Færsluflokkur: Jarðfræði

Gosgleði við Fagradalsfjall

Keilir og gos

Best að byrja á að nefna hér að eldsumbrot á Reykjanesskaga hafa löngum verið eitt af því sem ég hef innst inni haft löngun til að upplifa í þessu annars takmarkaða jarðlífi. Lengst af var ég þó mjög hæfilega bjartsýnn á að sú ósk rættist en vissi þó að möguleikinn væri til staðar enda Reykjanesskaginn nokkurn veginn kominn á tíma. Það hefði samt getað þýtt að atburðir gæti farið að gerast seint á þessari öld eða jafnvel ekki fyrr en á þeirri næstu. Vissulega var mér ljóst að eldar á skaganum gætu valdið margháttuðu tjóni og sett ýmislegt úr skorðum sem ég er ekkert að vonast eftir. Það breytti þó ekki upplifunaróskum mínum enda hafa þær engin áhrif á framgang mála. Snýst meira um hjá mér að upplifa merka atburði.

En svo var það í janúar árið 2020 að fréttir fóru berast sem gáfu til kynna að möguleikinn væri ekki svo fjarlægur. Vísbendingar voru þá um að jarðskjálftar á skaganum tengdust kvikusöfnun við Þorbjörn. Eitthvað sem maður hafði ekki heyrt áður nefnt með jafn sterkum hætti, en fram að því höfðu skjálftahrinur á skaganum ávallt verið tengdar eðlilegum gliðnunarhreyfingum án þess að kvika kæmi við sögu. Þetta þótti mér aldeilis tíðindi og eitthvað til að fylgjast með, samanber stuttaralega fb-færslu frá þeim tíma.

Frétt kvikusöfnun

Rúmu ári síðar eða 19. mars 2021, eftir ótal jarðskjálfta, fór loksins að gjósa og það var nú aldeilis skemmtilegt gos þótt það hafi í raun verið alveg fáránlega lítið til að byrja með. En ólíkt öðrum gosum á Ísland þá færðist það í aukana eftir því sem á leið og stóð í sex mánuði með allskonar skemmtilegum og óvæntum uppákomum - og olli engu tjóni þegar til kom. Ekki nóg með það því gos númer tvö hófst svo þann 3. ágúst 2022 en stóð yfir í mun styttri tíma.

Geldingadalir 21. mars 2021

Þriðja gosið stendur nú yfir og eftir viku eldsumbrot sér ekki fyrir endann á því. Alls heimsótti ég sjö sinnum fyrsta gosið og tvisvar það næsta. Nálgaðist ég þau úr ýmsum áttum og fór gjarnan mínar eigin leiðir, opinberar og óopinberar. Í einni ferðinni í fyrsta gosinu munaði litlu að ég rambaði á týndan Ameríkana sem mikið var leitað að einn daginn, en hann fannst stutt frá þar sem ég var að þvælast norðaustur af gosslóðunum, ekki fjarri þar sem hraun rennur nú.

Nú er ég ekki búinn að heimsækja þetta nýjasta gos, enda hafa gosstöðvarnar verið lokaðar almenningi síðustu daga. Þar á undan hafði ein leið verið leyfð - einmitt í gegnum eiturgufurnar af gosinu og sinueldum, í eindreginni norðanáttinni. Ég ætla svo sem ekki að fjargviðrast mikið yfir þessum lokunum, en vitaskuld hefði ég tekið mið af aðstæðum og farið mína eigin leið. Sjáum til síðar. Allavega er ég nú þegar aldeilis búinn að upplifa eldgos í nærmynd þarna á skaganum. Nú læt ég mér nægja vefmyndavél ofan af Litla-Hrút. Sjónarspilið er mikið, útsýnið gott en auðvitað væri ég til í vera þarna sjálfur í stúkusæti.

 

Vefmyndavél RUV 16. júlí 2023


Meira af Hawaiieldum

Hraungos Hawaii 18. maí.

Ekkert lát er eldsumbrotunum á austustu og eldvirkustu eyju Hawaii eyjaklasans og úr því maður er byrjaður skrifa um atburðina þá er ekki um annað að ræða en að bæta við enn einni færslunni, nú þegar allt er í gangi. Raunar er varla hægt að segja að eitthvað upphaf séu á þessu gosi og endir er varla í sjónmáli, enda er hér um að ræða eina virkustu eldstöð jarðar þar sem næstum er alltaf eitthvað að gerast. Í þeim stuttaralegu fréttum sem við fáum af atburðunum í fjölmiðlum skortir nokkuð upp á heildarsýnina. Kortið hér neðan ætti að gefa betri yfirsýn en þar legg ég áherslu á þá tvo staði sem leika aðalhlutverkið í atburðarásinni. Annars vegar er það gígurinn á Kilauea elddyngjunni sem fóðrar kerfið af kviku og svo er það svæðið niðri í byggðinni 40 kílómetrum frá gígnum þar sem hraunsprungur hafa opnast og kvikan kemur upp.

Hawaii Big Island suður

Það sem þarna á sér stað minnir dálítið það sem gjarnan gerist hér á landi. Kvika leitar út úr megineldstöð og kemur upp sem sprungugos tugum kílómetrum fjarri. Bárðarbunga og Holuhraun er nærtækt dæmi. Ísland og Hawaii eiga það sameiginlegt að vera yfir mjög virkum möttulstrókum. Þó er sá grundvallarmunur að Hawaii-eyjar tengjast ekki flekaskilum eins og Ísland gerir. Sprungugos eru þannig mjög algeng á Íslandi enda eru megineldstöðvarnar okkar og hriplekar vegna gliðnunar landsins. Gosin leita því gjarnar út í sprungukerfin og hindra að stórar eldkeilur myndast innan gliðnunarbeltisins. Öræfajökull er náttúrulega utan gliðnunarsvæðisins og hefur því fengið að vaxa og dafna í friði.

Eyjan þar sem eldgosin eru, gjarnan nefnd Big Island, er á stærð við Vestfjarðakjálkann og rís hátt upp af hafsbotninum. Hæstu eldfjöllin á eyjunni, Mauna Loa og Mauna Kea, eru yfir 4000 metra há og stundum sagt að eyjan sé í heild sinni stærsta og hæsta fjall jarðar frá hafsbotni talið. Kilauea dyngjan er reyndar ekki nema um 1000 metra há en á framtíðina fyrir sér, þar sem eldvirknin þróast með tímanum í suðausturátt. Eitthvað veldur þó sprungumyndun, en eins og ég sé þetta þá virkar kvikuuppstreymið undir Kilauea eins og þegar nagli er rekinn í gegnum trékubb - of nálægt brúninni - þannig að klofningur myndast út frá naglanum. Þannig háttar allavega til þarna á eyjunni að sprungukerfi eru til sitt hvorrar áttar frá kvikuuppstreyminu sem gefur færi á flutningi kviku til beggja átta. Vonum bara að flísinn stóra losni ekki í heilu lagi og steypist í sjó fram.

Sprungureinin til suðvestur frá gígnum hefur verið til friðs un langan tíma en hinsvegar hefur kvika leitað ótt og títt á austursvæðið (East Rift Zone). Í langa gosinu frá janúar 1983 til apríl 2018 náði kvikan þó ekki nema hálfa leið í austur og kom upp við gíginn Puu Oo og rann hraun þaðan til sjávar. Með nýrri innspýtingu frá iðrum jarðar nú vor, náði kvikan að valda þenslu og sprengja sér leið lengra í austur og koma upp á þeim svæðum sem nú gjósa.

Hraunflæði 19. maí

Sprungugosin í byggðinni hafa sótt mjög í sig veðrið undanfarna daga eftir að hafa legið niðri þegar ég skrifaði síðasta pistil fyrir viku síðan. Hraunflæði hefur einnig aukist en þau flæða þó sem betur fer að mestu um óbyggð svæði í átt til sjávar. Auk hraunsins þá veldur gasmengun miklum óþægindum en gasuppstreymi hefur haldið áfram þótt sprungur hafi hætt að spúa út úr sér kviku. Öll byggðu svæðin þarna austast á eyjunni eru sennilega áfram í hættu enda ómögulegt að segja hvað úr verður. Þarna getur gosið lengi og hraunrennsli gæti enn átt eftir að færast í aukanna. Á kortinu hér að ofan frá U.S. Geological Survey sést staða mála á svæðinu þann 18. maí. Á kortinu má einnig sjá merkt inn víðáttumeiri hraun frá árunum 1960, 1955 og 1840 enda er hraunsrennsli ekkert nýtt fyrirbæri á svæðinu.

Sprengivirkni í Kilauea öskjunni, eða í Halemaumua gígnum svokallaða, var talsverð í vikunni eins og búist hafði verið við. Þó kannski ekki eins mikil og óttast var og olli ekki teljandi skaða. Þann 16. maí gekk mikið á, en sem betur fer stóð vindur frá mestu byggðinni. Fólk veigraði sér ekki við að spila golf og njóta útsýnisins á golfvelli skammt frá gígnum við Kilauea. Mesta sprengingin var svo skömmu fyrir dögun morguninn eftir, en síðan þá hefur svæðið róast mjög. Hvort allt púðrið þar sé búið í bili vita menn ekki svo gjörla en hættuástand er enn ríkjandi. Askjan þar sem gígurinn er í hefur eitthvað verið að síga og er það til marks upp að kvika færist úr kerfinu ekki ólíkt því sem var í Bárðarbungu á meðan gaus utan jökuls.

Kilauea gosmökkur

- - -

Annars gerist fátt í náttúrunni sem ekki hefur gerst áður. Myndin hér að neðan hefur birst víða og er frá svipuðum stað og sú að ofan. Árið 1924 var einnig líf og fjör í Kilauea eldstöðinni með töluverðri sprengivirkni og öskufalli. Prúðbúið fólk létt sér þó ekki bregða og var mætt til að horfa á herlegheitin úr hæfilega lítilli fjarlægð með tilliti til vindáttar.

Kilauea 1924

- - -

Heimildir: USGS, U.S. Geological Survey  og  Honululu Star Adviser Einnig má benda ítarleg skrif og umræður á vefnum: Volcano Café

Fyrri pistlar um gosið á Hawaii:
12. maí: Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii
6. maí: Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta.


mbl.is Íbúum bjargað frá glóandi hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii

Þegar þú lesandi góður lest þetta þá gæti vel verið að atburðir þeir sem hér er fjallað um verði með öllu yfirstaðnir. En allavega, þegar þetta er skrifað, Eurovision-laugardaginn 12. maí, er fastlega búist við því að á næstu sólarhringum verði grundvallar fasabreyting á gosinu lífseiga sem staðið hefur á Hawaii allt frá því í janúar 1983. Í síðasta pistli fyrir viku tók ég stöðuna svona almennt á því sem er að gerast þarna, en þá höfðu litlar gossprungur opnast í byggðu svæði, um 60 kílómetrum frá Kilauea elddyngjunni sem er skammt frá risavöxnum nágranna sínum Mauna Loa á stærstu og eldvirkustu eyju Hawaii-eyjaklasans og birti þá meðal annars þetta google-map-kort þar sem ég bætti við helstu atriðum til skýringar en þar eru hæg heimatökin fyrir mig, grafíska hönnuðinn. Jarðfræðingur er ég hinsvegar ekki og þurfti að fletta upp hvað nákvæmlega átt er við með Freatóplínísku gosi, eins og minnst er á í fyrirsögn.

Hawaii Big Island suður

Til átta sig á hvað er að gerast hverju sinni þarna á Hawaii, verður maður helst að leggjast í eigin upplýsingaöflun og þá er auðvitað best í þessu tilfelli að leita beint til jarðfræðimiðstöðvar Bandaríkjanna (USGS, U.S. Geological Survey). Í íslenskum fjölmiðlum er lýsing á atburðunum og staðháttum mjög óljósir og misvísandi, rétt eins og þegar erlendir fjölmiðlar skrifa um jarðelda og afleiðingar þeirra hér á Íslandi. Dæmi um slíkt er hér í viðtengdri frétt þar sem segir meðal annars: "Vís­inda­menn telja að mögu­leiki sé á meiri hátt­ar eld­gosi úr Ki­lau­ea-eld­fjall­inu á Hawaii. Fjallið hóf að gjósa fyr­ir um viku og hef­ur hraun runnið í stríðum straum­um frá því síðan" Hér verður að hafa í huga að fjallið Kilauea hefur í raun ekkert verið að gjósa upp á síðkastið og frá því hefur ekki runnið neitt hraun, að minnsta kosti ekki á yfirborðinu.

Kilauea gígur

Kilauea er varla hægt að kalla fjall í venjulegum skilningi en það má kalla það dyngju með lítilli öskju og í þeirri öskju sannkallað Ginnungagap með kviku sem á upptök sín djúpt í iðrum jarðar og tengist möttulstróknum þarna undir austustu eyjunni. Á þeim áratugum sem liðnir eru frá upphafi gossins 1983 hefur kvikan frá Kilauea leitað neðanjarðar til gígsins Puu Oo og þaðan hefur víðáttumikið hraun runnið í átt til sjávar. En svo gerðist það vegna gliðnunar lands af völdum þrýstingsbreytinga að kvika frá öllu kerfinu fann sér leið neðanjarðar lengra austur í átt að byggðum svæðum. Örlítið brot af þeirri kviku hefur leitað til yfirborðs í formi smárra sprungugosa inn á milli húsanna. Hver þessara gossprungna (15 talsins) hefur einungis verið virk í nokkrar klukkustundir og því hefur hraunrennsli verið mjög lítið, en þó auðvitað gert sinn usla.

Með færslu kvikunnar í austur þornaði fyrst gígurinn Puu Oo alveg upp og eftir stóð djúpt gat ofan í jörðina þar sem áður var myndarleg hrauntjörn. Sama er núna að gerast með stóra megingíginn í Kilauea. Fyrir um mánuði náði hrauntjörnin alveg upp að gígbrún og flæddi jafnvel upp úr. Á síðustu dögum hefur hrauntjörnin og kvikan fallið mjög í gígnum samfara tilfærslu kvikunnar í austur og ef svo heldur áfram er hætta á ferðum. Ef kvikuyfirborðið fellur nógu langt niður getur gígrásin stíflast vegna grjóthruns að ofan og þegar kvikan kemst í snertingu við grunnvatn skapast aðstæður fyrir þessa miklu sprengingu sem talað er um, eða hinu svokallaða Freatóplínstu þeytigosi.

Kilauea sprenging

 

Gos nákvæmlega af þessari gerð eru ekki algeng því sérstakar aðstæður þarf til. Hér er það ekki ákaft uppstreymi kviku sem veldur, enda er kvikan frekar á leiðinni niður heldur en upp, áður en sprengingin á sér stað. Vatn og kvika er hins vegar öflug blanda eins og við þekkjum hér á landi þegar gos brýst upp úr jökli þótt þau séu ekki alveg að þessari gerð. Sprengingin mikla sem varð í Öskju árið 1875 er hinsvegar nefnt í bókinni Náttúruvá á Íslandi þar sem segir á bls. 94: "Upphaf gossins var þurr og lágplínítískur en breyttist svo í freatóplínískan fasa."

Ef spár ganga eftir með þessa sprengingu þá verður örugglega ekki um neitt smá fret að ræða en þó alls óvíst að stærðin verði í líkingu við Öskjugosið 1875. Víst er þó að stór björg munu þeytast í loft upp án þess þó að ógna byggðum svæðum. Öskufall gæti hinsvegar orðið talsvert á eyjunni og gosmökkur náð allnokkra kílómetra í loftið á þeim stutta tíma sem atburðurinn varir. Allt er þetta þó hlaðið óvissu og ekki einu sinni víst að nokkuð verði úr.

Framhaldið á hraunflæði niðri í byggðinni er líka alveg óvíst. Eins og er þá hefur engin gossprunga verið virk síðustu tvo sólarhringa og alveg mögulegt að ekkert gerist þar frekar. Vísindamenn eru þó ekki alveg svo bjartsýnir enda hefur mikil tilfærsla kviku átt sér stað sem mögulega gæti komið upp í stríðari strumi en hingað til. Þetta er ekki ósvipað því sem átti sér stað þegar kvikan hljóp frá Bárðarbungu og gaus upp lengst í burtu í Holuhrauni nema að hraunmagnið yrði aldrei sambærilegt. Óneitanlega er þó sérstakt að fá sprungugos í bakgarðinum hjá sér og ekki skemmtilegt ef heimilið fuðrar upp í ofanálag. Hér kemur í lokin samsett yfirlitsmynd frá USGS sem sýnir hvernig hraun hefur runnið í byggðinni. Ljósu skellurnar á dökka hlutanum eru gossprungur og hraun og er hver gossprunga merkt númerum. Langmesta hraunið kom úr einni sprungu sem er nr. 8 á kortinu.

Hraunrennsli Hawaii mai 2018

- - -

Heimildir:

USGS, U.S. Geological Survey  og  Honululu Star Adviser


mbl.is Telja líkur á sprengigosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

Fréttir af eldsumbrotum á Hawaii-eyjum eru áhugaverðar fyrir okkur sem búum hér á landi enda eigum við íslendingar við sömu náttúruógnina að etja og aðstæður að ýmsu leyti sambærilegar. Hér ætla ég að skauta aðeins yfir hvernig þetta lítur út þarna hjá þeim með aðstoð korta frá google þar sem ég hef föndrað inn ýmislegt. Þetta er bæði gert mér sjálfum til glöggvunar og kannski einhverjum fleirum. Fyrst er heildarkort af eyjaklasanum:

Hawaii eyjar

Hawaii eyjar eru eyjaklasi sem raðast eftir 2.400 km langri línu á Kyrrahafinu. Þær eiga tilurð sína að þakka öflugum möttulstrók sem er staðsettur undir austustu eyjunni enda er það eina eldvirka eyjan nú á dögum en eldvirkni á öðrum eyjum er útkulnuð. Þessi eyja heitir Hawaii-eyja en er oft nefnd Big Island og er hún stærsta eyjan og jafnframt sú yngsta. Stóra málið hér er að Kyrrahafsflekinn færist hægt og rólega í norðvestur yfir möttulstróknum sem er alltaf á sínum stað og á rætur sínar djúpt í jörðinni. Elstu eyjarnar eru þær sem eru fjærst möttulstróknum í norðvestri og eru þær að mestu eyddar og margar alveg horfnar af yfirborðinu. Yngsta og eldvirkasta eyjan er alltaf sú sem er lengst í suðaustri yfir möttulstróknum hverju sinni. Næsta eyja mun síðan óhjákvæmilega myndast í framtíðinni þar suðaustur af vegna færslu Kyrrahafsflekans yfir stróknum. Á næstu mynd eru við komin á þessa eldvirku eyju þar sem hlutirnir eru að gerast:

Hawaii Big Island suður

Hér á kortinu má sjá suðausturhluta Big Island. Frægasta er þar að telja Mauna Loa, elddyngjuna miklu sem er eitt af kunnustu eldfjöllum jarðar. Þar er allt með friði og spekt núna. Kilauea eldstöðin hefur hinsvegar verið mjög virk alla síðustu öld og fram til þessa. Út frá Kilauea liggur sprungurein sem nær til austasta odda eyjarinnar. Árið 1983 hófst hið lífseiga gos sem stendur enn þann dag í dag og eru atburðir síðustu daga í raun hluti af þeirri atburðarrás. Kvikan er ættuð djúpt úr jörðu undir Kilauea þótt sjálft gosið undanfarna áratugi hafi ekki átt sér stað þar. Kvikan hefur hinsvegar náð til yfirborðs við gíginn Puu Oo, eða þar um kring með mjög lítilli gosvirkni en þunnfljótandi hraunið runnið hægt og rólega til sjávar enda hefur þetta yfirleitt verið einstaklega hæglátt gos og túristavænt. Næsta mynd sýnir svæðið í meiri nærmynd.

Hawaii Puu Oo

Hér sjást aðstæður betur. Svæðið suður af Puu Oo gígnum er nánast alþakið helluhraunum sem runnið hafa hvert af öðru niður hlíðarnar síðustu 35 ár og gjöreitt mörgum mannvirkjum og fjölda heimila. Stundum hafa hraunin náð að renna út í sjó og þykir það ágætis sjónarspil. Árið 2014 gerðist það hinsvegar að hraunið fann sér leið eftir sprungukerfum í austurátt og tók að ógna þorpinu Pahoa og eyddi fáeinum húsum. Mun betur fór þó en á horfðist. Núna um mánaðarmótin apríl-maí gerðist það svo í kjölfar jarðskjálfta að kvika, sem nánast barmafyllti gíginn Puu Oo, fann sér leið neðanjarðar með sprungureininni í austur þannig að eftir sat galtómur gígurinn. Sú kvika, eða einhver hluti hennar, hefur síðan verið að koma upp aftur í Leilani-íbúðahverfinu nánast í bakgarðinum hjá fólki sem örsmá sprungugos, miðað við það sem við þekkjum.

Hawaii Leilani

Hér kemur svo nærmynd af Leilani hverfinu þar sem ýmsar smásprungur hafa opnast með hraunslettum en mjög takmörkuðu hraunrennsli enn sem komið er. Talað hefur verið um hraunstróka upp á allt að 30 metra og er þá fullmikið sagt því af myndum af dæma nær sjálfur eldurinn varla yfir trjágróðurinn þótt einhverjar slettur nái hærra. Virkni í hverri sprungu virðist ekki standa lengi yfir en þegar þetta er skrifað hefur verið talað um að alls hafi 8 gossprungur opnast og einhverjar af þeim enn virkar.

Sprungugos Hawaii

Vandinn við þetta gos er ekki krafturinn heldur það að ómögulegt er að segja til um hvar og hvernig þetta endar - eða hvort það endi yfirleitt. Mögulega gæti gosið þarna í byggðinni um langa hríð þannig að stór eða lítil hraundyngja myndist yfir byggðinni en kannski verður þetta bara lítill atburður þarna í byggðinni sem hættir þegar hráefnið sem kom úr Puu Oo gígnum dugar ekki lengur til. Virknin gæti líka færst upp eftir á sinn stað að nýju nær höfuðstöðvunum við gíginn þar sem gosið hefur haldið sig lengst af. Stóri skjálftinn upp á 6,9 stig sem varð þarna þann 4. maí veldur þó sennilega einhverjum áhyggjum. Hvað framtíðina varðar þá er allt þetta svæði þarna yfir möttulstróknum á suðausturhluta austustu eyjarinnar mjög ótryggt því í ljósi þess sem ég minntist á hér í upphafi þá er þróunin í eldvirkni öll í þá átt að þarna byggist upp næsta stóra eldstöð á eyjunum.

- - - -

Viðbót 6. maí: Ekkert lát er á gosinu morguninn eftir að færslan er skrifuð og virðist virkni færast í aukana. Hér er mynd af nýrri gossprungu sem sendir gosstróka upp í 70 metra hæð með auknu hraunrennsli í byggðinni.

Hawaii gossprunga 6. maí

- - - -

Myndir, heimildir og stöðu mála má finna hér: https://volcanoes.usgs.gov/volcanoes/kilauea/multimedia_chronology.html

Fyrri bloggfærslur tengdar gosinu á Hawaii:

23.2.2013 Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

25.10.2014 Hraun ógnar byggð á Hawaii

12.11.2014 Hraunfoss við sorpflokkunarstöð

12.2.207 Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii


mbl.is Hraunkvika spýtist 30 metra upp í loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálftar í Öræfajökli

Ekki getur maður neitað því að það örli á smá spennutilfinningu hjá manni þegar eitt mesta og hæsta eldfjall landsins fer að sýna af sér hegðun sem gæti verið vísbending um að þar séu kannski einhverjir stærri atburðir í vændum. Ég legg nú ekki í að fara að spá einhverju en allavega þá er það staðreynd jarðaskjálftar hafa mælst nær daglega í Öræfajökli núna í haust og farið á bera á því í fréttum. Óróleikann má þó rekja lengra aftur, jafnvel nokkur ár en jarðskjálftavirkni hefur ótvírætt farið vaxandi á þessu ári hvað sem það boðar. Einhver þensla og tilfærsla mælist þarna sem þýðir að fjallið er eitthvað að bólgna út en þó virðast jarðvísindamenn ekki alveg vissir um hvað þarna sé á ferðinni. Farglétting vegna bráðnandi jökuls gæti verið hluti af skýringunni en eins og kunnugt er þá rís landið upp þegar fargið ofan á því minnkar. Hvort að það gæti aftur verið skýringin á því að kvika sé mögulega á hreyfingu undir fjallinu veit maður ekki og ekkert víst að nokkur tengsl gætu verið þar á milli varðandi þessa skjálfta.

Öræfajökull skjálftar 4. nóv 2017
En ef við segjum að þarna sé kvika að safnast fyrir þá vitum við ekkert hvort slíkt eigi eftir að leiða til eldgoss í náinni framtíð og ef þetta er fyrirboði eldgoss þá vitum við heldur ekkert hversu langt sé að bíða þar til atburðir gerast. Vikur, mánuðir eða nokkur ár? Ekki spyrja mig, enda veit ég ekkert um það frekar en aðrir.

Við vitum þó hvernig eldstöðin er í sveit sett og þekkjum söguna. Árið 1362 var þarna mesta þeytigos Íslandssögunnar sem gjöreyddi blómlegri byggð sem þá hét því krúttlega nafni Litla-Hérað enda undu menn þar glaðir við sitt og smjör draup af hverju strái áður en ósköpin dundu yfir. Heldur verra var þó flest fólkið stráfell einnig, enda krafturinn í gosinu þvílíkur að strókurinn náði því stigi að hrynja í svokölluðum gusthlaupum í stíl við það sem gerðist í Vesúvíusi forðum. Þar við bættust jökulhlaupin sem æddu niður af jökli næstum strax eftir upphaf hamfaranna öllum að óvörum enda löngu fyrir tíma Almannavarna ríkisins. Seinna gosið í Öræfajökli eftir landnám varð árið 1727 það var minna í sniðum og olli mun minna tjóni en sveitin var þá reyndar ekki nema svipur hjá sjón frá dögum Litla-Héraðs sem reyndar fékk heitið Öræfasveit eftir eyðinguna 1362.

Helstu eldstöðvar landsins virðast annars vera til alls líklegar um þessar mundir en þó alls óvíst hvar næsta gos ber uppi. Ef Öræfajökull lætur til sín taka þá má hafa í huga að hann stendur utan við gliðnunarbelti landsins sem þýðir að það eru ekki neinar virkar sprungureinar út frá honum. Kvikan mun því ekki ferðast langa vegalengd áður en hún kemur upp eins og tilfellið var með Bárðarbungu sem að lokum skilaði kviku af sér vel utan jökuls. Öræfajökull mun bara gjósa með látum þar sem hann er, en mögulega gæti eitthvert hraunrennsli átt sér stað ef gossprungur opnast í hlíðunum utan sjálfs jökulsins, svona svipað og gerðist á Fimmvörðuhálsi. Jökulhlaupin eru svo sér kapítuli en stuttur tími líður frá upphafi goss þar til þau taka að ógna samgöngum og raunar telja viðbragðsaðilar að forða þurfi fólki af svæðinu áður en gos hefst, takist mönnum að tímasetja það á annað borð.

Þótt örli á smá hamfarspennufíkn í manni þá vonast maður auðvitað að það gerist sem minnst þarna. Full ástæða er hinsvegar til að fylgjast með gangi mála og það gera auðvitað líka opinberir ábyrgðaraðilar sem munu vinsamlegast láta okkur vita ef eitthvað þarf að óttast. Áhugamenn hafa líka eitthvað um málið að segja og standa vaktina og má þar sérstaklega benda á Jarðfræðibloggið hans Jóns Frímanns, þar sem fylgst er með málum og ýmsar vangaveltur koma fram um stöðu mála í eldstöðvum landsins.

Af vef Veðurstofunnar má svo benda á þetta hér: Nýir jarðskjálftamælar við Öræfajökul

 


Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii

Hawaii kort

Öðru hvoru fáum við stuttar fréttir af hinu lífseiga dyngjugosi sem staðið hefur frá árinu 1983 á austustu eyju Hawaii-eyjaklasans sem oftast er nefnd Big Island. Þetta er lang-eldvirkasta eyjan á Hawaii og um leið yngsta eyjan í klasanum. Þar er einnig að finna hina stóru elddyngju Mauna Loa þar sem allt er með kyrrum kjörum nú. Allt frá því gosið hófst hefur þunnfljótandi helluhraunið aðallega lekið í rólegheitum suðaustur til sjávar frá gígnum Puu Oo sem tilheyrir Kilauea eldstöðinni. Á öllum þessum árum hafa myndarlegar hraunbreiður breitt úr sér í hlíðunum niður að sjónum og hafa fjölmörg hús, vegir og önnur mannvirki orðið undir í þeirri baráttu.

Hraunrennslið hefur annars verið með ýmsum tilbrigðum og sjálfsagt ekki alltaf mjög tilkomumikið. Það á ekki við nú eins og einhverjir hafa kannski séð í fréttum. Undanfarnar vikur hefur nefnilega mjög óvenjuleg hraunbuna streymt beint út úr hraunveggnum við ströndina og fallið rauðglóandi ofan í sjóinn með tilheyrandi gassagangi. Þetta er auðvitað alveg bráðskemmtilegt sjónarspil fyrir túrista sem geta fylgst með frá bátum í hæfilegri fjarlægð. Fara þarf þó að öllu með gát því hraunveggurinn er óstöðugur og aðeins nokkrir dagar síðan stórt stykki féll úr klettunum og niður í sjó. Myndin hér að neðan er frá Hawaiian Volcano Observatory.

Hawaii hraunbuna

Öllu tilkomumeira er auðvitað að sjá lifandi myndir af þessu sjónaspili með því að kíkja á  myndskeiðið sem kemur hér á eftir:

Eins og með önnur fyrirbæri tengd eldgosum þá er ómögulegt að segja til um hversu lengi þessi hraunfoss á eftir að lifa. Hraunrennslið á það til að skipta um farveg og þá ekki endilega í átt til sjávar. Síðla árs 2014 bar svo við að hraunrennslið fann sér nýja leið um sprungukerfi talsverða vegalengd til norðausturs og ógnaði þá þorpi í um 20 km fjarlægð frá upptökum. Ég fylgdist spenntur með og skrifaði tvær bloggfærslur um málið: Hraun ógnar byggð á Hawaii og Hraunfoss við sorpflokkunarstöð. Mun betur fór en óttast var og slapp byggðin að mestu. Sorpflokkunarstöðin meira að segja líka. Árið 2013 skrifaði ég svo um lífseigan óbrynnishólma þar sem síðasti ábúandinn í húsaþyrpingu þurfti að yfirgefa heimili sitt eftir að hafa sloppið furðu vel fram að því.

Svona rétt á meðan allt er með kyrrum kjörum hér á okkar eldfjallaeyju þá getur verið áhugavert að fylgjast með framvindu mála þarna á Hawaii. Eldfjallamiðstöð eyjaskeggja er á þessari slóð: https://hvo.wr.usgs.gov/ En hver veit annars nema eitthvað sé alveg að fara að gerast hér hjá okkur? Ýmislegt að sagt vera á boðstólnum.


Kötluskjálftar

Kötluskjálftar Skelfir

Eldstöðin Katla minnir á sig öðru hvoru með skjálftum eða stöku hlaupum án þess að almennileg umbrot eigi sér stað, en miðað við fyrri hegðun þá ætti Katla að hafa gosið fyrir nokkrum áratugum. Á síðustu 15-20 árum hefur margt þótt benda til að loksins gæti eitthvað alveg farið að gerast. Meira segja að hafa völvuspár tekið undir það þótt slíkir spádómar hafi verið orðaðir á sífellt varfærnari hátt með tímanum.
Fyrirboðar eldgosa eru nokkrir en mesta athygli fá jarðskjálftarnir enda benda þeir iðulega til óstöðugleika í jarðskorpunni. Forleikur Kötlugosa er svo sem ekki mikið þekktur en eldstöðin er annars nokkuð skjálftavæn að öllu jöfnu og því ekki óeðlilegt að ætla að skjálftum fjölgi mánuðina eða vikurnar fyrir gos - enda eru menn sífellt á nálum þegar slíkar hrynur ganga yfir.

Að þessu sögðu kemur hér línurit sem ég hef teiknað upp eftir skjálftagröfum sem finna má á vef Veðurstofunnar. Myndin sýnir fjölda skjálfta í Mýrdalsjökulsöskjunni og Goðabungu sem eru hluti af Kötlueldstöðinni en einnig sést fjöldi skjálfta í nágrannaeldstöðinni Eyjafjallajökli. Hver punktur á línuritinu sýnir uppsafnaðan fjölda á 12 mánaða tímabili og þar skal haft í huga að skil milli tímabila er 1. maí ár hvert og því eru aðeins liðnir tæpir 7 mánuðir af þessu skjálftaári. Rauða brotalínan er því einskonar áætlun um hvert stefnir næsta vor í Mýrdalsjökulsöskjunni með sama áframhaldi.

Kötluskjálftar

Eins og sést þá voru skjálftar undir Goðabungu ansi tíðir á árunum 2002-2004 með tilheyrandi gosóróa meðal jarðfræðinga sem og almennings. Goðabunga er vestarlega í Mýrdalsjökli og eiginlega ekki hluti af Kötluöskjunni og því ljóst að þetta voru ekki alveg hefðbundnir atburðir sem aðdragandi venjulegs Kötlugoss. Hugmyndir um svokallaða gúlamyndun undir jöklinum komu fram eða jafnvel að þetta hafi bara verið jökulhreyfingar. Hvað sem þetta var þó gaus ekki upp úr jöklinum.

En svo kom gos, nema bara ekki í Kötlu. Eyjafjallajökull stal nefnilega senunni. Skjálftar þar jukust mjög í byrjun árs 2010 uns hið heimsfræga gos kom þar upp um vorið. Eins og við munum átti gosið í Eyjafjallajökli bara að vera forsmekkurinn að því sem koma skyldi því í ljósi sögunnar var Katla talin líkleg til eldgoss í strax kölfarið. “You ain't seen nothing yet” eins og einhver sagði.

Sumarið 2011 fjölgaði skjálftum mjög í Mýrdalsjökulsöskjunni og vísbendingar eru um að þá hafi gosið undir jökli. Ekkert var þó að sjá nema einhverja sigkatla og hlaup sem reyndar tók af brúna yfir Múlakvísl. Eitthvað gæti þó hafa breyst í Kötlu eftir gosið í Eyjafjallajökli. Þótt eitthvað hafi róast eftir óróleikann í Kötlu árið 2011 þá voru skjálftar áfram viðvarandi og á þessu ári hefur skjálftum farið mjög fjölgandi og þá sérstaklega með hrinunni um mánaðarmótin sept-okt.
Þegar þetta er skrifað hafa 1800 skjálftar mælst síðan 1. maí í vor og með sama áframhaldi gæti fjöldinn verið kominn upp í 3000 í lok skjálftaársins. Kannski eitthvað fari loksins að gerast þarna – á næsta ári kannski? Best er reyndar að stilla væntingum í hóf, allavega er ágætt bíða og sjá til dæmis hvað Völva Vikunnar hefur að segja. Aldrei er þó að vita nema önnur eldfjöll troði sér fram fyrir í röðinni, eina ferðina enn. Hekla er víst alltaf í startholunum líka.

- - - -

Heimildir: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_num.html

Skjálftakortið efst er skjámynd tekin af Skelfir.is


Um Öræfin og þegar höfundur landrekskenningarinnar kom til Íslands

Já ég las Öræfin eftir hann Ófeig og það sem meira er, ég komst léttilega í gegnum hana og hafði gaman af. Ekki nóg með það, að lestri loknum var ég á því að þetta væri einhver besta bók sem ég hafði lesið. Tíminn mun þó leiða í ljós hvort um stundarhrifningu hafi verið að ræða. Þetta er allavega hin merkasta bók sem og allt í kringum hana og gæti verið uppspretta að ýmsum bloggfærslum hjá mér. Eitt af því sem ég staldraði við og fannst merkilegt í Öræfabókinni er þar sem fjallað er um Alfred Wegener, veðurfræðing og höfund flekakenningarinnar, þar sem hann á að hafa verið staddur á Þingvöllum ásamt landmælingamanninum Kafteini Koch. Ef satt er hefur sú stund hefur verið örlagarík fyrir Wegener og vísindin, eða eins og segir orðrétt í bókinni á bls 88:

„Wegener uppgötvaði jarðflekana þegar hann stóð á Þingvöllum á snakki með Koch og horfði í Almannagjá, þeir voru að ræða kristnitökuna árið 1000 sem þarna fór fram, og aðskilnaðinn á milli heiðinna og kristinna manna, þá blöstu flekaskilin við Wegener og hugmyndin um flekakenninguna vaknaði í huga hans.“

Eins og gengur og gerist í skáldsögunum þá veit maður ekki alltaf hvað satt er og hvað er skáldað. Öræfabókin er orðmörg bók og full af útúrdúrum um ýmislegt sem tengist misvel sjálfri sögunni. En skildi það vera satt að gjárnar á Þingvöllum hafi gefið dr. Wegener hugmyndina að sjálfri flekakenningunni, eða er þetta bara saklaust skáldaleyfi?

Það er reyndar vitað að Dr. Wegener kom til Íslands árið 1912, ári eftir að hann kynnti landrekskenningu sína. Hann var þá hér staddur að undirbúa leiðangur yfir Grænlandsjökul ásamt áðurnefndum félaga sínum Koch og fleirum. Í Grænlandsleiðangrinum sem farinn var 1912-1913 notuðu þeir íslenska hesta og var það ferðalag mikil þrekraun fyrir alla. Fyrir Grænlandsleiðangurinn var farin æfingaferð á Vatnajökul og munu þeir Kogh og Wegener hafa farið þangað yfir hálendið norður frá Akureyri þar sem leiðangursskip þeirra beið. Kogh þessi er reyndar stórt nafn í landmælingasögu Öræfasveitar og skipar stóran sess í Öræfabókinni. Er eiginlega einn af miðpunktum sögunnar og örlagavaldur. Hann hafði verið skipaður af danska herforingjaráðinu 10 árum áður til að mæla upp og kanna Öræfin vegna kortagerðaverkefnisins sem þeir dönsku stóðu fyrir. Hann hafði þá einmitt notað hesta til jöklaferða og á þeim ferðum urðu til örnefni eins og Hermannaskarð og Tjaldskarð. Ferðir kafteins Koghs eru síðan fyrirmynd söguhetjunnar í Öræfabókinni sem hélt til Íslands og á jökulinn með hesta og koffort mikið sem innihélt allan búnað og bækur auk þess að vera hans íverustaður.

Alfred WegenerEn aftur að Wegener. Hann fór sem sagt í æfingaferð suður yfir Norðurhálendið og upp á Vatnajökul árið 1912. Það var ári eftir að hann setti fram landrekskenningu sína sem enginn tók mark á, enda vantaði í hana öll áþreifanleg sönnunargögn önnur en þau að strandlengjur landanna sitt hvoru megin við Atlantshafið pössuðu furðu vel saman á landakortum. Allir hugsanlegir rekhryggir voru faldir neðansjávar en þar fyrir utan þótti alveg óhugsandi að heilu meginlöndin gætu færst til sundur og saman. Þau gátu hinsvegar risið eða sokkið í sæ, eins og menn trúðu langt fram eftir 20. öld og kennt var í skólum fram undir 1980 samkvæmt minni eigin reynslu.

En þá að annarri bók sem er Hálendið eftir Guðmund Pál Ólafsson. Þar er einmitt sagt frá því á bls. 358 þegar Dr. Wegener og félagar fóru yfir hin eldbrunnu svæði Norðurhálendisins áleiðis að Vatnajökli. Þar hefði mátt halda að Wegener hefði einmitt átt að finna sönnunargögn sem styddu hans umdeildu flekakenningu. En svo fór ekki, því samviskusamur leiðsögumaður þeirra íslenskur, var einmitt svo gjörkunnugur landinu að hann gat vísað þeim leið án nokkurra farartálma í formi gliðnunarsprungna sem töfðu gátu för að jöklinum. Í bókin Hálendið segir:

„Í Ódáðahrauni var þessi snillingur staddur á slíkum rekhrygg en allt of góðir leiðsögumenn hafa eflaust valið bestu leiðina um hraunið. Hann sá aldrei sprungukerfi Ódáðahrauns og áttaði sig ekki á að hann var staddur á eina hryggjastykki Norður-Atlantshafs ofansjávar sem flekakenning hans byggðist á. Að öllu líkindum hefði saga jarðfræðinnar verið önnur ef Wegener hefði fetað hina fornu Biskupaleið eða lent í ógöngum Veggjastykkis. Þá hefði kenning hans líklega aldrei verið kaffærð í hartnær hálfa öld.“

Í Hálendisbók Guðmundar Páls er hinsvegar ekkert talað um upplifum Dr. Wegeners á Þingvöllum áður en hann setti fram flekakenningu sína árið 1911, hvað þá að hann hafi fengið hugmyndina að henni hér á landi eins og kemur fram í skáldsögu Ófeigs og ekkert yfirleitt um að hann hafi komið til Íslands fyrr en árið 1912. Maður veit þó ekki hvað er satt og rétt. Annað hvort var Ísland einmitt kveikjan að flekakenningunni eða þá að hann hafi í Íslandsferð sinni einmitt farið á mis við það sem vantaði til að styðja kenningar hans, sem voru langt á undan sinni samtíð. Báðar útgáfur sögunnar eru góðar en ég hallast þó frekar að því að í skáldsögu Ófeigs sé sannleikanum aðeins hnikað til í þágu skáldskaparins.


Fín mynd af Holuhrauni á Nasa-vefnum

Mynd dagsins á vefnum NASA Earth Observatory er loftmynd af Holuhrauni tekin 3. janúar 2015 ásamt umfjöllun. Myndin er ekki alveg í raunlitum, en þó samt nokkuð eðlileg að sjá. Glóandi hraunelfur sjást vel næst gígnum en einnig er greinilegt að hraun streymir enn að jöðrum hraunbreiðunnar lengst í austri og norðri. Að hluta má gera ráð fyrir að hraunið flæði þangað undir storknuðu yfirborði. Kannski aldrei að vita nema við fáum þarna nýja og almennilega hraunhella eins og Surtshelli í Hallmundarhrauni. Til þess þarf þó hraunhrásin að tæmast að gosi loknu sem er ekki víst að gerist.

Holuhraun NASA

Í texta sem fylgir myndinni á NASA-vefnum eru upplýsingar fengnar frá Jarðvísindastofnun Háskólans, en margt af því hefur þegar komið fram hér í fjölmiðlum. Talað er um að flatarmálið sé 84 ferkílómetrar. Þykkt hraunsins er áætluð að meðaltali 14 metrar á vesturhluta hraunsins en um 10 metrar á austurhlutanum en alls er rúmmálið 1,1 ferkílómetrar sem nægir til að skilgreiningar á hrauninu sem flæðibasalt og ekki á hverjum degi sem menn geta fylgst með slíkum atburði.

Einnig er talað um minnkandi virkni í gosinu eða hægfara rénun. Rénunin fari þó minnkandi eftir því sem virknin minnkar þannig að gosið gæti haldið áfram í nokkurn tíma þótt virknin minnki. Dregið hefur einnig úr sigi öskjunnar undir Bárðarbungu eins og við þekkjum. Sigið var 80 cm á dag á upphafsstigum en er nú komið niður í 25 cm á dag. Skjálftavikni hefur að sama skapi minnkað.

Lesa má um þetta nánar hér: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=85031&eocn=home&eoci=iotd_readmore

Holuhraun 3. jan 2015 - víðariSé myndin skoðuð nánar og smellt á hana á vefnum framkallast mun stærri mynd í góðri upplausn og spannar snævi þakið hálendið allt um kring svo sem Öskjusvæðið, norðurhluta Vatnajökuls og allt að Hálslóni í austri. Myndin sem hér fylgir er heldur léttari en orginalinn sem finna má á slóðinni hér að neðan: (Ath. að vegna hárrar upplausnar gæti tekið smá tíma að kalla fram myndina) http://eoimages.gsfc.nasa.gov/images/imagerecords/85000/85031/holuhraun_oli_2015003_swir_lrg.jpg

 

 

 


Hraunfoss við sorpflokkunarstöð

Hraun flæðir víðar en á Íslandi. Á Hawaii er ekkert lát á gosinu á austustu eyju eyjaklasans, Big Island, sem hófst árið 1983. Eins og komið hefur stöku sinnum fram í fréttum ógnar hrauntunga nú smábænum Pahoa austarlega á einni, um 18 kílómetrum frá gígnum sem þunnt helluhraunið vellur upp úr. Ég skrifaði annars um þetta í síðasta mánuði en þá var mjó hrauntunga farin að sækja niður hlíðarnar ofan þorpsins. Síðan þá hefur hraunið vissulega sótt lengra fram en þó án þess að valda verulegum sköðum á mannvirkjum. Framrásin stöðvaðist síðan örskammt frá sjálfri byggðinni og aðalgötu bæjarins, sem þótti vel sloppið - í bili. En þótt framrásin hafi stöðvast hefur hraunið þó þykknað og nýir taumar brotist út til hliðanna. Síðastliðinn mánudag varð svo fyrsta íbúðarhúsið hrauninu að bráð en það er skammt frá sorpflokkunarstöð bæjarins (Transfer station) sem nú virðist bíða örlaga sinna.

Á eftirfarandi myndskeiði sést einmitt þegar hraunið hefur sloppið undir girðingu umhverfis stöðina og fossar niður á malbikið sem brennur undan hitanum. Þetta er svo sem enginn hraunfoss í ætt við þá sem sáust við Fimmvörðuháls en sjónarspilið er vissulega sérstakt.

 
Til nánari glöggvunar kemur svo hér kort af svæðinu. Hraunið er þarna teiknað inn með bleikum lit en nýjustu viðbætur með rauðum. Sjálft þorpið er efst til hægri. „Transfer stationið“ er þarna merkt inn og er greinilega í eldlínunni. Nýr taumur að ofan virðist síðan geta ógnað enn frekar samkvæmt kortinu.
 
Hawaii kort 10. nóv
 
Svo er auðvitað fínt að skoða ljósmynd af vettvangi úr lofti. Hér er horft upp eftir frá þorpinu og sést þar hvernig hrauntungan hefur stöðvast alveg við bæinn. Transfer station er þarna í reykjarmekkinum ofarlega fyrir miðju.
Pahoa 5. nóv
- - - -
Sjá einnig eldri færslu frá 25. október: Hraun ógnar byggð á Hawaii.
Nánari fréttir og kort frá Hawaiian Volcano Obsevatory: http://hvo.wr.usgs.gov/maps/
Myndir frá Hawaiian Volcano Obsevatory:
http://hvo.wr.usgs.gov/multimedia/index.php?newSearch=true&display=custom&volcano=1&resultsPerPage=20
 
 
 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband