Færsluflokkur: Ferðalög

Skurðpunktar - þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast á Íslandi

Skurðpunktakort

Eitt er að fá skrítnar hugmyndir og annað er að framkvæma þær. Og þegar búið er að framkvæma þær, er síðasta áskorunin eftir sem að gera eitthvað úr öllu saman til að festa verkið í sessi svo aðrir geti furðað sig á tiltækinu. Kannski á þetta við um uppátæki mitt sem var að eltast við þá staði á landinu þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast í heilum og óskiptum tölum - eða Skurðpunkta eins og ég kalla þessa staði sem eru alls 23 hér á landi innan strandlengjunnar.

 

Sprengisandur

Eins og gefur að skilja kölluðu þessir skurðpunktaleiðangrar á mikil ferðalög og göngur enda liggja staðirnir afar misvel að vegakerfi landsins. Ég var reyndar ekkert að flýta mér um of í þessu verkefni. Heimsótti fyrstu punktana sumarið 2013 og kláraði þann síðasta á Sprengisandi sumarið 2019, en þaðan er einmitt myndin hér að ofan.

Áður en hafist var handa hafði ég undirbúið mig vel, kynnt mér staðina sem best ég mátti og látið útbúa gulan ferning 40x40cm að stærð sem hægt væri að taka í sundur með einföldum hætti og fella ofan í bakpoka. Guli ferningurinn var þannig notaður til að afmarka skurðpunktinn á hverjum stað en var um leið einskonar rammi utan um sjálfa skurðpunktamyndina sem tekin er niður á jörðina, samanber þessar tvær myndir sem teknar eru nákvæmlega 65,0000°N/19,0000°W og 66,0000°N/17,0000°W.

2 skurðpunktamyndir

Með þessu fæst ágætis kerfisbundinn þverskurður af landinu, jafnt grónu landi sem og hinum tilkomumiklu auðnum landsins, en svo vill reyndar til að engin skurðpunktanna lendir á jökli.

Margt er auðvitað hægt að segja um staðina og öll ferðalögin og það hefur vissulega verið gert. Mér hlotnaðist til dæmis sá heiður að fá heilsíðuviðtal í sjálfu Morgunblaði allra landsmanna þann 31. mars síðastliðinn. Tilefnið var ekki bara verkefnið sem slíkt, heldur líka útkoma bókarinnar Skurðpunktar sem ég setti saman en þar eru punktarnir teknir fyrir einn af öðrum í máli og myndum - og auðvitað kortum. Allt heilmikið verk sem skýrir að hluta hversu lítið hefur verið um bloggfærslur hjá mér undanfarin misseri. Jafnvel í miðjum eldsumbrotum!

Ekki nóg með það því núna stendur einmitt yfir sýning í Gallery Grásteini á Skólavörðustíg 4, þar sem öllum myndunum er raðað saman í þeirri röð sem þeir koma fyrir í landinu. Fyrst um sinna er bókin einungis fáanleg á sýningunni en dettur væntanlega inn í bókabúðir fljótlega. Þar með ætti ég að vera búinn að gera sæmilega úr öllu saman og festa verkið í sessi svo aðrir geti furðað sig á tiltækinu, en kannski ekki síður fengið splunkunýja og raunsæja sýn á landið okkar. Sjón er sögu ríkari, svo maður bregði fyrir sig auglýsingamáli.

Skurdpunktar_1920x1080

Skilti skolavorðustigur

 


Gengið eftir vegg Hadríanusar á Englandi

Þegar Rómverska heimsveldið var í sem mestum blóma snemma á 2. öld náði veldi þeirra meðal annars til stórs hluta Bretlandseyja. Framan af gilti það sama þar og víðar að útmörk, eða landamæri ríkisins, voru ekki alltaf í föstum skorðum vegna sífelldra tilrauna Rómverja til aukinna landvinninga eða utanaðkomandi árása óvina. Þetta breyttist hinsvegar í valdatíð Hadríanus keisara árin 117-137 því með valdatíð sinni vildi hann treysta sem mest innviði ríkisins og auka stöðugleika þess með varanlegri landamærum. Einn liður í þessum áherslum var að reisa myndarlegan landamæravegg á Bretlandseyjum lítið eitt sunnan við núverandi mörk Englands og Skotlands. Meðfram veggnum voru settar öflugar varðstöðvar og fjölmennar herbúðir til að halda í skefjum keltneskum þjóðflokkunum í norðri, nánar tiltekið Piktum, sem þá byggðu Skotland. Veggurinn hélt vel og markaði útmörk ríkisins á þessum stað allt þar til halla fór undan fæti og Rómverjar hófu að yfirgefa svæðið árið 410. Undantekning var þó þegar Antóníus, næsti eftirmaður Hadríanusar, ákvað að halda lengra í norður og hóf að reisa nýjan vegg álíka norðarlega og Glasgow er í dag. Það var hinsvegar feigðarflan og hörfuðu Rómverjar fljótlega aftur að fyrri landamærum við rammgerðan vegg Hadríanusar.

Veggur Hadríanusar kort
Veggur Hadríanusar stendur að hluta til enn í dag þótt hvergi sé hann í upprunalega ástandi. Heillegastur er hann á miðhlutanum þar sem hann liggur um strjálbýl heiðarsvæði en hann er hinsvegar alveg horfinn á þéttbýlli láglendissvæðum við báða enda, þar sem eru borgirnar Newcastle í austri og Carlisle í vestri. Veggurinn var víðast hvar um 2-3 metra breiður og eitthvað meira á hæðina þannig að óhemjumikið grót þurfti í mannvirkið. Útveggirnir voru úr tilhöggnu grjóti sem auðvitað var tilvalið að endurnýta í seinni tíma mannvirki í gegnum aldirnar, svo sem kastala, kirkjur og klaustur. Það var í raun ekki fyrr en um miðja síðustu öld að talað var um að varðveita það sem eftir var af veggnum mikla og fyrir 20 árum var hann settur á heimsminjaskrá UNESCO sem eitt heillegasta landamæramannvirki frá dögum hins forna Rómaveldis.

Veggur Hadríanusar mynd 1
Svo maður beini sögunni að manni sjálfum þá hef ég lengi en þó óljóst vitað um tilvist þessa veggs. Einhverntíma síðasta vetur vorum við hjónin að skoða kort af Bretlandseyjum af Google Maps og beindist þá athyglin að vegg Hadríanusar. Þá kviknaði sú hugmynd hvort ekki væri tilvalið að ganga meðfram veggnum eða þar sem hann hafði legið. Reyndar var það ákveðið á staðnum með báðum greiddum atkvæðum án þess að vita hvort það væri hentugt eða yfirleitt gert. Nánari eftirgrennslan leiddi þó í ljós að töluvert er um að gengið sé eftir þessari leið. Sumir fara þá í nokkura daga gönguferð stranda á milli á meðan aðrir láta sér nægja dagsferðir eða heimsóknir að áhugaverðustu stöðunum. Leiðin, sem Bretarnir kalla Hadrian's Wall Path, hefur öll verið merkt svo enginn þurfi að villast að óþörfu um enskar sveitir á svæðum þar sem engin ummerki um vegginn eru lengur til staðar.

Sunnudaginn 21. júlí vorum við síðan mætt til Newcastle og hófum gönguna skammt þar fyrir vestan. Við tók 5 daga ganga eftir Hadrian's Wall Path allt vestur til Carlisle. Dagleiðirnar voru 13-24 kílómetrar, samtals um 80 kílómetrar, en þá slepptum við reyndar bláendunum til sitthvorar strandar. Á gönguleiðinni var ýmislegt áhugavert að sjá fyrir utan leyfarnar af veggnum. Gangan um enskar sveitir var hin athyglisverðasta þótt veðurlagið væri upp og ofan þar sem skiptust á skin og skúrir. Enskar kindur eru mjög gæfar og hlaupa ekki undan á harðaspretti eins og þær íslensku. Stundum gekk maður líka innan um nautgripi sem voru sem betur fer einnig að spakara taginu. Heiðarnar norður af veggnum er mjög strjálbýlar enda njóta þær einhverskonar friðunar varðandi næturbirtu svo hægt sé að nýta kvöldhimininn til stjörnuskoðunar. Greinilegt var að flugherinn nýtir einnig svæðið sem æfingasvæði enda mátti stundum heyra drunur miklar þegar herþotur rufu hljóðmúrinn. Það sem eftir var af gamla múrnum hans Hadríanusar stóð það þó allt af sér.

Ljósmyndirnar sem fylgja eru teknar úr gönguferðinni.

Veggur Hadríanusar mynd 2

Við upphaf göngu í góðu veðri skammt vestur af Newcastle. Steinveggurinn sem þarna sést er hefðbundinn enskur sveitaveggur frá seinni tíð.

Veggur Hadríanusar mynd 3

Skjótt skipast veður í lofti. Blogghöfundur stendur þarna hundblautur undir lok fyrsta göngudags þegar komið var að fyrsta búti af vegg Hadríanusar.

Veggur Hadríanusar mynd 4

Enskar kindur að spóka sig við rústir rómverskrar varðstöðvar.

Veggur Hadríanusar mynd 4

Eitt af þekktari kennileitum gönguleiðarinnar er Sycamore Gap. Tréð þarna er vinsælt myndefni enda mun það hafa komið við sögu í vinsælli kvikmynd um Robin Hood og var kosið tré ársins í Bretlandi árið 2016.

Veggur Hadríanusar mynd 5

Eitt fjölmargra upplýsingaskilta á leiðinni. Myndin á skiltinu sýnir hvernig veggurinn stóð á brún klettaveggs sem þarna liggur um sveitir og er um leið náttúrulegur þröskuldur innrásarherja. Myndin stækkast með ásmellingu ef einhver vill rýna í smáa letrið.

Veggur Hadríanusar mynd 6

Stór hluti göngunnar lá annars um enskar sveitir þar sem engan fornan vegg er að finna lengur. Ótal hliðum þurfti að ljúka upp á leiðinni og á sumum þeirra mátti finna gagnlegar upplýsingar og viðvaranir. Gangan í heildina var því ágætis kynning á landbúnaðarháttum heimamanna auk þess að gefa innsýn í hina sögulegu fortíð. Ferðin gekk mjög vel þrátt fyrir misjafnt veður og dýrin í sveitinni voru hin spökustu þótt vissara var að fara með gát þegar tortryggnir nautgripir urðu á vegi manns.

Veggur Hadríanusar mynd 7

Að lokum er það svo stemningsmynd frá Carlisle þar sem ganga okkar endaði. Kvöldsólin var ekki af verri endanum í þessum vinalega bæ.

 


Til Vesúvíusar og Pompeii

Lengi hefur það verið á óskalista mínum að heimsækja vettvang atburðanna þegar borgirnar Pompeii og Herculaneum grófust undir ösku og eimyrju af völdum hamfaraeldgossins í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Þessi för varð að veruleika föstudaginn 24. júní í tengslum við Rómarferð en þangað hafði ég heldur ekki komið áður og var kominn tími á að bæta úr því. Farin var skipulögð dagsferð í rútu frá Róm með fararstjórum þar sem boðið var upp á skoðun á rústasvæði Pompeii og ferð upp á Vesúvíus en það getur verið nokkuð snúið að ná því hvoru tveggja á eigin vegum á einum degi. Þarna er mikið ferðamannakraðak, sérstaklega við túristamiðstöðina við Pompeii og þurftu fararstjórar hinna ýmsu hópa að hafa sig alla við að týna ekki sinni hjörð og halda hópnum saman.

Pompei og Vesúvíus
Rústasvæðið er auðvitað allt hið merkilegasta  en þegar þangað var komið ákváðum við skötuhjúin að rölta frekar um svæðið á eigin forsendum í staðin fyrir að halda hópinn, með góðfúslegu leyfi fararstjóra. Við urðum sjálfsagt af einhverjum fróðleik sem leiðsögukona útvarpaði í heyrnartól hvers og eins, en það er kannski þannig með okkur Íslendingana að við erum ekki eins miklar hópsálir og aðrir - nema kannski þegar kemur að fótbolta. Er við höfðum sameinast hópnum á ný á tilsettum tíma á réttum stað, var boðið upp á pizzuveislu (hvað annað?) áður en haldið var áfram með rútunni upp að Vesúvíusi þar sem ekið var eftir þröngum hlykkjóttum vegi langleiðina upp fjallið. Þar við bílastæðið var auðvitað veitinga- og minjagripasala og fullt af klósettum fyrir þá sem voru í spreng.

Vesúvíus - GígurUm 200 metra hækkun er frá bílastæði og upp að gígbrún í um 1200 metra hæð en þangað liggur góður göngustígur. Þótt Vesúvíus láti ekki mikið yfir sér þá er  toppgígurinn sjálfur nokkuð hrikalegur og djúpur að innanverðu með þverhníptum veggjum nær allan hringinn. Hægt var að ganga meðfram hálfum gígbarminum eftir göngustíg en hinn hlutinn er lokaður enda illfært klungur þar sem almenningur getur farið sér að voða. Talsvert var af ferðafólki þarna uppi og meira að segja hægt að kaupa minjagripi og smáveitingar á þremur stöðum við sjálfa gígbrúnina.

Sígild spurning varðandi eldfjöll snýst um hvenær næsta gos verður í fjallinu. Í ljósi sögunnar og aðstæðna flokkast Vesúvíus sem eitt af hættulegustu eldfjöllum jarðar. Kvikuþró fjallsins er mjög stór og mikil sprengivirkni og öskufall einkennir stærstu gosin. Hættulegust eru þó gusthlaupin sem verða þegar gosmökkurinn hrynur niður og eyðir öllu sem fyrir verður samanber það sem gerðist þarna árið 79. Gostíðni Vesúvíusar er hinsvegar mjög óregluleg og almennt eru gosin stærri eftir því sem goshléið á undan er lengra. Síðast gaus í fjallinu árið 1944 en þá rann dálítið af hrauni niður í byggð en fjallið náði þó að framkalla eina sæmilega sprengingu sem sendi ösku yfir nærliggjandi svæði. Það var fjórða gosið frá aldamótunum 1900 en tíð gos höfðu þá verið í fjallinu allt frá stóru og mannskæðu gosi árið 1630 sem einmitt kom eftir meira en tveggja alda hvíld. Fyrir stórgosið árið 79 hafði Vesúvíus ekki gosið í um 300 ár svo vitað sé og mun lengra var í verulegt gos.

Fyrir gosið árið 79 var Vesúvíus vaxið þéttum gróðri upp á topp og fjallið talið hættulast með öllu. Fólk var einnig alveg grunlaust um að hamfaragos væri í vændum þrátt fyrir ýmsa fyrirboða sem gætu talist augljósir í dag, svo sem mikil jarðskjálftavirkni og aukin jarðhitavirkni sem þurrkaði upp vatnsuppsprettur. Gosið sjálft stóð aðeins yfir í 2 daga en mestu hamfarirnar riðu yfir snemma morguns daginn eftir að gosið hófst. Í gosinu hurfu bæirnir Pompeii og Herculaneum af yfirborði jarðar enda grafnir niður í nokkurra metra þykkt öskulag auk þess sem strandlínan færðist utar um nokkra kílómetra. Samanlögð íbúatala bæjanna gæti hafa verið allt að 20 þúsundum en mannfall er á reiki. Nú er talað um að 2.000 manns gætu hafa látist af völdum gossins sem er lægri tala en oft hefur sést áður sem þýðir að verulegur fjöldi hefur þrátt fyrir allt náð að koma sér undan áður en gosstrókurinn hrundi yfir byggðir.

Vesúvíus - Napólí
Nú á dögum er fólk meðvitað um hættuna sem þarna er ávallt til staðar. Þrátt fyrir það er talsverð byggð á svæðinu sem teygir sig upp í hlíðar Vesúvíusar. Gróðursælt er í hlíðum fjallsins enda jarðvegur frjósamur eins og gjarnan í nágrenni eldfjalla. Fólk treystir hinsvegar á náttúrulega fyrirboða og nákvæma vöktun jarðvísindamanna. Allt hefur verið með kyrrum kjörum síðustu ár og áratugi en líkur á að næsta gos verði stórt, aukast með hverjum áratug sem hvíldartíminn lengist. Miðað við fyrri hegðun er fjallið þó ekki tilbúið í hamfaragos en til þess þarf fjallið að safna kröftum í að minnsta kosti 100 ár til viðbótar ef eitthvað er annars að marka slíka útreikninga.

Áhyggjur manna snúast þó ekki bara að Vesúvíusi sjálfum. Svæðið í heild sinni í nágrenni Napólíflóa er raunar samfellt eldfjallasvæði sem lætur lítið yfir sér á yfirborðinu og hefur verið til friðs lengi. Þarna eru stórar öskjur og undir þeim fleiri kvikuþrær. Stærsta kerfið nefnist Campi Flegrei og nær að hluta inn í borgina Napólí. Í raun má segja að þetta sé ein allsherjar ofureldstöð sem sífelld ógn stafar af fyrir þær þrjár milljónir manna sem búa á svæðinu frá Napólí til hlíða Vesúvíusar og sé fyrirvarinn stuttur er alveg óvíst að hægt sé að rýma svæðið á tilsettum tíma. Fyrir stærstu gosin ætti forleikurinn samt að gefa íbúum ráðrúm til að hugsa sinn gang. Það má samt hafa í huga að allra stærstu gosin sem möguleg eru á svæðinu eru hamfarir sem snerta mun stærra svæði en Napólíflóann. Þar má til dæmis nefna gos fyrir tæpum 40 þúsund árum en þá er talið að aska hafi fallið yfir hálfa Evrópu. Þetta stórgos er jafnvel nefnt sem einn af þeim þáttum sem gerði út af við Neanderthalsmanninn í álfunni á sínum tíma. Vér nútímamenn förum vonandi eitthvað betur út úr slíkum hamagangi en eitt er víst að Ítalía yrði ekki söm og áður. Ég er þó allavega sloppinn aftur heim í öruggt skjól á okkar eldfjallaeyju.


Gengið á Ben Nevis

Það var fyrir rúmu ári síðan að ég fór að spá í hvernig best væri að bregðast við yfirvofandi persónulegum tímamótum hjá mér sem tilkomin eru af notkun okkar á tugakerfinu við aldursákvarðanir sem og annað. Það sem kom strax upp í hugann var að ganga á eitthvað gott fjall erlendis sem risi hærra en önnur fjöll í viðkomandi umdæmi eða landi og leiddu þær pælingar fljótlega til Skotlands þar sem er að finna hæsta fjall Bretlandseyja, Ben Nevis, 1344 metrar á hæð. Annað vissi ég svo sem ekki um þetta fjall en eftir smá eftirgrennslan komst ég að því að þetta væri vel göngufært og talsvert gengið.

Ben Nevis kort
Auðveld aðkoma er að Ben Nevis sem stendur rétt ofan við bæinn Fort William. Talað var þó um að Ben Nevis væri fjall sem ekki ætti að vanmeta. Þar uppi sæist sjaldan til sólar - hvað þá til annarra fjalla, auk þess sem þar geisuðu gjarnan miklir vindar sem svipt gætu mönnum fram af hengiflugum, færu þeir ekki varlega. Þetta ætti ekki síst við á haustin þegar Atlantshafslægðirnar fara að gerast ágengar enda ekki að ástæðulausu að stofnað var til veðurathugana á þessum stað seint á 19. öld. Þetta var sem sagt ákveðið. Konan féllst á að taka þátt og var bókuð gisting við fjallsrætur í bænum Fort William. Uppganga yrði stóra daginn, 30. september, en ef illa viðraði var dagurinn á eftir til vara.

Þegar leið á september og styttast fór í þetta var auðvitað legið yfir veðurspám sem voru æði síbreytilegar - allt frá óskaplegri blíðu til stórviðra af verstu gerð. Tilefni til bjartsýni fór þó vaxandi vegna mikils hæðarsvæðis sem gerði sig líklegt að leggja undir sig Bretlandseyjar. Það stóðst, því þegar komið var til staðarins og uppgöngudagur rann upp, var heiður himinn, logn en dálítið morgunsvalt og fjallið blasti við í allri sinni dýrð.
Ben Nevis Stígur

Stígurinn sem liggur upp fjallið var upphaflega ætlaður hestum sem fluttu vistir til veðurathuganamanna á fjallstoppinum. Stígurinn er aldrei verulega brattur þar sem hann liggur í hlykkjum utan í hlíðunum en er þó nokkuð grófur á köflum. Árið 1911 vildu menn sýna fram á hversu nýjustu bifreiðarnar væru megnugar þegar tókst að drösla einu Ford-T módeli alla leið upp í auglýsingaskyni. Sú ferð tók að vísu næstum þrjá daga með miklum tilfæringum en niðurleiðin var hinsvegar farin á þremur klukkutímum.

Ben Nevis toppur
Á toppi Ben Nevis er mjög stórgrýtt og eru leifar mannvirkja áberandi en þær tengjast mönnuðu veðurathuganastöðinni sem þarna var rekin á árunum 1883-1904. Vinnan þar hefur sjálfsagt verið harðneskjuleg í verstu vetrarveðrunum og örstutt í þverhnípt hengiflug. Með tilkomu göngustígsins og starfseminnar á Ben Nevis varð þetta fljótlega vinsæl gönguleið ferðafólks og svo fór að reist var gistiheimili við hlið hýbýla veðurathuganamanna og segir sagan að þeim hafi stundum þótt nóg um ónæðið af völdum góðglaðs göngufólks. Gistiheimilið hélt velli í nokkur ár eftir að veðurathuganastöðin var lögð niður en í dag standa veðurbarðar rústirnar einar eftir af öllu saman.

Ben Nevis rústir
Það var hinsvegar enginn veðurbarningur þennan síðasta dag septembermánaðar á Ben Nevis árið 2015. Þeir sem lögðu á sig gönguna alla leið á toppinn voru því alveg í skýjunum þótt engin ský væru á lofti enda upplifðu menn þarna einstaka veðurblíðu með stórbrotnu útsýni í allar áttir þar sem hver Skoski fjallstoppurinn tók við af öðrum. Þetta munu vera leifar gamalla fellingafjalla sem mynduðust fyrir um 400 milljón árum þegar mikið sameiningarferli meginlanda átti sér stað og hefur verið kölluð Kaledóníufellingin og er myndun Noregsfjalla einnig hluti af því ferli. Ekki sást til snjóa í fjöllum en þó örlaði enn á smásköflum í skuggsælum giljum þarna neðan við fjallstoppinn.

Ben Nevis útsýni
Niðurleiðin er auðvitað jafn löng og uppgangan. Það var lýjandi að feta sig alla þessa leið niður eftir hörðum stígnum og maður hefði alveg þegið góðan snjóskafl til að renna sér niður eins og gjarnan á íslenskum fjöllum. En þessi tímamótaferð lukkaðist sem sagt vonum framar. Helst að bakpokinn hafi verið óþarflega úttroðinn af ónotuðum skjólfatnaði sem þó er alltaf vissara að hafa með á fjöll. Tala nú ekki um þegar um er að ræða hæsta fjall Bretlandseyja, svo hátt sem það nær.

Ben Nevis - EHV

Karlinn sjálfur á toppnum.


Punktaferð

Bíll - upphaf
Stundum þarf dálítið að leggja á sig til að sinna sérviskulegum áhugamálum. Hér hef ég lagt bílnum við illfæran vegarslóða sem liggur vestur af Kjalvegi um 20 km norður af Hveravöllum. Vegarslóðinn sem kenndur er við Stórasand er ekki gerður fyrir minn bílakost og því ekki um annað að ræða en að hefja gönguna þarna. Átti svo sem ekki von á öðru. Þá er bara að reima á sig gönguskóna, skella bakpokanum á sig og halda af stað með GPS-tækið við höndina. Dagurinn er 26. júlí og klukkan 10 að morgni. Framundan er löng ganga um hrjóstrugt landslag, 19 km í beinni línu að ákvörðunarstað og aftur til baka. Meðferðis bakpokanum er aukaklæðnaður ef veðrið skyldi versna auk ýmislegs annars svo sem drykkjar- og matarföng fyrir heilan dag og auðvitað myndavélin og guli sérsmíðaði ramminn.

Gönguleið 65n22w
Og svo er gengið - og gengið - og gengið. Og þegar búið er að ganga lengi á eftir að ganga mjög lengi til viðbótar, upp og niður brekkur, yfir mela, þúfur, mýrar og eyðisanda. Veðrið er gott í fyrstu en fljótlega hrannast upp skúraský á víð og dreif og úr einu slíku hellist vætan yfir mig. Veðrið batnar á ný og með hverju skrefi fækkar kílómetrunum uns loks er komið að ákvörðunarstað á eyðilegum mel þar sem GPS-tækið sýnir að hnitin eru nákvæmlega 65°,00000 norður og 20,00000° vestur. Klukkan er þarna að nálgast 6 síðdegis. Gangan hefur tekið tæpa 8 tíma og aftur farið að rigna.

GPS 65n22wAkkúrat þessi punktur er einn þeirra 23ja staða þar sem lengdar- og breiddarbaugar mætast á heilum tölum hér á landi en markmiðið er einmitt að heimsækja þá flesta og helst alla áður en yfir líkur. Með þessari ferð eru þeir orðnir 8 talsins en sá 9. bættist við síðar. Ýmsir spennandi punktar eru eftir, sumir þeirra erfiðir en enginn þó ómögulegur.

En nú þarf að hefjast handa. Fyrsta verk er að ljósmynda GPS tækið með hnitunum en það getur reynt dálítið á þolinmæðina því tækið vill dálítið skipta um skoðun varðandi síðasta aukastafinn sem getur kostað tilfæringar um 2-3 skref í einhverja áttina. Þegar góð sátt næst um staðsetninguna er guli ramminn sóttur, skrúfaður saman, lagður á jörðina á réttan stað og látinn snúa rétt miðað við höfuðáttir. Myndatakan hefst þá fyrir alvöru. Á sjálfri punktamyndinni er horft beint niður á það sem er innan rammans. Í þessu tilfelli er það möl og grjót ásamt nokkrum fíngerðum og hraustum fjallaplöntum sem vaxa upp úr rýrum jarðvegi sem kannski hefur einhvern tíma fóðrað þéttari gróður þarna í 780 metra hæð norðvestur af Langjökli. Aðrar myndir eru svo teknar til að sýna afstöðuna í umhverfinu í sem flestar áttir.

Rammi 65n22w
Horft í norðvestur að punkti: 65° norður og 20° vestur.

Punktur 65n22w
Horft niður að punkti: 65° norður og 20° vestur.

 

Að ljósmyndun og næringu lokinni er lagt að stað sömu leið til baka og er sú leið alveg jafn löng. Nestið dugar ágætlega en farið er að ganga á drykkjarbyrgðir og ekkert vatn á leiðinni sem gagn er að. Það bjargar þó málum að rakt er í veðri og bakpokinn farinn að léttast. Allt kvöldið fer í gönguna sem sækist hægt en örugglega. Smám saman skyggir og sólroðinn yfir Vatnsdalsfjöllum í norðri dofnar og hverfur. Í rökkrinu fara að heyrast ískyggileg hljóð sem skera hálendisþögnina og líkjast mennskum öskrum sem enda í ámátlegu væli. Þessi hljóð gætu sjálfsagt ært draugahrædda en sennilega er þarna tófan á ferð. Rökkrið breytir allri skynjun. Grettistök í fjarska taka að líkjast byggingum eða farartækjum og eitt sinn horfi ég niður á húsþök sem reynast vera mýrarvötn þegar nær er komið. Allt mitt traust er sett á staðsetningartækið sem vísar mér beinustu leið aftur að slóðanum illfæra þar sem bíllinn hefur beðið þolinmóður í fimmtán og hálfan tíma. Tjaldið beið svo á Hveravöllum. Þetta var góð ferð.

Krákshraun

Fáfarnar slóðir á hálendinu norðan Langjökuls. Krákshraun og fjallið Krákur.

 


Tröllasteinar á heiðinni

Hraundalur

Laugardaginn 17. ágúst fór ég í afskaplega langa og krefjandi gönguferð um heiðarnar norðan Hraundals sem liggur austur úr Ísafjarðardjúpi og var ég kominn alla leið að Ófeigsfjarðarheiði er ég snéri við og gekk heiðarnar sunnan dalsins til baka. Samkvæmt mælingu eru þetta um 36 kílómetrar og tók leiðangurinn um 18 klst með góðum og gagnlegum stoppum sem meðal annars voru nýtt til myndatöku. Um Ófeigsfjarðarheiði liggur gömul gönguleið milli Ísafjarðardjúps og Strandasýslu með listilega hlöðnum vörðum enda nægt framboð af efnivið í slík mannvirki á heiðinni. Svæðið er skammt sunnan Drangajökuls og lá leiðin meðal annars um forna jökulruðninga og mikið grjótlandslag þar ýmsar steinrunnar kynjaverur urðu á vegi manns eins og sjá má í eftirfarandi myndaseríu.

Skjaldfönn

Við upphaf göngunnar er hér horft að bænum Skjaldfönn í Skjaldfannardal sem ber nafn með rentu, ekki síst nú í sumar þegar snjóskaflar eru með meira móti. Hraundalsáin rennur þarna úr Hraundalnum en hún á upptök sín á Ófeigsfjarðarheiði.

Hraundalur1
Kominn hér langleiðina inn eftir og sér í norður í átt til Drangajökuls. Skriðjöklar fyrri tíma hafa sumstaðar skilið eftir myndarlega grjóthnullunga á klöppum, nema einhver tröllin hafi verið í framkvæmdum.
 
Hraundalur2
Ein af vörðunum á Ófeigsfjarðarheiðinni. Þessi er með gægjugati og þegar horft er í austur sést til fjalla Strandamegin.
 
Ófeigstaðaheiði3
Einsamalt risabjarg með skepnulegt höfuðlag. Grameðla kannski?
 
Hraundalur3
Svo kom ég að þessum kjálkabrotna grjóthnullungi sem er allt annað en vingjarnlegur á svip. „Hvurn fjandann ertu að vilja hér upp á heiðinni?“ heyrðist mér hann segja.

Ófeigstaðaheiði
Þegar sól fór að lækka á lofti skipti grjótið um lit og enn fleiri persónur komu í ljós. Prófíllinn á þessum er nokkuð viðkunnanlegur, kannski er þetta hetjan góða.

Ófeigstaðaheiði2
Þessi var öllu skuggalegri þar sem hann fylgdist með mér úr fjarska. Þegar hér var komið var best að koma sér til byggða enda farið að kvölda og löng ganga eftir.
 

 


Gengið yfir Fimmvörðuháls

Hraun og stikaÞað má segja að Fimmvörðuhálsinn hafi slegið rækilega í gegn með eldgosinu sem þar kom upp í mars 2010. Það var líka sannkallað túristagos og í góðu samræmi við það voru nokkrar göngustikur einu mannvikin sem lentu undir hrauni. Sjálfur fylgdist ég með vel gosinu eftir bestu getu, spáði í hraunstraumana, lá yfir vefmyndavélum og fannst þetta allt nokkuð stórkostlegt því þótt gosið hafi verið smærra móti var staðsetningin afar athyglisverð og aldrei var að vita hvert framhaldið yrði. Mesta upplifunin var svo auðvitað þegar ég gekk, eins og sumir aðrir, alla leiðina frá Skógum að gosstöðvunum og sömu leið til baka í björtu veðri og töluverðu vetrarfrosti. Það var þó ekki fyrsta ferð mín upp á Fimmvörðuháls því árið 1994 gekk ég hina klassísku leið frá Skógum yfir í Þórsmörk.

Sunnudaginn 26. ágúst s.l. var svo komið að þriðju ferð minni á hálsinn sem ég fór ásamt góðum hópi vinnufélaga þannig að nú hef ég farið þetta fyrir og eftir gos – og líka í gosinu sjálfu. Þessi síðasta ferð var ákveðin fyrir nokkrum mánuðum en þegar nær dró fóru veðurspár að gerast tvísýnar og full ástæða að taka mið af þeim vegna þess veðravítis sem Fimmvörðuhálsinn getur verið. En þrátt fyrir óuppörvandi veðurspár var mætt að Skógum kvöldið áður og vonað það besta. Það borgaði sig því þennan sunnudag var veðrið með besta móti, úrvals skyggni alla leiðina og passlegur vindur, svona rétt til að koma í veg fyrir ofhitnun göngumanna.

Svo ég segi fyrir mig þá er þessi staður þar sem gosið kom upp einn af stórbrotnustu stöðum landsins og ekki versnaði það með viðbótinni sem kom upp með eldsumbrotunum. Gosið í Eyjafjallajökli hafði líka sitt að segja því aska liggur víða í sköflum og eykst eftir því sem ofar dregur frá láglendi. Merkilegt var að sjá hvernig snjóskaflar bregðast við öskunni ofan á sér því þegar snjórinn undir bráðnar, myndast heilmiklar þúfur og eins gott að passa upp á að falla ekki niður í göt sem bræðsluvatn hefur myndað að neðanverðu.

Best að skella inn nokkrum myndum. En fyrst má geta þess að gengið var meðfram fossunum alla leið upp en þeirri leið er einmitt lýst í bókinni GÖNGULEIÐIN YFIR FIMMVÖRÐUHÁLS sem hann Sigurður stórbloggari Sigurðarson var að gefa út og segir betur frá á sinni síðu. Þegar sú leið er farin er komið upp heldur vestar en oftast hefur verið farið.

Fimmvörðuháls1

Einn af fjölmörgum fossum á leiðinni upp.

Fimmvörðuháls2

Hér er hópurinn kominn á Fimmvörðuháls og allt er öskugrátt. Þarna var dálítill farartálmi vegna vatnsins sem streymdi undan stórum snjóskafli. Nýju fellin er þarna lengst til vinstri.

Fimmvörðuháls3

Sandhjúpaður snjóskafl með þúfum og ginnungargöpum.

Fimmvörðuháls3

Eldfellið Magni í öllu sínu veldi.

Fimmvörðuháls5

Hér er horft niður Bröttufönn (sem er engin fönn lengur) í átt að Mýrdalsjökli. Lengst niðrí Hrunagili má sjá glitta í nýja hraunið. Ofan á því rennur vatn sem kemur af fossinum þarna hægra megin.

Fimmvörðuháls6

Hér sést Hrunagilið og storknað hraunið sem féll þar niður í háum fossi uns það hafði hlaðist nógu vel upp í botninum til að mynda rennibraut. Þegar sú braut var almennilega tilbúin tók hraunið hinsvegar að streyma niður Hvannárgilið sem er vestar, byrjaði svo að renna þarna niður aftur, svo fór að gjósa á hinni sprungunni sem aftur dró úr hraunrennsli þarna.

Fimmvörðuháls8

Svo er það bara leiðin niður Þórsmerkurmegin.

- - - - -

Í bloggfærslunni MYNDIR AF VETTVANGI er greint frá gosferð minni að eldstöðvunum þann 27. mars 2010.


Á toppi Botnsúlna

Undanfarin sumur hef ég komið mér upp þeirri venju að ganga einsamall á eitthvert gott fjall sem ég hef ekki gengið á áður. Bestar eru þessar göngur þegar maður á fjallið alveg útaf fyrir sig og nægur tími til ráðstöfunnar. Það eru alltaf takmörk fyrir því hversu miklar fjallgöngur skynsamlegt er að leggja út í einsamall en nauðsynlegt er þó að einhver viti af ferðum manns og svo er farsíminn auðvitað gagnleg uppfinning sem öryggistæki. Ekki fer ég þó í fjallgöngur til að hanga í símanum og ekki hef ég heldur með mér músíkgræjur nema kannski vasaútvarp til vonar og vara. Hinsvegar er fuglasöngurinn alltaf kærkominn þótt flytjendur hans séu ekkert alltof hressir með að ró þeirra sé raskað, svipað og með blessaðar rollurnar sem horfa á mann úr fjarska með tortryggnum augum.

Botnsúlur 1

En þá að fjalli sumarsins sem að þessu sinni var Syðsta-Súla í Botnsúlum sem blasir við ofan Þingvalla. Þangað fór ég þriðjudaginn 10. júlí í björtu og hlýju veðri en dálitlum vindi af norðri sem greinilega spólaði upp fínlegum söndum við Langjökul og olli mistri sem skerti heldur útsýnið í austur. Ég lagði í gönguna frá gamla túninu við Svartárkot ofan Þingvalla en til að komast að fjallinu þarf að krækja fyrir hið hyldjúpa Súlnagil. Bæði er hægt að fara upp fyrir gilið eða niður fyrir eins og ég gerði. Í heildina hef ég gengið nálægt 13 kílómetra í göngunni sem tók um 8 klukkutíma með góðum stoppum. Leiðin að fjallinu er mjög þægileg en sama er ekki hægt að segja uppgönguleiðina austast á hryggnum sem er stórgrýtt og laus í sér áður en komið er að miklu móbergsklungri.

Botnsúlur 2

Sjálfur hryggurinn er misgreiðfær og með ýmsum truflunum sem þarf að krækja fyrir, en þá er vissara að hafa í huga að norðurhluti hryggjarins er eiginlega bara hengiflug. Þótt ég sé ekki mjög lofthræddur þá hvarflaði samt að mér á tímabili að þetta ferðalag væri kannski ekki svo mjög sniðugt. En þá var bara að fara varlega og ana ekki að neinu. Útsýnið var líka stórbrotið, ekki síst þegar horft var í norður þar sem fleiri og öllu óárennilegri Botnsúlur blöstu við í þessum fjallaklasa. Fjær mátti sjá Langjökul, Þórisjökul, Okið og fleira flott.

Botnsúlur 3

Sjálfum toppnum var að lokum náð. Syðsta-Súla er 1093 metrar á hæð og um leið hæsti tindur Botnsúlna. Á hæsta punkti er steyptur landmælingastöpull þar sem tilvalið er að stilla upp myndavélinni og láta sjálftakarann mynda kappann með Hvalfjörðinn og hálfan Faxaflóan í baksýn.

Á bakaleiðinni lagði ég smá lykkju á leið mína til að skoða Súlnagilið. Það kom mér á óvart hversu hrikalegt það er en það hefur grafist lóðrétt og djúpt niður í þykkan mósbergsgrunn og svo þröngt að ekki sést allstaðar til botns.

Súlnagil


Veðurteppt Grænlandsferð

Nuuk gamli bærinn

Ég lagði upp í mína fyrstu Grænlandsferð um miðja síðustu viku og varð sú ferð satt að segja heldur lengri en búist hafði verið við. Þetta var vinnutengt ferð til höfuðstaðarins Nuuk sem sem er á vesturströnd Grænlands álíka norðarlega og Reykjavík. Ferðin var góð og gagnleg sem slík. Miðvikudaginn 25. ágúst þegar við komum á staðinn var veðrið líka fínt og náttúran skartaði sínu fegursta. Það breyttist hinsvegar til hins verra strax daginn eftir.

Nuuk útsýni2Þegar kom að heimför á föstudeginum og fólk mætt út á flugvöll varð öllum ljóst skilyrði til flugferða voru ekki upp á það besta, eða réttara sagt, vindurinn á flugvellinum var þvílíkur að maður var eiginlega fegnastur því að takast ekki sjálfur á loft, enda fór það svo að flugvélin sem átti að koma okkur heim náði aldrei að lenda. Daginn eftir, á laugardeginum, urðu vonir um flugferð aftur að engu þegar við fengum þær fréttir að ekkert yrði flogið þann dag á vegum Flugfélags Íslands. Á sunnudeginum var enn sami strekkingsvindurinn og rigning. Þrátt fyrir það voru farþegar boðaðir út á flugvöll, bókað í vél og farangur innritaður því aftur átti flugvél að vera á leiðinni. Allt kom þó fyrir ekki því aftur þurfti vélin frá að hverfa vegna hvassviðris á flugvellinum og var þá svona heldur farið að reyna á þolinmæði farþega. Það var svo ekki fyrr en á mánudeginum sem vindinn lægði fyrir alvöru og sem betur fer náðu Flugfélagsmenn að koma vél til Nuuk við góðan fögnuð strandaglópskra ferðalanga.

Maður komst vel að því þarna hvað veður getur sett strik í reikninginn þegar kemur að ferðalögum, og slæmt veður er auðvitað fylgifiskur þess að vera veðurtepptur. Því var ekki alveg hægt að njóta staðarins til fulls, en fyrir utan vindinn þá rigndi þarna nánast stöðugt frá fimmtudegi til mánudags vegna þrálátrar lægðar suðvesturundan landinu. Trúboðinn Hans Egede og stofnandi staðarins var heldur ekki mikið að hugsa flugsamgöngur á sínum tíma enda var hann uppi á 18. öld. Flugvöllurinn í Nuuk (Godthåb) er nefnilega einn af erfiðustu flugvöllum á Grænlandi en margir helstu flugvellir landsins eru betur staðsettir lengra inn í hinum stóru fjörðum sem þarna eru. Vegasamgöngur eru þar að auki engar á milli þéttbýlisstaðanna sem eru mjög dreifðir í þessu stóra landi. Grænland er samt merkilegt land og Grænlendingar merkileg þjóð og margt er þarna hægt að upplifa þegar betri aðstæður er í boði.

Nuuk flugvöllur

Langþráð flugvél lendir í Nuuk, mánudaginn 30 ágúst. Veðurathugunargræjur í forgrunni.


Á Neskaupstað

Neskaupstaður

Á ferðalagi um landið í síðustu viku kom ég við á Neskaupstað. Fyrir mig svona persónulega var þetta nokkuð stór stund því að Neskaupstaður var eini stóri þéttbýlisstaðurinn á Íslandi sem ég hafði ekki heimsótt áður. Staðurinn er heldur ekki í neinni alfaraleið en til að komast þangað þarf fyrst að fara í gegnum Reyðarfjörð, síðan Eskifjörð, þaðan upp svimandi háan fjallveg og í gegnum lítil og þröng göng í Oddskarði. Sömu leið þarf síðan til að komast til baka. Þetta ferðalag er þó vel þess virði enda landslagið stórbrotið, ekki síst þegar síðdegissólin keppir við austfjarðarþokuna um völdin.

Þegar komið var til Neskaupstaðar fannst mér fara vel á því að setja upp Kúbuhattinn góða sem ég er þó alla jafna ekki með á höfðinu. Neskaupstaður hafði lengi vel mikla sérstöðu meðal annarra þéttbýlisstaða því þar horfðu menn jú í austur í leit að pólitískum lausnum enda staðurinn oft kallaður Litla-Moskva. Á meðan Neskaupstaður var sjálfstætt sveitarfélag fór Alþýðubandalagið með völdin og menn skömmuðust sín ekkert fyrir sinn sósíalisma. Kannski skiptir þarna máli að Neskaupstaður er austasti þéttbýliskjarni landsins og þar með lengst frá Ameríku. Þessu er hinsvegar öfugt farið vestur í Keflavík þar sem Ameríkuáhrifin hafa verið allsráðandi.

Neskaupstaður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Fjarðabyggð. Staðurinn getur því ekki lengur státað af sinni pólitísku sérstöðu og kannski vilja íbúar lítið kannast við sína pólitísku fortíð. Kannski voru það áldraumarnir sem fór með hugsjónirnar. Allavega virðast tímarnir breyttir og kannski hefur menningarástandinu hnignað eitthvað í leiðinni, en staðurinn er eiginlega þekktastur í dag meðal yngra fólks fyrir sína árlegu þungarokkshátíð Eistnaflug.

Annars veit ég ekki mikið meira um þennan stað en man þó eftir snjóflóðinu mikla á áttunda áratugnum. Hinsvegar veit ég að á landbyggðinni er ég alltaf aðkomumaður og á eiginlega aldrei erindi út fyrir borgina nema sem ferðamaður. Ég get varla sagt að ég hafi stuðlað að framgangi neinna mála á landsbyggðinni með vinnuframlagi, allavega ekki þannig að ég hafi þurft að mæta á staðinn. Á Neskaupstað var ég þó mættur sem ferðamaður og sem slíkur gerði ég vonandi eitthvað gagn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband