Þrjú hús

Nú ætla ég að snúa mér að húsum og kíkja létt á þrjár misgamlar byggingar í Reykjavík sem hver um sig er ágætis fulltrúi fyrir stíl og tíðaranda síns tíma. Þetta eru áberandi og vel þekkt hús af stærra staginu en sjálfum finnst mér þessar byggingar vera vel heppnaðar og eiginlega hver annarri fallegri af ýmsum ástæðum. Línurnar sem ég hef bætt við myndirnar eru til áhersluauka.

Háskólinn

Aðalbygging Háskóla íslands var metnaðarfull bygging á sínum tíma sem reis á krepputímunum miklu um 1930. Arkitektinn er sjálfur Guðjón Samúelsson húsameistari og er mjög í hans anda. Þetta er hús í klassískum stíl þar sem miðhlutann ber hæst og útfrá þeirri miðju koma álmur til beggja hliða. Þetta hefur samt verið nútímalegt hús á sínum tíma og í stað fíngerðs skrauts er einhverskonar stuðlaverk á miðhlutanum sem vísar til himins. Eins og klassískum byggingum fer inngangurinn ekki framhjá neinum enda er hann rækilega fyrir miðju og um leið brennipunktur byggingarinnar og umhverfisins. Þannig vildu menn hafa mikilvæg hús fyrr á árum þar sem fólk bar virðingu fyrir valdinu og stofnunum. Umhverfið fyrir framan bygginguna undirstrikar einnig þessa miðju og þá hugsun að þetta sé miðstöð lærdóms og þekkingar hér á landi. Svona miðjusettar byggingar voru algengar í klassískri húsagerð í mikilvægum húsum svo sem konungshöllum, ráðhúsum, menntastofunum og fleiru og gjarnan hafðar við enda breiðstræta. Fyrir framan Háskólan eru reyndar bara breiðstígar og tröppuverk sem virðast einungis vera þarna í sjónrænum tilgangi.

Sjávarútvegshúsið

Sjávarútvegshúsið að Skúlagötu 4 hefur sett stóran svip á sitt umhverfi frá því það var byggt snemma á 6. áratugnum. Arkitektinn er Halldór Jónsson sem teiknaði meðal annars Hótel Sögu og ýmsar skrifstofubyggingar í svipuðum anda. Hér er módernisminn kominn til sögunnar og allt aðrar áherslur en í klassíkinni. Athyglinni er ekki beint að neinni ákveðinni miðju heldur fær byggingin öll sama vægi. Í heimi fjöldaframleiðslunnar eiga hlutir að vera einsleitir og einfaldir og fegurðin felst í endurtekningunni. Inngangurinn er ekki dreginn fram sérstaklega og er ekki einu sinni fyrir miðju. Ekki er þó gengið alla leið í naumhyggjulegum módernisma því það örlar á skrauti eða munstri við innganginn sem nýtur sín þegar komið er að. Neðsta hæðin er inndregin og þar eru súlur sem virðast lyfta húsinu og gera yfirbragðið léttara. Svo er líka hallandi þak sem virðist svífa fyrir ofan því efsta gluggaröðin er nánst samfellt glerverk. Fyrir nokkrum árum var unnið hálfgert skemmdarverk á þessu húsi að mínu mati með því að hækka hornhúsið við hliðina upp í sömu hæð þannig að húsið fær ekki notið sín eins og áður. Ekki bætir úr skák að sorpdæluhús var byggt þarna skáhalt á móti og skyggir á, en hana er þó hægt klífa upp á topp til að ná almennilegri mynd.

Nýherjahúsið
Nýherjahúsið eitt af þeim húsum risið hafa í röð upp úr bílamergðinni meðfram Borgartúninu og eitt það best heppnaða. Arkitekt er guðni Pálsson. Hér er módernisminn kominn á næsta stig og sver sig nú við hinn dularfulla póst-módernisma. Ekki virðist alltaf á hreinu hvernig sá ismi skal skilgreindur en þó má segja hann snúist að nokkru um að hafna viðteknum venjum og stífum reglum. Lengi var það sjálfsögð venja að teikna hús með 90 gráðu hornum á alla kanta en nú er slíkt liðin tíð eins og Nýherjahúsið er gott dæmi um. Annað óvenjulegt við þetta hús er að það er í rauninni tvö hús með sitthvoru útliti sem tengjast saman með glerhýsi. Vestari hlutinn er alveg kassalaga en sá austari er á skakk og skjön og byggingin er síbreytileg eftir þvi hvaðan er horft. Í nútímaarkitektúr er inngangur bygginga oft langt frá því að vera útgangspunktur í heildarútliti og oft getur jafnvel verið örðugt að finna innganga yfirhöfuð. Í Nýherjahúsinu er inngangurinn samt nokkuð rökréttur í glerjaðri tengibyggingunni. Húsið nýtur sín best frá Sæbrautinni því svo óheppilega vildi til að plantað var alveg óvænt stórum þjóðvegabensínstöðvarestauranti rétt framan við húsið Borgartúnsmegin.

Þannig hljóðar byggingarlistasaga 20. aldar. Eða að minnsta kosti hluti hennar.


Manngerðir skjálftar

Hvað með þessa skjálfta á Hengilssvæðinu, á þetta bara að vera svona til frambúðar? Í fréttum er talað um að það sé verið að losa frárennslisvatn frá jarðhitavirkjuninni við Hellisheiði með því dæla því ofan í jörðina. Lítið kemur hins vegar fram um hvort þetta sé framtíðarlausn þótt sennilega sé það svo. Frárennslisvatn sem verður til við virkjunina þarf að losna við með einhverjum hætti en upphaflega stóð til að hafa niðurrensli við Gráuhnjúka. Jarðskjálftarnir eru sagðir vera hættulausir jafnvel þótt þeir séu yfir þremur að stærð. En vita menn það fyrir víst?

Skjálftar HellisheiðiEkki man ég eftir nokkurri umræðu um jarðskjálfta áður en virkjunin var reyst. Kannski vissu menn ekki að skjálftavirknin yrði svona mikil við þessa niðurdælingu en kannski vissu menn það en vildu ekki hræða fólk að óþörfu. Jarðhitavirkjanir eru nógu umdeildar fyrir þótt ekki sé verið að tala um þær gætu valdið jarðskjálftum. Kannski er ágætt að smyrja jarðlögin þannig að jarðlögin hreyfist mjúklega í litlum skjálftum frekar en í fáum og stórum þegar berglögin hrökkva af stað með látum á margra ára fresti. En hvað veit maður? Virkjunin er á miðju vestara gosbeltinu þar sem landið er að gliðna í sundur og utan í megineldstöð að auki. Þótt jarðhitamenn séu rólegir yfir þessu þá finnst mér þetta samt vera frekar leiðinleg viðbót, ekki síst ef þetta á að vera svona til frambúðar. Ég vil hafa ekta jarðskjálfta, ekta eldgos, ekta veður og yfirhöfuð að náttúran sé sem mest ekta.

Meðfylgjandi skjálftakort föstudagsins 23. september eftir líflegan dag á Hengilsvæðinu. Stærsti skjálftinn er áætlaður um 3 að stærð.


mbl.is Fjöldi skjálfta við Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bræðsluvertíðarlok á Norður-Íshafinu

Hafísinn á Norður-Íshafinu hefur nú náð sínu árlega lágmarki eins og komið hefur fram í fréttum. Hvað útbreiðslu varðar reyndist lágmarkið að þessu sinni vera það næst lægsta frá upphafi mælinga sem þýðir að árið 2007 heldur enn metinu. Lengi fram eftir sumri voru góðar líkur á því lágmarksmetið yrði slegið því eftir lágt vetrarhámark var mjög sólríkt þarna uppfrá lengi fram eftir sumri. Aðstæður urðu síðan misjafnari þegar lægðir fóru að gera vart við sig með dimmviðri og vindum sem blésu gjarnan í öfugar áttir miðað við það sem æskilegast þykir til að pakka ísnum saman eða hrekja hann í réttar áttir. Árið 2007 er hinsvegar talið hafa vera algert draumaár til að vinna á ísbreiðunni því þar gekk allt upp.
Reyndar má segja að það sé mesta furða hversu lágmark ársins er nú lágt miðað við aðstæður og sýnir það kannski best að nú þarf ekki lengur afbrigðilegar veðuraðstæður til þess að ná mjög lítilli útbreiðslu í sumarlok. Ástand hafíssins er nefnilega orðið það bágborið almennt. Ísbreiðan hefur þynnst mjög á síðustu árum auk þess sem gamall lífseigur ís er nánast að hverfa.

Eins í fyrri hafíspistlum í sumar styðst ég hér við línurit frá hafísdeild dönsku veðurstofunnar þar sem borin er saman útbreiðsla síðustu ára.

Linurit_DMI_15sept2011

Svarta línan sem stendur fyrir 2011 hefur greinilega náð sínum botni og það kannski heldur fyrr en hin árin. Eiginlega var þetta lágmark frekar stutt gaman því útbreiðslan hefur aukist nokkuð á ný síðustu daga og er strax komin upp fyrir 2008 línuna. Þetta var sem sagt ekki eins flatbotna lágmark og oftast áður. En veður og vindar eru síbreytilegir og því ekki útilokað að um einhverskonar tvíbotna lágmark verði að ræða.

Þann 11. september leit ísbreiðan út eins og sýnt er á myndinni hér að neðan en myndin er fengin af Cryosphere today vefnum þar sem sjá má fleiri góðar myndir og línurit. Til samanburðar hef ég útlínað hið sögulega lágmark frá 2007.

CT_11sept2011+min2007

Það sem einkennir ísbreiðuna nú í ár miðað við árið 2007 er að ísínn nú hefur bráðnað nokkuð jafnt allan hringinn með þeim árangri að vel siglingafært er í gegnum Kanadísku heimskautaeyjarnar og einnig norður fyrir Síberíu. Árið 2007 var hinsvegar óvenjulegt fyrir það hversu íslaust svæði át sig langt inn á Norður-Íshafið út frá Austur-Síberíu og inn að miðju en þó án þess að norðaustur-siglingaleiðin opnaðist. Til að ná þessari stöðu þurfti mjög eindregnar veðuraðstæður en spurning er hvernig hefði farið fyrir ísnum ef sömu aðstæður hefðu ráðið í sumar - ekki síst síðsumars.

Ég hef hér aðallega fjallað um útbreiðslu íssins sem er bara ein leiðin til meta ástand íssins og kannski ekki endilega sú besta til sýna hið eiginlega ástand. Stundum er talað um heildarflatarmál ísþekjunnar þar sem þéttleikinn spilar inn í. Í þeim samanburði kemur árið í ár svipað út og 2007 eða er jafnvel enn neðar. Meiru munar þó þegar þykktin er tekin í dæmið og heildarrúmmálið reiknað því þá kemur fram að heildarísmagn hefur ekki verið minna en núna, svo lengi sem þekkt er og hefur auk þess verið á hraðri niðurleið síðustu ár. Útbreiðslan er þó það sem oftast er horft á, kannski vegna þess að útbreiðslan er sýnilegust og auðvitað heldur ísinn sig ávallt við yfirborð sjávar, sama hversu þunnur hann er.


Forsíða DV 12. september 2001 varpar ljósi á atburðina

Í dag 11. september minnumst við einnar mestu hryðjuverkaárásar sögunnar sem sumir segja að hafi breytt heiminum. Sumir segja að hér hafi verið á ferðinni eitt allsherjar blöff og plat sem var skipulagt af þeim sem urðu fyrir árásinni sjálfir. Háleynilegar leyniþjónustur innan Bandaríkjanna hafi skipulagt verkið og því hafi þetta í raun verið allsherjar sjálfsmorðsárás Bandaríkjamanna sjálfra sem liður í heimsyfirráðum. Ýmis teikn þykja renna stoðum undir þessar samsæriskenningar en ég ætla ekki að rekja þær hér.

Eitt atriði frá þessum dögum hefur lengi verið mér hugleikið og hefur aldrei verið rætt en kannski tók enginn hreinlega eftir því á sínum tíma. Forsíða DV þann 12. september 2001 var undirlögð af stórri mynd af því þegar annar turninn hrynur og í fljótu bragði er ekkert athugavert að sjá. Í stækkaðir mynd af forsíðunni má hinsvegar sjá dálítið sem hugsanlega gæti varpað nýju ljósi á atburðina. Ofan á h-inu í stríðfyrirsögninni Ógnarheimur má sjá íslenskan fjárhund sem virðist hinn rólegasti og fylgist með hruninu mikla. Nú veit maður ekki hvort hundurinn sé hluti myndarinnar eða viðbót umbrotsdeildar DV. Einhver skýring hlýtur þó að vera á þessu. Eru þetta dulin skilaboð? Var það kannski hundurinn sem stóð fyrir þessu öllu saman?

DV forsíða 11. september


Sól í Reykjavík og rigning í Danmörku

Á vef dönsku veðurstofunnar hefur það verið gefið út að sumarið hjá þeim hafi verið það næst úrkomumesta frá upphafi mælinga, sem ná aftur til 19. aldar. Fyrir Danmörku í heild var meðalúrkoma mánuðina júní-ágúst 321 mm og aðeins vantaði 2 mm upp á til að sumarúrkoman felldi metið frá 1980 sem er 323 mm.
Til samanburðar mældist úrkoman í Reykjavík þessa sömu mánuði 83 mm sem er nálægt helmingi meðalúrkomu. Sumarið var einnig þurrt víða vestanlands og raunar líka norðanlands, en mest rigndi þó miðað við meðallag á austurhluta landsins.

Undanfarin sumur hafa verið mjög góð hér á vesturhluta landsins en síðri á austurhlutanum. Að sama skapi hafa undanfarin sumur verið slæm í Norður-Evrópu og varla komið að ráði nema svona endrum og sinnum til undantekninga. Allt hangir þetta auðvitað saman í einni allsherjar örlagahringrás enda er það nú oftast þannig að sjaldan fer saman góðviðristíð í Reykjavík og Danmörku. Lægðirnar hafa verið gjarnar á það undanfarin sumur að fara suður fyrir land og hellt úr sér yfir Norður-Evrópu þar sem íbúar fá vota suðvestanáttina beint í fangið sem þýðir að við hér á landi fáum austan- eða norðaustanáttina í bakið, en við þekkjum vel hvaða misjöfnu afleiðingar það hefur með tilliti til landshluta.

Öðru máli gegnir auðvitað ef hæð sest að yfir Bretlandi en það hefur verið fremur sjaldgæf uppákoma hin síðari sumur. Slíkt er ávísun á lægðargang upp að Íslandi úr suðvestri þannig að allt snýst við. Rigningartíð gengur í garð sunnan- og vestalands með bongóblíðu norðaustanlands og Norður-Evrópu. Spurning hvenær við fáum svoleiðs sumar?
Tíðarfar í Suður-Evrópu á kannski ýmislegt sameiginlegt með tíðarfari í Reykjavík nema kannski hitann. Þar er sólríkt á meðan rignir í Norður-Evrópu og á Austurlandi og öfugt.

Veðurkort 12. sept 2011

Veðurspákort frá Bresku veðurstofunni sem gildir 12. september er nokkuð dæmigert. Öfuga hringrásin í kringum lægðina sést vel ásamt allskonar skiladóti. Lægðin hefur reyndar oftar en ekki haldið sér sunnar en þarna sést enda erum við í talsverði norðanátt núna. Sólar- og rigningartákn eru viðbót frá mér og einnig skyggðu svæðin sem standa fyrir einhverskonar dimm- og votviðri.

Sumarregnsyfirlit dönsku veðurstofunnar: http://www.dmi.dk/dmi/den_vade_sommer_2011


Hversu gott var veðrið í ágúst?

Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn ágústmánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr eigin veðurskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Aukaafurð þessara skráninga er mitt háþróaða einkunnakerfi sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Alslæmir dagar fá 0 í einkunn en algóðir dagar fá 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.


Skráning ágúst 2011Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn ágúst. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta ágústmánaðar miða ég meðallagið við 10-15 stig en seinni hlutann 9-14.

Ágúst 2011 - Einkunn 5,2
Nýliðinn ágúst fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,2 stig sem telst góð einkunn og vel yfir meðallagi. Allir mánuðir frá því í maí hafa verið góðir í Reykjavík og náð einkunn í kringum 5 stig en nýliðinn ágúst gerir betur og fær hæstu einkunn það sem af er ári. Frá því skráningar hófust hefur aðeins einn ágústmánuður náð betri einkunn, en ég kem að því hér síðar.
Mánuðurinn var vissulega sólríkur en margir hafa þó verið sólríkari og hann var hlýr þótt margir hafa verið hlýrri, hinsvegar er þetta með allra þurrustu ágústmánuðum í borginni og að auki fæ ég út að hann hafi verið óvenju hægviðrasamur og er að því leyti eins og bestu vormánuðir. Boxið neðst til vinstri á skráningarsíðunni sýnir tíðni og styrk hverrar vindáttar og þar fær norðanáttin hæsta gildið enda voru 5 norðanáttardagar í röð um miðjan mánuðinn. Hlykkjóttar hægviðrispílur eru algengar en aldrei þurfti ég að teikna tvöfaldar hvassviðrispílur. Talan 43 fæst með því að leggja tölurnar saman í boxinu en þetta er lægsta vindatalan sem ég hef skráð fyrir ágúst. Eftir á að koma í ljós hvort Veðurstofan sé sammála mér þarna.
Hæsti hiti mánaðarins náðist þann 5. ágúst í skýjaðri norðaustanátt og það er eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum í borginni í sumar og voru það akkúrat 20 stig eftir því sem ég best veit. Skráðar hitatölur hjá mér (dálkur á eftir vindörvunum) sýna dæmigerðan hita yfir daginn hverju sinni. Meðaltal þeirra er 13,3° og það getum við kallað dæmigerðan dagshita í mánuðinum.

Bestu ágústmánuðir frá 1986
Ágúst 2004 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður er sögulegur vegna hitabylgjunnar óvenjulegu sem þá reið yfir og þetta er með allra hlýjustu mánuðum sem yfirleitt hafa komið í Reykjavík þótt reyndar hafi verið enn hlýrra að meðaltali árið á undan. Mánuðirinn var einnig mjög sólríkur og þurr og hefði fengið algera úrvalseinkunn ef fyrstu og síðustu dagarnir hefðu ekki skemmt fyrir.
Ágúst 2009 og 2011 - Einkunn 5,2. Hér er nýliðinn mánuður í góðum félagsskap með ágúst 2009. Það sumar var með eindæmum gott í Reykjavík, allavega samkvæmt mínum bókum en sumrin hafa reyndar flest verið mjög góð undanfarin ár hér í borginni. Ágúst 2009 var heldur sólríkari og hlýrri en nú í ár en ekki eins hægviðrasamur.
Ágúst 1987 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður þótt aldeilis góður á sínum tíma enda voru sumrin ansi misgóð á 9. áratugnum. Eins og oft gerist datt botninn úr þessum mánuði í lokin því lengst af stefndi þarna í mun hærri einkunn.
Ágúst 1994, 2003 og 2010 - Einkunn 5,0. Þarna má sjá ágústmánuð í fyrra og hlýjasta ágúst sem mælst hefur í Reykjavík á því hlýja ári 2003. Ágúst 1994 gerði það gott með alhliða gæðum en ekki endilega mörgum sólardögum.

Og þeir verstu:
Ágúst 1995 - Einkunn 4,0. Þarna skráði ég bara 3,5 sólardaga sem segir sína sögu enda var þetta mjög þungbúinn sunnanáttarmánuður sem nýttist betur norðanlands og austan.
Ágúst 2005 - Einkunn 4,2. Einhvern veginn tókst þessum mánuði að falla á prófinu en hann var ekkert afgerandi slakur nema þá helst vegna sterkra vinda úr ýmsum áttum og misslæmum veðrum inn á milli.

Fleiri mánuði nefni ég ekki til sögunnar en allir hinir hafa fengið einkunnir á bilinu 4,4–4,9. Enn eitt góðviðrissumar er að baki hér í Reykjavík. Senn svífur að hausti með kraftmeiri veðrum, meira fjöri og áframhaldandi veðurskráningum. Ég á síður von á að að halda birtingum á þeim áfram nema þjóðin fari fram á það með miklum látum – sem er frekar ólíklegt.


Byggingarsaga Hörpu - myndasería

Frá árinu 2006 einhvern góðviðrisdaginn í lok ágúst hef ég lagt leið mína upp á Arnarhól og tekið ljósmynd af framkvæmdum við tónlistarhúsið Hörpu. Á elstu myndinni frá 30. ágúst 2006 má ennþá sjá hinn horfna Faxaskála, en skömmu síðar voru vinnuvélar mættar á svæðið til að ráða niðurlögum þess mannvirkis. Eftir nokkuð skrikkjótta byggingarsögu er tónlistar- og ráðstefnumiðstöðin Harpa nú loks risin og búið að vígja hana bæði innvortis og útvortis – að vísu við mismikinn fögnuð borgarbúa. Þótt margt megi segja um þessa framkvæmd þá finnst mér þetta vera vera hin glæsilegasta bygging og ekki er verra að salirnir þykja hljóma afbragðsvel. Sjálfsagt sakna einhverjir þess að sjá ekki Akrafjallið frá Arnarhóli en þeir sjá þó Hörpuna í staðin.

Framkvæmdum á svæðinu er ekki lokið og næst á dagskrá er að reisa heilmikið hótel við hlið Hörpu. Hvernig það mun líta út veit ég ekki, en á meðan fræmkvæmdir eru í gangi er sjálfsagt að halda árlegum myndatökum áfram.

Myndirnar koma hér og er sú elsta fyrst. Ég mæli sérstaklega með þeirri síðustu sem er aukamynd tekin að kvöldlagi.

Tonlistarhus2006

Tónlistarhús 2007

Tonlistarhus2008

Tónlistarhús 2009

Tónlistarhús 2010

Tónlistarhús 2011

Tónlistarhús 2011 kvöld


Tímaflakkið - 3. hluti

Í tveimur síðustu bloggfærslu hef ég sagt dálitla sögu um tímaflakk og nú er komið að lokahlutanum. Best er auðvitað lesa fyrst 1. hluta og svo 2. hluta en annars skildi ég við í frásögninni síðast þar sem ég var staddur á Hlemmi eftir að hafa flakkað alveg óvart aftur til ársins 1980. Í ráðleysi mínu í þessari stöðu datt mér í hug hvort ég gæti haft uppi á sjálfum mér, en þetta sumar fyrir 31 ári var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands. Ég var búinn að finna út að dagurinn sem ég var staddur á væri 18. ágúst 1980 og með smá þolinmæði ætti ég að hitta sjálfan mig 14 ára gamlan með sendlatösku þarna fyrir utan Sláturfélagið, Lindargötumegin. Til að fara þangað hefði verið styttra að ganga Hverfisgötuna en ég ákvað frekar að fara Laugaveginn enda meira líf þar og meira að skoða.

Ég var dálítið farinn að venjast öllum þessum gömlu bílum á götunum og einnig yfirbragði fólksins. Bílarnir voru með léttara yfirbragði og ekki eins straumlínulaga og þeir eru í dag. Þjóðin var ekki komin með jeppadelluna en það mátti samt sjá stöku Bronco-jeppa og ekta Land-Rovera í klassíska stílnum. Fólkið sem ég mætti hafði enga hugmynd að ég tilheyrði næstu öld og ég skar mig ekkert sérstaklega úr fjöldanum. Það voru ekki margir erlendir ferðamenn þarna á Laugaveginum allavega ekki miðað við í dag þar sem annar hver maður talar erlendum tungum.

Allnokkur hús eru horfin í dag og önnur komin í staðinn. Stjörnbíó er þarna á sínum stað en svæðið þar í kring er orðið töluvert miðbæjarlegra en kannski ekki endilega skemmtilegra. Flestar verslanirnar sem ég gekk fram hjá eru nú horfnar, nema auðvitað Vinnufatabúðin. Þarna mátti sjá tískuverslanirnar Faco, Karnabæ, Adam og líka Evu og svo margar aðrar fleiri. Ég fór ekki lengra niður Laugaveginn en að Frakkastígnum og hélt áleiðis þangað niðureftir. Þarna var verslunin Framtíðin en hún hefur reyndar lengi tilheyrt fortíðinni. Það hefði getað verið gaman að kíkja inn í Lúllabúð við Hverfisgötu en þangað var ég stundum sendur til að kaupa eitt og annað fyrir skrifstofufólk Sláturfélagsins. En nú var ég kominn að þessu gamalgróna kjötvinnslufyrirtæki og tók mér stöðu við inngang portsins við Lindargötuna þar sem hvítu Sláturfélagsbílarnir óku inn og út. Þarna gerði ég mér vonir um að hitta sjálfan mig ef biði þolinmóður.

Ég hafði nóg um að hugsa á meðan á biðinni stóð. Hvað myndi gerast þegar upp kemst frá hvaða tíma ég er? Ég veit ekki til að nokkur hafi flakkað svona aftur um tímann og ég var hugsi yfir því, að ef ég hefði farið í svona flakk og gefið mig fram opinberlega þá hefði það örugglega vakið heilmikla athygli. Samt hefur aldrei verið talað um að það hafi gerst. Ég man heldur ekki eftir að ég hafi hitt einhvern á sínum tíma sem gæti verið ég sjálfur í eldri útgáfu en samt beið ég þarna eftir að hitta sjálfan mig 31 ári yngri. Um þetta hugsaði ég fram og aftur þar til allt í einu að ég kannast við strákling með sendlatösku sem kemur þarna á móti. Það var ekki um að villast, þetta var ég sjálfur sem nálgaðist.

Auðvitað er enginn hefð fyrir því hvernig maður ber sig að við svona aðstæður.
„Fyrirgefðu“ sagði ég og vakti þannig athygli mína á mér. „Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“
Ég leit á mig og mér fannst ég greina smá tortryggni í svipnum á mér áður en ég leit á úrið og sagði: „Hún er korter í tvö“.
Þarna sá ég að ég var kominn með bláa úrið sem ég keypti þetta sumar en týndi allnokkrum árum síðar á skemmtistaðnum Broadway.
Ég þakkaði fyrir og samskiptin urðu ekki meiri þarna. Þetta dugði í bili sem staðfesting á því að nú væru til tvær útgáfur af sjálfum mér á mismunandi aldri sem hlýtur að teljast nokkuð sérstakt.

Áfram og meira þurfti að hugsa. Hugsa og hugsa. Ég var kominn niður að Skúlagötunni en þar hefur umhverfið auðvitað gjörbreyst síðan 1980. Nema kannski Esjan sem var þarna á sínum stað. Snjóskaflarnir voru þó stærri og greinilegt að þeir voru ekki að fara að bráðna þetta sumar. En þá hringdi síminn. Já það var ekki um að villast – gemsinn í vasanum var að hringja og það árið 1980!
„Halló“ segi ég.
„Er þetta Emil?“ spyr ókunnug karlmannsrödd.
„Já. Það er hann.“
„Heyrðu … Eins og þú hefur örugglega tekið eftir, þá eru hlutirnir ekki alveg eins og þeir eiga að vera“
„Já, það er alveg greinilegt“ segi ég, en spyr svo „Hver ert þú?“
„Látum það liggja á milli hluta, en ég hef eftirlit með því að hlutirnir gangi rétt fyrir sig og það verður að leiðrétta þetta í hvelli.“
„Hvað meinarðu með eftirlit?“
„Það er heildareftirlitið, við tókum eftir þessu þegar þú hittir sjálfan þig en það á ekki að vera hægt. Eftir stutta stund munum við kippa þér aftur í þinn rétta tíma. Passaðu þig bara á því hvar þú ert“
„Passa mig á því hvar ég er hvað?“

Ég fékk ekki svar við þessu síðasta því þessi fulltrúi heildareftirlitsins eða hvað það nú var, hafði slitið samtalinu. Ég áttaði mig þó á því að ef ætti að kippa mér aftur í nútímann þá skipti máli hvar ég væri staddur enda ekki gott að fá heilt háhýsi ofan á sig við tímaleiðréttinguna. Ég flýtti mér frá Skúlagötunni og hljóp í átt að gamla húsinu sem einu sinni var Franski spítalinn en er tónlistarskóli núna. Þar gerðist það skyndilega og á svipstundu að tilveran breyttist á ný. Í stað Sláturfélagshúsanna voru stóru blokkirnar komnar og bílarnir voru ekki lengur gamlir. Ég var kominn til baka eins og ekkert hafði í skorist.

Eftir að hafa áttað mig, ákvað ég að hringja í vinnuna og sagðist ætla að taka mér frí það sem eftir væri dagsins. Meira gerðist ekki í þessu máli af minni hálfu og ég hef ekki orðið var við eftirköst af þessu óvænta tímaflakki mínu. Þó sá ég í einu dagblaðana daginn eftir, að eldri maður sagði frá undarlegu atviki sem hafði hent hann við Nóatúnið þegar einhver hafi beinlínis hlaupið hann um koll þar sem hann var á ferð á rafskutlu sinni og svo hefði maðurinn bara horfið á staðnum eins og jörðin hefði gleypt hann. Engin vitni að þessu atviki höfðu gefið sig fram, síðast þegar ég vissi.

 


Tímaflakkið - annar hluti

Ég sagði frá því í fyrsta hluta þessarar frásagnar hvernig mér var mjög óvænt vippað allnokkur ár aftur í tímann eftir samstuð við mann á rafskutlu við Nóatúnið. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var sem ég hafði dottið inn í en taldi sennilegast að um væri að ræða árin um eða fyrir 1980. Eftir heimsókn í Tómstundahúsið hafði ég komist að því að gamla krónan var enn í gildi og gat því útilokað árin eftir 1981 – ég var þó ekki alveg viss hvenær myntbreytingin átti sér stað. Ég hafði ákveðið að labba niður að Hlemmi til að fá gleggri mynd af því sem var að gerast ef það væri mögulegt og þar skildi ég við frásögnina síðast.

Mér fannst umhverfið þarna ofan við Hlemm öllu kreppulegra miðað við það sem það er í dag þótt deila megi um hvort minna kreppusástand sé uppi nú en þarna á árunum um 1980, þegar öllu var reddað með endalausum gengisfellingum. Svæðið við Búnaðarbankann ofan við Hlemm hefur talsvert breyst til batnaðar en þar er nú búið að færa til götur og koma fyrir hestastyttunni sem áður var við Miklubraut. Skiptistöðin við Hlemm er þó komin eins og átt von á. Sennilega er hún tiltölulega nýreyst þarna en byggingin þótti mörgum óþarflega skrítin í útliti og framúrstefnuleg. Klukkuturninn sýndi að klukkuna vantaði korter í eitt, sama og mín klukka sýndi.

1980Það var nóg um að vera þarna á Hlemmi og margt um manninn eins og löngum hefur verið. Þrír grænleitir strætisvagnar voru þarna á sama tíma. Úr einum þeirra streymdi fólk á meðan aðrir stigu inn. Þetta var leið nr.3 – Nes Háaleiti – sem einmitt var alltaf vagninn minn. Greinilega voru síðdegisblöðin komin út því gegnum umferðarniðinn mátti heyra kunnugleg köll blaðasölustráka: „Vííííísir eða Daaaagblaðið“. Mér fannst auðvitað tilvalið að kanna hvað blöðin höfðu að segja þennan dag og ekki síður að sjá á hvaða degi og ári ég væri staddur. Ég ákvað að fara inn fyrir til að kíkja á blöðin.

Ég held að ég hafi ekki skorið mig sérstaklega úr hvað varðar klæðaburð þarna inni á Hlemmi. Fólk var vissulega ekki klætt eftir nýjustu tísku okkar tíma en þó var munurinn ekki alger. Til dæmis var ég í gallabuxum eins og margir aðrir en kannski hefur einhverjum þótt svarti TheNorthFace jakkinn nokkuð nýstárlegur. Ég hef samt ekki trú á að nokkur hafi séð að ég væri ráðvilltur aðkomumaður frá árinu 2011. Sennilega hefðu flestir átt von á að slíkur gestur væri meira en lítið framtíðarlega klæddur, kannski í silfursamfestingi með innrauð gleraugu eða eitthvað þvílíkt. Fólkið sem þarna var statt var á öllum aldri, einstaka andlit kannaðist ég við en þó var enginn þarna sem ég beinlínis þekkti. Innanum nokkra unglinga sá ég einn rauðbirkinn strák með kunnuglegan svip. Ég ákvað að heilsa upp á hann.
„Sæll, heitir þú ekki Jón Gnarr?“ spurði ég.
Hann horfði á mig tortrygginn og sagði svo vera. Ég lét undan freistingunni og sagði:
„Haltu áfram að vera þú sjálfur og þú munt enda sem Borgarstjóri“
Ég veit ekki hvað hann hefur haldið um mig, en um leið og ég sagði þetta áttaði ég mig á að það er ekki viturlegt að vera með svona komment með skýrskotunum um framtíðina. Það er aldrei að vita til hvers slíkt getur leitt.

En nú þurfti ég að athuga með sjoppuna til að kíkja á blöðin. „Eru þetta blöðin í dag?“ spurði ég afgreiðslumanninn sem bæði játaði og samþykkti með semingi að ég kíkti aðeins blöðin. Nú var þetta farið að vera spennandi. Í fyrsta lagi sá ég að dagurinn var 18. ágúst 1980, þannig að nú var það komið á hreint. Þetta var rétt dagsetning samkvæmt mínu tímatali en munurinn var 31 ár. Af hverju endilega 31 ár hafði ég enga hugmynd um, en annars skildi ég svo sem ekkert í þessu öllu saman. En það var ekki bara dagsetning, því á forsíðu Vísis var aldeilis stórfrétt. Stór mynd af eldgosi og fyrirsögnin: „Stendur í einhverja mánuði ef að líkum lætur“ og var þar vitnað í Sigurð Þórarinsson jarðfræðing um gosið í Heklu. Hér var greinilega um ræða ræða eldgosið sem kom svo óvænt þetta sumar. Þarna vissi ég betur en Sigurður Þórarinson því þetta gos entist ekki vikuna. Mér fannst mér ég vera öllu nær um þessa tilveru sem ég var lentur í.

En hvað átti ég nú að gera? Skildi ég einhvertíma komast til baka í minn nútíma? Ég var kominn út aftur og stóð fyrir utan skiptistöðina Hverfisgötumegin gegnt Lögreglustöðinni. Átti ég að gefa mig fram við yfirvöld og segja farir mínar ekki sléttar eða átti ég kannski að skoða þennan fortíðarheim betur? Verst var að geta ekki borgað neitt. Fimmhundruðkallinn og nokkrir smápeningar sem ég var með í veskinu dugðu skammt því þetta var á dögum gömlu krónunnar. Ef ég hefði horfið aftur um 30 ár væri staðan allt önnur og ég getað lifað góðu lífi á þessum eina seðli í marga daga. Einnig var möguleiki á að hafa uppi á mínu fólki. Hvað gerðist ef ég bankaði uppá hjá foreldrum mínum, hvernig ætti ég að útskýra það að ég hefði allt í einu elst um 31 ár? Gæti ég kannski þóst vera áður óþekktur ættingi? Hvað með mig sjálfan? Ætli ég geti haft uppi á sjálfum mér? Get ég verið til í tveimur útgáfum á misjöfnum aldri? Ef svo er, hvar ætli ég sé staddur núna? Það er að segja yngri útgáfan af mér.

Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta sumar var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands sem þá var staðsett við Skúlagötuna. Sjálfur var ég þá 14 ára, bráðum 15. Nú ákvað ég, að áður en lengra yrði haldið, að næsta verkefni væri að hafa uppi á sjálfum mér.

- - - - -
Meira um það eftir tvo daga þegar lokahlutinn birtist.

Tímaflakkið - fyrsti hluti

Þetta var þannig að ég var í hádegismat og hafði ákveðið að fá mér smá göngutúr niður Nóatúnið. Það er stundum ágætt að komast aðeins út í hádeginu og fá sér frískt loft. Þegar ég kom að gatnamótunum við Laugaveg hafði ég ekki alveg þolinmæði í að bíða eftir græna karlinum og hljóp yfir götuna og var með allan hugann við bílaumferðina sem er nokkuð hröð þarna. Ég tók hins vegar ekki eftir gamla manninum á rafskutlunni handan götunnar og hreinlega hljóp á hann og kastaðist einhvern veginn áfram. Ég man þó ekki eftir lendingunni eða hvort ég hafi yfirleitt lent, ég man bara eftir mér í loftinu og svo ekki meir þar til ég ligg þarna bara allt í einu á gangstéttinni.

Ég fann strax að það var allt í lagi með mig eftir þessa byltu, engin eymsli eða neitt svoleiðis. Ég skynjaði hinsvegar strax að allt umhverfið var eitthvað öðruvísi en það átti að vera, dregið hafði líka fyrir sólina og heldur svalara var í lofti. Karlinn á rafskutlunni var líka alveg horfinn. Ég stóð upp nokkuð snögglega enda vildi ég ekki láta sjá mig þarna liggjandi. Þó tók ég eftir að einhverjir ökumenn litu á mig en þeir sáu greinilega enga ástæðu til að skipta sér frekar að mér. Sem var ágætt.

En hvað var þetta? Hvað var að gerast? Það sem við mér blasti var sami staður nema að allt leit núna út eins og það gerði fyrir nokkrum áratugum. Í fyrsta lagi voru það bílarnir. Þarna sá ég til dæmis strax tvær Fólkswagen-bjöllur, Volvóbíl árgerð nítjánhundruðsjötíu og eitthvað, sama má segja um Bensinn og Skódann og alla hina. Húsin í kring voru líka eins og ég man eftir þeim fyrir löngu síðan. Víðishúsið blasti við þarna hinumegin við götuna í upprunalegu útliti áður en það var klætt að utan. Svipað má segja um fleiri hús eins og verslunarhúsið kennt við Nóatún á meðan nýlegri hús voru hvergi til staðar. Sá sem ekki hefur lent í tímaflakki á örugglega erfitt með að setja sig í þau spor sem ég var þarna í en það var ekki um að villast að ég hafði horfið aftur í tímann og stóð þarna eins og illa gerður hlutur í röngum nútíma. Sjálfur hafði ég ekkert yngst við þetta flakk, var í sömu fötunum og með sömu hlutina í vösunum. Þetta var greinilega enginn draumur.

Ég leit á úrið og sá að klukkan var rúmlega hálf eitt sem var í samræmi við það sem hún ætti að vera. Ég tékkaði líka á gemsanum sem var enn í gangi en þó gagnslaus og ekki í neinu sambandi við umheiminn. Þessi hádegisgöngutúr ætlaði greinilega að verða dálítið öðruvísi en til stóð og ómögulegt að vita hvernig hann ætti eftir að enda. Í stað þess að ganga áfram niður Nóatúnið ákvað ég að ganga áleiðis að miðbænum, kannski til að sjá hvort þetta sama ástand væri allstaðar en ekki síst þurfti ég að finna einhverja skýringu á þessu og komast að því á hvaða ári ég væri staddur. Á móts við hús Fíladelfíusafnaðarins stöðvaði strætisvagn nr 2, Grandi-Vogar, í sínum gamla mosagrænleita lit. Út úr vagninum steig ung kona með barn og litla barnakerru. Ég ákvað að heilsa konunni sem leit hikandi á mig en heilsaði að lokum á móti. Þarna fékk ég staðfestingu á því að ég var staddur þarna í raun og veru en ekki bara ósýnilegur villuráfandi draugur.

Handan götunnar sá ég að Mjólkurstöðin var enn í fullum gangi í húsunum þar sem nú er Þjóðskjalasafnið. Annað fannst mér þó áhugaverðara en það var Tómstundahúsið sem var uppáhaldsbúðin mín hér áður fyrr. Ég skutlaði mér yfir götuna til að skoða dýrðina aðeins nánar og að þessu sinni komst ég klakklaust yfir. Engin óvænt rafskutla til að skutla mér í jörðina. Tómstundahúsið var nákvæmlega eins og það var í minningunni en þar keypti maður plastmódel í stórum stíl hér áður fyrr. Ég gekk aðeins um í búðinni leit á kunnuglegt úrvalið. Stór sögufræg seglskip eins og HMS Victory Nelsons flotaforingja, og Gullna Hindin hans Francis Drake. Hvortveggja hafði ég límt saman málað og þrætt á allskonar bönd á mínum yngri árum. Þarna voru líka flugvélar eins og Spitfire, Messerschmith, Junkers JU88 og margar fleiri.
„Get ég nokkuð aðstoðað?“ spurði afgreiðslumaður kurteislega.
„Nei nei“ sagði ég. „Ég er bara aðeins að skoða“
Auðvitað hefði ég getað spurt hann út í hvaða ár væri en fannst það ekki viðeigandi. Af verðlaginu að dæma voru gömlu krónurnar enn í gangi. Plastmódelpakki fannst mér kosta eitthvað álíka og hann gæti kostað í dag, en annars er langt síðan ég hef verslað svona.
Ég þakkaði fyrir mig og yfirgaf búðina dálítið hugsi. Átti myntbreytingin sér ekki stað um 1980? Í upphafi þess árs eða var það kannski í ársbyrjun 1981? Ég mundi það ekki alveg. Allavega var ég staddur í Reykjavík fyrir myntbreytingu. Sennilega þó ekki löngu fyrr. Sennilega einhverntíma á árunum 1978-1980. En nú blasti Hlemmur við mér, þar gæti ég vonandi fengið einhver svör.

- - - - -
Annar hluti af þremur mun birtast hér von bráðar.


Hitabylgjurnar 2004 og 2008 í Reykjavík.

Það lítur út fyrir að við sleppum við meiriháttar hitabylgjur þetta sumarið. Hæsti hitinn í Reykjavík hingað til í sumar var 5. ágúst 20,0° í skýjuðu veðri og gæti það kannski flokkast sem míkró-hitabylgja. Hér ætla ég hinsvegar að rifja upp tvær alvöru hitabylgjur frá árunum 2004 og 2008 sem báðar voru sögulegar. Þetta er þó ekkert allsherjaryfirlit og læt ég nægja að rekja hitann í Reykjavík. Á vef Veðurstofunnar er hægt að sjá hitaferla frá sjálfvirkum athugunum síðustu 6 sólarhringa hverju sinni og þaðan nálgaðist ég á sínum tíma myndirnar sem báðar sýna hitann í Reykjavík. Til glöggvunar hef ég bætt við gráum svæðum sem eiga að þýða næturhúmið. Bláa línan á myndunum er daggarmark en loftið er rakara eftir því sem línurnar eru nær hvor annarri. Annars er rauði hitaferillinn aðalatriðið.

Hitabylgja 2008

Hitabylgjan í júlí 2008 var óvenjuöflug og þá voru sett met víða um land en hitinn fór hæst í 29,7 stig á Þingvöllum sem mun vera hæsti hiti sem mælst hefur hér á landi þar sem öllum kröfum er fullnægt. Í Reykjavík hófst hitabylgjan þann 25. júlí (sem er utan myndar) en þá fór hitinn yfir 22 stig (hef það ekki nákvæmar). Næstu tvo daga var vel hlýtt þótt nokkuð væri í 20 stigin. Þann 29. júlí var skýjað veður og hitinn undir 15 stigum en til marks um að eitthvað var að gerast þá kólnaði eiginlega ekkert um nóttina. Mánudaginn 29. júlí skein sólin á ný og rauk hitinn þá yfir 22 stig. Lítilsháttar hafgola hefur þó væntanlega skorið toppinn af hita dagsins.
30. júlí er svo aðaldagurinn því eftir að hitinn hafði náð 20 stigum um hádegi, hélt bara áfram að hlýna uns hámarki var náð undir lok dags þegar hitinn komst í 25,7 stig. Það er opinbert hitamet í Reykjavík á hefðbundnum hitamæli við Veðurstofuna og eina skiptið sem hitinn hefur farið yfir 25 stig. Á þeirri sjálfvirku fór hitinn hins vegar í 26,4 stig. Þessi hitatoppur stóð stutt og daginn eftir var skýjað veður með 15 stiga hita.
Lokadagur hitabylgjunnar í Reykjavík var svo föstudagurinn 1. ágúst en þá var meira en 20 stiga hiti yfir daginn náði hæst í 23,6° síðdegis sem þykir nú bara aldeilis gott.

Hitabylgja 2004

Hitabylgjan í ágúst 2004 var ekki síður merkileg enda einstaklega hlýtt loft yfir landinu. Hegðun hitans í Reykjavík var mjög undarleg og venjur um dægursveiflur algerlega hundsaðar. Þetta byrjaði þó með nokkuð hefðbundnum hlýjum sunnudegi þann 8. ágúst þar sem hitinn náði 18 stigum í hlýjum austanvindi. Mánudagurinn fór vel af stað þegar hitinn rauk yfir 20 stig strax um morguninn en hrapaði jafnharðan aftur þegar þykknaði upp með svalari golu af hafi. Öllu máli skipti þarna eins og endranær hvort andar af hafi eða landi. Aðfaranótt þess 10. hefur hlý landgola tekið yfir og þótt náttmyrkur væri skollið á komst hitinn upp í 20 stig sem er vægast sagt mjög sérstakt. Þegar birti af degi tók væg hafgola við og hitinn í sólinn lækkaði niður í 17-18 stig. Aftur náði hitinn 20 stigum undir myrkur þegar vindur stóð af landi á ný og önnur óvenjuhlý nótt tók við.
Miðvikudaginn 11. ágúst hafði hitinn loksins betur yfir daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 24,8 stig sem þá var nýtt hitamet í borginni og stóð það met í 4 ár eða þar til áðurnefnt hitamet var sett í júlí árið 2008. Eldra metið var frá 1976: 24,3°. Þrátt fyrir hægviðri náði hafgolan sér eiginlega ekkert á strik en þegar mjög hlýtt er í háloftunum er loftið mjög stöðugt og því minni grundvöllur fyrir hafgolumyndun. Þó sér maður útfrá á hitaferlinum að 11. ágúst hefði getað gert enn betur ef nálægð sjávarins hefði ekki spilað inní.
Dægursveiflan getur talist hefðbundin þann 12. ágúst en þá náði hitinn 20 stigum fjórða sólarhringinn í röð sem er einsdæmi í Reykjavík. Lokaandvarp hitabylgjunnar kom föstudaginn 13. en þá slagaði hitinn uppí 19 stig snemma morguns en var síðan ofurliði borinn af kaldara Faxaflóalofti. Í framhaldinu tóku við margir sólríkir dagar með venjulegum síðsumarhitum uppá 14-15 stig sem þá þótti ekkert sérstakt eftir það sem undan var gengið.


Hafístíðindi - endaspretturinn framundan

Linurit_DMI_8Agust2011

Þegar ég skrifaði um hafísinn fyrir mánuði benti margt til þess að söguleg tíðindi væru framundan varðandi útbreiðslu hafíssins á Norður-Íshafinu. Útbreiðslan hafði þá skotist niður fyrir það sem var á sama tíma metárið 2007 og ekki annað að sjá en að æsilegt kapphlaup væri fram undan. Seinni partinn í júlí breyttust hinsvegar veðuraðstæður, lægðir fóru að gera vart við sig, það dró fyrir sólu auk þess sem vindar blésu út frá ísbreiðunni sem stuðluðu að aukinni dreifingu í stað þess að pakka ísnum saman. Þróun útbreiðslunnar náði því ekki lengur að halda í við árið 2007 og loks varð dálítið bakslag nú um mánaðarmótin sem reyndar hefur gengið til baka. Útbreiðslan er samt sú næst lægsta miðað við sama tíma á fyrri árum. Þetta má sjá á línuritinu frá Dönsku veðurstöfunni DMI.

 

CT_7August2011+min2007

Hér að ofan er mynd sem sýnir ísbreiðuna þann 7. ágúst en til samanburðar hef ég útlínað septemberlágmark ársins 2007. Talsverð ísasvæði eru enn utan við 2007-lágmarkið. Mikið af því er gisinn ís og væntanlega ört bráðnandi. Varðandi ísmagn verður að hafa í huga að útbreiðsla og flatarmál ísinns er ekki það sama, hvað þá heildarrúmál. Ísinn pakkaðist mikið saman sumarið 2007 sem skilaði sér í mjög lítill útbreiðslu en ekki endilega minna heildarísmagni en því sem við erum að horfa á í ár. 

 

Loftþrýstingur Norðupóll Agust2011

Veðurspákort af Norðurhveli fyrir miðvikudaginn 10. ágúst.  

Ekki er öll von út enn ef menn vilja sjá nýtt útbreiðslulágmark í september þótt ljóst sé að við ramman reip verður að draga. Nýjustu tíðindi eru þau að veðrakerfin eru aftur að raða sér upp í  æskilega stöðu til að vinna á ísbreiðunni. Hæðarsvæði er að styrkjast þarna á ný og með hjálp lægða yfir Síberíuströndum myndast vindstrengur yfir Norður-íshafinu suður að Fram-sundi milli Svalbarða og Grænlands, en hafís sem fer það í gegn á ekki afturkvæmt og bráðnar að lokum við strendur Grænlands. Tíminn til að gera stóra hluti fer þó minnkandi því sólin lækkar á lofti og mun að lokum ekki ná lengur að halda yfirborðshitanum yfir frostmarki. Veðuraðstæður breytast auðvitað sífellt og endaspretturinn ræðst af því hvernig veðri og vindum reiðir af allt til loka bræðsluvertíðarinnar í september. 


Flugufrétt og Stjórnleysisráð

Folafluga

Fyrst er það flugufréttinn. Á dögunum sá ég þetta óvenjulega skordýr sem sat á svörtum plastpoka í garðinum hjá mér í Vesturbænum og er örugglega það stærsta sem ég hef séð hér á landi. Með fótum og öllu gæti það hafa slagað hátt í 5 sentímetra. Ég tók mynd af þessu kvikindi og sendi fyrirspurn til Náttúrufræðistofu Kópavogs. Mér var svarað á þá leið að þetta væri skylt hrossaflugu og kallaðist Folafluga (Tipula paludosa). Þessara tegundar mun fyrst hafa orðið vart í Hveragerði árið 2001 en hefur síðan breiðst út og er farin að sjást á höfuðborgarsvæðinu. Folafluga mun vera skaðvaldur fyrir skógrækt erlendis þar sem hún leggst á nýgræðinga. Ýmsar óvenjulegar flugu- og fuglategundir hafa sést hér á landi síðustu ár. Hlýnandi tíðarfar á þar sjálfsagt einhvern þátt.

Þegar fyrst var rætt um stjórnlagaþing á sínum tíma hélt ég að tilgangurinn með því væri sá að laga ýmis atriði í núverandi stjórnarskrá sem voru óljós og almennt orðuð. En í stað þess að laga stjórnarfarið þá virðist nefndin hafa haft það að markmiði að leysa upp stjórnarfarið og koma á einhverskonar stjórnleysi eða allavega að auka það. Samkvæmt tillögunum hefur vald Alþingis verið skert og hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ef 10% kjósenda dettur það í hug. Mjög auðvelt er að ná því hlutfalli nú á tímum feisbókar og bloggsins. Alþingi netsins gæti það kallast. Kosningakerfinu verður stokkað upp, ýtt verður undir persónukosningar og hægt að kjósa einstaklinga á alla kanta og þvert á þá flokka sem maður kýs sjálfur. Tímar stjörnupóíltíkusa munu renna upp og skiptir þá máli hverjir eru duglegastir að láta á sér bera og koma fram í spjallþáttum. Útkoman verður sennilega enn óskiljanlegra kerfi en það er í dag. Sjálfur er ég nokkuð íhaldssamur en þó ekki íhaldsmaður. Þessi íhaldsemi réð ríkjum þegar ég kaus til stjórnlagþings á sínum tíma en enginn þeirra sem ég kaus komst að og hafa örugglega fæstir átt nokkurn möguleika, enda ekki nógu þekktir og sjálfsagt of íhaldsamir. Það hefur verið vinsælt að kenna hinum svokallaða fjórflokki um allar landsins hörmungar enda liggur sá flokkur vel við höggi. Það þykir rómantískara að færa ákvarðanatökuna til fólksins - til meirihlutans sem á alltaf að hafa rétt fyrir sér. Einhvern veginn grunnar mig að ég muni oftar en ekki standa utan við þann meirihluta.

Ég hef verið nokkuð kerfislægur í bloggfærslum undanfarna mánuði og boðið upp á framhaldsbloggfærslur, mánaðaryfirlit og fasta árlega liði. Það liggur nokkurn vegin fyrir hvað ég mun blogga um næsta mánuðinn. Ekki vil ég segja frá öllu fyrirfram en get sagt að mánaðarlegt sumarhafísyfirlit verður næst og síðar í mánuðinum er stefnt að dálítilli nýjung sem gæti kallast persónuleg framhaldslygasaga í þremur hlutum. Þessi tvíeggjaða bloggfærsla var hinsvegar bara aukanúmer inn á milli.


Hversu gott var veðrið í júlí?

Þá er komið að veðurdagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júlí í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár en meiningin er að birta samskonar yfirlit fyrir alla sumarmánuðina nú í ár. Eins og ég nefni alltaf í inngangi er aukaafurð þessara skráninga einkunnakerfið sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.

Skráning júlí 2011Hér er veðurskráningin fyrir nýliðinn júlí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Í júlí miða ég meðallagið við 11-15 stig.

Júlí 2011 – Einkunn 5,0
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem er frekar góð einkunn og stendur fyllilega undir þeim kröfum sem við erum farin að gera til sumarmánaða í dag en veðurgæði hafa greinilega aukist að sumarlagi hér í Reykjavík.

Megnið af mánuðinum var mjög þurrt og til marks um það skráði ég enga úrkomu dagana frá 2. til 25. júlí sem þýðir að úrkoma á því tímabili var svo lítil að ekki tók því að nefna hana en úrkoma gæti þó hafa fallið að næturlagi. Dropadálkurinn aftan við loftvog á miðnætti sýnir hvort jörð sé blaut á miðnætti en sá dálkur er alveg auður í 20 daga samfleytt. Þessu þurrkatímabili (sem í raun hófst mun fyrr) lauk þann 26. með ekta landsynningsrigningu úr suðaustri og eina stig dagsins fékkst fyrir 13 stiga hitann sem ekki er hægt að kvarta yfir.

Einn dagur fær fullt hús stiga (8) en það er föstudagurinn 15. júlí sem jafnframt er heitasti dagurinn. Annars fá dagar ekki 8 stig nema þeir hafi virkilega unnið fyrir því. Einkunnin 0 er hinsvegar mjög sjaldgæf enda fer ekki saman mikil úrkoma og kuldi hér í Reykjavík.

Vindurinn í mánuðinum var ekkert sérlega hægur að meðaltali en aðallega þá vegna nokkra hvassra daga þar sem strekkingsvindur var úr suðaustri og því er gildi suðaustanáttarinnar (27) frekar hátt í vindáttaboxinu sem er þarna niðri til vinstri. Einkenni góðra sumarmánaða í Reykjavík er há tíðni norðvestanáttar sem gjarnan fylgir sólardögum sem hafgola. Norðvestanáttin hefur að þessu sinni næsthæsta gildið (12) á meðan sunnanáttin er t.d. í núlli. Þegar hálfir og heilir sólardagar hafa verið lagðir saman er útkoman 12 sólardagar sem er bara fínt – sama og var í fyrra, en samt nokkuð frá því besta.
Hitinn í mánuðinum er í samræmi við hlýindi síðustu ára. Enginn dagur telst vera kaldur og 5 dagar teljast hlýrri en viðmiðunin segir til um. Ekki fengum við 20 stig að þessu sinni en í Reykjavík má alls ekki ætlast til þess á hverju sumri þrátt fyrir almenn hlýindi. Kannski mun komandi ágústmánuður bæta þar úr.

Bestu júlímánuðir frá 1986.

Júlí 2009 - Einkunn 5,8. Þessi mánuður slær allt annað út í einkunnagjöf og má kallast alger stjörnumánuður. Meðalhitinn var örskammt frá mánaðarmetinu, sólskin það mesta frá 1974 og úrkoma sú minnsta síðan á 19. öld. Þessi háa einkunn ræðst ekki síst af því að góðviðriskaflinn hitti nokkuð vel á mánuðinn. Eini gallinn var stutt kuldakast seint í mánuðinum sem frægast er fyrir að hafa fellt kartöflugrös í Þykkvabænum.
Júlí 2007 - Einkunn 5,5. Sögulega séð er þessi mánuðir síðasti mánuðurinn þar sem góðæri ríkti í fjármálakerfi heimsins en síðan hefur leiðin bara legið niðurávið. Veðurfarslegt góðæri hér í Reykjavík stendur þó fyrir sínu. Þessi næst besti júlímánuður var ákaflega sólríkur fyrri hlutann en köflóttari eftir það. Mánuðirinn tók við af mjög góðum og sólríkum seinni hluta júnímánaðar. Besti mánaðarlangi kaflinn í mínum bókum fæst einmitt með því að taka meðaleinkunn yfir 31 daga tímabil sem nær yfir báða þá mánuði en þannig fæst einkunn upp á 6,1 tímabilið 21. júní til 21. júlí. 2007.
Aðrir mánuðir blanda sér ekki í toppbaráttuna þótt nægt úrval sé af góðum júlímánuðum. Júlí 2010 og 2004 fengu báðir 5,2 í einkunn. Júlí í fyrra deilir einmitt metinu „heitasti mánuðurinn“ í Reykjavík með hitabylgjumánuðinum júlí 1991. Sá mánuður árið 1991 fékk 5,1 í einkunn ásamt júlí árið 2000 og eru þar með taldir upp þeir júlímánuðir sem hafa fengið hærri einkunn en júlí í ár. Júlí 1993 og 2005 dæmast þó jafngóðir með sömu einkunn.

Og þeir verstu:

Júlí 1989 – Einkunn 3,8. Þetta er ekkert nema falleinkunn enda sólarminnsti júlí sem mælst hefur í Reykjavík auk þess sem meðalhitinn var ekki nema 9,6 stig sem er með því slakasta sem gerist. Þrálátar rigningar bættu svo ekki úr skák.
Júlí 1987 – Einkunn 4,1. Þetta var líka sólarleysismánuður og slakur á alla kanta þó ekki væri hann nálægt metum. Að öðru leyti var sumarið '87 mun betra og sólríkara.
Afleitir júlímánuðir hafa í raun ekki verið fleiri en þessir tveir sem báðir eru komnir til ára sinna. Á þessari öld eru tveir mánuðir sem fá bara 4,4 en það eru júlí 2002 og 2006. Þeir voru báðir í svalari kantinum og ekkert sérstakir að öðru leyti og sennilega flestum gleymdir eins og svo margir aðrir mánuðir þegar kemur að veðri. Þess vegna er ekkert verra að eiga þetta allt kyrfilega skráð.


Er heimurinn að hlýna eða kólna?

Það eru væntanlega fáir sem efast um að hlýnað hafi á jörðinni síðustu 100 ár enda sýna mælingar það svo ekki verði um villst. Þessar 0,7° gráður eða svo sem hlýnað hefur um í heiminum frá aldamótunum 1900 teljast varla vera nein katastrófa en haldi hlýnunin áfram á þessari öld með auknum hraða, gæti gamanið farið að kárna eins og margoft hefur verið varað við.

En hér eru ekki allir á sama máli, því inn á milli heyrast raddir um að loftslag á jörðinni stjórnast lítið sem ekkert af athöfnum manna – það hafi alls ekkert hlýnað undanfarin ár og framundan sé áratugalangt kuldaskeið af náttúrulegum orsökum en aðallega þá vegna minnkandi sólvirkni. Sumir hafa undanfarið jafnvel talið að kuldaskeiðið mikla væri í þann veginn að hefjast eins og þessar tilvitnanir segja til um:

It is likely that 2011 will be the coolest year since 1956, or even earlier, says the lead author of a peer-reviewed paper published in 2009. Our ENSO - temperature paper of 2009 and the aftermath by John McLean

„Global temperatures have suddenly returned to the same level they were in 1980 and are expected to drop much further. Given the momentum of the solar hibernation, it is now unlikely that our generation or the next one will return to the level of global warming that we have just passed through. Again, global warming has ended. It was always caused by the Sun and not mankind. The global cooling era has begun.“ Space and Science Research Center, February 4, 2011

Þessi síðari tilvitnun er frá því í febrúar nú í ár eftir að hitinn hafði fallið í byrjun árs. Ekki reyndist sú kólnun langvinn. Þeir sem kallast efasemdarmenn um hnatthlýnun hafa reyndar lengi bent á að mikið hitafall sé yfirvofandi eða í þann veginn að skella á. Slíkt hefur hingað til látið á sér standa eða frestast, því eftir hvert bakslag hefur hitinn náð sér á strik svo um munar. Myndir hér að neðan sýnir hitaþróun jarðar frá 1979 samkvæmt gervitunglagögnum UAH:

Hitalínurit UAH Jun2011

Sá þáttur sem hefur einna mest skammtímaáhrif á hitafar jarðar en ENSO sveiflan í Kyrrahafi, sem segir til um hvort hinn hlýji El Nino eða hin kalda La Nina ráði ríkjum hverju sinni en mestu áhrifin eru af völdum sterks El Nino árið 1998 enda var það ár það hlýjasta samkvæmt þessum gögnum. Frá 1950 hefur þróunin verið þannig (rautt = El Nino / blátt = La Nina):

ENSO 1950-2011

- - - - -

Ef við setjum þessar tvær myndir saman fyrir árin 1979-2011 þannig að ártölin stemma, þá sést vel hvað átt er við. Hitaþróunin eltir ENSO sveiflurnar en er þó oftast nokkrum mánuðum á eftir. Eina tímabilið sem passar illa er 1992-1993 en það er vegna kælingar af völdum stóra eldgossins í Pinatupo á Filippseyjum:

ENSO+UAH 1979-2011

Í þessum samanburði kemur það í ljós að hitaferill hefur smám saman verið að lyfta sér upp fyrir ENSO sveiflurnar eins og ég stilli þessu upp. Með öðrum orðum: Það er undirliggjandi hlýnun í gangi sem ekki verður skýrð með tíðni El Nino og La Nina. Á síðasta ári var uppi kalt La Nina ástand (lengst til hægri) sem dugði þó ekki nema til þess að lækka hitann rétt niður fyrir meðallag en stóð stutt. Nú þegar hlutlaust ENSO-ástand er komið á á ný hefur hitinn rokið aftur upp (+0,31°) og það langt yfir meðallag. Til að ná slíkri hæð á árunum fyrir 1995 hefði hinsvegar þurft eindregið El Nino ástand.

Annað mikilvægt er að hitaþróun síðustu ára virðist ekki vera í samræmi við þá minnkandi sólvirkni sem verið hefur síðustu ár - allavega ekki enn sem komið er. Vísbendingar eru um langvararandi sólardeyfð á næstu áratugum en hvaða áhrif það mun hafa hafa veit ég ekkert um. Allavega virðumst við ennþá vera í ferli hlýnunnar sem erfitt er að útskýra án þess að íhuga þann möguleika að eitthvað gæti kannski komið við sögu sem ef til vill hefur eitthvað með mannkynið að gera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband