19.8.2018 | 16:58
Goslok á Hawaii
Nú virðist sem gosinu á Hawaii sem hófst snemma í maí og kennt hefur verið Kilauea eldstöðina sé lokið. Ekki er þó þar með sagt að allt sé yfirstaðið þarna því eldvirkni á þessari austustu eyju eyjaklasans er eiginlega sagan endalausa. Þetta gos hefur fyrst og fremst verið hraungos og minna aðstæður á margt sem á sér stað hér á landi, en Hawaii-eyjar eru annars sá staður þar sem hraunframleiðsla er mest hér á jörðu, fyrir utan Ísland að sjálfsögðu. Þarna á austustu eyjunni, sem oft er kölluð Big Island en heitir í raun Island of Hawaii, er kvikuuppstreymi tengt möttulstrók eins og hér. Kilauea er eldstöð sem á framtíðina fyrir sér og er sennilega að taka við aðalhlutverkinu af gömlu Mauna Loa risadyngjunni sem gnæfir þar yfir.
Eins og ég hef sagt í fyrri pislum um þessa atburði þá er hefur hið eiginlega eldgos ekki verið í Kilauea því eins og í Bárðarbungu hefur kvikan leitað út úr eldstöðinni eftir sprungurein neðanjarðar í austur og norðaustur og náð yfirborði víðsfjarri sjálfri kvikuuppsprettunni. Með brotthlaupi kvikunnar frá Kilauea hefur þar orðið heilmikið öskjusig - eins og í Bárðarbungu, nema þarna er enginn jökull yfir. Um 40 kílómetrum austur af Kilauea gígnum náði kvikan svo yfirborði á byggðu svæði. Fyrst með mislanglífum smáslettum sem röðuðu sér í beinni línu innan og utan byggðar. Eftir að krafturinn tók að aukast rann hraunið stystu leið til sjávar um strjálbýlt svæði til að byrja með. Fasaskipti urðu svo á gosinu þegar kvikuupstreymið ákvað að takmarka sig við eina stutta gossprungu, eða þá áttundu sem hafði upphaflega opnast á fyrstu dögunum.
Með enduruppvakningu gossprungu nr. 8 færðist enn meiri kraftur í gosið og nú fór hraunið að renna norður fyrir fyrri sprungur, áfram í norðaustur og leitaði loks til sjávar við austurenda eyjarinnar og kaffærði þar á stuttum tíma heilmikilli byggð er nefnist Vacaitonland sem stóð við fallega vík. Hraunútrásin til sjávar færðist þaðan til suðurs og bætti við strandlengjuna á löngum kafla.
Nú þegar öllu er lokið, í bili að minnsta kosti, er heildarflatarmál nýrra hrauna 35.5 ferkílómetrar sem er svo til jafn mikið og flatarmál þess sem kom upp í Kröflueldum á árunum 1975-1984, þannig að þetta er talsvert hraun. Flatarmál Holuhrauns hins nýja er hinsvegar 85 ferkílómetrar enda mesta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum. Kortið er frá USGS (U.S. Geological Survey) með smá viðbótum frá mér.
Myndin hér að ofan frá USGS sýnir hvernig umrædd gossprunga nr. 8 lítur út eftir hamfarirnar. Kominn er hinn sæmilegasti gígur með hrauntröð út frá gígopinu. Nokkuð kunnuglegt fyrir okkur hér á landi. Rétt ofan við gíginn sér í íbúabyggð sem sloppið hefur með skrekkinn en alls munu eitthvað um 700 heimili hafa horfið undir hraun.
Svo er það sjálf Kilauea dyngjan með sinni miklu öskju sem sigið hefur hefur heilmikið frá því í maí í vor eins og hringsprungurnar bera með sér. Í miðju öskjunnar var þarna stutt í kviku og áður en hún hljópst á brott var þarna rauðglóandi kvikutjörn eftir væna innspýtingu að neðan. Ekki var þó um eldgos að ræða þarna en gufusprengingar voru í gígnum í sumar eftir því sem hann féll meira niður. Allt hefur þó verið með kyrrum kjörum þarna síðustu daga og frekara sig ekki átt sér stað.
- - - -
Heimildir og myndir: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html
Fyrri pistlar um sömu atburði:
6. maí. Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta
12. maí. Freatoplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii
19. maí. Meira af Hawaiieldum
6. júní. Víkurbyggð á Hawaii hverfur undir hraun
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.