Færsluflokkur: Ferðalög
13.6.2010 | 00:57
Heimsókn til Nýja heimsins
Síðustu viku gerði ég mér ferð vestur um haf til að njóta dásemdar hinnar miklu borgar Nýju Jórvíkur þar sem húsin standa upp á rönd í stórum stíl. Borgin sem er betur þekkt sem New York hefur ekki breyst mikið á þeim 22 árum sem liðin eru frá því ég kom þangað síðast, sumt er þó horfið eins og frægt er en annað hefur bæst við. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og til að gefa dálitla innsýn inn í það sem fyrir augum bar kemur hér einskonar myndablogg úr ferðinni.
Fyrir það fyrsta þá stenst ég ekki að birta þessa hafísmynd sem tekin er 4. júní við strendur Labrador, eða við Helluland eins og Leifur Eiríks og félagar kölluðu þetta hrjóstruga landsvæði. Þarna er greinilega frekar kuldalegt yfir að líta og vetrarísinn ekki alveg horfinn.
Öllu sumarlegra var í Miðgarði laugardaginn 5. júní þar sem borgarbúar hvíldu sig í 30 stiga hitamollu ættaðri beint frá Suðurríkjunum.
Á Tímatorgi er alltaf aragrúi af fólki og litríkum ljósaskiltum.
Hér kveður við annan tón í skiltagerð. Þetta fólk er statt neðst á Manhattan og er að mótmæla fyrirhugaðri moskubyggingu á þeim heilaga stað þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Hugmyndin með að reisa þarna mosku er sjálfsagt sú að sýna fram á umburðarlyndi og sáttahug New Yorkbúa gagnvart múslimum og kannski í leiðina að minnka líkurnar á nýjum hryðjuverkum. Það var þó ekki mikinn sáttahug að finna hjá þessu fólki ef marka má það sem á skiltunum stendur. Á meðan svo er má efast um hvort hugmyndir um moskubyggingu þarna sé sniðug. Erfitt getur þó verið að hætta við.
Enduruppbygging eru annars í fullum gangi þarna á Ground Zero. Turnarnir í baksýn voru hluti af World Trade Center en sluppu þegar allt annað hrundi. Þarna er One World Trade Center turninn byrjaður að rísa og verður með spíru og öllu saman hæsta bygging Bandaríkjanna, eða 541 metri sem gera 1776 fet sem kallast á við stofnár Bandaríkjanna. Til að forðast að storka vondum útlendingum munu þeir vera hættir við að kalla bygginguna Freedom Tower en auk hans eru einnig þrjú önnur háhýsi fyrirhuguð á svæðinu.
Ofar á Manhattan, í miðbænum, eru þessar byggingar. Chrysler-byggingin er fyrir miðju en hún var um tíma hæsta bygging heims þar til Empire State sló henni við. Chryslerinn er þó alltaf flottastur.
Minna fínni húsin líta gjarnan svona út. Brunastigar utan á húsum eru mikið notaðir í amerískum bófamyndum og njóta sína vel þarna í síðdegisbirtunni.
Best að enda þetta á borgarljósunum. Hér er horft frá Brooklyn brúnni yfir á háhýsin neðst á Manhattan. Ýmsir eru greinilega að vinna frameftir í þessari miðstöð fjármála. Smíði brúarinnar lauk 1883 og var auðvitað þar um mikið byggingarafrek að ræða. Eftir nokkur ár mun nýi One World Trade turninn gnæfa þarna yfir í baksýn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.10.2008 | 22:41
Kerhólakambur - hin leiðin á Esjuna
Flestir sem fara á Esjuna fara hina hefðbundnu leið eftir göngustígum sem liggur upp að Þverfellshorni. En það eru auðvitað fleiri leiðir á Esjuna eins og til dæmis leiðin upp að Kerhólakambi eða gamla Ferðafélagsleiðin eins og hún er stundum kölluð. Persónulega finnst mér þessi leið mun skemmtilegri ekki síst vegna þess að þarna eru engar halarófur af fólki og maður getur notið þess að eiga svæðið nánast útaf fyrir sig. Fyrir utan smá klettabelti neðst er leiðin frekar einföld, nánast ein samfelld brekka þar til komið er að skálinni þar sem litli skaflinn er þar svo áberandi á sumrin. Þar er svo farið upp og ekkert varið í annað en að fara alla leið að vörðunni sem þar er á hábungu Kambsins í 851 metra hæð og er hæsti hluti vestanverðar Esjunnar.
Og núna á laugardaginn var góður dagur til að fara á Kerhólakamb - bjart í veðri og úrvals skyggni. Nokkur strekkingur var að vísu í neðri hlíðunum og þegar upp var komið tók á móti manni alvöru vetrarríki með frábæru útsýni í hreina loftinu þar sem Hekla, Eyjafjallajökull og Vestmannaeyjar blöstu við í fjarska. Auðvitað er svo nauðsynlegt að hafa heitt kókómalt í brúsa og samlokur og njóta dásemdanna í rólegheitum þarna uppí hæstu hæðum.
Ferðalög | Breytt 19.10.2008 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2008 | 16:15
Gígjökull heimsóttur
Um helgina var ég á ferð um Suðurland og var tilvalið að skreppa áleiðis inn að Þórsmörk til að kíkja á Gígjökul sem er skriðjökullinn sem fellur niður í lón norður af Eyjafjallajökli. Þótt ég sé á fjórhjóladrifnum bíl er það ekki mikið torfærutæki og þurfti bíllinn því að taka á honum stóra sínum til að komast yfir nokkur vöð sem eru á leiðinni þarna inneftir, en þau voru nokkuð vatnsmikil enda hlýtt í veðri. Þarna var líka hópur útlendinga á tveimur Land Rover jeppum sem fannst þetta vatnasafarí æði spennandi og ógnvænlegt en farþegarnir kusu að fara yfir göngubrúna við lónið og ljósmynduðu grimmt þegar bílum þeirra var ekið yfir útfallið.
Ég hef ekki komið þarna í mörg ár og því ekki séð jökulinn eftir að hann tók að hopa svo mjög síðustu árin, en nú nær hann með herkjum ofan í lónið sem hann hálffyllti fyrir ekki svo mörgum árum. Það má vel sjá á landinu þarna hvernig jökullinn hefur legið áður þegar hann breiddi hvað mest úr sér. Jökullin skreið fram á 8. áratugnum og myndaði þá væntanlega sandölduna sem er lengst til vinstri á myndinni hér fyrir ofan, en kletturinn sem er hægra megin við neðsta hluta jökulsins kom ekki í ljós fyrr en upp úr aldamótunum 2000.
Eyjafjallajökull gaus síðast árið 1821 og því fylgdi mikið hlaup úr jöklinum sem sennilega hefur komið undan Gígjökli með tilheyrandi jökulburði. Síðan var þarna talsverður órói á árunum 1991-99 sem féll dálítið í skuggann af svipuðum atburðum í Mýrdalsjökli á þeim árum en ég hef heyrt jarðfræðing segja að litlu hefði mátt muna að gos yrði á þessum árum í Eyjafjallajökli.
- - - - -
Árið 1980 var ég í skólaferðalagi með Álftamýraskóla þar sem farið var inní Þórsmörk og stoppað við Gígjökul, en þá var myndin hér til hliðar tekin. Þá hefur jökullinn verið hvað stærstur nú í seinni tíð og þá þótti nokkrum alveg tilvalið að hlaupa út á skriðjökulinn sér til skemmtunar en kennurum til hrellingar. Það er örugglega minna gert af því í dag enda ekki mikill skriðjökull til staðar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2008 | 19:36
Antonio Gaudí og fagurfræði náttúrunnar
Þegar maður heimsækir Barcelóna sem ferðamaður og lítur á þær fjölmörgu minjagripaverslanir sem þar eru fer ekki milli mála hvað það er sem þykir túristavænast öðrum atriðum fremur, en það eru verk hönnuðarins og arkitektsins Antonio Gaudí sem bjó þar og starfaði á áratugunum um og eftir 1900. Það eru þó ekkert óskaplega margar byggingar sem hann lætur eftir sig en hinsvegar þykja verk hans svo sérstök að nánast allar hans byggingar eru í dag ekkert annað en fjölsóttir ferðamannastaðir eða söfn þar sem gert er út á verk listamannsins.
Frægasta verk hans og um leið eitt aðalkennileiti Barcelónaborgar er án efa kirkjubyggingin mikla La Sagrada Familia, sem hafist var handa við að byggja árið 1882, en sökum þess hve óskaplega stór hún er og flókin í smíðum sér ekki enn fyrir endann á þeirri byggingarvinnu. Þeir 8 turnar sem þegar eru risnir eru ekki annað en aukaturnar við hlið aðalturnana sem hafa ekki enn verið reistir, þar sem sá hæsti í miðjunni mun rísa í upp í 170 metra hæð. Það sem gerir Verk Antonio Gaudís svo sérstök eru hin óvenjulegu bogadregnu form og skreytilist allskonar sem er fengin úr náttúrunni sjálfri. Þarna eru engar beinar línur, öll form eru lífræn og jafnvel burðarvirki bygginganna eiga sér fyrirmyndir í náttúrunni. Það sem vakti fyrir Gaudí á sínum tíma var að þróa nýjan byggingarstíl sem átti að taka við af hinum reglufasta nýklassíska stíl sem hafði verið allráðandi í byggingarlist Evrópubúa og er uppruninn frá forn-Grikkjum og Rómverjum.
Þessi nýi stíll sem Gaudí þróaði í byggingarlist er náskyldur Art Nouveau stílnum sem fleiri listamenn og hönnuðir voru uppteknir við um aldamótin 1900. Hugmyndafræðin er í þá áttina að líta á manninn sem hluta af náttúrunni í stað þess að líta á að náttúran eigi að vera undirgefin manninum. Þetta þýddi þó ekki að allt ætti að vera í óskipulagðri óreiðu eða bara einhvernvegin, náttúran býr nefnilega yfir ströngum verkfræðilögmálum sem bæði virka og geta búið yfir mikilli fegurð. En fagurfræðin er þó ekki bara sótt til náttúrunnar, flest það sem var framandi og dularfullt þótti spennandi og því var skreytilistin oft sótt til annarra heimsálfa eins og Afríku. Þetta á sér líka hliðstæðu í dálætinu á hinu dulræna og forna sem einkenndi hugarheim manna um 1900, einskonar rómantísk tíska sem skýtur upp kollinum af og til í menningarsögunni, síðast árið 1968 þegar menn hlustuðu á gúrúa frá Indlandi, boðuðu afturhvarf til náttúrunnar og frið á jörð.
Tímabil hinnar náttúrutengdu fagurfræði sem Antonio Gaudí aðhylltist varð ekki langt. Í rauninni þóttu byggingar Gaudí vera allt of framandi og furðulegar á sínum tíma, ásamt því að vera afar flóknar í byggingu þar sem nánast hver steinn hafði sína eigin lögun og öll smáatriði voru með sínu lagi. Á sama tíma var líka að koma fram ný byggingaraðferð sem byggðist á stálgrindum og nýr stíll sem kallaðist funktionalismi þar sem allar línur voru beinar og öll horn 90 gráður. Sú stefna átti eftir að sigra heiminn og er enn ráðandi í byggingarlist dagsins í dag og kemur m.a. fram í verðlaunatillögu að nýjum húsakynnum Listaháskólans sem á að rísa á Laugavegi (þar er hugsanlega enn eitt skipulags- og menningarslysið í uppsiglingu sem mætti skoða betur).
Myndirnar sem fylgja hér að ofan eru fengnar úr dagatali 2009 sem er helgað Antonio Gaudí, gefið út af Triangle Postals. Ljósmyndarar: Pere Vivas og Ricard Pla.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2008 | 00:11
Heim frá Barcelóna
Þá er tveggja vikna Barcelónaför lokið og ekki laust við að maður hafi tekið á sig smá lit í allri þeirri brakandi blíðu sem viðgengst á þarna á Spáni. Barcelónabúar vilja að vísu ekki kalla sig Spánverja, því þeir eru stoltir Katalóníumenn en þetta hérað á Spáni hét áður Gotalónía eftir Vest-Gotum sem þangað fluttu á tímum þjóðflutningana miklu í eldgamladaga. Það er lítið mál að hafa ofan af fyrir sér í þessari borg í tvær vikur enda afskaplega mikið að skoða og upplifa en sumstaðar er þó helst mikið túristum. Hitinn þarna yfir daginn var yfirleitt á bilinu 24-28 gráður sem er víst bara alveg eðlilegt þótt auðvitað geti orðið miklu heitara. Ekkert rigndi nema eitt kvöld en þá skilst mér að hafi fallið heilir 57 mm í tveimur úrhellisskúrum sem þá gerði.
Þegar maður fer svona út í heim, sérstaklega á staði þar sem tungumálið er manni framandi er maður hálfpartinn út úr heiminum. Engin tölva var með í för, þannig að þetta var því í leiðinni ágætis bloggfrí og internetfrí sem er talsverð viðbrigði fyrir mig verð ég að segja. Samt ekki algert internetfrí því það kom fyrir að ég kíkti inn á internetsjoppuna í götunni til að taka stöðuna og þá ekki síst á veðrinu hér heima því ekki má koma eyða í veðurskráningar mínar.
Nú þegar heim er komið hef ég á tilfinningunni að ég hafi ekki misst af neinu merkilegu hér heima. Veðrið hefur þó staðið sig að mestu með prýði þótt engin hafi verið hitabylgjan í Reykjavík. Annars er bara sami barlómurinn og krepputalið hér ríkjandi í öllu sólskininu og ekki bætir úr skák að Fram, liðið mitt í fótboltanum, virðist vera framliðið eftir gott gengi fyrr í sumar. En mestu skipir þó að hafa ekki misst af stórskemmtilegum náttúruhamförum enda virðist hafa verið séð til þess. Að lokum er hér svo ein mynd sem ég tók síðustu nóttina í Barcelóna. Þarna er það bjarminn af tunglinu sem lýsir upp himininn bakvið húsið og ein stjarna að auki sem gæti verið sjálfur Júpíter miðað við birtu og stöðu. Kýs að kalla myndina: Nótt í Katalóníu.
Ferðalög | Breytt 29.7.2008 kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2008 | 23:14
Ferðin sem næstum því var farin yfir Öræfajökul
Ég hef í gegnum tíðina haft gaman af því að ganga á fjöll af öllum stærðum hvort sem það er Helgafell eða Hvannadalshnjúkur. Oftast sigrast maður á þeim verkefnum sem lagt er út í, en þegar þegar út í alvöruna er komið og um er að ræða landsins mestu fjallabálka verður ævintýramennskan stundum að víkja fyrir skynseminni.
Það gerðist nú um helgina þegar ég ásamt þremur vönum fjallagörpum lögðum í ferð þar sem ætlunin var að ganga yfir Öræfajökul frá austri til vesturs og gista tvær nætur á leiðinni, þá seinni uppá jöklinum sjálfum í 2000 metra hæð. Á föstudaginn sl. ókum við frá Reykjavík austur að Fjallsárlóni og gengum þaðan fram í myrkur uns við vorum komnir á Ærfjall sem er á milli Fjallsjökuls og Hrútárjökuls þar sem við svo gistum um nóttina í talsverðu frosti. Morguninn eftir þegar leggja átti í gönguna miklu upp á jökulinn voru komnar ýmsar efasemdir á leiðangursmenn en fara átti leið sem liggur um nokkur jökulsker, um Drangaklett og upp að Sveinstindi við austurenda Öræfajökulsöskjunnar. Þótt við hefðum skoðað leiðina rækilega á myndum og kortum sáum við að aðstæður voru öllu stórkarlalegri og vafasamari en við áttum von á, sprungusvæðin ekki árennileg, mikill snjór á leiðinni sem erfitt var að ganga í með þungar byrðar á bakinu og síðast en ekki síst sáum við að veðurútlitið var að verða vafasamt þarna á toppnum. Það var því ákveðið þarna að taka lífinu með ró, kannski að reyna aftur síðar og fara þá aðra leið, enda er þessi leið yfirleitt ekki farin á jökulinn.
Þótt ferðin hafi verið styttri en til var ætlast var þetta þó mjög tilkomumikil og skemmtilegt ferð á fáfarnar slóðir. Það var t.d. athyglisvert að ganga á milli jökulsporðanna á milli Fjallsjökuls og Hrútárjökuls en þeir skriðjöklar hafa fram að þessu náð saman á láglendi og teiknaðir þannig á öllum landakortum. Nú hafa þeir hinsvegar hopað það mikið að að fært er á milli þeirra um jökulurð. Landið þarna við jökulsporðana eins og víða annarstaðar er í sífelldri þróun vegna minnkandi jökla, ný lón myndast, nýir klettaveggir koma í ljós og ár breyta um farveg, þannig að það er alveg óvíst hvernig þetta svæði mun líta út næst þegar maður verður þarna á ferð.
Kort: leiðin sem var farin og það sem átti að fara
Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2008 | 15:58
Á Vífilsfelli
Já, það var ekki mjög slæmt að vera staddur á toppi Vífilsfells núna fyrr í dag. Lognið kom úr öllum áttum, sólin skein af öllu afli og fjallakyrrðin allt að því ærandi. Á myndinni má sjá þann sem þetta skrifar en það var ferðafélagi minn Harri sem tók myndina. Bláfjöllin skarta sínu fegursta þarna í baksýn en þar hefur sjálfsagt verið meira margmenni á ferð og á meiri ferð. Þetta var ágætis æfing fyrir stærri átök sem eitthvað er verið að spá í.
Ferðalög | Breytt 18.3.2008 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2008 | 08:59
Með Castró-bræðrum á Kúbu
Það er nú eiginlega ekki hægt annað á þessum tímamótum en að rifja það upp þegar ég var viðstaddur útifund með Fidel Castró á Kúbu sumarið 1989. Ég var þarna mættur ásamt nokkrum öðrum ungmennum frá Íslandi, en til Kúbu fórum við í mánaðarlanga vinnuferð á vegum Vináttufélags Ísland og Kúbu og unnum þar ýmis störf ásamt stórum hópum frá hinum Norðurlöndunum. Þessi ferð var auðvitað mikið ævintýri en það sem bar hæst var náttúrulega þegar allur hópurinn ásamt ógnarstórum hópi innfæddra átti þess kost að hlýða á eina af hinum mikilfenglegu ræðum Fidel Castrós. Ræðan var haldin þann 26. júlí, en sá dagur markaði upphaf byltingarinnar þegar Castró og fleiri skæruliðar gerðu misheppnaða árás á Moncada herbækistöðina árið 1953. Þrátt fyrir mikið mannfall í hópnum slapp Fidel Castró lifandi en dúsaði í fangelsi í nokkur ár þar sem hann lagði á ráðin um næstu byltingartilraun.
Ræða Fidels var aðalnúmerið á þessari samkomu og hófst eftir langa bið og eftirvæntingu mannfjöldans sem stytti sér stundir fram að ræðunni með því að fara með í einum kór sígildar slagorðaþulur til heiðurs forsetanum og byltingunni. Ekki þarf að taka fram að mikil fagnaðarlæti brutust fram þegar karlinn sjálfur loksins heiðraði svæðið með nærveru sinni og hóf upp raust sína. Og nú hófst mikil ræða. Castró rifjaði upp byltingarárin og allar þær framfarir sem orðið höfðu í landinu frá stjórnartíð fyrirrennara síns, ameríkanavinarins og einræðisherrans Batista sem þeir byltingarmenn steyptu af stóli. Ég get nú reyndar ekki sagt að ég hafi annars náð ræðunni í smáatriðum, við áttum þessum kost að fá enska þýðingu í heyrnartæki en hlustunarskilyrðin voru ekki góð og gáfust ég og fleiri upp á þeim apparötum að lokum. Hinsvegar stóð ekki á viðbrögðum okkar að standa upp og fagna með fjöldanum þegar við átti enda ágætt að teygja aðeins úr sér öðru hvoru. Castró er þekktur fyrir langar ræður, þær geta staðið klukkustundum saman en að þessu sinni þótti hann bara frekar stuttorður og talaði í innan við tvo tíma einungis. Ekki var annað að heyra en að viðstaddir hafi tekið ræðunni vel að henni lokinni, já afar vel, og tugþúsundum saman hrópaði fólkið Viva Fidel, Viva la Revolution!
Ekki nóg með það. Í þessari ferð hittum við einnig annan Castró, nefnilega Ramón Castró, þann elsta af þremur Castró-bræðrum. Ramón Castró kom fyrir sem mjög viðkunnanlegur maður, hann barðist ekki í byltingunni eins og bræður hans en átti þó sinn þátt í því öllu saman. Við heimsóttum hann þarna á heilmikið nautgripabú í eigu ríkisins að sjálfsögðu, en undir hans stjórn, enda Ramón Castró landbúnaðarmaður mikill. Það er ekki hægt að segja annað en það hafi verið bræðrasvipur með þeim tveimur og byltingarskeggið og græna derhúfan til staðar í báðum tilfellum.
Já, það var bjart yfir mönnum sumarið 1989 á Kúbu og byltingin gekk sinn vanagang, þó ekki endilega fram á við, því þarna gengu menn í sömu sporum. Í sæluríkinu á Kúbu voru frekari framfarir óþarfar. En það voru blikur á lofti. Strax þarna haustið eftir byrjaði óróinn í Austur-Evrópu og fyrir áramót var kommúnisminn þar fallin. Í árslok 1991 urðu Sovétríkin að engu og þá voru Kúbverjar skildir eftir einir og óstuddir og mjög erfið ár tóku við. En stjórn Kúbu hefur lifað þetta af og Castróbræður allir á lífi. Heldur hefur efnahagsástandið í landinu lagast með auknum túrisma þótt enn gangi menn í sömu pólitísku sporum. Þá er bara spurningin hvað gerist nú þegar sá yngsti af þeim bræðrum, Raúl Castró, hefur tekið við forsetastóli. Sá er ekki ekki nema 76 ára, ég hef ekki hitt hann og get því ekki alveg dæmt um það.
Raúl Castro kjörinn forseti Kúbu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)