Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Valdataka húmorista

Þetta verður þá svona:

  1. Íslendingar fella ICESAVE í þjóðaratkvæðagreiðslu
  2. Ríkisstjórnin fellur
  3. Boðað til Alþingiskosninga
  4. Formaður Sjálfstæðisflokksins fellur
  5. Davíð Oddsson verður nýr formaður Sjálfstæðisflokksins
  6. Sjálfstæðisflokkurinn vinnur sigur og leiðir nýja ríkisstjórn

Þrír húmoristar gegna þá mikilvægustu embættum landsins: Davíð Oddsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr (sem flytur ekki til Grænhöfðaeyja).

… D J Ó K !


mbl.is Bölsýnn borgarstjóri í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing og Beringssund

Stjórnlagaþingskosningarnar um næstu helgi eru sennilega óvenjulegustu kosningar sem þjóðin hefur tekið þátt í. Þarna eru 525 manns í framboði um 25 sæti á stjórnlagaþingi sem ætlað er að semja handa okkur nýja stjórnarskrá. Frambjóðendur er fólkið á götunni en fátt er um stjórnmálaspekinga, lögfræðinga og engir eru þarna þingmenn. Þetta er dálítið sérstakt í ljósi þess að orðið Stjórnlagaþing er samsett úr orðunum: stjórn, lög og þing. Þetta er ekki ólíkt því að láta fólkið á götunni sjá um að spila landsleiki í knattspyrnu í stað knattspyrnumanna.
En samt verður þetta sjálfsagt heilmikið þarfaþing enda margt óljóst sem stendur í stjórnarskránni sem hefðir hafa í sumum atriðum ráðið því hvernig eru túlkuð.

Persónukjör
Margir frambjóðendanna vilja gera nokkuð róttækar breytingar á sumum atriðum eins og því að taka upp persónukjör í auknu mæli. Sjálfsagt tengist þetta minnkandi vinsældum stjórnmálaflokka nú um stundir enda telur fólk stjórnmálaflokkana hvern annan verri. Stjórnlagaþingskosningarnar eru einmitt eitt allsherjar persónukjör og þar mun fólk kjósa þá frambjóðendur sem það þekkir persónulega og svo á fræga fólkið auðvitað meiri möguleika á að komast að - nema kannski þeir sem frægir eru af endemum.
Hætt er við að málefnin verði í aukaatriði í svona persónuvinsældarkeppni. Kannski betra ef frambjóðendur með svipaðar skoðanir hefðu hópað sig saman til að berjast fyrir sjónarmiðum sínum í sameiningu. Með öðrum orðum - að koma á einhverskonar flokkakerfi. Áherslan á persónur minnir nefnilega dálítið á það sem sagt er í Eurovision - það á að velja gott lag en ekki vinsælan flytjanda, en þetta er einmitt atriði sem við höfum stundum klikkað á.

Atkvæðavægi
Annað stórt tískumál er jöfnun atkvæða til Alþingkosninga. Mörgum finnst óeðlilegt að kosningakerfið hampi sveitamönnum og þorpurum utan að landi umfram okkur sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er auðvitað ýmislegt til í þessari gagnrýni en þó finnst mér ekkert óeðlilegt að fulltrúar fámennra svæða hafi aðeins meiri möguleika á að komast að, því annars er hætt við að borgríkið Reykjavík verði allsráðandi.
Í Evrópusambandinu hafa fámennari svæði einmitt aukið vægi, allavega miðað vægið sem Ísland gæti haft með hugsanlegri inngöngu. Þeir sem berjast fyrir jöfnu vægi atkvæða ættu því að beita sér fyrir því að í aðildarviðræðum yrði farið fram á að hver Íslendingur hefði sama vægi og hver annar Þjóðverji eða Spánverji. Svo má líka aftur minnast á Eurovision, en þar hafa 300 þúsund Íslendingar sama vægi og 140 milljónir Rússar.

Beringssund
Svo virðist sem Beringssundið hafi átt stóran þátt í hversu óstöðugt loftslag var á síðustu ísöld. Jafnvel má tala um að í 100 þúsund ár, hafi ógnarjafnvægi ríkt hér við Norður-Atlantshaf sem er allt annað ástand en á hlýskeiði því ríkt hefur síðustu 10 þúsund ár. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta atriði en vísa í staðinn á pistill sem ég skrifaði um þetta mál á Loftslag.is. Kannski ætti ég bara áfram að halda mig við svoleiðis skrif.

 


Lækjargata 2 og eldheitir borgarstjórar

Þessa dagana má sjá að uppbygging er loksins komin á fullt skrið á horni Lækjargötu og Austurstrætis þar sem gamla húsið hans Sigfúsar Eymundssonar brann fyrir þremur árum. Búið er að steypa upp fyrstu hæðina en ofan á hana á að endurbyggja húsið í heild og því má segja að húsið hækki um eina hæð neðanfrá. Mér hefur alltaf fundist þetta sjálfsögð lausn því húsið er fallegt, það má þó vel við því að hækka enda fæst þannig meira hæðarjafnvægi milli húsanna á þessum stað. Ég tók mynd af Lækjargötuhúsinu nýbrunnu vorið 2007 og í framhaldinu dundaði ég mér við að fótósjoppa húsið einni hæð hærra. Myndina birti ég hér á blogginu haustið eftir, eða stuttu eftir að ég byrjaði á þessu bloggveseni, en þá voru einmitt komnar fram hugmyndir um að hækka húsið.

Lækjargata 2
Þegar brann þarna vorið 2007 var þáverandi borgarstjóri Villi Þ. auðvitað mættur á svæðið og var fljótur að lýsa því yfir að húsið yrði endurbyggt þannig að sómi yrði af fyrir borgarbúa. Sumum fannst þetta full glannaleg yfirlýsing í miðri atburðarásinni, en hann má eiga það að í þessu einstaka máli var ég ánægður með borgarstjórann fyrrverandi.

Framundan eru hugsanlega enn ein borgarstjóraskipti hér í Reykjavík. Einn þeirra sem þar koma til greina er Jón Gnarr sem sagðist í Kastljóssviðtali ætla að verða svona borgarstjóri sem hefur frekar lítið fyrir hlutunum en mætir kannski í bæinn til að vinka fólkinu, ekki síst þegar það er að brenna einhverstaðar - svona í stíl við Bastían bæjarfógeta. Ef Jón Gnarr hefði verið borgarstjóri vorið 2007 hefði hann samkvæmt þessu auðvitað mætt í bæinn til að stappa stálinu í borgarbúa og jafnvel gefið slökkviliðinu góð ráð.

En hvort hann hefði lofað endurbyggingu húsanna í sinni gömlu mynd og einni hæð til viðbótar er önnur saga. Í hinum svokallaða Besta flokki er stefnan ekki endilega sú að halda upp á gömul hús ef marka má það sem frambjóðandinn Páll Hjaltason sérfræðingur flokksins í skipulagsmálum, segir á heimasíðu flokksins:
„Uppgjöf borgarinnar gagnvart öfgafriðunum voru greinileg í kaupum hennar á Laugaveg 4-6 og klisjukenndri uppbyggingu á brunareitnum á horni Lækjartorgs. Hvað á svo að vera í þessum húsum? Fleiri öldurhús og ferðamannabúðir?“
 
Þarna finnst mér koma fram frekar leiðinlegt sjónarmið gagnvart þeirri gömlu húsagerð sem gefa miðbænum sinn sérstaka svip, burt séð frá því hvort í þeim húsum sé eitthvað skemmtilegt eða ekki. Margir arkitektar vilja auðvitað helst byggja nútímaleg hús í stað þess að endurskapa eitthvað gamalt enda eru þeir til þess menntaðir. Nútímaleg hús eru sjálfsögð t.d. í nýjum borgarhlutum, en á þessum stað á horni Lækjargötu og Austurstrætis er ég ekki viss um að við værum bættari með nútímalegt gler/steinhús. Allavega ekki miðað við nokkur slík sem hafa risið miðsvæðis undanfarið. Það má mín vegna kalla uppbyggingu á gömlum húsum „klisjuennda“ en mér finnst hún alveg í fínu lagi í miðbænum. Húrra fyrir Villa.

Fimmflokkakerfið og dægurflugur

Nú ætla ég að hella mér út í pólitíkina og veitir ekki af. Ég ætla þó að forðast að taka pólitíska afstöðu enda er það ekki vaninn hér. Það er hins vegar flokkakerfið sem mig langar að velta fyrir mér og það sem mér finnst pólitík snúast um svona almennt séð og ekki endilega hugsað sem innlegg í Borgarstjórnarkosningarnar.
Að hætti hússins hef ég teiknað upp mynd til nánari útskýringar til að spara mér flóknar útskýringar en þarna sést hvernig ég sé fyrir mér fimmflokkakerfið sem hlýtur að vera enn betra en fjórflokkakerfið. Flugan sem er þarna stendur svo fyrir ýmis framboð sem mætti kalla fluguframboð - eða dægurflugur.

Fimmflokkakerfið

Það eru aðallega tvö atriði sem mér finnst pólitík snúast um. Annars vegar er það þessi sígilda vinstri - hægri pólitík, þ.e. félagshyggjan á móti einstaklingshyggju, ríkisrekstur á móti einkavæðingu. Einnig fylgir umhverfispólitíkin þessum ási, þ.e. hvort að eigi að nýta eða njóta náttúrunnar. Hinsvegar snýst pólitík um þjóðfrelsismál, þ.e. stöðu ríkisins í alþjóðasamfélaginu og snertir sjálfstæðismál þjóðarinnar og afstöðu til þátttöku í ríkjabandalögum. Það má kalla þetta þjóðernishyggju á móti alþjóðahyggju, en orð eru oft svo gildishlaðin að það þarf að fara varlega í orðanotkun. Afstaða til aðildar að Evrópusambandinu endurspeglast algerlega þessari pólitík.
Atriði eins og persónutöfrar, húmor, uppgjör við fortíðina, spillingarmál, heiðarleiki, kjörþokki og margt fleira er ekki pólitík enda eru flestir sammála um þessi atriði nema hvað stjórnmálamönnum og flokkum tekst misvel að höndla þau.

Af þessu leiðir að sjálfsagt er að skipta pólitíkinni í fjóra hluta sem eignaðir eru hverjum stjórnmálaflokki, einn flokkur má svo vera í miðjunni en þannig fæ ég út fimmflokkakerfið. Fjórflokkakerfið sem við búum við skiptist nokkurn veginn svona í dag, nema hvað hægri vængurinn er óskiptur í sinni hægri pólitík sem veldur því að flokkurinn getur ómögulega komið sér saman hvernig á að haga Evrópumálum, þótt þjóðfrelsispólitíkin sé ofaná þessa stundina.

Dægurfluguframboðin hafa verið fjölmörg í gegnum tíðina og heitið ýmsum nöfnum. Sum þeirra hafa auðvitað barist fyrir göfugum málefnum. Þau hafa þó verið mis-lífseig og mis-fyrirferðamikil og komið fram af ýmsum ástæðum. Þessir fluguflokkar hafa gjarnan gefið upp öndina vegna þess að þau hafa ekki átt sér neinn samastað í hinu pólitíska landslagi - sumir hafa bara komist í tísku og farið úr tísku eða verið þægileg leið fyrir borgarana að forðast að taka pólitíska afstöðu í pólitískum kosningum.


Nokkrar spurningar

Vitum við í raun hvort samningurinn er ásættanlegur eða ekki?
Væri nákvæmlega sami samningur talinn jafn slæmur ef allir stjórnmálaflokkarnir hefðu átt sinn fulltrúa í samninganefndinni?
Er Icesave samkomulagið vont af því að formaður samninganefndarinnar var einu sinni Alþýðubandalagsmaður?
Er samningurinn slæmur af því að við viljum ekki borga skuldir einkafyrirtækis?
Finnst Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum samningurinn vera slæmur af því að þeir eru ekki í ríkisstjórn?
Verðum við stærri og stoltari þjóð ef við höfnum samkomulaginu?
Fáum við betri samning ef við höfnum samkomulaginu?
Hvað gerist ef við fáum ekki betri samning eftir að við höfnum samkomulaginu?
Hversu mikið betri þarf samningurinn að vera til að vinna upp það tjón sem höfnun forsetans veldur?
Mun örugglega nást betri niðurstaða ef deilan fer fyrir dóm?
Hvað ef við töpum málaferlum

… og hvað verðum við lengi í ruslinu? 

Ekki veit ég það, svo mikið er víst. 


mbl.is Endurreisnaráætlun í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef við berum ekki ábyrgð á ICESAVE

Ég hef aldrei ætlað mér að blanda mér inn í ICESAVE umræðuna, en það er ein hlið á þessu máli sem mér finnst að mætti skoða nánar. Segjum að það sé þannig eins og sumir vilja halda fram, að íslenska ríkinu beri engin skylda til að ábyrgjast innstæður á útibúum einkabanka erlendis, má þá ekki líta á svona ICESAVE reikninga sem alveg tilvalda leið fyrir íslenska banka í framtíðinni? Ef íslenskur einkabanki þarf að fjármagna sig með innlánum er miklu sniðugra fyrir okkur að hann leiti til almennings erlendis, því ef bankinn fer yfirum þá þurfum við ekkert að bera neina ábyrgð, jafnvel þótt peningarnir renni beint til Íslands.

Ef skilningur þeirra sem telja okkur ekki bera neina ábyrgð er réttur, þá hefðu íslensku bankarnir kannski átt að vera miklu duglegri við að plata fólk til að leggja sparnaðinn í útibú íslenskra banka og kannski hefði bankakerfið okkar bjargast ef svona ICESAVE reikningar hefðu slegið í gegn í allri Evrópu. Reyndar þótti ICESAVE lengi vera alger snilld þangað til einhverjum datt í hug að við þyrftum að borga aumingjans fólkinu til baka sem var svo vitlaust að treysta íslenskum banka til að ávaxta peningana sína. ICESAVE átti aldrei að vera nein góðgerðastofnun því til þess var fyrst og fremst stofnað til að fjármagna Landsbankann þegar harðna tók í ári, en dugði því miður ekki til.

Í framhaldi af þessu vil ég leggja til að ef svo fer að við berum enga ábyrgð á ICESAVE þá ættum við að einkavæða Landsbankann hið snarasta, skipta kannski um nafn á honum og fá almenning erlendis til að leggja aleigu sína í útibú bankans með loforði um metávöxtun. Ef bankinn fer yfirum þurfum við engar áhyggjur að hafa, því tjónið verður ekki okkar. Við getum kannski ekki leikið sama leikinn aftur í Bretlandi eða Hollandi, en hvað um Bandaríkin? Þar er mikið af fólki sem hægt er að féfletta.

Siðferðislegu hliðin á þessari leið er auðvitað ekki upp á marga fiska en hún virðist vera algert aukatriði þegar peningar eru í spilunum - sérstaklega þegar við erum að tala um að hafa peninga af útlendingum. En ef við viljum aftur á móti vera áfram í hópi siðaðri þjóða er varla um annað að ræða en að gangast við okkar hluta af þeim skaða sem útibú íslenskra banka hafa valdið almenningi erlendis. Þótt það sé ekki réttlátt að íslenskur almenningur þurfi að bera ábyrgð á skuldum einkafyrirtækja, þá stöndum við allavega nær þeim bönkum en almenningur erlendra ríkja   … eða það held ég alla vega.


Nýjar myndir úr miðbænum - Breski herinn er mættur!

Maður heyrir það gjarnan þessa dagana að fólk sé búið að fá leið á þessu ICESAVE máli og öllum þeim skotgrafarhernaði sem viðgengst í umræðunni um það mál. Að vísu hefur ICESAVE málið aldrei verið hugsað sem eitthvert afþreyingarefni fólki til skemmtunar sem er hægt að fá leið á. En nú er runninn upp tími ákvarðanna og þolinmæði Breta og Hollendinga senn á þrotum, því auðvitað vilja þeir sjá til þess að við berum þá ábyrgð sem okkur ber, á þeim fjármunum sem við fluttum hingað til lands á kostnað grandvaralausra ICESAVE reikningshafa.
Það kom mér því ekkert sérstaklega á óvart þegar ég átti leið um bæinn í dag, að sjá innheimtuaðgerðir í undirbúningi þar sem erlent herlið er búið að hreiðra um sig á hernaðarlega mikilvægum stöðum í miðbænum. Því til staðfestingar koma hér nokkrar myndir:

Her Grjótaþorp

Þessi mynd er úr Grjótaþorpinu, en þar sá ég þessa vígalegu hermenn í skriðdreka á spjalli við liðsforingja sinn. Allt var þó með kyrrum kjörum enda hafði útgöngubanni verið komið á í hverfinu.
- - - - - 

Her Austurvöllur

Fyrir utan Dómkirkjuna mátti sjá harðsnúinn flokk Breskra og Hollenskra sérsveitarmanna. Þeir kváðust nýkomnir frá Afganistan þar sem þeir eltust við meinta hryðjuverkamenn. Liðsmenn Indefence-samtakanna hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið.
- - - - - -

Prins

Þennan dáta hitti ég svo niðri við pulsuvagn. Ég tók hann tali og kvaðst hann vera prins og þótti pylsan góð. Ekki virtist hann vera með á hreinu í hvaða erindagjörðum hann var sendur hingað, en var að hugsa um að skella sér á öldurhús um kvöldið ásamt félögum sínum.

- - - - - -
Í framhaldi af þessu skulum við vona að þetta verði gott og vinsamlegt stríð og umfram allt - laust við skotgrafarhernað. Það mun þó ekki viðra nema svona rétt sæmilega til loftárása á næstunni.


Harðindavetur framundan

Kerhólakambur

Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.

Það getur verið að einhver kannist við þennan texta sem ég skrifaði kvöldið 28. september í fyrra og lauk við hálftíma eftir miðnætti. Strax morguninn eftir að bloggfærslan birtist gerðust svo þeir atburðir sem mörkuðu upphaf fjármálahrunsins. Það má því segja að þarna hafa ég náð að vara þjóðina við komandi hörmungum, þó kannski hafi sú viðvörun komið helst til of seint. Eins og sést þá beitti ég ísmeygilegri aðferð til að villa um fyrir saklausum lesendum um innihald bloggfærslunnar, en fyrsta athugasemdin kom fljótlega frá Láru Hönnu Einarsdóttur sem sagði: (með leyfi fundarstjóra)

„Sjúkkit… ég hélt að fyrirsögnin ætti við veðrið! Ætli einhverjir kalli þetta ekki Kreppuveturinn mikla eða Hallærisveturinn hörmulega. En við þreyjum þorrann að venju, trúi ég.“

Kannski ekki svo mikið „Sjúkkit … “ getum við sagt nú að ári liðnu. 

Það gerðu annars flestir sér grein fyrir því í fyrrahaust, að það yrði á brattan að sækja í fjármálalífi landsins þótt fæstir hafi átt von á þeim harðindum sem áttu eftir að skella á eins og hendi væri veifað. Þáverandi Dómsmálaráðherra var til dæmis ekki betur með á nótunum en svo að boðskapur hans helgina fyrir hrun snérist um lögregluembættismál í Reykjanesbæ:

tveir bloggarar

Ég hef annars ekkert að ráði fjallað um kreppuharðindin og allt vesenið þeim tengd. Þar ræður ekki síst ströng ritstjórnarstefna mín sem bannar allt slíkt hér á þessu bloggi. Hins vegar hef ég stöku sinnum farið í kringum mín eigin lög og reglur og fjallað óbeint um ástandið og orsakir þess. Þar á ég við bloggfærslur eins og Íshafið og hinn kaldi veruleiki og Medúsa flekinn þar sem ég leitaði á náðir myndlistarsögunnar. Það sem ég skrifaði um Titanicslysið og jafnvel Britney Spears má líka líta á í þessu ljósi ásamt ýmsu fleiru. Það verður þó að segjast eins og er að ég hef ekki alveg fundið taktinn í þeirri almennu reiðibylgju sem einkennt hefur umræðuna og þrátt fyrir að ég hafi stundum mætt á mótmælafundi á Austurvelli síðasta vetur var hugurinn oft allt annarsstaðar en hann átti að vera.

Ég hef heldur ekki alveg fundið taktinn í þeirri reiðibylgju, sem orðið hefur til þess að margir bloggarar hafa yfirgefið þetta bloggsamkvæmi uppá síðkastið. Ég ætla að halda hér áfram á meðan ég nenni og hef eitthvað að skrifa um og það samkvæmt minni eigin ritstjórnarstefnu. Alltaf finnst mér þó að það sé farið að styttast í þessu hjá mér. Ég mun þó halda áfram að vara þjóðina við komandi hörmungum ef mér finnst ástæða til. Það er kannski vegna þess sem ég kom með þessa endurtekningu - mér finnst nefnilega full ástæða til að vara við komandi efnahagslegum harðindavetri, en hvet í leiðinni alla til að klæða sig vel á næstu dögum.

(Undirstrikuð orð eru tengiliðir á viðkomandi bloggfærslur)


Göngum til kosninga

Þá er komið að því - þjóðin fær að kjósa í dag. Ég vil hvetja alla til að ganga til kosninga núna í góðviðrinu svo fremi sem þeir eru í göngufæri við kjörstað og sæmilega gangfærir. Það skerpir hugsunina að ganga en einnig gefst með því tími til hugleiðinga um pólitíkina eða bara um hvað sem er, eins og um stöðu okkar í heildarsamhengi eilífðarinnar. Það verður líka að gefa sér sér góðan tíma til að kjósa því þetta á að sjálfsögðu að vera aðalverkefni dagsins. Kjósendur ættu einnig að huga að því að vera snyrtilegir til fara enda má enginn verða sér til skammar á kjörstað.
Þótt ekki verði á allt kosið ætti fólk ekki að vera í vandræðum með að finna eitthvað við sitt hæfi miðað við framboð flokka að þessu sinni. Sumir eru þó sjálfsagt með hugann við allskonar mistök sem stjórnmálamönnum hefur orðið á og þar er sjálfsagt af nógu að taka. Sjálfur er ég fyrir löngu búinn að gera upp hug minn. Ég kýs bara sama flokk og síðast en sá flokkur er alsaklaus af því að hafa staðið fyrir hruninu mikla. Fortíðin er annars ekki aðalatriðið, því þessar kosningar eins og aðrar snúast um næsta kjörtímabil en ekki það síðasta.
Jæja. Að kjördegi loknum er alveg kjörið að neyta kosningaréttar af betra taginu. Það þarf að vera næringarrík máltíð enda löng kosningaandvökunótt framundan og þá skemmir ekki fyrir góð sósa og brúnaðar kartöflur.

Austurvallarmyndir

Ég lagði leið mína niður á Austurvöll um helgina eins og fjölmargir hafa gert undanfarið. Þrátt fyrir að þarna væru áköf ræðuhöld í gangi beindist athyglin mín ýmsar áttir eins og oft vill gerast, ekki síst þegar myndavélin er með í för.
 
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson, mótmælandi nr.1 og sjálftæðishetja þjóðarinnar stendur ávallt stoltur á stalli sínum. Styttan er gerð af Einari Jónssyni árið 1911 og var upphaflega afhjúpuð við Stjórnarráðið þar sem hún stóð til ársins 1931 en þá var hún flutt á Austurvöll. Þar hafði áður staðið stytta af Bertel Thorvaldsen myndhöggvara.
 Dómkirkjan
 
Dómkirkjan er meðal allra elstu bygginga í Reykjavík en hún var vígð árið 1796. Byggingin hefur verið stækkuð nokkrum sinnum en upphaflega var hún einni hæð lægri en í dag. Turnspíran sem fylgdi teikningunum hefur þó aldrei verið reist. Athyglisvert er að Dómkirkjan stendur ekki alveg hornrétt á Alþingishúsið og Austurvöll.

Alþingishús
Alþingishúsið er hlaðið úr grágrýti sem er sú bergtegund sem höfuðborgin stendur á. Grágrýti er annars einkennandi fyrir það berg er rann sem hraun á hlýskeiðum á milli ísalda og er því allt að 3ja milljóna ára gamalt. Alþingishúsið sjálft er þó ekki svo gamalt en það var reist árið 1881.

Nasahúsið
 
Nasa-húsið er þetta virðulega hús kallað í dag. Þarna hefur mörg skemmtunin farið fram í gegnum tíðina. Einu sinni var húsið kennt við Sigtún og var þar áður kallað Sjálfstæðishúsið – nefnt eftir flokknum sem hýsti þar starfsemi sína. Á Sigtúnsárunum var í húsinu sýndur nektardans í fyrsta sinn á Íslandi, spurning er hvernig fínu frúnum sem ráku Kvennaskólann þarna upphaflega, hefði litist á það.
 Pósthússtræti
Pósthússtræti 9 hefur lengi verið talið stílbrot í húsaröðinni en það var byggt á 6. áratugnum þegar modernisminn var allsráðandi í byggingarstíl. Á seinni árum er það þó farið að njóta meiri virðingar á hjá sumum enda er þetta sígilt dæmi um ákveðið tímabil í byggingarsögunni.
 Mótmælendur
 
Mótmælendur. Austurvöllur hefur löngum verið vettvangur mannfagnaða og mótmæla af ýmsu tagi. Ég veit ekki til þess að mótmælendum hafi áður tekist að hrópa niður ríkisstjórn en vissulega var stjórnin orðin ákaflega veik. Hvað tekur nú við er spurning. Fólk vill helst breyta öllu og margir vilja jafnvel stofna nýtt lýðveldi. Kannski gæti landið bara skipt um kennitölu í leiðinni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband