24.4.2011 | 16:05
Horft á heiminn II
Þegar listamenn miðalda þurftu að teikna mannlegt rými með öllum sínum beinu línum og réttu hornum, lentu þeir gjarnan í hinu mesta basli með það sem við köllum fjarvídd. Kannski ekki nema von, því rétt fjarvídd segir sig ekki alltaf sjálf. Menn áttuðu sig þó á því að hlutir minnkuðu með aukinni fjarlægð en síður hvernig það gerðist og í hvaða hlutföllum. Það var svo ekki fyrr en með endurreisninni sem reiknimeistarar og listamenn eins og Leonardo da Vincy náðu að komast til botns í þessum fræðum sem snýst um að varpa hinum þrívíða heimi yfir á tvívíðan flöt og sýna heiminn eins og við sjáum hann, en ekki endilega eins og hann er. Fjarvídd getur verið mikil stúdía og í mörg horn að líta. Það má sjá á þessum skýringarmyndum sem ég hef teiknað upp og sýna nokkur grundvallaratriði sem ágætt er að hafa í huga þegar glápt er á heiminn.
Þegar sjónsviðið er aukið mjög, koma æ betur í ljós takmarkanir þess að notast við beinar línur útfrá hvarfpunktum og einnig þær takmarkanir sem yfirleitt eru á því að sýna þrívíðan heim á tvívíðum fleti. Á myndinni táknar stóri græni hringurinn sjónsvið upp á 180° og nær það því alveg frá vinstri til hægri og beint upp og niður. Á milli andstæðra höfuðátta lárétt og lóðrétt eru nú komnar sveigðar línur sem formin laga sig eftir. Þannig getum við bæði horft niður á húsin og upp eftir þeim hærri, sem mjókka upp eins og þau eiga að gera og ef gata lægi beint frá austri til vestur myndi hún sveigjast í fallegum boga eftir línunni milli höfuðáttanna. Þetta eru semsagt sömu áhrif og koma fram og þegar teknar eru myndir með mjög gleiðri linsu. Bjögunin er mest í útjaðri hringsins en er minnst í miðjunni sem er X-merkt. Miðjan er líka sá staður sem við beinum sjónum okkar að og öll bjögunin á sér stað útfrá þessari miðju sem þýðir að bjögunin breytist ef horft er annað.
Þegar við horfum á heiminn er myndin sem við sjáum sjálfsagt eitthvað sambland af öllum þessum myndvörpunum. Eftir því sem hlutir eru nær okkur eða eru fyrirferðarmeiri í sjónsviðinu þá eykst bjögunin. Við einblínum reyndar bara á lítinn hluta umhverfisins í einu þannig að við tökum varla eftir þessum sveigða heimi sem birtist í neðstu myndinni. Sjónsvið okkar er heldur ekki svona vítt eins og þarna er og einnig verður að gera ráð fyrir að við búum yfir einhverjum innbyggðum bjögunar-afréttara í höfðinu. Allt þetta hjálpar til við að gera það sem við sjáum nokkurnvegin hreint og beint. Aðalatriðið er þó kannski það að þarna erum við að horfa á tvívíða mynd sem er smækkuð útgáfa af því sem við sjáum og undir miklu þrengra sjónarhorni en er í rauninni.
- - - -
En sjónheimurinn getur verið flóknari en þetta. Umhverfið er ekki alltaf samsett úr beinum línum og réttum hornum og hlutirnir í kringum okkur eru oftar en ekki á skakk og skjön. Hvarfpunktar geta því verið óendanlega margir í allri ringuleiðinni. Í staðin fyrir að eltast við það, mun ég næst setja punktinn yfir i-ið og leita aftur til einfaldleikans til að skoða hvernig heimurinn lítur út án nokkurra hvarfpunkta.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2011 | 12:35
Horft á heiminn
Það er stundum ágætt að velta fyrir sér hvernig við sjáum veröldina í kringum okkur. Það er nokkuð ljóst að við lífum í þrívíðum heimi. Það sem við sjáum er mislangt í burtu, sumt er öðru megin og annað hinumegin en svo getur verið afstætt hvað er fyrir ofan okkur og hvað fyrir neðan. Hinsvegar fer margt ofan garðs og neðan því við getum ekki séð allt í kringum okkur á sama augnabliki enda er víðsýni okkar takmörk sett af líffræðilegum ástæðum. Þessari þrívíðu heimsýn okkar má líkja við það að við séum inni í miðri kúlu með heiminn allt í kringum okkur, sem er öfugt við þá sýn þegar við horfum á hnöttinn okkar utanfrá.
Þegar það sem við sjáum er yfirfært yfir á tvívíða ljósmynd eða teikningu kemur í ljós að samsíða línur geta ekki alltaf birst beinar og samsíða. Á myndum þar sem sjónarhornið er mjög vídd hvelfast formin út og þá virðumst við ekki lengur vera inní kúlu heldur utan hennar. Bjögun á sér stað og verður meiri eftir því sem myndin er víðari. Svipað á sér stað á landakortum þar sem kúlulögun hnattarins veldur því að ekki er hægt að teikna stóra heimshluta án bjögunar.
Þessi sannindi má bera saman með því að skoða þessar tvær myndir hér að neðan sem teknar eru af sömu húsunum úr mismunandi fjarlægð. Sjónsviðið á myndinni til vinstri er mjög þröngt og þess vegna er bjögunin varla sjáanleg línur er hreinar og beinar miðað við myndina til hægri þar sem sjónsviðið er miklu víðara og talsverð bjögun kemur fram.
Beinar línur í náttúrunni eru annars ekki áberandi nema þar sem maðurinn hefur staðið að verki. Eiginlega má segja að sjóndeildarhringurinn sé eina beina línan í hinni náttúrulegu náttúru á meðan beinar línur og rétt horn einkenna mannanna verk. Frá okkur séð stefna samsíða fletir og línur í umhverfinu að sameiginlegum hvarfpunktum. Láréttar línur stefna að hvarfpunktum við sjóndeildarhring en lóðréttar línur eiga sína hvarfpunkta fyrir ofan okkur og neðan.
Þetta læt ég nægja að sinni en þessi færsla er annars bara hugsuð sem inngangur að næsta pistli sem er nánari skoðun á því hvernig við sjáum hinn þrívíða heim og hvernig honum er varpað yfir á tvívíðan flöt með fjarvíddarbrellum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2011 | 23:10
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Eins og venjulega í upphafi hvers aprílmánaðar er nú komið að einum af þessum föstu dagskrárliðum hjá mér, sem er hinn ómótstæðilegi árlegi myndasamanburður á snjóalögum Esjunnar. Að þessu sinni var ljósmyndin tekin mánudaginn 4. apríl í góðu skyggni en ekki miklu sólskini. Kollur Esjunnar hefur undanfarið verið allvetrarlegur enda hefur snjóað í éljaveðri síðustu daga.
Þrátt fyrir vetrarhaminn í efri hlíðum þarf þetta ekki endilega að þýða að snjóskaflar Esjunnar séu umfangsmeiri í ár en venjulega. Það snjóaði vissulega talsvert í mars en ekki svo mikið fyrri hluta vetrar. Snemma í janúar var t.d. mjög lítill snjór í Esjunni eins og má sjá á myndinni í síðustu færslu. Mikið af snjónum hefur fallið í þrálátum suðvestan-éljagangi en snjókoma úr þeirri átt fóðrar ekki að ráði lífseigustu skaflana vestur af Kerhólakambi og Gunnlaugsskarði.
Öll þessi samanburðarár hafa Esjuskaflar náð að bráðna fyrir haustið og hafa reyndar gert frá árinu 2001. Ég sé enga ástæðu til spá öðru en að svo muni einnig verða í ár, nema sumarið taki upp á því að verða kaldara og ómögulegra en verið hefur lengi, sem kannski er kominn tími á.
Hér að neðan er umrædd myndasería. Auk dagsetningar myndatöku má sjá hvenær ég tel að snjórinn hafi horfið um sumarið.
2.4.2011 | 10:10
Vetrarhitasúlur
Í tilefni þess að veturinn ætti nú að vera liðinn hef ég útbúið dálitla mynd sem sýnir hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags yfir vetrarmánuðina frá nóvember til mars. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir daginn í Reykjavík. Nánari bollalengingar eru undir myndinni.
Eins og sést þá einkenndist veturinn af miklum óstöðugleika í hitafari sem sjálfsagt er ekkert svo óeðlilegt fyrir þennan árstíma þegar nægt framboð er af ísköldu heimskautalofti og suðlægu mildara lofti. Vetrardagar hjá okkur geta auðveldlega farið í 6-8 stig en ekki mikið hærra en það, hámarkið sjálft er gjarnan rúmlega 10 stig. Í hinn endann er mjög algengt að kaldasti dagurinn í Reykjavík sé í kringum mínus 10 stig en mestu frostin standa hér þó yfirleitt stutt.
Veturinn byrjaði nokkuð bratt með kaldasta nóvember síðan 1996 en desember var ögn hlýrri en mjög sveiflugjarn í hita. Hressilegur kuldakafli kom snemma í janúar en síðan tóku við miðvetrarhlýindi eins og svo algeng eru orðin undanfarin ár. Eftir mjög hlýjan febrúar kom kaldasti mánuður vetrarins en með hlýrri dögum í lokin náði nýliðinn marsmánuður að skríða yfir frostmarkið í meðalhita.
Kaldasti dagur vetrarins var 6. janúar en þá var um 10 stiga frost í Reykjavík og fór niður fyrir 11 stig sama sólahringinn. Þann dag var ansi hvass vindur beint úr norðri eins og ég og myndavélin fengum að finna fyrir uppi á Öskjuhlíðinni. Ég hef nefnilega dálítið verið að mynda bæinn frá þessu sjónarhorni undanfarið og þá ekki síst þegar veðrin eru verst. Kuldinn skilar sér reyndar ekki sérlega vel á myndinni og engan snjó að sjá nema eitthvað lítillega í Esjunni.
- - - -
Eitt í viðbót. Nú er ég búinn að stofna nýtt myndaalbúm hér á síðunni með samansafni af ýmissi veðurgrafík sem ég hef sett saman í gegnum tíðina. Þar má meðal annars sjá til samanburðar vetrarhitasúlurnar frá vetrinum í fyrra sem voru mun rauðari. Það er kominn tími á uppfærslu á sumum þessara mynda og verður það gert smám saman.
Veður | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2011 | 20:25
Loftvogin
Eitt af grundvallar heimilistækjum á mínu heimili er loftvogin sem hangir uppi á vegg á góðum stað í íbúðinni. Þetta er loftvog af tegundinni Barigo sem mun vera gott og þekkt merki í þessum bransa. Loftvogin hefur reynst vel, allavega virðist henni bera vel saman við opinberar tölur bæði í háum og lágum þrýstingi. Loftvogina nýtti ég að vísu betur fyrir daga internetsins en þá las ég á hana í lok hvers dags til að skrá niður loftþrýstingin ásamt öðrum veðurþáttum en núna hef ég veðurstofuvefinn aðallega til hliðsjónar við þær skráningar.
Myndin af loftvoginni er tekin seint á fimmtudagskvöldi 24. mars og sýndi þá vogin 1026 millibör sem telst í hærra lagi en er samt nokkuð algengt á vorin. Dagana 23.-24. febrúar stóð loftvogin hinsvegar hálfhring neðar og þá hef ég merkt með handsnúna vísinum við 959 mb sem er mjög lágur þrýstingur
Einhverju sinni þegar djúp lægð var hér á sveimi, sá ég ástæðu til að framlengja kvarðann með pennastrikum þannig að hann næði allan hringinn. Eini gallinn á þessari loftvog finnst mér nefnilega vera kvarðinn sem nær bara niður í 954 millíbör, en það er eiginlega fulllítið í ljósi þess hversu djúp Íslandslægðin okkar getur orðið. Í hina áttina nær kvarðinn alveg uppí 1073 millíbör sem er alveg yfirdrifið enda háþrýstimetið fyrir landið ekki nema um 1058 millíbör og fer mjög sjaldan yfir 1045 mb. Þessi aukakvörðun er nú horfin að mestu en það má samt enn greina nokkra punkta.
Allralægstu loftþrýstingsgildin standa oftast stutt yfir enda bundin við lægðarmiðjuna sjálfa sem getur verið á hraðri ferð framhjá ef miðjan nær þá á annað borð að vera í næsta nágrenni. Það er því þannig að þótt ýmsar djúpar lægðir hafi verið hér á sveimi þá hef ég samt ekki, eftir að loftvogin kom í hús sumarið 1992, skráð lægri loftþrýsting á miðnætti en 951 millibar. Það var á miðnætti hins 10. janúar 1993 þegar ein af allradýpstu lægðum sem hér hafa komið var á sveimi suðaustur af landinu. Sú mældist 915 millibör samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Líklega var það þá sem ég bætti við kvarðann.Á mynd sem ég fann á heimasíðu loftvogaveldisins Barigo, er ágætis útskýring á sambandi loftþrýstings, hæðar, hita og sennilega þéttleika loftsins. Minna af andrúmslofti er fyrir ofan mann eftir því sem maður er ofar sjálfur og því lækkar þrýstingur með hæð. Miðað við 1013 millíbör við sjávarmál má gera ráð fyrir 899 millibörum í 1000 metra hæð en slíkan lágþrýsting er hugsanlega hægt að finna í miðju fellibylja við sjávarmál. Á Everesttindi í 8848 metra hæð er loftvægið ekki nema um 300 millíbör og frostið yfir 40 stigum.
Þetta var um sem sagt um loftvog og loftþrýsting. Kannski þykir gamaldags að tala um millíbör en ekki hektópasköl. Gildin munu samt vera þau sömu en millíbör finnst mér þægilegra orð
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2011 | 20:41
Ofurmáni og sólarlag á Norðurpólnum
Í dag fékk ég senda þessa fínu mynd sem sýnir risastórt tungl fyrir ofan sólina þar sem hún er að setjast yfir norðurpólnum. Eftirfarandi texti fylgir með myndinni:
This is the sunset at the North Pole with the moon at its closest point last week.
a scene you will probably never get to see in person, so take a moment and enjoy God at work at the North Pole. And, you also see the sun below the moon, an amazing photo and not one easily duplicated. You may want to pass it on to others so they can enjoy it. The Chinese have a saying that goes something like this: 'When someone shares with you something of value, you have an obligation to share it with others!' I just did.. Your turn.
Í framhaldi af þessu eru nokkur smáatriði sem hafa skal í huga:
- Sólin sest ekki á norðurpólnum nema einu sinni á ári og það er á haustin. Hún er hæst á lofti á sumrin en ferðast lárétt eftir sjóndeildarhringnum, lækkar smám saman á lofti uns hún hverfur undir sjóndeildarhringinn við haustjafndægur. Um þessar mundir, stuttu eftir vorjafndægur, er sólin nýfarin að sjást á ný á norðurpólnum.
- Tunglið getur ekki verið svona miklu stærra en sólin, jafnvel þótt það sé óvenju nálægt jörðu. Myndin er greinilega ekki tekin með aðdráttarlinsu, en þótt svo væri ætti sólin að stækka á myndinni í sömu hlutföllum og tunglið.
- Á norðurpólnum ætti tunglið ekki að vera svona hátt yfir sólinni. Við miðbaug gæti þessi staða frekar komið upp því þar er gangur sólar og tunglsins þvert á sjóndeildarhringin en ekki samsíða eins og á norðurpólnum.
- Þegar tunglið var stærst nú á dögunum var það fullt, enda í gagnstöðu við sól. Myndin getur því ekki hafa verið tekin þá.
- Mjög ólíklegt er að norðurpóllinn sé ófrosinn um þessar mundir enda frostið gjarnan um 20-40 stig á þessum árstíma. Sprungur geta myndast í ísnum en sjórinn frís þá aftur á skömmum tíma. Vakir geta hinsvegar opnast að sumarlagi og haldist ófrosnar.
að myndin er samsett og unnin af konu að nafni Inga Nielsen. Myndin er frá árinu 2005 og hefur þvælst margsinnis um netheima og iðulega sögð vera tekin í síðustu viku. Myndina verður að skoða sem listaverk enda gerð í þeim tilgangi af hálfu listakonunnar og er ágæt sem slík.
Ég vildi bara deila þessu með ykkur eins og hvatt er til í myndatextanum.
19.3.2011 | 14:55
Hinn skrýtni útsynningur
Snjórinn sem féll hér í borginni í nótt (19. mars) minnir á að veturinn er ennþá allsráðandi. Vorið mun væntanlega koma samkvæmt venju einhverntíma í apríl þegar sólin er komin það hátt á loft að snjórinn á sér ekki viðreisnar von yfir daginn. Veðrið sem olli snjókomunni í nótt telst að vísu ekki til útsynnings eins og sú eindregna snjóatíð hefur einkennst af hér suðvesturlands undanfarið. Útsynnings-éljaveður hefur lengi verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Það er eitthvað skemmtilegt við þessi snjóél sem skella á úr suðvestri eins og hendi sé veifað og fyrr en varir skín sólin á ný þangað til næsta éljagusa hellist yfir. Ég veit að það eru ekki allir sem dásama þetta veðurlag, oft veit fólk ekki hvaðan á það stendur veðrið þegar svona stendur á og ekki hafa allir hugmynd um að svona suðvestanátt er kölluð útsynningur. Gjarnan er þetta einfaldlega kallað skrýtið veður, jafnvel þó þetta sé frekar algengt veðurlag hér að vetralagi.
Éljagangurinn hefur auðvitað ekki verið samfelldur því inn á milli hafa verið blautir dagar eða heiðríkir. Útsynningurinn hefur samt alltaf náð sér á strik á ný og í meira mæli en verið hefur marga undanfarna vetur. Þetta minnir helst á köldu árin hér í kringum 1980. Ég veit ekki hversu lengi þetta veðurlag mun haldast en svo virðist sem hvíti liturinn ætli að verða áberandi eitthvað áfram.
Þann 7. mars var ég staddur með myndavélina í Öskjuhlíð og fékk þá gott sýnishorn eins og sést á þessum þremur myndum sem teknar voru með u.þ.b. tveggja mínútna millibili kringum klukkan 12 á hádegi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2011 | 15:54
Valdataka húmorista
Þetta verður þá svona:
- Íslendingar fella ICESAVE í þjóðaratkvæðagreiðslu
- Ríkisstjórnin fellur
- Boðað til Alþingiskosninga
- Formaður Sjálfstæðisflokksins fellur
- Davíð Oddsson verður nýr formaður Sjálfstæðisflokksins
- Sjálfstæðisflokkurinn vinnur sigur og leiðir nýja ríkisstjórn
Þrír húmoristar gegna þá mikilvægustu embættum landsins: Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr (sem flytur ekki til Grænhöfðaeyja).
D J Ó K !
![]() |
Bölsýnn borgarstjóri í Vín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.3.2011 | 14:23
Lítil hætta á flóðbylgjum á Íslandi
Þó að Ísland sé alþekkt fyrir sína eldvirkni og jarðhræringar getum við samt verið róleg yfir því að sambærilegir atburðir eigi sér stað hér á landi og í Japan. Ísland er vissulega á flekaskilum Norður-Atlantshafsflekans og Evrasíuflekans sem færast í sundur þannig að Atlantshafið stækkar um örfáa sentímetra á ári. Skjálftarnir eru flestir smáir en stóru skjálftarnir hér á landi tengjast þversprungukerfunum á Suðurlandi og útaf Norðurlandi. Þessi átök er þó mun vægari og allt annars eðlis en þau sem á eiga stað í Kyrrahafinu. Kyrrahafið er nánast einn stór úthafsskorpufleki sem hreyfist í heildina í norðvestur og treðst undir aðra fleka allt frá Alaska og langleiðina suður að Antarktíku. Við Japan þar skjálftinn var, kemur líka annar fleki við sögu kenndur við Filippseyjar sem eykur væntanlega á átökin og óreiðuna þarna í jarðskorpunni.
Svona fyrirbæri þegar úthafsskorpa treðst undir meginlandsfleka mun vera kallað renna og skapa miklu meiri átök en eiga sér stað hér. Stærstu skjálftar á Íslandi eru um eða yfir 7 á righter og orkan sem losnar úr læðingi ekki nema brot af því sem á sér stað í skjálftum nálægt 9 á righter. Minniháttar fljóðbylgjur geta hugsanlega borist að Norðurlandi ef skjálftar verða í þverbrotabeltinu fyrir norðan land, ég veit þó ekki til þess að orðið hafi tjón af þeirra völdum. Suðurlandskjálftarnir eiga upptök sín inni á landi og valda því ekki flóðbylgjum. Við þurfum engar áhyggjur af hafa af skjálftum á Faxaflóa sem gætu ógnað höfuðborginni. Hinsvegar er fjarlægur möguleiki á því að stór skriða falli úr Snæfellsjökli í næsta eldgosi sem gæti gert góða skvettu í Faxaflóanum og svo er alltaf möguleiki á að loftsteinn falli í hafið og geri góðan usla.
Hér að neðan er nánari skýringarmynd af flekaskilum tekin af síðunni: http://geographyworld.edu.tr.tc/earth_lithosphere.html Hafa má í huga að Ísland er bæði úthafshryggur á gliðnunarsprungu (oceanic spreading ridge) og einnig heitur reitur (Hot spot)
![]() |
300 hús skoluðust burt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2011 | 13:55
Um eldvirkni á Reykjanesskaga
Þar sem hraun hafa runnið getur hraun runnið aftur, það eru einföld sannindi. Reykjanesskaginn er nánast allur eitt eldbrunið svæði með hraunum sem hafa runnið í sjó fram bæði í Faxaflóa og á suðurströnd skagans. Þarna gengur Atlantshafshryggurinn á land og eldstöðvakerfi tengd gliðnun landsins taka svo við hvert af öðru: Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið, Brennisteins- og Bláfjallakerfið og svo loks Hengilskerfið.
Ef goshrina hefst á Reykjanesskaga væru það mjög athyglisverðir og sögulegir atburðir þótt það sé óvíst hvort þau muni valda meiriháttar tjóni. Það er talið að eðlileg hvíld milli goshrina á Reykjanesskaga sé um 700-1000 ár. Síðasta goshrinan hófst á 10. öld og jafnvel fyrr og stóð yfir með hléum næstu þrjár aldir og nú eru því komin yfir 700 ár síðan gaus þarna síðast svo vitað sé (óstaðfest gos á 14. öld). Þær hreyfingar sem hafa verið í jörðinni undanfarið við Krísuvík vekja eðlilega upp spurningar hvort gos sé þarna í undirbúningi. Sennilega er þetta bara hefðbundin skjálftavirkni tengd gliðnun landsins, en hver veit? Til að átta sig á hvað gæti gerst er forvitnilegt að skoða eldvirknina á Reykjanesskaganum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, sem var í stórum dráttum þannig:
Bláfjallaeldar hófust skömmu fyrir árið 1000 og stóðu yfir í nokkra áratugi. Þá runnu talsverð hraun til suðvesturs og náðu að sjó við Herdísarvík, einnig í norðvestur og jafnvel til sjávar við Straumsvík. Hraun runnu að auki frá Bláfjöllum í átt að Reykjavík þar sem Hólmshraun er ofan Heiðmerkur. Kristnitökuhraunið tengist þessu eldstöðvarkerfi, en talið er að þar sé átt við Svínahraun sem þjóðvegur 1 liggur um nálægt Þrengslagatnamótunum.
Krísuvíkureldar sem tilheyra Trölladyngjukerfinu, stóðu yfir á árunum 1151-1180. Þá rann meðal annars Ögmundarhraun í sjó til suðurs en til norðurs náðu tveir mjóir hraunstraumar í sjó við Straumsvík og sunnan Hafnarfjarðar. Þetta er það eldstöðvakerfi sem liggur næst Höfuðborgarsvæðinu en sprungukerfi þess nær í áttina að Helgafelli og svo áfram að Rauðavatni. Apalhraunin í Hafnarfirði, Garðabæ og Heiðmörk koma frá þessu kerfi en þau eru frá því fyrir landnám og yfirleitt mjög gömul.
Í Reykjaneskerfinu voru talsverð gos árin 1211-1240. Þá runnu hraunin á svæðinu þar sem nú er Bláa Lónið og einnig í sjó fram austur af Reykjanesi. Einnig gaus að hluta til á ströndinni og í hafinu og olli það miklu öskufalli SV-lands og fékk meira að segja sjálfur Snorri Sturluson að kenna á því þegar hann þurfti að fella fjölda nautgripa af þess völdum.
Hengilssvæðið sem sprungukerfi Þingvalla tilheyrir, slapp við eldsumbrot í síðustu goshrinu en þarna gaus síðast fyrir um 2.000 árum. Árin 1994-99 voru þarna tíðir jarðskjálftar sem taldir eru tengjast kvikuinnstreymi á svæðinu sunnan Hengils en þar virðist land hafa jafnað sig aftur.
Ef gos kemur upp á Reykjanesskaganum eru allar líkur á því að um væri að ræða svipuð gos og urðu í Kröflueldum seint á síðustu öld, þ.e. sprungugos með hraunrennsli en litlu öskufalli. Þetta yrðu væntanlega ekki stór gos en gætu komið upp hvað eftir annað í nokkur ár eða áratugi í senn. Hætta á öskufalli getur verið ef gýs í grunnum sjó skammt undan landi en einnig ef gos kæmi upp í Þingvallavatni, minniháttar sprengivirkni eru líka möguleg. Það eru mjög litlar líkur á því að gossprunga opnist í byggð en nokkrir þéttbýlisstaðir og sumir staðir höfuðborgarsvæðisins gætu vissulega verið í veginum ef hraunrennsli leitaði til sjávar. Helstu hættusvæðin á höfuðborgarsvæðinu hljóta að vera þar sem hraun eru í dag. Vallahverfið syðst í Hafnarfirði og álverið gæti verið í mestri hættu ef hraun rennur í norðvestur frá miðjum skaganum. Ef hraun nálgaðist Reykjavík eru allar líkur á það leitaði í farveg Elliðaánna og næði jafnvel í sjó við Elliðavog eins og gerðist með Leitarhraun fyrir 4.700 árum. Sama hraun myndaði gervigígana við Rauðhóla en sjálft hraunið er upprunið ofan af Bláfjallasvæði.
Ýmis meiriháttar óþægindi hljóta að verða ef mikilvægar samgönguæðar, rafmagnslínur eða veituæðar rofna sem þarna liggja þvers og kruss. Ekki má svo gleyma gufuaflsvirkjununum, en kannski verða næstu gos einmitt þegar búið verður að raða þeim eftir endilöngum skaganum. En hvað um það, það eru ekki líkur á að við þurfum að þola hamfaragos sem gæfi tilefni til allsherjar rýmingar fólks af höfuðborgarsvæðinu.
- - - -
Þessi bloggfærsla er að grunni til frá því í desember 2007 en hefur verið uppfærð vegna jarðskjálftahrinunnar við Krísuvík á dögunum.
25.2.2011 | 22:25
Loftsteinagígar í Kanada
Í tveimur síðustu færslum hefur Norður-Ameríka verið í brennidepli hjá mér og til að fullkomna þríleikinn ætla ég að halda mig áfram á þeim slóðum. Ég kom inn á það síðast að stór loftsteinn hafi hugsanlega gert mikinn usla í Ameríku undir lok síðasta jökulskeiðs með víðtækum afleiðingum fyrir frumbyggjana og jafnvel þurrkað út heilu dýrategundirnar. Einn gallinn við þessa loftsteinakenningu er sá að ummerki á jörðinni í formi gígs vantar algerlega en það var útskýrt þannig að loftsteinninn eða kannski frekar, ísklumpurinn, hafi sprungið upp til agna í nokkurra kílómetra hæð.
Á jörðinni eru mörg ummerki eftir loftsteina sem hafa fallið á jörðina. Þetta eru gígar sem geta verið yfir 100 kílómetrar í þvermál og svo fjöldamargir smærri, yngri gígar. Þessir loftsteinagígar hafa varðveist misvel og eru líka misvel sýnilegir í dag en þar skiptir miklu máli hvar á jörðinni þeir hafa fallið. Það landssvæði á jörðinni sem virðist vera vænlegast til að varðveita ummerki loftsteina er norðurhluti Norður-Ameríku og þá kannski sérstaklega Labrador-skaginn í Kanada. Þangað er ferðinni heitið til skoða loftsteinagíga með hjálp Google-earth.
Fyrstan skal nefna Pingualuit crater sem er mjög reglulega hringlaga gígur norðarlega á Labradorskaga og talinn er vera 1,4 milljón ára. Þetta er mjög fallegur gígur og eins og með aðra loftsteinagíga á þessum slóðum er hann fullur af vatni. Gígurinn er einfaldur og ekki af stærstu gerð, þvermálið er um 3,4 kílómetrar og dýpið 267 metrar en til samanburðar er Öskjuvatn álíka stórt og dýpið 220 metrar. Vegna þess hve þetta eru fáfarnar slóðir var þessi gígur lítt þekktur umheiminum þar til eftir 1950 þegar farið var að skoða nánar þetta fyrirbæri sem sást á loftmyndum frá árinu 1943. Inúítar höfðu hins vegar lengi þekkt vatnið og kölluðu það Kristalsaugað með tilvísunum óvenjulegs hreinleka vatnsins sem þarna er.
Clearwater lakes eru nokkuð merkileg því hér hafa tveir allstórir loftsteinar fallið samtímis og myndað þessa tvo gíga. Vötnin er samtengd, það stærra er 36 þverkílómetrar og það smærra 26 km og eru áberandi utan úr geimnum. Í stærra vatninu er eyjahringur sem þýðir að gígurinn er samsettur eins og gjarnan er með stærri gíga. Það þýðir að gígurinn er ekki bara einföld skál því við þungt höggið hefur komið bakslags-bylgja sem mótað hefur innri gerð gígsins. Aldur gígana er um 290 milljón. Ekki virðast menn vera alveg vissir hvort loftsteinninn hafi brotnað í tvennt áður en hann féll til jarðar eða hvort hér sé um að ræða tvíburaloftstein (binari asteroid), en þá eru það tveir álíka stórir loftsteinar sem snúast um hvorn annan í geimnum.
Að lokum er það Manicouagan gígurinn sem er einn af frægustu loftsteinagígum á jörðinni. Hann er stundum kallaður Quebec augað og er mjög sýnilegur utan úr geimnum vegna hringlaga stöðuvatnsins á jöðrum gígsins. Þetta er einn af stærstu loftsteinagígum á jörðinni, hefur upphaflega verið um 100 km í þvermál en hefur minnkað vegna veðrunar niður í 70 km sé miðað við hringlaga vatnið. Til að fá stærðarsamanburð þá er eyjan svipuð Hofsjökli að stærð. Aldur gígsins er áætlaður um 215 milljón ár og því mun eldri en gígurinn sem myndaðist eftir loftsteininn sem grandað risaeðlunum fyrir 65 milljón árum og allavega helmingi minni. Loftsteinninn gæti hafa verið um 5 km að stærð en hugmyndir eru uppi um að önnur brot hafi einnig fallið í Frakklandi, Úkraínu og víðar. Ljóst er að þessu hafi fylgt náttúruhamfarir af stærstu gerð sem reynt hefur verið að tengja við fjöldaútrýmingu dýrategunda fyrir 205 milljón árum á mörkum trías- og júratímans. 10 milljón ára gatið, ef aldurákvarðanir eru réttar, er þó erfitt að brúa.
- - - -
Heimildir eru héðan og þaðan.
18.2.2011 | 21:53
Ráðgátan um hvarf Clovis fólksins í NorðurAmeríku
Það er ekki vitað með vissu hvenær fyrstu mennirnir komu til Norður-Ameríku. Oftast er þó talað um að fyrstu landnámið sem eitthvað kvað af, hafi verið Clovis fólkið sem þangað kom fyrir um 13-13.5 þúsund árum. Á þessum tímum hafði ísaldarjökullinn hopað nógu mikið til að ferðafært var á milli Alaska og Síberíu og Norður-Ameríka því ekki lengur einangruð frá Asíu.
Þessi þjóðflokkur kom að miklu gósenlandi þar sem allskonar risaspendýr gengu um í flokkum og máttu sín lítils gegn þróuðum örvaroddum veiðimannana. Flest þessara dýra eru útdauð í dag eins og mammútinn, ameríku-úlfaldinn, risaletidýrið og mörg fleiri. Clovis fólkið mun hafa náð talsverðri útbreiðslu í Norður-Ameríku samkvæmt fornleifarannsóknum og lifað góðu lífi, þar til eitthvað verður til þess að fólksfjöldinn fellur um 75% á einhverjum tilteknum tíma. Nýir menningahópar eða þjóðflokkar tóku síðan við í tímans rás en kannski ekki alltaf ljóst hvort um sé að ræða nýja aðkomuhópa frá Asíu eða afkomendur Clovis fólks.
Miklar loftslagssveiflur
Síðasta jökulskeið mun hafa verið í hámarki fyrir um 15-20 þúsund árum og náði ísaldarjökullin þá inn í Bandaríkin samanber ísaldarklappir í Central Park í New York. Fyrstu merkin um lok ísaldarinnar var síðan mjög skyndilegt hlýskeið fyrir um 14 þúsund árum þegar hitinn á norðurhveli jafnaðist allt í einu á við það sem þekkst hefur á nútíma. Hámark þessa hlýskeiðs stóð þó stutt en nógu hlýtt var áfram til að jökulskjöldurinn tók að bráðna hratt. Við þetta myndaðist risastórt stöðuvatn Agassiz-vatn suður af hörfandi jökulskildinum sem síðan mun hafa fundið sér leið að Atlantshafinu með þeim afleiðingum að Golfstraumurinn sem einmitt var kominn á gott skrið varð fyrir svo mikilli árás af ferskvatni að flæðið til norðurs raskaðist og allsherjar ísaldarkuldi skall á að nýju beggja vegna Atlantshafs. Það kuldakast nefnist yngra-Dryas og hófst fyrir tæpum 13 þúsund árum. Augljóst er að svona sviptingar hafa haft mikil áhrif á búsetuskilyrði hinna nýaðkomnu veiðimanna og gætu í sjálfu sér skýrt það sem skýra þarf. En aðrar hugmyndir um hvarf Clovis fólksins eru líka til.
Loftsteinninn ógurlegi
Á síðustu árum hafa verið uppi hugmyndir um að stór loftsteinn á stærð við heilt fjall hafi sprungið yfir Norður-Ameríku fyrir nálega 13 þúsund árum. Afleiðingarnar hafi orðið gífurlegar, ekki bara við höggið sjálft heldur líka vegna mikilla gróður- og skógarbruna í kjölfarið. Myrkur og kuldi lagðist yfir norðurhvel og má ímynda sér að ekki hafi komið sumur í nokkur ár. Lofsteininn má líka tengja við það að stóra Agassis stöðuvatnið fann sér leið til sjávar með þeim afleiðingum sem nefndar voru hér að ofan enda gerðist hvorttveggja nánast á sama tíma. Enginn ummerki í formi gígs hafa reyndar fundist um áreksturinn sjálfan en það hefur verið útskýrt með því að steinninn hafi splundrast áður en hann féll til jarðar. Hinsvegar telja áhangendur þessarar kenningar að ýmsar menjar um mikla bruna og jafnvel loftsteinaleyfar sé að finna í jarðlögum á nokkrum stöðum í Norður-Ameríku frá þessum tíma sem stemmir við lok blómaskeiðs Clovis menningarinnar. Nú síðast í september 2010 var greint frá því að fundist hafi í borkjörnum frá Grænlandsjökli dularfullir ördemantar sem taldir eru renna stoðum undir sendingu frá geimnum á þessum tíma (sjá hér). Þessi loftssteinahugmynd er samt ennþá bara kenning sem vísindamenn taka misalvarlega.
Af mannavöldum
Maðurinn er löngum talinn vera öflugasta rándýr jarðar og fer léttilega með að fella stærstu skepnur með sínum veiðigræjum. Fyrir daga Clovis fólksins var Ameríka gott land fyrir stór spendýr enda var hinn stórhættulegi maður hvergi til staðar. Flestum stórskepnum hafði maðurinn þegar útrýmt í gjörvallri Evrasíu en þar hafði síðan nýtt jafnvægi komist á með smærri og fleiri spendýrum sem ekki var hægt að útrýma með góðu móti. Stóru spendýrin aftur á móti voru ekki bara svifasein, heldur skiptir líka máli að þau voru tiltölulega færri í hóp og lengra á milli kynslóða. Það vilja því margir meina að fjöldaútrýming veiðidýra hafi gert útslagið varðandi skyndilega hnignum Clovis fólksins. Þegar stóru veiðidýrin voru horfin leið talsverður tími uns jafnvægi komst á á ný og löngum hefur sú speki komið frá Indíánum að ekki megi taka meira af náttúrunnar gæðum en náttúran þolir. Kannski hafa þeir lært af biturri reynslu landnemanna.
Mynd: Risaletidýrið átti sér fáa náttúrulega óvini fyrir landnám mannsins í Ameríku.
- - - - -
Hvað raunverulega gerðist þarna undir lok ísaldarinnar í Norður-Ameríku fæst kannski seint endanlegt svar. Ef til vill fæst skýrari mynd ef hægt verður að sanna eða afsanna loftsteinkenninguna, því áhrif af völdum risaloftsteins eru svo afgerandi. Eitt útilokar þó ekki annað í þessu frekar en öðru og allt gæti þetta hafa átt sér stað. Það er hinsvegar vitað að þarna var mikið ójafnvægi á náttúrunni með miklum hitasveiflum og stórfækkun stórra spendýra. Hver þáttur mannsins er í svona dæmum er sígild spurning, ekki bara í sambandi við þessa atburði heldur líka þeim sem eru nær okkur í tíma.
- - - - -
Nokkrar heimildir:
Ice sheet melt triggered ancient Big Freeze
Were Ancient Americans Wiped out by Meteor Strike?
Bókin: Mannlaus Veröld eftir Alan Weisman
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.2.2011 | 01:10
Útrás kalda Ameríkuloftsins
Á vefnum NASA Earth observatory er að finna ágæta gervitunglamynd frá 25. janúar þar sem vel má sjá hvað gerist þegar ískalt vetrarloftið yfir Norður-Ameríku streymir yfir Atlantshafið. Niðri til vinstri á myndinni er New York, lengra í norðaustur má sjá Þorskhöfða og lengra í sömu átt er Nova Scotia sem tilheyrir Kanada. Þarna hafa undanfarið verið talsverðir kuldar eins og sjá má á hvítri jörðinni sem ætti svo sem ekki að vera óeðlilegt á þessum árstíma.
Þegar þetta ískalda loft blæs yfir hafið, sem auðvitað er mun hlýrra, þá myndast þessar fínu skýjarákir sem ná lengst út á haf. Án þess að ég ætli út í mikla veðurfræði þá gerist þetta þegar kalda meginlandsloftið mætir mun hlýrra yfirborði sjávar. Þá hitnar neðsta lag loftsins þannig að uppstreymi myndast, þ.e.a.s loftið verður óstöðugt. Þetta loft þróast síðan oft yfir í að verða skúra- eða éljaloft sem gjarnan nær alla leið til Íslands. Það er samt ekki víst að akkúrat þessi ský hafi náð til okkar því vel getur verið að þau hafi dagað uppi mun sunnar en kalda loftið er annars ágætis hráefni í nýja lægðarmyndum.
Þetta fyrirbæri er andstæða þokusúldarinnar sem oft ríkir hér sunnanlands að vetrarlagi enda er þar á ferð hlýtt suðlægt loft að upplagi sem hrakist hefur norður og mætt kaldari sjó. Þá þéttist rakinn við yfirborð í neðstu loftlögunum þannig að lágskýjabreiður myndast, þokuloft eða súld. En loftið er þá hinsvegar stöðugt því mildara loftinu líður betur fyrir neðan það kalda.
Myndin sem fylgir er bara hluti af stórri mynd í hárri upplausn og er að finna á þessa slóð ásamt almennilegri útskýringum: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=49254
Veður | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2011 | 22:08
Verstu leturgerðirnar
Eins og gengur og gerist með flesta hluti þá njóta leturgerðir mismikillar virðingar ekki síst meðal þeirra sem fást mikið við letur. Þau letur sem njóta þess vafasama heiðurs að teljast meðal þeirra verstu eru þó ekki endilega slæm letur því sum þeirra hafa einfaldlega verið misnotuð eða ofnotuð og þá gjarnan við tækifæri sem hæfa ekki karaktereinkennum letursins. Tíðarandinn breytist líka stöðugt. Það sem eitt sinn þótti meiriháttar smart þykir í dag meiriháttar hallærislegt. Mörg letur hafa síðan einfaldlega komist í slæmudeildina með því að vera svo óheppin að fylgja stýrikerfi tölva og komist þannig í hendur fjölda notenda með misgott auga fyrir smekklegheitum
Letrin átta sem ég nefni hér að neðan eru gjarnan nefnd meðal verstu leturgerða nú á tímum. Hver og einn verður síðan að dæma fyrir sig hvort þau eigi það öll skilið. Mörg önnur letur gætu auðvitað átt heima þarna líka.
Comic Sans er eiginlega frægasta versta letrið í dag. Það er svo illa liðið að hægt er að fá viðbætur í tölvur sem hreinsa það burt úr tölvunni og til er vefsíða sem heitir ban comic sans. Eins og nafn letursins gefur til kynna er það hugsað til notkunar í gríni hverskonar og þá helst í texta við skrípamyndir. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega ætti því að nota þetta letur en því miður hafa margir flaskað á því.
Brush script var teiknað árið 1942. Það hefur talsvert verið notað á allskonar auglýsingaefni í gegnum tíðina en er nú algerlega komið úr móð. Þetta er ágætt dæmi um letur sem alls ekki má nota í hástöfum, ekki frekar en önnur hallandi skriftarletur. Samt sjást oft dæmi um slíka misnotkun.
Hobo hefur sjálfsagt verið elskað á hippaárunum en í dag elska margir að hata þennan font. Sveigðu línurnar eru í anda jugent stílsins frá aldamótunum 1900 en letrið var annars teiknað árið 1910. Hobo er ágætt þegar höfða á til barna og dýra en í öðrum tilfellum ættu menn að hugsa sig tvisvar um.
Marker Felt er helst nothæft þegar markmiðið er að gera eitthvað verulega ódýrt. Við erum því kannski að tala um brunaútsölu.
Zapf Changery er í sjálfu sér ekki slæmt letur í lágstöfum en er auðvitað algerlega bannað í hástöfum öðrum en upphafsstaf.
Cooper Black er mjög í anda 8. áratugarins en í dag ætti enginn að nota þennan font nema að vera mjög meðvitaður um hvað hann er að gera.
Mistral er mjög óformlegt skriftarletur. Það náði dálitlum vinsældum á 9. áratugnum þegar menn vildu poppa sig aðeins upp.
Arial kemur hér að lokum og er eina steinskriftarletrið í upptalningunni. Það hefur það helst á samviskunni að vera hannað sem skrifstofustaðgengill hins fræga Helvetica leturs án þess að ná elegans fyrirmyndarinnar.
- - - -
Það má hér í lokin minna á þennan frábæra DVD-disk um Bíladaga á Akureyri. Þó ekki væri nema til þess að dást að Mistral letrinu.
LETUR | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 21:29
Hitamósaík fyrir Reykjavík árin 1971-2010
Ég hef stundum dundað mér að útbúa ýmsar litríkar myndir upp úr veðurupplýsingum og þá yfirleitt útfrá mínum eigin veðurskráningum. Að þessu sinni eru hinsvegar unnið upp úr gallhörðum gögnum af sjálfum Veðurstofuvefnum þar sem finna má ýmsa veðurtölfræði aftur í tímann.
Á myndinni sem hér fylgir hef ég sett upp alla mánuði frá 1971 til 2010 í eina mynd og í stað talna fær hver mánuður sinn lit eftir hitafari samkvæmt hitaskalanum sem fylgir.
Ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós þegar hitinn er skoðaður á þennan hátt. Bláu frostmánuðunum fækkar og rauðu 10 stiga sumarmánuðunum fjölgar. Breytingin er þó helst sýnileg á árunum eftir aldamót.Á fyrri hluta tímabilsins var ekki hægt að treysta á að sumarmánuðirnir júlí og ágúst næðu 10 stiga meðalhita og jafnvel ekki nokkur mánuður sumarsins, en eftir 1994 hefur það gerst undantekningalaust. Flest síðustu árin hefur svo júní náð að komast í 10 stiga flokkinn og jafnvel september. Síðasta sumar gerði það best allra, með alla fjóra sumarmánuðina í 10 stigum.
Af vetrarmánuðunum sést þarna vel hversu mikil óregla er í því hvenær kaldast er á vetrum. Þó er kannski einhver regla. Árin 1975 til 1984 voru allir janúarmánuðir og flestir desembermánuðir undir frostmarki, á meðan febrúar var oftast yfir frostmarki. Það er því dálítið sérstakt tímabilið 1996-2002 þegar allir febrúarmánuðir voru undir frostmarki, en hinir yfirleitt ekki.
Frostmánaðalaus ár hafa komið af og til allt tímabilið, en nú er orðið nokkuð síðan mánaðarmeðalhiti hefur verið undir frostmarki í Reykjavík. Gerðist síðast með herkjum janúar og febrúar 2008.
Svo má líka nefna að ef myndin hefði náð lengra aftur í tímann hefði verið hægt að finna allnokkur ár frá hlýja tímabilinu á síðustu öld sem jafnast á við þau síðustu. T.d. voru fjórir 10 stiga sumarmánuðir árin 1939, 1941 og 1958. Síðasti áratugur eru þó mjög óvenjulegur enda hafa hlýindin verið samfelld og nokkurn vegin án verulegra truflana, enda óumdeilanlega hlýjasti áratugurinn frá upphafi mælinga.
Vísindi og fræði | Breytt 25.5.2013 kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)