Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
4.5.2008 | 14:15
Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?
Um þessar mundir er komið að ögurstund sem gæti ráðið því hvort farið verði í framkvæmdir við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu þar sem reisa á Bitruhálsvirkjun en frestur til að senda Sveitarfélaginu Ölfusi athugasemdir vegna breytinga á aðalskipulagi Ölkelduháls á Hengilssvæðinu rennur út 13. maí. Til að leggja mitt af mörkum til verndar óspilltri náttúruperlu í nágrenni höfuðborgarinnar birti ég hér myndir og texta sem kemur fram á plakati sem gefur hefur verið út til að vekja athygli á fyrirhugaðri virkjun.
- - - - - - -
Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins 2002-2004. Hér er vakin athygli á atriði nr. 1 í auglýsingunni er varðar Bitruvirkjun:
285 ha opnu, óbyggðu svæði Bitru / Ölkelduhálsi sem að hluta er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar er breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Þetta svæði er skilgreint sem útivistarsvæði. Hér er afar fjölbreytt landslag; fjöll grænir dalir, fossar og lækir heitir og kaldir hraunmyndanir og heitir hverir. Svæðið er virkt eldfjallasvæði austan Hengils. Þar eru fjölbreyttar gönguleiðir, t.d. leiðin frá Reykjadal í Innstadal sem liggur hjá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.
Frá framkvæmdasvæðinu, sem er um 5 km fyrir norðan þjóðveg nr. 1, er fallegt útsýni til norðurs yfir Þingvallavatn, Langjökul og Skjaldbreið.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð. Útivistarperlan er austast á framkvæmdasvæðinu en þaðan mun fyrirhuguð gufuaflsvirkjun blasa við.
Framkvæmdir fela í sér vegagerð, stöðvarhús, kæliturna, borpalla, borholur, heitavatnsleiðslur og háspennulínur, o.fl.
Myndirnar eru frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og umhverfi þess. Þessar perlur eru steinsnar frá frá höfuðborgarsvæðinu og auðvelt fyrir alla að nálgast þær.
Þeir sem vilja leggja sitt af mörkum til að vernda þetta ómetanlega svæði eru hvattir til að senda inn athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn, fyrr 13. maí nk. Frekari upplýsingar er að finna á www.hengill.nu.
Athugið að öllum er heimilt að gera athugasemd, ekki einungis íbúum sveitarfélagsins.
- - - - - - -
Bloggvinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir www.larahanna.blog.is hefur verið duglega að skrifa pistla um þetta mál og þar má finna ýtarlegri upplýsingar um þessar vafasömu framkvæmdir. Ljósmyndirnar eru frá öðrum bloggvini: Kjartani Pétri Sigurðssyni.
28.4.2008 | 20:22
Er olíukreppan byrjuð?
Sannir svartsýnismenn fengu sannarlega eitthvað að hugsa um þegar myndin A Crude Awekening var sýnd í Sjónvarpinu nú um daginn. Hún fjallar um það að olíuframleiðsla jarðarbúa sé um þetta leiti komin í hámark sem þýðir að hér eftir mun framleiðslumagnið einungis fara minnkandi á sama tíma og eftirspurnin eigi bara eftir að aukast. Það ætti að vera augljóst að svoleiðis jafna gengur ekki upp nema með ört hækkandi olíuverði þar til einn daginn að olían verður fáheyrð munaðarvara sem almenningi stendur ekki til boða. Og þess verður kannski ekki svo langt að bíða eins og kemur fram á þessari mynd sem sýnir þróun olíuframleiðslu heimsins í fortíð og framtíð samkvæmt spá þeirra sem til þekkja.
Þegar olían er búin
Ég ætla að gefa mér það að myndin sé nokkurn vegin rétt. Það er allavega ekki spurning að olían er takmörkuð óendurnýjanleg auðlind og þegar hún er uppurin verður engin olía meir svo lengi sem mannkynið lifir. Nútímasamfélagið er algerlega háð olíu í dag og er raunar forsenda þess að það náði að þróast og að lífskjör okkar séu eins og þau eru í dag. Það eru ekki bara bílar, skip og flugvélar sem nota olíu, heldur einnig allskonar framleiðsla, s.s. efnaiðnaður, lyfjaiðnaður, allt plastið, allt malbikið og svo má ekki gleyma allri hernaðarmaskínunni sem þarf sitt með góðu eða illu. Mannkynið hefur svo sem áður skipt um orkugjafa, hestaflið er orðið úrelt, gufuaflið líka og því getum við ekki bara fundið upp eitthvað nýtt? Þar er meinið. Orkuframleiðsla með olíu er ekki úrelt því það er ekkert annað í boði í dag sem leyst getur olíuna af hólmi. Kjarnorkan er t.d. líka takmörkuð auðlind því hún er háð hinu sjaldgæfa efni Úran. Vindorka, vatnsorka, sólarorka eða jarðvarmaorka duga síðan engan vegin til að mæta óseðjandi þörfinni. Vetnið er engin lausn því það þarf orku til að framleiða vetni og því er það ekki orkugjafi. Það er langt í nýjar lausnir, stundum er talað um hina miklu samrunaorku sem er ógeislavirk kjarnorka sem gengur út á það sama og orka sólarinnar, en sú tækni er alltof stutt komin og óvíst að slíkt ferli skili nægilegri orku til að réttlæta gífurlegan kostnað.
Í dag ættum við að vera á fullu að venja okkur við veröld án olíu, en það virðist þó ekkert í þá áttina vera í gangi. Í Bandaríkjunum sem nota fjórðung allrar olíunnar er bensín t.d. ódýrasti vökvi sem seldur er almenningi. Við verðum í framtíðinni væntanlega dæmd sem eigingjarna kynslóðin sem kláraði olíuna. En þetta má ekki ræða, stjórnmálamaður í Bandaríkjunum á enga von um kosningu ef hann vogar sér að benda á þessa hættu, en þeir vita af þessu, þeir vita líka að í Mið-austurlöndum eru einu almennilegu olíubirgðirnar í heiminum sem ekki munu fara þverrandi alveg á næstunni.
Hvað þá með loftslagsmálin og umhverfismálin?
Það hefur ekki verið mikil umræða um væntanlega olíukreppu, allavega ekki miðað við umræðurnar um loftslagsmálin. Nú fæ ég samt ekki betur séð en að þessi tvö vandamál tengist, en samt með öfugum formerkjum ef hægt er að segja svo. Ef olíukreppan framundan er staðreynd þá er augljóst að þá mun draga úr brennslu olíu sem þýðir að draga muni sjálfkrafa úr þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem talin er nauðsynleg og jafnvel gott betur. Það má því kannski segja að þannig leysist stórt en kannski dálítið umdeilt vandamál og annað stærra og verra taki við. Svo er líka augljóst mál að það er tómt mál að tala um að þriðji heimurinn muni ná því neyslustigi og lífskjörum og við búum við í dag hér á Vesturlöndum. Verður það kannski bara á hinn veginn? Það er óhjákvæmilegt að orkuverð mun hækka í framtíðinni, ekki vegna Kyoto-sáttmálans heldur af hreinum orkuskorti. Og þá er hætt við því að allt verði virkjað sem virkjanlegt er því orkan verður gulls ígildi. Hvað verður þá um Gullfoss? Hvað verður þá um Fagra Ísland?
Meiri svartsýnisfróðleik um þetta mál má finna hér: http://www.lifeaftertheoilcrash.net/
Skeljungur hækkar eldsneytisverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2008 | 09:45
Þegar Rússar ætluðu að reisa olíustöð í Viðey
Árið 1979 birtist frétt í því sáluga blaði Þjóðviljanum að samkomulag hafi náðst milli ríkisstjórnarinnar og Sovétríkjanna að í Viðey skildi rísa stór og fullkomin olíuhöfn með öllu tilheyrandi. Eins og gefur að skilja var þetta stórpólitískt mál í miðju kalda stríðinu en á þessum tíma voru vinstri flokkarnir við völd, en þeir sem komu að þessu máli fyrir hönd ríkisstjórnarinnar voru þeir Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson og töldu þeir þetta mikið þjóðþrifamál. Þjóðviljinn var greinilega hlynntur þessum framkvæmdum og hvatti alla sósíalista til að sniðganga mótmælafund sem halda átti við Sovéska sendiráðið. Í frétt blaðsins mátti m.a. lesa þetta:
Olíuhöfnin í Viðey ásamt tíu 55 þúsund lesta olíutönkum og tilheyrandi leiðslum í land verður gífurlegt mannvirki og verða framkvæmdir boðnar út 1. maí n.k. víða um A-Evrópu og einnig á Kúbu, í Víetnam og Angóla. Samkomulag náðist um að eignaraðild Íslands yrði 50% eða jafnmikil og Rússa eins og viðeigandi er milli bræðraþjóða. Aðalhöfnin verður staðsett í víkinni fram undir Viðeyjarstofu og til marks um stærð hennar er að skip allt að 120 þúsund lestir geta lagst að viðlegukanti.
Olíutönkunum verður raðað í hálfhring utanum Viðeyjarstofu og kirkjuna en þess skal getið að þessi fornu mannvirki fá að standa algerlega óhreyfð og hafa Rússar m.a.s. boðist til að gera kirkjuna að minjasafni gegn því að skrifstofur hafnarinnar fái inni i Viðeyjarstofu. Olíutankarnir verða að miklu leyti grafnir í jörðu eða 9/10 hluti þeirra, og er það gert vegna náttúruverndarsjónarmiða. Það sem upp úr stendur verður þó um 40 metrar á hæð. Verður tignarlegt að líta yfir Viðeyjarsund þegar tíu fagurgjörfum turnunum verður raðað með reglulegu millibili sem einskonar umgjörð um höfuðból iðnrekandans Skúla fógeta.
- - - - - -
Það er kannski allt í lagi að minnast á það í lokin að þessi frétt birtist þann 1. apríl 1979. Nú eru hinsvegar breyttir tímar, en ekki alveg því eitthvað koma Rússar við sögu í þeim áformum að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum, en ég hef reyndar aldrei verið viss um hvort þar sé eitthvað spaug í gangi eða ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 16:49
Ó-fagra Reykjavík
Eftir alla umræðuna sem hefur átt sér stað um ástand miðborgarinnar fór ég á vettvang í gær, vopnaður myndavél og útkoman var smá myndasería sem ég setti setti saman hér. Reykjavík okkar stolta höfuðborg við sundin blá hefur sjálfsagt oft litið betur út en hún gerir í dag. Fyrir utan hina margumræddu niðurníðslu gamalla húsa, blasa hvarvetna við byggingarsvæði, væntanleg byggingarsvæði í bland við ýmislegt skárra bæði gamalt og nýtt. Það er eðlilegt að borgir séu í stöðugri þróun en sú þróun sem átt hefur sér stað í Reykjavík er ekki alltaf í áttina að betri og fallegri borg, kannski vegna þess að aldrei hefur almennilega verið vitað í hvaða átt sú þróun ætti að ganga. Undanfarið hefur mikið verið rætt um að þróunin ráðist aðallega af hagnaðarvon lóðareigenda og verktaka sem vilja byggja sem stærst og mest án tillits til þess hvort útkoman skapi heilbrigða borgarmenningu. Ég fer ekki nánar út í það en læt myndirnar tala sem allar eru teknar laugardaginn 29. mars og sýna borg sem er að ganga í gegnum mikla endurnýjum, sem sér ekki fyrir endann á næstu árin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2008 | 11:30
Bandaríkjamenn falla á prófinu í Írak
4000 Bandaríkjamenn hafa fallið í Írak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2008 | 08:59
Með Castró-bræðrum á Kúbu
Það er nú eiginlega ekki hægt annað á þessum tímamótum en að rifja það upp þegar ég var viðstaddur útifund með Fidel Castró á Kúbu sumarið 1989. Ég var þarna mættur ásamt nokkrum öðrum ungmennum frá Íslandi, en til Kúbu fórum við í mánaðarlanga vinnuferð á vegum Vináttufélags Ísland og Kúbu og unnum þar ýmis störf ásamt stórum hópum frá hinum Norðurlöndunum. Þessi ferð var auðvitað mikið ævintýri en það sem bar hæst var náttúrulega þegar allur hópurinn ásamt ógnarstórum hópi innfæddra átti þess kost að hlýða á eina af hinum mikilfenglegu ræðum Fidel Castrós. Ræðan var haldin þann 26. júlí, en sá dagur markaði upphaf byltingarinnar þegar Castró og fleiri skæruliðar gerðu misheppnaða árás á Moncada herbækistöðina árið 1953. Þrátt fyrir mikið mannfall í hópnum slapp Fidel Castró lifandi en dúsaði í fangelsi í nokkur ár þar sem hann lagði á ráðin um næstu byltingartilraun.
Ræða Fidels var aðalnúmerið á þessari samkomu og hófst eftir langa bið og eftirvæntingu mannfjöldans sem stytti sér stundir fram að ræðunni með því að fara með í einum kór sígildar slagorðaþulur til heiðurs forsetanum og byltingunni. Ekki þarf að taka fram að mikil fagnaðarlæti brutust fram þegar karlinn sjálfur loksins heiðraði svæðið með nærveru sinni og hóf upp raust sína. Og nú hófst mikil ræða. Castró rifjaði upp byltingarárin og allar þær framfarir sem orðið höfðu í landinu frá stjórnartíð fyrirrennara síns, ameríkanavinarins og einræðisherrans Batista sem þeir byltingarmenn steyptu af stóli. Ég get nú reyndar ekki sagt að ég hafi annars náð ræðunni í smáatriðum, við áttum þessum kost að fá enska þýðingu í heyrnartæki en hlustunarskilyrðin voru ekki góð og gáfust ég og fleiri upp á þeim apparötum að lokum. Hinsvegar stóð ekki á viðbrögðum okkar að standa upp og fagna með fjöldanum þegar við átti enda ágætt að teygja aðeins úr sér öðru hvoru. Castró er þekktur fyrir langar ræður, þær geta staðið klukkustundum saman en að þessu sinni þótti hann bara frekar stuttorður og talaði í innan við tvo tíma einungis. Ekki var annað að heyra en að viðstaddir hafi tekið ræðunni vel að henni lokinni, já afar vel, og tugþúsundum saman hrópaði fólkið Viva Fidel, Viva la Revolution!
Ekki nóg með það. Í þessari ferð hittum við einnig annan Castró, nefnilega Ramón Castró, þann elsta af þremur Castró-bræðrum. Ramón Castró kom fyrir sem mjög viðkunnanlegur maður, hann barðist ekki í byltingunni eins og bræður hans en átti þó sinn þátt í því öllu saman. Við heimsóttum hann þarna á heilmikið nautgripabú í eigu ríkisins að sjálfsögðu, en undir hans stjórn, enda Ramón Castró landbúnaðarmaður mikill. Það er ekki hægt að segja annað en það hafi verið bræðrasvipur með þeim tveimur og byltingarskeggið og græna derhúfan til staðar í báðum tilfellum.
Já, það var bjart yfir mönnum sumarið 1989 á Kúbu og byltingin gekk sinn vanagang, þó ekki endilega fram á við, því þarna gengu menn í sömu sporum. Í sæluríkinu á Kúbu voru frekari framfarir óþarfar. En það voru blikur á lofti. Strax þarna haustið eftir byrjaði óróinn í Austur-Evrópu og fyrir áramót var kommúnisminn þar fallin. Í árslok 1991 urðu Sovétríkin að engu og þá voru Kúbverjar skildir eftir einir og óstuddir og mjög erfið ár tóku við. En stjórn Kúbu hefur lifað þetta af og Castróbræður allir á lífi. Heldur hefur efnahagsástandið í landinu lagast með auknum túrisma þótt enn gangi menn í sömu pólitísku sporum. Þá er bara spurningin hvað gerist nú þegar sá yngsti af þeim bræðrum, Raúl Castró, hefur tekið við forsetastóli. Sá er ekki ekki nema 76 ára, ég hef ekki hitt hann og get því ekki alveg dæmt um það.
Raúl Castro kjörinn forseti Kúbu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2007 | 11:14
Um Hverfisgötuna
Nú er verið að tala um niðurníðslu Hverfisgötunar og jafnvel ljótleika. Það er þó óhætt að segja að þarna ráði fjölbreytnin ríkjum og ef vel er að gáð má finna fegurðina víða, þótt ekki sé alltaf um að ræða hina klassísku fegurð. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í sumar.
Dapurleg götumynd Hverfisgötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2008 kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.11.2007 | 14:36
Svona gæti Lækjargata 2 litið út
Eftir miðbæjarbrunann síðastliðið vor hófust umræður um hver örlög gömlu húsanna við Austurstræti og hornhússins við Lækjargötu ættu að vera. Eins og aðrir þá velti ég þessu fyrir mér og þá tók sig upp gömul hugmynd frá mér varðandi Lækjargötu 2 sem var sú að hækka húsið um eina hæð. Daginn eftir brunann tók ég mynd af húsinu ásamt öðrum brunarústum, gerði síðan dálitlar myndvinnsluæfingar og hækkaði húsið um eina hæð. Ég var eitthvað með það í huga að koma myndinni á framfæri en ekkert var þó úr því. Svo núna fyrir stuttu voru kynntar niðurstöður úr hugmyndasamkeppni sem Reykjavíkurborg efndi til vegna uppbyggingarinnar í Kvosinni. Þar var hlutskörpust samvinnutillaga frá Argos, Gullinsniði og Studio Granda en meðal þess sem þar kom fram var einmitt hugsanleg hækkun Lækjargötu 2 um eina hæð. Með því að gera þetta þá finnst mér að húsið fái að njóta sín almennilega þar sem það stendur við hlið IÐU-hússins nýja með sinn grá gafl sem gnæfir yfir til hliðar. Einnig hefur mér aldrei fundist fallegt að sjá blasa við úr Bankastrætinu bakhliðar stórhýsanna við Pósthússtræti og stóra gaflinn við Eymundson-húsið. Þannig gæti þetta semsagt litið út, þarna er húsið hækkað og endurbætt, upprunalega myndin og hluti af vinningstillögunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2007 | 18:33
Staðreyndir um staðreyndir
Hlýnun jarðar er staðreynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2007 | 11:41
Umtalsverð vitleysa
Umhverfisstofnun telur umhverfisáhrif Bitruvirkjunar ekki verða umtalsverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)