Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Vefmyndir 17. júní

Í tilefni dagsins brá ég mér í smá ferð um landið og tók nokkrar myndir. Ekki þurfti ég þó að hafa mikið fyrir ferðalaginu en allar myndirnar eru skjáskot af vef Mílu. (http://live.mila.is). 

Reykjavík 17. júní 2012

Austurvöllur á miðjum Þjóðhátíðardegi. Bjart veður en skýjað með köflum. Dálítill vindur sér til þess að fánaborgin breiðir hæfilega úr sér en hrífur einnig með sér eina og eina blöðru og feykir út á Faxaflóa. 

Þingvellir 17. júní 2012

Sólin reynir að brjótast fram úr skýjunum á Þingvöllum kl. 10.45. Fátt minnir reyndar á að það sé þjóðhátíðardagur á þessum helga stað og íslenski fáninn ekki enn kominn upp. Hvítur toppur Ármannsfells ber vitni um loftkulda og snjókomu til fjalla nóttina áður.

Hekla17júní2012

Sólbjört Hekla ber höfuðið hátt yfir Suðurlandsundirlendinu en sauðfé er á beit í forgrunni á iðagrænum völlunum. Hekla gaus síðast árið 2000 þannig að nú erum við komin tveimur árum framyfir 10 ára goshléin sem verið hafa við lýði frá 1970. Hvað skyldi Hekla vera með á prjónunum að þessu sinni?

Jöklsárlón 17. júní 2012

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í fallegu og björtu veðri. Þetta er nú ekki amalegt útsýni og kemur ekki á óvart að vefmyndavélin þarna hefur verið útnefnd sem ein þeirra 25 bestu í heiminum. Jakarnir á lóninu eru síbreytilegir frá degi til dags og ýmist flæðir inn og út úr lóninu vegna sjávarfalla. Það er ágætis bíó að fylgjast með því.

Akureyri 17. júní2012

Akureyri er ólík Reykjavík að því leyti að það er fallegra að horfa til staðarins en frá honum. Allavega þá er útsýnið yfir Eyjafjörðinn til Akureyrar með því allra fínasta sem gerist á hringveginum, ekki síst á góðviðrisdögum eins og þarna snemma dags á sjálfum Þjóðhátíðardeginum áður en hafgolan nær að gára fjörðinn.

- - -  


mbl.is Bjart yfir þjóðhátíðardegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglandi eyðimerkursteinar

Siglandi steinn

Þótt vísindin eigi að hafa svör við öllu þá eru alltaf einhver fyrirbæri sem virðast stríða gegn þekktum náttúrulögmálum. Eitt af því allra undarlegasta er að finna í Dauðadalnum í Kaliforníu þar sem stærðarinnar grjóthnullungar virðast geta færst til langar leiðir í rennisléttum dalbotni án nokkurrar hjálpar manna eða dýra. Enginn hefur orðið vitni að þessum flutningum en ummerkin leyna sér ekki því steinarnir skilja eftir greinilega slóða sem ýmist eru þráðbeinir eða sveigðir en einnig virðast steinarnir geta tekið krappar beygjur og jafnvel snúið til baka. Steinarnir eiga uppruna sinn í grýttum hlíðum í næsta nágrenni, en leirkennt yfirborð dalsins er uppþornað stöðuvatn.

Nú eru auðvitað ýmsar kenningar í gangi og þar er auðvitað vinsælt hjá sumum að benda á geimverur t.d. að einhverntíma hafi fljúgandi furðuhlutur hrapað þarna og að steinarnir beri leifar hans í sér sem þá tengist öðrum hugmyndum um að segulefni og segulsvið eigi þarna einhvern þátt. Svo gætu líka bara einhverjir prakkarar verið á ferð, en hvernig sem menn hugsa það þá hefur ekki tekist að finna út því hvernig menn geti fært steinana án þess að skilja eftir sig ummerki sjálfir. Þess má geta að stærstu steinarnir eru yfir 300 kg að þyngd.

Jarðbundnustu hugmyndir um færslu steinanna og líklega þær líklegustu segja að þarna komi til samspil bleytu og vinda. Einstaka sinnum rignir á svæðinu og þegar leirinn blotnar að vissu marki verður hann passlega sleipur til að koma steinunum á siglingu – en bara ef svo heppilega vill til að mikill og stöðugur vindur blási á sama tíma. Einnig hefur verið skoðað hvort ísing eigi hlut að máli sem er ekki útilokað en þarna getur myndast ísing á köldum vetrarnóttum og steinarnir þá rokið af stað eins og steinninn í krulluíþróttinni. Allt mun þetta þó væntanlega skýrast betur með tíð og tíma enda fátt sem mannvitið finnur ekki út úr að lokum.

Siglandi steinar

Myndir eru héðan og þaðan en stóra myndin er af flyckr: http://www.flickr.com/photos/joits/6711931315

Ýmsar upplýsingar um fyrirbærið er að finna á netinu undir leitarorðinu: Sailing stones


Heiðmerkureldar II

Í síðustu bloggfærslu gerði ég tilraun til að sýna á korti hvað gæti gerst ef 10 kílómetra löng gossprunga opnaðist suðaustur af Höfuðborgarsvæðinu. Sprungan náði frá Helgafell í norðaustur til svæðisins ofan við Elliðavatn. Úr þessu lét ég renna mikið hamfarahraun sem náði til sjávar í Elliðaárvogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Straumsvík.

En nú afsannast það sem stundum er sagt að þar sem hraun hafa runnið áður, þar geta hraun runnið aftur. Allavega á það við í þessu tilfelli því hér í nágrenni höfuðborgarinnar hafa landbreytingar orðið þannig að hraun þurfa sumstaðar að renna upp á móti til að fylgja eftir fyrra rennsli. Kortið sem ég teiknaði hér í síðustu færslu var því ekki rétt í þeim grundvallaratriðum, að nú á dögum er varla möguleiki á því að rennandi hraun rétt austan Heiðmerkur komist inn í Garðabæ og miðbæ Hafnarfjarðar. Málið snýst um misgengi og landsig sem myndar hina svokölluðu Hjalla sem ná frá Kaldársseli til Elliðavatns og hindra rennsli til þéttbýlissvæðanna í vestri. Landssigið er allt að 65 metrum þar sem það er mest og hefur aukist mjög eftir að Búrfellshraunið rann til núverandi byggða í Hafnarfirði og Garðabæ fyrir um 7.200 árum. Á þetta mikilvæga atriði var bent í athugasemd Marínós G. Njálssonar og svo sá ég að Ómar Ragnarsson nefndi það sama á annarri bloggsíðu. Eftir vettvangsferð að Kaldárseli og Búrfellsgjá sannfærðist ég svo betur um málið. Til að bæta fyrir þetta, hef ég endurgert kortið þannig að nú falla hraunstraumar til sjávar aðeins á tveimur stöðum: við Elliðaárvog og norður af Straumsvík

 Heiðmerkureldar II

Sem fyrr vil ég hafa alla fyrirvara á og tek fram að varla er líklegt að svona löng gossprunga opnist á þessu svæði. Gossprunga þessi myndi tilheyra Trölladyngjukerfinu og hafa sömu stefnu og aðrar gossprungur suðvestanlands. Svæðið við Krísuvík tengist einnig þessu kerfi en þar er hugsanlega einhver kvika á ferð sem gæti mögulega hlaupist út í sprungureinar á sama hátt og í öðrum sprungugosum. Þótt líklegra sé að mesta eldvirknin væri nær miðju eldstöðvarkerfisins í suðvestri geta talsverð hraun komið upp nálægt Helgafelli. Vegna fjarlægðar er hinsvegar ólíklegra að það gerðist í stórum stíl nær Elliðavatni og því má setja stórt spurningamerki við það hvort hraun úr þessu kerfi geti yfirfyllt Elliðavatn nægilega til að fá hraunrennsli yfir Árbæjarstíflu og niður í Elliðaárvog. Líklegra er svo að slíkt hraunrennsli komi úr næsta eldstöðvakerfi austanvið, nefnilega Brennisteins- og Bláfjallakerfinu eins og tilfellið var með Leitarhraunið sem rann niður í Elliðavog fyrir um 4.800 árum.

Sem fyrr Vallarhverfið, syðst í Hafnarfirði í vondum málum og samgöngur rofnar við Reykjanesbraut. Þarna er helsta áhættusvæðið varðandi hraunrennsli í byggð á höfuðborgarsvæðinu og spurning hvort ekki mætti huga þar að einhverjum varnargörðum ef grunnsemdir vakna um yfirvofandi eldvirkni. Í nágrenni Elliðavatns gæti nýja hverfið við Norðlingaholt staðið tæpt og Suðurlandsvegur einnig. Umferð yfir stóru brýrnar við Elliðaár er einnig ógnað en þó ekki endilega. Kannski verður bara ásókn í að koma sér fyrir á Höfðabakkabrú og fylgjast með hinni glæsilegu sjón þegar glóandi hraunelfan streymir þar undir í kvöldhúminu.


Heiðmerkureldar

Vegna umræðu um hugsanlegt sprungugos nálægt Höfuðborgarsvæðinu tók ég mig til og teiknaði kort sem sýnir hvað gæti hugsanlega gerst ef 10 km löng gossprunga opnaðist í næsta nágrenni við byggðina. Gossprunga þessi er í beinu framhaldi af gossprungum í Krísuvíkurkerfinu, með sömu stefnu og nær frá Helgafelli ofan Hafnarfjarðar og þaðan yfir Heiðmörk og endar rétt ofan við Elliðavatn. Líkurnar á akkúrat svona stóratburði eru ekki miklar enda er 10 km gossprunga ansi löng. Ef gos verður á annað borð í Krísuvíkurkerfinu er líklegra að það verði nær miðju eldstöðvakerfisins og næði ekki svona langt í norðaustur. Gos og hraunrennsli tengt Krísuvíkurkerfinu gæti því allt eins runnið að megninu til suður með sjó. Gossprungan gæti líka opnast í nokkrum aðskildum umbrotum svipað og gerðist í Kröflueldum og einnig gæti eldvirknin fljótlega safnast á einn stað á sprungunni eins og reyndar gerist gjarnan. En það sem ég hef teiknað hér upp er aðeins möguleiki. Kannski hinn versti og fjarlægasti.

Kortið er unnið af kortavefnum á ja.is. Hraunið teiknaði ég inn með því að fara eftir hæðarlínum eins og ég best gat séð út úr kortinu. Ég vil hafa alla fyrirvara á þessu og vona að ég sé ekki að skapa óþarfa hræðslu eða koma einhverjum í uppnám. Það má stækka kortið talsvert með nokkrum ásmellingum.

Heiðmerkureldar

Heiðmerkureldar gæti þetta gos kallast. Með þessari staðsetningu á gossprungu og eins og ég teikna hana eru ýmis borgarhverfi í hættu svo sem Vallarhverfið í Hafnarfirði og sjálft Álverið. Ein hrauntungan rennur inn í miðbæ Hafnarfjarðar og út í höfnina. Breiðari straumur liggur milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar og í sjó fram við Gálgahraun eftir viðkomu í IKEA. Nyrsti hraunstraumurinn (og kannski sá ólíklegasti) rennur í Elliðavatn og fyllir það, en síðan liggur leiðin niður Elliðaárdal og út í Elliðavoginn. Með þessum hamförum eru allar leiðir út úr borginni vestan Elliðaáa í hættu og nokkur hverfi einangrast. Það myndi þó varla gerast strax í upphafi þannig að fólk ætti að hafa ágætan tíma til að forða sér. Fjöldarýming Höfuðborgarsvæðiains ætti að vera óþörf en verra er þó auðvitað með ýmsar veitustofnanir svo sem vatn og rafmagn. Fólk þarf þó ekki að óttast öskufall í svona gosi því þetta er fyrst og fremst hraungos - og allnokkuð ólíklegt. 


Íslensk fjöll á Grænlandi

SermitsiaqJarðsaga Grænlands er ákaflega löng og slagar hátt í sögu jarðarinnar. Elsta bergið sem fundist hefur á Grænlandi er fornt sjávarberg nálægt Nuuk, um 3,8 milljarða ára gamalt en til samanburðar er Jörðin talin um 4,5 milljarða ára og heimurinn allur eitthvað nálægt 15 milljörðum. Grænland hefur þó yfirleitt ekki verið til sem slíkt fyrr en bara tiltölulega nýlega eftir að Atlantshafið opnaðist. Fram að því, eða á myndunartíma þess, gat það verið í tvennu lagi eða hluti af stærri meginlöndum á eilífu flakki um jörðina og oftar en ekki á Suðurhveli. Fjöllin eru líka misgömul, gjarnan massífir berghleifar t.d. úr gabbró þ.e. fyrrum sjávarset sem umbreyst hefur í djúpberg sem síðar átti eftir að þrýstast upp í fellingafjöll við árekstra meginlandsfleka. Þannig eiga Grænlensku fjöllin mun meira sameiginlegt með Norsku fjöllunum og raunar flestum öðrum fjallgörðum heldur en hinum nýtilkomnu Íslensku.

Basaltfjöll Grænland
En það eru líka til kunnuglegri fjöll á Grænlandi því beint norðvestur af vestfjörðum má finna dæmigerða basalt-hraunlagastafla eins og eru svo algengir hér á blágrýtissvæðum Íslands. Þessir Grænlensku basaltstaflar eru hinsvegar öllu hærri og hrikalegri en okkar enda hvíla þeir á traustum grunni meginlandsfleka ólíkt því sem gerist hér þar sem fjöllin hvíla á mun mýkri skorpu og síga því niður eins og steinn á svampdýmu. Þarna má líka finna hæstu fjallstinda Grænlands og ber þar hæst Gunnbjarnartind, um 3.700 metrar á hæð, eða Hvítserk eins og hann hefur stundum verið kallaður hér á landi. Sjá má Gunnbjarnartind einhverstaðar á myndinni hér að ofan.

Svona basaltfjöll eru samsett úr storkubergi sem verða til þegar hvert hraunlagið leggst yfir annað í milljónir ára. Reglulegir hraunlagastaflar eru rakin vísbending um langvarandi jöklaleysi á viðkomandi stað því hraun renna ekki yfir stór landssvæði undir jökli eins og kunnugt er. Eftir að ísaldajöklar tóku að herja á norðurhveli fyrir um 2-3 milljónum hafa svo jöklarnir verið duglegir við að tálga firði og dali í berglagastaflana og víða skilið eftir hvassa fjallstinda.

GrænlandsreiturÞessi Grænlensku basaltfjöll eru náskyld okkar eigin fjöllum enda eru þarna að finna yngstu bergmyndanir Grænlands. Sameiginleg uppspretta er líka heiti reiturinn, eða möttulstrókurinn, sem nú er staddur einhverstaðar undir Bárðarbungu. Möttulstrókur þessi mun eiga sér langa sögu ef hugmyndir um hann eru réttar því talið er að hann sé langt að kominn. Hafi eitt sinn verið undir Kanadíska heimskautasvæðinu en síðan siglt rólega í suðaustur, farið yfir Grænland fyrir 40-70 milljónum ára og sé nú einmitt staddur hér á landi þessi ármilljónin og tengist eldvirkni Atlantshafshryggjarins. Nákvæmara og réttara er reyndar að segja að möttulstrókurinn sé kyrr á sínum stað en allt fyrir ofan sé á hreyfingu. En allavega þá hefur strókurinn skilið eftir sig ummerki á sinni yfirferð í formi eldvirkni með tilheyrandi storkubergi og basalthraunlögum sem einmitt eru Grænlensku basaltfjöllin sem finna má á afmörkuðum svæðum sitthvoru megin jökuls. Kortið sýnir basaltsvæði tengd heita reitnum með svörtum og gráum lit en tölurnar segja til um ferðalag reitsins í milljónum ára.

Spurning er hvernig sambandi heita reitsins og Atlantshafshryggjarins sé háttað í raun. Ekki er ólíklegt að ferðalag heita reitsins austur yfir Grænland sé stór ástæða fyrir því að Atlantshafið opnaðist að lokum okkar megin við Grænland því framan af, eða á meðan heiti reiturinn var vestanmegin, átti gliðnunin sér stað þeim megin Grænlands. Þetta stökk í gliðnun Atlantshafsins er síðan ástæða þess að Grænland er sérstök eyja.

Samsvarandi basalt-hraunlagastafla af sama uppruna er einnig uppistaðan í Færeysku fjöllunum og einnig þeim Skosku að hluta. Þegar þau hraun runnu var heiti reiturinn að koma austur undan Grænlandi og Atlantshafið að opnast á milli Grænlands og Evrópu. Mikil flæðigos voru á svæðinu á þeim tíma og ekki ólíklegt að sama hraunlagið geti verið að finna í Færeyjum og á Grænlandi. Það hraunlag væri þá töluvert eldra en elstu hraunlög á Íslandi enda myndaðust þau ekki fyrr en eftir að opnun Atlantshafsins var komin vel á veg.

Kortið fengin af síðunni: Reykjanes Ridge Expedition en ég er þó búinn að gera skýrari gula punkta með tölum. Birtist hjá mér áður í bloggfærslunni: Af hverju er Ísland til?

Efri ljósmyndina tók ég sjálfur Nálægt Nuuk í Grænlandi en neðri ljósmyndin er fengin héðan: http://www.summitpost.org/users/bergauf/41964

Á flæðiskeri staddur

Hólmur

Könnun heimsins heldur áfram og að þessu sinni er ég staddur lengst úti á skeri vestur af Örfirisey. Ég er þó ekki illa staddur því skerið tengist landi á háfjöru og vitanlega var ég búinn að kynna mér sjávarföll í Almanaki Þjóðvinafélagsins. Mér var því öllu óhætt þegar myndin var tekin, sunnudaginn 6. maí klukkan hálf eitt í blíðskaparveðri á stórstraumsfjöru.

Hvað þetta heitir nákvæmlega skal ég ekki segja en talið er líklegt að þetta sé Hólmurinn sjálfur þar sem Dönsku kaupmennirnir héldu sig forðum áður en þeir fluttu sig til Örfiriseyjar vegna aukins ágangs sjávar. Síðan þá hefur land sigið enn meir þannig að nú fer allt á kaf í flóði, en þó ekki alveg því enn eru þarna myndarlegar grágrýtisklappir og skeljasandur sem þarinn fær ekki þrifist á. Grandinn sem tengir Hólmann við land, var mun lengri áður en landfyllingaræðið greip um sig. Örfirisey sjálf var tengd landi með svipuðum granda en þvert á hann kom Hólmagrandinn eins og sést á ljósmyndinni sem Sigfús Eymundsson tók frá Skólavörðuholti árið 1877.

Gamla Reykjavík

Á suðvesturhorni landsins er stöðugt landsig í gangi vegna nálægðar við eldvirka svæðið á Reykjanesskaga. Eitthvað hefur land því sigið á þeim 135 árum sem liðin eru frá því er þessi mynd var tekin og reyndar man ég ekki eftir að séð hólmana standa svona vel upp úr sjónum eins og þarna sést og liggur við að göngufært sé út í Akurey. Myndin hefur þó væntanlega verið tekin á stórstraumasfjöru sem kannski átti sinn þátt í að Sigfús ákvað að leggja leið sína þennan dag upp að Skólavörðu með ljósmyndagræjur sínar. Ekki ólíkt því sem ég gerði er ég hélt út á Hólmann.

- - - - -

Í framhaldi af af þessu má minna á bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir þremur árum og fjallaði um þann möguleika að Reykjarvík, eins og hún hét upphaflega, hafi verið þarna í víkinni á milli Örfiriseyjar og Hólmanna. Forðum daga var nefnilega hverasvæði á litlu nesi við Örfirisey er nefndist Reykjarnes en það er nú sokkið í sæ.

Sjá: Hvar var hún þessi Reykjarvík?


1. maí í fyrra og veðurhorfur sumarsins

Til upprifjunar má minna á að á þessum degi í fyrra var alhvít jörð í Reykjavík, samanber myndina sem tekin var í Öskjuhlíð þann 1. maí 2011.

1. maí 2011
Það var mikið kvartað yfir lélegri vorkomu á síðasta ári enda veðrið gjörólíkt veðrinu nú ár. Hitinn í apríl í fyrra var að vísu nálægt opinberu meðaltali en sunnanáttirnar voru ansi ágengar og úrkoman með allra mesta móti og af öllum gerðum. Þann 30. apríl tók að snjóa meira en góðu hófi gegndi sem skilaði sér í óvenjumikilli snjódýpt að morgni 1. maí. Snjórinn varð þó ekki lífseigur því mikil hlýindi gerði dagana á eftir. Þá héldu margir að sumarið væri komið sem reyndist því miður ekki alveg rétt. Snjódýptin þennan 1. maí-morgun mældist 16 cm við Veðurstofuna sem er aðeins 1 cm frá snjódýptarmeti mánaðarins í Reykjavík sem var sett að morgni 1. maí 1987 við mjög svipaðar aðstæður og í fyrra.
Þetta má notla sjá betur í myndaseríu minni 365-Reykjavík þar sem eru samskonar myndir alla daga ársins: http://www.365reykjavik.is/

- - - -
Svo er það sumarið. Verður þetta enn eitt þurrviðris-sumarið hér í Reykjavík eða er loksins komið að rigningasumri? Sjáum nú til. Fyrirbæri er til sem kallast Weather Service International sem gefur sig meðal annars út fyrir að spá fyrir um veðurlag nokkra mánuði fram í tíman. Í nýjustu spá fyrir Evrópu er talað um talsvert öðruvísi veðurmynstur en verið hefur síðustu 4 ár. Það ætti að þýða að í stað rigningartíðar á Bretlandseyjum, Danmörku og víðar í norðurhluta Evrópu má nú búast við þurrviðri og hlýindum þar en blautara veðri í suðurhluta álfunnar.

Þótt ekki sé talað um Ísland, má hafa í huga að veðurlag á Norður- og Austurlandi fylgir gjarnan veðrinu á Bretlandseyjum og Norður-Evrópu því þegar hæð sest að nálægt Bretlandi þá taka sunnanáttirnar sig upp á Íslandi með vætutíð sunnan- og vestanlands en blíðskaparveðrum fyrir norðan og austan. Slíkt veðurlag hefur einmitt ekki einkennt sumrin hér á landi frá árinu 2007. Hvort eitthvað vit sé í svona spám er ég ekki viss um, en mig grunar að þetta sé ekki fyrsta þurrviðrisspáin fyrir Bretlandseyjar á allra síðustu árum, Bretar eru líka nýstignir upp úr einhverjum blautasta apríl sem um getur hjá þeim og því alveg mögulegt að spáin skolist eitthvað til við það.

Sjá nánar: Warmth Focused in Western and Northern Europe This Summer

WSI logo

 

 

 

 


Ísinn mölbrotnar á Norður-Íshafinu

Nú er farið að vora á norðurhveli og sólin skín allan sólarhringinn á norðurpólnum. Sjálfur er ég farinn að fylgjast með hvernig hafísinn bregst við vorkomunni og þá er ómetanlegt að hafa aðgang að gervitunglamyndum sem birtast daglega, eins og mósaík-myndinni af norðurslóðum sem finna má í skúmaskotum NASA-Earthdata vefsins.

Hafiskort rammiNúna í apríl hefur greinilega mikið gengið á þegar stórt íssvæði norður af Alaska tók að brotna upp eins og sjá má á myndum hér að neðan. Kortið sýnir hvaða svæði um ræðir. Sumarbráðnun er raunar varla farin í gang enda hörkufrost þarna ennþá og því eru sprungur sem opnast á þessum slóðum fljótar að frjósa á ný. Hafísinn þarf þó sitt pláss ef hann á að springa svona upp og það pláss skapast ekki síst vegna útstreymis hafíss frá Norður-Íshafinu. Hvort þetta uppbrot á ísnum sé óvenju mikið veit ég ekki, en óumdeilt er að hafísinn er þynnri nú en á árum áður og því að sama skapi brothættari og hreyfanlegri.
Heildarútbreiðsla hafíssins var annars nálægt meðallagi undir lok vetrar og þá vel yfir meðallagi Kyrrahafsmegin en vel undir því Atlantshafsmegin. Þetta segir þó lítið um lágmarkið í lok sumars sem veltur mikið á hversu mikið bráðnar á því svæði sem sést hér á myndunum. Ég mun standa vaktina að venju.

Hafis 7.apríl 2012

Hafis 13. apríl 2012

Hafis 14. apríl 2012

Myndirnar setti ég saman af gervitunglamyndum sem ég nálgaðist héðan:
http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic


Haförn í Esju

Haförn

Í gönguferð á Esjuna sumardaginn fyrsta kom ég auga á þennan tignarlega haförn og ekki annað að sjá en hann hafi klófest fullorðinn fugl þarna í björgunum. Myndin er tekin niður af bjargbrún við klettabeltið mikla fyrir ofan Esjuberg. Örninn birtist bara allt í einu á harðaflugi töluvert fyrir neðan mig í stóru gili sem ég var einmitt að ljósmynda og náði ég því að fanga hann á mynd með bráð sína.

Esjuberg

Klettabeltið og gilin á þessum slóðum eru alveg feiknarlega tignarleg. Þessi mynd er tekin í rúmlega 700 metra hæð og sést í Kjalarnes og í fjarska þarna efst til vinstri er Reykjavík. Eins gott er að vera ekki mikið að þvælast niður þessi gil, en á sama tíma var útlendingur og koma sér í sjálfheldu austar í Esjunni.

Kerhólakambur

Ferðinni var annars heitið á þennan tind sem er sjálfur Kerhólambur í Esju, 852 metrar á hæð. Sjónarhornið er úr norðvestri og eins og sjá má er mikill snjór þarna að norðanverðu. Sé einhver ekki með það alveg hreinu hvaða hluta Esjunnar ég er að tala um, þá hjálpar þessi mynd hér að neðan væntanlega eitthvað. Gönguleiðin er merkt inn með rauðu.

Esja Kerhólakambur

 

 


Örfá orð um Titanicslysið

Þessa bloggfærslu skrifaði ég fyrir þremur árum en ég endurbirti hana með smábreytingum nú þegar nákvæmlega 100 ár eru liðin frá því að Titanic sigldi á borgarísjakann illræmda. Það er gjarnan vitnað í þennan dramatíska atburð við ýmis tækifæri enda slysið fyrir löngu orðið að einskonar tákni sem harmleikur allra tíma – harmleik sem hefði mátt koma í veg fyrir með örlítið meiri varkárni og fyrirhyggju. Þarna á líka vel við eins og oft er sagt að stórslys verða ekki nema eftir röð mistaka. Þessi atriði ásamt öðrum staðreyndum eru tekin hér saman þótt ég nefni ekki öll smáatriði, sumt af þessu eru umdeild atriði og ekki alltaf víst hvar ábyrgðin liggur. Auk þess hafa ýmsar langlífar missagnir hafa verið í gangi. Sjá t.d. síðuna: (Titanics myths).

Systurskip Titanic var númer tvö í röð þriggja systurskipa sem White Star Line skipafélagið lét smíða. Hið fyrsta, Olympic, hóf farþegasiglingar tveimur árum fyrr en það var eitthvað örlítið minna en Titanic og átti farsælan feril. Þriðja skipið Britannic var sjósett árið 1914 og var aðallega nýtt sem sjúkraskip í stríðinu en það sökk á Miðjarðarhafinu árið 1916 eftir að hafa siglt á tundurdufl. Skipin voru stærri og búin öflugri vélum en gerðist á þeim tíma og gátu því flutt fleiri farþega á skemmri tíma en keppinautarnir gátu boðið upp á.

Oft hefur verið sagt að Titanic hafi átt að vera ósökkvandi en slíkar yfirlýsingar komu reyndar aldrei frá skipafélaginu sjálfu, hins vegar átti það að illsökkvanlegt enda útbúið sínum frægu skilrúmum sem áttu að koma í veg fyrir að sjór gæti flætt um allt skipið ef gat kæmi að því. Skipið gat haldið sjó þótt tvö samhliða hólf fylltust nema fremst þar sem fjögur hólf máttu fyllast.

Titanic átti ekki að setja hraðamet eins og oft er haldið fram enda þótti ekki ráðlegt að keyra vélarnar á fullu afli í þessari jómfrúarferð auk þess sem ákveðið var að sigla dálítið lengri leið sunnar en venjulega til að forðast hafís. Til stóð hins vegar að prufukeyra vélarnar á fullu afli undir lok siglingarinnar en til þess kom aldrei. Metnaðurinn og markmiðið var hinsvegar fyrst og fremst að halda áætlun í þessari fyrstu ferð.

„Dularfulla skipið“ Californian
Fjórum dögum eftir að Titanic lét úr höfn frá Sauthampton á Englandi var skipið komið langleiðina yfir hafið og að varasamasta hluta leiðarinnar því óvenju mikið var af hafís og borgarísjökum suður af Nýfundnalandi enda hafði veturinn verið kaldur á þessum slóðum. Tilkynningar um ísjaka fóru að berast frá nágrannaskipum, en það skip sem var nálægast Titanic var flutningaskipið Californian, það hafði stöðvað ferð sína og sendi loftskeytamanni Titanics þá tilkynningu að þeir væru umkringdir hafís. Eftir að fleiri slíkar tilkynningar fóru að berast svaraði loftskeytamaðurinn að lokum með þessum orðum: „Shut up, shut up. I am busy. I am working Cape Race“ sem þýddi að vakthafandi loftskeytamaður á Titanic kærði sig ekki um slíkar truflanir enda var hann upptekinn við að senda almenn skeyti frá ferþegum til Cape Race á Nýfundnalandi. Þetta afgerandi svar varð hinsvegar til þess að slökt var á fjarskiptatækjum um borð í Californian og loftskeytamaðurinn þar lagðist til svefns. Frekari samskipti urðu ekki milli skipana sem þó eru talin hafa verið í sjónmáli hvort við annað nóttina örlagaríku. Californian hefur stundum verið nefnt dularfulla skipið en kom t.d. hvergi fram í síðustu stórmyndinni sem gerð var um Titanicslysið.

Siglt áfram þrátt fyrir viðvarnanir
Þrátt fyrir hafíssviðvaranir hélt Titanic siglingu sinni áfram. Því er haldið fram að Bruce Ismay framkvæmdastjóri skipafélagsins sem var um borð hafi gefið skipstjóranum Edward J. Smith þá fyrirskipun, en tvennum sögum fer að því. Ismay þessi hefur annars verið afgreiddur með réttu eða röngu skúrkurinn um borð sem hugsaði mest um að bjarga eigin skinni þegar á reyndi, ólíkt Smith skipstjóra sem stóð sína vakt allt til enda, en skipstjórinn er annars annars sá maður sem ber ábyrgð á sínu skipi og þar með sjóferðinni sjálfri.

Um kl 23:40 þann 14. apríl sáu vaktmennirnir tveir uppí varðturni skipsins stóran borgarísjaka óþægilega nálægt framundan. Því miður höfðu þeir ekki sjónauka meðferðis því hann hafði óvart gleymst í Sauthampton. Smith skipsstjóri var ekki lengur á vakt en sjötti stýrimaður skipsins Murdoch brást við með þvi að gefa fyrirskipun um að stöðva skrúfur skipsins, setja á fulla ferð afturábak og stýra skildi skipinu til vinstri eins og mögulegt var (orðað sjálfsagt öðruvísi á sjómannamáli). Í fyrstu leit út fyrir að þetta hafi verið vel sloppið en því miður varð útkoman versta mögulega gerð af árekstri sem hugsast gat við þessar aðstæður. 

Rétt viðbrögð við yfirvofandi árekstri?
Það er auðvitað enginn hægðarleikur að stöðva eða taka krappar beygjur þegar risaskip eins og Titanic er annarsvegar. Einhverntíma heyrði ég í útvarpinu vangaveltur um hvort rétt hefði verið að setja skrúfur skipsins í bakkgír á sama tíma og taka þurfti krappa beygju. Skrúfa skipsins er einmitt staðsett þannig að hún vinni með stýrinu og það að snúa skrúfunni afturábak hefur því hugsanlega unnið gegn virkni stýrisins. Einnig má líka segja eftirá, úr því að svona fór, að best hefði hreinlega verið að sigla skipinu beint á ísjakann en þannig hefði stefnið auðvitað stórlega laskast og áreksturinn orðið harður en vegna skilrúmanna hefði sjórinn ekki flætt inn í fleiri en fjögur hólf og skipið því haldist á floti. Tíminn sem var til taks var auðvitað allt of lítill til að taka yfirvegaðar ákvarðanir, en ekki treysti ég mér til að dæma um hvort ákvörðun stýrimanns hafi verið samkvæmt handbókinni eða tekin í einhverskonar panikástandi.

Áreksturinn
Lengi var talið að ein stór 95 metra rifa hefði myndast framarlega á hægri síðu skipsins sem sjórinn hefði flætt inn um. Rannsóknir á flaki skipsins hafa hinsvegar leitt í ljós að frekar var um að ræða margar minni sprungur og smágöt hér og þar sem varð þess valdandi að sjór flæddi inn um 5 fremstu hólf skipsins. Þessi göt opnuðust þegar samskeytin milli stálplatnanna hrukku í sundur hvert af öðru en ekki vegna þess að gat hafi komið á plöturnar sjálfar enda skipið smíðað úr úrvalsstáli þess tíma. Hinsvegar er ljóst að sami styrkur hefur ekki verið í festingunum sem hélt þeim saman

Titanic sekkurSkipið sekkur
Eftirleikurinn þegar skipið var að sökkva er flestum kunnur en slæm nýting á þeim takmarkaða fjölda björgunarbáta sem voru í boði, var þó kannski alvarlegastur. Björgunarbátar skipsins voru 20 talsins og gátu samanlagt borið 1,178 manns en sjálfsagt hafði mönnum ekki dottið í hug að til þeirra þyrfti að grípa á svona illsökkvanlegu skipi. Sjósetning bátanna gekk hægt fyrir sig í fyrstu en í fyrsta bátnum sem var sjósettur voru aðeins 12 manneskjur, aðallega konur og börn af fyrsta farrými. Lægri klassa farþegar voru hins vegar læstir í neðri hluta skipsins framanaf og þar voru þeir auðvitað mun meðvitaðri um að skipið væri að sökkva.

S.O.S.
Neiðarsendingar frá Titanic fóru að berast til nærliggjandi skipa fljótlega upp úr miðnætti en því miður var ekkert þeirra skipa sem námu sendingarnar svo nærri að vænta mætti björgunar í tæka tíð. RMS Carpathia var þeirra næst en átti þó fjögurra tíma siglingu að Titanic. Því miður voru skipverjar á nágrannaskipinu Californian glórulausir um að nokkur hætta væri á ferðum þótt þeir hafi séð neyðarflugeldana frá Titanic. Skýringin gæti verið sú að flugeldunum var ekki skotið á loft á þann hátt sem reglur segja til um þegar um neyðartilfelli er að ræða, en samkvæmt þeim átti að skjóta flugeldum upp með einnar mínútu millibili en ekki 6-7 eins og gert var í þessu tilfelli. Californian var aðeins í 16 kílómetra fjarlægð frá Titanic og hefði getað verið komið á staðinn á klukkutíma. Jafnvel hefur komið fram að stjórnendur skipsins hafi ekki vitað að skipið sem þeir sáu í fjarska hafi verið sjálft Titanic enda tæknin ennþá frumstæð á þessum tíma.

Björgunin
Farþegaskipið Carpathia kom loks á slysstað um klukkan fjögur um nóttina, einum og hálfum tíma efir að Titanic hvarf í hafið. Tölur eru dálítið á reiki um hversu margir fórust en alls voru það 705 manneskjur sem var bjargað og náðu þar með að komast á leiðarenda til New York. Talið er að 2.223 manneskjur hafi verið um borð þegar það lagði úr höfn sem þýðir að 1.518 hafi ýmist horfið í hafið eða króknað úr kulda í ísköldum sjónum.

Titanicslysið vakti að vonum heimsathygli og allskonar áleitnum spurningum var varpað fram til að fá skilning á því hvernig þetta gæti gerst. Ýmsar reglur voru hertar í kjölfarið til að auka öryggi eins og að fjöldi björgunarbáta ætti alltaf að vera í samræmi við fjölda fólks um borð og loftskeyti þurftu að vera vöktuð allan sólarhringinn. Ýmislegt mætti segja hér í lokin um það hvernig ófyrirséðar hættur koma upp í síbreytilegum heimi framfara. Ég læt mér þó nægja að minna fólk á að fara varlega í umferðinni.

- - - - - 

Nokkrar heimildir:
http://www.webtitanic.net/frameimage.html
http://www.titanichistoricalsociety.org/articles/titanicmyths.asp

Hér er nokkuð ýtarleg bloggfærsla á íslensku:
http://www.hugi.is/saga/articles.php?page=view&contentId=4050523


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband