3.10.2008 | 23:52
Nú er það svart – allt orðið hvítt
Þótt ég hafi um síðustu helgi spáð miklum harðindum hér á landi í vetur þá verð ég að viðurkenna að úr spánni hefur ræst svona heldur hraðar en ég hugði. Ofan á öll fjárhagsharðindin þar sem krónan og hlutabréfin hafa fallið svo um munar þá hefur snjórinn einnig fallið víða um land, langt fyrir tímann. Það er hinsvegar ekkert óvenjulegt þótt haustlaufin hafa fallið, Skagamenn eru svo auðvitað löngu fallnir en nú vonum við bara að Bubbi sé ekki fallinn.
Það er þetta með snjóinn. En þar sem ég er ekki með elstu mönnum þá man ég engan vegin eftir svona öflugum vetrarkafla svona strax í byrjum október, jafnvel þótt ég hafi haldið veðurdagbók í yfir 20 ár eins og ég hef nokkrum sinnum minnst á. Í þessa veðurdagbók skrái ég meðal annars hvort snjór sé á jörð um miðnætti hér í Reykjavík og þar kemur fram að hvít jörð hefur ekki verið svona snemma hausts á miðnætti í Reykjavík frá árinu 1986 þegar skráningar mínar hófust og það tvö kvöld í röð, sem þýðir að snjórinn hefur lifað sólarhringinn. Slíkur er kuldinn.
Upp úr þessum skráningum mínum hef ég sett saman þessa mynd sem sýnir hvenær snjór hefur verið í Reykjavík síðustu 22 vetur en þessa mynd hef ég birt áður. Ásamt mörgu öðru merkilegu sést þarna hvað október er snjóléttur mánuður í borginni. Ef það hefur snjóað í mánuðinum hefur það verið yfirleitt verið undir lok mánaðarins og staðið stutt. Frá 1986 hafði fyrsti októbersnjórinn fallið þann 13. árið 1987 en október 1986 er snjóþyngstur, en viku eftir leiðtogafundinn það ár gerði mikið vetrarríki í borginni sem hélst út mánuðinn. Sjálfsagt hefur einhvern tíma snjóað svona snemma að hausti og í ár, en ég læt þetta tímabil sem ég hef skráð nægja. Svo er bara að vona að við hörkum af okkur þennan harðindavetur sem er framundan, hvort sem þau harðindi verða veðurfarlegs eðlis eða ekki.
Dægurmál | Breytt 4.10.2008 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 16:47
Íshafið og hinn kaldi veruleiki
Að þessu sinni ætla ég að rýna í málverk sem ég hef lengi haft dálæti á og hef reyndar birt áður í smærri útgáfu. Þetta er myndin Íshafið frá árinu 1824 (The Polar Sea / Das Eismeer) eftir Þýska málarann Caspar David Friedrich. Það er ýmislegt við þessa mynd sem gerir hana sérstaka bæði hvað varðar myndefni og kannski ekki síst hversu nútímaleg hún er miðað við hvenær hún er máluð. Við sjáum að þarna grilla í skutinn á seglskipi sem hefur lotið í lægra haldi fyrir ógurlegum hafís sem fyllir hafflötinn og brotnar upp í stóra oddhvassa hröngla. Það má vel skynja bæði þögnina og kuldann í þessari mynd sem gerir ósigur skipsins dramatískari þarna í norðurhjaranum. Þetta mun ekki vera mynd af ákveðnum atburði né heldur af einhverju ákveðnu skipi. Þetta er öllu frekar táknmynd sem ætluð er til að skapa hughrif hjá áhorfandanum og vekja fólk til umhugsunar um smæð mannsins gagnvart náttúrunni og þeim öflum sem hún býr yfir. Það má því segja að hér sé verið að myndgera ófullkomleika mannsins eða beinlínis ósigur mannsandans.
Þegar þessi mynd var máluð var rómantíska stefnan í hávegum í Evrópu. Þá var kannski ekki alveg sami skilningur á hugtakinu rómantík og er í dag en samt sem áður viss skyldleiki því í rómantíkinni felst alltaf eitthvað fráhvarf frá skynsemishyggju mannsins sem á þessum árum hafði mátt þola ákveðið skipbrot eftir Frönsku byltinguna og Napóleonsstríðin sem varð til þess að einveldi festi sig í sessi á ný. Í rómantíkinni er hin háleita fegurð náttúrunnar notuð sem einskonar táknmynd fyrir þær hættur og ógnþrungnu örlög sem við þurfum að lifa við. Skynsemi okkar eru nefnilega takmörk sett, enda erum við alltaf jafn óviðbúin þegar við stöndum frammi fyrir hinum kalda veruleika. Það gildir jafnt í dag sem og á fyrri öldum.
29.9.2008 | 00:30
Harðindavetur framundan
Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.
Það er eitthvað við ástandið í dag sem minnir mig á lítið atriði úr kvikmyndinni Óðal feðranna, eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þegar allt stefndi í óefni á þeim bæ í myndinni spurði sonurinn móður sína angistarfullur, Hvað eigum við að gera? Móðirin svaraði með dramatískri röddu: ÞAÐ ER EKKERT HÆGT AÐ GERA!
En kannski eigum við ekki að mála skrattann á vegginn, kannski verður eitthvað hægt að gera til þess allavega að lina þrautir þessa komandi harðindavetrar. Senn er sigruð þraut verður kannski sagt undir vor er hugarhrelling sú er hart oss þjakar nú mun hverfa og fleiri höpp oss falla í skaut.
25.9.2008 | 20:46
Hafísþróunin á Norðurpólnum
Eins og venjan er í september þá hefur hafísinn á Norður-Íshafinu náð sínu lágmarki í ár og er hægt og sígandi byrjaður að aukast á ný. Þeir sem fylgjast með hafísnum og þar á meðal ég, biðu með mikilli eftirvæntingu eftir því hvernig hafíslágmarkið í ár yrði ekki síst vegna þessa hve illa fór fyrir hafísnum í fyrrasumar. Niðurstaðan varð síðan sú að hafísinn þegar hann varð minnstur nú í haust reyndist vera 15% meiri en sambærilegt lágmark í fyrra, en samt sem áður næst minnsti hafís sem mælst hefur frá upphafi gervihnattamælinga, sem reyndar ná ekki lengra en aftur til ársins 1979.
Ég hef sett hér saman í eina mynd hér að neðan hafíslágmörk frá árinu 1997 en þannig er fróðlegt að sjá hvernig þróunin hefur verið síðustu árin. Það er greinilegt að síðustu tvö árin skera sig nokkuð úr og kannski engin furða að mikið er talað um að hafísinn sé á hverfanda hveli þarna norðurfrá, en þá er auðvitað bara verið að tala um sumarísinn. Það birtust fréttir í fjölmiðlum í sumar sem rugluðu marga þegar talað var um að Norðurpóllinn gæti orðið íslaus nú haust. Þar var bara um að ræða Norðurpólinn sjálfan en ekki allt Norður-Íshafið. Eins og sjá má á myndinni frá 2007 mátti ekki miklu muna að íslaust hafið næði að Norðurpólnum það ár og því var alls ekkert óraunhæft að spá að slíkt gæti gerst í ár. En þróun hafíssins ræðst ekki bara af hitafari því veður og hafstraumar ráða þarna líka miklu og nú í ár voru aðstæður miklu hagstæðari fyrir hafísinn en í fyrra og því enginn íslaus Norðurpóll.
Á myndunum hér að neðan sést líka vel hversu breytileg útbreiðslan er frá ári til árs. Þetta er ekki samfellt hörfunarsaga því á milli koma ár með meiri hafís en árið á undan og því er alls ekkert hægt að segja að ísinn sé hættur að hörfa þótt metið frá því í fyrra hafi ekki verið slegið. Hitt er svo annað mál og getur skipt máli að hitafar á norðurslóðum sveiflast á mörgum áratugum vegna smávægilegra breytileika í sjávarstraumum. Þar er m.a. um að ræða áhrif vegna Atlantic Multidecadal Oscillation sem hefur verið í jákvæðum og hlýjum fasa undanfarin ár en hin mikla hlýnun við norðurheimskautið á mjög líklega þessum sveiflum að þakka að einhverju leiti. Hafísinn allra síðustu ár hefur líka bráðnað miklu hraðar en áður var spáð en eins og menn þekkja úr hagtölum þá fylgja gjarnan bakslög slíkum snöggum breytingum - og þegar og ef bakslagið kemur þá munu sjálfsagt margir halda að það sé að koma ísöld.
Myndirnar eru fengnar af vefsíðunni: The Cryosphere Today - http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/
23.9.2008 | 09:52
Að vera bloggari í vogarmerkinu
Nú er runnin upp tími Vogarinnar samkvæmt stjörnuspekivísindum, það er svo sem ekki frásögum færandi nema vegna þess að þetta er mitt stjörnumerki enda á ég afmæli á næstunni. Ekkert stórafmæli þannig séð en samt persónulegt met í aldri. Við vogarfólk erum auðvitað afar merkilegt fólk sem vegur hlutina og metur áður en við fellum okkar dóm. Það er af því að við skiljum að á hverju máli eru tvær hliðar og á hvorri hlið geta verið ýmsir fletir og það þarf að taka með í reikninginn. Þetta getur samt orðið til þess að við eigum stundum erfitt með að taka afstöðu til mála eða þá að við höllumst að þeim málstað sem hallað er á. Við viljum nefnilega leita jafnvægis í öllu bæði hvað varðar ýmis sjónarmið og í lífinu almennt. Hitt er svo annað mál og önnur hlið á þessu að auðvitað er spurning hvort eitthvað sé að marka svona stjörnuspeki yfirleitt. Hvernig getur t.d. persónuleiki minn ráðist af afstöðu stjarnanna á þeirri stundu er ég kom í heiminn? Þarna er ég bara ekki alveg viss, þetta er eitthvað sem þarf að vega og meta.
Önnur tímamót hjá mér eru þau að nú er ég búinn að blogga hér í eitt ár. Á þessu bloggári hef ég fyrst og fremst fjallað um hluti sem ég hef gaman að skrifa um sjálfur og þá gjarnan um himinn og jörð en stundum sitthvað þess á milli eins og segir í ritstjórnarstefnunni. Ég hef hinsvegar látið lönd og leið allskonar dægurþras og pólitík og aldrei vogað mér að vega að einstaklingum. Kannski er það einmitt vogareðlið í mér sem veldur því að mér fellur það betur að skrifa um staðreyndir heldur en að fella sleggjudóma enda svo óskaplega meðvitaður um hliðarnar tvær á hverju máli.
En á svona tímamótum veltir maður því fyrir sér hvað gera skal á þessum bloggvettvangi ekki síst vegna þess að mér finnst stundum ég vera búinn að segja allt sem ég veit, nema að ég taki upp á því að gerast deilumálabloggari og þjóðfélagsumbreytir eins og margir eru svo uppteknir af og góðir í líka. Ég ætla samt að halda eitthvað áfram, það má t.d. alltaf skrifa meira um náttúruna og veðrið sem er síbreytilegt og svo er líka spurning hvort ég geti ekki bara endurtekið gamla pistla þegar þeir hafa náð því að vera ársgamlir. Það getur vel verið að ég geri það svona í bland við annað enda lagði ég stundum mikla vinnu í pælingar sem mjög fáir tóku eftir á sínum tíma. En þetta er auðvitað allt eitthvað sem ég þarf að vega og meta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.9.2008 | 01:11
The Smiths - Nowhere Fast
Ég veit satt að segja ekki hvað veldur, en af öllum þeim hljómsveitum sem ég hef kynnst í gegnum tíðina standa þessir alltaf uppúr enda er The Smiths orðin nokkurskonar goðsögn í tónlistarsögunni sem verður vart endurvakin. The Smiths héldu áfram á þeirri braut sem Pönk/nýbylgju-tónlistin hafði haft að leiðarljósi sem er einskonar afturhvarf til grundvallatatriða eða back-to-basic í tónlist. Hljóðfæraskipanin einföld: gítar, bassi og trommur. Laglínunan var einnig einföld, glaðleg og grípandi en það sama verður hinsvegar ekki sagt um innihald textanna því þar tekur alvaran við. Textar Morriseys eru alveg kapítuli útaf fyrir sig í tónlistarsögunni, afar innhverfir og svo dapurlegir á köflum að jafnvel unun er á að hlýða.
Johnny Marr lagahöfundur og gítarleikari sveitarinnar er síðan ekkert annað en snillingur, en fyrst og fremst var það liðsheildin sem gerði útslagið en því miður entist hún ekki lengi og í dag eru varla nokkrar líkur á því að The Smiths verði endurvakin og kannski engin ástæða til.
Það er erfitt að velja eitt lag út úr með þessari hljómsveit en þó þetta lag sé svona miðlungs gott Smiths lag, væri það samt meðal allra bestu lögum hvaða hljómsveitar sem er segi ég allavega. Myndband mánaðarins er Nowhere Fast frá árinu 1985 með hljómsveitinni The Smiths.
I'd like to drop my trousers to the world. I am a man of means (of slender means). Each household appliance is like a new science in my town. And if the day came when I felt a Natural emotion I'd get such a shock I'd probably jump in the ocean. And when a train goes by it's such a sad sound. No ... It's such a sad thing.
I'd like to drop my trousers to the Queen. Every sensible child will know what this means. The poor and the needy are selfish and greedy on her terms. And if the day came when I felt a natural emotion. I'd get such a shock I'd probably jump in the ocean and when a train goes by It's such a sad sound No ... It's such a sad thing
And when I'm lying in my bed I think about life and I think about death. And neither one particularly appeals to me. And if the day came when I felt a natural emotion I'd get such a shock I'd probably lie in the middle of the street and die. I'd lie down and die ... Oh, oh
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.9.2008 | 21:28
16. september 1936 – Pourqoui Pas?
Það er farið að hvessa allhressilega útifyrir núna þegar þetta er skrifað og dagurinn er 16. september, eða kvöldið réttara sagt því það er orðið áliðið dags. Það er talað um að lægðin sem veldur veðrinu sé að hluta til mynduð úr leyfum fellibylsins Ike sem gerði mikinn usla um daginn á Karíbahafinu og síðar í Texas. Þessi staða hringdi einhverjum bjöllum í höfðinu á mér sem varð til þess að ég kannaði hvenær það var sem franska seglskútan og rannsóknarskipið Pourqoui Pas? fórst og það stóð heima því það gerðist einmitt þennan dag, 16. september árið 1936. Með skipinu fórst Franski vísindamaðurinn Dr. Jean Baptiste Charcot auk 39 annarra skipverja eins og frægt er orðið en aðeins einn komst lífs af. Skipið hafði lent í miklu óveðri út af Reykjanesi aðfarnótt 16. september, hraktist alla leið upp að Mýrum við Borgarfjörð og fórst svo við Hnokka út af Álfanesi. En þetta óveður varð fleirum að fjörtjóni því á þriðja tug sjómanna drukknaði í ýmsum skipssköðum þennan dag sem var eitt af alvestu veðrum sem komu á 20. öldinni.
Dr. Charcot hafði verið á skipi við hafísrannsóknir við Grænland þarna um sumarið þegar bilun kom upp sem varð til þess að draga þurfti skipið til Ísafjarðar. Eftir viðgerð í Reykjavík lagði það úr höfn þann 15. september og lá mönnum svona frekar á, því töfin olli því að Dr. Charcot var að verða of seinn í veislu í Kaupmannahöfn þar sem átti að gera hann að heiðursdoktor við Kaupmannahafnarháskóla. Hugsanlega varð sá flýtir til þess að illa fór, en Dr. Charcot var óhræddur maður og átti það oft til að segja Allt fer vel - hvers vegna ekki? en Pourqoui Pas? þýðir einmitt, hvers vegna ekki?
Það er vel hugsanlegt að það hafi verið leyfar fellibyls sem olli því að svo kröpp lægð myndaðist þennan dag í september 1936, eins og reyndin er núna með lægð dagsins. September er einmitt aðal-fellibyljatíminn á Atlantshafinu og þeir geta alveg átt það til að fóðra lægðir með nægilegu hráefni til að skapa almennilegar óveðurslægðir hér á okkar slóðum. En við erum þó ekki að tala um fellibyljirnir sjálfir komi hingað því svona íslensk óveður lúta allt öðrum lögmálum en fellibyljir. Hér er það fyrst og fremst mjög hlýtt suðrænt loft sem berst norður með miklum hraða uns það mætir kaldari loftmössum hér norðurfrá svo allt fer í bál og brand. En nú er bara að vona að þessi lægðarkoma verði ekki nema svipur hjá sjón miðað við óveðrið 1936 og ekki munu mörg skip brotna í spón. Það er kannski meiri hætta á því að eitthvað af trjám brotni í spón að þessu sinni enda eru þau enn fulllaufguð og taka á sig meiri vind fyrir vikið eins og skúta sem hefur ekki dregið saman seglin.
- - - -
Meðal heimilda er þessi grein hér: Voru dr. Charcot og skip hans Pourquoi pas? feig?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2008 | 12:48
Nokkrar sjónæfingar
í framhaldi af síðustu færslu þar sem ég velti fyrir mér hvernig við notum okkar tvö augu til að skynja fjarlægð og rýmið í þrívídd, ætla ég að bjóða hér upp á nokkrar sjónbrellur. Þær snúast í rauninni allar um það sama, sem er einhverskonar misnotkun á okkar hefðbundnu sjónskynjun sem fæst með því að færa skurðpunkt sjónarinnar framar eða aftar en það sem við erum að horfa á. Ef við t.d. gerum okkur rangeyg þá sjáum við tvöfalt eins og allir kannist við, en þá erum við einmitt að færa skurðpunktinn nær okkur eins og við séum að horfa á eitthvað sem er mjög nálægt okkur.
Fyrst er það þessi rauði punktur og blái hringur. Ef við horfum á þá þannig að við sjáum þá tvöfalt er hægt að stilla þá þannig af að rauði punkturinn falli inní bláa hringinn. Þetta er útskýrt betur hér að neðan og er einskonar upphitun og leiðarvísir fyrir framhaldið.
Það sama er hægt að gera með þessa tvo lituðu punkta ef maður gerir sig hæfilega rangeygan, því þegar blái punkturinn fellur saman við þann gula ætti þeir í sameiningu að mynda einn grænan punkt enda er grænn litur myndaður úr þessum tveimur frumlitum.
Fjörið eykst til muna þegar látum þessar mólikúl myndir hér að neðan falla saman í eina. Þarna er smáævilegur afstöðumunur á kúlunum en þegar myndirnar falla saman í eina þá birtist myndin okkur í þrívídd! Þessi afstöðumunur er svipaður því sem sitthvort augað sér þetta.
Þá er líka auðvitað hægt að gera það sama við ljósmynd. Myndirnar eru eins og aðrar þrívíddarmyndir teknar með því að hliðra myndavélinni lítillega til hliðar og því fæst þrívíddarmynd ef þær falla saman í eina.
Hafi þessu öllu verið náð er hægt að spreyta sig á þessum þrívíddarmynstur-myndum (stereogram) sem margar hafa séð en færri hafa séð nokkuð út úr. Aðferðin við að sjá þrívíddina í þeim er einmitt svipuð en þó er betra í þessum tilfellum að horfa aðeins framhjá myndinni þ.e. að láta skurðpunkt sjónarinnar vera dálítið lengra í burtu svipað og í útskýringarmyndinni lengst til hægri. Þannig sjáum við tvöfalt en reynum að láta síbyljuna falla saman uns hlutar myndarinnar koma á móti manni eins og stórar kúlur. Ef við hinsvegar gerum okkur aðeins rangeyg verða áhrifin þau að við sjáum hringlaga göt í myndinni. Smá þolinmæði borgar sig hér.
Svo ein mjög falleg í lokin áður en ég verð sjálfur blindur. Út úr þessu ættu allir að geta séð hákarl svamla um eins og hann hafi verið klipptur út úr mynstrinu. Hann liggur þá ofan á myndinni ef við horfum aðeins framhjá skjánum en myndar gat ef við gerum okkur örlítið rangeyg.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.9.2008 | 16:17
Af hverju höfum við tvö augu?
Ég veit ekki hvort fólk velti því almennt fyrir sér hvers vegna við höfum tvö augu. Mörgum nægir sjálfsagt að vita að við notum augun til að sjá það sem fyrir augum okkar ber, svo höfum auðvitað misgóða sjón sem hægt er að bæta með viðeigandi hjálparbúnaði eins og gleraugum og ef annað augað klikkar algerlega höfum við alltaf hitt til vara.
En aðalástæða þess að við höfum tvö augu er auðvitað sú að með tveimur augum getur við skynjað heiminn betur í þrívídd og þannig áttað okkur á fjarlægðum og rýminu í kringum okkur. Þessi tvö augu sjá hins vegar ekki heiminn frá nákvæmlega sama sjónahorni en í því liggur galdurinn við þrívíddarskynjun. Ef við t.d. horfum stíft á blýant sem er beint fyrir framan nefið á okkur (vísifingur er líka nokkuð handhægur) verður allt sem er fjarri okkur tvöfalt og þar að auki dálítið úr fókus. Skurðpunkturinn sjónarinnar er í blýantinum því myndirnar af honum sem koma frá hvoru auga falla saman í eina. Við tökum samt venjulega ekkert mikið eftir þessu því athyglin er að öllu jöfnu á því sem við beinum sjónum okkar að. Ef við hinsvegar einbeitum okkur að því sem er í meiri fjarlægð verður blýanturinn tvöfaldur og ekki lengur í fókus en þá er skurðpunkturinn kominn lengra í burtu. Þannig erum við meira og minna að sjá allt tvöfalt sem er í annarri fjarlægð en það sem við erum að horfa á hverju sinni.
Kannski er ég að gera einfalt mál flókið og ef til vill er þetta eitthvað sem allir vita. Teikningin hér að ofan er tilraun til að útskýra þetta á myndrænt.
En í framhaldi af þessu er ég að hugsa um að bjóða upp á nokkrar þrívíddar-sjónæfingar! En það verður þó ekki fyrr en í næstu færslu sem verður tilbúin á sunnudaginn. En fyrst kemur samt hér ein sjónæfing sem snýst um að finna blindpunkt augans. En í hvoru auga okkar er blindpunktur þar sem sjóntaugin tengist augnbotnunum, þessu tökum við alls ekki eftir nema með aðferð eins og þessari hér að neðan. Ef við lokum vinstra auga og horfum með því hægra beint á rauða punktinn í um 25-30 cm fjarlægð þá á blái krossinn að hverfa. Sama gerist með rauða punktinn ef við lokum hægra auga og horfum á bláa krossinn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.9.2008 | 00:10
Risamýflugur í Vesturbænum
6.9.2008 | 20:11
Stóra holan í miðbænum
Það er mikið búið að grafa á gamla hafnarsvæðinu í Reykjavík í nágrenni við tónlistar- og ráðstefnuhúsið sem nú er að rísa. Þarna ætlar Pontus-hópurinn að reisa 400 herbergja hótel og fjármálamiðstöð eða einskonar World Trade Center Íslands og svo bílastæðakjallara undir öllu saman. Minna má það ekki vera í þessu landi efnahagsundranna og eins og sjá má á myndinni hér að ofan er grunnurinn sem búið að grafa fyrir þessum framkvæmdum, alveg gríðarstór. Að auki er svo ætlunin að nýjar höfuðstöðvar Landsbankans rísi handan götunnar eða beint á móti pylsusjoppunni Bæjarins bestu en verður þó heldur stærri.
Húsagrunnar eru auðvitað nauðsynlegir ef byggja skal hús enda skal hvert hús reisa á traustum grunni. En þá verðum við líka að vona að þarna verði byggt og það helst í nánustu framtíð. Íslenska fjármálaveldið hefur hinsvegar ekki reynst vera byggt á eins traustum grunni menn töldu og nú er búið að lýsa því yfir að framkvæmdum við Fjármálamiðstöðina verði frestað um óákveðinn tíma vegna vandræða á fjármálamörkuðum, hvað annað? Svo er spurning hvort hinar nýju höfuðstöðvar Landsbankans muni yfirleitt rísa á næstunni eins og staðan er. Kannski ætti frekar að byggja þarna hús utanum starfsemi sem hefur ekkert með peninga að gera. Einu sinni voru t.d. hugmyndir um að Listaháskólinn gæti verið þarna á svæðinu, en nú má víst ekki minnast á það.
En það er fleira sem veldur biðstöðu á þessu svæði, því hugmyndir eru uppi um að leggja Geirsgötuna í stokk en eftir er að ákveða hvort úr því verður og hvernig sá stokkur muni liggja. Jafnvel er talað um að láta hann byrja við enda Sæbrautarinnar og láta hann svo koma upp vestur í Ánanaustum, enda erfitt að koma því við að hafa fyrirferðamikla gangnamunna í svona miðborgarbyggð. Ég veit samt ekki með svona umferðargöng inn í miðri borg. Það virðist alltaf vera markmið þeirra sem skipuleggja umferðarmannvirki að umferðin þurfi alltaf að ganga svo óskaplega hratt fyrir sig. Eins og sést á myndinni hér að neðan sem tekin var um hádegi í miðri viku er umferðin á Geirsgötunni yfirleitt ekki meiri en svo að ein akrein í hvora átt gæti vel annað þeirri umferð. En þarna er kannski verið að hugsa um alla þá umferð sem bætist við þegar búið verður að koma upp öllum þeim óskaplegu landfyllingum vestur af Ánanaustum og Örfirisey með tilheyrandi íbúðabyggð sem sumum dreymir um þar. Þessa leið um Geirsgötuna ek ég á hverjum degi í og úr vinnu og velhana frekar heldur en Hringbrautina, enda er alltaf skemmtilegt að akaframhjá gömlu höfninni. Ég mun hinsvegar forðast það að keyraneðanjarðar í einhverjum stokki enda ekki mikill neðanjarðarmaður.
En svo maður botni þetta, þá lítur allavega út fyrir að þótt byggingu tónlistarhússin verði lokið á næsta ári mun svæðið áfram verða framkvæmdasvæði í mörg ár enn og langur vegur þar til svæðið mun líta sómasamlega út hvort sem draumórar manna um uppbyggingu svæðisins ganga eftir eða ekki.
Byggingar | Breytt 18.11.2008 kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2008 | 20:20
Tónlistarhúsið rís
Það er óhætt að segja að Tónlistarhúsið sem menn byggja nú af miklum móð við Austurbakkann sé farið að setja sinn svip á bæinn þessa dagana. Að vísu er það þó bara múrverk, stál og byggingarkranar sem blasa við borgarbúum en það er ekki fyrr en glerverkið hans Ólafs Elíassonar er komið á sinn stað að við getum farið að átta okkur á hvernig þetta dæmi mun líta út allt saman. Eitthvað var nú verið að tala um það í fréttum að Kínverjarnir sem eru að smíða glerhjúpinn hafi verið í smá basli með hann sem gæti valdið töfum, enda verkið víst óskaplega flókið og kalla þá Kínverjar ekki allt ömmu sína í þeim efnum.
Áætlað er að að þetta mikla tónlistarmusteri verði risið fyrir árslok 2009 og eins gott að vel muni takast til því þessi 14 milljarða króna framkvæmd mun verða eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur um langa framtíð. Sjálfur er ég nokkuð vongóður um að þetta geti orðið vel heppnað framtak allavega eftir þeim myndum sem birst hafa af væntanlegu útliti, þótt þær sólarlagsbirtu-kynningarmyndir sem arkitektar bjóða upp á séu svona full súrrealískar til að vera marktækar.
Eins og mín er von og vísa þá hef ég tekið myndir af framkvæmdum um þetta leiti síðustu þrjú árin eins og þær blasa við frá Arnarhóli. Þann 22. ágúst 2006 þegar fyrsta myndin var tekin voru framkvæmdir stutt komnar en það voru hinsvegar síðustu dagar gömlu ásjónunar því nokkrum dögum síðar var farið á fullt að rífa Faxaskála sem þarna stóð í öllu sínu veldi.
En þótt byggingu tónlistarhússins verður lokið á næsta ári, á svæðið í heild samt langt í land með að verða fullklárað eins og gryfjan stóra sem þarna er búið að grafa ber vitni um. Kannski maður taki það fyrir í næsta helgarpistli.
Menning og listir | Breytt 18.11.2008 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2008 | 15:33
20 stiga sumur í Reykjavík
Sumarið er ekki alveg búið en það má samt slá því föstu að heitustu dagarnir séu að baki og varla miklar líkur á því að hitinn fari að æða yfir 20 stigin hér í Reykjavík úr þessu þótt dæmi séu um það í september. Þótt ársmeðalhitinn í Reykjavík sé tiltölulega hár á íslenskan mælikvarða er borgin þannig í sveit sett að 20 stiga hiti telst alltaf til tíðinda. Frá árinu 1930 telst mér til að komið hafi 23 sumur þar sem hitinn hafi einhvern tíma náð 20 stigum, þannig að við getum samkvæmt því verið að tala um ca. þriðjung sumra.
Snemma í sumar skrifaði ég tvö pistla um það þegar hitinn rífur 20 stiga múrinn hér í borginni og fylgdi annarri þeirra línurit sem sýnir hvenær hitinn hefur náð því hitastigi. En þar sem sumarið stóð sig svona frábærlega að þessu sinni er ekki annað hægt en að birta myndina aftur í uppfærðri útgáfu. Súlurnar sem þarna eru á myndinni sýna hámarkshita hvers sumars frá 1930 og eru þau sumur sem hafa náð hámarkshita yfir 20 stigum aðgreind með gulum lit og eins og sjá má þá slær sumarið 2008 allt annað út.
Það er athyglisvert þegar myndin er skoðuð hversu þétt 20 stiga sumrin komu á árunum 1934 til 1960, eða annað hvert ár að jafnaði enda talsvert hlýtt á því tímabili. Síðan varð breyting á, því eftir 1960 liðu sextán ár þar til loks kom 20 stiga dagur og það gerðist með glæsibrag því 9. júlí 1976 varð heitasti dagur 20. aldarinnar (24.3°C) og það á frekar köldu tímabili. Það met hefur síðan verið tvíbætt á þessari öld. Fyrst þann 11. ágúst 2004 (24.8°) og svo núna í sumar þann 31. júlí (25,7°).
Það má kannski velta því fyrir sér þegar myndin er skoðuð hvort möguleg efri mörk hitans í Reykjavík hafi eitthvað verið að hækka með árunum því á hlýju sumrunum árin 1930-1960 náði hitinn bara einu sinni almennilega yfir 22 stig. Kannski má kenna um mismunandi staðsetningu Veðurstofunnar í gegnum tíðina en svo er líka spurning hvort aukinn gróður og skjólsæld í borginni gefi tilefni til hærri hámarkshita á heitustu dögunum. Þessar vangaveltur breyta því þó ekki að svona er þetta samkvæmt opinberum gögnum og eins og hitafarið hefur verið almennt á landinu á þessari öld er kannski ekkert óeðlilegt að hitamet séu slegin.
(Heimildir eru fengnar af vef Veðurstofunnar og tímaritinu Veðráttan)
Eldri færslur um 20 siga hita í Rekjavík:
Hinn sjaldgæfi 20 stiga hiti í Reykjavík. Birt 9. júní
20 stiga sumur í Reykjavík. Birt 12. júní
Örlítil veðurminning 2. Birt 9. júlí
Veður | Breytt 7.11.2010 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2008 | 22:38
Stormur aldarinnar eða stormur í vatnsglasi?
Nú er bíða og sjá hver afdrif fellibilsins Gústavs verða þegar hann skellur á ströndum Bandaríkjanna en þótt Gustav hafi þegar gert nokkurn usla á nokkrum Karíbahafseyjum þykir alltaf fréttnæmast þegar fellibyljir gera strandhögg á sjálfum Bandaríkjunum. Borgarstjórinn í New Orleans hefur beðið borgarbúa að búa sig undir storm aldarinnar sem eru auðvitað stór orð eftir allt það sem á undan er gengið. New Orleans er vissulega sú borg í Bandaríkjunum sem er einna viðkvæmust ef stórir fellibyljir ganga þar á land enda liggur hún miklu leiti undir sjávarmáli þarna við óshólma Mississippifljóts og varin með flóðgörðum svo fólk geti gengið á þurru.
Fellibylurinn hefur þó ekki náð þeim styrk sem Katrín hin ógurlega gerði í lok ágúst 2005, en áður en sá fellibylur gekk á land hafði hann náð hæsta styrk þ.e. styrk 5 á fellibyljaskalanum. Það sama gerði Fellibylurinn Rita í september sama ár. Báðir þessir fellibyljir höfðu þó misst sinn mesta kraft er þeir komu að landi og voru þá metnir í stærðinni 3. Fellibylurinn Gustav hins vegar hefur fram að þessu aðeins náð styrknum 4 og því ekki hægt að flokka hann sem einhvern fellibyl aldarinnar. Það sem þó skiptir væntanlega mestu máli er styrkurinn þegar hann kemur að landi en spár sögðu á sunnudag að Gustav geti numið land sem 4. stigs fellibylur og ef þetta verður að auki direct hit á New Orleans getur útkoman vissulega orðið það sem þeir kalla worst case scenario.
Munurinn á Gustav og Katrínu virðist líka vera þannig að samkvæmt spám mun Gustav ekki fara hratt yfir þegar hann gengur á land þannig að úrhelli sem honum fylgir mun standa lengur yfir þótt vindstyrkur fari þverrandi inn til landsins. Svo er ekkert víst að Gústav hitti endilega New Orleans en honum er reyndar spáð aðeins vestar við borgina þannig að ekkert er víst að verstu spár gangi eftir og það á líka eftir að koma í ljós hvort hann hangi í jafnvel í 3. stigi þegar hann kemur að landi .
Nú svo þegar Gustav er genginn hjá þá bíður sá næsti átekta, Það er fellibylurinn Hanna sem hringsólar vestur af Bahamas en menn virðast ekki geta spáð fyrir um afdrif hans fyrr en Gústav hefur lokið sér af. Það er allavega líf og fjör á fellibyljaslóðum þetta árið ólíkt því sem hefur verið síðust tvö árin sem stóðu engan vegin undir væntingum ef má orða það svo.
(Eins og sést eru allar myndirnar fengnar af fellibyljasíðu Accuweather)
![]() |
Draugabærinn New Orleans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 3.10.2008 kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2008 | 18:17
Kanínustrákurinn Simbi
Nú er komið að fyrstu gæludýrabloggfærslunni á þessari síðu og kannski kominn tími til. Við erum samt ekki að tala um neina hunda eða ketti, heldur kanínu sem hoppar um á heimili bloggarans og ber nafnið Simbi.
Simbi er liðlega eins árs kanínustrákur, frekar smávaxinn, og hefur hárvöxt og lit sem minnir dálítið á hárvöxt ljóna enda er þetta eðalkanína af svokölluðu Lionhead-kyni. Það er hún Stefanía dóttir mín sem er löggildur eigandi Simba en hún var fljót að nefna hann þessu nafni í höfuðið ljónsungann úr Lion-King teiknimyndunum.
Við á heimilinu höfðum enga reynslu af kanínuhaldi þegar við tókum Simba að okkur í fyrrahaust og Simbi var heldur ekki mjög lífsreynd kanína þá, enda bara nokkurra vikna. Hann hefur alltaf búið innandyra en líkar ekkert vel við að vera lokaður inní búri svo hann fær bara að stjórna sínum ferðum sjálfur en á samt sitt búr sem hann hoppar úr og í þegar hann vill.
Stundum fær hann þó að fara út í garð en þar er ýmislegt að róta í, skoða og smakka. Svo er líka ýmislegt innandyra sem Simba þykir gott að narta í. Bækur og blöð eru t.d. í miklu uppáhaldi en verra er með allar rafmagnssnúrurnar sem fyrir honum eru sem hinn besti lakkrís. Það hefur því þurft að gera ýmsar ráðstafanir svo við getum notið dásemda raftækninnar í friði.
Annars þarf yfirleitt lítið að hafa fyrir Simba, hann gengur hljóðlega um, felur sig gjarnan tímunum saman í innstu skúmaskotum eða situr hinn rólegasti á gólfinu með eyrun sperrt en það er sjálfsagt eðli kanína að vera varar um sig enda aldrei að vita hvar hætturnar leynast í þessum viðsjárverða heimi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)