6.5.2014 | 23:15
Allir í pollagallana
Ég endaði síðustu bloggfærslu á því að auglýsa að næsta færsla skyldi fjalla um Eurovision og skal nú staðið við það með ánægju. Og hvað skal segja? Auðvitað var virkilega flott að strákarnir okkar - eða pollarnir okkar - skulu hafa náð í gegn og það áttu þeir líka skilið. Ég er á því að þetta sé eitt það besta sem við höfum sent í þessa keppni frá upphafi, allavega það skemmtilegasta. Spilagleðina vantar ekki, þetta er gleðirokk, litríkt og já, með boðskap, sem mér finnst nú reyndar vera aukaatriði í þessu öllu saman. Hver er ekki sammála því að allir skuli vera góðir við alla?
Úrslit í þessum fyrri undanúrslitunum voru flest eftir bókinni en það voru eiginlega smáríkin tvö Ísland og San Marínó sem komu á óvart. Sjálfur get ég sagt að ég hafði 9 af löndum 10 rétt í stöðumati áður en úrslitin voru tilkynnt. Átti reyndar von á að Portúgal kæmist loksins áfram og færi inn í stað San Marínó. En Portúgal á fáa nágranna og það eru fáir sem dansa í takt við þá. En nú er bara að drífa sig í pollagallana og fylgjast með sigurgöngu okkar manna. Sú leið verður grýtt áfram. Í aðalkeppninni á laugardagskvöld munum við keppa við stórar örlagaballöður með tilkomumiklum háum-C-um. Þar fara Svíar fremstir í flokki og eru ávallt sigurstranglegir enda gera Svíar alltaf allt rétt allstaðar. Við höfum hinsvegar leikgleðina að vopni í atriði sem er óformúlulegt, vitlaust og barnalegt en umfram allt í góðum fílingi.
Jæja, mér dettur svo sem ekkert meira í hug en til heiðurs Portúgölum kemur hér atriði þeirra tekið upp á heimavelli sem virðist vera sjónvarpssalur Portúgalska ríkissjónvarpsins. Greinilega eru ekki allir búnir að dressa sig upp, mannskapurinn að mestu ómálaður og ýmsir bara ennþá á hlýrabolunum. Allir gera þó sitt besta og takturinn er á sínum stað - ekki síst hjá táknmálstúlkinum.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2014 | 20:49
Stóra snjódagamyndin, 1986-2014
Vorið er komið, grundirnar gróa og enn einn veturinn horfinn á spjöld sögunnar. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta uppfærslu á stóru snjódagamyndinni sem er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Myndin sýnir sem fyrr hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík á miðnætti. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki, enda stundum aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl, klakabunka eða flekkótta snjóhulu í afturför. Síðasti vetur var reyndar nokkuð erfiður að þessu leyti.
Miðað við þessar athuganir mínar voru snjódagar liðins vetrar 59 talsins sem er nálægt meðaltali síðustu 10 ára en nokkuð undir meðaltali alls tímabilsins frá 1986. Síðasti 100 daga snjóaveturinn var veturinn 1999-2000 en flestir hvítir dagar voru veturinn 1994-1995. Veturinn í fyrra var hinsvegar sá snjóléttasti með aðeins 24 daga samkvæmt þessum skráningum mínum.
Annars var þetta nokkuð sérstakur vetur. Desember var kaldasti mánuðurinn og fyrir utan fyrsta daginn er mánuðurinn hvítur. Þó ekki alhvítur. Svokallaðan spilliblota gerði fyrir jól og eftir sat þrálátur klakinn sem smám saman lét undan síga fram eftir vetri. Það var talsvert matsatriði í klakatíðinni hversu lengi ég átti að skrá jörð sem hvíta. En ég hef mín ráð og miða við að helmingurinn af garðblettinum hér heima í Vesturbænum sé hulinn snjó eða klaka. Klakinn gæti þó hafa verið öllu þrálátari í efri byggðum en það er önnur saga sem veðurdagbókin þekkir ekki. Apríl var ekki alveg laus við hvíta litinn því að kringum páskana var þrálátur útsynningur með éljagangi og náði þá að hvítna lítillega að kvöld- og næturlagi. Það er svo sem ekkert óvenjulegt í apríl eins og sést og ef vel er gáð hefur það þrisvar gerst að hvítt hefur verið á miðnætti síðasta daginn í apríl. Síðast gerðist það vorið 2011.
Svo er bara að vona að vorið verði snjólétt það sem eftir er. Það eru dæmi um hvíta jörð í maí, samanber myndina sem hér fylgir frá 1. maí 2011. Vorverkin munu halda áfram hér og verður næst fjallað um Eurovision.
Vísindi og fræði | Breytt 2.5.2014 kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2014 | 22:35
Landið skelfur stranda á milli
Þennan góðviðrisdag þegar þetta er skrifað hefur verið talsverð skjálftavirkni á landinu. Þetta eru allt mjög litlir skjálftar sem sjálfsagt enginn verður var við en dreifing þeirra sést á meðfylgjandi korti Veðurstofunnar. Það má segja að flest af virkustu skjálftasvæðum landsins taki þátt í þessum óróa. Mjög þétt virkni hefur verið út af Reykjanesi en síðan raða skjálftarnir sér eftir Reykjanesskaganum og Suðurlandsbrotabeltinu. Katla er þarna með líka, Vatnajökull og svæði í nágrenni Öskju þar sem skjálftavirkni hefur verið nokkur síðustu ár. Norðurlandið lætur ekki sitt eftir liggja þar sem skjálftarnir raða sér eftir Tjörnesbrotabeltinu. Allt er þetta með meira móti miðað við það sem gengur og gerist hvort sem það boðar eitthvað sérstakt eða ekki. Spurning er þó hvað veldur. Tilviljun eða eitthvað annað?
Stundum er talað um þann möguleika að tunglið geti haft áhrif á tíðni jarðskjálfta, stóra sem smáa. Tunglið er um þessar mundir í nokkuð beinni stefnu að sólinni frá jörðinni og nýtt tungl myndast þann 29. apríl. Tunglið er sem sagt á milli sólar og jarðar og snýr iIllsjáanlegri skuggahlið sinni að jörðu. Þar með eru tunglið og sólin nokkuð samstillt í sínu átaki þessa dagana. Með léttri athugun fann ég smá vangaveltur um þetta frá British Geological Survey þar sem bent er á að samkvæmt rannsókn frá 2004 komi fram að engin marktæk tengsl séu á milli jarðskjálfta og tunglsins. Önnur rannsókn frá 2009 bendir hinsvegar til þess gagnstæða og að aðdráttarafl tunglsins geti einmitt liðkað til við að koma einhverri skjálftavirkni af stað þar sem spenna hleðst upp við sprungur.
Eitthvað er þetta því málum blandið en eitt er þó víst að landið okkar er á hreyfingu eins og það hefur alltaf verið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2014 | 21:28
Trúarhátíð trúleysingja?
Nú er páskahátíð og þjóðin komin í páskafrí. Fyrsti er það skírdagur sem reyndar svona hálfheilagur dagur þar sem við minnumst síðustu kvöldmáltíðarinnar og svo föstudagurinn langi, sorgardagurinn mikli þegar Jésú var krossfestur. Stund milli stríða er svo laugardagurinn þar sem ekkert sérstakt gerðist. Páskadagurinn er svo stærsti dagurinn en þá var sá mikli atburður í den að frelsarinn sigraði dauðann og reis upp af gröf sinni. Páskahátíðinn á sér að vísu lengri sögu en kristnin. Engu að síður eru atburðir þessara daga, grundvallaratriði í kristindómnum enda sýnir upprisan að Jésú var ekki bara hver annar vandræðagemsi sem þóttist vera eitthvað meira en aðrir. Hér og víðar um lönd kallar þetta á auka hátíðisdag sem við köllum annan í Páskum. Framhaldsagan heldur áfram nokkru síðar þegar við tökum okkur aftur frí í miðri viku og minnumst uppstigningar Jésú til himna þar sem hann hefur síðan setið við hægri hönd Guðs föður almáttugs, dæmandi lifendur og dauða. Ekki má svo gleyma Hvítasunnudegi sem fæstir vita hvers vegna er haldin hátíðlegur en eitthvað hlýtur það að vera merkilegt því það þarf mánudaginn einnig til að klára það mál.
Stærstur hluti þjóðarinn telst vera kristinn enda eru flestir bæði skýrðir og fermdir. Öðru máli gegnir þó um sannfæringuna, hvað þá kirkjusókn. Fleiri eru þeir sennilega sem amast við klingjandi kirkjuklukkum á sunnudagsmorgnum heldur en fara í kirkju og þó að hér sé Þjóðkirkja þá má varla minnast á kristna trú við skólakrakka. Kristin gildi má heldur ekki minnast á landsfundum stjórnmálaflokka jafnvel þótt sjálfur Guðdómurinn sé til umfjöllunar í Þjóðsöngnum okkar. Blessunarlega má þó óska eftir blessunar Guðs á örlagastundum.
Hvað er hér annars á ferðinni? Er rétt að gefa trúlausri þjóð frí frá vinnu í þrjá daga vegna Páskanna eins og ekkert sé sjálfsagðara? Skólar gefa meira segja enn lengra frí, jafnvel eftir verkfall. Vikulangt Páskafrí eða meira skal það vera í trúlausum skólum landsins. Trúfrelsi er auðvitað sjálfsögð mannréttindi og enginn er skyldugur til að trúa nokkru frekar en hann kýs. Annað væri líka eitthvað öfugsnúið því það að trúa eða trúa ekki, er einlæg afstaða hvers og eins. Eiginlega finnst mér þetta þó vera þannig að úr því það er verið að gefa okkur alla þessa frídaga þá mættum við alveg launa það með því að hugsa með dálitlum jákvæðum huga til kirkjunnar og þess boðskaps sem þar er fram borinn, hvort sem við trúum á upprisu Jésú Krists eða ekki. Og ef menn hinsvegar vilja endilega ögra með því að spila Bingó opinberlega á föstudaginn langa þá er eiginlega grundvöllur fyrir þessum frídögum horfinn og menn gætu allt eins farið að vinna. Það er reyndar gert í henni Ameríku, þar sem páskarnir eru bara hver annar sunnudagur eða svona rétt rúmlega það.
Gleðilega páska!
12.4.2014 | 11:29
Mánaðar- og árshiti í Reykjavík
Nú skal kynnt til sögunnar súlnaverk mikið sem ég hef útbúið en því er meðal annars ætlað að sýna hvert gæti stefnt með árshitann í Reykjavík, þó ekki sé langt liðið á árið. Myndin ætti að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá tákna bláu súlurnar meðalhita hvers mánaðar samkvæmt núverandi opinbera meðaltali 1961-1990 sem vill svo til að er frekar kalt tímabil. Rauðu súlurnar sem rísa hærra er hinsvegar meðalhiti síðustu 10 ára sem er öllu hlýrra tímabil. Fjólubláu súlurnar standa svo fyrir þá mánuði sem liðnir eru af núverandi ári, 2014.
Hægra megin við strik eru 5 súlur sem sýna ársmeðalhita. Bláa súlan þar er kalda meðaltalið 1961-1990 (4,3°) og sú rauða er meðalhiti síðustu 10 ára (5,4°). Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.
Spennan liggur í því hvert stefnir með þetta ár og þar koma tónuðu súlurnar tvær við sögu. Sú bláfjólubláa segir til um árshitann ef mánuðirnir sem eftir eru verða akkúrat í kalda meðaltalinu en sú rauðfjólubláa sýnir hver árshitinn verður ef restin verður jöfn meðalhita síðustu 10 ára. Eftir því sem líður á árið fæst skýrari mynd af því hvert meðalhitinn stefnir og ef vel liggur á mér mun ég birta uppfærslur oftar en sjaldan.
Fyrstu þrír mánuðir þessa árs hafa allir verið yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ekki munar miklu í febrúar og mars, en janúar var umtalsvert hlýrri. Samkvæmt mínum útreikningum er staðan eftir þrjá mánuði þá þannig að út frá kalda meðaltalinu stefnir árshitinn í Reykjavík í 4,8 stig, en sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum stefnir árshitinn í 5,6 stig.
Ársmeðalhiti á bilinu 4,85,6 ætti því að vera líklegur en gæti endað neðar og gæti endað ofar. Þó að byrjunin lofi góðu er engu að treysta, samanber árið í fyrra sem byrjaði með enn meiri hlýindum en þetta ár. Haldi árið hinsvegar áfram að vera hlýtt má hafa í huga að árshitametið í Reykjavík er 6,1 stig, frá árinu 2003.
5.4.2014 | 17:23
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Nú komið að þeim árlega lið að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem allar eru teknar fyrstu vikuna í apríl frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar níu talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Það voru nokkrir skaflar sem ekki náðu að bráðna í fyrra eftir sumarið ómögulega en annars hefur Esjan náð að verða snjólaus öll sumur frá síðustu aldamótum, nema kannski árið 2011 þegar örlítill skafl varð sennilega eftir í Gunnlaugsskarði. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Spurning hvað verður upp á teningnum í ár. Talsverður snjór var í Esjunni nú í vetrarlok en með hlýindum undanfarna daga hefur mikið gengið á snjóinn. Það er þó heilmikið eftir og meira en verið hefur á sama tíma flest hin fyrri ár sem hér eru til viðmiðunar. Sambærileg snjóalög virðast hafa verið vorið 2008 en þá hvarf snjórinn upp úr miðjum september. Hvað gerist í ár ræðst svo að því hvernig sumarið verður og hvort eitthvað að ráði muni snjóa í efri hlíðar fram eftir vori. Þetta verður allavega tæpt í ár og ræðst sennilega ekki fyrr en alveg undir haust.
- - - - -
Í lokin er gráupplagt að minna á myndaseríuna mína Reykjavík alla daga ársins þar sem sjá má Esjuna 365 daga ársins 2011 eins og hún birtist frá Öskjuhlíðinni: http://www.365reykjavik.is
1.4.2014 | 18:57
Vetrarhitasúlur
Nú þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum sem staðið hafa lengi. Hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins sem liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Veturinn hefur verið óvenjulegur á ýmsan hátt sem í sjálfu sér er ekki óvenjulegt. Nánar um það undir myndinni.
Hvað má svo segja um þennan vetur? Hann var nokkuð hlýr þótt lítið hafi verið um afgerandi hlýindi. Frostakaflar voru heldur ekki verið langvinnir. Frostið mikla fimmtudaginn 5. desember stingur mjög í stúf eins og sjá má enda var þetta lang kaldasti dagurinn í Reykjavík í vetur. Hámark kuldakastsins var um miðjan dag og skilaði það sér því að fullu í skráningu mína enda miða ég þar við hitann yfir daginn eins og ég kom inn á hér á undan. Desember var reyndar eini mánuðurinn í vetur sem var undir frostmarki í meðalhita í Reykjavík, eða -0,5 stig samkvæmt Veðurstofu. Nóvember, febrúar og mars voru öllu mildari og nálægt meðalhita síðustu 10 ára. Janúar gerði þó best og var mildasti vetramánuðurinn að þessu sinni eða +2,4 stig, þótt hann hafi ekki verið alveg eins hlýr og árið áður. Það fer vel á því að síðasti dagurinn í mars hafi verið sá hlýjasti í vetur. Það er þó varasamt að tala um að vorið sé komið eins og við þekkjum af reynslunni.
Það eru sennilega aðrir veðurþættir en hitinn sem hafa gert þennan vetur eftirminnilegan. Kannski verður hans minnst sem klakavetrarins mikla enda var mjög sérstakt hvað snjórinn frá því í desember lifði lengi í formi þrálátra svellbunka hér og þar á annars auðri jörð. Hiti upp á 2-4 stig í þurri austanáttinni náði ekki vinna endanlega á þessu fyrr en tók að rigna í mars. Annars á þetta ekki að vera allsherjar veðuryfirlit. Aðrir hafa gert því góð skil eins og Veðurstofan og Sigurður Þór á síðunni þar sem allra veðra er von.
- - - - -
Athugasemdir eru birtar eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2014 | 22:05
Rýnt í hafísstöðuna á Norðurslóðum
Eins og venjulega á þessum tíma árs hefur hafísinn á Norðurslóðum náð sínu vetrarhámarki í útbreiðslu og mun upp úr þessu fara að dragast saman uns hinu árlega lágmarki verður náð í september. Það vakti nokkra athygli síðasta sumar að bráðnunin varð öllu minni en mörg undanfarin sumur og engin furða að raddir heyrðust um að hafísinn væri farinn að jafna sig. Ástæðan fyrir þessari litlu bráðnun í fyrra var ekki síst kalt sumar vegna lægðagagns og lítils sólskins. Ekki ósvipað tíðarfar og var uppi hér suðvestalands síðasta sumar.
Þessi litla bráðnun sumarið 2013 var dálítið sérstök í ljósi þess að sumarið áður, 2012, sló rækilega fyrri met í sumarbráðnun eins og sjá má á línuritinu hér að neðan. Rauða lína er 2013, en sú bleika sem tekur mestu dýfuna er 2012. Til samanburðar er farið lengra aftur til áranna 2000, 1990 og 1980. Græna línan er árið 2006 en þá var vetrarútbreiðslan mjög lítil sem þó skilaði sér ekki í mjög lágri sumarútbreiðslu. Núverandi ár 2014 er táknað með gulri línu. (Myndin er unnin upp úr línuriti af síðunni Cryosphere Today)
Eins og staðan er nú er flatarmál ísbreiðunnar nokkuð svipuð fyrri viðmiðunarárum. Fram að þessu í vetur hafði hafísbreiðan reyndar verið með allra minnsta móti þrátt fyrir að koma út úr frekar köldu sumri og sýnir það kannski best hversu lítið samband er á milli sumarútbreiðslu og vetrarútbreiðslu. Veturinn fyrir metlágmarkið mikla 2012 var hafísinn til dæmis lengst af útbreiddari en verið hefur nú í vetur. Ástæðan fyrir þessu litla samhengi milli sumarútbreiðslu og vetrarútbreiðslu er einfaldlega sú að þau svæði sem skipta máli varðandi vetrarútbreiðslu eru mörg hver langt utan við sjálft Norður-íshafið þar sem hinn eini sanni heimskautaís heldur sig. Til dæmis er í vetrarútbreiðslunni talinn með hafís út af Nýfundnalandi sem hefur verið með meira móti í vetur vegna kuldana í Norður-Ameríku en sá ís bráðnar fljótt og örugglega snemma vors.
Tiltölulega lítil hafísútbreiðsla í vetur fer saman við ríkjandi hlýindi sem verið hafa á Norðurslóðum í vetur. Kuldinn hefur líka oft haldið sig annarstaðar í vetur eins og íbúar Norður-Ameríku hafa fengið að kenna á. Hér við Norður-Atlantshafið hafa hlýindin hinsvegar haft yfirhöndina. Mjög hlýtt hefur verið við Svalbarða og óvenju lítill ís var þar í vetur sem og við Barentshaf. Alaskabúar nutu líka hlýinda í vetur og í tengslum við það hefur ísinn við Beringshaf verið með minna móti. Kortið hér að ofan er frá Bandaríku Veðurstofunni NOAA og sýnir frávik frá meðalhita á 90 daga tímabili fram að 23. mars.
En svo er það ástand hafíssins á sjálfu Norður-Íshafinu. Hér eru tvö kort sem sýna ísþykkt eins og hún er áætluð. Kortið til vinstri er frá 24. mars 2013 en til hægri er staðan eins og hún er nú. Þykkasti ísinn er að venju norður af heimskautasvæðum Ameríku en athyglisvert er að tiltölulega þykkur ís, táknaður með gulu, hefur færst úr norðri að ströndum Alaska. Miðhluti Íshafsins er í heildina aftur á móti þakinn þynnri ís en áður. Ísinn núna er einnig þynnri undan ströndum Síberíu vegna suðlægra vinda frá meginlandinu. Einnig sést vel hversu lítilfjörlegur ísinn er allt í kringum Barentshafið. Undanfarið hefur ísinn þar reyndar verið í dálítilli útrás sem skýrir að hluta útbreiðsluaukninguna sem varð nú seinni hlutann í mars. Það varir þó ekki lengi og hefur auk þess þau áhrif að það dreifist úr ísnum frekar en að hann aukist að magni. Myndin eru unnin upp úr kortum á hafíssíðu bandaríska sjóhersins: Naval Research Laboratory.
Fyrir sumarið er best að spá sem minnstu. Það er þó alltaf freistandi að spá merkilegum atburðum eins og íslausum Norðurpól þótt engin von sé til þess að gjörvallt Norður-Íshafið verði íslaust í sumarlok. Þykki ísinn í Beaufort hafinu norður af Alaska gæti orðið þrálátur og erfiður viðureignar. Allt veltur þetta þó á veðuraðstæðum í sumar. Mikið sólskin í júní og hlýir landvindar gætu gert usla ef þeir koma upp en það gerðist einmitt ekki síðasta sumar.
Læt þetta duga að sinni. Það má taka fram að þetta eru áhugamannapælingar en ég hef fylgst dálítið vel með hafísnum undanfarin ár. Held þó að það sé furðumikið til í þessu hjá mér.
- - - - - -
Smáa letrið. Athugasemdir verða birtar eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Kannski er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2014 | 18:48
Pollapönk og svikið kosningaloforð í Söngvakeppninni.
Það virðist fáu vera að treysta í þessum heimi og allra síst kosningaloforðum. Nú hefur verið ákveðið að Eurovisonframlag Íslendinga í ár verður flutt á ensku eins og svo oft áður. Þetta er dálítið sérstakt því þegar kosið var á milli þeirra tveggja laga sem náðu lengst í keppninni, var skýrt og greinilega tekið fram að þau yrðu þá sungin á því tungumáli sem þau yrðu flutt á í sjálfri keppninni í Danmörku. Þessi nýbreytni var gerð með það í huga að kjósendur gætu valið á milli tveggja síðustu lagana í sem endanlegustu mynd og þá alveg sérstaklega hvað varðar tungumálið.
Pollapönkslagið, Enga fordóma, var flutt á íslensku þarna fyrir lokakosninguna, nema lokahluti lagsins sem var sunginn á ensku. Þetta fannst mér ágætt fyrirkomulag og ég kaus lagið í þeirri góðri trú að Evrópubúar fengju nú að heyra framlag okkar sungið á hinu ylhýra forna tungumáli en enskan tekin í lokin svo allir skilji innihaldið. Einnig fannst mér íslenski textinn fara laginu afskaplega vel, burt séð frá innihaldinu. Burtu með fordóma og annan eins ósóma, verum öll samtaka þið verðið að meðtaka
o.s.frv. Þetta smellpassaði við taktinn í laginu en þegar kom að enska hlutanum flattist lagið út og varð venjulegra. Predjudice yfirtók fordóma. Það var Bandaríski söngvarinn og Íslandsvinurinn mikli John Grant sem mun hafa snarað textann yfir á ensku. Sennilega telst það gott til afspurnar enda er John Grant fínn tónlistarmaður og heimsfrægur á Íslandi.
En nú hefur sem sagt verið ákveðið að lagið skuli aldeilis ekki neitt flutt á íslensku heldur bara á ensku og það er Sjónvarpið sem ræður því. Þetta verður því ekki eins lofað var fyrir kosningar. Svikið kosningaloforð - ekkert flóknara en það. Í Fréttablaðinu var fjallað um þetta á dögunum og vitnað í Heru Ólafsdóttur framkvæmdastjóra keppninnar og sé rétt haft eftir segir hún: Það er auðvitað almenningur sem kýs lagið en við höfum alltaf vald til að breyta. Þessi orð eru afskaplega áhugaverð og lýsa í raun hvernig lýðræðið virkar. þ.e.: Þið kjósið útfrá því sem við lofum en við ákveðum svo hvernig hlutirnir verða. Þessi ágæta kona gæti kannski gert það gott í Framsóknarflokknum.
Ég er þó áfram mjög sáttur við framlag okkar að þessu sinni jafnvel þó það sé eingöngu flutt á ensku. Kannski bara eitt það allra besta. Er þó bara dálítið spældur og hissa á svona hringlandahætti og að ekki skuli staðið við það sem sagt er. Lagið er þó áfram skemmtilegt, gott bít og stuð á sviðinu. Fyrstu viðbrögð útlendinga við laginu á You-Tube voru frekar neikvæð. Fáir skildu hvað við vorum að pæla með svona vitleysu. Eða eins og einn segir: I just can't believe that you think that this is gonna do great on Eurovision! First time Im dissapointed of icelandics... Þetta virðist þó hafa breyst nokkuð hjá álitsgjöfum eftir því sem þeir heyra lagið oftar nema að enska útgáfan geri gæfumuninn þrátt fyrir allt - eða eins og einn segir: Im actually starting to like this.... what is wrong with me?
Hér er vídeóið af laginu sem gert var fyrir keppnina. Miklir leikrænir tilburðir eru þarna á ferð sem eiga að undirstrika boðskap lagsins. Það vekur athygli mína hér að hvergi er söngvarinn sýndur syngja, sem endurspeglar væntanlega hringlandann með tungumálið. Meira er hinsvegar af nærmyndum af hljóðfæraleikurum og öðrum leikaraskap og veikir það áhrifamátt tónlistarinnar sjálfrar og gerir boðskapinn að aðalatriðinu í staðinn. Sem er ekki slæmt í sjálfu sér.
Ein pæling áður en ég hætti og á kannski við ef okkur mun ganga afleitlega. Persónulegar vinsældir og óvinsældir flytjenda skipta gjarnan máli við val okkar á keppendum í Eurovision. Símakosning ræður mestu um hverja við sendum og má gera ráð fyrir að krakkar og aðrir pollar séu duglegir við að hringja, jafnvel hvað eftir annað á meðan eldri og heldri borgarar láta sér nægja kannski eitt símtal úr gamla heimilissímanum, ef þeir þá kjósa á annað borð. Væri kannski sniðugt að virkja nýbúa þessa lands frá Evrópu sem mikið úrval er af hér á landi? Fólk sem þekkir ekki muninn á Bubba og Bjögga er líklegra til að velja fyrst og fremst lag en ekki flytjendur og það alveg án nokkurra fordóma.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2014 | 17:20
Köld sjálfvirk veðurspá og bloggfrí Hungurdiska
Það er óhætt að segja að miklar frosthörkur séu í kortunum eftir helgi á sjálfvirkri staðarspá sem birtist á vef Veðurstofunnar. Samkvæmt því verður kuldakastið í hámarki kl 06:00 á þriðjudagsmorgun þegar spáð er 9 stiga frosti í Reykjavík, 14 á Akureyri og svo mikið sem 16 stiga frosti að Árnesi á Suðurlandi og 18 í Ásbyrgi. Það er reyndar ekkert nýtt að þessar sjálfvirku spár sýni frosthörkur með meira móti við vissar aðstæður og Veðurstofufólk er sjálfsagt meðvitað um það enda er tekið fram að textaspáin (skrifuð af veðurfræðingi) gildir ef munur er á textaspá og sjálfvirkum spám. Og hvað segir textaspáin um kuldann eftir helgi? Ekki mjög mikið: Á mánudag: Frost 0 til 10 stig að deginum, kaldast í innsveitum. Á þriðjudag: Áfram kalt í veðri. Sem sagt, það má búast við kulda og frosti en ekki endilega ógurlegum frosthörkum nema kannski í innsveitum. Best er auðvitað að kortin sýni ekki eitthvað sem er alveg út úr korti. Sjáum þó til. Kannski verður bara ansi kalt. Veturinn er ekki liðinn þótt 6 stiga hiti sé í Reykjavík þegar þetta er skrifað.
Annað atriði þessu óskylt en þó ekki alveg, er bloggfrí Hungurdiska Trausta veðurfræðings sem boðað hefur frí um óákveðinn tíma vegna áreitis í athugasemdum eins og hann kallar það. Fyrir okkur veðurnördana og alla þá fjölmörgu áhugamenn um veður er þetta hið versta mál eins glögglega kemur fram í fjölmörgum viðbrögðum. Hann hefði t.d. getað frætt okkur nánar um þessa kulda og hvort eitthvað sé til í þeim og hvers vegna.
Ég hef öðru hvoru blandað mér umræður á Hungurdiskum og vona að ég sé ekki sekur um mikið áreiti. Mín vegna mætti alveg loka á athugasemdir á Hungurdiskum enda snúast þær oftar en ekki um eitthvað allt annað en bloggfærslan gerir. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að í athugasemdum frá ónefndum aðila (og aðilum) koma fram sterkar og að mínu mati mjög ósanngjarnar ásakanir um að síðan reki einhverskonar áróður/trúboð fyrir því að það sé að hlýna á Íslandi og heiminum reyndar líka. Í það minnsta hefur Trausti á ósanngjarnan hátt sífellt verið sakaður um að neita að horfast í augu við að það sé að kólna á Íslandi eða heiminum eins og sumir eru gallharðir á. Þetta áreiti er að mínu mati helsta ástæða og uppspretta leiðindanna í athugasemdakerfi Hungurdiska og gera ekkert annað en að eyðileggja stemninguna sem annars ætti að ríkja þar. Þessum ásökunum er oftar en ekki reynt að svara þótt Trausti sé löngu hættur því sjálfur. Það kallar svo á enn meiri leiðindi, uppnefni og ásakanir á báða bóga og fjandinn verður laus. Kannski væri því best að sleppa öllum athugasemdum þegar og ef Hungurdiskar hrökkva aftur í gang eftir pásu. Eftirspurnin er allavega fyrir hendi og vil líka gjarna halda áfram að lesa það sem þar er á boðstólnum - athugasemdalaust.
(Ætlaði upphaflega að skrifa þetta í athugasemdakerfi Hungurdiska en fannst svo bara eins gott að gera það hér á minni eigin síðu).
- - - -
Uppfærsla. Kuldakastið sem var í spákortinu gekk bara nokkuð vel eftir. Þriðjudaginn 18. mars kl. 06:00 var þetta þannig: Reykjavík -8,0° / Árnes -11,6° / Akureyri -11,2° / Ásbyrgi -16,1°. Á láglendi fór frostið mest niður í -23,6 á Mývatni. Þetta var stutt og snarpt kuldakast og líklega mesta kuldaskot sem komið hefur á landinu það sem af er ári. Um næstu helgi má eiga von á öðru skoti því sjálfvirka spáin segir núna -13° í Reykjavík kl. 06:00 sunnudagsmorguninn 23. mars. Er hugsanlega að kólna á Íslandi?
Vísindi og fræði | Breytt 18.3.2014 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
1.3.2014 | 17:58
Febrúarveðrið góða í Reykjavík
Þar sem veðrið er eitt af meginviðfangsefnum þessarar bloggsíðu er varla hægt annað en að skella upp einni laufléttri veðurfærslu eftir þennan febrúarmánuð sem hefur verið óvenjulegur á margan hátt. Til hliðsjónar birti ég eigin veðurskráningu fyrir mánuðinn en fyrir þá sem ekki vita hef ég skráð veðrið í Reykjavík á sama hátt frá miðju ári 1987 og út frá þeirri skráningu hef ég komið mér upp einkunnakerfi þar sem hver dagur fær sína einkunn sem byggð er á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita. Skráningarnar eru handgerðar í sérstaka veðurdagbók með sérstökum veðurpenna en það sem hér birtist er tölvugerð eftirlíking sem hentar betur í svona bloggfærslu. Hefst þá útlistunin:
Almennt eins og komið hefur fram og fólk hefur upplifað einkenndist mánuðurinn af mjög einsleitu veðri, ekki bara í Reykjavík heldur líka um landið í heild og víðar. Lægðagangur hefur allur verið suður fyrir land en það fyrirkomulag hófst reyndar undir lok síðasta árs. Íbúar Bretlands hafa samkvæmt því fengið endalausa vætu með vestanáttinni sem um leið hefur haldið öllum kuldaáhlaupum í skefjum þar. Í Noregi kemur þetta út sem ríkjandi sunnanátt enda hefur veturinn þar verið ákaflega hlýr. Þegar kemur að Íslandi er vindáttin orðin austlæg eða norðaustlæg og það þýðir auðvitað að úrkomutíð ríkir á þeirri hlið landsins sem er áveðurs, nefnilega Austur- og Norðausturlandi, sem minnir á þá hálfgerðu reglu að vætutíð fyrir Norðan og Austan fer saman við vætutíð á Bretlandi og Norðvestur-Evrópu. Við hér á Suður- og Vesturlandi njótum hinsvegar góðs af þurri og bjartri landáttinni sem er einmitt veðurfarið sem einkenndi veðrið Reykjavík nú í febrúar og raunar janúar einnig.
Pílurnar á skráningarmyndinni standa fyrir vind- og vindáttir og þar sést vel hin ríkjandi austanátt sérstaklega seinni hluta mánaðarins þar sem hún er næstum einráð. Hlykkjóttar pílur standa fyrir hægan vind og tvöföld píla fyrir hvassan vind. Ekkert skráð tilfelli er af vindáttum frá norðvestri til suðausturs sem er algerlega einstætt í mínum skráningum. Þarna er bara austanátt, eitthvað af norðaustan og tvö dæmi um norðanátt. Þann 15. er vindáttin reyndar það óráðin að hún túlkast sem hæg breytileg átt. Vindurinn er annars með hægara móti, 2 hvassir dagar en 8 hægir sem er eitthvað sem frekar má búast við á sumrin. Ef sama veðurástand hefði komið upp að sumarlagi hefði reyndar mátt búast við fjölbreyttari vindáttaflóru vegna hafgolunnar sem auðvitað nær sér ekki á strik á veturna.
Hiti mánaðarins hefur verið í hærra lagi og nokkuð jafn. Hitinn er yfir meðalhita febrúar síðustu 10 ára sem er nú bara mjög gott. Aðeins einn dag skrái ég undir frostmarki, þann 16. febrúar. Tek þó fram að þessar hitatölur gilda fyrir hádaginn eins og annað í þessum skráningum. Lituðu punktarnir segja til um hvort sé hlýtt, kalt eða í meðallagi og hefur það sitt að segja um veðureinkunn dagsins.
Sól og úrkoma sem er táknuð á eftir dagsetningunni segir líka sömu sögu. Dálítil væta er fyrstu vikuna en svo ekki meir en sólardagarnir eru fjölmargir. Droparnir í næst-síðasta dálkinum sína ástand yfirborðs á miðnætti. Þessi dálkur er óvenju auður af vetrarmánuði að vera en hann er líka ætlaður fyrir snjó á jörðu um miðnætti en um slíkt hefur ekki verið um að ræða í mánuðinum. Klakinn sem sumstaðar hefur verið afskaplega þrálátur hér og þar nær ekki inn á þessar febrúarskráningar. Merkilegt er út af fyrir sig að fylgjast með úthaldi leifa hans í hita yfir frostmarki. Svo er að sjá að hitinn þurfi að komast í 4 stig svo klakinn geti byrjað að bráðna, en eftir því sem á líður hjálpar sólin til.
Einkunnin 5,3 er meðaleinkunn mánaðarins og hún er ekki af verri endanum. Reyndar er þetta ekki bara hæsta einkunn sem febrúarmánuður hefur fengið hjá mér heldur er þetta hæsta einkunn sem nokkur vetrarmánuður hefur fengið út frá mínum skráningum. Það þykir gott ef sumarmánuður nær þessari einkunn en þess skal getið að hitaþátturinn er árstíðabundinn þannig að vetrarmánuðir eins og þessi geta líka fengið toppeinkunnir. Einkunnaskalinn er annars á bilinu 0-8 stig. 14 febrúar náði þarna toppeinkunn en þá voru allir veðurþættirnir fjórir jákvæðir sem er óvenjulegt að vetrarlagi. Allnokkrir dagar fá 7 í einkunn sem einnig er mjög gott en það má nefna að á fyrri hluta mánaðarins þarf dagur að vera 4°C til að teljast hlýr, en 5°C seinni hlutann. Aðeins 3 dagar fá 3 í einkunn og enginn lægri einkunn sem einnig er óvenjulegt og leggur það sitt af mörkum til góðrar einkunnar.
Framhaldið er óráðið eins og venjulega. Langtímaspár gefa sífellt til kynna að breytinga sé að vænta, ýmist með kólnandi veðri eða meiri umhleypingum. Hingað til hefur veðrið þó haldist í sama fari þrátt fyrir allt, þannig að við sjáum bara til hvað setur. Kannski nær útsynningurinn sér á strik með sínum éljagangi eða stóri sunnan með raka og enn meiri hlýindum nema kannski að norðangarrinn hellist yfir okkur með heimskautakuldum. Smá tilbreyting er reyndar vel þegin þó varla sé hægt að kvarta. Mynd mánaðarins kemur hér í lokin en hún er tekin yfir Háaleitishverfinu, sunnudaginn 16. febrúar, þar sem sjá má lífseigar þoturákir krossa himinninn við norðurjaðar háloftaskýja sem gætu tilheyrt lægðarkerfum lengra í suðrinu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2014 | 20:38
Gengið um Granda
Á síðustu árum hafa menn lagt í mikla landvinninga á grandanum sem upphaflega af náttúrunnar hendi tengdi Örfirisey við meginlandið með mjóu sandrifi. Við gerð hafnarinnar fyrir um 100 árum var útbúinn hafnargarður út í eyjuna og með frekari uppbyggingu var Grandinn orðinn vettvangur mikilla umsvifa í sjávarútvegi í skjóli gömlu verbúðarlengjunnar sem setti sinn svip á svæðið. En nú er öldin önnur og með uppfyllingum er komið heilmikið nýtt landssvæði á vestanverðum Grandanum með gatnakerfi og stórhýsum allskonar. Uppbyggingin var mikil og útlit fyrir að svo yrði áfram - allt þar til kom að árinu 2008 þegar forsendur breyttust eins og það er stundum orðað. Ég fór á vettvang á björtum degi þann 15. febrúar og tók nokkrar myndir sem hér koma á eftir. Þetta er því einskonar myndablogg undir kjörorðinu: Meiri myndir - minna mas.
Ferðin hefst við hringtorgið við Ánanaust og framundan blasir meðal annars við mikið úrval matvöruverslana, jafnvel offramboð. Versli maður í NETTÓ, fæst KRÓNAN í BÓNUS. Vesturbæingar þurfa því ekki að óttast matarskort en auk þess er stutt í Nóatún, Víði og Hagkaup á gamla fastalandinu og svo er auðvitað Melabúðin á sínum stað.
Stálslegnir lýsistankar gnæfa yfir bílastæðin við Krónuna með hjálp aðdráttarlinsu. Þarna er Lýsið framleitt nú á dögum og fer reyndar ekki á milli mála þegar komið er þarna að og hægur andvarinn er í fangið.
Hér er komið að þráðbeinum göngustíg þar sem Faxaflóinn er á vinstri hönd en til hægri blasa nýjustu landvinningar við. Þarna er mikið af engu og nægt lóðaframboð hafi einhver áhuga. Bókaforlagið Forlagið er þarna í stóra húsinu.
Hér hefur verið lagður grunnur að byggingu og síðan ekki söguna meir.
Geymslusvæði Shell breiðir úr sér og blasir þar við ýmislegt misgamalt tengt olíusölu og dreifingu. Þessi afgreiðsluskúr er í módernískum stíl en hefur sennilega gengt sínu hlutverki.
Fleira er geymt á Grandanum. Hér er annað geymslusvæði þar sem má finna þennan gamla bátsskrokk sem enginn tímir að henda og enginn tímir að gera upp. Sama má sjálfsagt segja um gamla Lödu-Sport bílinn og gamla timburhúsið sem einnig er geymt þarna til síðari endurbóta.
Hleragerðin hlýtur að framleiða toghlera en þar fyrir utan er líka mikið af netum til skrauts eða til handagagns.
Hafi einhver áhuga á að hefja stórverslunarrekstur má benda á þessa byggingu sem staðið hefur nánast auð frá því hún var reist á sínum tíma. Gamla húsið sem þarna er innpakkað við hliðina mun vera hús Benedikts gamla Gröndal og stóð það áður við Vesturgötuna í Reykjavík.
Verbúðirnar á gamla Grandagarði eru nýttar undir ýmislegt í dag. Hér er vinsælt að fá sér ís.
Héðinshúsið tilheyrir að vísu ekki Grandanum en á heimleið var ekki hægt að láta þetta myndefni fram hjá sér fara.
Byggingar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2014 | 12:12
Hvaða ís er landið okkar kennt við?
Nafnið Ísland er auðvitað langsvalasta landsheitið af öllum landaheitum, það er engin spurning og ekki virðist nafnið fæla útlendinga frá því að heimsækja klakann eins og við köllum landið stundum. Hvað nafnið Ísland þýðir í raun og veru er hinsvegar sígilt álitamál enda hefur orðið ís æði margar skírskotanir til ýmissa átta. Ég veit svo sem ekki sjálfur sannleikann um tilurð heitisins Ísland en velti hér upp nokkrum möguleikum. Aðallega þó þremur sem hljóta að vera líklegastir.
1. Ísaland. Að landið sé kennt við vatn í frosnu formi er alltaf nærtækasta skólabókaskýringin enda er það beinlínis sagt í Landnámu að Hrafna-Flóki hafi gefið landinu nafnið Ísland þegar hann gekk á fjall og sá fullan fjörð af ís. Landnám Hrafna-Flóka mislukkaðist sem kunnugt er og hefur hann sjálfsagt talið þetta kuldalega nafn vera vel við hæfi. Hrafni-Flóki hafði komið sér fyrir við norðanverðan Breiðafjörð og af hæsta fjallinu þar fyrir ofan á hann að hafa séð þennan meinta ís. Reyndar þarf nú að ganga töluverðan spotta frá Breiðafirði til að mögulegt sé að sjá ís. Hann gæti þó hafa séð niður til Ísafjarðar ofan einhverri heiðinni eða kannski horft yfir Húnaflóa. Breiðafjörðurinn fyllist hins vegar ekki af ís nema í einstakri kuldatíð að hann hreinlega frjósi. En hvernig er það, átti ekki að vera svo hlýtt hér á landi á landnámsöld? Jöklarnir voru einnig ekki nema svipur hjá sjón og varla sjáanlegir á vestaverðu landinu þar sem Hrafna-Flóki hélt til. En hvað um það? Ísland er opinberlega kennt við ísinn og vissulega er hér snjór og klaki á veturna og stórir jöklar á fjöllum. Stöku sinnum fáum við líka hafísinn - sem kallaður hefur verið landsins forni fjandi. Og þá að næstu skýringu.
2. Ásaland. Hér er það hin guðdómlega skýring að landið sé kennt við hina fornu Ása sem Ásatrúin er kennd við. Ásarnir eða Æsirnir munu vera upprunnir lengst í austri samanber það sem Snorri skrifar í Heimskringlu:
Fyrir austan Tanakvísl í Ásíá var kallað Ásaland eða Ásaheimur, en höfuðborgin, er var í landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaðr. Þar var blótstaðr mikill.
Tanakvísl eða Vanakvísl þessi, segir Snorri að renni í Svartahaf, svo menn átti sig á staðsetningunni en í dag nefnist fljótið Don. Sjálf heimsálfan Asía er samkvæmt þessu einnig kennd við Ásana og jafnvel einnig gjörvöll höfuðáttin "austur". Vestrið hét hinsvegar Európá sem Snorri segir að sumir kalli Eneá. Þessi útúrdúr gæti skipt máli því Herúlakenningin svokallaða gerir ráð fyrir því að við Íslendingar séum einhverskonar afkomendur norrænns þjóðflokks sem átti ríki eða þvældist um í austri allt frá fyrstu öldum og voru miklir og grimmir bardagamenn. Að lokum skiluðu þeir sér heim á fornar norrænar slóðir en voru þá svo óforskammaðir að vilja ekki lúta konungi að þeir höfðu sig á brott og stofnuðu goðaveldið Ásaland hér á enda veraldar.
Annars er ýmislegt tengt trúarbrögðum sem kennt við Ís-eitthvað. Ís-rael er auðvitað hið Guðs útvalda ríki á meðan erkióvinurinn játar ís-lam. Lengra aftur í sögunni var Ísis einn af guðum Egypta og kannski forfaðir allra Ís-ara heimsins. Guðsonurinn Jesú, bróðir okkar besti, er kannski einn af afkomendunum en það má sjálfsagt finna einhverja leið í tungumálafræðunum til að láta orðið is- umbreytast í jes-. Ísland gæti því alveg staðið undir nafni sem land vors guðs og allra hinna líka.
3. Eyland. Við búum vissulega á eyju sem lengst af á fyrri tíð var afskaplega fjarri öllu gamni. Á ensku er eyja rituð sem island og samkvæmt því gæti Ísland verið eyja allra eyjanna og Íslendingar hinir einu sönnu eyjamenn. Ef við höldum áfram með enskuna þá má líka nefna orðið isolation eða einangrun en is-ið þar er væntanlega það sama og í is-land þannig að þetta is hlýtur að vera eitthvað sem er stakt, eitt og sér. Stakland gæti því verið sama merking og Ísland eða bara Landið eina.
Við getum líka brugðið fyrir okkur þýskunni í þessu samhengi og talað um Ausland sem merkir útland. Hvort það tengist meira lið 2 eða 3 veit ég ekki alveg en gæti tengst báðum. Samkvæmt eyja- og einangrunarkenningunni værum við hinir einu sönnu útlendingar eða útlagar. Í dönsku Andrésblöðunum heitir hið óræða fjarlæga land Langtibortistan sem er kannski sú mynd sem menn höfðu af Íslandi. Nafnið Langtibortistan vísar þó frekar í Asíulöndin sem áður tilheyrðu Sovétinu. Þá erum við reyndar ekki fjarri fornum ásaslóðum norður af Svartahafi þar sem íþróttamenn skauta nú á ísnum af miklu listfengi í sönnum Ólympíuanda.
- - - -
Meðfylgjandi gervitunglamynd er frá 2. febrúar 2009.
2.2.2014 | 01:06
Fyrstu kafbátaferðirnar á Norðurpólinn
Einn liður í vopnakapphlaupi stórveldanna í kalda stríðinu var þróun kjarnorkuknúinna kafbáta sem gátu siglt mánuðum saman um heimsins höf án þess að koma upp að yfirborði. Með þessu opnuðust ýmsir möguleikar á hernaðarsviðinu, ekki síst á hinu svellkalda Norður-Íshafi því með því að leynast undir ísnum gátu kafbátar hlaðnir árásareldflaugum komist óséðir nær óvininum en áður. Siglingar kjarnorkuknúinna kafbáta á norðurslóðum sem hófust árið 1958 skiptu þó ekki síður máli í sambandi við þekkingu á heimskautaísnum. Ýmsar upplýsingar og myndir má finna um þessar fyrstu kafbátasiglingar á netinu. Þær upplýsingar geta þó verið villandi ekki síst þegar metingur um ástand hafíssins fyrr og nú kemur við sögu. Þar má t.d. nefna grein á vefnum Watts Up With That: Ice at the North Pole in 1958 and 1959 - not so thick og önnur á The Naval Hystory Blog. Hér á eftir er ætlunin að gera dálitla grein fyrir þessum fyrstu ferðum.
Fyrsta sögulega ferð kjarnorkukafbáts á Norðurslóðum var þegar USS Nautilius, fyrsti kjarnorkukafbáturinn sem smíðaður var, sigldi þvert yfir Norður-Íshafið undir ísinn, inn af hinu grunna og varasama Beringssundi og áfram til Atlantshafsins í águst 1958. Þetta var ekki bara fyrsta sigling yfirleitt yfir eða undir Norður-Íshafið heldur var þetta líka fyrsta sigling sem nokkurn tíma var farin að sjálfum Norðurpólnum á 90° norður. USS Nautilius hélt sig undir heimskautaísnum allan tímann en kom úr kafi norðaustur af Grænlandi eftir 2.940 kílómetra og 4 daga siglingu undir ísnum. Á heimleið var sigld að Íslandi og flaug skipstjórinn héðan til Bandaríkjanna (væntanlega frá herstöðinni í Keflavík). Meðfylgjandi er staðsetningarnóta USS Nautilius frá 3. ágúst 1958 þegar sjálfum Norðurpólnum var náð. Við heimkomuna til New York var skipverjum vel fagnað og heilmikið gert úr þessu ævintýri sem jók sjálfstraust Bandaríkjamanna í áróðursstríðinu við Rússa sem árið áður höfðu sent Sputnik 1. á braut um jörðu.
Strax á eftir USS Nautilius í sama mánuði árið 1958 fór annar Bandarískur kjarnorkukafbátur USS Skate sögulega ferð undir heimskautaísinn. Hann sigldi þó ekki þvert yfir Norður-Íshafið en fór þess í stað frá Atlantshafinu að Norðurpólnum fram og til baka um sundið milli Svalbarða og Grænlands. USS Skate sigldi undir norðurpólinn þann 11. ágúst 1958, eða aðeins viku eftir að USS Nautilius var þar á ferð. Alls kom USS Skate 9 sinnum upp að yfirborði Íshafsins í gegnum vakir sem opnast höfðu hér og þar á ísnum. Slíkar vakir má víða finna að sumarlagi á bráðnandi ísbreiðunni þegar hitastigið er ofan frostmarks og ísinn brotnar upp. Opnar vakir geta reyndar einnig myndast að vetrarlagi vegna hreyfinga íssins en sökum kulda frjósa þær mjög fljótlega saman aftur. Enga vök var þó að finna á sjálfum Norðurpólnum þegar Skate kom þar að og því varð ekki úr að hann kæmi upp á á yfirborði á sjálfum Norðurpólnum sumarið 1958.
Ýmsar myndir eru til af þessum leiðangri sem sýna kafbátinn ofansjávar á milli ísfláka, engin þeirra er þó frá sjálfum Norðurpólnum enda kom hann ekki upp þar. Meðfylgjandi mynd úr þessari ferð birtist í National Geography og var hún tekin þegar USS Skate kom upp að yfirborði á íslausri vök hjá rannsóknarstöðinni Alfa um 300 kílómetra frá pólnum.
Önnur ferð USS Skate undir heimskautaísinn var einnig söguleg því hún var farin um hávetur í mars árið 1959 þegar Norður-Íshafið er nánast ein samfelld íshella. Búið var að styrkja kafbátinn töluvert svo hann gæti brotist upp í gegnum allt að þriggja feta þykkan ís. Þann 17. mars 1959 var Norðurpólnum náð og þá vildi svo vel til að sprunga hafði myndast þar skömmu áður þannig að einungis tiltölulega þunnur nýfrosinn ís var á staðnum þrátt fyrir mikið frost. Með því að brjóta sér leið gegnum ísinn tókst USS Skate þarna fyrstum kafbáta að komast upp að yfirborði norðurpólsins og það um hávetur, sem er mikilvægt atriði því þar með var ljóst að hægt væri að beita kafbátum til árása frá Norður-Íshafinu á hvaða árstíma sem er.
Til eru ljósmyndir af þessum atburði sem sýna meðal annars áhöfn kafbátsins dreifa ösku heimkautafarans Sir George Wilkins sem lést haustið áður en árið 1931 hafði hann gert misheppnaða tilraun til að komast á Norðurpólinn með öllu frumstæðari kafbát sem nefndist Nautilius eins og fyrsti kjarnorkukafbáturinn enda vinsælt kafbátanafn og vísar í fræga sögu Jules Verne.
Rússar létu að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og þróuðu einnig sína kjarnorkukafbáta og var sá fyrsti þeirra sjósettur árið 1958. Fjórum árum síðar, á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní 1962, náði hann að sigla undir ísinn að Norðurpólnum og koma þar upp að yfirborði. Eftir þá frægðarför var áhöfnin að sjálfsögðu heiðruð í bak og fyrir og báturinn skýrður Leninsky Komsomol.
Fjölmargar ferðir kafbáta hafa verið farnar að Norður-Íshafinu og Norðurpólnum síðan þessar fyrstu ferðir voru farnar en sem betur fer hefur enn ekki komið til eldflaugaáraása milli stórveldanna. Áhugi manna á Norðurslóðum snýst nú að verulegu leyti um bráðnun íssins og möguleika til sjóflutninga. Allur gangur er þó á því hvernig ástand íssins á Norðurpólnum er hverju sinni. Vakir geta myndast hér og þar óháð ástandi ísbreiðunnar í heild sinni. Þessi loftmynd hér að neðan hefur oft birst í netheimum og eins og skýrt kemur fram er hún tekin á Norðurpólnum 18. maí 1987 þegar einn Breskur og tveir Bandarískir kafbátar áttu þar stefnumót. Greinilega er ísinn nokkuð gisinn þarna og virðist einn báturinn fljóta á opinni vök eða allavega mjög þunnum ís - og sumarið rétt að byrja. Þetta er þó ekki það sem kalla mætti íslaus Norðurpóll enda er ísinn umlykjandi þarna allt um kring. Ómögulegt er að segja hvenær hægt verður að birta loftmynd af sjálfum Norðurpólnum að sumarlagi þar sem ekkert sést nema opið haf. Kannski verður það á næstunni og kannski ekki.
- - - -
Nokkrar heimildir og ítarefni:
http://en.wikipedia.org/wiki/USS_Nautilus_(SSN-571)
http://en.wikipedia.org/wiki/USS_Skate_(SSN-578)
http://en.wikipedia.org/wiki/Soviet_submarine_K-3_Leninsky_Komsomol
http://www.john-daly.com/polar/arctic.htm
Submarine Trough the North Pole. Tímaritið NATIONAL GEOGRAPHY. Janúar 1959.
Efsta myndin í pistlinum er af USS Skate í vetrarferðinni árið 1959. Hún er sennilega þó ekki tekin á Norðurpólnum enda bendir birtan ekki til þess.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2014 | 18:32
Reykjavíkurhiti og heimshiti
Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línuriti á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa með splunkunýjustu tölum. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Það byggir reyndar ekki á neinum útreikningum en virðist þó vera nokkuð sanngjarnt, plús það að viðmiðunarlínurnar samnýtast. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.
Bollaleggingar:
Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs, t.d. því hvort kaldar eða hlýjar vindáttir hafa haft yfirhöndina á viðkomandi ári. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.
Talsverðar áratugasveiflur eru líka áberandi hér hjá okkur. Hlýja tímabilið á síðustu öld einkennist af mörgum mjög hlýjum árum sem eru langt fyrir ofan heimsmeðaltal þess tíma. Hitinn hér var þó mjög óstöðugur á þessu hlýja tímabili og á kaldari árunum sem komu inn á milli féll hitinn niður í það að vera nálægt heimsmeðaltalinu sem nær ákveðnum toppi árið 1944. Heimshitinn stendur síðan í stað eða lækkar ef eitthvað er þar til á seinni hluta 8. áratugarins á sama tíma og Reykjavíkurhitinn tekur dýfu niður á við og vel undir hækkandi heimshitann. Það er svo um aldamótin 2000 sem Reykjavíkurhitinn æðir upp fyrir heimshitann á ný og helst vel þar fyrir ofan þar til á síðasta ári, 2013, þegar ferlarnir krossast aftur. Ekki munar þó miklu þarna í lokin og má því segja að hitinn í Reykjavík á síðasta ári hafi verið nálægt því sem búast má við með hliðsjón af hlýnun jarðar, eins og þessu er stillt upp hér.
Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist hitinn hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn getur þó greinilega sveiflast mjög staðbundið hér hjá okkur án þess að það hafi teljandi áhrif á heimshitann. Hlýju tímabilin hér eru líka staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á köldu sem undirskot miðað við heimshitann.
Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál og best að segja sem minnst. Eitt er þó víst að hitasveiflur jarðar verða ekki eins afgerandi og hér í Reykjavíkinni.
- - - - - -
Smáa letrið. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í tilraunaskini að birta athugasemdir eftir að þær hafa verið samþykktar af síðuhöfundi og því má búast við að ósæmilegar og óviðeigandi athugasemdir birtist alls ekki. Hvað er ósæmilegt og óviðeigandi er þó ekki alltaf auðvelt að meta og geta geðþóttaákvarðanir síðuhöfundar allt eins ráðið úrslitum. Væntanlega er þó ekki mikil þörf á athugasemdum við þessa bloggfærslu.
Vísindi og fræði | Breytt 2.2.2014 kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)