Færsluflokkur: Evrópumál

Að blanda sér í Úkraínudeilu

Úkraína þjóðir

Úkraína er stórt land og íbúar þess eru ýmist af úkraínskum eða rússneskum uppruna. Úkraínufólkið er í meirihluta og byggir vestur- og miðhluta landsins á meðan rússneska fólkið býr í suðausturhlutanum. Þessir tveir hópar hafa gjörólíka sýn á það hvert landið á að stefna og í hvaða átt það á að halla sér í heimspólitíkinni. Úkraínufólkið horfir til Vestur-Evrópu og á þann draum ganga í Evrópusambandið og Nató til að verjast Rússum á meðan Rússneskumælandi hlutinn vill halda góðum tengslum við Rússa eins og verið hefur um aldir, enda er það fólk í raun Rússar.

Þegar svo er komið að stjórnvöld sem studd eru af úkraínsku-mælandi meirihlutanum ákveður að auka samstarf við vesturlönd á kostnað Rússlands, er augljóst að togstreita myndast og ekki hjálpaði til að úkraínskan skyldi vera eina opinbera tungumál landsins. Rússnesku-mælandi fólkið upplifði sig þar með sem illa séðan minnihlutahóp meðal þjóðernissinnaðra Úkraínumanna.

Það er í sjálfu sér ekki hægt að áfellast úkraínska meirihlutann í landinu fyrir að vilja halla sér til vesturs eins og flest önnur Evrópulönd austan járntjaldsins gamla gerðu eftir hrun Sovétríkjanna. Engir vilja lengur vera vinir Rússlands - nema þeir séu Rússar. Hins vegar er skiljanlegt að Rússum finnst vera talsverður missir af Úkraínu af sínu áhrifasvæði. Úkraína hefur frá fornu fari verið samofin sögu Rússlands og rússneskrar menningar, allt frá dögum Garðaríkis og Kænugarðs sem síðar var Kiev, höfuðborg Úkraínu. Þannig er Úkraína fyrir Rússlands svo miklu meira en bara einhver spónn úr aski. Tilfærsla Úkraínu í einu lagi yfir á áhrifasvæði Vestur-Evrópu er meiriháttar áfall fyrir Rússland og ekki síst vegna þess að stór hluti Úkraínu er raunar byggður fólki af rússneskum uppruna sem talar rússnesku, elskar Pútín og yfirleitt allt sem rússneskt er.

Hér er því komin tilvalin uppskrift að klassískum ófriði sem leiðir auðveldlega til borgarastríðs eins og þegar hefur orðið og almennt mjög hættulegt ástand með afskiptum stórvelda í vestri og austri. Ísland hefur ákveðið að blanda sér í þessa deilu með að vera á bandi vesturlanda í stuðningi sínum við úkraínska meirihlutann og gegn Rússlandi í stað þess að vera hlutlaus aðili sem reynir að setja sig inn í hvað er í raun að gerast og jafnvel að miðla málum eins og góðum friðsömum þjóðum sæmir.

Í raun eru aðeins tvær leiðir að friði í Úkraínu. Að landið verði algerlega hlutlaust svæði án þátttöku í efnahags- og hernaðarbandalögum eða að landinu verði skipt í tvennt með einhverjum hætti. Heil og óskipt Úkraína getur hinsvegar ekki verið annaðhvort innan áhrifasvæðis Vestur-Evrópu eða Rússlands. Slíkt leiðir aðeins til áframhaldandi ófriðar.

 


Grafísk Eurovision

Á hverju ári stendur ein þjóð uppi sem sigurvegari í Evrópsku söngvakeppninni. Þjóðirnar sem taka þátt hafa verið mis sigursælar í 60 ára sögu keppninnar en af einhverjum orsökum erum við meðal þeirra þjóða sem enn hafa ekki fagnað sigri. Það mun ekki breytast í ár en eins og með margar Austur-Evrópuþjóðir þá höfum við þá afsökum að hafa ekki verið með frá byrjun.

Eurovision 1956-2015

Kortið hér að ofan er úr teiknismiðju bloggarans og sýnir hvaða þjóðir hafa unnið söngvakeppnin allt frá því fyrsta kepnnin fór fram í Sviss árið 1956 sem lauk með sigri heimamanna. Fyrstu árin var það ekki föst regla að keppnin færi fram í landi sigurvegara síðasta árs en allt frá árinu 1981 hefur það verið raunin. Árið 1969 var keppnin haldin á Spáni en þá voru fjögur lönd sem unnu kepnnina. Á teikningunni læt ég ferilinn fara til Hollands þar sem næsta keppni fór fram.

Ekki voru þátttökuþjóðirnar margar í fyrstu keppninni í Sviss árið 1956 þegar einungis 7 þjóðir kepptu, en hver þeirra fékk þó að flytja tvö lög. Á upphafsárunum komu þátttakendur  aðallega frá Vestur-Evrópu en Luxemburg, Frakkland og Holland voru lang sigursælust framan af. Norðurlandaþjóðirnar týndust svo fljótlega inn og fyrsti Norðulandasigurinn vannst árið árið 1963 þegar Danir fluttu sína "Dansevise". Sigursælastir hafa verir Írar en þeir unnu fyrst með henni Dönu "All Kinds of Everything" en á tímabili virtist alveg sama hvaða þeir komu með - alltaf unnu Írarnir, þ.e. þrjú ár í röð 1992-94 og svo enn einu sinni 1996. Austur-Evrópuþjóðirnar hrúguðust svo inn á tíunda áratugnum og fjölgaði enn meir eftir því sem gömlu alþýðuveldin klofnuðu. Austurhlutinn tók keppninni af mikilli alvöru og stal senunni hvað eftir annað á fyrstu árum aldarinnar. Norðurlandaþjóðirnar hafa þó gert það gott á síðustu árum á meðan gömlu virðulegu nýlenduveldin og herraþjóðirnar í vestrinu hafa hvað eftir annað setið í súpunni.

Hvað gerist í ár og hvar verður keppnin næst? Allavega ekki í Egilshöll - okkar tími er enn ekki kominn. Nú lágu Danir loks í því og ekki átti finnskt sambýlispönk upp á pallborðið meðal fjöldans. Það var þó mun skemmtilegra atriði en t.d það Sænska sem þó gæti verið sigurstranglegt. Nema að Norðmenn taki þetta, þeir eru sterkir í ár. Svo er verið að tala um Ítalina sem bjóða upp á mikla tenóra-orgíu. Mitt uppáhald er reyndar Eistland að þessu sinni. Einnig er ég mjög sáttur við Ungverjaland og Slóveníu. Ég veit ekki með Ástralíu sem fá að vera með sem gestir að þessu sinni. Ég fíla það lag allavega ekki auk þess sem Ástralskur sigur væri svolítið mikið út úr kortinu.

 

 


Pollapönk og svikið kosningaloforð í Söngvakeppninni.

Það virðist fáu vera að treysta í þessum heimi og allra síst kosningaloforðum. Nú hefur verið ákveðið að Eurovisonframlag Íslendinga í ár verður flutt á ensku eins og svo oft áður. Þetta er dálítið sérstakt því þegar kosið var á milli þeirra tveggja laga sem náðu lengst í keppninni, var skýrt og greinilega tekið fram að þau yrðu þá sungin á því tungumáli sem þau yrðu flutt á í sjálfri keppninni í Danmörku. Þessi nýbreytni var gerð með það í huga að kjósendur gætu valið á milli tveggja síðustu lagana í sem endanlegustu mynd og þá alveg sérstaklega hvað varðar tungumálið.

PollapönkPollapönkslagið, Enga fordóma, var flutt á íslensku þarna fyrir lokakosninguna, nema lokahluti lagsins sem var sunginn á ensku. Þetta fannst mér ágætt fyrirkomulag og ég kaus lagið í þeirri góðri trú að Evrópubúar fengju nú að heyra framlag okkar sungið á hinu ylhýra forna tungumáli en enskan tekin í lokin svo allir skilji innihaldið. Einnig fannst mér íslenski textinn fara laginu afskaplega vel, burt séð frá innihaldinu. Burtu með fordóma og annan eins ósóma, verum öll samtaka þið verðið að meðtaka o.s.frv. Þetta smellpassaði við taktinn í laginu en þegar kom að enska hlutanum flattist lagið út og varð venjulegra. Predjudice yfirtók fordóma. Það var Bandaríski söngvarinn og Íslandsvinurinn mikli John Grant sem mun hafa snarað textann yfir á ensku. Sennilega telst það gott til afspurnar enda er John Grant fínn tónlistarmaður og heimsfrægur á Íslandi.

En nú hefur sem sagt verið ákveðið að lagið skuli aldeilis ekki neitt flutt á íslensku heldur bara á ensku og það er Sjónvarpið sem ræður því. Þetta verður því ekki eins lofað var fyrir kosningar. Svikið kosningaloforð - ekkert flóknara en það. Í Fréttablaðinu var fjallað um þetta á dögunum og vitnað í Heru Ólafsdóttur framkvæmdastjóra keppninnar og sé rétt haft eftir segir hún: „Það er auðvitað almenningur sem kýs lagið en við höfum alltaf vald til að breyta“. Þessi orð eru afskaplega áhugaverð og lýsa í raun hvernig lýðræðið virkar. þ.e.: Þið kjósið útfrá því sem við lofum en við ákveðum svo hvernig hlutirnir verða. Þessi ágæta kona gæti kannski gert það gott í Framsóknarflokknum.

Ég er þó áfram mjög sáttur við framlag okkar að þessu sinni jafnvel þó það sé eingöngu flutt á ensku. Kannski bara eitt það allra besta. Er þó bara dálítið spældur og hissa á svona hringlandahætti og að ekki skuli staðið við það sem sagt er. Lagið er þó áfram skemmtilegt, gott bít og stuð á sviðinu. Fyrstu viðbrögð útlendinga við laginu á You-Tube voru frekar neikvæð. Fáir skildu hvað við vorum að pæla með svona vitleysu. Eða eins og einn segir: „I just can't believe that you think that this is gonna do great on Eurovision! First time Im dissapointed of icelandics...“  Þetta virðist þó hafa breyst nokkuð hjá álitsgjöfum eftir því sem þeir heyra lagið oftar nema að enska útgáfan geri gæfumuninn þrátt fyrir allt - eða eins og einn segir: „Im actually starting to like this.... what is wrong with me?“

Hér er vídeóið af laginu sem gert var fyrir keppnina. Miklir leikrænir tilburðir eru þarna á ferð sem eiga að undirstrika boðskap lagsins. Það vekur athygli mína hér að hvergi er söngvarinn sýndur syngja, sem endurspeglar væntanlega hringlandann með tungumálið. Meira er hinsvegar af nærmyndum af hljóðfæraleikurum og öðrum leikaraskap og veikir það áhrifamátt tónlistarinnar sjálfrar og gerir boðskapinn að aðalatriðinu í staðinn. Sem er ekki slæmt í sjálfu sér.


Ein pæling áður en ég hætti og á kannski við ef okkur mun ganga afleitlega. Persónulegar vinsældir og óvinsældir flytjenda skipta gjarnan máli við val okkar á keppendum í Eurovision. Símakosning ræður mestu um hverja við sendum og má gera ráð fyrir að krakkar og aðrir pollar séu duglegir við að hringja, jafnvel hvað eftir annað á meðan eldri og heldri borgarar láta sér nægja kannski eitt símtal úr gamla heimilissímanum, ef þeir þá kjósa á annað borð. Væri kannski sniðugt að virkja nýbúa þessa lands frá Evrópu sem mikið úrval er af hér á landi? Fólk sem þekkir ekki muninn á Bubba og Bjögga er líklegra til að velja fyrst og fremst lag en ekki flytjendur og það alveg án nokkurra fordóma.

Evrópukeppnin

Keppnir eru hið besta mál. Sjálfur fylgist ég með ýmsum keppnum hvort sem er í íþróttum og öðru og þar er Eurovision söngvakeppnin engin undantekning. Sumu hefur maður þó engan áhuga á eins og til dæmis hestamótum og keppni í samkvæmisdönsum. Pólitík er líka keppni þar sem menn halda með sumum en öðrum ekki og fagna sigrum yfir andstæðingum, en svo eru líka allskonar keppnir sem eru sífellt í gangi og engin verðlaun í boði eins og hvort einhver mánuður sé heitari eða kaldari en annar eða setji ný og glæsileg veðurmet að einhverju tagi.

En nú er Eurovison mál málanna. Hver meikar það að þessu sinni? Verður það Egilshöll á næsta ári? Hluti að keppnum er að spá í stöðuna og reyna að finna út væntanlegan sigurvegara. Að þessu sinni virðast Norðurlöndin ætla að gera það gott. Ég er á því eins og fleiri að Danmörk og Noregur séu bæði með afskaplega sigurvænleg atriði og það kæmi mér á óvart ef sigurinn lenti annarstaðar. Kannski tökum við þá bara þriðja sætið en það er sjálfsagt dálítil bjartsýni. Sumir fíla Sænska lagið en ég er ekki í þeim hópi. Hvít-Rússar hafa afskaplega mikið langað til að vinna eftir að nágrannarnir í Úkraínu sigruðu með henni Ruslönu hér um árið. Þeir gætu reyndar tekið sigurinn núna með glæsipíu í grísk-ættuðum takti. Grikkirnir sjálfir eru reyndar alltaf álitlegir, að þessu sinni með skoppandi stuttbuxnakarla. Hollendingar og Ungverjar sjá um artý- og krúttlegheitin og standa sig vel í því. Hvað með Bonnie Tyler? Mér finnst hún bara ekkert síðri en í gamla daga og með alveg þokkalegt lag. Meðan fólk getur sungið skiptir aldur og fyrri störf ekki máli. Í tilfinninga- og kraftballöðugeiranum finnst mér Moldavía standa upp úr. Söngkonan rís líka himinhátt á sviðinu með þvílíku sjónarspili að hætt er við að fæstir skynji flottheit lagsins sem hún syngur.

Moldavía eru annars dæmi um land sem maður þekkir ekkert nema í gegnum Eurovision keppnina. Moldavía er greinilega ekki bara mold. Eitt af uppáhaldsatriðum mínum í keppnum síðustu ára er einmitt framlag Moldava árið 2011. Þar eru á ferð hinir miklu stuðmenn í ZDOB ȘI ZDUB flokknum sem keppt hafa tvisvar. Í fyrra skiptið voru þeir með ömmuna í ruggustólnum eins og frægt var en lagið fyrir tveimur árum finnst mér betra. Stelpan á einhjólinu sem þykist spila eða ekki spila á lúður, skemmir ekki fyrir.


 


Íslensku Eurovisionlögin samkvæmt mínum smekk

Í minni bloggtíð hef ég alltaf skrifað eitthvað um Eurovision þegar keppnin stendur sem hæst. Að þessu sinni hef ég tekið saman lista yfir öll íslensku framlögin frá upphafi og raðað þeim í sæti eftir því hvernig mér sjálfum líkar þau. Vegna þess að ég tel mig hafa alveg einstaklega þroskaðan og góðan tónlistarsmekk þá vil ég meina að þetta sé hina eina sanna gæðaröðun á íslensku lögunum. Meðalsmekkur þeirra sem fylgjast með Eurovision fer reyndar ekki alveg saman við minn smekk og því er ekki mjög mikið samræmi á milli þess sem mér finnst og árangurs laganna í lokakeppninni. Uppáhaldslögin eru nefnd fyrst og svo koll af kolli niður í 25. sæti. Ég læt fylgja hvar lögin enduðu í keppninni og nefni einnig flytjendur og þátttökuár (ath. lagaheitin eru ekki endilega alltaf rétt).
  1. Sókrates - Stebbi og Sverrir Stormsker - 1989 - 16. sæti
  2. Nína - Stebbi og Eyfi - 1991 - 15. sæti
  3. Tell me - Einar Ágúst og Telma - 2000 - 12. sæti
  4. Coming home - Vinir Sjonna - 2011 - 20. sæti
  5. Eitt lag enn - Sigga og Grétar - 1990 - 4. sæti
  6. All out of luck - Selma - 1999 - 2. sæti
  7. Is it true - Jóhanna Guðrún - 2010 - 2. sæti
  8. Open your heart - Birgitta - 2003 - 9. sæti
  9. Þá veistu svarið - Ingibjörg Stefáns - 1993 - 13. sæti
  10. Sjúbídú - Anna Mjöll - 1996 - 13. sæti
  11. Hægt og hljótt - Halla Margrét - 1987 - 16. sæti
  12. Mundu eftir mér - Gréta og Jónsi - 2012 - ?? sæti
  13. Gleðibankinn - ICY-hópurinn - 1986 - 16. sæti
  14. If I had your Love - Selma - 2005 - 16. sæti í undanúrslitum
  15. Nei eða já - Sigga og Sigrún - 7. sæti
  16. Minn hinsti dans - Páll Óskar - 1997 - 20. sæti
  17. Valentine lost - Eiki Hauks - 2007 - 13. sæti í undanúrslitum
  18. Núna - Bjöggi - 1995 - 15. sæti
  19. Nætur - Sigga Beinteins - 1994 - 12. sæti
  20. Það sem enginn sér - Daníel Ágúst - 1989 - 22. sæti
  21. Til hamingju Ísland - Silvia Nótt - 2006 - 13. sæti í undanúrslitum
  22. Heaven - Jónsi - 2004 - 19. sæti
  23. Angel - Two Tricky - 2001 - 22. sæti
  24. Je ne sais quoi - Hera - 2009 - 19. sæti
  25. This is my live - Eurobandið - 2010 - 14. sæti

Það er reyndar ekki auðvelt að gera nákvæmlega upp á milli einstakra laga. Röð efstu þriggja lagana vafðist til dæmis dálítið fyrir mér, en það eru alþekkt gæðalög sem ég setti í fyrstu tvö sætin. Í þriðja sæti er lagið Tell me sem er heyrist ekki mjög oft og er sjaldan nefnt. Á myndbandi með laginu sem hér fylgir sést að það hefur ekki verið lagt svo ýkja mikið í sviðsframkomuna og atriðið gæti allt eins verið úr söngvakeppni framhaldsskólanna. Það breytir því þó ekki að þetta er eitt af því besta sem við höfum sent í keppnina - að mínu áliti. Lagið í ár, Mundu eftir mér, hef ég í 12. sæti en spurning er hvar það endar. Það virðist þó vera að gera það gott og gæti hæglega náð mjög langt þótt ég sé ekki mesti aðdáandinn. En hér koma Einar Ágúst og Telma (með finnskum undirtexta):



Ummæli af YouTube:
Best song ever on eurovision!!! :)
Finally I found it!!! :))))))
Thnx for video :)

MaryGreenPeace‬ fyrir 4 árum

 


Er að spá í hvað ég á að kjósa

Þegar þetta er skrifað er runninn upp  mikill kosningadagur sem gæti orðið sögulegur. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég á að kjósa en ólíkt mörgum finnst mér ýmislegt boðlegt í boði. Á maður að taka grínið á þetta eða láta alvöruna ráða hvernig ég greiði atkvæði?

Sjálfur er ég nokkuð hrifinn af léttu gríni og gæti vel hugsað mér að kjósa rússneska lagið sem er mjög harmrænn og fallegur tregasöngur en það þarf að hlusta á það með húmorinn í huga. Skemmtilegustu lögin duttu þó út í forkeppninni að mínu viti, Hollenska Geirmundarsveiflan hefði alveg mátt vera með og líka Slóvenska lagið sem blandaði saman þjóðlagahefð og gallabuxnarokki og virkaði bara stórskemmtilega á mig. Finnsku harmoníkustelpurnar voru líka bara skemmtilegar og hefðu gjarnan mátt vera með. Króatísku þokkadísirnar duttu óvænt út en þær voru með flott lag eins og sú sænska, kannski vantaði einhvern afgerandi kraft í þessi atriði þegar á sviðið var komið. Slóvakíska skógardísin náði því miður ekki að halda lagi í undankeppninni og varð því lítt ágengt.

Annars er athyglisvert hvað vönduð lög koma frá Kákasuslöndunum og þeim framandi slóðum, miklar og flottar skvísur með alveg hörkulög, ekki síst sú fyrsta sem stígur á svið en það er hin Azerbajdaníska Safura sem drip droppar með miklum tilþrifum. Frakkarnir eru alltaf flottir í Eurovision og nú er það hin blakki Jessi Matador sem ætlar að trylla lýðinn með miklu „Ola Ole“-stuði. Þýskaland teflir fram líflegri stelpu sem syngur með sérstökum „kokney“-enskuhreim“. Grikkir eru að venju með ógurlega flugeldasýningu og drumsbuslátt til heiðurs Grikkjanum Zorba og eru alltaf sigurstranglegir.

Ýmis önnur lönd mætti telja upp sem gætu hugsanlega unnið keppnina þó framlög þeirra höfði ekki öll til mín. Við verður svo að gera okkur grein fyrir því að Íslenska eldfjallið - Hera Björk, gæti stolið senunni með þeim afleiðingum að við vinnum keppnina. Það eru meiri líkur á því nú í ár en í fyrra því þá var alltaf vitað að norska lagið myndi vinna, sem það og gerði.

Hvað ég kýs verður bara að ráðast í kvöld. Í dag mun ég hinsvegar taka þátt í öðrum kosningum þar sem málið snýst um að kjósa í borgarstjórn. Sumir virðast þó misskilja þær kosningar - telja að þar eigi að kjósa það sem er skemmtilegast, svona eins og það sé verið að kjósa í skemmtinefnd.

 


Nýtt Evrópukort frá Dagens Næringsliv

Þar sem Evrópumál eru í deiglunni núna er tilvalið að birta hér Evrópukort eins og það birtist í auglýsingu Dagens Næringsliv hinu norska. Hvernig skyldi söngfugli okkar frá ØKONOMISK KRISE ganga í keppninni á laugardaginn? Munum við gera betur en LEGOLAND eða SAUNA.

Mun ØSTBLOKK kannski rústa þessu eins og venjulega? Ég er ekki viss. Ætli það verði ekki bara, Heia NORGE! í ár.

 

DN_evropukort

(Kortið birtist stærra ef smellt er nógu andskoti oft á það)


Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?

Enginn sem tekur sjálfan sig alvarlega getur tekið Eurovision-söngvakeppnina alvarlega, það er nokkurn veginn vitað. Þess vegna ætla ég hér af fullri alvöru að fjalla um lögin sem koma til greina sem framlag Íslands í keppnina í ár. Fyrir það fyrsta þá finnst mér lögin sem koma til greina nú nokkuð jöfn að gæðum og ómögulegt að segja hvað verður fyrir valinu. Gæði lagana eru þó yfirleitt ekki meiri en svo að ástæða sé til að óttast að við förum að vinna keppnina með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir en þó er aldrei að vita. Hinsvegar sýnist mér ekkert lag vera þarna sem gæti orðið okkur til meiri ævarandi skammar á alþjóðavettvangi en orðið er. Eiginlega má bara segja að innanlandskeppnin nú í ár sé frekar litlaus í heildina - engir furðufuglar með gula hanska eða steraboltar sem lífga keppnina við eins og í fyrra, hvernig sem á því stendur.
Að þessu sögðu koma hér mínir óskeikulu sleggjudómar um lögin sem í boði eru. Röð lagana eru í stafrófsröð eftir heiti þeirra. Einnig er hægt að hlusta á þau með því að smella á titilinn.

1. Easy to fool
Höfundur: Torfi Ólafsson, Flytjendur: Arnar, Edgar, Sverrir og Ólafur
„It´s hot under the west-coast sun, But cold up here in Maine“ segir í texta lagsins. Þó að veðurfregnir höfði yfirleitt til mín þá er helsta vandamálið hér að þetta er bara púra Amerískt kántrýlag og ágætt sem slíkt en satt að segja finnst mér svona þjóðlagatónlist frá öðrum heimsálfum varla eiga heima sem framlag Íslands í Eurovision. Mætti kannski senda þetta í Grand Ole Opry keppnina sem haldin er oft og reglulega í Nashville Tennessee.

2. Got no love
Höfundur: Örlygur Smári, Flytjendur Elektra.
Hér er búið að setja saman stelpuhljómsveit með hinum svokölluðu Hara-systrum sem eru víst raunverulegar systur en þær urðu í öðru sæti í X-faktor þáttunum sem ég annars þekki lítið til. Hér er sami lagahöfundur á ferð og samdi sigurlagið í fyrra „This is my live“ sem mér fannst reyndar afar leiðinlegt lag. Þetta framlag er hins vegar mun betra fyrir minn smekk þótt þetta sé nokkuð hefðbundið pop-rokk, þó dálítið glyskennt með tilgerðarlegum smartheitum. Minnir dálítið á rússnesku platlesbíurnar í T.a.t.u. sem er svo sem allt í lagi. Örlygur Smári gæti hæglega átt sigurlagið annað árið í röð.

3. I think the world of you
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Jógvan Hansen.
Hér er annar þaulreyndur Eurovision höfundur sem átti t.d. lagið sem Birgitta söng um árið. Söngvarinn er sjálfur sigurveginn í áðurnefndri X-faktor keppni og nýtur sjálfsagt vinsælda út á það auk þess sem hann er dálítið þekktur meðal fiskveiðiþjóða norður-Atlantshafsins. Svo má ekki gleyma að hann er Færeyingur sem þykja vera sérlegir vinir okkar Íslendinga. Allt gerir þetta að verkum að lagið á ágæta möguleika á að sigra, nema hvað lagið er frekar óspennandi vakningarballaða með viðeigandi upphækkun í lokin: „All around the world, it's gone crazy...“, Virkar þó kannski vel í svona keppni.

4. Is it true
Höfundur: Óskar Páll Sveinsson, Flytjandi: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.
Enn einn gamalkunnur Eurovision höfundurinn mættur til leiks og nýtur hér fulltyngis barnastjörnunnar fyrrverandi Jóhönnu Guðrúnar, sem er greinilega ekki lítil lengur. Þótt svona músik sé ekkert mitt uppáhald er hér á ferðinni afskaplega fín og pottþétt ballaða sem gæti hæglega brætt hjörtu margra Evrópubúa. Jóhanna er líka hin glæsilegasta á sviðinu og syngur þetta vel og af miklu öryggi. Hugsanlega besta lagið í keppninni en ég er þó ekki viss um að það eigi mikla möguleika enda gæti barnastjörnustimpillinn háð söngkonunni.

5. Lygin ein
Höfundur: Albert G. Jónsson, Flytjandi: Kaja Halldórsdóttir
Hér byrjar ballið fyrir alvöru því hér stígur á svið aldeilis skutla sem syngur þéttan ljóðabálk á íslensku um glataðan gæja sem „trítar“ svo sannarlega ekki vel. Lagið er ískalt teknó-diskó með stálhörðum takti en dálítið flatt, textinn gæti verið eftir Leoncie en atriðið er nokkuð vel skreytt með svartklæddum dansmeyjum. Það er einhver stafrænn 2000-stíll í þessu sem er ekki alveg í takt við tímann í dag lagið en gæti þó virkað í austur-Evrópu. Samt má alveg hafa gaman að þessu.

6. The kiss we never kissed

Höfundur: Heimir Sindrason, Flytjandi: Edgar Smári
Heimir Sindrason kemur hér með hugljúft lag af rólegra taginu. Dálítið í Johnny Logan stíl með væmnum „teardrop in your eye“ texta sungið af ungum dægurlagasöngvara sem hefur sést áður í Eurovision undankeppni og er að auki einn af „kúrekunum“ í laginu hans Torfa Ólafs. Sumum þykir þetta ef til vill voða huggulegt og vel heppnað en mér finnst hér ýmislegt ekki virka, sérstaklega söngurinn eða raddbeitingin sem fer í full mikla falsettu í erfiðustu köflunum. Ég held að við ættum ekkert að vera að hugsa um þetta lag.

7. Undir regnbogann
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Ingó
Annað lag eftir áðurnefndan Hallgrím en gjörólíkt. Ingó „Veðurguð“ sem flutti Bahama-lagið í sumar er ekki meira en ágætur raulari, dugir þó til að koma þessu léttmeti frá sér. „Trallalalalla“ eru skilaboð sem komast allstaðar til skila en annars er bara jákvætt að textinn sé á íslensku - saminn af sjálfum Eiríki Hauks. Stelpurnar í lúðrasveitarbúningunum með bumbutrommuna og túbuna eru náttúrulega ágætis skraut, lífga þetta við og undirstrika taktinn í laginu. Þær taka að vísu til sín mestu athyglina, einkum túbustelpan sem hefur sjálfsagt aldrei séð svona skrítið hljóðfæri áður og örugglega aldrei blásið í það.

8. Vornótt
Höfundur: Erla Gígja Þorvaldsdóttir, Flytjandi: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm
Hér gerast undur og stórmerki. Ung stúlka syngur undurhugljúft lag ömmu sinnar um ástarfund í Skagfirskri vornótt þar sem „fuglinn morgunferðar bíður“. Hér má heyra hörpuslátt og englaraddir í bakgrunni sem hjálpa til við gera þetta að eftirlætislaginu mínu í keppninni. Þótt þetta muni sjálfsagt ekki gera stóra hluti í sjálfri Moskvu er þetta langeinlægasta lagið og það sannasta. Spurning hvort X-faktor kynslóðin skynji það. Kannski er ég bara farinn að eldast en þegar maður hefur hlustað á þetta lag finnst manni allt hitt vera hálfinnantómt og tilgerðarlegt. Eins og þessi dásamlega keppni annars er.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband