Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

Fréttir af eldsumbrotum á Hawaii-eyjum eru áhugaverðar fyrir okkur sem búum hér á landi enda eigum við íslendingar við sömu náttúruógnina að etja og aðstæður að ýmsu leyti sambærilegar. Hér ætla ég að skauta aðeins yfir hvernig þetta lítur út þarna hjá þeim með aðstoð korta frá google þar sem ég hef föndrað inn ýmislegt. Þetta er bæði gert mér sjálfum til glöggvunar og kannski einhverjum fleirum. Fyrst er heildarkort af eyjaklasanum:

Hawaii eyjar

Hawaii eyjar eru eyjaklasi sem raðast eftir 2.400 km langri línu á Kyrrahafinu. Þær eiga tilurð sína að þakka öflugum möttulstrók sem er staðsettur undir austustu eyjunni enda er það eina eldvirka eyjan nú á dögum en eldvirkni á öðrum eyjum er útkulnuð. Þessi eyja heitir Hawaii-eyja en er oft nefnd Big Island og er hún stærsta eyjan og jafnframt sú yngsta. Stóra málið hér er að Kyrrahafsflekinn færist hægt og rólega í norðvestur yfir möttulstróknum sem er alltaf á sínum stað og á rætur sínar djúpt í jörðinni. Elstu eyjarnar eru þær sem eru fjærst möttulstróknum í norðvestri og eru þær að mestu eyddar og margar alveg horfnar af yfirborðinu. Yngsta og eldvirkasta eyjan er alltaf sú sem er lengst í suðaustri yfir möttulstróknum hverju sinni. Næsta eyja mun síðan óhjákvæmilega myndast í framtíðinni þar suðaustur af vegna færslu Kyrrahafsflekans yfir stróknum. Á næstu mynd eru við komin á þessa eldvirku eyju þar sem hlutirnir eru að gerast:

Hawaii Big Island suður

Hér á kortinu má sjá suðausturhluta Big Island. Frægasta er þar að telja Mauna Loa, elddyngjuna miklu sem er eitt af kunnustu eldfjöllum jarðar. Þar er allt með friði og spekt núna. Kilauea eldstöðin hefur hinsvegar verið mjög virk alla síðustu öld og fram til þessa. Út frá Kilauea liggur sprungurein sem nær til austasta odda eyjarinnar. Árið 1983 hófst hið lífseiga gos sem stendur enn þann dag í dag og eru atburðir síðustu daga í raun hluti af þeirri atburðarrás. Kvikan er ættuð djúpt úr jörðu undir Kilauea þótt sjálft gosið undanfarna áratugi hafi ekki átt sér stað þar. Kvikan hefur hinsvegar náð til yfirborðs við gíginn Puu Oo, eða þar um kring með mjög lítilli gosvirkni en þunnfljótandi hraunið runnið hægt og rólega til sjávar enda hefur þetta yfirleitt verið einstaklega hæglátt gos og túristavænt. Næsta mynd sýnir svæðið í meiri nærmynd.

Hawaii Puu Oo

Hér sjást aðstæður betur. Svæðið suður af Puu Oo gígnum er nánast alþakið helluhraunum sem runnið hafa hvert af öðru niður hlíðarnar síðustu 35 ár og gjöreitt mörgum mannvirkjum og fjölda heimila. Stundum hafa hraunin náð að renna út í sjó og þykir það ágætis sjónarspil. Árið 2014 gerðist það hinsvegar að hraunið fann sér leið eftir sprungukerfum í austurátt og tók að ógna þorpinu Pahoa og eyddi fáeinum húsum. Mun betur fór þó en á horfðist. Núna um mánaðarmótin apríl-maí gerðist það svo í kjölfar jarðskjálfta að kvika, sem nánast barmafyllti gíginn Puu Oo, fann sér leið neðanjarðar með sprungureininni í austur þannig að eftir sat galtómur gígurinn. Sú kvika, eða einhver hluti hennar, hefur síðan verið að koma upp aftur í Leilani-íbúðahverfinu nánast í bakgarðinum hjá fólki sem örsmá sprungugos, miðað við það sem við þekkjum.

Hawaii Leilani

Hér kemur svo nærmynd af Leilani hverfinu þar sem ýmsar smásprungur hafa opnast með hraunslettum en mjög takmörkuðu hraunrennsli enn sem komið er. Talað hefur verið um hraunstróka upp á allt að 30 metra og er þá fullmikið sagt því af myndum af dæma nær sjálfur eldurinn varla yfir trjágróðurinn þótt einhverjar slettur nái hærra. Virkni í hverri sprungu virðist ekki standa lengi yfir en þegar þetta er skrifað hefur verið talað um að alls hafi 8 gossprungur opnast og einhverjar af þeim enn virkar.

Sprungugos Hawaii

Vandinn við þetta gos er ekki krafturinn heldur það að ómögulegt er að segja til um hvar og hvernig þetta endar - eða hvort það endi yfirleitt. Mögulega gæti gosið þarna í byggðinni um langa hríð þannig að stór eða lítil hraundyngja myndist yfir byggðinni en kannski verður þetta bara lítill atburður þarna í byggðinni sem hættir þegar hráefnið sem kom úr Puu Oo gígnum dugar ekki lengur til. Virknin gæti líka færst upp eftir á sinn stað að nýju nær höfuðstöðvunum við gíginn þar sem gosið hefur haldið sig lengst af. Stóri skjálftinn upp á 6,9 stig sem varð þarna þann 4. maí veldur þó sennilega einhverjum áhyggjum. Hvað framtíðina varðar þá er allt þetta svæði þarna yfir möttulstróknum á suðausturhluta austustu eyjarinnar mjög ótryggt því í ljósi þess sem ég minntist á hér í upphafi þá er þróunin í eldvirkni öll í þá átt að þarna byggist upp næsta stóra eldstöð á eyjunum.

- - - -

Viðbót 6. maí: Ekkert lát er á gosinu morguninn eftir að færslan er skrifuð og virðist virkni færast í aukana. Hér er mynd af nýrri gossprungu sem sendir gosstróka upp í 70 metra hæð með auknu hraunrennsli í byggðinni.

Hawaii gossprunga 6. maí

- - - -

Myndir, heimildir og stöðu mála má finna hér: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html

Fyrri bloggfærslur tengdar gosinu á Hawaii:

23.2.2013 Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

25.10.2014 Hraun ógnar byggð á Hawaii

12.11.2014 Hraunfoss við sorpflokkunarstöð

12.2.207 Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii


mbl.is Hraunkvika spýtist 30 metra upp í loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafísstaðan í Norðurhöfum

Hámarksútbreiðsla hafíssins að vetrarlagi er að baki á norðurslóðum og ísinn farin að bráðna á jaðarsvæðum ísbreiðunnar. Á næstu vikum og mánuðum mun útbreiðsla íssins halda áfram að dragast saman með hækkandi sól uns hinu árlegu lágmarki verður náð í september, eins og vera ber. Af útbreiðslu íssins nú í ár er það að segja að hún hefur yfirleitt verið sú minnsta eða við það minnsta miðað við fyrri ár eða frá því nákvæmar útbreiðslumælingar hófust árið 1979. Ekki munar þó miklu frá síðustu tveimur árum og reyndar fór vetrarhámarkið í ár örlítið hærra en í fyrra. Engin vafi er hinsvegar á að árið 2016 státar að minnstu útbreiðslunni að vorlagi og það nokkuð afgerandi þótt sú forysta hafi ekki haldist út sumarið. Útbreiðslan að vetrar- og vorlagi segir þó ekki allt, samanber árið 2012 þegar vetrarútbreiðslan var við það mesta síðustu ár en sumarlágmarkið það afgerandi lægsta sem þekkt er. Spurningin er svo hvernig árið í ár þróast.

Hafísútbreiðsla apríl 2018

Línuritið hér að ofan er ættað frá bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni NSIDC og sýnir, eftir smá áherslubreytingar frá mér, útbreiðsluþróun hafíssins frá árinu 2012 en gráa línan er meðalútbreiðsla áranna 1981-2010.

Hafískort 20. apríl 2018Á heimasíðu sömu aðila má finna nýjustu útbreiðslukort af hafísnum hverju sinni. Þann 20. apríl var útbreiðslan eins og hér er sýnd. Sjá má granna gula línu sem markar meðalútbreiðslu áranna 1981-2010 en miðað við það meðallag eru ekki stór frávik á þeim svæðum sem snúa að Atlantshafinu þótt víðast sé útbreiðslan undir meðallaginu. Til dæmis má sjá að lítill hafís er núna á Grænlandssundi ólíkt því sem oft var áður á þessum árstíma.

Tvö svæði hef ég merkt við sérstaklega á Kyrrahafshliðinni. Á Beringshafi er mesta frávikið nú um stundir en þar hefur raunar verið mjög lítill hafís í allan vetur. Þetta mun víst vera minnsti hafís sem vitað er um á þeim slóðum og skýrist væntanlega af suðlægum vindum þar. Þetta gæti haft sitt að segja fyrir bráðnun í sumar inn af Beringssundi og gefið bráðnun þar visst forskot miðað við fyrri ár. Svo er það Okhotskhaf sunnan Kamtsjatkaskaga en þar hefur verið talsverður ís í vetur sem getur skýrst af Síberíukuldum sem leitað hafa út á hafssvæðið. Okhotskhaf er talið með í útbreiðslumælingum þótt það sé alveg úr tengslum við Norður-Íshafið. Ísinn þarna er væntanlega þunnur og mun hverfa alveg í sumar.

Liðinn vetur á norðurslóðum hefur verið nokkuð dæmigerður fyrir allra síðustu ár og hefur einkennst af talsverðum hlýindum yfir Norður-Íshafinu. Aftur á móti hafa verið þrálátir kuldapollar á meginlöndunum, sérstaklega í Kanada og eitthvað í Síberíu. Bandaríkin og Evrópa hafa síðan fengið sína skammta inn á milli. Væntanlega mun ísinn á Hudsonflóa í Kanada duga eitthvað lengur fram á sumar en venjulega sem afleiðing af Kanadakuldum. Stundum er talað um þetta sem eitthvað nýtt "norm" þ.e. kuldarnir vilja leita meira suður sem afleiðing af hlýnandi heimskautasvæðum. Þetta má sjá á þessu útflatta hitafarskorti fyrir alla jörðina, sem sýnir hitann sem frávik frá meðallagi síðustu 180 daga. Greinilegt er hvar hlýindin eru mest en þau hlýindi náðu hinsvegar ekki alveg suður til Íslands að þessu sinni.

Vetrarhiti 2017-18, jörðin

- - - -

http://nsidc.org/arcticseaicenews/
https://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/glbcir_rnl.shtml


Vetrarhiti í súlnaformi

Þótt vetrarkuldar séu kannski ekki alveg að baki þá ætla ég bjóða hér upp á vetrarhitasúlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík nýliðinn vetur, frá nóvember til mars. Tölurnar sem liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum sem staðið hafa lengi. Hver súla á að sýna dæmigerðan hita dagsins sem liggur einhversstaðar á milli meðalhita sólarhringsins og hámarkshita dagsins. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir. Eins og venjulega var hitafar vetrarins upp og ofan en almennilegir hlýindakaflar létu á sér standa þar til undir það síðasta. Nánar um það undir myndinni.

Vetrarhitasúlur 2017-18

Vetur byrjaði nokkuð skart eftir góð hausthlýindi á undan. Nóvember er yfirleitt ekki  skilgreindur sem vetrarmánuður en að þessu sinni náðu vetrarkuldar fljótlega yfirhöndinni í mánuðinum og færðust í aukana eftir því sem á leið. Meðalhitinn endaði rétt yfir frostmarki og varð þetta kaldasti nóvember í Reykjavík síðan 1996, en þá var reyndar mun kaldara. Í desember og janúar var hitinn áfram að dóla sér sitt hvoru megin við frostmarkið. Lægðir færðu okkur hlýindi úr suðri af töluverðu afli en það jafnaðist iðulega út með kuldum úr norðri. Ekki er hægt að tala um öfgar í hitafari og eiginlega mesta furða að köldustu dagarnir hafi ekki verið kaldari en þetta. Almennileg hlýindi létu líka bíða eftir sér en í febrúar skrái ég fyrst 7 stiga hita yfir daginn snemma í mánuðinum. Þess var auðvitað hefnt með meira en vikuskammti af kulda. Svo fór þetta að koma. Eftir miðjan febrúar náðu hlýir loftmassar loks yfirhöndinni og mars hefur stórlega bjargað málunum fyrir hitafar vetrarins. Mér reiknast svo til, út frá opinberum tölum, að meðalhiti þessara fimm vetrarmánaða sé +0,5 stig sem er sambærilegt vetrinum 2001-2002 og að þessir tveir vetur séu þar með þeir köldustu á öldinni. Þetta var sem sagt heldur kaldari vetur en við höfum átt að venjast á þessari öld. Á kalda tímabilinu 1965-1995 hefði hann þó sennilega fengið ágætis eftirmæli.

En til samanburðar og upprifjunar þá á ég sambærilega mynd fyrir veturinn á undan þessum, þ.e. veturinn 2016-2017. Sá vetur var með þeim allra hlýjustu og mældist meðalhitinn hér í Reykjavík 2,6 stig frá nóv-mars. Þar erum við greinilega að tala um allt annarskonar vetur, en þó vetur engu að síður.

Vetrarhitasúlur 2016-17

 


Fína svifrykið og fínu dísilbílarnir

Á sama tíma og hratt hefur dregið úr sölu dísilbíla í Evrópu vegna skaðlegs útblástur þeirra virðist lítið vera að draga úr framboði nýrra dísilbíla hjá íslensku bílaumboðunum. Þetta á sérstaklega við svokallaða um sportjeppa og aðrar stærri gerðir bíla. Í sumum tegundum er einungis boðið upp á dísilvélar og almennt eru fleiri útfærslur í boði af dísilbílum af hverri tegund, heldur en af bensínbílum. Vilji maður til dæmis fá sér heiðarlegan, fjórhjóladrifinn, beinskiptan, bensínbíl, er víða afskaplega fátt í boði samanber þessi dæmi af verðlistum ónefndra bíltegunda.

Disilverdlistar

Eitthvað er þetta þó líklega að breytast. Suzuki-umboðið bíður t.d. einungis upp á bensínbíla í stað dísils og svo er stóraukin sala í þeim bílum sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni. Vandamálið með dísilvélar er að í útblæstri þeirra er að finna mun meira magn af fínlegustu gerðum svifryks (PM2,5) sem einmitt er skaðlegasta gerð svifryks fyrir heilsu fólks. Sjá til dæmis hér: What is PM2,5 and why should you care?

PM2,5 eru það agnarsmátt ryk að líkaminn nær ekki að losa sig við það og því safnast það einfaldlega fyrir í líkömum fólks. Með bættri tækni hefur útblástur þessa fínryks frá dísilvélum að vísu lækkað á síðustu árum  en samt er hlutfall þess í nýlegri vélum að minnsta kosti tífallt það sem kemur úr bensínvélum. Auk þess gefa dísilvélar frá sér mun meira magn köfnunarefnisdíoxíðs NO2 sem getur valdið lungnaskjúkdómum auk þess að hafa skaðleg áhrif á gróður. Myndin hér að neðan er sýnishorn af mengunarmælingu frá Grensásvegi og kemur þar vel fram mikill mengunartoppur í síðdegisumferðinni við Grensásveg, föstudaginn 9. mars. sl. Sjá mengunarmælingar um allan heim hér: Real-time World Air Quality.

Svifryksmælingar
Sjálfsagt vissu menn ekki betur fyrir nokkrum árum en að dísilvélar væru umhverfisvænni en bensínvélar vegna lítillega minni útblástur koltvísýrings, CO2, sem auðvitað er hin fræga gróðuhúsalofttegund. Þannig gat allsherjar dísilbílavæðing með stuðningi stjórnvalda verið liður í baráttunni gegn hlýnun jarðar, eða að minnsta kosti fegrað tölur í kolefnisbókhöldum. CO2 er hinvegar ekki mengun á sama hátt fína svifrykið og NO2. Plöntur þrífast á CO2 og við öndum því frá okkur. Það er því kannski ekki mikið unnið með því að draga agnarögn úr hlýnun jarðar en fjölga um leið hjartveikum, heilabiluðum og lungnaveikum góðborgurum með skaðlegum agnarögnum í útblæstri. Og nú sitjum við uppi með stóran hluta bílaflotans knúinn þessum mengandi vélum og góð ráð dýr. Ekki vilja menn verðfella nýju fínu bílana sína með því að tala þá niður og það væri spælandi að þurfa að greiða sérstök refsigjöld fyrir bíla sem keyptir höfði verið í góðri trú með sérstökum ívilnunum stjórnvalda.

Talandi um mig sjálfan þá er ég keyrandi um á mínum fjórhjóladrifna bíl, beinskiptum og bensínknúðum. Sá bíll er kominn á fermingaraldurinn sem í bílaævi telst til efri ára og því ætti að vera komin tími á endurnýjun miðað við standardkröfur og svo eyðir hann heldur meira en nýrri týpur. Hann stendur þó fyrir sínu þótt hann skorti ýmislegt af þeim fítusum og átómötum sem sjálfsögð þykja í dag. Hann er þó búinn þeim eiginleika að geta lokað fyrir innstreymi utanaðkomandi lofts í farþegarýmið, sem er ákaflega gagnlegt þegar ekið er í  svifryksmóðu morgun- og síðdegisumferðarinnar.

Morgunsól

Miklabraut að morgni. Að þessu sinni var það reyndar sólin sem stal senunni.


Hlýi geirinn í öllu sínu veldi

Fyrir veðuráhugamann eins og mig þá eru stórviðri af öllu tagi hin mesta skemmtun svo lengi sem húsið heldur vatni og vindum. En þá er að hella sér út í veðrið. Lægðin sem olli óveðrinu núna á föstudaginn var óvenjuleg miðað við aðrar lægðir í vetur af því leyti að nú fengum við stóran skammt af hlýju lofti og vorum í þessu hlýja lofti í 9 klukkustundir, eða frá kl. 15 og alveg til miðnættis, allavega hér í Reykjavík. Þetta hlýja loft sem fylgir öllum lægðum og knýr þær áfram er oft kallað "hlýi geirinn" og það er að finna á milli hitaskila lægðarinnar og kuldaskilanna sem fylgja á eftir. Hlýi geirinn sem heimsótti okkur að þessu sinni var vel opinn á okkar slóðum en ekki  þröngur eins og oft áður sem hafði sitt að segja. Almennt þá hreyfast kuldaskilin að baki hlýja geirans hraðar heldur en hitaskilin og því þrengist um hlýja loftið við yfirborð eftir því sem lægðin þróast. Þar sem kuldaskilin hafa náð að elta hitaskilin uppi missir hlýja loftið jarðsamband og myndast þá samskil sem oftast eru lituð fjólublá á skilakortum eins og því hér að neðan frá Bresku veðurstofunni. Skilasameiningin gerist fyrst næst lægðarmiðjunni og þróast síðan áfram. Kortið gildir á miðnætti að loknum föstudeginum þegar kuldaskilin voru komin upp að landinu.

MetOffice 23. febrúar 2018

Loftið í hlýja geiranum er oftast talið vera stöðugt enda er þar á ferðinni hlýtt loft sem berst yfir kaldari svæði, öfugt við til dæmis éljaloftið sem á uppruna sinn af kaldari svæðum. Veðrið sjálft í hlýja geiranum er líka gjarnan stöðugt og eindregið. Það er í fyrsta lagi hlýtt og rakt og fer yfir með jöfnum vindi sem getur verið sterkur eins og núna á föstudaginn. Einkenni hlýja geirans komu mjög vel fram á línuritum hér að neðan, sem ég fékk á vef Veðurstofunnar. Þar sést vel hvernig veðrið breytist fyrst þegar hitaskilin ganga yfir um kl. 15 (rautt strik) og síðan þegar kuldaskilin komu um miðnætti (blátt strik) en strikin eru viðbót frá mér. Tímabilið milli skilanna litaði ég bleikt en það er einmitt þá sem við erum í hlýja geiranum. Eins og sést þá er hitinn allan tímann á bilinu 7-8 stig í hlýja loftinu, úrkoman er talsverð allan tímann og raunar óvenju mikil, vindhraðinn heldur sér í um 16 m/sek og er meiri í hviðum. Vindáttin er stöðug af suðaustri allan tímann.

Hlýi geirinn 23. feb línurit VÍ

Það sem sennilega var óvenjulegt við þennan hlýja skammt af lofti var úrkomumagnið en oftast er úrkoman í hlýja geiranum meira í formi súldar sem myndast þegar hlýtt og rakt loftið þéttist þegar það kemst í kynni við kaldara yfirborð sjávar. En þetta var líka mjög djúp lægð enda vindurinn samkvæmt því.

Best er annars að fara varlega í skýringar á þessu enda er ég bara sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur. Ég þykist þó vita að þetta hlýja loft muni halda áfram lengra í norður og leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim miklu hlýindum sem ríkja núna við Norður-Íshafið alveg upp að Norðurpól. Í viðleitni til að viðhalda einhverju jafnvægi í veröldinni mun hæðin í austri senda kalt loft undir sig til að hrella Evrópubúa á meginlandinu. Hér hjá okkur er von á endurkomu á hlýju lofti og verður það enginn hlýr geiri heldur stór hæðarknúin hlýindaframsókn sem gæti síðar snúist í andhverfu sína. Já, það er nóg að gera í þessu. Sýni hér að lokum hitafar á norðurslóðum þar sem sýnd eru hlýindi og kuldar sem frávik frá meðalhita. Ansi miklir öfgar og óvenjulegheit í þessu.

Hiti norðurslóðir 24. feb 2018

- - - -

Veðurkort MetOffice: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure

Línuritin frá Veðurstofunni: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/faxafloi/#group=11&station=1

Neðsta myndin: http://cci-reanalyzer.org/wx/DailySummary


Fleksnes og Halló Hafnarfjörður

FleksnesÞeir sem komnir eru til vits og ára og muna tímana tvenna hljóta einnig að muna eftir Norsku gamanþáttunum um Fleksnes sem sýndir voru í sjónvarpinu á áttunda áratugnum. Fleksnes þessi gerði sér ýmislegt til dundurs en tókst misvel upp í sínu lífi eins og gengur og gerist, ekki síst þegar samborgararnir ganga ekki alveg í sama takti. Eftirminnilegasti þátturinn um Fleksnes er þegar við fáum innsýn í það áhugamál hans spjalla í talstöð sem svokallaður radíóamatör. Slíkt var vinsælt hjá sumum á sínum tíma, einkum á meðal græjufíkinna karlmanna, en þetta var auðvitað löngu fyrir daga nútíma samfélagsmiðla. Þetta var kærkomið áhugamál fyrir Fleksnes sem gaf lífinu gildi enda átti hann með aðstoð tækninnar, vini út um allan heim - að vísu engan í Noregi. Og þarna kemur Hafnarfjörður við sögu því auðvitað á Fleksnes radíóvin í Hafnarfirði.

Þegar þátturinn var sýndur á sínum tíma hér á landi vakti hann auðvitað athygli því það var ekki á hverjum segi sem Ísland kom við sögu í útlenskum þáttum. Hvað þá Hafnarfjörður? Síðan þá hefur orðatiltækið "Halló Hafnarfjörður" gjarnan verið notað þegar sá kaupstaður ber á góma. Mig grunar að fæstir viti eða muni hvaðan þessi kveðja er komin, nema auðvitað einhverjir af þeim sem virkilega eru komnir til vits og ára. Ætli ég hafi ekki verið að horfa á Útsvarið í Sjónvarpinu þegar mér datt í hug hvort ekki væri hægt að finna þennan umrædda þátt með Fleksnes. Það reyndist vera lítið mál. Þátturinn er frá árinu 1972 og er 1. og 2. hluti af þremur hér á you-túpunni. Hafnarfjarðaratriðið hefst á 8:30 í fyrri hlutanum en heldur áfram í upphafi 2. hluta.

 


Heimshiti og Reykjavíkurhiti 1901-2017

Mér finnst alltaf forvitnilegt að bera saman hitaþróun í Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2017 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum. Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita en heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Ég stilli ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita en út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Reykjavíkurhiti og heimshiti 1901-2017

Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróunin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju og köldu tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfir- og undirskot miðað við heimshitann.

Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn enda alveg á sömu slóðum á línuritinu. Í Reykjavík var hitinn á liðnu ári mjög nálægt meðalhitanum frá aldamótum. Hitinn í Reykjavík hefur reyndast sveiflast heilmikið á allra síðustu árum. Árin 2014 og 2016 voru nálægt árshitametinu frá 2003 en á milli þeirra féll meðalhitinn niður í 4,5 stig sem er kaldasta ár aldarinnar í borginni, þótt það hafi í raun ekki verið neitt sérstaklega kalt. Á heimsvísu er árið 2017 yfirleitt talið í 2.-3. sæti yfir hlýjustu árin. Auðvitað er alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Enginn vafi er þó á því að síðustu þrjú ár hafa verið mjög hlý á jörðinni sem einkum má rekja til öflugs El Nino ástands veturinn 2015-16.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan almennt er talið að það haldi bara áfram að hlýna. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár þá er ómögulegt að segja til um hvort það verði hlýrra en 2017 í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Á jörðinni í heild gæti árið 2018 orðið eitthvað kaldara en síðasta ár vegna kalds La Nina ástands í Kyrrahafinu og svo hjálpar ekki að sólvirkni er í lágmarki um þessar mundir. Varla er þó neitt hrun í heimshitanum framundan en næsti kippur upp á við verður svo þegar hinn hlýi El Nino bregður sér á leik á ný á Kyrrahafinu.

Benda má á hér í lokin að þessi mynd fer í geymslu í myndaalbúminu Veðurgrafík hér á síðunni en þar má finna ýmsar misnýlegar myndir sem ég hef sett upp.

 


Allt í plasti

Plastströnd

Fyrir stuttu rak á fjörur mínar frétt erlendis frá sem greinir frá niðurstöðum þýskrar rannsóknar um uppruna plastmengunar í úthöfunum. Rannsóknin var birt í tímaritinu Environmental Science and Technology síðastliðið haust og kom þar fram að um 90% af plastinu kemur frá 10 stórfljótum í heiminum. Nánar tiltekið er um að ræða Níl og Nígerfljót í Afríku, Ganges og Indus á Indlandi, Gulafljót, Yangste, Haihe og Perlufljót í Kína, Mekong í Suðaustur-Asíu og Amur sem rennur um landamæri Rússlands og Kína. Árnar liðast um löndin eins og æðakerfi líkamans og þannig safnast í stórfljótin allt það plastrusl sem einu sinni hefur fundið sér farveg í lækjum og vötnum inn til landsins. Stórtækastar eru þó milljónaborgir í Suðaustur-Asíu og Afríku sem liggja gjarnan meðfram fljótunum eða við ósasvæði þeirra. Fleiri smærri ár víðsvegar um heiminn, aðrar en þær áðurnefndu, koma auðvitað líka við sögu enda eru fyrirkomulag sorpmála víða í algerum ólestri í þriðja heiminum. Í nóvember sl. var til dæmis frétt um fljótandi plasteyju í Karíbahafinu sem rakin er til fljóts sem rennur til sjávar í Hondúras eftir að hafa safnað í sig miklu plastrusli inn til landsins í Guatemala. Þannig geta sprottið upp milliríkjadeilur um ábyrgð og lausn á staðbundnum vandamálum.

En plastvandinn er ekki staðbundinn heldur hnattrænn vandi sem fer sífellt versnandi eins og svo margt annað sem tengist lifnaðarháttum mannsins. Heilmikil vitundarvakning hefur átt sér stað meðal almennings hér á landi þótt lítið virðist hafa verið vitað um uppruna plastsins svona almennt. Áherslur til úrbóta hafa ef til vill verið nokkuð handahófskenndar. Aðaláherslan hefur verið lögð á að takmarka notkun plastpoka við matarinnkaup sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert en langflestir plastpokar enda reyndar ekki í sjónum heldur sem ruslapokar sem síðan fara út í tunnu ásamt öðru heimilisplasti, annað hvort til urðunar eða endurvinnslu. Ekkert hef ég þó séð um það hvort urðað plast valdi plastmengun í höfunum enda efast ég um að svo sé. Bent hefur verið á að heilmiklu af rusli er losað í sjóinn frá skipum og veiðarfæri eiga það til að losna upp og valda miklum skaða í lífríkinu. Þá hefur komið fram að þvottur á fatnaði úr gerviefnum (t.d. flísfatnaðar) sé stór uppspretta smárra plastagna í sjónum auk þess sem ýmis snyrtiefni innihalda plastagnir.

Margt þyrfti að gera á mörgum sviðum hvar sem er í heiminum. En eins og gjarnan þar sem um hnattrænan vanda er að ræða þá hlýtur að vera árangursríkast að leysa vandann þar sem hann er mestur og einbeita sér að stóru uppsprettunum. Þess vegna hlýtur að vera gagnlegt að vita að megnið af plastinu í sjónum kemur frá nokkrum stórfljótum sem renna um lönd þar sem umhverfismál eru styttra á veg komin en hjá okkur fyrirmyndarfólkinu.

Sjá einnig hér: Rivers carry plastic debris into the sea


Skautað yfir stöðuna

Hvað sem segja má um loftslagsmálin svona almennt þá mjakast hlutirnir hægt og rólega í vissa átt með ýmsum bakslögum inn á milli. Hér ætla ég skauta yfir stöðuna á þeim þáttum sem helst koma við sögu þegar loftslagsbreytingar og heimsveðurfar ber á góma. Fyrst er það sem allt snýst um.

CO2 desember 2017

Koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti heldur áfram að aukast jafnt og þétt með hverju ári, en samkvæmt tölum frá desember 2017 var magnið komið upp í 407 ppm (parts per million). Þótt hlutfall koltvísýrings sé raunar afar lítið í lofthjúpnum þá hefur það sín áhrif. Heilmikill stígandi er í þessu og ekki hægt að kenna öðru um en umsvifum mannsins á okkar tímum enda magnið komið langt yfir það sem mest hefur verið síðustu 400 þúsund ár að minnsta kosti, samkvæmt vef NASA þaðan sem myndin er fengin. https://climate.nasa.gov/vital-signs/carbon-dioxide/

UAH línurit 1979-2017Meðalhiti jarðar árið 2017, samkvæmt gervitunglamælingum UAH, var sá þriðji hæsti sem mælst hefur. Hlýjasta árið samkvæmt þeirri gagnaröð var árið 2016 og í samræmi við það eru síðustu tvö ár, hlýjasta tveggja ára syrpa sem mælst hefur. Árið 1998 heldur sinni stöðu sem annað hlýjasta árið. Þessi tveir hitatoppar sem eru svona áberandi á línuritinu eru afleiðingar El Nino á Kyrrahafinu en ólíkt því sem gerðist eftir 1998 þá hefur meðalhiti jarðar haldist nokkuð hár síðan. Hér má benda á að samkvæmt mælingum annarra aðila þá er hlýnun undanfarinna ára heldur meiri en hér kemur fram og má því segja að ég hafi vaðið fyrir neðan mig með því að velja gagnaröð UHA sem ættuð er frá "efasemdamönnunum" í Alabamaháskóla í Bandaríkjunum. http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/

Sjávarhiti janúar 2018
Sjávarhiti er breytilegur eftir svæðum eins og venjulega. Blái liturinn á Kyrrahafinu er til marks um kalt La Nina ástand sem nú ríkir en það ætti tímabundið að halda aftur að hitanum hnattrænt séð. Hér á okkar slóðum er Norður-Atlantshafið nokkuð hlýtt og hann er að mestu horfinn kuldapollurinn sem gerði vart við sig fyrir 2-3 árum. Kannski mun svæðið þó eitthvað blána á ný vegna kuldaútrásar frá Norður-Ameríku núna í vetur. https://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/sst.shtml

Sjávaryfirborð

Sjávarhæð heimshafanna stígur nokkuð jafnt og þétt um nokkra millimetra á ári vegna hitaþenslu hafsins og viðbótarvatns vegna jökulbráðnunar. Þótt það sé ekki mikið þá eru 3,2 mm ári = 32 cm á einni öld. En þetta er breytilegt á milli ára en óttast er að hraði hækkunarinnar geti aukist með tímanum sérstaklega ef jöklar og íshellur við Suðurskautslandið fara að steypast í sjóinn í auknum mæli. Mest hækkar sjávarborð annars á hlýjum El Nino árum en svo hækkar það lítið sem ekkert á meðan kalda systirin La Nina gengur yfir eins og núna. https://climate.nasa.gov/vital-signs/sea-level/

Hafíslinurit NSIDC Jan 2018
Hafísinn á Norðurslóðum er með minnsta móti miðað við árstíma og hefur útbreiðslan raunar ekki áður mælst minni í upphafi árs en einmitt núna. Helsti keppinauturinn er árið í fyrra, 2017, sem átti lægstu vetrarútbreiðsluna til þessa. Síðustu vetur hafa verið mjög hlýir á norðurslóðum enda hefur verið nokkuð mikið um endaskipti á heitu og köldu lofti á norðurhveli. Hinsvegar hafa sumarhitar ekki alveg náð að fylgja vetrarhlýindunum eftir sem sjálfsagt hefur bjargað einhverju fyrir ísinn. https://nsidc.org/arcticseaicenews/sea-ice-tools/

Hafís heimurinn jan 2018
Útbreiðsla íssins á báðum hvelum samanlagt er við það minnsta sem mælst hefur og keppir lágmarkið nú við árið 2016. Hafísinn á Suðurhveli minnkaði ekki lengst af á sama hátt og á Norðurhveli enda aðstæður aðrar. Þetta hefur breyst undanfarið þannig að hafísútbreiðsla á hnattvísu er nú við það minnsta frá upphafi mælinga. Hnattræn útbreiðsla hafíss var einstaklega lítil árið 2016 og hefur verið lítil síðan. Fróðlegt verður að sjá hvort heimsmeti í hafísleysi frá því 2016 verði ógnað nú í vetur. https://sites.google.com/site/arctischepinguin/home/global-sea-ice

Sólasveiflur

Sólvirkni er oft mæld með fjölda sólbletta en fjöldi þeirra sveiflast á um 11 ára fresti þannig að þeir hverfa svo til alveg í sólvirknilágmarki. Sólin er einmitt að ganga inn á slíkt lágmark um þessar mundir. Sólarsveiflan sem nú er að klárast var vægari en sú fyrri sem aftur var vægari en þær tvær sem komu þar á undan. Sólarsveiflurnar hafa þannig orðið vægari undanfarna áratugi eftir mikla virkni á seinni hluta síðustu aldar. Líklegt þykir að næsta sólarsveifla verði veik eða jafnvel mjög veik og er það grundvöllur ýmissa spádóma um að loftslag gæti farið kólnað næstu áratugi. Þessar kólnunarspár eru umdeildar því þótt sjálf sólblettasveiflan sé mikil er sveiflan í heildarsólvirkni ekki nema um 0,1%. Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir minnkandi sólvirkni síðustu áratugi þá hefur hnattrænn hiti aukist á sama tíma. Almennt er þó talið að áhrif sólvirkni séu einhver á loftslag og veðurlag. https://www.spaceweatherlive.com/en/solar-activity/solar-cycle

- - - -
Þannig er staðan á þessum málum svona nokkurn veginn. Framhaldið þekkjum við ekki almennilega nema að við getum fastlega gert ráð fyrir því að koltvísýringur í lofti muni halda áfram að aukast. Árið 2018 verður væntanlega hlýtt á heimsvísu eins og öll ár þessarar aldar en þó getum við útilokað að það verði hlýjasta árið hingað til vegna La Nina ástands á Kyrrahafi. Hvað gerist lengra inn í framtíðinni kemur svo bara í ljós. Langtímahlýnun er í fullum gangi en á skjön við hana koma stundum fram spádómar um að hnattræn kólnun sé alveg á næsta leiti. Slíkar spár hefur maður að vísu heyrt og lesið um á síðustu 20 árum eða svo. Annars má nefna hér í lokin að kveikjan og grunnurinn að þessum pistli er athugasemd sem ég gerði við bloggfærslu sem lögmaður einn skrifaði hér á svæðinu fyrir nokkrum dögum um loftslagsmálin en sú athugasemd hefur reyndar ekki birst af einhverjum ástæðum.


Hitamósaík 1981-2017 fyrir Reykjavík

Samkvæmt venju þá er fyrsta bloggfærsla ársins tengd veðrinu. Að þessu sinni er það mósaíkmynd sem sýnir hvernig hitinn hefur þróast í Reykjavík frá mánuði til mánaðar aftur til ársins 1981 og í hvað sæti hver mánuður er í hitaröðinni. Fyrirmyndin að uppsetningu er mynd sem ég sá á vefnum og birti fyrir stuttu, en hún sýndi hitaþróun á norðurslóðum síðustu áratugi. Sjálfur hef ég reyndar gert svipaðar mósaíkmyndir, eins og ég kalla þær, og því fannst mér tilvalið að eyða nokkrum góðum frístundum í eina slíka fyrir Reykjavík.

Það fer ekki á milli mála að það hefur hlýnað talsvert í þessu tímabili. Að einhverju leyti er þar um að ræða almenna hnattræna hlýnun en ekki skiptir minna máli að hér er um að ræða þróun frá köldu tímabili yfir í hlýtt  tímabil. Fyrir sjálfan mig er þetta líka tímabil sem ég man ágætlega veðurfarslega, en þó misvel eins og gefur að skilja. Láta má nærri að sú hlýnun sem þarna hefur átt sér stað sé um 1,4 stig sem er ekki lítið, en meðalhitinn á 1981-1990 var um 4,1 stig en hefur verið um 5,5 stig á þessari öld. Þróunin til hlýnunar er þó ekki samfelld enda hafa alltaf komið mánuðir eða tímabil sem hafa verið á skjön við sinn samtíma. Vonandi skýrir uppsetningin sig sjálf en til að hjálpa til þá er árið 2017 lóðrétt lengst til hægri og svo raðast mánuðirnir niður með janúar í efstu línu. Tölurnar í töflunni vísa í hvaða sæti hver mánuður er hitafarslega frá 1981. Undir myndinni kemur smá greinargerð.Hitamósaík 1981-2017
Smá greinargerð: Í samræmi við hlýnun tímabilsins þá koma hærri tölur og bláir litir oftar fyrir á vinstri helmingi myndarinnar og munar þar mest um árin 1981 og 1983 þegar ársmeðalhitinn var aðeins 3,4 stig. Kaldasti mánuðurinn á myndinni er þó janúar 1984 (-4,0°) þegar mikið vetrarríki var í gangi. Það má líka minnast á október 1981 (0,5°C) sem er langkaldasti október á tímabilinu og sá kaldasti sem mælst hefur í borginni. Ég man reyndar lítið eftir honum sjálfur, nýbyrjaður í menntaskóla og með hugann við annað. Öllu betur man ég eftir hinu alræmda sumri 1983 sem þarna kemur vel fram, og ekki laust við að það kalda sumar hafi kveikt í mér hinn þráláta veðuráhuga.
En svo gerðist hið óvænta í ársbyrjun 1987 þegar allt í einu kom mjög hlýr vetrarmánuður en janúar það ár var hlýjasti janúar sem ég hafði upplifað (3,1°C) og hefur sá mánuður reyndar ekki orðið hlýrri hér síðan. Ekki nóg með það því desember sama ár var einnig einstaklega hlýr (4,2°) og þurfti að fara aftur til kreppuáranna til að finna hlýrri desember. Eitthvað var kannski farið að breytast, en þó var enn eitthvað í það og við tók fimbulkaldur janúar 1988 (-3,0°C) sem voru mikil viðbrigði milli mánaða. Árið 1989 var síðan lengst af mjög kalt en síðustu þrír mánuðirnir björguðu því frá botninum.
Aftur lyftist brúnin á borgarbúum í júlí-hitabylgjunni 1991 en hlýrri júlí (13°C) hafði þá ekki mælst í borginni frá upphafi. Næstu tvö sumur voru hinsvegar köld hér í Reykjavík þannig að þetta var ekki búið. Veturinn 1994-95 er frægur fyrir mikil snjóþyngsli á norðanverðu landinu en árið 1995 er síðasta kalda árið hér á landi og var meðalhitinn í Reykjavík þá 3,8 stig. Svo fór þetta að koma, nema að lokaandvarpið var eftir, því nóvember 1996 var sá kaldast í Reykjavík (-1,9°C) síðan einhverntíma 19 öld.
Strax upp úr miðju ári 2001 hófst núverandi hlýindaskeið sem síðan hefur verið nokkuð samfellt. Raunar hlýnaði svo skart að á 12 mánaða tímabilinu frá nóv.2002-okt.2003 var meðalhitinn 6,6 stig sem er alveg einstakt og hefur ekki náð þvílíkum hæðum síðan. Á nokkrum árum komu svo þarna hlýindakaflar sem eyðilögðu hverja skíðavertíðina af annarri og sjást hlýindin á myndinni sem knippi af dökkrauðum síðvetrarmánuðum árin 2003-2006. Einnig má minnast á desember 2002 sem var hlýrri en nokkurn tíma hefur mælst (4,5°C). Sumarmánuðirnir fóru líka mjög svo hlýnandi. Hlýjasti ágúst sem mælst hefur var árið 2003 (12,8°C) og árið eftir kom ágústhitabylgjan eftirminnilega, sem sló mörg met víða um land. Eftir nokkurra ára tíðindaleysi með áframhaldandi hlýindum kom sumarið 2010 en þá var röðin komin að júní að setja nýtt meðalhitamet (11,4°C) og í kjölfarið fylgdi júlí, sem jafnaði merkismánuðinn júlí 1991 að meðalhita (13,0°). Fleiri hlýir mánuðir áttu eftir koma allt fram á síðastliðið ár, en þó má segja að sveiflur í hitafari hafi aukist. Maímánuður árið 2015 var ansi kaldur en 2015 má annars flokkast sem meðalhlýtt ár (4,5°C) en hefði þótt bara nokkuð gott fyrir 30-40 árum. Árin þar á undan og á eftir 2014 og 2016, voru hinsvegar með þeim allra hlýjustu (6,0°). Meðalhiti nýliðins árs var mjög í samræmi við önnur ár á þessari öld (5,5°C). Síðustu tveir mánuðirnir voru þó í kaldara lagi og missti árið þar með af ákveðnum möguleikum.

Hvert framhaldið verður veit auðvitað enginn, en í ljósi þeirra hitasveiflna sem áður hafa átt sér stað hlýtur alltaf að vera möguleiki á bakslagi eftir svona hlýtt tímabil. Ef það bakslag er nýbyrjað þá munum við ekki vita af því fyrir en eftir einhver ár þegar við horfum á nútímann úr fjarlægð. En svo gætu hlýindin líka bara rétt verið að byrja.


Vitringarnir þrír í sögu Marco Polos

Vitringarnir þrír

Fræg er sagan í Mattheusarguðspjalli um vitringana þrjá sem komu frá Austurlöndum til Betlehem til að veita Jesúbarninu lotningu og færi því gjafir. Lítið annað fáum við að vita um þá, svo sem hvaðan þeir komu nákvæmlega, hverjir þeir voru og hvað á daga þeirra dreif í framhaldinu. Ýmsar sagnir eru þó til um þessa þremenninga og þar á meðal er frásögn í ferðabók Marco Polos er segir frá því er hann var á ferð í Persíu, þar sem núna er Íran, en þar hitti hann fólk sem kunni góð skil á vitringunum þremur og átrúnaði þeim tengdum og er meira að segja sagt frá því að líkamar þeirra séu vel varðveittir í grafhvelfingum. Nú veit maður ekki hversu mikið er til í þessu en það má taka fram að Marco Polo var þarna á ferð seint á 13. öld þegar hinir skelfilegu Mongólar höfðu lagt undir sig stóran hluta af Evrasíu en Marco Polo einmitt á leið austur á bóginn, ásamt föður sínum og frænda, til fundar við sjálfan Mongólaleiðtogann Kublai Khan.

Bókin um ferðir Marco Polos kom upphaflega út skömmu eftir heimkomu hans frá Austurlöndum og var reyndar skráð af samfanga Morco Polos er sá síðarnefndi sat tímabundið bak við lás og slá vegna þátttöku í sjóorrustu. Sú bók af ferðum Marco Polos sem ég hef undir höndum kom út árið 1940 í íslenskri þýðingu Haraldar Sigurðssonar, stytt og endursögð af Aage Krarup Nielsens, sem ég kann ekki deili á. Kaflinn í bókinni um vitringana þrjá kemur hér, eftir að ég hef stytt, endurraðað og endursagt að hluta. Skáletranir eru orðréttar:

Persía er stórt ríki, sem forðum var frægt og voldugt, en er nú herjað og eitt af Törtötum. Í Persíu er borgin Saba, en þaðan fóru vitringarnir þrír til þess að sýna Jesú Kristi lotningu. Þeir hvíla nú hlið við hlið í Saba í þremur stórum grafhvelfingum, en yfir hvelfingunum stendur ferhyrnt hús, og er því vandlega viðhaldið. Líkamar vitringanna hafa geymst órotnaðir með hári og skeggi. Einn vitringanna hét Caspar, annar Melchior og þriðji Baltasar.

Borgin sem þarna er nefnd Saba í bókinni heitir með réttu Saveh og mun vera nálægt Teheran. Mongólar eru þarna nefndir Tartarar. Sagt er frá því að íbúar Saba (Saveh) hafi haft litla þekkingu á þremenningunum sem þarna lágu. Þrjár dagleiðir frá Saba, kom Marco Polo hinsvegar að sveitaþorpi er nefnist Cala Ataperistan sem þýðir borg eldsdýrkendanna. Eins og nafnið ber með sér þá tilbáðu íbúarnir eldinn og kunnu sögu vitringanna þriggja öllu betur en íbúar Saba. Samkvæmt Marco Polo er frásögn íbúanna af vitringunum á þessa leið:

Í fyrndinni lögðu þrír konungar af stað í ferðalag frá landinu til þess að tilbiðja spámann, sem var í heiminn borinn. Þeir höfðu með sér þrjár tegundir fórnargjafa: gull, reykelsi og myrru, til þess að ganga úr skugga um, hvort spámaður þessi væri guð, jarðneskur konungur eða læknir. Konungarnir sögðu með sér: Veiti spámaðurinn gullinu viðtöku, þá er hann jarðneskur konungur, vilji hann reykelsi fremur, er hann guð, en taki hann myrruna, er hann læknir.

Samkvæmt frásögninni gengu vitringarnir, sem þarna eru nefndir konungar, fyrst fyrir Jesúbarnið einn í einu en þeim til furðu var alls ekki um neitt barn að ræða heldur virtist það vera jafnaldri hvers þeirra. Síðan segir: Konungunum kom ásamt um að ganga allir samtímis fyrir barnið og er þeir gerðu það, leit barnið út eins og náttúrulegast var en það var um það bil þrettán daga. Og konungarnir veittu barninu tilbeiðslu og báru fram gjafir sínar, gull, reykelsi og myrru. /Barnið tók við öllum gjöfunum/ og þegar konungarnir sáu það, sögðu þeir með sjálfum sér: Barnið er sannur guð, sannur konungur og sannur læknir. /Barnið/ rétti konungunum að launum litlar, lokaðar öskjur. Að því búnu héldu þeir heimleiðis til ríkja sinna. /Er þeir/ höfðu farið margar dagleiðir, fýsti þá að sjá gjöf barnsins. Þeir opnuðu öskjurnar og fundu þar lítinn stein /sem var/ tákn þess að sú trú sem nú var gróðursett í sál þeirra, skyldi dafna í sál þeirra og verða óbrotgjörn eins og steinn, því barnið vissi vel hvað konungunum var í huga.

En því miður þá misskildu konungarnir táknmál steinsins og köstuðu honum niður í næsta brunn. Í sama bili laust eldingu af himni niður í brunninn. Þegar konungarnir sá þetta jarteikn, urðu þeir forviða og hörmuðu sáran að hafa kastað steininum. Nú skildu þeir glöggt, að steinninn hafði mikilvæga, helga tjáningu. Konungarnir tóku nokkurn hluta logans og fóru með hann heim í lönd sín og komu honum fyrir í fagurri og skrautlegri kirkju. Síðan hefur eldur þessi brunnið stöðugt, og fólkið veitir honum tilbeiðslu eins og guði, og við eld þennan eru allar brennifórnir færðar. Slokkni eldurinn, er brugðið við og farið til annarra þorpa, þar sem sama trú ríkir, og eldurinn sóttur að nýju. Slíkar eru orsakir þess að fólk hér um slóðir tilbiður eldinn. Oft ber það við að sækja þurfi eldinn tíu dagleiðir. Þannig er saga sú, sem íbúarnir Cala Ataperistan sögðu herra Marco Polo. Þeir fullvissuðu hann um, að svona væri saga konunganna þriggja og einn þeirra hefði verið frá Saba, annar frá Ava og sá þriðji frá borg þeirri, sem enn í dag tilbiður eldinn eins og gert er um allar nærliggjandi slóðir.

Þannig hljóðar frásögnin um vitringanna frá Austurlöndum í bókinni um Marco Polo sem kom út hér á landi árið 1940. Ýmsar meiningar eru um hvaða menn þetta voru. Oftast tölum við um vitringa og þannig eru þeir nefndir í Biblíunni og í bókinni um Marco Polo, nema þar sem vitnað er í frásögn bæjarbúa Cala Ataperistan þar sem þeir eru nefndir konungar. Ef til vill voru þetta Zaraþústraprestar en Zaraþústratrúin er ein af elstu trúarbrögðum sögunnar og þar er eldurinn einmitt í hávegum hafður. Ferðalag vitringanna þriggja var mikil ferð en þó frekar stutt í samanburði við þær miklu vegalengdir sem Marco Polo átti eftir leggja undir fót en hann átti þarna langa ferð fyrir höndum til Mongólaleiðtogans Kublai Kahn sem þá sat í borginni Xanadu nálægt þar sem nú er Peking. Þaðan átti hann síðan eftir að ferðast um víða lendur Mongólaveldisins í þágu stórkahnsins áður en hann snéri til baka til Feneyja ásamt föður sínum og frænda árið 1269, eftir 24 ára ferðalag. Allt saman mikil saga og merkileg.

Frekari lesningu um vitringanna má finna hér: http://www.farsinet.com/wisemen/magi.html
Einnig héðan, þaðan sem myndin er fengin: https://en.wikipedia.org/wiki/Biblical_Magi


Kuldi hér en ekki allstaðar

Það hefur óneitanlega verið fremur kalt hér á Fróni undanfarið og verður væntanlega eitthvað áfram. Sjálfsagt finnst sumum svona kuldatíð passa illa við allt hlýnunartalið sem dynur á okkur í sífellu. Kannski er eitthvað til í því en samt er það þannig að þrátt fyrir hlýnun þá heyra kuldar ekki sögunni til og umfram allt þá geta hlýindi ekki verið allsráðandi allstaðar og alltaf. Á kortinu hér að neðan sést hvernig hitafarsstaðan er á stórum hluta Norðurhvels núna á sunnudaginn 10. desember. Þetta er ekki eiginlegur hiti heldur frávik frá meðalhita 1979-2000 (myndin er skjámynd af vefnum Climate Reanalyzer).

CR hitafar 9.des2017

 

Eins og sést þá er landið okkar á einum af köldu blettunum og er frávikið nálægt 10 gráðum undir meðallaginu. Á sama tíma er gjörvallt Grænland og svæði þar norður og vestur af undirlagt af fráviki sem er 10-20 stigum yfir meðallaginu. Aðra stóra hlýindabletti er einnig að finna og vissulega einhverja kuldabletti einnig. En það eru þó ekki margir sem njóta hlýindanna þessa dagana enda eru stóru jákvæðu frávikin á stöðum þar sem fátt er um fólk á meðan fjölmennustu svæði Evrópu og Bandaríkjanna eru úti í kuldanum. Kaliforníubúar njóta að vísu ágætis hlýinda en myndu örugglega sætta sig við annað veðurlag en það sem kyndir undir eldunum þar.

Þótt svona hlýindagusur séu ekkert einsdæmi á Norðurslóðum þá er þetta samt heilmikið frávik frá hinu venjulega. Hlýindi hafa annars verið viðloðandi Norðurslóðir yfir vetramánuðina á þessu ári en þó ekkert samanborið við árið í fyrra 2016 sem var alveg einstakt sökum hlýinda í norðri, þ.e. miðað við það sem venjulegt má kalla.

Hitamósaík Norðurlsóðir 1979-2017

Mósaíkmyndin hér að ofan finnst mér áhugaverð en hún er tekin saman af Zachary Labe og sýnir hvernig einstakir mánuðir, allt frá 1979, norðan við 70°N koma út hitafarslega séð með aðstoð talna og lita. Rauðir mánuðir með lágum tölum eru meira áberandi hin síðari ár og endurspegla hlýnunina sem átt hefur sér stað á tímabilinu. Árið 2016 hefur mikla sérstöðu enda voru 6 mánuðir þess árs þeir hlýjustu sem áður höfðu mælst. Allt voru það haust- og vetrarmánuðir þar sem ástandið hefur verið eittvað í líkingu við það sem uppi er þessa dagana.

Þessi óvenjulegu norðurslóðahlýindi hafa hinsvegar ekki verið eins áberandi að sumarlagi hin allra síðustu ár sem hefur örugglega haft sitt að segja að hafísbreiðan í norðri hefur ekki orðið fyrir eins miklum skakkaföllum að sumarlagi og annars hefði getað gerst. Í þessu sambandi sést á myndinni að sumarið 2017 frá maí til ágúst var alls ekkert hlýtt og júlí ekki í nema 29. sæti af 39 yfir hlýjustu mánuði norðan við 70°N. Ágústmánuðir síðustu þriggja sumra hafa einnig samkvæmt þessu einungis verið í sætum 20, 21 og 23 yfir þá hlýjustu og munar um minna varðandi ísbráðnun á þeim tíma sem meðalhitinn rétt hangir yfir frostmarki.

Þannig geta óvenjulegheit og furður hagað sér þegar kemur að hitafari. Verst er hinsvegar að aldrei er hægt að stóla á óvenjulegheitin eða vita fyrirfram í hvaða átt þær taka upp á að stefna.

 


Heimsmynd flatjarðarsinna

Samtök sem kalla sig the International Flat Earth Society hafa vakið nokkra athygli að undanförnu enda vekur það sjálfsagt furðu hjá flestum að slík samtök skuli yfirleitt vera til nú á dögum. Samtökin hafna viðurkenndri heimsmynd nútímans og boða þann forna sannleik að jörðin sé flöt og um leið miðja alheimsins. Sólin og tunglið fylgja jörðinni á vegferð sinni sem og allar stjörnurnar í einskonar hvelfingu fyrir ofan. Ef svo ólíklega fari að heimsynd flatjarðarsinna verði ofaná þá er auðvitað ágætt að kunna nokkur skil á þessum fræðum.

Flatjörð

Sagan í stuttu máli. Eins og gefur að skilja hafa flatjarðarsinnar átt fremur erfitt uppdráttar enda mæta þeir litlum skilningi vísindasamfélagins þrátt fyrir að þeir telji sig hafa ýmis rök fyrir máli sínu. Flatjarðarsamtökin voru upphaflega stofnuð árið 1956 í Englandi og byggðu að grunni til á hugmyndum Samuels nokkurs Rowbotham sem á 19. öld hafði gefið út bókina Earth Not a Globe. Á næstu áratugum jókst fjöldi félagsmanna upp í örfá þúsund og færðist þungi félagsstarfsins til Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem m.a. var gefið út félagsritið Flat Earth News. Mikil ógæfa dundi yfir árið 1997 þegar heimili, Charles K. Johnsons, aldraðs forseta félagsins og aðaltalsmanns, brann til kaldra kola og þar með félagaskrár og fleira mikilvægt. Sjálfur lést karlinn svo nokkrum árum síðar og stefndi ekki í annað en að dagar félagsskaparins væru taldir. En svo var þó ekki því nú tímum veraldarvefsins hefur félagið gengið í endurnýjun lífdaga sinna, en með hjálp nútíma samskipta hefur aldrei verið auðveldara að útbreiða allskonar sannleika sem stangast getur á við viðteknar skoðanir. Samtökin eru með vandaða heimasíðu, fjöldi YouTube mynda hafa verið framleidd og hlotið útbreiðslu og nýjustu tölu herma að 37 þúsund manns séu meðlimir Fésbókarhópsins Flat Earth- No Trolls.

Hin flata Jörð. Heimskort sem miðast við flata jörð í einhverri mynd hafa verið til löngu fyrir daga landafundanna miklu. Miðjarðarhafið var til forna talið vera við miðju jarðarinnar eins og nafnið bendir til. Núverandi heimskort flatjarðarsinna er hinsvegar með sjálfan Norðurpólinn í miðjunni og allt annað liggur umhverfis hann. Miðbaugurinn liggur í hring sem svarar til hálfri vegalengdinni frá miðju og að endimörkunum eða brúnunum á jarðdisknum. Við endimörkin eru ísbreiður Antarktíkur og yfir þær hefur enginn komist nema falla fram af brúninni. Hvort það hafi gerst veit maður ekki en þarna endar jörðin allan hringinn. Þetta vita flatjarðarsinnar og einnig helstu ráðamenn og fræðimenn heimsins, en kjósa að halda að okkur röngum sannleika.

Flatjörð UN-fáni

Ekki þarf annað en að skoða fána Sameinuðu þjóðanna til að sjá hvernig málum er háttað en í merki samtakana er einmitt kort með Norðurpólinn í miðjunni. Eitt vandamál kemur upp við þessa jarðskipan því vegalengdir til austurs og vestur aukast mjög eftir því sem sunnar dregur. Kannski vegur upp á móti að öll ferðalög í þær áttir eða tíminn sjálfur ferðist mishratt eftir því sem fjær dregur miðjunni.

Sólargangur. Það sem kom mönnum á sporið í eldgamla daga um að jörðin gæti verið hnöttótt var sú staðreynd að skuggi sólarinnar um hádaginn væri almennt lengri eftir því sem norðar var farið á jörðinni (jörðin sunnan miðbaugs var þá ekki þekkt). Á flatri jörð væru skuggar hinsvegar jafn langir allstaðar. Flatjarðarsinnar segja hins vegar að þetta eigi ekki við því sólin er nefnilega mjög nálægt jörðinni, eða ekki nema um 4,800 km yfir höfðum okkar. Það sama gildir um tunglið.

Flatjörð Sólargangur

Sólin lýsir eins og lampi niður á jörðina og ferðast hringinn eftir miðbaug. Þegar hún er nálægt okkur yfir daginn þá sýnist hún hærra á lofti en eftir því sem hún fjarlægist þá lækkar hún á lofti uns hún hverfur okkur sjónum í fjarska og sest. Reyndar er álitamál hvers vegna sólin er alltaf jafn stór frá okkur séð ef fjarlægðin til hennar er svona breytileg. Ef hún hverfur í fjarskann við sólsetur ætti hún að vera agnarsmá við sólarlag hefði maður haldið. Árstíðarsveiflan eru hinsvegar minna vandamál fyrir flatjarðarsinna því hún er sögð orsakast af því að á sumrin hjá okkur gengur sólin sinn hring innan við miðbaug, nær miðjunni, og lýsir upp þá norðlægar slóðir. Um veturinn hjá okkur fer sólin utanvið miðbaug og er því almennt fjær miðjunni og lýsir meira suðlægar slóðir.

Snæfellsjökull
Sjóndeildarhringurinn. Ein af helstu röksemdum fyrir hnöttóttri jörð er sú að fyrirbæri í fjarska virðast sökkva í sjóndeildarhringinn. Þannig hefur verið bent á að þegar seglskip nálgast úr fjarska þá sjást seglin fyrst en skrokkurinn ekki fyrir en skipið er komið nær. Einnig sjáum við ekki neðsta hluta fjalla eins og Snæfellsjökuls þegar við horfum á hann frá Reykjavík. Eftir því sem við förum ofar kemur meira í ljós af undirhlíðunum og uppi á Esju sést jökullinn alveg niður að undirlendi. Flatjarðarsinnar eru meðvitaðir um þetta en afgreiða málið með áhrifum sjónhverfinga sem skýrast af fjarlægðinni og nálægðar við sjóndeildarhringinn. Flókið mál sem þarf sérstakar skýringar.

Tunglið og stjörnurnar. Samkvæmt flatjarðarkenningunni þá er tunglið jafn stutt frá yfirborði jarðar og sólin eða 4.800 km frá yfirborði og ferðast einnig sína hringi umhverfis miðju jarðar. Reikistjörnurnar eru mjög smáar og ferðast umhverfis sólina en allar fastastjörnurnar eru síðan lítið eitt ofar í 5.000 km hæð og snúast um miðjuna á næturhimninum þar sem pólstjörnuna er að finna.

Geim- og tunglferðir. Nú eru tiltækar fjöldi mynda af jörðinni eins og hún sést frá geimnum og ekki annað að sjá á þeim að jörðin sé hnöttur. Skemmst er frá því að segja að allar slíkar myndir eru taldar vera tilbúningur og byggðar á fölsunum. Samkvæmt flatjarðarsinnum hafa aldrei verið farnar neinar geimferðir, hvað þá tunglferðir. Gervitungl á sporbraut um jörðu eru einnig bara plat og bent hefur verið á að því til stuðnings að gervihnattamóttökudiskar vísi yfirleitt lárétt, en ekki til himins. Geimferðastofnun Bandaríkjanna NASA gerir lítið annað en að halda að okkur brenglaðri heimsmynd í því skyni að afla sér meiri fjárstuðnings. Flestöll vísindi eru einnig samsek í þessu stóra blekkingarmáli og vinna stöðugt að því að halda frá okkur hinni einu og sönnu heimsmynd, sem samræmist sköpunarsögunni og allri heilbrigðri skynsemi – þ.e.a.s. að mati þeirra sem vilja byggja tilveru sína á flatri heimsmiðjujörð.

En nú gæti orðið breyting á. Ofurhugi einn í Bandaríkjunum ætlar skjóta sér á loft í gufuknúinni eldflaug til að sýna fram á flatneskju jarðar. Sá maður hefur reyndar ekki mikla trú á viðurkenndum vísindum en fari hann ekki flatt á sínu flugi gæti þetta verið tímamótaviðburður í þekkingaröflun á eðli alheimsins – eða ekki. Eitthvað babb hefur að vísu komið á bátinn vegna afskipta stjórnvalda, nema hvað? Maðurinn mun þó ekki láta deigan síga og stefnir en á ferðalag upp í kosmosið.


mbl.is Hyggst sanna að jörðin sé flöt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálftar í Öræfajökli

Ekki getur maður neitað því að það örli á smá spennutilfinningu hjá manni þegar eitt mesta og hæsta eldfjall landsins fer að sýna af sér hegðun sem gæti verið vísbending um að þar séu kannski einhverjir stærri atburðir í vændum. Ég legg nú ekki í að fara að spá einhverju en allavega þá er það staðreynd jarðaskjálftar hafa mælst nær daglega í Öræfajökli núna í haust og farið á bera á því í fréttum. Óróleikann má þó rekja lengra aftur, jafnvel nokkur ár en jarðskjálftavirkni hefur ótvírætt farið vaxandi á þessu ári hvað sem það boðar. Einhver þensla og tilfærsla mælist þarna sem þýðir að fjallið er eitthvað að bólgna út en þó virðast jarðvísindamenn ekki alveg vissir um hvað þarna sé á ferðinni. Farglétting vegna bráðnandi jökuls gæti verið hluti af skýringunni en eins og kunnugt er þá rís landið upp þegar fargið ofan á því minnkar. Hvort að það gæti aftur verið skýringin á því að kvika sé mögulega á hreyfingu undir fjallinu veit maður ekki og ekkert víst að nokkur tengsl gætu verið þar á milli varðandi þessa skjálfta.

Öræfajökull skjálftar 4. nóv 2017
En ef við segjum að þarna sé kvika að safnast fyrir þá vitum við ekkert hvort slíkt eigi eftir að leiða til eldgoss í náinni framtíð og ef þetta er fyrirboði eldgoss þá vitum við heldur ekkert hversu langt sé að bíða þar til atburðir gerast. Vikur, mánuðir eða nokkur ár? Ekki spyrja mig, enda veit ég ekkert um það frekar en aðrir.

Við vitum þó hvernig eldstöðin er í sveit sett og þekkjum söguna. Árið 1362 var þarna mesta þeytigos Íslandssögunnar sem gjöreyddi blómlegri byggð sem þá hét því krúttlega nafni Litla-Hérað enda undu menn þar glaðir við sitt og smjör draup af hverju strái áður en ósköpin dundu yfir. Heldur verra var þó flest fólkið stráfell einnig, enda krafturinn í gosinu þvílíkur að strókurinn náði því stigi að hrynja í svokölluðum gusthlaupum í stíl við það sem gerðist í Vesúvíusi forðum. Þar við bættust jökulhlaupin sem æddu niður af jökli næstum strax eftir upphaf hamfaranna öllum að óvörum enda löngu fyrir tíma Almannavarna ríkisins. Seinna gosið í Öræfajökli eftir landnám varð árið 1727 það var minna í sniðum og olli mun minna tjóni en sveitin var þá reyndar ekki nema svipur hjá sjón frá dögum Litla-Héraðs sem reyndar fékk heitið Öræfasveit eftir eyðinguna 1362.

Helstu eldstöðvar landsins virðast annars vera til alls líklegar um þessar mundir en þó alls óvíst hvar næsta gos ber uppi. Ef Öræfajökull lætur til sín taka þá má hafa í huga að hann stendur utan við gliðnunarbelti landsins sem þýðir að það eru ekki neinar virkar sprungureinar út frá honum. Kvikan mun því ekki ferðast langa vegalengd áður en hún kemur upp eins og tilfellið var með Bárðarbungu sem að lokum skilaði kviku af sér vel utan jökuls. Öræfajökull mun bara gjósa með látum þar sem hann er, en mögulega gæti eitthvert hraunrennsli átt sér stað ef gossprungur opnast í hlíðunum utan sjálfs jökulsins, svona svipað og gerðist á Fimmvörðuhálsi. Jökulhlaupin eru svo sér kapítuli en stuttur tími líður frá upphafi goss þar til þau taka að ógna samgöngum og raunar telja viðbragðsaðilar að forða þurfi fólki af svæðinu áður en gos hefst, takist mönnum að tímasetja það á annað borð.

Þótt örli á smá hamfarspennufíkn í manni þá vonast maður auðvitað að það gerist sem minnst þarna. Full ástæða er hinsvegar til að fylgjast með gangi mála og það gera auðvitað líka opinberir ábyrgðaraðilar sem munu vinsamlegast láta okkur vita ef eitthvað þarf að óttast. Áhugamenn hafa líka eitthvað um málið að segja og standa vaktina og má þar sérstaklega benda á Jarðfræðibloggið hans Jóns Frímanns, þar sem fylgst er með málum og ýmsar vangaveltur koma fram um stöðu mála í eldstöðvum landsins.

Af vef Veðurstofunnar má svo benda á þetta hér: Nýir jarðskjálftamælar við Öræfajökul

 


Nýjustu hitatölur úr Reykjavík

Hlýtt var í veðri í október og eins og á sama tíma í fyrra stefnir nú allt í að árið flokkist sem mjög hlýtt ár og enn er smá möguleiki á að þetta verði hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Þetta gefur auðvitað tilefni til að birta mánaðarhitasúluritið góða sem sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík hefur staðið sig á árinu. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru, en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér kalda meðaltalið vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 10 mánuðir

Eins og sjá má þá skarar nýliðinn októbermánuður vel fram úr bæði kalda meðaltalinu og 10 ára meðaltalinu, þótt hann hafi ekki verið alveg eins óvenjuhlýr og í fyrra. Aðrir hlýir mánuðir það sem af er ári eru febrúar, maí og september. Aðrir mánuðir eru á hefðbundnari slóðum og enginn hefur verið kaldur enn sem komið er. Apríl er þó næstur því að teljast kaldur enda bara örlítið hlýrri en febrúar.

Spennan liggur hins vegar í framhaldinu og þar koma tónuðu súlurnar til hægri við sögu en þá er væntanlegur árshiti reiknaður út frá því hvort síðustu tveir mánuðir ársins verði í kalda meðaltalinu eða í meðallagi síðustu 10 ára. Kaldara framhaldið gefur árshitann 5,7°C og það hlýrra 5,9°C sem hvort tveggja er mjög gott í sögulegu samhengi. Árið í fyrra endaði í 6,0°C (græn súla) og telst vera næst hlýjasta árið í Reykjavík. Metið er 6,1°C frá 2003 og til að slá því við þyrftu góð hlýindi að haldast meira og minna út árið, eins og reyndin var reyndar í fyrra.

Best er að að sýna þetta á allsherjar línuriti yfir hitafar í Reykjavík frá 1901 til vorra daga. Árið 2017 er komið þarna inn til bráðabirgða en fölblá sporaskja sýnir á hvaða slóðum árshitinn mun líklega enda, þegar síðustu tölur hafa borist.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 10 mánuðir

Hvernig sem fer þá er allavega ljóst að hlýindi eru enn í fullum gangi hér hjá okkur og ekkert farið að bera á kólnun eins og einhverjir voru farnir að auglýsa, eftir hið tiltölulega kalda ár 2015. En þótt árið í ár verði ekki það hlýjasta í mælingasögunni þá er samt góður möguleiki á öðru meti sem er hlýjustu tvö árin í röð - eða hlýjasta tveggja ára syrpan. En það er svo sem ekki víst að keppt sé í því. Núverandi hlýjustu tvö ár í röð eru 2003-2004 (5,85°C), samkvæmt því sem ég reikna. Til að ná því þá þurfa síðustu tveir mánuðirnir ekki að gera betur en að hanga í hinu svokallaða kalda meðaltali áranna 1961-1990. Allt getur þó gerst og brugðist - ekki síst á lokasprettinum eins þekkt er og rysjótt tíð framundan.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband