Færsluflokkur: Bækur

Vitringarnir þrír í sögu Marco Polos

Vitringarnir þrír

Fræg er sagan í Mattheusarguðspjalli um vitringana þrjá sem komu frá Austurlöndum til Betlehem til að veita Jesúbarninu lotningu og færi því gjafir. Lítið annað fáum við að vita um þá, svo sem hvaðan þeir komu nákvæmlega, hverjir þeir voru og hvað á daga þeirra dreif í framhaldinu. Ýmsar sagnir eru þó til um þessa þremenninga og þar á meðal er frásögn í ferðabók Marco Polos er segir frá því er hann var á ferð í Persíu, þar sem núna er Íran, en þar hitti hann fólk sem kunni góð skil á vitringunum þremur og átrúnaði þeim tengdum og er meira að segja sagt frá því að líkamar þeirra séu vel varðveittir í grafhvelfingum. Nú veit maður ekki hversu mikið er til í þessu en það má taka fram að Marco Polo var þarna á ferð seint á 13. öld þegar hinir skelfilegu Mongólar höfðu lagt undir sig stóran hluta af Evrasíu en Marco Polo einmitt á leið austur á bóginn, ásamt föður sínum og frænda, til fundar við sjálfan Mongólaleiðtogann Kublai Khan.

Bókin um ferðir Marco Polos kom upphaflega út skömmu eftir heimkomu hans frá Austurlöndum og var reyndar skráð af samfanga Morco Polos er sá síðarnefndi sat tímabundið bak við lás og slá vegna þátttöku í sjóorrustu. Sú bók af ferðum Marco Polos sem ég hef undir höndum kom út árið 1940 í íslenskri þýðingu Haraldar Sigurðssonar, stytt og endursögð af Aage Krarup Nielsens, sem ég kann ekki deili á. Kaflinn í bókinni um vitringana þrjá kemur hér, eftir að ég hef stytt, endurraðað og endursagt að hluta. Skáletranir eru orðréttar:

Persía er stórt ríki, sem forðum var frægt og voldugt, en er nú herjað og eitt af Törtötum. Í Persíu er borgin Saba, en þaðan fóru vitringarnir þrír til þess að sýna Jesú Kristi lotningu. Þeir hvíla nú hlið við hlið í Saba í þremur stórum grafhvelfingum, en yfir hvelfingunum stendur ferhyrnt hús, og er því vandlega viðhaldið. Líkamar vitringanna hafa geymst órotnaðir með hári og skeggi. Einn vitringanna hét Caspar, annar Melchior og þriðji Baltasar.

Borgin sem þarna er nefnd Saba í bókinni heitir með réttu Saveh og mun vera nálægt Teheran. Mongólar eru þarna nefndir Tartarar. Sagt er frá því að íbúar Saba (Saveh) hafi haft litla þekkingu á þremenningunum sem þarna lágu. Þrjár dagleiðir frá Saba, kom Marco Polo hinsvegar að sveitaþorpi er nefnist Cala Ataperistan sem þýðir borg eldsdýrkendanna. Eins og nafnið ber með sér þá tilbáðu íbúarnir eldinn og kunnu sögu vitringanna þriggja öllu betur en íbúar Saba. Samkvæmt Marco Polo er frásögn íbúanna af vitringunum á þessa leið:

Í fyrndinni lögðu þrír konungar af stað í ferðalag frá landinu til þess að tilbiðja spámann, sem var í heiminn borinn. Þeir höfðu með sér þrjár tegundir fórnargjafa: gull, reykelsi og myrru, til þess að ganga úr skugga um, hvort spámaður þessi væri guð, jarðneskur konungur eða læknir. Konungarnir sögðu með sér: Veiti spámaðurinn gullinu viðtöku, þá er hann jarðneskur konungur, vilji hann reykelsi fremur, er hann guð, en taki hann myrruna, er hann læknir.

Samkvæmt frásögninni gengu vitringarnir, sem þarna eru nefndir konungar, fyrst fyrir Jesúbarnið einn í einu en þeim til furðu var alls ekki um neitt barn að ræða heldur virtist það vera jafnaldri hvers þeirra. Síðan segir: Konungunum kom ásamt um að ganga allir samtímis fyrir barnið og er þeir gerðu það, leit barnið út eins og náttúrulegast var en það var um það bil þrettán daga. Og konungarnir veittu barninu tilbeiðslu og báru fram gjafir sínar, gull, reykelsi og myrru. /Barnið tók við öllum gjöfunum/ og þegar konungarnir sáu það, sögðu þeir með sjálfum sér: Barnið er sannur guð, sannur konungur og sannur læknir. /Barnið/ rétti konungunum að launum litlar, lokaðar öskjur. Að því búnu héldu þeir heimleiðis til ríkja sinna. /Er þeir/ höfðu farið margar dagleiðir, fýsti þá að sjá gjöf barnsins. Þeir opnuðu öskjurnar og fundu þar lítinn stein /sem var/ tákn þess að sú trú sem nú var gróðursett í sál þeirra, skyldi dafna í sál þeirra og verða óbrotgjörn eins og steinn, því barnið vissi vel hvað konungunum var í huga.

En því miður þá misskildu konungarnir táknmál steinsins og köstuðu honum niður í næsta brunn. Í sama bili laust eldingu af himni niður í brunninn. Þegar konungarnir sá þetta jarteikn, urðu þeir forviða og hörmuðu sáran að hafa kastað steininum. Nú skildu þeir glöggt, að steinninn hafði mikilvæga, helga tjáningu. Konungarnir tóku nokkurn hluta logans og fóru með hann heim í lönd sín og komu honum fyrir í fagurri og skrautlegri kirkju. Síðan hefur eldur þessi brunnið stöðugt, og fólkið veitir honum tilbeiðslu eins og guði, og við eld þennan eru allar brennifórnir færðar. Slokkni eldurinn, er brugðið við og farið til annarra þorpa, þar sem sama trú ríkir, og eldurinn sóttur að nýju. Slíkar eru orsakir þess að fólk hér um slóðir tilbiður eldinn. Oft ber það við að sækja þurfi eldinn tíu dagleiðir. Þannig er saga sú, sem íbúarnir Cala Ataperistan sögðu herra Marco Polo. Þeir fullvissuðu hann um, að svona væri saga konunganna þriggja og einn þeirra hefði verið frá Saba, annar frá Ava og sá þriðji frá borg þeirri, sem enn í dag tilbiður eldinn eins og gert er um allar nærliggjandi slóðir.

Þannig hljóðar frásögnin um vitringanna frá Austurlöndum í bókinni um Marco Polo sem kom út hér á landi árið 1940. Ýmsar meiningar eru um hvaða menn þetta voru. Oftast tölum við um vitringa og þannig eru þeir nefndir í Biblíunni og í bókinni um Marco Polo, nema þar sem vitnað er í frásögn bæjarbúa Cala Ataperistan þar sem þeir eru nefndir konungar. Ef til vill voru þetta Zaraþústraprestar en Zaraþústratrúin er ein af elstu trúarbrögðum sögunnar og þar er eldurinn einmitt í hávegum hafður. Ferðalag vitringanna þriggja var mikil ferð en þó frekar stutt í samanburði við þær miklu vegalengdir sem Marco Polo átti eftir leggja undir fót en hann átti þarna langa ferð fyrir höndum til Mongólaleiðtogans Kublai Kahn sem þá sat í borginni Xanadu nálægt þar sem nú er Peking. Þaðan átti hann síðan eftir að ferðast um víða lendur Mongólaveldisins í þágu stórkahnsins áður en hann snéri til baka til Feneyja ásamt föður sínum og frænda árið 1269, eftir 24 ára ferðalag. Allt saman mikil saga og merkileg.

Frekari lesningu um vitringanna má finna hér: http://www.farsinet.com/wisemen/magi.html
Einnig héðan, þaðan sem myndin er fengin: https://en.wikipedia.org/wiki/Biblical_Magi


Gengið á Heklu með Albert Engström sumarið 1911

Til HekluÞá er komið að seinni hluta frásagnarinnar um ferðalag hins sænska Albert Engström og félaga um Ísland en þessi skrif eru byggð á bók hans Til Heklu sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1943, eins og getið var um í fyrri hlutanum sem ég birti fyrir viku. Ég skildi við þá síðast er þeir voru á leið að Gullfossi eftir dvöl að Geysi, þar áður á Þingvöllum og í Reykjavík. Sömu túristastaðir og í dag þótt hugtakið Gullni hringurinn hafi ekki verið fundið upp þá. Stefnan var tekin að Galtarlæk, þaðan sem þeir ætluðu að leggja á Heklutind. Þeir riðu fimm saman, Albert Engström, sænskur ferðafélagi hans Thorild Wulff, Englendingurinn Mr. Lawson sem hafði slegist í för með þeim og svo tveir íslenskir fylgdarmenn, útlendingunum til halds og trausts, þótt þeir væru ekkert sérlega heimavanir á þessum slóðum. Á þessum árum var hesturinn ennþá aðalsamgöngutækið og allar leiðir miðuðu við þann fararskjóta. Bitahagar komu í stað bensínsjoppa og farið var yfir óbrúuð fljót þar sem hestum var treyst til að vaða eða synda yfir. Sennilega hefur einn bíll verið til á öllu landinu árið 1911. Það var hinn svokallaði Grundarbíll, heilmikill þýskur trukkur sem fluttur var til landsins í einhveri bjartsýni, til flutninga norður í Eyjafjörð fjórum árum fyrr og var bíll númer tvö hér á landi, á eftir Thomsen bílnum. Þetta sumar gerði Grundarbíllin þó ekkert annað en að ryðga í túnfætinum við Grund í Eyjafirði. En það er útúrdúr.

Ferðin um sunnlenskar sveitir gekk ágætlega og virðast þeir hafa verið einstaklega heppnir með veður þessa síðsumardaga í ágúst. Líka þegar þeir voru á Norðurlandi fyrr í reisunni. Mesti farartálminn á leiðinni var Þjórsá sem var útbólgin eftir mikla jökulbráðnun í sumarhitunum. Þeir komu að kláfferju við bæinn Þjórsárholt en það apparat nýttist bara mannfólkinu. Koffort voru ferjuð yfir beljandann af ferjumanni með árabát. Hestunum leist hinsvegar ekkert á að þurfa að synda yfir og snéru ávallt til baka. Íslenska aðferðin við því vandamáli var að grýta hestana til hlýðni og út í strauminn en Svíunum blöskruðu mjög þær aðfarir og kynntu til sögunnar sænsku leiðina, sem var að binda hestana saman í halarófu á eftir árabátnum. Sú aðferð lukkaðist og fylgir sögunni að Íslendingarnir hafi "orðið hálf-hvumsa við". Þetta gæti verið enn ein sönnun þess hve Svíar hafa löngum verið öðrum þjóðum framar að flestu tilliti og lengra komnir á þróunarbrautinni. Sígilt umkvörtunarefni Engströms hér landi voru annars hin stuttu rúm sem veittu litla hvíld fyrir langa sænska fætur, auk þess sem honum þóttu dúnsængurnar hér á landi allt of hlýjar í sumarmollunni.

IngjaldurFerðalangarnir gistu að Galtarlæk en ábúandinn þar, Ingjaldur að nafni, hafði það aukastarf að fylgja göngumönnum upp á Heklutind þegar svo bar við. Ingjaldur þessi er með "mikið skegg og mikið af neftóbaki í því" eins og Engström segir sjálfur frá og teikning hans sýnir. Leist honum ekki heldur á "yglibrún" Ingjaldar en þeir Engström gátu þó sameinast í tóbaksnautn sinni í göngunni, ekki síst vegna sænska gæðatóbaksins sem auðvitað var öllu betra en nokkur íslenskur sveitamaður hafði áður kynnst.

En nú verð ég að fara að beina frásögninni að Heklu. Sumarið 1911 hafði Hekla ekki gosið í 66 ár og 36 ár voru í næsta gos ef við skiljum útundan tvö hraungos í nágrenni fjallsins. Allt frá því Eggert og Bjarni gengu á Heklu fyrstir manna árið 1750 lá leiðin ávallt upp eftir suðvestur-hryggnum og fóru okkar menn þá leið einnig. Sú leið varð hinsvegar illfær eftir gosið 1947 en samkvæmt Árbók Ferðafélagsins var minna um skipulagðar Heklugöngur í kjölfar þess. Það var svo ekki fyrr en eftir Skjólkvíagosið 1970 sem farið var að ganga á Heklu norðanmegin, þ.e. eftir norðausturhryggnum og það var einmitt sú leið sem ég fór á sínum tíma með Ferðafélaginu, sumarið 1990, grunlaus um að aðeins hálfu ári síðar átti Hekla eftir að gjósa.

HraungangaFerðin frá Galtarlæk að Heklu var farin á hestum og þurfti meðal annars að fara á vaði yfir Ytri-Rangá sem var allt annað en auðvelt, en Ingjaldur kom þeim slysalaust yfir. Þaðan lá leiðin í skógi vaxinn Hraunteig og framhjá Næfurholti og þaðan hækkaði landið smám saman. Samkvæmt venju þess tíma voru hestarnir skildir eftir í dálítilli lægð (í 960 metra hæð samkvæmt árbók FÍ). Þá tók við mikið brölt um úfin hraun og allskyns torfærur uns komið var að langri og brattri fönn sem lá upp fjallið og að rauðgulum gíg þar sem nú nefnist Axlargígur. Þaðan var farið yfir meiri fannir meðfram hryggnum uns ekki var hærra komist. Toppnum var náð og við blasti hálft Ísland í heiðríkjunni og hið stóra op helvítis. Að vísu fullt af snjó. Albert Engström lýsir upplifun sinni með hástemmdum hætti:

"Þetta er æfintýraland, og í sannleika, á Heklu hefir guð aðsetur sitt, enda þótt stundum hafi virst svo, sem kvein fordæmdra sálna heyrðust innan úr dýpstu fylgsnum hennar. Hér urðum við Wulff að taka upp þá fáu konjaksdropa, er við höfðum geymt til þessa, og skála fyrir fegurðinni í fullkomleika sínum. Aldrei hefur himinhvolfið verið svo fagurt yfir fögrum hluta jarðarinnar … [Hið góða skyggni] kvað vera mjög sjaldgæft. Þeir fá höfundar, sem nent hafa upp á efsta tindinn og ég hefi lesið frásagnir eftir, kvarta allir um þoku, storma og önnur eða svo eða svo mikil óþægindi."

Grasafræðingurinn Thorild Wolff, hinn sænski félagi Engströms, lét sér þó ekki nægja að dást að dýrðinni, heldur þaut skyndilega niður brúnina til að komast í snjóskafl og fylgdi Englendingurinn Mr. Lawson hið snarasta á eftir til að vera með. Á fönninni afklæddist Svíinn og velti sér allsberum í snjónum. Ingjaldur gamli með sitt neftóbak upp á augabrúnir hafði ýmsu kynnst í háttsemi útlendinga en hafði þetta að segja um athæfið: "Hvað er eiginlega við það sem mentun heitir, þegar doktor getur tekið upp á þessum fábjánaháttum?" Tóku þeir Ingjaldur og Engström síðan í nefið og kinkuðu kolli hvor til annars. Það kemur ekki skýrt fram í bókinni hvaða dag nákvæmlega þeir félagar stóðu upp á Heklutindi en það hefur sennilega verið upp úr miðjum ágúst. Þeir héldu til Reykjavíkur daginn eftir Heklugönguna og ferðuðust þá sunnar, eða þar sem Þjórsá er brúuð á sömu slóðum og í dag. Einnig fóru þeir yfir brúaða Ölfusá við Selfoss þar sem var gist. Daginn eftir voru þeir komnir í bæinn. Þann 25. ágúst, nokkrum dögum síðar héldu þeir svo með Botníu til Svíþjóðar.

Íslandsferð þeirra Engströms og Wulffs var svo sem engin tímamótaheimsókn en hin myndskreytta bók Engströms, Til Häclefjäll, sem kom út í Svíþjóð tveimur árum síðar, vakti athygli í heimalandi hans og sagt að hún hafi mótað sýn Svía á Ísland, lengi á eftir. Kvikmyndir Wolffs fóru einnig víða. Þar má nefna sérstaklega, lifandi myndir sem hann tók í Reykjavík af íslenskri glímu, stuttu áður en heim var haldið. Þær myndir áttu sinni þátt í að glíman varð sýningargrein á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi sumarið 1912. Smá klausa er meira að segja um það í Öldinni okkar. Öldin okkarÍ lokin má líka minnast á grein í Morgunblaðinu þann 2. júní 1995, bls 22, þar sem sagt er frá sýningu í Norræna húsinu með myndum, teikningum og ýmsu öðru sem tengist Íslandsferð þeirra Alberts Engström og Thorild Wolff. Reyndar var þriðji Svíinn upphaflega einnig með í för, Carl Danielson, sem þurfti að snúa aftur heim eftir að hafa dottið af hestbaki norður á Siglufirði. Íslandsferðin var þó hin besta í alla staði fyrir Albert Engström og það fegursta sem fyrir hann hefur komið eins og hann nefnir á lokasíðum bókarinnar og hann fagnar því að "reikistjarnan okkar skuli eiga svo fagran blett á yfirborði sínu". Vér Íslendingar nútímans vonum að svo sé enn og verði áfram.

- - - -

Heimildir auk sjálfrar bókarinnar:
Árbók Ferðafélags Íslands 1995
Bifreiðir á Íslandi 1904-1930 I.
Öldin okkar, 1901-1930.
Morgunblaðið 2. júní 1995.


Áleiðis Til Heklu með Albert Engström sumarið 1911

Erlendir túristar eru ekkert nútímafyrirbæri hér á landi enda hefur Ísland löngum þótt vera dularfullt og spennandi land í augum þeirra útlendinga sem á annað borð hafa vitað að það sé til. Svíinn Albert Engström var einn hinna ævintýragjörnu Íslandsvina en sumarið 1911 heimsótti hann landið ásamt félaga sínum, Thorild Wulff, jurtafræðingi og landkönnuði og var lokatakmark ferðarinnar að ganga á sjálfa Heklu sem frá fornu fari var helst þekkt í augum útlendinga fyrir að vera inngangur að sjálfu helvíti. Albert Engström var frá Lönneberga í Smálöndum og hefur því verið sveitungi nafna míns, sem við höfum kennt við Kattholt. Engström var annars sæmilega þekktur í Svíþjóð sem útgefandi grínblaðs og var sjálfur hinn ágætasti skopmyndateiknari og gamansagnahöfundur.

Til HekluAð leiðangri loknum tók hann saman ferðasöguna frá Íslandi og gaf út í vinsælli bók í sínu heimalandi og kallaði ritið: Til Häclefjäll, en titillinn var í aðra röndina létt tilvísun í að fara til helvítis. Bókin átti eftir að móta sýn Svía á Íslandi lengi á eftir og þó frekar á jákvæðan hátt heldur en hitt enda var Engström yfirleitt dolfallin yfir fegurð hinnar hrjúfu og skrítnu náttúru landsins. Árið 1943 kom bókin út í Íslenskri þýðingu Ársæls Árnasonar og hét auðvitað bara TIL HEKLU og prýddi forsíðan teiknaðri sjálfsmynd höfundar. Sjálfsagt hefur bókin gert það ágætt hér eins og í Svíþjóð, þó ég viti það ekki með vissu. Hitt veit ég að eintak af bókinni hefur lengi verið til í fjölskyldu minni enda er það merkt Hannesi Guðlaugssyni, fósturafa föður míns. Sjálfur lét ég þó ekki verða að því að kynna mér innihald hennar fyrr en núna fyrir stuttu og óhætt að segja að það voru góð kynni. Að vísu er bókin farin að láta á sjá og hangir bókstaflega saman á einum bláþræði.

Af ferð þeirra Engström og Wulff er annars að segja að þeir lögðu frá landi í Svíþjóð með millilandaskipinu Emmy 16. júlí 1911. Komu þeir fyrst hér að landi á Siglufirði og upplifðu þar ekta síldarstemningu, eða öllu heldur síldaræði eins og það kom þeim fyrir sjónir. Þaðan var siglt inn Eyjafjörðinn og kusu félagarnir að hoppa frá borði við Hjalteyri og fara þaðan á hestbaki til Akureyrar. Ferðuðust þeir svo til Mývatns og könnuðu meðal annars hverasvæðin við Námaskarð. Áfram var siglt vestur fyrir land með viðkomu á Ísafirði og Stykkishólmi. Loks var stigið á land í Reykjavík og hafinn undirbúningur að leiðangrinum mikla austur um sveitir og að Heklu. Sænski konsúllin var þeim innan handar og sá þeim fyrir hestum og tveimur leiðsögumönnum sem áttu að fylgja þeim um þetta erfiða land. Það kom sér þó vel að talsverðar samgöngubætur höfðu átt sér stað vegna konungskomunnar fjórum árum fyrr og á Þingvöllum var hægt að fá hótelgistingu í sjálfri Valhöll. Helst voru það breskir ferðalangar af fínna taginu sem mest bar á. Frá Þingvöllum var haldið að Laugarvatni og með Konungsveginum áfram að Geysi þar sem heimafólk var þegar farið að hafa það gott út úr túristabransanum. Þeir Engström og Wulff voru við öllu búnir og höfðu tekið með sér 50 kíló af sápu til að framkalla gos og tókst það með ágætum með hjálp kunnugra.

Við Laugarvatn og Geysi kynntust þeir ensku ferðafólki af fínna taginu sem einmitt var að koma úr Heklureisu. Gangan á Heklu hjá þeim ensku hafði að vísu mistekist og ástæðan sögð sú að konurnar í hópnum hefðu guggnað í miðjum hlíðum eldfjallsins og hreinlega ekki nennt þessu príli þegar til kom, karlmönnunum í hópnum til lítillar ánægju. Ágætlega fór þó á með öllum þessum ferðalöngum við Geysi. Thorild Wulff var vel búinn ljósmynda- og kvikmyndatólum og kemur fram í bókinni að hann hafi þarna fyrstur manna kvikmyndað Geysisgos. Ýmislegt fleira skemmtilegt var kvikmyndað eins og lýst er bókinni:

„ … um sólseturbil tók Wulff kvikmynd af öllum hópnum, okkur og Englendingunum, þeysandi eftir reiðgötunum fyrir neðan hverina, ég í broddi fylkingar og kvenfólkið hið næsta mér – auðvitað mál – með blaktandi blæjur, örar og yndislegar, og veslings mennirnir í humátt á eftir, sem urðu að hætta við að ganga á Heklu vegna þess að þeir höfðu bundist svo brothættu glingri.“

Þetta innskot í textanum "– auðvitað mál –" er væntanlega skírskotun í kunnuglegt vandamál sem enn í dag plagar margan ferðalanginn á Íslandi, nefnilega takmörkuð eða léleg salernisaðstaða. Gefum bókarhöfundi aftur orðið:

"Ég vorkenni kvenfólkinu sem þarna er. Milli gistihússins og Geysis er lítið, en mjög mikilvægt skýli – hvers vegna einmitt þarna á alfaraleið? Hurð var þar engin og dyrnar snéru út að hverunum. Þetta er skýrt dæmi um tómlæti Íslendinga og framtaksleysi, slóðaskapinn gagnvart útlendingum, sem þeir vilja fúslega að heimsæki sig, þó að þeir kæri sig kollótta um öll þægindi handa þeim. Hugsið ykkur t.d. hvað Þjóðverjum yrði úr gistihúsinu því arna!"

Mr LawsonÁfram var haldið og stefnan tekin á Gullfoss og þaðan á Hekluslóðir. Einn Englendinganna, Mr. Lawson, ákvað að slást í för með Svíunum enda kvenmannslaus í þessari reisu og ætlaði ekki að láta draum sinn um að standa á Heklutindi fara forgörðum. Svíarnir tóku þessum nýja ferðafélaga reyndar ekki mjög fagnandi í fyrstu en hann átti þó eftir að skreyta ferðalagið með ýmsum dyntum sínum. Mr. Lawson var ákaflega enskur í öllum háttum og sérstakur í augum Svíanna (sérstaklega þó skopmyndateiknarans Alberts Engström) en stóð þó nær nútímanum að því leyti að hann var með spánýja, handhæga Kodak-myndavél og átti það til að smella af í gríð og erg án þess að kunna undirstöðuatriði ljósmyndunar svo sem að stilla ljósop og fókus.

Það var ekki beinlínis greið og auðveld leið sem beið félaganna áleiðis að Heklu þessa sumardaga árið 1911 þótt veðrið hafi leikið við þá. Um framhald ferðarinnar og glímuna við Heklu mun ég fjalla um í seinni hluta þessarar frásagnar sem ég stefni á að birta um næstu helgi – hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.


Lýðveldisbörnin komin út á bók

Þær hafa verið nokkrar stórhátíðirnar sem haldnar hafa verið á Þingvöllum. Gjarnan er þá verið að minnast sögulegra atburða svo sem kristnitökunnar, stofnunar alþingis, stofnunar lýðveldisins og jafnvel landnámsins sjálfs. Þann 17. júní 1944 þegar þjóðin kom saman á Þingvöllum var hins vegar ekki verið að minnast eins eða neins heldur var þar um að ræða atburð sem markaði þáttaskil í sögu þjóðarinnar, nefnilega stofnun sjálfs lýðveldisins. Þetta var því sannkallaður gleðidagur hjá þjóðinni sem loksins stóð á eigin fótum og gat horft bjartsýn fram á við, eða að minnsta kosti vonað það besta í viðsjárverðum heimi. Auðvitað voru svo einhverjar mismunandi skoðanir á því hvernig staðið var að aðskilnaðinum við Dani sem bjuggu þarna enn við þýskt hernám og höfðu því lítið um okkar mál að segja.

Lýðveldisbörnin bókOg þjóðin mætti á Þingvöll, eða að minnsta kosti stór hluti hennar, ungir sem aldnir, á öllum þeim fararskjótum sem völ var á og átti þar blautan en ógleymanlegan dag í frægustu rigningu Íslandssögunnar. Margir hinna yngri, sem þarna voru, eru enn til frásagnar eins og lesa má í bókinni Lýðveldisbörnin sem nú er komin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Veðurfræðingurinn Þór Jakobsson er eitt þessara lýðveldisbarna og átti hann frumkvæðið að því að safna saman minningum alls 86 manna og kvenna frá hátíðinni með bókaútgáfu í huga. Til liðs við sig í verkið fékk hann sagnfræðinginn Örnu Björk Stefánsdóttur en mér sjálfum hlotnaðist sá heiður að sjá um útlit og uppsetningu bókarinnar og klára fyrir prent. Það hefur verið ánægjulegt að koma að þessu verki sem ég held að hafi bara tekist nokkuð vel.

Annars er fróðlegt að lesa lýsingar unga fólksins af lýðveldishátíðinni. Sumir eru stuttorðir og muna lítið annað en sjálfa bílferðina og rigninguna. Aðrir hafa frá mörgu að segja og bæta við hugleiðingum um tíðarandann og sjálfstæðishugsjónina fyrr og nú. Eitthvað er um misminni sem er ekki óeðlilegt eftir allan þennan tíma og minnast jafnvel einhverjir atriða eins og glímukeppni sem þó fór ekki fram vegna úrhellis og bleytu. Rigningin kom þó ekki í veg fyrir að lýðveldisstofnun var fagnað og því fylgdu mikil ræðuhöld, upplestur á ættjarðarljóðum að ógleymdum lúðrahljómum, öllum söngnum og árnaðaróskum frá erlendum sendifulltrúum. Mest um vert þótti heillaóskaskeytið sem kom frá sjálfum kónginum sem frá og með þessum degi var ekki lengur kóngurinn okkar. Einhverjir felldu regnvot tár og hugsuðu um blessaðan kónginn sem ekki ætlaði að gera veður úr þessu upphlaupi okkar. En það birti aftur til og brast á með góðviðri og þurrki daginn eftir þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman í miðbæ Reykjavíkur til að hlusta á fleiri ræður. Já, þetta hljóta að hafa verið skemmtilegir dagar.

Reykjavík 18. júní 1944

Hátíðarhöld í Reykjavík 18. júní 1944.
Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson og er hún ein fjölmargra ljósmynda í bókinni

Nánar um bókina hér: http://hib.is/vara/lydveldisbornin/


Lúpínuræða Fastagests

Ég hef áður vitnað í skáldsöguna Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson en það er góð bók að mínu mati, mjög sérstök en vissulega ekki við allra hæfi. Bókin er kraftmikill óður til Öræfasveitarinnar og náttúrunnar sem slíkrar en ekki síður fjallar bókin um samskipti mannsins við landið og náttúruöflin og er þar komið víða við. Ein höfuðpersóna bókarinnar nefnist Fastagestur og eru ófáar blaðsíður lagðar undir einræður hans enda skilst mér að hann sé einskonar samviska höfundar, eða sá sem talar máli höfundar bókarinnar. Fastagestur er yfirleitt ekkert að skafa utan af hlutunum og ekki heldur þegar kemur að blessaðri lúpínunni sem sífelldur styr stendur um. Ég ætla að leyfa mér að birta hér lúpínuræðu Fastagests í Öræfabókinni en þótt að hlutirnir séu hér málaðir sterkum litum þá get ég ekki annað en verið bara nokkuð sammála í aðalatriðum. Vonandi sjá sem flestir ljósið einnig.

„ … við skulum ekki tala um lúpínuna, Bernharður minn, sagði Fastagestur við gluggann, hún er plága, tapað stríð sem við háðum gegn sjálfum okkur, ég verð svo óendanlega sorgmæddur þegar ég sé lúpínu eða heyri á hana minnst, lúpínan er blá sorg, tákn fyrir sjálfshatur okkar, dapurlega sjálfsmynd, lúpínan er svo fögur planta og mögnuð, en misnotuð í eyðileggingarskyni eins og skógræktin gegn móanum og mýrinni og gervallri náttúrunni, það var Skógræktarstjóri ríkisins sem kom með lúpínuna í Öræfin fyrir 50 árum, við förum ekki í grafgötur um það, lúpínan hefur þegar eyðilagt margfalt stærri svæði en hörmungargosið 1362, en hún gerir það hljóðlega, lúpínan hegðar sér nákvæmlega eins og vírus, krabbamein, nákvæmlega eins og maðurinn, smeygir sér inn og eyðileggur allt innan frá og milljónfaldast; reynt var að fela grjótið þegar brúin var opnuð 1974, fela jökulöldurnar sem eru minnisvarðar um hvert jökullinn hefur teygt tungur sínar, fela sandinn, fela móana og fela melana, fela þessa minnisvarða um tímann og kraft náttúrunnar, skítugu börnin, öldurnar eru óþekkjanlegar og ófærar fyrir lúpínu, það er ekki lengur hægt að fá sér göngutúr um öldur og sker og skoða grjótið eins og maður gerði í gamla daga, sagði Fastagestur við gluggann, Tvískerjabræður hafa reynt ýmsar aðferðir til að uppræta þessa skæðu plöntu og endurheimta gömlu móana en án árangurs, fræin geymast að minnsta kosti í hálfa öld í jörðu eins og viðlegubúnaður í jökli, svo sprettur lúpínan upp óvænt hvar sem er og dreifir úr sér á ógnarhraða og kæfir og eyðileggur allt sem fyrir er, bæði gróður og auðn, eins og gusthlaup sýnt hægt … Allt sem heitir rækt … rækt er á móti náttúrunni, á móti lífinu, á móti Guði, hvort sem það er skógrækt eða sauðfjárrækt eða vaxtarrækt, ég er fyrst og fremst á móti allri rækt, sagði Fastagestur við gluggann á hótelinu í Freysnesi, ég er allur með Guði og náttúrunni, mönnum, dýrum, plöntum og grjóti og jökli og vindinum; ég er allur fyrir öræfin.“ (Öræfi, bls. 318-320)

 

Morsá

Lúpína á Skeiðarásandi komin yfir það litla vatn sem rennur þar sem Skeiðará breiddi úr sér áður. Eftir að Skeiðará hvarf á þessum slóðum er ekkert sem hindrar lengur landnám lúpínunnar vestur eftir gjörvöllum Skeiðarársandi. (Ljósmynd: EHV)

 


Um Öræfin og þegar höfundur landrekskenningarinnar kom til Íslands

Já ég las Öræfin eftir hann Ófeig og það sem meira er, ég komst léttilega í gegnum hana og hafði gaman af. Ekki nóg með það, að lestri loknum var ég á því að þetta væri einhver besta bók sem ég hafði lesið. Tíminn mun þó leiða í ljós hvort um stundarhrifningu hafi verið að ræða. Þetta er allavega hin merkasta bók sem og allt í kringum hana og gæti verið uppspretta að ýmsum bloggfærslum hjá mér. Eitt af því sem ég staldraði við og fannst merkilegt í Öræfabókinni er þar sem fjallað er um Alfred Wegener, veðurfræðing og höfund flekakenningarinnar, þar sem hann á að hafa verið staddur á Þingvöllum ásamt landmælingamanninum Kafteini Koch. Ef satt er hefur sú stund hefur verið örlagarík fyrir Wegener og vísindin, eða eins og segir orðrétt í bókinni á bls 88:

„Wegener uppgötvaði jarðflekana þegar hann stóð á Þingvöllum á snakki með Koch og horfði í Almannagjá, þeir voru að ræða kristnitökuna árið 1000 sem þarna fór fram, og aðskilnaðinn á milli heiðinna og kristinna manna, þá blöstu flekaskilin við Wegener og hugmyndin um flekakenninguna vaknaði í huga hans.“

Eins og gengur og gerist í skáldsögunum þá veit maður ekki alltaf hvað satt er og hvað er skáldað. Öræfabókin er orðmörg bók og full af útúrdúrum um ýmislegt sem tengist misvel sjálfri sögunni. En skildi það vera satt að gjárnar á Þingvöllum hafi gefið dr. Wegener hugmyndina að sjálfri flekakenningunni, eða er þetta bara saklaust skáldaleyfi?

Það er reyndar vitað að Dr. Wegener kom til Íslands árið 1912, ári eftir að hann kynnti landrekskenningu sína. Hann var þá hér staddur að undirbúa leiðangur yfir Grænlandsjökul ásamt áðurnefndum félaga sínum Koch og fleirum. Í Grænlandsleiðangrinum sem farinn var 1912-1913 notuðu þeir íslenska hesta og var það ferðalag mikil þrekraun fyrir alla. Fyrir Grænlandsleiðangurinn var farin æfingaferð á Vatnajökul og munu þeir Kogh og Wegener hafa farið þangað yfir hálendið norður frá Akureyri þar sem leiðangursskip þeirra beið. Kogh þessi er reyndar stórt nafn í landmælingasögu Öræfasveitar og skipar stóran sess í Öræfabókinni. Er eiginlega einn af miðpunktum sögunnar og örlagavaldur. Hann hafði verið skipaður af danska herforingjaráðinu 10 árum áður til að mæla upp og kanna Öræfin vegna kortagerðaverkefnisins sem þeir dönsku stóðu fyrir. Hann hafði þá einmitt notað hesta til jöklaferða og á þeim ferðum urðu til örnefni eins og Hermannaskarð og Tjaldskarð. Ferðir kafteins Koghs eru síðan fyrirmynd söguhetjunnar í Öræfabókinni sem hélt til Íslands og á jökulinn með hesta og koffort mikið sem innihélt allan búnað og bækur auk þess að vera hans íverustaður.

Alfred WegenerEn aftur að Wegener. Hann fór sem sagt í æfingaferð suður yfir Norðurhálendið og upp á Vatnajökul árið 1912. Það var ári eftir að hann setti fram landrekskenningu sína sem enginn tók mark á, enda vantaði í hana öll áþreifanleg sönnunargögn önnur en þau að strandlengjur landanna sitt hvoru megin við Atlantshafið pössuðu furðu vel saman á landakortum. Allir hugsanlegir rekhryggir voru faldir neðansjávar en þar fyrir utan þótti alveg óhugsandi að heilu meginlöndin gætu færst til sundur og saman. Þau gátu hinsvegar risið eða sokkið í sæ, eins og menn trúðu langt fram eftir 20. öld og kennt var í skólum fram undir 1980 samkvæmt minni eigin reynslu.

En þá að annarri bók sem er Hálendið eftir Guðmund Pál Ólafsson. Þar er einmitt sagt frá því á bls. 358 þegar Dr. Wegener og félagar fóru yfir hin eldbrunnu svæði Norðurhálendisins áleiðis að Vatnajökli. Þar hefði mátt halda að Wegener hefði einmitt átt að finna sönnunargögn sem styddu hans umdeildu flekakenningu. En svo fór ekki, því samviskusamur leiðsögumaður þeirra íslenskur, var einmitt svo gjörkunnugur landinu að hann gat vísað þeim leið án nokkurra farartálma í formi gliðnunarsprungna sem töfðu gátu för að jöklinum. Í bókin Hálendið segir:

„Í Ódáðahrauni var þessi snillingur staddur á slíkum rekhrygg en allt of góðir leiðsögumenn hafa eflaust valið bestu leiðina um hraunið. Hann sá aldrei sprungukerfi Ódáðahrauns og áttaði sig ekki á að hann var staddur á eina hryggjastykki Norður-Atlantshafs ofansjávar sem flekakenning hans byggðist á. Að öllu líkindum hefði saga jarðfræðinnar verið önnur ef Wegener hefði fetað hina fornu Biskupaleið eða lent í ógöngum Veggjastykkis. Þá hefði kenning hans líklega aldrei verið kaffærð í hartnær hálfa öld.“

Í Hálendisbók Guðmundar Páls er hinsvegar ekkert talað um upplifum Dr. Wegeners á Þingvöllum áður en hann setti fram flekakenningu sína árið 1911, hvað þá að hann hafi fengið hugmyndina að henni hér á landi eins og kemur fram í skáldsögu Ófeigs og ekkert yfirleitt um að hann hafi komið til Íslands fyrr en árið 1912. Maður veit þó ekki hvað er satt og rétt. Annað hvort var Ísland einmitt kveikjan að flekakenningunni eða þá að hann hafi í Íslandsferð sinni einmitt farið á mis við það sem vantaði til að styðja kenningar hans, sem voru langt á undan sinni samtíð. Báðar útgáfur sögunnar eru góðar en ég hallast þó frekar að því að í skáldsögu Ófeigs sé sannleikanum aðeins hnikað til í þágu skáldskaparins.


Bloggfærslur bókfærðar

Hvað skal gera við allt það sem maður hefur skrifað hér á blogginu? Kannski þarf ekki að gera neitt enda er gjarnan sagt að það sem einu sinni hefur verið sett á netið verði þar áfram um aldur og ævi. Ég efast um að margir prenti út það sem þeir skrifa, ég byrjaði á því eitt sinn en hætti því þó fljótlega því mér fannst það ekki gera sig almennilega. Hinsvegar hófst ég handa fyrir nokkrum mánuðum að setja upp allar mínar bloggfærslur í umbrotsforriti þannig að hægt væri að útbúa einskonar bloggrit fyrir hvert bloggár sem mætti fletta fram og til baka. Þessi uppsetningarvinna er frekar seinleg en þegar hér er komið við sögu er ég búinn að setja upp árin 2007 og 2008 og er að hefjast handa við árið 2009. Núna er ég svo búinn að fá prentuð tvö eintök af árinu 2007, frágengnum á 48 síður með stífari kápu þannig að útkoman er hin fínasta bloggbók. Hvað bækurnar verða margar að lokum kemur svo í ljós, það gæti allt eins verið að bloggbók ársins 2010 verði síðasta bindið.

Þetta fyrsta bloggár 2007, hófst reyndar ekki fyrr en í september og því er ritið ekki stærra, auk þess voru margar af mínum fyrstu bloggfærslum frekar stuttaralegar og sluppu oft í gegnum bloggheima án nokkurra athugasemda – sérstaklega framan af. Bloggbók ársins 2008 fer svo í prentun þegar ég læt verða að því. Það rit fer nokkuð yfir 200 síður, en með bloggfærslunum læt ég fylgja allar myndir og athugasemdir ásamt athugasemdum við athugasemdir. Þessi bókfærsla er fyrst og fremst ætluð mér sjálfum en ef svo ólíklega vill til að einhver myndi vilja eiga svona líka, þá má kannski bjarga því.

Hér má sjá hvernig þetta lítur út að utan sem innan. Sjálfum þykir mér hér sannast hin forna speki öldungsins að þótt veraldarvefurinn sé ágætur þá er bókin er alltaf best.

Bloggbók


Sölvi Helgason og vísindin

Undanfarna mánuði hef ég verið að lesa bók Davíð Stefánssonar, Sólon Íslandus sem segir af hinum undarlega Sölva Helgasyni. Bókin kom út árið 1940 og er með skemmtilegustu lesningum sem ég hef komist í og er ég því ekkert að flýta mér við lesturinn. Þetta er þó ekki bara hreinn skemmtilestur enda var lífshlaup Sölva Helgasonar enginn dans á rósum. Sölvi var af fátæku fólki kominn, missti föður sinn á barnsaldri en erfði þó frá honum óbilandi áhuga á grúski ýmiskonar við lítinn skilning sveitunganna.

Sölvi málverkSölvi þráði heitt að verða mikilsvirtur vísinda- og listamaður og taldi sjálfan sig bera af í gáfum og andagift. Hans ógæfa var hinsvegar sú hvað hann var erfiður í skapi og hraðlyginn og fékk því flesta á móti sér hvar sem hann kom sér fyrir og varð að lokum alræmdur um allt land. Þegar hann flakkaði um landið í sjálfskipaðri útlegð sinni naut hann sín best þegar hann gat villt á sér heimildir, enda þekktu fæstir þennan flökkumann í sjón. Ég ætla að leyfa mér að birta hér smákafla úr bókinni þar sem Sölvi hefur gert sig heimakominn á bæ einum á Möðrudalsöræfum og fer mikinn um eðli vísinda og meint afrek sín á sviði plöntu- og loftslagsfræða:

Bóndi mælti: Tók ég ekki rétt eftir því áðan, að þú hefðir verið við ýmsar athuganir á leiðinni?
Rétt er það sagði Sölvi með mestu ró. Vísindalegar rannsóknir. … Það er ekki mikið um æðri blómjurtir á sandinum, en vísindin leggja ekki síður rækt við lægri gróðurinn, jafnvel þann sem almenningur sér ekki með berum augum. Flestum sýnast öræfin gróðurlaus sandauðn, en við nákvæma rannsókn hef ég komist að öðru. Ég hef fundið þar örsmá strá og blóm, sem áður voru ókunn hér á landi og álitið var, að yxu hvergi nema suður á Afríkumelum.
O, hvern andskotann eru menn svo bættari? sagði bóndi.
Af því má leiða ýmsar tilgátur, af tilgátum sannanir, en af þeim skapast staðreyndirnar. Ég hef fært vísindaleg rök að því í erlendu fræðiriti, að hér á Íslandi var einu sinni jafn heitt og í Afríku. Þá uxu hér pálmar og rúsínutré.
Andskota ögnina, sagði bóndi og spýtti. Börnin störðu hugfanginn á gestinn.
Nú, vísindamaður verður auðvitað að rannsaka fleira en gróðurinn, þó að hann sé mikilsverður. Ég verð að athuga jarðveginn, sér í lagi jarðlögin; þar les ég sköpunarsögu jarðar og þroskasögu mannkynsins. Oft verð ég að klífa þrítuga hamra, stundum hef ég sigið niður í jökulsprungur og botnlausar gjár. Vísindamaðurinn verður að hætta lífi sínu í þarfir sannleikans og spekinnar.
En að hvaða gagni kemur svo þetta vísindapuð ykkar?
Fyrst þarf að rannsaka og mæla, svo að teikna og mála og reikna út. … Nú er það sannað, að hér var eitt sinn sama loftslag og í Afríku.
Hérna á fjöllunum?
Á öllu Íslandi. En þá er spurningin: hvers vegna er það ekki eins núna, eða að minnsta kosti hlýrra en það er? Fyrir þann sannleika má grafast fyrir með allskonar mælingum á ljósi og hita og ekki síst straummælingum, bæði hafstrauma, loftstrauma, ljósstrauma og ýmissa duldra flugstrauma, sem við lærðir menn nefnum flumina spiritualibus. Nú, þegar staðreyndin er fundin, þá er grundvöllurinn fundinn. Þá liggur næst fyrir að athuga: er ekki hægt að breyta loftslaginu, hita andrúmsloftið að nýju? Til þess þarf nákvæma rannsókn á höfuðskepnunum, sólkerfinu og vetrarbrautinni, en þar kemur reikningsgáfan að góðu haldi. Eitt dæmi getur tekið hálærðan reiknimeistara tvö til þrjú ár. … Þetta nefnum við vísindi. – Með næstu skipum á ég von á fullkomnum stjörnukíki frá París – og þá vona ég að mér takist að leysa gátuna.
Hita andrúmsloftið? sagði bóndinn háðslega.
Já og bræða jöklana –
Hættu nú hreint.

Veðurfræði í teiknimyndasögum

Á þessu ári er haldið upp á stórafmæli tveggja teiknimyndasöguhetja, hins áttræða unglings Tinna og hins fimmtuga Ástríks gallvaska. Það er því algerlega við hæfi að heiðra þá félaga og teiknimyndasögurnar sem maður ólst upp með, með þessum lauflétta pistli þar sem veðrið kemur að sjálfsögðu við sögu.

Ástríkur1

Það getur vissulega verið leiðinlegt að fá heimsóknir óskemmtilegra manna, ekki síst þegar menn eru  langþreyttir á sólarleysi og sífelldu landsynnings- slagviðri, eins og segir í upphafi bókarinnar Ástríkur skylmingakappi. Þegar myndin er teiknuð hefur suðaustan landsynningurinn þó greinilega gengið niður í bili og komið hið besta veður með sólskini, bólstraskýin benda þó til þess að loftið sé óstöðugt og kalt loft í háloftunum. Slíkt er ekkert óalgengt eftir landsynningsslagviðri, ekki síst þegar í kjölfarið fylgir suðvestan- útsynningur með skúraleiðingum.

Nokkrum blaðsíðum síðar erum við komin út í skóg og fylgjumst með þjóð- skáldinu Óðríki Algaula þar sem hann dásamar hinn tólf vindstiga innblástur sem þarna er að finna, algerlega grunlaus um hættuna sem að baki leynist. Gömlu vindstigin hafa nú vikið fyrir metrum á sekúndum þannig að í dag væri talað um innblástur upp á 33 metra á sekúndu, sem jafngildir fárviðri.

Ástríkur2Ástríkur3

Til að verjast söng skáldsins höfðu hermenn rómverska heimsveldisins komið sér upp eyrnatöppum úr fíflalaufum. Þó að aðgerðin hafi heppnast varð árásin ekki eins fjölmenn og til stóð. Tilgangur þessarar árásar var annars sá að fanga eitt eintak af hinum ósigrandi Gaulverjum sem Hnýsíus Glápíkus ætlaði að færa Júlíusi Sesari að gjöf. Bókin fjallaði svo í framhaldinu um frækilegan björgunar-leiðangur Ástríks og Steinríks til Rómar.

- - - - -

Þá eru það Ævintýri Tinna. Í bókinni Svarta gullið þurfti hann kljást við vafasama olíubraskara í miðausturlöndum. Hvassviðri og sandbylur í skrælþurri eyðimörkunni er ekkert grín og því fengu Tinni og Tobbi aldeilis að kynnast. Sem betur fer eru Skaftarnir aldrei langt undan en þeir voru einnig rammvilltir í eyðimörkinni. Að draga réttar ályktanir af hlutunum er ekki helsti styrkur þessara háleynilegu rannsóknarlögreglumanna.
Tinni5
Tinni2

Í sömu bók leiðir atburðarásin söguhetjurnar um borð í olíuskip. Enn sem fyrr kemur veðrið við sögu. „Kvess vegna kvessir?“ spyr skipverjinn. Það skal þó tekið fram að hann hafði fengið höfuðhögg, annars hefði hann kannski áttað sig á að vindur magnast upp vegna þrýstingsmunar og að loft streymir frá hærri þrýstingi í átt að lægri þrýstingi.

En þá að lokum að bókinni Sjö kraftmiklar kristals- kúlur sem gerist á heimaslóðum söguhetjanna. Á einum stað í bókinni fá þeir Tinni og Kolbeinn að kenna á óstöðugleika veðráttunnar þar sem þeir eru á ferðinni á opnum blæjubíl kafteinsins. Skin og skúrir er veðurlag sem fleiri þekkja en við íslendingar. Regnboginn er algengur fylgifiskur slíks veðurs en þá brotnar ljósið upp í vatnsdropunum og regnboginn verður sýnilegur í gagnstæðri átt við sól. Regnboginn rís hærra eftir því sem sólin er lægra á lofti.

Tinni3

- - - - - 

Í fréttinni sem hér fylgir er rædd við Úlfhildi Dagsdóttur um afmæli þessara teiknamyndasagna en þó aðallega um Ástríksbækurnar:


mbl.is Íslenskar myndasögur dýrmætar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bókina Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar

Bók GOHNúna rétt fyrir jólin kom út bók sem ástæða er til að minna á en hún heitir Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar og er eftir veðurfarsfræðinginn Halldór Björnsson sem starfar á Veðurstofu Íslands. Þrátt fyrir að þetta sé hin þarfasta bók um eldheitt málefni hefur hún ekki fengið mikla umfjöllun, enda hefur fólk um ýmislegt annað að hugsa þessa dagana. Hún fór þó ekkert fram hjá mér enda hef ég sjálfur blandað mér í loftslagsumræðuna stöku sinnum á þessum vettvangi og skrifað eins og sá sem þykist hafa eitthvað vit á málum.

Það sem er í bókinni
Bókin hefst á mjög ýtarlegum útskýringum á eðlisfræðinni að baki gróðurhúsaáhrifunum og varmabúskap jarðar. Saga kenningarinnar er rakin og svo eru flækjur sem gera spár um framtíðina óvissa útskýrðar, en þar er um ræða þætti sem ýmist hafa dempandi eða magnandi áhrif ef hlýnun á sér stað. Síðan er farið yfir loftslagsspá 21. aldar þar sem fjórða úttekt IPCC kemur mikið við sögu, afleiðingar hlýnunar eru metnar, Kyoto bókunin er rædd og síðast en ekki síst er umfjöllun um aðgerðir og 2°C markið, sem er talið hámark þeirrar hlýnunar sem má eiga sér stað ef ekki á að koma til hættulegrar röskunar.

Í svona efnismikilli bók er auðvitað margt sem maður var ekki með á hreinu áður. Ég hef til dæmis ekki áður lesið jafn góðar útskýringar á eðli gróðurhúsaáhrifa, sem eru í raun ekki beint gróðurhúsaáhrif heldur „áhrif-endurgeislunar-innrauðs-ljóss“ en án þeirra áhrifa væri hitastig jarðar um 30° lægra en það er nú. Það er líka athyglisvert hvað þetta eru í raun gömul fræði en einn sá fyrsti til að benda á hættuna af auknu útstreymi C02 var Svíinn Arrhenius sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1904. Samkvæmt hans mati átti að geta hlýnað á jörðinni um 5-6°C ef styrkur CO2 í lofti myndi tvöfaldast. Með aukinni vitneskju og endalausa útreikninga áætla menn í dag að afleiðingar tvöföldunar CO2 séu á bilinu 2,0–4,5°C. Óvissan er þó talin meiri á efri mörkunum.

Það sem er ekki í bókinni

Í ljósi umræðunnar þá er athyglisvert að í umræddri bók er eiginlega hvergi fjallað um sólvirkni. Að vísu er bent á það sem staðreynd að kólnað hafi í heiðhvolfinu á sama tíma og hlýnað hefur í veðrahvolfinu en það á einmitt að vera í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif, þ.e. hlýnunin hefur ekki komið utanfrá. Það hefði samt alveg mátt taka þátt sólarinnar fyrir, en til eru vísindamenn sem spá beinlínis minniháttar-ísöld á næstu áratugum vegna minni virkni sólar.
Einnig saknaði ég umfjöllunar um „áratuga-hitasveiflurnar“ í Kyrrahafinu (PDO) og Norður-Atlantshafinu (AMO) en sveiflur í þeim virðast ráða miklu um þróun hitafars og jafnvel ástand Norðurheimskautsíssins. Einnig er lítið fjallað um El Niño og La Niño áhrifin. Þó nokkuð er þó fjallað um „stóra færibandið“ og ýmislegt annað varðandi þátt sjávarins.

Hættuleg framtíð eða hvað?

Ef ekkert róttækt verður gert til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum er sagt að mikil hætta steðji að lífsskilyrðum þeirra milljarða manna sem byggja jörðina, bókin styður það sjónarmið og færir vissulega rök fyrir því. En þótt engin „dómsdagsspá“ hafi verið eins vel undirbyggð með vísindalegum rökum eru ekki allir sannfærðir. Kannski eru einhverjir náttúrulegir þættir vanmetnir í öllu dæminu sem gætu virkað á móti þeirri hlýnun sem spáð er. Ég held þó að kenningin um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa sé þess eðlis að hún þoli talsverð áföll, því jafnvel þótt ekkert hlýni á jörðinni næstu einn eða tvo áratugi þarf kenningin ekki að falla enda er um langtímahlýnun að ræða sem leggst ofan á aðrar hitasveflur af náttúreulegum orsökum. Hinsvegar gæti tímabundin stöðnun á hlýnun eða jafnvel kólnun, hæglega afvegaleitt umræðuna að ósekju og vakið upp ástæðulausan ótta um yfirvofandi ísöld.

- - - - 

Að lokum er hér splunkunýtt línurit frá NASA Goddard Institute for Space Studies (GISS) sem sýnir hitaþróun jarðar frá árinu 1880.

gisstemp_2008_graph


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband