Að flokka flokka

Stjórnmálaflokkar eiga sér hugmyndafræðilegan bakgrunn og beita sér fyrir framgangi þeirra mála á þann hátt sem fellur best að þeirra heimsmynd og skoðunum. Oft er talað um hið pólitíska litróf sem línulegt samband sem nær frá hinu rauða vinstri til hins bláa hægri með viðkomu í grænni miðju. En auðvitað er þetta flóknara er svo, eins og hefur sýnt í íslenskri pólitík. Á dögunum gekk á netinu spurningalisti á vegum Áttavitans sem staðsetti þátttakendur og stjórnmálaflokka í tveggja ása hnitakerfi. Þannig var lárétti ásinn látinn tákna hið dæmigerðu vinstri / hægri eða réttara sagt Félagshyggju / Markaðshyggju á meðan lóðrétti ásinn táknaði Frjálslyndi / Forsjárhyggju.

áttaviti hnitakerfiÞetta má sjá á meðfylgjandi mynd en þar lenda hægri flokkar hægra megin en vinstri flokkar vinstra megin. Besti flokkurinn er akkúrat á miðjunni og hinir anarkísku Píratar lenda efstir í frjálslyndinu samkvæmt þessu. Vinstri grænir og aðrir félagshyggjuflokkar eru víðs fjarri Sjálfstæðisflokknum og Hægri grænum en Samfylking er ekki fjarri Framsókn rétt neðan við miðju. Þetta er sjálfsagt ágæt skipting þótt deila megi um hvort Forsjárhyggja sé ekki full gildishlaðið orð á neikvæða vísu miðað við Frjálslyndið. Látum það liggja á milli hluta.

 

En dugar þessi mynd til að endurspegla hinn íslenska pólitíska veruleika? Fyrir þremur árum gerði ég tilraun til að flokka flokka á svipaðan hátt og teiknaði upp myndina hér að neðan. Þarna má einnig sjá tvo ása en munurinn er sá að í stað hins lóðrétta Frjálslyndis/Forsjárhyggju-áss er ég með lóðréttan ás sem gengur út á Alþjóðahyggju gagnvart Þjóðernishyggju (sem sumir vildu kannski frekar kalla Þjóðfrelsishyggju vegna neikvæðra skírskotana). Myndina kallaði ég Fimmflokkakerfið og dægurflugur og er hún tilraun til flokkamyndunar út frá þessum skilgreiningum en sýnir þó ekki endilega flokkakerfið eins og það er í raun.

Fimmflokkakerfið

Þarna má sjá tvo vinstri flokka Samfylkingu og Vinstri Græna en það sem aðgreinir þá er misjöfn afstaða til að tengjast stærri ríkjabandalögum sem er mjög stórt mál í dag. Í Ríkisstjórninni sem þessir flokkar mynduðu þurfti annar að gefa eftir í Evrópumálum að hluta, með slæmum afleiðingum fyrir flokkinn og fylgið. Hægra megin við miðju hefur Sjálfstæðisflokkurinn löngum verið allsráðandi. Sá flokkur hefur komið sér fyrir neðan miðju, gegn alþjóðahyggjunni en á í vissum vandræðum því hluti flokksmanna er á öndverðri skoðun. Þess vegna ættu í raun að vera þarna tveir hægri flokkar eins og ég sýni þarna og kalla Sjálfstæðisflokk 1 og 2. Framsóknarflokkurinn er merkilegt og misgagnlegt fyrirbæri í Íslenskri pólitík. Hann er á miðjunni en getur þanist út eða minnkað, stokkið til allra hliða og tengst hverjum sem er, enda aldrei langt að fara.

Allskonar önnur framboð koma fram fyrir hverjar kosningar. Sum þeirra eru ekkert nema dægurflugur sem slá í gegn tímabundið en mörg þeirra eiga aldrei neina von. Ég kalla hér allt slíkt Fluguframboð en í kosningunum nú er eiginlega um heilt flugnager að ræða. Þessi flokkar geta verið gagnlegir til að leggja áherslu á ákveðin málefni en raska ekki mikið fjórflokkakerfinu til lengri tíma.

Hvað kemur upp úr kössunum um næstu helgi á eftir að koma í ljós en möguleikar flokka til að vinna saman er ýmsum annmörkum háð því til þess þarf að gefa eftir hluta af sínum grunnsjónarmiðum. Tengingar milli flokka geta þó verið á ýmsa vegu. Þar snúast hlutirnir ekki bara um hægri og vinstri pólitík. Kannski mun baráttan að þessu sinni snúast um að tengjast miðjunni sem er fyrirferðamikil um þessar mundir.

 


Snjóleysi á Vestur-Grænlandi

Við skulum byrja á því að líta á gervihnattamynd sem var tekin í dag - eins og stundum er sagt í veðurfréttunum. Ísland er í horninu niðri til hægri en svo er Grænland þarna í öllu sínu veldi. Það hefur vakið athygli mína í öllum vetrarharðindunum sem ríkt hafa beggja vegna Atlantshafsins að á austurströnd Grænlands er sáralítinn snjó að finna þar til komið er sjálfri jökulröndinni. Þetta á sérstaklega við um svæðið innan hringsins sem ég hef dregið upp en þar er jökulröndin afar skýrt mörkuð. Svæðið er norðan heimskautsbaugs suður af Diskoflóa og ætti að mínu viti að vera á kafi í snjó nú undir lok vetrar. En er þetta eðlilegt?

Grænland 13. apríl

Þessi vetur sem senn er á enda hefur verið óvenjulegur að mörgu leyti. Vetrarhörkur hafa verið talsverðar í Norður-Evrópu og víða í Bandaríkjunum. Hér á landi hefur snjónum verið mjög misskipt á milli landshluta. Á suðvesturlandi hefur verið mjög snjólétt en á norður- og austurlandi hefur meira og minna verið hvítt í allan vetur, ef undan er skilinn hlýindakaflinn í febrúar. Austanáttir hafa lengst af verið ríkjandi hér á landi í vetur en suðvestanáttin algerlega heillum horfinn og þar með einnig éljagangurinn hér á suðvesturhorninu.

Á Grænlandi er sjálfsagt eitthvað óvenjulegt á ferðinni líka. Allavega hefur verið hlýtt þar á vesturströndinni og miðað við þessa loftmynd hefur einnig verið þurrt því varla eru það rigningar sem valda snjóleysi svona norðarlega til fjalla á Grænlandi. Væntanlega mun þetta snjóleysi hafa sín áhrif á jöklabúskap þessa mikla jökulhvels því gera má ráð fyrir að lítið hafi safnast fyrir þarna vestanmegin í vetur, hvað sem segja má um ástandið okkar megin.

Í heiðríkjunni vestan Grænlands sést að hafísinn heldur sig fjarri Grænlandsströndum vestanverðum en þar er reyndar ekki mikinn ís að finna alla jafna. Það sést hinsvegar grilla í Austur-Grænlandsísinn fyrir norðan Ísland sem heldur sig sem betur fer fjarri okkar ströndum. Ísinn er þó kominn suður fyrir Hvarf þarna allra syðst á Grænlandi þaðan sem hann er farinn að berast með straumum vestur- og norður fyrir eins og lög gera ráð fyrir.

Best að enda þetta á hitafarsmynd frá NASA þar sem sést hvar hitar og kuldar héldu sig um miðjan mars síðastliðinn á norðurhveli. Já það er ekki um að villast hvar hlýindin voru á þeim tíma og líklega má segja að þetta sé nokkuð dæmigert fyrir veturinn.

Hiti NASA mars 2013

Myndin er fengin frá NASA Earth Observatory á slóðinni: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=80804. Þar má líka lesa um ástæður þessara óvenjulegheita.

Efri myndin er einnig frá NASA: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Örlagafrúin Thatcher

Margaret Thatcher var mjög ákveðin kona. Á síðustu mánuðum valdatíma hennar árið 1990, þegar Írakar réðust inn í Kúwait, vissi þáverandi Bandaríkjaforseti, Georg Bush eldri, ekki alveg hvernig ætti að bregðast við, fyrr en hann hitti járnfrúna Margaret Thatcher. Eftir það voru miklar hernaðaraðgerðir skipulagðar og Írakar hraktir á brott í Persaflóastríðinu sem hófst í janúar 1991. Í framhaldinu voru Írakar lagðar í einelti af Alþjóðasamfélaginu, sett á þá alþjóðlegt viðskiptabann auk ýmissa annarra þvingana. Umsátrinu lauk með innrásinni í Írak árið 2003 undir forystu Bandaríkjaforseta Georg Bush yngri.
En Thatcher var líka mikill örlagavaldur í íslenskri pólitík því eftir að hún lét af embætti, heimsótti hana nýráðinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddson, sem meðtók frá henni þann boðskap að Íslendingar ættu ekkert erindi í Evrópusambandið. Síðan hefur það verið stefna Sjálfstæðisflokksins að Íslandi gangi ekki í Evrópusambandið og ekki vel séð að imprað sé á slíku.

Þannig man ég þetta allavega.


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Esjan skipar heiðursess á þessari bloggsíðu eins og glögglega má sjá á toppmyndinni. Þetta á ekki síst við í byrjun apríl þegar kemur að því að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem teknar eru frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar átta talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Spurningin er hvað verður upp á teningnum í ár. Er vorið komið? - eða farið? Nánar hér neðan mynda:

Esja april 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006
Snjóalög í Esjunni nú undir lok vetrar eru heldur minni en á sama tíma í fyrra, allavega miðað við þann góðvirðisdag sem mynd þessa árs var tekin en síðan þá hefur kólnað á ný og dálítið snjóað til fjalla. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Grunnurinn að núverandi snjósköflum er sennilega það sem lifði af hlýindakaflann mikla í febrúar en fyrri hluta vetrar hafði talsverð snjósöfnun verið í fjallinu. Spáð er kólnandi veðri næstu daga og bakslagi á þeirri vorblíðu sem hér var fyrstu dagana í apríl. Þó hlýtur að teljast líklegt miðað við fyrri ár að Esjan nái að hreinsa af sér allan snjó fyrir næsta haust en á þessari öld hefur það gerst á hverju ári, nema að sennilega vantaði herslumuninn árið 2011.

Eins og kemur fram þá skrái ég Esjuna snjólausa 18. september árið 2012 - í fyrra. Þá vildi reyndar svo til að síðasti skaflinn til að hverfa var ekki í Gunnlaugsskarði eins og venjan er. Sá skafl hvarf 4. september en litli lífseigi skaflinn vestur undir Kerhólakambi lifði hinsvegar til 18. september. Til að flækja málin þá snjóaði í Esjuna 10. september í fyrra en sá snjór hvarf aftur þann 21. september samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Ég læt þó dagsetninguna 18. september standa sem daginn sem snjór fyrri vetrar hvarf.

- - - - -

Til upprifjunar þá bendi ég á eldri bloggfærslu um skaflaleiðangur á Esjuna þann 9. ágúst í fyrra. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1253901/

Einnig nota ég tækifærið til að minna á myndaseríu mína Reykjavík alla daga ársins sem tekin var árið 2011 en það var einmitt árið sem Esjunni tókst ekki alveg að verða snjólaus eftir hryssingslegt vor en þó ágætis sumar. http://www.365reykjavik.is


Vetrarhitasúlur

Nú, þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki, er komið að súluritinu sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins en sá dæmigerði hiti liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Nánari útlistun á vetrarhitafarinu, sem hefur verið óvenjulegt á sinn hátt að venju, er undir myndinni.

Vetrarsúlur 2012-13
Eins og sést á myndinni þá hefur hitafar vetrarins verið dálítið öfugsnúið og lítið fylgt meðalhita hvers mánaðar. Jafnvel má segja að það hafi meira og minna farið hlýnandi í vetur þangað til kuldakastið skall á snemma í mars. Allavega þá var febrúar hlýjasti vetrarmánuðurinn og sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965 samkvæmt opinberum gögnum. Janúar var líka mjög hlýr og samanlagt eru þetta næst hlýjustu tveir fyrstu mánuðir ársins í borginni en aðeins jan-feb 1964 voru hlýrri. Hinsvegar voru þetta hlýjustu tveir fyrstu mánuðirnir í Stykkishólmi.
Aðrir mánuðir eru eðlilegri í hita. Marsmánuður gerði sig lengi líklegan til að verða almennilega kaldur en kuldinn mátti sín lítils á daginn eftir því sem sólin fór að hækka á lofti en það er ekki síst dægursveiflan sem skýrir þessar háu rauðu súlur seinni hluta marsmánaðar.
Ég er með tvo daga sem ég skrái sem 9 stig sem er alveg ágætt. Eitthvað var talað um að hitamet hafi verið slegið fyrir janúar í Reykjavík þann 4. þegar hitinn náði mest 10,7 stigum. Frosthörkurnar hafa hinsvegar ekki verið neitt sérstakar en yfirleitt má búast við að allra köldustu vetrardagarnir séu nær 10 stigum í borginni. Kaldasti dagurinn er 5. mars eftir að hitastigið hafði verið í frjálsu falli. Daginn þar á eftir kom hríðarveðrið með ófærðinni og svo öskufokið með hinni óvenju þrálátu austanátt sem meira og minna hefur ríkt í allan vetur.

Eins og með önnur sambærileg veðurgröf þá fer vetrarhitasúluritið í myndaalbúmið Veðurgrafík sem er hérna til hliðar. Ýmislegt skrautlegt er það að finna. Í lokin er svo Esjutoppsmynd þar sem horft er til Reykjavíkur á köldum degi þann 17. mars. Væntanlega verður horft frá hinni áttinni í næstu bloggfærslu um næstu helgi.

Á Esju 17. mars 2013


Á Heklu í Eldgosi

Oft hef ég hugsað út í hvernig það væri að vera staddur á Heklutindi og fá þær fréttir að eldgos væri yfirvofandi í fjallinu. Ætti maður einhverja möguleika á að koma sér úr hættunni eða er voðinn algerlega vís ef við gerum ráð fyrir að fyrirvarinn sé aðeins hálftími svo maður miði við tilkynninguna sem lesin var upp í útvarpinu fyrir síðasta gos árið 2010?

Hekla Mila

Látum okkur nú sjá. Hugsunin gengur út á að ég sé einn uppi á Heklu með litla vasaútvarpið, sem í þessu tilfelli eins og í öðrum fjallaferðum er sjálfsagt öryggistæki. Nú heyri ég tilkynningu um að Hekla sé að fara gjósa innan skamms og ekki um annað að ræða en að koma sér burt eins fljótt og auðið er. En nú eru góð ráð dýr, hvert ætti maður að fara?

Aðaluppgönguleiðin á Heklu liggur meðfram háhryggnum úr norðaustri og sama leið er farin til baka. Þessi leið er hinsvegar alveg banal ef eldgos er í vændum því í flestum Heklugosum gýs meðfram háhryggnum - jafnvel eftir endilöngum hryggnum sem liggur í stefnuna suðvestur-norðaustur. Til að komast sem fyrst úr hættusvæði kemur því vart annað til greina en að fara stystu leið niður brattann þvert á hrygginn og vona það besta. Þá er spurningin hvort betra sé að fara niður vestur- eða austurhliðina (réttara sagt norðvestur- eða suðausturhliðina). Sú ákvörðun gæti ráðist af vindátt því feiknamikið öskufall fylgir upphafsfasa Heklugosa þannig að í austanátt ætti að vera betra að fara niður austanmegin en vestanmegin í vestanátt.
En þessar tvær Hekluhliðar eru ekki jafn hættulausar. Í síðustu gosum hafa mikil hraun runnið niður austanmegin og sú hlið getur því að sama skapi verið mjög ógreiðfær á köflum þegar mikið liggur við. Einnig hlýtur að vera talsvert meiri hætta á lenda beinlínis í hraunstraumi þarna austanmegin eða króast af milli tveggja strauma, sem er ekki gott. Tala nú ekki um ef gosrás opnast þarna í hlíðinni eins og gerðist í gosinu 1991.
Með þetta í huga er ákveðið að halda niður vesturhlíðina til norðvesturs jafnvel þótt vindátt sé óhagstæð. Sennilega er hægt að finna góða leið niður þarna megin og best ef hægt væri að hlaupa niður snjóskafl eða einhverja slétta skriðu. Álitlegt er að stefna á Litlu-Heklu sem er dágóður stallur í hlíðinni norðvestanmegin, um tvo kílómetra frá toppnum og ef allt gengur að óskum er maður kominn langleiðina þangað þegar ósköpin byrja.
Ef við gerum ráð fyrir hefðbundinni byrjun þá hefst gosið með sprengingu í toppgígnum en síðan rís gosbólsturinn sífellt hærra á loft og verður orðinn ógnvænlegur á skömmum tíma. Sennilega gerist ekkert meira í bili nema að bólsturinn breiðir úr sér, þekur sífellt stærra svæði himinsins og dimmur skuggi leggst yfir landið. Síðan koma hættulegar sendingar að ofan, fallandi molar og bombur lenda allt í kring og svo kemur sjálf askan og með henni fer skyggnið niður í ekki neitt. Þá er eins gott að dúða höfuðið eins og mögulegt er, setja á sig skíðagleraugu og verja öndunarfærin.Talsverð hætta er þarna líka á einhverskonar hlaupum niður fjallshlíðina með brennheitum gufum sem engin leið leið er að hlaupa undan eða jafnvel gusthlaupum þegar mökkurinn fellur niður eins og í Vesúvíusi á sínum tíma, nema bara í smærri stíl. Slíkt gerði algerlega út af við mann.

Fyrstu hraunin fara í framhaldinu að renna hratt niður hlíðarnar þegar sjálfur eldurinn kemur upp og gossprungan lengist eftir háhryggnum. Þarna er ómögulegt að vita fyrirfram hvernig hlutirnir haga sér. Gosrásir geta opnast hvar sem er umhverfis fjallið og hraunin runnið hvert sem er. Hér er þó allavega gott að vera kominn að Litlu-Heklu og meta stöðuna. Hraunin ættu ekki að renna akkúrat þangað nema gosrás opnist einnig akkúrat þar. Sé maður ekki algerlega áttavilltur, sturlaður eða slasaður er stefnan tekin áfram niður á við í norð-vestur þar sem við tekur greiðfær leið um hraunlítil svæði til norðurs og svo bara áfram og áfram í þeirri von að maður komist úr mesta mekkinum. Eftir 9-10 kílómetra þrautagöngu gæti maður náð að veginum að Landmannaleið eða farið meira til vesturs yfir erfiðara landslag og komið að Landveginum suður að Búrfelli og bíða þess að verða bjargað.

- - - -
Þessi atburðarás er auðvitað bara hugarburður og miðast við það sem ég þekki eða get ímyndað mér. Fjallgöngur eru orðnar mikið sport hér á landi og ef fyrirvaralítið gos hefst á miðjum sumardegi er frekar líklegt að einhverjir séu á fjallinu. Ég hef einu sinni gengið á Heklu. Það var sumarið 1990 en í byrjun næsta árs hófst eitt af þessum algerlega óvæntu gosum í Heklu. Á seinni stigum þess fór ég í útsýnisflug og tók þá þessa mynd sem sýnir suðausturhlíðina og síðasta lífsmarkið í gosinu þarna í neðri hlíðunum. (Efri myndin er tekin af vefmyndavél Mílu, 17. júní, 2012)

Hekla 1991


Flugvöllur á Bessastaðanesi

Öðru hvoru kemur upp umræða um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Í þeirri umræðu er algerlega horft fram hjá því að í höfuðborgarsvæðinu miðju er til staðar marflatt, ónotað landsvæði á stærð við það sem fer undir Reykjavíkurflugvöll í dag. Hér er ég að tala um Bessastaðanes á Álftanesi en þangað hafa fáir komið og margir vita jafnvel ekki að yfirleitt sé til. 

Á meðfylgjandi mynd hef ég teiknað inn flugvöll með þremur flugbrautum sem eru jafnlangar þeim sem eru í dag og stefnan er svipuð. Vegtengingar hef ég einnig sett inn en með þeim fæst ný leið í miðbæinn frá suðurbyggðum sem tengist hinni breiðu Suðurgötu í Reykjavík. Til að trufla ekki skipa- og skútuumferð geri ég ráð fyrir göngum undir Skerjafjörð, þannig að flott skal það vera. Með þessum akbrautum þyrftu menn ekki að keyra í gegnum hlaðið hjá Forsetanum sem áfram ætti að geta sinnt sínum störfum án ónæðis. Aðflugsleiðir sýnast mér vera nokkuð hagstæðar þarna því lítið er um byggð allra næst flugvellinum og ekki er lengur flogið yfir miðbæ Reykjavíkur.

Álftanesflugvöllur

Sjálfsagt hefur þessi kostur verið skoðaður í þeim úttektum sem gerðar hafa verið og af einhverjum ástæðum hefur hann ekki átt upp á pallborðið. Kannski hafa Álftnesingar ekki viljað flugvöll þarna en það sveitarfélag er að vísu ekki til lengur. Kannski þykir þetta vera of nálægt forsetanum eða fuglum, en kannski er málið að svæðið er ekki í eigu borgarinnar – ólíkt Hólmsheiðinni, en sá staður held ég að henti betur föngum en flugvélum. Þetta mun þó auðvitað kosta sitt og auðvitað hefur enginn efni á þessu. Það má samt alveg ræða þetta enda held ég að vitlausari hugmyndir varðandi flugvöllinn hafi komið upp.

 


Listræn veðurkort

Eins og sönnum veðuráhugamanni sæmir þá fylgist ég reglulega með hinum ýmsu veðurkortum sem kalla má fram á veraldarvefnum. Á Wetterzentralnum má t.d. dæmis fá mikið úrval veðurkorta sem gefa góðar vísbendingar um það sem koma skal. Inn á milli vill hinsvegar bregða svo við að veðurkortin gerast æði skrautleg og engu líkara en að verið sé að boða meiri ragnarök en nokkur fordæmi eru fyrir í mannkynsögunni. Af fenginni reynslu hef ég þó komist að því að lítill fótur er fyrir slíkum dómsdagspám. Líklegri skýring snýst sennilega um að ofurtölvurnar séu enn að matreiða úr hráefninu en það er helst upp úr miðnætti sem hamagangurinn hefst. En nú er ég ekki bara veðuráhugamaður, því sem grafískur hönnuður er ég að sjálfsögðu líka áhugamaður um myndlist og myndræn form allskonar, akkúrat eins og þessi brengluðu veðurkort eru. Sennilega getur þetta þó varla flokkast sem myndlist, þótt flott sé. Til þess vantar listamanninn og listrænan tilgang í upphafi og varla er þetta hönnun því til þess vantar praktíkina. En hvað um það, nú er Hönnunarmars og því læt ég hér þrjú kort flakka sem sýna aðstæður á norðurhveli á listrænan hátt, dagana 14. 16. og 20. mars Spárnar voru gerðar 14. mars og birtust á sínum tíma á þessari slóð: http://www.wetterzentrale.de/topkarten/fsavnnh.htm

Wetter NH 14. mars

Wetter NH 16. mars

Wetter NH 20. mars

 

 


Hafístíðindi um hávetur

Nú má fara að velta sér upp úr stöðu hafíssins á norðurslóðum en þar er ýmislegt að gerast þessa dagana. Um þetta leyti árs er útbreiðsla hafíssins á norðurhveli í hámarki eins og sést á meðfylgjandi línuriti sem sýnir árstíðasveiflur í flatarmáli íssins allt aftur til 1979. Það er ekki alveg hægt að fullyrða að hámarki vetrarins hafi verið náð en það ætti þó varla að fara mikið ofar en þarna sést.
Íshaf 1979-2013

Vetrarhámarkið að þessu sinni sætir reyndar engum sérstökum tíðindum og er í samræmi við mörg síðustu ár og bara lítið eitt lægra en algengast var undir lok síðustu aldar. Væntanlega verða ekki róttækar breytingar á hafísútbreiðslu að vetraralagi á næstu árum jafnvel þótt eitthvað hlýni. Þróunin á sumarlágmarkinu er hins vegar öllu meira afgerandi og verulega farið að styttast í núllið miðað við það sem áður var. Sumarið í fyrra sló einmitt öll fyrri met með afgerandi hætti eins og þarna sést. Í ofanálag bætist svo að ísinn er þynnri en áður sem aftur skýrir hvers vegna sífellt meira bráðnar að sumarlagi. Línuritið er af síðunni The Cryosphere Today.

Næst koma hér tvær yfirlitsmyndir ættaðar frá Bandaríska sjóhernum og sýna þær útbreiðslu og áætlaða þykkt íssins. Sú til vinstri er staðan þessa dagana en myndin til hægri sýnir metlágmarkið í fyrra og allt það mikla opna haf sem þá myndaðist. Eins og sést á vetrarmyndinni þá er ísinn mun þykkari (og eldri) Ameríkumegin heldur en Síberíumegin. Þykkasti ísinn sleikir strendur Kanadísku heimskautaeyjanna og er þar mun þykkari en á pólnum sjálfum sem átti ekki mjög langt í að vera íslaus síðasta sumar. Myndina setti ég saman upp úr kortum sem finna má á þessari síðu: http://www7320.nrlssc.navy.mil/hycomARC/arctic.html en þar hægt að finna ýmsar myndir aftur í tímann og gif-hreyfimyndir.

Lágmark 2012 / Hámark 2013

 

Mikið uppbrot á ísnum undanfarið
Vegna hinnar miklu sumarbráðnunar undanfarin ár og sérstaklega síðasta sumar þá er sífellt stærri hluti ísbreiðunnar ungur ís sem er mun viðkvæmari en sá sem lifað hefur og dafnað árum saman. Þetta hefur glögglega komið í ljós núna undanfarið því undir lok febrúarmánaðar fór viðkvæmur fyrsta árs ísinn að brotna upp á stórum svæðum í Beuforthafi norður af Alaska. Uppbrot íssins á þessum slóðum er þó ekki endilega einsdæmi enda tengist þetta ríkjandi hringhreyfingu íssins þarna undir enska heitinu Beufort Gyre sem hefur að undanförnu fengið aðstoð sterkra vinda og öflugrar hæðar nálægt norðurskautinu. Þeim sem fylgjast með hafísmálum þykir þetta þó vera óvenju mikið svona um háveturinn. Hér má reyndar nefna að ég skrifaði einmitt bloggfærslu um það þegar þetta gerðist í fyrra, en þá var reyndar komið fram í apríl. Sjá: Ísinn mölbrotnar á Norður-Íshafinu

ísbrot mars 2013
Þetta mikla uppbrot og hreyfing sem komin er  á ísinn gæti verið vísbending um hvað í sé vændum næsta sumar. Það mun koma í ljós síðar því enn er þarna hörkufrost og sprungurnar eru fljótar að frjósa á ný, þó ekki nái það að bæta fyrir skaðann. Ísinn er ekki eins fastur fyrir og áður og þolir mun verr sterka vinda sem gerir hann viðkvæmari fyrir sumarbráðnun. Það kom reyndar í ljós síðasta sumar þegar öflug lægð rótaði upp í ísbreiðunni og átti sinn þátt í að flýta fyrir met-sumarlágmarkinu. Kannski fáum við enn eitt metlágmarkið næsta sumar og kannski nær norðurpólinn því að vera tímabundið skilgreindur sem íslaust svæði í fyrsta skipti síðan menn fóru að fylgjast svona náið með heimskautaísnum. Þetta verður bara að koma í ljós – það eru möguleikar í stöðunni en alls engin vissa.

- - - -

Í lokin fyrir þá sem treysta ekki bloggskrifum áhugamanna kemur hér ítarlegra opinbert yfirlit frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni (NSIDC): http://nsidc.org/arcticseaicenews/

 


Eitt orð eða tvö?

„Málkenndin er í tómu tjóni“ var sagt í Morgunblaðsfrétt á dögunum. Kannski eru það ekki ný tíðindi. Eldri kynslóðir hafa sjálfsagt alla tíð talið sig tala betra mál en uppvaxandi ungdómurinn. Í þessari Morgunblaðsfrétt var aðallega verið að fjalla um samsett orð og óvissuna sem þjakar marga um hvenær á að skrifa err í samsettum orðum samanber fermingaveisla eða fermingarveisla en eins og við vitum sem erum komin af fermingaraldri þá hljótum við að skrifa fermingarveisla með erri ef um er að ræða eina fermingu og ekki fermast börnin tvisvar.

Annað og stærra mál í sambandi við samsett orð snýst um hvenær orð eru yfirleitt samsett. Ég er sjálfsagt ekki einn um að hafa tekið eftir að aukin losung er að komast á þau mál og jafnvel í virðulegum fjölmiðlum má sjá samsett nafnorð slitin í sundur samanber: Matvöru verslun, málara meistari og dómsmála ráðherra svo maður skáldi nokkur dæmi. Kannski eru þetta einhver áhrif frá enskunni sem fylgir ekki eins sterklega þeirri íslensku hefð að slengja saman nafnorðum, jafnvel í löngum röðum samanber þetta fræga dæmi:

Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúraútidyralyklakippuhringur

en ekki:
Vaðlaheiðar vegavinnu verkfæra geymsluskúra útidyra lyklakippuhringur

eða jafnvel:
Vaðla heiðar vega vinnu verk færa geymslu skúra úti dyra lykla kippu hringur

Við steypum þó ekki nafnorðum saman í öllum tilfellum. Við skrifum Íslandssaga í einu orði en þegar orðaröðin snýst við er það saga Íslands. Þarna virðist ráða ferðinni svona almennt séð að ef eignarfallsorðið er nefnt á undan þá er orðið samsett en er annars í tvennu lagi samanber einnig: skipsvél og vél skipsins. Reyndar er alls ekki alltaf um að ræða eignarfall á fyrra orðinu, eins og haustlitir og flugvél en þá má grípa til þeirrar viðmiðunnar að ef fyrri hlutinn helst óbreyttur í beygingunni, þá er orðið samsett, sbr. hestöfl, hestöflum, hestafla.

Biblía og ÍslendingasögurEn svo kemur vandamál því í áðurnefndri frétt, birtist þessi mynd af nokkrum öndvegisritum heimsbókmenntanna en þar má meðal annars sjá Egils sögu og Laxdæla sögu í tveimur orðum. Í fljótu bragði hefði ég haldið að þessi heiti ættu að vera í einu orði eins og í tilfelli Egilsstaða en svo ef maður hugsar um Egils Appelsín skilur maður þetta betur. En þó ekki alveg. Þarna virðast ráða gamlar hefðir.

Einnig má svo nefna tilfelli þegar eignarfallsorð með greini eru notuð í fyrra orðinu eins og tíðkast gjarnan í dönsku en sést hér helst í hátíðlegra máli. Haföldur er eitt orð á meðan hinar hátíðlegu hafsins öldur eru tvö orð enda kominn greinir á fyrra orðið. Öldur hafsins eru líka tvö orð enda eignarfallið á seinna orðinu. Öldurhús er auðvitað eitt orð en svoleiðis hús eru sennilega kennd við eitthvað annað en haföldur þótt gestir slíkra húsa geti gerst óstöðugir og farið að stíga ölduna. Annars eru reglur og venjur um eitt orð eða tvö ekki einfalt mál og ekki tel ég mig vera neitt íslenskuséní þannig að í staðin fyrir að fabúlera meira um þetta er best að vísa bara í auglýsingu um íslenska stafsetningu þar sem fjallað er um eitt orð eða tvö.

 


mbl.is „Málkenndin er í tómu tjóni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

Hawaii eldgos

Öðru hvoru berast smáfréttir af eldgosinu endalausa á stærstu eyju á Hawaii-eyjaklasans sem hófst í janúar árið 1983 og virðist engan enda ætla að taka nú 30 árum síðar. Þetta er dæmigert dyngjugos sem einkennist af lítilli virkni með þunnfljótandi hraunrennsli niður hlíðar Kilauea sem er í næsta nágrenni risa-elddyngjunnnar Mauna Loa. Virknin hefur verið nokkuð breytileg í gosinu og allur gangur á því hvernig hraunið rennur. Það finnur sér ýmsa nýja farvegi, stundum nær það að seytla alla leið út í sjó en stundum gerir það ekki annað en að fylla upp í nýmyndaðar öskjur uppi á gossvæðinu sjálfu.

Kilauea loftmynd

Á NASA / Earth Observatory-vefnum var á dögunum birt þessi gervitunglamynd sem tekin var 15. maí 2011 og sýnir víðáttumiklar dökkar hraunbreiður í hlíðum Kilauea-fjalls umkringja gróið svæði þar sem finna má eitt hús og einhverja vegi sem enda undir hraunbrúninni. Allt þetta dökka hraun hefur runnið á síðustu árum eða áratugum nema þetta ljósgráa sem er splunkunýtt hraun á hreyfingu og ógnar þarna húsinu eina sem kennt er við Jack Thompson.

Svæðið sem húsið stendur á ber nafnið Royal Gardens og var skipulagt á árunum kringum 1960 í hlíðum Kilauea. Það voru einkum grunlausir Bandaríkjamenn frá meginlandinu sem keyptu sér þarna land og þegar gosið hófst árið 1983 höfðu 75 íbúðarhús risið á svæðinu. Talsverður kraftur var í gosinu í byrjun og fór húsunum ört fækkandi eftir því sem meira hraun rann niður aflíðandi hlíðarnar. Að lokum var hús Jack Tompsons hið eina sem eftir stóð og þar bjó hann áfram umkringdur nýjum hraunum á alla kanta og vonaðist til gæfan yrði honum hliðholl eins og hún hafði verið fram að þessu.
En honum varð ekki að ósk sinni því snemma árs 2012 fóru hraunstraumarnir að gerast æði nærgöngulir og ógna húsinu. Þá var ekki um annað að ræða en að kalla á þyrlur, safna saman mikilvægasta hafurtaskinu og yfirgefa húsið. Það var svo þann 2. mars í fyrra sem húsið brann og hvarf síðan undir hægfara helluhraunið.

Myndirnar hér eru frá síðustu dögum búsetu Jack Tompsons í Royal Gardens. Þær eru teknar úr 7 mínútna myndbandi sem einnig fylgir hér að neðan. Þar leiðir karlinn okkur um svæðið og við fáum að fylgjast með því þegar hann yfirgefur húsið í síðasta sinn. 

Royal Garden myndasyrpa

 

 

- - - -
Sjá nánar:

Last house standing at Royal Gardnes / Nasa Earth Observatory

Hawaiian Volcano Observatory / Kilauea

 


Tunglið séð frá jörðinni og jörðin séð frá tunglinu

Ýmsu má velta fyrir sér þegar kemur að himni og jörð. Hvernig er það til dæmis að vera staddur á tunglinu og horfa til jarðar? Sjáum við jörðina koma upp á tunglinu og setjast aftur eins og tunglið gerir hér á jörðu - og ef svo er, hversu hratt gerist það? Eða er jörðin kannski bara alltaf á sínum stað á tunglhimninum? Þessu fór ég að velta fyrir mér um daginn þegar ég sá nýlegt tunglið lágt á suðvesturhimni. Reyndar þóttist ég vita hvernig þessu væri háttað en hafði þó satt að segja ekki hugsað þessa hluti alveg til enda. Hefst þá bloggfærslan.

Tunglið 12 feb 2013
Tunglið séð frá Jörðu
Eins og við vitum þá gengur tunglið um jörðina. Þó mætti líka segja að jörð og tungl gangi umhverfis hvort annað, en vegna þess hve jörðin er miklu massameiri en tunglið þá hreyfist jörðin mjög lítið miðað við tunglið. Við segjum því að tunglið gangi umhverfis jörðina sem það og gerir á um 29,5 dögum, eða næstum því á einum mánuði. Braut tunglsins er nálægt því að vera á sama fleti og sólkerfið sem þýðir að tunglið ferðast um himininn á svipuðum brautum og sólin.

Almennt séð kemur tunglið upp í austri og sest í vestri, en hversu langt frá þessum höfuðáttum það rís og hnígur hverju sinni fer þó eftir því hvar við erum stödd á jörðinni og hvar við erum stödd í tunglmánuðinum. Hér norður á Íslandi getur tunglið komið upp í suðaustri og rétt náð yfir sjóndeildarhringinn áður en það sest í suðvestri eins og sólin gerir í skammdeginu. En breytingin er hröð og hálfum mánuði síðar rís það í norðaustri, fer hátt á suðurhiminn og sest að lokum í norðvestri eins og sólin gerir á bjartasta tíma ársins. Þróun tunglgöngunnar um himininn er því um 12 sinnum hraðari en sólargangsins. Við miðbaug eru ekki eins miklar sveiflur í tunglgöngunni, ekki frekar en í sólargangi.

Tunglið er auðvitað ekki bara á lofti í myrkri þó að við sjáum það oftast í myrkri. Þegar það er beint á móti sólinni er það fullt, en eftir því sem það nálgast sól frá okkur séð stækkar skuggahlið þess og svo kemur nýtt tungl þegar það byrjar að fjarlægast sólina á ný. Fullt tungl um hávetur kemst alltaf hátt á lofti um miðnætti frá Íslandi séð en fullt tungl um hásumar kemst aldrei nema rétt á loft á suðurhimni, sem er rökrétt því fullt tungl er alltaf beint á móti sól. Nýtt tungl að sumarlagi fylgir hinsvegar sólinn hátt á loft en sést þá ekki mikið vegna birtu, nema jú að það hreinlega gangi fyrir sólina í sólmyrkva. Að sama skapi kemst nýtt tungl að vetrarlagi varla hátt á loft frekar en sólin, enda nýtt tungl ávallt í slagtogi við sólina. Hér á norðurslóðum getur tunglið aldrei verið hátt á norðurhimni, ekki frekar en sólin.

Jörðin séð frá Tunglinu
Skemmst er frá því að segja að ferðalag jarðar á tunglhimni er mun einfaldara en tunglgangan á okkar himni. Ég var áður búinn að nefna að tunglið gengur umhverfis um jörðu á um 29,5 dögum en það góða er að tunglið snýst um sjálft sig á jafn löngum tíma enda löngu búið að samstilla snúning sinn við umferðartímann um jörðu af praktískum þyngdaraflsfræðilegum ástæðum. Þar af leiðir snýr tunglið alltaf sömu hlið að jörðu á meðan fjærhliðin er okkur ævinlega hulin. Það er skuggahlið tunglsins eða „Dark side of the Moon“ eins og sagt er á ensku og allir Pink Floyd aðdáendur kannast við. Sú hlið tunglsins nýtur þó jafn mikillar sólar og sú sem snýr að okkur.

Samstilling umferðartíma tunglsins við eigin snúning leiðir einnig til þess að ef við settumst að á tilteknum stað á tunglinu þá sæjum við jörðina alltaf á sama stað á himninum, þ.e. ef við erum réttu megin. Ef við byggjum hinsvegar á fjærhlið tunglsins sæjum við aldrei jörðina nema með því að leggjast í ferðalag. Þeir sem byggju þarna á jaðrinum upplifðu bara hálfa jörð sem væri hvorki að koma upp né setjast. Kannski þó ekki alveg því eitthvað hnik er vegna lítilsháttar halla tunglbrautarinnar. Að horfa á jörðina frá tunglinu þarf þó ekki að vera tilbreytingalaust því ólíkt því sem við upplifum með tunglið á jörðinni, þá sjáum við jörðina snúast, séð frá á tunglinu. Eina stundina blasir því Afríka við tunglbúum en nokkrum tímum síðar kemur Ameríka í ljós og svo framvegis svo ekki sé nú talað um veðurkerfin með sitt síbreytilega skýjafar.

Kvartilaskipti eru á jarðkúlunni eins og með tunglið hjá okkur en eru öfug í tíma, þ.e. jörð er vaxandi á tunglinu þegar tungl er minnkandi hjá okkur. Full jörð séð frá tunglinu er þegar sólin er í gagnstöðu við jörð, þ.e. þegar tunglið er á milli jarðar og sólar og ný jörð væri þá þegar jörðin er á milli tungls og sólar. Eins og með tunglið hjá okkur þá tekur þessi sveifla um einn mánuð eða þann tíma sem það tekur tunglið að fara í kringum jörðina. Hver sólarhringur á tunglinu er að sama skapi um einn mánuður sem þýðir að sólin skín í 14-15 jarðdaga og nóttin er aðrar 14-15 jarðnætur. Sólin ferðast því löturhægt um himininn á tunglinu en er ekki föst á sínum stað eins og jörðin. Stjörnurnar hreifast svo auðvitað líka á tunglhimni eins og sólin.
Dagsbirtan á tunglinu hlýtur að vera sérstök fyrir okkur jarðarbúa. Á tunglinu er enginn lofthjúpur og því enginn himinblámi. Þrátt fyrir flennibirtu á sólbökuðu tungli er himinninn bara svartur eins og hann er í raun. Sólin ætti því að sjást eins og hver önnur skínandi ljósapera í myrkvuðu tómarúmi. Þegar sólin sest á tunglinu ættu stjörnurnar að sjást vel, ekki síst á þeirri hlið sem jarðarljóss gætir ekki. Þá eru menn svo sannarlega á skuggahlið tunglsins.
- - - -

Best að ljúka þessu svona. Kannski er ekki útilokað að eitthvað hafi hringsnúist í þessari upptalningu og ef einhver veit til þess, má alveg láta vita.

Jorðin frá Tunglinu

Jörðin séð frá tunglinu. Myndin er tekin af japanska Kaguya geimfarinu sem skotið var á loft árið 2007.

Efri myndin af tunglinu er tekin frá Víðimelnum 12. febrúar 2013,

 


Gamla Nýlistin (Art Nouveau)

SaraBernhÞað er oftast mikil skammsýni að kenni eitthvað við nýjungar. Art Nouveau upp á frönsku er þó heitið á miklu tískufyrirbæri sem tröllreið lista- og hönnunarheiminum nálægt aldamótunum 1900. Annað heiti á fyrirbærinu, Jugendstil upp á þýsku er líka mikið notað og útfrá því íslenska þýðingin: Ungstíll. Þessi stíll náði yfir öll svið hönnunar allt frá stærstu byggingum niður í fíngerðustu skartgripi en var líka mjög áberandi í öllu myndmáli sem og í bókahönnun og leturgerðum. Sem listastefna vó Art Nouveau kannski ekki þungt en hafði þó greinileg áhrif á listamenn síns tíma. Áhrifamesti fulltrúi stílsins og eiginlegur upphafsmaður er tékkneski listamaðurinn Alphonse Mucha sem sló í gegn í París með glæsilegu leikhússplakati með Söru Bernhards árið 1895. Spænski arkitektinn Antóni Gaudi sem teiknaði skrítnu húsin og hálfbyggðu kirkjuna í Barcelóna er einnig verðugur fulltrúi.

Art Nouveau er fjarri því að vera unglegur eða nútímalegur stíll í dag, enda ber hann glögglega með sér horfinn tíðaranda gömlu daganna. Líta má á stílinn sem mótvægi við hinn stífa og upphafna Nýklassíska stíl sem sótti fyrirmyndir sínar alla leið aftur til Grikkja og Rómverja. Með Art Nouveau voru það hin frjálsu form náttúrunnar sem gengið var útfrá, fegurðin var sótt blómaskrúð og vafningsjurtir allskonar og helst mátti ekkert vera beint eða hornrétt - hvað þá í ströngum hlutföllum. Að ýmsu leyti má því líkja þessu við blómaskeið '68 kynslóðarinnar sem einnig var uppreisn gegn hinu stranga og siðaða.

Art Nouveau er í raun rómantískur stíll og má segja að hann sé nokkuð kvenlegur enda kvenfígúrur og þokkagyðjur vinsælt myndefni. Þær eru þá gjarnan sýndar svífandi um í blómaskrúði dreymnar á svip þar sem einhver forneskja svífur yfir vötnum. Þetta voru líka tímar þegar hið dularfulla var mikils metið með tilheyrandi spíritisma og handanheimum. Í dag tengist svoleiðis því að vera nýaldarsinnaður sem er líka viss tenging við nýja tíma.

En hvar sem líður forneskjulegum tilvísunum þá var Art Nouveau stíllinn á sínum tíma nútímalegur að yfirbragði og léttleikandi. Evrópumenn voru á þessum tímum að uppgötva framandi menningarheima þar sem hægt var að sækja í nýstárlegt myndmál og skraut. Japönsk grafíklist hafði þarna sitt að segja en Japönsk list einkenndist að fagurlega dregnum línuteikningum sem er svo einkennandi í Art Nouveau stílnum.

ArtNouveau sýnishorn
Art Nouveau tímabilið stóð ekki lengi. Kannski má segja að það hafi sokkið með Titanic ásamt svo mörgu öðru sem telst til lystisemda gömlu dagana. Í Bandaríkjunum þróaðist þó Art Deco stíllinn sem bauð upp á nýstárlegan tignarleika sem naut sín vel í nýju skýjakljúfunum en í Evrópu fóru í hönd viðsjárverðari tímar þar sem blásið var til byltinga og stríðsátaka. Í þeim tíðaranda var lítið pláss fyrir fínlegheit og annað dúllerí. Sumir vildu þá fara alla leið og gerilsneyða umhverfið af öllu skrauti. Kannski mætti reyna að rekja eitthvað að því síðar.


Þrálátar austanáttir skrásettar

Nú hef ég í minni eigin heimilisveðurstofu farið yfir veðurfar nýliðins janúarmánaðar og reyndist hann vera sá hlýjasti síðan 1987 en það var einmitt fyrsti janúarinn sem ég skráði í Veðurdagbókina. Samkvæmt mínum viðmiðunum voru 20 hlýir dagar umfram kalda árið 1987 en nú í ár voru þeir 15 talsins, sem þó er mjög gott.

En einna athyglisverðast við veðurfar undanfarna tvo mánuði er hvað austanáttin hefur skorað hátt í vindáttasamanburðinum og jafnvel verið einráð dögum saman.
Áður en ég kem að því er mynd hér að neðan sem sýnir hvernig mánaðarleg vindáttatíðni hefur verið að meðaltali þessa mánuði, tíu árin á undan hér í Reykjavík, miðað við mínar skráningar. Tölurnar eru fengnar með ákveðnum hætti og byggjast bæði á tíðni vindátta og vindstyrk. Samkvæmt því er austanáttin þarna með meðalgildið 17, sunnan og suðaustan eru báðar með 11 og svo framvegis. Vestan- og norðvestanvindar hafa lægsta gildið og norðanáttin er frekar slök. Samanlagt gildi vindstyrks er 64 sem er eðlilegt því ef vindur væri í meðallagi í heilan mánuð kæmi út tala sem er tvöfalt hærri en fjöldi daga mánaðarins.
Vindáttir Des+Jan

En þá að óvenjulegheitunum. Vindrósirnar hér að neðan sýna hvernig austanáttin hefur algerlega haft yfirhöndina síðustu tvo mánuði. Í desember komust vindáttir frá vestri til suðurs ekki einu sinni á blað en austanáttin er með gildið 46 af 67 sem er heildarvindstyrkur mánaðarins. Talan 46 er reyndar hæsta talan sem vindátt einstaka mánaðar hefur fengið hjá mér frá upphafi skráninga samkvæmt minni tölfræði. Í janúar er austanáttin með töluna 36 en nánast ekkert blæs úr áttunum frá suðvestri til norðurs nema einn hægviðrisdag sem ég hef úrskurðað sem vestanátt.

Vindáttir Des2012+Jan2013
Reyndar er það svo að vindur er stundum mjög breytilegur innan dagsins og því ekki alltaf auðvelt að úthluta dögum sérstakri vindátt. Ég tek einnig fram að ég skrái einungis veðrið yfir daginn, en ekki kvöld- og næturveðrið. Það sem ég hef til grundvallar eru vindhraða- og vindáttalínurit frá veðurstofunni sem birtast á vedur.is, samanber þetta línurit sem sýnir vel austanáttina um vikuskeið undir lok janúar.

VÍ vindattalínurit

Þessar tíðu austanáttir hafa skilað sér í nokkuð hagstæðu veðri hér Suðvestanlands. Það hefur t.d. varla sést snjór í höfuðborginni en stundum hefur vindurinn reyndar verið nokkuð ágengur inn á milli. Kannski er einn fylgisfiskurinn sá að meira hefur fallið á silfurborðbúnað en venjulega og hef ég reyndar heyrt húsmæður hér í Vesturbænum kvarta yfir því. Í austanáttum blæs vindur frá jarðhitavirkjunum á Hengilssvæðinu til Reykjavíkur en það væri athugandi að gera einhvertíma almennilegan samanburð þessu silfuráfalli með tilliti til vindátta.

En nú er kominn nýr mánuður og samkvæmt veðurspám virðist meiri fjölbreytni vera framundan í vindáttum með meira af norðlægu og Amerísk-ættuðu vetrarlofti á kostnað hins Evrópska. Í bland við annað gæti útsynningurinn því látið á sér kræla með sínum klassíska éljagangi hér suðvestanlands.


Jöklabráðnunin mikla sumarið 2010

Fyrr í þessum mánuði var haldin ráðstefna í Háskóla Íslands í tilefni sjötugsafmæli Dr. Helga Björnssonar jöklafræðings. Sjálfur var ég nú ekki viðstaddur þessa ráðstefnu en fylgdist þó með því sem sagt var frá í fjölmiðlum. Þar á meðal var frétt á Mbl „íslensku jöklarnir eru næmari“ þar sem fjallað er meðal annars um meira næmi íslenskra jökla gagnvart hlýnun en til dæmis þeirra kanadísku. (Tengill á fréttina er undir bloggfærslunni)

Ég ætla ekki að þykjast vita betur en hámenntaðir jöklafræðingar og læt þá um að spá fyrir um örlög íslenskra jökla. Það sem hinsvegar vakti athygli mína í fréttum af ráðstefnunni voru niðurstöður rannsókna á áhrifum öskulagsins úr Eyjafjallajökli á bráðnun jökla sumarið 2010 þar sem kom fram að bráðnunin það ár hafi verið 1,5 sinnum meiri en á venjulegu ári. Af þessu og fleiru mátti skilja að hin mjög svo neikvæða afkoma jökla á landinu þetta ár hafi aðallega verið vegna gosöskunnar sem sáldraðist yfir landið.

Hvað um veðurfarslegar ástæður?
Nú eru áhrif sóts og ösku á jökla vel þekkt en miðað við það sem komið hefur fram í fjölmiðlum virðast menn ekki hafa tekið mikið tillit veðurfarslegra þátta árið 2010 á afkomu jöklana, en sjálfur er ég eiginlega á því að þarna hafi óvenjulegt tíðarfar jafnvel átt stærri þátt en askan í þessari miklu bráðnun sumarið 2010.
Til að skoða það er alveg gráupplagt að vísa í „eigin rannsóknir“ eins og þetta áður birta línurit sem ég teiknaði upp samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofunnar um snjóalög á Setri sem er lengst upp á reginhálendinu sunnan Vatnajökuls. Hver lituð lína stendur fyrir einn vetur og samkvæmt þessu hefur snjódýptin venjulega verið í hámarki um miðjan apríl en komin niður í núll um miðjan júní. Greinilega var árið 2010 mjög óvenjulegt (blá lína) því snjódýptin náði sér aldrei almennilega á strik þennan vetur og var komin niður í núll upp úr miðjum maí. (Núverandi vetur sést ekki þarna því af einhverjum ástæðum hefur snjódýptarmælirinn á Setri ekki verið virkur síðustu mánuði.)
Snjódýpt við SETUR

Þetta óvenjulega tíðarfar árið 2010 sást líka vel á snjóalögum Esjunnar sem ég fylgist einmitt líka með og hef ljósmyndað í lok vetrar hin síðustu ár. Mín reynsla er sú að nokkuð gott samband er á milli snjóalaga í Esjunni og á hálendinu við Setur. Fyrri myndin er tekin árið 2010, en hin síðari árið  2012 sem gæti talist venjulegra ár. Í samræmi við lítil snjóalög undir lok vetrar hvarf snjórinn mjög snemma sumarið 2010 eða um miðjan júlí en í fyrra hvarf hann ekki fyrr en í september.

Esja april 2010
Esja april 2012

Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að veturinn 2009-2010 hafi verið hlýr um land allt og þar að auki þurr um sunnanvert landið. Í Reykjavík voru alhvítir dagar ekki nema 13 frá desember til mars sem er það næst minnsta frá upphafi samfelldra mælinga árið 1823. Eftir þennan óvenjulega vetur kom svo hlýjasta sumar sem vitað er um síðan mælingar hófust um suðvestan og vestanvert landið. Í Reykjavík var meðalhitinn í júní sá hæsti frá upphafi mælinga og júlí jafnaði mánaðarmeðaltalsmetið frá 1991. Þetta ár 2010 stefndi reyndar í að verða það allra hlýjasta sem mælst hefur í Reykjavík og víðar en hitinn gaf eftir síðustu tvo mánuðina þannig að árið varð að lokum einungis meðal þeirra allra hlýjustu. (Tíðarfarsyfirlit VÍ 2010)

Þó að jöklabúskapur sé alveg sérstakur búskapur þá er augljóst að tíðarfar var óvenjulegt árið 2010, allavega sunnan- og vestanland og líka upp á hálendi upp undir Hofsjökli. Þetta hefur haft sín áhrif á stóru jöklanna og örugglega stuðlað af mjög slakri afkomu þeirra þetta ár. Askan úr Eyjafjallajökli hefur svo hjálpað til og bætt gráu ofan á svart - eða reyndar gráu ofan á hvítt í þessu tilfelli. Jöklafræðingar þekkja sjálfsagt hvernig tíðarfarið var árið 2010 og gera kannski ekki lítið úr því en svona upp á söguskýringar framtíðar að gera, þá má ekki einblína á öskuna sem eina orsakavaldinn að jöklabráðnuninni 2010, tíðarfarið var nefnilega líka mjög ójökulvænt.


mbl.is „Íslensku jöklarnir eru næmari“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband