Færsluflokkur: Byggingar
11.9.2016 | 16:24
Af meintum hundi á forsíðu DV eftir árásina 11. september
Í dag 11. september minnumst við einnar mestu hryðjuverkaárásar sögunnar sem sumir segja að hafi breytt heiminum. Hvort sem það er rétt eða ekki þá áttu atburðirnir sína eftirmála sem ég fer ekki nánar út í. Hins vegar ætla ég ég að rifja upp fimm ára gamla bloggfærslu frá því þegar tíu ár voru liðin frá árásunum á tvíburaturnana en þar birti ég mynd af forsíðu DV þann 12. september 2001, sem var undirlögð af stórri mynd af því þegar annar turninn hrynur.
Það sem vakti sérstaka athygli mína var að ofaná h-inu í fyrirsögninni Ógnarheimur mátti sjá eitthvað sem líktist íslenskum fjárhundi. Hvað átti þetta að fyrirstilla? Var þetta sprell af hálfu myndvinnsludeildar DV, tæknileg mistök eða einhver dulin skilaboð. Samsæri?
Eftir fimm ára rannsóknarvinnu (þó með löngum hléum) hef ég nú komist að sannleikanum, sem er sá að þetta var ekki hundur. Þessu komst ég að þegar ég fann sjálfa myndina ótruflaða af fyrirsögn og annarri forsíðugrafík. Þetta sem lítur út sem íslenskur fjárhundur virðist þá bara vera hver annar hluti af hrynjandi byggingunni, væntanlega þá af ystu grind hússins. Þannig er nú veruleikinn. Einföldustu skýringarnar er gjarnan þær réttu, ekkert sprell eða dularfullt samsæri hér á ferð. Sama gildir um atburðina í stærra samhengi. Þetta var mikil hryðjuverkaárás sem kom öllum Bandaríkjamönnum í algerlega opna skjöldu þótt sumir í samsærisspennufíkn vilji halda öðru fram.
Umrædda mynd ásamt fleirum má finna á þessari slóð:
http://www.businessinsider.my/911-2013-9/9/#aDdc8lYVqqFJFHce.97
Byggingar | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2016 | 00:45
Heimsins hæstu byggingar
Á bloggsíðu þessari er aðallega fjallað um himinn jörð og stundum sitthvað þar á milli. Hvað sem það annars þýðir þá er alveg við hæfi að taka fyrir það sem nær frá jörðu til himins eins og tilfellið er með hæstu og glæsilegustu húsin hér á jörðu. Á þessari öld hafa margir himinháir skýjakljúfar risið í Asíu og ekkert lát á því. Það er því liðin tíð að allra hæstu byggingar heims sé að finna í Bandaríkjunum, þótt þeir þarna fyrir vestan komist vissulega enn á blað. Á meðfylgjandi samanburðarmynd, sem ég hef útbúið, má sjá nokkra af mestu skýjakljúfum heims um þessar mundir og auðvitað fær Kópavogur að fylgja með. Aðeins er tekið mið af þeim byggingum sem eru fullkláraðar þegar er skrifað.
Svo við byrjum á því allra hæsta þá ber Burj Khalifa-turnin í Dubai enn höfuð og herðar yfir aðrar byggingar hér á jörðu. Byggingin var vígð í byrjun árs 2010 og var þá 300 metrum hærri en sú sem næst henni kom. Heildarhæð Burj Khalifa er 830 metrar en til viðmiðunar þá er Kerhólakambur Esjunnar litlu hærri, eða um 850 metrar og ber einmitt hæst á toppmynd bloggsíðunnar.
Næst hæsta hús heimsins í dag er að finna í Shanghai í Kína og er hann hæstur þriggja risahúsa sem standa þar saman í einskonar grúppu. Þessi spírallaga turn kallast upp á ensku Shanghai Tower og er eiginlega splunkunýr, vígður í nóvember 2015. Hæðin er 632 metrar sem næði þá svona upp undir klettabeltið á Þverfellshorni Esjunnar.
Í þriðja sæti er mikil risabygging í Mekka í Saudi-Arabíu sem kallast Abraj Al-Bait Towers og stendur rétt við heilögu moskuna sem allir pílagrímar múslimaheimsins heimsækja. Þetta er í raun húsaþyrping sambyggðra bygginga sem saman mynda stærsta hús í heimi. Hæsti hlutinn er klukkuturnin mikli, eða hótelturninn: Makkah Royal Clock Tower Hotel, 601 metri á hæð. Þetta er um margt sérstök bygging. Stíllinn er nýklassískur eins og tíðkaðist á Manhattan framan af síðustu öld og klukkan í turninun er sú stærsta í heimi. Reyndar á ég sérstaka bloggfærslu um þetta hús, sjá Risabyggingin í Mekka.
Hæsta hús í Vesturheimi er One World Trade Center (One WTC) eða Freedom Tower eins og hann var kallaður framan af. Þetta er hæsti turninn af þeim sem hafa verið að rísa á svæðinu sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Heildarhæð með spíru er 541 metri, eða 1776 fet sem kallast einmitt á við árið sem sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var undirrituð. Þakhæð byggingarinnar er lítið eitt hærri en þakhæð tvíburaturnanna en þó lægri en á Willis-turninum í Chicago sem áður var hæsta byggingin í Ameríku. One WTC byggingin nýja nýtur þó þess að spíran er talin hluti af arkitektúrnum og því miðast hæð byggingarinnar við spíruna. Af fullkláruðum byggingum er One WTC sú fjórða hæsta í heiminum í dag.
Í fimmta sæti er Taipei 101 sem er 101 hæða skýjaklúfur í Taíwan. Þegar hann var fullkláraður árið 2004 tók hann við af Petronas tvíburaturnunum í Kulala Lumbur sem hæsta bygging heims og hélt þeim titli þar til Burj Khalifa turninn reis í Dubai. Væntanlega hafa Kínverjar tvíeflst í sinni turnasmíð með tilkomu Tabei skýjaklúfsins í Taíwan sem var sá fyrsti í heiminum sem rauf 500 metra hæðarmúrinn.
Hin sögufræga Empire State byggingin í New York verður að fá að vera með enda var þetta hæsti skýjakljúfur heims frá árinu 1931 og allt þar til World Trade Center turnarnir risu árið 1972. Viðurkennd hæð er 381 metri sem í dag dugar aðeins í 24. sæti í dag. Heildarhæð með loftnetum og öllu er hinsvegar 443 metrar sem bætir stöðuna á heimslistanum nokkuð.
Framkvæmdagleði okkar Íslendinga á síðustu góðæristímum skilaði af sér allnokkrum háhýsum á okkar mælikvarða. Af þeim er 20 hæða háhýsið við Smáratorg hæst eða 78 metrar sem er um tveimur metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Á myndinni má sjá hvernig turninn við Smáratorg kemur út í samanburðinum. Þótt hann blasi víða við í Kópavoginum er óvíst að auðvelt væri að finna hann í lóðréttustu borgum heims.
Sambærilegt stórhýsayfirlit birti ég fyrir 6 árum en síðan þá hefur ýmislegt bæst við og mun gera áfram enda hefur enginn skortur verið á stórhug í ríkjum eins og Kína og í arabísku olíuríkidæmunum á Arabíuskaga. Ég nefndi það þá að stærstu skýjakljúfarnir hafa gjarnan komist í gagnið um það leyti sem fjármálakreppur skella á, sem á vissulega við í ýmsum tilfellum hér heima og erlendis. Í Kína eru nokkrir skýjakljúfar í byggingu sem eru í kringum 600 metrana en þeir virðast eitthvað vera farnir að guggna á þeim allra hæstu. Saudi-Arabar eru hins vegar byrjaðir á 1000 metra háum turni sem þeir áætla að klára um 2020. Hver veit nema að næsta háhýsayfirlit birtist einmitt hér á síðunni að þeim tíma liðnum.
- - -
Meðal heimilda er vefsíðan www.skyscraperpage.com sem óhætt er að mæla með.
Byggingar | Breytt 12.2.2016 kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2016 | 22:53
Punkturinn yfir Hafnartorgi
Já það fór um marga þegar kynnt voru þau stórfelldu byggingaráform sem fyrirhuguð eru á reitnum milli Geirsgötu og Tryggvagötu. Það var svo sem vitað að það ætti að byggja eitthvað þarna enda búið að grafa upp "fornan" hafnargarð á svæðinu. Fólk hafði hinsvegar ekki gert sér grein fyrir því að þarna ætti að stafla upp gler- og kubbahýsum af áður óþekktum þéttleika hér á landi.
Auðvitað voru borgaryfirvöld ekkert of mikið að flagga þessum byggingaráformum fyrirfram eða bera þau á torg, hvað þá undir almenning. Best var auðvitað að sýna þetta þegar allt væri klappað og klárt. Sigmundur og Andri Snær verða þá bara sætta sig við að þarna rísa engin hátimbruð skrauthýsi eða rómantísk hafnarstemming með seglskútum og mávagargi, því allt slíkt kallar á himinháar skaðabætur til byggingaraðila. Hvað sjálfan mig varðar þá finnst mér þessi byggingaráform svo sem ekki endilega alslæm. Það er full þörf á að byggja á reitnum til að fá tengingu við Hörpusvæðið auk þess sem þetta stækkar miðbæinn. Þetta er autt svæði sem má alveg byggjast upp í anda nútímans. En samt þarf að fara varlega enda má öllu ofgera. Á innfelldu myndinni sést hvernig nýja byggðin blasir við ofan af Arnahóli og sést þá hvernig stórt sex hæða glerhýsi rís upp í öllu sínu veldi en þetta er það sem sjálfur Ingólfur Arnarson mun hafa fyrir augunum framvegis. Þarf þetta að vera svona hátt og svona mikið? Vantar ekki eitthvað til að lífga upp á þessa glerhöll? Punktinn yfir i-ið?
Í framhaldi af fyrrnefndum pælingum tók ég smá sjónlistaræfingu og prófaði að lækka húsið um tvær hæðir og setti punkt yfir i-ið og er útkoman sú sem sjá má hér að neðan.
Með þessari lækkun á húsinu verður það mun manneskjulegra á að líta og engan veginn jafn yfirgnæfandi á þessum stað. Þetta er heldur ekki hvaða staður sem er. Hús sem blasir svona við af Arnahóli þarf að hafa einhvern vegsauka til að státa sig af og því hef ég sett dálítinn turn og kúlu á toppinn sem kallast á við aðra smáturna í miðbænum. Það má kalla þetta montprik eða montkúlu en staðsetningin væri auðvitað í beinu framhaldi af göngustígnum sem liggur niður af Arnahól. Slíkt væri meira að segja í anda Guðjóns Samúelsson sem skildi það að turnar og stoltar byggingar ættu að upphefjast við endann á strætum eða göngustígum. Þarna hefur Ingólfur Arnarson líka eitthvað að horfa á og miða sig við og hver veit nema akkúrat þarna hafi öndvegissúlur hans einmitt rekið á land. Þessi kúla gæti reyndar staðið fyrir sólina - hina norrænu sól sem sest þarna á vorin, jafnvel akkúrat bakvið kúluna vissa daga að vori og hausti.
En hvað sem verður, þá er auðvelt að fabúlera á meðan ekki er byrjað að byggja. Raunveruleikinn er þó væntanlega sá að engu skal breytt frá því sem ákveðið hefur verið. Það er að segja það sem borgaryfirvöld og byggingaraðilar hafa þegar ákveðið í sameiningu. Eða var það kannski ekki svoleiðis?
26.7.2015 | 00:21
Gengið um Tún og Holt
Nú ætla ég að bjóða upp á nokkurs konar myndaspjall, sem reyndar er ein tegund af mínum bloggfærslum, þar sem gengið er um götur borgarinnar í máli og myndum. Sífellt er verið að byggja og þétta, ekki síst á gömlu athafnasvæðunum sem lágu upp frá norðurströndinni og upp að Skipholtinu. Um það svæði liggur göngutúrinn að þessu sinni.
Hefjum ferðina við Sæbraut þar sem stórhýsi Höfðatorgsins gnæfa yfir lágreistari húsum gamla tímans. Væntanlega verður þess ekki langt að bíða uns gömlu Vegagerðarhúsin og smurstöðin víki fyrir einhverju fíneríinu.
- - - -
Hér liggur leiðin upp Stórholtið þar sem ný götumynd blasir við. Til hægri er gamla DV-húsið sem nú er orðið að Listaháskóla. Hampiðjuhúsið sem var þarna í einhver ár er löngu horfið og búið að byggja þetta mikla íbúðarhús vinstra megin. Hæðum hússins fjölgar eftir því sem neðar er farið í brekkuna. Ég geri svo sem ekki athugasemdir við útlitið en mér finnst þó frekar skrítið að hafa íbúðir með svölum og öllu alveg niður að gangstétt í stað t.d. verslunarrýmis á neðstu hæðum eins og venjan er með svona hús við miðbæi.
- - - -
Brautarholtinu mætti gera skil alveg sérstaklega en þessar byggingar hafa mátt muna fífill sinn fegurri. Húsið nær er gamla Þórscafé og síðar Baðhús. Þar dansar enginn lengur og enginn frúin fer í bað. Húsið þarna fjær er þó eiginlega öllu hrörlegra en það hefur hýst einhvern málmiðnað og vinnustofur listamanna. Þetta er þó ekki dæmigert fyrir alla götumyndina. Meðal annars er ágætis hvítt hús þarna í götunni þar sem ég hef unnið lengi.
- - - -
Þetta hús á horni Nóatúns og Laugavegar hefur verið í smíðum svo lengi sem ég man eftir mér. Allavega standa járnabindingar enn upp úr húsinu og hafa gert frá upphafi.
- - - -
Uppbygging í öllu sínu veldi á horni Nóatúns og Borgartúns. Maður veltir fyrir sér hvort þessi húsaskipan sé eins og menn sáu fyrir sér í upphafi. Eða sáu menn annars eitthvað fyrir sér í upphafi? Sundið á milli þessara tveggja húsa getur varla talist til manneskjulegs umhverfis og til að bæta fyrir skort á útsýni úr íbúðarhúsinu sem er í byggingu er sett ofan á það annað hús. Kom einhver arkitekt nálægt þessu eða var þetta ákveðið á staðnum?
- - - -
Borgatúnið sjálft lýtur bara ágætlega út þótt einhverjir hafi kvartað yfir skrítnum gangstéttarhellum og rauðum ljósastaurum. Mér finnst þetta bara nokkuð líflegt og gott og hjólreiðastígarnir virka greinilega.
- - - -
Þetta farartæki varð á vegi mínum í portinu hjá Guðmundi Jónasyni. Rúllandi hótel virðist þetta vera kallað og býður upp á hótelgistingu á þremur hæðum í afturhluta vagnsins. Í ljósi umræðunnar veltir maður fyrir sér hvar salernisaðstaðan sé niður komin.
- - - -
Best að enda túrinn hjá Höfða en þar er greinilega verið að koma fyrir sjálfum Einari Ben sem bjó þarna einhvern tíma. Einar er auðvitað ein af styttum bæjarins og var áður á Klambratúni. Eftir er að setja upp víravirkið fyrir aftan hann sem minnir á hörpustrengi. Reyndar minntu ókomnu strengirnir mig á rimla í gamladaga og því fannst mér hann alltaf vera í fangelsi. Ef Einar Ben væri uppi í dag væri hann ekki ólíklega í fangelsi eins og svo margir aðrir sem ætluðu sér mikið upp úr síðustu aldamótum. Annars er viðkvæmt mál að vera að færa styttur og það svo sem vantaði ekkert sérstaklega styttu þarna að mínu mati. Þetta hús er annars miklu heimsfrægara í dag fyrir að hafa komið í veg fyrir atómstríð og það er ekki lítið afrek út af fyrir sig.
Byggingar | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2014 | 20:38
Gengið um Granda
Á síðustu árum hafa menn lagt í mikla landvinninga á grandanum sem upphaflega af náttúrunnar hendi tengdi Örfirisey við meginlandið með mjóu sandrifi. Við gerð hafnarinnar fyrir um 100 árum var útbúinn hafnargarður út í eyjuna og með frekari uppbyggingu var Grandinn orðinn vettvangur mikilla umsvifa í sjávarútvegi í skjóli gömlu verbúðarlengjunnar sem setti sinn svip á svæðið. En nú er öldin önnur og með uppfyllingum er komið heilmikið nýtt landssvæði á vestanverðum Grandanum með gatnakerfi og stórhýsum allskonar. Uppbyggingin var mikil og útlit fyrir að svo yrði áfram - allt þar til kom að árinu 2008 þegar forsendur breyttust eins og það er stundum orðað. Ég fór á vettvang á björtum degi þann 15. febrúar og tók nokkrar myndir sem hér koma á eftir. Þetta er því einskonar myndablogg undir kjörorðinu: Meiri myndir - minna mas.
Ferðin hefst við hringtorgið við Ánanaust og framundan blasir meðal annars við mikið úrval matvöruverslana, jafnvel offramboð. Versli maður í NETTÓ, fæst KRÓNAN í BÓNUS. Vesturbæingar þurfa því ekki að óttast matarskort en auk þess er stutt í Nóatún, Víði og Hagkaup á gamla fastalandinu og svo er auðvitað Melabúðin á sínum stað.
Stálslegnir lýsistankar gnæfa yfir bílastæðin við Krónuna með hjálp aðdráttarlinsu. Þarna er Lýsið framleitt nú á dögum og fer reyndar ekki á milli mála þegar komið er þarna að og hægur andvarinn er í fangið.
Hér er komið að þráðbeinum göngustíg þar sem Faxaflóinn er á vinstri hönd en til hægri blasa nýjustu landvinningar við. Þarna er mikið af engu og nægt lóðaframboð hafi einhver áhuga. Bókaforlagið Forlagið er þarna í stóra húsinu.
Hér hefur verið lagður grunnur að byggingu og síðan ekki söguna meir.
Geymslusvæði Shell breiðir úr sér og blasir þar við ýmislegt misgamalt tengt olíusölu og dreifingu. Þessi afgreiðsluskúr er í módernískum stíl en hefur sennilega gengt sínu hlutverki.
Fleira er geymt á Grandanum. Hér er annað geymslusvæði þar sem má finna þennan gamla bátsskrokk sem enginn tímir að henda og enginn tímir að gera upp. Sama má sjálfsagt segja um gamla Lödu-Sport bílinn og gamla timburhúsið sem einnig er geymt þarna til síðari endurbóta.
Hleragerðin hlýtur að framleiða toghlera en þar fyrir utan er líka mikið af netum til skrauts eða til handagagns.
Hafi einhver áhuga á að hefja stórverslunarrekstur má benda á þessa byggingu sem staðið hefur nánast auð frá því hún var reist á sínum tíma. Gamla húsið sem þarna er innpakkað við hliðina mun vera hús Benedikts gamla Gröndal og stóð það áður við Vesturgötuna í Reykjavík.
Verbúðirnar á gamla Grandagarði eru nýttar undir ýmislegt í dag. Hér er vinsælt að fá sér ís.
Héðinshúsið tilheyrir að vísu ekki Grandanum en á heimleið var ekki hægt að láta þetta myndefni fram hjá sér fara.
Byggingar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2013 | 21:10
Flugvöllur á Bessastaðanesi
Öðru hvoru kemur upp umræða um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Í þeirri umræðu er algerlega horft fram hjá því að í höfuðborgarsvæðinu miðju er til staðar marflatt, ónotað landsvæði á stærð við það sem fer undir Reykjavíkurflugvöll í dag. Hér er ég að tala um Bessastaðanes á Álftanesi en þangað hafa fáir komið og margir vita jafnvel ekki að yfirleitt sé til.
Á meðfylgjandi mynd hef ég teiknað inn flugvöll með þremur flugbrautum sem eru jafnlangar þeim sem eru í dag og stefnan er svipuð. Vegtengingar hef ég einnig sett inn en með þeim fæst ný leið í miðbæinn frá suðurbyggðum sem tengist hinni breiðu Suðurgötu í Reykjavík. Til að trufla ekki skipa- og skútuumferð geri ég ráð fyrir göngum undir Skerjafjörð, þannig að flott skal það vera. Með þessum akbrautum þyrftu menn ekki að keyra í gegnum hlaðið hjá Forsetanum sem áfram ætti að geta sinnt sínum störfum án ónæðis. Aðflugsleiðir sýnast mér vera nokkuð hagstæðar þarna því lítið er um byggð allra næst flugvellinum og ekki er lengur flogið yfir miðbæ Reykjavíkur.
Sjálfsagt hefur þessi kostur verið skoðaður í þeim úttektum sem gerðar hafa verið og af einhverjum ástæðum hefur hann ekki átt upp á pallborðið. Kannski hafa Álftnesingar ekki viljað flugvöll þarna en það sveitarfélag er að vísu ekki til lengur. Kannski þykir þetta vera of nálægt forsetanum eða fuglum, en kannski er málið að svæðið er ekki í eigu borgarinnar ólíkt Hólmsheiðinni, en sá staður held ég að henti betur föngum en flugvélum. Þetta mun þó auðvitað kosta sitt og auðvitað hefur enginn efni á þessu. Það má samt alveg ræða þetta enda held ég að vitlausari hugmyndir varðandi flugvöllinn hafi komið upp.
Byggingar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.5.2012 | 11:07
Eru menn alveg vissir þarna á Siglufirði?
Ég get alveg tekið undir að það hefur margt breyst til batnaðar fyrir ferðamenn á Siglufirði á síðustu árum. Síldarminjasafnið er frábært og einnig svæðið við höfnina þar sem komin eru veitingahús í nýuppgerðum húsum og skemmtilegu umhverfi. Ef eitthvað er þá fannst mér veitingahúsin samt í aðeins of skærum litum. En það er líka mjög skemmtilegt útsýnið frá bryggjunni við kaffihúsin og út að Síldarminjasafninu sem reyndar er í nokkrum reisulegum og upprunalegum húsum frá síldartímanum. Ég er því miður ekki nógu kunnugur þarna til að kalla húsin og bryggjurnar sínum réttu nöfnum, enda bara Reykvíkingur sem á lítið erindi út á land nema sem ferðamaður. Hin mikla síldarsaga Siglufjarðar er mér samt sæmilega kunn.
Nú er það stundum þannig að þegar eitthvað hefur heppnast vel þá kunna menn sér ekki alltaf læti og það er einmitt það sem ég óttast með þetta nýja hótel, Hótel Sunnu, sem á að reisa þarna við höfnina á besta stað í bænum.
Á myndina hér að neðan hef ég sett inn fyrirhugað hótel. Með þessari staðsetningu er greinilegt að öll sjónræn tengsl slitna á milli bryggjusvæðisins, þar sem kaffishúsin eru og Síldarminjasafnanna. Útlit hótelsins er í gömlum timburhúsastíl, sem er ekki slæmt í sjálfu sér, en það er samt eitthvað óekta við það og því alveg spurning hvort sé við hæfi að byggja svona umfangsmikið og áberandi gervigamalt hús á þessum stað sem tekur til sín alla athygli og skyggir á það sem er ekta gamalt og á sér sögu. En það er einmitt Síldarsagan sem gerir Siglufjörð að því sem hann er.
Loftmynd af svæðinu þar sem ég hef teiknað inn Hótelið. Myndin er af Ja.is og er ekki alveg ný.
Nú veit ég ekkert hvort nokkur umræða hefur farið fram á Siglufirði um þessi atriði sem ég nefni. Sjálfsagt er mikill spenningur í bænum fyrir þessum framkvæmdum og kannski sér enginn nokkuð athugavert við þær. Hótel sem tengist hafnarsvæðinu er góð hugmynd og á sjálfsagt eftir að verða vinsælt. En mér finnst samt eitthvað vanhugsað við þetta. Hvað með Norðurtangann sem er þarna aðeins sunnar? Má ekki reisa hótelið þar? Norðurtanginn sést neðst á myndinni hér að neðan en ég setti hring utanum svæðið sem ég tala um hér að ofan.
1,2 milljarða fjárfesting á Siglufirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Byggingar | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.2.2012 | 21:57
Hvað er verið að gera við Lögreglustöðina?
Nú hafa viðgerðarflokkar hafist handa við stórfellda endurnýjun á ytra byrði Lögreglustöðvarinnar við Hlemm. Samkvæmt frétt sem ég sá einhverstaðar munu gulu flísarnar, sem gefið hafa lægri byggingunni sinn sérstaka karakter ekki sjást meir. Þær verða huldar einangrunarefni og húsið klætt hvítum álplötum sem einnig munu hylja hvíta múrverkið sem rammar inn flísarnar. Hvort hærri aðalbyggingin hljóti sömu örlög veit ég ekki en það kæmi mér ekki á óvart. Sjálfsagt hefur verkfræðingum þótt þetta góð lausn og ég efast ekki um að þessi málmhjúpur verji bygginguna ágætlega fyrir veðrum og vindum. En er þetta samt bara sjálfsagt mál?
Mikið gert af því að vernda útlit bygginga séu þær nógu gamlar. Sjálfsagt þykir að færa hin elstu hús í upprunalegt útlit eða jafnvel að endurbyggja þau frá grunni. Annað virðist gilda um hálfgömul hús eða þau sem eru ekki nógu gömul, eins og tilfellið er með Lögreglustöðina við Hlemm. Sú bygging er reist á þeim tímum þegar Reykjavík var að breytast úr bæ í borg en þá risu mikil skrifstofuhús í nútímastíl þess tíma. Sennilega hafa ekki margir velt fyrir sér þeim möguleika að Lögreglustöðin við Hlemm sé merkileg bygging últitslega séð. Húsið var teiknað af Gísla Halldórssyni sem annars er þekktur fyrir merkisbyggingar eins og Hótel Loftleiði, Tollhúsið o.fl. Þessar byggingar voru margar metnaðarfullar og gáfu borginni nútímalegt yfirbragð, þótt vissulega hafi allskonar útlitslegir árekstrar stundum átt sér stað, aðallega í kvosinni.
Þegar vinnupallar við Lögreglustöðina hafa verið teknir niður mun blasa við ný ásjóna hússins sem væntanlega verður mun karakterlausara en áður. Kannski munu einhverjir fagna því en ég er ekki alveg sáttur
en hvað skal gera í þessu veit ég ekki. Það þýðir kannski lítið að hringja í lögguna.
Byggingar | Breytt 4.2.2012 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2011 | 21:35
Um harmóníu og Þorláksbúð
Falleg hús gera fallega staði fallegri og að sama skapi gera fallegir staðir, falleg hús fallegri. Eitthvað í þessa veru las ég eitt sinn í bók eftir Trausta Valsson skipulagsfræðing. Tveir staðir voru nefndir sem dæmi: Þingvellir og Viðey, en á báðum stöðum standa hús sem fara vel hvort með öðru en skapa um leið gagnkvæma heild með landslaginu. Svona harmónía er ekki bara bundin við merkisstaði í sögu þjóðarinnar. Sveitabæir ásamt útihúsum geta farið afskaplega vel í blómlegum dölum og ekkert útilokar að annarskonar mannvirki svo sem virkjanir og brýr geti verið hin mesta staðarprýði ef rétt er að málum staðið.
En þá víkur sögunni að Skálholti, sem getur alveg talist einn af þeim stöðum þar sem húsin gera umhverfið fallegra og öfugt. Þar hafa ýmis mannvirki stór og smá staðið í gegnum tíðina enda lengi einn helsti höfuðstaður landsins. Skálholtskirkja nútímans er falleg bygging og öll húsin sem þar standa taka mið af henni og mynda óvenju vel heppnaða heild. Það er því ekki að ástæðulausu að sumir vilja staldra aðeins við og athuga hvað er að gerast þar núna.
Myndin sem hér fylgir er af fyrirhugaðri Þorláksbúð við hlið Skálholtskirkju. Hún hefur ekki birst víða en á henni held ég að komi fram allt sem segja þarf. Þorláksbúð sem ýmist var notuð sem skrúðhús og geymsla hefur sjálfsagt farið vel þarna á 16. öld og þar mátti líka slá upp messu þegar stóru kirkjurnar brunnu eins og þær áttu til. En að reisa Þorláksbúð í dag alveg við hlið Skálholtskirkju nútímans er ekkert nema sjónrænt og menningarlegt slys. Það verður bara að hafa það þótt vinna og fjármunir fari í súginn ef hætt verður við þetta, og það verður bara að hafa það þótt einhverjir hafi verið seinir að átta sig. Þetta gengur ekki. Það hljóta allir að sjá sem hafa minnsta vott af smekklegheitum.
Myndin hér að ofan er fengin af Sunnlenska fréttavefnum
Byggingar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.9.2011 | 13:36
Þrjú hús
Nú ætla ég að snúa mér að húsum og kíkja létt á þrjár misgamlar byggingar í Reykjavík sem hver um sig er ágætis fulltrúi fyrir stíl og tíðaranda síns tíma. Þetta eru áberandi og vel þekkt hús af stærra staginu en sjálfum finnst mér þessar byggingar vera vel heppnaðar og eiginlega hver annarri fallegri af ýmsum ástæðum. Línurnar sem ég hef bætt við myndirnar eru til áhersluauka.
Aðalbygging Háskóla íslands var metnaðarfull bygging á sínum tíma sem reis á krepputímunum miklu um 1930. Arkitektinn er sjálfur Guðjón Samúelsson húsameistari og er mjög í hans anda. Þetta er hús í klassískum stíl þar sem miðhlutann ber hæst og útfrá þeirri miðju koma álmur til beggja hliða. Þetta hefur samt verið nútímalegt hús á sínum tíma og í stað fíngerðs skrauts er einhverskonar stuðlaverk á miðhlutanum sem vísar til himins. Eins og klassískum byggingum fer inngangurinn ekki framhjá neinum enda er hann rækilega fyrir miðju og um leið brennipunktur byggingarinnar og umhverfisins. Þannig vildu menn hafa mikilvæg hús fyrr á árum þar sem fólk bar virðingu fyrir valdinu og stofnunum. Umhverfið fyrir framan bygginguna undirstrikar einnig þessa miðju og þá hugsun að þetta sé miðstöð lærdóms og þekkingar hér á landi. Svona miðjusettar byggingar voru algengar í klassískri húsagerð í mikilvægum húsum svo sem konungshöllum, ráðhúsum, menntastofunum og fleiru og gjarnan hafðar við enda breiðstræta. Fyrir framan Háskólan eru reyndar bara breiðstígar og tröppuverk sem virðast einungis vera þarna í sjónrænum tilgangi.
Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4 hefur sett stóran svip á sitt umhverfi frá því það var byggt snemma á 6. áratugnum. Arkitektinn er Halldór Jónsson sem teiknaði meðal annars Hótel Sögu og ýmsar skrifstofubyggingar í svipuðum anda. Hér er módernisminn kominn til sögunnar og allt aðrar áherslur en í klassíkinni. Athyglinni er ekki beint að neinni ákveðinni miðju heldur fær byggingin öll sama vægi. Í heimi fjöldaframleiðslunnar eiga hlutir að vera einsleitir og einfaldir og fegurðin felst í endurtekningunni. Inngangurinn er ekki dreginn fram sérstaklega og er ekki einu sinni fyrir miðju. Ekki er þó gengið alla leið í naumhyggjulegum módernisma því það örlar á skrauti eða munstri við innganginn sem nýtur sín þegar komið er að. Neðsta hæðin er inndregin og þar eru súlur sem virðast lyfta húsinu og gera yfirbragðið léttara. Svo er líka hallandi þak sem virðist svífa fyrir ofan því efsta gluggaröðin er nánst samfellt glerverk. Fyrir nokkrum árum var unnið hálfgert skemmdarverk á þessu húsi að mínu mati með því að hækka hornhúsið við hliðina upp í sömu hæð þannig að húsið fær ekki notið sín eins og áður. Ekki bætir úr skák að sorpdæluhús var byggt þarna skáhalt á móti og skyggir á, en hana er þó hægt klífa upp á topp til að ná almennilegri mynd.
Nýherjahúsið eitt af þeim húsum risið hafa í röð upp úr bílamergðinni meðfram Borgartúninu og eitt það best heppnaða. Arkitekt er guðni Pálsson. Hér er módernisminn kominn á næsta stig og sver sig nú við hinn dularfulla póst-módernisma. Ekki virðist alltaf á hreinu hvernig sá ismi skal skilgreindur en þó má segja hann snúist að nokkru um að hafna viðteknum venjum og stífum reglum. Lengi var það sjálfsögð venja að teikna hús með 90 gráðu hornum á alla kanta en nú er slíkt liðin tíð eins og Nýherjahúsið er gott dæmi um. Annað óvenjulegt við þetta hús er að það er í rauninni tvö hús með sitthvoru útliti sem tengjast saman með glerhýsi. Vestari hlutinn er alveg kassalaga en sá austari er á skakk og skjön og byggingin er síbreytileg eftir þvi hvaðan er horft. Í nútímaarkitektúr er inngangur bygginga oft langt frá því að vera útgangspunktur í heildarútliti og oft getur jafnvel verið örðugt að finna innganga yfirhöfuð. Í Nýherjahúsinu er inngangurinn samt nokkuð rökréttur í glerjaðri tengibyggingunni. Húsið nýtur sín best frá Sæbrautinni því svo óheppilega vildi til að plantað var alveg óvænt stórum þjóðvegabensínstöðvarestauranti rétt framan við húsið Borgartúnsmegin.
Þannig hljóðar byggingarlistasaga 20. aldar. Eða að minnsta kosti hluti hennar.