Rólegri tímar boðaðir

Þann 21. september síðastliðinn var ég búinn að blogga í nákvæmlega þrjú ár og frá þeim degi hafa komið 364 bloggfærslur með þessari hér. Þetta þýðir að ég hef að meðaltali skrifað bloggfærslu nánast þriðja hvern dag á þessum þremur árum. Næstum aldrei hefur liðið heil vika án bloggfærslu, yfirleitt hafa þær aldrei verið fleiri en fjórar í viku, sjaldan tvo daga í röð og aldrei tvær saman daginn. Þetta hefur því verið nokkuð jafnt og þétt en þó ekki of þétt en samkvæmt meðaltalinu hafa komið út hjá mér 2,3 bloggfærslur í viku.

Nú bregður hins vegar svo við að ég er að hugsa um að fara mér hægar í sakir. Þetta bloggstarf er fyrir löngu orðið miklu meira en mér hafði dottið í hug í upphafi og satt að segja finnst mér ég vera búinn að skrifa um allt sem mig langar að skrifa um og jafnvel um allt sem ég veit. Ég hef eiginlega ekkert tekið að mér að vera þjóðfélagsrýnir en ég væri í þeim bransa þá væru bloggviðfangsefni auðvitað aldrei á þrotum. Ýmislegt af því sem ég hef skrifað um vissi ég þó lítið um áður og því hefur þetta verið ágætis fróðleiksuppgröftur fyrir sjálfan mig.

En ég er samt ekkert alveg hættur að blogga og ekki hættur að grúska. Sumar af mínum bloggfærslum eru árvissar og verða uppfærðar áfram. Svo verða örugglega einhverjar uppákomur sem ég mundi vilja deila með öðrum. Annars veit ég þetta ekki, þetta mun bara ráðast, kannski hættir maður aldrei alveg að blogga. Ég er reyndar ekki mikið fyrir það að hætta því sem ég er búinn að koma mér útí. Sumarið 1986 ákvað ég til dæmis að punkta niður hvernig veðrið yrði það sumar. Þær veðurskráningar standa enn 24 árum síðar og nokkrum mánuðum betur. Veðurskráningarnar hafa reyndar verið uppspretta ýmissa samantekta um veðrið hér á síðunni. Einni slíkri var ég búinn að lofa núna eftir næstu mánaðarmót og verður auðvitað staðið við það.

En af því að hafísinn hefur verið viðfangsefni hjá mér undanfarið og var einnig viðfangsefni minnar fyrstu bloggfærslu þá er við hæfi að birta hér nýjustu myndina frá Cryosphere Today vefnum en þar má finna hinar fínustu myndir af hafísútbreiðslunni, eins og þessa sem sýnir stöðuna frá 21. september 2010.

CT_9sept2010


Háfíslágmark númer tvö

lágmark_NSIDC

Þeir hjá Bandarísku hafísrannsóknarstofnuninni voru heldur fljótir á sér að lýsa því yfir að hafíslágmarki ársins hafi verið náð þann 10. september þegar útbreiðslan var komin niður í 4,76 milljón km2 og farin að aukast á ný dagana þar á eftir. En ísinn hefur sínar kenjar sem mönnum reynist stundum erfitt að ráða í. Síðustu daga hefur útbreiðsla íssins tekið nýja dýfu og er samkvæmt þessu línuriti komin nálægt lágmarki ársins 2008 sem var næst minnsta útbreiðsla íssins á eftir metárinu 2007. 

Línuritið sem er frá NSIDC (Bandarísku hafísrannsóknarstofnuninni) sýnir samanburð við síðustu ár nema að ég hef bætt við (í algjöru óleyfi) nýjustu upplýsingum ásamt viðmiðunarlínum og tölum og virðist útbreiðslan nú vera nálægt 4,6 millj. km2.

Trúlega mun ferillinn ekki fara neðar en þetta í ár en það sem aðallega olli þessari lokadýfu voru sterkir vindar sem mynduðust vegna samspils hæðar við norðurpólinn og lægðar við Síberíustrendur sem sjást þarna á kortinu frá 16. september, en þar sem vindurinn blés frá opnu hafssvæði inn á ísbreiðuna hlaut ísinn að hrekjast undan og þéttast. Myndin er fengin af Wetterzentrale.de og enn er ég að bæta við upplýsingum (H og L). Nú mun allt vera með kyrrum kjörum þarna norðurfrá og Norður-Íshafið fær væntanlega frið til að frjósa saman á ný enda nýtur varla nokkurs sólarhita þarna lengur.

wetterzentrale_1609

Í síðustu færslu fjallaði ég einnig um hafísinn og var þar með ýmsar vangaveltur um efasemdarmenn og áhyggjumenn sem má taka með hæfilegri alvöru. Þar nefndi ég líka að ég hefði haft smá trú á nýju lágmarki sem sem sagt hefur orðið raunin.

 


mbl.is Ísinn bráðnar óvenju hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafíslágmarkið 2010

Fyrir mig og aðra þá sem fylgjast með þróun hafísbreiðunnar á Norðurhveli er þessi tími ársins uppgjörstími því þetta er jú þegar hafísinn nær sínu árlega lágmarki. Bandaríska hafísrannsóknarstofnunin NSIDC auglýsti á dögunum að 10. september hafi lágmarki ársins verið náð og hafísbreiðan eftir það farin að aukast á ný. Frá upphafi gervihnattmælinga árið 1979 er þetta þriðja minnsta útbreiðsla hafíssins en minni útbreiðsla mældist árið 2008 og metárið 2007.

Hvað sem mönnum finnst um það hvort minnkandi hafís á norðurhveli sé eitthvað til að hafa áhyggjur af eða ekki er þetta mjög athyglisverð þróun sem mikil ástæða er til að fylgjast með. Hafísinn er oft nefndur sem mikilvægt tákn um hlýnun jarðar sem þýðir að menn túlka hafísslágmark hvers árs útfrá því hvað þeim finnst um hlýnun jarðar. Í loftslagsumræðunni skiptast menn gjarnan í efasemdarmenn og áhyggjumenn. Efasemdarmenn gleðjast ekkert sérstaklega þegar haldið á lofti fréttum um lélegt ástand hafíssins en hafa þó leiðinni engar sérstakar áhyggjur þótt ísinn minnki. Áhyggjumenn hafa hinsvegar ekkert á móti því að hafíssútbreiðslan dragist saman ef það verður til að opna augu almenning um alvarleg áhrif hnattrænnar hlýnunar, en hafa samt áhyggjur af minnkandi hafís. Þetta er auðvitað frekar athyglisvert en þarf þó ekki að vera mjög undarlegt.

Spár sem gerðar eru um hafíslágmark markast líka af viðhorfum manna til loftlagsbreytinga, efasemdarmenn spáðu flestir hafíslágmarki yfir 5 milljónum km2 á meðan áhyggjumenn spáðu gjarnan minna en 5 milljón km2. Niðurstaða upp á 4,76 samkvæmt NSIDC hlýtur því að vera tiltölulega hagstæð fyrir áhyggjumenn þótt auðvitað valdi hún þeim nokkrum áhyggjum. Einnig ætti ég sjálfur samkvæmt þessum kannski vafasömu fullyrðingum að teljast til áhyggjumanna enda spáði ég á loftslag.is í vor að lágmarkið yrði 4,5 milljón km2. Þegar þetta er skrifað hef ég reyndar ennþá smá trú á að lágmarkið gæti endað undir 4,76 án þess að ég hafi af því neinar sérstakar áhyggjur.

Hafís 2000-2010

Þann 15. september s.l. leit hafísútbreiðslan út eins og sést til hægri en til samanburðar sýni ég meðalútbreiðsluna í september fyrir 10 árum. Eins og sjá má eru núna stór íslaus hafsvæði norður af Alaska og Síberíu og báðar siglingingaleiðirnar norður fyrir Síberíu og Kanada greiðfærar skipum ef varlega er farið. Þetta er allt annað ástand en var t.d. um og fyrir aldamót þegar í mesta lagi aðeins önnur leiðin náði að opnast í lok sumars.

Útbreiðsla hafíssins er auðvitað bara einn mælikvarði á heilbrigði ísbreiðunnar. Ísinn getur verið misjafnlega gisinn á milli ára. Í metlágmarkinu árið 2007 náðu vindar t.d að þjappa ísnum mikið saman og hrekja hann suður um sundið milli Grænlands og Svalbarða. Þetta hefur ekki gerst í sama mæli í sumar.
Hinn eini sanni mælikvarði hlýtur hins vegar að vera heildarrúmmál íssins þar sem þykktin á ísnum er tekin í dæmið. Það hefur hins vegar verið erfitt að meta þykkt íssins af nógu mikilli nákvæmni hingað til. Úr þessu verður bætt á næsta ári þegar upplýsingar fara að berast frá nýju gervitungli Gryosat-2 sem mælir þykkt íssins með mikilli nákvæmni. Við hafísaðdáendur getum vonandi fylgst með þeim mælingum jafnóðum á netinu.

Að lokum er hér mynd sem ég útbjó útfrá ljósmyndum sem nálgaðist á Arctic Mosaic síðunni hjá NASA og er frá 16 september. Breidd myndarinnar ætti að spanna um 1000 km en norðurpóllinn er þarna í hvíta svæðinu vinstra megin. Eins og sjá má er ísinn afskaplega lítilfjörlegur þarna lengst norður undir pólnum, stór opin svæði í bland við gisinn ís og kannski bara freistandi fyrir einhvern að skella sér í ískalt sjósund

Norðurpóll 2010


Risabyggingin í Mekka

Það er ekkert lát á stórhuga byggingarframkvæmdum í Asíu. Í hinni heilögu borg múslima, Mekka eru framkvæmdir langt komnar við eitt mikilfenglegasta stórhýsi sem nokkru sinni hefur risið. Staðsetningin er líka sérstök því húsið rís alveg við hliðina á sjálfri Stóru moskunni þangað sem múslímar fara í sínar pílagrímsferðir og ganga sjö hringi umhverfis Kaba hofið, eða hvað sem má kalla þessa litlu kassalaga svörtu byggingu sem mannfjöldinn gengur í kring um en þar á sjálfur Abraham að hafa reist byggingu utan um svarta steininn svokallaða og akkúrat á þeim stað trúa múslímar jafnvel að sjálfur Adam hafi upphaflega reist fyrstu byggingu veraldar.

Mekkaturn
Stórhýsið sem þarna rís núna samanstendur í raun af sjö turnum sem saman mynda eina heild og nefnist Abraj Al-Bait. Byggingin á að hýsa hótel af bestu sort auk íbúða og verslunarmiðstöðvar ásamt ýmsu fleiru fíneríi. Turnarnir eru misháir, sex þeirra eru uppá 42 til 48 hæðir en meginturninn, klukkuturninn, er 95 hæðir og minnir um margt á risavaxinn Big Ben. Á hverri hlið turnsins eru dýrindis klukkuskífur sem munu verða þær langstærstu í heimi en þar á ofan kemur 70 metra há turnspíra með gylltum hálfmána á toppnum. Heildarhæð þessa mannvirkis mun líklega enda í 601 metra sem gerir þetta mjög örugglega að næst hæsta húsi í heimi því þau háhýsi sem á eftir koma eru um 100 metrum lægri. Hæsta hús í heimi er eftir sem áður hinn 828 metra hái Burj Kalifa turn í Dúbæ. En þótt Abraj Al-Bait byggingin sé ekki hæst í heimi er hún samt talin sú stærsta sé tekið tillit til gólfflatar sem mun verða 1,5 milljón fermetrar enda getur þar farið ágætlega um 100 þúsund manns í einu.
Áætlað er húsið verði tilbúið á næsta ári og framkvæmdir eru langt komnar. Fimm hinna lægri turna eru fullkláraðir en á aðalturninn vantar bara spírurnar ofan á klukkuturninn.

Um smekklegheit þessara byggingar er ekki mikið hægt að segja nema að þetta mun seint verða tekið sem dæmi um fágaðan og látlausan nútímaarkitektúr. Byggingin minnir helst á fyrstu háhýsin sem risu nálægt Wall Street samankomin í einn hnapp en þess má geta að byggingaraðilinn er hið virta byggingarfyrirtæki BinLadin Group sem stofnað var árið 1931 af Sjeik Mohammed bin Laden.


Steinn Odds sterka í Ármúlanum

Oddssteinn

Í borgarumhverfi okkar í dag má sumstaðar finna merkilega steina og aðra orginal smábletti sem sloppið hafa frá því að verða malbiki og byggingarframkvæmdum að bráð. Einn þessara staða er vel falinn inn af afgirtu bílastæði milli Ármúla og Lágmúla og tilheyrir lóð VÍS-hússins að Ármúla 3. Þessu komst ég að við lestur greinar eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson í tímaritinu Ský þá er ég flaug skýjum ofar í Fokker vél á dögunum. Grein þessi fjallaði um ýmsar sérstakar persónur sem settu svip sinn á bæinn á liðinni öld en meðal þeirra var Oddur sterki af Skaganum, eða Oddur Sigurgeirsson, sem var uppi á árunum 1879-1953. Það sem vakti helst áhuga minn í greininni er að þar er fjallað um myndarlegan stein sem Oddur þessi mun hafa rist nafn sitt á, skýrt og greinilega, á áðurnefndum stað í Ármúlanum. Mér fannst þetta ekki síður áhugavert vegna þess að ég tel mig þekkja nokkuð vel til Ármúlans sem er nálægt mínum uppeldisstöðvum í Háaleitishverfinu þaðan sem ýmsir könnunarleiðangrar voru farnir um nágrennið á sínum tíma, til dæmis til að útvega hráefni í kofabyggingar eða þess háttar.

Oddur áritunÞað var því ekki um annað að ræða en að hafa upp á þessum steini sem ég og gerði. Eftir að hafa fundið steininn þurfti ég að ganga næstum heilan hring umhverfis hann áður en ég fann áletrunina en þar stendur stórum og skýrum stöfum: Oddur Sigurgeirsson þar undir ritstjóri, síðan með óljósara letri Harðjaxls og loks ártalið 1927. Letrið er dálítið falið bak við gróður en af ummerkjum að dæma virðist eitthvað vera um mannaferðir þarna og jafnvel að einhverjir hafi leitað sér skjóls enda skagar ein hlið steinsins dálítið fram eins og hallandi veggur. Sennilega hefur Oddur sjálfur lagst til hvílu við steininn oftar en einu sinni, allavega var þetta ekki fyrir honum hvaða steinn sem er.

Oddur tilkynningEftir að hafa ritað á klöppina á sínum tíma sendi Oddur þessa tilkynningu í Alþýðublaðið sem sjá má hér og birtist 9. mars 1927. Greinilega hefur Oddi ekki orðið að þeirri ósk sinni að áletraða stykkinu úr klöppinni hafi verið komið fyrir að gröf hans sem er í Fossvogskirkjugarði og ekki veit ég til þess að einhver hafi rekist á hann á kvöldgöngu í seinni tíð. 

Í sínu lifanda lífi átti Oddur þessi annars við ýmist mótlæti að etja, hann lenti í höfuðslysi sem barn sem háði honum ætíð eftir það. Hann þótti skrítinn til máls og var stundum strítt af börnum þó sjálfur væri hann barngóður. Hann var harðger sjómaður og verkamaður en þótti sopinn góður en seinni hluta ævinnar gat hann lítið sinnt líkamlegri vinnu. Hann leit þó stórt á sig og gaf meðal annars út tímaritið Harðjaxl og gat því titlað sig ritstjóra með sanni. Orðið Harðjaxl virðist samkvæmt tilkynningunni ekki hafa verið með í upphaflegu árituninni á steininn og sennilega hefur Oddur bætt því við síðar.

Eftirminnilegasta uppátæki hans var sennilega þegar hann dubbaði sig upp í klæðnað að hætti fornkappa, sjálfsagt með aðstoð einhverra grallara og heilsaði þannig upp á kónginn á Alþingishátíðinni 1930. Við það tækifæri var tekin mynd af þeim heiðursmönnum og einnig gefið út sérstakt litprentað kort af Oddi í fullum herklæðum með textanum: Oddur Sigurgeirsson fornmaður.

Oddur og konungur

 - - - - - 

Nánar má lesa um steininn og Odd sterka á vefnum Ferlir: http://ferlir.is/?id=7832

auk áðurnefndrar greinar í tímaritinu SKÝ.


Hlýtt loft úr suðaustri

MetOffice7sept

Sú staða sem upp er á veðurkerfunum í dag þriðjudaginn 7. september hefur lengi verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Hæð vestur af Noregi og lægðarsvæði suður af landinu sem beina í sameiningu hlýju Evrópusambandslofti úr suðaustri þannig að útkoman verður hlýtt veður á landinu nema þar sem vindur stendur að hafi. Að sumri til er þessi staða oft vænleg til að gefa okkur Reykvíkingum 20 stiga hita en það er hins vegar afar fátítt í september. Hitinn í borginni í dag hefur reyndar bara verið um 15 stig sem er auðvitað ágætt fyrir árstímann en norðlendingar hafa samt ennþá vinninginn með sól og allt að 22 stiga hita. Við Reykvíkingar viljum auðvitað líka fá svona mikil hlýindi en í staðinn fáum við nú bara öskuþrunginn strekkingsvind í bland við Evrópumistrið.

Hér að neðan er kort úr minni smiðju sem ég teiknaði fyrir hér fyrir bloggið fyrir löngu síðan og sýnir þessa hitavænlegu stöðu á einfaldari hátt.

20stigKort

 


Tónlistarhúsið 2006-2010

Einn af föstum árlegum dagskrárliðum á þessari bloggsíðu er að birta ljósmynd af tónlistarhúsinu séð ofan af Arnarhóli. Hverja mynd hef ég tekið um hádegi einhvern bjartviðrisdaginn síðustu dagana í ágúst nema ein sem var tekin 1. september. Myndatakan nær aftur til ársins 2006 þegar gamli Faxaskálinn stóð enn uppi en þá voru framkvæmdir á svæðinu nýhafnar.

Tónlistarhúsið hefur breytt mikið um svip frá því í fyrra því nú er glerísetning hafin og búið að raða upp hinum miklu gluggakubbum á suðurhlið hússins sem blasir við frá Arnarhóli. Það er síðan til marks um skrykkjótta byggingarsögu tónlistarhússins að allt þetta kubbaverk þarf að taka niður og raða saman upp á nýtt vegna smíðagalla. Þetta þarf að gerast svo að gluggaumgjörðin standist þau verstu óveður sem hér geta skollið á. Ekki væri gott ef dýrindis glerverkið sáldraðist um allan bæ í einhverju rokinu. Þetta vesen mun þó ekki kosta okkur skattborgarana neitt auka, því mistökin skrifast á kínversku undirverktakana og húsið mun eftir sem áður opna í maí á næsta ári. Þetta tefur þó frágang að utanverðu þannig að þegar fyrstu lúðrar hljóma næsta vor og hörpusláttur hefst í húsinu verður gluggauppsetningu ólokið. Húsið eins og það lýtur út í dag er því einskonar forsýning þess sem verður. 

En hér er myndasyrpan: 

Tónlistarhús 2010

Tónlistarhús 2009

Tonlistarhus2008

Tónlistarhús 2007

Tonlistarhus2006


Sumarveðurgæði

Nú eru aðal-sumarmánuðirnir að baki og eins oft áður ættu flestir landsmenn að geta verið vel sáttir við sitt sumarveður. Nú er það svo að eftir því sem árunum sem maður upplifir fjölgar vilja liðin sumur gjarnan renna saman í minningunni og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar hafi verið betra en annað. Sumarið 1986 fór ég að skrá niður veður daglega og get því borið saman einstök ár veðurfarslega séð. Þar að auki hef ég komið mér upp sérstöku einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þetta hef ég útskýrt áður, en sýnishorn af veðurskráningu má t.d. sjá hér.

Útfrá þessu veðureinkunnakerfi hef ég svo teiknað þessa mynd sem sýnir veðureinkunn síðustu 20 sumra í Reykjavík, eða árin 1991-2010. Þarna sést að sumarið í sumar fær einkunnina 5,13 sem er mjög góð einkunn og sú sama og árin 2004 og 2007 fengu. Bestu einkunnina fékk sumarið í fyrra 5,36. Lökustu sumrin þarna eru hinsvegar árin 1992 og 1995. Þau voru þó ekki nærri eins slæm og verstu rigningarsumrin í Reykjavík fyrir nokkrum áratugum.

Sumur 1991-2010

Lýsing á sumrum:
Hér kemur mjög stuttaraleg lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1991. Ekki alveg tæmandi lýsing, en aðallega er miðað við mitt heimapláss,
Reykjavík.

1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.  
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 Eitt hlýjasta sumar sem hefur komið í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst var með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.

- - - - 

Útfrá þessari lýsingu og einnig myndinni má sjá það sem flestir ættu að geta verið sammála um að sumrin hafa almennt farið batnandi undanfarin ár í Reykjavík. Eitt er víst að hitinn hefur aukist, nokkur síðustu sumur hafa líka verið sólrík og svo hefur vindinn eitthvað lægt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband