18.7.2011 | 21:46
Bestu íslensku kvikmyndirnar
Sjónvarpið sýnir íslenskar kvikmyndir tvisvar í viku nú í sumar sem er auðvitað bara ágætt. Sumar þessara mynda hafa reyndar verið sýndar alloft áður í Sjónvarpinu en svo eru nokkrar sem aldrei hafa verið sýndar og ekkert víst að verði sýndar í þessari sumarupprifjun.
En hvað um það. Ég er oft dálítið fyrir að bera saman eitt og annað og nú ætla ég að lista niður hvaða íslensku kvikmyndir mér sjálfum þykja bestar. Ég fer ekki lengra aftur í fortíðina en til upphafs kvikmyndavorsins en síðan þá hafa íslenskar myndir af öllum gæðum og gerðum nánast verið framleiddar á færibandi. Ég hef reyndar ekki séð allar íslenskar myndir, sérstaklega margar af þeim nýjustu en sumar þeirra gætu mögulega verið ágætar. Almennt get ég þó sagt að uppáhaldsmyndir mínar eru nokkuð sígíldar og komnar til ára sinna og eru auk þess meðal fyrstu mynda viðkomandi leikstjóra sem kannski er engin tilviljun. Myndirnar eru hér nefndar í þeirri röð sem þær voru frumsýndar.
1. LAND OG SYNIR. Ágúst Guðmundsson 1980
Myndin er gerð eftir sögu Indriða G. og oft nefnd sem upphafsmynd kvikmyndavorsins. Þetta er fyrsta mynd Ágústar í fullri lengd, gerð af miklum metnaði og heppnast ágætlega. Söguþráðurinn er að vísu ekki sterkur en það er mikið ekta í þessari mynd sem segir af sveitasamfélagi á tímamótum fyrir miðja á síðustu öld. Siggi Sigurjóns er mjög ungur og alvarlegur í þessari mynd.
2. MEÐ ALLT Á HREINU. Stuðmenn/Ágúst Guðmundsson 1982
Ótrúlega vel heppnuð vitleysumynd sem gerði Stuðmenn svo vinsæla að það var ekki nokkur leið fyrir þá að hætta. Allar tilraunir til að endurtaka gleðina voru þó dæmdar til að misheppnast. Þessi mynd nánast bjargaði kynslóðinni sem var upp á sitt besta á áttunda áratugnum frá leiðindum. Hún mun lengi verða í minnum höfð og verður bara betri með tímanum.
3. HRAFNINN FLÝGUR. Hrafn Gunnlaugsson 1984
Fyrsta víkingamynd Hrafns og útkoman það góð að hann vildi helst ekki gera öðruvísi myndir næstu árin. Seinni víkinga- og miðaldamyndirnar Hrafns náðu þó aldrei að vera eins sterkar og Hrafninn Flýgur enda söguþráðurinn bæði einfaldur og hnitmiðaður.
4. SKYTTURNAR. Friðrik Þór Guðmundsson 1987
Fyrsta leikna mynd Friðriks í fullri lengd. Algerlega hrein og bein saga af tveimur hvalveiðimönnum sem missa fótfestuna í sollinum í Reykjavík á methraða í vertíðarlok. Þarna er heimsfrægðin ekkert farin að trufla leikstjórann né aðra sem standa að myndinni.
5. BÖRN NÁTTÚRUNNAR. Friðrik Þór Guðmundsson 1991
Önnur mynd Friðriks Þórs og sú sem kom honum á alþjóðlega kortið enda næstum búin að vinna til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Strokusaga af gömlu fólki sem leitar til heimaslóða sinna hljómar ekki spennandi söguþráður en lokaatriði myndarinnar sem gerist á þessum heimaslóðum norður á Ströndum gerði hinsvegar útslagið. Þar fór saman stórbrotin kvikmyndataka og tónlist Hilmars Arnar og í heildina náðist þar einhver kynngimögnuð stemming sem erfitt er að leika eftir.
6. SÓDÓMA REYKJAVÍK. Óskar Jónasson 1992
Óskar Jónasson hitti vel á það í þessari fyrstu mynd sinni sem er eiginlega orðin költ-mynd í dag. Þarna ægir saman kjánalegum glæpamönnum, undirheimaliði, rótlausum unglingum á djamminu og mömmu gömlu sem finnur ekki fjarstýringuna. Lokaatriðið í morgunsólinni Elliðaársdalnum er alltaf jafn gott. Miðhluti myndarinnar dettur aðeins niður þegar söguhetjan er óþarflega lengi að þvælast í loftræstistokknum.
7. DJÖFLAEYJAN. Friðrik Þór Guðmundsson 1996
Margt má segja um þessa mynd. Hún er auðvitað gerð eftir Eyjasögum Einars Kárasonar og byggir á fólki sem raunverulega var til og bjó í braggahverfi á Melunum. Bækurnar voru skrifaðar í nokkrum ýkjustíl og jafnvel undir áhrifum Suður-Amerísks töfraraunsæis. Ég er sjálfur ekki í vafa um að Einar Kárason hafi meðal annars verið undir áhrifum bókarinnar 100 ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marques en þar má finna nokkur líkindi. Helsti heimildamaður Einars við ritunina var fjölskyldumeðlimurinn Aggi sem var sonur Dollýar í myndinni og systursonur bræðranna Badda og Danna. Aggi þessi er síðan sá sem lék hvatvísa töffarann í Skyttunum sem hér var nefnd að ofan. Þegar svona mikil fjölskyldusaga er færð yfir í kvikmynd þarf að beita miklum einföldunum en auðvitað verður að lýta á kvikmyndina sem sjálfstætt verk. Ömurleiki braggahverfisins er ýktur enn meir í myndinni og kannski full mikið, sumir eru líka full mikið fullir til að vera sannfærandi eins og ólánsami kúluvarparinn og vinurinn Grjóni. En þrátt fyrir ýmis ósannfærandi atriði er kvikmyndin í heildina bæði dramatísk og kraftmikil og ekki síst nokkuð spaugileg á köflum.
8. NÓI ALBÍNÓI. Dagur Kári Pétursson 2006
Eftir 10 ára gat í þessari upptalningu kemur hér mynd sem mér finnst vera ein sú allra besta af öllum íslenskum myndum enda hefur hún fengið allskonar fínar viðurkenningar hér og þar. Enn einu sinni er hér á ferðinni fyrsta mynd leikstjóra. Myndin lýsir köldum veruleika stráks sem sem er utanveltu og fittar ekki inní íslenskt smábæjarlíf og eins og góðum myndum sæmir fer ástandið heldur versnandi eftir því sem líður á myndina og endar með ósköpum. Mjög stílhrein mynd og uppfull af sniðugum atriðum.
9. STÓRA PLANIÐ. Ólafur Jóhannesson 2008
Þetta var nú aldrei nein stórmynd og gerði enga stóra hluti en mér fannst hún skemmtileg. Þetta er mynd um mislukkaða gangstera ekki ósvipað og í Sódómu Reykjavík, en undirtónninn þó alvarlegri og framvindan mun hægari. Pétur Jóhann er góður að venju.
10. ?????
Hér ætla ég að skilja eftir eyðu sem ég tileinka ýmsum nýlegum myndum sem ég hef ekki séð, en ég er núna mun latari að sjá íslenskar myndir en áður. Kannski ætti Reykjavík-Rotterdam að vera þarna því hún mun vera góð samkvæmt lýsingu áreiðanlegra sjónarvotta. Af myndum sem mikið er látið með hef hvorki séð Brim eða Brúðguma Baltasars en ég hef þær fyrirframskoðanir á þeim að þær teljist ekki meðal þeirra mynda sem mér þykja bestar. Oftast eru fyrirframskoðanir mínar á myndum bara nokkuð réttar.
7.7.2011 | 18:47
Af ört bráðnandi hafís á Norður-Íshafinu
Eins og fyrir mánuði tek ég hér stöðuna á hafísnum sem bráðnar nú ört í sumarsólinni norður í Íshafinu. Sem fyrr vísa ég í línurit ættuðu frá hafísdeild dönsku Veðurstofunnar þar sem má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins síðustu árin. Svarta línan stendur fyrir núverandi ár en spennandi tímar eru framundan því samkvæmt línuritinu er útbreiðslan nú minni en verið hefur áður á sama tíma sumars þótt ekki muni miklu. (Myndina uppfærði ég í morgun enda hefur svarta línan fallið nokkuð síðan í gær)
Útbreiðslan hefur fram að þessu í sumar fylgt nokkuð árinu 2010 en nú skiljast leiðir því mjög dró úr rýrnun ísbreiðunnar í júlí í fyrra. Því olli lægðarsvæði sem þá myndaðist á Norður-Íshafinu með aukinni skýjahulu og vindum úr óæskilegum áttum fyrir rýrnun ísbreiðunnar. Samanburðurinn við bláu línuna (2007) er auðvitað áhugaverðastur og á næstu vikum kemur í ljós hvort bráðnun ársins 2011 heldur í við bráðnun ársins 2007 sem endaði í metlágmarkinu fræga og var langt undan sinni samtíð. Það má vel gera ráð fyrir harðri baráttu framundan því ekki er spáð neinum truflandi lægðum á Norður-íshafinu á næstunni og reyndar er ekki annað að sjá en að hæðarsvæðið sem hefur verið þarna við norðurpólinn haldi velli áfram með tilheyrandi heiðríkju og sólbráð á stórum svæðum.
Hæðina má sjá hér að neðan á spákorti fyrir þriðjudaginn 12. júlí. Enn öflugri staða með tilliti til vinda kæmi þó upp ef hæðin fikraði sig aðeins til vinstri að ströndum Ameríku og smálægðin við Síberíustrendur efldist
Hér að neðan er svo mynd sem sýnir ísbreiðuna þann 6. júlí en til samanburðar hef ég útlínað septemberlágmark ársins 2007. Það metlágmark þarf kannski að fara að vara sig ef aðstæður breytast ekki enda er ísinn núna að öllum líkindum þunnildislegri og auðmeltanlegri en fyrir fjórum árum. Heilmikið ísmagn er þó við að eiga eins og sést á myndinni.
Myndin er fengin af vefnum: The Cryosphere Today http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/
Svo er ekki úr vegi að vísa í júlíyfirlit Bandarísku hafísstofnunarinnar: http://nsidc.org/arcticseaicenews/
Vísindi og fræði | Breytt 10.7.2011 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2011 | 18:36
Hversu gott var veðrið í júní?
Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júnímánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn. Aukaafurð þessara skráninga er einkunnakerfið sem einhver ætti að vera farinn að kannast við. Einfalda útskýringin er að það tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans en yfirlit sumarmánaðana munu birtast hér í sumar.Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn júní. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta júnímánaðar miða ég meðallagið við 9-13 stig en seinni hlutann 10-14.
Júní 2011 - Einkunn 4,9.
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 4,9 stig sem telst nokkuð góð einkunn og yfir meðallagi. Mánuðirinn var eindreginn norðanáttamánuður og því mjög misskiptur í gæðum eftir landshlutum og þar sem verst lét var veðrið hvorki mönnum, skepnum né fuglum bjóðandi. Hitinn í Reykjavík var lægri en hefur að meðaltali verið síðustu 10 ár en þó fyrir ofan opinberan meðalhita (1961-90). Fyrstu 10 dagarnir voru kaldir en umskipti til hins betra urðu eftir að Esjan náði að verða hvít aðfaranótt 10. júní. Slíkt háttalag Esjunnar í júní er mjög óvenjulegt. Annars varð það sólskinið og lítil úrkoma sem gerði útslagið í sambandi við ágæta einkunn mánaðarins. Veðurbókin hugsar sem fyrr ekkert um gróðurinn sem hefði alveg þegið meiri úrkomu. Aðeins tvisvar sá ég ástæðu til að skrá úrkomu en í bæði skiptin skein sólin einnig sama daginn. Enginn dagur fékk lægri einkunn en 3 en lökustu dagarnir voru allir á hinum köldu upphafsdögum mánaðarins. Síðasta daginn var ekki um annað að ræða en að gefa sparieinkunnina 8 enda voru allir veðurþættirnir upp á það besta.
Oft þarf að leggjast í miklar bollaleggingar þegar finna á viðeigandi lýsingu á meðalveðri dagsins enda veðrið oft ansi breytilegt. Stundum þarf að gera einhverjar málamiðlanir til að fá sem sanngjörnustu útkomu en þó innan þess marka sem skráningarkerfið býður upp á.
Þá er það samanburður við fyrri ár. Síðan dagbókarskráningar hófust árið 1986 eru þrír júnímánuðir jafnir í 1.-3. sæti með 5,3 í einkunn:
Júní 1991 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður var eftirminnilegur góðviðrismánuður enda mjög sólríkur og úrkomulítill. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskíra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi.
Júní 1998 - Einkunn 5,3. Hlýr mánuður þar sem meðalhitinn náði að skríða yfir 10°C, en það hafði ekki gerst í júní í Reykjavík síðan 1966. Margir fínir sólardagar voru í mánuðinum en að auki er þetta hægviðrasamasti júní sem ég hef skráð.
Júní 2008 - Einkunn 5,3. Mánuðurinn var enn ef þeim sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og auk þess mjög þurr og hlýr. Hér hefði fengist enn hærri einkunn ef nokkrir vindasamir dagar hefðu ekki dregið einkunnina niður.
Júní 2010 - Einkunn 5,2. Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og víðar, meðal annars í Stykkishólmi. Eins og undanfarin ár var nokkuð þurrt en sólskinsdagar voru þó ekki fleiri en venjulega.
Og þeir verstu:
Júní 1988 - Einkunn 3,6. Versti sumarmánuðurinn sem ég hef skráð. Þetta var vindasamur og kaldur rigningarmánuður og sólarminnsti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Ekki bætti úr skák að verstu veður mánaðarins komu einmitt á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Júní 1992 - Einkunn 4,0. Afar kaldur mánuður og sennilega frægastur fyrir Jónsmessuhretið. Ásamt júní 1978 er þetta kaldasti júní sem komið hefur síðan 1922.
Júní 2006 - Einkunn 4,1. Hér voru einfaldlega allir veðurþættir daprir án þess þó að um söguleg frávik hafi verið að ræða.
- - - -
Ljósmyndin af Esju er tekin að morgni 10. júní
Veður | Breytt 1.8.2011 kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2011 | 20:18
Ofurplönturnar taka völdin
Nú er blómatími sumarsins gengin í garð og þrátt fyrir litla úrkomu er borgin víða að kafna í gróðri. Þar á meðal er hinn hávaxni skógarkerfill að verki en hann er orðinn áberandi í borgarlandinu og blómstrar hvítum blómum um þessar mundir. Skógarkerfill er ættingi hvannarinnar og má finna talsverðar breiður af honum í Öskjuhlíðinni, Vatnsmýrinni, Elliðaárdal og víðar og sumstaðar er kerfillinn farinn að sækja inn í lúpínubreiður sem segir sína sögu hversu öflug planta þetta er.
Skógarkerfillinn er innflutt planta eins og lúpínan en er hingað komin sem skrautjurt snemma á síðustu öld og hefur verið notuð sem slík áratugum saman í görðum. Smám saman hefur plantan dreift úr sér og finnst nú víða um land við mismiklar vinsældir. Hún þykir orðin full aðgangshörð í Eyjafirði og Hrísey og þar hafa verið gerðar tilraunir til eyðingar á henni. Skógarkerfillinn er ólíkur lúpínunni að því leyti að hann fer ekki yfir ógróið land enda vinnur hann ekki köfnunarefni úr loftinu eins og belgjurtin lúpínan gerir. Kerfilinn lætur því aðrar jurtir um að skapa jarðveginn sem hann sækir síðan í. Væntanlega munu stóru lúpínubreiðurnar umhverfis borgina smám saman láta undan skógarkerflinum sem muna síðan ráða ríkjum í þéttum breiðum þar til einhver önnur og öflugri ofurplanta nemur land. Í Esjuhlíðum við Mógilsá er þetta mjög greinilegt þar sem grænhvíti-liturinn hefur nánast tekið við af þeim fjólubláa. Lúpínan mun þó halda áfram sínu landnámsstarfi um holt og hæðir, lyng og móa.
Gott eða slæmt?
Skógarkerfillinn og lúpínan eru ekki taldar til náttúrulegrar íslenskar flóru. Þessar plöntur eru ættaðar úr öflugri vistkerfum og stuðla að varanlegri breytingu á gróðurfari. Eins og ýmsir aðrir er ég ekki alltof hrifinn af þessari þróun sem skilar sér í einsleitara gróðurfari þar sem örfáar ofurplöntur gerast allsráðandi. Mér finnst þó ekki sérstök ástæða að amast við þessu innan byggðarinnar eða í næsta umhverfi þar sem hvort sem er ægir saman allskonar gróðri innlendum og innfluttum. Þetta er líka hinar fallegustu plöntur á meðan þær eru í blóma. Hinsvegar finnst mér verra þegar landgræðsla er stunduð með lúpínu og þegar fólk er beinlínis að stuðla að útbreiðslu hennar og fjöll of firnindi. Hefðbundið rótgróið gróðurfar á landinu er í mikilli sókn samkvæmt rannsóknum, ekki síst vegna aukinna hlýinda og minnkandi beitar. Landið er ekki að fjúka á haf út eins og óttast var fyrir nokkrum árum eða áratugum og virðist fullfært um að græða sig sjálft á eigin forsendum með tíð og tíma.
Skrautlegar ofurplöntur í Öskjuhlíð í harðri valdabaráttu.
- - - - -
Nánar um Skógarkerfilinn má finna hér á vef Náttúrfræðistofnunar:
http://www.ni.is/grodur/rannsoknir/agengartegundir/skogarkerfill
22.6.2011 | 18:47
Þökulagning á þurrkatímum
Það hefur ekki rignt mikið í Reykjavík það sem af er sumri og reyndar ekki nokkur síðustu sumur. Eiginlega tilheyrir það fortíðinn að hægt sé að tala um að í Reykjavík sé sífelld rigning eða súld. Ekki virðast allir búnir að átta sig á þessu nýja veðurlagi eins og til dæmis þeir sem í blautu bjartsýniskasti halda að það sé bara hægt að leggja grasþökur í upphafi sumars og þurfa svo ekki að sinna því meir. Grasflatirnar á umferðareyjum við tónlistarhúsið Hörpu eru ágætt dæmi um þetta en þar var fyrir um mánuði síðan tyrft með iðagrænum þökum sem síðan hafa ekki gert annað en að þorna upp og gulna meir og meir. Smá væta af og til hefur ekki mikið að segja og ekkert nema úrhellisrigning í gamla stílnum virðist geta komið til hjálpar.
Snemmsumarið er að öllu jöfnu þurrasti tími ársins hér í Reykjavík. Meðalúrkoma júnímánaðar er sögð vera 50 millimetrar en sú mánaðarúrkoma náðist síðast í júní 2006 og þar áður 2003. Síðustu fjögur árin hefur júní-úrkoman ekki verið yfir 30 millimetrum og fátt sem bendir til þess að 50 millimetrunum verði náð í þessum mánuði. Það er þó aldrei að vita.
Það er annars athyglisvert hvað veðurgæðum getur verið misskipt á landinu. Sumsstaðar norðanlands eiga menn við kal í túnum að stríða og almennilegt sumar lætur bíða eftir sér. Norðlensku Mæjorkahitarnir og gæðasumrin eru að verða sífellt fjarlægari í minningunni sem er eiginlega það sama og hægt er að segja um Reykvísku rigningarsumrin. Tíðarfar á það til að festast í einhverju fari á vissu árabili. Það tekur síðan stundum jafn mörg ár að aðlagast nýjungum praktískt. Í samræmi við það taka kannski við mikil rigningarsumur á sama tíma og menn læra hvernig á að standa að þökulagningum í þurrkatíð. Kannski fer líka að rigna strax eftir að þessi bloggfærsla fer í loftið.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2011 | 21:31
Af snjóalögum sunnan Hofsjökuls
Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls þar sem jeppamannafélagið er með skála. Upplýsingarnar gref ég upp af eldri vef Veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili.
Setur er í 693 metra hæð og er þar iðulega hvít jörð allan veturinn og snjódýptin vel á annan metra seinni hluta vetrar samkvæmt mælingum. Snjórinn er venjulega í hámarki í apríl og horfinn um miðjan júní og eins og sjá má á línuritinu á það einnig við í ár þrátt fyrir nokkuð svala tíð undanfarið. Ég fylgist að vísu ekki alltaf með upp á dag hvenær snjórinn hverfur en í ár hitti það alveg á 15 júní.
Framan af vetri var að mjög lítil snjósöfnun á Setri en úr því var bætt eftir áramót af miklum ákafa uns vorsólin fór að hafa betur. Mér sýnist vera þó nokkur samsvörum milli snjódýptar þarna upp undir Hofsjökli og ástandsins almennt á suðurhelmingi landsins, en væntanlega síður norðan jökla. Maður sér þetta til dæmis ágætlega á Esjunni sem var nánast snjólaus um síðustu áramót en bætti síðan heilmiklu á sig.
Þarna sést líka vel hvað veturinn 2009-2010 (ljósblá lína) var snjóléttur þótt hann hafi byrjað nokkuð bratt. Árið í fyrra skilaði enda mjög neikvæðri afkomu helstu jökla landsins en auk þurrka bættust við langvinn sumarhlýindi og öskufall úr Eyjafjallajökli. Skaflar Esjunnar hurfu í samræmi við þetta óvenjusnemma síðasta sumar eða um miðjan júlí. Það eru varla nokkrar líkur á að þeir hverfi svo snemma í ár, þeir ættu þó að hverfa fyrir næstu vetrarkomu sé tekið mið af síðustu árum.
- - - -
Minna má á veðurgrafíska myndalbúmið hér á síðunni þar sem þessu línuriti hefur verið komið fyrir ásamt öðru veðurtengdu sem ég hef dundað mér við að setja saman.
Ljósmyndin af Setri er tekin af Kjartani Pétri Sigurðssyni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2011 | 18:44
Um sumarbráðnun hafíssins á Norður-Íshafinu
Nú skal spáð í hafíssinn. Á meðfylgjandi línuriti ættuðu frá hafísdeild Dönsku Veðurstofunnar má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins síðustu ára. Svarta línan er núverandi ár og samkvæmt því er útbreiðslan þessa dagana með lægsta móti en þó svipuð og á sama tíma og í fyrra. Vetrarhámarkið í ár var einnig með lægsta móti ekki ósvipað og árin 2005 til 2007. Ef rýnt er í myndina sést að í raun er lítið samband á milli vetrarhámarks og sumarlágmarks og jafnvel segir staðan nú í sumarbyrjun lítið um árlega lágmarkið sem oftast á sér stað í september.
Árið 2007 sker sig nokkuð úr í sumarlágmarkinu enda fór bráðnun íssins það ár fram úr öllum væntingum og óttuðust margir að dagar hafíssins að sumarlagi yrðu taldir að fáum árum liðnum. Árið 2007 er því mikið viðmiðunarár og varð til þess að ýmsir fóru að fylgjast nánar með hafísnum, þar á meðal ég sjálfur.
Hvað gerist í framtíðinni er erfitt að spá um. Ef allt leggst á eitt gæti ísinn alveg horfið í sumarlok innan 10 ára en einnig er mögulegt að íslaust Norður-Íshaf verði ekki að veruleika fyrr en eftir marga áratugi, ef það gerist þá yfirleitt. Þegar kemur að því að íslaust Norður-Íshaf verður að veruleika, þarf það ekki endilega að vera árviss atburður þar á eftir, því nýtt upphaf á sér stað með hverjum vetri og nýjum ís. Munurinn er þó hinsvegar sá að einsvetrargamall ís er alltaf viðkvæmari fyrir bráðnun heldur en margravetragamall ís.
Næsti stóri atburður þarna norðurfrá verður væntanlega þegar norðurpóllinn sjálfur nær að verða almennilega íslaus. Slíkt hefði þó aðallega táknrænt gildi því norðurpóllin sjálfur er bara hver annar staður á Norður-Íshafinu en nokkuð mikið þarf að gerast ef hafið á að opnast akkúrat þar.
Nú fylgjumst við með hvað gerist í sumar. Byrjunin lofar góðu fyrir þá sem vilja sjá sem mesta bráðnun. Hæðarsvæði, bjartviðri og almenn veðurrólegheit hafa ríkt á Norður-Íshafinu undanfarið en slíkt stuðlar að meiri bráðnun heldur en þrálátir lægðarvindar, að sögn kunnugra. Einnig skiptir máli hversu mikið af mildu meginlandslofti mun berast yfir á Íshafið í sumar, sérstalega frá Síberíu. Vindur og ríkjandi straumar þurfa svo ekki síður að beina ísnum sem mest að Fram-sundi milli Grænlands og Svalbarða en Norður-Íshafið virkar sem risastór trekt með Fram-sund sem aðal undankomuleið. Ísinn safnast þannig saman okkar megin á Norður-Íshafinu á meðan opnu höfin myndast frekar hinu megin, þ.e. Kyrrahafsmegin á Norður-Íshafinu.
Þetta sést ágætlega á mynd sem sýnir ástand hafíssins þann 7. júní en til samanburðar hef ég útlínað hið fræga septemberlágmark ársins 2007. Verður eitthvað slíkt endurtekið í ár?
Myndin er fengin af vefnum: The Cryosphere Today http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/
2.6.2011 | 20:52
Veðurskráning maí 2011
Eins og um síðustu mánaðarmót kemur hér dálítið veðuryfirlit fyrir nýliðinn mánuð og smá samanburður við fyrri ár. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurdagbókarskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn og eins og ég hef oft nefnt áður er aukaafurð þessara skráninga, einkunnakerfi, sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum. Þetta útskýrði ég örlítð betur síðast. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru bara ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans, en nú er ég að hugsa um að deila skráningum með þjóðinni næstu mánuði, eða bara í sumar.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn maí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort dagurinn teljist í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). Meðallagið hef ég nokkuð vítt og er breytilegt eftir árstíðum. Fyrri hluta maímánaðar miða ég við 4-9 stig en seinni hlutann 7-12 enda er maí að öllu jöfnu ört hlýnandi mánuðir.
Maí 2011
Nýliðinn maímánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem telst nokkuð góð einkunn. Kannski finnst sumum þetta hafa verið kaldur mánuður en það er væntanlega vegna þess að hitafarið var öfugsnúið í mánuðinum með sannkölluðum sumarhitum fyrri partinn en frekar svölu veðri seinni partinn. Slíkt háttarlag er ekki vænlegt til vinsælda á vormánuðum en veðurbókin hefur engar tilfinningar fyrir slíku. Öfgarnar fyrstu tvo dagana er merkilegar því mánuðurinn byrjaði á bólakafi í snjó en 14 stiga hita daginn eftir. Eins og gjarnan er í maí var yfirleitt nokkuð bjart í veðri og úrkomudagar fáir. Ég vek athygli á næstsíðasta dálkinum sem er að mestu auður. Þar sést hvort blautt sé yfir um miðnætti eða jörð hvít eins og tilfellið var eftir fyrsta daginn. Yfirleitt er þessi dálkur miklu skrautlegri, sérstaklega yfir veturinn.
Merkisatburður mánaðarins var auðvitað Grímsvatnagosið sem hófst að kvöldi þess 21. Sá sólskinsdagur fékk 6 stig í einkunnakerfinu en til að fá bestu einkunn hefði vindur þurft að vera hægari og hitinn hærri. Enginn dagur náði sparieinkunninni 8 að þessu sinni. Sumir dagar fyrri hlutann voru þó mjög nálægt því og hefðu í raun alveg átt það skilið. Enginn dagur fékk heldur hina alslæmu 0-einkunn (enda mjög fátítt) og enginn fékk bara 1 stig, sem á sinn þátt í ágætri einkunn mánaðarins.
Nokkrir góðir maímánuðir til samanburðar:
Maí 2010 - Einkunn 5,5. Þetta er mjög góð einkunn og með því allra besta sem nokkur mánuður hefur fengið hjá mér í einkunn. Þetta var sannkallaður sumarauki að vori enda hlýr mánuður og alveg laus við kuldaköst eins og oft hefur einkennt maímánuði hér á landi. Þar að auki var sólríkt, hægviðrasamt og þurrt hér í Reykjavík og varla hægt að fara fram á meira, nema hvað að stöku sinnum gerði hér dálítið öskumistur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Maí 1995 - Einkunn 5,4. Þessi mánuður er kannski nokkuð óvænt og afgerandi í öðru sæti. Hitinn var þó ekkert sérstakur en allt annað í góðu lagi. Það sem vegur hátt í góðri einkunn er hvað vindurinn var hægur en frá upphafi minna skráninga er þetta allra hægviðrasamasti mánuðurinn í Reykjavík. Opinberar athuganir eru þó ekki alveg sammála enda mælist nú hvað eftir annað mun hægari meðalvindur á Veðurstofutúni í ört vaxandi gróðri og byggð þar umhverfis.
Maí 2002, 2003, 2005 og 2006 - Einkunn 5,1. Þessir mánuðir eru allir sólríkir og þurrir og því nokkuð dæmigerðir fyrir veðurlag sem algengt er hér á vorin. Gallinn við þá (fyrir utan 2003) eru hinsvegar nokkrir kaldir norðanáttardagar sem þó skora ágætlega í einkunnakerfinu vegna sólskins. Það sem bjargar málunum er að hér í Reykjavík fer saman skjól fyrir köldum vindum úr norðri og varmi sólarinnar úr suðri. Kuldakastið seinni hlutann í maí 2006 var þó ansi hastarlegt, en eins og nú í ár var fyrri hluti mánaðarins mjög hlýr og komst t.d. hitinn í 18 stig þann 7. maí.
Maí 2008 - Einkunn 4,8. Þetta telst að vísu bara góð meðaleinkunn en ég nefni mánuðinn því hann þetta er hlýjasti maí í Reykjavík síðan 1960. Vindar voru nokkuð suðlægir og ekki alltaf hægir. Hitinn var nokkuð jafn allan mánuðinn, yfirleitt svona 9-12 stig yfir daginn.
Og þeir verstu:
Maí 1989 - Einkunn 4,0. Þessi mánuður á alveg skilið að vera neðstur á blaði. Meðalhitinn var ekki nema 4,8 stig og úrkoman var sú mesta sem mælst hefur í maí hér í Reykjavík. Að þessu sinni kom kuldinn ekki bara úr norðri heldur líka úr suðvestri og því gerði nokkrum sinnum slydduél og jafnvel stundum snjóél með hvítri jörð. Sumarið sem á eftir kom náði sér aldrei á strik og var nokkuð kalt og leiðinlegt.
Maí 1991 - Einkunn 4,2. Þetta telst ekki alveg vera falleinkunn en mánuðurinn skorar ekki hærra vegna þrálátra rigninga og sólarleysis. Stöku slydduél úr suðvestri hrjáðu einnig höfuðborgarbúa framan af mánuði. Að þessu sinni fylgdi óvenjugott sumar og sögulegt miðað við það sem fólk átti að venjast þarna fyrir 20 árum.
- - - -
Almennt að lokum. Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Einkunnarkerfið er auðvitað ekki gallalaust en er samt ágætis viðmiðun og útgangspunktur fyrir veðursamantektir eins og þessa.
Veður | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2011 | 11:53
Gömlu Bíóin II
Áfram skal haldið upprifjuninni um gömlu góðu bíóin sem maður heimsótti á seinni hluta síðustu aldar. Í fyrri hlutanum tók ég fyrir fjögur kvikmyndahús en í þessum seinni hluta verða þau fimm. Í hléinu fengum við óvænt gos (en ekkert popp) og það er ástæðan fyrir því að þessi bíóblogg koma ekki hvort á eftir öðru. Við byrjum miðsvæðis en förum svo aðeins víðari rúnt um bæinn. Sem fyrr eru myndirnar af húsunum nýjar en miðarnir gamlir.
Stjörnubíó hóf starfsemi árið 1949 en á þeim árum var mikill uppgangur í bíóhúsamenningu borgarinnar. Stundum er sagt að Stjörnubíó hafi staðið á álagabletti en saga þess markast af tveimur brunum. Fyrst árið 1953 og svo öllu verri bruna árið 1973 sem kallaði á algera endurnýjun hússins. Það var kannski þess vegna sem manni fannst Stjörnubíó vera nýrra en það var, allavega voru sætin þægilegri en gerðist annarstaðar. Í Stjörnubíói horfði maður agndofa á geimverumyndina Náin kynni af þriðja tagi eftir Spielberg en Norska brúðumyndin Álfhóll var einnig eftirminnileg, ekki síst vegna rússíbanaatriðisins stórkostlega. Sögu Stjörnubíós lauk árið 2002. Húsið var þá rifið til grunna og nýtt umfangsmikið hús með undirgöngum reis í staðinn. Kannski vildu menn ekki storka örlögunum af fenginni reynslu og þótt vissara að hafa sem allra minnst jarðsamband á nýju byggingunni þar sem Stjörnubíó stóð áður.
Regnboginn við Hverfisgötu tók til starfa árið 1980 og var mikil nýjung í bíóhúsamenningu borgarinnar. Þetta var fyrsta kvikmyndahúsið með mörgum bíósölum. Það hafði augljósa kosti í samkeppninni og nokkuð sem önnur kvikmyndahús þurftu að bregðast við. Salirnir voru hver í sínum lit og því lá beinast við að kalla kvikmyndahúsið Regnbogann. Ein af fyrstu myndunum sem ég sá í Regnboganum var stórmyndin Hjartarbaninn sem var alvöru mynd bönnuð innan 16 og ég bara 15. Regnboginn hélt lengi út sem venjulegt kvikmyndahús en haustið 2010 var ákveðið að gera húsið að metnaðarfullu heimili kvikmyndanna undir heitinu Bíó Paradís sem sýnir ýmist nýjar eða sígildar myndir fyrir djúpþenkjandi fagurkera, en slíkt hefur löngum þótt vanta í kvikmyndahúsaflóruna.
Tónabíó við Skipholt var starfrækt af Tónlistarfélagi Reykjavíkur frá árinu 1962 en félagið hafði áður séð um rekstur Trípólíbíós á Melunum. Þrátt fyrir að vera ekki í miðbænum var Tónabíó nokkkuð vinsælt bíó og kærkomið fyrir okkur sem ólumst upp í Háaleitishverfinu. Þarna var hægt að sjá Peter Sellers fara á kostum í Bleika Pardusnum og ekki síður Roger Moore sem James Bond. Rússarnir koma var þarna líka, alveg bráðskemmtileg. Magnaðasta myndin var þó Dómsdagur nú eftir Coppóla, en reyndar hefur mig aldrei sifjað eins mikið í bíó og í lokaatriðum þeirrar myndar. Það sama gerðist er ég sá myndina aftur í sjónvarpi 15 árum síðar. Það er langt síðan ég hef stigið inn í þetta hús en margir heimsækja það reglulega til Bingóiðkunar.
Laugarársbíó er elsta kvikmyndahúsið sem enn er starfrækt í Reykjavík en sýningar hófust þar árið 1956. Húsið tengist öldnum sjómönnum sterkum böndum því það er sambyggt dvalarheimili DAS og var lengst af rekið af sömu aðilum, eða þar til Myndform tók reksturinn yfir árið 1993. Til að halda velli í samkeppninni þurfti að stækka húsið og bæta við aukasölum því ekki dugði að lengur að bjóða bara upp á eina mynd í einu. Af mörgum góðum myndum í Laugarbíó man ég ekki eftir neinum sem standa upp úr en Vígastjarnan Galaktíka á þann vafasama heiður að vera fyrsta myndin sem mér hálfleiddist á í bíó. Í dag stendur Þorfinnur Karlsefni vígalegur mjög fyrir utan bíóið, spurning hvort kappinn hafi mikinn áhuga á Brúðarmeyjunum sem þarna er auglýst til sýningar.
Háskólabíó var formlega tekið í notkun 1961 á 50 ára afmæli Háskóla Íslands en áður hafði Háskólinn komið að rekstri Tjarnabíós í gömlu íshúsi við Tjörnina. Í þessu mikla harmónikkulagaða húsi hefur margt stórmennið stigið á svið. Stórar hetjur hafa líka birst á sýningatjaldinu. Sjálft Ofurmennið sveif þarna um árið 1979 og bjargaði heiminum sem oftar, King Kong fór hamförum uppá á Tvíburaturnunum og John Travolta grísaðist með greiðsluna í lagi. Háskólabíó stækkaði með nýjum sölum í hliðarbyggingu og nú eru kvikmyndasýningar einungis í þeim húsakynnumi. Sinfóníuhljómsveitin er nýhorfin á braut í ennþá meira hús, þannig að nú er svona frekar tómlegt að horfa til Háskólabíós frá Melatorginu.
- - - -
Það örlar ennþá á bíómenningu í borginni þótt flest gömlu bíóin séu horfin eða hætt. Sú menning finnst þó ekki í miðbænum í sama mæli og áður, en miklu frekar í stórum verslunarkjörnum víðsvegar um borgina. Þangað liggja víðir vegir og margar akreinar.
Fyrri hluti Gömlu bíóanna: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1168221
23.5.2011 | 15:29
Þétt öskuský á gervitunglamynd
Á mynd dagsins má sjá helstu útflutningsafurð Íslands í dag.
Uppruni myndarinnar er af vefnum MODIS Rapid Response System.
![]() |
Aska yfir Skotlandi á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2011 | 16:25
Um hópsálir eldfjalla
Þótt Grímsvatnagosið hafi ekki gert mikil boð á undan sér er samt ekki hægt að segja að það sé mjög óvænt. Grímsvötn eru í eldvirknisfasa sem byrjaði með smágosi árið 1983 en stærri gosum eftir það. Fyrir 1983 hafði ekki gosið í Grímsvötnum svo talandi sé um síðan 1934.
Það getur verið snúið að ráða í hegðunarmynstur Íslenskra eldfjalla og ekki er alltaf hægt að treysta sögunni. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, sem ég keypti mér nú um helgina, nokkra klukkutíma fyrir gos, er ágætis grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing þar sem hann veltir upp ýmsum erfiðum spurningum varðandi hegðun sunnlensku eldstöðvanna og hugsanlega samtengingu þeirra í virkni. Hugsanlega hefur orðið einhver meginbreyting á hegðun eldstöðvanna á seinni hluta 20. aldar sem lýsir sér með ýmsum hætti.
Katla sem hefur ekki gosið síðan 1918, er nú í sínu lengsta goshléi frá landnámi og engin veit hvenær því líkur. Hinsvegar fóru Vestmannaeyjar í gang með Surtseyjargosinu og síðar Heimaeyjargosinu, á þeim tíma sem vænti hefði mátt eldgoss úr Kötlu.
Hekla tók að gjósa á áratugafresti með gosinu 1970 og sé hún enn í þeim fasa hefði hún átt að gjósa í fyrra. Hinsvegar kom upp gos í Eyjafjallajökli sem vekur upp þá spurningu hvort Hekla hafi nokkurt púður til að láta til sín taka. Ekkert virðist benda til þess að Katla sé að fara í gang þótt sagan segi að hún fylgi á eftir Eyjafjallajökli. Almennileg Kötlugoss gera boð á undan sér með ýmsum hætti svo sem jarðskjálftahrinum, landrisi og uppþornuðum lækjum, ekkert slíkt virðist vera í gangi núna.
Skaftárkatlar hafa hlaupið reglulega á um 2ja ára fresti síðan 1955 sem gæti samkvæmt grein Sigmundar, verið enn eitt tákn um nýjung og jafnvel tengst breyttri goshegðun í Heklu þótt orsakasamhengið sé óljóst.
Nú veit ég ekki, en kannski þykir sumum ástæða til að endirskoða viðteknar hugmyndir sem menn hafa haft um einstaklingseðli og sjálfstæði megineldstöðva. Ef til vill er þær hópsálir og meira þrýsti- og kvikusamband á milli eldstöðvanna en almennt hefur verið talið.
Spádómar.
Hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá hófst núverandi Grímsvatnagos sama dag og heimurinn átti að farast samkvæmt útreikningum amerísks sjónvarspredikara. Sjálfur hef ég stundum verið að leika mér með spádóma samanber mína árlegu haustspádómana um hvar muni gjósa næst á Íslandi. Það sakar ekki að geta þess að í síðustu spá minni voru Grímsvötn efst á blaði:
Líkindi þessa að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð (Spá síðan 27. nóv 2010)
- Grímsvötn: 34%
- Hekla: 22%
- Katla: 15%
- Eyjafjallajökull (áframhald): 12%
- Bárðarbunga: 7%
- Askja og nágrenni: 5%
- Aðrir staðir: 5%
- Samtals: 100%
Sbr. hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1120590/
Myndin sem fylgir greininni er útlensk og sýnir eldgos í Kilauea á Hawaieyjum árið 1924.
21.5.2011 | 11:58
Gömlu bíóin
Margt breytist með tímanum, þar á meðal bíómenningin. Þegar heimsóknir mínar í kvikmyndahús voru í hámarki á árunum kringum 1980 voru flest bíóin ennþá staðsett í gamla miðbænum eins og verið hafði frá upphafi. Hér á eftir kemur dálítið yfirlit yfir þessi gömlu bíó í borginni. Til skreytingar og sem sönnunargagn læt ég fylgja bíómiða frá viðkomandi bíóum en lengi vel geymdi ég flesta bíómiða sem ég fékk. Myndirnar sýna kvikmyndahúsin eins og þau eru í dag hvort sem þau eru til eða ekki. Alls mun ég taka fyrir níu kvikmyndahús með þessum hætti í tveimur bloggfærslum.
Hið eina og sanna gamla bíó er sjálft Gamla bíó sem flutti í þetta glæsilega hús árið 1927. Upphaflega var það stofnað árið 1906 sem Reykjavíkur Biograftheater og var til húsa í Fjalakettinum undir stjórn Bíó-Petersens. Þarna voru sýndar bíómyndir allt til ársins 1981 eða þar til óperan tók völdin. Hún er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra. Þær myndir sem ég man helst eftir úr Gamla bíói eru háklassa teiknimyndir frá Disney eins og Skógarlíf, Hefðarkettirnir og Sverðið í steininum. Í þá daga voru teiknimyndir handteiknaðar og handmálaðar og meira að segja bara í tvívídd.
Nýja Bíó í Lækjargötu er ekki nýrra en svo að það er ekki til lengur. Á meðan ég sótti það bíó var það reyndar orðið ævagamalt enda má rekja sögu þess aftur til ársins 1912 er það hóf starfsemi sína í húsakynnum Hótels Íslands. Frá upphafi var það kallað Nýja Bíó til aðgreiningar frá hinu bíóinu í bænum sem þar með var kallað Gamla bíó. Árið 1920 hófust sýningar í nýju húsnæði inn af Austurstræti þar sem það var alla tíð síðan. Í mínum huga var Nýja Bíó alltaf í Lækjargötu enda var inngangurinn þaðan, en í raun var kvikmyndahúsið algerlega falið bak við önnur hús. Stjörnustríð er sennilega mesta kvikmyndaverkið sem ég sá þarna. Þrátt fyrir flottheit og framtíðarbrellur fannst hún í raun vera hver önnur hasarmynd þar sem vöndu kallarnir eru alltaf jafn agalega óhittnir. Þarna fór ég líka á fyrstu bönnuðu-innan-12-ára-myndina mína án fylgdar fullorðinna og án þessa að vera 12 ára. Sú mynd hét Þeysandi þrenning og var einn samfelldur eltingaleikur og bílahasar. Bíómyndir voru sýndar þarna til ársins 1987 en síðan var húsið gert að skemmtistað sem síðan brann og húsið rifið, en nú er verið að byggja einskonar eftirlíkingu af Nýja Bíói á bak við Iðuhúsið.
Austurbæjarbíó tók til starfa árið 1947 og þótti þá mikið og stórt en auk kvikmyndasýninga var það hugsað fyrir tónleika og leiksýningar. Sumir höfðu dálitlar áhyggjur af því að slíkt hús gæti ekki borið sig svona fjarri miðju bæjarins. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Síðustu árin var bíóreksturinn á vegum Sambíóveldisins en kvikmyndasögu hússins lauk árið 2002. Í framhaldi var húsinu naumlega forðað frá niðurrifi þegar reisa átti þarna íbúðarblokkir og því er enn hægt að sækja þarna leiksýningar og tónleika þegar slíkt er í boði. Íslenska kvikmyndavorið er oft talið hefjast árið 1980 með kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir. Þjóðin fjölmennti á þá mynd, líka þeir sem lönguhættir voru að fara í bíó. Eins og bíómiðinn ber með sér var myndin sýnd í Austurbæjarbíó og þangað var ég mættur kl. 5.
Hafnarbíó tók til starfa árið 1948 í einum af betri bröggum bæjarins og stóð við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu. Þetta var ekki eina braggabíóið því Trípólíbíó á Melunum var einnig í bragga en það var löngu horfið á minni tíð. Hafnarbíósbragginn reyndist einn af lífseigustu bröggunum í Reykjavík og var óneitanlega dálítið sérstakt að fara þangað í bíó en myndirnar voru ekkert verri fyrir það. Af heimsóknum í Hafnarbíó man ég helst eftir Einræðisherra Chaplins en sú mynd var auðvitað komin til ára sinna þegar ég sá hana. Einnig man ég eftir týpískri hrollvekju um hús sem draup blóði og var að auki inngangur í helvíti með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir íbúana. Hafnarbíó var rifið árið 1983 og nú er þarna fátt sem minnir á eldri tíð.
- - - -
Hér verður gert nokkurra daga hlé. Eftir hlé mun ég taka fyrir með sama hætti: Stjörnubíó, Regnbogann, Tónabíó, Laugarásbíó og Háskólabíó.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.5.2011 | 16:47
Eurovisionframlag Albaníu í hitteðfyrra
Ég hef alla tíð haft áhuga á Eurovision keppninni en mætt mismiklum skilningi þegar ég dásama þá keppni. Í fyrra spurði einn vinnufélagi minn hvort Eurovisionáhugi minn væri írónískur að einhverju leyti. Ég svaraði því að áhuginn væri einlægur, sem er alveg einlægt svar, en ég útiloka þó ekki að einhver írónía komi við sögu skilji ég það hugtak rétt.
En jæja, það sem ég ætla að bjóða upp á sem Eurovision-framlag mitt í ár er upprifjun á framlagi Albaníu árið 2009. Í fullri einlægni þá finnst mér þetta vera gott lag og í hópi hinna betri á seinni árum. Laginu var líka spáð góðu gengi í keppninni en eitthvað hefur það farið á mis því það endaði bara í 17. sæti í lokakeppninni, þeirri sömu og norski fiðlustrákurinn sigraði í og Jóhanna okkar lenti í öðru sæti.
Ég er hérna með þrjú Youtube myndbönd af þessu framlagi Albaníu. Það fyrsta er frá forkeppninni þar sem lagið er flutt á móðurmálinu og í lengri útgáfu en keppnisreglur segja til um. Stórsveit Albanska ríkissjónvarpssins er mætt á sviðið í fullum skrúða og fer mikinn í instrumental milliköflum margar fiðlukonur í fínum kjólum en flaututónarnir eru þó flottastir og gefa laginu framandi austrænan blæ. Söngkonan Kejsi Tola er bara 17 ára og tekur því frekar rólega á sviðinu eða er kannski ekki alveg búinn að finna taktinn en skilar söngnum með mestu prýði. Annars er þetta nokkuð hefðbundið taktpopp með tilheyrandi upphækkunum og slíku, en laglínan er fín og leynir á sér.
Næsta myndbrot er styttra og sýnir bara bút úr laginu sem þarna komið í sinn endanlega enska keppnisbúning. Söngkonan er þó greinilega ekki búin að ákveða sinn keppnisbúning en fikrar sig áfram í taktinum. Grafíkdeild albanska ríkissjónvarpsins stelur eiginlega senunni þarna en fer svona heldur of geyst í bakgrunnsgleðinni.
Að lokum er það svo aðalkeppnin. Hafi einhverjir ekki kannast við lagið fram að þessu þá rifjast sennilega eitthvað upp þegar þeir sjá hvernig lagið gerði sig á sviðinu. Flutningur lagsins tókst með miklum ágætum hjá Kejsu Tola en spurning hvort sumum hafi verið ofaukið þarna á sviðinu. Það er nú svona með frumlegheitin, stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Umgjörð lagsins er allt önnur en í upphafi og erfitt að sjá að þetta sé sama manneskjan á sviðinu að syngja. En þrátt fyrir nýtt átfitt er röddin sú sama.
- - - - -
Við Íslendingar erum að sjálfsögðu með í lokakeppninni laugardaginn. Sjálfum finnst mér það vera besta framlag okkar í háa herrans tíð og líklegt til alls. Allt getur því gerst í þessari keppni og svo getur líka auðvitað allt ekki gerst.
8.5.2011 | 17:34
Horft á heiminn III
Í okkar þrívíða heimi er reglan sú að hlutir minnka fyrir augum okkar eftir því sem fjarlægðin til þeirra eykst uns þeir að lokum hverfa í fjarskann. Samsíða línur í umhverfinu stefna í áttina að sameiginlegum hvarfpunktum. Þráðbeinir vegir sem við horfum eftir mjókka þannig í átt að einum punkti einhverstaðar við sjóndeildarhringinn. Þetta tók ég fyrir er ég horfði á heiminn síðast og var þá að lokum horfinn í víðáttumikinn hvarfpunktaheim þar sem allt var farið að bjagast og verpast meira en góðu hófi gengi. En nú verða hlutirnir einfaldari því hér verður heimurinn skoðaður án slíkra hvarfpunkta og sjónhverfinga. Það er hin fjarvíddarlausa sýn á heiminn þar sem hlutir minnka ekki með aukinni fjarlægð. Á þessari teikningu sést hvernig Japanir fóru að þegar þeir teiknuðu upp rými. Hér eru engin fjarvíddaráhrif. Allar línur sem eru samsíða í umhverfinu halda áfram að vera samsíða á myndinni og ekkert minnkar með aukinni fjarlægð hvorki fólk, né byggingar. Þessi sýn er nálægt hinni klassísku ísómetríu sem mikið er notuð tækniteikningum og útskýringamyndum allskonar.
Í hreinni ísómetríu er horft skáhalt á formin, teningslaga hlutir mynda 60 og 120 gráðu horn og við sjáum á þrjár hliðar í einu. Þegar horft er ofaná húsbyggingar og þær teiknaðar upp með þessari aðferð er hægt að víkka út sjónsviðið án þess að nokkuð bjagist, allt er jafn nálæg og það er aldrei neinn sjóndeildarhringur. Veggir og allt það sem lyftist upp af yfirborðinu rís lóðrétt upp af grunnmyndinni, en vegna þess að grunnmyndin hallast (30°) verða allir lóðréttir flettir skakkir sem því nemur.
Önnur útgáfa af svona fjarvíddar- lausri sýn er þegar horft er beint ofaná grunnmyndina þannig að 90 gráðu horn halda sér í láréttum flötum eins og ef horft væri beint ofaná. Svona teikningar eru stundum kallaðar axónómetría, en það orð getur reyndar líka verið samheiti yfir allar svona fjarvíddarlausar þrívíddar- teikningar, þar á meðal ísómetríu.
Ísómetría og axonometría eru ekki eðlileg sýn á heiminn vegna skorts á fjarvídd og sjást því nánast bara í teikningum og gjarnan í tölvuleikjum. En nú er það svo að fjarvíddaráhrif minnka eftir því sem við horfum á heiminn úr meiri fjarlægð. Þegar við horfum í gegnum sjónauka ruglast til dæmis fjarlægðarskynið því þá erum við að stækka upp það sem er langt í burtu án þess að fjarvíddaráhrifin fylgi á eftir.
Það er líka athyglisvert að sjá hvað gerist í þessari mynd hér að neðan sem tekin er úr geimnum af borginni San Francisco og minnir einna helst á tölvuleikinn SimCity Þarna er sjónarhornið mjög þröngt og hátt, en myndin stækkuð mikið upp. Við þetta verða fjarvíddaráhirfin nánast engin og ekki verður betur séð en að þarna séum við komin mjög nálægt axónómetríunni.
Til samanburðar er næsta mynd sem tekin er ofan úr Empire State niður á byggingar Manhattan. Hér eru fjarvíddaráhrifin komin inn enda erum við mun nær jörðu og sjónsviðið víðara.
- - - -
Þar með hef ég lokið fjarvíddarpælingum að sinni. Hlekkir eru hér að neðan á fyrri hlutana tvo í þríleiknum:
Vísindi og fræði | Breytt 2.9.2013 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.5.2011 | 10:12
Hversu slæmt var veðrið í apríl?
Áður en ég kem að því hversu slæmt veðrið var í apríl (hafi það yfirhöfuð verið slæmt) þá finnst mér ég fyrst þurfa að gera smá grein fyrir veðurskráningunum mínum sem staðið hafa í tvo og hálfan áratug enda veit ég aldrei hversu vel kunnugir lesendur eru þeim. Ég skrái semsagt hjá mér veðrið í Reykjavík hvern dag með myndrænum hætti og tölum sem eiga að lýsa hinu dæmigerða veðri yfir daginn hverju sinni. Útfrá þessum skráningum gef ég hverjum degi einkunn á kerfisbundinn hátt en þar er einfaldlega gengið út frá því að hiti sé betri en kuldi, sólskin betra en sólarleysi, hægviðri betra en hvassviðri og þurrviðri betra en úrkoma. Allir þessir fjórir veðurþættir hafa svipað vægi í einkunnagjöfinni. Hver veðurþáttur getur fengið 0-2 stig, þannig að algóður dagur getur mest fengið 8 stig en alsæmur 0 stig. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum.
Apríl 2011
Nýliðinn aprílmánuður fékk samkvæmt þessu skráningar- kerfi einkunnina 3,7 stig sem telst eiginlega vera falleinkunn en sjálfsagt í ágætu samræmi við upplifum flestra borgarbúa.
Hér til hliðar er veðurskráningin. Aftasti dálkur eru einkunnir, aftan við vindörvarnar er hiti dagsins og tákn sem segja hvort dagurinn telst vera í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). ATH. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.
Í mánuðinum skráði ég aðeins einn alvöru sólskinsdag og nokkra hálfa. Úrkomudagarnir voru hinsvegar margir og úrkoman oft ansi lárétt enda var þetta mjög vindasamur mánuður með þrálátu skúra- og éljaveðri úr suðri- eða suðvestri. Það góða var þó að hitinn var vel yfir meðallagi og í góðu samræmi við meðalhita aprílmánaða síðustu ára. Mánuðinum lauk með snjókomu og hvítri jörð eftir kaldasta dag mánaðarins.
Tvo merkisatburði hef ég skráð til hliðar. Þann 9. var Icesave-kosningin undarlega sem kannski var bara stormur í vatnsglasi en daginn eftir kom alvöru stormur og fékk sá dagur 0 stig í skráningunni sem er mjög sjaldgæft. Dagurinn hefði reyndar átt að fá 1 stig vegna hita í meðallagi en það stig strokaðist út vegna stormsins sem gaf eitt mínusstig sem neikvætt öfgatilfelli.
Nokkrir góðir aprílmánuðir til samanburðar:
Apríl 1998 - Einkunn 5,4. Þetta er mjög góð einkunn og sú hæsta sem aprílmánuður hefur fengið hjá mér. Mánuðurinn er kannski ekki mjög eftirminnilegur en var góður á alla kanta og tók þetta eiginlega á seiglunni án þess að slá nokkur met.
Apríl 2008 - Einkunn 5,3. Mjög svipaður mánuður og apríl 1998 með alla veðurþættina góða. Þurr, hlýr sólríkur og hægviðrasamur mánuður.
Apríl 2000 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður er eftirminnilegur vegna feiknamikils sólskinskafla dagana 14.-25. apríl sem gerði þetta að sólríkasta apríl í Reykjavík sem mælst hefur. Hinsvegar var hitinn ekki mikill og kaldari apríl hefur ekki mælst síðan. Eðlilega var lítið um úrkomu í svona mánuði þannig að á mælikvarða gróðurs var þetta ekki óskamánuður. Einkunnakerfi þessu er reyndar alveg sama um það.
Apríl 2001, 2003 og 2005 - Einkunn 5,0. Hér má minnast á apríl 2003 vegna þess að það er hlýjasti apríl sem mælst hefur í Reykjavík og víða um land. Aðrir veðurþætti voru hinsvegar nærri meðallagi í Reykjavík. Dálítið athyglisvert er að köldustu dagar mánaðarins voru fyrsti og síðasti dagurinn, nánast allir aðrir dagar voru mildir eða hlýir.
Og sá versti:
Apríl 1987 - Einkunn 3,6. Þetta er fyrsti skráði aprílmánuðurinn hjá mér og sá sem enn situr uppi með lægstu einkunnina. Nýliðinn aprílmánuður er reyndar sá eini sem hefur náð að ógna þessum frá 1987. Veðrið var reyndar ekki ósvipað og í ár og mánuðirnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Mikill óstöðugleiki var með tíðum útsynningséljagangi en þó var öllu kaldara 1987. Síðasta vikan var sérlega éljasöm og hvöss og alveg í lokin stökk lægð yfir Grænlandsjökul sem olli mikilli snjókomu síðasta kvöld mánaðarins og fram á nóttina þannig að snjódýptarmet var sett fyrir maímánuð í Reykjavík morguninn eftir. Sá mikli snjór bráðnaði þó hratt í ört rísandi 1. maí-sólinni (sjá meðfylgjandi frétt úr Mbl. 3. maí 1987). Snódýpin að morgni 1. maí 1987 mældist 17 cm en til samanburðar mældist hún nú í ár 16 cm að morgni 1. maí, ekki munar miklu.
Almennt að lokum
Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Veðrið eins og það var í Reykjavík núna í apríl er ekki vinsælt meðal fólks og ekki það vorveður sem fólk gerir sér vonir um. Sé farið lengra aftur í tímann má kannski finna verri aprílmánuði og marga harðindalegri. Veðurminni fólks er upp og ofan og því má segja um nýliðinn apríl að hann hafi allavega verið verri en yngstu menn muna og jafnvel einnig hinir eldri.