Örlítil veðurminning 2

Sumardag einn á áttunda áratugnum þegar ég var á ellefta ári datt okkur vinunum í hug að fara í dálítinn leiðangur út fyrir borgina. Að ráðleggingu foreldra útbjuggum við okkur með nesti og góðar skjólflíkur, albúnir að takast á við þau veðurfarslegu öfl sem búast má við hér á landi. Tekinn var strætisvagn upp í efstu byggðir og stefnan síðan tekin fótgangandi yfir holt og hæðir á ákvörðunarstaðinn sem var hellir nokkur í Heiðmörk. Veðrið var gott en fór ört hlýnandi og brátt vorum við farnir að binda á okkur peysurnar, skyrturnar og utanyfirflíkurnar sem áttu að verja okkur gegn köldum vindum. Leiðangurinn gekk annars vel og við fundum hellinn sem ég vissi síðar að heitir Maríuhellir. Eftir að hafa átt þar góðan dag fórum við á puttanum til byggða og svo með Hafnarfjarðarstrætó til Reykjavíkur. Þegar vagninn ók í bæinn sá maður fljótt að yfirbragðið á bæjarlífinu var með allt öðrum hætti en maður átti að venjast á þessum árum því hvarvetna mátti sjá léttklætt fólk á ferli og menn bara á skyrtunni með uppréttar ermar og jakkann undir hendinni. Það voru því fleiri en við sem fundum fyrir hitanum þennan dag og kannski ekki nema von því þessi dagur var einmitt heitasti dagur 20. aldarinnar í Reykjavík, þegar hitinn fór í heilar 24,3 gráður, þann 9. júlí 1976.

(Örlítil veðurminning nr.1 birtist 3. februar. sl.)


Spáð í árshitann í Reykjavík

Það er greinilega alltaf eitthvað að gerast í veðrinu þótt metin hafi kannski ekki verið að falla, en veðrið er samt furðu oft nálægt sínu besta eins og sagt er í íþróttunum. Í veðrinu er keppt í mörgum greinum og í þessum mánuði hefur hitinn í Reykjavík staðið sig afar vel, sólskinið þó enn betur á meðan rigningin var nánast úr leik.

En svona í tilefni að því að árið er hálfnað og búið að gefa út meðalhitatölur fyrir júnímánuð ætla ég aðeins að leika með tölur og skoða hvert stefnir með ársmeðalhitann hér í Reykjavík. Opinber meðalhiti í Reykjavík er ekki nema 4,3°C (Þá er miðað við árin 1961-1990). Síðustu 10 ár hefur meðalhitinn hinsvegar verið öllu hærri, eða 5,2°C.

Ef hitinn frá júlí til desember verður jafn meðalhita sömu mánaða árin …

… 1961-1990, verður meðalhiti ársins = 4,8 °C

… 1998-2007, verður meðalhiti ársins = 5,3 °C

Ef allir mánuðirnir sem eftir eru ársins verða …

… jafn hlýir og hlýjustu mánuðir 1998-2007, verður meðalhiti ársins = 6,2 °C

… jafn kaldir og köldustu mánuðir 1998-2007, verður meðalhiti ársins = 4,4 °C

Þetta þýðir sem sagt að ef hitinn það sem eftir er ársins verður í meðallagi verður árshitinn 4,8°C. Ef hitinn verður áfram í samræmi við hita síðustu 10 ára, þá verður ársmeðalhitinn 5,3°C. Ef hinsvegar þeir mánuðir sem eftir eru verða eins hlýir og þeir hafa orðið hlýjastir árin 1998-2007, verður ársmeðalhitinn 6,2°C, sem er aðeins fyrir ofan árshitametið í Reykjavík sem er 6,1°C árið 2003. Til að fá árshita sem er nálægt meðallagi áranna 1961-90 þurfa þeir mánuðir sem eftir eru að vera eins kaldir og þeir hafa orðið kaldastir á árunum 1998-2007.

Það má segja að báðar tölurnar 4,4° og 6,2° séu ólíklegar en ekki óhugsandi en líklegasta niðurstaðan er kannski á bilinu 5,0°–5,6° C sem telst vera hlýtt hvernig sem á það er litið, en á öllum árum þessarar aldar hefur meðalhitinn verið yfir 5 gráðum hér í Reykjavík.


mbl.is Nýliðinn júnímánuður var hlýr, þurr og sólríkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bruce Springsteen - Born to Run

Myndband mánaðarins hjá mér að þessu sinni er lagið Born to run með Bruce Springsteen. Það kom upphaflega út á samnefndri plötu árið 1975, en er hér flutt á tónleikum. Ég veit ekki hvaðan upptakan er, hún er allavega nýleg, en Bruce og félagar hafa verið á mikilli tónleikareisu undanfarið. Sumir segja að þetta sé eitt besta rokklag allra tíma og ef svo er þá mótmæli ég því ekki. Bruce Springsteen dyggilega studdur af E-street bandinu færði rokkið niður á jörðina og var mótvægi við allt glysið og tilgerðarlegheitin sem einkenndi bransann á sínum tíma.

stevenvanzandt

Bruce Springsteen og The E-street band náði að búa til stórt sánd eins og það er kallað, saxafónleikarinn Clarence Clemons (The Big Man) á þar sinn þátt og lífgaði uppá sviðið sem og gítarleikarinn Steven Van Zandt sem hefur gert það gott í leiklistini í hlutverki mafíubófans Silvio Dante í Sopranos-þáttunum.

Í öðrum frábærum sjónvarpsþáttum Saga Rokksins sem hafa verið í sýningu á RÚV undanfarið, lenti Bruce í flokknum „leikvangarokkari“, en sú skilgreining á vel við kappann enda greinilegt að hann nýtur sín vel á stóru sviði í öllum látunum. En Bruce Springsteen er ekki bara innantómur rokkhundur eins og sumir gætu haldið, hann er líka fínn texta- og lagahöfundur – einskonar rödd hins vinnandi alþýðumanns sem á sínar vonir og þrár, og stundum dálítið brostnar vonir.

E_street_band

Bruce Springsteen og E-Street bandið eins og það birtist á umslagi plötunnar The River sem kom út árið 1980.


Hitaspá fyrir næstu þrjá mánuði hér á jörð

MetOffice_temperature

Breska veðurstofan Met Office birtir á sinni heimasíðu með reglulegu millibili spá fyrir hitafar og úrkomu á jörðinni þrjá mánuði fram í tímann og nú er komin út spá sem gildir mánuðina frá júlí til september. Mér datt í hug að birta hitaspána hér á síðunni enda ýmislegt þarna sem mér finnst athyglisvert svona í samhengi við það sem hefur verið í umræðunni og það sem ég hef sjálfur verið að burðast við að skrifa um.

Í fyrsta lagi þá kemur þarna fram að við á Íslandi munum líklega njóta hlýinda þessa mánuði. Sama gildir einnig um stærsta hluta Evrópu, Bandaríkjanna og reyndar mestallt Norður-Atlantshafssvæðið.

Svo kemur þarna fram köld spá fyrir Norður-Íshafið sem ætti að minnka líkurnar á því að norðurpóllinn verði íslaus í haust eins og kom fram í fréttum að gæti gerst. Um það skrifaði ég reyndar nokkur orð í síðustu færslu. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn í langan tíma sem spáð er einhverju öðru en hlýindum þarna við Norður-Íshafið, þannig að þetta gæti verið til merkis um einhvern viðsnúning þarna.

Í hafinu kringum Suðuskautslandið eru hinsvegar hlýindi á ferðinni, en á meginlandinu þar suðurfrá er hitinn nálægt meðallagi, en Suðurskautið er sennilega það svæði sem helst hefur farið á mis við hnattræna hlýnun síðustu áratugi.

Í hinu stóra Kyrrahafi má sjá appelsínugula rönd við miðbaug sem þýðir að hinn hlýi El Niñjo straumur hefur eitthvað náð sér aftur strik eftir að hið kalda La Niñja veðurkerfi hefur kælt þarna stórt svæði undanfarið ár. En sveiflurnar í þessum veðurkerfum eru taldar hafa áhrif á veður og hitafar víða um heim.

Síðan er það bláa kalda skeifan á norður-Kyrrahafinu og liggur að ströndum Kanada og Bandaríkjanna. Það mun vera fyrirbærið Pacific Decadal Oscillation sem ég skrifaði um á sínum tíma (hér). Þetta kerfi virðist skipta um ham á 20-30 ára fresti og er nú nýlega komið í sinn kalda fasa. Samkvæmt gögnum sem ná sirka öld aftur í tíman vill svo til að hnattræn hlýnun hefur nokkurn vegin stöðvast þá áratugi sem kerfið hefur verið í þessum kalda fasa en hlýnunin síðan rokið upp úr öllu valdi þegar kerfið er í hlýjum fasa.

Svo að lokum verður alltaf að hafa í huga að spár eins og þessar eru spár en ekki staðreyndir. Sama gildir líka um hamfaraspár sem alltaf koma upp annað slagið. Við vitum kannski ekki alltaf hversu mikið eða lítið við vitum. Eins er kannski líka um þetta sem ég er að skrifa hér.


Spennandi sumar á Norðurpólnum

Það verður spennandi að sjá hvernig þróunin verður með hafísinn í sumar enda yrðu það stórtíðindi ef Norðurpóllin verður íslaus núna í haust. Það er þó ekki alveg ljóst í fréttinni hér hvort átt sé við Norðurpólinn sjálfan eða Norður-íshafið eins og það leggur sig en mig grunar þó að hér sé bara átt við Norðurpólinn, því þótt hann sé íslaus þá geta hafísbreiður áfram legið útfrá norðurströndum Grænlands og Síberíu að einhverju leiti.

N_timeseries

Ef hafíslágmarkið frá því í fyrra á að endurtaka sig í ár svo ekki sé talað um íslausan norðurpól, þá þarf bráðnunin dálítið að herða sig því hafísútbreiðslan er um þessar mundir aðeins meiri en hún var í fyrra eins og sést á þessu línuriti frá National Snow and Data Center. Bráðnunin er líka háð veðri og þá skiptir mestu að sólin nái að skína á svæðið en undanfarið sýnist mér hún nefnilega ekki hafa gert það vegna kaldrar lægðar sem hringsólar þarna á svæðinu. Hinsvegar eins og oft hefur komið fram þá er ísinn núna í sumar að mestu leit þunnur fyrstaársís sem er líklegri til að bráðna heldur en gamall ís sem hefur lifað af bráðnun margra sumra. Eitt atriði enn sem vegur einnig þungt um framvinduna eru ríkjandi vindáttir, en þær voru mjög óhagstæðar ísnum í fyrra og ollu m.a. því að mikill hafís streymdi út úr pólsvæðinu suður með Grænlandi á sama tíma og hlýir straumar bárust inn Beringssund úr hinni áttinni.

Hér að neðan kemur svo samanburður á stöðu hafíssins þann 25. júní (til vinstri) og til samanburðar hafíslágmarkið frá því síðasta haust (til hægri).

hafis_jun08-sept07


mbl.is Norðurpóllinn íslaus í haust?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki enn búið að mála yfir myndina mína

Í hreinsunarátaki því sem borgaryfirvöld standa nú fyrir með orgelleikarann Jack Magnet í broddi fylkingar hefur margt veggjakrotið miðbænum þurft að víkja fyrir málningarrúllunni og kannski ekki vanþörf á. Sumum hefur þó brugðið í brún þegar metnaðarfull myndverk hafa allt í einu horfið undir gráa málninguna eins og um hvert annað næturkrot pörupilta hafi verið um að ræða. Þetta varð til þess að mér datt í hug að kíkja í Kolaportið, og þá meina ég Kolaportið hið eina og sanna, sem er bílageymsluhús við Seðlabankann og hýsti á sínum tíma markaðinn góða sem kenndur er við staðinn.

Árið 1990 á meðan markaðurinn var þarna enn starfræktur var ég á meðal þeirra 25 listamanna og teiknara af yngri kynslóðinni sem tóku þátt í að myndskreyta veggi bílastæðahússins. Staðið var að verkinu þannig að hver og einn fékk sína fermetra til að myndskreyta og gerði hver sína mynd eftir eigin höfði, án tillits til þess hvað sá næsti gerði. Ég ákvað að mála borgarlandslag, húsablokkir með beinum ákveðnum línum og gráa götu sem gul Volkswagen-bjalla í yfirstærð ók eftir í rólegheitum. Fyrirmyndin að bílnum var mín eigin glæsibifreið sem ég ók um götur borgarinnar, átta fyrstu ökuárin mín. Skemmst er frá því að segja að nú eftir næstum átján ár er verkið nánast sem nýmálað og hefur ekki enn orðið hreinsunarátakinu að bráð, enda væntanlega allt unnið með fullu samþykki yfirvalda.

Kolaportsmynd

Á meðan á gjörningnum stóð á sínum tíma heiðraði blaðamaður Þjóðviljans okkur með nærveru sinni ásamt ljósmyndara og þar komst ég þar svo sannarlega á blað ásamt stórri mynd. Umfjöllunin birtist svo í Þjóðviljanum þann 11. september árið 1990 og kannski er það bara tilviljun, en nákvæmlega 11 árum síðar varð New York-borg í heimsfréttunum þegar tvö stór farartæki komu aðvífandi og ollu þar talsverðum usla. En þar kom ég reyndar hvergi nærri.

kolaport_blad

 

 


Er góða veðrið frá því í fyrra að endurtaka sig?

vedurkort_22jun
 
Veðrið er svo gott í dag að elstu menn muna vart annað eins síðan frá því í fyrra, ef þeir muna þá svo langt. Allavega þá sé ég ekki betur en við séum komin með sömu stöðu á veðurkerfunum og einkenndi sumarið í fyrra. Lægðirnar fara yfir Bretlandseyjar og þaðan yfir suðurhluta Skandinavíu, á meðan sitjum við hinsvegar í ládeyðunni og getur varla kvartað nema í mesta lagi yfir smá úrkomu í grennd af völdum góðviðrisskúra. Í fyrra var þetta veðurlag ríkjandi frá því snemma í júní og til seinni hluta ágúst, við litla hrifningu Bretlendinga og Danamanna. Svo er bara að sjá hvað þetta veðurlag endist, en ég er frekar bjartsýnn fyrir hönd okkar Íslandsbúa.
 
 
 

Jörðin séð frá sólinni við sumarsólstöður

jordin20jun

Núna rétt fyrir miðnætti 20. júní var sólin í sinni hæstu stöðu á norðurhveli jarðar. Á þeim degi þegar sólargangur er lengstur skín sólin allan sólarhringinn á svæðinu norðan heimskautsbaugs og núna rétt fyrir miðnætti 20. júní þegar sumarsólstöður voru í hámarki var jörðin séð frá sólu í þeirri stöðu sem sést hér á myndinni. Okkar ísland sést ekki á myndinni enda komið að miðnætti hjá okkur og landið rétt sunnan heimskautsbaugs nema norðurhluti Grímseyjar.

Á norðurpólnum er sólin í um 23,5° hæð á þessari stundu og kemst ekki hærra á árinu. Hún er jafnhátt á lofti allan sólarhringinn en fer úr þessu smám smám saman lækkandi uns hún hverfur undir sjóndeildarhringinn um jafndægur að hausti, yfirleitt um 24. september.

Næstu tvo mánuði verður sólin dugleg að bræða ísinn á norðurslóðum og það verður spennandi að vita hvort bráðnunin verður jafn mikil og í fyrra þegar bráðnunin sló öll met. Hafísinn náði furðu vel að jafna sig síðastliðinn vetur sem var kaldari en mörg síðustu ár, en útbreiðsla hafíssins núna er samt álíka og var á sama tíma í fyrra. Það er líka lítið eftir af gömlum lífseigum hafís og megnið af ísbreiðunni er því að þessu sinni viðkvæmur fyrstaárs-ís. En það er samt ekki víst að bráðnunin verði eins mikil og í fyrra því veðurfarslegar aðstæður voru mjög óhagstæðar hafísnum í fyrra og ekki víst að þær aðstæður endurtaki sig nú í sumar.

Myndin sem hér fylgir er fengin af slóðinni: http://www.fourmilab.ch/cgi-bin/Earth en þar er hægt að velja ýmis sjónarhorn á jörðina á rauntíma sem uppfærast reglulega samkvæmt snúningi jarðar. Hnattmyndin er samsett af ýmsum eldri gervitunglamyndum, enda ekki möguleiki að komi dagur sem er án skýja á himni.

 


20 stiga sumur í Reykjavík

20stigahiti

Í framhaldi af síðustu færslu þar sem ég fjallaði um hinn sjaldgæfa 20 stiga hita í Reykjavík, hef ég teiknað upp mynd sem sýnir á einfaldan hátt hvenær komið hafa sumur þar sem hitinn hefur einhverntíma náð 20 stigum hér í borginni frá árinu 1930. Hver súla á myndinni sýnir hámarkshita hvers sumars og eru þau sumur sem hafa náð hámarkshita yfir 20 stigum aðgreind með gulum lit.

Á árunum 1934 til 1960 komu nokkuð reglulega 20 stiga sumur enda var þá hlýtt á landinu. Sumarið 1939 stóð sig alveg sérstaklega vel þótt það sjáist ekki á myndinni en þá náðu 6 dagar 20 stigum þar af þrír í röð dagana 24.-26 júlí. Árið 1950 náði hitinn 23,1°C þann 17. júlí og hafði hitinn ekki áður komist svo hátt á öldinni.

Næstu áratugir eru nokkuð sérstakir því á 29 ára tímabili 1961-1989 fór hitinn aðeins tvö sumur yfir 20 stig en gerði það hinsvegar svo um munaði, í fyrra skiptið þann 9. júlí 1976, sem var heitasti dagur 20. aldar: 24.3°C. Árið 1980 komu svo tveir mjög hlýir dagar í röð: 30. júlí, 23,7°C og 31. júlí, 23,0°C. Þessir mjög svo hlýju dagar árin 1976 og 1980 eru svo enn merkilegri fyrir það að á þessum árum er kuldakaflinn á síðari hluta 20. aldarinnar í hámarki. Það tímabil hef reyndar áður kallað pínulitlu ísöldina, en það er önnur saga.

Með hækkandi hita um og eftir 1990 fór 20 stiga sumrum fjölgandi á ný en komu samt nokkuð óreglulega. Hitabylgjan í júlí 1991 var eftirminnileg með þremur 20 stiga dögum í röð, hæst náði hitinn þá 23,2°C þann 9. júlí. Eftir 6 sumur án 20 stiga komu svo þrjú 20 stiga sumur í röð árin 2002-2004. Þar er auðvitað frægust hitabylgjan mikla dagana 9.-12. ágúst 2004 þegar hitinn náði hæst 24,8°C, þann 11. ágúst, sem er hitamet í Reykjavík. Það sem af er þessu sumri hefur hitinn ekki náð 20 stigum enda ekki langt liðið á það og mikil hlýindi reyndar ekki í sjónmáli þegar þetta er skrifað (11. júní). Síðast fór hitinn yfir 20 stigin þann 13. júlí í fyrra þegar hann náði 20,5°C.

Læt þetta nægja af 20 stiga hitum að sinni, en áður en ég hætti ætla ég aðeins að minnast á hinn endann, þ.e. sumur með lægstan hámarkshita. Þar eru tvö sumur jöfn, því árin 1973 og 1989 komst hitinn í Reykjavík aldrei ofar en 15,6°C sem þætti auðvitað engan veginn boðlegt í dag. Hinsvegar er líka nauðsynlegt að taka fram að þótt hitinn í Reykjavík fari yfirleitt ekki upp úr öllu valdi er samt lítil hætta á því á sumrin að það komi virkilega kaldir dagar. Eins og með hitann þá ræður því staðsetning borgarinnar hér suðvestanlands og nálægðin við sjóinn.

(Heimildir eru fengnar af vef Veðurstofunnar og Veðráttunni)


Hinn sjaldgæfi 20 stiga hiti í Reykjavík

Nú þegar sumarið er komið fyrir alvöru má fara að velta því fyrir sér hvort þetta verði eitt þeirra sumra sem nær að rjúfa 20 stiga múrinn hér í Reykjavík. Þótt meðalhitinn í Reykjavík sé hærri allt árið en á norður- og austurlandi, erum við hér þannig í sveit sett að 20 stiga hiti er eitthvað sem við borgarbúar upplifum sem merkisviðburð enda geta liðið mörg sumur án þess að það gerist. Frá árinu 1930 telst mér til að komið hafi 22 sumur þar sem hitinn hafi einhvern tíma náð 20 stigum, þannig að við getum samkvæmt því verið að tala um ca. þriðjung sumra. Lengsta tímabil án 20 stiga hita í Reykjavík voru sumrin 1961-1975 eða 15 sumur samfleytt. Síðustu árin hefur 20 stiga sumrum farið eitthvað fjölgandi með auknum hita og á þessari öld hafa þau orðið fjögur. (Nánar um þetta í næstu færslu

Þótt ég sé nú enginn alvöru veðurfræðingur þá geri ég mér grein fyrir því að ástæðan fyrir þessum skorti á 20 stigum sé nálægð borgarinnar við sjóinn og staðsetningin hér suðvestanlands. Þegar hlýir loftmassar berast til landsins úr suðri, eins og oft gerist, dugar það okkur ekki hér, því þá sitjum við gjarnan í súldinni á meðan hitinn á norð-austurlandi rýkur upp úr öllu valdi. Sólskinsáttirnar úr norðri eru hinsvegar of kaldar að upplagi til að hífa hitann mikið yfir 15 stigin og þegar hæðarsvæði er yfir okkur með björtu og fallegu sumarveðri er alltaf stutt í hafgoluna sem kælir venjulega um nokkrar gráður.

Ætli vænlegasta staða veðurkerfanna til að færa Reykvíkingum almennilegan 20 stiga, sé ekki þessi sem ég hef teiknað hér upp. Lægð fyrir vestan Bretlandseyjar og hæð vestur af Noregi dæla í sameiningu hlýju meginlandslofti til okkar alla leið frá Evrópu. Þetta loft þarf að koma að landi austanlands að sumarlagi, hreinsa sig af skýjum á leið sinni vestur til okkar og svo þarf vindurinn að vera nægjanlegur til að halda aftur af svalandi hafgolunni. Útkoman gæti þá að verið yfir 20 stigum en því miður verðum við að sætta okkur við mistrið sem gjarnan fylgir þessu mollulega en sjaldgæfa lofti frá Evrópu. Hugsanlega gætum við fengið upp þessa stöðu einhverntíma í sumar og svo almennilega hitabylgju í kjölfarið. Ef eitthvað er að marka langtímaspár sem gefnar hafa verið út fyrir sumarið, má einmitt búast við að lægðirnar fari vel fyrir sunnan land með stefnu á Bretland sem gæti aukið líkurnar á svona hlýindum hér suðvestanlands.

20stig Kort 


Stóra jeppavitleysan og stóra jeppageymslan

jepparÉg velti stundum fyrir mér hvernig samsetning bílaflotans hefur þróast undanfarið þar sem stór hluti umferðarinnar er núna stórir bílar svo sem jeppar og pallbílar allskonar. Sú þróun hefur orðið að jeppi er orðinn tákn um velgengni og því hafa menn fjárfest í dýrum og stórum jeppum sem mest þeir mega til að sýna velgengi sína og kraft. Þessir fínu jeppar eru samt misfínir, þeir allra fínustu og dýrustu eru sannkallaðir forstjórajeppar á meðan aðra mætti skilgreina sem millistjórnendajeppa en þeir eru ekki alveg eins fínir. Svo eru líka jeppar sem raunverulega eru gerðir fyrir torfærur, gjarnan upphækkaðir á ofurdekkjum og komast bæði yfir stórfljót og jökla. Allir þessir jeppar eiga það þó sameiginlegt að vera mest notaðir til daglegs brúks innanbæjar, hvort sem það er til að aka til og frá vinnu, í innkaup eða til að keyra börnin í leikskóla. Þetta er satt að segja hálfgerð vitleysa allt saman enda eru þetta eyðslufrek kvikindi, eru mengandi, taka mikið pláss og slíta gatnakerfinu með tilheyrandi svifryksmyndun. Ég held að æ fleiri séu farnir að átta sig á þessu, ekki síst nú þegar bensínverð ríkur upp og stjórnvöld farin að tala um að auka álögur. En það er nú samt að vissu leiti skiljanlegt að margir vilja eiga jeppa enda býður landið okkar upp á slíkt og möguleikar á skemmtilegum jeppaferðum eru margir bæði um sumar og vetur. En það breytir því ekki að torfærubílar eiga auðvitað ekkert heima í borgum.

Um þetta hef ég dálítið hugsað undanfarið en mín vegna mætti alveg takmarka jeppaumferð í borginni eins og farið er að gera sumstaðar erlendis. Það mætti byrja á stærstu jeppunum og pallbílunum en í staðinn væri hægt að byggja stóra jeppabílageymslu í útjaðri borgarinnar þar sem menn geta geymt tröllin sín þangað til þeir þurfa að skreppa út á land í leit að torfærum. Þessir jeppaeigendur geta svo fjárfest í léttum eyðslugrönnum bílum til að nota innanbæjar en ef menn vilja halda „kúlinu“ þá mætti útbúa miða til að líma á borgarbílana þar sem á stendur: „ÉG Á JEPPA Í GEYMSLU“. Nú vill svo til til að það er einmitt verið byggja tvö hús í útjaðri borgarinnar sem gætu verið tilvalin fyrir svona jeppageymslur en þar á ég við hin yfirgengilega stóru verslunarhús sem eru að rísa við Vesturlandsveg rétt hjá Korpúlfsstöðum. Ég held nefnilega að það væri mun skárri nýting á þessum húsum eða að minnsta kosti öðru þeirra að geyma þarna nokkur þúsund jeppa heldur en að auka við stórverslunarhúsnæði hér í borginni.

En jújú ég geri mér alveg grein fyrir að þetta er kannski óraunhæfar hugmyndir, allavega enn sem komið er. Sennilega er þessi hugmynd bara svo góð að hún er langt á undan sinni samtíð, en einhvernvegin svona getur samt verið að málin verði leyst í framtíðinni.

JEPPAGEYMSLAN


Loksins kom hlýr maímánuður

Það hlaut að koma að því að við fengjum hlýjan maímánuð og það einar 8,6 gráður hér í Reykjavík, en það er merkilegt að í þeim hlýindum sem hafa ríkt hér á landi síðustu árin hefur maímánuður eiginlega setið eftir og verið sá eini sem ekki hefur boðið uppá hlýjan mánuð enda þarf að leita aftur til ársins 1974 til að fá maímánuð sem náði 8 stigum. Með þessum maímánuði fæ ég það líka út að meðalhitinn það sem af er árinu sé nú í samræmi við meðalhitann síðustu 10 ára hér í Reykjavík.

Við höfum oft þurft að sætta okkur við kuldaköst í maí, en að þessu sinni höfum við fengið vor sem er algerlega laust við allt slíkt enda varla komið kaldur dagur síðan um miðjan apríl þegar vetrinum lauk skyndilega á einni nóttu. Kuldakastið seinni hlutann í maí fyrir tveimur árum var t.d. með þeim alverstu, þegar allt fór á kaf í snjó fyrir norðan, lömbum og fiðurfénaði allskonar til mikillar hrellingar. Hef þetta ekki lengra um maíveðrið en ég býð hinsvegar upp á í lokin mynd sem tekin var af vefmyndavél Veðurstofunnar að kvöldi dags í fyrra, þegar Esjan varð nánast alhvítt eftir kaldan útsynningséljagang, þann 21. maí.

Esjusnjór 21.maí07

 


mbl.is Hlýjasti maímánuður í 48 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálfti sem beðið var eftir

SudurlandssprungaÞað fór ekkert á mála að þetta var Suðurlandsskjálfti sem reið yfir Ölfuss og Hveragerði í dag og að hann er eiginlegt framhald af skjálftunum tveimur sem urðu árið 2000. Ef skoðuð er saga Suðurlandsskjálfta aftur í tímann er líka nokkuð ljóst að tveir jarðskjálftar uppá 6,5 á righter voru ekki nægilegir til að losa um alla þá spennu sem hafði hlaðist upp á meira en einni öld þarna á Suðurlandsundirlendinu, þannig að það hlaut að koma að þessu framhaldi og ef til vill ekki allt um garð gengið. Skjálftarnir raða sér eftir hliðrunarsprungu þeirri sem tengir gliðnunarsvæði vestara-gosbeltisins á Reykjanesi við gliðnunarsvæði austara-gosbeltisins. Það er einmitt á svona hliðrunarsprungum sem jarðskjálftar verða harðastir en vegna þess hve jarðskorpan er þunn á Íslandi þurfum við ekki að óttast ofurskjálfta uppá 8 stig líkt og varð í Kína fyrir skömmu.

Það er þekkt að hrinur Suðurlandsskjálfta hefjast frekar austarlega á Suðurlandi og færast svo vestar eftir því sem á líður. Seinni skjálftinn árið 2000 var líka vestar en sá fyrri sem kom þann 17. júní og í framhaldi af því var það í rauninni tímaspursmál hvenær Ölfuskjálftinn kæmi - eða Ölfuskjálftarnir, hafi þeir verið tveir eins og verið er að tala um. Suðurlandsskjálftahrinur eins og þessi sem hófst árið 2000 koma með ca. 80-110 ára millibili og geta staðið í nokkur ár. Hrinan sem var á undan þessari, gekk hins vegar yfir á aðeins tveimur vikum um haustið 1893 og ollu gífurlegu tjóni á mestöllu Suðurlandsundirlendinu enda um að ræða sex skjálfta sem taldir eru hafa náð 6 á righter. Röðun skjálftanna 1893 og áætluð stærð var þannig:

  1. 26. ágúst. Stærð: 6,9 stig. Upptök við Landssveit
  2. 27. ágúst. Stærð: 6,7 stig. Upptök skammt norðan Landsveitar
  3. 5. september. Tveir skjálftar 6,0 og 6,5. Annar skammt frá Selfossi og hinn á austanverðum Flóa og Skeiðum.
  4. 6. september. Stærð 6,0. Upptök í Ölfusi.
  5. 10. september. Stærð óviss. Upptök við Hraungerðisprestakall.

Síðasti skjálftinn í Suðurlandsskjálftahrinunni sem nefnd er hér að ofan var svo nokkurs konar eftirlegukind en hann kom ekki fyrir en árið 1912 og er áætlaður heilir 7,0 á righter sem er væntanlega nálægt því mesta sem getur orðið hér á landi. Skjálftinn kom upp fyrir austan skjálftana 1893, eða skammt frá Bjólfsfelli nálægt Heklu og olli mjög miklu tjóni á sveitabæjum á Rangárvöllum, en þó ekki miklu manntjóni frekar en í Suðurlandsskjálftunum árið 1893, þar sem 3 eða 4 manneskjur fórust.

Nú er bara spurningin hvort þessi Suðurlandsskjálftahrina sé gengin yfir eða ekki. Það er ljóst að þeir skjálftar sem komið hafa frá árinu 2000 eru ekki eins miklir samanlagt og varð árið 1893. Svo er líka spurning hvort við fáum einn alvöru uppá 7 stig eins og þennan austasta sem kom vestur af Heklu árið 1912, svona sem lokahnykk.

(Heimildir um skjálftana 1893 er fengnar úr grein Páls Halldórssonar í bókinn Veður á Íslandi í 100 ár, eftir Trausta Jónsson)


mbl.is Rúmlega tíu eftirskjálftar yfir þrem stigum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýnun getur varla verið mikil ógn á Íslandi

Fram kemur í frétt á mbl.is að íslendingar séu eina þjóðin þar sem meirihlutinn telur að loftslagsbreytingar hafi ekki alvarleg áhrif á umhverfið sem þeir búa. Ég fæ ekki betur séð en að meirihlutinn hafi bara rétt fyrir sér. Þótt hlýnun jarðar sé alvarlegt umhverfisvandamál víða um heim þá er erfitt að sjá að dálítil hlýnun geti verið skaðleg í heildina ef við hugsum bara um Ísland. Ef hlýnar á Íslandi skapast t.d. miklu betri aðstæður fyrir allskonar ræktun s.s. kornrækt og skógrækt. Hafísheimsóknir ættu að vera úr sögunni og minnkandi jöklar er ekki vandamál heldur bara breyting í þá átt sem var við landnám. Það er kannski helst óvissan með áhrifin á fiskistofna sem við þurfum að hafa áhyggjur af.
En hins vegar er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að hugsa um þessa hluti, þótt áhrifin geta verið jákvæð á Íslandi er þetta fyrst og fremst hnattrænt vandamál og þar berum við ábyrgð eins og aðrir.
mbl.is Hlýnun ekki ógn á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er orðinn tíuþúsundkall

Núna á þessum hátíðardegi þegar við ætlum eina ferðinni enn að vinna Eurovision skal það upplýst að ég hef náð þeim merkisáfanga að vera kominn með heilar 10.000 flettingar á bloggsíðu mína eftir átta mánaða bloggstrit. Ég geri mér að vísu alveg grein fyrir því að þetta er ekki nema kannski vikuskammtur hjá þeim alsprækustu, en 10.000 er nú samt fín tala, þætti t.d. nokkuð góður áhorfendafjöldi á landsleik í fótbolta. Þegar ég kom inn á þennan bloggheim á sínum tíma var svo sem aldrei meiningin að gerast einhver stórbloggari eða allsherjar þjóðfélagsrýnir. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið einhverskonar tómstundagaman þar sem ég fæ útrás fyrir áhuga minn á náttúruvísindum allskonar, en óhætt er að segja að þar komi veðurpælingar helst við sögu. Svo eru auðvitað ýmis hliðarskref sem snúast um samfélagið og umhverfi okkar bæði nær og fjær og sambúð okkar við það. Ég læt hins vegar dægurmálin og pólitíkina nánast alveg eiga sig því það mega aðrir sjá um það. Svo er ég lítið að blanda fjölskyldunni í þetta, enda er þetta heldur ekki svoleiðis. Ég skrifa ekki daglega, finnst alveg nóg að skrifa svona 2-3 í viku en eyði kannski þeim mun meiri tími í hverja færslu og hef allt ríkulega myndskreytt. Svona bloggskrif eru líka ágætis æfing í textaskrifum en það hef ég satt að segja ekki stundað áður, varla skrifað samhangandi setningar síðan ég lauk menntaskóla einhverntíma á síðustu öld. Ég er hinsvegar framhaldsmenntaður og starfandi sem grafískur hönnuður en í því starfi þarf ég ekkert að skrifa nema kannski eina og eina fyrirsögn eða slagorð.

Í fyrstu ætlaði ég ekki að segja neinum frá skrifum mínum og velti því fyrir mér að sleppa alveg bloggvinum en sá að það gekk ekki til lengdar þegar ég var stundum að fá jafnvel engar heimsóknir eftir ákaflega metnaðarfullar færslur sem ég hafði verið að útbúa í nokkra daga. Ég er alveg sáttur við þá hóflegu traffík sem er hér á síðunni í dag og ætla ekki að breyta ritstjórnarstefnunni en auðvitað þróast allt einhvernvegin til lengdar, hversu langur tími sem það er, en ég get þó sagt að ég hef haft það markmið að klára eitt bloggár og sjá svo til.

Eitt af hliðarskrefum á þessari síðu er tónlistin og frá áramótum ári hef ég verið með það sem ég kalla tónlistarmyndband mánaðarins. Frönsku Eurovisionlögin sem voru um daginn voru eiginlega aukanúmer, en hér kemur hið formlega tónlistamyndband mánaðarins, það er með hljómsveitinni 10.000 maniacs og heitir Like the weather. Gott lag og viðeigandi á þessum merku tímamótum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband