Færsluflokkur: Byggingar

Vestast í Vesturbænum

Á sólríkum eftirmiðdegi miðvikudaginn 24. júní fór ég í smá vettvangsskoðun á leið heim úr vinnu til að skoða borgarumhverfið við sjávarsíðuna vestast í Vesturbænum. Þarna kennir ýmissa grasa þar sem gamli tíminn mætir þeim nýja. Stundum er þó ekki alveg ljóst hvert leiðinn liggur í uppbyggingu svæðisins eða hvort um sé að ræða uppbyggingu yfirleitt. Hér koma nokkrar myndir.

vestast1

Hlésgata er splunkuný gata sem liggur niður að uppfyllingum þar sem áður var Daníelslippur. Ekki er þó traffíkinni fyrir að fara á þessu einskinsmannslandi.

vestast2

Við Mýragötuna hefur þessi gamli steinbær staðið tímans tönn með miklum sóma. Ef öll uppbyggingaráform svæðisins ganga eftir er hætt við að húsið verði ofurliði borið af nútímalegum stórhýsum. Þau áform virðast þó hafa siglt í strand í bili. Húsið sem í byggingu þarna á bakvið er reist á grunni gömlu Hraðfrystistöðvarinnar og þar var bloggarinninn við störf í þrjú sumur á menntaskólaárunum.

vestast3

Héðinshúsið gamla og umhverfi þess í vestur er afar frjálslegt. Þetta er líka eitt myndskreyttasta hús landsins en svo virðist sem fegrunarnefnd borgarinnar hafi hafið gagnsókn því búið er að mála hluta hússins í grænum litatón. Græna byltingin er kannski hafin og kannski munu þeir mála malbikið grænt í framhaldinu.

vestast4

Meira af „Grænu byltingunni“.

vestast5

Talandi um skrautleg hús þá er þetta ef til vill toppurinn í húsagerðarlist borgarinnar en þetta tvíbýlishús er vel falið í stóru húsaporti við Holtsgötu. Að grunni til er þetta steinbærinn Stóra-Sel sem var byggður árið 1884. Lögbýlið Sel á sér þarna langa sögu eða allt aftur til 14. aldar en við bæinn er kennd Selsvör þaðan sem menn réru til fiskjar í gamla daga.

vestast6

Hvaðan skyldu þessu fákar hafa komið? Er þetta ef til það eina sem eftir er af gamla Tívolíinu í Vatnsmýrinni? Spyr sá sem ekki veit.

vestast9

Við ströndina hjá Eiðsgranda er umhverfið allt hið snyrtilegasta. Merkilegt líka að einhver best heppnaði arkitektúr borgarinnar skuli þjóna virðulegu hlutverki skólpdælustöðva.

vestast7

Að lokum kemur hér steyptur göngustígur við nýleg fjölbýlishús yst við Eiðsgranda. Stígurinn liggur eiginlega ekki neitt nema að skilti þar sem stendur: ALLUR AKSTUR VÉLKNÚINNA ÖKUTÆKJA BANNAÐUR Á LÓÐINNI. Öllu vestar en þetta nær Vesturbærinn ekki.


Tollhúsið og Geirsgatan

Tollhús

Það hafa verið gerðir margir skipulagsuppdrættir fyrir Reykjavík í gegnum tíðina. Engum þeirra hefur þó verið fylgt eftir til hlýtar, enda þróaðist borgin á tímum mikilla breytinga þar sem fólksfjöldinn jókst miklu hraðar en nokkurn gat órað fyrir og tilkoma einkabílsins gerði eldri skipulagshugmyndir fljótt úreltar.

Einn af þessum skipulagsuppdráttum var kynntur árið 1965 en að honum stóðu danskir skipulagsfræðingar sem fengnir voru til verksins. Í anda þess tíma áttu að rísa stórhýsi í öllum elsta hluta borgarinnar á kostnað gamalla og smærri húsa sem átti að rífa eða að flytja upp í Árbæjarsafn. Hraðbrautarkerfi heilmikið var skipulagt og þarna voru lagðar línurnar að úthverfabyggðinni sem teygði sig upp í holt og hæðir. 

Meðal þeirra húsa sem byggð voru samkvæmt þessu skipulagi var hin metnaðarfulla bygging Tollhúsið sem hafist var handa við árið 1966. Á suðurhlið hússins er hin risastóra mósaíkmynd eftir Gerði Helgadóttur þar sem sjá má lífið við höfnina á fyrri tíð. Á Norðurhlið hússins er minna falleg útbygging sem lögð var undir vörugeymslur en þar er Kolaportsmarkaðurinn í dag. Útbygging þessi var byggð í þeirri framsýni að ofaná henni skyldi liggja fjögurra akreina hraðbraut, Geirsgata, sem var hluti að hraðbrautarskipulaginu danska. Þessi ofanjarðarhraðbraut varð aldrei lengri en þessi stubbur sem þarna er ennþá, en gegndi þó lengi hlutverki bílastæðis á meðan heilmikil trébrú lá þangað upp. Árið 1986 var endanlega hætt við þessi loftbrautaráform og Geirsgatan var síðan lögð meðfram höfninni eins og hún er í dag. Fleiri hraðbrautir átti að leggja um miðbæinn, en þar á meðal var framlenging Suðurgötunnar í gegnum Grjótaþorpið sem átti allt að rífa. Framlengda Suðurgatan átti síðan að tengjast Geirsgötunni þarna aðeins vestar.

Í dag er þetta svæði í kringum Geirsgötuna allt stórlega skaddað að gjaldþrota uppbyggingarhugmyndum síðustu ára en miðbær Reykjavíkur ber þess reyndar merki að sífellt er verið að fara af stað með nýtt skipulag sem á að gefa Reykjavík yfirbragð erlendrar stórborgar. Kannski verður Geirsgatan lögð í neðanjarðarstokk eins og upp eru hugmyndir um, en þannig losnum við vissulega við umferðina sem þarf að fara þarna í gegn. Ég hef hinsvegar ekki mikinn áhuga á að aka neðanjarðar um bæinn. Kannski eru þeir sem fara með skipulagsmálin ennþá fastir í þeirri hugmynd að bílaumferð í miðbæjum þurfi alltaf að ganga óhindruð fyrir sig á fullri ferð, ef ekki ofanjarðar, þá neðanjarðar. Mín vegna mætti leysa Geirsgötuhnútinn með því að fækka bara akreinum úr fjórum í tvær. Umferðin, sem er reyndar ekkert svo mikil þarna, gengi sjálfsagt eitthvað hægar fyrir sig, en ég er ekki viss um að öllum liggi svo mikið á.

- - - - -

Hér kemur svo mynd sem ég bætti við eftir á. Hún er frá Seattle USA, þar sem má sjá hvernig hraðbrautarbrú liggur meðfram hafnarsvæðinu þar. Það var Björn frændi minn Emilsson sem sendi mér myndina, en eins og hann segir í athugasemdum hér að neðan, stendur til að rífa þennan „óskapnað“.

SCENIC_Central_Waterfront_AWV


Furðuborgin Dubai

dubai loftmynd

Sem einskonar framhald af síðustu færslu ætla ég að líta aðeins við í Dubai sem er eitt af Arabísku furstadæmunum og orðin fræg fyrir mikil undarlegheit og draumóraframkvæmdir sem eiga hvergi sinn líkan. Gervitunglamyndin hér að ofan er tekin í október 2006 og má sjá hinar frægu og gríðarstóru landfyllingar sem mynda einskonar pálmatré útfrá ströndinni en á þeim eiga að rísa glæsihýsi ýmiskonar. Skammt útfrá ströndinni má svo sjá eyjaklasann (The World) sem samanstendur af 300 smáeyjum sem mynda einskonar heimskort séð úr lofti. Þarna getur vel efnað fólk keypt sér íbúðarhús eða bara haft það gott í sumarleyfum. 

Burj Dubai

Uppbyggingin í þessari borg hefur verið það mikil að fyrir þrjátíu árum hefði varla verið hægt að sjá nokkurt mannvirki svona úr lofti. Metnaður olíufurstana í Dubai virðist varla eiga sér nokkur takmörk og bjartsýni á framtíðina jafnvel meiri en við höfum kynnst hér á landi. Auðvitað eru þeir að reisa skýjakljúf sem er fyrir nokkru orðinn sá langhæsti í heiminum og nefnist Burj Dubai. Hæð turnsins var lengi vel mikið leyndarmál en nú þegar hann er nánast fullgerður kemur í ljós að hann er um 818 metrar og nær því hærra til himins en algengasta gönguleiðin á Esjuna og er þar að auki um 300 metrum hærri en aðrir hæstu skýjakljúfar heimsins. Uppbygging Dubai-borgar er þó bara rétt að byrja og nú þegar eru komnar áætlanir um byggingu enn hærri turns Al Burj og verður sá um 1200 metrar á hæð ef draumar rætast. Stærsti skemmtigarður heims er einnig að rísa í Dubai og nefnist Dubailand og verður „bara“ helmingi stærri en DisneyWorld í Flórída, þarna á líka að verða stærsta verslunarmiðstöð í heimi og margir þekkja innanhúss-skíðabrekkuna sem opnuð var fyrir nokkrum árum.

Já það hefur greinilega ekki verið gert ráð fyrir neinni kreppu í Dubai. Að vísu er það ekki olíugróði framtíðarinnar sem rekur menn áfram þarna en  olíutekjur hafa orðið sífellt minni hluti af heildartekjum furstadæmisins því öll áherslan hefur verið á uppbyggingu Dubai sem miðstöðvar viðskipta og ferðamennsku. Ef horft er útfrá reynslu okkar íslendinga má kannski vel ímynda sér hvað menn hugsa þarna í dag á þessum síðustu og verstu tímum.

 

dubai-downtown

Myndin hér að ofan er fengin af síðunni http://www.dubai-architecture.info/DUB-GAL1.htm þar sem kynnast má betur furðuverkum borgarinnar.

Efsta myndin er frá NASA - Earth Observatory. Turnmyndin er af vefnum www.GlassSteelandStone.com


Stórborgamynstur

Ég skrapp í dálitla heimsreisu nú á dögunum og var tilgangur ferðarinnar aðallega sá að skoða skipulag í hinum ýmsu borgum heimsins. Svona heimshornaflakk er mun auðveldara í dag en áður fyrr, þökk sé hinu stórskemmtilega google-maps en með hjálp þess getur maður setið á sama stað en verið samt að ferðast. Hér koma nokkur sýnishorn úr ferðinni þar sem sjá má hvernig mismunandi borgarlandslag nýtur sín úr lofti.

(Myndirnar birtast stærri ef smellt er á þær tvisvar)
 

París

París. Þarna má meðal annars sjá Sigurbogann og hvernig göturnar geisla út frá honum og öðrum torgum í allar áttir. Göturnar liggja sjaldnast hornrétt á hver aðra en samt er greinilega allt þaulskipulagt.


Barcelona

Barcelona. Stór hluti borgarinnar utan um elsta kjarnann er byggður með þessu reglulega reitaskipulagi.


Róm

Róm hin forna. Þarna í elsta hluta borgarinnar er byggt afar þétt. Aðalgötur er beinar en þær þrengri liðast einhvern veginn eins og þær hafa sjálfsagt gert frá fyrstu tíð. Hringlaga byggingin er Pantheon-hofið frá tímum Rómaveldis.


Bagdad

Hér er ég kominn til hinnar stríðshrjáðu Bagdad. Þetta er íbúðahverfið Sadr City, nefnt eftir shítaleiðtoganum Mohammad Sadeq al-Sadr en hét áður Saddam City. Hér ríkir greinilega mikil röð og regla úr lofti séð en kannski ekki eins mikil á jörðu niðri.

 HoSiMin

Ho Chi Minh. Hver þumlungur er gjörnýttur í þessari stærstu borg Víetnam en sjálfsagt er þetta ekki akkúrat staðurinn þar sem betri borgararnir búa. Í gegnum borgina rennur Saigon-fljót til sjávar en lengi vel var borgin nefnd eftir því fljóti.


Mexico City

Mexíkóborg. Hér er gott dæmi um risastórt fjöldaframleitt íbúðahverfi byggt fyrir sívaxandi fjölda aðkomufólks úr sveitum landsins. Þarna renna húsin saman í eitt en hver smáreitur inniheldur fjölda smáhýsa. Borgin er meðal þeirra allra stærstu í heimi með um 19 milljónir íbúa ef úthverfi eru talin með.


Brasilia

Brasilíuborg er afar sérstök borg en hún var reist frá grunni lengst inni í landi í anda módernískrar hugsunar og gerð að höfuðborg landsins árið 1960. Þótt þetta hafi verið draumaverkefni arkitekta og skipulagsfræðinga á sínum tíma er ekki víst að útkoman sé sú fullkomna nútímaborg sem stefnt var að.

 

Miamy

Miami á Flórída er byggð á afar láglendu svæði og er meðalhæðin yfir sjávarmáli ekki nema um tveir metrar. Þarna má sjá eitt af einbýlishúsahverfum borgarinnar og er óhætt að segja að þéttri byggðinni sé mjög haganlega fyrir komið á þessum votlenda stað.

 

Vesturbær

Að lokum er það svo bara Vesturbærinn í Reykjavík á sólríkum sumardegi. Þarna einhverstaðar neðarlega til vinstri á ég sjálfur heima sem aðfluttur vesturbæingur.

 


Austurvallarmyndir

Ég lagði leið mína niður á Austurvöll um helgina eins og fjölmargir hafa gert undanfarið. Þrátt fyrir að þarna væru áköf ræðuhöld í gangi beindist athyglin mín ýmsar áttir eins og oft vill gerast, ekki síst þegar myndavélin er með í för.
 
Jón Sigurðsson
Jón Sigurðsson, mótmælandi nr.1 og sjálftæðishetja þjóðarinnar stendur ávallt stoltur á stalli sínum. Styttan er gerð af Einari Jónssyni árið 1911 og var upphaflega afhjúpuð við Stjórnarráðið þar sem hún stóð til ársins 1931 en þá var hún flutt á Austurvöll. Þar hafði áður staðið stytta af Bertel Thorvaldsen myndhöggvara.
 Dómkirkjan
 
Dómkirkjan er meðal allra elstu bygginga í Reykjavík en hún var vígð árið 1796. Byggingin hefur verið stækkuð nokkrum sinnum en upphaflega var hún einni hæð lægri en í dag. Turnspíran sem fylgdi teikningunum hefur þó aldrei verið reist. Athyglisvert er að Dómkirkjan stendur ekki alveg hornrétt á Alþingishúsið og Austurvöll.

Alþingishús
Alþingishúsið er hlaðið úr grágrýti sem er sú bergtegund sem höfuðborgin stendur á. Grágrýti er annars einkennandi fyrir það berg er rann sem hraun á hlýskeiðum á milli ísalda og er því allt að 3ja milljóna ára gamalt. Alþingishúsið sjálft er þó ekki svo gamalt en það var reist árið 1881.

Nasahúsið
 
Nasa-húsið er þetta virðulega hús kallað í dag. Þarna hefur mörg skemmtunin farið fram í gegnum tíðina. Einu sinni var húsið kennt við Sigtún og var þar áður kallað Sjálfstæðishúsið – nefnt eftir flokknum sem hýsti þar starfsemi sína. Á Sigtúnsárunum var í húsinu sýndur nektardans í fyrsta sinn á Íslandi, spurning er hvernig fínu frúnum sem ráku Kvennaskólann þarna upphaflega, hefði litist á það.
 Pósthússtræti
Pósthússtræti 9 hefur lengi verið talið stílbrot í húsaröðinni en það var byggt á 6. áratugnum þegar modernisminn var allsráðandi í byggingarstíl. Á seinni árum er það þó farið að njóta meiri virðingar á hjá sumum enda er þetta sígilt dæmi um ákveðið tímabil í byggingarsögunni.
 Mótmælendur
 
Mótmælendur. Austurvöllur hefur löngum verið vettvangur mannfagnaða og mótmæla af ýmsu tagi. Ég veit ekki til þess að mótmælendum hafi áður tekist að hrópa niður ríkisstjórn en vissulega var stjórnin orðin ákaflega veik. Hvað tekur nú við er spurning. Fólk vill helst breyta öllu og margir vilja jafnvel stofna nýtt lýðveldi. Kannski gæti landið bara skipt um kennitölu í leiðinni.

Til hæstu hæða í Höfðatúni

Höfðatún Sæbraut

Það er ekkert lát á byggingaframkvæmdum við Höfðatorg þar sem hæsta hús Reykjavíkur er farið að gnæfa yfir umhverfið. Þessi 19 hæða skrifstofuturn er aðeins hluti af þeim gífurlegu framkvæmdum sem eiga sér stað á vegum byggingafyrirtækisins Eyktar á reitnum við Borgartún og Höfðatún. Þegar allt verður tilbúið munu þarna verða sex stórhýsi, eitt þeirra er tilbúið þar sem borgarskrifstofur Reykjavíkur hafa nú aðsetur, en turninn sem nú er langt kominn mun verða það hæsta á svæðinu og um leið hæsta skrifstofubygging í Reykjavík, um 70 metra hár. Smáralindarturninn í Kópavogi er hinsvegar hærri eða um 78 metrar.

Það er eiginlega sérstök upplifun að koma þarna að og sjá byggingarnar í návígi því stærðin er þvílík að annað eins hefur maður varla séð hér í borg og minnir þetta helst á stórborgir eins og London, New York og svo auðvitað Kópavog. En það getur orðið þó nokkur bið á því að allar þessar miklu framkvæmdir verði fullkláraðar því eins og allir vita þá hefur orðið dálítið hlé á góðærinu nú um stundir og ekki alveg víst að menn bíði í röðum eftir því að fá þarna inni. Því hefur byggingu þeirra húsa sem ekki eru komnar upp úr grunni sínum verið slegið á frest um sinn. Þar er aðallega um að ræða íbúðahluta hverfisins sem standa sunnar á reitnum, nær Skúlagötu.

Höfdðatún skipulagMyndirnar sem hér fylgja tók ég nú á dögunum en nú er unnið að því að glerja turninn og á hann því fljótlega eftir að fá á sig sína endanlegu mynd. Hér má einnig sjá teikningu af fyrirhuguðum byggingum en sú mynd er fengin af kynningarsíðu Eyktar um svæðið. Hæstu byggingarnar þarna eru 19 hæða turninn, svo verður eitt 16 hæða og eitt 12 hæða. Gulu reitirnir eiga að sýna hvar eiga að vera verslanir, veitingahús eða annað boðlegt fyrir fólkið á götunni sem þarna verður hugsanlega á ferðinni að loknu næsta góðæri.

 

Höfðatún kvöld

 

Höfðatún turn

 

Höfðatún og stytta

 

Höfðatún borgin

 


Stóra holan í miðbænum

PICT1378 

Það er mikið búið að grafa á gamla hafnarsvæðinu í Reykjavík í nágrenni við tónlistar- og ráðstefnuhúsið sem nú er að rísa. Þarna ætlar Pontus-hópurinn að reisa 400 herbergja hótel og fjármálamiðstöð eða einskonar World Trade Center Íslands og svo bílastæðakjallara undir öllu saman. Minna má það ekki vera í þessu landi efnahagsundranna og eins og sjá má á myndinni hér að ofan er grunnurinn sem búið að grafa fyrir þessum framkvæmdum, alveg gríðarstór. Að auki er svo ætlunin að nýjar höfuðstöðvar Landsbankans rísi handan götunnar eða beint á móti pylsusjoppunni Bæjarins bestu en verður þó heldur stærri.

Húsagrunnar eru auðvitað nauðsynlegir ef byggja skal hús enda skal hvert hús reisa á traustum grunni. En þá verðum við líka að vona að þarna verði byggt og það helst í nánustu framtíð. Íslenska fjármálaveldið hefur hinsvegar ekki reynst vera byggt á eins traustum grunni menn töldu og nú er búið að lýsa því yfir að framkvæmdum við Fjármálamiðstöðina verði frestað um óákveðinn tíma vegna vandræða á fjármálamörkuðum, hvað annað? Svo er spurning hvort hinar nýju höfuðstöðvar Landsbankans muni yfirleitt rísa á næstunni eins og staðan er. Kannski ætti frekar að byggja þarna hús utanum starfsemi sem hefur ekkert með peninga að gera. Einu sinni voru t.d. hugmyndir um að Listaháskólinn gæti verið þarna á svæðinu, en nú má víst ekki minnast á það.

En það er fleira sem veldur biðstöðu á þessu svæði, því hugmyndir eru uppi um að leggja Geirsgötuna í stokk en eftir er að ákveða hvort úr því verður og hvernig sá stokkur muni liggja. Jafnvel er talað um að láta hann byrja við enda Sæbrautarinnar og láta hann svo koma upp vestur í Ánanaustum, enda erfitt að koma því við að hafa fyrirferðamikla gangnamunna í svona miðborgarbyggð. Ég veit samt ekki með svona umferðargöng inn í miðri borg. Það virðist alltaf vera markmið þeirra sem skipuleggja umferðarmannvirki að umferðin þurfi alltaf að ganga svo óskaplega hratt fyrir sig. Eins og sést á myndinni hér að neðan sem tekin var um hádegi í miðri viku er umferðin á Geirsgötunni yfirleitt ekki meiri en svo að ein akrein í hvora átt gæti vel annað þeirri umferð. En þarna er kannski verið að hugsa um alla þá umferð sem bætist við þegar búið verður að koma upp öllum þeim óskaplegu landfyllingum vestur af Ánanaustum og Örfirisey með tilheyrandi íbúðabyggð sem sumum dreymir um þar. Þessa leið um Geirsgötuna ek ég á hverjum degi í og úr vinnu og velhana frekar heldur en Hringbrautina, enda er alltaf skemmtilegt að akaframhjá gömlu höfninni. Ég mun hinsvegar forðast það að keyraneðanjarðar í einhverjum stokki enda ekki mikill neðanjarðarmaður.

PICT1810

En svo maður botni þetta, þá lítur allavega út fyrir að þótt byggingu tónlistarhússin verði lokið á næsta ári mun svæðið áfram verða framkvæmdasvæði í mörg ár enn og langur vegur þar til svæðið mun líta sómasamlega út hvort sem draumórar manna um uppbyggingu svæðisins ganga eftir eða ekki. 


Tónlistarhúsið rís

Það er óhætt að segja að Tónlistarhúsið sem menn byggja nú af miklum móð við Austurbakkann sé farið að setja sinn svip á bæinn þessa dagana. Að vísu er það þó bara múrverk, stál og byggingarkranar sem blasa við borgarbúum en það er ekki fyrr en glerverkið hans Ólafs Elíassonar er komið á sinn stað að við getum farið að átta okkur á hvernig þetta dæmi mun líta út allt saman. Eitthvað var nú verið að tala um það í fréttum að Kínverjarnir sem eru að smíða glerhjúpinn hafi verið í smá basli með hann sem gæti valdið töfum, enda verkið víst óskaplega flókið og kalla þá Kínverjar ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Áætlað er að að þetta mikla tónlistarmusteri verði risið fyrir árslok 2009 og eins gott að vel muni takast til því þessi 14 milljarða króna framkvæmd mun verða eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur um langa framtíð. Sjálfur er ég nokkuð vongóður um að þetta geti orðið vel heppnað framtak allavega eftir þeim myndum sem birst hafa af væntanlegu útliti, þótt þær sólarlagsbirtu-kynningarmyndir sem arkitektar bjóða upp á séu svona full súrrealískar til að vera marktækar.

Eins og mín er von og vísa þá hef ég tekið myndir af framkvæmdum um þetta leiti síðustu þrjú árin eins og þær blasa við frá Arnarhóli. Þann 22. ágúst 2006 þegar fyrsta myndin var tekin voru framkvæmdir stutt komnar en það voru hinsvegar síðustu dagar gömlu ásjónunar því nokkrum dögum síðar var farið á fullt að rífa Faxaskála sem þarna stóð í öllu sínu veldi.

En þótt byggingu tónlistarhússins verður lokið á næsta ári, á svæðið í heild samt langt í land með að verða fullklárað eins og gryfjan stóra sem þarna er búið að grafa ber vitni um. Kannski maður taki það fyrir í næsta helgarpistli.
 

Tónlistarhús 2006

Tónlistarhús 2007

Tónlistarhús 2008


„Við verðum að losa skipulagsmálin úr þessu peningaati“

Fyrirsögnin á þessari færslu er ekki frá mér komin heldur er þetta yfirskrift mjög áhugaverðs viðtals í Fréttablaðinu núna á laugardaginnn sem ætti eiginlega að vera skyldulesning, en þar er rætt við Margréti Harðardóttur arkitekt sem rekur arkitektastofuna Studio Granda ásamt Steve Christer en óhætt er að segja að þau eru meðal okkar virtustu arkitekta í dag.

Það sem Margrét segir í viðtalinu virðist nokkuð í takt við það sem húsfriðunarsinnar hafa talað um en hún er greinilega ekki sátt við það hversu gömul hús njóta lítillar virðingar í dag og virðist m.a. hafa áhyggjur af því eins og fleiri að uppbygging miðbæjarins stjórnist af hagsmunum lóðareigenda sem vilja hámarka sína fjárfestingu, á kostnað eldri húsa sem fyrir eru á staðnum, en um eldri hús segir hún þetta:

„Flestir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir umhverfinu skilja að þessi hús hafa sál, tengingu við arfleifð okkar og rætur og þetta skiptir okkur máli. Við sem arkitektar sjáum þessi hús sem tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt, þau eru formerki fyrir það sem á að gera í götunni og útgangspunktur.“

 

Því miður finnst mér vera allt of margir sem skilja ekki svona tal, eða hafa ekki þessa tilfinningu fyrir umhverfinu sem hún talar um. Modernisminn eins og hann er í dag er ekki endilega fólgin í því að rífa og byggja stærra, það er nefnilega líka modernísk hugsun að huga því sem fyrir er. Nú þegar enn ein umskiptin hafa orðið í Borgarstjórn Reykjavíkur er ég hræddur um að þessi viðhorf eigi ekki lengur eins mikið uppá pallborðið því gamla vinalega götumyndin hefur misst valdamikinn bandamann sem Ólafur F. var og það veldur mér allavega áhyggjum og sama má svo kannski líka segja um önnur mál.

Um Listaháskólabygginguna er Margrét auðvitað alveg sammála mér þegar hún segir að svona skóli eigi alls ekkert endilega að vera við Laugaveginn, hvað þá að fórna fyrir honum gömlum fallegum byggingum. Hún nefnir hins vegar staði í útjaðri miðbæjarins þar sem skólinn getur samt orðið bakland og stoð fyrir miðbæinn þótt hann sé ekki staðsettur við sjálfa verslunargötuna. Það má enda ekki gleyma því að í listnámi þurfa menn líka frið til að stunda sitt nám eins og í öðru námi, í stað þess að vera jafnvel sýningargripir sjálfir.

Svo eru hér í lokin tvær myndir. Önnur er af húsunum við Laugaveginn sem eiga að víkja fyrir Listaháskólanum en hin er frá Berlín þar sem búið er að reisa nýjan nútímalegan miðbæ á fyrrum einskinsmannslandi. Hvað skal segja um hinu nýju Berlín? Jú, kannski skárri en Hamraborgin en jafnast samt ekkert á við Laugaveginn ef ég á að segja eins og er.

Laugavegur_Berlin

 


Um staðsetningu Listaháskólans við Laugaveg

listahaskólinn frá HverfisgötuÉg endaði síðasta pistil á því að minnast á fyrirhugaða nýbyggingu Listaháskólans við Laugaveg en þennan pistil ætla ég að helga þeim áætlunum því eins og margir sem hafa tjáð sig um þetta mál er ég hreint ekki alveg sáttur með í hvað stefnir. Ég hafði reyndar efasemdir strax þegar tilkynnt var að Listaháskólinn hafði fengið þessa lóð í fyrr eftir makaskiptasamning sem gerður var milli borgarinnar og Samson Properties sem fékk í staðinn lóðina við Laugarnes, þar sem Listháskólinn er nú til húsa að hluta til.

Það var alltaf vitað að þessi skólabygging krefst mikilla húsakynna enda þarf þarna sali til að hýsa tónlistar- myndlistar, leiklistarkennslu o.fl. Vandamálið er því það að þessi bygging hvernig sem hún mun líta út verður alltaf stórhýsi sem mun þrengja sér inn á byggingarreit að takmarkaðri stærð og útkoman verður alltaf byggingarbákn sem er í engu samræmi við það umhverfi sem fyrir er á Laugaveginum. Það hefur verið vaxandi vilji að varðveita þetta umhverfi og götumynd, enda hafa verið uppi ýmis önnur áform um að koma upp stórhýsum við Laugaveginn í nafni svokallaðrar uppbyggingar á kostnað þess sem fyrir er og þá kennt um lóðabraski fjárfesta og verktaka sem hafa ekki annað en eigin gróða að markmiði. Það er því dálítið sérstakt að svona stórkarlaleg áform skuli nú vera fyrirhuguð í nafni listarinnar, því það er ekki síst fólk með listmenntun og listnemar sem hafa staðið fyrir verndun þess sem fengur er í og á undir högg að sækja. Sjálfsagt er það þó svo að listamenn vilja halda til sem næst miðbænum í hringiðu mannlífsins en ég get þó ekki ímyndað mér annað en að það veki upp blendnar tilfinningar meðal þeirra þegar nærvera þeirra skuli eiga sinn þátt í að skekkja þá götumynd og stemmningu sem Listaháskólin vill sækja í og vera hluti af.

Laugavegur_Skipholt

Mynd til vinstri: Húsin sem eiga að víkja við Laugaveginn. Mynd til hægri: Listaháskólinn við Skipholt.

Ég var sjálfur nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1986-89 en þá var skólinn ekki orðinn sameinaður öðrum skólum sem allsherjar Listaháskóli. Húsnæðið var og er að hluta til við Skipholt og var stundum uppnefndur „Stiga- og handriðaskólinn“ enda húsnæðið svona upp og ofan, frekar hrátt á köflum sem reyndar hentar ágætlega þeim óhefluðu vinnubrögðum sem fylgir gjarnan myndlistariðkun. Hvernig það allt virkar í nýrri glæsibyggingu veit ég ekki. 

hampidjulodÉg get alveg séð fyrir mér að uppbygging Listaháskólans hefði getað verið áfram á sömu slóðum þarna rétt fyrir ofan Hlemmtorg. Nú er t.d. búið að rífa gömlu Hampiðjuhúsin þarna sem síðast hýstu listgjörningaapparatið Kling og Bank en sú lóð var einmitt í eigu Samsons, félags Björgúlfs Guðmundssonar. Hefði skólinn ekki getað verið á því svæði? Umhverfið þar í kring er allavega með þeim hætt að það getur ekki annað en batnað jafnvel þótt byggð verði stór fúnktíónalísk kassahús eins og fyrirhugað er að reisa við Laugaveg, í þeim tilgangi að bera gömlu húsin þar ofurliði nema þau eigi kannski öll að fara á endanum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband