Fornaletur og Garamond bókaletrið

Claude Garamond

Áfram skal haldið með letursögu. Í þeim bókum sem við lesum í dag er nokkuð líklegt að meginmálsletrið sem þar er notað eigi sér fyrirmynd í þeim leturgerðum sem komu fram í frumbernsku prentlistarinnar á 15. og 16. öld. Með prenttækninni var hver stafur handskorinn og steyptur í blý sem aftur þýddi að ásýnd leturs í bókum var ekki lengur háð takmörkunum rithandarinnar og fjaðurpennans.

Eitt af fínustu og algengustu bókaletrum nútímans eru Garamond letrin sem eiga ættir að rekja til franska leturgerðarmeistarans Claude Garamond sem uppi var ca. 1480-1561 og er meðal dáðustu listamönnum á sínu sviði. Hann átti stóran þátt í að þróa áfram og fínisera hið svokallaða fornaletur (Littera antiqua) sem er heiti á því bókaletri sem að lokum varð ofaná í hinum vestræna heimi.

Fornaletur er annars helst notað til aðgreiningar frá gotneskum leturgerðum sem komu fram á síðmiðöldum og héldu víða velli langt fram eftir öldum. Fornaletur er eignað ítölskum húmanistum á 15. öld sem vildu endurvekja klassíska fagurfræði og menntir að hætti endurreisnarinnar. Fyrirmyndin af skriftarletri ítalskra handrita þess tíma var karlungaletrið frá því um 800 sem er eldra en gotneska letrið en hástafirnir voru af Rómverskri fyrirmynd. Þegar prentlistin barst til Ítalíu fóru þeir svo strax í að þróa þessar leturgerðir áfram og steypa í blý og útkoman voru leturgerðir sem mjög líkjast því bókaletri sem við notum enn í dag. 

Leturgerðir
Þegar hugsunarháttur í anda endurreisnar breiddist út um Evrópu jukust að sama skapi vinsældir fornaleturs og ýmsir leturgerðarmeistarar komu fram sem þróuðu fornaletrið áfram. Þá er ég aftur kominn að franska leturgrafaranum Claude Garamond. Fyrstu letur hans komu fram um 1530 og urðu fljótlega mjög útbreidd. Garamond letrin þykja vera fáguð og hafa yfir sér létt yfirbragð. Meðal nýjunga sem hann kom með voru skáletursútgáfur af hástöfum sem full þörf var á en fram að þessu hafði ekki tíðkast að blanda saman skáletri og beinu letrið í samfelldum texta.

Fótaletur
Algengt íslenskt heiti á fornaletri er annars fótaletur (serif fonts) og fjölmargar gerðir af þeim áttu eftir að koma fram t.d. Palatino og Times sem bæði eru mjög algeng í dag. Með nýjum leturgerðum fór Garamond letrið smám saman úr tísku þar til það var enduruppgötvað eiginlega fyrir misskilning. Árið 1825 fannst letursett sem ranglega var eignað Claude Garamond og var það fyrirmyndin af ýmsum seinni tíma Garamondum sem urðu vinsæl. Það var svo ekki fyrr en 100 árum síðar sem það uppgötvaðist að fyrirmyndin var 17. aldar verk leturgrafarans Jean Jannons. Sú útgáfa Garamondleturs sem mest er notað í dag var teiknuð árið 1989, það kallast Adobe Garamond og á að sjálfsögðu sína fyrirmynd frá meistaranum sjálfum.

 
Bókartexti

Dæmi um Garamond letur úr bókinni ÍSLANDSFÖRIN eftir Guðmund Andra Thorsson.

- - - - -

Helsta heimild: Þættir úr letursögu, eftir Þorstein Þorsteinsson. 

Eldri bloggfærslur í þessum flokki:

TRAJAN leturgerðin

Hið forneskjulega Únsíal letur

Gotnesk letur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk fyrir þennan fróðleik. Nota sjálfur alltaf Garamond í kynningum og ritgerðum enda þykir mér það fallegasta letrið.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 18.5.2010 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband