. Fjarvídd getur verið mikil stúdía og í mörg horn að líta. Það má sjá á þessum skýringarmyndum sem ég hef teiknað upp og sýna nokkur grundvallaratriði sem ágætt er að hafa í huga þegar glápt er á heiminn.

 

Fjarvídd 1 punktur

Fjarvídd með einum hvarfpunkti
Á þessari fyrstu mynd er áhorfandinn staddur í herbergi og horfir beint að veggnum á móti. Láréttar línur til beggja hliða stefna allar að sama hvarfpunktinum sem liggur við sjóndeildarhringinn. Miðað við hvað hvarfpunkturinn er neðarlega á veggnum gæti þetta verið sjónahorn barns eða sitjandi manneskju. Einn hvarfpunktur dugar ágætlega þegar horft er svona beint áfram í rýminu. Hinsvegar ef horft er skáhalt á formin þarf að færa sig yfir á næsta stig en þá er ágætt að bregða sér út fyrir hús.

 

Fjarvídd 2 punktar

Fjarvídd með tveimur hvarfpunktum
Þegar horft er á skáhalt hús þannig að tvær hliðar þess sjást, þarf að notast við tvo hvarfpunkta. Húsið er að sjálfsögðu allt með réttum hornum sem þýðir að fjarlægð milli hvarfpunktanna á sjóndeildarhringnum er 90°. Ef sá til vinstri er í há-norðri, hlýtur hinn þá að vera í há-austri. Lóðréttar línur í umhverfinu hafa hér engan hvarfpunkt til að stefna á og eru áfram lóðréttar á myndinni sem dugar í þessu tilfelli en þó ekki til lengdar.

 

Fjarvídd 3 punktar

Fjarvídd með þremur hvarfpunktum
Þegar áhorfandinn hefur komið sér hærra fyrir og horfir niður á húsin, er varla hægt að komast upp með annað en að bæta við þriðja hvarfpunktinum sem er þá langt  fyrir neðan sjóndeildarhringinn, en þá er komin enn meiri dýpt í myndina. Á sama hátt gæti þessi þriðji hvarfpunktur verið hátt fyrir ofan ef horft er uppeftir háum húsum.  Eitt vandamál kemur samt i ljós. Miðjuhúsið á myndinni sem sker sjóndeildarhringinn breikkar uppávið ofan sjóndeildarhrings, sem gengur eiginlega ekki upp og myndi enda með ósköpum ef húsið væri mun hærra. Greinilega þarf að hugsa fyrir fleiri hvarfpunktum og ef það er gert fer heimurinn fyrst að verða snúinn.

 

Fjarvídd gleiðhorn

Gleiðhorns fjarvídd

Þegar sjónsviðið er aukið mjög, koma æ betur í ljós takmarkanir þess að notast við beinar línur útfrá hvarfpunktum og einnig þær takmarkanir sem yfirleitt eru á því að sýna þrívíðan heim á tvívíðum fleti. Á myndinni táknar stóri græni hringurinn sjónsvið upp á 180° og nær það því alveg frá vinstri til hægri og beint upp og niður. Á milli andstæðra höfuðátta lárétt og lóðrétt eru nú komnar sveigðar línur sem formin laga sig eftir. Þannig getum við bæði horft niður á húsin og upp eftir þeim hærri, sem mjókka upp eins og þau eiga að gera og ef gata lægi beint frá austri til vestur myndi hún sveigjast í fallegum boga eftir línunni milli höfuðáttanna. Þetta eru semsagt sömu áhrif og koma fram og þegar teknar eru myndir með mjög gleiðri linsu. Bjögunin er mest í útjaðri hringsins en er minnst í miðjunni sem er X-merkt. Miðjan er líka sá staður sem við beinum sjónum okkar að og öll bjögunin á sér stað útfrá þessari miðju sem þýðir að bjögunin breytist ef horft er annað.

Þegar við horfum á heiminn er myndin sem við sjáum sjálfsagt eitthvað sambland af öllum þessum myndvörpunum. Eftir því sem hlutir eru nær okkur eða eru fyrirferðarmeiri í sjónsviðinu þá eykst bjögunin. Við einblínum reyndar bara á lítinn hluta umhverfisins í einu þannig að við tökum varla eftir þessum sveigða heimi sem birtist í neðstu myndinni. Sjónsvið okkar er heldur ekki svona vítt eins og þarna er og einnig verður að gera ráð fyrir að við búum yfir einhverjum innbyggðum bjögunar-afréttara í höfðinu. Allt þetta hjálpar til við að gera það sem við sjáum nokkurnvegin hreint og beint. Aðalatriðið er þó kannski það að þarna erum við að horfa á tvívíða mynd sem er smækkuð útgáfa af því sem við sjáum og undir miklu þrengra sjónarhorni en er í rauninni. 

- - - - 

En sjónheimurinn getur verið flóknari en þetta. Umhverfið er ekki alltaf samsett úr beinum línum og réttum hornum og hlutirnir í kringum okkur eru oftar en ekki á skakk og skjön. Hvarfpunktar geta því verið óendanlega margir í allri ringuleiðinni. Í staðin fyrir að eltast við það, mun ég næst setja punktinn yfir i-ið og leita aftur til einfaldleikans til að skoða hvernig heimurinn lítur út án nokkurra hvarfpunkta.


Köping eða Sjöping

Í staðinn fyrir að nöldra yfir handboltanum í Svíþjóð eða öðru klúðri þá ætla ég að taka fyrir annað mál sem er framburður á erlendum borgum og öðrum heitum. Þær eru allnokkrar borgirnar í Svíþjóð sem kennd eru við köping, eins og t.d. Söderköping, Nyköping, Norrköping, Linköping og ekki síst Jönköping þar sem við Íslendingar höfum höfum farið flatt á handboltavellinum. Af einhverjum ástæðum þykir fjölmiðafólki hér á landi mjög fínt að stæla framburð innfæddra á þessum staðarheitum og segja t.d. Linsjöping eða jafnvel Linhjöping og eltast þannig við þá fötlun Svía að geta ekki borið fram ká-ið á þessum kaupstöðum. Auðvitað er miklu nærtækara fyrir okkur að segja bara Linköping samkvæmt rithætti þegar við tölum saman hér innanlands. Hinsvegar er annað mál ef við viljum gera okkur skiljanleg á sænskri grund því þá er auðvitað sjálfsagt að notast við þann framburð sem tíðkast á staðnum.

Svipað má segja um önnur nöfn í útlöndum. Nú má ekki lengur segja Peking eins og alltaf hefur verið gert - heldur Beidsjíng eða eitthvað álíka og meira að segja búið að breyta stafsetningunni í Beijíng. Þetta kallar maður að beygja sig fyrir Kínverjum. Á maður kannski líka að segja Beidsjíng-önd?

Þegar Titanic-æðið gekk hér yfir fyrir nokkrum árum var farið að bera fram nafn óhappafleytunnar sem TætAnikk með sérstakri áherslu á a-ið eins og gert er í Ameríku. Bandaríska hljómsveitin REM hét allt í einu aríem, eftir að Bylgjan hafði uppgötvað hljómsveitina 20 árum eftir að hún kom fram. Fram að því hafði alltaf bara verið sagt rem, sem dugar okkur fínt.

Svo má líka nefna söngkonuna Eivöru Pálsdóttur hina Færeysku. Alltaf skal hún kölluð Ævör hér á landi í staðinn fyrir Eivör sem er réttari Íslenskur framburður. Ævör þýðir ekkert á íslensku.

Þegar kemur að því að ég verð heimsfrægur verð ég sjálfsagt kallaður Eimel í Bandaríkjunum eða kannski Ímeil og ekkert við því að gera. Þeir hafa sinn framburð og mega það fyrir mér. Hinsvegar virðast Svíar kunna að bera fram nafnið mitt ef marka má sjónvarpsþættina um nafna minn í Kattholti. Það er kannski helst að faðir hans hafi teygt heldur mikið úr sérhljóðunum þegar honum hitnaði í hamsi.

Söderköping2007

Rigningarsumar í Söderköping árið 2007. Myndin er tekinn við Gautakanalinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband