Reykjavíkurhiti í kubbamynd

Árið 2012 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 5,5 stig. Það er alveg í samræmi meðalhita síðustu 10 ára og 1,2 gráðum yfir 30 ára meðaltalinu frá 1961-1990 og hálfri gráðu yfir hlýja 30 ára meðaltalinu 1931-1960. Þetta var líka 12 árið í röð með meðalhita yfir 5 stigum og eru nokkur ár síðan svo mörg hlý ár í röð töldust vera einsdæmi enda hafa hlýindin frá síðustu aldamótum verið með eindæmum.

Kubbamynd 1901-2012
Nýliðið ár er grænblátt að lit sem er litur áratugarins. Það er í félagsskap með tveimur öðrum jafnhlýjum árum 1928 og 2007 sem líka geta talist vera góðærin áður en allt hrundi. Annars sést þarna ágætlega hvernig áratugirnir dreifast á hitaskalanum. Sá síðasti hélt sér alfarið ofan við 5 stigin öfugt við fyrsta áratug 20. aldar sem komst ekki upp fyrir 4,5 stigin. Efst trónir þarna árið 2003 með 6,1 stig í meðalhita en árið 1979 situr sem fastast á botninum með árshita upp á aðeins 2,9 stig. Árið 1995 er síðasta kalda árið sem komið hefur og mætti segja að það marki lok kalda tímabilsins sem hófst um eða upp úr 1965.

Nokkur ár frá hlýindaskeiði síðustu aldar veita hlýjustu árum seinni tíma harða keppni en óvissa vegna tilfærslu veðurathuganna er þó alltaf einhver eins og stundum er tekið fram í tilkynningum Veðurstofunnar. Það sem hinsvegar dregur meðalhita fyrra hlýindatímabilsins niður er meiri óstöðugleiki í hitafari en verið hefur á núverandi hlýskeiði.

Það er klassískt að velta fyrir sér hvort árshitinn sé kominn til að vera yfir 5 stigunum. Það finnst mér sjálfum frekar ólíklegt og treysti auk þess ekki alveg á að nýhafinn áratugur verði endilega hlýrri en sá síðasti. Áratugurinn fer þó vel af stað og ekki síst nýhafið ár 2013.


Grænlandsjökull fyrir 2.500 árum

Nú kemur nokkuð löng bloggfærsla og ekki að ástæðulausu því þættinum hefur borist bréf. Kannski ekki beinlínis bréf, heldur vinsamleg beiðni í athugasemdakerfinu frá Kristni Péturssyni, bloggara, útgerðarmanni og fyrrverandi Alþingismanni og ekki síst "áhugamanni um vandaða þjóðmálaumræðu" og hljóðar þannig:

Sem grafískur hönnuður ferðu létt með að gera mynd af Grænlandsjökli á pari við þessa mynd. Vinsamlega reyna að gera sambærilega mynd af Grænlandsjökli og svo getum við síðar rætt um að gera sambærilega mynd af öllum norðurslóðum fyrir 2500 árum. Það er ekki hægt að nálgast umræðuefnið "hnattræna hlýnun" nema byrja fyrir a.m.k. 2500 árum.

Ísland -2500 árMeð beiðninni fylgir Íslandskortið hér til hliðar sem sýnir hvar smájöklar voru líklega fyrir 2.500 árum. Kortið er frá 1996 og höfundar þess eru jarðfræðingarnir Grétar Guðbergsson og Þorleifur Einarsson.

Yfirleitt tek ég frekar dræmt í ábendingar frá öðrum um hvað ég ætti að taka fyrir í mínum bloggfærslum. Mér fannst þetta hinsvegar nokkuð áhugavert viðfangsefni og í svari mínu til Kristins sagði ég að grafíska hliðin væri ekkert vandamál ef hann treysti mér til þess að meta stærð jökulsins. Ég tók fram að ég hefði vissar hugmyndir og vísbendingar en auðvitað er ég enginn sérfræðingur á sviði jöklarannsókna og því síður náttúruvísindamaður. En það má þó alltaf reyna.

Umrætt Íslandskort með sinni 2.500 ára gömlu jöklastöðu hefur oft dúkkað upp hjá K.P. og fleirum. Það sem greinilega þykir merkilegast við kortið er hversu litlir jöklarnir eru og þykir sumum það gefa vísbendingar um hversu lítilfjörlegt núverandi hlýindaskeið er í samanburði við fyrri hlýindi. Eða eins og KP segir sjálfur í bloggfærslu frá 9.mars 2011: Fyrir aðeins 2500 árum voru litlir jöklar á Íslandi eins og þessi mynd sýnir. Í því ljósi er frekar broslegt að fylgjast með vælubíl umhverfisvina um loftslagsbreytingar "af manna völdum".

Þetta Íslandskort er auðvitað enginn endanlegur sannleikur um jöklastöðu fyrir 2.500 árum og er vissulega ekki nákvæmt. Ég hef til dæmis bent á að Öræfajökull er á vitlausum stað á kortinu. Spurning er líka hversu miklar ályktanir er hægt að draga útfrá jöklastöðu hvers tíma. Er jöklastærð t.d. alltaf í samræmi við ríkjandi hitastig eða spilar þar inn í hitastig undanfarinna alda eða árþúsunda? Það er vel þekkt staðreynd að jöklar á norðurhveli voru minni fyrir nokkrum árþúsundum en í dag og að meginhluti Vatnajökuls er ekki leifar af síðasta jökulskeiði sem lauk fyrir um 10 þúsund árum. Hlýjasta tímabil núverandi hlýskeiðs (Holocene) var fyrir um 6-9 þúsund árum en síðan þá hefur leiðin legið meira og minna niður á við með kólnandi loftslagi og stækkandi jöklum. Eins og ég kom inn á í síðustu bloggfærslu þá eru breytingar á möndulhalla jarðar eru taldar spila þarna sterkt inn í, því með meiri möndulhalla fyrir nokkur þúsund árum var sólgeislun sterkari á norðurslóðun að sumarlagi sem skilaði sér í meiri snjóbráðnun og smærri jöklum. Þróunin hefur síðan verið í átt að minni möndulhalla og minnkandi sólgeislun og fór Vatnajökull að þróast sem ein samfelld ísbreiða fyrir um 2 þúsund árum. Stærð jökulsins náði svo hámarki við lok 19. aldar en með núverandi hlýnunartímabili, sem ekki sér fyrir endann á, eru Íslensku jöklarnir greinilega of stórir til að halda jafnvægi.

En þá að Grænlandsjökli
Grænlandsjökull er af allt öðrum stærðarflokki en Vatnajökull og hverfur ekki svo glatt á stuttum tíma þrátt fyrir mikla hlýnun. Hversu stór jökullinn hefur verið á tilteknum tímapunkti er erfitt að segja til um og ekki tókst mér að finna kort sem sýnir jökulinn á hlýskeiði síðustu árþúsunda. Hinsvegar eru önnur kort gagnleg eins og þessi þrjú hér að neðan.

Grænlandsjökull 3 kort
Fyrsta kortið sýnir Grænland nútímans. Jökullin þekur um 80% landsins. Meðalhæð yfirborðs er 2.135 metrar, þykktin er víðast hvar yfir 2 km en mesta þykkt er yfir 3 km.
Miðjukortið sýnir landið án jökuls. Grænlandsjökull nær að stórum hluta undir sjávarmál þannig að ef hann væri fjarlægður í einum vettvangi myndaðist þar innhaf sem reyndar myndi hverfa þegar landið lyftist vegna fargléttingar. Með ströndum Grænlands eru hinsvegar fjallgarðar sem halda aftur að jöklunum og má því líkja Grænlandi við stóra skál, barmafullri af ís. Hálendi er mest allra syðst og austast.
Þriðja kortið er mjög gagnlegt en það sýnir hvernig áætlað er að þykkt og stærð Grænlandsjökuls hafi verið fyrir um 120 þúsund árum, eða seint á hinu mjög svo hlýja Eem-tímabili sem er hlýskeiðið á milli síðustu tveggja jökulskeiða. Þegar best lét var það hlýskeið 2-4 gráðum hlýrra en hlýjasta tímabil núverandi hlýskeiðs fyrir 6-9 þús. árum. Kortið er mjög nýlegt og er afrakstur Norskrar rannsóknar sem birtist í október síðastliðnum. Þar kemur fram niðurstaða sem þykir nokkur nýstárleg, því gert er ráð fyrir að vegna lítillar úrkomu sé hinn kaldari norðurhluti Grænlands viðkvæmari fyrir hlýnun en suðurhlutinn, öfugt við það sem oftast hefur verið talið. Vesturhlutinn er einnig viðkvæmari en austurhlutinn enda fellur mesta úrkoman á suðausturhluta jökulsins. Jökulinn á syðsta hluta landsins hefur einnig haldið velli, bæði vegna mikillar úrkomu og hæðar landsins undir jökli. Aðalmálið er þó að jökullinn á þessu mikla hlýskeiði er heill og óskiptur þrátt fyrir minnkandi flatarmál og talsverða þynningu heilt yfir. Hann hefur því ekki verið margskiptur í smájökla eins og Vatnajökull enda allt annað dæmi hér á ferð.

Grænlandsjökull fyrir 2.500 árum
Granland -2500Þá er loksins komið að kortinu sem óskað var eftir að ég teiknaði. Það er byggt á áðurnefndum upplýsingum og hef ég þá í huga að núverandi hlýskeið sem hófst fyrir um 10 þúsund árum hefur ekki verið eins hlýtt og hlýskeiðið þar á undan (þ.e. Eem fyrir 120-130 þúsund árum). Að auki var hlýjasta tímabili núverandi hlýskeiðs (Holocene) yfirstaðið fyrir 2.500 árum og jöklar farnir að stækka á ný. Mín óvísindalega niðurstaða er því sú að Grænlandjökull hafi þarna verið stærri en sést á kortinu frá Eem en samt minni en hann er í dag. Kortið mitt sýnir því jökulstærð sem er einhverstaðar þarna á milli en auðvitað er óvissan talsverð enda teikna ég jökulinn með mjög mjúkum dráttum frekar en að sýna skörp skil. Sennilega hefur þó meginjökullin verið álíka fyrirferðamikill víðast hvar en mestur munur liggur væntanlega í lengd skriðjöklanna sem teygja sig í átt til strandar á milli fjallaskarða.

Hvort menn séu sáttir við þessa niðurstöðu veit ég ekki en auðvitað verður að taka öllu með fyrirvara. Hlýnun á Grænlandi hefur verið mjög skörp á síðustu öld og á síðustu árum hefur mikil bráðnun verið í gangi á jöklinum og jökulsporðar hopað mikið eins og hér á landi. Jökullinn er því ekki í jafnvægi miðað núverandi hitastig og því síður ef hlýnar enn meir. Það verður síðan að hafa í huga að minni jökulútbreiðsla fyrir 2.500 árum þarf ekki að þýða að hlýrra hafi verið þá enda fóru jöklar stækkandi fyrir 2.500 árum öfugt við í dag þegar þeir fara ört minnkandi – og sér ekki fyrir endann á því ef rétt reynist að núverandi hlýnun sé að stórum hluta af mannavöldum. Eitt er allavega víst að hlýnunin nú er ekki að sama toga og sú sem leiddi til þess að ísaldarjökullinn hvarf og íslensku jöklarnir að mestu leyti enda fer sólgeislun að sumarlagi enn minnkandi til langs tíma vegna minnkandi möndulhalla jarðar.

Læt þetta duga en lofa engu um gerð sambærilegrar myndar af öllum norðurslóðum fyrir 2.500 árum.

- - - -

Heimildir sem ég studdist við eru héðan og þaðan eins og oft áður.

Um Norsku rannsóknina sem minnst var á, má lesa hér á ScienceDaily: Enhanced Melting of Northern Greenland in a Warm Climate.

Svo má benda á 2ja ára gamlan bloggpistil frá Trausta Jónssyni: Saga Grænlandsjökuls - (söguslef 10)


Jólasól fyrr og nú

Það er þetta með jólin og sólina. Er tilviljun að þessi orð jól og sól séu svona svipuð. Eru þau kannski bæði skyld orðinu hjól – sem vísar í hina eilífu hringrás tímans? Ætli þetta séu þá hjólajól eftir allt? Margt hefur annars verið skeggrætt um samband jólanna og sólarinnar, enda ljóst að í fornum átrúnaði er þetta einn mikilvægasti tími ársins. Jólin eru að vísu ekki akkúrat um vetrarsólhvörf enda hefur mönnum sjálfsagt þótt rétt að hinkra við í tvo til þrjá daga til að fullvissa sig um að sólin færi örugglega hækkandi á ný. Fæðing frelsarans er að auki ærið tilefni fyrir kristna menn til að halda hátíð en væntanlega tengist þetta allt saman í bak og fyrir. Hann Jésú okkar átti það líka til að líkja sér við sólina og kallaði sig jafnvel ljós heimsins og auðvitað reis hann upp á þriðja degi eftir að hafa stigið niður til heljar - reyndar var það á páskum.

Jólasól
Myndina hér að ofan tók ég við Ægisíðu þann 30. desember árið 2009 eða rúmri viku eftir vetrarsólhvörf. Á sínum tíma hefur fjallið Keilir sjálfsagt verið ágætis viðmið um sólargang en sólin sest einmitt á bak við Keili um vetrarsólstöður séð frá þessum stað eða svona nokkurn vegin. Reyndar er það svo að sólargangur tekur örlitlum breytingum með hverju ári, munurinn er þó öllu greinilegri á þúsunda og tugþúsunda ára skala enda er möndulhalli jarðar breytilegur þegar til mjög langs tíma sé litið

ÖxulveltaMöndulhalli jarðar sveiflast fram og til baka á 41 þúsund árum. Hallinn er 23,5° um þessar mundir en fer smám saman minnkandi næstu 10 þúsund ár sem þýðir að jörðin er að rétta úr sér og mun gera það þar til hallinn verður kominn niður í 22,1°, þá mun hallinn aukast á ný uns hann verður 24,5°. Jörðin er svo til hálfnuð með að rétta úr sér en við það færist heimskautsbaugurinn smám saman til norðurs. Þróunin næstu 10 þúsund ár eru því í áttina að meiri birtu yfir vetrartímann en að sama skapi minni birtu yfir sumartímann. Þessi birtusveifla getur ráðið úrslitum um komu eða endalok jökulskeiða því minnkandi sumarbirta á norðurslóðum eins og þróunin er núna, er talin valda kólnun og stækkandi jöklum að öllu jöfnu. Það passar einmitt vel við þróun síðustu árþúsunda eða allt þar til nú upp á síðkastið að eitthvað er farið að valda hlýnun og bræða jöklana af miklum móð á sumrin.

Fyrir þúsund árum og rúmlega það hefur væntanlega verið sjáanlegur munur á afstöðu sólarinnar til okkar miðað við daginn í dag. Þá hefur möndulhalli jarðar verið aðeins meiri og skammdegið að sama skapi aðeins meira. Ef fyrrnefnd ljósmynd hefði verið tekin á sama stað á sama tíma fyrir þúsund árum hefði sólin því að öllum líkindum þegar verið sest og horfið aðeins fyrr á bakvið fjöllin og þá væntanlega talvert nær hinum pýramídalagaða Keili, sem sjálfsagt hefur lítið breyst á þúsund árum. Sögðu indíánarnir ekki annars að ekkert vari að eilífu nema fjöllin? Kannski segja fræðin annað í dag en nokkur þúsund ár eru samt ágætis eilífð á mannlegum tímaskala.


Heimsendir og pólskipti

Maya dagatalEins og margboðað hefur verið stefnir allt í heimsendi þann 21. desember - eða ekki. Fornt dagatal Maya-indjána staðfestir þetta enda nær það ekki lengra en til 21. desember 2012. Að vísu er möguleiki á að ekki hafi verið meira pláss á steininum sem dagatalið var rist í en reyndar telja þeir sem skoðað hafa málið, að dagatalið nái einungis yfir ákveðið tölfræðilegt tímabil sem nú er á enda þannig að nú þarf að byrja að telja upp á nýtt. Fyrir okkur sem búum hér á jörðinni ætti þetta því ekki að skipta neinu máli. Sumir líta reyndar á þetta sem stórtímamót þrútin mikilli andlegri merkingu fyrir allt mannkyn og svo má líka gera ráð fyrir því að þeir sem hafa komið sér upp rammgerðum hamfaraklefum neðanjarðar séu þegar búnir að yfirfara búnað og skotfærabyrgðir - svona til öryggis.

Það má annars velta fyrir sér hvað hugsanlega geti leitt til heimshamfara hér á jörð, hvort sem þau eru yfirvofandi eða ekki. Helst væru það mikil hamfareldgos sem jarðsagan á ýmis dæmi um og svo líka mikill loftsteinaárekstur að ógleymdu allsherjar kjarnorkustríði. Eitt af því sem stundum er nefnt er umpólun á segulsviði jarðar sem verður hér á jörð með óreglulegu millibili. Slík pólskipti eru merkilegt fyrirbæri en öfugt við það sem ýmsir hamfarasinnar boða þá eru þau eitthvað sem við þurfum afskaplega litlar áhyggjur að hafa af. Reyndar er líka talað um annarskonar pólskipti (True Polar wander) þar sem snúningsöxull jarðar færist til - jafnvel um 30°. Kenningar eru um slíkt geti hafi gerst, en þá með hraða sem er ekki meiri en 1° á milljón árum. Æsilegri og mun vafasamari eru þó hugmyndir sem snúast um skyndilega færslu á sjálfri jarðskorpunni með ólýsanlegum hörmungum um alla jörð. Slíkar hugmyndir gætu verið samsuða úr ýmsum pólskiptakenningum og duga ágætlega í hamfarabíómyndum. Pólskiptin sem ég ætlaði hins vegar að fjalla um hér eru umpólun á segulssviði jarðar og best að fara að koma sér að því.

Pólskipti. Segulsvið jarðar orsakast af málríkum ytri kjarna jarðarinnar aðallega þó járni og ver okkur fyrir hættulegum geimgeislum. Þetta segulsvið á það til umpólast þannig að segul-norður verður segul-suður. Jörðin sjálf mun hinsvegar snúa og snúast eins og áður þ.e. hún fer ekki á hvolf eða á hlið. Kannski er smá óvissa með veðrakerfin en þau ættu þó að haldast að mestu óbreytt og vindur mun áfram snúast í sömu átt í kringum lægðir. Þetta mun ekki einu sinni hafa áhrif á það hvernig vatn snýst ofan í niðurföll enda hefur það ekkert með segulsvið að gera.Segulumpólun

Síðasta umpólun á segulsviði jarðar átti sér stað fyrir um 780 þúsund árum sem telst vera frekar langur tími en að meðaltali eiga pólskipti sér stað á um 450 þúsund ára fresti. Annars er engin regla á þessu því liðið geta örfáar árþúsundir milli pólskipta og allt upp í tugmilljónir ára. Pólskiptin sjálf eiga sér aldeilis ekki stað á einni nóttu, því talið er að umskiptin gerist á þúsundum ára – eða allt upp í 10 þúsund ár sem ætti að vera nægur tími til aðlögunar hjá þeim dýrategundum sem treysta á seguláttir til að vísa sér leiðir.

Segullínur
Á umpólunarskeiðinu sjálfu verður segulsvið jarðar gerólíkt því segulsviði sem við þekkjum. Í stað tveggja póla (norður og suður) verður til kaótískt ástand með nokkrum segulpólum þannig að segja má að allar segullínur lendi í einni flækju. Væntanlega ekki vinsælt ástand meðal ferðalanga sem þurfa að treysta á áttavita. Að lokum kemst nýtt jafnvægi á, oftast með öfugu segulsviði miðað við það sem áður var en þó ekki endilega. Ýmislegt virðist þó ekki alveg vitað með vissu eins og til dæmis hvort segulsviðið veikist á meðan á umpólun stendur þannig að jörðin verði berskjaldaðri gagnvart geislun. Ekkert bendir þó til þess að fjöldadauða lífvera sé hægt að tengja við umpólun en hinsvegar þykjast sumir geta séð samband á milli mikilla basaltgosa og pólskipta eftir allra lengstu stöðugleikatímana. Annars virðast ýmsar kenningar á lofti í þessu eins og öðru sem flókið mál er að setja sig inn í.

Eitt áhugavert jarðfræðilegt atriði tengist líka segulumpólun. Storkuberg varðveitir um aldur og ævi vísbendingar um þá segulstefnu sem ríkjandi er þegar kvika storknar í eldsumbrotum, sem þýðir að segulstefna hjálpar til við aldurákvarðanir bergs. Botn Atlantshafsins er stöðugt að gliðna út frá Mið-Atlantshafshryggnum og sjávarbotninn er eldri eftir því sem fjær dregur hryggnum. Gliðnun Atlantshafsins hefur staðið yfir í tugmilljónir ára og á þeim tíma hefur jörðin gengið í gegnum fjöldamörg segulpólskipti. Á þeim svæðum sem segulstefna hafsbotnsins hefur verið mæld koma því fram einskonar segulrákir með stefnu samsíða hryggnum. Svona mæling hefur farið fram suðvestur af Reykjaneshrygg samanber myndina hér og gott ef svona segulmælingar hafi ekki bara verið eitt af þeim atriðum sem sönnuðu að lokum landrekskenninguna fyrir einungis nokkrum áraugum síðan.

Segulrákir

 - - -

Nánar um segulumpólun á Wikipedíunni: http://en.wikipedia.org/wiki/Geomagnetic_reversal


Stóra snjódagamyndin

Það er varla hægt að tala um að snjóað hafi í Reykjavík það sem af er vetri ólíkt því sem verið hefur á norðurhluta landsins. Ekki virðast miklar líkur á að þetta muni breytast í bráð því spáð er sæmilegum hlýindum næstu daga og má jafnvel gæla við þann möguleika að ekkert snjói fram að jólum. Þetta er allt annað ástand en var í fyrra þegar við fengum snjóþyngsta desember í manna minnum eftir hlýjan nóvembermánuð.

Stóru snjódagamyndina hér að neðan birti ég síðast fyrir um ári en þar má sjá hvenær snjór hefur verið á jörðu í Reykjavík mánuðina frá október til apríl allt aftur til ársins 1986. Síðastliðinn vetur er nú kominn inn en annars er myndin óbreytt. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin og tölurnar hægra megin sýna fjölda hvítra- eða hvítflekkóttra daga. Þetta er allt unnið út frá mínum eigin veðurdagbókarskráningum en miðað er við hvort jörð sé hvít eða auð á miðnætti eða því sem næst. Einhver munur gæti verið á þessum athugunum og hinum opinberu snjóhuluathugunum sem fara fram á Veðurstofutúni að morgni til. Svo má taka fram að oft er mikið matsatriði hvort jörð sé hvít eða ekki því stundum er aðeins um að ræða lítilsháttar nýfallna snjóföl eða misflekkótta snjóhulu í mismikilli afturför.

Snjódagar 1986-2012
Samkvæmt þessu, þá er veturinn 1994-1995 sá hvítasti með 129 daga en sá snjóléttasti er hinn hlýi vetur 2002-2003 með aðeins 32 daga. Aðeins einum snjódegi meira var svo veturinn 2009-2010. Snjódýptin sést ekki á myndinni en í minningunni er veturinn 1988-1989 eftirminnilegastur vegna mikils fannfergis eftir áramót og fram í apríl. Veturinn þar á eftir var snjórinn einnig mjög þrálátur en ekki alveg eins mikill að magni.

Svo má líka skoða endana. Árin 2008 og 2009 snjóaði óvenjusnemma en það entist þó ekki lengi. Þrjú tilfelli eru um hvíta jörð í bláendann í apríl. Myndin nær ekki fram í maí en sumir muna kannski eftir mikla snjónum að morgni 1. maí 2011, svipað og gerðist árið 1987.

Nú veit ég auðvitað ekkert hvernig snjóalögum verður háttað það sem eftir er vetrar en aðalsnjóavertíðin ætti annars að vera framundan. Eins og sést á myndinni þá segir upphaf vetrar lítið til um framhaldið. Hlýindatímabil ríkir reyndar enn á Íslandi og ekkert sem bendir til að það sé yfirstaðið. Þrátt fyrir það má alltaf eiga von á köldum snjóþyngslamánuðum inn á milli til tilbreytingar.

 


Óleyfileg athugasemd

Kristinn Pétursson skrifar í dag bloggfærsluna: Nú verður fjallað opinberlega um jöklastöðu á Íslandi fyrir 2500 árum þar sem hann gerir hlýindi fyrri árþúsunda á íslandi og nágrennis að umtalsefni. Hann talar m.a. um hvað jöklar voru smáir hér á landi fyrir 2.500 árum sem reyndar er vel þekkt staðreynd. Einnig spáir hann í hvernig Grænlandsjökull hafi litið út á hlýrri tímum og kallar eftir grafískri mynd af jöklinum á fyrri tíð og líka af ísnum á norðurpólnum. Í framhaldinu koma svo fram hjá honum klassískar efasemdir um það hvort nokkuð sé að marka mælingar á hitafari jarðar og svo ýmislegt fleira í þeim dúr. Ekki tókst mér að skrifa athugasemd við færslu hans þar sem ég hef ekki leyfi til þess enda er þetta eldheitt málefni og sígild deiluefni hér á blogginu þar sem hver telur sig vita best og skil ég þar sjálfan mig ekki undan. Ég tók skjáskot af athugasemdinni sem ég birti hér að neðan. Þetta er því ekki eiginleg bloggfærsla hjá mér enda er ég að hugsa um að taka þetta út aftur áður en langt um líður.

Athugasemd
Athugasemdin var á þessa leið:
"Minni jöklastaða hér fyrr á tímum er vel þekkt meðal vísindamanna og ég veit ekki betur en að þeir séu almennt sammála um ástæður þess að loftslag hafi farið smám saman kólnandi síðustu árþúsund og fram að upphafi 20. aldar.
Grafískar myndir um stærð jökla og ísbreiða aftur í tímann eru mjög háðar ágiskunum. Þó er nokkuð ljóst að Grænlandsjökull hefur haldið flatarmaláli sínu að mestu enda er Grænland eins og skál sem er full af ís. Þegar ís Grænlandsjökuls minnkar þá lækkar í skálinni en flatarmál breytist lítið. Þetta er ólíkt Íslandi sem er meira bungulaga með jöklum ofaná sem eru miklu viðkvæmari fyrir bráðnun."


Fleira mætti gera athugasemdir við í skrifum Kristins en þar skín í gegn sú hugmynd hans og reyndar margra annarra að hlýindin núna séu ekki svo merkileg vegna þess að hlýtt hafi einnig verið áður fyrr og það sem við séum að upplifa núna sé bara náttúruleg sveifla sem mun vonandi ekki ganga til baka. Málið er hinsvegar það að núverandi hlýindi, eins góð og þau eru akkúrat fyrir okkur hér íslandi nú um stundir, eru talin vera aðeins hluti af þeirri hnattrænu hlýnun sem sennilega mun halda áfram langt fram á næstu öld ef ekki lengur. Hlýindin sem voru hér fyrir nokkrum árþúsundum voru af allt öðrum toga en þau sem eru í dag. Þau voru aðallega bundin við norðurhvel og orsökuðust af meiri möndulhalla jarðar sem gerði það að verkum að sólgeislun var meiri að sumarlagi á norðurhveli þannig að ís og jöklar áttu erfiðara uppdráttar en í dag. Þróunin til minni sólgeislunar að sumarlagi mun halda áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar eftir því sem jörðin réttir meira úr sér en síðan mun þróunin snúast aftur við.

Hver sem er getur gert hér athugasemdir eins og ávallt á þessari bloggsíðu.


Skeggtíska endurspeglar tíðarandann

Við lifum á skeggjuðum tímum þar sem ekkert þykir sjálfsagðara en að karlmenn láti andlitshár sín vaxa óskert. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið enda er skeggtíska nátengd tíðarandanum hverju sinni rétt eins og önnur tískufyrirbæri. Fyrir nokkrum dögum var skeggfræðingur kynntur til sögunnar í sjónvarpinu en sá hafði skrifað BA-ritgerð um skeggsögu Íslendinga. Náði sú athugun eitthvað aftur í aldir en endaði sirka á hippaárunum kringum 1970 ef ég man rétt. Sjálfsagt mjög athyglisverð rannnsókn.

En skeggsagan endar þó ekki þar og frá árinu 1970 hefur skeggtískan farið heilan hring eða jafnvel tvo, þannig að eiginlega má tala um skeggjaðar og óskeggjaðar kynslóðir eins og ég ætla að reyna að rekja hér. Ég get svo sem upplýst að ég er fæddur árið 1965 sem þýðir að ég varð tvítugur árið 1985. Á þeim árum datt varla nokkrum ungum manni á uppleið í hug að láta sér vaxa skegg enda má segja að ég tilheyri skegglausu kynslóðinni. Á árunum um og upp úr 1980 þótti hjá ungum mönnum það vera beinlínis gamaldags, kallalegt og fúlt að vera með skegg.

Duran DuranHetjur 9. áratugarins voru heldur ekki með skegg, hvorki pönkararnir né nýrómantísku poppararnir. Eiginlega áttu menn að vera kvenlegir ef eitthvað var in the eighties, með mikið blásið hár upp í loftið í penum skófatnaði og jafnvel málaðir, á sama tíma og konurnar voru með axlapúða til að gerast karlmannlegri. Þetta voru líka tímar framtíðarhyggju enda voru tölvurnar farnar að gera það gott og allt sem var nútímalegt og framsækið þótti jákvætt. Þetta voru líka tímar efnishyggju og þá þótti allt annað en skammarlegt að vera svokallaður uppi.

Ýmsir menn á besta aldri voru þó með skegg á 9. áratugnum en það voru þá leifar frá hárunum um og eftir 1970 þegar mikil skeggtíska var í gangi sem tengdist hippamenningunni. Helst voru það þá hinir rótækari sem létu skegg sitt vaxa og stundum mjög frjálslega. Vinstri menn, verkalýðsleiðtogar, Steingrímur og Ögmundurspekingar og svo auðvitað margir popparar voru þarna áberandi skeggjaðir og eru sumir jafnvel enn. Mörg skeggin hafa þó rýrnað mjög með tímanum og eru í dag varla nema svipur hjá sjón eða jafnvel horfin. Hægri menn og Framsóknarmenn áttu sín skegg líka en þar voru yfirvaraskeggin meira í tísku. Þau voru líka góð og gild á diskótímanum en kolféllu út úr myndinni eftir það og fátt hefur verið fráleitara en yfirvaraskegg hjá minni kynslóð og þeim seinni jafnvel líka.

Þegar leið á 9. áratuginn fór þetta smám saman að breytast. Ameríska rapp- og hjólabrettamenningin fór að verða áberandi, og draumaliðið USA í körfubolta sló í gegn. Þá þótti smart að vera með frjálsleg hálfskegg og hárlitlir menn fengu uppreisn æru og máttu raka það sem eftir var á kollinum í stíl við Michael Jordan. Þarna var líka komin heilmikil þreyta gagnvart framtíðarhyggju og skynsemishyggju 9. áratugarins. Nýaldarmenning allskonar hófst með 10. áratugnum og hippatískan var endurunnin með síðum hárum og ýmsum skeggútgáfum að ógleymdu "grönsinu" með Kurt Kóbein í broddi fylkingar. Þetta frjálslega lúkk gekk þó ekki þegar menn ætluðu sér stóra hluti í ört vaxandi fjármálaheimi upp úr aldamótunum. Þar réði snyrtimennskan ríkjum með vel snyrtum andlitum og burstuðum skóm. Tíska og tíðarandi hefur annars oft skipst í tvær fylkingar. Í úthverfum borgarinnar og nágrannsveitarfélögum þróaðist hnakkamenningin sem var mjög mótfallin öllum líkhamshárum neðan hnakka. Til mótvægis voru svo krakkarnir í hundraðogeinum sem tilheyrðu krúttskynslóðinni. Þótt áherslan hafi þar verið á hið barnslega sakleysi létu strákarnir sér þó vaxa það skegg sem í boði var og þótti passa einkar vel við prjónahúfurnar.

Í dag þegar draumaheimar frjálshyggjunnar hafa kollsteypst virðist hið frjálslega útlit hafa tekið völdin með sigri hipsteramenningarinnar. Í stað Arne Jakobsen snúast smartheitin nú um að endurnýta það gamla. "Retró" er málið og Slippfélagshúsið er orðið að hóteli með gamaldags veggfóðrum og Kexverksmiðjan Frón heitir nú KEX Hostel og þar getur varla nokkur vel rakaðaður maður látið sjá sig. Jafnvel menn af minni kynslóð eru farnir að sjást með skegg, man til dæmis eftir einum skólabróðir úr MH sem kannski ætlar að verða formaður Samfylkingarinnar og fleiri mætti nefna. Sjálfur er ég í engum slíkum hugleiðingum en viðurkenni þó að rakvélin er ekki notuð á hverjum degi.

Skegg Reykjavik

Myndaröðin hér að ofan er tekin af bloggsíðunni Beards of Reykjavik þar sem sjá má mikið samansafn að skegglingum.

Á hinum myndunum má annarsvegar sjá drengjahljómsveitina Duran Duran og hinsvegar mynd sem ég tók af tveimur pólitíkusum af vinstri kantinum á fyrstu vikum búsáhaldabyltingarinnar. Skeggjaður guðfræðiprófessor sýnist mér líka gægjast þarna inn.

Um BA-ritgerð Siggeirs F. Ævarsonar, Upphaf íslenskrar skegg­tísku, má lesa nánar hér:

Skeggfræðingur rannsakar skeggsögu Ísland.

 


Útsynningur á vefmyndavél

Hin óstöðuga suðvestanátt með sínum skúrum eða slydduéljum og einstaka hagléljum er ákaflega myndrænt veður, einkum þegar geislar skammdegissólarinnar ná að varpa dulmagnaðri birtu á skýjabakkana. Hér kemur smá sýnishorn af útsynningi dagsins en myndirnar eru skjáskot af vefmyndavél Veðurstofunnar og sýna veðrið í Reykjavík með 15 mínútna fresti þann 15. nóvember frá kl. 12:15 til 14:00.

15. nóv 12:15 15. nóv 12:3015. nóv 12:4515. nóv 13:0015. nóv 13:1515. nóv 13:3015. nóv 13:4515. nóv 14:00

 


Hamfaraheimskort

Þó að við hér á Íslandi búum við mikinn fjölbreytileika í náttúruhamförum þá eru þær hamfarir sem betur fer ekki mjög dramatískar á heimsmælivarða. Til að skoða það betur þá hef ég gert hér tilraun til að kortleggja náttúruhamfarir heimsins til að sjá við hverju má búast hér og þar. Útkoman er kortið hér að neðan sem gæti kallast hamfaraheimskort og er í stíl við hamfarkortið af Íslandi sem ég útbjó á sínum tíma. Greinilegt er að sum svæði verða fyrir meira aðkasti en önnur. Í Bandaríkjunum og Suðaustur-Asíu eru til dæmis varla pláss fyrir allar uppákomurnar á meðan önnur svæði eru nánast auð. Það má skipta flestum náttúruhamförum í tvo meginflokka: veðurfarslegar hamfarir og jarðfræðilegar. Fjölmennustu svæði jarðar eru auðvitað viðkvæmari fyrir duttlungum náttúrunnar en þau fámennari og svo skiptir ríkidæmi líka máli því mesta manntjónið verður iðulega í fátækari löndunum á meðan eignatjónið er mest í hinum ríkari löndum. Katastrófur kallast svo það þegar mikið manntjón auk eignatjóns verður í hinum ríkari og þróuðu löndum. En hér er kortið – nánari útlistun er svo fyrir neðan.

Hamfaraheimskort

Nánari útlistun: Eldgos geta valdið miklu tjóni í nánasta umhverfi en þau stærstu geta valdið gríðarlegum hamförum og jafnvel kælt loftslag á allri jörðinni tímabundið. Eldvirkustu svæðin eru flest bundin við flekaskil þar sem úthafsfleki fer undir meginland t.d. allt í kring um Kyrrahafið. Indónesía blandast þarna inn í en er alveg sér á parti þegar kemur að eldvirkni. Í Evrópu er gýs aðallega á Ítalíu auk Íslands. Nokkur eldvirkni er við sigdalinn í Afríku þar sem álfan er að byrja að klofna og svo eru einstaka heitur reitur inná meginflekunum. Við flekaskil þar sem tveir meginlandsflekar koma saman er oft bara um jarðskjálfta að ræða eins og Himalayjafjölllum. Gjörvallur Kyrrahafshringurinn framkallar einnig mikla jarðskjálfta og í þeim stærstu á Kyrrahafi og Indlandshafi er hætt við hamfaraflóðbylgjum í stíl við það sem íbúar Asíu hafa fengið að kynnast í tvígang á þessari öld. Slíkar skjálftaflóðbylgjur verða ekki á Atlantshafinu enda er botn Atlantshafsins að gliðna um hrygginn suður eftir öllu hafinu í frekar rólegu ferli, nema kannski hér á Íslandi þar sem hryggurinn liggur ofansjávar. Á fjöllóttum svæðum geta skriður gert mikinn usla í rigningartíð og þurrkað út heilu þorpin. Af veðurfarslegum fyrirbærum er annars af nógu að taka en þar fá fellibyljirnir í Ameríku mesta athygli, sérstaklega ef þeir nálgast Bandaríkin. Annað og kannski öllu meira fellibyljasvæði er vestast í Kyrrahafinu þar sem lætin skella á löndum Austur-Asíu. Minni hitabeltisstormar eru á víð og dreif sitt hvoru megin miðbaugs og svo þekkjum við vel styrk vetrarstormanna hér á norðanverðu Atlantshafi. Merkilegt er annars að sunnanvert Atlantshaf er alveg laust við fellibylji enda fréttum við ekki af fellibyljum í Argentínu og Brasilíu. Hafísinn merki ég inn hér norður af landi. Hann er þó kannski úr sögunni sem vandamál en þó er aldrei að vita. Hitabylgjur og kuldaköst verða helst á tempruðum svæðum þar sem stutt er bæði í kalt og hlýtt loft. Hinsvegar tekur fólk hitabylgjum fagnandi á kaldari norðlægum slóðum enda verða þær sjaldnast til vandræða þar. Kuldaköstin geta þó teygt sig nokkuð langt suður eftir Asíu að vetralagi og sama má segja um hitabylgjur að sumarlagi. Flóð geta einnig víða valdið usla eins og t.d. í Pakistan, Kína og víðar í Asíu. Bandaríkjamenn, Evrópubúar og Ástralir þurfa einnig að kljást við flóð þegar regnið fer úr böndunum en svo eru þurrkarnir oft öllu verri á sömu slóðum ekki síst þegar uppskeran er í húfi. Á því hafa íbúar austur Afríku oft fengið að kenna en þar er öll afkoma fólksins beinlínis háð hinu hárfína sambandi regns og þurrka. Önnur afleiðing þurrka utan eyðimarka eru svo skógareldarnir sem eiga það til að fara úr böndunum og nálgast íbúðabyggðir, jafnvel heimkynni fræga fólksins í Hollywood. Bandaríkinn eru einnig land skýstrókanna en lítið fréttist af þeim annarstaðar. Fyrir utan jarð- og veðurhamfarir má svo auðvitað nefna engisprettufaraldinn sem getur eyðilagt uppskeruna á stórum landsvæðum í heitu löndunum. Engisprettur falla sennilega í hamfarahópinn sem gæti kallast meindýr, plágur og óargadýr en ég fer ekki nánar út það hér. Ekki fer ég heldur út í þá tegund hamfara sem mannskepnan stendur fyrir sjálf í friði og ófriði. Það kallar á alveg sérstaka kortagerð.


Vindstigin endurskoðuð

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að leggja niður gömlu góðu vindstigin en taka upp í staðinn mælieininguna metrar á sekúntu. Þessi skilgreining hefur sjálfsagt ýmsa kosti - er til dæmis nákvæmari en gamla vindstigakerfið. Hitt er annað mál að þegar vindafar ber á góma í daglegu tali þá notar fólk ekki tölur enda hafa fæstir almennilega tilfinningu fyrir því hvað vindur fer hratt í metrum á sekúntu talið. Fólk segir bara að það sé logn, dálítið hvasst eða jafnvel helvíti hvasst og það skilst. Gömlu orðin sem voru tengd vindstigunum gerðu þetta líka að vissu marki, samanber kul, stinningsgola og stormur en voru hinsvegar komin nokkuð til ára sinna og ekki alltaf skiljanleg nútímafólki. Flestum finnst t.d. það vera öfugmæli að rok skuli vera meira en stormur enda þekkja það fæstir þegar sjóinn tekur að rjúka upp í roki. Það fyrirbæri má þó gjarnan sjá t.d. í Kollafirði í mestu veðrunum eins og við höfum fengið að kynnast í norðanáttinni undanfarið.

Til að reyna að bæta eitthvað úr þessu ætla ég að koma hér með tillögu að nýju kerfi til að lýsa vindhraða sem miðast við málvitund nútímafólks. Gömlu heitin og vindhraði í metrum á sekúntu eru í sviga.

       Blánkalogn  ( Logn 0–0,2 m/s )

       1  Logn  ( Andvari 0,3–1,5 m/s )

       2  Bongó  ( Kul 1,6–3,3 m/s )

       3  Smávindur  (Gola 3,4–5,4 m/s )

       4  Dálítill vindur  ( Stinningsgola 5,5–7,9 m/s )

       5  Soldið hvasst  ( Kaldi 8,0–10,7 m/s )

       6  Leiðindavindur  ( Stinningskaldi 10,8–13,8 m/s )   

       7  Ansi hvasst  ( Allhvasst 13,9–17,1 m/s )

       8  Helvítis rok  ( Hvassviðri 17,2–20,7 m/s )

       9  Brjálað rok  ( Stormur 20,8–24,4 m/s )   

     10  Snarvitlaust rok  ( Rok 24,5–28,4 m/s )

     11  Alveg bilað  ( Ofsaveður 28,5–32,6 m/s )

     12  Ó-mæ-god!  ( Fárviðri > 32,6 m/s )

Dæmigerð norðanáttar-óveðurspá gæti samkvæmt þessu hljómað svona:Ansi hvasst eða helvítis rok af norðri á landinu og jafnvel brjálað rok allra vestast. Hvessir enn meira um kvöldið með norðaustan helvítis- eða jafnvel snarvitlausu roki. Ó-mæ-god í verstu hviðunum.

Með veðurspám í þessum dúr er ég viss um að óveðuspár fari ekki framhjá nokkrum manni.


Hamfarakort af Íslandi

Það eru ekki mörg lönd í heiminum sem geta boðið upp á jafn mikið úrval af náttúrufarslegum uppákomum og Ísland. Þegar gosið í Eyjafjalljökli stóð sem hæst vorið 2010 gerði ég tilraun til að kortleggja það helsta sem við þurfum að fást við í náttúrunni og útkoman var hið svokallaða Hamfarakort. Ýmislegt hefur gerst síðan, svo sem gos í Grímsvötunum og núna síðast stórhríð á Norðurlandi og jarðskjálftar. Það er því alveg tímabært að endurbirta hamfarakortið, en þó með smá uppfærslum og viðbótum.

Hamfarakort 2012

Hamfarayfirlit. Eldgos á Íslandi er kannski það sem mesta athygli fær og ekki að ástæðulausu. Þó að flest eldgos séu frekar meinlaus þá geta inn á milli komið hamfaragos sem er stærri í sniðum en við viljum hugsa til enda. Eldvirknin er aðallega bundin við gosbeltin á landinu sunnan og norðanlands en áhrifin af þeim geta verið mun víðtækari. Stórir jarðskjálftar verða helst á Suðurlandsundirlendi og úti fyrir Norðurlandi auk minni skjálfta víðar. Hafísinn kemur oftast að landi á norðanverðum Vestfjörðum og getur breiðst út austur eftir Norðurlandi og jafnvel suður með Austfjörðum á köldum árum. Síðustu áratugi hafa snjóflóð reynst vera skaðlegustu uppákomurnar í mannslífum talið en helsta ógnin af þeim er þar sem fjöllin eru bröttust yfir byggðum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Hætta á skriðuföllum og berghlaupum fylgir einnig þessum fjöllóttu landshlutum. Á suðvesturlandi er hættan á sjávarflóðum mest enda er landið þar almennt að síga af jarðfræðilegum ástæðum. Flóð geta komið í stærri ár vegna úrkomu og leysinga en sér-íslensk fyrirbæri hljóta að vera jökulhlaupin á Suðurlandi. Óveður geta skollið á í öllum landshlutum og úr öllum áttum og þeim geta fylgt mikil vatnsveður eða stórhríðir á óhentugum tímum. Þurrkar hafa víða plagað bændur undanfarin sumur og þá kannski helst á Vestur- og Norðurlandi. Sunnanlands má hins vegar helst eiga von á eldingum en þeim fylgir alltaf viss hætta. Sandfok telst varla til mikilla hamfara en á hálendinu er fokið nátengt gróðureyðingu landsins en einnig hefur öskufokið bæst við eftir síðustu gos. Eldar eru aðallega í formi sinu- og jarðvegselda en eftir því sem gróðri fer fram á landinu eykst hættan á stærri atburðum svo sem skógareldum. Svo eru það bara blessaðir ísbirnirnir sem stundum álpast hingað - ekki síst nú á undanförnum árum þrátt fyrir minnkandi hafís.

Það má velta fyrir sér dreifingu hamfara á landinu. Enginn landshluti er óhultur samkvæmt þessu en sum landssvæði liggja þó betur við vissum höggum en önnur. Það landssvæði sem mér sýnist sleppa best er Breiðafjörðurinn og Dalirnir, helstu atburðir þar eru veðursfarslegir en þó ekki endilega verri en annarstaðar.

Við getum fagnað því að hér verða hitabylgjur ekki til vandræða, jafnvel ekki í framtíðinni. Ekki heldur fellibyljir eða skýstrókar nema þá í smækkaðri mynd. Þótt minnst hafi verið á skógarelda verða þeir varla í líkingu við það sem gerist erlendis og hamfaraflóðbylgjur vegna jarðskjálfta koma hér varla enda aðstæður öðruvísi hér en á Kyrrahafinu. Það má þó ímynda sér flóðbylgjuhamfarir af öðrum og fáheyrðum atburðum svo sem af loftsteinahrapi í hafið sem minnir okkur á að hamfarir geta verið afar víðtækar. En hvað sem öllu líður þá getum við þó kannski fagnað því umfram annað að hér verður enginn engisprettufaraldur.


Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Fimmvörðuháls 3.apríl

Eitt af haustverkunum hjá mér á þessari bloggsíðu er að setjast í spástellingar og velta fyrir mér næsta eldgosi á Íslandi. Að venju eru þessar vangaveltur settar fram af meira kappi en forsjá enda er ég litlu nær um framtíðina en aðrir. Ekki er ég heldur jarðfræðingur og því skal líta á þessar pælingar sem dæmigerða tilraun óbreytts bloggara til að hafa vit á hlutunum.
Prósentutölurnar í upptalningunni hér að neðan vísa í hversu miklar líkur ég tel á að næsta gos verði í viðkomandi eldstöð og eru þau líklegustu talin fyrst. Eins og oftast áður eru það sömu þrjár eldstöðvarnar sem verma efstu sætin nema að þessu sinni á ég erfitt með að gera upp á milli toppsætanna. Ég geri þó varfærnislega tilraun til þess.

26% Grímsvötn eru komin í mikinn ham og þar hefur gosið þrisvar sinnum með 6-7 ára millibili síðan 1998. Auk þess er svo Gjálpargosið 1996. Grímsvatnagos virðast koma í lotum sem standa yfir í áratugi og greinilegt að slík lota er í fullum gangi en til samanburðar þá gaus ekkert þarna á árunum 1942-1982 og jafnvel lengur eftir því hvað skal skilgreint sem gos. Núna eru Grímsvötn hinsvegar sígildur kandídat fyrir næsta gos jafnvel þótt stutt sé frá síðasta gosi. Hvort næsta gos verði í Grímsvötnum ræðst aðallega að því hvort aðrar eldstöðvar séu í startholunum og nái að skjótast inn á milli eins og raunin hefur reyndar verið undanfarin ár. Þó má velta fyrir sér hvort síðasta Grímsvatnagos hafi breytt rútínunni eitthvað en það gos var sérlega öflugt eins og bændur og búfé fengu að kenna á.

24% Hekla er mikið ólíkindatól sem gýs nánast fyrirvaralaust og gerir það alla spádóma erfiða. Nú getum við ekki lengur stólað á 10 ára regluna sem upphófst með Skjólkvíagosinu 1970 en samkvæmt þeirri reglu hefði Hekla átt að gjósa árið 2010 eða 2011. Kannski er tappinn í gosrásinni fastari fyrir núna en undanfarna áratugi en vitað er að þrýstingur hið neðra er fyrir nokkru kominn í það sem dugað hefur til að koma af stað síðustu eldgosum. Því er vel mögulegt að áratugalangt goshlé sé nú reyndin en Hekla hefur í gegnum aldirnar gosið einu sinni til tvisvar á öld og þá yfirleitt með öflugri gosum en við höfum átt að venjast síðustu áratugi.

22% Katla minnir á sig með stöku skjálftum öðru hvoru en þó kannski ekki alveg með þeim krafti sem vænta má ef eitthvað mikið er í aðsigi. Eftir því sem sagnir herma þá er heilmikill aðdragandi að Kötlugosum ólíkt því sem gerist í Grímsvötnum og Heklu. Minniháttar skjálftar og umbrot hafa verið í sjálfri Kötluöskjunni sem benda til einhverra kvikuhreyfinga hið neðra og fyrr eða síðar verður þarna gos sem menn hafa reyndar beðið eftir áratugum saman. Við bíðum þó eftir frekari vísbendingum svo sem hæðarbreytingum, uppþornuðum lækjum og svo stóru skjálftunum sem koma venjulega nokkrum klukkutímum fyrir gos.

15% Bárðarbunga (9%) og Kverkfjöll (6%) koma hér saman þótt um sitthvora megineldstöðina sé að ræða. Eldvirkni á þessu svæði ásamt Grímsvötnum tengist mjög virkni sjálfs möttulstróksins undir landinu sem mun einmitt vera staðsettur undir norðvestanverðum Vatnajökli. Aukin virkni í Grímsvötnum gæti því tengst aukinni virkni þarna almennt. Báðar þessar eldstöðvar eru til alls líklegar og hafa alloft gosið eftir landnám. Gossagan er þó ekki mjög þekkt vegna þess hve afskekktar eldstöðvarnar eru. Þarna getur verið um að ræða gos innan jökuls með tilheyrandi vatnsflóðum eða sprungugos utan jökuls með hraunrennsli. Hættulegust eru þarna hin miklu hraungos sem geta orðið til suðvesturs frá Bárðarbungukerfinu.

4% Reykjanesskagi ásamt Hengli er oft í umræðunni enda stutt frá höfuðborgarsvæðinu og víst er gos á skaganum mun setja ýmislegt á annan endann. Jarðskjálftavirknin sem þarna er hefur þó yfirleitt lítið með kvikuhreyfingar að gera því þarna er landið einfaldlega að gliðna. Virkni á þessu svæði breytir hinsvegar um ham um nokkurra alda skeið með margra alda millibili. Hvenær næstu hamskipti verða vitum við ekki en það ætti að vera farið að styttast í þau með tilheyrandi gosum í hverju eldstöðvakerfinu af öðrum næstu aldir á eftir. Kannski munum við verða vitni að einhverjum atburðum þarna á næstu árum en það gætu líka liðið 200 ár áður en eitthvað spennandi fer að gerast.

4% Askja og nágrenni verður einnig að fá að vera með hér. Askja og Dyngjufjöll eru mjög eldvirkt svæði með miklum sprungukerfum í norður. Þarna varð myndarlegt hraungos árið 1961 og heilmiklir atburðir á seinni hluta 19. aldar þegar Öskjuvatn myndaðist. Skjálftavirkni er öðru hvoru á þessum slóðum en ekki margt sem bendir til eldsumbrota alveg á næstunni.

5% Aðrir staðir skora ekki hátt hjá mér þótt allt sé til alls líklegt. Hér koma til greina staðir eins og Torfajökulssvæðið, Eyjafjallajökull, Mývatnsöræfi og Þeystareykir að ógleymdum Vestmannaeyjum, Öræfajökli og jafnvel Snæfellsjökli o.fl. en þá eru ólíkindin orðin talsverð. Í ljósi skjálftahrinu fyrir norðan má svo kannski fara út fyrir landsteinana þar sem Kolbeinseyjarhryggurinn er. Fínt væri þar að fá nýja eyju í stað þeirrar sem er að sökkva í sæ.

Næsta gos


Stjórnarskrár(vanda)málið

Fyrsta setningin í bloggfærslum finnst mér alltaf erfiðust og ekki síst núna þegar ég ætla að reyna að skrifa um þetta mikilvæga mál – eða ómikilvæga eftir því hvernig á það er litið. En til að lesendur fái smjörþefinn af afstöðu minni til stjórnarskrármálsins þá vil ég rifja upp dálítið sem ég var spurður um fyrir mörgum árum þegar einn kunningi minn var kominn í framboð og spurði hvort ég vildi meiri völd. Ég skildi spurninguna ekki alveg í fyrstu en eftir frekari útskýringar kom í ljós að spurningin snérist um það hvort ég sem almennur borgari ætti að hafa meiri áhrif um stjórn landsins og þannig fá meiri völd. Eftir smá þögn og umhugsun kom svar mitt sem var einfalt: Nei.
Neitunin hefur sennilega valdið þessum kunningja mínum dálitlum vonbrigðum og líklega komið honum eitthvað á óvart. Kannski kom svarið mér sjálfum líka á óvart en það var allavega einlægt því að í rauninni langaði mig ekkert sérstaklega í meiri völd. En það var líka annað sem ég hafði í huga sem var að ef ég fengi meiri völd, þá fengju allir hinir líka meiri völd og ef allir hinir fá líka meiri völd þá hefur í rauninni enginn fengið meiri völd, nema kannski bara meirihlutinn. Eða hvað? Best væri auðvitað fyrir mig ef ég fengi að ráða öllu einn, en slíkt einræði er varla í boði.

Þannig er um margar spurningar að það er ekki auðvelt að svara þeim neitandi. Barn sem spurt er hvort það vilji nammi eða fisk, hlýtur yfirleitt að velja nammið, jafnvel þó það viti að fiskurinn sé hollari. Og þegar þúsund manns koma saman á þjóðfundi til að gera óskalista fyrir þjóðina verður útkoman alltaf einhver útgáfa af að boðorðunum þremur: Frelsi, jafnrétti og bræðralag - reyndar allt gott um það að segja. En svo þegar þetta er sett í stjórnarskrá verður útkoman einhvern veginn þannig: „Allir eiga að fá að ráða meiru og allir jafn miklu“. Semsagt allir eiga að fá að ráða, nema reyndar þeir sem eru svo óheppnir að hafa aðrar skoðanir en meirihlutinn. Sem þýðir að minnihlutinn fær engu ráðið þegar upp er staðið og fellur þá um sjálft sig að allir fái að ráða. Málamiðlanir eru ekki í boði í svona Já- og Nei-ræði.

Þetta er kannski orðið dálítið snúið hjá mér og á mörkunum að ég skilji þetta sjálfur. En allavega þá voru það pælingar í þessum dúr sem urðu til þess að ég varð fljótlega mjög efins þegar talað var um að kjósa stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni, svo ekki sé talað um að skrifa algerlega nýja. Mikilvægt plagg eins og Stjórnarskrá er ekki sett saman nema mjög rík ástæða er til. Þetta er sáttmáli sem almenn sátt á að ríkja um og engar deilur. Þetta er sáttmáli sem allir eiga að bera virðingu fyrir hvar sem þeir standa í pólitík. Þess vegna er í raun ógjörningur að koma slíku plaggi saman nema þegar nýtt ríki er stofnað eða þegar meiriháttar stjórnarfarsbreytingar eiga sér stað.

Fjármálahrunið var örlagaríkt en þó varla nægilega þungvægt til að koma fram með nýja stjórnarskrá. Hugmyndin að nýrri stjórnarskrá varð í rauninni til í nokkurskonar panikástandi eftir hrun þar sem öllu átti helst að breyta og það hið snarasta. Þetta féll mér ekkert sérstaklega vel þannig að þegar kosið var til stjórnlagaþings, kaus ég þá frambjóðendur sem vildu fara sér hægt og halda vörð um ríkjandi stjórnarskrá en þó kannski með smá lagfæringum. Enginn þeirra sem ég kaus náði kjöri enda voru þetta lítt þekktir einstaklingar sem varla höfðu sést í sjónvarpi og alls ekki í Silfri Egils. Þeir sem völdust í ráðið voru því ekki þar samkvæmt mínum óskum enda tilheyrði ég þarna minnihlutanum sem fékk engu ráðið. Ekki var ég heldur á Þjóðfundinum og get því ekki sagt að þarna sé verið að fara eftir mínum þjóðarvilja.

Ég veit ekki hvernig þetta mál fer en það er nú kyrfilega komið í skotgrafir stjórnmálanna eins og við mátti búast frá upphafi. Það er svo sem eðlilegt í mörgum málum en mjög óheppilegt þegar um stjórnarskrá Lýðveldisins er að ræða. Þess vegna hefði kannski verið betra að fara hægar í sakirnar, breyta nokkur atriðum núna og öðrum seinna. Í fyllingu tímans verður þá búið að endurskrifa stjórnarskrána og þá verður kannski hægt að tala um stjórnarskrána eins og gamla hamarinn hans afa sem fyrst fékk nýtt skaft og seinna nýjan haus en varð samt alltaf sami gamli hamarinn hans afa.

14Esja18nov.jpg

Frá Esjuhlíðum.


Berghlaupið mikla í Esjunni

Allt í náttúrunni er breytingum undirorpið og það landslag sem við sjáum í dag er í raun bara stundarfyrirbæri á lengri tímaskala. Ef við horfum til Esjunnar þá hefur hún sennilega ekki mikið breyst síðustu þúsundir ára í meginatriðum. Öðru máli gegndi á meðan ísaldarjöklarnir nöguðu og tálguðu fjallshlíðarnar í hvert skipti sem þeir sóttu fram og skildu svo eftir sig óstöðugar hlíðar þegar nýtt hlýindaskeið gekk í garð. Þannig var það einmitt eftir síðasta jökulskeið (sem ég vil nú bara kalla lok ísaldar) sem varð til þess að feiknastórt berghlaup ruddist niður hlíðar Esjunnar og blasa afleiðingarnar við okkur Reykvíkingum með mjög áberandi hætti.

Kollafjarðarhlaup R.vík
Sjálfsagt hafa ekki allir velt þessu náttúrfyrirbæri fyrir sér en umrætt berghlaup, eða skriða eða hvað sem menn vilja kalla þetta, nær yfir allt svæðið frá aðalgönguleiðinni á Þverfellshorn og alla leið austur að Kistufelli. Nánar tiltekið frá farvegi Mógilsár í vestri og Kollafjarðarár í austri. Þetta svæði í Esjunni er ólíkt öðrum hlíðum fjallsins, allsett hólum og bungum og heillegum klettabrotum sem hafa fallið fram af efstu brúnum fjallsins og skilið eftir sig greinilegt sár sem er áberandi sem snarbrattir klettaveggir efst undir fjallsbrúninni.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fann í skýrslu sem nefnist „Ofanflóðahættumat fyrir Kerhóla á Kjalarnesi“ kemur fram að þetta Kollafjarðarberghlaup sé 3,2 km að lengd frá efstu brún fjallsins og niður á láglendi. Breiddin er 1,9 km og fallhæðin 765 metrar. Um rúmmálið er þetta sagt í skýrslunni: „Ef giskað er á 60 m meðalþykkt verður rúmtakið rúmlega 0.2 km3. Á Íslandi eru ekki þekktar nema um 20 berghlaupsurðir sem eru yfir 3 km2 að flatarmáli. Kollafjarðarhlaupið er því í hópi mestu berghlaupa landsins.

Sennilegt þykir að fjallshlíðin hafi hlaupið fram með miklum látum í einni atburðarás - eða svo gott sem. Hámarksaldur er um 11 þúsund ár en annars er ekki vitað með vissu um tímasetningu annað en að þetta er allt annað en nýskeð. Fyrstu árþúsundin eftir ísöld ættu þó að vera líklegust. Annars hefði nú aldeilis verið flott að sjá allan þenna massa skríða fram á sínum tíma og sjálfsagt hafa fylgt þessu drunur miklar og skjálftar ógurlegir. Segið svo að Esjan sé ekki merkileg!

Esja berghlaup

Þessa mynd tók ég ofan af Kistufelli sumarið 2009 og er horft vestur eftir Esjunni í átt að Þverfellshorni en Kerhólakamburinn er fjær. Efri hluti berghlaupsins sést þarna vel.

Efri myndin er tekin frá Öskjuhlíð, 10. október 2011.

- - - - -

Heimildir. Ofanflóðahættumat Fyrir Kerhóla á Kjalarnesi - Skýrsla Hættumatsnefndar Reykjavíkur (PDF-skrá)


Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?

Nú þegar þrír mánuðir eru eftir af árinu ætla ég að velta mér dálítið upp úr ársmeðalhitanum í Reykjavík og hvert stefnir með hitann ár. Fyrst ætla ég þó að nefna þessa töflu hér að neðan sem ég hef vanið mig á að gera í upphafi árs. Þar gefur að líta útreikning á því hver ársmeðalhitinn gæti verið útfrá mismunandi forsendum. Þetta er mjög misraunhæfar forsendur, sérstaklega efsta og neðsta línan þar sem gert er ráð fyrir að kulda- eða hitamet hvers mánaðar allt frá 1930 séu jöfnuð. Talsvert raunhæfara er að miða við opinbera viðmiðunartímabilið 1961-1990 og fá út ársmeðalhitann 4,3°C, en þar sem það var frekar kalt tímabil gæti verið raunhæfast að miða við síðustu 10 ár (2002-2011) þar sem árshitinn hefur verið 5,5°C að meðaltali. Til samanburðar má nefna að kaldasta árið frá 1930 var 1979: 2,9°C og það hlýjasta 2003: 6,1°C. En þannig lítur umrædd tafla út.

Árshiti áætlun 2012

Eftir því sem líður á árið koma hinar raunverulegu tölur í ljós og með hverjum mánuði þrengist það bil sem meðalhitinn getur stefnt í. Þá fæst þessi mynd:

Árshiti sept 2012

Liðnir mánuðir hafa verið mishlýir eins og gengur. Febrúar, mars og ágúst voru vel yfir meðalhita síðustu 10 ára en nýliðinn september rétt missti af meðaltalinu frá 61-90. Í heildina hefur árið verið hlýtt þannig að ef við miðum áfram við forsendurnar þá endar meðalhiti ársins í 5,7°C ef meðalhiti þriggja síðustu mánaðana verður í samræmi við síðustu 10 ár. Ef þessir síðustu þrír mánuðir verða hinsvegar í samræmi við "kalda" meðaltalið frá 1961-90 þá endar árið í 5,4°C sem þó telst gott í sögulegu samhengi og ekki fjarri meðalhita s.l. 10 ára. 

Síðan má halda áfram og miða við köldustu mánuðina frá 1930 og fá út meðahitann 4,5°C, sem samt er yfir viðmiðunartímabilinu '61-'90. Miðað við köldustu mánuði sl. 10 ár yrði meðalhitinn 5,1°C sem einhverntíma hefði þótt gott. Í hinn endann gæti árið endað í 6,5°C og slegið árshitamet ef þrír síðustu mánuðirnir væru við það besta frá 1930 og jafnvel líka ef síðustu mánuðirnir verða við það besta síðustu 10 ár. 

Semsagt. Árið 2012 verður örugglega yfir meðalhita áranna 1961-'90. Næsta víst er að árshitinn verði yfir 5 stigum tólfta árið í röð sem er einstakt. Líklegt er einnig að það nái a.m.k. 5,4°C og 5,7°C er alveg í dauðafæri. Það má síðan gæla við 6 stigin ef góð hlýindi einkenna síðustu mánuðina. Ég get auðvitað ekkert spáð um hvort hlýindi eða kuldar eru framundan. Hinsvegar blasir við að árið 2012 verður enn eitt hlýja árið á þessari öld og ekkert lát á hlýindum.

Þetta var svokölluð veðurnördabloggfærsla.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband