Færsluflokkur: Veður

Veðurfréttatími endurvakinn á Rás1

Fyrir um mánuði síðan kvartaði ég yfir því að ekki væri lengur útvarpað veðurfréttum fyrir kvöldfréttir útvarps eins og var gert hér áður fyrr. Þá var ég að tala um veðurfréttir frá Veðurstofu íslands með veðurlýsingu frá ýmsum stöðum frá því klukkan 18, ásamt upplýsingum um hámarkshita og úrkomu ásamt veðurspá fyrir einstaka spásvæði. Ég er reyndar ekki vanur því að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut hér á blogginu enda er það ekki tilgangurinn. En viti menn! Nokkrum vikum síðar, eða þann 28. september, gerðist það eftir margra ára hlé, að þessi veðurfréttatími var endurvakinn á Rás1, alla daga klukkan 18.50 á eftir Spegilsþættinum. Að vísu virðist eitthvað á reiki hvort lesa eigi veðurlýsingu frá einstökum stöðum, en núna allra síðustu daga hefur því verið sleppt, kannski vegna tímaskorts en tíminn sem þessum veðurfregnum er úthlutað er mjög knappur. En allavega þá er fengur í því að fá upplýsingar um hámarkshita og úrkomu í Reykjavík og á landinu, auk veðurspárinnar. 

Spurningin sem hlýtur að vakna er sú, hvort það sem ég skrifaði um daginn (sjá hér) hafi haft þessi áhrif eða ekki. Kannski var þetta ákveðið fyrir löngu síðan. Freistandi er þó að standa í þeirri trú að Ríkisútvarpið og/eða Veðurstofan hafi séð að sér og snúið frá villu síns vegar eftir að hafa lesið pistilinn minn. Ef svo er ætti maður kannski að gera meira af því að kvarta og kveina til að beina þjóðfélaginu í rétta átt svo allt endi ekki í tómu tjóni. Þess vegna vil ég nefna það hér og nú og leggja það til, að við samþykkjum ICESAVE, hættum að byggja fleiri álver, hættum við að sækja um ESB og notum alltaf stefnuljós á hringtorgum!


Snjódagar í Reykjavík

Nú þegar veturinn er skollinn á og allra vetrarveðra er von, ætla ég aðbirta hér snjómyndina miklu sem sýnir hvenær jörð hefur verið hvít íReykjavík alla daga aftur til vetrarins 1986-87. Þessa mynd hef ég birtí upphafi síðustu vetra og uppfært í vetrarlok. Allt er þetta unnið útfrá mínum eigin skráningum enviðmiðunin er hvít jörð á miðnætti sem getur ýmist verið nýfallin snjóföl eða flekkótt jörð af gömlum sköflum. Hver lárétt lína táknar einn vetur. Annars á myndin að skýra sig sjálf.

snjór 86-09

Það má ýmislegt sjá út úr svona mynd. Fyrstu snjódagar vetrarins eru gjarnan seinni partinn í október og stundum ekki fyrr en í nóvember. Dæmi eru síðan um vetur sem eru alauðir að mestu fram yfir áramót (1987-'88 og 2002-'03). Í fyrra snjóaði strax þann 2. október og lifði sá snjór næstu tvo daga enda var þá mjög kalt í veðri svipað og nú. Snemmkominn snjór segir þó lítið um veturinn sem á eftir kemur.

Tölurnar til hægri sýna fjölda snjódaga. Flestir voru þeir veturinn 1994-'95 en það var nú eiginlega síðasti virkilega harði veturinn sem hefur komið á landinu. Lengsti samfelldi snjókaflinn í Reykjavík á þessu tímabili eru 96 dagar frá janúar til apríl 1989 þegar mikið fannfergi gerði nokkrum sinnum í Reykjavík með tilheyrandi vandræðum fyrir fótgangandi og akandi enda þrálátir snjóruðningar meðfram flestum götum. Sá allra snjóléttasti síðastliðin ár er veturinn2002-'03 með aðeins 32 snjódaga. Sá vetur var líka einstaklega hlýrá öllu landinu og varla hægt að kalla hann vetur. Síðustu tveir vetur hafa hinsvegar staðið nokkurn vegin undir nafni þótt þeir hafi ekki verið mjög kaldir. Báðir voru þeir með 74 hvíta daga en meðaltalið fyrir tímabilið eru 78 dagar.

- - - - -

Viðbót. Fyrsti snjór vetrarins féll í Reykjavík mánudagskvöldið 5. október. Annað árið í röð nær því jörð að verða hvít um miðnætti fyrstu vikuna í október.

 


Það snjóaði 2. október í fyrra

Veturinn virðist ætla að skella á okkur með fullum þunga núna í októberbyrjun. Þetta er ekki ósvipað og gerðist í fyrra þegar algert hrun varð í hitafari landsins með tilheyrandi snjókomu og ófærð á vegum víða um land. Að kvöldi fimmtudagsins 2. október í fyrra, snjóaði á götum Reykjavíkur þannig að talsverð hálka myndaðist, ökumönnum á sumardekkjum til mikillar hrellingar. Þetta var mjög óvenjulegt og þurfti að fara áratugi aftur í tímann til að finna annað eins, en venjulega gerir fyrstu snjókomur í Reykjavík í lok mánaðarins eða jafnvel í nóvember. (Nánar um það í næstu færslu).

Nú verður bara að koma í ljós hvort eitthvað svipað endurtaki sig, en hvort sem það snjóar eða ekki er ljóst að það verða ekkert nema kuldar á landinu á næstu dögum. Harðindaveturinn mikli ætlar að fara vel af stað.

Frétt mbl.is 2. október 2008:

2.október2008-2


mbl.is Víða hálka á vegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáð í veðurfréttir

Þar sem ég spái mikið í veður eru veðurfréttir auðvitað eitt af mínu uppáhalds sjónvarpsefni. Sérstaklega er það veðurfréttatíminn á RÚV eftir kvöldfréttir sem ég vil helst ekki missa af en þá má ekki ónáða mig á nokkurn hátt og símhringingar eru illa séðar. Undir þessum sjónvarpslið veitir heldur ekki af allri athygli óskertri því að í einum veðurfréttatíma er farið yfir mörg veðurkort á stuttum tíma og mikið upplýsingamagn sem þarf að innbyrða.

Oft veltir maður fyrir sér framsetningu veðurfrétta, sérstaklega á RÚV. Óneitanlega eru kortin þar áferðafalleg og skýr en samt kemur það fyrir, þrátt fyrir að enginn hafi ónáðað mig, né síminn hringt, að veðrið fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér, ólíkt því sem gerðist áður fyrr þegar snúningskassinn með handteiknuðu kortunum var og hét. Kannski er mér bara farið að förlast með aldrinum, en kannski ekki. Hér ætla ég að spá í veðurfréttatíma RÚV sunnudagsins 13. september en þann dag hafði verið spáð miklum hitum á norðausturlandi. Ég tek fram að ég hef ekkert út á veðurfréttakonuna sjálfa að setja, hún kláraði sitt af miklum myndarskap. Hinsvegar er alveg spurning hvort það sé til bóta að hafa veðurfræðinga í mynd. Er kannski betra að hann eða hún víki til hliðar eftir smá inngangsorð og noti síðan bendiprik. Kannski þykir það ekki nógu sjónvarpsvænt, en þegar fólk er í mynd tekur alltaf mestu athyglina til sín.

vedurfrettir RUV 1
Fyrstu kortin eru yfirlitskort. Bæði sýna þau þrýstilínur, hæðir og lægðir, úrkomusvæði og hitastig á nokkrum stöðum. Seinna kortið er hitakort og sýnir hitann í ákveðinni hæð. Bæði kortin hreyfast, og sýna þróunina frá hádegi til kvölds daginn eftir. Kannski er bara ruglandi að sýna þetta á tveimur kortum frekar en í einu. Hitakortið er að vísu mjög upplýsandi, en með því að hafa þetta í tvennu lagi er verið að flakka fram og til baka í tíma. Stundum eru veðurskil teiknuð inná upphafskortið en eftir að kortið fer á hreyfingu hverfa þau og sjást ekki meir í veðurfréttatímanum. Skil finnst mér alveg bráðnauðsynleg á veðurkortum, sérstaklega ef maður skilur um hvað þau snúast. Áður fyrr sáust veðurskil alltaf á veðurkortum (hitaskil, kuldaskil og samskil), þau segja til um hverrar tegundar loftmassinn er og hvar einn loftmassinn tekur við af öðrum.

vedurfrettir RUV 2
Svo koma Íslandskortin og það allt spákort. Nú spyr maður, hvar er kortið sem sýnir veðrið á landinu í dag? Mikilvægi veðurfregna finnst mér ekki bara felast í veðurspám heldur líka hvernig hefur viðrað. Venjulegir fréttatímar snúast t.d. mest um það sem hefur skeð en ekki bara um það sem á að gerast. Einu upplýsingarnar um veðrið á landinu í dag eru á stóra yfirlitskortinu í upphafi. Þar er að vísu sagt lítillega frá veðri dagsins á landinu en það fer sennilega framhjá flestum því kortið er að sýna allt annað á meðan. Íslandskortin líta þó ágætlega út. Í gamla daga voru notaðar vindörvar með mismörgum strikum eftir því sem hvassara var en þannig fékkst góð tilfinning fyrir vindstyrk án þess að þurfa að lesa tölur. Veðurspákortin áður fyrr voru líka almennt þannig að veðrið var verra eftir því sem fleiri strik voru á kortinu. Hér vantar að sjálfsögðu líka veðurskilin ef þau eru á annað borð yfir landinu, stundum er talað um skil þótt séu ekki sýnd og bent á hvar þau liggja, en einfaldast væri bara að sýna þau.

vedurfrettir RUV 3
Síðan koma fleiri veðurspákort hvert á eftir öðru marga daga fram í tíman og þá eru þrýstilínur horfnar. Stundum er dvalið lengi við hvert og eitt þeirra og farið út í meiri smáatriði en efni standa til miðað við ónákvæmni margradaga-spáa. Hér mætti alveg sleppa síðasta kortinu og hafa í staðinn í veðurkort dagsins í upphafi veðurfréttatímans. Langtímaspákortin finnst mér reyndar að mættu vera yfirlitskort eins og er í upphafi veðurfréttanna þar sem hægt er að sjá veðurkerfin í heild sinni og að sjálfsögðu með skilum. Þannig sér maður hvar nýjar lægðir eru að myndast eða hæðir að fikra sig til, sem einmitt ættu að vera aðalatriðin í margradagaspám.

vedurfrettir RUV 4

Eftir öllum Íslandskortunum er svo spákort fyrir Evrópu, þar er staldrað mjög stutt við. Enn eru engin skilakerfi eru sýnd. Nokkrir dropar hér og þar ásamt sólum og hitastigstölum. Í blálokin er aftur varpað fram spákorti morgundagsins til upprifjunar, sem er ágætt og eiginlega bjargar málunum eftir alla kortasúpuna.

Kannski eru margir vel sáttir við þessa framsetningu á veðri þótt ég sé með einhverjar athugasemdir. Veðurfréttatíminn er mjög knappur og lítill tími til sérstakra útskýringa sem koma veðurspánni ekki beint við. Ég held þó að veðurfréttir séu það vinsælt sjónvarpsefni að það mætti alveg staldra oftar við ýmis atriði. Það er þó einstöku sinnum gert, t.d. var sýnd gervihnattamynd í upphafi þessa veðurfréttatíma, sem ég náði reyndar ekki á mynd.

 - - - - - -

Ég sleppi því núna að minnast á veðurfréttir á Stöð2. Sé þær að vísu sjaldnast því þær falla ekki inní sjónvarpsrútínuna hjá mér, en svona almennt þá finnst mér þær ekki minna ruglingslegar. Siggi Stormur finnst mér þó ágætur að því leyti að hann lætur ýmislegt flakka og getur komið með skemmtilega útúrdúra eins og til dæmis þegar hann birti þessa ljósmynd á sínum tíma og spurði: Hvað er þetta? Ég veit allt um það, enda var það bara ég sjálfur sem tók myndina en hana sendi ég í veðurljósmyndasamkeppni. (Stóðst ekki mátið að koma þessu að)

Siggi Stormur - veðurmynd


Veðrið klukkan 18

Hér áður fyrr, eða þar til fyrir svona 10 árum, voru á hverjum degi fluttar veðurfregnir á Rás1 klukkan 18.45 beint frá Veðurstofu Íslands. Þetta var hefðbundinn veðurfréttatími sem innihélt bæði veðurlýsingu fyrir einstaka staði á öllu landinu og næsta nágrenni svo sem Angmagssalik og Þórshöfn í Færeyjum auk nokkurra skipa á siglingu. Síðan var greint frá hámarkshita á landinu og í Reykjavík, einnig mesta úrkoma á landinu og úrkomumagn í Reykjavík yfir daginn. Eftir þessari upptalningu fylgdi svo veðurspá fyrir landið og miðin ásamt langtímaspá. Eins og allir geta séð var þetta úrvalsútvarpsefni svona rétt fyrir kvöldfréttir Útvarps sem þá voru klukkan 19.00. Þarna fékk þjóðin helstu staðreyndir um veður dagsins á meðan gert var klárt fyrir kvöldmatinn sem auðvitað var alltaf klukkan sjö á öllum góðum heimilum. Þjóðin gekk svo að snæðingi alveg með það á hreinu hvar á landinu hafði viðrað best eða rignt mest og það sem kannski skipti mestu máli hvort heitara hafi verið á Akureyri eða í Reykjavík.

Veðurfréttatíma eins og þennan má enn heyra á morgnana fyrir 10-fréttir á Rás1 nema þar segir af lágmarkshita og úrkomu næturinnar sem eru ekki eins „heitar fréttir“ og veðrið yfir daginn. Veðurfréttatíminn góði klukkan 18.45 hvarf hins vegar bara sisvona einn daginn þegar kvöldfréttir RÚV voru færðar til klukkan 18.00 og komu aldrei aftur. Þetta var ekki síst missir fyrir mig þar sem ég skráði niður veðrið í Reykjavík og geri enn. Það var fastur liður að koma sér fyrir við viðtækið áður en klukkan varð 18.45 til að missa ekki af veðurlýsingunni fyrir Reykjavík.

Í dag er það þannig að það er eins og Ríkisfjölmiðlarnir vilji helst ekki láta fólk vita hvernig veðrið hefur verið á landinu enda var ekkert gert til að bæta fyrir þessar töpuðu veðurupplýsingar. Í veðurfréttum Ríkissjónvarpsins virðist veður dagsins einnig vera leyndarmál því þar er ekki einu sinni sýnt veðurkort fyrir veður dagsins á landinu nema í mýflugumynd á stóra Atlantshafskortinu. Veðurfegnir í dag byggjast því nær eingöngu á veðurspám og þá gjarnan teknir fyrir svo margir dagar að enginn man í rauninni veðurspána fyrir morgundaginn. Mig langar einhvertíma að rýna betur í sjónvarpsveðurfréttirnar en veðurfréttatímann góða klukkan 18.45 vil ég gjarnan fá aftur. Á RÚV er annars á þeim tíma hinn ágæti Spegilsþáttur, en sá þáttur þarf ekkert að standa lengur en til 18.45 enda er þar eiginlega ekkert annað en krepputal sem er hvorki gott fyrir matarlistina né meltinguna.


Gæðamat á sumarveðrum 1987-2009, súlurit

Það hljóta flestir að vera sammála því að nýliðið sumar var gott sumar veðurfarslega séð allavega hér á suður og vesturlandi. Við getum þar að auki varla kvartað yfir sumrum síðustu ára sem hafa boðið upp á ýmsar tegundir af góðviðrum svo sem langvarandi sólarköflum, þurrviðrum, hitabylgjum og hægviðrum og stundum öllu þessu í senn. En liðin ár vilja oft renna saman í eitt og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar sé betra en annað.

Sem eindreginn veðuráhugamaður vil ég hafa svona lagað á hreinu enda skrái ég niður veðrið daglega eins og ég hef kominn inn á áður og komið mér upp afskaplega fínu einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þessum veðurskráningum hef ég áður gert skil t.d. sýndi ég og útskýrði hvernig ég skráði sl. janúarmánuð (hér) og svo einnig júlí núna í sumar (hér) sem einmitt fékk hæstu veðureinkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði.
Útfrá þessu veðureinkunnakerfi get ég nú borið saman veðurgæði allra sumra frá árinu 1987 eins og sést á þessu súluriti. Þarna sést að sumarið í sumar fær hæstu einkunn sem ég hef gefið fram að þessu með einkunnina 5,36. Í öðru til þriðja sæti eru svo sumrin 2004 og 2007 með sömu einkunnina 5,13. Lakasta sumar tímabilsins var hinsvegar árið 1989 með 4,23 í einkunn.

Sumur 87-09

 
Að auki hef tekið hér saman mjög stuttaralega lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1987. Þetta er kannski ekki alveg tæmandi lýsing en eins og oft áður hjá mér er hér aðallega miðað við Reykjavík enda er það mitt heimapláss. 

Lýsing á sumrum:

1987 Gott sumar en júlí var þó frekar þungbúinn. Ágúst var óvenju sólríkur.
1988 Sumarið byrjaði með mjög umhleypingasömum og sólarlausasta júní frá upphafi mælinga. Júlí stóð sig með ágætum og bauð upp á skemmtilegt þrumuveður í Reykjavík þann 10. júlí
1989 Mjög leiðinlegur júlímánuður eyðilagði sumarið í Reykjavík. Mánuðurinn var sá sólarminnsti frá upphafi mælinga og þar að auki kaldur. Júní og ágúst voru talsvert skárri. Hámarkshiti sumarsins var ekki nema 15,6 gráður.
1990 Sumarið frekar dapurt en þó ágætur kafli seint í júní og fram í júlí.
1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður er hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður. 
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst voru hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hefur í borginni sem og víða um land. Þó nokkuð rigndi með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.

- - - - 


Tvær veðurmyndir og einn staur

Það hefur verið fjölbreytilegt skýjafar í nágrenni Reykjavíkur undanfarið þótt sólin hafi líka skinið glatt. Bólstraskýin hafa fengið að bólgna út í friði í hægviðrinu þegar sólin segir til sín og greinilega er nægur raki í lofti til að framkalla hressilegar skúradembur inn til landsins. Svo hefur sjávarþokan einnig látið á sér kræla en hún er þó fljót að hverfa þegar sólin hækkar á lofti. Allt getur þetta verið ákaflega myndrænt.

Þokuský

Fyrsta myndin er tekin í hádeginu þriðjudaginn 11. ágúst og er horft frá Seltjarnarnesi yfir á Eiðsgrandann. Mikil rakaþétting greinilega í fullum gangi niðri við sjávarmál en hæstu húsin standa uppúr. Í fjarska hafa bólstraskýin stigið upp. Það er ekki oft sem maður sér svona blöndu og ekki stóð þetta lengi því þokan var horfin skömmu síðar.

 

Skúraský Nesstofa

Kvöldið áður þann 10. ágúst mátti sjá þetta myndarlega skúraský inn til landsins en það er Nesstofan sem er í forgrunni. Uppstreymið sem myndaði þetta skúraský var þó að syngja sitt síðasta enda sólin óðum að setjast. Skýið var því ekki nema svipur hjá sjón þegar á leið.

 

Staur

Á sama tíma þarna úti á Nesi mátti sjá þennan gamla staur umflotinn sjó í kvöldflóðinu. Áður fyrr hefur hann sjálfsagt haldið upp raflínu út í Gróttuvita. Í dag er hann eiginlega bara staurblankur.


Um snjóskafla í Esjunni

Bráðnandi ís af öllu tagi virðist vera mér ofarlega í huga enda er þetta þriðja færslan í röð sem fjallar um eitthvað því tengt og kannski ekki svo óviðeigandi þegar allt kemur til alls. Að þessu sinni eru það bráðnandi Esjuskaflar sem koma við sögu. Að vísu engar stórfréttir á ferðinni heldur frekar svona stöðutaka með skírskotun til fortíðar. Það eru margir sem fylgjast með snjósköflunum í Esjunni þegar líða tekur á sumar og velta fyrir sér hvort þeir lifi af sumarið. Það hef ég líka lengi gert enda hef ég alltaf haft gott útsýni til Esjunnar annaðhvort frá heimili eða vinnustað og ekki að ástæðulausu að Esjan skipar sérstakan heiðursess á þessari bloggsíðu.

Árið 1993 þann 10. ágúst tók ég mig til og rissaði upp Esjuna, í skrásetningaráráttu minni teiknaði ég svo inná alla snjóskafla sem þá voru sýnilegir frá borginni og í framhaldi af því merkti ég við hvenær hver skafl bráðnaði. Þetta er eina árið sem ég hef gert þetta en myndina má sjá hér að neðan ásamt nánari útlistun. (Myndin birtist stærri ef smellt er tvisvar)

Esjuskaflar_teikning93

Á myndina merkti ég inn alls 15 skafla. Vestast var lífseigi skaflinn undir Kerhólakambi ásamt litlum systurskafli sem þarna átti stutt eftir. Fjórir skaflar voru vestur af Þverfellshorni og þrír litlir þar fyrir austan, en skaflvænsta svæðið var eins og venjulega í og við Gunnlaugsskarð. Þegar skoðað er hvenær þessir skaflar hverfa kemur í ljós að aðeins tveir þeirra hurfu þennan ágústmánuð. Fimm skaflanna hurfu svo í september og tveir seint í október. Ekkert var merkt við sex þessara skafla sem þýðir að þeir lifðu af sumarið. Þar var um að ræða vestasta skaflinn við Kerhólakamp og svo skaflana í Gunnlaugsskarði.

Þetta eru auðvitað miklu lífseigari skaflar heldur en nú til dags enda hafa þeir horfið öll ár þessarar aldar. Hinsvegar varð Esjan aldrei snjólaus árin 1970-1997 og jafnvel lengur því óvissa virðist vera um árið 1969. Þetta er líka í góðu samræmi við hitaþróunina en árið 1993 var meðalhitinn í Reykjavík 4,4 stig sem er nálægt opinberum meðalhita áranna 1960-1990 (4,3°C). Hinsvegar hafa öll ár þessarar aldar náð árshita á bilinu 5,1 - 6,1 stig. Á árunum 1930-1969 hurfu Esjuskaflar af og til en lengsta snjólausa tímabilið á 20. öldinni var árin 1932-1936.

Fljótt á litið tel ég að ársmeðalhiti um 5 stig skilji á milli þess hvort snjór lifi af sumarið eða ekki, en vetrarákoman skiptir auðvitað líka máli. Dæmi eru um að skaflar hverfi um hásumar eins og gerðist árið 2003 þegar allt var bráðnað 30. júlí. Ekki furða, því meðalhiti 12 mánaðanna þar á undan var heilar 6,4 gráður. Skaflarnir munu þó hafa horfið enn fyrr árin 1936, 1939 og 1941, öll eftir mjög snjólétta vetur og sumarhlýindi.

En þá er það staðan nú árið 2009. Myndin hér að neðan er tekin 9. ágúst og sýnir að vísu bara austurhluta Esjunnar en allir skaflar utan þess svæðis eru horfnir. Skaflarnir efst hafa samkvæmt teikningunni frá '93 þá verið einn og sami skaflin. Enn er smá snjór í giljunum þar fyrir neðan og svo er einn stakur til vinstri. Þetta er allt á góðri leið með að hverfa á næstu vikum en meðalhitinn síðustu 12 mánuði reiknast mér til að sé 5,46°C. 

Esjuskaflar 9. ágúst 2009

Austurhluti Esjunnar. Mynd tekin frá Laugarnesi 9. ágúst 2009

- - - -

Heimildir eru héðan og þaðan, t.d. frá þessari bloggfærslu hér: http://esv.blog.is/blog/esv/entry/612466/ 

 


Hversu gott var góðviðrið í júlí?

Esja 21. júlí 2009

Eins og ég hef stundum minnst á, þá hef ég skráð veður í mörg ár og gefið hverjum degi veðurfarslega einkunn samkvæmt kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Einnig gef ég hverjum mánuði einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Samkvæmt þessu einkunnakerfi fékk nýliðinn júlímánuður einkunnina 5,8 sem segir kannski ekki mikið, nema hvað að þetta er hæsta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði frá því ég hóf skráningar sumarið 1986. Með þessu slær mánuðurinn út júlí 2007 í veðurgæðum sem var með einkunnina 5,5 en allt fyrir ofan 5 telst annars vera mjög gott á þessum mælikvarða. 

Nánar um nýliðinn júlímánuð

Veðurbók júlí 2009

Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir júlí 2009. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana. 

Veðurgæðum var eins og oft áður nokkuð misskipt á milli landshluta og að þessu sinni hafði suðvesturhelmingur landsins ótvírætt vinninginn enda norðaustlægar áttir ríkjandi. Það hefur aldrei verið minni úrkoma í Reykjavík frá upphafi mælinga, meðalhitinn hefur sjaldan verið hærri og sólskinsstundir langt yfir meðallagi. Í mínum skráningum kom þetta út sem 11 almennilegir sólskinsdagar og aðrir 11 þar sem sólin skein til hálfs. Einnig skiptir máli að enginn slæmur veðurdagur varð í mánuðinum og aðeins tveir minniháttar úrkomudagar, þann 5. og þann 26. Hitaþróunin var nokkuð merkileg því að lengi vel stefndi í að meðalhitamet júlímánaðar yrði slegið en kuldakastið 23.-25 gerði út um allt slíkt. Þótt ekki hafi gert eiginlega hitabylgju fór hitinn tvisvar upp í 21,1 stig. Opinber meðalhiti þessa júlímánaðar er 12,8 stig en eins og ég skrái hitann er meðalhitinn 14,8 stig en sá munur er á að ég skrái hita og veður útfrá einskonar meðalveðri yfir daginn og sleppi þar með næturveðri (því miður fyrir næturverði)

Nokkrir gæðamánuðir fyrri ára til samanburðar

Júlí 2007 – Einkunn 5,5. Þessi mánuður er í öðru sæti yfir bestu mánuðina frá 1986 og hefur allt sem prýða má almennilegan góðviðrismánuð, sólríkur, þurr, hlýr og hægviðrasamur. Meðalhitinn hér var einnig 12,8°C og hámarkshitinn um 21 stig. Sólin skein af miklum móð fyrstu 17 dagana en eftir það varð aðeins köflóttara veður með nokkrum kærkomnum úrkomudögum, en óvenjumiklir þurrkar höfðu staðið yfir frá því fyrri hlutann í júní.

Júní 1991 – Einkunn 5,4.  Þessi mánuður var einnig mjög eftirminnilegur góðviðrismánuður og einn af sólríkustu og þurrustu júnímánuðum sem komið hafa. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskýra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi og því vermir hann 3. sætið hér. Í kjölfarið kom svo hitametsmánuðurinn Júlí 1991 þegar opinber meðalhiti fór í 13 stig, en ýmis hitamet voru sett víða um land þegar gerði mikla hitabylgju dagana 6.-9. júlí. Sá júlímánuður fékk hjá mér einkunnina 5,1.

Ágúst 2004 – Einkunn 5,3.  Fyrir utan almennt góðviðri er þessi mánuður frægastur fyrir hitabylgjuna miklu sem gerði daganna 8.-12. ágúst. Hitamet var sett í Reykjavík, 24,8°C þann 11. ágúst. Það hitamet var svo slegið í fyrra: 25,7°C þann 30. júlí 2008 en sá mánuður fékk 4,9 í einkunn.

Besti mánaðarkaflinn.

Fyrir utan almanaksmánuði er besti mánaðarlangi veðurkaflinn sem ég hef skráð 21. júní - 21. júlí í góðærinu 2007 með einkunnina 6,1. Júlímánuður 2007 var einmitt nefndur hér að ofan sem næst besti mánuðurinn, en með því að hliðra til um nokkra daga fæst öllu hærri einkunn því aðal góðviðriskaflinn hófst seinni partinn í júní. Þá einmunablíðu sem þarna ríkti slær ekkert út frá árinu 1986 þegar ég hóf skráningar og örugglega þarf að fara mun lengra aftur í tímann. Næstbesti mánaðarkaflinn er þá nýliðinn kreppumánuður júlí 2009 sem er í 2. sæti með sín 5,8 stig en sú einkunn hækkar ekki þótt dagahliðrunum sé beitt.

Segjum þetta þá gott af blíðskaparveðrum enda nóg komið af upptalningum. Svo er bara að vona að sem flestir mánuðir bætist í þennan úrvalshóp á komandi árum.

 


Hitamál

Nú þegar árið er hálfnað og veðuruppgjör júnímánaðar liggur fyrir er kominn tími á smá pælingar í sambandi við meðalhita og hvert árshitinn stefnir hér í Reykjavík.

Meðalhiti nýliðins júnímánaðar í Reykjavík var 10,1 stig sem er 1,1 stigi fyrir ofan meðallag eins og kemur fram í yfirliti veðurstofunnar. Meðalhitinn það sem af er þessu ári hefur einnig verið vel fyrir ofan meðallag og með sama áframhaldi ætti meðalhiti ársins að vera um 5,4°C eða rúmri gráðu yfir meðalhitanum hér í Reykjavík, sem er reyndar ekki nema 4,3°C og er þá miðað við árin 1961-1990 eins og venjulega. Þetta er hinsvegar í góðu samræmi við hitann síðustu 10 ár sem hafa verið mjög hlý.

Svo vill reyndar til að núverandi viðmiðunartímabil skarast nokkurn veginn við kalda tímabilið 1965-1995 sem þýðir að meðalhitatölur hér á landi eru nokkuð lágar, sama gildir reyndar líka víðar um heiminn. 30 ára viðmiðunartímabilið þar á undan var hinsvegar frekar hlýtt en langar áratugasveiflur virðast einmitt einkenna hitafar hér á jörð. Þetta þýðir það að viðmiðanir við meðalhita segja í rauninni lítið nema viðmiðunartímabilið sé tekið fram. Það flækir þó kannski rannsóknarvinnu og bókhald að vera sífellt að uppfæra meðalhitatölur á hverju ári og því láta menn sér því sjálfsagt nægja 30 ára meðaltöl sem eru uppfærð á 30 ára fresti.

Það má hugsa sér aðrar leiðir til að finna út meðalhita þó ég sé ekkert endilega að leggja til að þessu 30 ára kerfi verði breytt. En með þessum samanburði sem ég sýni hér að neðan er greinilegt meðalhiti í Reykjavík er mjög mismunandi eftir því hvaða tímabil er haft til viðmiðunnar.

4,3°C   1961-1990  núgildandi viðmiðunartímabil
4,9°C   1931-1960  eldra viðmiðunartímabil
4,6°C   1931-1990  tvö síðustu viðmiðunartímabil
4,9°C   1991-2008  það sem af er næsta viðmiðunartímabili
5,3°C   1999-2008  síðustu 10 ár
5,4°C   2001-2008  það sem af er þessari öld
4,7°C   1931-2008  öll þessi ár

Síðasta talan þarna 4,7°C er endurspeglar kannski raunhæfasta meðalhitann í dag enda inniheldur hún flest viðmiðunarár, ekki síst hin allra síðustu og svo tiltölulega kalt og hlýtt tímabil síðustu aldar. Meðalhitinn það sem af er þessari öld er greinilega mjög hár og spurning hversu langt aftur þarf að fara til að finna annað eins tímabil. Á hlýja tímabilinu á síðustu öld komst meðalhitinn þó í 5,2 stig á átta ára tímabilinu1939-1946.

Og til heiðurs júnímánuði má gera það sama til að bera saman meðalhita hans í Reykjavík:

9,0°C    1961-1990  núgildandi viðmiðunartímabil
9,6°C    1931-1960  eldra viðmiðunartímabil
9,3°C    1931-1990  tvö síðustu viðmiðunartímabil
9,6°C    1991-2009  það sem af er næsta viðmiðunartímabili
10,2°C  2000-2009  síðustu 10 ár
9,4°C    1931-2009  öll þessi ár 

Ath. Þessar tölur er settar fram með fyrirvara um rétta útreikninga sem ég gerði út frá gögnum veðurstofunnar.

Svo er bara að þakka þeim sem nenntu að lesa.

 


mbl.is Hærri hiti og minni úrkoma í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband