Fólksfjölgunarpistill

Á hverri mínútu sem líður má gera ráð fyrir að um 134 fleiri börn fæðist í heiminn umfram þann fjölda fólks sem gefur upp öndina á sama tíma. Í fljótu bragði virkar það kannski ekki svo mikið en þýðir þó að á einu ári fjölgar fólki í heiminum um tæpar 72 milljónir sem er heldur minni fjöldi en byggir Þýskaland en hinsvegar meiri fjöldi en allir Bretar eða Frakkar. Fólksfjöldinn í heimunum í dag er áætlaður um 6.750 milljónir og hefur fjölgað um einhverjar 700 milljónir frá ársbyrjun ársins 2000.

Eftir stutta skoðun þá sýnist mér vera gert ráð fyrir því að um miðja þessa öld hafi dregið nokkuð úr fjölguninni og þá verði fjöldi jarðarbúa kominn í 9-9,5 milljarða. Auðvitað er talsvert mikil óvissa í gangi og engin veit með vissu við hvaða mark fjölgun jarðarbúa muni að lokum stöðvast, það gæti allt eins gerst við 8 milljarða markið en langvarandi áframhaldandi fjölgun jafnvel upp í 20 milljarða er þó ekkert útilokuð í framtíðinni. Megnið af fólksfjölgun framtíðarinnar mun væntanlega eiga stað í fátækari hluta heimsins á meðan fólki mun frekar fara fækkandi á hinum þróuðu Vesturlöndum.

Ég man eftir mynd sé ég sá fyrir margt löngu í mannfræðikennslubók og leit út einhvernvegin eins og þessi hér að neðan. Á myndinni má sjá á einfaldan hátt hvernig fæðingar og dánartíðni fólks er tengd þróunarstigi samfélagsins og hvað áhrif það hefur á fólksfjölgun.

fólksfjölgun

Þarna má sjá að í vanþróuðum samfélögum er fæðingartíðnin há en dánartíðnin einnig. Þetta er það ástand sem mannkynið hefur lengst af verið í en mannfjöldin ræðst þá aðallega af náttúrulegum aðstæðum og mannfjöldin er í samræmi við það sem landið ber hverju sinni. Ýmis skakkaföll s.s. náttúrhamfarir eða plágur geta snarfækkað fólki en þegar aðstæður breytast til hins betra á ný er mannfjöldinn fljótur að ná sér á strik uns náttúrulegu hámarki er aftur náð. Breytingar á loftslagi eða búskaparháttum geta líka haft áhrif á náttúrulegt hámark.

Þegar framfarir urðu í læknavísindum ásamt ýmsum tækniframförum, urðu til þróunarsamfélög sem einkenndust að því að sífellt fleiri börn komust á legg á sama tíma og fæðingartíðnin hélst áfram há og útkoman mikil mannfjölgun. Vesturlönd komust á þetta stig á 19. öld en aðrir heimshlutar síðar. Þróunarlönd eru þau lönd síðan kölluð sem eru enn á þessu stigi og þar á fólksfjölgun heimsins sér aðallega stað.

Í þróuðum samfélögum vesturlanda er komið nýtt jafnvægi þar sem fæðingartíðnin er komin niður á sama plan og dánartíðnin og fólksfjölgunin dottin niður. Þetta er samt allt annarskonar jafnvægi heldur en í vanþróuðum samfélögum því hér ríkir meiri stöðugleiki þar sem fólkið er ekki eins háð duttlungum náttúrunnar. Það eru því helst samfélagslegar ástæður sem þarna hafa áhrif eins og hvort fólk hreinlega megi vera að því eða eru í aðstöðu til að eiga börn.

Mannfjöldaþróun heimsins mun samkvæmt þessu ráðast af því hvernig þróunarlöndum þriðja heimsins tekst að komast á það stig sem við á Vesturlöndum erum á, það getur verið langsótt og ekkert víst að það gerist svona yfirleitt. Hugsanlegt er jafnvel að einhverjum samfélögum hraki svo illa að jafnvægi skapist á ný með einhverskonar bakþróun sem einkennist af hárri dánartíðni eins og var til forna.

 


Veðuruppgjör 2008

Þeir hafa verið margir frídagarnir undanfarið og góður tími gefist til að sinna ýmsum mismerkilegum hlutum og eins líka til að gera ekki neitt, sem er auðvitað mjög gott. Hvað mig varðar þá hef ég varið tímanum undanfarið meðal annars til að skoða veðrið á liðnu ári enda eru uppgjör tengd veðrinu ólíkt meira upplífgandi nú um stundir heldur mörg önnur.
Til að koma veðri síðasta árs til skila á sem einfaldastan hátt hef ég útbúið mynd sem sýnir hitafar, sólskin og úrkomu liðins árs í Reykjavík í einu lagi, en svipaða mynd gerði ég einnig í fyrra. Rauða línan sýnir hvernig meðalhiti hverrar viku þróaðist yfir árið og er unnin upp úr mínum eigin skráningum en þar er um að ræða hitann yfir daginn en ekki meðalhita sólarhringsins. Granna svarta línan sýnir svo hvernig hitinn ætti að vera miðað við nokkurskonar meðalárferði.
Gulu sólskinssúlurnar eru teiknaðar útfrá gögnum Veðurstofunnar og sýna sólskin í mánuðinum hlutfallslega (%) miðað við meðalár. Þannig táknar súla nálægt gildinu 100 að sólskin hefur verið í meðallagi en svo vill til að hitaskalinn til vinstri gefur síðan ágæta vísbendingu um fjölda sólskinsdaga.
Úrkomusúlurnar eru einnig teiknaðar eftir gögnum veðurstofunnar og sýna úrkomu hvers mánaðar í millimetrum miðað við skalann til hægri. (eða í cm miðað við skalann til vinstri).

Veðuryfirlit 2008
Svo maður fari aðeins yfir þetta þá var hitafar ársins ekkert sérstaklega óvenjulegt miðað við síðustu ár. Þetta var hlýtt ár sögulega séð. Yfir vetrarmánuðina voru miklar hitasveiflur eins og oft vill verða en ólíkt mörgum nýliðnum árum var samt lítið um langvarandi vetrarhlýindi að þessu sinni en uppistaðan í góðum meðalhita ársins var hlýtt sumar eftir hlýtt vor. Í maímánuði kom til dæmis ekkert bakslag með köldum norðanáttum og varð mánuðurinn sá hlýjasti síðan 1960. Hitatoppur ársins er síðan mjög áberandi, en frá 25. júlí til 1. ágúst gerði fjóra mjög hlýja daga í Reykjavík, hæst komst hitinn í 25,7°C þann 30. júlí sem er nýtt hitamet í borginni. Það haustaði mjög snöggt í byrjun október og var mánuðurinn álíka kaldur og nóvember sem gerist ekki oft.

Sólskin á árinu var yfir meðallagi en þar er helst því að þakka að sólskin í júnímánuði varð nálægt tvöfalt það sem gerist venjulega og endaði í 2.-3. sæti yfir sólríkustu júnímánuði í Reykjavík, en jafnsólríkt varð árið 1924. Sólin skein hinsvegar lítið í maí enda óvenjulítið um sólríkar og kælandi norðanáttir.
Úrkoman var líka mjög mismikil, heldur meiri en í meðalári og gjarnan í öfugu hlutfalli við sólskinið eins og eðlilegt er. Úrkoman í júní var ekki nema 13 millimetrar enda ekki nema einn almennilegur rigningardagur í mánuðinum (7. júní). Nokkrir mánuðir voru svo talsvert úrkomusamir og þá sérstaklega september en þar vantaði ekki nema 2 mm til að úrkomumet mánaðarins frá árinu 1887 yrði slegið.

Margt meira má skrifa um veðrið á árinu en ýmsar merkilegar veðuruppákomur áttu sér svo stað á landsvísu og á einstökum stöðum en þetta yfirlit nær aðeins til veðursins í Reykjavík, enda er það mitt heimapláss. Veðurstofan gera þessu auðvitað ágætis skil á sinni heimasíðu og svo hefur veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson gert ýmsum hápunktum veðursins 2008 skil á sinni bloggsíðu.


Árshiti síðustu 100 ára í Reykjavík á einni mynd

Veðurstofan hefur upplýst að meðalhiti ársins í Reykjavík hafi náð 5,3°C. Það er í ágætu samræmi við hita síðustu ára en heilli gráðu yfir meðalhita viðmiðunartímabilsins 1961-'90. Til að sýna árshitann í víðara samhengi hef ég útbúið nokkuð litríka mynd að hætti hússins þar sem hægt er að bera saman árshita síðustu 100 ára í Reykjavík samkvæmt opinberum gögnum. Í stað þess að sýna þetta á línuriti eins og venjan er, eru árin nú sýnt með kössum sem eru staðsettir eftir hitaskalanum til vinstri. Hver áratugur hefur síðan sinn lit til aðgreiningar. Undir myndinni má svo lesa nánari athugasemdir.

Árshiti í 100 ár

Ef myndin er skoðuð sést að árið 2008 er þarna í ágætum félagsskap með árunum 1953 og 1956 með 5,3°C í meðalhita. Hlýjast er árið 2003 og árin 1939 og 1941 eru svo í 2-3 sæti, en þessi þrjú ár eru sögulega séð afar hlý og marka nokkurn veginn hitatoppana tvo sem hafa komið á landinu síðustu 100 árin. Talsvert köld ár komu um og eftir árið 1979 sem situr nokkuð afgerandi á botninum með meðalhitann aðeins 2,9°C sem er talsvert kaldara en köldu árin í kringum frostaveturinn mikla 1918, en til að finna kaldara ár en 1979 þarf að fara aftur til ársins 1892.

Það er athyglisvert hvað hitasveiflur hafa verið litlar eftir árið 2000 sem eru öll fyrir ofan 5 gráðurnar sem þýðir að meðalhiti síðustu ára er hærri en hefur verið áður. Á fjórða og fimmta áratugnum komu vissulega mjög hlý ár en meðalhiti þeirra ára var hinsvegar dreginn niður af lakari árum sem þá komu inn á milli.

Svo er bara spurning hvað gerist á þessu ári sem er framundan en mörgum á þó sjálfsagt eftir að hitna í hamsi á árinu 2009 burt séð frá veðrinu.


mbl.is Hitinn yfir meðallagi árið 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta bloggfærsla ársins

Hið stórkostlega ár 2008 er um það bil að syngja sitt síðasta og af því tilefni ætla ég ekki að fjalla um neitt sem orð er á gerandi sjálfsagt til mikilla vonbrigða fyrir þá sem von hafa átt á einhverju stórkostlegu um gang himintunglanna eða stöðu mannsins í eilífðinni. En allt slíkt verður að bíða til næsta árs en þá má t.d. eiga von á veðuruppgjörum fyrir liðið ár þegar lokaupplýsingar um það liggja fyrir. Veðrið er annars eitt af meginviðfangsefnum þessarar síðu enda hef ég fylgst náið með veðrinu í yfir 20 ár með því að halda úti veðurdagbók en þannig hef ég smám saman öðlast ágæta þekkingu á því fyrirbæri sem veðrið er. Kannski ætti ég einhvern daginn að birta svo sem eins og einn mánuð úr þessari veðurbók. Það held ég að sé verða dálítið merkileg bók, þótt ég segi sjálfur frá.

Ég hef líka lengi haft áhuga á jarðfræði allskonar en þeim fræðum kynntist ég áður en ég fór að grúska í veðrinu. Jarðfræðin er hins vegar ekki eins lifandi fræði því þar gerast hlutirnir mun hægar fyrir sig en í veðrinu. Hver dagur í veðrinu er svona svipaður og þúsund ár í jarðfræðinni. Það má semsagt eiga von á einhverjum jarðfræðiskrifum á næstunni, hvort sem það tengist líðandi stund eða ekki.

Hvað varðar ástandsskrif eins og flestallar bloggsíður eru undirlagðar af þá ætla ég áfram að standa utan við allt svoleiðis eins og ekkert hafi í skorist. Þögn er þó ekki endilega sama og samþykki, þetta snýst bara um ritstjórnarstefnu hjá mér og henni skal framfylgt hvað sem á dynur. Ég hef þó einstaka sinnum minnst á þetta bakslag sem hefur orðið á góðærinu og mætti kalla einhverskonar harðindi. Þar eru vissulega sumir í hlutverki sökudólga á meðan aðrir og reyndar flestir eru fórnarlömb. Erfitt getur verið að átta sig á hverjir eru í rauninni sekir og hverjir saklausir en eins og gengur og gerist í réttarkerfinu þá eru bæði þolendur og gerendur vanhæfir til að fella þá dóma.

En svo er myndlistin og listasagan alltaf áhugavert umfjöllunarefni en ólíkt náttúrfræðunum þar sem ég er bara menntaskólaður eða sjálflærður, þá hef ég allavega próf frá æðri menntastofnun í sjónmenntum og listasögu. Tilvalið er einmitt að enda þennan síðasta pistil ársins á málverki frá árinu 1568, málað af Flæmingjanum Peter Bruegel, stundum nefndur bænda-Bruegel. Myndefnið vísar í orð Krists í biblíunni og hefur víðtækar skýrskotanir: „Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju“ (Mattheus 15:14).

blindir


Hinar björtu hliðar lífsins - Monty Python

Jólin eru enn á góðu róli, dagarnir byrjaðir að lengjast á ný og myrkrið smám saman farið að víkja fyrir birtunni. Það er líka komið að lokum þessa mánaðar og einnig þessa dæmalausa árs sem endaði svona frekar hallærislega. Sú venja hefur skapast á þessari síðu undir lok hvers mánaðar að bjóða upp á tónlistaratriði og hefur sá liður átt síauknum vinsældum að fagna - þó ekki almennum. Að þessu sinni varð ritstjórninni nokkur vandi á höndum hvað velja skildi því ákveðið hefur verið að leggja niður þennan dagskrárlið á nýju ári en taka í staðinn upp annan lið, að vísu svipaðan en undir öðrum formerkjum.

Það sem að lokum varð ofaná er tónlistaratriði frá hinum spaugsama hópi Monty Python sem sendi frá sér árið 1975 kvikmyndina Life of Brian. Þar segir frá manni sem uppi var í Júdeu fyrir 2000 árum og átti meira sameiginlegt með Jésú Kristi en hann sjálfur kærði sig um, en slík óheppni endar að sjálfsögðu bara á einn veg - á krossinum. En þegar lífið er ekki alveg eins og maður sjálfur hefði kosið er auðvitað nauðsynlegt að gleyma sér ekki yfir svartnættinu og líta þess í stað á björtu hliðarnar. Þær má alltaf finna einhversstaðar.

Myndband mánaðarins að þessu sinni er lagið Always look at the bright side of life með Monty Python hópnum og ef þetta eru helgispjöll núna á jólunum, þá fyrirgefi mér allir heilagir, en meiningin er allavega góð.

Hér má sjá yfirlit yfir þau mánaðarlegu tónlistaratriði sem ég hef birt á árinu:


Veðurfregnir

Veðurkort 27.des2008

 

Þegar þetta er skrifað að kvöldi Þorláksmessu lítur ekki út fyrir annað en að jólin gangi í garð á tilsettum tíma á morgun, jafnvel þrátt fyrir að öllum jólasnjónum hafi skolað á haf út í slagviðri gærkvöldsins. Lægðargangur með öllum sínum landsynningum og útsynningum á víxl þykir svona almennt ekki vera ákjósanlegt veðurlag. Lægðin sem olli rigningunni í gærkvöldi (22.des) var sú fyrri í tveggja lægða seríu, en sú seinni er um það bil að skella á með meiri rigningu sem fylgir suðaustan-landsynningnum, en síðar slydduéljum sem taka völdin þegar suðvestan-útsynningurinn tekur völdin á aðfangadag.

Þegar þessi seinni lægð hefur lokið sér af hér við land, er ekki annað að sjá samkvæmt þeim kortum sem ég hef grafið upp en að hingað komi engar fleiri lægðir fyrr en einhvern tíma árið 2009. Þetta má t.d. sjá á kortinu hér að ofan þar sem heilmikið hæðarsvæði hefur breitt úr sér yfir allri Evrópu og veldur þar allsherjar veðurleysu. Áhrifin af völdum hæðarinnar ná alla leið til Íslands þannig að við verðum í mildri sunnanátt á meðan lægðirnar vestur af landinu komast hvergi en stefna þess í stað norður með Grænlandi.

Í framhaldi af þessu er því svo spáð að hæðin fikri sig jafnvel nær Íslandi svo úr verður hugsanlega eitt af bestu áramótaveðrum sem komið hafa um gjörvallt land um langan tíma. Þá mun kuldinn hellast yfir Evrópu og hlýna þess í stað á Grænlandi en eins og allir vita þá er alltaf hlýtt vestan megin við hæðir en kalt austan megin við þær, þ.e. réttsælis snúningur á vindi. Ef hæðarmiðjan nær til Íslands verður hinsvegar ekkert rangsælis eða réttlætis í veðrinu og vonandi ekkert ranglæti heldur.

Gleðileg jól.


Vetrarsólstöður, Keilir og jólin

solarlag

Þegar sólin sest í dag, á stysta degi ársins hverfur hún á bakvið fjallið Keili, séð frá Suðurgötunni og Ægisíðunni í Reykjavík. Það má alveg halda því fram að þetta sé ekki tilviljun. Til forna voru ýmis kennileiti í landslagi notuð til að marka sólarganginn sem gæti komið ágætlega saman við myndina hér að ofan sem ég tók við Ægisíðuna um vetrarsólhvörf árið 1981, en þar sést sólin setjast bakvið fjallið Keili og ef vel er að gáð má sjá Bessastaði í sólroðanum.

Það má vel ímynda sér að hinn píramídalagaði Keilir hafi verið tilvalinn sem viðmiðunarpunktur á gangi sólar og jafnvel átt sinn þátt í því hvar fyrsti landnámsmaðurinn hafi valið bæ sínum stað. Sólin, tunglið og stjörnurnar skipuðu stóran sess í trúarlífi fólks til forna. Þegar sólin hafði sest bakvið fjallið á stysta degi ársins var beðið milli vonar og ótta þar til ljóst var að guðunum hafði þóknast að lengja sólarganginn á ný. Það kom hinsvegar ekki í ljós fyrr en 2-3 dögum eftir vetrarsólstöður og þá var ástæða til fagna nýju ári með nýrri fæðingu sólarinnar og frelsara mannanna. Sú hátíð heitir í dag jól.

Sólargangur 21.des

Fyrir mörgum árum var í sjónvarpi allra landsmanna frétt um þessi tengsl milli staðsetningar Reykjavíkur, sólarinnar og Keilis við vetrasólhvörf og voru þá fleiri staðir nefndir til sögunnar. Ef dregin er lína milli miðbæjar Reykjavíkur og Keilis kemur í ljós að sú lína liggur einnig um Bessastaði á Álftanesi og Kapelluhraun við Straumsvík, en af einhverjum ástæðum hefur það þótt helgur staður til forna. Ef línan er hins vegar framlengd í hina áttina frá Reykjavík í norðaustur liggur hún um kirkjustaðinn og landnámsbæinn Brautarholt á Kjalarnesi, og hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá liggur línan einnig um Saurbæ í Hvalfirði og áfram upp í Reykholt í Borgarfirði, en þeir staðir eru að vísu ekki í sjónlínu við Keili.

Þessar vangaveltur tengjast vitanlega því sem fræðimaðurinn Einar Pálson hélt fram á sínum tíma en hann rannsakaði mikið landshætti á Rangárvöllum og hvernig landslagið þar væri hugsanlega notað sem einskonar sólúr sem í leiðinni endurspeglaði skipan heimsins. Hann gaf svo út bækur um ýmiss konar tölfræði tengdri gangi sólar og hvernig rætur íslenskrar menningar tengjast goðsagnarheimi fornra Miðjarðarhafsþjóða og Kelta. 

Því hefur líka verið haldið fram að rætur kristninnar liggi víða og eigi sér lengri sögu en almennt er talað enda virðist Jesú eiga sér ýmsa bræður í eldri trúarbrögðum sem fæðast allir á jólinum sem einskonar frjósemisguðir og mannkynsfrelsarar. En hvort sem menn telja sig sannkristna eða eitthvað annað þá er full ástæða til að taka hina ævafornu hátíð, jólin, hátíðlega.

- - - - -

Nánar um fræði Einars Pálssonar má lesa hér (tekið saman af Pétri Halldórssyni).

Einnig má vísa í Ágúst H. Bjarnason sem skrifaði í gær um 5.000 ára grafhýsi á Írlandi sem tengist náið vetrarsólhvörfum. (Sjá hér)

 


Hin heilaga litaþrenning

ljósdeplar

Nú er farið að styttast í hátíð ljóssins og jólaljósin hvarvetna farin að lýsa. Af því tilefni ætla ég að að hella mér út í smá litapælingar en litir og ljós eru auðvitað nátengd fyrirbæri því án ljóssins eru engir litir.

Í rauninni er ljós ekkert annað en orka eða hinn sýnilegi hluti rafsegulbylgna sem geisla út frá ljósgjafa sínum eða endurkastast frá hinum og þessum efnum og flötum. Misjafnt er hinsvegar hversu mikið af litrófi ljóssins hlutir endurkasta frá sér, svartir hlutir gleypa í sig alla orku ljóssins en endurkasta ekki neinu á meðan hvítir hlutir endurvarpa öllu litrófi ljóssins og eru því hvítir og kaldir. Litaðir hlutir hinsvegar gleypa í sig þann hluta litrófsins sem þeir endurkasta ekki, þannig gleypa til dæmis laufblöð í sig hina orkuríku rauðu liti en fúlsa hins vegar við hinum orkuminni grænu litum og endurkasta þeim. Þess vegna eru laufblöð græn.

Oft er talað um frumlitina þrjá sem allir aðrir litir eru gerðir úr og er þá yfirleitt talað um gulan, rauðan og bláan sem frumliti og með blöndu úr þeim megi fá út alla heimsins liti. Þegar prentað er í lit hvort sem er á litlum heimilisprenturum eða í stórum prentvélum eru notaðir þrír litir sem kallast Cyan (blár), Magenta (rauður) og Yellow (gulur). Þetta eru allt mjög hreinir og skærir litir og eru í raun hinir sönnu frumlitir. Rauði liturinn (magenta) getur þó varla talist rauður því hann er dálítið út í bleikt en er ekki þessi eldrauði litur sem er svo algengur. Ástæðan er einfaldlega sú að eldrauður er ekki frumlitur á sama hátt og blár og gulur heldur er hann samsuða úr Yellow og Magenta litunum eins og litirnir heita í prenti.

CMY-litir

Á myndinni hér að ofan sést hvernig þessir þrír frumlitir blandast. Þarna sést t.d. græni og rauði liturinn og svo dökkblár litur dálítið út í fjólublátt, en þessir litir kallast annars stigs litir. Þegar frumlitirnir leggjast allir ofan á hvern annan af fullum styrk fæst svartur litur. Grár litur fæst síðan með því að draga úr styrk litanna þriggja í nákvæmlega sömu hlutföllum, en séu hlutföllin ójöfn fást hinir ýmsu jarðlitir. Ath þetta fæst aðeins út ef litir eru transparent eins og prentfarfi eða blek og leggjast ofan á hvítan grunn. Í prenti er reyndar einnig notaður svartur (black) sem fjórði litur og því er oft talað um CMYK-liti í sambandi við fjögurra lita prentun eftir upphafsstöfum litana, nema að Ká-ið kemur úr aftasta stafnum í Black.

Ljóslitir

En svo ar annar flötur á þessu litamáli. Litirnir sem ég lýsti hér að ofan byggjast á því að litirnir leggjast ofan á hvítt undirlag. Hinsvegar gegnir allt öðru máli þegar litir koma sem einskonar ljós úr myrkri en þá getum við farið að tala um ljósliti. Ef ljósið er samsett úr öllum litum litrófsins er það hvítt, en ef ljósið er deyft niður í ekki neitt er útkoman að sjálfsögðu svart myrkur.

RGB-litir

Ljósið á einnig sína frumliti og með blöndun þeirra er hægt að fá út alla mögulega litatóna. Þeir frumlitir eru Rauður, Grænn og (dökkfjólu-)Blár, þ.e.a.s. litirnir sem liggja á milli litanna Cyan, Magenta og Yellow. Þessir ljóslitir eru oft skammstafaðir RGB (Red, Green, Blue), en það litakerfi er einmitt notað í tölvuskjáum og sjónvörpum eða þar sem ljósið teiknar það sem við erum að horfa á. Þegar tveir frumlitir í RGB koma saman verða síðan til sömu litir og mynduðu frumlitina í CMY-kerfinu (Cyan, Magenta og Yellow) nema hvað þeir eru ljósari.

- - -

Þá höfum við það. Ef við ætlum að skilgreina frumliti þá þarf að fylgja sögunni hvort við séum að tala um liti sem leggjast ofan á hvítt eða liti sem koma sem ljós úr myrkri. Cyan, Magenta og Yellow eru sjálfsagt sannir og góðir frumlitir, en hinsvegar eru Rauður, Grænn og Blár frumlitir ljóssins eða hin háheilaga litaþrenning ljóssins. 


Árið 2008 er kaldasta árið það sem af er öldinni

Nú er búið að gefa það út að þetta ár verður það kaldasta á jörðinni síðan árið 2000. Þegar svona fréttir birtast er auðvitað hægt að túlka þær á mismunandi hátt eftir því hvaða viðhorf menn hafa til loftslagshlýnunar af mannavöldum. Kaldasta árið það sem af er þessari öld hljómar vissulega ekki vel á sama tíma og allt á að vera hlýna. Hinsvegar er árið 2008 samt í 10. sæti yfir hlýjustu árin frá því mælingar hófust en þessi 10 hlýjustu ár hafa öll átt sér stað á síðustu 15 árum. Á árunum fyrir 1980 hefði þetta ár hins vegar verið algerlega út úr kortinu vegna hita, svo mikið hefur hlýnað á jörðinni undanfarna áratugi. 

Hitalinurit_1850-2008

 

Á meðfylgjandi línuriti sem birtist með frétt um þetta á vef Guardian er sýnd hitaþróun jarðarinnar frá miðri 19. öld samkvæmt gögnum frá Met Office's Hadley Centre. Á þessari mynd má greinilega sjá talsverðar sveiflur, ekki bara á milli ára heldur líka á milli áratuga. Það má alveg velta því fyrir sér þegar myndin er skoðuð hvort ákveðnum toppi hafi verið náð um og eftir árið 2000 og hvort eitthvað bakslag sé komið í hitafar jarðar. Það bakslag gæti kannski verið svipað því sem átti sér stað uppúr 1940 og jafnvel einnig árið 1880. Ef svo er þá erum við með 3 megin-hitabakslög á 60 ára fresti, þótt langtímaþróunin liggi upp á við.

Annars er ómögulegt að segja hvar við erum stödd í dag. Árið 2008 er hugsanlega bara eitt stakt kalt ár en gæti líka verið byrjunin á tímabundinni niðursveiflu eða stöðnun á hita eins og ýmislegt bendir reyndar til, meðal annars vegna þess sem er að gerast í Kyrrahafinu, en það stóra hafsvæði virðist vera að læsast í köldum fasa sem getur varað í nokkur ár eða áratugi (sjá hér). Hinsvegar valda gróðurhúsáhrifin ein og sér tæplega áratugasveiflum í hita því aukningin á CO2 er stöðug, en þau geta vel átt sinn þátt í heildarhlýnun síðustu 100 ára.

Ég lagði annars dálitla vinnu í að skoða hugsanleg áhrif sólarinnar og hafsstrauma á hitafar í færslu sem ég skrifaði núna í október þar sem spurt var í hinni mestu hógværð: Hvað veldur hlýnun jarðar?


Jólin verða hvít í ár

Allavega samkvæmt þessu:


Hvernig lítur íslenski fáninn út?

Ég ætla að halda áfram á þjóðlegum nótum en þó ekki alveg í sauðalitunum því nú er það okkar ástsæli þjóðfáni sem ég ætla að taka fyrir. Íslenska fánanum hefur talsvert verið flaggað undanfarið og ýmsir farnir að merkja sinn varning með fánanum til að undirstrika innlendan uppruna þess sem verið er að selja. Allt gott um það að segja nema hvað að mér hefur oft fundist vera dálítið kæruleysi ríkjandi varðandi það hvernig hann birtist. Litirnir í fánanum eru t.d. gjarnan mjög úr skorðum og hlutföllin oft bara einhvernvegin. Það eru til mjög skýrar reglur um hlutföll fánans sem auðvelt er að fylgja, en þegar kemur að litunum þá vandast málið og ekki óeðlilegt að ýmsar litaútgáfur komi fram.

fánalitirLitir

Þegar íslenski fáninn var upphaflega ákveðinn árið 1915 var lýsingin á litunum þannig að hann skuli vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi inn í hvíta krossinum. Það eru flestir sammála um það hvernig hárauður litur er og hvítur er jú alltaf bara hvítur, en hinsvegar er það þetta með heiðbláa litinn sem er erfiðara. Ef lýsingunni á bláa litnum væri fylgt af alvöru ætti blái liturinn að vera miklu ljósari en við eigum að venjast og fáninn að líta út einhvernvegin eins og sést hér efst til hliðar.

Hinsvegar hefur skapast sú hefð að nota dekkri bláan lit í staðinn fyrir þennan ljósbláa, eða bara svona „venjulegan“ bláan lit sem er hvorki dökkur né ljós. Eðalbláan mætti kannski kalla hann, en heiðblár er hann varla.

Á vef forsætisráðuneytisins eru upplýsingar um fánann og hann sýndur og mætti ætla að þar væri hinn eini sanni litur á ferðinni. Hinsvegar eru blái liturinn þar ekki lengur eðalblár heldur beinlínis dimmblár og heiðríkjan hvergi til staðar. Að vísu eru litir á tölvuskjáum alltaf misjafnir og því aldrei alveg marktækir. Hinsvegar er til skilgreining á litunum í kerfi sem nefnist Standard Colour of Textile, Dictionaire Internationale de la Couleur. Þar hefur heiðblái liturinn fengið númerið: SCOTDIC nr. 693009. Þetta litakerfi er mjög víðfeðmt en því miður virðist ekki vera hægt að kalla fram þennan lit í þeim forritum sem notuð er til mynd- og prentvinnslu. Fánalitirnir hafa hinsvegar verið skilgreindir í prentlitakerfum og þar er blái liturinn Pantone nr.287 og í CMYK: 100c+69m+11,5k. Fólk er kannski ekki miklu nær en ég get þó staðfest að þetta eru nokkuð dökkir litir eða svipaðir þeim dimmbláa sem sýndur er hér neðst til vinstri. Mig grunar reyndar að yfirfærsla staðallitarins yfir í prentliti hafi gefið þessa full dökku niðurstöðu.

Ljósari fáni í gamla daga?

Það er spurning hvort upphaflega hafi blái litur fánans verið talsvert ljósari en í dag eða nokkurnveginn heiðblár eins og hann á að vera samkvæmt uppskriftinni. Á gömlum svarthvítum myndum sem teknar voru fyrir 1944 virðist blái liturinn allavega hafa verið nokkuð ljós samanber þessa mynd sem tekin var af þessum staðföstu skátum árið 1928. Fleiri myndir, t.d. frá Alþingishátíðinni 1930, sýna bláa lit fánans með sama ljósgráa tóninum.

skátar 1928

 

fánahlutföll

 
Hlutföll fánans

Eins og ég nefndi eru til tölur sem taka af allan vafa um hlutföll fánans, en þær eru þannig talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd hans samkvæmt fánalögum. Þessi hlutföll eru yfirleitt í góðu lagi á alvöru fánum sem blakta á fánastöngum. Hinsvegar er ekki annað hægt að segja en að talsvert kæruleysi sé til staðar hjá þeim sem nota fánann á ýmsum prentgripum eða jafnvel á litlum 17. júní-fánum sem seldir eru börnum. Oft er t.d. rauði krossinn allt of breiður miðað við hvíta flötinn eða báðir krossarnir of mjóir miðað við fánann í heild. Dæmi um þetta má sjá hér að neðan á nokkrum fánum sem urðu á (Lauga)vegi mínum í dag. 

 

Fánarmyndir1

 

 

 

Svona birtist fáninn víða á Laugaveginum. Báðar útgáfur eru fjarri réttum hlutföllum.

  
fánarmyndir 2

 

Tveir blaktandi fánar við verslanir. Báðir nokkuð réttir í hlutföllum nema að rauði krossinn í þeim er misbreiður miðað við hvíta krossinn. Sá til hægri þó sennilega réttur.


Íslensku sauðalitirnir og þjóðernisrómantíkin

Þrotaveturinn mikli er farinn að hellast yfir okkar af fullum þunga og sér ekki fyrir endann á. Í þrengingum þessum er talað um að við Íslendingar þurfum að standa saman sem aldrei fyrr. Nú er um að gera að velja íslenskt, flagga íslenska fánanum, ganga í lopapeysum, borða skyr, (þó ekki að sletta skyrinu að óþörfu) og síðast en ekki síst eigum við að tala kjarnyrt íslenskt mál – enskuslettur tilheyra árinu 2007 enda „So last year“.

Emil og kindVið svífum ekki lengur á rósrauðu skýi líkt og áður því nú eru það sauðalitirnir og sem gilda. Þetta veit íslenska sauðkindin sem hér hefur þraukað í yfir þúsund ár og haldið í okkur í lífinu. Henni til heiðurs mun ég sjálfur birtast í sauðalitunum hér á síðunni, þar til vorar að minnsta kosti. Tekið er fram að á myndinni hér til hliðar er höfundur sá sem er til vinstri á myndinni.

Því miður vilja nú æði margir að við göngum í ríkjabandalag Evrópuþjóða og telja það skynsömustu leiðina fyrir okkur og til mikilla hagsbóta. Það má vel vera að út frá hagfræðinni einni saman sé það skynsamlegt að hræra okkur í sama graut og meginlandsþjóðirnar en það er líka margt annað sem gæti verið fjárhagslega skynsamlegt, eins og til dæmis að virkja alla fossa landsins og hætta að tala íslensku. Það gæti líka verið skynsamlegt fyrir okkur að hætta þessu basli öllu saman og flytjast búferlum á danskar heiðar. Við höfum alltaf þetta val sem er ágætt útaf fyrir sig en þá má ekki gleyma að það eru til önnur rök og jafngild heldur en köld hagfræði- og skynsemisrök. Þar á ég við hin einföldu tilfinningarök sem segir okkur hvað við viljum í raun.

Ég get alveg viðurkennt að ég er dálítill þjóðernisrómantíker af gamla skólanum sem líkar vel að búa í stórbrotnu landi og tilheyra þjóð sem er svolítið sér á báti með sínar sérviskur. Ekki það að ég telji okkur Íslendinga vera eitthvað yfir aðrar þjóðir hafnir því sjálfsagt erum við ekkert klárari í kollinum en gengur og gerist. Hæfileg þjóðernisrómantík þarf heldur ekki að þýða að við eigum að einangra okkur og hætta að taka þátt alþjóðasamfélaginu. Við Íslendingar erum hinsvegar auðlindaþjóð ólíkt meginlandsþjóðum Evrópu sem aðallega eru í því að selja hverri annarri sama kálið. Á okkar auðlindunum höfum við alltaf byggt okkar grunn og þær eigum við að eiga útaf fyrir okkur og nýta í góðri sátt við landið.

- - - -

Svona lokin verð ég að minnast á að eftir síðustu færslu þurfti ég í fyrsta skipti að beita ritskoðun hér á síðunni. Ástæðan var sú að grínari sem kallaði sig Pétur P. Proppé var með þrálátar kjánaathugasemdir sem ég gat ekki látið viðgangast endalaust. Ég áttaði mig þó fljótt á að þar var á ferðinni hrekkur í tilefni af óvinaviku í vinnunni hjá mér. Ég læt samt fyrstu athugasemdirnar frá honum lifa áfram enda viss húmor í þeim og tek svo fram að nú er búið að aflétta öllu ritskoðunum.


Venus, Júpiter og Tunglið í einum hnapp

Mér líkar það best þegar ég næ að halda mér við ritstjórnarstefnu þessarar síðu, sem er sú að fjalla aðallega um himinn og jörð. Auðvitað kemst maður þó ekki hjá því að fjalla um sitthvað þess á milli þar sem hinir viðsjárverðu mannheimar eru, en ég fer þó afar varlega á þeim slóðum. Að þessu sinni er mér þó að mestu óhætt því ætla ég að beina athyglinni að nokkrum hnöttum sólkerfisins.

Á síðunni SpaceWeather.com hefur dálítið verið fjallað um skemmtilega uppröðum reikistjarnanna Venusar og Júpíters og svo tunglsins undanfarið, en þessir þrír himinhnettir voru nánast í einum hnapp í sólroðanum lágt á suðvesturhimni 1. desember. Þessa sýn mátti best sjá eftir sólarlag um alla jörð þar sem til þess viðraði og ég gerði sjálfur heiðarlega tilraun til að fylgjast með og jafnvel að ná af mynd af þessu en sá lítið vegna þrálátra skýja á suðvesturhimninum. Ég læt því duga þessa annars ágætu mynd sem var tekin í Íran að kvöldi 1. desember og er fengin af fyrrnefndri síðu en þar má sjá fleiri ljósmyndir af þessu himnaskrauti.

IRAN_1des

Það má líka í framhaldi af þessu velta aðeins fyrir sér hvernig við sjáum reikistjörnurnar frá jörðinni. Stjarnan sem er nær tunglinu á myndinni mun vera Venus og er oftast skærasta stjarnan á himnum þegar hún sést. Venus er nær sólinni en jörðin enda er sporbaugur Venusar fyrir innan sporbaug Jarðar. Þar af leiðandi sjáum við Venus eins og hann sé einskonar fylgihnöttur sólarinnar og sést eingöngu í sólroðanum eða nálægt honum fyrir og eftir sólarlag. Við sjáum hinsvegar Venus aldrei hátt á himni einfaldlega vegna þess að þá er sólin einnig hátt á himni einhverstaðar í grenndinni á albjörtum degi. Það væri því helst við sólmyrkva sem hægt er að sjá Venus hátt á himni.

Júpíter, stærsta reikistjarna sólkerfisins, er hinsvegar eins og allir vita fjær sólu en jörðin og þar af leiðandi með sporbaug sinn fyrir utan sporbaug jarðar. Það þýðir að hægt er að sjá Júpíter hátt á himni í gagnstöðu við sól ef hann er þannig staðsettur á sporbaugnum en líka í sólroðanum eins og núna en þá er Júpíter í órafjarlægð  hinumegin á sporbaugnum miðað við okkur. Þegar Júpíter er hinsvegar okkar megin á sporbaug sínum er hann oft áberandi sem bjartasta stjarnan á næturhimninum og getur t.d. verið hátt á lofti að vetri til um miðnætti. Sama gildir líka um Mars og allar þær reikistjörnur sem eru fyrir utan okkar sporbaug um sólu.

Tunglið snýst svo auðvitað um jörðina, u.þ.b. einn hring á 28 dögum. Eftir því sem tunglið er nær sólinni á sporbaug sínum um jörðina, sjáum við minna af björtu hliðinni, því þá snýr það skuggahlið sinni að okkur. Þegar tunglið sést sem lítil rönd ætti það líka alltaf að vera nálægt sólinni frá okkur séð, en þegar tunglið er hinsvegar í gagnstöðu við sól er það fullt og kemur upp um það leiti þegar sólin sest. Tunglið mun svo njóta sín vel síðar í desember þegar það verður fullt og verður á lofti stærsta hluta sólarhringsins, öfugt við sólina, enda er þá tunglið í gagnstöðu við sól.

Læt þetta duga af hnöttum, en hvort sem þetta er eitthvað sem menn vissu fyrir eða ekki, er hætta á að allt fari að hringsnúast í höfðum ef haldið er svona áfram. En svona til frekari glöggvunar þá er hér teikning sem sýnir hvernig uppröðun himinhnattanna sem um er fjallað, gæti hafa verið þann 1. desember.

 

Himinhnettir


Drekasvæðið og opnunarsaga Norður-Atlantshafsins

Undanfarið hefur svokallað Drekasvæði verið í umræðunni í sambandi við hugsanlega olíuvinnslu. Ef svo fer að þarna finnist olía, hljóða villtustu draumar uppá að þarna sé hægt að vinna olíu sem jafnast gæti á við Norðursjávarolíu Norðmanna í magni talið. Það er þó langt í frá að eitthvað sé fast í hendi varðandi þetta enda hefur engin leit átt sér stað ennþá, aðeins jarðfræðilegar rannsóknir sem hafa gefið jákvæðar vísbendingar.

DrekasvaedidEn af hverju ætti að finnast olía við Ísland sem er eins og allir vita jarðfræðilega ungt svæði sem myndaðist á rekhryggnum á milli Evrópu og Norður-Ameríku? Olíulindir heimsins hafa orðið til vegna lífræns sets sem hefur safnast fyrir á óratíma og umbreyst í olíu við réttar aðstæður á fornum meginlandsskorpum jarðar. Þessar aðstæður eru alls ekki fyrir hendi á úthafsskorpunni sem okkur tilheyrir, nema þá að eitthvað af því svæði sé í raun meginlandsskorpa. Svo virðist einmitt vera raunin með Drekasvæðið svokallaða norðaustur af landinu og er nefnt eftir drekanum í skjaldamerkinu okkar. Þetta svæði er annars hluti af neðansjávarhrygg sem liggur suður af Jan Mayen og langleiðina að norðausturhluta Íslands. Þetta hef ég einmitt verið að skoða og búinn að útbúa þessi fínu kort sem eiga sýna opnunarsögu Atlantshafsins, teiknuð eftir bestu heimildum og eru vonandi alveg hæfilega rétt.

 

drekasvæði1 -54 milljón ár.

Norður-Ameríka og Evrópa voru lengi vel föst saman eins og reyndar öll meginlönd jarðar. Þetta stóra meginland fór að brotna upp fyrir ca. 150 milljón árum en þá byrjaði Suður-Atlantshafið að myndast. Langur tími leið þó áður en nyrsti hluti þess tók að gliðna en plötuskrið hófst þar fyrir um 75-80 milljón árum. Í fyrstu leit út fyrir að Grænland myndi fylgja Evrópu þegar það tók að færast frá Kanada vegna staðbundins plötuskriðs þar. Smám saman tognaði æ meir á svæðinu á milli Grænlands og Evrópu eftir endilöngum rekhrygg, sú tognun/gliðnun olli eldvirkni og landssigi sem með tímanum safnaði á sig lífrænum setlögum sem sum áttu eftir að lenda undir basalthraunum og varðveitast til okkar daga. Fyrir um 54 milljónum ára lá rekhryggurinn skammt frá núverandi strönd Grænlands en hliðraðist aðeins til austur skammt fyrir norðan Færeyjar sem í þá daga voru þarna í grenndinni, en auðvitað verður að hafa í huga allir landhættir voru allt öðru vísi en þeir eru í dag. Lituðu punktarnir eru þarna til að sýna afstöðubreytinguna miðað við kortin sem koma á eftir.

 

Drekasvæðið2-44 milljón ár.

Greinilegur úthafshryggur hefur myndast eftir 10 milljón ára rek Grænlands frá Evrópuflekanum. Á milli Færeyja og Grænlands er þversprungubelti sem hliðrar rekhryggnum til austurs norður af Færeyjum og er sá hluti kallaður Ægishryggur. Grönn punktalína við Grænland táknar upphaf nýs rekhryggjarhluta.

 

Drekasvæðið3 -26 milljón ár.

Gliðnun á Ægishrygg fer minnkandi uns hún hættir alveg. Á sama tíma eykst smám saman gliðnun á nýja rekhryggjarhlutanum austur af Grænlandi um leið og hann lengist til norðurs. Þetta veldur því að hluti meginlandsskorpunnar við Grænland brotnar frá og rekur í austur. Þar er kominn forveri Jan Mayen hryggjarins. Hér er elsti hluti Íslands farinn að myndast en á þessum tíma er talið að áhrifa Íslandsreitsins svokallaða hafi farið að gæta en það er heitur reitur með möttulstrók undir og veldur aukinni eldvirkni á svæðinu. Þessi heiti reitur tengdist ekki rekhryggnum í upphafi en með sameiginlegu reki Evrópuflekans og Norður-Ameríkuflekans til norðvesturs færðist þessi heiti reitur sem áður var undir Grænlandi sífellt nær rekhryggnum. Án samspils þessa heita reits og rekhryggjarins væri Ísland annað hvort miklu minna eða alls ekki til.

Drekasvæðið4

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nútími.

Í dag er þá staðan svona. Meginlandsflísin sem áður var við Grænland er núna á miðju Atlantshafi sem neðansjávarhryggur suður frá þversprungubelti við Jan Mayen og suður til Íslands (Jan Mayen hryggurinn). Mörk meginlandshryggjarins eru þó ekki eins regluleg eins og þau eru sýnd hér enda allt mjög raskað. Það er nú jafnvel talið hugsanlegt að eitthvað af því forna bergi sem honum tilheyra nái jafnvel undir Austfirðina að einhverju leiti. Ísland er áfram í mótun, það gliðnar um 2 cm á ári og nokkurnvegin það sama og eyðist af því til beggja enda. Rekhryggurinn sem liggur um Ísland hliðrast til austurs í viðleitni sinni til að elta möttulstrókinn sem nú er talinn vera undir norðvestanverðum Vatnajökli (rauður hringur). Samband möttulstróksins og rekhryggjarins er annars kafli útaf fyrir sig sem mætti taka fyrir sérstaklega.

Og hvað svo?

Sú staðreynd að hér nálægt Íslandi er flís af meginlandsskorpu ættaðri frá landgrunni Grænlands er forsenda þess að við getum gert okkur vonir um að verða olíuþjóð í framtíðinni. Ef svo fer, þá er samt engin von um skjótfengan gróða enda mikið fyrirtæki að hefja olíuvinnslu út á reginhafi svo ekki sé talað um öll umhverfisáhrifin sem þessu hlýtur að fylgja. Það er þó búið að ákveða að hefja þarna rannsóknir í samvinnu við Norðmenn sem auðvitað kunna ýmislegt fyrir sér í þessum bransa. En svo maður blandi smá pólitík í þetta þá má segja að hér sé kannski komin aukin ástæða fyrir okkur að halla okkur meira að Norðmönnum með ýmis mál í stað þess að afsala okkar auðlindum til Evrópusambandsins.

 

- - - - - - 
Helsta heimild: Skýrsla ISOR unnin fyrir Iðnaðarráðuneytið, jan. 2007: Yfirlit um jarðfræði Jan Mayen svæðisins og hugsanlegar kolvetnislindir
Auk viðbótaupplýsinga frá Ara Trausta Guðmundssyni, jarðfræðingi.


Um hagfræði Björns í Brekkukoti

Ég ætla að leyfa mér í þessum pistli að birta smákafla úr bókinni Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness þar sem söguhetjan Álfgrímur fjallar um útgerð afa síns Björns í Brekkukoti:

Björn í BrekkukotiÉg var ekki gamall þegar ég komst á snoðir um að sumir fiskikarlar voru afa mínum sárir af því hann seldi stundum suma soðníngu ódýrra en aðrir menn; þeir kölluðu ódreingilegt að etja með lægri boðum kappi við góða menn. En hvursu mikils virði er einn rauðmagi? Og hvurs virði er pundið í ýsunni? Ellegar kolinn? Það liggur kanski næst að svara þeirri spurníngu, og segja: Hvað kostar sólin, túnglið og stjörnurnar? Ég geri ráð fyrir að afi minn hafi svarað þessu svo með sjálfum sér, undirskilvitlega, að rétt verð, til að mynda á rauðmaga, sé það verð sem kemur í veg fyrir að upp hrúgist hjá fiskimanni peníngar umfram það sem þarf til nauðsynja.

Eftir hagfræðilegu lögmáli hneigðust menn til að hækka verð á fiski þegar afli var tregur eða daufar gæftir, allir nema Björn í Brekkukoti. Kæmi einhver til hans og segði: ég skal kaupa af þér alt sem þú hefur á börunum í dag við helmíngi eða jafnvel þrisvar sinnum hærra verði en vant er, þá leit hann með tómlæti á þann mann er slíkt boð gerði, og hélt áfram að vega í reislunni sinni eitt og eitt pund ellegar afhenda mönnum einn og einn rauðmaga uppúr börunum eftir því hvað hver þurfti í soðið, og við sama verði og venjulega. … En þegar ört var framboð og flestir fiskimenn þóttust tilknúðir að lækka fiskverð sitt á götunni, þá hvarflaði aldrei að afa mínum að lækka sig, heldur seldi hann afla sinn við sama verði og hann var vanur; Þá var fiskurinn orðinn langdýrastur hjá honum. Þannig afneitaði afi minn Björn í Brekkukoti grundvallaratriðum hagfæðinnar. Þess maður bar í brjósti sér dularfullan mælikvarða á penínga. Var þessi mælikvarði réttur eða rangur? Var kanski mælikvarði bánkans réttari? Vel má vera að hann hafi verið rangur hjá afa, en þó ekki rangari en svo að flestir sem höfðu vanist á að kaupa hjá honum fisk upp úr hjólbörum hans, þeir komu til að versla við hann einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum. … menn trúðu því að að hann Björn í Brekkukoti drægi með einhverjum dularfullum hætti betri og fallegri fiska uppúr sjónum en aðrir menn. Og þessvegna vildu allir kaupa fisk hjá Birni í Brekkukoti, einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum“

- - - - -

Burt séð frá því hversu ágætur texti þetta er hjá skáldinu þá er ekki víst að hagfræðin hans Björns í Brekkukoti sé gagnlegt innlegg í öllum þeim fjárhagsvangaveltum sem nú eru uppi. Allavega þá hefur ekki verið litið á það sem vandamál ef það ólíklega gerist að peningar hrúgist upp umfram það sem fólk þarf til nauðsynja.

Hagsveiflur eiga sér stað nú sem aldrei fyrr. Þar skiptast á gylliboð og verðbólgur sem margir fara flatt á. Sérstaklega er þetta varasamt þegar peningarnir sjálfir bjóðast á undirverði því þá æsast menn upp í góðærisgleði, slá lán og fjárfesta sem mest þeir mega fyrir þær tekjur sem væntanlegar eru í framtíðinni. Margir fara því inn í krepputíð sem óhjákvæmilega fylgir uppsveiflum með allt of miklar fjárhagsskuldbindingar á bakinu í stað þess að nota góðærið til að safna saman smá hrúgu af peningum sem nýtist þegar ver árar. Það eru nefnilega engir Birnir í Brekkukotum lengur sem bjóða alltaf sama verð, sérstaklega ekki á peningum því þeir lúta lögmálum framboðs og eftirspurnar eins og annað í dag.

- - - - - 

Á meðfylgjandi mynd sést Þorsteinn Ö. Stephensen í hlutverki Björns í Brekkukoti í sjónvarpsþáttunum sem gerðir voru eftir sögunni árið 1972.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband