24.8.2008 | 11:55
Gullinsnið - hið heilaga hlutfall
Þótt gullið hafi runnið okkur úr greipum í dag getum við samt glaðst yfir að koma heim með heilan silfursjóð frá Ólympíuleikunum. En ég ætla ég samt að fjalla um gull, reyndar meira svona huglægt gull eða hið dularfulla Gullinsnið - sem jafnvel er talið vera undirstaða allrar fagurfræði, hvorki meira né minna.
Hið umrædda gullinsnið snýst um hlutfallið 1 á móti 1,618 (+fleiri aukastafir). Ferhyrndur flötur með hliðarlengdum í þessu hlutfalli er undirstaða gullinsniðs en slíkur ferhyrningur er fenginn með því að skipta rétthyrningi fyrst í tvennt, skálína dregin milli horna annars hlutans og sú lína síðan felld niður, en þannig fæst lengdin. Ef hæð upphaflega ferningsins er t.d 1 metri, er breidd nýja ferhyrningsins í gullinsniði þá 1,618 metrar.
Það er talið að forn-Grikkir hafi fyrstir spáð í gullinsnið en þeir vildu meina að rétthyrningur í gullinsniði væri einfaldlega fallegasti ferhyrningur sem völ væri á og þetta væri einnig fallegasta hlutfall milli tveggja stærða. Þeir notuðu þetta hlutfall óspart í sinni list og arkitektúr enda gullinsnið eitt undirstöðuatriðið í klassískri fagurfræði. Rómverjar tóku þetta svo upp síðar og svo endurreisnarlistamenn eins og Leonardo Da Vincy. Margir hafa jafnvel talið að þetta hlutfall sé líka til staðar í ríkum mæli í náttúrunni, stærðarhlutföll margra beina í mannslíkamanum er til dæmis nálægt 1 á móti 1,618. Þar má nefna beinin í handleggjum og fótleggjum og í hverjum fingri mannsins er stærðarhlutfall beinanna það sama 1 á móti 1,618 eða svo til.
Hér að neðan hef ég tekið saman nokkur dæmi úr ýmsum áttum þar sem gullinsnið kemur fyrir, meðal annars af nokkrum gömlum húsum í Reykjavík en það var einmitt í umræðum um gömul hús hér á síðunni um daginn, sem ég hafði orð á gullinsniði. Eins og sjá má er gullinsnið í fullu gildi enn í dag og sjálfsagt er það engin tilviljun að greiðslukort eða sígarettupakkar eru í gullinsniði. Svo er það alveg spurning hvort kýrin eigi hlutföllum heilags gullinsniðs fegurð sína að þakka og ekki má gleyma að kýr eru heilagar í sumum löndum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
20.8.2008 | 17:12
Goombay Dance Band - Sun of Jamaica
Goombay Dance Band, man einhver eftir þeim? Eða kannast kannski enginn við að muna eftir þeim, hafi þeir á annað borð aldur til? Mörgum þótti þetta nú samt alveg svakalega fínt á árunum í kringum 1980.
Þegar fólk hlustaði á tónlist Goombay Dance Band, var það umsvifalaust horfið frá sínum kalda hversdagleika til paradísareyja Karíbahafsins með sínar hvítu sandstrendur, pálmatré og kókóshnetur. En er þetta góð tónlist? Ég veit það ekki, en hugsanlega getur þetta brætt eitthvert íshjartað enn þann dag í dag. Goombay Dance Band komst hátt á vinsældalistum á sínum tíma ekki síst í Þýskalandi og merkilegt nokk, þaðan er þessi eldheita hljómsveit einmitt komin.
Þetta er myndband mánaðarins á þessari síðu: Sun of Jamaica, frá árinu 1979 með Goombay Dance Band og það má alveg tileinka það hinum fótfráu Jamaíkabúum á Ólympíuleikunum. Og jafnvel líka okkar harðsnúna handboltaliði - þeir gera sitt besta og aðeins betur ef það er það sem þarf. Meiri speki er ekki í boði að þessu sinni.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.8.2008 | 11:44
„Við verðum að losa skipulagsmálin úr þessu peningaati“
Fyrirsögnin á þessari færslu er ekki frá mér komin heldur er þetta yfirskrift mjög áhugaverðs viðtals í Fréttablaðinu núna á laugardaginnn sem ætti eiginlega að vera skyldulesning, en þar er rætt við Margréti Harðardóttur arkitekt sem rekur arkitektastofuna Studio Granda ásamt Steve Christer en óhætt er að segja að þau eru meðal okkar virtustu arkitekta í dag.
Það sem Margrét segir í viðtalinu virðist nokkuð í takt við það sem húsfriðunarsinnar hafa talað um en hún er greinilega ekki sátt við það hversu gömul hús njóta lítillar virðingar í dag og virðist m.a. hafa áhyggjur af því eins og fleiri að uppbygging miðbæjarins stjórnist af hagsmunum lóðareigenda sem vilja hámarka sína fjárfestingu, á kostnað eldri húsa sem fyrir eru á staðnum, en um eldri hús segir hún þetta:
Flestir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir umhverfinu skilja að þessi hús hafa sál, tengingu við arfleifð okkar og rætur og þetta skiptir okkur máli. Við sem arkitektar sjáum þessi hús sem tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt, þau eru formerki fyrir það sem á að gera í götunni og útgangspunktur.
Því miður finnst mér vera allt of margir sem skilja ekki svona tal, eða hafa ekki þessa tilfinningu fyrir umhverfinu sem hún talar um. Modernisminn eins og hann er í dag er ekki endilega fólgin í því að rífa og byggja stærra, það er nefnilega líka modernísk hugsun að huga því sem fyrir er. Nú þegar enn ein umskiptin hafa orðið í Borgarstjórn Reykjavíkur er ég hræddur um að þessi viðhorf eigi ekki lengur eins mikið uppá pallborðið því gamla vinalega götumyndin hefur misst valdamikinn bandamann sem Ólafur F. var og það veldur mér allavega áhyggjum og sama má svo kannski líka segja um önnur mál.
Um Listaháskólabygginguna er Margrét auðvitað alveg sammála mér þegar hún segir að svona skóli eigi alls ekkert endilega að vera við Laugaveginn, hvað þá að fórna fyrir honum gömlum fallegum byggingum. Hún nefnir hins vegar staði í útjaðri miðbæjarins þar sem skólinn getur samt orðið bakland og stoð fyrir miðbæinn þótt hann sé ekki staðsettur við sjálfa verslunargötuna. Það má enda ekki gleyma því að í listnámi þurfa menn líka frið til að stunda sitt nám eins og í öðru námi, í stað þess að vera jafnvel sýningargripir sjálfir.
Svo eru hér í lokin tvær myndir. Önnur er af húsunum við Laugaveginn sem eiga að víkja fyrir Listaháskólanum en hin er frá Berlín þar sem búið er að reisa nýjan nútímalegan miðbæ á fyrrum einskinsmannslandi. Hvað skal segja um hinu nýju Berlín? Jú, kannski skárri en Hamraborgin en jafnast samt ekkert á við Laugaveginn ef ég á að segja eins og er.
Byggingar | Breytt 18.11.2008 kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.8.2008 | 12:56
Hin langa leit að norðvesturleiðinni
Í fyrrahaust gerðist sá atburður að norðvesturleiðin svokallaða varð íslaus en það er siglingaleiðin um Perry-sund gegnum norðurhjaran milli Atlantshafs og Kyrrahafs. Nú þykjast ýmsir sjá fram á að með sömu þróun geti siglingaleiðir þarna orðið greiðari og fjölfarnari, a.m.k. þann hluta ársins þegar hafísinn er minnstur. Það var sjálfur norski landkönnuðurinn Roald Amundsen sem fyrstur manna tókst að sigla á skipi sínu Gjøa norður fyrir meginland Ameríku á árunum 1903-1906 og þótti það mikið afrek á sínum tíma.
Leiðin sem Amundsen fór lá þó ekki í gegnum hið breiða Perry-sund sem opnaðist í fyrra, því hann fór krókaleið sem er sunnar um þröng sund sem varla eru fær stórum skipum. Leitin að siglingafærri norðvesturleið til Asíu hafði þá staðið í langan tíma en reyndist mörgum sannkallað helvíti á jörð og varð ótal manns að aldurtila enda þetta ískalda svæði hálfgert völundarhús fjölda eyja og síbreytilegra ísalaga og eitt síðasta svæðið sem tókst að kortleggja hér á jörð. Það verður þó að hafa í huga að þegar norðurhjarinn var kannaður var litla ísöldin einmitt í fullum gangi og loftslag talsvert kaldara enn í dag.
Stiklur úr könnunarsögunni
Fljótlega eftir að Cólumbus fann Ameríku fóru menn að forvitnast eftir mögulegri norðvesturleið til Asíu. Einn sá fyrsti af þeim var Sebastian Cabot sem komst inn Hudsonsund árið 1509 en hann gafst upp fljótlega þegar hann sá ekkert nema gífurlegan ís. Ekki vissu menn betur framan af en að Hudsonflóinn væri lykillinn að norðvesturleiðinni, en hann heitir eftir Henry Hudson sem þangað fór í nokkrar ferðir um 1600. Hann endaði sína daga í fjórðu ferð sinni þegar vonsviknir og hraktir skipsverjar gerðu uppreisn og settu Hudson út á opinn bát og skildu hann eftir ásamt nokkrum sjúkum skipverjum og spurðist ekkert til hans eftir það. Hróbjartur Bylot hét hét einn þeirra níu skipverja sem sneru heim til Englands eftir þessa ferð en hann átti eftir að halda landkönnun áfram og komst að ísilögðu Lankastersundi en taldi að um fjörð væri að ræða og sneri við.
Ýmsir misárangursríkir leiðangrar voru gerðir áfram, meðal annars Danskur 64 manna leiðangur sem fór um þessar slóðir snemma á 17. öld en það var mikil hörmungarferð þar sem aðeins þrír lifðu af. Leiðangurinn átti að standa í þrjú ár en flestir fórust úr skyrbjúg og hungri, ekki síst vegna þess að þeir kunnu ekki að veiða í gegnum ís!
Einn stærsti áfanginn í könnun norvesturleiðarinnar voru ferðir John Franklín á árunum 1819-1846. Í síðustu ferð sinni náði hann að Kóngs Vilhjálmseyju en skip hans sat fast vestur af eynni og losnaði ekki aftur. John Franklín hafði heyrt af eldri landkönnuðum að Kóngs Vilhjálmseyja væri í raun skagi út frá meginlandinu og því hafi hann valið þann ranga kost að fara vestur fyrir þar sem ísinn er meiri. Þegar farið var að að leita hans tveimur árum síðar urðu örlög hans ljós en innfæddir sögðust hafa séð hvítu mennina hníga niður einn af öðrum en annars eru örlög leiðangursmanna óljós.
Leitin að John Franklín virðist hafa skilað miklum árangri í könnun svæðisins sem síðar leiddi til leiðangurs Roald Amundsens en hann hafði lært að lykillin að leiðinni væri sá að fara réttu megin við Kóng Vilhjálmseyju, það er austur og suður fyrir. Eftir að þar var komið í gegn var hægt að þræða sig áfram suður fyrir Viktoríueyju með því að nýta sér glufur í ísnum sem myndast meðfram ströndum þegar vindur stóð af landi. Þannig tókst að lokum í fyrsta skipti árið 1906 að koma skipi norður fyrir meginland Ameríku og þótti það auðvitað mikill merkisviðburður eftir allar þær þrautir og mannfórnir sem leitin að norðvesturleiðinni hafði kostað.
- - - - - -
Það má taka fram að grunnurinn að kortinu sem ég nota til að sýna leiðina er fenginn af síðunni The Cryosphere Today og sýnir það hafísinn eins og hann var þann 10. ágúst. Þarna má sjá að Perry-sund er ekki orðið íslaust ennþá en gæti þó orðið það áður en haustar eins og gerðist í fyrra. Leiðin sem Amundsen fór er hins vegar opin núna samkvæmt síðustu fréttum en undanfarna daga hefur bráðnun norðurheimskautaíssins verið hraðari en á sama tíma í fyrra, sem er breyting frá því ég tók stöðuna á ísnum síðast þann 5. ágúst.
Og varðandi heimildir þá skal nefnd ágætis grein sem birtist í tímaritinu Samvinnunni árið 1966 en í þeim gömlu blöðum er margan fínan fróðleik að finna.
Myndin hér að ofan heitir Das Eismeer (Sea of Ice) eftir Caspar David Friedrich, máluð árið 1823.
11.8.2008 | 19:52
Smárinn
Ég ætla nú aðeins að snúa mér að gróðri jarðar og taka fyrir þessa sérstöku plöntu sem við þekkjum öll og nefnist hvítsmári, oftast kallaður bara smári. Hver hefur ekki lagst niður á fjóra fætur í þeirri von að finna fjögurra blaða smára til að geta óskað sér einhverrar dásemdar? Sjálfsagt hafa margir fundið fjögurra blaða smára þótt svoleiðis sé ekki algengt, jafnvel er hægt að finna fimm blaða smára sem er enn sjaldgæfara en ekki veit ég hvort eitthvað sé á honum að græða fyrir hjátrúarfulla. Fjögurra blaða smáranum hefur hins vegar lengi fylgt hjátrú, hugsanlega vegna samsvörunar við hinn heilaga kross svona fyrir utan það að vera sjaldgæft fyrirbæri.
En það er annað atriði sem gerir smáraplöntuna merkilega sem ég er ekki viss um að allir átt sig á. Smárinn er nefnilega í þeim sjaldgæfa flokki plantna, ásamt t.d. lúpínu, sem getur unnið köfnunarefni úr andrúmsloftinu og getur því dafnað vel þrátt fyrir næringarsnauðan jarðveg. Köfnunarefni (nitrogen, nítrat) er líka dálítið merkilegt efni því þótt það hafi ekki mikil áhrif á okkar daglega líf er innihald andrúmsloftsins að 78% leiti köfnunarefni. Plöntur þurfa þetta efni til að vaxa og dafna, þær soga það úr jarðveginum enda er köfnunarefni eitt af helstu efnunum í tilbúnum áburði.
Smárinn er algengur á grasflötum, og hefur vegna eigin köfnunarefnisframleiðlsu ákveðið forskot á grasið ef lítið hefur verið borið á það af áburði. Þetta má t.d. vel sjá á grasflötunum meðfram sjónum við Eiðsgranda og Seltjarnarnes. Smáraplantan myndar oft litlar hringlagar breiður sem vaxa út frá miðju, stækka með hverju ári og vaxa að lokum saman við næstu breiðu. Grasið nýtur svo góðs að smáranum því þar sem smárinn hefur farið yfir er jarðvegurinn köfnunarefnisríkari fyrir vikið og allur vöxtur eykst. Það er því engin ástæða til að líta á smárann eitthvað illgresi enda er þetta bæði kurteis og hjálpsöm planta sem er ekkert að æða um allt og kaffæra annan gróður eins lúpínan gerir, enda er hún ættuð úr allt öðru vistkerfi.
Smárabreiða á Seltjarnarnesi 9. ágúst 2008. (Ljósmyndir: EHV)
Vísindi og fræði | Breytt 12.8.2008 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.8.2008 | 15:05
Ólympíuhitt og þetta
Þá eru hinir miklu kínversku Ólympíuleikar hafnir, hin glæsilega setningarathöfnin búin og athyglin loksins farin að beinast að íþróttunum sjálfum. Þessir leikar eru auðvitað mikið mál fyrir Kínverja sem voru svo vinsamlegir að skjóta skjólshúsi yfir leikana að þessu sinni, enda gefst þeim þarna tækifæri til að sanna sig og sýna hvers þeir eru megnugir. Ólympíuleikarnir eru auðvitað mikil auglýsing fyrir Kína, þótt sú auglýsing sé kannski ekki alltaf sú sem Kínverjar hafa óskað sér. Víða á vesturlöndum er litið á þetta sem Ólympíuleika loftmengunar, mannréttindabrota og yfirgangs stjórnavalda gagnvart minnihlutahópum þótt flestir Kínverjar líta á þetta sem stórkostlega sigurhátíð eigin ríkis.
Ég er ekkert sérstaklega fyrir það að sniðganga Ólympíuleika þótt gestgjafar séu svona og hinsegin. Það er samt ekkert að því að mótmæla og vekja athygli á málum sem eru ekki alveg í lagi, af þeim er víst nóg í Kína miðað við okkar fullkomnu vesturlönd, en margt af því hefði örugglega ekki verið eins áberandi í umræðunni Kína hefði ekki orðið fyrir valinu, ég nefni bara loftmengunina og Tíbetmálin sem dæmi.
Talandi um að sniðganga Ólympíuleika þá eru auðvitað eftirminnilegast þegar Sovétríkin og Bandaríkin sniðgengu Ólympíuleika hvors annars á meðan kalda stríðið var enn í gangi. Fyrst í Moskvu árið 1980 þegar Sovétmenn hertóku Afganistan, en það þótti mikill alþjóðaglæpur í þá daga. Það kom því engum á óvart fjórum árum síðar að austurblokkin svokallaða sniðgekk Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984. Sem varð reyndar okkur til happs því þá komst íslenska handboltalandsliðið á svona leika í fyrsta sinn og stóð liðið sig þar með prýði og íslenska handboltaævintýrið hófst fyrir alvöru.
Árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina hefur verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Það leiðir aftur hugann að Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980, en þar keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari sem við höfum átt, Jón Diðriksson. Í þá daga voru engar beinar útsendingar í sjónvarpi en Ríkisútvarpið sendi hinsvegar lítt kunnan fréttamann, Stefán Jón Hafstein, til að lýsa beint viðburðum í útvarpi allra landsmanna. Stefán lýsti 1500 metra hlaupi Jóns Diðrikssonar af mikilli ákefð ekki síst vegna þess að Jón tók snemma forystu í hlaupinu. Allt hlaupið jós Stefán miklu lofi á hlaup Jóns Diðrikssonar, en þess á milli mátti heyra: hann er fyrstur hann er annar hann er orðinn þriðji hann dregst aðeins afturúr hann kemur í mark og er
sjöundi í riðlinum.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2008 | 16:30
Ég er snjór
Fæstir eru eins og fólk er flest og þar er ég ekki undanskilinn. Ég fann um daginn dálítið próf á CNN fréttavefnum þar sem hægt er að fá persónuleikaeinkenni sín skilgreind út frá veðurástandi, sem er auðvitað mjög áhugavert fyrir svona veðuráhugamann eins og mig, en annars er ég ekki mikið fyrir að taka svona próf. Eftir að hafa svarað þarna nokkrum spurningum af mikilli samviskusemi komst ég að því að veðurpersónuleiki minn er snjór. Ég get alveg fallist á þessa skilgreiningu og líkar hún bara ágætlega. Þetta þýðir samt ekki endilega að ég sé kuldalegur og vonandi ekki kaldlyndur. Kannski er ég bara dálítið svalur hið ytra, sjálfsagt svona frekar af rólegra taginu, en allavega ekki mikill æsingamaður.
Já, ég er ís-maður, hef líka áhuga á ís, búinn að skrifa heilmikið um ís og snjó af öllu tagi, en síðast en ekki síst, þá er ég góður ís-lendingur og klár í slaginn fyrir næsta vetur.
Hér er svo prófið: http://edition.cnn.com/2008/TECH/science/07/18/nature.quiz/index.html
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.8.2008 | 14:56
Hafísinn á norðurpólnum í sæmilegu ástandi
Þá er komið að hafístíðindum, en Bandaríska hafísrannsóknarstofnunin National Snow and Ice Data Center (NSIDC) birti núna nýlega yfirlit um það hvernig hafísnum reiðir af á Norðuríshafinu þessa dagana. Núna virðast menn gera sér grein fyrir því að hafíslagmarkið frá því síðasta haust verði ekki endurtekið, en eins og frægt er þá hafði aldrei á okkar tímum verið eins lítill hafís þarna norðurfrá eins og í fyrra. Því er þó spáð að hafísinn verði samt vel undir meðallagi í haust og sennilega nálægt því sem hann var árin 2005 og 2002.
Myndin til vinstri sýnir útbreiðslu hafíssins þann 3. ágúst.
Ef maður les yfirlitið frá þeim má ef til vill greina dálítil vonbrigði með stöðu mála en hafísinn er einn af þeim þáttum í náttúrunni sem þykja góður mælikvarði á þróun hitastigs á jörðinni. Þeir sem hafa verið að boða loftslaghlýnun hafa svona heldur átt undir högg að sækja undanfarið því lítið hefur frést af hitabylgjum og hækkandi hitastigi svona almennt í heiminum, nema kannski hér á Íslandi.
Undanfarið ár hefur yfirleitt verið frekar kalt á jörðinni og ekki síst á norðurpólnum og því ekki óeðlilegt að hafísinn eflist við það. Veður og vindar á norðurpólnum hafa líka verið allt öðruvísi en í fyrra og ólíkt því sem gerðist þá, en ein afleiðing þess sýnist mér vera sú að núna hefur lítið af hafís borist í gegnum Fram-sund á milli Austur-Grænlands og Svalbarða og því mjög lítill ís við Austur Grænland, sem gæti þýtt að lítill hafís verði hér við Ísland næsta vetur. Í fyrra hinsvegar streymdi hafísinn út sundið, sem skýrir að hluta hvers vegna svo lítið var eftir af hafís á sjálfu Norðuríshafinu í fyrrahaust.
Með þessum mikla hafís sem streymdi þarna suður eftir í fyrra hefur hugsanlega fylgt óvenju mikill fjöldi af ísbjörnum sem síðan hafa þvælst um og það er kannski skýringin á því hversvegna a.m.k. tveir þeirra hafa orðið strandglópar hér á Íslandi. (Tilgáta og pæling frá mér)
En svo ég snúi mér aftur að hafísspánni, þá gera NSIDC menn sér þó enn dálitlar vonir um að hafíslágmarkinu verði samt náð, sérstaklega vegna þess hve ungur og þunnur ísinn er. Norðurpóllinn sjálfur gæti hugsanlega orðið íslaus eins og var verið að spá í sumar, en þá er auðvitað bara verið að tala um Norðurpólinn sjálfan en ekki ísinn eins og hann leggur sig.
Hér kemur svo spáin um framhaldið í haust. Rauða línan sýnir hafísinn árið 2007 en bláa línan útbreiðsluna árið 2008 og mismunandi horfur næstu vikur.
Yfirlitið frá NSIDC má annars sjá hér: http://nsidc.org/arcticseaicenews/
1.8.2008 | 00:33
Esjuskafl heimsóttur
Fyrir ofan Gunnlaugsskarð má finna snjóskafl þann í Esjunni sem lífseigastur er á sumrin. Þangað var ferðinni heitið í dag, 31. júlí og var ekki annað að sjá en að skaflinn ætti þó nokkuð líf eftir, þrátt fyrir að mikil hlýindi hafi verið undanfarna daga. Í návígi er skaflinn tignarlegur þegar horft er upp eftir honum með hæstu hæðir Esjunnar í baksýn en dálítill sandur á yfirborðinu myndar á honum flekkótt mynstur.
Þótt skaflinn núna sé nokkuð stærri en á sama tíma í fyrra er þó líklegast að hann nái að bráðna áður en haustar. Geri hann það hins vegar ekki væru það dálítil tíðindi því frá árinu 2001 hefur skaflinn alltaf bráðnað og Esjan snjólaus séð frá Reykjavík. Hinsvegar eru nokkrir skaflar í norðurhlíðum fjallsins sem ekki er vitað til að hafi bráðnað, en þeir eru ekki taldir með í svona athugunum því þeir eru ekki sýnilegir frá höfuðborginni.
30.7.2008 | 22:28
Gervitunglamynd af landinu á hitametsdegi
Á þessum merkisdegi er alveg ómögulegt annað en að þessi mynd af landinu okkar birtist. Þetta er MODIS gervitunglamynd og ekki annað hægt að segja en að landið hafi skartað sínu fegursta. Léttskýjað er víðast hvar á landinu nema norðvestanlands þar sem þokan hefur læðst inn flóa og firði og inn eftir dölum. Þessi dagur kemst auðvitað á spjöld Íslandssögunnar fyrir það að þá fór hitinn íReykjavík í fyrsta sinn yfir 25 gráður samkvæmt opinberum mælingum ásamt ýmsum öðrum hitametum sem slegin voru sunnan- og vestanlands. Nýja hitametið fyrir Reykjavík er sem sagt 25,7 gráður, sett síðdegis þann 30. júlí 2008 og sló út fyrra metið sem var 24,8 gráður frá því skömmu fyrir hádegi hins 11. ágúst árið 2004.
Rétt áður en þessi færsla var vistuð bárust fréttir af þrumuveðri suðaustanlands sem væntanlega kemur úr skýjaþykkninu sem þarna sést skammt undan landi. Þetta munu vera kuldaskil sem bera með sér dálítið svalara loft.
Vísindi og fræði | Breytt 15.12.2008 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.7.2008 | 16:15
Gígjökull heimsóttur
Um helgina var ég á ferð um Suðurland og var tilvalið að skreppa áleiðis inn að Þórsmörk til að kíkja á Gígjökul sem er skriðjökullinn sem fellur niður í lón norður af Eyjafjallajökli. Þótt ég sé á fjórhjóladrifnum bíl er það ekki mikið torfærutæki og þurfti bíllinn því að taka á honum stóra sínum til að komast yfir nokkur vöð sem eru á leiðinni þarna inneftir, en þau voru nokkuð vatnsmikil enda hlýtt í veðri. Þarna var líka hópur útlendinga á tveimur Land Rover jeppum sem fannst þetta vatnasafarí æði spennandi og ógnvænlegt en farþegarnir kusu að fara yfir göngubrúna við lónið og ljósmynduðu grimmt þegar bílum þeirra var ekið yfir útfallið.
Ég hef ekki komið þarna í mörg ár og því ekki séð jökulinn eftir að hann tók að hopa svo mjög síðustu árin, en nú nær hann með herkjum ofan í lónið sem hann hálffyllti fyrir ekki svo mörgum árum. Það má vel sjá á landinu þarna hvernig jökullinn hefur legið áður þegar hann breiddi hvað mest úr sér. Jökullin skreið fram á 8. áratugnum og myndaði þá væntanlega sandölduna sem er lengst til vinstri á myndinni hér fyrir ofan, en kletturinn sem er hægra megin við neðsta hluta jökulsins kom ekki í ljós fyrr en upp úr aldamótunum 2000.
Eyjafjallajökull gaus síðast árið 1821 og því fylgdi mikið hlaup úr jöklinum sem sennilega hefur komið undan Gígjökli með tilheyrandi jökulburði. Síðan var þarna talsverður órói á árunum 1991-99 sem féll dálítið í skuggann af svipuðum atburðum í Mýrdalsjökli á þeim árum en ég hef heyrt jarðfræðing segja að litlu hefði mátt muna að gos yrði á þessum árum í Eyjafjallajökli.
- - - - -
Árið 1980 var ég í skólaferðalagi með Álftamýraskóla þar sem farið var inní Þórsmörk og stoppað við Gígjökul, en þá var myndin hér til hliðar tekin. Þá hefur jökullinn verið hvað stærstur nú í seinni tíð og þá þótti nokkrum alveg tilvalið að hlaupa út á skriðjökulinn sér til skemmtunar en kennurum til hrellingar. Það er örugglega minna gert af því í dag enda ekki mikill skriðjökull til staðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2008 | 21:04
Kraftwerk – Tour de France
Í júlí á hverju ári fer fram í Frakklandi hjólreiðakeppnin mikla Tour de France sem sennilega er ein erfiðasta þrekraun sem háð er á sviði íþrótta. Keppnin í ár hófst þann 5. júlí en líkur nú á sunnudaginn 27. júlí þegar hjólreiðamenn koma í mark í París, eftir að hafa hjólað 21 dagleið um þvert og endilangt Frakkland, samtals 3,500 kílómetra. Þótt ég fylgist ekki með keppninni frá degi til dags og er í rauninni nokk sama hver sigrar finnst mér vera ákveðinn glæsileiki yfir þessari keppni þar sem tugir hjólreiðamanna æða í þéttum hópi í gegnum sveitir landsins, yfir fjöll og niður í dali.
Félagarnir í þýsku hljómsveitinni Kraftwerk voru brautryðjendur og miklir áhrifavaldar á sviði tölvu- og raftónlistar á sínum tíma en sú hljómsveit var stofnuð árið 1970 þegar hugtakið tölva var flestu fólki ákaflega framandi. En þeir eru líka miklir hjólreiðaáhugamenn og hafa tvisvar samið lög um Frakklandshjólreiðarnar sem bæði heita einfaldlega Tour de France. Það fyrra kom út árið 1983 og er eitt af þeirra þekktari lögum en hið síðara er frá 2003. Það er einmitt lagið sem hér fylgir og er myndband mánaðarins á þessari síðu. Þetta er allt mjög glæsilegt, flott myndband, flott tónlist og flott íþrótt, svo framarlega að menn kunni að meta svona lagað.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2008 | 18:11
Um staðsetningu Listaháskólans við Laugaveg
Ég endaði síðasta pistil á því að minnast á fyrirhugaða nýbyggingu Listaháskólans við Laugaveg en þennan pistil ætla ég að helga þeim áætlunum því eins og margir sem hafa tjáð sig um þetta mál er ég hreint ekki alveg sáttur með í hvað stefnir. Ég hafði reyndar efasemdir strax þegar tilkynnt var að Listaháskólinn hafði fengið þessa lóð í fyrr eftir makaskiptasamning sem gerður var milli borgarinnar og Samson Properties sem fékk í staðinn lóðina við Laugarnes, þar sem Listháskólinn er nú til húsa að hluta til.
Það var alltaf vitað að þessi skólabygging krefst mikilla húsakynna enda þarf þarna sali til að hýsa tónlistar- myndlistar, leiklistarkennslu o.fl. Vandamálið er því það að þessi bygging hvernig sem hún mun líta út verður alltaf stórhýsi sem mun þrengja sér inn á byggingarreit að takmarkaðri stærð og útkoman verður alltaf byggingarbákn sem er í engu samræmi við það umhverfi sem fyrir er á Laugaveginum. Það hefur verið vaxandi vilji að varðveita þetta umhverfi og götumynd, enda hafa verið uppi ýmis önnur áform um að koma upp stórhýsum við Laugaveginn í nafni svokallaðrar uppbyggingar á kostnað þess sem fyrir er og þá kennt um lóðabraski fjárfesta og verktaka sem hafa ekki annað en eigin gróða að markmiði. Það er því dálítið sérstakt að svona stórkarlaleg áform skuli nú vera fyrirhuguð í nafni listarinnar, því það er ekki síst fólk með listmenntun og listnemar sem hafa staðið fyrir verndun þess sem fengur er í og á undir högg að sækja. Sjálfsagt er það þó svo að listamenn vilja halda til sem næst miðbænum í hringiðu mannlífsins en ég get þó ekki ímyndað mér annað en að það veki upp blendnar tilfinningar meðal þeirra þegar nærvera þeirra skuli eiga sinn þátt í að skekkja þá götumynd og stemmningu sem Listaháskólin vill sækja í og vera hluti af.
Mynd til vinstri: Húsin sem eiga að víkja við Laugaveginn. Mynd til hægri: Listaháskólinn við Skipholt.
Ég var sjálfur nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1986-89 en þá var skólinn ekki orðinn sameinaður öðrum skólum sem allsherjar Listaháskóli. Húsnæðið var og er að hluta til við Skipholt og var stundum uppnefndur Stiga- og handriðaskólinn enda húsnæðið svona upp og ofan, frekar hrátt á köflum sem reyndar hentar ágætlega þeim óhefluðu vinnubrögðum sem fylgir gjarnan myndlistariðkun. Hvernig það allt virkar í nýrri glæsibyggingu veit ég ekki.
Ég get alveg séð fyrir mér að uppbygging Listaháskólans hefði getað verið áfram á sömu slóðum þarna rétt fyrir ofan Hlemmtorg. Nú er t.d. búið að rífa gömlu Hampiðjuhúsin þarna sem síðast hýstu listgjörningaapparatið Kling og Bank en sú lóð var einmitt í eigu Samsons, félags Björgúlfs Guðmundssonar. Hefði skólinn ekki getað verið á því svæði? Umhverfið þar í kring er allavega með þeim hætt að það getur ekki annað en batnað jafnvel þótt byggð verði stór fúnktíónalísk kassahús eins og fyrirhugað er að reisa við Laugaveg, í þeim tilgangi að bera gömlu húsin þar ofurliði nema þau eigi kannski öll að fara á endanum.
Menning og listir | Breytt 18.11.2008 kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2008 | 19:36
Antonio Gaudí og fagurfræði náttúrunnar
Þegar maður heimsækir Barcelóna sem ferðamaður og lítur á þær fjölmörgu minjagripaverslanir sem þar eru fer ekki milli mála hvað það er sem þykir túristavænast öðrum atriðum fremur, en það eru verk hönnuðarins og arkitektsins Antonio Gaudí sem bjó þar og starfaði á áratugunum um og eftir 1900. Það eru þó ekkert óskaplega margar byggingar sem hann lætur eftir sig en hinsvegar þykja verk hans svo sérstök að nánast allar hans byggingar eru í dag ekkert annað en fjölsóttir ferðamannastaðir eða söfn þar sem gert er út á verk listamannsins.
Frægasta verk hans og um leið eitt aðalkennileiti Barcelónaborgar er án efa kirkjubyggingin mikla La Sagrada Familia, sem hafist var handa við að byggja árið 1882, en sökum þess hve óskaplega stór hún er og flókin í smíðum sér ekki enn fyrir endann á þeirri byggingarvinnu. Þeir 8 turnar sem þegar eru risnir eru ekki annað en aukaturnar við hlið aðalturnana sem hafa ekki enn verið reistir, þar sem sá hæsti í miðjunni mun rísa í upp í 170 metra hæð. Það sem gerir Verk Antonio Gaudís svo sérstök eru hin óvenjulegu bogadregnu form og skreytilist allskonar sem er fengin úr náttúrunni sjálfri. Þarna eru engar beinar línur, öll form eru lífræn og jafnvel burðarvirki bygginganna eiga sér fyrirmyndir í náttúrunni. Það sem vakti fyrir Gaudí á sínum tíma var að þróa nýjan byggingarstíl sem átti að taka við af hinum reglufasta nýklassíska stíl sem hafði verið allráðandi í byggingarlist Evrópubúa og er uppruninn frá forn-Grikkjum og Rómverjum.
Þessi nýi stíll sem Gaudí þróaði í byggingarlist er náskyldur Art Nouveau stílnum sem fleiri listamenn og hönnuðir voru uppteknir við um aldamótin 1900. Hugmyndafræðin er í þá áttina að líta á manninn sem hluta af náttúrunni í stað þess að líta á að náttúran eigi að vera undirgefin manninum. Þetta þýddi þó ekki að allt ætti að vera í óskipulagðri óreiðu eða bara einhvernvegin, náttúran býr nefnilega yfir ströngum verkfræðilögmálum sem bæði virka og geta búið yfir mikilli fegurð. En fagurfræðin er þó ekki bara sótt til náttúrunnar, flest það sem var framandi og dularfullt þótti spennandi og því var skreytilistin oft sótt til annarra heimsálfa eins og Afríku. Þetta á sér líka hliðstæðu í dálætinu á hinu dulræna og forna sem einkenndi hugarheim manna um 1900, einskonar rómantísk tíska sem skýtur upp kollinum af og til í menningarsögunni, síðast árið 1968 þegar menn hlustuðu á gúrúa frá Indlandi, boðuðu afturhvarf til náttúrunnar og frið á jörð.
Tímabil hinnar náttúrutengdu fagurfræði sem Antonio Gaudí aðhylltist varð ekki langt. Í rauninni þóttu byggingar Gaudí vera allt of framandi og furðulegar á sínum tíma, ásamt því að vera afar flóknar í byggingu þar sem nánast hver steinn hafði sína eigin lögun og öll smáatriði voru með sínu lagi. Á sama tíma var líka að koma fram ný byggingaraðferð sem byggðist á stálgrindum og nýr stíll sem kallaðist funktionalismi þar sem allar línur voru beinar og öll horn 90 gráður. Sú stefna átti eftir að sigra heiminn og er enn ráðandi í byggingarlist dagsins í dag og kemur m.a. fram í verðlaunatillögu að nýjum húsakynnum Listaháskólans sem á að rísa á Laugavegi (þar er hugsanlega enn eitt skipulags- og menningarslysið í uppsiglingu sem mætti skoða betur).
Myndirnar sem fylgja hér að ofan eru fengnar úr dagatali 2009 sem er helgað Antonio Gaudí, gefið út af Triangle Postals. Ljósmyndarar: Pere Vivas og Ricard Pla.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2008 | 00:11
Heim frá Barcelóna
Þá er tveggja vikna Barcelónaför lokið og ekki laust við að maður hafi tekið á sig smá lit í allri þeirri brakandi blíðu sem viðgengst á þarna á Spáni. Barcelónabúar vilja að vísu ekki kalla sig Spánverja, því þeir eru stoltir Katalóníumenn en þetta hérað á Spáni hét áður Gotalónía eftir Vest-Gotum sem þangað fluttu á tímum þjóðflutningana miklu í eldgamladaga. Það er lítið mál að hafa ofan af fyrir sér í þessari borg í tvær vikur enda afskaplega mikið að skoða og upplifa en sumstaðar er þó helst mikið túristum. Hitinn þarna yfir daginn var yfirleitt á bilinu 24-28 gráður sem er víst bara alveg eðlilegt þótt auðvitað geti orðið miklu heitara. Ekkert rigndi nema eitt kvöld en þá skilst mér að hafi fallið heilir 57 mm í tveimur úrhellisskúrum sem þá gerði.

Þegar maður fer svona út í heim, sérstaklega á staði þar sem tungumálið er manni framandi er maður hálfpartinn út úr heiminum. Engin tölva var með í för, þannig að þetta var því í leiðinni ágætis bloggfrí og internetfrí sem er talsverð viðbrigði fyrir mig verð ég að segja. Samt ekki algert internetfrí því það kom fyrir að ég kíkti inn á internetsjoppuna í götunni til að taka stöðuna og þá ekki síst á veðrinu hér heima því ekki má koma eyða í veðurskráningar mínar.
Nú þegar heim er komið hef ég á tilfinningunni að ég hafi ekki misst af neinu merkilegu hér heima. Veðrið hefur þó staðið sig að mestu með prýði þótt engin hafi verið hitabylgjan í Reykjavík. Annars er bara sami barlómurinn og krepputalið hér ríkjandi í öllu sólskininu og ekki bætir úr skák að Fram, liðið mitt í fótboltanum, virðist vera framliðið eftir gott gengi fyrr í sumar. En mestu skipir þó að hafa ekki misst af stórskemmtilegum náttúruhamförum enda virðist hafa verið séð til þess. Að lokum er hér svo ein mynd sem ég tók síðustu nóttina í Barcelóna. Þarna er það bjarminn af tunglinu sem lýsir upp himininn bakvið húsið og ein stjarna að auki sem gæti verið sjálfur Júpíter miðað við birtu og stöðu. Kýs að kalla myndina: Nótt í Katalóníu.
Ferðalög | Breytt 29.7.2008 kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)