Færsluflokkur: Byggingar

Byggingarsaga Hörpu - myndasería

Frá árinu 2006 einhvern góðviðrisdaginn í lok ágúst hef ég lagt leið mína upp á Arnarhól og tekið ljósmynd af framkvæmdum við tónlistarhúsið Hörpu. Á elstu myndinni frá 30. ágúst 2006 má ennþá sjá hinn horfna Faxaskála, en skömmu síðar voru vinnuvélar mættar á svæðið til að ráða niðurlögum þess mannvirkis. Eftir nokkuð skrikkjótta byggingarsögu er tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin Harpa nú loks risin og búið að vígja hana bæði innvortis og útvortis – að vísu við mismikinn fögnuð borgarbúa. Þótt margt megi segja um þessa framkvæmd þá finnst mér þetta vera vera hin glæsilegasta bygging og ekki er verra að salirnir þykja hljóma afbragðsvel. Sjálfsagt sakna einhverjir þess að sjá ekki Akrafjallið frá Arnarhóli en þeir sjá þó Hörpuna í staðin.

Framkvæmdum á svæðinu er ekki lokið og næst á dagskrá er að reisa heilmikið hótel við hlið Hörpu. Hvernig það mun líta út veit ég ekki, en á meðan fræmkvæmdir eru í gangi er sjálfsagt að halda árlegum myndatökum áfram.

Myndirnar koma hér og er sú elsta fyrst. Ég mæli sérstaklega með þeirri síðustu sem er aukamynd tekin að kvöldlagi.

Tonlistarhus2006

Tónlistarhús 2007

Tonlistarhus2008

Tónlistarhús 2009

Tónlistarhús 2010

Tónlistarhús 2011

Tónlistarhús 2011 kvöld


Gömlu bíóin

Margt breytist með tímanum, þar á meðal bíómenningin. Þegar heimsóknir mínar í kvikmyndahús voru í hámarki á árunum kringum 1980 voru flest bíóin ennþá staðsett í gamla miðbænum eins og verið hafði frá upphafi. Hér á eftir kemur dálítið yfirlit yfir þessi gömlu bíó í borginni. Til skreytingar og sem sönnunargagn læt ég fylgja bíómiða frá viðkomandi bíóum en lengi vel geymdi ég flesta bíómiða sem ég fékk. Myndirnar sýna kvikmyndahúsin eins og þau eru í dag hvort sem þau eru til eða ekki. Alls mun ég taka fyrir níu kvikmyndahús með þessum hætti í tveimur bloggfærslum.

Gamla Bíó

Hið eina og sanna gamla bíó er sjálft Gamla bíó sem flutti í þetta glæsilega hús árið 1927. Upphaflega var það stofnað árið 1906 sem Reykjavíkur Biograftheater og var til húsa í Fjalakettinum undir stjórn Bíó-Petersens. Þarna voru sýndar bíómyndir allt til ársins 1981 eða þar til óperan tók völdin. Hún er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra. Þær myndir sem ég man helst eftir úr Gamla bíói eru háklassa teiknimyndir frá Disney eins og Skógarlíf, Hefðarkettirnir og Sverðið í steininum. Í þá daga voru teiknimyndir handteiknaðar og handmálaðar og meira að segja bara í tvívídd.

Nýja Bíó
Nýja Bíó í Lækjargötu er ekki nýrra en svo að það er ekki til lengur. Á meðan ég sótti það bíó var það reyndar orðið ævagamalt enda má rekja sögu þess aftur til ársins 1912 er það hóf starfsemi sína í húsakynnum Hótels Íslands. Frá upphafi var það kallað Nýja Bíó til aðgreiningar frá hinu bíóinu í bænum sem þar með var kallað Gamla bíó. Árið 1920 hófust sýningar í nýju húsnæði inn af Austurstræti þar sem það var alla tíð síðan. Í mínum huga var Nýja Bíó alltaf í Lækjargötu enda var inngangurinn þaðan, en í raun var kvikmyndahúsið algerlega falið bak við önnur hús. Stjörnustríð er sennilega mesta kvikmyndaverkið sem ég sá þarna. Þrátt fyrir flottheit og framtíðarbrellur fannst hún í raun vera hver önnur hasarmynd þar sem vöndu kallarnir eru alltaf jafn agalega óhittnir. Þarna fór ég líka á fyrstu bönnuðu-innan-12-ára-myndina mína án fylgdar fullorðinna og án þessa að vera 12 ára. Sú mynd hét Þeysandi þrenning og var einn samfelldur eltingaleikur og bílahasar. Bíómyndir voru sýndar þarna til ársins 1987 en síðan var húsið gert að skemmtistað sem síðan brann og húsið rifið, en nú er verið að byggja einskonar eftirlíkingu af Nýja Bíói á bak við Iðuhúsið.

Austurbæjarbíó
Austurbæjarbíó tók til starfa árið 1947 og þótti þá mikið og stórt en auk kvikmyndasýninga var það hugsað fyrir tónleika og leiksýningar. Sumir höfðu dálitlar áhyggjur af því að slíkt hús gæti ekki borið sig svona fjarri miðju bæjarins. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Síðustu árin var bíóreksturinn á vegum Sambíóveldisins en kvikmyndasögu hússins lauk árið 2002. Í framhaldi var húsinu naumlega forðað frá niðurrifi þegar reisa átti þarna íbúðarblokkir og því er enn hægt að sækja þarna leiksýningar og tónleika þegar slíkt er í boði. Íslenska kvikmyndavorið er oft talið hefjast árið 1980 með kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir. Þjóðin fjölmennti á þá mynd, líka þeir sem lönguhættir voru að fara í bíó. Eins og bíómiðinn ber með sér var myndin sýnd í Austurbæjarbíó og þangað var ég mættur kl. 5.

Hafnarbíó

Hafnarbíó tók til starfa árið 1948 í einum af betri bröggum bæjarins og stóð við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu. Þetta var ekki eina braggabíóið því Trípólíbíó á Melunum var einnig í bragga en það var löngu horfið á minni tíð. Hafnarbíósbragginn reyndist einn af lífseigustu bröggunum í Reykjavík og var óneitanlega dálítið sérstakt að fara þangað í bíó en myndirnar voru ekkert verri fyrir það. Af heimsóknum í Hafnarbíó man ég helst eftir Einræðisherra Chaplins en sú mynd var auðvitað komin til ára sinna þegar ég sá hana. Einnig man ég eftir týpískri hrollvekju um hús sem draup blóði og var að auki inngangur í helvíti með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir íbúana. Hafnarbíó var rifið árið 1983 og nú er þarna fátt sem minnir á eldri tíð.

- - - -

Hér verður gert nokkurra daga hlé. Eftir hlé mun ég taka fyrir með sama hætti: Stjörnubíó, Regnbogann, Tónabíó, Laugarásbíó og Háskólabíó.


Hinn horfni Múlakampur

Múlakampur 1971 a 

Múlakampur 1971 a

Þegar ég man fyrst eftir mér var talsvert öðruvísi um að litast á svæðinu þar sem Síðumúli og Ármúli eru í dag. Árið 1971 þegar þessar myndir voru teknar mátti ennþá finna þar heillegt en óskipulagt samansafn misgóðra íbúðarhúsa er nefndist Múlakampur. Upphaflega mun þarna hafa verið braggabyggð frá stríðsárunum en þau merku mannvirki hurfu síðar fyrir þessum húsum sem mörg voru byggð af vanefnum í húsnæðiseklu eftirstríðsáranna.

Sjálfur ólst ég upp í Háaleitishverfinu sem þá var nýtt hverfi og fjögurra hæða blokkirnar sem þar standa í röðum eða hornrétt hver á aðra, voru alger andstæða við hinn óskipulagða heim í norðri. Í blokkinni minni á fjórðu hæð var gott útsýni yfir Múlakamp og reyndar mestallt höfuðborgarsvæðið ásamt fjöllunum í kring. Þetta útsýni var og er enn, tilvalið myndefni þó ekki væri nema til þess að klára filmuna í myndavélinni.

Íbúar Múlakamps voru í ófínna tali oftast kallaðir „kamparar“ en sem krakki datt manni ekki í hug að líta niður til þeirra nema þá í eiginlegri merkingu þar sem blokkin mín gnæfði hátt yfir kampinum. Þarna eignaðist maður líka nokkra vini og skólafélaga sem maður heimsótti stöku sinnum.

Eftir að þessar myndir voru teknar fór húsunum smám saman fækkandi og 10 árum síðar voru þau langflest horfinn og íbúarnir gjarnan búnir að hefja nýtt líf í stórblokkum Breiðholtshverfis. Múlahverfinu var þó ekki rutt í burtu í einu átaki heldur hurfu húsin bara smám saman. Það var forvitnilegt að fylgjast með þegar eitthvert húsið var rifið en dálítið sorglegt líka. Þó var gaman þegar ekki náðist að klára niðurrifið fyrir kvöldið því þá var hægt að leika sér og gramsa í rústinni. Eftir því sem kampshúsunum fækkaði risu nýbyggingar Síðumúla og Ármúla inni á milli eldri húsanna en þær byggingarframkvæmdir voru líka góður leikvöllur þar sem mátt æfa sig í klifri allskonar. Þjóðviljabyggingin að Síðumúla 6 var sérstaklega hentug og skemmtileg. Síðumúlinn var reyndar stundum kallaður „blaðsíðumúli“ enda höfðu ófá dagblöð og prentsmiðjur aðsetur þar lengi vel.

Árið 2010 sjást ekki nein ummerki eftir Múlakamp nema þá kannski stöku tré sem áður stóðu við húsgafla horfinna húsa. Þarna býr enginn nú en fjölmargir mæta þangað daglega til vinnu og þarna verslar fólk sjónvörp, baðkör, stofulampa og gæludýr svo eitthvað sé nefnt. Útsýnið af uppeldisstöðvunum er líka fínt sem fyrr þótt nærumhverfið hafi breyst.

Múlahverfi 2010


Risabyggingin í Mekka

Það er ekkert lát á stórhuga byggingarframkvæmdum í Asíu. Í hinni heilögu borg múslima, Mekka eru framkvæmdir langt komnar við eitt mikilfenglegasta stórhýsi sem nokkru sinni hefur risið. Staðsetningin er líka sérstök því húsið rís alveg við hliðina á sjálfri Stóru moskunni þangað sem múslímar fara í sínar pílagrímsferðir og ganga sjö hringi umhverfis Kaba hofið, eða hvað sem má kalla þessa litlu kassalaga svörtu byggingu sem mannfjöldinn gengur í kring um en þar á sjálfur Abraham að hafa reist byggingu utan um svarta steininn svokallaða og akkúrat á þeim stað trúa múslímar jafnvel að sjálfur Adam hafi upphaflega reist fyrstu byggingu veraldar.

Mekkaturn
Stórhýsið sem þarna rís núna samanstendur í raun af sjö turnum sem saman mynda eina heild og nefnist Abraj Al-Bait. Byggingin á að hýsa hótel af bestu sort auk íbúða og verslunarmiðstöðvar ásamt ýmsu fleiru fíneríi. Turnarnir eru misháir, sex þeirra eru uppá 42 til 48 hæðir en meginturninn, klukkuturninn, er 95 hæðir og minnir um margt á risavaxinn Big Ben. Á hverri hlið turnsins eru dýrindis klukkuskífur sem munu verða þær langstærstu í heimi en þar á ofan kemur 70 metra há turnspíra með gylltum hálfmána á toppnum. Heildarhæð þessa mannvirkis mun líklega enda í 601 metra sem gerir þetta mjög örugglega að næst hæsta húsi í heimi því þau háhýsi sem á eftir koma eru um 100 metrum lægri. Hæsta hús í heimi er eftir sem áður hinn 828 metra hái Burj Kalifa turn í Dúbæ. En þótt Abraj Al-Bait byggingin sé ekki hæst í heimi er hún samt talin sú stærsta sé tekið tillit til gólfflatar sem mun verða 1,5 milljón fermetrar enda getur þar farið ágætlega um 100 þúsund manns í einu.
Áætlað er húsið verði tilbúið á næsta ári og framkvæmdir eru langt komnar. Fimm hinna lægri turna eru fullkláraðir en á aðalturninn vantar bara spírurnar ofan á klukkuturninn.

Um smekklegheit þessara byggingar er ekki mikið hægt að segja nema að þetta mun seint verða tekið sem dæmi um fágaðan og látlausan nútímaarkitektúr. Byggingin minnir helst á fyrstu háhýsin sem risu nálægt Wall Street samankomin í einn hnapp en þess má geta að byggingaraðilinn er hið virta byggingarfyrirtæki BinLadin Group sem stofnað var árið 1931 af Sjeik Mohammed bin Laden.


Tónlistarhúsið 2006-2010

Einn af föstum árlegum dagskrárliðum á þessari bloggsíðu er að birta ljósmynd af tónlistarhúsinu séð ofan af Arnarhóli. Hverja mynd hef ég tekið um hádegi einhvern bjartviðrisdaginn síðustu dagana í ágúst nema ein sem var tekin 1. september. Myndatakan nær aftur til ársins 2006 þegar gamli Faxaskálinn stóð enn uppi en þá voru framkvæmdir á svæðinu nýhafnar.

Tónlistarhúsið hefur breytt mikið um svip frá því í fyrra því nú er glerísetning hafin og búið að raða upp hinum miklu gluggakubbum á suðurhlið hússins sem blasir við frá Arnarhóli. Það er síðan til marks um skrykkjótta byggingarsögu tónlistarhússins að allt þetta kubbaverk þarf að taka niður og raða saman upp á nýtt vegna smíðagalla. Þetta þarf að gerast svo að gluggaumgjörðin standist þau verstu óveður sem hér geta skollið á. Ekki væri gott ef dýrindis glerverkið sáldraðist um allan bæ í einhverju rokinu. Þetta vesen mun þó ekki kosta okkur skattborgarana neitt auka, því mistökin skrifast á kínversku undirverktakana og húsið mun eftir sem áður opna í maí á næsta ári. Þetta tefur þó frágang að utanverðu þannig að þegar fyrstu lúðrar hljóma næsta vor og hörpusláttur hefst í húsinu verður gluggauppsetningu ólokið. Húsið eins og það lýtur út í dag er því einskonar forsýning þess sem verður. 

En hér er myndasyrpan: 

Tónlistarhús 2010

Tónlistarhús 2009

Tonlistarhus2008

Tónlistarhús 2007

Tonlistarhus2006


Heimsókn til Nýja heimsins

Síðustu viku gerði ég mér ferð vestur um haf til að njóta dásemdar hinnar miklu borgar Nýju Jórvíkur þar sem húsin standa upp á rönd í stórum stíl. Borgin sem er betur þekkt sem New York hefur ekki breyst mikið á þeim 22 árum sem liðin eru frá því ég kom þangað síðast, sumt er þó horfið eins og frægt er en annað hefur bæst við. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og til að gefa dálitla innsýn inn í það sem fyrir augum bar kemur hér einskonar myndablogg úr ferðinni.

Hafís í Ameríku

Fyrir það fyrsta þá stenst ég ekki að birta þessa hafísmynd sem tekin er 4. júní við strendur Labrador, eða við Helluland eins og Leifur Eiríks og félagar kölluðu þetta hrjóstruga landsvæði. Þarna er greinilega frekar kuldalegt yfir að líta og vetrarísinn ekki alveg horfinn.

New York, Central Park

Öllu sumarlegra var í Miðgarði laugardaginn 5. júní þar sem borgarbúar hvíldu sig í 30 stiga hitamollu ættaðri beint frá Suðurríkjunum. 

 

New York, Times Square

Á Tímatorgi er alltaf aragrúi af fólki og litríkum ljósaskiltum.

 

New York, mótmæli

Hér kveður við annan tón í skiltagerð. Þetta fólk er statt neðst á Manhattan og er að mótmæla fyrirhugaðri moskubyggingu á þeim heilaga stað þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Hugmyndin með að reisa þarna mosku er sjálfsagt sú að sýna fram á umburðarlyndi og sáttahug New Yorkbúa gagnvart múslimum og kannski í leiðina að minnka líkurnar á nýjum hryðjuverkum. Það var þó ekki mikinn sáttahug að finna hjá þessu fólki ef marka má það sem á skiltunum stendur. Á meðan svo er má efast um hvort hugmyndir um moskubyggingu þarna sé sniðug. Erfitt getur þó verið að hætta við.

 

New York, Ground Zero

Enduruppbygging eru annars í fullum gangi þarna á Ground Zero. Turnarnir í baksýn voru hluti af World Trade Center en sluppu þegar allt annað hrundi. Þarna er One World Trade Center turninn byrjaður að rísa og verður með spíru og öllu saman hæsta bygging Bandaríkjanna, eða 541 metri sem gera 1776 fet sem kallast á við stofnár Bandaríkjanna. Til að forðast að storka vondum útlendingum munu þeir vera hættir við að kalla bygginguna Freedom Tower en auk hans eru einnig þrjú önnur háhýsi fyrirhuguð á svæðinu.

 

New York, Chrysler byggingin

Ofar á Manhattan, í miðbænum, eru þessar byggingar. Chrysler-byggingin er fyrir miðju en hún var um tíma hæsta bygging heims þar til Empire State sló henni við. Chryslerinn er þó alltaf flottastur.

 

New York, gömul hús

Minna fínni húsin líta gjarnan svona út. Brunastigar utan á húsum eru mikið notaðir í amerískum bófamyndum og njóta sína vel þarna í síðdegisbirtunni.

 

New York, Brooklyn Bridge

Best að enda þetta á borgarljósunum. Hér er horft frá Brooklyn brúnni yfir á háhýsin neðst á Manhattan. Ýmsir eru greinilega að vinna frameftir í þessari miðstöð fjármála. Smíði brúarinnar lauk 1883 og var auðvitað þar um mikið byggingarafrek að ræða. Eftir nokkur ár mun nýi One World Trade turninn gnæfa þarna yfir í baksýn.


Lækjargata 2 og eldheitir borgarstjórar

Þessa dagana má sjá að uppbygging er loksins komin á fullt skrið á horni Lækjargötu og Austurstrætis þar sem gamla húsið hans Sigfúsar Eymundssonar brann fyrir þremur árum. Búið er að steypa upp fyrstu hæðina en ofan á hana á að endurbyggja húsið í heild og því má segja að húsið hækki um eina hæð neðanfrá. Mér hefur alltaf fundist þetta sjálfsögð lausn því húsið er fallegt, það má þó vel við því að hækka enda fæst þannig meira hæðarjafnvægi milli húsanna á þessum stað. Ég tók mynd af Lækjargötuhúsinu nýbrunnu vorið 2007 og í framhaldinu dundaði ég mér við að fótósjoppa húsið einni hæð hærra. Myndina birti ég hér á blogginu haustið eftir, eða stuttu eftir að ég byrjaði á þessu bloggveseni, en þá voru einmitt komnar fram hugmyndir um að hækka húsið.

Lækjargata 2
Þegar brann þarna vorið 2007 var þáverandi borgarstjóri Villi Þ. auðvitað mættur á svæðið og var fljótur að lýsa því yfir að húsið yrði endurbyggt þannig að sómi yrði af fyrir borgarbúa. Sumum fannst þetta full glannaleg yfirlýsing í miðri atburðarásinni, en hann má eiga það að í þessu einstaka máli var ég ánægður með borgarstjórann fyrrverandi.

Framundan eru hugsanlega enn ein borgarstjóraskipti hér í Reykjavík. Einn þeirra sem þar koma til greina er Jón Gnarr sem sagðist í Kastljóssviðtali ætla að verða svona borgarstjóri sem hefur frekar lítið fyrir hlutunum en mætir kannski í bæinn til að vinka fólkinu, ekki síst þegar það er að brenna einhverstaðar - svona í stíl við Bastían bæjarfógeta. Ef Jón Gnarr hefði verið borgarstjóri vorið 2007 hefði hann samkvæmt þessu auðvitað mætt í bæinn til að stappa stálinu í borgarbúa og jafnvel gefið slökkviliðinu góð ráð.

En hvort hann hefði lofað endurbyggingu húsanna í sinni gömlu mynd og einni hæð til viðbótar er önnur saga. Í hinum svokallaða Besta flokki er stefnan ekki endilega sú að halda upp á gömul hús ef marka má það sem frambjóðandinn Páll Hjaltason sérfræðingur flokksins í skipulagsmálum, segir á heimasíðu flokksins:
„Uppgjöf borgarinnar gagnvart öfgafriðunum voru greinileg í kaupum hennar á Laugaveg 4-6 og klisjukenndri uppbyggingu á brunareitnum á horni Lækjartorgs. Hvað á svo að vera í þessum húsum? Fleiri öldurhús og ferðamannabúðir?“
 
Þarna finnst mér koma fram frekar leiðinlegt sjónarmið gagnvart þeirri gömlu húsagerð sem gefa miðbænum sinn sérstaka svip, burt séð frá því hvort í þeim húsum sé eitthvað skemmtilegt eða ekki. Margir arkitektar vilja auðvitað helst byggja nútímaleg hús í stað þess að endurskapa eitthvað gamalt enda eru þeir til þess menntaðir. Nútímaleg hús eru sjálfsögð t.d. í nýjum borgarhlutum, en á þessum stað á horni Lækjargötu og Austurstrætis er ég ekki viss um að við værum bættari með nútímalegt gler/steinhús. Allavega ekki miðað við nokkur slík sem hafa risið miðsvæðis undanfarið. Það má mín vegna kalla uppbyggingu á gömlum húsum „klisjuennda“ en mér finnst hún alveg í fínu lagi í miðbænum. Húrra fyrir Villa.

Heimsins hæstu byggingar

Á bloggsíðu þessari er meiningin að fjalla aðallega um himinn og jörð og stundum sitthvað þar á milli. Hvað sem það nú annars þýðir, þá finnst mér alveg við hæfi að skrifa um það sem nær frá jörðu til himins, eins tilfellið er með hæstu og glæsilegustu húsin hér á jörð.

Í byrjun þessa árs var mikið um dýrðir í Arabíska furstadæminu Dubai þar sem langhæsta hús sem byggt hefur verið, var formlega tekið í notkun. Turninn fékk nafnið Burj Khalifa og er um 300 metrum hærri en hæstu byggingar sem þar koma á eftir og er sjálfsagt langt í að annað eins verði byggt. Annars er dálítið athyglisvert að miklir skýjakljúfar eru gjarnan vígðir einmitt í þann mund þegar fjármálakreppur skella á enda er byggingartími skýjakljúfa álíka langur og ein góðærisbóla.

Það er liðin tíð að hæstu byggingar heims sé að finna í Bandaríkjunum því himinháir skýjakljúfar hafa risið hratt síðustu árin í Asíu. Þetta má sjá á myndinni sem ég hef útbúið og sýnir nokkra af frægustu skýjakljúfum heims og ef vel er að gáð sést grilla í hæsta húsið á Íslandi.

Turnar 2010

Af þeim háhýsum sem sjást á myndinni er Empire State byggingin langelst en hún var tekin í notkun árið 1931 skömmu eftir að heimskreppan mikla skall á og skákaði þar með Chrysler byggingunni sem hafði verið hæsta bygging heims í aðeins eitt ár. Empire State byggingin hélt titli sínum allt þar til tvíburaturnarnir World Trade Center voru teknir í gagnið árið 1972.
Willis Tower í Chicago, (betur þekktur sem Sears Tower) var fullbyggður árið 1974 og tók þá við titlinum hæsta bygging í heimi. Þegar hæð byggingarinnar er nefnd eru loftnetin ekki talin með því þau teljast ekki vera hluti af arkitektúr byggingarinnar, að þeim meðtöldum nær byggingin næst mestu heildarhæð allra bygginga í dag.
Eftir að Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu voru reistir árið 1998, misstu Bandaríkjamenn að lokum forystuna um hæstu byggingar heims til Asíulanda. Í þessu tilfelli eru turnspírurnar taldar með í hæðinni enda hluti af arkitektúrnum. Hæðirnar eru þó „ekki nema“ 88 talsins á meðan Willis turninn er 108 hæðir.
Árið 2003 var komið að Taiwan, en þar reis 101 hæðar skýjakljúfur Taipei 101 og var þetta hæsta hús heimsins þar til nú í ársbyrjun. Þetta var líka fyrsta byggingin sem samkvæmt hæðarreglum rauf 500 metra múrinn.
Hæsta húsið í Kína og það þriðja hæsta í heiminum í dag er Shanghai World Financial Center sem er 101 hæða bygging og 492 metra há. Við hlið hennar er önnur mjög há bygging uppá 421 metra en þriðja risabyggingin á svæðinu er í smíðum og á að verða um 630 metrar á hæð.
Eftir að smíði Burj Khalifa í Dubai var lokið, er ljóst að sett hefur verið nýtt viðmið í hæð skýjakljúfa enda slagar turninn hátt upp í Esjuna. Það er þó alveg mögulegt að byggja hærri hús ef mikilmennskan heldur áfram og efnahagsástand leyfir. 1000 metra hús er til dæmis sagt alveg tæknilega framkvæmanlegt.

Framkvæmdagleði okkar Íslendinga á undanförnum góðæristímum skilaði af sér allnokkrum háhýsum á okkar mælikvarða. Af þeim er háhýsið við Smáratorg hæst, um tveimur metrum hærra en Hallgrímskirkjuturn. Þriðja hæsta byggingin á Íslandi er síðan 19 hæða turninn við Höfðatorg sem opnaður var í fyrra. Það verður sennilega einhver bið á því að hærri hús rísi á Íslandi því væntanlega verður ekki mikið úr 28 hæða og 100 metra háum turninum sem til stóð að reisa í Kópavogi, enda kannski komið nóg í bili.


Tónlistarhúsið 2006-2009

Síðustu fjögur ár hef ég komið mér fyrir upp á Arnarhóli einhvern góðviðrisdaginn um þetta leyti árs og beint myndavélinni þangað sem tónlistarhúsið rís. Í lok ágúst 2006 þegar fyrsta myndin var tekin stóð Faxaskálinn óhreyfður og Akrafjall og Skarðsheiði blöstu við í fjarska. Vinnuvélar voru þó mættar á svæðið og brátt fóru að hefjast framkvæmdir við dýrustu og metnaðarfyllstu byggingarframkvæmdir Íslandsögunnar til heiðurs tónlistargyðjunni. Allt var í lukkunnar velstandi á þessum tímum enda þótti ekkert tiltökumál þótt kostnaðaráætlanir samkvæmt verðlaunatillögu Ólafs Elíassonar væru langt umfram það sem áður hafði verið ákveðið. Því flottara því dýrara og því dýrara því flottara.

Ef allt hefði farið eins og stefnt var að og ekkert ólukkans fjármálahrun skollið á, væri Tónlistarhúsið langt komið í dag enda gerðu bjartsýnir menn sér vonir um að opna húsið með pomp og prakt og lúðrablæstri fyrir lok þessa árs. Nú gera hinsvegar áætlanir ráð fyrir að herlegheitin verði kláruð vorið 2011. Eitthvað er byrjað á að setja upp glugga, en vinna við glerhjúpinn sjálfan er í undirbúningi, það mun vera hin mesta gestaþraut sem kínverskir fulltrúar glerframleiðandans munu sinna.

Hvað sem má annars segja um þetta ævintýri, þá sé ég ekkert annað í stöðunni en að klára húsið eins og stefnt er að því auðvitað verður þetta hið glæsilegasta hús. Svo væri þjóðráð að hleypa sjónum ofaní stóru gryfjuna þar sem fjármálamiðstöðin átti að rýsa og hafa þar smábátahöfn eða öllu heldur fína snekkjuhöfn.

Hér koma myndirnar:

Tónlistarhús 2006

Tónlistarhús 2007

Tónlistarhús 2008

Tónlistarhús 2009

 


Valhöll að fornu og nýju

Hótel ValhöllValhöll á Þingvöllum er fallin í valinn, varð grillinu að bráð. Eins og brunavarnarmenn voru búnir að vara við varð bruninn skjótur og breiddist út eins og eldur í sinu. Það höfðu ýmsir haft horn í síðu Valhallar og töldu hana lítt merkilegt samansafn af misgömlum byggingum sem varla hæfðu þessum heilaga stað. Hugmyndir voru því uppi um að rífa þetta hreysi og byggja þess í stað virðulega nútímabyggingu sem þing lýðveldisins hefði til afnota á tyllidögum. Hótelrekstur og kaffisala fyrir almenning þótti að sama skapi ekki viðeigandi á þessum helgistað sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Óbreyttir gestir voru samkvæmt þessu betur komnir á útjaðri svæðisins vildu þeir þiggja veitingar, þótt almenningur geti auðvitað alltaf étið sitt nesti á brúnum Almannagjár.

Valhöll var, hvað sem hver segir, fallegt og reisulegt hús, byggt í hinum þjóðlega burstabæjarstíl en sá stíll var tilraun á sínum tíma til að koma á fót íslenskum húsagerðarstíl með hinn íslenska torfbæ sem fyrirmynd. Það var ekki nóg með að fegurð umhverfisins gerði húsið fallegra heldur gerði fegurð hússins Þingvelli líka fallegri en þannig er einmitt háttað með hús sem standa í góðri sátt við umhverfi sitt. Kannski verður ekkert byggt þarna aftur í nánustu framtíð. Ef hinsvegar verður byggt þarna er auðvitað ekki sama hvernig það hús mun líta út. Nærtækast er að endurbyggja Valhöll í sinni gömlu þjóðlegu mynd allavega hvað framhliðina varðar en þó þannig að öllum nútímabyggingastöðlum sé framfylgt.

Nýtímabyggingar geta auðvitað líka verið fallegar en það er samt allur gangur á því. Ný Valhöll getur haft skírskotar til hinnar upprunalegu Valhallar sem samkvæmt Ásatrúnni var bústaður Óðins. Þar bjuggu einnig þeir sem fallið höfðu í valinn og gátu haldið þar áfram sinni uppáhaldsiðju sem var að berjast á daginn og drekka á kvöldin. Seinni tíma Valhallarmenn voru hins vegar þekktir fyrir að græða á daginn og grilla á kvöldin. Sá gróði fór hins vegar aðeins úr böndunum rétt eins og eldurinn í Valhallargrillinu á Þingvöllum.

Valhöll hin nýja


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband