20.5.2008 | 21:15
Árið 2000. Spáð í gamla framtíðarspá
Þótt það sé áhugavert að velta fyrir sér framtíðinni er ekki síður áhugavert að velta fyrir sér framtíð fortíðarinnar eða öllu heldur framtíðinni eins og menn sáu hana fyrir sér í fortíðinni. Árið 1966 hafði hinn vestræni heimur upplifað mikið framfaraskeið í nokkra áratugi ekki síst í Bandaríkjunum og hinir vitrustu menn sáu enga ástæðu til að efast um að svo yrði um langa framtíð. Það ár birtist í hinu ágæta tímariti Samvinnunni úttekt á því hvernig svokallaðir fúturistar í Bandaríkjunum sáu fyrir sér hátækni þjóðfélagið 34 árum síðar, þ.e. árið 2000. Nú er ég búinn að taka saman í ekki mjög löngu máli helstu framfaraatriðin sem talað er um í umræddri grein en það er greinilegt að eitt og annað hefur ekki alveg gengið eftir og mun kannski aldrei gera. Það má líka alveg velta fyrirsér hvort þarna sé að finna dálitla oftrú á getu mannsins til að skapa sér sæluríki hér á jörð.
Borgarlífið. Því var spáð að um 90% íbúanna byggju í borgum, allavega í Bandaríkjunum. Til að allur sjá fjöldi sem í borgunum búa kæmust leiðar sinnar þyrfti umferðin ekki bara að eiga sér stað á hefðbundnum brautum ofanjarðar og neðan heldur einnig í loftinu með einhverjum hætti. Þarna er væntanlega verið að tala um hina fljúgandi bílaumferð sem alltaf kemur fram í svona spám. Ekki var þó gert ráð fyrir því að allir þyrftu að yfirgefa heimilið sitt á hverjum degi til að stunda sína vinnu, því hægt væri að notast við símatæki sem tengdist sjónvarpsskjá. Ætli það heiti ekki tölva í dag?
Ferðalög. Menn reiknuðu með því að hljóðfráar farþegaþotur yrðu orðnar úrelt fyrirbæri í lengri ferðum árið 2000, þess í stað færu menn á milli heimsálfa með eldflaugum á örskotsstundu. Ferðalög til tunglsins teldust þá ekki til tíðinda og farið yrði að huga að mönnuðum ferðum til Mars og Venusar.
Mengunarvarnir og veðurstjórnun. Til að verjast sót og rykmengun í borgum átti að vera komin einföld lausn. Risastór kjarnorkuver stórborganna framleiða ekki bara rafmagn heldur einnig mikinn varma sem verður beint út í andrúmsloftið með þeim hætti að mikið hitauppstreymi myndast sem lyftir fúla borgarloftinu upp í hæstu hæðir en í staðinn streymi að ferskara og svalara loft með hafgolunni. Í leiðinni átti þetta svo að auka úrkomu á sólþurrkuðum svæðum og bæta uppskeru og gróðursæld.
Matvælaframleiðsla. Spáð var að mannfjöldinn á jörðinni árið 2000 yrði um 6 milljarðar (sem var nærri lagi). Til að seðja sívaxandi fólksfjölda voru helstu vonir bundnar við mikla fiskirækt, en úr fiskinum yrði búið til korn eða duft sem síðan væri hægt að umbreyta í fínustu kjötrétti eða aðrar kræsingar.
Læknavísindin. Auðvitað var spáð miklum framförum á þessu sviði sem vissulega hafa líka orðið. Merkustu framfarirnar áttu þó að vera á sviði heilalækninga með aðstoð efnafræði og rafmagnslækninga þannig að hægt yrði að bæta alla skapgerðarbresti og einnig minnisleysi með lyfjagjöfum. Hægt átti að vera að breyta kjarklitlum vesalingum í framagjarnar hetjur og konur þyrftu ekki annað en að skreppa út í búð eftir skapbætingarpillum sem þær gætu síðan laumað í kaffibolla eiginmannsins.
Ný tækni fyrir húsmæður. Húsmæður allra heimila gátu séð fram á bjartari tíð með miklum tækniframförum í eldhúsinu. Innkaup yrðu gerð með símasjónvarpinu þar sem pantað yrði fyrir alla vikuna. Síðan væri matnum stungið í heilmikla vél og matseðill vikunnar saminn. Maskínan með aðstoð rafmagnsheilatækni átti svo að sjá um framhaldið og afgreiða tilbúna rétti handa heimilisfólki á réttum tíma og sjá svo að sjálfsögðu um uppvaskið á eftir. Að vísu er smá fyrirvari með innkaupin því talað er um að konur séu nú einu sinni þannig gerðar, að þær vilji helzt fara út í búðirnar og handleika þar vörurnar sjálfar.
Atvinnulífið. Vegna mikillar sjálfvirkni í iðnaði og viðskiptum þóttust menn sjá fram á að lítil þörf væri á vinnuafli og sáu sumir fyrir sér að einungis 10% íbúa hátæknisamfélagsins þyrftu yfir höfuð að vera í vinnu. Þetta þýddi samt ekki endilega að fólkið þyrfti aldrei að vinna, því þessu mætti mæta með mjög stuttri vinnuviku eða mjög stuttri starfsævi. Vegna mikilla afkasta vélanna, mætti nota hagnaðinn til að borga fólki fyrir að gera ekki handtak.
Að gera ekki neitt. Ekki virðast fútúristar hafa verið á einu máli um það hvað þegnarnir ættu að taka sér fyrir hendur þegar vinnuframlag þess yrði óþarft. Sumir voru jafnvel svartsýnir og töldu hættu á að stjórnlaus múgur myndi vaða uppi með skemmdarverkum og götuóeirðum svo jafnvel þyrfti að koma á einræðisvaldi til að halda múgnum í skefjum. Fleiri voru þó bjartsýnir og töldu að með aukinni menntun gerði fólk sér betur grein fyrir nauðsyn þess að hafa eitthvað gagnlegt fyrri stafni.
Og mun þetta rætast? Undir lok greinarinnar í Samvinnunni (sem var endursögð, eftir því sem kom fram) eru gerðir vissir fyrirvarar á allar þessar framtíðarspár, því talað er um að þær breytingar á lífsháttum sem tæknin muni stuðla að, muni ekki eiga sér stað nema þjóðirnar séu einhuga um að þær verði til bóta og og stuðli að betra mannlífi. Það sé því undir okkur komið hvað við viljum, tæknin verði allavega til staðar ef á þarf að halda til að skapa okkur hagsæld og hamingju.
- - - - - -
Já, þannig hugsuðu framsýnir menn árið 1966. Framfarir hafa vissulega orðið og heimurinn hefur auðvitað breyst. Í dag er helsta vandamálið kannski það hvað gæðunum er misskipt. Við höfum það nokkuð gott hér á landi, búum í svokölluðu upplýsingasamfélagi þar sem við getum fylgst með hörmungum heimsins hinumegin á hnettinum í beinni útsendingu ef svo ber undir og ekki síst, við getum líka bloggað um það!
Vísindi og fræði | Breytt 24.5.2008 kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2008 | 22:26
Frönsk framlög í Eurovision
Nú er ég búinn að finna mitt Eurovisionlag í keppninni í ár og hvort sem það er tilviljun eða ekki er það franska lagið sem höfðar mest til mín alveg eins og í fyrra. Frakkar taka þessari keppni greinilega með hæfilegri léttúð án þess þó að það komi niður á tónlistinni sem er ekkert nema fyrsta flokks og nú mæta þeir til leiks með eðaltöffarann og hjartaknúsarann Sebastian Tellier sem svipar dálítið til John Lennons á mesta hárvaxtarskeiði sínu. Að öllum líkindum mun þetta lag samt ekki slá í gegn í keppninni, margir þola t.d. ekki að Frakkar syngi á ensku, afgreiða þetta bara sem hverja aðra vitleysu og heyra ekki músíkina í þessu. Kannski mun íslenska tannkremsdiskólagið This is my life höfða meira til alþýðunnar í Evrópu þótt það höfði ekki til mín, en tel ég mig þó vera alþýðumann.
Hér kemur Franska lagið í ár, og einnig Franska lagið frá því í fyrra sem var einnig frábært en náði einungis 22. sæti af 24 í lokakeppninni. Frakkar eru misskildir snillingar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.5.2008 | 14:39
Hestöflin eru farin að kosta sitt
Enn ein hækkunin á bensínverði leiðir hugann að því hvort við þurfum að fara að hugsa okkar gang varðandi bílaflotann sem hefur þanist út í magni og stærð í undangengnum góðærum. Hvað með öll hestöflin sem fara í að knýja alla þessa jeppa á götum borgarinnar? Jeppar eru auðvitað ekkert annað en torfærubílar og eyðslufrekir eftir því en eru aðallega notaðir í daglegt innanbæjarsnatt á malbikuðum götum borgarinnar og innihalda oftast bílstjórann einan. Er stöðutáknið kannski orðið að tákni um orkusóun nútímamannsins? Dæmigerður miðlungsfínn jeppi er 165 hestöfl sem jafngildir auðvitað afli 165 hesta. Það þætti nú örugglega dálítið skondið að sjá mann mæta til vinnu á vagni sem dreginn er af 165 hestum og einhver gæti talið að hægt væri að komast af með minna.
![]() |
Verðhækkun hjá N1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 30.7.2008 kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2008 | 13:07
Staflinn á náttborðinu
Skipulögð óreiða á vissum þáttum er sjálfsagður hluti góðs skipulags. Það hefur náttborðið mitt mátt reyna undanfarna mánuði því í vetur og fram á þennan dag hefur smám saman hlaðist um dágóður stafli af ýmsum bókum og pappírsgögnum sem ég hef verið að sýsla með. En öllu má nú ofgera og því tók ég mig nú loksins til og réðst á staflann, henti sumu, setti annað í skúffur eða möppur og kom svo bókum fyrir í nýrri bókahillu heimilisins. Til að heiðra minningu náttborðsstaflans er innihaldi hans hér gerð skil í eftirfarandi lista og er byrjað á því efsta og svo áfram niður:
- Gluggaumslög með nýjustu gjalddögunum (verða greiddir á næstunni)
- Boðskort á myndlistarsýningu Sigurðar Þóris (ekki búinn að fara)
- Tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar (fórum á 5. sinfóníu Gustafs Mahlers)
- Fréttabréf vináttufélags Íslands og Kúbu (hef verið félagi síðan í vinnuferðinni 1989)
- FÍB-blaðið (er semsagt líka félagsmaður í félagi íslenskra bifreiðaeigenda)
- Prófarkir (vegna bókar sem ég er að brjóta um)
- Meiri gluggapóstur (verða einnig greiddir á næstunni)
- Íslensk fjöll gönguleiðir á 151 tind (á sirka 90 eftir)
- Límmiði frá FÍB (held ég lími hann ekki á bílinn)
- Enn meiri gluggapóstur (gott að það fannst)
- Bókin Bréf til Láru, eftir Þórberg Þórðarson (búinn að lesa hana)
- Útprent af vinnutengdum tölvupósti (trúnaðarmál)
- Árbók Ferðafélags Ísland 1993 (um rætur Vatnajökuls eftir Hjörleif Gutt.)
- Jöklaveröld - náttúra og mannlíf (aðallega um Austur-Skaftafellsýslu)
- Útprent af nýlegum fjölskylduljósmyndum (þrír ættliðir í sparifötum)
- Yfirlit yfir Verðbréfasjóði SPRON (framúrskarandi ávöxtun síðustu ára tíunduð)
- Yfirlit frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (safnast þegar saman kemur)
- Prentarinn - blað félags bókagerðarmanna (er ennþá í plastinu)
- Útreikningar vegna rekstraryfirlits 2007 (vegna prívat-vinnu)
- Bréf frá SPRON til gjaldkera húsfélagsins (sem er ég)
- Ársskýrsla EXISTA (skoðuð, en ólesin)
- Boðskort á 25 ára afmælissýningu Gerðubergs (fór ekki)
- Reikningaeyðublaðahefti (vegna prívat-vinnu)
- Skáldsagan Plötusnúður Rauða hersins (byrjaði á henni á sínum tíma)
- Skagfirðingabók (er ekki Skagfirðingur en kom að vinnslu ritsins)
- Ársrit Útivistar nr. 10 frá 1984 (vegna ferðar sem ég fór síðasta haust)
- Hvers vegna er ég félagi í Félagi bókagerðarmanna? (bæklingur sem svarar því)
- Skáldsagan Mæling heimsins eftir Daniel Kehlman (búinn að lesa hana)
- Frímerkjafréttir o.fl. frá Póstinum (er áskrifandi að nýjum frímerkjum)
- Árbók Ferðafélags Íslands 1997 (þar er m.a. fjallað um Esjuna)
- Kvittanir tengdar bílnum (smurnings- og dekkjaþjónusta)
- FÍT 2008 - Grafísk hönnun á Íslandi (Það besta frá liðnu ári úr mínu fagi)
- Veðuryfirlit í tölum fyrir alla mánuði frá 1961 (útprentað af vef Veðurstofunnar)
- Útivist - Ferðaáætlun 2008 (fer einstaka sinnum með þeim)
- IÐAN - símenntun í iðnaði. (vilji maður símennta sig)
- Gamli Stykkishólmur (bæklingur um gömlu húsin í Stykkishólmi)
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.5.2008 | 23:27
Hinn fullkomni veðurdagur
Nú að kvöldi dags hins 8. maí, hef ég lokið veðurskráningu dagsins eins og ég geri venjulega í dagslok og gefið veðrinu einkunn. Að þessu sinni sé ég enga ástæðu til annars en að gefa veðri dagsins hér í Reykjavík hæstu einkunn eða 8 stig. Sú einkunn fæst aðeins ef allir veðurþættirnir fjórir eru hagstæðir, þ.e. sólríkt, þurrt, hægur vindur og hlýtt miðað við árstíma. Það gerist annars frekar sjaldan að dagur fái einkunnina 8 a.m.k. hér í Reykjavík, þótt veðrið geti samt verið mjög gott oft á tíðum. Á veturna er það t.d. mjög sjaldgæft að hlýindi fylgja svona góðviðrisdögum og á sumrin er það oft hafgolan sem dregur einkunnina niður á sólríkum og hlýjum dögum. Allt árið í fyrra fengu þó alls 6 dagar einkunnina 8, síðast gerðast það þann 11. ágúst á þriggja ára afmælisdegi hitametsins í Reykjavík sem er 24,8 stig. Sá dagur, 11. ágúst 2004, var hinsvegar svo eindæma góður veðurfarslega að hann sprengdi einkunnaskalann í fyrsta og eina sinn hjá mér og fékk heil 9 stig. En það er einungis mögulegt ef hitinn er yfir 20°C yfir daginn, samkvæmt mínum ströngu skráningarreglum.
Þar hafið þið það og þá er bara að vona að ekki þurfi að líða langur tími uns næsti 8 stiga dagur líti dagsins ljós hér í borginni eða jafnvel 9.
6.5.2008 | 20:33
Er hlýnun jarðar komin í pásu?
Víkur nú sögunni að loftslagsmálum og ekki í fyrsta skipti á þessari síðu. En það sem ég er nú að velta fyrir mér er þáttur Kyrrahafsins í sveiflum í hitafari hér á jörð. Síðastliðinn vetur var að mörgu leiti athyglisverður enda var hann kaldari víða um heim en undanfarin ár. Flestir eru sammála um að þar sé um að kenna öflugum La Niñja straumi í Kyrrahafi sem þar hefur ríkt frá því um mitt ár í fyrra en hefur nú farið eitthvað minnkandi. Það sem gerist í Kyrrahafinu virðist því skipta miklu máli fyrir veðurfar í heiminum enda þekur þetta haf næstum 50% af öllu flatarmáli heimshafanna.
Stóra áratugahringrásin í Kyrrahafinu. En það er fleira í gangi þarna í Kyrrahafinu. Núna undanfarið hef ég tekið eftir vangaveltum um stærri hringrás sem er þarna í gangi og kallast Pacific Decadal Oscillation (PDO) og nær yfir áratugi. Þetta fyrirbæri er nú um þessar mundir talið vera komið í sinn kalda fasa sem þýðir að kaldir straumar koma að ströndum Norður-Ameríku og hefur síðan þau áhrif að þá eykst tíðni hinna köldu La Niñja strauma á meðan tíðni hinna hlýju El Ninjo minnkar að sama skapi. Þetta allt saman hefur síðan áhrif á hitafar um alla jörð.
Síðustu áratugi hefur hlýnað mikið á jörðinni sem kemur heim og saman við það að þessi PDO hefur einmitt verið í hlýjum fasa síðan árið 1977, en áratugina þar á undan var negatíft ástand á sama tíma og engin hnattræn hlýnun átti sér stað. Ef þarna reynist vera orsakasamband á milli get ég ekki betur séð en þarna sé loksins komin almennileg skýring á því hvers vegna það hlýnaði ekkert á jörðinni uppúr miðri síðust öld þar til hlýnunin tók kipp á áttunda áratugnum og einnig gæti þetta skýrt hversvegna ekki hefur heldur hlýnað neitt að að ráði á allra síðustu árum. Ef rétt reynist að þessi kaldi fasi sé kominn upp af alvöru gæti hann varað ca. 20-30 ár með stöðnun á hnattrænni hlýnun vegna tíðari La Niñja, sem mun vega upp á móti þeirri hlýnun sem annars hefði orðið vegna gróðurhúsaáhrifa.
Mynd: Þróun hitastigs á jörðinni frá 1870 og til samanburðar hvenær áratugahringrásin í Kyrrahafinu PDO hefur í stórum dráttum verið í köldum og hlýjum fasa. Ath.þessar tímabilsskiptingar eru fengnar frá wattsupwiththat.wordpress. Á öðrum stað er talað um stutt tímabil í köldum fasa um 1920 en það kemur ekki fram hér.
Það eru fleiri svona fyrirbæri á jörðinni sem hafa áhrif á veðurfar, hér í grennd við Ísland er t.d. talað um að hlýnun síðustu ára geti geti kannski gengið til baka að einhverju leiti og þá væntanlega vegna svipaðra breytinga í Norður-Atlantshafinu, sem eru þó smærri í sniðum en sveiflurnar i Kyrrahafi. Semsagt margboðuð hlýnun jarðar er ekki ein brekka upp á við því náttúrulegir þættir koma alltaf inní sem ýmist bæta í eða draga úr áhrifum aukinna gróðurhúsaáhrifa eða geta jafnvel borið þau ofurliði tímabundið. Annars er loftslag jarðar og þróun þess auðvitað flókið fyrirbæri sem mín takmarkaða þekking getur enganvegin náð utanum en vonandi er þetta innlegg ekkert síðra en hvað annað.
Sjá nánar:
http://earthobservatory.nasa.gov/Newsroom/NewImages/images.php3?img_id=18012
http://www.intellicast.com/Community/Content.aspx?ref=rss&a=126
Eldri færsla á minni síðu: Um áhrif Kyrrahafsstraumana El Nino og La Nina á hitafar jarðar
Vísindi og fræði | Breytt 15.12.2008 kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.5.2008 | 14:15
Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?
Um þessar mundir er komið að ögurstund sem gæti ráðið því hvort farið verði í framkvæmdir við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu þar sem reisa á Bitruhálsvirkjun en frestur til að senda Sveitarfélaginu Ölfusi athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Ölkelduháls á Hengilssvæðinu rennur út 13. maí. Til að leggja mitt af mörkum til verndar óspilltri náttúruperlu í nágrenni höfuðborgarinnar birti ég hér myndir og texta sem kemur fram á plakati sem gefur hefur verið út til að vekja athygli á fyrirhugaðri virkjun.
- - - - - - -
Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2002-2004. Hér er vakin athygli á atriði nr. 1 í auglýsingunni er varðar Bitruvirkjun:
285 ha opnu, óbyggðu svæði Bitru / Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Þetta svæði er skilgreint sem útivistarsvæði. Hér er afar fjölbreytt landslag; fjöll grænir dalir, fossar og lækir heitir og kaldir hraunmyndanir og heitir hverir. Svæðið er virkt eldfjallasvæði austan Hengils. Þar eru fjölbreyttar gönguleiðir, t.d. leiðin frá Reykjadal í Innstadal sem liggur hjá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.
Frá framkvæmdasvæðinu, sem er um 5 km fyrir norðan þjóðveg nr. 1, er fallegt útsýni til norðurs yfir Þingvallavatn, Langjökul og Skjaldbreið.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð. Útivistarperlan er austast á framkvæmdasvæðinu en þaðan mun fyrirhuguð gufuaflsvirkjun blasa við.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð, stöðvarhús, kæliturna, borpalla, borholur, heitavatnsleiðslur og háspennulínur, o.fl.
Myndirnar eru frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og umhverfi þess. Þessar perlur eru steinsnar frá frá höfuðborgarsvæðinu og auðvelt fyrir alla að nálgast þær.
Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að vernda þetta ómetanlega svæði eru hvattir til að senda inn athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn, fyrr 13. maí nk. Frekari upplýsingar er að finna á www.hengill.nu.
Athugið að öllum er heimilt að gera athugasemd, ekki einungis íbúum sveitarfélagsins.
- - - - - - -
Bloggvinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir www.larahanna.blog.is hefur verið duglega að skrifa pistla um þetta mál og þar má finna ýtarlegri upplýsingar um þessar vafasömu framkvæmdir. Ljósmyndirnar eru frá öðrum bloggvini: Kjartani Pétri Sigurðssyni.
2.5.2008 | 17:58
Snjóhula í Reykjavík sl. 20 ár.
Svona til að kveðja veturinn endanlega nú á þessum vordögum þá kemur hér mynd sem ég hef útbúið og sýnir hvenær snjór þakti jörð höfuðborgarinnar síðastliðinn vetur og liðna 20 vetur til samanburðar. Samskonar mynd birti ég sl. haust nema nú er liðinn vetur kominn inn. Þetta er allt byggt á eigin athugunum en ég hef skráð snjóhulu ásamt öðrum veðurþáttum frá árinu 1986. Hver lárétt lína táknar einn vetur og hvítur litur sýnir hvenær jörð hefur verið hvít og fjöldi daga er sýndur til hægri.
Eins og sést var liðinn vetur snjóléttur fram að áramótum en nokkuð snjóþungur eftir það. Fjöldi snjódaga var þó í meðaltali fyrir tímabilið.Þarna má sjá ýmis merkistímabil: Snjóþungu mánuðina janúar-apríl 1989 og 1990, en árið 1989 var sérstaklaga snjóþungt í borginni í langan tíma. Svo voru langir og snjóþungir vetur 1994-'95 og 1999-2000. Sá allra snjóléttasti síðastliðin ár er veturinn 2002-2003 með aðeins 32 snjódaga en sá vetur var líka einstaklega hlýr á öllu landinu.
Ég skrái snjóinn sem næst miðnætti hvers sólahrings. Það er stundum matsatriði hvenær jörð er hvít og hvenær ekki, en það er ekki skilyrði hjá mér að jörð sé alhvít til að vera skráð hvít, það getur verið flekkótt jörð eða snjóföl en ég miða annars við svona 50% sjóhulu.
Vísindi og fræði | Breytt 7.11.2010 kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2008 | 20:22
Er olíukreppan byrjuð?
Sannir svartsýnismenn fengu sannarlega eitthvað að hugsa um þegar myndin A Crude Awekening var sýnd í Sjónvarpinu nú um daginn. Hún fjallar um það að olíuframleiðsla jarðarbúa sé um þetta leiti komin í hámark sem þýðir að hér eftir mun framleiðslumagnið einungis fara minnkandi á sama tíma og eftirspurnin eigi bara eftir að aukast. Það ætti að vera augljóst að svoleiðis jafna gengur ekki upp nema með ört hækkandi olíuverði þar til einn daginn að olían verður fáheyrð munaðarvara sem almenningi stendur ekki til boða. Og þess verður kannski ekki svo langt að bíða eins og kemur fram á þessari mynd sem sýnir þróun olíuframleiðslu heimsins í fortíð og framtíð samkvæmt spá þeirra sem til þekkja.
Þegar olían er búin
Ég ætla að gefa mér það að myndin sé nokkurn vegin rétt. Það er allavega ekki spurning að olían er takmörkuð óendurnýjanleg auðlind og þegar hún er uppurin verður engin olía meir svo lengi sem mannkynið lifir. Nútímasamfélagið er algerlega háð olíu í dag og er raunar forsenda þess að það náði að þróast og að lífskjör okkar séu eins og þau eru í dag. Það eru ekki bara bílar, skip og flugvélar sem nota olíu, heldur einnig allskonar framleiðsla, s.s. efnaiðnaður, lyfjaiðnaður, allt plastið, allt malbikið og svo má ekki gleyma allri hernaðarmaskínunni sem þarf sitt með góðu eða illu. Mannkynið hefur svo sem áður skipt um orkugjafa, hestaflið er orðið úrelt, gufuaflið líka og því getum við ekki bara fundið upp eitthvað nýtt? Þar er meinið. Orkuframleiðsla með olíu er ekki úrelt því það er ekkert annað í boði í dag sem leyst getur olíuna af hólmi. Kjarnorkan er t.d. líka takmörkuð auðlind því hún er háð hinu sjaldgæfa efni Úran. Vindorka, vatnsorka, sólarorka eða jarðvarmaorka duga síðan engan vegin til að mæta óseðjandi þörfinni. Vetnið er engin lausn því það þarf orku til að framleiða vetni og því er það ekki orkugjafi. Það er langt í nýjar lausnir, stundum er talað um hina miklu samrunaorku sem er ógeislavirk kjarnorka sem gengur út á það sama og orka sólarinnar, en sú tækni er alltof stutt komin og óvíst að slíkt ferli skili nægilegri orku til að réttlæta gífurlegan kostnað.
Í dag ættum við að vera á fullu að venja okkur við veröld án olíu, en það virðist þó ekkert í þá áttina vera í gangi. Í Bandaríkjunum sem nota fjórðung allrar olíunnar er bensín t.d. ódýrasti vökvi sem seldur er almenningi. Við verðum í framtíðinni væntanlega dæmd sem eigingjarna kynslóðin sem kláraði olíuna. En þetta má ekki ræða, stjórnmálamaður í Bandaríkjunum á enga von um kosningu ef hann vogar sér að benda á þessa hættu, en þeir vita af þessu, þeir vita líka að í Mið-austurlöndum eru einu almennilegu olíubirgðirnar í heiminum sem ekki munu fara þverrandi alveg á næstunni.
Hvað þá með loftslagsmálin og umhverfismálin?
Það hefur ekki verið mikil umræða um væntanlega olíukreppu, allavega ekki miðað við umræðurnar um loftslagsmálin. Nú fæ ég samt ekki betur séð en að þessi tvö vandamál tengist, en samt með öfugum formerkjum ef hægt er að segja svo. Ef olíukreppan framundan er staðreynd þá er augljóst að þá mun draga úr brennslu olíu sem þýðir að draga muni sjálfkrafa úr þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem talin er nauðsynleg og jafnvel gott betur. Það má því kannski segja að þannig leysist stórt en kannski dálítið umdeilt vandamál og annað stærra og verra taki við. Svo er líka augljóst mál að það er tómt mál að tala um að þriðji heimurinn muni ná því neyslustigi og lífskjörum og við búum við í dag hér á Vesturlöndum. Verður það kannski bara á hinn veginn? Það er óhjákvæmilegt að orkuverð mun hækka í framtíðinni, ekki vegna Kyoto-sáttmálans heldur af hreinum orkuskorti. Og þá er hætt við því að allt verði virkjað sem virkjanlegt er því orkan verður gulls ígildi. Hvað verður þá um Gullfoss? Hvað verður þá um Fagra Ísland?
Meiri svartsýnisfróðleik um þetta mál má finna hér: http://www.lifeaftertheoilcrash.net/
![]() |
Skeljungur hækkar eldsneytisverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.4.2008 | 09:22
Chemical brothers - Let Forever Be
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2008 | 13:10
Á mannkynið möguleika út í geimnum?

![]() |
Hawking hvetur til nýrra landvinninga í geimnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 24.4.2008 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.4.2008 | 20:40
Lesið í lógó – ekki er allt sem sýnist
Nú er komið að undraheimum grafískrar hönnunar. Þegar fyrirtæki láta hanna fyrir sig merki skiptir máli að útkoman endurspegli einkenni og karakter fyrirtækisins á sem smekklegastan hátt og þegar best tekst til má finna í merkjum og skrift fyrirtækja ýmislegt óvænt sem kemur í ljós við nánari skoðun. Lítum á dæmi.
Fyrst ber að nefna klassískt dæmi frá Ameríku. Hér er allt meðvitað en samt ekki mjög augljóst í fyrstu. Flutningsfyrirtækið Fedex notar eingöngu stafagerð til að einkenna sig. Kannski ekki mjög eftirminnilegt merki fyrr en maður sér hvítu píluna sem myndast þarna á milli tveggja stafa. Ég læt vera að benda á hvar hún er.
Svo er það merki FL Group sem er einfalt og stílhreint. Í bláum kassa eru stafirnir F og L, en L-inu hefur verið speglað svo það falli inní lausa plássið í F-inu þannig að stafirnir tveir pakkast saman í eina heild. Hversu margir skildu svo hafa tekið eftir því að í bláu línunum sem aðskilja stafina er sitjandi maður, að vísu höfuðlaus? Kannski flugmaður sem við sjáum á vinstri hlið með útréttar hendur eins og hann sé að stýra. FL-Group er að vísu ekki flugfélag en nafnið er vissulega dregið af Flugleiðum. Það hafa kannski ekki margir séð þennan flugmann og sjá kannski aldrei.
Á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi má sjá merki Vínbúðarinnar undir stóru Hagkaupsskilti. Vínbúðin er dæmi um það þegar myndmerkið er látið falla inní leturgerðina og mynda með henni eina heild. Hagkaup hinsvegar er dæmi um það þegar ekkert myndmerki er til staðar og skriftin ein látin duga sem merki. En bíðum við. Þegar skriftin í nafni Hagkaupa er skoðuð nánar þarna rétt fyrir ofan Vínbúðarmerkið sé ég ekki betur en að þarna séu falin vínglös sem myndast bæði í bókstöfunum H og A. Það er ekki annað að sjá en að þegar leturgerðin var ákveðin, hafi Hagkaupsmenn gert ráð fyrir því að versla með áfengi í framtíðinni. Skál fyrir því.
Menning og listir | Breytt 1.8.2008 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2008 | 00:13
Hnattrænu kuldakasti lokið?
Það var mikið bakslag í hitafari jarðar nú í vetur sem vakti mikla athygli, sérstaklega hjá efasemdarmönnum um hlýnun jarðar. En ef tekið er mið af nýjustu mælingum NASA á hitafari jarðar (GISS-gagnaröðin) er ekki annað að sjá en að þetta kuldakast sem herjaði í vetur sé nú að baki. Samkvæmt mælingum NASA rauk hitinn upp í mars síðastliðnum upp í það að vera 0,67 C° yfir meðallagi sem er talsverður munur frá því í janúar sem var aðeins 0,12 C° yfir meðallagi, en þá er miðað við frávik frá meðalhita jarðar á tímabilinu 1951-1980. Það sem meira er, síðastliðinn mars var í 3.-4. sæti yfir hlýjustu marsmánuði frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 1880. Hitalínuritið hér að neðan teiknaði ég en það sýnir hitafar jarðar síðustu 15 mánuði eða frá ársbyrjun 2007 eftir tölum frá NASA. Upphafspunkturinn sem er janúar 2007 hefur mjög hátt gildi en hafa skal í huga að sá janúar telst hafa mesta jákvæða frávik frá meðalhita af öllum mánuðum sem skráðir eru. Janúar síðastliðinn var hins vegar kaldasti janúar frá árinu 1989. Þetta mikla stökk upp á við í hita er merkilegt ef rétt er og telst vera með því allra mesta sem gerist. Skýringin gæti verið sú að að talsverð hlýindi hafa verið í Asíu og svo hefur Kyrrahafsveðurkerfið La-Nina verið að veikjast undanfarið en það er svona almennt talið hafa valdið þessari kólnun í vetur.
Það eru fleiri aðilar en NASA, sem meta hitafar jarðar eins og RSS (Remote Sensing Systems of Santa Rosa), UAH (University of Alabama Huntsville) og HadCRUT (UK's Hadley Climate Research Unit Temperature anomaly). Það má alveg geta þess fyrir þá sem efast um mikla hlýnun jarðar að þær mælingar hafa ekki sýnt eins mikla hækkun hita núna á milli mánaða eins hjá NASA, þótt allir séu sammála um að hitinn hafi hækkað frá því í janúar og febrúar. Vísindamenn NASA eru miklir boðbera hnattrænnar hlýnunnar en hafa þó þá sérstöðu að taka heimskautasvæðin með í hitareikninginn og það hefur vafalaust sín áhrif. Ég hef séð gagnrýni á þessar nýjustu tölur frá NASA um hitafar í mars, sem eiga kannski rétt á sér því það vantar inn að þessu sinni tölur frá suðurhluta Afríku og eitthvað víðar. En til samanburðar kemur hér tafla frá HadCrut sem sýnir hitafar jarðar frá 1988. Þar sést svipuð endurkoma á hitafari og skv. NASA-GISS.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2008 | 23:14
Ferðin sem næstum því var farin yfir Öræfajökul
Ég hef í gegnum tíðina haft gaman af því að ganga á fjöll af öllum stærðum hvort sem það er Helgafell eða Hvannadalshnjúkur. Oftast sigrast maður á þeim verkefnum sem lagt er út í, en þegar þegar út í alvöruna er komið og um er að ræða landsins mestu fjallabálka verður ævintýramennskan stundum að víkja fyrir skynseminni.
Það gerðist nú um helgina þegar ég ásamt þremur vönum fjallagörpum lögðum í ferð þar sem ætlunin var að ganga yfir Öræfajökul frá austri til vesturs og gista tvær nætur á leiðinni, þá seinni uppá jöklinum sjálfum í 2000 metra hæð. Á föstudaginn sl. ókum við frá Reykjavík austur að Fjallsárlóni og gengum þaðan fram í myrkur uns við vorum komnir á Ærfjall sem er á milli Fjallsjökuls og Hrútárjökuls þar sem við svo gistum um nóttina í talsverðu frosti. Morguninn eftir þegar leggja átti í gönguna miklu upp á jökulinn voru komnar ýmsar efasemdir á leiðangursmenn en fara átti leið sem liggur um nokkur jökulsker, um Drangaklett og upp að Sveinstindi við austurenda Öræfajökulsöskjunnar. Þótt við hefðum skoðað leiðina rækilega á myndum og kortum sáum við að aðstæður voru öllu stórkarlalegri og vafasamari en við áttum von á, sprungusvæðin ekki árennileg, mikill snjór á leiðinni sem erfitt var að ganga í með þungar byrðar á bakinu og síðast en ekki síst sáum við að veðurútlitið var að verða vafasamt þarna á toppnum. Það var því ákveðið þarna að taka lífinu með ró, kannski að reyna aftur síðar og fara þá aðra leið, enda er þessi leið yfirleitt ekki farin á jökulinn.
Þótt ferðin hafi verið styttri en til var ætlast var þetta þó mjög tilkomumikil og skemmtilegt ferð á fáfarnar slóðir. Það var t.d. athyglisvert að ganga á milli jökulsporðanna á milli Fjallsjökuls og Hrútárjökuls en þeir skriðjöklar hafa fram að þessu náð saman á láglendi og teiknaðir þannig á öllum landakortum. Nú hafa þeir hinsvegar hopað það mikið að að fært er á milli þeirra um jökulurð. Landið þarna við jökulsporðana eins og víða annarstaðar er í sífelldri þróun vegna minnkandi jökla, ný lón myndast, nýir klettaveggir koma í ljós og ár breyta um farveg, þannig að það er alveg óvíst hvernig þetta svæði mun líta út næst þegar maður verður þarna á ferð.
Kort: leiðin sem var farin og það sem átti að fara
Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2008 | 21:47
Fór á Al Gore

Auðvitað fór ég að sjá og hlusta á Al Gore, enda hef ég áhuga á loftslagsumræðunni og nokkrum sinnum skrifað um þau mál hér á blogginu, vonandi af einhverju viti. Þetta var flottur fyrirlestur hjá honum og áhrifamikill og skilaboðin voru skýr eins og vænta mátti: það hefur hlýnað mikið á jörðinni af mannavöldum og ef við gerum ekkert í málinu núna erum við í vondum málum.
Al Gore hefur verið einskonar tákngerfingur umræðunnar um hlýnun jarðar af mannavöldum enda skiljanlegt eftir alla þá vinnu sem hann hefur lagt í þetta málefni. Stundum mætti jafnvel ætla á umræðunni að hann sé persónulega ábyrgur fyrir kenningunum um hnattræna hlýnun af mannavöldum og því vill gagnrýnin á þær kenningar beinast að honum einum, oft á frekar illkvittinn hátt. En kenningin um hlýnun jarðar er ekki komin frá Al Gore. Hann hefur hinsvegar tekið að sér að vera boðberi þess sem alþjóðasamfélag loftslagsfræðinga hafa varað við að kynni að gerast ef mannkynið breytir ekki um stefnu í orkumálum og lifnaðarháttum, og fyrir það hefur hann hlotið fínustu viðurkenningar og líka harða gagnrýni.
Ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru ekki allir vísindamenn sammála Al Gore í því að maðurinn sé að valda allri þeirri hlýnun sem óumdeilanlega hefur orðið. Sjálfur hef ég farið nokkra hringi í afstöðu minni og í dag veit ég satt að segja ekki alveg hverju skal trúa. Það hefur orðið mikið hnattrænt bakslag í hitafari síðustu mánuði sem er ekki góð auglýsing fyrir dómsdagspár hlýnunarsinna. Sumir segja að sólin sé aðal örlagavaldurinn í hitafari jarðar og ekki stjórnum við henni. Þær kenningar fengu heldur ekki góða auglýsingu nú á dögunum eftir rannsókn í tveimur breskum háskólum sem bentu til þess að virkni sólar hafi ekkert með þá hlýnun að gera sem orðið hefur síðustu áratugi (sjá hér) þótt hún hafi kannski haft sín áhrif á öðrum tímum. Ýmsar skammtíma- og langtímasveiflur í hitafari ráðast auðvitað af ýmsum þáttum. Tímabundnar breytingar og sveiflur í stórum veðurfarskerfum hafa t.d. sitt að segja eins og La Nina fyrirbærið í Kyrrahafi hefur sýnt undanfarið, en kannski hefur það einmitt verið mikil tíðni El Ninjo undanfarna áratugi sem hefur ýtt undir þeirri hlýnun sem orðið hefur. Aukningin á CO2 er hinsvegar ekki sveiflukennd, hún er stöðug, og áhrifin ættu að koma fram á löngum tíma og leggjast ófaná þá náttúrulega ferla sem annars eru í gangi. Spurningin er þó alltaf, hversu stór er hlutur CO2 og mannsins í þessu öllu saman.
Við vitum þó að CO2 er öflug gróðurhúsalofttegund, og gerir það að verkum að hér á jörðu ríkir ekki eilífur fimbulkuldi. Áhyggjur manna af því að við séum að hafa áhrif á loftslagið með því að brenna upp olíu og kolaforða jarðarinnar á svo skömmum tíma eru að mínu mati skiljanlegar. Ég ber virðingu fyrir stjórnmálamönnum sem velta þessu alvarlega fyrir sér án þess það snúist um einhverja hægri og vinstri pólitík. Umhverfisvernd þarf ekki að vera árás á kapítalismann og öfugt. Ef það kemur í ljós að áhyggjur manna af hnattrænni hlýnun reynast ástæðulausar, getur vel verið að einhverjir verða pínulítið spældir en við munum hinsvegar vera búin að öðlast miklu betri skilning á eðli lofthjúpsins og ekki síst betri nýtingu á dýrmætum orkugjöfum til framtíðar. Svo má heldur ekki útiloka það að aukin gróðurhúsaáhrif verði miklu alvarlegri en nokkur þorir að spá, vonandi þurfum við þó ekki að spá í það. Í fortíðinni hefur hitinn oft sveiflast snöggt upp á við eins og gerðist undanfarna öld, en hvort sem það er tilviljun eða ekki að það gerist núna einmitt sama tíma og mannkynið iðnvæðist og mannfjöldin fjórfaldast, er allavega umhugsunaratriði.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)