Færsluflokkur: Veður
7.9.2011 | 21:22
Sól í Reykjavík og rigning í Danmörku
Á vef dönsku veðurstofunnar hefur það verið gefið út að sumarið hjá þeim hafi verið það næst úrkomumesta frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 19. aldar. Fyrir Danmörku í heild var meðalúrkoma mánuðina júní-ágúst 321 mm og aðeins vantaði 2 mm upp á til að sumarúrkoman felldi metið frá 1980 sem er 323 mm.
Til samanburðar mældist úrkoman í Reykjavík þessa sömu mánuði 83 mm sem er nálægt helmingi meðalúrkomu. Sumarið var einnig þurrt víða vestanlands og raunar líka norðanlands, en mest rigndi þó miðað við meðallag á austurhluta landsins.
Undanfarin sumur hafa verið mjög góð hér á vesturhluta landsins en síðri á austurhlutanum. Að sama skapi hafa undanfarin sumur verið slæm í Norður-Evrópu og varla komið að ráði nema svona endrum og sinnum til undantekninga. Allt hangir þetta auðvitað saman í einni allsherjar örlagahringrás enda er það nú oftast þannig að sjaldan fer saman góðviðristíð í Reykjavík og Danmörku. Lægðirnar hafa verið gjarnar á það undanfarin sumur að fara suður fyrir land og hellt úr sér yfir Norður-Evrópu þar sem íbúar fá vota suðvestanáttina beint í fangið sem þýðir að við hér á landi fáum austan- eða norðaustanáttina í bakið, en við þekkjum vel hvaða misjöfnu afleiðingar það hefur með tilliti til landshluta.
Öðru máli gegnir auðvitað ef hæð sest að yfir Bretlandi en það hefur verið fremur sjaldgæf uppákoma hin síðari sumur. Slíkt er ávísun á lægðargang upp að Íslandi úr suðvestri þannig að allt snýst við. Rigningartíð gengur í garð sunnan- og vestalands með bongóblíðu norðaustanlands og Norður-Evrópu. Spurning hvenær við fáum svoleiðs sumar?
Tíðarfar í Suður-Evrópu á kannski ýmislegt sameiginlegt með tíðarfari í Reykjavík nema kannski hitann. Þar er sólríkt á meðan rignir í Norður-Evrópu og á Austurlandi og öfugt.
Veðurspákort frá Bresku veðurstofunni sem gildir 12. september er nokkuð dæmigert. Öfuga hringrásin í kringum lægðina sést vel ásamt allskonar skiladóti. Lægðin hefur reyndar oftar en ekki haldið sér sunnar en þarna sést enda erum við í talsverði norðanátt núna. Sólar- og rigningartákn eru viðbót frá mér og einnig skyggðu svæðin sem standa fyrir einhverskonar dimm- og votviðri.
Sumarregnsyfirlit dönsku veðurstofunnar: http://www.dmi.dk/dmi/den_vade_sommer_2011
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2011 | 22:30
Hversu gott var veðrið í ágúst?
Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn ágústmánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr eigin veðurskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Aukaafurð þessara skráninga er mitt háþróaða einkunnakerfi sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Alslæmir dagar fá 0 í einkunn en algóðir dagar fá 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn ágúst. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta ágústmánaðar miða ég meðallagið við 10-15 stig en seinni hlutann 9-14.
Ágúst 2011 - Einkunn 5,2
Nýliðinn ágúst fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,2 stig sem telst góð einkunn og vel yfir meðallagi. Allir mánuðir frá því í maí hafa verið góðir í Reykjavík og náð einkunn í kringum 5 stig en nýliðinn ágúst gerir betur og fær hæstu einkunn það sem af er ári. Frá því skráningar hófust hefur aðeins einn ágústmánuður náð betri einkunn, en ég kem að því hér síðar.
Mánuðurinn var vissulega sólríkur en margir hafa þó verið sólríkari og hann var hlýr þótt margir hafa verið hlýrri, hinsvegar er þetta með allra þurrustu ágústmánuðum í borginni og að auki fæ ég út að hann hafi verið óvenju hægviðrasamur og er að því leyti eins og bestu vormánuðir. Boxið neðst til vinstri á skráningarsíðunni sýnir tíðni og styrk hverrar vindáttar og þar fær norðanáttin hæsta gildið enda voru 5 norðanáttardagar í röð um miðjan mánuðinn. Hlykkjóttar hægviðrispílur eru algengar en aldrei þurfti ég að teikna tvöfaldar hvassviðrispílur. Talan 43 fæst með því að leggja tölurnar saman í boxinu en þetta er lægsta vindatalan sem ég hef skráð fyrir ágúst. Eftir á að koma í ljós hvort Veðurstofan sé sammála mér þarna.
Hæsti hiti mánaðarins náðist þann 5. ágúst í skýjaðri norðaustanátt og það er eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum í borginni í sumar og voru það akkúrat 20 stig eftir því sem ég best veit. Skráðar hitatölur hjá mér (dálkur á eftir vindörvunum) sýna dæmigerðan hita yfir daginn hverju sinni. Meðaltal þeirra er 13,3° og það getum við kallað dæmigerðan dagshita í mánuðinum.
Bestu ágústmánuðir frá 1986
Ágúst 2004 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður er sögulegur vegna hitabylgjunnar óvenjulegu sem þá reið yfir og þetta er með allra hlýjustu mánuðum sem yfirleitt hafa komið í Reykjavík þótt reyndar hafi verið enn hlýrra að meðaltali árið á undan. Mánuðirinn var einnig mjög sólríkur og þurr og hefði fengið algera úrvalseinkunn ef fyrstu og síðustu dagarnir hefðu ekki skemmt fyrir.
Ágúst 2009 og 2011 - Einkunn 5,2. Hér er nýliðinn mánuður í góðum félagsskap með ágúst 2009. Það sumar var með eindæmum gott í Reykjavík, allavega samkvæmt mínum bókum en sumrin hafa reyndar flest verið mjög góð undanfarin ár hér í borginni. Ágúst 2009 var heldur sólríkari og hlýrri en nú í ár en ekki eins hægviðrasamur.
Ágúst 1987 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður þótt aldeilis góður á sínum tíma enda voru sumrin ansi misgóð á 9. áratugnum. Eins og oft gerist datt botninn úr þessum mánuði í lokin því lengst af stefndi þarna í mun hærri einkunn.
Ágúst 1994, 2003 og 2010 - Einkunn 5,0. Þarna má sjá ágústmánuð í fyrra og hlýjasta ágúst sem mælst hefur í Reykjavík á því hlýja ári 2003. Ágúst 1994 gerði það gott með alhliða gæðum en ekki endilega mörgum sólardögum.
Og þeir verstu:
Ágúst 1995 - Einkunn 4,0. Þarna skráði ég bara 3,5 sólardaga sem segir sína sögu enda var þetta mjög þungbúinn sunnanáttarmánuður sem nýttist betur norðanlands og austan.
Ágúst 2005 - Einkunn 4,2. Einhvern veginn tókst þessum mánuði að falla á prófinu en hann var ekkert afgerandi slakur nema þá helst vegna sterkra vinda úr ýmsum áttum og misslæmum veðrum inn á milli.
Fleiri mánuði nefni ég ekki til sögunnar en allir hinir hafa fengið einkunnir á bilinu 4,44,9. Enn eitt góðviðrissumar er að baki hér í Reykjavík. Senn svífur að hausti með kraftmeiri veðrum, meira fjöri og áframhaldandi veðurskráningum. Ég á síður von á að að halda birtingum á þeim áfram nema þjóðin fari fram á það með miklum látum sem er frekar ólíklegt.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.8.2011 | 21:32
Hitabylgjurnar 2004 og 2008 í Reykjavík.
Það lítur út fyrir að við sleppum við meiriháttar hitabylgjur þetta sumarið. Hæsti hitinn í Reykjavík hingað til í sumar var 5. ágúst 20,0° í skýjuðu veðri og gæti það kannski flokkast sem míkró-hitabylgja. Hér ætla ég hinsvegar að rifja upp tvær alvöru hitabylgjur frá árunum 2004 og 2008 sem báðar voru sögulegar. Þetta er þó ekkert allsherjaryfirlit og læt ég nægja að rekja hitann í Reykjavík. Á vef Veðurstofunnar er hægt að sjá hitaferla frá sjálfvirkum athugunum síðustu 6 sólarhringa hverju sinni og þaðan nálgaðist ég á sínum tíma myndirnar sem báðar sýna hitann í Reykjavík. Til glöggvunar hef ég bætt við gráum svæðum sem eiga að þýða næturhúmið. Bláa línan á myndunum er daggarmark en loftið er rakara eftir því sem línurnar eru nær hvor annarri. Annars er rauði hitaferillinn aðalatriðið.
Hitabylgjan í júlí 2008 var óvenjuöflug og þá voru sett met víða um land en hitinn fór hæst í 29,7 stig á Þingvöllum sem mun vera hæsti hiti sem mælst hefur hér á landi þar sem öllum kröfum er fullnægt. Í Reykjavík hófst hitabylgjan þann 25. júlí (sem er utan myndar) en þá fór hitinn yfir 22 stig (hef það ekki nákvæmar). Næstu tvo daga var vel hlýtt þótt nokkuð væri í 20 stigin. Þann 29. júlí var skýjað veður og hitinn undir 15 stigum en til marks um að eitthvað var að gerast þá kólnaði eiginlega ekkert um nóttina. Mánudaginn 29. júlí skein sólin á ný og rauk hitinn þá yfir 22 stig. Lítilsháttar hafgola hefur þó væntanlega skorið toppinn af hita dagsins.
30. júlí er svo aðaldagurinn því eftir að hitinn hafði náð 20 stigum um hádegi, hélt bara áfram að hlýna uns hámarki var náð undir lok dags þegar hitinn komst í 25,7 stig. Það er opinbert hitamet í Reykjavík á hefðbundnum hitamæli við Veðurstofuna og eina skiptið sem hitinn hefur farið yfir 25 stig. Á þeirri sjálfvirku fór hitinn hins vegar í 26,4 stig. Þessi hitatoppur stóð stutt og daginn eftir var skýjað veður með 15 stiga hita.
Lokadagur hitabylgjunnar í Reykjavík var svo föstudagurinn 1. ágúst en þá var meira en 20 stiga hiti yfir daginn náði hæst í 23,6° síðdegis sem þykir nú bara aldeilis gott.
Hitabylgjan í ágúst 2004 var ekki síður merkileg enda einstaklega hlýtt loft yfir landinu. Hegðun hitans í Reykjavík var mjög undarleg og venjur um dægursveiflur algerlega hundsaðar. Þetta byrjaði þó með nokkuð hefðbundnum hlýjum sunnudegi þann 8. ágúst þar sem hitinn náði 18 stigum í hlýjum austanvindi. Mánudagurinn fór vel af stað þegar hitinn rauk yfir 20 stig strax um morguninn en hrapaði jafnharðan aftur þegar þykknaði upp með svalari golu af hafi. Öllu máli skipti þarna eins og endranær hvort andar af hafi eða landi. Aðfaranótt þess 10. hefur hlý landgola tekið yfir og þótt náttmyrkur væri skollið á komst hitinn upp í 20 stig sem er vægast sagt mjög sérstakt. Þegar birti af degi tók væg hafgola við og hitinn í sólinn lækkaði niður í 17-18 stig. Aftur náði hitinn 20 stigum undir myrkur þegar vindur stóð af landi á ný og önnur óvenjuhlý nótt tók við.
Miðvikudaginn 11. ágúst hafði hitinn loksins betur yfir daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 24,8 stig sem þá var nýtt hitamet í borginni og stóð það met í 4 ár eða þar til áðurnefnt hitamet var sett í júlí árið 2008. Eldra metið var frá 1976: 24,3°. Þrátt fyrir hægviðri náði hafgolan sér eiginlega ekkert á strik en þegar mjög hlýtt er í háloftunum er loftið mjög stöðugt og því minni grundvöllur fyrir hafgolumyndun. Þó sér maður útfrá á hitaferlinum að 11. ágúst hefði getað gert enn betur ef nálægð sjávarins hefði ekki spilað inní.
Dægursveiflan getur talist hefðbundin þann 12. ágúst en þá náði hitinn 20 stigum fjórða sólarhringinn í röð sem er einsdæmi í Reykjavík. Lokaandvarp hitabylgjunnar kom föstudaginn 13. en þá slagaði hitinn uppí 19 stig snemma morguns en var síðan ofurliði borinn af kaldara Faxaflóalofti. Í framhaldinu tóku við margir sólríkir dagar með venjulegum síðsumarhitum uppá 14-15 stig sem þá þótti ekkert sérstakt eftir það sem undan var gengið.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2011 | 00:48
Hversu gott var veðrið í júlí?
Þá er komið að veðurdagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júlí í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár en meiningin er að birta samskonar yfirlit fyrir alla sumarmánuðina nú í ár. Eins og ég nefni alltaf í inngangi er aukaafurð þessara skráninga einkunnakerfið sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.
Hér er veðurskráningin fyrir nýliðinn júlí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Í júlí miða ég meðallagið við 11-15 stig.
Júlí 2011 Einkunn 5,0
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem er frekar góð einkunn og stendur fyllilega undir þeim kröfum sem við erum farin að gera til sumarmánaða í dag en veðurgæði hafa greinilega aukist að sumarlagi hér í Reykjavík.
Megnið af mánuðinum var mjög þurrt og til marks um það skráði ég enga úrkomu dagana frá 2. til 25. júlí sem þýðir að úrkoma á því tímabili var svo lítil að ekki tók því að nefna hana en úrkoma gæti þó hafa fallið að næturlagi. Dropadálkurinn aftan við loftvog á miðnætti sýnir hvort jörð sé blaut á miðnætti en sá dálkur er alveg auður í 20 daga samfleytt. Þessu þurrkatímabili (sem í raun hófst mun fyrr) lauk þann 26. með ekta landsynningsrigningu úr suðaustri og eina stig dagsins fékkst fyrir 13 stiga hitann sem ekki er hægt að kvarta yfir.
Einn dagur fær fullt hús stiga (8) en það er föstudagurinn 15. júlí sem jafnframt er heitasti dagurinn. Annars fá dagar ekki 8 stig nema þeir hafi virkilega unnið fyrir því. Einkunnin 0 er hinsvegar mjög sjaldgæf enda fer ekki saman mikil úrkoma og kuldi hér í Reykjavík.
Vindurinn í mánuðinum var ekkert sérlega hægur að meðaltali en aðallega þá vegna nokkra hvassra daga þar sem strekkingsvindur var úr suðaustri og því er gildi suðaustanáttarinnar (27) frekar hátt í vindáttaboxinu sem er þarna niðri til vinstri. Einkenni góðra sumarmánaða í Reykjavík er há tíðni norðvestanáttar sem gjarnan fylgir sólardögum sem hafgola. Norðvestanáttin hefur að þessu sinni næsthæsta gildið (12) á meðan sunnanáttin er t.d. í núlli. Þegar hálfir og heilir sólardagar hafa verið lagðir saman er útkoman 12 sólardagar sem er bara fínt sama og var í fyrra, en samt nokkuð frá því besta.
Hitinn í mánuðinum er í samræmi við hlýindi síðustu ára. Enginn dagur telst vera kaldur og 5 dagar teljast hlýrri en viðmiðunin segir til um. Ekki fengum við 20 stig að þessu sinni en í Reykjavík má alls ekki ætlast til þess á hverju sumri þrátt fyrir almenn hlýindi. Kannski mun komandi ágústmánuður bæta þar úr.
Bestu júlímánuðir frá 1986.
Júlí 2009 - Einkunn 5,8. Þessi mánuður slær allt annað út í einkunnagjöf og má kallast alger stjörnumánuður. Meðalhitinn var örskammt frá mánaðarmetinu, sólskin það mesta frá 1974 og úrkoma sú minnsta síðan á 19. öld. Þessi háa einkunn ræðst ekki síst af því að góðviðriskaflinn hitti nokkuð vel á mánuðinn. Eini gallinn var stutt kuldakast seint í mánuðinum sem frægast er fyrir að hafa fellt kartöflugrös í Þykkvabænum.
Júlí 2007 - Einkunn 5,5. Sögulega séð er þessi mánuðir síðasti mánuðurinn þar sem góðæri ríkti í fjármálakerfi heimsins en síðan hefur leiðin bara legið niðurávið. Veðurfarslegt góðæri hér í Reykjavík stendur þó fyrir sínu. Þessi næst besti júlímánuður var ákaflega sólríkur fyrri hlutann en köflóttari eftir það. Mánuðirinn tók við af mjög góðum og sólríkum seinni hluta júnímánaðar. Besti mánaðarlangi kaflinn í mínum bókum fæst einmitt með því að taka meðaleinkunn yfir 31 daga tímabil sem nær yfir báða þá mánuði en þannig fæst einkunn upp á 6,1 tímabilið 21. júní til 21. júlí. 2007.
Aðrir mánuðir blanda sér ekki í toppbaráttuna þótt nægt úrval sé af góðum júlímánuðum. Júlí 2010 og 2004 fengu báðir 5,2 í einkunn. Júlí í fyrra deilir einmitt metinu heitasti mánuðurinn í Reykjavík með hitabylgjumánuðinum júlí 1991. Sá mánuður árið 1991 fékk 5,1 í einkunn ásamt júlí árið 2000 og eru þar með taldir upp þeir júlímánuðir sem hafa fengið hærri einkunn en júlí í ár. Júlí 1993 og 2005 dæmast þó jafngóðir með sömu einkunn.
Og þeir verstu:
Júlí 1989 Einkunn 3,8. Þetta er ekkert nema falleinkunn enda sólarminnsti júlí sem mælst hefur í Reykjavík auk þess sem meðalhitinn var ekki nema 9,6 stig sem er með því slakasta sem gerist. Þrálátar rigningar bættu svo ekki úr skák.
Júlí 1987 Einkunn 4,1. Þetta var líka sólarleysismánuður og slakur á alla kanta þó ekki væri hann nálægt metum. Að öðru leyti var sumarið '87 mun betra og sólríkara.
Afleitir júlímánuðir hafa í raun ekki verið fleiri en þessir tveir sem báðir eru komnir til ára sinna. Á þessari öld eru tveir mánuðir sem fá bara 4,4 en það eru júlí 2002 og 2006. Þeir voru báðir í svalari kantinum og ekkert sérstakir að öðru leyti og sennilega flestum gleymdir eins og svo margir aðrir mánuðir þegar kemur að veðri. Þess vegna er ekkert verra að eiga þetta allt kyrfilega skráð.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.7.2011 | 18:36
Hversu gott var veðrið í júní?
Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júnímánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn. Aukaafurð þessara skráninga er einkunnakerfið sem einhver ætti að vera farinn að kannast við. Einfalda útskýringin er að það tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans en yfirlit sumarmánaðana munu birtast hér í sumar.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn júní. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta júnímánaðar miða ég meðallagið við 9-13 stig en seinni hlutann 10-14.
Júní 2011 - Einkunn 4,9.
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 4,9 stig sem telst nokkuð góð einkunn og yfir meðallagi. Mánuðirinn var eindreginn norðanáttamánuður og því mjög misskiptur í gæðum eftir landshlutum og þar sem verst lét var veðrið hvorki mönnum, skepnum né fuglum bjóðandi. Hitinn í Reykjavík var lægri en hefur að meðaltali verið síðustu 10 ár en þó fyrir ofan opinberan meðalhita (1961-90). Fyrstu 10 dagarnir voru kaldir en umskipti til hins betra urðu eftir að Esjan náði að verða hvít aðfaranótt 10. júní. Slíkt háttalag Esjunnar í júní er mjög óvenjulegt. Annars varð það sólskinið og lítil úrkoma sem gerði útslagið í sambandi við ágæta einkunn mánaðarins. Veðurbókin hugsar sem fyrr ekkert um gróðurinn sem hefði alveg þegið meiri úrkomu. Aðeins tvisvar sá ég ástæðu til að skrá úrkomu en í bæði skiptin skein sólin einnig sama daginn. Enginn dagur fékk lægri einkunn en 3 en lökustu dagarnir voru allir á hinum köldu upphafsdögum mánaðarins. Síðasta daginn var ekki um annað að ræða en að gefa sparieinkunnina 8 enda voru allir veðurþættirnir upp á það besta.
Oft þarf að leggjast í miklar bollaleggingar þegar finna á viðeigandi lýsingu á meðalveðri dagsins enda veðrið oft ansi breytilegt. Stundum þarf að gera einhverjar málamiðlanir til að fá sem sanngjörnustu útkomu en þó innan þess marka sem skráningarkerfið býður upp á.
Þá er það samanburður við fyrri ár. Síðan dagbókarskráningar hófust árið 1986 eru þrír júnímánuðir jafnir í 1.-3. sæti með 5,3 í einkunn:
Júní 1991 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður var eftirminnilegur góðviðrismánuður enda mjög sólríkur og úrkomulítill. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskíra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi.
Júní 1998 - Einkunn 5,3. Hlýr mánuður þar sem meðalhitinn náði að skríða yfir 10°C, en það hafði ekki gerst í júní í Reykjavík síðan 1966. Margir fínir sólardagar voru í mánuðinum en að auki er þetta hægviðrasamasti júní sem ég hef skráð.
Júní 2008 - Einkunn 5,3. Mánuðurinn var enn ef þeim sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og auk þess mjög þurr og hlýr. Hér hefði fengist enn hærri einkunn ef nokkrir vindasamir dagar hefðu ekki dregið einkunnina niður.
Júní 2010 - Einkunn 5,2. Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og víðar, meðal annars í Stykkishólmi. Eins og undanfarin ár var nokkuð þurrt en sólskinsdagar voru þó ekki fleiri en venjulega.
Og þeir verstu:
Júní 1988 - Einkunn 3,6. Versti sumarmánuðurinn sem ég hef skráð. Þetta var vindasamur og kaldur rigningarmánuður og sólarminnsti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Ekki bætti úr skák að verstu veður mánaðarins komu einmitt á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Júní 1992 - Einkunn 4,0. Afar kaldur mánuður og sennilega frægastur fyrir Jónsmessuhretið. Ásamt júní 1978 er þetta kaldasti júní sem komið hefur síðan 1922.
Júní 2006 - Einkunn 4,1. Hér voru einfaldlega allir veðurþættir daprir án þess þó að um söguleg frávik hafi verið að ræða.
- - - -
Ljósmyndin af Esju er tekin að morgni 10. júní
Veður | Breytt 1.8.2011 kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2011 | 18:47
Þökulagning á þurrkatímum
Það hefur ekki rignt mikið í Reykjavík það sem af er sumri og reyndar ekki nokkur síðustu sumur. Eiginlega tilheyrir það fortíðinn að hægt sé að tala um að í Reykjavík sé sífelld rigning eða súld. Ekki virðast allir búnir að átta sig á þessu nýja veðurlagi eins og til dæmis þeir sem í blautu bjartsýniskasti halda að það sé bara hægt að leggja grasþökur í upphafi sumars og þurfa svo ekki að sinna því meir. Grasflatirnar á umferðareyjum við tónlistarhúsið Hörpu eru ágætt dæmi um þetta en þar var fyrir um mánuði síðan tyrft með iðagrænum þökum sem síðan hafa ekki gert annað en að þorna upp og gulna meir og meir. Smá væta af og til hefur ekki mikið að segja og ekkert nema úrhellisrigning í gamla stílnum virðist geta komið til hjálpar.
Snemmsumarið er að öllu jöfnu þurrasti tími ársins hér í Reykjavík. Meðalúrkoma júnímánaðar er sögð vera 50 millimetrar en sú mánaðarúrkoma náðist síðast í júní 2006 og þar áður 2003. Síðustu fjögur árin hefur júní-úrkoman ekki verið yfir 30 millimetrum og fátt sem bendir til þess að 50 millimetrunum verði náð í þessum mánuði. Það er þó aldrei að vita.
Það er annars athyglisvert hvað veðurgæðum getur verið misskipt á landinu. Sumsstaðar norðanlands eiga menn við kal í túnum að stríða og almennilegt sumar lætur bíða eftir sér. Norðlensku Mæjorkahitarnir og gæðasumrin eru að verða sífellt fjarlægari í minningunni sem er eiginlega það sama og hægt er að segja um Reykvísku rigningarsumrin. Tíðarfar á það til að festast í einhverju fari á vissu árabili. Það tekur síðan stundum jafn mörg ár að aðlagast nýjungum praktískt. Í samræmi við það taka kannski við mikil rigningarsumur á sama tíma og menn læra hvernig á að standa að þökulagningum í þurrkatíð. Kannski fer líka að rigna strax eftir að þessi bloggfærsla fer í loftið.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2011 | 20:52
Veðurskráning maí 2011
Eins og um síðustu mánaðarmót kemur hér dálítið veðuryfirlit fyrir nýliðinn mánuð og smá samanburður við fyrri ár. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurdagbókarskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn og eins og ég hef oft nefnt áður er aukaafurð þessara skráninga, einkunnakerfi, sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum. Þetta útskýrði ég örlítð betur síðast. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru bara ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans, en nú er ég að hugsa um að deila skráningum með þjóðinni næstu mánuði, eða bara í sumar.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn maí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort dagurinn teljist í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). Meðallagið hef ég nokkuð vítt og er breytilegt eftir árstíðum. Fyrri hluta maímánaðar miða ég við 4-9 stig en seinni hlutann 7-12 enda er maí að öllu jöfnu ört hlýnandi mánuðir.
Maí 2011
Nýliðinn maímánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem telst nokkuð góð einkunn. Kannski finnst sumum þetta hafa verið kaldur mánuður en það er væntanlega vegna þess að hitafarið var öfugsnúið í mánuðinum með sannkölluðum sumarhitum fyrri partinn en frekar svölu veðri seinni partinn. Slíkt háttarlag er ekki vænlegt til vinsælda á vormánuðum en veðurbókin hefur engar tilfinningar fyrir slíku. Öfgarnar fyrstu tvo dagana er merkilegar því mánuðurinn byrjaði á bólakafi í snjó en 14 stiga hita daginn eftir. Eins og gjarnan er í maí var yfirleitt nokkuð bjart í veðri og úrkomudagar fáir. Ég vek athygli á næstsíðasta dálkinum sem er að mestu auður. Þar sést hvort blautt sé yfir um miðnætti eða jörð hvít eins og tilfellið var eftir fyrsta daginn. Yfirleitt er þessi dálkur miklu skrautlegri, sérstaklega yfir veturinn.
Merkisatburður mánaðarins var auðvitað Grímsvatnagosið sem hófst að kvöldi þess 21. Sá sólskinsdagur fékk 6 stig í einkunnakerfinu en til að fá bestu einkunn hefði vindur þurft að vera hægari og hitinn hærri. Enginn dagur náði sparieinkunninni 8 að þessu sinni. Sumir dagar fyrri hlutann voru þó mjög nálægt því og hefðu í raun alveg átt það skilið. Enginn dagur fékk heldur hina alslæmu 0-einkunn (enda mjög fátítt) og enginn fékk bara 1 stig, sem á sinn þátt í ágætri einkunn mánaðarins.
Nokkrir góðir maímánuðir til samanburðar:
Maí 2010 - Einkunn 5,5. Þetta er mjög góð einkunn og með því allra besta sem nokkur mánuður hefur fengið hjá mér í einkunn. Þetta var sannkallaður sumarauki að vori enda hlýr mánuður og alveg laus við kuldaköst eins og oft hefur einkennt maímánuði hér á landi. Þar að auki var sólríkt, hægviðrasamt og þurrt hér í Reykjavík og varla hægt að fara fram á meira, nema hvað að stöku sinnum gerði hér dálítið öskumistur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Maí 1995 - Einkunn 5,4. Þessi mánuður er kannski nokkuð óvænt og afgerandi í öðru sæti. Hitinn var þó ekkert sérstakur en allt annað í góðu lagi. Það sem vegur hátt í góðri einkunn er hvað vindurinn var hægur en frá upphafi minna skráninga er þetta allra hægviðrasamasti mánuðurinn í Reykjavík. Opinberar athuganir eru þó ekki alveg sammála enda mælist nú hvað eftir annað mun hægari meðalvindur á Veðurstofutúni í ört vaxandi gróðri og byggð þar umhverfis.
Maí 2002, 2003, 2005 og 2006 - Einkunn 5,1. Þessir mánuðir eru allir sólríkir og þurrir og því nokkuð dæmigerðir fyrir veðurlag sem algengt er hér á vorin. Gallinn við þá (fyrir utan 2003) eru hinsvegar nokkrir kaldir norðanáttardagar sem þó skora ágætlega í einkunnakerfinu vegna sólskins. Það sem bjargar málunum er að hér í Reykjavík fer saman skjól fyrir köldum vindum úr norðri og varmi sólarinnar úr suðri. Kuldakastið seinni hlutann í maí 2006 var þó ansi hastarlegt, en eins og nú í ár var fyrri hluti mánaðarins mjög hlýr og komst t.d. hitinn í 18 stig þann 7. maí.
Maí 2008 - Einkunn 4,8. Þetta telst að vísu bara góð meðaleinkunn en ég nefni mánuðinn því hann þetta er hlýjasti maí í Reykjavík síðan 1960. Vindar voru nokkuð suðlægir og ekki alltaf hægir. Hitinn var nokkuð jafn allan mánuðinn, yfirleitt svona 9-12 stig yfir daginn.
Og þeir verstu:
Maí 1989 - Einkunn 4,0. Þessi mánuður á alveg skilið að vera neðstur á blaði. Meðalhitinn var ekki nema 4,8 stig og úrkoman var sú mesta sem mælst hefur í maí hér í Reykjavík. Að þessu sinni kom kuldinn ekki bara úr norðri heldur líka úr suðvestri og því gerði nokkrum sinnum slydduél og jafnvel stundum snjóél með hvítri jörð. Sumarið sem á eftir kom náði sér aldrei á strik og var nokkuð kalt og leiðinlegt.
Maí 1991 - Einkunn 4,2. Þetta telst ekki alveg vera falleinkunn en mánuðurinn skorar ekki hærra vegna þrálátra rigninga og sólarleysis. Stöku slydduél úr suðvestri hrjáðu einnig höfuðborgarbúa framan af mánuði. Að þessu sinni fylgdi óvenjugott sumar og sögulegt miðað við það sem fólk átti að venjast þarna fyrir 20 árum.
- - - -
Almennt að lokum. Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Einkunnarkerfið er auðvitað ekki gallalaust en er samt ágætis viðmiðun og útgangspunktur fyrir veðursamantektir eins og þessa.
Veður | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2011 | 10:12
Hversu slæmt var veðrið í apríl?
Áður en ég kem að því hversu slæmt veðrið var í apríl (hafi það yfirhöfuð verið slæmt) þá finnst mér ég fyrst þurfa að gera smá grein fyrir veðurskráningunum mínum sem staðið hafa í tvo og hálfan áratug enda veit ég aldrei hversu vel kunnugir lesendur eru þeim. Ég skrái semsagt hjá mér veðrið í Reykjavík hvern dag með myndrænum hætti og tölum sem eiga að lýsa hinu dæmigerða veðri yfir daginn hverju sinni. Útfrá þessum skráningum gef ég hverjum degi einkunn á kerfisbundinn hátt en þar er einfaldlega gengið út frá því að hiti sé betri en kuldi, sólskin betra en sólarleysi, hægviðri betra en hvassviðri og þurrviðri betra en úrkoma. Allir þessir fjórir veðurþættir hafa svipað vægi í einkunnagjöfinni. Hver veðurþáttur getur fengið 0-2 stig, þannig að algóður dagur getur mest fengið 8 stig en alsæmur 0 stig. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum.
Apríl 2011
Nýliðinn aprílmánuður fékk samkvæmt þessu skráningar- kerfi einkunnina 3,7 stig sem telst eiginlega vera falleinkunn en sjálfsagt í ágætu samræmi við upplifum flestra borgarbúa.
Hér til hliðar er veðurskráningin. Aftasti dálkur eru einkunnir, aftan við vindörvarnar er hiti dagsins og tákn sem segja hvort dagurinn telst vera í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). ATH. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.
Í mánuðinum skráði ég aðeins einn alvöru sólskinsdag og nokkra hálfa. Úrkomudagarnir voru hinsvegar margir og úrkoman oft ansi lárétt enda var þetta mjög vindasamur mánuður með þrálátu skúra- og éljaveðri úr suðri- eða suðvestri. Það góða var þó að hitinn var vel yfir meðallagi og í góðu samræmi við meðalhita aprílmánaða síðustu ára. Mánuðinum lauk með snjókomu og hvítri jörð eftir kaldasta dag mánaðarins.
Tvo merkisatburði hef ég skráð til hliðar. Þann 9. var Icesave-kosningin undarlega sem kannski var bara stormur í vatnsglasi en daginn eftir kom alvöru stormur og fékk sá dagur 0 stig í skráningunni sem er mjög sjaldgæft. Dagurinn hefði reyndar átt að fá 1 stig vegna hita í meðallagi en það stig strokaðist út vegna stormsins sem gaf eitt mínusstig sem neikvætt öfgatilfelli.
Nokkrir góðir aprílmánuðir til samanburðar:
Apríl 1998 - Einkunn 5,4. Þetta er mjög góð einkunn og sú hæsta sem aprílmánuður hefur fengið hjá mér. Mánuðurinn er kannski ekki mjög eftirminnilegur en var góður á alla kanta og tók þetta eiginlega á seiglunni án þess að slá nokkur met.
Apríl 2008 - Einkunn 5,3. Mjög svipaður mánuður og apríl 1998 með alla veðurþættina góða. Þurr, hlýr sólríkur og hægviðrasamur mánuður.
Apríl 2000 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður er eftirminnilegur vegna feiknamikils sólskinskafla dagana 14.-25. apríl sem gerði þetta að sólríkasta apríl í Reykjavík sem mælst hefur. Hinsvegar var hitinn ekki mikill og kaldari apríl hefur ekki mælst síðan. Eðlilega var lítið um úrkomu í svona mánuði þannig að á mælikvarða gróðurs var þetta ekki óskamánuður. Einkunnakerfi þessu er reyndar alveg sama um það.
Apríl 2001, 2003 og 2005 - Einkunn 5,0. Hér má minnast á apríl 2003 vegna þess að það er hlýjasti apríl sem mælst hefur í Reykjavík og víða um land. Aðrir veðurþætti voru hinsvegar nærri meðallagi í Reykjavík. Dálítið athyglisvert er að köldustu dagar mánaðarins voru fyrsti og síðasti dagurinn, nánast allir aðrir dagar voru mildir eða hlýir.
Og sá versti:
Apríl 1987 - Einkunn 3,6. Þetta er fyrsti skráði aprílmánuðurinn hjá mér og sá sem enn situr uppi með lægstu einkunnina. Nýliðinn aprílmánuður er reyndar sá eini sem hefur náð að ógna þessum frá 1987. Veðrið var reyndar ekki ósvipað og í ár og mánuðirnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Mikill óstöðugleiki var með tíðum útsynningséljagangi en þó var öllu kaldara 1987. Síðasta vikan var sérlega éljasöm og hvöss og alveg í lokin stökk lægð yfir Grænlandsjökul sem olli mikilli snjókomu síðasta kvöld mánaðarins og fram á nóttina þannig að snjódýptarmet var sett fyrir maímánuð í Reykjavík morguninn eftir. Sá mikli snjór bráðnaði þó hratt í ört rísandi 1. maí-sólinni (sjá meðfylgjandi frétt úr Mbl. 3. maí 1987). Snódýpin að morgni 1. maí 1987 mældist 17 cm en til samanburðar mældist hún nú í ár 16 cm að morgni 1. maí, ekki munar miklu.
Almennt að lokum
Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Veðrið eins og það var í Reykjavík núna í apríl er ekki vinsælt meðal fólks og ekki það vorveður sem fólk gerir sér vonir um. Sé farið lengra aftur í tímann má kannski finna verri aprílmánuði og marga harðindalegri. Veðurminni fólks er upp og ofan og því má segja um nýliðinn apríl að hann hafi allavega verið verri en yngstu menn muna og jafnvel einnig hinir eldri.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.4.2011 | 23:10
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Eins og venjulega í upphafi hvers aprílmánaðar er nú komið að einum af þessum föstu dagskrárliðum hjá mér, sem er hinn ómótstæðilegi árlegi myndasamanburður á snjóalögum Esjunnar. Að þessu sinni var ljósmyndin tekin mánudaginn 4. apríl í góðu skyggni en ekki miklu sólskini. Kollur Esjunnar hefur undanfarið verið allvetrarlegur enda hefur snjóað í éljaveðri síðustu daga.
Þrátt fyrir vetrarhaminn í efri hlíðum þarf þetta ekki endilega að þýða að snjóskaflar Esjunnar séu umfangsmeiri í ár en venjulega. Það snjóaði vissulega talsvert í mars en ekki svo mikið fyrri hluta vetrar. Snemma í janúar var t.d. mjög lítill snjór í Esjunni eins og má sjá á myndinni í síðustu færslu. Mikið af snjónum hefur fallið í þrálátum suðvestan-éljagangi en snjókoma úr þeirri átt fóðrar ekki að ráði lífseigustu skaflana vestur af Kerhólakambi og Gunnlaugsskarði.
Öll þessi samanburðarár hafa Esjuskaflar náð að bráðna fyrir haustið og hafa reyndar gert frá árinu 2001. Ég sé enga ástæðu til spá öðru en að svo muni einnig verða í ár, nema sumarið taki upp á því að verða kaldara og ómögulegra en verið hefur lengi, sem kannski er kominn tími á.
Hér að neðan er umrædd myndasería. Auk dagsetningar myndatöku má sjá hvenær ég tel að snjórinn hafi horfið um sumarið.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.4.2011 | 10:10
Vetrarhitasúlur
Í tilefni þess að veturinn ætti nú að vera liðinn hef ég útbúið dálitla mynd sem sýnir hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags yfir vetrarmánuðina frá nóvember til mars. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir daginn í Reykjavík. Nánari bollalengingar eru undir myndinni.
Eins og sést þá einkenndist veturinn af miklum óstöðugleika í hitafari sem sjálfsagt er ekkert svo óeðlilegt fyrir þennan árstíma þegar nægt framboð er af ísköldu heimskautalofti og suðlægu mildara lofti. Vetrardagar hjá okkur geta auðveldlega farið í 6-8 stig en ekki mikið hærra en það, hámarkið sjálft er gjarnan rúmlega 10 stig. Í hinn endann er mjög algengt að kaldasti dagurinn í Reykjavík sé í kringum mínus 10 stig en mestu frostin standa hér þó yfirleitt stutt.
Veturinn byrjaði nokkuð bratt með kaldasta nóvember síðan 1996 en desember var ögn hlýrri en mjög sveiflugjarn í hita. Hressilegur kuldakafli kom snemma í janúar en síðan tóku við miðvetrarhlýindi eins og svo algeng eru orðin undanfarin ár. Eftir mjög hlýjan febrúar kom kaldasti mánuður vetrarins en með hlýrri dögum í lokin náði nýliðinn marsmánuður að skríða yfir frostmarkið í meðalhita.
Kaldasti dagur vetrarins var 6. janúar en þá var um 10 stiga frost í Reykjavík og fór niður fyrir 11 stig sama sólahringinn. Þann dag var ansi hvass vindur beint úr norðri eins og ég og myndavélin fengum að finna fyrir uppi á Öskjuhlíðinni. Ég hef nefnilega dálítið verið að mynda bæinn frá þessu sjónarhorni undanfarið og þá ekki síst þegar veðrin eru verst. Kuldinn skilar sér reyndar ekki sérlega vel á myndinni og engan snjó að sjá nema eitthvað lítillega í Esjunni.
- - - -
Eitt í viðbót. Nú er ég búinn að stofna nýtt myndaalbúm hér á síðunni með samansafni af ýmissi veðurgrafík sem ég hef sett saman í gegnum tíðina. Þar má meðal annars sjá til samanburðar vetrarhitasúlurnar frá vetrinum í fyrra sem voru mun rauðari. Það er kominn tími á uppfærslu á sumum þessara mynda og verður það gert smám saman.
Veður | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)