Færsluflokkur: Sjónvarp
6.8.2018 | 20:02
Sjálfvirka þulan og Hrafninn flýgur
Yfir mörgu má kvarta svona almennt og vissulega eru umkvörtunarefni misalvarleg. Eitt er það atriði sem hefur hvað eftir annað valdið pirringi hjá undirrituðum en það er það sem ég kalla sjálfvirka þulan í Sjónvarpi allra landsmanna og þá sérstaklega hvernig hún kemur inn í lok dramatískra kvikmynda og kynnir næsta dagskrárlið af mikilli ákveðni. Reglan virðist vera sú að skella á sjálfvirku þulunni eftir að síðasta setningin hefur verið sögð í myndinni og rétt áður en kreditlistinn birtist. Akkúrat sú stund í kvikmyndum er oft ákaflega mikilvægt og viðkvæmt augnablik fyrir upplifunina enda vandlega úthugsað að hálfu leikstjóra og annarra sem sjá um lokafrágang kvikmyndanna og spilar tónlistin þar oft stórt hlutverk.
Síðasta dæmi um þetta og alveg dæmigert var núna sl. sunnudagskvöld þegar Sjónvarpið sýndi Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá ágætu kvikmynd hefur maður reyndar séð alloft en hún vakti athygli á sínum tíma út fyrir landsteinanna og varð til þess Hrafn hélt áfram að gera myndir í sama stíl - reyndar með misgóðum árangri. Kvikmyndin Hrafninn flýgur er kannski full langdregin og einhæf á köflum en málið er þó að sagan er einföld og segir með sterku lokaatriði hvernig hefndin heldur áfram milli kynslóða. Gestur (Jakob Einarsson), hefnir föður síns sem veginn var á sínum tíma af tveimur fóstbræðrum leiknum af Flosa Ólafssyni og Helga Skúlasyni. Þegar Gestur hafði með kænsku sinni att fóstbræðrunum saman þannig að liðsmenn lágu í valnum hver af öðrum var komið að lokauppgjörinu þegar Gestur fellir aðalskúrkinn (Helga Skúla) sem hafði einmitt rænt systur Gests (Eddu Björgvins) eftir að föðurmorðið átti sér stað á sínum tíma, tekið hana sem eiginkonu og átti þarna með henni son á barnsaldri. Að öllum vígaferlum loknum segir Gestur að hér eftir muni penninn taka við af sverðinu og gróf vopnin í jörðu við túnfót hins fallna föðurmorðingja og hélt síðan á brott. Systirinn vildi ekki fylgja bróður sínum á brott en stóð nú uppi með son sinn sem nú syrgði sinn föður sárt. Myndin hefði getað endað þannig en allra síðasta atriðið gerði þó gæfumuninn og kvikmyndina að því sem hún var. Litli strákurinn var ekki nógu ungur til að gleyma. Hann gekk rakleitt að þeim stað sem vopnin voru falin, gróf þau upp og horfði á eftir Gesti með hefnd í huga. Nærmyndin af stráknum með vopnin í höndum var lokaandartak og grundvallaratriði myndarinnar, dramatíkin í hámarki með tilheyrandi tónlist - eitt áhrifamesta lokamóment í íslenskri vil ég meina, sem ég ætlaði að njóta enn einu sinni til botns þetta sunnudagskvöld. En hvað gerist? Jú, kemur þá ekki sjálfvirka þulan á viðkvæmasta mómentinu og tilkynnir næsta dagskrárlið hátt og snjallt: TIL HEIÐURS BEE GEES og svo einhver heilmikil romsa um það á meðan hljóðið í myndinni er lækkað á þessu grundvallaraugnabliki.
Hrafninn flýgur er annars ekki aðalatriði þessarar bloggfærslu, heldur hin sjálfvirka þula sem á sínum tíma kom í stað sjónvarpsþulanna góðkunnu sem birtust á milli dagskrárliða og kynntu það sem kæmi næst. Sjálfsagt hefur það þótt of kostnaðarsöm útgerð að vera með stífmálaðar þulur á vaktinni heilu kvöldin, jafnt um helgar sem virka daga. Það hlýtur þó að vera hægt að gera þetta af meiri smekkvísi. Sú sem ljáir þeirri sjálfvirku rödd sína er landsþekkt söng- og leikkona og hefur líklega ekkert með þetta fyrirkomalag að gera þótt almennt mætti hún lesa sinn texta með blíðari tón. Fyrir mig sem horfir reglulega á RÚV eru sjálfvirkar kynningar á dagskrárefni fram í tímann oft afar þreytandi og þá er ég ekki bara að tala um það sem kemur í lokaatriði mynda. Væntanlegir sjónvarpsþættir eru kynntir í tíma og ótíma, stundum langt fram í tímann og svo hvað eftir annað. Þá er eins gott að fjarsýringin sé ekki langt undan svo hægt sé að lækka í hljóðinu eða draga alveg niður í því.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2018 | 23:46
Fleksnes og Halló Hafnarfjörður
Þeir sem komnir eru til vits og ára og muna tímana tvenna hljóta einnig að muna eftir Norsku gamanþáttunum um Fleksnes sem sýndir voru í sjónvarpinu á áttunda áratugnum. Fleksnes þessi gerði sér ýmislegt til dundurs en tókst misvel upp í sínu lífi eins og gengur og gerist, ekki síst þegar samborgararnir ganga ekki alveg í sama takti. Eftirminnilegasti þátturinn um Fleksnes er þegar við fáum innsýn í það áhugamál hans spjalla í talstöð sem svokallaður radíóamatör. Slíkt var vinsælt hjá sumum á sínum tíma, einkum á meðal græjufíkinna karlmanna, en þetta var auðvitað löngu fyrir daga nútíma samfélagsmiðla. Þetta var kærkomið áhugamál fyrir Fleksnes sem gaf lífinu gildi enda átti hann með aðstoð tækninnar, vini út um allan heim - að vísu engan í Noregi. Og þarna kemur Hafnarfjörður við sögu því auðvitað á Fleksnes radíóvin í Hafnarfirði.
Þegar þátturinn var sýndur á sínum tíma hér á landi vakti hann auðvitað athygli því það var ekki á hverjum segi sem Ísland kom við sögu í útlenskum þáttum. Hvað þá Hafnarfjörður? Síðan þá hefur orðatiltækið "Halló Hafnarfjörður" gjarnan verið notað þegar sá kaupstaður ber á góma. Mig grunar að fæstir viti eða muni hvaðan þessi kveðja er komin, nema auðvitað einhverjir af þeim sem virkilega eru komnir til vits og ára. Ætli ég hafi ekki verið að horfa á Útsvarið í Sjónvarpinu þegar mér datt í hug hvort ekki væri hægt að finna þennan umrædda þátt með Fleksnes. Það reyndist vera lítið mál. Þátturinn er frá árinu 1972 og er 1. og 2. hluti af þremur hér á you-túpunni. Hafnarfjarðaratriðið hefst á 8:30 í fyrri hlutanum en heldur áfram í upphafi 2. hluta.
Sjónvarp | Breytt 11.2.2018 kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2016 | 07:57
50 ára sjónvarpsgláp
Ég ætla byrja þennan pistil á minnast á það þegar ég átti erindi í banka nú á dögunum en þá hafði gjaldkerinn séð kennitöluna mína og spurði hvort ég væri Sjónvarpsbarn. "Nei ég er ári eldri" sagði ég. "Já það var 1966" sagði hún og nefndi síðan að hún ætti líka þennan sama afmælisdag, 30. september, nema hún væri sjálf 15 árum eldri en Sjónvarpið. Já það er sem sagt þannig að ég er akkúrat ári eldri en Sjónvarpið og deili með því þessum ágæta afmælisdegi. Ég veit þó ekki hvort það sé endilega ástæðan fyrir því að ég hef alltaf haldið mikla tryggð við Sjónvarpið - og þá meina ég ekki sjónvarpstækið sem slíkt, heldur fyrirbærið sem stundum er nefnt: Ríkissjónvarp allra landsmanna og hefur fylgt manni svo lengi sem maður man eftir sér.
Tilkoma Ríkissjónvarpsins fyrir 50 árum hefur sjálfsagt breitt heilmiklu fyrir landsmenn á sínum tíma en fyrir mér hefur það alltaf verið sjálfsagður hlutur enda þekki ég ekki annað, en man þó vel sjónvarpslausu fimmtudagana og mánaðarlangt sumarfrí. Ekki minnist ég þess að fólk hafi mikið verið að kvarta yfir því á fyrstu 20 árunum að ekki væri sjónvarp alla daga vikunnar eða alla mánuði ársins. Fólk fór heldur ekkert fram á að það kæmi alltaf eitthvað í sjónvarpið, t.d. á miðjum degi þegar kveikt væri á því, annað en svarthvíta stillimyndin.
Á virkum dögum byrjaði dagskráin með Fréttum klukkan átta, en sýningin hófst reyndar á sjónvarpsklukkunni sem taldi niður tímann fram að fréttum, ótrufluð af auglýsingum og öðrum innslögum. Að fréttum, veðri og auglýsingum loknum kom sjónvarpsþulan sem þuldi upp dagskrá kvöldsins sem stóð gjarnan þar til langt gengin í ellefu. Reyndar var barnatími klukkan sex á miðvikudögum og lauk þá útileikjum barna sem þustu inn til að horfa á teiknimyndir. Ekki mátti missa af þeim. Á sunnudögum var það svo auðvitað Stundin okkar sem hófst eftir að presturinn var loksins búinn með sína hugvekju. Ekki má svo gleyma Ensku knattspyrnunni þar sem Bjarni Fel lýsti kappleik sem farið hafði fram fyrir ekki svo mjög löngu síðan og þuldi upp úrslit dagsins, eins og honum var einum lagið.
Þetta var einföld svarthvítt sjónvarpstilvera í föstum skorðum. Allir horfðu á sömu dagskrána, sömu framhaldsmyndirnar eins og Gæfu eða gjörvileika eða Kólómbó. Flestar bíómyndirnar voru um 20 ára gamlar og enginn kvartaði yfir því. Eftirminnilegust var hin svakalega mynd, Maðurinn sem minnkaði, sem kostaði mig ótaldar andvökunætur. Framþróun átti sér þó stað og varla hægt að horfa fram hjá því að Prúðuleikararnir voru flottari í lit. Það var heldur ekki amalegt að geta séð kappleiki í beinni útsendingu. Ég man t.d. enn þegar Michael Platini skoraði sigurmarkið fyrir Frakka í framlengdum úrslitaleik gegn Portúgal árið 1984.
En svo fór allt að breytast, en það sem gerði útslagið var verkfall ríkisstarfsamanna um miðjan 9. áratuginn og ekkert sjónvarp! Risu þá upp frjálsræðispostular og einkaframtakssinnar sem boðuðu nýja og betri tíma er einokun ríkisins á sjónvarps- og útvarpsrétti yrði aflétt. Og þannig fór. Stöð 2 fór í loftið árið 1986 og flestir bara léttir á því. En ekki ég. Ég vildi bara mitt gamla góða Ríkissjónvarp. Stöð 2 fannst mér hinsvegar, svo ég orða það pent, uppfullt af allra handa sjálfumgleði. Það að eiga þess kost að velja á hvað var horft, fannst mér líka stórlega ofmetið. Best var að hafa bara, eina stöð og eina dagskrá, eins og Martein Mosdal sagði á sínum tíma og er hverju orði sannara, en kannski eru ekki alveg allir sammála okkur Marteini þar. Ég hef ekki einu sinni lagt í vana minn að horfa á fréttir á Stöð 2, en þar kemur vel á vondann því sjálfur hef ég tvisvar komist í fréttirnar hjá þeim og þá ekki vegna afglapa heldur vegna áhugamála minna tengd ljósmyndum. Fréttastofa Ríkisins hefur hinsvegar ekki hringt ennþá en kannski gerist það einn daginn.
Í gegnum sjónvarpstíðina hefur maður horft á eftir ýmsum dagskrárliðum hverfa á braut, yfir á lukta heima samkeppnisaðilana. Enska knattspyrnan hvarf t.d. einn daginn og hef ég ekki haft spurnir af henni síðan en treysti á að Liverpool sé enn að standa sig. Svo hvarf Formúlan, sem í sjálfu sér var bara ágætt enda fór fullmikill tími í það hringsól. Landslag ljósvakamiðlana breytist stöðugt. Sífellt fleiri eru farnir að velja sér dagskrá á netveitum eins og Netflix og glápa heilu dagana á heilu sjónvarpsseríurnar í striklotum. Sjálfur hef ég að vísu aðgang að einhverjum ótölulegum fjölda erlendra sjónvarpsstöðva sem maður kíkir á öðru hvoru, einkum ef von er á stórbrotnum náttúruhamförum úti í heimi. Einnig rekst maður stundum á æsilega þætti um mögulega aðvífandi loftsteina eða ofureldstöðvar sem kannski eru við það tortíma mannkyninu. Ég myndi samt alveg lifa góðu lífi án þeirra.
Ég hef í raunar ekki breytt mínum sjónvarpsvenjum og held ennþá tryggð við Ríkissjónvarpið. Er sami takmörkunarsinninn í þessum efnum hvað mig varðar. Auðvitað mega aðrir hafa það eins og þeir vilja. Ekki má þó halda að ég geri ekkert annað á kvöldin en að glápa á Ríkissjónvarpið. Því er nefnilega öðru nær. Sjónvarpsagskráin er æði misspennandi. Sumt er áhugavert og annað óbærilegt og það er einmitt bara fínt. Maður getur nefnilega fundið sér ýmislegt til dundurs annað en að horfa á sjónvarpið. Margar bækur eru til dæmis ólesnar og mörg tónlistin óáhlustuð en svo er líka alltaf hægt að setjast niður og skrifa bloggpistil eins og þennan.
Já, góðir landsmenn. Svona er það að eiga sama afmælisdag og Sjónvarpið, en við ljúkum þessu með Smart spæjara.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2011 | 16:47
Eurovisionframlag Albaníu í hitteðfyrra
Ég hef alla tíð haft áhuga á Eurovision keppninni en mætt mismiklum skilningi þegar ég dásama þá keppni. Í fyrra spurði einn vinnufélagi minn hvort Eurovisionáhugi minn væri írónískur að einhverju leyti. Ég svaraði því að áhuginn væri einlægur, sem er alveg einlægt svar, en ég útiloka þó ekki að einhver írónía komi við sögu skilji ég það hugtak rétt.
En jæja, það sem ég ætla að bjóða upp á sem Eurovision-framlag mitt í ár er upprifjun á framlagi Albaníu árið 2009. Í fullri einlægni þá finnst mér þetta vera gott lag og í hópi hinna betri á seinni árum. Laginu var líka spáð góðu gengi í keppninni en eitthvað hefur það farið á mis því það endaði bara í 17. sæti í lokakeppninni, þeirri sömu og norski fiðlustrákurinn sigraði í og Jóhanna okkar lenti í öðru sæti.
Ég er hérna með þrjú Youtube myndbönd af þessu framlagi Albaníu. Það fyrsta er frá forkeppninni þar sem lagið er flutt á móðurmálinu og í lengri útgáfu en keppnisreglur segja til um. Stórsveit Albanska ríkissjónvarpssins er mætt á sviðið í fullum skrúða og fer mikinn í instrumental milliköflum margar fiðlukonur í fínum kjólum en flaututónarnir eru þó flottastir og gefa laginu framandi austrænan blæ. Söngkonan Kejsi Tola er bara 17 ára og tekur því frekar rólega á sviðinu eða er kannski ekki alveg búinn að finna taktinn en skilar söngnum með mestu prýði. Annars er þetta nokkuð hefðbundið taktpopp með tilheyrandi upphækkunum og slíku, en laglínan er fín og leynir á sér.
Næsta myndbrot er styttra og sýnir bara bút úr laginu sem þarna komið í sinn endanlega enska keppnisbúning. Söngkonan er þó greinilega ekki búin að ákveða sinn keppnisbúning en fikrar sig áfram í taktinum. Grafíkdeild albanska ríkissjónvarpsins stelur eiginlega senunni þarna en fer svona heldur of geyst í bakgrunnsgleðinni.
Að lokum er það svo aðalkeppnin. Hafi einhverjir ekki kannast við lagið fram að þessu þá rifjast sennilega eitthvað upp þegar þeir sjá hvernig lagið gerði sig á sviðinu. Flutningur lagsins tókst með miklum ágætum hjá Kejsu Tola en spurning hvort sumum hafi verið ofaukið þarna á sviðinu. Það er nú svona með frumlegheitin, stundum ganga hlutirnir upp og stundum ekki. Umgjörð lagsins er allt önnur en í upphafi og erfitt að sjá að þetta sé sama manneskjan á sviðinu að syngja. En þrátt fyrir nýtt átfitt er röddin sú sama.
- - - - -
Við Íslendingar erum að sjálfsögðu með í lokakeppninni laugardaginn. Sjálfum finnst mér það vera besta framlag okkar í háa herrans tíð og líklegt til alls. Allt getur því gerst í þessari keppni og svo getur líka auðvitað allt ekki gerst.
29.11.2009 | 22:34
Staupasteinn
Þá er að líða að lokum þessa veðursæla nóvembermánaðar og komið að hinni sívinsælu sjónvarpsnostalgíu. Staupasteinn hétu þættir sem óþarft er að kynna, eða Cheers eins og þeir hétu uppá amerísku. Þýðingin á heiti þáttana er annars ágætt dæmi um hvernig hægt er að þýða nöfn á erlendu sjónvarpsefni - eða var allavega hægt einu sinni. Hinn eini og sanni Staupasteinn er reyndar sérstæður lítill klettur í Hvalfirði sem líkist steðja í laginu eða staupi og stendur í brekku nálægt Hvammsvík.
En þá að þáttunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þeir fóru fyrst í loftið hér á landi en þeir voru framleiddir á árunum 1982-1993. Ég man þó að einhverjum fjölmiðlarýninum þótti ekki mikið til koma eftir sýningu fyrsta þáttarins en svona gamanþáttaseríur eru svo sem ekki hátt skrifaðar sem andlegt fóður. Þeir hefðu allavega ekki verið hátt skrifaðir hjá sálfræðingnum Dr. Fraser Crane sem var einn af fastagestum Staupasteins. Föstustu fastagestir Staupasteins voru hinsvegar tveir menn, hinn alvitri og íhuguli póstburðarmaður Cliff og orðheppni bjórþambandi endurskoðandinn Norm. Hvorugur þeirra átti við mikla lífslukku að stríða frekar en aðrir þarna á staðnum en þeir nutu sín þó hvívetna á Staupasteini og bættu hvorn annan upp.
Í sýnishorninu sem hér fylgir má sjá áðurnefndar þrjár persónur. Þetta myndbrot hefur djúpan undirtón og upp kemur spurningin: Hefur fágaður smekkur menntamannsins hamlandi áhrif á möguleika hans til að njóta þess sem er einfalt og auðskilið og er kjánaskapur eingöngu fyrir kjána sem skilja ekki hina háleitu og vitsmunalegu fegurð?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2009 | 18:06
Benny Hill
Þegar kemur að húmor hef ég mjög einfaldan smekk: því vitlausara því fyndnara. Sá vitlausasti af öllum vitleysingum og þar með sá fyndnasti er Benny Hill eins hann og birtist í sjónvarpsþáttunum The Benny Hill Show. Vitleysan náði hæstum hæðum í þöglu, hröðu atriðunum með léttklædda kvenfólkinu. Um þau atriði þarf heldur ekkert að hafa mörg orð, enda verða þau ekki fleiri.
Nema hvað, þetta er að sjálfsögðu sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu, eins og alltaf í lok hvers mánaðar.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2009 | 01:14
Maðurinn sem minnkaði
Það er eiginlega ekki annað hægt á þessum degi, sem er afmælisdagur sjónvarpsins 30. september, en að minnast á eina allra eftirminnilegustu mynd sem ég hef séð í sjónvarpinu og kostaði mig ófáar andvökunætur lengi á eftir. Þetta er myndin Maðurinn sem minnkaði (The incredible shrinking man) frá árinu 1957, sem var sýnd í Sjónvarpinu nítjánhundruð sjötíu og eitthvað, þegar ég var sjálfur miklu minni en ég er í dag.
Söguþráður þessarar myndar er í rauninni einfaldur. Maður einn tók upp á því að minnka eftir að hann lenti í óvenjulegri þoku, þar sem hann var staddur í bát ásamt ósköp venjulegri konu sinni, sem hinsvegar var svo heppin að vera stödd neðanþylja á meðan. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að ekki var allt með felldu, þegar skyrtan sem hann ætlaði í, var orðin of stór. Fleiri atvik leyddu þann sannleika í ljós að maðurinn var farinn að minnka og hvorki læknar né vísindamenn vissu sitt rjúkandi ráð.
Eftir ýmsar dramatískar uppákomur hafði maðurinn búið um sig í góðu yfirlæti í dúkkuhúsi á heimili sínu. Vandræðin byrjuðu hinsvegar fyrir alvöru þegar kattarkvikindið komst óséð inn á heimilið, þegar konan hafði brugðið sér út. Manninum tókst með snarræði að flýja inn um kjallaradyr og þar niðri þurfti hann að heyja harða lífsbaráttu innan um stórhættulega könguló. Upp úr kjallaranum komst hann ekki aftur og náði ekki að gera vart við sig þegar konan fór niður í kjallara.
Þó að þetta sé æsispennandi og ógnþrungin saga þá var það eiginlega endirinn sem gerði útslagið. Maðurinn hélt bara áfram að minnka og átti að lokum kost á því að komast í gegnum fuglanetið í kjallaraglugganum og út í garð. Þar úti beið ekkert nema himinhár gróður og risastórir spörfuglar.
Ég held ég verði áræðanlega andvaka eftir að hafa skrifað þetta. Þessa tilhugsun um að minnka endalaust er erfitt að sætta sig við. Hvað ef maður stækkar endalaust, er það betra? Hér kemur sýnishorn úr myndinni, sem er ekki bara sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu, heldur sjónvarpsnostalgía allra tíma.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2009 | 23:51
Spáð í veðurfréttir
Þar sem ég spái mikið í veður eru veðurfréttir auðvitað eitt af mínu uppáhalds sjónvarpsefni. Sérstaklega er það veðurfréttatíminn á RÚV eftir kvöldfréttir sem ég vil helst ekki missa af en þá má ekki ónáða mig á nokkurn hátt og símhringingar eru illa séðar. Undir þessum sjónvarpslið veitir heldur ekki af allri athygli óskertri því að í einum veðurfréttatíma er farið yfir mörg veðurkort á stuttum tíma og mikið upplýsingamagn sem þarf að innbyrða.
Oft veltir maður fyrir sér framsetningu veðurfrétta, sérstaklega á RÚV. Óneitanlega eru kortin þar áferðafalleg og skýr en samt kemur það fyrir, þrátt fyrir að enginn hafi ónáðað mig, né síminn hringt, að veðrið fari fyrir ofan garð og neðan hjá mér, ólíkt því sem gerðist áður fyrr þegar snúningskassinn með handteiknuðu kortunum var og hét. Kannski er mér bara farið að förlast með aldrinum, en kannski ekki. Hér ætla ég að spá í veðurfréttatíma RÚV sunnudagsins 13. september en þann dag hafði verið spáð miklum hitum á norðausturlandi. Ég tek fram að ég hef ekkert út á veðurfréttakonuna sjálfa að setja, hún kláraði sitt af miklum myndarskap. Hinsvegar er alveg spurning hvort það sé til bóta að hafa veðurfræðinga í mynd. Er kannski betra að hann eða hún víki til hliðar eftir smá inngangsorð og noti síðan bendiprik. Kannski þykir það ekki nógu sjónvarpsvænt, en þegar fólk er í mynd tekur alltaf mestu athyglina til sín.
Fyrstu kortin eru yfirlitskort. Bæði sýna þau þrýstilínur, hæðir og lægðir, úrkomusvæði og hitastig á nokkrum stöðum. Seinna kortið er hitakort og sýnir hitann í ákveðinni hæð. Bæði kortin hreyfast, og sýna þróunina frá hádegi til kvölds daginn eftir. Kannski er bara ruglandi að sýna þetta á tveimur kortum frekar en í einu. Hitakortið er að vísu mjög upplýsandi, en með því að hafa þetta í tvennu lagi er verið að flakka fram og til baka í tíma. Stundum eru veðurskil teiknuð inná upphafskortið en eftir að kortið fer á hreyfingu hverfa þau og sjást ekki meir í veðurfréttatímanum. Skil finnst mér alveg bráðnauðsynleg á veðurkortum, sérstaklega ef maður skilur um hvað þau snúast. Áður fyrr sáust veðurskil alltaf á veðurkortum (hitaskil, kuldaskil og samskil), þau segja til um hverrar tegundar loftmassinn er og hvar einn loftmassinn tekur við af öðrum.
Svo koma Íslandskortin og það allt spákort. Nú spyr maður, hvar er kortið sem sýnir veðrið á landinu í dag? Mikilvægi veðurfregna finnst mér ekki bara felast í veðurspám heldur líka hvernig hefur viðrað. Venjulegir fréttatímar snúast t.d. mest um það sem hefur skeð en ekki bara um það sem á að gerast. Einu upplýsingarnar um veðrið á landinu í dag eru á stóra yfirlitskortinu í upphafi. Þar er að vísu sagt lítillega frá veðri dagsins á landinu en það fer sennilega framhjá flestum því kortið er að sýna allt annað á meðan. Íslandskortin líta þó ágætlega út. Í gamla daga voru notaðar vindörvar með mismörgum strikum eftir því sem hvassara var en þannig fékkst góð tilfinning fyrir vindstyrk án þess að þurfa að lesa tölur. Veðurspákortin áður fyrr voru líka almennt þannig að veðrið var verra eftir því sem fleiri strik voru á kortinu. Hér vantar að sjálfsögðu líka veðurskilin ef þau eru á annað borð yfir landinu, stundum er talað um skil þótt séu ekki sýnd og bent á hvar þau liggja, en einfaldast væri bara að sýna þau.
Síðan koma fleiri veðurspákort hvert á eftir öðru marga daga fram í tíman og þá eru þrýstilínur horfnar. Stundum er dvalið lengi við hvert og eitt þeirra og farið út í meiri smáatriði en efni standa til miðað við ónákvæmni margradaga-spáa. Hér mætti alveg sleppa síðasta kortinu og hafa í staðinn í veðurkort dagsins í upphafi veðurfréttatímans. Langtímaspákortin finnst mér reyndar að mættu vera yfirlitskort eins og er í upphafi veðurfréttanna þar sem hægt er að sjá veðurkerfin í heild sinni og að sjálfsögðu með skilum. Þannig sér maður hvar nýjar lægðir eru að myndast eða hæðir að fikra sig til, sem einmitt ættu að vera aðalatriðin í margradagaspám.
Eftir öllum Íslandskortunum er svo spákort fyrir Evrópu, þar er staldrað mjög stutt við. Enn eru engin skilakerfi eru sýnd. Nokkrir dropar hér og þar ásamt sólum og hitastigstölum. Í blálokin er aftur varpað fram spákorti morgundagsins til upprifjunar, sem er ágætt og eiginlega bjargar málunum eftir alla kortasúpuna.
Kannski eru margir vel sáttir við þessa framsetningu á veðri þótt ég sé með einhverjar athugasemdir. Veðurfréttatíminn er mjög knappur og lítill tími til sérstakra útskýringa sem koma veðurspánni ekki beint við. Ég held þó að veðurfréttir séu það vinsælt sjónvarpsefni að það mætti alveg staldra oftar við ýmis atriði. Það er þó einstöku sinnum gert, t.d. var sýnd gervihnattamynd í upphafi þessa veðurfréttatíma, sem ég náði reyndar ekki á mynd.
- - - - - -
Ég sleppi því núna að minnast á veðurfréttir á Stöð2. Sé þær að vísu sjaldnast því þær falla ekki inní sjónvarpsrútínuna hjá mér, en svona almennt þá finnst mér þær ekki minna ruglingslegar. Siggi Stormur finnst mér þó ágætur að því leyti að hann lætur ýmislegt flakka og getur komið með skemmtilega útúrdúra eins og til dæmis þegar hann birti þessa ljósmynd á sínum tíma og spurði: Hvað er þetta? Ég veit allt um það, enda var það bara ég sjálfur sem tók myndina en hana sendi ég í veðurljósmyndasamkeppni. (Stóðst ekki mátið að koma þessu að)
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.8.2009 | 06:16
Langskemmtilegasta langstökkskeppni sögunnar
Þann 30. ágúst 1991 var heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum haldið í Tókýó. Hápunktur þess móts var án efa langstökkskeppnin sem stundum er talin vera ein mesta keppni sem nokkru sinni hefur verið háð á frjálsíþróttavelli. Þar áttust við ofurmennið Carl Lewis og hinn minna þekkti Mike Powell, báðir frá Ameríku og endaði keppnin með heimsmeti þess síðarnefnda. Þessu ætla ég að gera skil ásamt myndbandi sem sýnir dramatískasta hluta keppninnar, sem var svo sannarlega dramatísk.
Fyrir keppnina í Tókýó var heimsmetið í langstökki 8,90 metrar og orðið 23 ára gamalt og var lengi talið nánast ofurmannlegt að stökkva slíka vegalengd. Metið átti Bob Beamon sem hann setti í þunna loftinu á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968. Með stökkinu bætti hann eldra heimsmet um heila 55 cm og þótti það með slíkum ólíkindum að talað var um stökk inn í næstu öld, þ.e. þá öld sem við lifum á nú.
Þegar Carl Lewis kom fram á sjónarsviðið á 9. áratugnum var farið að gera að því langstökksskóna að heimsmetið frá 1968 gæti verið í hættu enda var Carl Lewis algerlega ósigrandi í langstökki í heil 10 ár og var farinn að höggva nærri heimsmetinu. Þegar kom að heimsmeistaramótinu í Tókýó 1991 var Carl orðinn þrítugur að aldri, þó enn í fantaformi og ætlaði sér hina hina stærstu hluti og heimurinn fylgdist með. En hlutirnir fóru ekki alveg eins og áætlað var því flestum að óvörum var það næst besti langstökkvarinn, Mike Powell, sem stal senunni þrátt fyrir að Carl Lewis hafi átt í það heila, bestu stökkseríu allra tíma í langstökkssögunni.
Hér er langstökkskeppnin rakin en til fróðleiks og samanburðar má nefna að Íslandsmet Jóns Arnar Magnússonar er 8,0 metrar.
1. umferð: Mike Powell á misheppnað stökk, 7,85 metra. Það hefði þó dugað til sigurs á flestum Ungmennafélagsmótum á Íslandi. Carl Lewis hittir vel á það og stekkur 8.68 metra sem þá var mótsmet og myndi duga til sigurs á flestum alþjóðlegum mótum enn í dag.
2. umferð: Mike Powell nær sér á strik og stekkur 8,54 eða jafn langt og sigurstökk nýliðins heimsmeistaramóts. Carl Lewis gerir illilega ógilt.
3. umferð: Adrennan í vandræðum hjá Mike Powell sem stekkur 8,29 metra. Carl Lewis nær fyrsta risastökki keppninnar uppá 8,83 metra. Hans besta stökk á ferlinum fram að þessu.
4. umferð: Mike Powell nær gríðarlöngu stökki en gerir hárfínt ógilt og er afar ósáttur með dómara keppninnar. Carl Lewis svarar með lengsta stökki sögunnar 8,91 metrar en vegna meðvinds er það ekki skráð sem heimsmet. Hann fagnar þó vel og ekki að ástæðulausu.
5. umferð: Mike Powell sem nú var orðið mjög heitt í hamsi nær hinu fullkomna stökki 8.95 metrar og slær heimsmetið frá 1968 á óvefengjanlegan hátt við mikin fögnuð. Carl Lewis var ekkert á því að gefast upp og á enn eitt risastökkið, 8,87 metra sem dugar þó ekki til. Þetta stökk er skráð sem hans besta stökk á ferlinum enda meðvindur innan löglegra marka.
6. umferð: Mike Powell er hættur og horfir á Carl Lewis stökkva sitt síðasta risastökk upp á 8,84 metra og keppninni lýkur þar. Mike Powell fær gullið og heimsmet hans 8,95 metrar er staðfest og stendur enn óhaggað.
Þannig fór það. Sálfsagt er að minnast á þann sem vann bronsið í þessari keppni en það var enn einn Bandaríkjamaðurinn Larry Myricks, sem stökk aðeins 8,42 metra.
- - - - - -
Myndbandið sem hér fylgir er tæpar 8 mínútur en við komum til leiks í fjórðu umferð og fylgjumst með hápunkti keppninnar. Þulurinn er bandarískur og talar því í fetum og tommum. Þessa langstökkskeppni mátti sjá beinni útsendingu í sjónvarpinu á sínum tíma og vitanlega fylgdist ég spenntur með og það er því við hæfi að gera þetta að sjónvarpsnostalgíu mánaðarins á þessari síðu.
Ath! Youtube leyfir ekki að myndbandið sé skoðað inn á bloggsíðum, þannig að smella verður á link á myndinni til að sjá það. (Ég mæli hins vegar með því, ásamt því að fara út í garð og reyna að stökkva 8,95 metra)
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.6.2009 | 20:49
Smart spæjari
Það er talað um það í dag að nú þurfi að rannsaka eitt og annað, elta uppi harðsnúna fjárglæframenn og ekki síst að finna falda fjársóði en til þess þarf menn sem eru snarir í snúningum og þekkja hina leyndustu afkima kerfisins. Einn er sá maður sem gefur okkar sérstaka saksóknar lítið eftir í snaggaralegheitum en það er hinn úrræðagóði Maxvell Smart Agent 99 frá hinni háleynilegu spæjaraþjónustu Bandaríkjanna. Við sem eru nógu gömul til að muna eftir Vestmannaeyjagosinu þekkjum þennan mann undir gælunafninu Smart spæjari, þar sem hann birtist okkur í samnefndum sjónvarpsþáttum á árunum uppúr 1970.
Þættirnir voru annars framleiddir á árunum 1965-1969 undir nafninu GET SMART og voru úr smiðju þeirra Mel Brooks og Buck Henry en það var Don Adams sem fór með hlutverk spæjarans. Þættirnir voru endurvaktir tímabundið árið 1995 og sýndir hér, en árið 2008 kom út bíómynd með kappanum þar sem Steve Carrell með aðalhlutverkið.
Það sem er eftirminnilegast við þættina um Smart spæjara er annarsvegar hinn hátæknilegi skósími og svo byrjunaratriðið sem er mjög smart. Þetta byrjunaratriði má sjá hér í boði ÞúTúpu en Smart spæjari er eins og einhvern er kannski farinn að gruna, sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu og fer eins og aðrar slíkar í flokkinn sjónvarp á þessari háalvarlegu bloggsíðu.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)