Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Síðustu þrjú ár hef ég tekið ljósmynd af Esjunni frá sama sjónarhorni í fyrstu vikunni í apríl. Þegar teknar eru myndir svona með árs millibili er tilvalið að gera samanburð á snjóalögum en um þetta leiti ársins má gera ráð fyrir að ekki bæti í snjóinn í fjallinu að ráði og bráðnunartími snjóskaflanna hefjist fyrir alvöru. Það þarf ekkert koma á óvart að eftir þennan vetur er meiri snjór í Esjunni en undanfarin ár en suðurhlíðar Esjunnar eru reyndar ekki snjóþungt svæði svona yfirleitt. Frá árinu 2001 hafa allir snjóskaflar í Esjunni sem sjáanlegir eru frá borginni horfið á sumrin enda hafa öll ár þessar aldar verið hlý. Nú er bara spurning hvað gerist á þessu ári, er þetta nægilegur snjór til að lifa af sumarið?

Ég hef merkt inná síðustu myndina þá staði þar sem snjóskaflar í Esjunni lifa lengst. Til vinstri er skafl vestur undan Kerhólakambi sem er mjög lífseigur á sumrin þótt hann sé ekki stór og í kassanum til hægri þar sem er Gunnlaugsskarð eru nokkrir skaflar sem bráðna seint eða jafnvel ekki á sumrin.

Esja snjór 


Hitafar síðustu 20 vetra

Nú þegar aðalvetrarmánuðirnir eru að baki er kominn tími á að líta yfir farinn veg og sjá hvernig hitafarið hefur verið samanborið við síðustu ár. Eins og alvöru veðurdellumanni sæmir þá skrái ég veðrið daglega en úr þeim veðurfærslum má síðan gera ýmiskonar samantektir, töflur eða myndir, eins og þessa sem ég birti hér. Samskonar mynd gerði ég áður en veturinn gekk í garð, en nú hefur liðinn vetur bæst við.

vetur88-08 

Á myndinni sést hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík sl. 20 ár. Myndin skýrir sig vonandi sjálf en hver láréttur borði táknar einn vetur og litirnir tákna hitafar. Þannig stendur dökkblár litur t.d. fyrir kuldakast með 5-10 stiga frosti að meðaltali, en appelsínugulur táknar hlýindi uppá 5-10 stiga hita. Myndin er einfölduð þannig að það sjást ekki stakir dagar heldur meðalhitinn nokkurra daga í senn en þannig sjást vel einstök hita- og kuldatímabil hvers vetrar. Þetta er byggt á eigin skráningu á meðalhita yfir daginn en til hægri sést meðalhiti sömu mánaða skv. tölum Veðurstofunnar.

Þrátt fyrir að mörgum hefur sjálfsagt þótt þessi vetur hafa verið kaldur var meðalhitinn í Reykjavík þessa fimm mánuði 1,0°C sem er 0,7°C yfir núgildandi meðallagi (þ.e. sömu mánuði áranna 1960-91). Einnig var hitinn nú ekki nema 0,1 gráðu lægri en veturinn í fyrra. Fyrir áramót var frekar hlýtt í veðri miðað við árstíma en hinsvegar mjög illviðrasamt á köflum sællar minningar. Seinni hluti vetrarins var svo kaldari án þess þó að miklir frostakaflar kæmu að ráði en kannski hefur helst vantað þessi löngu hlýju tímabil sem einkennt hafa síðustu vetur. Nú þegar komið er fram í apríl virðist veturinn ekki vera að baki hjá okkur en í veðurspákortum er ekki annað að sjá en að köldu loftmassarnir bíði í röðum eftir að hella sér yfir landið þótt veðrið geti verið gott öðru leiti.


Þegar Rússar ætluðu að reisa olíustöð í Viðey

oliustod

Árið 1979 birtist frétt í því sáluga blaði Þjóðviljanum að samkomulag hafi náðst milli ríkisstjórnarinnar og Sovétríkjanna að í Viðey skildi rísa stór og fullkomin olíuhöfn með öllu tilheyrandi. Eins og gefur að skilja var þetta stórpólitískt mál í miðju kalda stríðinu en á þessum tíma voru vinstri flokkarnir við völd, en þeir sem komu að þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar voru þeir Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson og töldu þeir þetta mikið þjóðþrifamál. Þjóðviljinn var greinilega hlynntur þessum framkvæmdum og hvatti alla sósíalista til að sniðganga mótmælafund sem halda átti við Sovéska sendiráðið. Í frétt blaðsins mátti m.a. lesa þetta:

„Olíuhöfnin í Viðey ásamt tíu 55 þúsund lesta olíutönkum og tilheyrandi leiðslum í land verður gífurlegt mannvirki og verða framkvæmdir boðnar út 1. maí n.k. víða um A-Evrópu og einnig á Kúbu, í Víetnam og Angóla. Samkomulag náðist um að eignaraðild Íslands yrði 50% eða jafnmikil og Rússa eins og viðeigandi er milli bræðraþjóða. Aðalhöfnin verður staðsett í víkinni fram undir Viðeyjarstofu og til marks um stærð hennar er að skip allt að 120 þúsund lestir geta lagst að viðlegukanti.

oliustod_fundurOlíutönkunum verður raðað í hálfhring utanum Viðeyjarstofu og kirkjuna en þess skal getið að þessi fornu mannvirki fá að standa algerlega óhreyfð og hafa Rússar m.a.s. boðist til að gera kirkjuna að minjasafni gegn því að skrifstofur hafnarinnar fái inni i Viðeyjarstofu. Olíutankarnir verða að miklu leyti grafnir í jörðu eða 9/10 hluti þeirra, og er það gert vegna náttúruverndarsjónarmiða. Það sem upp úr stendur verður þó um 40 metrar á hæð. Verður tignarlegt að líta yfir Viðeyjarsund þegar tíu fagurgjörfum turnunum verður raðað með reglulegu millibili sem einskonar umgjörð um höfuðból iðnrekandans Skúla fógeta.“

- - - - - -  

Það er kannski allt í lagi að minnast á það í lokin að þessi frétt birtist þann 1. apríl 1979. Nú eru hinsvegar breyttir tímar, en ekki alveg því eitthvað koma Rússar við sögu í þeim áformum að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, en ég hef reyndar aldrei verið viss um hvort þar sé eitthvað spaug í gangi eða ekki.


Ó-fagra Reykjavík

Eftir alla umræðuna sem hefur átt sér stað um ástand miðborgarinnar fór ég á vettvang í gær, vopnaður myndavél og útkoman var smá myndasería sem ég setti setti saman hér. Reykjavík – okkar stolta höfuðborg við sundin blá hefur sjálfsagt oft litið betur út en hún gerir í dag. Fyrir utan hina margumræddu niðurníðslu gamalla húsa, blasa hvarvetna við byggingarsvæði, væntanleg byggingarsvæði í bland við ýmislegt skárra bæði gamalt og nýtt. Það er eðlilegt að borgir séu í stöðugri þróun en sú þróun sem átt hefur sér stað í Reykjavík er ekki alltaf í áttina að betri og fallegri borg, kannski vegna þess að aldrei hefur almennilega verið vitað í hvaða átt sú þróun ætti að ganga. Undanfarið hefur mikið verið rætt um að þróunin ráðist aðallega af hagnaðarvon lóðareigenda og verktaka sem vilja byggja sem stærst og mest án tillits til þess hvort útkoman skapi heilbrigða borgarmenningu. Ég fer ekki nánar út í það en læt myndirnar tala sem allar eru teknar laugardaginn 29. mars og sýna borg sem er að ganga í gegnum mikla endurnýjum, sem sér ekki fyrir endann á næstu árin. 

Reykjavík29mars


Madness - Night boat to Cairo

Hér kemur myndband mánaðarins eða létt lag á laugardegi. Night boat to Cairo með hinum þó nokkuð kátu piltum í hljómsveitinni Madness. 

 

 


Um jökla, lón og Jökulsárlón

Það er alkunna að jöklar eru viðkvæmir fyrir loftslagsbreytingum. Á kuldaskeiði því sem kallað hefur verið litla-ísöldin stækkuðu jöklar mikið uns þeir náðu hámarki kringum aldamótin 1900. Tuttugasta öldin var hinsvegar það hlý að þá skruppu jöklarnir saman jafnt og þétt ef frá er talið tímabil á seinni hluta aldarinnar sem ég hef kallað pínulitla ísöldin. Um landnám hafði ríkt hér hlýindaskeið um langan tíma, enda voru jöklarnir þá ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem þeir eru í dag. Við óbreytt hitastig halda jöklarnir áfram að minnka, uns þeir ná nýju jafnvægi og gætu því endað í sömu stærð og við landnám. Ef hinsvegar spár um aukna hlýnun ganga eftir munu helstu jöklar landsins jafnvel nánast hverfa með tímanum. 

breidamerkursandur

 
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi 

Breiðamerkurjökull er væntanlega augljósasta dæmið um áhrif jöklabúskaparins á landið. Þar var jökullinn stærstur skömmu fyrir aldamótin 1900 eftir að hafa gengið fram með rikkjum um nokkrar aldir og átti að lokum ekki eftir nema um 200 metra að ströndinni eins og kemur fram á korti frá danska herforingjaráðinu sem var teiknað eftir mælingum frá árinu 1902. Áður en jökullinn lagðist yfir var þarna sléttlendi og gróðursælar sveitir og jafnvel skógi vaxið land milli fjalls og fjöru um landnám. Þegar jökullinn hopar kemur allt annað land í ljós en það sem var fyrir. Það er eðli skriðjökla að grafa sig niður í það land sem þeir hvíla á og þar sem langt er í fast berg þarna á söndunum, hefur jökullin náð að grafa sig marga tugi metra niður fyrir sjávarmál þar sem lónið er, en lengra inn í landinu og undir skriðjöklinum sjálfum hafa mælingar sýnt að jökullin hefur grafið sig niður meira en 300 metra undir sjávarmál. Lón sem myndast vegna hörfandi jökla fyllast smám saman af framburði jökuláa sem í þau renna en það sem ógnar hins vegar þessu lóni er sjórinn sem smám saman vinnur á því hafti sem skilur að lón og haf. Því óttast menn að þarna sé að verða til heilmikill fjörður verði ekkert að gert og samgöngur milli landshluta í hættu landleiðina. Eins og kom fram í fréttaviðtali, þann 2. í páskum, við Fjölni Torfason bónda á Hala í Suðursveit eru hugmyndir upp um að opna lóninu aðra leið til sjávar og þá austar um gamlan farveg, en það á að minnka álagið á svæðið þar sem brúin er og styst til sjávar.

jokulsarlon

 

Á myndinni hér að ofan sést vel hversu mikið Breiðamerkurjökull hefur hopað frá því að hann fyllti út í allt lónið fyrir 100 árum. Áin sem liggur á milli hafs og lóns er orðin það stutt að sjórinn nær nú að flæða inn í lónið sem verður þannig hlýrra en ella og flýtir enn frekar fyrir bráðnun jökulsins.

Myndina setti ég saman úr fjórum myndum sem bloggarinn og flugkappinn Kjartan Pétur Sigurðsson tók á flugi yfir lóninu, en á hér myndasíðu hans má sjá fleiri myndir úr því flugi.


Bandaríkjamenn falla á prófinu í Írak

4000 þúsund Bandaríkjahermenn hafa fallið í Írak sem er vissulega há tala og örugglega hærri tala nokkurn gat grunað fyrir innrásina í Írak. Það er hinsvegar erfiðara að gera sér grein fyrir tölu fallina Íraka frá innrásinni en sú tala hleypur þó á hundruðum þúsunda. Mannfall Íraka er þó ekki nema að hluta til vegna beinna árása Bandaríkjamanna því mjög margir hafa fallið í hryðjuverkum, sem er athyglisvert því Írakstríðið var einmitt liður í stríðinu gegn hryðjuverkum. Hryðjuverk voru reyndar mjög lítið stunduð í Írak fyrir innrásina en það verður að hafa í huga að stríðið gegn hryðjuverkum var alltaf bara stríð gegn hryðjuverkum í Bandaríkjunum sjálfum. Það sem Bandaríkjamenn geta kannski glaðst helst yfir er að stjórn Saddams Husseins er fallin og Saddam sjálfur ekki lengur á meðal vor sem þýðir að hann getur ekki komið sér upp gjöreyðingarvopnum í framtíðinni, eins og einhver Bandarískur embættismaður nefndi svo smekklega um daginn. Ég get ekki sagt annað en að Bandaríkjamenn hafa fallið á prófinu í Írak.
mbl.is 4000 Bandaríkjamenn hafa fallið í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Jesú sólguð, frjósemisguð eða frelsari?

Nú er komið að stóru Jesuskrifunum. Ég skrifaði fyrir síðustu jól um vetrasólstöðurnar og velti aðeins fyrir hvort fæðing frelsarans tengdist endurkomu sólarinnar um jólin og spurði þessarar spurningar: Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hafði reyndar eitthvað heyrt óljósar hugmyndir um að Jesúfræðin gætu verið talsvert flóknari heldur en frásagnir Biblíunnar gæfu til kynna og að finna mætti fleiri Jésúa í öðrum og eldri trúarbrögðum. Hugsanlegu er viss skyldleiki milli flestra trúarbragða sem upp hafa sprottið í gegnum árþúsundin meira og þau meira og minna samtengt rétt eins og menningin og tungumálið.

LjosHeimsinsSama dag og ég birti umræddu grein kom svo einmitt umfjöllun í Fréttablaðinu um þetta og var þar lagt útfrá myndinni Zeitgeist sem ég vissi ekki af þá en margir hafa séð á netinu en fyrsti hluti hennar er lagður undir þessi Jesúmál. Í nefndri mynd eru taldir upp ýmsir fornir guðir sem tengdust átrúnaði á sólina og því haldið fram Jesú hafi í raun verið sólguð og sagnir um hann séu meira og minna byggðar á fornum goðsögnum og fyrirmyndum sem finna má í ýmsum trúarbrögðum. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar eru: Hórus - sólguð Egypta, Krisna - Kristur Hindúa og Mítra - Guð Persa. Þessir heilögu guðir og ýmsir fleiri eiga margt sameiginlegt. Þeir fæðast allir um vetrasólhvörf, gjarnan meyfæðingu, eru guðssynir, ljós heimsins, frelsa menn frá illu, lækna sjúka og deyja að lokum fyrir syndir mannanna – sumir jafnvel krossfestir.
Og talandi um kross, þá er krossinn auðvitað tákn kristinnar trúar en á sér um leið samsvörun í heiðnum átrúnaði á sólina þar sem miðja hans táknar sólina en höfuðáttirnar eru svo útfrá henni. Í fornum myndum af Jesú var reyndar höfuð hans gjarnan sýnt á miðju krossins eins og sólguði sæmir - ljósi heimsins.

En svo eru það páskarnir. Þeir eru auðvitað eins og jólin, forn hátíð. Jesú kom einmitt til Jerúsalem til að halda upp á páskana, en var þar svikinn, handtekinn, krossfestur, dáinn og grafinn en reis svo upp á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Páskana ber upp á þeim tíma þegar jafndægur eru að vori, eða því sem næst eins og fjallað er um í áðurnefndri Zeitgeist mynd. En í myndinni er hins vegar minni áhersla lögð á annan þátt páskahátíðarinnar, sem er nefnilega sá að páskarnir séu frjósemishátíð og sennilega ævaforn sem slík. Páskana ber upp á þann tíma þegar gróður jarðar fer að dafna eftir veturinn og það sem skiptir kannski meira máli hér, er að páskarnir eru sá tími þegar korninu er sáð í jörðu. Útsæðinu er fórnað, fyrir nýja uppskeru og því betri uppskeru eftir því sem guðirnir eru okkur hliðhollari. Á þeim örlagaríku páskum sem kristnir menn halda upp á, var sjálfum Jesú Guðssyni fórnað. Er þar kannski komin tilvísun í miklu eldri fórnarhátíðir um páska? Líta má svo á að eins og sáðkornið sem spíraði eða lifnaði við eftir að hafa legið í jörðinni í þrjá daga þá reis Jesú upp á þriðja degi „til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ eins og segir í trúarjátningunni. Svo má líka nefna að í bók fræðimannsins Einars Pálsonar er að finna frásögn um frjósemisguðinn Frey Njarðarson sem kemur úr ásatrúnni en þar er talað um að Njörður hafi fórnað sjálfum sér í syni sínum fyrir mannkynið og í myrkasta skammdeginu éta menn líkama hans og drekka blóðið, eða éta kornið og drekka ölið.

Þar hafa menn það, Jesú var maður eða goðsagnarvera sem átti sér marga eldri bræður frá mörgum samfélögum, sem voru sólarguðir og/eða frjósemisguðir. Jesú kristinna manna er hinsvegar samkvæmt Biblíunni ekki goðsagnavera, hann lifði og starfaði meðal fólksins, boðaði fyrirgefningu syndanna og frelsun mannanna. Það er í sjálfu sér ekkert sem sannar það Jesú Kristur hafi yfirleitt verið til, hvað þá að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og risið upp frá dauðum. En þetta er auðvitað trúaratriði og verður hvorki sannað eða afsannað og eins og fellst í orðinu trú, þá er ekki um fullvissu að ræða heldur trú. 

- - - - - - 

Ég læt hér fylgja slóð á myndina Zeitgeist: http://www.zeitgeistmovie.com/main.htm. Eftir inngang að myndinni þá fjallar fyrsti hluti hennar um hugmyndina um Jesú sem sólarguð en annars virðist tilgangur hennar vera sá að fletta ofan af hlutunum eins og kristindómnum, en einnig um samsæriskenningar í sambandi við árásina á World Trade Center og svo kemur umfjöllun um peningakerfið í heiminum. 

Einnig bendi ég á grein á bloggsíðunni Greinasafn Sigursveins, en þar fékk ég fróðleik um Frey Njarðarson, en einnig er þar fjallað um tengsl fornra trúarbragða og frjósemisdýrkenda við hinn heilaga berserkjasvepp.


Misjafn er matarkosturinn í henni veröld

Nú styttist í að föstunni lýkur og páskaátið hefst. Það er ekki verra tilefni en hvað annað til að skoða hvað fólk lætur ofan í sig af mat víðsvegar í heiminum svona dags daglega. Á myndunum sem hér fylgja hefur einmitt verið safnað saman vikuskammti af mat hjá fjölskyldum í hinum ýmsu löndum og að auki búið að taka saman hvað herlegheitin kosta. Mjög athyglisverður samanburður að ýmsu leyti.

Verði ykkur að góðu.

germany

Þýskaland: Melander fjölskyldan frá Bargteheide

Matarkostnaður á viku: 500 dollarar / 38.900 kr.

 

USA

Bandaríkin: Revis fjölskyldan frá Norður-Karolínu

Matarkostnaður á viku: 342 dollarar / 26.600 kr.

 

italia

Ítalía: Manzo fjölskyldan frá Sikiley

Matarkostnaður á viku: 260 dollarar / 22.200 kr.

 

mexico

Mexíkó: Casales fjölskyldan frá Cuernavaca

Matarkostnaður á viku: 189 dollarar / 14.700 kr.

 

poland

Pólland: Sobzynscy fjölskyldan frá Konstacin-Jeziorna

Matarkostnaður á viku: 151 dollarar / 11.745 kr.

 

egypt

Egyptaland: Ahmed fjölskyldan frá Kaíró

Matarkostnaður á viku: 68.5 dollarar / 5.330 kr.

 

equator

Ekvador: Ayme fjölskyldan frá Tingo

Matarkostnaður á viku: 31.5 dollarar / 2.450 kr.

 

bhutan

Bhutan: Namgay fjölskyldan frá Shingkhey þorpi

Matarkostnaður á viku: 5 dollarar / 389 kr.

 

chad

Chad: Aboubakar fjölskyldan frá Bredjing búðunum

Matarkostnaður á viku: 1,23 dollarar / 96 kr.

- - - - - - -  

Myndirnar hér að ofan birtust allar í bókinni: Hungry planet what the world eats, eftir Faith D'Aluisio og ljósmyndarann Peter Menzel.

 


Á Vífilsfelli

Já, það var ekki mjög slæmt að vera staddur á toppi Vífilsfells núna fyrr í dag. Lognið kom úr öllum áttum, sólin skein af öllu afli og fjallakyrrðin allt að því ærandi. Á myndinni má sjá þann sem þetta skrifar en það var ferðafélagi minn Harri sem tók myndina. Bláfjöllin skarta sínu fegursta þarna í baksýn en þar hefur sjálfsagt verið meira margmenni á ferð og á meiri ferð. Þetta var ágætis æfing fyrir stærri átök sem eitthvað er verið að spá í.

 

vífilsfell


Landslagslýsing að hætti Þórbergs Þórðarsonar

suðursveit 

 „Landið fyrir vestan Breiðabólstaðarbæi var mjög ólíkt landinu fyrir austan þá. Fyrir vestan var það miklu breiðara og meira af tilbreytingum í því. Þar var miklu lengra frá fjalli til fjöru og Lónið breiðara. Það var vegna þess, að fyrir austan bæina lá fjallið til suðvesturs í sömu stefnu og ströndin. En fyrir vestan þá beygði fjallið til vesturs og fjaran meira til suðurs. Af því varð meira undirlendi og meira af punti, sem komst fyrir í landinu.

Þennan texta má finna í bókinni Um lönd og lýði, sem er önnur af fjórum Suðursveitabókum Þórbergs Þórðarsonar. Ásamt endurminningum frá uppvaxtarárum má þar finna ýtarlegar náttúru- og mannlífslýsingar frá heimahögum rithöfundarins sem fæddist á þessum degi fyrir 120 árum.


Óyggjandi merki þess að vorið sé á næsta leiti

Vorið er að vísu ekki komið, en með hverjum degi hækkar sólin á lofti og bræðir snjóinn þótt afkastamest sé þó rigningin. Þegar svo innkaupakerrur stórmarkaðanna gægjast undan bráðnandi snjóruðningum tel ég það vera óyggjandi sönnun þess að veturinn sé að láta undan síga og vorið sé á næsta leiti. Við þurfum þó að sýna þolinmæði, það er langt þangað til við getum farið að tala um sumarið, enn eru einhverjir vetrarkuldar í spákortunum, við fáum sjálfsagt páskahret og svo kannski smá vorhret á glugga í maí.

 

innkaupakerra

Mynd: Veturinn á undanhaldi í Nóatúni vestur í bæ.


mbl.is Veðrið á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hámark hafísbreiðunnar á norðurhveli

hafís sept./mars

Nú er kominn tími á meiri æsispennandi hafísskrif og að þessu sinni um hafísinn á norðurheimskautinu. En eins og venjulega gerist í snemma í mars má gera ráð fyrir því að vetrarhámarki hafísbreiðunnar á norðurhveli hafi verið náð. Á meðfylgjandi myndum sést útbreiðsla hafíssins eins og hún var sl. haust og svo núna í byrjun mars, en þarna kemur vel fram hinn mikli munur sem er á útbreiðslunni eftir árstíma. Eftir sögulegt lágmark hafíssins sl. haust hefur hafísinn að því er virðist náð sér vel á strik og heildarútbreiðslan ekki fjarri því sem eðlilegt má teljast. Það hafa t.d. verið talsverðir kuldar vestur af Grænlandi og víðar í vetur og því mikill hafís á þeim slóðum og áfram suður eftir til Nýfundnalands.

En það er ekki allt sýnist. Það má sjá t.d. að íslausa svæðið í Barentshafinu er óvenju stórt sem bendir til þess að hlýir vindar hafa leikið þar um, þótt umfram allt sé það Golfstraumurinn sem heldur þessum norðurhafsvæðunum íslausum að mestu árið um kring. En það hefur verið mjög hlýtt þarna í vetur, veturinn í Skandinavíu hefur verið mildur þrátt fyrir kaldari tíð víða annarsstaðar. Þessir hlýju vindar sem hafa náð inn á Barentshafið og áfram á norðurpólsvæðið sjálft hamla almennilegri hafísmyndun þannig að ísinn þarna verður enn eitt sumarið viðkvæmur fyrir hinni óumflýjanlegu sumarbráðnun.

Vísindamönnum verður sífellt betur ljóst hversu merkilegt síðasta hafíslágmark var og hversu afdrifaríkt það getur orðið. Jafnvel er talað um um að hafísinn á norðurpólnum hafi náð krítísku ástandi eða því sem kallað er upp á ensku tipping point, sem þýðir að úr þessu mun hafísútbreiðslan á norðurpólnum ekki eiga sér viðreisnar von á sumrin nema til komi veruleg kólnun á næstu árum. Vegna mikilla affalla á gömlum og traustum hafís síðustu ár er meginuppistaða hafísbreiðunnar núna þunnur og ungur ís sem bráðnar auðveldlega á sumrin. Þau opnu hafssvæði sem myndast á sumrin eru líka orðin það stór að orka sólarinnar nær að hita sjóinn í stað þess að endurvarpast til baka af hvítum ísnum, og útkoman verður því sífellt hraðari bráðnum og að lokum íslaust norðurhvel að sumarlagi eftir einhver ár. Strax núna í sumar gæti jafnvel verið fært skipum allt norður að pólnum sjálfum, allavega samkvæmt því sem Norski hafísfrömuðurinn dr. Olav Orheim segir (sjá hér).

Tek svo fram að lokum að þetta eins og flest sem ég skrifa um þessi fræði eru vangaveltur alþýðumanns en samt bara nokkuð áreiðanlegar eftir því sem ég best veit.

 


Íslensk náttúra séð ofan úr geimnum

Grænalón og Skeiðarárjökul

Þessi magnaða mynd gæti í fljótu bragði verið abstrakt-málverk eftir einhvern listamanninn. En svo er nú ekki því þetta er nú bara íslensk náttúra séð ofan úr geimnum og er fengin af hinni ágætu landaskoðunarsíðu, Google-map. Sé einhver í vafa hvaðan myndin er þá skal það upplýst að hér er kominn efri hluti Skeiðarárjökuls sem rennur úr Vatnajökli og niður á Skeiðarársand.

Þarna á myndinni má sjá ýmislegt athyglisvert. Vatnið sem þarna sést vestur af skriðjöklinum er Grænalón en það myndast vegna þess að jökullinn stíflar dalinn þar undir svo vatnið safnast þar fyrir. Á vissu millibili þegar vatnsmagnið í lóninu er orðið nægilegt, lyftir það upp jöklinum svo að lónið tæmist, vatnið hleypur fram og veldur flóði í Súlu og Núpsvötnum. Þetta gerðist síðast í júlí 2006 eftir því sem ég best veit. Lónið hefur hefur farið minnkandi hin síðari ár vegna þynningar á jöklinum sem aftur veldur því að hlaupunum fjölgar og þau verða minni í hvert sinn.

Það er líka athyglisvert að skoða skriðjökulinn. En vegna nálægðar sinnar við hin afar eldvirku Grímsvötn þá eru ýmis gömul öskulög áberandi í jöklinum en þau koma í ljós þegar sem jökullinn skríður fram og bráðnar og mynda þetta fallega mynstur. Eitt öskulagið þarna er meira áberandi en önnur, ekki veit ég þó úr hvaða gosi það er. 


Pínulitla-ísöldin

Það er óhætt að segja að við höfum núna upplifað vetrartíð sem stendur undir nafni og ekki annað að sjá en að svo verði eitthvað áfram og er þetta tíðarfar farið að minna að mörgu leyti á það sem í boði var á árum pínulitlu-ísaldarinnar. En hvaða pínulitla-ísöld, gæti einhver spurt. Allir hafa heyrt um ísöldina sem lauk fyrir 10.000 árum, flestir hafa heyrt um litlu-ísöldina sem lauk fyrir 100 árum en sennilega hefur enginn heyrt talað um um pínulitlu-ísöldina, sem er skiljanlegt því þetta er heiti sem ég hef sjálfur komið mér upp yfir annars vel þekkt kuldaskeið sem hófst árið 1965 og stóð yfir næstu áratugi. Nú vill svo til að pínulitla-ísöldin skall á sama ár og ég kom í heiminn þannig að ég óx upp með henni og get því vissulega sagt að ég sé af pínulitlu-ísaldarkynslóðinni.

Pínulítill

 
Mynd: Höfundur kannar snjóalög í upphafi pínulitlu-ísaldarinnar.

Fyrstu merki um pínulitlu ísöldina var þegar mikill hafís kom að landi í upphafi árs 1965, og lá útfyrir norðurlandi fram eftir vetri og olli þar nokkrum kuldum. Á suður- og vesturlandi var árið hinsvegar nokkuð hlýtt þar til um miðjan nóvember þegar fór að kólna. Síðan tóku við margir kaldir mánuðir og mörg köld ár, allavega miðað við það sem fólk átti að venjast fram að því. Hafísinn lét sjá sig og af meiri þunga en menn höfðu kynnst áratugum saman og jöklarnir sem höfðu verið að hopa frá lokum litlu-ísaldarinnar snéru nú vörn í sókn. Til að átta sig á hversu kalt þetta tímabil var þá reiknast mér til að meðalhitinn á árunum 1966-1995 í Reykjavík hafi verið 4,2°C sem er 0,7 gráðum lægra en næstu 30 ár þar á undan og heilli gráðu kaldara en meðalhiti síðustu 10 ára í Reykjavík. Og það munar um minna. 

Að sjálfsögðu gat ég ekkert skynjað að ég var að alast upp á einhverju köldu tímabili að öðru leiti en því að maður heyrði oft eldra fólk tala um að það hafi alltaf verið svo gott veður þegar það var að alast upp. Í mínum uppvexti eru sól og sumarhitar eitthvað sem er manni ekkert sérstaklega minnistætt en aftur á móti finnst mér oftast hafa verið snjór og frost á veturna. Á þessum árum þurfti engar skautahallir til að fara á skauta, því vötn voru yfirleitt frosin á veturna. Snjórinn var líka vel nýttur hvort sem var til að renna sér niður brekkur, sem allskonar byggingarefni og svo að sjálfsögðu til að „teika bíla“ sem reyndar var ekki vel séð, en sú íþrótt hefur að mestu lagst af bæði vegna lélegra vetra og samvaxinna stuðara á bílum. Vorið 1979 þegar ég fermdist fékk ég skíði að gjöf en þá var pínulitla-ísöldin í hámarki en meðalhiti þess árs var aðeins 2,9°C í Reykjavík. Þá var hægt að fara á skíði í Bláfjöllum langt fram í maí og þótti bara sjálfsagt en sá maímánuður var kaldasti maímánuður á landinu síðan á tímum litlu-ísaldarinnar.

En hvenær lauk svo pínulitlu-ísöldinni? Lok hennar eru ekki eins vel afmörkuð og upphaf hennar en upp úr 1985 fór hitafarið eitthvað að mildast. Árið 1987 var nokkuð hlýtt og líkt því sem verið hefur undanfarin ár en sennilega hefur árið 1995 endanlega markað lok pínulitlu-ísaldarannar. Það ár var meðalhitinn í Reykjavík 3,8°C en eftir það hefur hann ekki farið undir 4,5°C. Veturinn 1995-96 var nokkuð þægilegur um allt land en þá önduðu menn líka léttar, því óttast var jafnvel að byggð gæti lagst af á Vestjörðum eftir snjóþyngsli og snjóflóð veturinn áður. Kannski var hið mannskæða snjóflóð á Flateyri lokaatburður pínulitlu ísaldarinnar, en það féll aðfaranótt 26. október 1995, 30 árum eftir að pínulitla ísöldin hófst. Þótt enn í dag sé að vísu óttast um byggð á Vestfjörðum eru það samt aðrir þættir en veðrið sem valda þeim áhyggjum.

En hvar erum við svo stödd í dag? Eru kuldarnir nú upphafið á nýju pínulitlu-ísaldarskeiði eða einhverju stærra, eða er þetta bara smá truflun í endalausri gróðurhúsahlýnun. Ég ætla ekki að velta því upp hér en það er þó staðreynd að Ísland er á mjög viðkvæmu svæði enda stutt í ískalda vinda og sjávarstrauma og lítilsháttar breyting á þeim getur ráðið miklu um hitafar hér.

Pínulitla-Ísöldin 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband