Horft á heiminn III

Í okkar þrívíða heimi er reglan sú að hlutir minnka fyrir augum okkar eftir því sem fjarlægðin til þeirra eykst uns þeir að lokum hverfa í fjarskann. Samsíða línur í umhverfinu stefna í áttina að sameiginlegum hvarfpunktum. Þráðbeinir vegir sem við horfum eftir mjókka þannig í átt að einum punkti einhverstaðar við sjóndeildarhringinn. Þetta tók ég fyrir er ég horfði á heiminn síðast og var þá að lokum horfinn í víðáttumikinn hvarfpunktaheim þar sem allt var farið að bjagast og verpast meira en góðu hófi gengi. En nú verða hlutirnir einfaldari því hér verður heimurinn skoðaður án slíkra hvarfpunkta og sjónhverfinga. Það er hin fjarvíddarlausa sýn á heiminn þar sem hlutir minnka ekki með aukinni fjarlægð.

Japönsk teikningÁ þessari teikningu sést hvernig Japanir fóru að þegar þeir teiknuðu upp rými. Hér eru engin fjarvíddaráhrif. Allar línur sem eru samsíða í umhverfinu halda áfram að vera samsíða á myndinni og ekkert minnkar með aukinni fjarlægð – hvorki fólk, né byggingar. Þessi sýn er nálægt hinni klassísku ísómetríu sem mikið er notuð tækniteikningum og útskýringamyndum allskonar.

 

ísómetría

 

Í hreinni ísómetríu er horft skáhalt á formin, teningslaga hlutir mynda 60 og 120 gráðu horn og við sjáum á þrjár hliðar í einu. Þegar horft er ofaná húsbyggingar og þær teiknaðar upp með þessari aðferð er hægt að víkka út sjónsviðið án þess að nokkuð bjagist, allt er jafn nálæg og það er aldrei neinn sjóndeildarhringur. Veggir og allt það sem lyftist upp af yfirborðinu rís lóðrétt upp af grunnmyndinni, en vegna þess að grunnmyndin hallast (30°) verða allir lóðréttir flettir skakkir sem því nemur.

 

axonometriaÖnnur útgáfa af svona fjarvíddar- lausri sýn er þegar horft er beint ofaná grunnmyndina þannig að 90 gráðu horn halda sér í láréttum flötum eins og ef horft væri beint ofaná. Svona teikningar eru stundum kallaðar axónómetría, en það orð getur reyndar líka verið samheiti yfir allar svona fjarvíddarlausar þrívíddar- teikningar, þar á meðal ísómetríu.

Ísómetría og axonometría eru ekki eðlileg sýn á heiminn vegna skorts á fjarvídd og sjást því nánast bara í teikningum og gjarnan í tölvuleikjum. En nú er það svo að fjarvíddaráhrif minnka eftir því sem við horfum á heiminn úr meiri fjarlægð. Þegar við horfum í gegnum sjónauka ruglast til dæmis fjarlægðarskynið því þá erum við að stækka upp það sem er langt í burtu án þess að fjarvíddaráhrifin fylgi á eftir.

Það er líka athyglisvert að sjá hvað gerist í þessari mynd hér að neðan sem tekin er úr geimnum af borginni San Francisco og minnir einna helst á tölvuleikinn SimCity Þarna er sjónarhornið mjög þröngt og hátt, en myndin stækkuð mikið upp. Við þetta verða fjarvíddaráhirfin nánast engin og ekki verður betur séð en að þarna séum við komin mjög nálægt axónómetríunni.

SanFrannisco

 

Til samanburðar er næsta mynd sem tekin er ofan úr Empire State niður á byggingar Manhattan. Hér eru fjarvíddaráhrifin komin inn enda erum við mun nær jörðu og sjónsviðið víðara.

Manhattan

- - - -

Þar með hef ég lokið fjarvíddarpælingum að sinni. Hlekkir eru hér að neðan á fyrri hlutana tvo í þríleiknum:

Horft á heiminn I

Horft á heiminn II 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég teikna á Sketchup og þar get ég valið um Paralell projection, sem fletur myndina út, eða fjarlægir fjarvíddina.  Þannig er oftast gengið frá útlitsrteikningum á húsum t.d.

Svo er perspective valkosturinn, sem gefur svo kost á hinum ýmsu sjónhornum eða þröngum og gleiðum "linsum".  35 gráður er standard sem líkir eftir okkar augum, en ef farið er í 1 gráðu, þá er eins og myndin úthverfist með öfugri fjarvídd. í 120 gráðum  verður heimurinn nánast sýrukenndur þar sem formin teygjast íátt að manni.

Skemmtilegt að leika sér með þetta. 

Ísómetrían er notuð í þrívíddinni og ég hef með góðum árangri notað þessi form jafnhliða þríhyrninga til að vinna skemmtileg þrívíddarform.  Þetta er jú t.d. notað við teikningu og byggingu hvelfinga og kúluhúsa. 

Ég hef alltaf haldið mikið upp á M.C Escher. Eiginlega frá barnæsku, en hann pældi einmitt mikið í þesskonar bjögun fyrir daga tölvutækninnar og gaf manni nýjan vinkil á heiminn.  Ég er örvhentur eins og hann og þessvegna er ég líkleganæmari fyrir svona pælingum en margir í kringum mig, sem bara sjá skemmtileg trix en ekki hugsunina í þessu.

Það er frábært að lesa þessar pælingar þínar. 

Jón Steinar Ragnarsson, 8.5.2011 kl. 20:40

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gleymdi að nefna þriðja kostinn í þrívíddinni, sem er two point perspective, sem á einhvern undarlegan máta bjagar hluti í næstrum öfugt perspektív og verður ekki síður sýrukennt við gleiðar og þröngar linsur. If you get my drift altso..

Jón Steinar Ragnarsson, 8.5.2011 kl. 20:44

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars snertir þú á þessu flestu í greinunum þínum, svo þetta er hálfgerð endurtekning hjá mér. Ég hef þó oft pælt í að útfæra hluti í raun, eins og þeir bjagast í gleiðhorni. Þ.e. að taka gleiðhornamynd inn í 35 gráður og treisa hana þannig að hluturinn líti út eins og í gleiðlinsu þegar búið er að byggja hann.

Ég held raunar að sú pæling sé nokkuð algeng í nútíma arkitektúr og má taka Hörpuna sem dæmi um slíka pælingu.

Þetta er í sjálfu sér ekki óskylt því þegar götulistamenn mála holur í vegi eða göng í veggi, sem blekkja augað. Bara öfugur prósess. 2D í 3D í stað 3D í 2D.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.5.2011 kl. 20:53

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Skemmtilegar pælingar, ég þakka fyrir mig. Þetta er nokkuð sem ég þekki frekar lítið til, en alltaf gaman að fá hlutina útskýrða á svona fróðlegan hátt.

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.5.2011 kl. 22:13

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þakka ykkur fyrir þessar athugasemdir.

En Jón Steinar. Þú praktíserar sjálfsagt þrívíddina meira en ég enda er ég aðallega í tvívíddinni. Það er samt gagnlegt að þekkja hvernig fjarvídd virkar þegar kemur að myndvinnslu allskonar.

Ég hef líka spáð þessa gerviþrívídd, samanber götulistamennina. Þetta var til dæmis vinsælt á handboltavöllum fyrir nokkrum árum þegar allir vildu fá lógóin sín í þrívídd á vellina. Það áttuðu sig þó ekki allir á því að þessi brella virkaði bara frá einu sjónarhorni, þ.e. því sjónarhorni sem sjónvarpsupptökuvélin var staðsett á.

Ég hef ekki hugsað út í hvort Harpan sé gleiðhorns-arkitektúr en það má vel vera úr því þú nefnir það. Með svoleiðis trixum getur byggingin sennilega virkað stærri annars væri.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.5.2011 kl. 22:21

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er rétt að svona víddartrix virka bara frá einu sjónhorni.  Eitthvað getur þú leikið þér með þrívíddina í photoshop, það eru ansi flottir fídusar komnir í það eðla forrit. Möguleikarnir eru endalausir.

Ég sjálfur læt mér nægja Gimp, því mín myndvinnsla er bara svona run of the mill. Ég sló þessu nú bara fram með hörpuna, því frá sumum sjónarhornum virkar hún eins og ýkt perspektív. 

Það er margt breytt síðan ég var í þessari grafík og ég er orðin hálfgerð afturreka þar svona tæknilega. Maður man eftir Repromasternum, filmuvinnunni og vaxvélinni í den. Þá tók það einhverja tíma að gera layout, sem tekur einhverjar sekúndur í dag, plús að það var ekki mikið svigrúm til að experimentera né gera mistök. Manni finnst raunar fyndið í dag hversu bulky og þungt í vöfum þetta var allt saman.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.5.2011 kl. 22:52

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þið gætuð nú nýtt ykkur forrit eins og Sketchup til að halda niðri leikmyndakostnaði í einföldum auglýsingum. Það má rendera nokkuð sannfærandi bakgrunna í stað þess að byggja eitthvað í stúdíói fyrir statískar senur. T.d. eldhús og stofusenur. Það eru orðin ansi mörg eldhúsin sem maður hefur byggt fyrir auglýsingar í gegnum tíðina, sem eru svo bara eitthvað út úr fókus, þegar allt kemur til alls.

Það má örugglega hagræða talsvert og skipuleggja prójekt meira með þetta í huga, þótt það sé kaldhæðnislegt að leikmyndahönnuðurinn og leikmyndasmiðurinn sé að ráða mönnum það.  Ég er bara orðinn svo rosalega leiður á að gera það sama aftur og aftur og sjá svo ekkert af því í þokkabót.

Maður getur farið ansi langt með forgrunn og miðsvæði án þess að þurfa að byggja allt hitt í 360 gráður bara sem valíum fyrir óörugga og óskipulagða leikstjóra.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.5.2011 kl. 23:06

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mundi allt í einu eftir þessu fjarvíddartrikki í hinu ódauðlega meistarastykki Top Secret.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.5.2011 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband