Plötukynning - Brottför kl. 8 með Mannakornum

Brottfor kl.8Árið 1979, þegar gekk á með gengis- fellingum, óðaverðbólgu og landlægri kuldatíð, keypti ég mér hljómplötu í fyrsta skipti á ævinni, þá á fjórtánda ári. Sú sem varð fyrir valinu var þriðja skífa hljómsveitarinnar Mannakorna og hét Brottför kl. 8. Ég hef aldrei verið stór í sniðum þegar kemur að plötukaupum og fjárfesti ekki í svoleiðis nema að vel ígrunduðu máli og eins var það auðvitað í þessu tilfelli. Þetta voru vel heppnuð plötukaup enda ekki við öðru að búast þegar Mannakorn eru annarsvegar, sérstaklega á þessum fyrstu árum hljómsveitarinnar.

Brottför kl. 8 fylgdi á eftir hljómplötunni, Í gegnum tíðina, sem er oft talin meðal bestu platna íslensku popptónlistarsögunnar þar sem finna má lög eins og Sölva Helgason, og auðvitað lagið, Í gegnum tíðina. Þessi plata er hinsvegar sjaldnar nefnd og kemst t.d. ekki inn á TOP 100 bókina yfir bestu íslensku plöturnar, fellur sennilega í skuggan af hinni fyrri. Í Brottför kl. 8 er dálítið farið úr einu í annað í tónlistarstíl en nýjabrum þess tíma eins og pönk og diskó er þó víðsfjarri. Þeir Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarson voru meira fyrir blúsinn eins og heyrist en einnig má finna þarna kántrý, jass ásamt hreinni og beinni dægurtónlist.

Það lag sem varð vinsælast á plötunni og er orðin sígild perla er Einhverstaðar einhvertíma aftur, sungið af óþekktri 17 ára söngkonu, Ellen Kristjánsdóttur þeirri sömu Ellen Kristjáns og allir þekkja í dag. Annað lag sem heyrðist talsvert var Gamli skólinn, sungið af Pálma en það virðist þó vera gleymt í dag. Þau lög sem höfðuðu eiginlega mest til mín eru reyndar þau sem búa yfir dálítilli dulmögnun eins og lagið Ferjumaðurinn sem Ellen söng, einnig Álfarnir þar sem Magnús syngur um þegar hann villtist í þoku á heiðinni og var ginntur af Álfkonu. Kántrýlagið Graði Rauður, eina erlenda lagið á plötunni, fannst mér ekki alveg gera sig en er þó kannski ágætt fyrir sveita- eða hestamenn. Lokalag plötunnar er magnaður Guðsblús, sunginn af Pálma Gunn en það er eins og venjulega Magnús Eiríksson sem á heiðurinn af lagi og texta.

Þeir sem standa að spilverkinu á plötunni eru auk Magnúsar og Pálma: Baldur Már Arngrímsson, Jón Kristinn Cortes, Björn Björnsson, Eyþór Gunnarsson, Halldór Pálsson, Karl Sighvatsson og Úlfar Sigmarsson. Það var svo Leifur Breiðfjörð sem hannaði plötuumslagið en þarna má alveg þekkja teiknistílinn frá glerlistaverkunum sem hann er annars þekktastur fyrir. 

Hér er textinn við GUÐSBLÚSINN – fínn sálmur þó að innihaldið eigi ekkert sérstaklega við mig.

Þú veist að djúpt í þínu hjarta er ennþá einn örlítill guð.
Og þú veist að hann er því bjarta,
Ef þú syndgar þá heyrirðu suð.
Þá samviskan þín er að syngja við sofandi innri mann óð.
Við guð minn nú glösum skal klingja,
og kveða hans ljúfustu ljóð.

Ég held oft að guð sé í öllu sem lifir og lífsanda fær.
Í sigurverki svo snjöllu,
Að allt sem hann lífgar það grær
En líf sprettur aðeins af lífi og lífgeislinn fljúgandi fer
Ég trúi að hann fagnand svífi
Að lokum úr búknum á mér.

Ó guð minn hve oft var ég illur og ónýtur í þessum heim.
Eftir þokur og villur,
og eftir endalaust geim.
Get ég nú setið í friði og hlustað á hjartað mitt slá.
Ég býst við að enginn því tryði,
hve ágætan guð ég á.

- - - - - 

Þessi bloggfærsla er hugsuð sem sú fyrsta af mánaðarlegum plötukynningum. Svipað má reyndar segja um síðustu færslu um letrið.


TRAJAN leturgerðin

Trajansúlan

Það stafróf sem við notum hér á vesturlöndum kallast Latneskt stafróf eða latneskt letur og er eins og margt annað, arfleifð frá hinu forna Rómaveldi. Allra frægasta dæmið um notkun Rómverja á latneska letrinu er að finna á undirstöðum Trajan-súlunnar sem kennd er við Trianus Rómarkeisara. Súlan sjálf er frá árinu 113 og er þakin mikilli myndasögu sem segir af velheppnuðum herleiðöngrum keisarans. Letrið sem höggvið er í undirstöðuna hefur orðið einskonar útgangspunktur í klassískri leturgerð til okkar daga. Útfærsla letursins er greinilega þaulhugsað og ber klassískri fagurfræði vitni.

Þarna má t.d. sjá þá nýjung þess tíma að öll lárétt strik eru grennri en þau lóðréttu og allar bogalínur eru misþykkar samkvæmt því. Önnur nýjung sem hefur orðið ódauðleg í gegnum aldirnar er lítið þverstrik á endum strika, en slík letur eru nú almennt kallað fótaletur upp á íslensku eða Serífur, samanber letur eins og Times og Garamond. Ástæðan fyrir því að misþykkar línur og þverstrik komu til er gjarnan talin vera sú að letrið hafi verið málað á steininn með flötum pensli áður en letrið var meitlað. Það var svo ekki fyrr en á síðustu öld sem komu fram hrein og bein letur í nútímastíl án þessara skreytiþátta. Það eru letur eins og Helvetica og Arial, oft kölluð steinskriftir eða Sans Serif letur.

Á tímum Rómverja var ekki um neina lágstafi að ræða en þeir áttu eftir að þróast með tímanum þegar farið var að skrifa handrit í stórum stíl enda hentar þetta letur ekki vel til hraðritunnar, hinsvegar hefur sú hefð lengi verið ríkjandi að nota hástafi í upphafi setninga.

Trajan letur
Nokkrar leturgerðir hafa verið teiknaðar sem líkja eftir letrinu á Trajan súlunni Rómversku. Það þekktasta af þeim var teiknað árið 1989 og ber einfaldlega heitið TRAJAN. Letrið hefur talsvert mikið verið notað þegar á að ná fram klassískum virðuleika og fínlegheitum enda er þetta auðvitað afar fallegt letur.

Stundum er þetta letur kallað bíómyndaletrið því það hefur verið sérlega vinsælt að nota það á kvikmyndatitlum. Einnig mætti líka kalla það bókarkápuletrið miðað við hvað það hefur verið vinsælt til slíks brúks hér á landi og ef einhver er með vegabréfið sitt uppivið þá er Trajan letrið þar allsráðandi. Eins og á tímum Rómverja þá er nútímaútgáfa Trajan letursins aðeins til í hástöfum en það takmarkar auðvitað notkun letursins í löngum textum. Miðað við hvað Trajan letrið hefur verið mikið notað undanfarin ár, er kannski komið því að það þurfi smá hvíld sem aðalletur á bókarkápum og kvikmyndatitlum. Þetta letur mun þó verða notað lengi áfram þegar leitað er eftir klassa eða virðuleik í grafískri hönnun. Frumlegt er það þó ekki enda er klassíkinni ekki ætlað vera frumleg.

Trajan-notkun


Um flekaskil og jarðskjálfta hér og þar

Flekaskil

Eftir jarðskjálftann á Haiti hefur verið fjallað um ákveðinn skyldleika milli þessara staða með tilliti til jarðskjálftavirkni. Ísland og Haiti eiga nefnilega það sameiginlegt að vera á jaðri Norður-Ameríkuflekans sem rekur í vestur. Brotahreyfingin í Haiti-skjálftanum er einnig svipuð því sem gerist í Suðurlandsskjálftum þar sem um er að ræða svokallað sniðgengi sem liggur frá vestri í austur. Norðvesturhluti Íslands sem er á Norður-Ameríkuflekanum rekur í vestur, á meðan Suður- og Austurland er á hinum risastóra Evrasíufleka sem rekur í austur. Haiti hinsvegar liggur á suðurmörkum Norður-Ameríkuflekans og tengist Karíbahafsflekanum sem færist í gagnstæða stefnu í austur. Að vísu er þetta dálítið flóknara á Haití, flekaskilin þar eru tvöföld vegna þess að þarna er örsmár aukafleki sunnan megin-flekamótana og það var í rauninni hliðarhreyfing í honum sem ollu skjálftanum. Ég fer ekki nánar út í það en bendi hinsvegar á það sem eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson skrifaði um skjálftann á sinni bloggsíðu (sjá hér).
Það er ekki hægt að skilgreina jarðskjálftann á Haiti sem risaskjálfta þótt tjónið hafi orðið óskaplegt. Sú tegund húsa sem þar er að finna eru sennilega að verstu sort með tilliti til öflugra jarðskjálfta. Þeir hafa nefnilega byggt sín steinsteypuhús fyrst og fremst til að verjast fellibyljum en ekki hugað að almennilegum járnabindingum og því fór sem fór. Nú er talað um að skjálftinn hafi verið 7 á Righter sem er svipað og mest getur orðið á sniðgengisbeltunum á Íslandi þ.e. á Suðurlandsundirlendinu og úti fyrir Norðurlandi. Stærstu skjálftar á jörðinni verða hins vegar á stöðum þar sem tvær plötur mætast þannig að önnur platan fer undir hina. Skjálftinn sem olli flóðbylgjunni á Indlandshafi var af þeirri gerð og um 9 á Richter sem er eiginlega það mesta sem er í boði, þótt Richterskvarðinn ná upp í 10.

Ísland rekbelti
Skjálftar á Íslandi
Jarðfræðilega hefur Ísland mikla sérstöðu og er eiginlega einstakt fyrirbæri enda eini staðurinn á jörðinni þar sem gliðnun á milli tveggja fleka á sér stað á þurru landi, kannski fyrir utan einhverjar smáeyjar. Á gliðnunarsprungum eru tíðir jarðskjálftar en þeir verða ekki mikið stærri 6 á Righter enda nær mikil spenna ekki að hlaðast þar upp. Öflugasti skjálftinn sem fundist hefur í Reykjavík á síðustu 100 árum náði þó 6,3 stigum. Hann reið yfir árið 1929 og átti upptök sín við Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga.
Ástæðan fyrir sniðgengjunum við suður- og norðurland er sú að inn til landsins hefur rekhryggurinn færst til austur frá meginhryggnum því væntanlega vill hann tengjast heita reitnum sem er undir landinu á slóðum Bárðarbungu. Sá heiti reitur er talinn vera á mjög hægri siglingu lengra í austur miðað við flekaskilinn. Nákvæmara er þó að segja að flekaskilin séu í heildina að færast í vestur því að heiti reiturinn er víst alltaf fastur á sínum stað.

Suðurlandsskjálftarnir árið 2000 og 2008 voru sem betur fer ekki stærri en 6,6 stig og ekki víst að skjálftar verði mikið stærri þar sem þeir áttu upptök sín. Nógu stórir voru þeir nú samt. Ölfusskjálftinn sem var vestast, var um 6,2 stig en skjálftarnir geta orðið stærri eftir því sem austar dregur á sniðgenginu við Suðurland, þar sem jarðskorpan þykknar eftir því sem fjær dregur flekamótunum við Reykjanesskaga, eða vestara gosbeltinu. Það má gera ráð fyrir að síðustu Suðurlandsskjálftar hafi verið af sömu stærðargráðu og Suðurlandskjálftarnir sem urðu seint á 19. öld, nema sá austasti árið 1896 sem er áætlaður 6,9 stig. Hinsvegar kom sá stærsti allnokkrum árum eftir hrinuna á 19. öld eða árið 1912 og átti upptök sín austast á skjálftabeltinu vestur af Heklu. Sá skjálfti var fyrsti Suðurlandskjálftinn sem var mældur á jarðskjálftamæli, mældist 7,0 á Richter. Hann fannst í öllum landshlutum og olli auðvitað miklu tjóni, sérstaklega á bæjum á Rangárvöllum.

Miðað við að í þessari síðustu hrinu á Suðurlandi hefur ekki orðið skjálfti austar en í Holtunum er varla hægt að segja annað en að einn eða fleiri stórskjálftar hljóti að bíða síns tíma austast á Suðurlandsbrotabeltinu. Þeir gætu þá orðið nálægt 7 á Richter, eða svipaðir að stærð og Haitiskjálftinn.

Stórir skjálftar við norðanvert landið virðast ekki ganga yfir í sambærilegum hrinum eins og á Suðurlandi. Brotabeltið er tvöfalt á Norðurlandi og liggur það syðra útfrá Skjálfanda en það nyrðra út frá Öxarfirði. Þarna verða ekkert minni skjálftar en á Suðurlandi. Heilmikið tjón var í Kópaskersskjálftanum árið 1976 sem mældist 6,3 á Ricther og frægur og jafnstór er Dalvíkurskjálftinn sem reið yfir árið 1934. Öllu stærri var skjálftinn árið 1963 sem kenndur er við Skagafjörð. Hann mældist 7,0 á Richter en olli ekki alvarlegu tjóni. Upptök hans voru norður af firðinum. Sama má segja um stærsta skjálftann sem mældur hefur verið við Ísland. Sá reið yfir fyrir 100 árum, þann 22. janúar árið 1910 og mældist 7,1 á Richter. Upptök hans voru út af Axarfirði, en sá skjálfti olli ekki teljandi tjóni.

Læt þetta nægja af skjálftatali að sinni og vona að hér sé nokkuð rétt farið með staðreyndir.

- - - - -
Upplýsingar um helstu skjálfta á Íslandi fékk ég úr samantekt Páls Einarssonar í bókinni Veður á Íslandi í 100 ár og einnig eru ýmsar upplýsingar í þessari grein hér: Jarðskjálftarnir miklu á Suðurlandi 17. og 21. júní, 2000 eftir Ragnar Stefánsson, Gunnar B. Gunnarsson og Pál Halldórsson.


Heimsins hæstu byggingar

Á bloggsíðu þessari er meiningin að fjalla aðallega um himinn og jörð og stundum sitthvað þar á milli. Hvað sem það nú annars þýðir, þá finnst mér alveg við hæfi að skrifa um það sem nær frá jörðu til himins, eins tilfellið er með hæstu og glæsilegustu húsin hér á jörð.

Í byrjun þessa árs var mikið um dýrðir í Arabíska furstadæminu Dubai þar sem langhæsta hús sem byggt hefur verið, var formlega tekið í notkun. Turninn fékk nafnið Burj Khalifa og er um 300 metrum hærri en hæstu byggingar sem þar koma á eftir og er sjálfsagt langt í að annað eins verði byggt. Annars er dálítið athyglisvert að miklir skýjakljúfar eru gjarnan vígðir einmitt í þann mund þegar fjármálakreppur skella á enda er byggingartími skýjakljúfa álíka langur og ein góðærisbóla.

Það er liðin tíð að hæstu byggingar heims sé að finna í Bandaríkjunum því himinháir skýjakljúfar hafa risið hratt síðustu árin í Asíu. Þetta má sjá á myndinni sem ég hef útbúið og sýnir nokkra af frægustu skýjakljúfum heims og ef vel er að gáð sést grilla í hæsta húsið á Íslandi.

Turnar 2010

Af þeim háhýsum sem sjást á myndinni er Empire State byggingin langelst en hún var tekin í notkun árið 1931 skömmu eftir að heimskreppan mikla skall á og skákaði þar með Chrysler byggingunni sem hafði verið hæsta bygging heims í aðeins eitt ár. Empire State byggingin hélt titli sínum allt þar til tvíburaturnarnir World Trade Center voru teknir í gagnið árið 1972.
Willis Tower í Chicago, (betur þekktur sem Sears Tower) var fullbyggður árið 1974 og tók þá við titlinum hæsta bygging í heimi. Þegar hæð byggingarinnar er nefnd eru loftnetin ekki talin með því þau teljast ekki vera hluti af arkitektúr byggingarinnar, að þeim meðtöldum nær byggingin næst mestu heildarhæð allra bygginga í dag.
Eftir að Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu voru reistir árið 1998, misstu Bandaríkjamenn að lokum forystuna um hæstu byggingar heims til Asíulanda. Í þessu tilfelli eru turnspírurnar taldar með í hæðinni enda hluti af arkitektúrnum. Hæðirnar eru þó „ekki nema“ 88 talsins á meðan Willis turninn er 108 hæðir.
Árið 2003 var komið að Taiwan, en þar reis 101 hæðar skýjakljúfur Taipei 101 og var þetta hæsta hús heimsins þar til nú í ársbyrjun. Þetta var líka fyrsta byggingin sem samkvæmt hæðarreglum rauf 500 metra múrinn.
Hæsta húsið í Kína og það þriðja hæsta í heiminum í dag er Shanghai World Financial Center sem er 101 hæða bygging og 492 metra há. Við hlið hennar er önnur mjög há bygging uppá 421 metra en þriðja risabyggingin á svæðinu er í smíðum og á að verða um 630 metrar á hæð.
Eftir að smíði Burj Khalifa í Dubai var lokið, er ljóst að sett hefur verið nýtt viðmið í hæð skýjakljúfa enda slagar turninn hátt upp í Esjuna. Það er þó alveg mögulegt að byggja hærri hús ef mikilmennskan heldur áfram og efnahagsástand leyfir. 1000 metra hús er til dæmis sagt alveg tæknilega framkvæmanlegt.

Framkvæmdagleði okkar Íslendinga á undanförnum góðæristímum skilaði af sér allnokkrum háhýsum á okkar mælikvarða. Af þeim er háhýsið við Smáratorg hæst, um tveimur metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Þriðja hæsta byggingin á Íslandi er síðan 19 hæða turninn við Höfðatorg sem opnaður var í fyrra. Það verður sennilega einhver bið á því að hærri hús rísi á Íslandi því væntanlega verður ekki mikið úr 28 hæða og 100 metra háum turninum sem til stóð að reisa í Kópavogi, enda kannski komið nóg í bili.


Hnattræn hlýnun og íslensk hlýnun

Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Á línuritum yfir hitaþróun jarðarinnar frá 1900 til dagsins í dag kemur fram sterk en þó sveiflukennd hlýnun fyrir utan tímabil upp úr miðri síðustu öld þegar hitinn lækkaði lítillega að meðaltali. Allt önnur mynd kemur fram þegar einn staður eins og Reykjavík er sýndur. Síðustu 110 ár hafa hér á landi verið talsverðar sveiflur á milli ára og áratuga og ekki auðvelt að sjá að hiti hafi hækkað að ráði á tímabilinu. Allavega ekki miðað við þróunina sem á sér stað á jörðinni í heild, eins og kemur fram á línuritunum hér að neðan:Hiti HeimurRvík 1
Bæði þessi línurit eru sett fram á nokkuð hefðbundinn hátt. Línuritið til vinstri vann ég úr gögnum frá Nasa-GISS gagnaröðinni um hitaþróun heimsins en í slíkum línuritum er yfirleitt miðað við frávik frá meðalhita (hjá Nasa-GISS er miðað við árin 1951-'80). Línuritið til hægri sýnir meðalhitann í Reykjavík fyrir hvert ár samkvæmt þeim gögnum sem til eru.

Þegar svona línurit eru borin saman þarf að hafa ýmislegt í huga enda má segja að þau séu varla samanburðarhæf. Þegar talað um meðalhitaþróun fyrir allan heiminn er hér átt við bæði höf og lönd, ásamt pólarsvæðunum svo langt sem upplýsingar um það nær og er þetta því allt annar hlutur en hitaþróun á einum stað eins og Reykjavík.

Annað sem skiptir líka máli er að hitaskalarnir á myndunum hér uppi eru ekki í sambærilegum hlutföllum. Til vinstri er verið að sýna hitabreytingar upp á aðeins eina gráðu en til hægri eru hitasveiflur uppá rúmlega þrjár gráður. Til að bæta úr þessu hef ég útbúið sameiginlegt línurit sem sýnir þessa tvo ferla út frá sama hitaskala:

Hiti HeimurRvik 2

Þegar búið er að samræma hitaskalana eins og hér er gert koma hlutirnir í ljós í betra samhengi og hægt að draga ýmsar ályktanir eftir smekk og vilja hvers og eins. Það helsta sem ég sé út úr þessu er þetta:

  1. Sú hnattræna hlýnun sem átt hefur sér stað frá því um 1900 er lítil miðað við þær sveiflur geta orðið á einum stað, enda getur hitamunur milli tveggja ára í Reykjavík verið mun meiri en öll hnattræn hlýnun frá 1900. Að sama skapi geta miklar staðbundnar hitasveiflur átt sér stað á einum stað, eða á tilteknu svæði án þess að það hafi teljandi áhrif á meðalhita jarðar.
  2. Þrátt fyrir að hitaferillinn fyrir Reykjavík liggi ekki eindregið upp á við, þá er hlýnunin hér alls ekki minni en sú hlýnun sem orðið hefur í heiminum – jafnvel meiri. Hinsvegar eru sveiflurnar hér það miklar á milli ára og áratuga, að við getum varla treyst á að ekki komi tímabundið bakslag burt séð frá því sem gerist á heimsvísu.

Spádóma ætla ég þó að láta eiga sig að þessu sinni.

 


Meðalhiti í Reykjavík frá 1901 í kubbamynd

Hér kemur nokkuð litrík mynd sem ég hef útbúið, en hún sýnir árshita hvers árs í Reykjavík frá árinu 1901. Í stað þess að sýna þetta á línuriti eins og venjulega er hér hvert ár sýnt með kubbum sem staðsettir eru eftir hitaskalanum til vinstri og hefur hver áratugur sinn lit til aðgreiningar. Samskonar mynd birti ég fyrir ári, nema að núna er árið 2009 komið inn og eins og sést er það nokkuð ofarlega á blaði, með meðalhitann 5,6 gráður.

Árshiti fra 1901

Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofunni, sem birt var skömmu fyrir áramót, kom fram að árið 2009 hafi verið 1,2 gráðum yfir meðallagi og í 10. sæti yfir hlýjustu árin í Reykjavík frá upphafi mælinga. Opinber meðalhiti í Reykjavík er þó ekki nema 4,3 gráður (m.v. árin 1961-1990). Hinsvegar hef ég fengið staðfest að meðalhiti liðins árs, reiknaður með tveimur aukastöfum, hafi verið 5,55 gráður þannig að mér ætti að vera óhætt að segja að meðalhitinn hafi verið 5,6 stig, með einum aukastaf. 

En nóg um það. Ef myndin er skoðuð sést að árið 2009 er þarna í ágætum félagsskap með fjórum öðrum árum en er væntanlega örlítið svalari en þau, ef rétt er að liðið ár hafi verið það 10. hlýjasta. Annars er árið 2003 það hlýjasta í Reykjavík en þar á eftir koma árin 1939 og 1941 í 2.-3. sæti. Þessi þrjú ár eru sögulega séð afar hlý og marka nokkurn veginn hitatoppana tvo sem hafa komið á landinu síðustu 100 árin. Talsvert köld ár komu um og eftir árið 1979, en það ár situr afgerandi á botninum með meðalhitann aðeins 2,9 stig, sem er talsvert kaldara en köldu árin í kringum frostaveturinn mikla 1918. Til að finna kaldara ár en 1979, þarf að fara aftur til ársins 1892. Það er athyglisvert hvað hitasveiflur hafa verið litlar eftir árið 2000 en þau ár eru öll fyrir ofan 5 gráðurnar sem þýðir að meðalhiti þessa áratugar er hærri en hefur verið áður. Á fjórða og fimmta áratugnum komu vissulega mjög hlý ár en meðalhiti þeirra ára var dreginn niður af lakari árum sem komu inn á milli.

Svo er bara spurning hvað gerist á þessu ári. Í fyrra spáði ég því að ýmsum ætti eftir að hitna í hamsi á árinu – sem gekk eftir. Ég veit ekki með þetta ár, eitthvað mun þó verða um hitamál á árinu.


Nokkrar spurningar

Vitum við í raun hvort samningurinn er ásættanlegur eða ekki?
Væri nákvæmlega sami samningur talinn jafn slæmur ef allir stjórnmálaflokkarnir hefðu átt sinn fulltrúa í samninganefndinni?
Er Icesave samkomulagið vont af því að formaður samninganefndarinnar var einu sinni Alþýðubandalagsmaður?
Er samningurinn slæmur af því að við viljum ekki borga skuldir einkafyrirtækis?
Finnst Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum samningurinn vera slæmur af því að þeir eru ekki í ríkisstjórn?
Verðum við stærri og stoltari þjóð ef við höfnum samkomulaginu?
Fáum við betri samning ef við höfnum samkomulaginu?
Hvað gerist ef við fáum ekki betri samning eftir að við höfnum samkomulaginu?
Hversu mikið betri þarf samningurinn að vera til að vinna upp það tjón sem höfnun forsetans veldur?
Mun örugglega nást betri niðurstaða ef deilan fer fyrir dóm?
Hvað ef við töpum málaferlum

… og hvað verðum við lengi í ruslinu? 

Ekki veit ég það, svo mikið er víst. 


mbl.is Endurreisnaráætlun í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið í Reykjavík 2009

Þessa fyrstu bloggfærslu mína á árinu ætla ég að tileinka veðrinu í Reykjavík á liðnu ári og skoða hvernig veðurgæðum hefur verið háttað fyrir hvern mánuð. Fyrir þá sem ekki vita, þá skrái ég mjög samviskusamlega veðrið fyrir hvern dag í Reykjavík og gef hverjum degi einkunn út frá veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8 og út frá því reikna ég meðaleinkunn hvers mánaðar sem gjarnan er á bilinu 4 til rúmlega 5. Mánuðir sem fá lægri einkunn en 4 teljast vera slæmir veðurmánuðir en allt fyrir ofan 5 er mjög vel sloppið.

Myndin hér að neðan sýnir veðurfarslega einkunn fyrir hvern mánuð í Reykjavík árið 2009. Til viðmiðunar eru gráu súlurnar sem sýna meðaleinkunn viðkomandi mánaðar öll þau ár sem ég hef skráð veðrið.

Veðurgæði 2009

Veðrið í Reykjavík á árinu var gott í heildina. Júlímánuður sker sig þó úr enda fékk hann hæstu einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði í þau 23 ár sem ég hef staðið í þessum skráningum. Sumarmánuðirnir júní-ágúst fengu einnig samanlagt bestu einkunn sem ég hef gefið þeim mánuðum, auk þess sem nóvember sló öðrum nóvembermánuðum við í veðurgæðum. Ekki nóg með það því árið í heild dúxaði og fékk einkunnina 4,79 og sló þar með út árið 2006 sem besta árið – samkvæmt þessu einkunnarkerfi. Enginn mánuður telst vera slæmur. September og október fengu lökustu einkunnirnar og kannski heldur verri einkunn en þeir eiga skilið en í þessum mánuðum voru nokkuð slæmir veðurkaflar sem drógu meðaleinkunnina niður.

Hér á eftir kemur veðuryfirlit fyrir eintaka mánuði. Einkunnargjöfin er í sviga:

Janúar (4,5): Hlýtt í upphafi mánaðar en síðan breytilegt hitafar. Snjór var á jörðu seinni hlutann en aldrei mikill. Loftþrýstingur var mjög lágur þrátt fyrir mikinn þrýsting í fólki þarna á dögum búsáhaldarbyltingarinnar.
Febrúar (4,5): Kuldakast í upphafi mánaðar og bjart veður með hvítri jörð. Síðan hlýtt og blautt um miðjan mánuð. Kaldasti dagur vetrarins var 4. febrúar þegar var um 8 stiga frost, en þann 16. var kominn 8 stiga hiti.
Mars (4,8): Gott og bjart veður framan af og snjór á jörðu. Mjög hlýtt um tíma um miðjan mánuð en kólnaði aftur undir lokin með björtu veðri.
Apríl (4,7): Yfirleitt hlýtt í mánuðinum. Bjart og gott um Páskana (12. og 13.) og vikuna þar á undan. Gott veður á kosningadaginn þann 25. en rigningasamt og hvasst vikuna þar á undan.
Maí (4,9): Mjög breytilegt veður fyrri hlutann og hvasst með köflum. Upp úr miðjum mánuðinum gerði mikla sumarblíðu með mjög björtu og hlýju veðri. Skúrasamt undir lokin.
Júní (5,1): Nokkuð gott veður allan mánuðinn þó að hitinn hafi ekki þótt hár. Hlýnaði þó mikið undir lokin í þungskýjuðu hægviðri.
Júlí (5,8): Eindæma góður veðurmánuður í borginni. Mjög sólríkt og þurrasti júlí frá 1889. Hlýtt yfirleitt nema í kuldakastinu sem gekk yfir landið dagana 23.-25. Hitinn komst annars tvisvar í 21 stig.
Ágúst (5,2): Yfirleitt allgott sumarveður. Kærkomnar rigningar öðru hvoru en annars oftast bjart og hlýtt.
September: (4,2): Lengst af frekar milt. Hægviðri framan af en síðan úrkomusamt og hvasst. Það haustaði skart með hvössum útsynningi með slydduéljum þann 26. og snjóaði í fjöll. Sólin lét lítið sjá sig í mánuðinum.
Október (4,1): Mjög kalt framan af og fyrsti snjórinn í borginni féll þann 5. en stóð stutt. Óveður með austan stormi og rigningu gerði þann 9. Eftir það var hlýtt, breytilegt og sólarlítið veður.
Nóvember (5,1): Þægilegar austanáttir ríkjandi. Lengst af vel hlýtt þar til alveg í lokin þegar tók að frysta.
Desember (4,9): Mjög tvískiptur mánuður með hlýindum fyrri hlutann. Rigningar dagana 9.-12. Köld en björt norðanátt dagana fyrir jól en síðar hægari. Snjór á jörðu allra fyrstu og síðustu dagana.

- - - - -

Fyrir veðursama er hér meira um veðurskráningar mínar og sitthvað sem ég hef skrifað um veðrið á árinu:

Veðurskráning fyrir janúar

Útsynningur

Hversu gott var góðviðrið í júlí?

Gæðamat á sumarveðrum 1987-2009, súlurit

Einnig er sjálfsagt að vísa í veðuryfirlit fyrir landið í heild á vef Veðurstofunnar (hér) og á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar (hér).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband