Færsluflokkur: Veður

1. maí í fyrra og veðurhorfur sumarsins

Til upprifjunar má minna á að á þessum degi í fyrra var alhvít jörð í Reykjavík, samanber myndina sem tekin var í Öskjuhlíð þann 1. maí 2011.

1. maí 2011
Það var mikið kvartað yfir lélegri vorkomu á síðasta ári enda veðrið gjörólíkt veðrinu nú ár. Hitinn í apríl í fyrra var að vísu nálægt opinberu meðaltali en sunnanáttirnar voru ansi ágengar og úrkoman með allra mesta móti og af öllum gerðum. Þann 30. apríl tók að snjóa meira en góðu hófi gegndi sem skilaði sér í óvenjumikilli snjódýpt að morgni 1. maí. Snjórinn varð þó ekki lífseigur því mikil hlýindi gerði dagana á eftir. Þá héldu margir að sumarið væri komið sem reyndist því miður ekki alveg rétt. Snjódýptin þennan 1. maí-morgun mældist 16 cm við Veðurstofuna sem er aðeins 1 cm frá snjódýptarmeti mánaðarins í Reykjavík sem var sett að morgni 1. maí 1987 við mjög svipaðar aðstæður og í fyrra.
Þetta má notla sjá betur í myndaseríu minni 365-Reykjavík þar sem eru samskonar myndir alla daga ársins: http://www.365reykjavik.is/

- - - -
Svo er það sumarið. Verður þetta enn eitt þurrviðris-sumarið hér í Reykjavík eða er loksins komið að rigningasumri? Sjáum nú til. Fyrirbæri er til sem kallast Weather Service International sem gefur sig meðal annars út fyrir að spá fyrir um veðurlag nokkra mánuði fram í tíman. Í nýjustu spá fyrir Evrópu er talað um talsvert öðruvísi veðurmynstur en verið hefur síðustu 4 ár. Það ætti að þýða að í stað rigningartíðar á Bretlandseyjum, Danmörku og víðar í norðurhluta Evrópu má nú búast við þurrviðri og hlýindum þar en blautara veðri í suðurhluta álfunnar.

Þótt ekki sé talað um Ísland, má hafa í huga að veðurlag á Norður- og Austurlandi fylgir gjarnan veðrinu á Bretlandseyjum og Norður-Evrópu því þegar hæð sest að nálægt Bretlandi þá taka sunnanáttirnar sig upp á Íslandi með vætutíð sunnan- og vestanlands en blíðskaparveðrum fyrir norðan og austan. Slíkt veðurlag hefur einmitt ekki einkennt sumrin hér á landi frá árinu 2007. Hvort eitthvað vit sé í svona spám er ég ekki viss um, en mig grunar að þetta sé ekki fyrsta þurrviðrisspáin fyrir Bretlandseyjar á allra síðustu árum, Bretar eru líka nýstignir upp úr einhverjum blautasta apríl sem um getur hjá þeim og því alveg mögulegt að spáin skolist eitthvað til við það.

Sjá nánar: Warmth Focused in Western and Northern Europe This Summer

WSI logo

 

 

 

 


Vetrarhitasúlur

Nú þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki ætla ég að bjóða upp súlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla sýnir dæmigerðan hita hvers dags. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir.

Vetrarsúlur 2011-2012

Svo farið sé aðeins yfir þetta þá sést vel hversu hlýtt var í nóvember enda mánuðurinn lengst af framarlega í samkeppninni um hlýjustu nóvembermánuði. Það kólnaði þó mjög í lok nánaðarins og þá sérstaklega síðasta daginn þegar frostið fór niður úr öllu valdi en þá byrjaði einmitt kuldakastið sem mörgum þótti svo óskaplegt. Sjálft kuldakastið stóð yfir í 10 daga og kaldasta daginn, þann 9. desember, skrái ég 8 stiga frost. Mest fór frostið niður í 11,7 stig á Veðurstofumælinum um kvöldið eða nóttina eftir og var það mesta frost vetrarins – eftir því sem ég kemst næst. Það telst reyndar ekkert óvenjulegt sem mesta frost vetrarins.
Það sem eftir lifði desember og lengst af í janúar var hitinn ekki fjarri meðallagi og án mikilla öfga en vegna kuldakastsins var þessi desember sá kaldasti síðan 1981 og auðvitað alveg óvenju snjóþungur. Febrúar var mjög hlýr miðað við það sem venjan er enda bara tveir frostdagar. Sama má segja um nýliðinn marsmánuð sem státar af miklum hlýindum síðustu 10 dagana.
Í heildina má segja að veturinn hafi staðið undir nafni frá lokum nóvember til síðustu vikunnar í janúar, en í báða enda var veturinn mjög hlýr hér í Reykjavík. Enn mun þó eitthvað framboð vera af köldu lofti norðurundan sem gæti gert atlögu að okkur enda veturinn ekki alveg búinn.

Til frekari samanburðar þá eru sambærileg súlurit fyrir tvo síðustu vetur í myndaalbúminu Veðurgrafík, hér til vinstri á síðunni.

- - - - -
Læt hér svo fylgja mynd sem ég tók úr vinnunni þann 14. nóvember þegar „hitabylgja“ mánaðarins var í hámarki. Óvenjuleg birta var þann dag þegar dimmt ský lagðist yfir borgina sem skammdegissólin skein undir í austsuðaustanátt og 11 stiga hita.

14. nóvember 2011


Útsynningur á gervitunglamynd

Ég get ekki stillt mig um að birta þessa gervitunglamynd frá því í gær 8. mars sem sýnir éljaloftið sem streymir hingað frá köldu svæðunum í vestri. Ísland er til hægri á myndinni, að mestu í skýjaþykkni, en vel sést í suðurhluta Grænlands. Ískalt heimskautaloftið blæs suður frá ísjaðrinum vestan Grænlands og síðan í fallegum boga suður fyrir og dreifir úr sér og berst með suðvestanáttinni hingað. Það má líka greina lægðarmiðju í éljaloftinu milli Íslands og Grænlands sem á sína sök á þessu öllu saman. Það má vel ímynda sér að mikill vindstrengur sé við suðurodda Grænlands sem éljaböndin raða sér eftir. Vindurinn sem blæs frá ísbrúninni af miklum móð þarna vestanmegin hlýtur að auka útbreiðslu íssins vestan Grænlands auk þess sem nýmyndum íss hlýtur að vera talsverð. 

Éljaloftið myndast þarna eins og endranær þegar kalda loftið berst yfir hlýrri sjó, þannig að neðstu loftlögin hitna og loftið gerist æði óstöðugt. Fer ekki nánar út í svoleiðis en bloggveðurfræðingarnir okkar, þeir Einar og Trausti eru báðir með mjög svo fræðilega pistla um ástand mála.

Útsynningur 8. mars 2012

Myndin er skjáskot af vefsíðu NASA - Arctic Mosaic. Þetta er hluti stórrar myndar af Norður-Heimskautasvæðunum sem uppfærist smám saman á hverjum degi.

Slóðin er: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Veðurbókarhiti í Reykjavík

Undanfarið hafa veður- og loftslagspekingar hér á blogginu rætt um meðalhitann í Reykjavík og vafasamar leiðréttingar sem gerðar hafa verið á honum af erlendum aðilum. Ég ætla ekki að velta mér upp því máli, en ætla þó að líta í eigin barm því sjálfur hef haldið uppi mínum eigin veðurskráningum frá árinum 1986. Þær athuganir eru aðallega ætlaðar mér sjálfum og hafa væntanlega ekki mikil áhrif á þær tölur sem notaðar eru til að túlka þróun hitafars á hnattræna vísu. Þessi bloggfærsla á því kannski ekki mikið erindi við aðra en sjálfan mig en tilgangurinn færslunnar er annars sá að athuga hvernig mínar skráningar standa sig við hlið hinna opinberu talna frá Veðurstofunni.

Þegar ég upphaflega hóf skráningar þá var tvennt haft í huga. Skráningin átti að sýna hið dæmigerða veður dagsins og vera það einföld að ég þyrfti ekki að vera háður því að fylgjast með veðurfréttum á hverjum degi. Þetta gilti einnig um hitann sem ég skilgreindi einfaldlega þannig að annaðhvort voru dagar heitir, kaldir eða í meðallagi. Reyndin varð þó sú að ég fylgdist nógu vel með hitanum til að geta skráð hinn dæmigerða hita dagsins sem ég hef einmitt gert frá árinu 1991.
Sú tala sem ég kalla hinn dæmigerða hita dagsins var lengi vel fengin með því að sjóða saman hitanum klukkan 18 í Reykjavík og hámarkshita dagsins samkvæmt veðurfregnum í útvarpi í bland við eigin upplifun og stopulan lestur af heimilislegum gluggahitamæli. Eftir tilkomu netsins og heimasíðu Veðurstofunnar breyttist aðferðin og byggist nú að miklu leyti á sjónrænu mati á línuritum frá sjálfvikum athugunum. Ég nota ekkert útreiknað meðaltal, bara þá tölu sem mér finnst vera skynsamlegust og eðlilegust fyrir hvern dag. Það getur þó stundum verið erfitt að fá eina góða hitatölu (án aukastafa) vegna mikilla hitasveiflna sem oft eru óháðar dægursveiflum. Ég horfi ekkert á kvöld eða næturhita enda hefur Veðurbókin bara áhuga á veðrinu yfir daginn.

Eftir hvern mánuð geri ég smá samantekt og reikna út meðalhita mánaðarins samkvæmt mínum tölum og síðan árshita í lok hvers árs. En þar sem ég skrái bara hitann fyrir daginn er auðvitað munur á mínum tölum og tölum Veðurstofunnar. Mínar tölur eru á milli hins eiginlega meðalhita og meðalhámarkshitans sem er eðlilegt útfrá forsendum. Það má benda á að ég skrái árið 2010 hlýrra en metárið 2003. Það þarf þó ekki að vera óeðlilegt í ljósi þess að árið 2010 var metár þegar kemur að meðalhámarkshita samkvæmt Veðurstofu. Í heildina verður ekki betur séð en að Veðurbókartölur mínar séu nokkuð samstíga opinberum tölum þegar kemur að einstökum árum og fyrir tímabilið í heild – þrátt fyrir misjafnar skráningaraðferðir. Það er því ekki nokkur ástæða fyrir mig að ráðast í stórfelldar leiðréttingar og endurskoðanir á mínum gögnum.

Hiti Veðurbók

- - - -

Þess má geta í lokin að nú standa veðurskráningarnar frammi fyrir þeim vanda að gormaðar A5 rúðurstrikaðar bækur frá Kassagerðinni með hvíta fuglinum framaná eru ekki lengur fáanlegar í verslunum og ég er á síðustu blaðsíðunni í bókinni sem ég skrái í núna. Fyrir næsta mánuð verð ég því að kaupa aðra tegund. Nú eru bara til útlenskar reiknibækur sem eru ekki eins hentugar. En hvernig sem þetta bókarmál leysist þá munu skráningar halda áfram með óbreyttum hætti.

 


Hversu séríslensktur er éljagangurinn?

Það er mikið fjör í veðrinu núna og þykir örugglega mörgum nóg um. Það er spurning hvort hægt sé að kalla þetta útsynning enda er vindáttin eiginlega beint úr vestri. Einkennin eru þó hin sömu, dimm él ganga yfir með sterkum vindgusum og styttir upp á milli. En hversu algengt ætli þetta veðurlag sé í öðrum löndum? Getum við kallað þetta séríslenskt? Ég hef kannski ekki alveg svar við þessu sjálfur en ætla samt að spá í þetta.

Veðurtungl éljagangur

Éljaloftið sem hingað kemur úr vestri og suðvestri er ættað frá hinum mjög svo köldu svæðum Grænlands og Kanada. Þegar loftið berst yfir hafið hitnar það að neðanverðu og gerist óstöðugt þegar það leitar upp í kaldari háloftin. Þetta er ekki ósvipað og gerist á heitum skúrakenndum sumardögum nema að á veturna myndast éljaklakkar yfir hafinu, því sjórinn er þá svo miklu hlýrri en loftið fyrir ofan. En þótt éljaloftið sé oft allsráðandi á stórum svæðum hér nyrst í Atlantshafinu kemur það ekki víða að landi á byggðu bóli. Það á þó auðvelda leið hingað til Íslands bæði með suðvestanáttinni og norðanáttinni. Það er kannski helst að Austfirðingar fari á mis við élin því ekki koma þau með austanáttinni - úr þeirri átt koma aðallega hlýindi að vetrarlagi.

Íbúar hinna köldu svæða í vestri fá varla mikið af éljum utan að hafi enda myndast élin aðallega þegar kalda loftið berst frá þeim svæðum að vetrarlagi eins og minnst var á hér að ofan. Ef éljaloftið nær alveg yfir Atlantshafið þróast það yfir í skúraveður sem getur herjað á Breta og meginland Evrópu. Kannski upplifa íbúar þar þó stöku sinnum él eða slydduél. Það væri helst að íbúar norðurhluta Noregs upplifi almennilegan éljagang eins og við. Þar væri þá um að ræða kalda heimskautaloftið sem éljast á leið sinni suður um hafið þegar norðan- og norvestanáttin nær sér þar á strik. Norðlendingar eiga því það sameiginlegt Norðmönnum að fá sitt éljaloft ofan af ísilögðu Norður-Íshafinu.

Það má fara víðar í leit að éljagangi. Nyrstu svæði Kyrrahafs koma til greina og strandvæði Síberíu gætu líka orðið fyrir éljum en þá kannski helst þegar opið haf myndast milli ísbreiðunnar og meginlandsins en á þeim svæðum eru ekki margir til frásagnar. Á suðurhveli ættu éljaklakkar að myndast útfrá ísbreiðu suðurskautsins en ekki sé ég fyrir mér að þau él nái landi nema kannski syðst í suður-Ameríku.

Það eru mörg kannski í þessu hjá mér, og kannski er éljagangur algengari en ég sé fyrir mér. Samt finnst mér svona veður þó vera mjög Íslenskt og ekki síst mjög Reykvískt – sérstaklega að vetralagi – og alltaf jafn skemmtilegt.

- - - 

Veðurtunglmyndin er fengin af vef Veðurstofunnar og gildir þriðjudaginn 10. jánúar 2012. Bláa krotið eru mínar viðbætur.


Árshitinn í Reykjavík 1901-2011 í kubbamynd

Árið 2011 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði fyrir tveimur árum og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,4 stig. Það er örlítið undir meðalhita síðustu 10 ára, rúmlega gráðu yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og næstum hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Nýliðið ár er í félagsskap með fjórum öðrum jafnhlýjum árum, grænblátt að lit sem verður litur áratugarins. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnar dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig.

Árshiti Rvik kubbamynd

Nú má velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Ég held að það sé frekar ólíklegt og alls ekki hægt að stóla á að nýhafinn áratugur verði hlýrri en sá síðasti. Miðað við fjölbreytileika hitafars getum við alveg átt von á talsvert köldu ári eða árum hvað sem líður almennri hnattrænni hlýnun. Einn kaldur mánuður eins og nýliðinn desember þarf hinsvegar alls ekki að vera boðberi kaldari tíma og segir lítið um hvort árið 2012 blandi sér í botn- eða toppbaráttuna.

- - - -

Í framhaldi af þessu minna má minna á að hér á síðunni er myndalbúm sem inniheldur allskonar heimatilbúna veðurgrafík eins og þessa mynd. Þær myndir uppfærast óreglulega.


Veðrið í Reykjavík árið 2011

Ég hef sett hér saman dálítið veðuryfirlit fyrir árið 2011. Þetta er aðallega unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum þar sem aðaláherslan er á veðrið í Reykjavík. Ýmis athyglisverð frávik voru á árinu eins og venjan er en árið í heild var samt hið ágætasta veðurfarslega séð. Opinber meðalhiti hefur reyndar ekki endanlega verið opinberaður en það má búast við að hann verði á bilinu 5,3 til 5,4 stig sem telst vera hlýtt en þó rétt undir meðalhita síðustu 10 ára.

Janúar. Árið hófst með alauðri jörð og hita yfir frostmarki. Talsvert kólnaði með miklu norðanáhlaupi þann 6. janúar og fór frostið þá niður í 11 stig. Eftir þann 10. hallaði vindurinn sér til austurs en síðan tóku við hlýindi sem stóðu hæst dagana 21.-26. janúar en þá var hiti yfirleitt á bilinu 6-8 stig. Í heildina var þetta hlýr mánuður og mjög snjóléttur. Lítið sást hinsvegar til sólar eða í heiðan himinn.

Febrúar. Strax í byrjun febrúar hrökk veturinn í gang og snjór lagðist yfir borgina. Nokkuð umhleypingasamt var dagana 8.-14. febrúar og talsvert vindasamt með köflum. Snjórinn kom og fór fyrir hluta mánaðarins en síðan varð alauð jörð og hlýtt seinni hlutann. Þegar upp var staðið var mánuðinn hlýr og frekar úrkomusamur.

Mars. Að þessu sinni var mars kaldasti mánuður vetrarins. Snjór var á jörð megnið af mánuðinum en mestur var hann í kringum 8-10 mars. Talsverða kulda gerði einnig og fór frostið niður í 12,5 stig þann 13. mars sem reyndist mesta frost ársins. Nokkur minniháttar illviðri gerði einnig en þá aðallega í kringum 5. og 15. mars. Þann 26. mars var snjórinn horfinn og þokkaleg hlýindi voru ríkjandi síðustu vikuna.

Apríl. Þetta var nokkuð óstöðugur mánuður sem einkenndist af hvössum vindum, gjarnan úr suðvestri með þrálátum skúrum, en ekki síður slyddu- og snjóéljum. Þann 10. skall á stormur sem olli dálitlu tjóni suðvestanlands. Jörð náði alloft að hvítna en þó aldrei neitt að ráði nema síðasta kvöldið þegar óvenjumikla snjókomu gerði miðað við árstíma. Margir kvörtuðu að vonum yfir að vorið léti bíða eftir sér en þrátt fyrir allt var mánuðurinn hlýr í heildina.

Maí. Mánuðurinn hófst á kafi í snjó en hann var fljótur að hverfa þegar snögghlýnaði þann 2. maí og hitinn rauk upp í 14 stig. Mjög hlýtt var næstu daga og náði hámarkshitinn 16 stigum þann 8. maí. Þessi snögga sumarkoma fór þó fyrir lítið því frekar kalt var seinni mánaðarins. Þann 21. maí hófst kröftugt gos í Grímsvötnum sem olli talsverðu öskufoki suðaustanlands.

Júní. Kalt var í veðri á landinu framan af mánuðinum, sérstaklega þó norðaustanlands. Aðfaranótt 10. júní varð Esjan hvít niður í rót en eftir það fór hitastigið upp á við og sumarið gat hafist fyrir alvöru. Í Reykjavík sem og víða sunnan- og vestanlands var mjög þurrt og sólríkt enda norðlægar áttir ríkjandi. Þetta var kaldasti júní í Reykjavík frá 1999 en hékk þó samt í meðalhita áranna 1960-1991.

Júlí. Veðrið í júlí var yfirleitt með betra móti en þó komu nokkrir vindasamir dagar og þungbúnir. Ágætlega hlýtt var í veðri allan mánuðinn, úrkoma með minna móti og alveg bærilega sólríkt. Bestu dagarnir voru frá 15. til 21. júlí en síðasta vikan var frekar þungbúin og blaut.

Ágúst. Ágætis veðurfar í mánuðinum sem einkenndist helst af þurrviðri í Reykjavík og víðar um land. Sólskin var yfir meðallagi og hlýtt í veðri. Hámarkshiti sumarsins náðist síðdegis þann 5. þegar hitinn fór í 20 stig í borginni og varð mjög gott sumarveður dagana þar á eftir. Yfirleitt var hægviðrasamt nema um miðjan mánuðinn þegar norðanáttin gerðist frekar ágeng.

September. Mánuðurinn var hlýr í gegn og mjög sólríkur fyrri hlutann. Kaldast var þegar hvessa tók af norðri dagana 7-8. september en hægviðrasamir dagar tóku við eftir það. Seinni hlutann voru vindar meira af suðaustri með tilheyrandi úrkomu. Nokkuð hvasst var dagana 16.-18. september og einnig síðasta daginn.

Október.
Mjög breytilegt veður var allan mánuðinn og yfirleitt milt nema þann 18. þegar hitinn var ekki nema 1 stig eftir dálítið norðanskot. Ekkert snjóaði að þessu sinni í Reykjavík nema þá í Esjuna sem í fyrsta skipti á þessari öld náði ekki alveg að losa sig við síðasta skaflinn frá borginni séð. Úrkoma var heldur yfir meðallagi en hitinn í samræmi við hlýindi áranna á undan.

Nóvember. Lengi frameftir einkenndist mánuðurinn af hlýindum og góðri tíð og var hitinn yfirleitt á bilinu 7-9 stig dagana 8.-18. nóvember en fór mest í 12 stig. Síðustu vikuna tók hinsvegar að frysta og snjóa og var jörð hvít alla síðustu vikuna. Í blálokin kólnaði enn meir og fór frostið niður í 9 stig síðasta sólarhringinn.

Desember. Eindregin vetrartíð einkenndi þennan mánuð enda var þetta kaldasti desember frá 1981. Talsvert frost var fyrstu 10 dagana en mildaðist eftir það. Mest fór frostið niður fyrir 11 stig þann 9. desember. Hitinn náði sjaldan yfir frostmark af einhverju ráði og hélst jörð meira og minna hvít allan mánuðinn. Djúp lægð fór yfir land á aðfangadag með skammvinnri hlýnun. Mikla snjókomu gerði svo aðfaranótt þess 29. sem spillti færð enda var þarna meiri snjódýpt að morgni í desember en áður hafði mælst í borginni. Snjórinn sjatnaði þó dálítið fyrir áramót eftir hláku.

Reykjavík 10. júní 2011

Sumarsnjór í Esju þann 10. júní 2011.


Stóra snjókomumyndin

Þar sem snjórinn er mál málanna er mál til komið að birta nýjustu útgáfu af snjókomumósaíkinni sem ég setti saman á sínum tíma og bæti við eftir því sem á líður. Myndin á að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá táknar hver lárétt runa einn vetur samkvæmt ártali vinstra megin. Hvítu skellurnar tákna hvíta jörð í Reykjavík á miðnætti. Flekkóttir dagar eru einnig taldir með ef ég hef metið snjóhulu næga. Þetta er gert upp úr mínum eigin athugunum og því getur verið einhver munur á þessum gögnum og athugunum Veðurstofunnar sem gerðar eru á túninu þar að morgni til.

Snjór 1986-2011

Neðst á myndinni er núverandi vetur svo langt sem hann er kominn og ég gef mér að hann verði hvítur til áramóta. Það sem af er vetri er þetta einfalt. Jörð var fyrst hvít á miðnætti 24. nóvember og hefur verið síðan. Alhvítur desember sést ekki á myndinni fyrr en nú í ár en nokkrir eru þó nálægt því. Hvítasti veturinn á myndinni er 1994-1995 með 129 daga en sá snjóléttasti er veturinn sem kom varla, nefnilega veturinn 2002-2003 með 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010.

Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki nærri eins mikill og samfelldur.

Það má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí á þessu ári, svipað og gerðist árið 1987.


mbl.is Taka daginn snemma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?

Nú þegar mánuður er eftir af árinu 2011 ætla ég velta fyrir mér hvert stefnir með árið í ár. Meðalhitatölur segja lítið ef ekkert er til samanburðar og því birti ég línuritið hér að neðan sem ég útbjó en það sýnir þróun meðalhitans frá árinu 1901 til 2010. 

Árshiti Rvik
Eins og sést eru miklar sveiflur frá ári til árs og líka á milli lengri tímabila. Ef við hugsum í 10 ára tímabilum þá eru árin 2001-2010 þau hlýjustu frá upphafi mælinga í Reykjavík með meðalhitann 5,51°C. Til viðmiðunnar er næst hlýjasta 10 ára tímabilið 1932-1941, með meðalhitann 5,14°C
Kaldasta 10 ára tímabilið eru árin 1916-1925 með meðalhitann
3,81°C en litlu mildara var árin 1979-1988: 3,99°C.
Þá má segja í þessu ljósi að ár hljóta að teljast hlý ef meðalhitinn er yfir 5 stigum og mjög hlý ef meðalhitinn er yfir 5,5°C í Reykjavík. Síðasti áratugur var óumdeilanlega mjög hlýr þar sem árið 2003 toppar með árshita upp á 6,1°C en alger skortur á meðalheitum árum - hvað þá köldum, hjálpar líka upp á góða útkomu áratugarins.

2011
Nú þegar tölur frá nóvember eru komnar í hús er ljóst að fram að þessu hefur árið 2011 ekki verið neinn eftirbátur liðins áratugar – hefur jafnvel staðið sig betur ef eitthvað er. En síðasti mánuðurinn er eftir og sá ætlar heldur betur að fara kuldalega af stað. Hvað verður þá um árshitann?
Ef við gerum fyrst ráð fyrir að desember verði í meðallagi miðað við síðustu 10 ár (1,6°C) þá endar árshitinn, samkvæmt öllum mínum útreikningum, í 5,65°C sem telst bara mjög gott. Til að ná því má komandi kuldakast ekki vera langvinnt og helst þurfa að koma talsvert hlýir dagar síðar til að bæta fyrir kuldann sem spáð er.
Raunhæfara er áætla að meðalhitinn verði nærri frostmarkinu og þá er tilvalið að miða við -0,2 stig sem er opinber meðalhiti fyrir desember og miðast við árin 1960-1990. Ef svo fer breytir það þó ekki öllu því ársmeðalhitinn verður samt 5,5°C og árið í góðum málum.
En þá má skoða hvað gerist ef desember verður svellkaldur í gegn. Kaldasti desember síðustu áratuga var árið 1973 þegar meðalhitinn var -3,7°C og gerast mánuður ekki mikið kaldari en það í borginni á vorum tímum. Verði svo kalt í desember reiknast mér til að meðalhiti ársins í borginni verði samt sem áður 5,2°C sem hefði einhverntíma þótt gott.
Til að reikna árið niður fyrir 5 stigin verðum við því greinilega að fara ansi neðarlega. Frá aldamótum hafa öll ár verið yfir 5,0°C og til að rjúfa þá hefð þarf meðalhiti komandi desembermánaðar að vera um 7 stig í mínus og erum við þá farin að tala um virkileg harðindi í stíl við þau verstu í gamla daga. Til samanburðar var meðalfrostið 7,8°C í janúar, frostaveturinn mikla 1918.

Harðindi eru svo sem ekkert útilokuð á þessum síðustu og verstu tímum en ég held samt að óhætt sé að spá því að meðalhitinn í Reykjavík nái 5°C enn eitt árið. Ekki er ólíklegt að árshitinn verði á bilinu 5,2–5,3°C en með smá bjartsýni að leiðarljósi gætum við spáð allt að 5,6 stigum. Eitt sýnist mér þó nokkuð víst: Ekkert nema alvöru vetur er framundan.  

 


Reykjavíkurhiti og heimshiti

Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Línuritið sem hér fylgir hef ég birt áður en það sýnir annarsvegar árshita jarðarinnar í heild frá aldamótunum 1900 og hinsvegar þróun árshitans í Reykjavík, sem í þessu tilviki er hinn einstaki staður. Samskonar mynd birti ég í fyrra en nú hefur árinu 2010 verið bætt við. Þróun heimshitans virkar ef til vill lítilfjörleg í þessum samanburði miðað við það sem oftast er sýnt. Varla er þó hægt að treysta á lítilfjörleg áhrif af þessari hlýnun, haldi hún áfram.

Rvik GISS 1900-2010
Eins og og sést í útskýringu undir myndinni er heimshitinn sýndur sem frávik frá meðalhita eins og hann er skilgreindur hjá NASA/GISS, þaðan sem tölurnar koma. Reykjavíkurhitinn er hinsvegar beinn meðalhiti hvers árs. Hitakvarðana hef ég samræmt þannig að núllið í heimsmeðalhita er sett á 4,5 gráður í Reykjavíkurhita. Með þessu fæst ágætis samanburður á lókal og glópal hitafari og þar koma nokkur atriði koma ágætlega í ljós:

  1. Hitasveiflur loftslags á jörðinni í heild eru mun minni heldur en það sem gerist ef einn staður er tekinn fyrir. Þetta á bæði við um sveiflur milli einstaka ára og lengri tímabila.
  2. Báðir ferlarnir sýna langtímahlýnun á tímabilinu sem er nokkuð svipuð í heildina ef sveiflum væri jafnað út. Okkar lókal hlýnun er þó kannski aðeins meiri vegna góðrar frammistöðu síðustu ára.
  3. Á okkar slóðum hafa skipst á tímabil þar sem hitinn er ýmist ofan eða neðan við heimsmeðaltalið. Reykjavíkurhitinn hafði þannig oftast betur á árunum 1925-1965 en lenti oftast undir heimsmeðaltalinu á árunum 1966-1995. Eftir síðustu aldamót hefur Reykjavíkurhitinn hinsvegar slegið heimshitanum við.

Í framhaldinu má velta fyrir sér hvernig framhaldið verður hér á landi. Miðað við hversu mikið hefur hlýnað hér undanfarið er varla hægt að gera ráð fyrir mikið meiri hlýnun alveg á næstunni. Hlýja tímabilið á síðustu öld kom líka nokkuð snögglega þarna á 3ja áratugnum og þar við sat, en þó með talsverðum sveiflum á milli ára. Miðað við lengd þess tímabils gætum við átt 20-30 ára hlýtt tímabil í vændum og kannski bakslag í framhaldi af því. Þó er engu að treysta, það segir sagan. Bakslag gæti svo sem komið hvenær sem er og jafnvel alls ekki. Sveiflur fortíðar þurfa ekki endilega að endurtaka sig í framtíðinni. Þær gætu þó hæglega gert það og jafnvel aukist. Stóra þráláta uppsveiflan sem tengist hnattrænni hlýnun mun þó væntanlega halda áfram hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Úr því maður fylgist með þessu þá má varpa því fram að horfur eru á að árið 2011 verði hlýtt og í góðu samræmi við hitafar síðustu ára, bæði lókal og glópal. Það verður þó ekki eins hlýtt og síðasta ár enda var það mjög hlýtt og reyndar það hlýjasta ásamt 2005 á heimsvísu samkvæmt NASA/GISS gagnaröðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband