Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stóra planið um fjármálamiðstöðina Ísland

„Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahaglegu eða stjórnmálalegu tilliti.“

Kannski er ekki alltaf sanngjarnt að rifja upp gömul ummæli sem sögðu voru við allt aðrar aðstæður en ríkja í dag, en orðin hér að ofan mælti Halldór Ásgrímsson á Viðskiptaþingi í febrúar árið 2005. Samanber þessi orð fer ekkert á milli mála að Halldór eins og aðrir stjórnmálamenn bera hag þjóðarinnar fyrst og fremst fyrir brjósti í öllum sínum orðum og gerðum. Grunnurinn að hagsæld íslendinga og öflugu velferðarkerfi átti að vera öflugt alþjóðlegt fjármálalíf hér á landi sem átti að þróast í þeim hagstæðu skilyrðum sem stjórnvöld ætluðu að skapa með víðsýni og áræðni. Þetta var STÓRA PLANIÐ. Hér í fjármálaparadísinni miðri áttu síðan að rísa stórhýsi og stoltar menningarbyggingar fjármagnaðar af kaupahéðnum en hraðbrautir áttu síðan að liggja um sund og göng til ört stækkandi úthverfanna þar sem almenningur bjó í sínum myntkörfulánuðum smáhöllum. Fallvötn og jarðorku landsins átti svo að virkja til að afla orku fyrir stóriðjur sem áttu að tryggja blómlegt mannlíf á landsbyggðinni.

Því miður eða sem betur fer var Stóra planið aðeins of stórt fyrir okkar litlu og hjartfólgnu eyju, nema vera skildi að stjórnmálamennirnir hafi verið of stórir fyrir okkur. 

- - - - - - 

NEÐANMÁLS: Orð Halldórs eru fengin af bloggsíðu Björns Inga Hrafnssonar (sjá Hér) en þar má finna ræðu Halldórs um Fjármálamiðstöðina. Umrædda bloggsíðu Björns fann ég hinsvegar í gegnum bloggpistil Egils Helgasonar frá 16. janúar.

Stóra planið


Hvað verður á boðstólnum í næstu kosningum?

Austurvöllur

Kosningar eru krafan fólksins í dag enda er tiltrú meirihluta almennings á sitjandi stjórnvöldum horfin út í veður og vind. Ef kosið verður fljótlega er forvitnilegt að spá í hvaða stjórnmálalega landslag kæmi út úr þeim kosningum og hverskonar ríkisstjórn muni þá hugsanlega taka við. Verkefni næstu ríkisstjórnar væri væntanlega að skapa þetta algóða samfélag sem sumir kalla hið Nýja Ísland þar sem réttlætið og kærleikurinn mun að sjálfsögðu ríkja að eilífu. Allt gott um það að segja. En eins og venjan er þá eru ekki allir sammála að leiðinni til draumalandsins en þar ber auðvitað hæst deilan um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru. Þetta er í raun það stór spurning að það hlýtur að vera ómögulegt að mynda ríkisstjórn sem er ekki samtaka í því máli.

Ef kæmi til kosninga er í fyrsta lagi nokkuð líklegt að ný framboð komi fram sem byggjast á óánægju með sitjandi stjórnmálamenn - framboð sem vel gætu halað inn einhver atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn er svo í meiri hættu en áður að klofna í herðar niður vegna ESB-málsins ef til kosninga kæmi og því skiljanlegt að Alþingiskosningar séu ekki á óskalista þeirra. Allt stefnir síðan í tvö Framsóknarættuð framboð með mismunandi áherslu til ESB mála.

Hér má svo sjá þá flokka sem hugsanlega gætu boðið fram í næstu Alþingiskosningum og væntanlega afstöðu þeirra til ESB. 

  1. Sjálfstæðisflokkur(1) sem er hlynntur inngöngu í ESB.
  2. Sjálfstæðisflokkur(2) sem er andvígur inngöngu í ESB.
  3. Samfylking, sem styður inngöngu í ESB.
  4. Vinstri grænir sem eru andvígir inngöngu í ESB.
  5. Framsóknarflokkur sem er hlynntur inngöngu í ESB.
  6. Þjóðlegur Framsóknarflokkur sem er andvígur inngöngu í ESB.
  7. Frjálslyndi flokkurinn sem er andvígur inngöngu í ESB.
  8. Kratabandalag (Aðdáendur Þorvaldar Gylfa) sem styður inngöngu í ESB.
  9. Reiðir og róttækir (Einar Már & Co) sem er andvígt inngöngu í ESB.
  10. Lýðræðishreyfingin (Ástþór og Stormsker), spurning með ESB.

Þarna eru allt í allt 10 flokkar og erfitt að sjá einhvern sem gæti fengið afgerandi stuðning. Það er auðvitað  ekkert víst að svona margir flokkar komi fram og ólíklegt að svona margir flokkar muni ná mönnum inná þing, en ef við skiptum þessu niður í fylkingar með og á móti ESB þá gæti þær litið svona út:

Með ESB aðild: Sjálfstæðisflokkur(1), Samfylking, Framsóknarflokkur og Kratabandalag (+lýðræðishreyfing Ástþórs?)

Gegn ESB aðild: Sjálfstæðisflokkur(2), Vinstri grænir, Þjóðlegur Framsóknarflokkur, Frjálslyndi flokkurinn og Reiðir og róttækir. (+Lýðræðishreyfing Ástþórs?)

Af þessum tveimur kostum finnst mér mun líklegra að flokkar fylgjandi ESB nái saman enda pólitískur skyldleiki þeirra mun meiri heldur en hinnar fylkingarinnar þar sem eru flokkar sem eru ýmist lengst til vinstri eða hægri í pólitíkinni. Þannig tel ég mig geta komist að þeirri niðurstöðu að kosningar leiði annaðhvort til að þess að Evrópusinnaðir flokkar komist til valda eða þá að einhverskonar stjórnarkreppa taki við. Það er samt alltaf gott ef lýðræðið fær að njóta sín en hætt er þó við að um eitthvað offramboð verða að ræða að þessu sinni.


Móðir allra harðinda á Íslandi

Í harðindum þeim sem nú ganga yfir landið hafa Móðuharðindin komið til tals og jafnvel talað um að við séum að upplifa hörmungar sem ekki eiga sinn líkan síðan öll þau ósköp dundu yfir árin 1783-74. Það vita þó allir að ólíku er saman að jafna, en samt er allt í lagi að hafa í huga lífið hér á landi hefur ekki alltaf verið neitt sældarlíf og ýmislegt sem þjóð okkar hefur þurft að ganga í gegnum. Harðindi vorra daga eru auðvitað allt annars eðlis en þau sem áður gerðust því nú eru það peningarnir sem líf okkar byggist á en ekki duttlungar náttúrunnar. Þau harðindi sem gengu yfir landið seint á 18. öld og voru kennd við móðuna miklu af völdum Skaftárelda mætti kalla móður allra harðinda á Íslandi, en það var þá þegar nánast öll náttúran lagðist á eitt til að gera lífið hér á landi með öllu óbærilegt eins og kemur fram í þessum línum sem ég hef verið að setja saman undanfarið. 

Skaftáreldar FrímerkiSkaftáreldar

Flestir þekkja sögu Skaftárelda nokkuð vel og ég ætla því ekki að rekja gossöguna sérstaklega en get kannski gert það seinna. Allt byrjaði þetta einn góðan veðurdag um Hvítasunnu þann 8. júní 1783:

„ … um dagmálabil kom upp fyrir norðan innstu byggðarlög á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu svo þykkt að dimmt varð í húsum en sporrækt á jörðu.“

Þannig lýst eldklerkurinn Jón Steingrímsson fyrstu einkennum gossins sem átti eftir að verða þjóðinni svo dýrkeypt. Gossprungan var um 25 km á lengd og alls voru það 135 misstórir gígar sem sáu um að framleiða eitt af mestu hraunum sem hafa runnið á jörðinni frá ísaldarlokum. Það hjálpaði ekki til hversu ástandið átti eftir að vera slæmt að það hófst á versta tíma ársins þegar heyfengur vetrarins á undan var uppurinn og gróðurinn rétt komin af stað. Móðan sem lagðist yfir, öskufallið og eiturgufurnar urðu svo til þess spretta sumarsins varð nánast engin, ekki bara í Vestur-Skaftfellsýslu heldur einnig víðast hvar á landinu. Ástandið var því ekki gæfulegt þegar haustaði árið 1783 því búpeningur var þá þegar orðinn horaður og sjúkur, varla nokkuð almennilegt hey komið í hús, gosið enn í fullum gangi og hálf byggðin á Síðunni komin undir hraun.

Veturinn 1783-84

Þegar leið á veturinn 1783-84 fór virkilega að harðna á dalnum eins og gefur að skilja því nú var ekkert að hafa. Því miður áttuðu menn sig ekki nógu snemma á því að best hefði verið að fella bústofninn strax um sumarið í stað þess að láta hann veslast upp engum til gagns. Og þegar bústofninn var hruninn svarf hungrið að sem síðan varð helsta banamein þeirra sem létust, ásamt lungnabólgu, skyrbjúg og ýmsum öðrum pestum. En fyrir utan matarskortinn, voru auðvitað allar eiturgufurnar í loftinu ásamt miklum kuldum sem í ofanálag einkenndu þennan vetur. Þótt gosinu hafi lokið 7. febrúar 1784 áttu eymdin jafnvel enn eftir að ná hámarki og þegar yfir lauk hafði fimmtungur landsmanna látist, 40% nautgripa, tæpur helmingur hrossa og 75% alls sauðfjár.

Hafísar, jarðskjálftar og pest

Skaftáreldarnir voru svo sannarlega ekki það eina sem landsmenn þurftu að takast á við á þessum tíma. Átjánda öldin var í heild mjög köld veðurfarslega og algengt var að hafísinn legðist að landinu mánuðum saman með öllum þeim kuldum sem honum fylgdi. Árið 1784 var engin undantekning á því en þá lagðist hafísinn að Norðurlandi strax í ársbyrjun og hélst þar fram á vor. Harðindin vegna íssins fyrir norðan fram eftir ári 1784 lagðist ofan aðrar hörmungar, þannig að hrun í bústofni, mannfall og önnur neyð var síst minni þar en fyrir sunnan, samanber það sem kemur fram í svokölluðum Djáknaannálum 1784:

Allan þennan vetur var mesta umferð af fátæku flakkandi fólki, helzt úr Þingeyjarþingi, sem ráfaði bæði suður og vestur, dó og varð úti sumt af því í ýmsum stöðum. En um vorið tók fólkið óðum upp að flosna um allt Norðurland og víðar annars staðar og hrundi niður sumarið allt og haustið sem hráviði, bæði af hungri og allskyns óáran, því sumt af fólki, sem dálítið viðurværi hafði, þreifst ei fyrir lífsýki og ótímgun og veslaðist svo út af“

Í stíl við annað á þessum tíma komu svo auðvitað alvöru Suðurlandsskjálftar síðla sumars 1784 með miklum skaða á húsakynnum í Árnes og Rangárvallasýslum og jók það auðvitað á hörmungarnar þar þótt mannfall hafi ekki verið mikið sem rekja má beint til skjálftana. Til að kóróna svo allt saman þá gekk bólusótt yfir langþreytta landsmenn árið 1785, en af hennar völdum létust um 1500 manns, aðallega á Suðvestur- og Suðurlandi.

Neyðaraðstoð frá Danmörku

Ótíðindin frá Íslandi bárust ekki til Danmerkur fyrr en haustið eftir að Skaftáreldar hófust. Landsherrarnir þar gátu auðvitað ekki gert sér ljóst hversu ástandið var slæmt hér en brugðust þó við með samskotum í kirkjum landsins tvo sunnudaga í röð þar sem söfnuðust 9099 ríkisdalir. Í nóvember lagði svo af stað til Íslands skip með matvæli og annað gagnlegt en það náði þó ekki á leiðarenda í Reykjavík fyrr en í apríl vorið eftir því það þurfti að hafa vetursetu í Noregi vegna veðurs. Neyðaraðstoðin kom síðan að litlu gagni þegar til kom því ómögulegt var að flytja matvælin milli landshluta enda voru varla nokkrir hestar eftir sem gögnuðust til flutninga og svo lokaði hafísinn öllum siglingaleiðum fyrir norðan. Okkur voru því allar bjargir bannaðar. 

Batnandi tíð - þar til nú?

Móðuharðindin og aðrar hörmungar þessar ára voru síðasta stóráfallið sem þjóð okkar þurfti að ganga í gegnum, að minnsta kosti af náttúrunnar völdum, en á þremur árum 1783-1786 fækkaði fólki úr 49 þúsundum niður í 38 þúsund. Mannfjöldinn var samt nokkuð fljótur að endurheimtast og þrátt fyrir að mörg harðindaár ættu eftir að leggjast yfir landsmenn fór fólksfjöldinn smám saman að aukast á landinu fyrir utan vesturfaratímabilið á seinni hluta 19. aldar.

Í ástandi eins og er í dag þegar allt er að fara á vonarvöl, þarf fólk ekki lengur að ráfa um sveitir landsins og ekki þarf að óttast að við hrynjum niður eins og hráviði líkt og forðum. Við erum samt að fara inn í harðindatímabil af þeirri tegund sem höfum ekki þekkt áður og erum einskonar útlagar í samfélagi hinna fínni þjóða. En hvernig sem þetta endar þá er bara um að gera að standa áfram í fæturna og horfa fram á veginn sem sjálfstæð þjóð sem lætur ekki bugast þrátt fyrir þungar byrgðar.  Útilegumaður borg 

 

- - - - - - - - 

Nánar er hægt að lesa um Skaftárelda á þessari síðu: http://www.islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/skaftareldar.html 

Að auki er hér er stuðst við er sagnfræðiritgerð í Íslands- og Norðurlandasögu við HÍ: Samspil náttúruafla, samfélagsbyggingar og sótta í Skaftáreldum og Móðuharðindum, eftir Örnu Björk Stefánsdóttur, sem svo vill til að er sambýliskona mín til margra ára. 


Hnípin þjóð í vanda

Aldrei í sögu Íslendinga svo langt sem hún nær höfum við þurft að þola aðra eins skömm eins og við gerum nú og aldrei hefur þjóð okkar fallið í annan eins forarpytt af okkar eigin völdum eins og nú. Og við sem vorum fyrir nokkrum mánuðum flottasta, ríkasta, stórasta og fallegasta þjóð í heimi og að auki næst best í handbolta. Hvað gerðist? Hverjum er þetta að kenna? Ég hef satt að segja ekki getað áttað mig á því, allavega ekki hingað til, hvort þetta séu bara ill örlög viðkvæmrar smáþjóðar í ólgusjó heimsins eða fádæma glannaskapur hlaðinn mistökum. Stundum er líka sagt að stórslys verði ekki nema eftir röð mistaka, jafnvel eftir röð lítilla mistaka þar sem hvert og eitt hefði ekki komið að sök eitt og sér. Sjálfsagt er þetta einhvernveginn svona, enda er erfitt að benda á einn sökudólg sem kom okkur á kaldan klaka þótt hugsanlega mætti benda einhvern eða eitthvað sem hefði getað komið í veg fyrir þetta ólán.

Ég hef átt erfitt með að vera reiður í öllu þessu ástandi ólíkt mörgum öðrum. Þar kemur reyndar að hluta til af því að ég er varla nokkurn tíma reiður svona yfirleitt. En hinsvegar lít ég almennt þannig á að mönnum gengur yfirleitt gott til og ætla sér í alvöru að stuðla að framgangi mála öllum til heilla, svona í bland við eigin hagsmuni. Það er síðan ófullkomleika mannsins að kenna að hin góðu framfaramál reynast stundum óvart snúast upp í hin verstu mál eða svipað því sem ég hef sagt áður: leiðin til glötunar er gjarnan vörðuð góðum áformum. Við íslendingar erum líka ófullkomin þjóð, a.m.k. ófullkomnari en við héldum og okkar vesæla þjóðarskúta, hlaðin útrásarvíkingum fór á hliðina um leið og gefa fór á bátinn við England. Mikilmennskuæði lítillar þjóðar sem ofmat getu sína varð okkur að falli að lokum.

En þurfti þetta allt að fara svona illa? Atburðarásin sem átti sér stað í byrjun október kom öllum í opna skjöldu. Þótt bankarnir hafi verið þjakaðir af allt of miklum útrásarskuldum veltir maður því samt fyrir sér hvort rétt hafi verið að fara út í þjóðnýtingu eins banka sem síðan leiddi til hruns hinna bankanna. Aðgerðin var sögð vera til þess að koma í veg fyrir að allt færi hér á vonarvöl. Afleiðingin varð samt sem áður sú að allt fór á vonarvöl og það margfalda. Þjóðin er komin á hryðjuverkalista og dæmd sem alræmd fjárglæfraþjóð. Það sem því miður enginn hafði áttað sig á var ísjakinn örlagaríki - Icesafe - sem varð öllum til tjóns og bjargaði engum þegar til kom.

Var yfirtaka bankana eina ráðið í stöðunni eða hefði verið hægt að fara mildari leið og ekki eins afdrifaríka fyrir þjóðina? Það var víst einhver efnahagsráðgjafi sem ríkisstjórnin var með, Tryggvi Þór að nafni og mun víst hafa þekkingu á svona hlutum. Honum leist ekki á þessa yfirtökuleið sem farin var og er því ekki lengur efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnin hafði nefnilega annan ráðgjafa sem taldi sig vita betur og er vanur að fá sínu fram.

En hversu slæmt sem þetta verður getur kannski einhver huggað sig við það að þjóðin hefur áður komist í hann krappan og upplifað miklu meiri hörmungar. Móðir allra harðinda á Íslandi átti sér stað seint á 18. öld en þá máttu Íslendingar þola ógurlegri náttúruhamfarir en við höfum nokkru sinni kynnst. Um það ætla ég að skrifa í næsta pistli. Þangað til er hægt að skemmta sér yfir gömlum texta sem Ríó tríóið söng á sínum tíma og fjallar um vissa tegund af útrás.

- - - - -

Þegar Stebbi fór á sjóinn, þá var sól um alla jörð / og hún sat á bryggjupollanum hún Lína / grét í vasaklút og svuntuhorn og svartan skýluklút / og hún sá á eftir Stebba á hafið út

Og hann Stebbi út við lunningu á lakkskóm svörtum stóð / upp á Línu renndi karlmannlegum sjónum / nei þeir kveðja ekki margir svona ást og svona þrá / eða sigla burtu spariskónum á

Og hann Stebbi var að hugsa meðan hægt þeir sigldu út
 / hversu hetjuleg sú kveðjustundin væri / hlutverk réttu, dapra stúlkan og hinn djarfi ungi sveinn / drengilegur svipur harður eins og steinn

Meðan Stebbi var að hugsa þetta, höfnin sagði bless / og á hafsins öldum skipið fór að velta / Yfir borðstokk nokkrar gusur komu glettnum öldum frá / svo að gefa tók nú spariskóna á

Og hún Lína enn á bryggjunni svo beygð og döpur sat / þegar bátur drauma hennar aftur snéri / upp þú fjandans æludýrið öskrað var þá dimmum róm / og einhver steig á land í blautum spariskóm

Já þeir sigldu marga hetjuför í huga vorum út / og í hörðum leik af drengjum öðrum báru / en í dagsins heimska lífi, margur draumur okkar dó / varð að deyja því við gátum ekki nóg

Jónas Friðrik 


Austurvöllur 8. nóvember - myndir

Hér eru myndir af því þegar nokkrir borgarbúar komu saman núna síðdegis á Austurvelli. Alltaf gaman að sjá mannlíf í miðborginni okkar. 

Austurvollur_14

Austurvollur_11

Austurvollur_13

Austurvollur_7

Austurvollur_9

Austurvollur_15

Austurvollur_12

Austurvollur_6

Austurvollur_10

Austurvollur_8

Austurvollur_5

Austurvollur_4

Austurvollur_2


Af mér og bönkum fyrr og nú

BANKAR

Nú þegar við horfum upp á alveg nýtt landslag í fjármálakerfi landsins er stundum sagt að við séum að hverfa aftur til hinna gömlu tíma þegar allt var einfaldara og hlutirnir gjarnan í fastari skorðum. Þetta voru tímar þegar menn gengu með peningaseðla í veskinu eða skrifuðu ávísanir, þetta voru tímar þegar bankarnir stóðu í röðum landbúnaðar-útvegs, ekki bara í Austurstræti heldur líka í Bankastræti sem þá bar nafn með rentu með þrjú bankaútibú. Í öllum þessum bönkum var ávallt margt um manninn, fólk stóð í þvögu við gjaldkeraborðin, enda voru íslendingar ekki búnir að læra að fara í röð. Þá var líka bærinn fullur af fólki, strætisvagnarnir í sínum mosagræna felulit voru líka fullir af fólki, sumir voru svo sjálfir fullir en það hefur kannski ekki mikið breyst.

Mín fyrstu kynni af bankakerfinu voru eins og hjá svo mörgum að ég eignaðist sparibauk. Þennan sparibauk sem var í líki Múmínpabba fyllti ég reglulega og fór með í Iðnaðarbankann - stoltur yfir því að eiga eigin bankareikning, þótt um miklar upphæðir hafi ekki verið um að ræða.

Hinsvegar handlék ég öllu stærri upphæðir þegar ég gerðist sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 1980. Eitt af mínum verkefnum þar var að labba á hverjum degi með milljónir í sendlatösku, sneisafullri af peningaseðlum og ávísunum í útibú Landsbankans að Laugavegi 77. Þessar fjárhæðir lagði ég inn í bankann hjá gjaldkera eftir að hafa staðið í þvögunni við gjaldkeraborðið og beðið eftir afgreiðslu. Engum datt í hug þá að þessi unglingspiltur hefði getað verið mikil uppgrip fyrir sniðugan ræningja. Aðeins nokkrum árum síðar var framið þaulskipulagt rán við þetta sama bankaútibú þegar vopnaðir ræningjar náðu stórfé af mönnum sem ætluðu að leggja peninga frá ÁTVR í næturhólf bankans.

Í mínu starfi sem grafískur hönnuður hef ég stundum unnið fyrir banka. Eitt af fyrstu verkefnum mínum á auglýsingastofu árið 1989 var að leggja í púkkið tillögur að merki fyrir nýjan Íslandsbanka sem þá stóð til að stofna þegar sameina átti Iðnaðarbankann, Verslunarbankann, Alþýðubankann og Útvegsbankann. Eitthvað af mínum tillögum komu til greina en ég átti þó ekki merkið sem endanlega var valið, en það var hið litríka og fjöruga Íslandsbankamerki sem var mikil nýjung meðal bankamerkja á Íslandi. Þetta merki lifði til ársins 2000 þegar Íslandsbanki FBA varð til, en tók svo upp aftur í einfaldari útgáfu sem lifði þar til nafnið GLITNIR var tekið upp enda var það svona meira „erlendis“. Í dag heitir svo bankinn Nýi Glitnir samkvæmt 2008-stílnum. Allar svona breytingar eru auðvitað mjög atvinnuskapandi fyrir okkur auglýsingateiknara.

Íslandsbanki-Glitnir

Þrátt fyrir ýmsar framfarir í rafrænni bankaþjónustu síðustu ár þá fæ ég mér reglulega göngutúr í bankaútibúið mitt til að borga mánaðarlega reikninga mína og taka um leið út dálítið af peningum. Þetta þykir víst mörgum dálítið gamaldags því helst á maður að gera á netinu allt sem hægt er að gera þar. Ég tel þetta þó ekkert eftir mér en þessar heimsóknir mínar eru auðvitað atvinnuskapandi fyrir bankafólk. Yfirbragðið í bönkunum er líka allt miklu rólegra en áður og engar þvögur lengur við gjaldkeraborðin, því flestir aðrir eru bara á netinu og nenna ekki í bankann sinn.

 

Ljósmyndin sem fylgir pistlinum birtist í Þjóðviljanum árið 1980. Ég sjálfur er hvergi sjáanlegur á myndinni.


Medúsa flekinn - þegar vonin vaknar

Medusa flekinn

Eitt af hádramatískustu verkum myndlistarsögunnar var afhjúpað í París árið 1819 en það var verkið Medúsa flekinn eftir Franska málarann Théodore Géricault. Málverkið er afar stórt eða heilir 7 metrar á breidd og vakti strax mikla athygli og aðdáun þegar það var sýnt, en jafnframt reiði hjá sumum. Hér segir frá umdeildum atburðum sem áttu sér stað í raun og veru eftir að freigátan Medúsa steytti á skeri undan ströndum Vestur-Afríku árið 1816 undir stjórn skipstjóra sem var yfirlýstur andstæðingur Napóleons og að mörgum talinn vanhæfur til að stýra skipi. Alls voru um 400 manns um borð en auk áhafnar var þarna meðal annars Landstjórinn í Senegal ásamt herliði sínu en förinni hafði verið heitið til Frakklands. Almennilegir björgunarbátar voru ekki til taks fyrir alla um borð og því þurfti fjöldi hinna lægra settu að sætta sig við að láta sig reka um hafið á illa búnum fleka. Eftir tveggja vikna ólýsanlegt harðræði var þeim fáu flekaverjum sem lifað höfðu hörmungarnar af, blessunarlega bjargað um borð í skip sem þarna kom að.

Svona hástemmdar örlagamyndir eru algengar í listasögunni en það sem gerði þessa mynd sérstaka á sínum tíma var að hér er um að ræða raunverulegt fólk af lægri stigum samfélagsins og má þar örugglega kenna áhrifa frá Frönsku byltingunni, en fram að þessu höfðu aðallega valdahetjur og persónur í guðatölu fengið að prýða svona mikilfengleg málverk á striga. Géricault kaus að sýna í mynd sinni það dramatíska augnablik þegar skipbrotsmenn sjá lífsbjörgina í miklum fjarska en geta ekki vitað hvort eftir þeim hafi verið tekið. Öll uppbygging myndarinnar er hugsuð til að auka á áhrifamátt hennar, mennirnir á flekanum mynda einskonar þríhyrning sem leitar upp til hægri þar sem hinir örmagna eru fremst, en efstur er sá sem veifar skipinu í fjarska út við sjóndeildarhring. Annar þríhyrningur hallast hinsvegar í hina áttina til vinstri og þar er þanið seglið sem beinir flekanum í öfuga átt þarna í ólgusjónum.

Hin veika von í miðri örvæntingunni er sem sagt umfjöllunarefni þessarar myndar. Hér er illa statt fólk út á reginhafi og ekkert nema björgun kemur til greina og við sem horfum á myndina getum auðvitað huggað okkur við að svo fór þarna að lokum.

 


Harðindavetur framundan

Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.
Það er eitthvað við ástandið í dag sem minnir mig á lítið atriði úr kvikmyndinni Óðal feðranna, eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þegar allt stefndi í óefni á þeim bæ í myndinni spurði sonurinn móður sína angistarfullur, „Hvað eigum við að gera?“ Móðirin svaraði með dramatískri röddu: „ÞAÐ ER EKKERT HÆGT AÐ GERA!

En kannski eigum við ekki að mála skrattann á vegginn, kannski verður eitthvað hægt að gera til þess allavega að lina þrautir þessa komandi harðindavetrar. „Senn er sigruð þraut“ verður kannski sagt undir vor er hugarhrelling sú er hart oss þjakar nú mun hverfa og fleiri höpp oss falla í skaut.
 

Kerhólakambur

 


Ólympíuhitt og þetta

peking2008Þá eru hinir miklu kínversku Ólympíuleikar hafnir, hin glæsilega setningarathöfnin búin og athyglin loksins farin að beinast að íþróttunum sjálfum. Þessir leikar eru auðvitað mikið mál fyrir Kínverja sem voru svo vinsamlegir að skjóta skjólshúsi yfir leikana að þessu sinni, enda gefst þeim þarna tækifæri til að sanna sig og sýna hvers þeir eru megnugir. Ólympíuleikarnir eru auðvitað mikil auglýsing fyrir Kína, þótt sú auglýsing sé kannski ekki alltaf sú sem Kínverjar hafa óskað sér. Víða á vesturlöndum er litið á þetta sem Ólympíuleika loftmengunar, mannréttindabrota og yfirgangs stjórnavalda gagnvart minnihlutahópum þótt flestir Kínverjar líta á þetta sem stórkostlega sigurhátíð eigin ríkis.

Ég er ekkert sérstaklega fyrir það að sniðganga Ólympíuleika þótt gestgjafar séu svona og hinsegin. Það er samt ekkert að því að mótmæla og vekja athygli á málum sem eru ekki alveg í lagi, af þeim er víst nóg í Kína miðað við okkar fullkomnu vesturlönd, en margt af því hefði örugglega ekki verið eins áberandi í umræðunni Kína hefði ekki orðið fyrir valinu, ég nefni bara loftmengunina og Tíbetmálin sem dæmi.

Talandi um að sniðganga Ólympíuleika þá eru auðvitað eftirminnilegast þegar Sovétríkin og Bandaríkin sniðgengu Ólympíuleika hvors annars á meðan kalda stríðið var enn í gangi. Fyrst í Moskvu árið 1980 þegar Sovétmenn hertóku Afganistan, en það þótti mikill alþjóðaglæpur í þá daga. Það kom því engum á óvart fjórum árum síðar að austurblokkin svokallaða sniðgekk Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984. Sem varð reyndar okkur til happs því þá komst íslenska handboltalandsliðið á svona leika í fyrsta sinn og stóð liðið sig þar með prýði og íslenska handboltaævintýrið hófst fyrir alvöru. moskva1980

Árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina hefur verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Það leiðir aftur hugann að Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980, en þar keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari sem við höfum átt, Jón Diðriksson. Í þá daga voru engar beinar útsendingar í sjónvarpi en Ríkisútvarpið sendi hinsvegar lítt kunnan fréttamann, Stefán Jón Hafstein, til að lýsa beint viðburðum í útvarpi allra landsmanna. Stefán lýsti 1500 metra hlaupi Jóns Diðrikssonar af mikilli ákefð ekki síst vegna þess að Jón tók snemma forystu í hlaupinu. Allt hlaupið jós Stefán miklu lofi á hlaup Jóns Diðrikssonar, en þess á milli mátti heyra: „hann er fyrstur“hann er annar“hann er orðinn þriðji“hann dregst aðeins afturúr“hann kemur í mark og er … sjöundi í riðlinum“.


Árið 2000. Spáð í gamla framtíðarspá

Þótt það sé áhugavert að velta fyrir sér framtíðinni er ekki síður áhugavert að velta fyrir sér framtíð fortíðarinnar eða öllu heldur framtíðinni eins og menn sáu hana fyrir sér í fortíðinni. Árið 1966 hafði hinn vestræni heimur upplifað mikið framfaraskeið í nokkra áratugi ekki síst í Bandaríkjunum og hinir vitrustu menn sáu enga ástæðu til að efast um að svo yrði um langa framtíð. Það ár birtist í hinu ágæta tímariti Samvinnunni úttekt á því hvernig svokallaðir fúturistar í Bandaríkjunum sáu fyrir sér hátækni þjóðfélagið 34 árum síðar, þ.e. árið 2000. Nú er ég búinn að taka saman í ekki mjög löngu máli helstu framfaraatriðin sem talað er um í umræddri grein en það er greinilegt að eitt og annað hefur ekki alveg gengið eftir og mun kannski aldrei gera. Það má líka alveg velta fyrirsér hvort þarna sé að finna dálitla oftrú á getu mannsins til að skapa sér sæluríki hér á jörð.

2000

 
Borgarlífið. Því var spáð að um 90% íbúanna byggju í borgum, allavega í Bandaríkjunum. Til að allur sjá fjöldi sem í borgunum búa kæmust leiðar sinnar þyrfti umferðin ekki bara að eiga sér stað á hefðbundnum brautum ofanjarðar og neðan heldur einnig í loftinu með einhverjum hætti. Þarna er væntanlega verið að tala um hina fljúgandi bílaumferð sem alltaf kemur fram í svona spám. Ekki var þó gert ráð fyrir því að allir þyrftu að yfirgefa heimilið sitt á hverjum degi til að stunda sína vinnu, því hægt væri að notast við símatæki sem tengdist sjónvarpsskjá. Ætli það heiti ekki tölva í dag?

Ferðalög. Menn reiknuðu með því að hljóðfráar farþegaþotur yrðu orðnar úrelt fyrirbæri í lengri ferðum árið 2000, þess í stað færu menn á milli heimsálfa með eldflaugum á örskotsstundu. Ferðalög til tunglsins teldust þá ekki til tíðinda og farið yrði að huga að mönnuðum ferðum til Mars og Venusar.

Mengunarvarnir og veðurstjórnun. Til að verjast sót og rykmengun í borgum átti að vera komin einföld lausn. Risastór kjarnorkuver stórborganna framleiða ekki bara rafmagn heldur einnig mikinn varma sem verður beint út í andrúmsloftið með þeim hætti að mikið hitauppstreymi myndast sem lyftir fúla borgarloftinu upp í hæstu hæðir en í staðinn streymi að ferskara og svalara loft með hafgolunni. Í leiðinni átti þetta svo að auka úrkomu á sólþurrkuðum svæðum og bæta uppskeru og gróðursæld.

Matvælaframleiðsla. Spáð var að mannfjöldinn á jörðinni árið 2000 yrði um 6 milljarðar (sem var nærri lagi). Til að seðja sívaxandi fólksfjölda voru helstu vonir bundnar við mikla fiskirækt, en úr fiskinum yrði búið til korn eða duft sem síðan væri hægt að umbreyta í fínustu kjötrétti eða aðrar kræsingar.

Læknavísindin. Auðvitað var spáð miklum framförum á þessu sviði sem vissulega hafa líka orðið. Merkustu framfarirnar áttu þó að vera á sviði heilalækninga með aðstoð efnafræði og rafmagnslækninga þannig að hægt yrði að bæta alla skapgerðarbresti og einnig minnisleysi með lyfjagjöfum. Hægt átti að vera að „breyta kjarklitlum vesalingum í framagjarnar hetjur“ og konur þyrftu ekki annað en að skreppa út í búð eftir skapbætingarpillum sem þær gætu síðan laumað í kaffibolla eiginmannsins.

Ný tækni fyrir húsmæður. Húsmæður allra heimila gátu séð fram á bjartari tíð með miklum tækniframförum í eldhúsinu. Innkaup yrðu gerð með símasjónvarpinu þar sem pantað yrði fyrir alla vikuna. Síðan væri matnum stungið í heilmikla vél og matseðill vikunnar saminn. Maskínan með aðstoð rafmagnsheilatækni átti svo að sjá um framhaldið og afgreiða tilbúna rétti handa heimilisfólki á réttum tíma og sjá svo að sjálfsögðu um uppvaskið á eftir. Að vísu er smá fyrirvari með innkaupin því talað er um að „konur séu nú einu sinni þannig gerðar, að þær vilji helzt fara út í búðirnar og handleika þar vörurnar sjálfar.“

Atvinnulífið. Vegna mikillar sjálfvirkni í iðnaði og viðskiptum þóttust menn sjá fram á að lítil þörf væri á vinnuafli og sáu sumir fyrir sér að einungis 10% íbúa hátæknisamfélagsins þyrftu yfir höfuð að vera í vinnu. Þetta þýddi samt ekki endilega að fólkið þyrfti aldrei að vinna, því þessu mætti mæta með mjög stuttri vinnuviku eða mjög stuttri starfsævi. Vegna mikilla afkasta vélanna, mætti nota hagnaðinn til að borga fólki fyrir að gera ekki handtak. 

Að gera ekki neitt. Ekki virðast fútúristar hafa verið á einu máli um það hvað þegnarnir ættu að taka sér fyrir hendur þegar vinnuframlag þess yrði óþarft. Sumir voru jafnvel svartsýnir og töldu hættu á að stjórnlaus múgur myndi vaða uppi með skemmdarverkum og götuóeirðum svo jafnvel þyrfti að koma á einræðisvaldi til að halda múgnum í skefjum. Fleiri voru þó bjartsýnir og töldu að með aukinni menntun gerði fólk sér betur grein fyrir nauðsyn þess að hafa eitthvað gagnlegt fyrri stafni.

Og mun þetta rætast? Undir lok greinarinnar í Samvinnunni (sem var endursögð, eftir því sem kom fram) eru gerðir vissir fyrirvarar á allar þessar framtíðarspár, því talað er um að þær breytingar á lífsháttum sem tæknin muni stuðla að, muni ekki eiga sér stað nema þjóðirnar séu einhuga um að þær verði til bóta og og stuðli að betra mannlífi. Það sé því undir okkur komið hvað við viljum, tæknin verði allavega til staðar ef á þarf að halda til að skapa okkur hagsæld og hamingju.

- - - - - -

Já, þannig hugsuðu framsýnir menn árið 1966. Framfarir hafa vissulega orðið og heimurinn hefur auðvitað breyst. Í dag er helsta vandamálið kannski það hvað gæðunum er misskipt. Við höfum það nokkuð gott hér á landi, búum í svokölluðu upplýsingasamfélagi þar sem við getum fylgst með hörmungum heimsins hinumegin á hnettinum í beinni útsendingu ef svo ber undir og ekki síst, við getum líka bloggað um það!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband