22.11.2008 | 21:24
Harkaliðið - Ólavur Riddararós
Víkur þá sögunni að okkar bestu frændum Færeyingum sem reynst hafa okkur þrautgóðir á raunastund. Lengi vel var Ólavur Riddararós eina færeyska lagið sem heyrðist hér á landi en það var flutt af þjóðlagasveitinni Harkaliðið sem spilaði lagið inná grammafónsplötu árið 1971. Eitt eintak af plötunni virðist hafa ratað hingað til lands og var síðan spilað í Útvarpi allra landsmanna næstu 10 árin. Það fékk þó aldrei neina ofspilun og alltaf lyftist á manni brúnin þegar frísklegur söngur Anniku Hoydal barst manni til eyrna þar sem sungið var um örlagarík samskipti Ólavs Riddararósar við álfamær eina.
Færeyingar eru líka frændur innbyrðis og ef einhver þekkir stjórnmálamanninn Högna Høydal þá má geta þess að söngkonan Annika er föðursystir hans (eða fastir eins og kemur fram í athugasemd á youtube).
Ólavur Riddararós með Harkaliðinu er myndband mánaðarins á þessari síðu, eða bara lag mánaðarins því varla er hægt að tala um lifandi mynd að þessu sinni.
T E X T I :
Ungir kallar, kátir kallar gangið uppá gólv, dansið lystilig.Ólavur ríður eftir bjørgunum fram, / kol og smiður við
fann upp á eitt elvarrann. / ungir kallar, kátir kallar gangið uppá gólv, dansið lystilig.
Út kom eitt tað elvarfljóð, / flættað hár á herðar dró.
"Ver vælkomin, Ólavur Riddararós, / tú gakk í dansin og kvøð for os!"
Eg kann ikki longur hjá elvum vera, / í morgin lati eg mítt brúdleyp gera."
Vilt tú ikki longur hjá elvum vera, / sjúkur skalt tú títt brúdleyp gera.
Hvat heldur vilt tú sjú vintur liggja sjúk, / ella vilt tú í morgin liggja lík?
"Tveir eru kostirnir, hvørgin er mjúkur, / ilt er at liggja leingi sjúkur.
Fyrr vil eg í morgin til moldar gá, / enn eg vil sjú vintur liggja á strá."
Hon bar fram eitt drykkjusteyp, / eiturkornið í tí fleyt.
"Tú sig tíni móður, tá ið tú kemur heim, / tín foli snublaði um ein stein."
Ólavur heim í garðin fór, / úti hans móðir fyri honum stóð.
"Hví ert tú so følin, hví ert tú so bleik, / sum tú hevur verið í elvarleik?"
Tí eri eg følin, tí eri eg [sum] bast, / í gjár var eg í elvarlast."
Ólavur vendist til veggin brátt, / hann doyði langt fyri midnátt.
Har komu av tí búda trý lík, / tey vóru so prúda.
Tað fyrsta var Ólav, tað annað hans moy, / tað triðja hans móðir, av sorg hon doyði.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.11.2008 | 17:42
Til hæstu hæða í Höfðatúni
Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum við Höfðatorg þar sem hæsta hús Reykjavíkur er farið að gnæfa yfir umhverfið. Þessi 19 hæða skrifstofuturn er aðeins hluti af þeim gífurlegu framkvæmdum sem eiga sér stað á vegum byggingafyrirtækisins Eyktar á reitnum við Borgartún og Höfðatún. Þegar allt verður tilbúið munu þarna verða sex stórhýsi, eitt þeirra er tilbúið þar sem borgarskrifstofur Reykjavíkur hafa nú aðsetur, en turninn sem nú er langt kominn mun verða það hæsta á svæðinu og um leið hæsta skrifstofubygging í Reykjavík, um 70 metra hár. Smáralindarturninn í Kópavogi er hinsvegar hærri eða um 78 metrar.
Það er eiginlega sérstök upplifun að koma þarna að og sjá byggingarnar í návígi því stærðin er þvílík að annað eins hefur maður varla séð hér í borg og minnir þetta helst á stórborgir eins og London, New York og svo auðvitað Kópavog. En það getur orðið þó nokkur bið á því að allar þessar miklu framkvæmdir verði fullkláraðar því eins og allir vita þá hefur orðið dálítið hlé á góðærinu nú um stundir og ekki alveg víst að menn bíði í röðum eftir því að fá þarna inni. Því hefur byggingu þeirra húsa sem ekki eru komnar upp úr grunni sínum verið slegið á frest um sinn. Þar er aðallega um að ræða íbúðahluta hverfisins sem standa sunnar á reitnum, nær Skúlagötu.
Myndirnar sem hér fylgja tók ég nú á dögunum en nú er unnið að því að glerja turninn og á hann því fljótlega eftir að fá á sig sína endanlegu mynd. Hér má einnig sjá teikningu af fyrirhuguðum byggingum en sú mynd er fengin af kynningarsíðu Eyktar um svæðið. Hæstu byggingarnar þarna eru 19 hæða turninn, svo verður eitt 16 hæða og eitt 12 hæða. Gulu reitirnir eiga að sýna hvar eiga að vera verslanir, veitingahús eða annað boðlegt fyrir fólkið á götunni sem þarna verður hugsanlega á ferðinni að loknu næsta góðæri.
Byggingar | Breytt 16.1.2010 kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
15.11.2008 | 12:50
Móðir allra harðinda á Íslandi
Í harðindum þeim sem nú ganga yfir landið hafa Móðuharðindin komið til tals og jafnvel talað um að við séum að upplifa hörmungar sem ekki eiga sinn líkan síðan öll þau ósköp dundu yfir árin 1783-74. Það vita þó allir að ólíku er saman að jafna, en samt er allt í lagi að hafa í huga lífið hér á landi hefur ekki alltaf verið neitt sældarlíf og ýmislegt sem þjóð okkar hefur þurft að ganga í gegnum. Harðindi vorra daga eru auðvitað allt annars eðlis en þau sem áður gerðust því nú eru það peningarnir sem líf okkar byggist á en ekki duttlungar náttúrunnar. Þau harðindi sem gengu yfir landið seint á 18. öld og voru kennd við móðuna miklu af völdum Skaftárelda mætti kalla móður allra harðinda á Íslandi, en það var þá þegar nánast öll náttúran lagðist á eitt til að gera lífið hér á landi með öllu óbærilegt eins og kemur fram í þessum línum sem ég hef verið að setja saman undanfarið.
Flestir þekkja sögu Skaftárelda nokkuð vel og ég ætla því ekki að rekja gossöguna sérstaklega en get kannski gert það seinna. Allt byrjaði þetta einn góðan veðurdag um Hvítasunnu þann 8. júní 1783:
um dagmálabil kom upp fyrir norðan innstu byggðarlög á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu svo þykkt að dimmt varð í húsum en sporrækt á jörðu.
Þannig lýst eldklerkurinn Jón Steingrímsson fyrstu einkennum gossins sem átti eftir að verða þjóðinni svo dýrkeypt. Gossprungan var um 25 km á lengd og alls voru það 135 misstórir gígar sem sáu um að framleiða eitt af mestu hraunum sem hafa runnið á jörðinni frá ísaldarlokum. Það hjálpaði ekki til hversu ástandið átti eftir að vera slæmt að það hófst á versta tíma ársins þegar heyfengur vetrarins á undan var uppurinn og gróðurinn rétt komin af stað. Móðan sem lagðist yfir, öskufallið og eiturgufurnar urðu svo til þess spretta sumarsins varð nánast engin, ekki bara í Vestur-Skaftfellsýslu heldur einnig víðast hvar á landinu. Ástandið var því ekki gæfulegt þegar haustaði árið 1783 því búpeningur var þá þegar orðinn horaður og sjúkur, varla nokkuð almennilegt hey komið í hús, gosið enn í fullum gangi og hálf byggðin á Síðunni komin undir hraun.
Veturinn 1783-84
Þegar leið á veturinn 1783-84 fór virkilega að harðna á dalnum eins og gefur að skilja því nú var ekkert að hafa. Því miður áttuðu menn sig ekki nógu snemma á því að best hefði verið að fella bústofninn strax um sumarið í stað þess að láta hann veslast upp engum til gagns. Og þegar bústofninn var hruninn svarf hungrið að sem síðan varð helsta banamein þeirra sem létust, ásamt lungnabólgu, skyrbjúg og ýmsum öðrum pestum. En fyrir utan matarskortinn, voru auðvitað allar eiturgufurnar í loftinu ásamt miklum kuldum sem í ofanálag einkenndu þennan vetur. Þótt gosinu hafi lokið 7. febrúar 1784 áttu eymdin jafnvel enn eftir að ná hámarki og þegar yfir lauk hafði fimmtungur landsmanna látist, 40% nautgripa, tæpur helmingur hrossa og 75% alls sauðfjár.
Hafísar, jarðskjálftar og pest
Skaftáreldarnir voru svo sannarlega ekki það eina sem landsmenn þurftu að takast á við á þessum tíma. Átjánda öldin var í heild mjög köld veðurfarslega og algengt var að hafísinn legðist að landinu mánuðum saman með öllum þeim kuldum sem honum fylgdi. Árið 1784 var engin undantekning á því en þá lagðist hafísinn að Norðurlandi strax í ársbyrjun og hélst þar fram á vor. Harðindin vegna íssins fyrir norðan fram eftir ári 1784 lagðist ofan aðrar hörmungar, þannig að hrun í bústofni, mannfall og önnur neyð var síst minni þar en fyrir sunnan, samanber það sem kemur fram í svokölluðum Djáknaannálum 1784:
Allan þennan vetur var mesta umferð af fátæku flakkandi fólki, helzt úr Þingeyjarþingi, sem ráfaði bæði suður og vestur, dó og varð úti sumt af því í ýmsum stöðum. En um vorið tók fólkið óðum upp að flosna um allt Norðurland og víðar annars staðar og hrundi niður sumarið allt og haustið sem hráviði, bæði af hungri og allskyns óáran, því sumt af fólki, sem dálítið viðurværi hafði, þreifst ei fyrir lífsýki og ótímgun og veslaðist svo út af
Í stíl við annað á þessum tíma komu svo auðvitað alvöru Suðurlandsskjálftar síðla sumars 1784 með miklum skaða á húsakynnum í Árnes og Rangárvallasýslum og jók það auðvitað á hörmungarnar þar þótt mannfall hafi ekki verið mikið sem rekja má beint til skjálftana. Til að kóróna svo allt saman þá gekk bólusótt yfir langþreytta landsmenn árið 1785, en af hennar völdum létust um 1500 manns, aðallega á Suðvestur- og Suðurlandi.
Neyðaraðstoð frá Danmörku
Ótíðindin frá Íslandi bárust ekki til Danmerkur fyrr en haustið eftir að Skaftáreldar hófust. Landsherrarnir þar gátu auðvitað ekki gert sér ljóst hversu ástandið var slæmt hér en brugðust þó við með samskotum í kirkjum landsins tvo sunnudaga í röð þar sem söfnuðust 9099 ríkisdalir. Í nóvember lagði svo af stað til Íslands skip með matvæli og annað gagnlegt en það náði þó ekki á leiðarenda í Reykjavík fyrr en í apríl vorið eftir því það þurfti að hafa vetursetu í Noregi vegna veðurs. Neyðaraðstoðin kom síðan að litlu gagni þegar til kom því ómögulegt var að flytja matvælin milli landshluta enda voru varla nokkrir hestar eftir sem gögnuðust til flutninga og svo lokaði hafísinn öllum siglingaleiðum fyrir norðan. Okkur voru því allar bjargir bannaðar.
Batnandi tíð - þar til nú?
Móðuharðindin og aðrar hörmungar þessar ára voru síðasta stóráfallið sem þjóð okkar þurfti að ganga í gegnum, að minnsta kosti af náttúrunnar völdum, en á þremur árum 1783-1786 fækkaði fólki úr 49 þúsundum niður í 38 þúsund. Mannfjöldinn var samt nokkuð fljótur að endurheimtast og þrátt fyrir að mörg harðindaár ættu eftir að leggjast yfir landsmenn fór fólksfjöldinn smám saman að aukast á landinu fyrir utan vesturfaratímabilið á seinni hluta 19. aldar.
Í ástandi eins og er í dag þegar allt er að fara á vonarvöl, þarf fólk ekki lengur að ráfa um sveitir landsins og ekki þarf að óttast að við hrynjum niður eins og hráviði líkt og forðum. Við erum samt að fara inn í harðindatímabil af þeirri tegund sem höfum ekki þekkt áður og erum einskonar útlagar í samfélagi hinna fínni þjóða. En hvernig sem þetta endar þá er bara um að gera að standa áfram í fæturna og horfa fram á veginn sem sjálfstæð þjóð sem lætur ekki bugast þrátt fyrir þungar byrgðar.
- - - - - - - -
Nánar er hægt að lesa um Skaftárelda á þessari síðu: http://www.islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/skaftareldar.html
Að auki er hér er stuðst við er sagnfræðiritgerð í Íslands- og Norðurlandasögu við HÍ: Samspil náttúruafla, samfélagsbyggingar og sótta í Skaftáreldum og Móðuharðindum, eftir Örnu Björk Stefánsdóttur, sem svo vill til að er sambýliskona mín til margra ára.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.11.2008 | 15:17
Hnípin þjóð í vanda
Aldrei í sögu Íslendinga svo langt sem hún nær höfum við þurft að þola aðra eins skömm eins og við gerum nú og aldrei hefur þjóð okkar fallið í annan eins forarpytt af okkar eigin völdum eins og nú. Og við sem vorum fyrir nokkrum mánuðum flottasta, ríkasta, stórasta og fallegasta þjóð í heimi og að auki næst best í handbolta. Hvað gerðist? Hverjum er þetta að kenna? Ég hef satt að segja ekki getað áttað mig á því, allavega ekki hingað til, hvort þetta séu bara ill örlög viðkvæmrar smáþjóðar í ólgusjó heimsins eða fádæma glannaskapur hlaðinn mistökum. Stundum er líka sagt að stórslys verði ekki nema eftir röð mistaka, jafnvel eftir röð lítilla mistaka þar sem hvert og eitt hefði ekki komið að sök eitt og sér. Sjálfsagt er þetta einhvernveginn svona, enda er erfitt að benda á einn sökudólg sem kom okkur á kaldan klaka þótt hugsanlega mætti benda einhvern eða eitthvað sem hefði getað komið í veg fyrir þetta ólán.
Ég hef átt erfitt með að vera reiður í öllu þessu ástandi ólíkt mörgum öðrum. Þar kemur reyndar að hluta til af því að ég er varla nokkurn tíma reiður svona yfirleitt. En hinsvegar lít ég almennt þannig á að mönnum gengur yfirleitt gott til og ætla sér í alvöru að stuðla að framgangi mála öllum til heilla, svona í bland við eigin hagsmuni. Það er síðan ófullkomleika mannsins að kenna að hin góðu framfaramál reynast stundum óvart snúast upp í hin verstu mál eða svipað því sem ég hef sagt áður: leiðin til glötunar er gjarnan vörðuð góðum áformum. Við íslendingar erum líka ófullkomin þjóð, a.m.k. ófullkomnari en við héldum og okkar vesæla þjóðarskúta, hlaðin útrásarvíkingum fór á hliðina um leið og gefa fór á bátinn við England. Mikilmennskuæði lítillar þjóðar sem ofmat getu sína varð okkur að falli að lokum.
En þurfti þetta allt að fara svona illa? Atburðarásin sem átti sér stað í byrjun október kom öllum í opna skjöldu. Þótt bankarnir hafi verið þjakaðir af allt of miklum útrásarskuldum veltir maður því samt fyrir sér hvort rétt hafi verið að fara út í þjóðnýtingu eins banka sem síðan leiddi til hruns hinna bankanna. Aðgerðin var sögð vera til þess að koma í veg fyrir að allt færi hér á vonarvöl. Afleiðingin varð samt sem áður sú að allt fór á vonarvöl og það margfalda. Þjóðin er komin á hryðjuverkalista og dæmd sem alræmd fjárglæfraþjóð. Það sem því miður enginn hafði áttað sig á var ísjakinn örlagaríki - Icesafe - sem varð öllum til tjóns og bjargaði engum þegar til kom.
Var yfirtaka bankana eina ráðið í stöðunni eða hefði verið hægt að fara mildari leið og ekki eins afdrifaríka fyrir þjóðina? Það var víst einhver efnahagsráðgjafi sem ríkisstjórnin var með, Tryggvi Þór að nafni og mun víst hafa þekkingu á svona hlutum. Honum leist ekki á þessa yfirtökuleið sem farin var og er því ekki lengur efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnin hafði nefnilega annan ráðgjafa sem taldi sig vita betur og er vanur að fá sínu fram.
En hversu slæmt sem þetta verður getur kannski einhver huggað sig við það að þjóðin hefur áður komist í hann krappan og upplifað miklu meiri hörmungar. Móðir allra harðinda á Íslandi átti sér stað seint á 18. öld en þá máttu Íslendingar þola ógurlegri náttúruhamfarir en við höfum nokkru sinni kynnst. Um það ætla ég að skrifa í næsta pistli. Þangað til er hægt að skemmta sér yfir gömlum texta sem Ríó tríóið söng á sínum tíma og fjallar um vissa tegund af útrás.
- - - - -
Þegar Stebbi fór á sjóinn, þá var sól um alla jörð / og hún sat á bryggjupollanum hún Lína / grét í vasaklút og svuntuhorn og svartan skýluklút / og hún sá á eftir Stebba á hafið út
Og hann Stebbi út við lunningu á lakkskóm svörtum stóð / upp á Línu renndi karlmannlegum sjónum / nei þeir kveðja ekki margir svona ást og svona þrá / eða sigla burtu spariskónum á
Og hann Stebbi var að hugsa meðan hægt þeir sigldu út
 / hversu hetjuleg sú kveðjustundin væri / hlutverk réttu, dapra stúlkan og hinn djarfi ungi sveinn / drengilegur svipur harður eins og steinn
Meðan Stebbi var að hugsa þetta, höfnin sagði bless / og á hafsins öldum skipið fór að velta / Yfir borðstokk nokkrar gusur komu glettnum öldum frá / svo að gefa tók nú spariskóna á
Og hún Lína enn á bryggjunni svo beygð og döpur sat / þegar bátur drauma hennar aftur snéri / upp þú fjandans æludýrið öskrað var þá dimmum róm / og einhver steig á land í blautum spariskóm
Já þeir sigldu marga hetjuför í huga vorum út / og í hörðum leik af drengjum öðrum báru / en í dagsins heimska lífi, margur draumur okkar dó / varð að deyja því við gátum ekki nóg
Jónas Friðrik
8.11.2008 | 18:10
Austurvöllur 8. nóvember - myndir
Hér eru myndir af því þegar nokkrir borgarbúar komu saman núna síðdegis á Austurvelli. Alltaf gaman að sjá mannlíf í miðborginni okkar.
4.11.2008 | 18:29
Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?
Hvað er meira spennandi á þessum örlagatímum en að velta aðeins fyrir sér veðrinu? Hver er staðan í dag nú þegar Þrotaveturinn mikli er rétt að hefjast? Sem innlegg í það ætla ég og í tilefni af því að búið er að gefa út meðalhitatölur fyrir október að skoða hvert stefnir með ársmeðalhitann hér í Reykjavík. Opinber meðalhiti í Reykjavík er ekki nema 4,3°C (Þá er miðað við árin 1961-1990). Síðustu 10 ár hefur meðalhitinn hinsvegar verið öllu hærri, eða 5,2°C. Síðustu 7 ár, eða öll ár þessarar aldar, hefur meðalhitinn alltaf verið yfir 5 gráðum og þrátt fyrir kaldan októbermánuð að þessu sinni eru enn mestar líkur á því að hitinn verði einnig yfir 5 gráðunum þetta ár. En það veltur á því hvernig síðustu tveir mánuðir ársins koma út en hér koma nokkrar spekúlasjónir með það:
- - - - -
Ef hitinn það sem eftir er ársins verður jafn meðalhita nóvember og desember árin
1961-1990, verður meðalhiti ársins = 5,05 °C
1998-2007, verður meðalhiti ársins = 5,27 °C
- - - - -
Ef nóvember og desember verða
jafn kaldir og þeir hafa orðið kaldastir árin 1998-2007, verður meðalhiti ársins = 5,0 °C
jafn hlýir og þeir hafa orðið hlýjastir árin 1998-2007, verður meðalhiti ársins = 5,7 °C
- - - - -Ef nóvember og desember verða
jafn kaldir og þeir hafa orðið kaldastir árin 1931-2007, verður meðalhiti ársins = 4,5 °C
jafn hlýir og þeir hafa orðið hlýjastir árin 1931-2007, verður meðalhiti ársins = 5,9 °C
(ath. ekki er átt við köldustu eða hlýjustu mánuði sama árið, heldur á tímabilinu)
- - - - -
Það má segja að líklegasta niðurstaðan sé kannski á bilinu 5,0°5,5°C. Til að fá meðalhitann 5,7 þarf meðalahitinn að vera svipaður og hann var þessa mánuði árið 2002, en þá var meðalhitinn fyrir þessa mánuði 4,6 gráður sem er mjög hlýtt. Meðalhiti nálægt frostmarki það sem eftir er árs gæfi hins vegar árshitann 5,0 gráður. Það eru ekki miklir kuldar í veðurkortunum núna og fyrir næstu daga, en auðvitað getur það alltaf breyst til hins verra.
Til frekari glöggvunar kemur svo hér línurit yfir hitann frá 1931 í Reykjavík. Græna línan sínir hver meðalhitinn hefur verið á tímabilinu (4,69°). Bleika sporaskjan lengst til hægri á svo að tákna hvar meðalhitinn 2008 getur endað.
Vísindi og fræði | Breytt 15.12.2008 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2008 | 12:33
Brennisteinsdíoxíðský yfir norðurhveli
Dagana 7.-8. ágúst varð mikið sprengigos á Kasatochi-eyju sem er í Aleutian eyjaklasanum sem liggur suðvestur af Alaska. Eldgos þetta vakti enga heimsathygli á sínum tíma enda varð ekkert tjón af þess völdum þar sem eyjan er óbyggð. Það sem hinsvegar er merkilegt við þetta gos er að þarna þeyttust meira en milljón tonn af brennisteinsdíoxíði (Sulfur/SO2) út í andrúmsloftið og dreifðist í framhaldi af því í heiðhvolfinu um langa vegu uns það hafði hringað sig á nokkrum vikum um allt norðurhvelið. Það er þekkt að svona mikill skammtur af SO2 í heiðhvolfinu getur haft áhrif til kælingar á stórum svæðum og jafnvel um alla jörð eins og átti sér greinilega stað þegar eldfjallið Pinatubo gaus á Filippseyjum árið 1991, sem var að vísu mun stærra gos en talað er um hér.
Ef svona mikið magn af brennisteinsdíoxíði nær upp í heiðhvolfið (fyrir ofan veðrahvolfið) getur það haft áhrif til kælingar á yfirborði jarðar þar sem það dregur úr sólgeislun en sú kæling getur varað mánuðum saman og allt að nokkrum árum í öflugustu tilfellunum á meðan skýið er að þynnast út. Það er kannski ómögulegt að segja hvort og hversu mikil kælingin hefur orðið að völdum þessa sprengigoss en þessi himnasending af brennisteinsdíoxíði er sú mesta sem hefur orðið síðan í gosinu á Pinatubo. Þótt það hafi verið kalt á Íslandi núna október eru ástæður þess væntanlega að mestu það norðlæga loft sem yfir okkur hefur verið, en kannski hjálpar þetta eitthvað til.
Önnur afleiðing af þessu sprengigosi er af öðrum toga, en á ýmsum stöðum hafa sumir orðið varir við óvenjulegan kvöldroða sem er meira út í fjólublátt en gengur og gerist en ástæðan er þetta óvenju mikla magn brennisteinsdíoxíðs. Af þessu hafa birst myndir sem sumar hafa ratað á vefinn http://spaceweather.com/. Myndin hér til hliðar er ein þeirra, en hún var tekin á Bretlandseyjum þann 26. október. Þetta virkar afar fallegt og minnir jafnvel á fjólublátt ljós við barinn. Ef marka má myndina eru áhrif af völdum gossins enn í gangi hér á norðurhveli. En svona í lokin kemur hér smá bíómynd sem sýnir hvernig brennisteinsdíoxíð-dreifingin átti sér á norðurhvelinu í ágústmánuði eftir að gosið hófst þann 7. þess mánaðar. Myndin er upprunin frá Háskólanum í Bremen, Institute of Environmental Physics (IUP).
Meðal heimilda: earthobservatory.nasa.gov / wattsupwiththat.com
Að ógleymdum: Jón Fríman blogg, sem skrifaði um þetta 18. ágúst.
29.10.2008 | 17:11
Hvað veldur hlýnun jarðar?
Ég ætla ekki að fullyrða að ég hafi hið eina og rétta svar við þessari einföldu spurningu en ætla hinsvegar að notfæra mér í þessum langa pistli, samantekt sem ég sá á sínum tíma á vefnum wats up with that? sem vísaði síðan í aðra samantekt eftir veðurfræðinginn Joe D'Aleo, en greinar eftir hann birtast reglulega á icecap.us, en sú síða er mjög gagnrýnin á hlýnun jarðar af mannavöldum.
Það sem Joe þessi D'Aleo hafði gert var að bera saman þrjá þætti sem oft eru taldir hafa áhrif á loftslag jarðar og finna út hver þeirra passaði best við hitafar í Bandaríkjunum á síðustu öld. Þessir þættir eru CO2 í andrúmsloftinu (gróðurhúsalofttegundin alræmda), virkni sólarinnar (total solar irradiance) og svo breytileiki í hafinu og þá einkum í Norður-Kyrrahafi og Atlantsahafi (Pacific Decadal Oscillation, PDO og Atlantic Multidecadal Oscillation, AMO). Ástæðan fyrir því að hann bar eingöngu saman við Bandaríkin eru efasemdir hans um að hnattrænar hitamælingar endurpegli hina réttu hitaþróun jarðar en í Bandaríkjunum vill svo til að núverandi hitafar er ekki svo mikið hærra en það sem var á árunum 1930-40, ekki ólíkt því sem reyndin er á Íslandi. Þegar búið var að bera saman þessa þrjá þætti með því að gefa þeim nokkurskonar einkunn eftir tölfræðilegri samsvörun (R2) kom það út að magn CO2 fékk lökustu útkomuna: 0,44 breytilegur styrkur sólar fékk heldur betri einkunn: 0,57 en það merkilega var að langmesta samsvörunin var við breytileika hafsins: 0,83. Þennan samanburð má svo sjá á þessum þremur línuritum hér að neðan sem sína tengsl þessara þátta við hitann í USA, (frá vinstri: CO2+hiti, Sólin+hiti og Hafið+hiti). Myndin birtist stærri ef smellt er á hana:
Það sem ég ætla hinsvegar að gera er að bera þessa sömu þætti við hitafar allrar jarðarinnar. Ég veit að það er ákveðin óvissa í sambandi við þróun á hitafari jarðar og ekki útilokað að vegna þátta eins og breyttrar landnotkunar og aukins þéttbýlis getur verið möguleiki á ofmati á hitanum í dag miðað við það sem var áður. Samt vil ég trúa því að þau línurit sem sýna þróun hitans hnattrænt, séu í meginatriðum rétt og engin ástæða til að efast um að það hafi í raun átt sér stað talsverð hlýnun á jörðinni.
Hér að neðan koma því línurit sem sína hitafar jarðar að viðbættum ferlunum frá Joe D'Aleo. Ég get að vísu ekki boðið upp á svona R2-gildi en hinsvegar er lítið mál að leggja ferlana saman við hitalínuritið svipað og hann gerir. Fyrst kemur CO2+hitafar jarðar:
Styrkur CO2 í andrúmslofti hefur aukist jafnt og þétt síðustu 100 ár með vaxandi hraða og ekki hægt að segja annað en það sé í góðu samræmi við heildarhlýnun jarðarinnar þegar þetta er skoðað svona. Hiti jarðar hefur hins vegar talsvert sveiflast og alls ekki verið sívaxandi. Greinilegur hitatoppur er í kringum árin 1940 eftir mikla hlýnun, svipað og í Bandaríkjunum, en síðan tók við kaldara skeið þar sem nánast ekkert hlýnaði í um þrjá áratugi og svo kom aftur mikil hlýnun fram til okkar tíma. Þessum sveiflum veldur greinilega eitthvað annað en magn CO2 í lofti. En þá er að skoða sólina+hitafar jarðar:
Á línuritinu fyrir styrk sólarinnar er að búið að jafna út þeim 11 ára sveflum sem eiga sér stað í sólvirkninni en þannig fæst betri heildarmynd og betra að bera saman við hitaþróun jarðar en þarna sést greinilega viss fylgni við stóru hitasveflurnar á síðustu öld. Breytileiki í virkni sólarinnar er samt mjög lítill og dugar varla einn og sér til að hafa mikil áhrif á hitann nema með því að magna upp aðra þætti eins og t.d. skýjamagn eins og kenningar eru til um. Samkvæmt þessu er samt ekki hægt að sjá að aukning í styrk sólar eftir 1965 skýri þá miklu hlýnun sem orðið hefur síðust áratugi nema að hluta og þar að auki var sólvirknin heldur meiri á árunum kringum 1940-50. Þó má það alveg koma fram að þrátt fyrir sveiflur var virkni sólarinnar heldur meiri á 20. öld en síðustu aldir þar á undan. En næst er þá að bera saman breytileika sjávar+hitafar jarðar:
Ferillinn sem sýnir breytileika sjávar og var með svo góða samsvörun við Bandaríkin er fenginn með því að leggja saman hitasveiflur sem eiga sér stað í Kyrrahafinu (PDO) og Norður-Atlantshafinu (AMO) en þær sveiflur virðast skipta um ham á nokkurra áratuga ára fresti og virka einhvenveginn þannig að hafið kólnar á einum stað og hlýnar á öðrum í staðinn og hefur í framhaldi af því mikil áhrif á veðurlag. Talað er um að þessi fyrirbæri séu ýmist í jákvæðum eða neikvæðum fasa eftir því hvort þau hafa áhrif til kælingar eða hlýnunar. Þessi breytileiki virðist geta skýrt mjög vel hitaþróun jarðar fram á 7. áratuginn en eftir það er samsvörunin heldur lakari en jákvæður fasi síðustu áratugi fer þó saman við hlýnun jarðar að hluta, svipað og tilfellið er með sólvirknina. El Nino og La Nina fyrirbærin í Kyrrahafinu koma þarna líka inní en talið er að þau eigi stærstan þátt í styttri hitasveflum jarðar sem eru áberandi á hitalínuritinu en nú er talið að fasarnir á Pacific Decadal Oscillation, PDO hafi áhrif á hvort hinir kælandi La Nina-straumar eða hinir heitu El Nino komi oftar upp.
Hvað má svo segja um þetta?
Ef línuritin eru nokkurnveginn rétt og sönn þá má draga nokkrar áliktanir:
1. Magn CO2 hefur aukist síðustu 100 ár jafnt og þétt með vaxandi hraða en án sveiflna, með þeim áhrifum að heildarútkoman fyrir alla síðustu öld er hlýnun.
2. Áhrif af völdum sveiflna í sólvirkni og breytileika í hafinu geta útskýrt sveiflur í hitafari jarðar en nægja ekki til að útskýra hversvegna núverandi hlýindaskeið er hlýrra en það sem var fyrir miðja síðustu öld.
3. Með því að bera saman ferlana fyrir breytileika sólarinnar og sjávarins kemur í ljós viss samsvörun á milli þeirra. Báðir ferlarnir toppuðu árin um 1940-1950, náðu svo botni á árunum 1965-1975 en stigu svo eftir það. Er þetta tilviljun eða getur verið að áhrif sólarinnar á hitasveiflur jarðar felist að einhverju leyti í áhrifum hennar á það hvernig straumar hafsins haga sér? Breytileiki í virkni sólar er ekki nema um 0,1% sem duga varla til mikilla áhrifa einn og sér, þannig að hér er kannski kominn mögnunarþátturinn sem sólin þarf að hafa til að hafa áhrif, hvernig sem það ætti að gerast. Um þetta hef ég ekkert séð þannig að þetta eru bara vangaveltur í mér.
Hvað gerist svo næstu árin?
Ef hlýnun síðustu áratugi hefur fengið hjálp vegna áhrifa vegna breytileika í hitafari sjávar og/eða frá sólinni eins og gerðist fyrir miðja síðustu öld má búast við því að annað bakslag eða allavega stöðnun geti komið fram í hitafari jarðar svipað og átti sér stað eftir 1945. Það bakslag gæti verið byrjað enda árið í ár það kaldasta á þessari öld og í raun hefur varla nokkuð hlýnað á jörðinni síðustu árin. Í Kyrrahafinu virðist núna neikvæði fasinn á PDO vera kominn upp og spurning hvort sami fasi sé að koma upp í Norður-Atlantshafi auk þess sem sólin hefur sýnt af sér litla virkni undanfarið. Ef þetta er raunin, svo ekki sé talað um ef sólin ætlar í einhverja verulega lægð næstu áratugi, þá reynir á hversu mikið aukin gróðurhúsaáhrifin ná að bæta upp þá kælingu. En hinsvegar þarf þó alls ekki að vera ástæða til að afskrifa gróðurhúsaáhrifin þótt ekkert hlýni á jörðinn í einhver ár eða jafnvel nokkra áratugi því áhrif CO2 í lofti eru mjög þrálát og eiga enn eftir að aukast mikið og gætu vel lifað af smærri sveiflur af öðrum toga.
- - - - -
Svo í lokin er nauðsynlegt að taka fram að loftslagsmálin eru öll mjög flókin og langt í frá að ég hafi einhverja heildarsýn yfir þetta allt saman, en það má alltaf reyna. Fleiri þættir hafa vissulega líka áhrif á hita jarðar eins og eldgos og agnarmengun sem ætti að valda lægri hita vegna dempunar á sólarljósi. En vilji einhver skoða þetta betur eru hér að neðan linkar sem vísa í áhrif hafsins á hita jarðar en þessi tengsl finnst mér vera að fá aukna athygi hjá vísindamönnum.
Next decade 'may see no warming'
La Nina and Pacific Decadal Oscillation Cool the Pacific
Vísindi og fræði | Breytt 2.7.2015 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.10.2008 | 13:15
Britney Spears - I was born to make you happy
Ég hef í mínum skrifum ekki mikið fjallað um fólk og hef til dæmis aldrei nefnt á nafn einn einasta íslenskan stjórnmálamann. Ef ég nefni yfirleitt einhvern á nafn eru það helst persónur sem hafa auðgað anda vorn með listrænum tilburðum sínum svo sem ýmsir tónlistarmenn eða aðrir listamenn. Ég læt hinsvegar aðra um að gagnrýna pólitíkusa jafnvel þótt allt sé hér komið í kaldakol, en sjálfur held ég mig við þá speki sem vert er að hafa í huga, að leiðin til glötunar er ávallt vörðuð góðum áformum.
En þá er komið að aðalnúmeri þessa pistils sem er hin elskaða og dáða söngkona Britney Spears. Sú hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla á sínum ferli. Sem ung og saklaus stúlka fór hún í útrás og áformin voru góð. Hún lagði heiminn að fótum sér sem hin alsaklausa hreina mey og varð hvarvetna glæsileg fyrirmynd ungra stúlkna. Um síðir átti hún eftir að kynnast hinum harða heimi og þrátt fyrir góð áform varð ljóst að leiðin sem hún valdi sér í góðri trú lá eiginlega bara beinustu leið til glötunnar. En það má samt ekki missa vonina og eitthvað hefur ræst úr hjá henni Britneyju okkar - hún hefur allavega endurheimt sínu ljósu lokka og jafnvel einnig sitt lokkandi augnaráð, samkvæmt heimildum.
Britney Spears átti góða daga sem upprennandi stjarna á árunum um og eftir 2000, þegar allt lék í lyndi hjá henni. Í laginu sem hér fylgir segist hún vera fædd til að stuðla að hamingju okkar. Við þökkum fyrir það, enda er fátt göfugra en að gefa af sér öðrum til ánægju og gleði. Það má samt skynja þarna í myndbandinu að kannski eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Hvað með þennan unga mann þarna sem birtist í fráhnepptri skyrtu, er hann allur sem hann er séður? Ég er ekki viss.
Myndband mánaðarins á þessari síðu heitir: I was born to make you happy, með Britney Spears og kom út á hennar fyrst plötu
Baby One More Time snemma árs 1999 þegar hún var á 18. ári og ef ég á að segja eins og er þá finnst mér þetta bara vera hið ágætasta lag.
Tónlist | Breytt 27.10.2008 kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2008 | 22:15
Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?
Ég velti því fyrir mér hvort að eitt stykki eldgos sé ekki bara einmitt það sem þjóðina vantar nú á þessum síðustu og verstu tímum. Eldgos núna gæti dregið að sér athygli umheimsins og myndi vekja upp mikla samúð og samstöðu með okkur og væri góð auglýsing fyrir sérstöðu landsins og þau náttúruöfl sem við þurfum að glíma við. Þetta þyrfti þá helst að gerast sem fyrst en ellegar væri betra að bíða með eldgos fram yfir jól svo að útlendingar þyrðu yfirleitt að koma hingað í verslunarferðir sínar.
En burt séð frá því hvort eldgos sé æskilegt nú eða ekki ætla ég samt spá í stöðuna, meta hvar helst má eiga von á eldgosum og áætla í prósentum hversu líklegt ég tel að næsta gos verði þar. Ég tek þó fram að þetta er sett fram alveg án ábyrgðar en upplýsingar og fróðleik hef ég úr ýmsum fréttum og öðrum heimildum sem ég hef séð.
- - - - - -
32% Síðustu áratugi hefur HEKLA gosið á nánast 10 ára fresti eða árin 1970, 1980, 1991 og 2000 (að auki smáskvetta árið 1981). Þessi reglulega goshegðun hlýtur að vera einstök meðal eldfjalla og ef hún heldur þessu áfram ætti næsta gos að verða árið 2010 +/-1 ár. Talið er þó að Hekla sé nánast tilbúin fyrir gos og gæti hún samkvæmt því alveg eins gosið á morgun því gosin gera yfirleitt engin boð á undan sér nema rétt áður en þau bresta á. En auðvitað getur Hekla líka alveg eins farið í sitt fyrra horf og gosið ekki fyrr en eftir hálfa öld, en gegnum tíðina hafa Heklugos átt sér stað einu sinni til tvisvar á öld.
30% Virkasta eldstöðin á Íslandi eru Grímsvötn. Eldvirkning þar er að einhverju leiti lotubundin nokkra áratugi í senn og í takt við það er nú meiri virkni í Grímsvötnum en á seinni hluta 20. aldar en síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 eftir hlaup í vötnunum. Ef gosið á sér stað undir vötnunum sjálfum eins og algengast er veldur það ekki jökulbráðnun og hlaupi, en ef gýs utan vatnanna undir jöklinum verður hins vegar jökulbráðnun sem veldur miklu jökulhlaupi eins og átti sér stað í Gjálpargosinu 1996. Þegar eldstöðin er á annað borð komin í gírinn eins og nú, eru goshléin oft ekki nema nokkur ár og því verður nýtt Grímsvatnagos að teljast nokkuð líklegt á næstu árum.
18% Við Upptyppinga og Álftadalsdyngju var mikið um að vera með köflum síðasta vetur en þá mældist fjöldi jarðskjálfta á um 15-20 km dýpi. Síðan færðist mikil ró yfir svæðið þar til fyrir skemmstu að komið hafa dálítið af grynnri skjálftum á um 6-7 km dýpi sem gæti bent þess að kvika sé eitthvað að reyna að brjótast upp. Ef þarna gýs er talað um að dyngjugos geti átt sér stað með þunnfljótandi hraunrennsli sem gæti borist langar leiðir, jafnvel eftir farvegi Jökulsár á Fjöllum. Talað er um dyngjugos geti orðið þarna því kvikan á sér rætur djúpt í jörðu, jafnvel beint frá möttulstróknum sjálfum undir landinu, án viðkomu í kvikuþró megineldstöðvar. Það sem er að gerast þarna er eitthvað sem jarðfræðingar hafa ekki áður fylgst með á Íslandi þannig að óvissan er mikil og erfitt að spá í framhaldið.
12% Það hefur lengi verið beðið eftir Kötlugosi enda liðin 90 ár frá síðasta gosi sem er eitt lengsta goshlé í Kötlu eftir landnám. Gosið 1918 flokkast sem stórt Kötlugos en stærð gossins er nú talin ein ástæðan fyrir þessari löngu hvíld. Hinsvegar er ekki endilega talið að löng goshlé séu fyrirboði stórs eldgoss. Það hefur eitthvað róast yfir eldstöðinni frá því fyrir nokkrum árum þegar talið var að eldgos væri nánast yfirvofandi. Þá var um að ræða jarðskjálfta undir Goðabungu austarlega í Kötluöskjunni. Eitthvað hefur reyndar verið talað um að þeir skjálftar hafi átt sýnar skýringar í jökulhreyfingum en ekki bara vegna aukins jarðhita. Það hefur lítið frést að skjálftum eða öðru í Kötlu í þó nokkurn tíma en það má alveg bóka þarna gos í nánustu framtíð en eldgos í Kötlu eru alltaf miklir atburðir.
8% Aðrir staðir. Það getur auðvitað gosið mjög víða á Íslandi en gos á öðrum stöðum en þeim sem ég hef talið upp eru mun ólíklegri sem næsta gos. Það má þó segja að það geti nánast gosið hvar sem er á austara gosbeltinu sem nær frá Vestmannaeyjum í norðaustur upp í Vatnajökul og svo þaðan áfram í norður eins og landið nær. Vestara gosbeltið sem nær frá Reykjanesi og upp í Langjökul er hinsvegar í meiri dvala svo ekki sé talað um Snæfellsnesgosbeltið og Öræfajökul.
- - - - - - -
Og þar með er hægt að setja þetta upp í gómsætt kökurit:
18.10.2008 | 22:41
Kerhólakambur - hin leiðin á Esjuna
Flestir sem fara á Esjuna fara hina hefðbundnu leið eftir göngustígum sem liggur upp að Þverfellshorni. En það eru auðvitað fleiri leiðir á Esjuna eins og til dæmis leiðin upp að Kerhólakambi eða gamla Ferðafélagsleiðin eins og hún er stundum kölluð. Persónulega finnst mér þessi leið mun skemmtilegri ekki síst vegna þess að þarna eru engar halarófur af fólki og maður getur notið þess að eiga svæðið nánast útaf fyrir sig. Fyrir utan smá klettabelti neðst er leiðin frekar einföld, nánast ein samfelld brekka þar til komið er að skálinni þar sem litli skaflinn er þar svo áberandi á sumrin. Þar er svo farið upp og ekkert varið í annað en að fara alla leið að vörðunni sem þar er á hábungu Kambsins í 851 metra hæð og er hæsti hluti vestanverðar Esjunnar.
Og núna á laugardaginn var góður dagur til að fara á Kerhólakamb - bjart í veðri og úrvals skyggni. Nokkur strekkingur var að vísu í neðri hlíðunum og þegar upp var komið tók á móti manni alvöru vetrarríki með frábæru útsýni í hreina loftinu þar sem Hekla, Eyjafjallajökull og Vestmannaeyjar blöstu við í fjarska. Auðvitað er svo nauðsynlegt að hafa heitt kókómalt í brúsa og samlokur og njóta dásemdanna í rólegheitum þarna uppí hæstu hæðum.
Ferðalög | Breytt 19.10.2008 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.10.2008 | 13:34
Af mér og bönkum fyrr og nú
Nú þegar við horfum upp á alveg nýtt landslag í fjármálakerfi landsins er stundum sagt að við séum að hverfa aftur til hinna gömlu tíma þegar allt var einfaldara og hlutirnir gjarnan í fastari skorðum. Þetta voru tímar þegar menn gengu með peningaseðla í veskinu eða skrifuðu ávísanir, þetta voru tímar þegar bankarnir stóðu í röðum landbúnaðar-útvegs, ekki bara í Austurstræti heldur líka í Bankastræti sem þá bar nafn með rentu með þrjú bankaútibú. Í öllum þessum bönkum var ávallt margt um manninn, fólk stóð í þvögu við gjaldkeraborðin, enda voru íslendingar ekki búnir að læra að fara í röð. Þá var líka bærinn fullur af fólki, strætisvagnarnir í sínum mosagræna felulit voru líka fullir af fólki, sumir voru svo sjálfir fullir en það hefur kannski ekki mikið breyst.
Mín fyrstu kynni af bankakerfinu voru eins og hjá svo mörgum að ég eignaðist sparibauk. Þennan sparibauk sem var í líki Múmínpabba fyllti ég reglulega og fór með í Iðnaðarbankann - stoltur yfir því að eiga eigin bankareikning, þótt um miklar upphæðir hafi ekki verið um að ræða.
Hinsvegar handlék ég öllu stærri upphæðir þegar ég gerðist sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 1980. Eitt af mínum verkefnum þar var að labba á hverjum degi með milljónir í sendlatösku, sneisafullri af peningaseðlum og ávísunum í útibú Landsbankans að Laugavegi 77. Þessar fjárhæðir lagði ég inn í bankann hjá gjaldkera eftir að hafa staðið í þvögunni við gjaldkeraborðið og beðið eftir afgreiðslu. Engum datt í hug þá að þessi unglingspiltur hefði getað verið mikil uppgrip fyrir sniðugan ræningja. Aðeins nokkrum árum síðar var framið þaulskipulagt rán við þetta sama bankaútibú þegar vopnaðir ræningjar náðu stórfé af mönnum sem ætluðu að leggja peninga frá ÁTVR í næturhólf bankans.
Í mínu starfi sem grafískur hönnuður hef ég stundum unnið fyrir banka. Eitt af fyrstu verkefnum mínum á auglýsingastofu árið 1989 var að leggja í púkkið tillögur að merki fyrir nýjan Íslandsbanka sem þá stóð til að stofna þegar sameina átti Iðnaðarbankann, Verslunarbankann, Alþýðubankann og Útvegsbankann. Eitthvað af mínum tillögum komu til greina en ég átti þó ekki merkið sem endanlega var valið, en það var hið litríka og fjöruga Íslandsbankamerki sem var mikil nýjung meðal bankamerkja á Íslandi. Þetta merki lifði til ársins 2000 þegar Íslandsbanki FBA varð til, en tók svo upp aftur í einfaldari útgáfu sem lifði þar til nafnið GLITNIR var tekið upp enda var það svona meira erlendis. Í dag heitir svo bankinn Nýi Glitnir samkvæmt 2008-stílnum. Allar svona breytingar eru auðvitað mjög atvinnuskapandi fyrir okkur auglýsingateiknara.
Þrátt fyrir ýmsar framfarir í rafrænni bankaþjónustu síðustu ár þá fæ ég mér reglulega göngutúr í bankaútibúið mitt til að borga mánaðarlega reikninga mína og taka um leið út dálítið af peningum. Þetta þykir víst mörgum dálítið gamaldags því helst á maður að gera á netinu allt sem hægt er að gera þar. Ég tel þetta þó ekkert eftir mér en þessar heimsóknir mínar eru auðvitað atvinnuskapandi fyrir bankafólk. Yfirbragðið í bönkunum er líka allt miklu rólegra en áður og engar þvögur lengur við gjaldkeraborðin, því flestir aðrir eru bara á netinu og nenna ekki í bankann sinn.
Ljósmyndin sem fylgir pistlinum birtist í Þjóðviljanum árið 1980. Ég sjálfur er hvergi sjáanlegur á myndinni.
13.10.2008 | 21:35
Loksins almennilegur sólblettur
Eftir einhverja mestu ládeyðu sem sólin hefur sýnt af sér í 50 ár hefur loks birst sólblettur á yfirborði hennar sem gefur til að næsta 11 ára sólblettasveifla sé hafin. Þetta virðist ekki vera blettur sem hverfur nánast jafnóðum og hann myndast eins og sumir hafa gert undanfarið því þessi blettur er á stærð við jörðina og hefur þegar lifað í nokkra daga. Sólblettasveiflan sem nú ætti loks að vera að hefjast er númer 24 frá því menn fór að telja, en þegar sólblettasveiflan er í hámarki eru á hverjum tíma margir sólblettir samtímis á sólinni og oft mun stærri en sá sem nú prýðir sólina.
Því hefur verið spáð fyrir nokkru að sólarsveifla 24 ætti að vera nokkuð almennileg og endurspegla góða virkni í sólinni, en ládeyðan undanfarið hefur þótt svona heldur setja strik í þá útreikninga en spurning er samt hvort þessi sólblettur sé einn á báti eða sá fyrsti af mörgum glæsilegum á næstunni. Hinsvegar bendir margt til þess að þarnæsta sólarsveifla nr. 25 verði sú veikasta síðan einhvertíma á 19. öld, en sú veika sólarsveifla mun ganga yfir á árunum 2020-2030.
Vangaveltur um virkni sólarinnar hafa eðlilega verið nokkuð áberandi síðustu 10-15 ár því margir hafa mikla trú á að sólin sé einn öflugasti áhrifavaldurinn í hitafari jarðar og aðalorsakavaldurinn í hlýnun jarðar. Bakslag í virkni sólarinnar getur samkvæmt því þýtt bakslag í hita jarðar og það jafnvel svo um munar ef sólin fer í gegnum sólblettaleysi svipað og var á seinni hluta 17. aldar. Það efast reyndar enginn um að sólin hafi einhver áhrif en hvort hlýnun jarðar vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda sé orðin nógu mikil til að yfirgnæfa hitasveiflur af völdum sólarinnar er auðvitað stóra spurningin.
Myndir af sólbletti eru fengnar af síðunni: spaceweather.com
Myndin af sólarsveiflu og fleiri heimildir eru héðan: Long range solar forecast (NASA 10.okt. 2006)
og héðan: Blankest Year of the Space Age (NASA 30.sept. 2008)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.10.2008 | 13:37
Medúsa flekinn - þegar vonin vaknar
Eitt af hádramatískustu verkum myndlistarsögunnar var afhjúpað í París árið 1819 en það var verkið Medúsa flekinn eftir Franska málarann Théodore Géricault. Málverkið er afar stórt eða heilir 7 metrar á breidd og vakti strax mikla athygli og aðdáun þegar það var sýnt, en jafnframt reiði hjá sumum. Hér segir frá umdeildum atburðum sem áttu sér stað í raun og veru eftir að freigátan Medúsa steytti á skeri undan ströndum Vestur-Afríku árið 1816 undir stjórn skipstjóra sem var yfirlýstur andstæðingur Napóleons og að mörgum talinn vanhæfur til að stýra skipi. Alls voru um 400 manns um borð en auk áhafnar var þarna meðal annars Landstjórinn í Senegal ásamt herliði sínu en förinni hafði verið heitið til Frakklands. Almennilegir björgunarbátar voru ekki til taks fyrir alla um borð og því þurfti fjöldi hinna lægra settu að sætta sig við að láta sig reka um hafið á illa búnum fleka. Eftir tveggja vikna ólýsanlegt harðræði var þeim fáu flekaverjum sem lifað höfðu hörmungarnar af, blessunarlega bjargað um borð í skip sem þarna kom að.
Svona hástemmdar örlagamyndir eru algengar í listasögunni en það sem gerði þessa mynd sérstaka á sínum tíma var að hér er um að ræða raunverulegt fólk af lægri stigum samfélagsins og má þar örugglega kenna áhrifa frá Frönsku byltingunni, en fram að þessu höfðu aðallega valdahetjur og persónur í guðatölu fengið að prýða svona mikilfengleg málverk á striga. Géricault kaus að sýna í mynd sinni það dramatíska augnablik þegar skipbrotsmenn sjá lífsbjörgina í miklum fjarska en geta ekki vitað hvort eftir þeim hafi verið tekið. Öll uppbygging myndarinnar er hugsuð til að auka á áhrifamátt hennar, mennirnir á flekanum mynda einskonar þríhyrning sem leitar upp til hægri þar sem hinir örmagna eru fremst, en efstur er sá sem veifar skipinu í fjarska út við sjóndeildarhring. Annar þríhyrningur hallast hinsvegar í hina áttina til vinstri og þar er þanið seglið sem beinir flekanum í öfuga átt þarna í ólgusjónum.
Hin veika von í miðri örvæntingunni er sem sagt umfjöllunarefni þessarar myndar. Hér er illa statt fólk út á reginhafi og ekkert nema björgun kemur til greina og við sem horfum á myndina getum auðvitað huggað okkur við að svo fór þarna að lokum.
7.10.2008 | 00:35
Mynd dagsins hjá NASA er frá Íslandi
Á vef Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, eru þeir með það sem þeir kalla Image of the Day en það eru birtar hinar ýmsu gervitunglamyndir og nú þann 6. október varð fyrir valinu mynd af norðausturhluta landsins okkar. Það mætti ætla að þeir hjá NASA væru með þessari mynd að sýna góðærið okkar fjúka endanlega á haf út enda liggur þykkur mökkur yfir landinu sem berst langt út á haf.
En það er nú ekki alveg svo, því myndin er tekin þann 17. september sl. þegar óveðurslægðin, kennd við fellibylinn IKE var stödd skammt vestur af landinu og hvöss suðvestanáttin sem henni fylgdi gekk yfir landið eftir að megin-skilakerfi lægðarinnar var farið framhjá. Í texta með myndinni er það nefnt að svona sandstormar séu algengastir á eyðumerkursvæðum nærri miðbaug eða við uppþornuð vötn í mið-Asíu. Við þekkjum þetta fyrirbæri hinsvegar vel á eyðisöndum okkar sem hér er nóg af.
Hægt að sjá nánari umfjöllun um myndina á þessum svæðum:
Image of the day: http://modis.gsfc.nasa.gov/gallery/individual.php?db_date=2008-10-06
Nánari umfjöllun hér: http://earthobservatory.nasa.gov/Newsroom/NewImages/images.php3