Um hópsálir eldfjalla

Þótt Grímsvatnagosið hafi ekki gert mikil boð á undan sér er samt ekki hægt að segja að það sé mjög óvænt. Grímsvötn eru í eldvirknisfasa sem byrjaði með smágosi árið 1983 en stærri gosum eftir það. Fyrir 1983 hafði ekki gosið í Grímsvötnum svo talandi sé um síðan 1934.
Það getur verið snúið að ráða í hegðunarmynstur Íslenskra eldfjalla og ekki er alltaf hægt að treysta sögunni. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, sem ég keypti mér nú um helgina, nokkra klukkutíma fyrir gos, er ágætis grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing þar sem hann veltir upp ýmsum erfiðum spurningum varðandi hegðun sunnlensku eldstöðvanna og hugsanlega samtengingu þeirra í virkni. Hugsanlega hefur orðið einhver meginbreyting á hegðun eldstöðvanna á seinni hluta 20. aldar sem lýsir sér með ýmsum hætti.

Katla sem hefur ekki gosið síðan 1918, er nú í sínu lengsta goshléi frá landnámi og engin veit hvenær því líkur. Hinsvegar fóru Vestmannaeyjar í gang með Surtseyjargosinu og síðar Heimaeyjargosinu, á þeim tíma sem vænti hefði mátt eldgoss úr Kötlu.
Hekla tók að gjósa á áratugafresti með gosinu 1970 og sé hún enn í þeim fasa hefði hún átt að gjósa í fyrra. Hinsvegar kom upp gos í Eyjafjallajökli sem vekur upp þá spurningu hvort Hekla hafi nokkurt púður til að láta til sín taka. Ekkert virðist benda til þess að Katla sé að fara í gang þótt sagan segi að hún fylgi á eftir Eyjafjallajökli. Almennileg Kötlugoss gera boð á undan sér með ýmsum hætti svo sem jarðskjálftahrinum, landrisi og uppþornuðum lækjum, ekkert slíkt virðist vera í gangi núna.
Skaftárkatlar hafa hlaupið reglulega á um 2ja ára fresti síðan 1955 sem gæti samkvæmt grein Sigmundar, verið enn eitt tákn um nýjung og jafnvel tengst breyttri goshegðun í Heklu þótt orsakasamhengið sé óljóst.

Nú veit ég ekki, en kannski þykir sumum ástæða til að endirskoða viðteknar hugmyndir sem menn hafa haft um einstaklingseðli og sjálfstæði megineldstöðva. Ef til vill er þær hópsálir og meira þrýsti- og kvikusamband á milli eldstöðvanna en almennt hefur verið talið.


Kilauea 1924


Spádómar.
Hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá hófst núverandi Grímsvatnagos sama dag og heimurinn átti að farast samkvæmt útreikningum amerísks sjónvarspredikara. Sjálfur hef ég stundum verið að leika mér með spádóma samanber mína árlegu haustspádómana um hvar muni gjósa næst á Íslandi. Það sakar ekki að geta þess að í síðustu spá minni voru Grímsvötn efst á blaði:

Líkindi þessa að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð (Spá síðan 27. nóv 2010)

  • Grímsvötn: 34%
  • Hekla: 22%
  • Katla: 15%
  • Eyjafjallajökull (áframhald): 12%
  • Bárðarbunga: 7%
  • Askja og nágrenni: 5%
  • Aðrir staðir: 5%
  • Samtals: 100%

Sbr. hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1120590/

Myndin sem fylgir greininni er útlensk og sýnir eldgos í Kilauea á Hawaieyjum árið 1924.


Gömlu bíóin

Margt breytist með tímanum, þar á meðal bíómenningin. Þegar heimsóknir mínar í kvikmyndahús voru í hámarki á árunum kringum 1980 voru flest bíóin ennþá staðsett í gamla miðbænum eins og verið hafði frá upphafi. Hér á eftir kemur dálítið yfirlit yfir þessi gömlu bíó í borginni. Til skreytingar og sem sönnunargagn læt ég fylgja bíómiða frá viðkomandi bíóum en lengi vel geymdi ég flesta bíómiða sem ég fékk. Myndirnar sýna kvikmyndahúsin eins og þau eru í dag hvort sem þau eru til eða ekki. Alls mun ég taka fyrir níu kvikmyndahús með þessum hætti í tveimur bloggfærslum.

Gamla Bíó

Hið eina og sanna gamla bíó er sjálft Gamla bíó sem flutti í þetta glæsilega hús árið 1927. Upphaflega var það stofnað árið 1906 sem Reykjavíkur Biograftheater og var til húsa í Fjalakettinum undir stjórn Bíó-Petersens. Þarna voru sýndar bíómyndir allt til ársins 1981 eða þar til óperan tók völdin. Hún er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra. Þær myndir sem ég man helst eftir úr Gamla bíói eru háklassa teiknimyndir frá Disney eins og Skógarlíf, Hefðarkettirnir og Sverðið í steininum. Í þá daga voru teiknimyndir handteiknaðar og handmálaðar og meira að segja bara í tvívídd.

Nýja Bíó
Nýja Bíó í Lækjargötu er ekki nýrra en svo að það er ekki til lengur. Á meðan ég sótti það bíó var það reyndar orðið ævagamalt enda má rekja sögu þess aftur til ársins 1912 er það hóf starfsemi sína í húsakynnum Hótels Íslands. Frá upphafi var það kallað Nýja Bíó til aðgreiningar frá hinu bíóinu í bænum sem þar með var kallað Gamla bíó. Árið 1920 hófust sýningar í nýju húsnæði inn af Austurstræti þar sem það var alla tíð síðan. Í mínum huga var Nýja Bíó alltaf í Lækjargötu enda var inngangurinn þaðan, en í raun var kvikmyndahúsið algerlega falið bak við önnur hús. Stjörnustríð er sennilega mesta kvikmyndaverkið sem ég sá þarna. Þrátt fyrir flottheit og framtíðarbrellur fannst hún í raun vera hver önnur hasarmynd þar sem vöndu kallarnir eru alltaf jafn agalega óhittnir. Þarna fór ég líka á fyrstu bönnuðu-innan-12-ára-myndina mína án fylgdar fullorðinna og án þessa að vera 12 ára. Sú mynd hét Þeysandi þrenning og var einn samfelldur eltingaleikur og bílahasar. Bíómyndir voru sýndar þarna til ársins 1987 en síðan var húsið gert að skemmtistað sem síðan brann og húsið rifið, en nú er verið að byggja einskonar eftirlíkingu af Nýja Bíói á bak við Iðuhúsið.

Austurbæjarbíó
Austurbæjarbíó tók til starfa árið 1947 og þótti þá mikið og stórt en auk kvikmyndasýninga var það hugsað fyrir tónleika og leiksýningar. Sumir höfðu dálitlar áhyggjur af því að slíkt hús gæti ekki borið sig svona fjarri miðju bæjarins. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Síðustu árin var bíóreksturinn á vegum Sambíóveldisins en kvikmyndasögu hússins lauk árið 2002. Í framhaldi var húsinu naumlega forðað frá niðurrifi þegar reisa átti þarna íbúðarblokkir og því er enn hægt að sækja þarna leiksýningar og tónleika þegar slíkt er í boði. Íslenska kvikmyndavorið er oft talið hefjast árið 1980 með kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir. Þjóðin fjölmennti á þá mynd, líka þeir sem lönguhættir voru að fara í bíó. Eins og bíómiðinn ber með sér var myndin sýnd í Austurbæjarbíó og þangað var ég mættur kl. 5.

Hafnarbíó

Hafnarbíó tók til starfa árið 1948 í einum af betri bröggum bæjarins og stóð við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu. Þetta var ekki eina braggabíóið því Trípólíbíó á Melunum var einnig í bragga en það var löngu horfið á minni tíð. Hafnarbíósbragginn reyndist einn af lífseigustu bröggunum í Reykjavík og var óneitanlega dálítið sérstakt að fara þangað í bíó en myndirnar voru ekkert verri fyrir það. Af heimsóknum í Hafnarbíó man ég helst eftir Einræðisherra Chaplins en sú mynd var auðvitað komin til ára sinna þegar ég sá hana. Einnig man ég eftir týpískri hrollvekju um hús sem draup blóði og var að auki inngangur í helvíti með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir íbúana. Hafnarbíó var rifið árið 1983 og nú er þarna fátt sem minnir á eldri tíð.

- - - -

Hér verður gert nokkurra daga hlé. Eftir hlé mun ég taka fyrir með sama hætti: Stjörnubíó, Regnbogann, Tónabíó, Laugarásbíó og Háskólabíó.


Eurovisionframlag Albaníu í hitteðfyrra

Ég hef alla tíð haft áhuga á Eurovision keppninni en mætt mismiklum skilningi þegar ég dásama þá keppni. Í fyrra spurði einn vinnufélagi minn hvort Eurovisionáhugi minn væri írónískur að einhverju leyti. Ég svaraði því að áhuginn væri einlægur, sem er alveg einlægt svar, en ég útiloka þó ekki að einhver írónía komi við sögu skilji ég það hugtak rétt.
En jæja, það sem ég ætla að bjóða upp á sem Eurovision-framlag mitt í ár er upprifjun á framlagi Albaníu árið 2009. Í fullri einlægni þá finnst mér þetta vera gott lag og í hópi hinna betri á seinni árum. Laginu var líka spáð góðu gengi í keppninni en eitthvað hefur það farið á mis því það endaði bara í 17. sæti í lokakeppninni, þeirri sömu og norski fiðlustrákurinn sigraði í og Jóhanna okkar lenti í öðru sæti.

Ég er hérna með þrjú Youtube myndbönd af þessu framlagi Albaníu. Það fyrsta er frá forkeppninni þar sem lagið er flutt á móðurmálinu og í lengri útgáfu en keppnisreglur segja til um. Stórsveit Albanska ríkissjónvarpssins er mætt á sviðið í fullum skrúða og fer mikinn í instrumental milliköflum – margar fiðlukonur í fínum kjólum en flaututónarnir eru þó flottastir og gefa laginu framandi austrænan blæ. Söngkonan Kejsi Tola er bara 17 ára og tekur því frekar rólega á sviðinu eða er kannski ekki alveg búinn að finna taktinn en skilar söngnum með mestu prýði. Annars er þetta nokkuð hefðbundið taktpopp með tilheyrandi upphækkunum og slíku, en laglínan er fín og leynir á sér.




Næsta myndbrot er styttra og sýnir bara bút úr laginu sem þarna komið í sinn endanlega enska keppnisbúning. Söngkonan er þó greinilega ekki búin að ákveða sinn keppnisbúning en fikrar sig áfram í taktinum.  Grafíkdeild albanska ríkissjónvarpsins stelur eiginlega senunni þarna en fer svona heldur of geyst í bakgrunnsgleðinni.




Að lokum er það svo aðalkeppnin. Hafi einhverjir ekki kannast við lagið fram að þessu þá rifjast sennilega eitthvað upp þegar þeir sjá hvernig lagið gerði sig á sviðinu. Flutningur lagsins tókst með miklum ágætum hjá Kejsu Tola en spurning hvort sumum hafi verið ofaukið þarna á sviðinu. Það er nú svona með frumlegheitin, stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Umgjörð lagsins er allt önnur en í upphafi og erfitt að sjá að þetta sé sama manneskjan á sviðinu að syngja. En þrátt fyrir nýtt „átfitt“ er röddin sú sama.

- - - - -

Við Íslendingar erum að sjálfsögðu með í lokakeppninni laugardaginn. Sjálfum finnst mér það vera besta framlag okkar í háa herrans tíð og líklegt til alls. Allt getur því gerst í þessari keppni og svo getur líka auðvitað allt ekki gerst.

 


Horft á heiminn III

Í okkar þrívíða heimi er reglan sú að hlutir minnka fyrir augum okkar eftir því sem fjarlægðin til þeirra eykst uns þeir að lokum hverfa í fjarskann. Samsíða línur í umhverfinu stefna í áttina að sameiginlegum hvarfpunktum. Þráðbeinir vegir sem við horfum eftir mjókka þannig í átt að einum punkti einhverstaðar við sjóndeildarhringinn. Þetta tók ég fyrir er ég horfði á heiminn síðast og var þá að lokum horfinn í víðáttumikinn hvarfpunktaheim þar sem allt var farið að bjagast og verpast meira en góðu hófi gengi. En nú verða hlutirnir einfaldari því hér verður heimurinn skoðaður án slíkra hvarfpunkta og sjónhverfinga. Það er hin fjarvíddarlausa sýn á heiminn þar sem hlutir minnka ekki með aukinni fjarlægð.

Japönsk teikningÁ þessari teikningu sést hvernig Japanir fóru að þegar þeir teiknuðu upp rými. Hér eru engin fjarvíddaráhrif. Allar línur sem eru samsíða í umhverfinu halda áfram að vera samsíða á myndinni og ekkert minnkar með aukinni fjarlægð – hvorki fólk, né byggingar. Þessi sýn er nálægt hinni klassísku ísómetríu sem mikið er notuð tækniteikningum og útskýringamyndum allskonar.

 

ísómetría

 

Í hreinni ísómetríu er horft skáhalt á formin, teningslaga hlutir mynda 60 og 120 gráðu horn og við sjáum á þrjár hliðar í einu. Þegar horft er ofaná húsbyggingar og þær teiknaðar upp með þessari aðferð er hægt að víkka út sjónsviðið án þess að nokkuð bjagist, allt er jafn nálæg og það er aldrei neinn sjóndeildarhringur. Veggir og allt það sem lyftist upp af yfirborðinu rís lóðrétt upp af grunnmyndinni, en vegna þess að grunnmyndin hallast (30°) verða allir lóðréttir flettir skakkir sem því nemur.

 

axonometriaÖnnur útgáfa af svona fjarvíddar- lausri sýn er þegar horft er beint ofaná grunnmyndina þannig að 90 gráðu horn halda sér í láréttum flötum eins og ef horft væri beint ofaná. Svona teikningar eru stundum kallaðar axónómetría, en það orð getur reyndar líka verið samheiti yfir allar svona fjarvíddarlausar þrívíddar- teikningar, þar á meðal ísómetríu.

Ísómetría og axonometría eru ekki eðlileg sýn á heiminn vegna skorts á fjarvídd og sjást því nánast bara í teikningum og gjarnan í tölvuleikjum. En nú er það svo að fjarvíddaráhrif minnka eftir því sem við horfum á heiminn úr meiri fjarlægð. Þegar við horfum í gegnum sjónauka ruglast til dæmis fjarlægðarskynið því þá erum við að stækka upp það sem er langt í burtu án þess að fjarvíddaráhrifin fylgi á eftir.

Það er líka athyglisvert að sjá hvað gerist í þessari mynd hér að neðan sem tekin er úr geimnum af borginni San Francisco og minnir einna helst á tölvuleikinn SimCity Þarna er sjónarhornið mjög þröngt og hátt, en myndin stækkuð mikið upp. Við þetta verða fjarvíddaráhirfin nánast engin og ekki verður betur séð en að þarna séum við komin mjög nálægt axónómetríunni.

SanFrannisco

 

Til samanburðar er næsta mynd sem tekin er ofan úr Empire State niður á byggingar Manhattan. Hér eru fjarvíddaráhrifin komin inn enda erum við mun nær jörðu og sjónsviðið víðara.

Manhattan

- - - -

Þar með hef ég lokið fjarvíddarpælingum að sinni. Hlekkir eru hér að neðan á fyrri hlutana tvo í þríleiknum:

Horft á heiminn I

Horft á heiminn II 

 


Hversu slæmt var veðrið í apríl?

Snjókoma apríl

Áður en ég kem að því hversu slæmt veðrið var í apríl (hafi það yfirhöfuð verið slæmt) þá finnst mér ég fyrst þurfa að gera smá grein fyrir veðurskráningunum mínum sem staðið hafa í tvo og hálfan áratug enda veit ég aldrei hversu vel kunnugir lesendur eru þeim. Ég skrái semsagt hjá mér veðrið í Reykjavík hvern dag með myndrænum hætti og tölum sem eiga að lýsa hinu dæmigerða veðri yfir daginn hverju sinni. Útfrá þessum skráningum gef ég hverjum degi einkunn á kerfisbundinn hátt en þar er einfaldlega gengið út frá því að hiti sé betri en kuldi, sólskin betra en sólarleysi, hægviðri betra en hvassviðri og þurrviðri betra en úrkoma. Allir þessir fjórir veðurþættir hafa svipað vægi í einkunnagjöfinni. Hver veðurþáttur getur fengið 0-2 stig, þannig að algóður dagur getur mest fengið 8 stig en alsæmur 0 stig. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum.

Apríl 2011Skráning apríl 2011

Nýliðinn aprílmánuður fékk samkvæmt þessu skráningar- kerfi einkunnina 3,7 stig sem telst eiginlega vera falleinkunn en sjálfsagt í ágætu samræmi við upplifum flestra borgarbúa.

Hér til hliðar er veðurskráningin. Aftasti dálkur eru einkunnir, aftan við vindörvarnar er hiti dagsins og tákn sem segja hvort dagurinn telst vera í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). ATH. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.

Í mánuðinum skráði ég aðeins einn alvöru sólskinsdag og nokkra hálfa. Úrkomudagarnir voru hinsvegar margir og úrkoman oft ansi lárétt enda var þetta mjög vindasamur mánuður með þrálátu skúra- og éljaveðri úr suðri- eða suðvestri. Það góða var þó að hitinn var vel yfir meðallagi og í góðu samræmi við meðalhita aprílmánaða síðustu ára. Mánuðinum lauk með snjókomu og hvítri jörð eftir kaldasta dag mánaðarins.

Tvo merkisatburði hef ég skráð til hliðar. Þann 9. var Icesave-kosningin undarlega sem kannski var bara stormur í vatnsglasi en daginn eftir kom alvöru stormur og fékk sá dagur 0 stig í skráningunni sem er mjög sjaldgæft. Dagurinn hefði reyndar átt að fá 1 stig vegna hita í meðallagi en það stig strokaðist út vegna stormsins sem gaf eitt mínusstig sem neikvætt öfgatilfelli.

Nokkrir góðir aprílmánuðir til samanburðar:

Apríl 1998 - Einkunn 5,4. Þetta er mjög góð einkunn og sú hæsta sem aprílmánuður hefur fengið hjá mér. Mánuðurinn er kannski ekki mjög eftirminnilegur en var góður á alla kanta og tók þetta eiginlega á seiglunni án þess að slá nokkur met.
Apríl 2008 - Einkunn 5,3. Mjög svipaður mánuður og apríl 1998 með alla veðurþættina góða. Þurr, hlýr sólríkur og hægviðrasamur mánuður.
Apríl 2000 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður er eftirminnilegur vegna feiknamikils sólskinskafla dagana 14.-25. apríl sem gerði þetta að sólríkasta apríl í Reykjavík sem mælst hefur. Hinsvegar var hitinn ekki mikill og kaldari apríl hefur ekki mælst síðan. Eðlilega var lítið um úrkomu í svona mánuði þannig að á mælikvarða gróðurs var þetta ekki óskamánuður. Einkunnakerfi þessu er reyndar alveg sama um það.
Apríl 2001, 2003 og 2005 - Einkunn 5,0. Hér má minnast á apríl 2003 vegna þess að það er hlýjasti apríl sem mælst hefur í Reykjavík og víða um land. Aðrir veðurþætti voru hinsvegar nærri meðallagi í Reykjavík. Dálítið athyglisvert er að köldustu dagar mánaðarins voru fyrsti og síðasti dagurinn, nánast allir aðrir dagar voru mildir eða hlýir.

Og sá versti:

Apríl 1987 - Einkunn 3,6. Þetta er fyrsti skráði aprílmánuðurinn hjá mér og sá sem enn situr uppi með lægstu einkunnina. Nýliðinn aprílmánuður er reyndar sá eini sem hefur náð að ógna þessum frá Mbl 3.maí 19871987. Veðrið var reyndar ekki ósvipað og í ár og mánuðirnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Mikill óstöðugleiki var með tíðum útsynningséljagangi en þó var öllu kaldara 1987. Síðasta vikan var sérlega éljasöm og hvöss og alveg í lokin stökk lægð yfir Grænlandsjökul sem olli mikilli snjókomu síðasta kvöld mánaðarins og fram á nóttina þannig að snjódýptarmet var sett fyrir maímánuð í Reykjavík morguninn eftir. Sá mikli snjór bráðnaði þó hratt í ört rísandi 1. maí-sólinni (sjá meðfylgjandi frétt úr Mbl. 3. maí 1987). Snódýpin að morgni 1. maí 1987 mældist 17 cm en til samanburðar mældist hún nú í ár 16 cm að morgni 1. maí, ekki munar miklu.

Almennt að lokum

Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Veðrið eins og það var í Reykjavík núna í apríl er ekki vinsælt meðal fólks og ekki það vorveður sem fólk gerir sér vonir um. Sé farið lengra aftur í tímann má kannski finna verri aprílmánuði og marga harðindalegri. Veðurminni fólks er upp og ofan og því má segja um nýliðinn apríl að hann hafi allavega verið verri en yngstu menn muna og jafnvel einnig hinir eldri.


Horft á heiminn II

Fjarvídd miðöldÞegar listamenn miðalda þurftu að teikna mannlegt rými með öllum sínum beinu línum og réttu hornum, lentu þeir gjarnan í hinu mesta basli með það sem við köllum fjarvídd. Kannski ekki nema von, því rétt fjarvídd segir sig ekki alltaf sjálf. Menn áttuðu sig þó á því að hlutir minnkuðu með aukinni fjarlægð en síður hvernig það gerðist og í hvaða hlutföllum. Það var svo ekki fyrr en með endurreisninni sem reiknimeistarar og listamenn eins og Leonardo da Vincy náðu að komast til botns í þessum fræðum sem snýst um að varpa hinum þrívíða heimi yfir á tvívíðan flöt og sýna heiminn eins og við sjáum hann, en ekki endilega eins og hann er. Fjarvídd getur verið mikil stúdía og í mörg horn að líta. Það má sjá á þessum skýringarmyndum sem ég hef teiknað upp og sýna nokkur grundvallaratriði sem ágætt er að hafa í huga þegar glápt er á heiminn.

 

Fjarvídd 1 punktur

Fjarvídd með einum hvarfpunkti
Á þessari fyrstu mynd er áhorfandinn staddur í herbergi og horfir beint að veggnum á móti. Láréttar línur til beggja hliða stefna allar að sama hvarfpunktinum sem liggur við sjóndeildarhringinn. Miðað við hvað hvarfpunkturinn er neðarlega á veggnum gæti þetta verið sjónahorn barns eða sitjandi manneskju. Einn hvarfpunktur dugar ágætlega þegar horft er svona beint áfram í rýminu. Hinsvegar ef horft er skáhalt á formin þarf að færa sig yfir á næsta stig en þá er ágætt að bregða sér út fyrir hús.

 

Fjarvídd 2 punktar

Fjarvídd með tveimur hvarfpunktum
Þegar horft er á skáhalt hús þannig að tvær hliðar þess sjást, þarf að notast við tvo hvarfpunkta. Húsið er að sjálfsögðu allt með réttum hornum sem þýðir að fjarlægð milli hvarfpunktanna á sjóndeildarhringnum er 90°. Ef sá til vinstri er í há-norðri, hlýtur hinn þá að vera í há-austri. Lóðréttar línur í umhverfinu hafa hér engan hvarfpunkt til að stefna á og eru áfram lóðréttar á myndinni sem dugar í þessu tilfelli en þó ekki til lengdar.

 

Fjarvídd 3 punktar

Fjarvídd með þremur hvarfpunktum
Þegar áhorfandinn hefur komið sér hærra fyrir og horfir niður á húsin, er varla hægt að komast upp með annað en að bæta við þriðja hvarfpunktinum sem er þá langt  fyrir neðan sjóndeildarhringinn, en þá er komin enn meiri dýpt í myndina. Á sama hátt gæti þessi þriðji hvarfpunktur verið hátt fyrir ofan ef horft er uppeftir háum húsum.  Eitt vandamál kemur samt i ljós. Miðjuhúsið á myndinni sem sker sjóndeildarhringinn breikkar uppávið ofan sjóndeildarhrings, sem gengur eiginlega ekki upp og myndi enda með ósköpum ef húsið væri mun hærra. Greinilega þarf að hugsa fyrir fleiri hvarfpunktum og ef það er gert fer heimurinn fyrst að verða snúinn.

 

Fjarvídd gleiðhorn

Gleiðhorns fjarvídd

Þegar sjónsviðið er aukið mjög, koma æ betur í ljós takmarkanir þess að notast við beinar línur útfrá hvarfpunktum og einnig þær takmarkanir sem yfirleitt eru á því að sýna þrívíðan heim á tvívíðum fleti. Á myndinni táknar stóri græni hringurinn sjónsvið upp á 180° og nær það því alveg frá vinstri til hægri og beint upp og niður. Á milli andstæðra höfuðátta lárétt og lóðrétt eru nú komnar sveigðar línur sem formin laga sig eftir. Þannig getum við bæði horft niður á húsin og upp eftir þeim hærri, sem mjókka upp eins og þau eiga að gera og ef gata lægi beint frá austri til vestur myndi hún sveigjast í fallegum boga eftir línunni milli höfuðáttanna. Þetta eru semsagt sömu áhrif og koma fram og þegar teknar eru myndir með mjög gleiðri linsu. Bjögunin er mest í útjaðri hringsins en er minnst í miðjunni sem er X-merkt. Miðjan er líka sá staður sem við beinum sjónum okkar að og öll bjögunin á sér stað útfrá þessari miðju sem þýðir að bjögunin breytist ef horft er annað.

Þegar við horfum á heiminn er myndin sem við sjáum sjálfsagt eitthvað sambland af öllum þessum myndvörpunum. Eftir því sem hlutir eru nær okkur eða eru fyrirferðarmeiri í sjónsviðinu þá eykst bjögunin. Við einblínum reyndar bara á lítinn hluta umhverfisins í einu þannig að við tökum varla eftir þessum sveigða heimi sem birtist í neðstu myndinni. Sjónsvið okkar er heldur ekki svona vítt eins og þarna er og einnig verður að gera ráð fyrir að við búum yfir einhverjum innbyggðum bjögunar-afréttara í höfðinu. Allt þetta hjálpar til við að gera það sem við sjáum nokkurnvegin hreint og beint. Aðalatriðið er þó kannski það að þarna erum við að horfa á tvívíða mynd sem er smækkuð útgáfa af því sem við sjáum og undir miklu þrengra sjónarhorni en er í rauninni. 

- - - - 

En sjónheimurinn getur verið flóknari en þetta. Umhverfið er ekki alltaf samsett úr beinum línum og réttum hornum og hlutirnir í kringum okkur eru oftar en ekki á skakk og skjön. Hvarfpunktar geta því verið óendanlega margir í allri ringuleiðinni. Í staðin fyrir að eltast við það, mun ég næst setja punktinn yfir i-ið og leita aftur til einfaldleikans til að skoða hvernig heimurinn lítur út án nokkurra hvarfpunkta.


Horft á heiminn

Það er stundum ágætt að velta fyrir sér hvernig við sjáum veröldina í kringum okkur. Það er nokkuð ljóst að við lífum í þrívíðum heimi. Það sem við sjáum er mislangt í burtu, sumt er öðru megin og annað hinumegin en svo getur verið afstætt hvað er fyrir ofan okkur og hvað fyrir neðan. Hinsvegar fer margt ofan garðs og neðan því við getum ekki séð allt í kringum okkur á sama augnabliki enda er víðsýni okkar takmörk sett af líffræðilegum ástæðum. Þessari þrívíðu heimsýn okkar má líkja við það að við séum inni í miðri kúlu með heiminn allt í kringum okkur, sem er öfugt við þá sýn þegar við horfum á hnöttinn okkar utanfrá.

Þegar það sem við sjáum er yfirfært yfir á tvívíða ljósmynd eða teikningu kemur í ljós að samsíða línur geta ekki alltaf birst beinar og samsíða. Á myndum þar sem sjónarhornið er mjög vídd hvelfast formin út og þá virðumst við ekki lengur vera inní kúlu heldur utan hennar. Bjögun á sér stað og verður meiri eftir því sem myndin er víðari. Svipað á sér stað á landakortum þar sem kúlulögun hnattarins veldur því að ekki er hægt að teikna stóra heimshluta án bjögunar.
Blokkir nær og fjær

Þessi sannindi má bera saman með því að skoða þessar tvær myndir hér að neðan sem teknar eru af sömu húsunum úr mismunandi fjarlægð. Sjónsviðið á myndinni til vinstri er mjög þröngt og þess vegna er bjögunin varla sjáanleg – línur er hreinar og beinar miðað við myndina til hægri þar sem sjónsviðið er miklu víðara og talsverð bjögun kemur fram.

Beinar línur í náttúrunni eru annars ekki áberandi nema þar sem maðurinn hefur staðið að verki. Eiginlega má segja að sjóndeildarhringurinn sé eina beina línan í hinni náttúrulegu náttúru á meðan beinar línur og rétt horn einkenna mannanna verk. Frá okkur séð stefna samsíða fletir og línur í umhverfinu að sameiginlegum hvarfpunktum. Láréttar línur stefna að hvarfpunktum við sjóndeildarhring en lóðréttar línur eiga sína hvarfpunkta fyrir ofan okkur og neðan.

Þetta læt ég nægja að sinni en þessi færsla er annars bara hugsuð sem inngangur að næsta pistli sem er nánari skoðun á því hvernig við sjáum hinn þrívíða heim og hvernig honum er varpað yfir á tvívíðan flöt með fjarvíddarbrellum.


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Eins og venjulega í upphafi hvers aprílmánaðar er nú komið að einum af þessum föstu dagskrárliðum hjá mér, sem er hinn ómótstæðilegi árlegi myndasamanburður á snjóalögum Esjunnar. Að þessu sinni var ljósmyndin tekin mánudaginn 4. apríl í góðu skyggni en ekki miklu sólskini. Kollur Esjunnar hefur undanfarið verið allvetrarlegur enda hefur snjóað í éljaveðri síðustu daga.

Þrátt fyrir vetrarhaminn í efri hlíðum þarf þetta ekki endilega að þýða að snjóskaflar Esjunnar séu umfangsmeiri í ár en venjulega. Það snjóaði vissulega talsvert í mars en ekki svo mikið fyrri hluta vetrar. Snemma í janúar var t.d. mjög lítill snjór í Esjunni eins og má sjá á myndinni í síðustu færslu. Mikið af snjónum hefur fallið í þrálátum suðvestan-éljagangi en snjókoma úr þeirri átt fóðrar ekki að ráði lífseigustu skaflana vestur af Kerhólakambi og Gunnlaugsskarði.

Öll þessi samanburðarár hafa Esjuskaflar náð að bráðna fyrir haustið og hafa reyndar gert frá árinu 2001. Ég sé enga ástæðu til spá öðru en að svo muni einnig verða í ár, nema sumarið taki upp á því að verða kaldara og ómögulegra en verið hefur lengi, sem kannski er kominn tími á.

Hér að neðan er umrædd myndasería. Auk dagsetningar myndatöku má sjá hvenær ég tel að snjórinn hafi horfið um sumarið.

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006


Vetrarhitasúlur

Í tilefni þess að veturinn ætti nú að vera liðinn hef ég útbúið dálitla mynd sem sýnir hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags yfir vetrarmánuðina frá nóvember til mars. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir daginn í Reykjavík. Nánari bollalengingar eru undir myndinni.

 

Vetrarsúlur 2010-11
Eins og sést þá einkenndist veturinn af miklum óstöðugleika í hitafari sem sjálfsagt er ekkert svo óeðlilegt fyrir þennan árstíma þegar nægt framboð er af ísköldu heimskautalofti og suðlægu mildara lofti. Vetrardagar hjá okkur geta auðveldlega farið í 6-8 stig en ekki mikið hærra en það, hámarkið sjálft er gjarnan rúmlega 10 stig. Í hinn endann er mjög algengt að kaldasti dagurinn í Reykjavík sé í kringum mínus 10 stig en mestu frostin standa hér þó yfirleitt stutt.

Veturinn byrjaði nokkuð bratt með kaldasta nóvember síðan 1996 en desember var ögn hlýrri en mjög sveiflugjarn í hita. Hressilegur kuldakafli kom snemma í janúar en síðan tóku við miðvetrarhlýindi eins og svo algeng eru orðin undanfarin ár. Eftir mjög hlýjan febrúar kom kaldasti mánuður vetrarins en með hlýrri dögum í lokin náði nýliðinn marsmánuður að skríða yfir frostmarkið í meðalhita.

 6jan2011
Kaldasti dagur vetrarins var 6. janúar en þá var um 10 stiga frost í Reykjavík og fór niður fyrir 11 stig sama sólahringinn. Þann dag var ansi hvass vindur beint úr norðri eins og ég og myndavélin fengum að finna fyrir uppi á Öskjuhlíðinni. Ég hef nefnilega dálítið verið að mynda bæinn frá þessu sjónarhorni undanfarið og þá ekki síst þegar veðrin eru verst. Kuldinn skilar sér reyndar ekki sérlega vel á myndinni og engan snjó að sjá nema eitthvað lítillega í Esjunni.

- - - -
Eitt í viðbót. Nú er ég búinn að stofna nýtt myndaalbúm hér á síðunni með samansafni af ýmissi veðurgrafík sem ég hef sett saman í gegnum tíðina. Þar má meðal annars sjá til samanburðar vetrarhitasúlurnar frá vetrinum í fyrra sem voru mun rauðari. Það er kominn tími á uppfærslu á sumum þessara mynda og verður það gert smám saman.


Loftvogin

Loftvogin

Eitt af grundvallar heimilistækjum á mínu heimili er loftvogin sem hangir uppi á vegg á góðum stað í íbúðinni. Þetta er loftvog af tegundinni Barigo sem mun vera gott og þekkt merki í þessum bransa. Loftvogin hefur reynst vel, allavega virðist henni bera vel saman við opinberar tölur bæði í háum og lágum þrýstingi. Loftvogina nýtti ég að vísu betur fyrir daga internetsins en þá las ég á hana í lok hvers dags til að skrá niður loftþrýstingin ásamt öðrum veðurþáttum en núna hef ég veðurstofuvefinn aðallega til hliðsjónar við þær skráningar.

Myndin af loftvoginni er tekin seint á fimmtudagskvöldi 24. mars og sýndi þá vogin 1026 millibör sem telst í hærra lagi en er samt nokkuð algengt á vorin. Dagana 23.-24. febrúar stóð loftvogin hinsvegar hálfhring neðar og þá hef ég merkt með handsnúna vísinum við 959 mb sem er mjög lágur þrýstingur

Einhverju sinni þegar djúp lægð var hér á sveimi, sá ég ástæðu til að framlengja kvarðann með pennastrikum þannig að hann næði allan hringinn. Eini gallinn á þessari loftvog finnst mér nefnilega vera kvarðinn sem nær bara niður í 954 millíbör, en það er eiginlega fulllítið í ljósi þess hversu djúp Íslandslægðin okkar getur orðið. Í hina áttina nær kvarðinn alveg uppí 1073 millíbör sem er alveg yfirdrifið enda háþrýstimetið fyrir landið „ekki nema“ um 1058 millíbör og fer mjög sjaldan yfir 1045 mb. Þessi aukakvörðun er nú horfin að mestu en það má samt enn greina nokkra punkta.

Allralægstu loftþrýstingsgildin standa oftast stutt yfir enda bundin við lægðarmiðjuna sjálfa sem getur verið á hraðri ferð framhjá ef miðjan nær þá á annað borð að vera í næsta nágrenni. Það er því þannig að þótt ýmsar djúpar lægðir hafi verið hér á sveimi þá hef ég samt ekki, eftir að loftvogin kom í hús sumarið 1992, skráð lægri loftþrýsting á miðnætti en 951 millibar. Það var á miðnætti hins 10. janúar 1993 þegar ein af allradýpstu lægðum sem hér hafa komið var á sveimi suðaustur af landinu. Sú mældist 915 millibör samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Líklega var það þá sem ég bætti við kvarðann.

LoftvægistaflaÁ mynd sem ég fann á heimasíðu loftvogaveldisins Barigo, er ágætis útskýring á sambandi loftþrýstings, hæðar, hita og sennilega þéttleika loftsins. Minna af andrúmslofti er fyrir ofan mann eftir því sem maður er ofar sjálfur og því lækkar þrýstingur með hæð. Miðað við 1013 millíbör við sjávarmál má gera ráð fyrir 899 millibörum í 1000 metra hæð en slíkan lágþrýsting er hugsanlega hægt að finna í miðju fellibylja við sjávarmál. Á Everesttindi í 8848 metra hæð er loftvægið ekki nema um 300 millíbör og frostið yfir 40 stigum.


Þetta var um sem sagt um loftvog og loftþrýsting. Kannski þykir gamaldags að tala um millíbör en ekki hektópasköl. Gildin munu samt vera þau sömu en millíbör finnst mér þægilegra orð


Ofurmáni og sólarlag á Norðurpólnum

Sólarlag á Norðurpólnum

Í dag fékk ég senda þessa fínu mynd sem sýnir risastórt tungl fyrir ofan sólina þar sem hún er að setjast yfir norðurpólnum. Eftirfarandi texti fylgir með myndinni:

„This is the sunset at the North Pole with the moon at its closest point last week.
a scene you will probably never get to see in person, so take a moment and enjoy God at work at the North Pole. And, you also see the sun below the moon, an amazing photo and not one easily duplicated. You may want to pass it on to others so they can enjoy it. The Chinese have a saying that goes something like this: 'When someone shares with you something of value, you have an obligation to share it with others!' I just did.. Your turn.

 

Í framhaldi af þessu eru nokkur smáatriði sem hafa skal í huga:

  1. Sólin sest ekki á norðurpólnum nema einu sinni á ári og það er á haustin. Hún er hæst á lofti á sumrin en ferðast lárétt eftir sjóndeildarhringnum, lækkar smám saman á lofti uns hún hverfur undir sjóndeildarhringinn við haustjafndægur. Um þessar mundir, stuttu eftir vorjafndægur, er sólin nýfarin að sjást á ný á norðurpólnum.
  2. Tunglið getur ekki verið svona miklu stærra en sólin, jafnvel þótt það sé óvenju nálægt jörðu. Myndin er greinilega ekki tekin með aðdráttarlinsu, en þótt svo væri ætti sólin að stækka á myndinni í sömu hlutföllum og tunglið.
  3. Á norðurpólnum ætti tunglið ekki að vera svona hátt yfir sólinni. Við miðbaug gæti þessi staða frekar komið upp því þar er gangur sólar og tunglsins þvert á sjóndeildarhringin en ekki samsíða eins og á norðurpólnum.
  4. Þegar tunglið var stærst nú á dögunum var það fullt, enda í gagnstöðu við sól. Myndin getur því ekki hafa verið tekin þá.
  5. Mjög ólíklegt er að norðurpóllinn sé ófrosinn um þessar mundir enda frostið gjarnan um 20-40 stig á þessum árstíma. Sprungur geta myndast í ísnum en sjórinn frís þá aftur á skömmum tíma. Vakir geta hinsvegar opnast að sumarlagi og haldist ófrosnar.
Sannleikurinn er sá …
… að myndin er samsett og unnin af konu að nafni Inga Nielsen. Myndin er frá árinu 2005 og hefur þvælst margsinnis um netheima og iðulega sögð vera tekin í síðustu viku. Myndina verður að skoða sem listaverk enda gerð í þeim tilgangi af hálfu listakonunnar og er ágæt sem slík.

Ég vildi bara deila þessu með ykkur eins og hvatt er til í myndatextanum.

Hinn skrýtni útsynningur

Snjórinn sem féll hér í borginni í nótt (19. mars) minnir á að veturinn er ennþá allsráðandi. Vorið mun væntanlega koma samkvæmt venju einhverntíma í apríl þegar sólin er komin það hátt á loft að snjórinn á sér ekki viðreisnar von yfir daginn. Veðrið sem olli snjókomunni í nótt telst að vísu ekki til útsynnings eins og sú eindregna snjóatíð hefur einkennst af hér suðvesturlands undanfarið. Útsynnings-éljaveður hefur lengi verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Það er eitthvað skemmtilegt við þessi snjóél sem skella á úr suðvestri eins og hendi sé veifað og fyrr en varir skín sólin á ný þangað til næsta éljagusa hellist yfir. Ég veit að það eru ekki allir sem dásama þetta veðurlag, oft veit fólk ekki hvaðan á það stendur veðrið þegar svona stendur á og ekki hafa allir hugmynd um að svona suðvestanátt er kölluð útsynningur. Gjarnan er þetta einfaldlega kallað skrýtið veður, jafnvel þó þetta sé frekar algengt veðurlag hér að vetralagi. 

Éljagangurinn hefur auðvitað ekki verið samfelldur því inn á milli hafa verið blautir dagar eða heiðríkir. Útsynningurinn hefur samt alltaf náð sér á strik á ný og í meira mæli en verið hefur marga undanfarna vetur. Þetta minnir helst á köldu árin hér í kringum 1980. Ég veit ekki hversu lengi þetta veðurlag mun haldast en svo virðist sem hvíti liturinn ætli að verða áberandi eitthvað áfram.

Þann 7. mars var ég staddur með myndavélina í Öskjuhlíð og fékk þá gott sýnishorn eins og sést á þessum þremur myndum sem teknar voru með u.þ.b. tveggja mínútna millibili kringum klukkan 12 á hádegi.

7. mars 11:57

7. mars 11:59

7. mars 12:01


Valdataka húmorista

Þetta verður þá svona:

  1. Íslendingar fella ICESAVE í þjóðaratkvæðagreiðslu
  2. Ríkisstjórnin fellur
  3. Boðað til Alþingiskosninga
  4. Formaður Sjálfstæðisflokksins fellur
  5. Davíð Oddsson verður nýr formaður Sjálfstæðisflokksins
  6. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur sigur og leiðir nýja ríkisstjórn

Þrír húmoristar gegna þá mikilvægustu embættum landsins: Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr (sem flytur ekki til Grænhöfðaeyja).

… D J Ó K !


mbl.is Bölsýnn borgarstjóri í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil hætta á flóðbylgjum á Íslandi

Þó að Ísland sé alþekkt fyrir sína eldvirkni og jarðhræringar getum við samt verið róleg yfir því að sambærilegir atburðir eigi sér stað hér á landi og í Japan. Ísland er vissulega á flekaskilum Norður-Atlantshafsflekans og Evrasíuflekans sem færast í sundur þannig að Atlantshafið stækkar um örfáa sentímetra á ári. Skjálftarnir eru flestir smáir en stóru skjálftarnir hér á landi tengjast þversprungukerfunum á Suðurlandi og útaf Norðurlandi. Þessi átök er þó mun vægari og allt annars eðlis en þau sem á eiga stað í Kyrrahafinu. Kyrrahafið er nánast einn stór úthafsskorpufleki sem hreyfist í heildina í norðvestur og treðst undir aðra fleka allt frá Alaska og langleiðina suður að Antarktíku. Við Japan þar skjálftinn var, kemur líka annar fleki við sögu kenndur við Filippseyjar sem eykur væntanlega á átökin og óreiðuna þarna í jarðskorpunni.

Flekaskil jarðar

Svona fyrirbæri þegar úthafsskorpa treðst undir meginlandsfleka mun vera kallað „renna“ og skapa miklu meiri átök en eiga sér stað hér. Stærstu skjálftar á Íslandi eru um eða yfir 7 á righter og orkan sem losnar úr læðingi ekki nema brot af því sem á sér stað í skjálftum nálægt 9 á righter. Minniháttar fljóðbylgjur geta hugsanlega borist að Norðurlandi ef skjálftar verða í þverbrotabeltinu fyrir norðan land, ég veit þó ekki til þess að orðið hafi tjón af þeirra völdum. Suðurlandskjálftarnir eiga upptök sín inni á landi og valda því ekki flóðbylgjum. Við þurfum engar áhyggjur af hafa af skjálftum á Faxaflóa sem gætu ógnað höfuðborginni. Hinsvegar er fjarlægur möguleiki á því að stór skriða falli úr Snæfellsjökli í næsta eldgosi sem gæti gert góða skvettu í Faxaflóanum og svo er alltaf möguleiki á að loftsteinn falli í hafið og geri góðan usla.

Hér að neðan er nánari skýringarmynd af flekaskilum tekin af síðunni: http://geographyworld.edu.tr.tc/earth_lithosphere.html Hafa má í huga að Ísland er bæði úthafshryggur á gliðnunarsprungu (oceanic spreading ridge) og einnig heitur reitur (Hot spot)

flekaskil

 


mbl.is 300 hús skoluðust burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um eldvirkni á Reykjanesskaga

Hraun á Reykjanesskaga eftir landnám

Þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur, það eru einföld sannindi. Reykjanesskaginn er nánast allur eitt eldbrunið svæði með hraunum sem hafa runnið í sjó fram bæði í Faxaflóa og á suðurströnd skagans. Þarna gengur Atlantshafshryggurinn á land og eldstöðvakerfi tengd gliðnun landsins taka svo við hvert af öðru: Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteins- og Bláfjallakerfið og svo loks Hengilskerfið.

Ef goshrina hefst á Reykjanesskaga væru það mjög athyglisverðir og sögulegir atburðir þótt það sé óvíst hvort þau muni valda meiriháttar tjóni. Það er talið að eðlileg hvíld milli goshrina á Reykjanesskaga sé um 700-1000 ár. Síðasta goshrinan hófst á 10. öld og jafnvel fyrr og stóð yfir með hléum næstu þrjár aldir og nú eru því komin yfir 700 ár síðan gaus þarna síðast svo vitað sé (óstaðfest gos á 14. öld). Þær hreyfingar sem hafa verið í jörðinni undanfarið við Krísuvík vekja eðlilega upp spurningar hvort gos sé þarna í undirbúningi. Sennilega er þetta bara hefðbundin skjálftavirkni tengd gliðnun landsins, en hver veit? Til að átta sig á hvað gæti gerst er forvitnilegt að skoða eldvirknina á Reykjanesskaganum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, sem var í stórum dráttum þannig:

Bláfjallaeldar hófust skömmu fyrir árið 1000 og stóðu yfir í nokkra áratugi. Þá runnu talsverð hraun til suðvesturs og náðu að sjó við Herdísarvík, einnig í norðvestur og jafnvel til sjávar við Straumsvík. Hraun runnu að auki frá Bláfjöllum í átt að Reykjavík þar sem Hólmshraun er ofan Heiðmerkur. Kristnitökuhraunið tengist þessu eldstöðvarkerfi, en talið er að þar sé átt við Svínahraun sem þjóðvegur 1 liggur um nálægt Þrengslagatnamótunum.

Krísuvíkureldar sem tilheyra Trölladyngjukerfinu, stóðu yfir á árunum 1151-1180. Þá rann meðal annars Ögmundarhraun í sjó til suðurs en til norðurs náðu tveir mjóir hraunstraumar í sjó við Straumsvík og sunnan Hafnarfjarðar. Þetta er það eldstöðvakerfi sem liggur næst Höfuðborgarsvæðinu en sprungukerfi þess nær í áttina að Helgafelli og svo áfram að Rauðavatni. Apalhraunin í Hafnarfirði, Garðabæ og Heiðmörk koma frá þessu kerfi en þau eru frá því fyrir landnám og yfirleitt mjög gömul.

Í Reykjaneskerfinu voru talsverð gos árin 1211-1240. Þá runnu hraunin á svæðinu þar sem nú er Bláa Lónið og einnig í sjó fram austur af Reykjanesi. Einnig gaus að hluta til á ströndinni og í hafinu og olli það miklu öskufalli SV-lands og fékk meira að segja sjálfur Snorri Sturluson að kenna á því þegar hann þurfti að fella fjölda nautgripa af þess völdum.

Hengilssvæðið sem sprungukerfi Þingvalla tilheyrir, slapp við eldsumbrot í síðustu goshrinu en þarna gaus síðast fyrir um 2.000 árum. Árin 1994-99 voru þarna tíðir jarðskjálftar sem taldir eru tengjast kvikuinnstreymi á svæðinu sunnan Hengils en þar virðist land hafa jafnað sig aftur.

Ef gos kemur upp á Reykjanesskaganum eru allar líkur á því að um væri að ræða svipuð gos og urðu í Kröflueldum seint á síðustu öld, þ.e. sprungugos með hraunrennsli en litlu öskufalli. Þetta yrðu væntanlega ekki stór gos en gætu komið upp hvað eftir annað í nokkur ár eða áratugi í senn. Hætta á öskufalli getur verið ef gýs í grunnum sjó skammt undan landi en einnig ef gos kæmi upp í Þingvallavatni, minniháttar sprengivirkni eru líka möguleg. Það eru mjög litlar líkur á því að gossprunga opnist í byggð en nokkrir þéttbýlisstaðir og sumir staðir höfuðborgarsvæðisins gætu vissulega verið í veginum ef hraunrennsli leitaði til sjávar. Helstu hættusvæðin á höfuðborgarsvæðinu hljóta að vera þar sem hraun eru í dag. Vallahverfið syðst í Hafnarfirði og álverið gæti verið í mestri hættu ef hraun rennur í norðvestur frá miðjum skaganum. Ef hraun nálgaðist Reykjavík eru allar líkur á það leitaði í farveg Elliðaánna og næði jafnvel í sjó við Elliðavog eins og gerðist með Leitarhraun fyrir 4.700 árum. Sama hraun myndaði gervigígana við Rauðhóla en sjálft hraunið er upprunið ofan af Bláfjallasvæði.
Ýmis meiriháttar óþægindi hljóta að verða ef mikilvægar samgönguæðar, rafmagnslínur eða veituæðar rofna sem þarna liggja þvers og kruss. Ekki má svo gleyma gufuaflsvirkjununum, en kannski verða næstu gos einmitt þegar búið verður að raða þeim eftir endilöngum skaganum. En hvað um það, það eru ekki líkur á að við þurfum að þola hamfaragos sem gæfi tilefni til allsherjar rýmingar fólks af höfuðborgarsvæðinu.

- - - -
Þessi bloggfærsla er að grunni til frá því í desember 2007 en hefur verið uppfærð vegna jarðskjálftahrinunnar við Krísuvík á dögunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband